Agni Jóga

1929

Hinn blessaði vitringur, sem gaf heiminum bækurnar The Call, Illumination og Community, hefur látið margvíslegar ráðleggingar í té og einnig ýmis merki Agni Jóga. Við höfum safnað saman þessum hagnýtu upplýsing¬um til afnota fyrir þá sem leita þekkingar.

Sanskrít og Senzar gefa túlkuninni sitt sérstaka yfirbragð sem á sér ekki alltaf hliðstæður í öðrum tungumálum. Merking hugtakanna er samt sem áður varðveitt með nákvæmni. Þeir sem taka þátt í daglegu lífi samtímans munu lesa með athygli þessa viturlegu fræðslu sem upprunnin er frá reynslu aldanna.

Formáli

Jóga — hin æðsta tenging við kosmískan árangur — hefur verið til um allar aldir. Öll viskufræðsla felur í sér sitt eigið jóga sem kemur þeim sérstaka áfanga þróunarinnar að gagni. Hinar ýmsu greinar jóga eru ekki í mótsögn hver við aðra. Þær breiða úr sér eins og greinar á einu tré, og hinn vegmóði ferðamaður hvílist og endurnærist í forsælu þeirra.

Ferðamaðurinn heldur áfram för sinni þegar hann hefur endurheimt mátt sinn. Hann tók ekki við neinu sem hann átti ekki með réttu, né heldur lét hann villast af leið í viðleitni sinni. Hann þáði hið góða sem himnarnir höfðu birt; hann leysti kraftana úr læðingi eins og forlögin höfðu mælt fyrir um. Hann öðlaðist vald yfir eign sinni.

Hafnið ekki kröftum jóga, en látið þá lýsa eins og ljós í rökkri óþekktra verkefna.

Við rísum úr rekkju fyrir framtíðina. Við endurnýjum klæði okkar fyrir framtíðina. Við neytum fæðu fyrir framtíðina. Við ræktum hugsanir okkar fyrir framtíðina. Við söfnum kröftum fyrir framtíðina.

Í byrjun hagnýtum við okkur ráð lífsins. Síðar berum við fram nafn Jóga komandi tíma. Við munum heyra fótatak eldsins sem nálagst, en erum nú þegar reiðubúin að takast á við flökt logans.

Við hyllum því hið forna — Raja Jóga. Við staðfestum því framtíðina — Agni Jóga.

divider

1. Þeir munu spyrja: „Mun tími Maitreya valda aldahvörf¬um?”

Svar: „Hafi krossfararnir valdið tímamótum, þá er tími Maitreya sannarlega þúsundfalt mikilvægari.” Í þessum anda skal maðurinn halda leið sína.

2. Menn skilja ekki merkingu Guðs og Bodhisattva. Eins og blindir spyrja þeir: „Hvað er ljósið?” Menn skortir jafnvel orð til að lýsa eiginleikum þess, þótt þeir skynji það daglega.

Menn eru svo mikið á verði gagnvart hinu óvenjulega að þeir eru hættir að gera skýran greinarmun á ljósi og myrkri. Þeim finnst eðlilegast að ímynda sér að Guð búi í höll á stærstu stjörnunni. Að öðrum kosti ætti Guð þeirra sér engan samastað. Skortur þeirra á réttu gildismati knýr þá til að óvirða veruleik¬ann.

3. Þið veltið því oft fyrir ykkur hvers vegna ég svara ekki spurningum. Þið hljótið að vita að örvar hugsunar særa oft þann sem svarið hlýtur. Gerið ykkur í hugarlund ferðamann sem fikrar sig eftir kaðli yfir hyldýpi. Væri viturlegt að hrópa til hans? Kallið gæti truflað hann svo að hann missti jafnvægið. Við skulum því ekki bera fram nöfn eins oft, geymum þau heldur þar til brýna nauðsyn ber til. Hæfileikinn til að geta notað einstök nöfn er nauðsynlegur. En framburður þeirra ætti að vera eins og hamarshögg í geimnum.

4. Gefið einföldu fólki einföld orð, því hafa þarf í huga að einfalt fólk þarfnast smárra skammta af lyfinu. Til er hið sama lögmál — sem hið efra svo hið neðra. Því er einfalt fólk hinir bestu útbreiðendur.

5. Útþensla æðanna er einkennandi fyrir þroskun vitundar¬innar. Nauðsynlegt er að vernda þetta ferli fyrir áhrifum frá þrýstingi sólarinnar á sólarplexus-orkustöðina.

Við skulum ekki gleyma því hvernig prestynjur til forna vörðu sig fyrir sólinni. Þær báru brjósthlífar úr liþíum, þaktar vaxi. Bráðnun vaxins gaf til kynna að hitinn hafði náð hættu¬marki.

Auk þess að dýfa höndum í vatn er heimilt að dýfa fótum í vatn. Köld böð geta verið jafn varasöm og geislar sólarinnar.

6. Maðurinn getur heimsótt hinar ýmsu plánetur í huglíkam¬anum. Með slíku einkennist sá framtíðar áfangi, þegar vitundin takmarkast ekki við eina plánetu. Við ferðumst nú frá einum hluta heimsins til annars, hið sama lögmál munum við hagnýta við ferðir til annarra pláneta.

Fræðarinn biður ykkur að fagna sérhverjum áfanga á ferð andans. Leiðin til og frá plánetunum er ekki erfiðari en leiðin á milli efnislíkama og geðlíkama og engu flóknari en skilningur á starfi hugsunar og viðleitni í átt til stjarnanna. Það er aðeins í viðleitninni til að sigrast á fjarlægðinni til stjarnanna að við getum verið fullviss um framþróun mannkynsins.

7. Birting nýrra geisla vekur möguleika á fögrum viðbótum við áætlanir Okkar. Í samanburði við meðvitað starf huglíkamans hefur þétting geðlíkamans ekki mikið gildi. Við störf á þessari plánetu ætti ekki að leysa huglíkamann úr vernduðu umhverfi sínu. Við störf utan plánetunnar er aftur á móti þörf fyrir þennan æðri líkama.

Viðurkenning nýrra geisla mun gera mönnum kleift að viðhalda meðvitund sinni á mismunandi sviðum. Áður fyrr var aðeins hægt að halda fullri vitund við vissan þéttleika andrúmsloftsins. Samt voru truflanir af völdum loftstrauma mögulegar. Hinir nýju geislar geta komist í gegnum þessar hindranir og myndað opna rás. Þannig er mögulegt að útvíkka meðvitað starf.

Í samfélagi Okkar er unnið að hagnýtingu þessara geisla. Yfirleitt hafa þeir ekki nein veruleg áhrif á heilann, en stundum geta þeir verið mjög hættulegir.

8. Við getum ræt um hvers vegna heimsfræðarar gengu í gegnum svo miklar þjáningar við brottför sína úr þessum heimi. Að sjálfsögðu voru þessar þjáningar meðvitaðar og sjálfviljugar. Eins og gestgjafinn fyllir bikara gestsins að börmum, þannig óskar fræðarinn að láta í té síðasta tákn fræðslunnar.

Búdda komst hjá því að vera tekinn í guða tölu með dauða sínum af völdum eitrunar. Þjáningar og upprisa — eða ummyndun efnisins — sem Kristur gekk í gegnum, sýndu fram á hið æðsta stig jarðneskra afreka. En enginn gerði sér grein fyrir því að líkaminn hafði verið leystur upp í atómískar eindir. Menn héldu að lærisveinarnir hefðu stolið honum.

Rógur gamla heimsins skiptir engu máli. Sönn afrek eru nauðsynleg fyrir alheiminn. Sköpunarmáttur hetjudáðar er hinn sami við allt sköpunarstarf. Þegar við aukum dýpt formsins sköpum við tímalausan kristal. Skynun fullkomnunar lyftir sköpunarmætti andans á hærra stig. Þar eð Kristur var raunsær vildi hann skapa dáð í fullri meðvitund á undan ummyndun efnislíkamans.

Hægt er að sýna fram á að dáðir eru tvenns konar, himneskar og jarðneskar. Sem dæmi um himneska viðleitni má nefna hið friðsæla andlát hins mikla Pílagríms. Við skulum ekki reyna að meta hetjudáðir, vegna þess að skilningur manna á þróuninni er einstaklingsbundinn og sjálfskapaður.

9. Hver sá sem er fær um að sjá áru mannsins getur orðið vitni að líflegu samspili hinnar lýsandi útgeislunar. Leggja má drög að skynsam¬legum athöfnum sem byggjast á þessu alheimslega lögmáli lýsandi strauma. Öll merki um visnun og kyrkingu tengjast afrakstri myrkursins. En þar sem ljósöldur eru, þar sem lýsandi orkuagnir dansa, þar er Okkar geisli.

Mín fræðsla getur leitt í ljós hinar skynjuðu öldur Akasha. Bjóðið fögnuð ljósblossanna velkominn. Það er ekki útúrdúr heldur efling starfsins. Aðeins með því að breyta eftir vilja Okkar getið þið færst nær. Ósk Mín er sú, að varðveita fegurð andans.

Allar athafnir er hægt að ummynda í andleg afreksverk. Staðföst viðleitni til þróunar vitundarinnar, ásamt hröðum straumi atburða, mun leiða til næstu sveigju hins kosmíska spírals.

10. Í einsemd, óbundinn eignum, óbifanlegur og harmar ekki forlög sín — aðeins þá fagnar hinn hugdjarfi.

Þannig skulum við byrja þýðinguna á hinni fornu bók Okkar um hugdirfskuna.

Þegar barn leikur sér við nýfæddan kettling, gleðst móðir þess yfir hugrekki þess, en kærir sig ekki um að sjá að kettlingurinn er enn blindur. Þegar unglingur leikur sér með sál félaga síns, dást áhorfendur að dirfsku hans, en taka ekki eftir hlekkjunum sem hin vesæla sál er bundin. Þegar maður fordæmir hóp dómara, dást vitnin að hugrekki hans, en sjá ekki að dirfskan í ógnun hans hefur verið keypt með klingjandi gulli. Þegar aldraður maður skopast að dauðanum sér til hugarhægðar, gleðjast vinir hans, en skeyta því ekki að óttinn mótar grímu skopsins.

Oft taka menn ekki eftir sannri hugdirfsku, vegna þess að hún er óvenjuleg í eðli sínu. En hjartað titrar þegar það skynjar hið óvenjulega.

Hvar ertu, þú sem hefur sigrað? Hvar ertu, þú sem hefur umbreytt skelfingu í stórt skref í átt til ljóssins? Heyr, þú hugdjarfi! Í djúpi næturinnar mun ég nálgast til að blessa ilskó þína. Ég mun strá lýsandi ljósblossum um flet þitt. Því svefn hins hugdjarfa er eins og lútan sem leysist upp þegar sjö strengir hennar hyljast leyndardómi. Svefn hins hugdjarfa er eins og lognið á undan hvirfilbylnum, þegar jafnvel hin fíngerðustu strá bærast ekki.

Mun öskur ljónsins fá heimana til að skjálfa? Nei, hugdirfskan vaknar og hinn konunglegi lótus andans opnast. Bræður, við skulum hittast í sölum gleðinnar! Blómið hefur opnast; hið mikla hjól hefur hafist upp. Fögnuður Okkar stígur niður í undirheimana og rís upp til bræðranna í unaðsreitum æðri heima.

Við syngjum hugdirfskunni Okkar bestu lofsöngva.

11. Kvak fuglanna hefur rofið frið hvíldarinnar. Hvað veldur þessum ákafa fuglanna svo snemma dags? Þeir dirfast — þegar þeir heyra lofsöngvana um hugdirfskuna. En enginn lét þá vita að hið hefðbundna kvak þeirra mun ekki efla dirfsku þeirra. Myrkrið skrækir, ærandi í hversdagsleika sínum. Myrkrið stenst ekki dirfsku ljóssins.

Þegar vogarskálar Drottins eru reiðubúnar skulum við vakna snemma til að vega og meta gjörðir gærdagsins. Við skulum velja það sem ber hugdirfskunni mestan vott, því að þau góðu fræ vega þungt á vogarskálunum. Við skulum bæta við sorgum gamla heimsins, því byrði þeirra er okkur gagnleg. Bætum við háðsglósum fáviskunnar — því allt þetta eykur þungann á skál sannleikans. Ef við finnum ógnanir og árásir, gleymum þá ekki að bæta þeim á hina fullu skál. Hví titra armar vogarskálarinnar? Hvað fyllir hina ásakandi skál? Hvaða vesælu og myrku tötrar hafa fyllt skál misgjörða okkar? Eins og haugar af skrælnuðum laufum síðasta vetrar er bölvun hversdagsins gráa vana, sori gærdagsins.

Sigur til ykkar, hugdirfsku dáðir! Því máttugir vængir þeirra hafa vegið þyngra en allar okkar misgjörðir.

Drottinn, leyf mér að kasta hinum blekkjandi tötrum vanans í logana. Mér skjátlast ekki þegar ég skynja að vængir dirfsk¬unnar bera blessun þína. Í hinum helga bræðsluofni móta ég vængi Alaja. Óþekktar eru mér umkvartanir, grimmd og allt sem gæti íþyngt nýju vængjunum mínum. Söngur minn skal vera nýr!

12. Lofgjörð dirfskunnar hefur breiðst út víða. Hinir minnstu meðal lærisveinanna hafa snúið út á braut leitarinnar og nálgast Okkur, og hafa beðið Okkur um að dæma um viðleitni þeirra. Allir komu þeir með drauma sína. ... „Ég mun brjóta niður öll veraldleg musteri, því sannleikurinn þarf ekki neina veggi ... Ég mun vökva allar eyðimerkur ... Ég mun opna öll fangelsi ... Ég mun brjóta öll sverð ... Ég mun ryðja allar brautir ... Ég mun þerra öll tár ... Ég mun ferðast um öll lönd ... Ég mun letra í bók mannkynsins ...”

En hinn minnsti þeirra leit til tindrandi stjarnanna og mælti: „Heill sé ykkur bræður!” Og í dirfsku þessara ávarpsorða ummyndaðist sjálf hans.

Lát þessa djörfu kveðju birta ykkur hina alheimslegu leið!

13. Bókin, „Líkt eftir Kristi” eftir Tómas frá Kempis, hefur löngum verið mikils metin í austurlöndum, ekki aðeins vegna innihaldsins, heldur vegna merkingarinnar sem felst í titlinum. Rödd Tómasar hljómaði sem andmæli mitt í persónudýrkun miðalda á Kristi. Rödd barst frá kaþólsku klaustri til að skýra ímynd hins mikla fræðara. Sjálft orðið „líking” felur í sér nauðsynlega athöfn. Aðferðin — Líkt eftir Kristi — er afreksverk meðfæddrar dirfsku hins meðvitaða anda sem tekur á sig alla ábyrgð sköpunar. Hinn meðvitaði nemi dirfist svo sannarlega að nálgast fræðarann í eftirbreytni. Slíkt dæmi færði ljós inn í myrkur forneskju, og varð til að örva baráttu innan einangrunar klausturveggja í átt til skapandi dirfsku.

Það hefði verið viðeigandi í samræmi við hina smjaðrandi vitund miðalda að segja, „Dýrkun Krists.” En hinn leitandi andi dirfðist að mæla fram ákall um að líkja eftir Kristi.

Það verður að hlú að hverju skrefi hinnar blessuðu dirfsku sem áfanga á framfarabraut mannkynsins. Við veitum ekki eftirtekt einhverjum orðum sem sögð eru í klaustri. Tómas þurfti ekki að klífa bálköstinn. Hlutverk hans var ekki að setja fram hið forboðna heldur hina vekjandi aðferð.

Til eru tvær gerðir sannleika. Önnur þarf að nærast á eldi galdrabrennunnar. Hin verður að breiðast út án mótþróa. Erfitt er að meta hvor aðferðin er þjáningarfyllri fyrir höfund hennar. Stundum er auðveldara að deyfa þjáningar brennunnar en að verða vitni því hvernig fræðslan afbakast í meðförum manna. Í báðum tilfellum er dirfskan heilög sem upplýsir myrkrið.

14. Heimurinn hefur glatað hamingju sinni, því hamingjan er í andanum. Þeir sem hafa snúið frá andanum verða að líða óhamingju, því hvernig gætu þeir annars snúið aftur? Í þessu felst merking mikilla atburða.

Að leita hamingju með lygum og morðum! Fögnum því að úrkynjun er að hraða þróuninni. Glæpir kynda elda hins úrelta heims.

15. Eitrið sem orsakast af skapstyggð er nefnt „illsku¬hvati” — áhrifamikil hætta. Þetta eitur, sem er mjög svo raunverulegt, sest utan á veggi taugarásanna og breiðist þannig út um allt lífkerfið.

Ef vísindamenn nútímans myndu reyna að rannsaka taugarás¬irnar óhlutdrægt, og gefa gaum að geðheimsstraumum, þá yrðu þeir varir við sérkennilegt niðurbrot geðheimsefnisins á leið sinni í gegnum taugarásirnar — það er svörun við illskuhvatanum. Aðeins hvíld kemur að gagni til hjálpar taugakerfinu við að vinna bug á hinum hættulega óvini sem getur valdið ólíkustu ertingum og þjáningarfullum krampa í lífkerfinu.

Sá sem er sýktur af illskuhvata verður að endurtaka: „Ó hve allt er fagurt!” Og hann hefur rétt fyrir sér, vegna þess að rás þróunarinnar fylgir óbreytanlegu lögmáli, því er hún fögur. Útfelling illskuhvatans er þeim mun sársaukafyllri sem taugakerfið er fíngerðara. Þetta eitur, að einu öðru efni viðbættu, getur leitt til upplausnar efnis.

16. Þeir sem ekki geta greint á milli svölu og hrægamms eru ekki miklum kostum búnir. En hvaða verðleikum eru þeir búnir sem trúa því að þeir geti breytt erni í tamda önd með því að reyta af honum fjaðrirnar? Varist hræsnara, sérstaklega þá sem eru djúpt sokknir í græðgi — hina slægvitru sem hræra í sinni „andlegu“ súpu. Birting á órjúfanleika lögmála heimsins glampar eins og sverð. Þess vegna getur hræsnarinn hvergi höfði sínu hallað. Því er kennarinn, sem lauk því ekki að tileinka sér kjarna fræðslunnar, eins og asni hlaðinn of þungum fræsekkjum. Á sama hátt er fiskimað¬urinn, sem gerir net sín tilbúin fyrir fisk sem hann getur ekki veitt, eins og refur fyrir utan vandlega læst hænsnabúr.

17. Mikil er umrótið í heiminum! Árás á fræðsluna verkar eins og bjúgverpill og lýstur árásarmanninn. Loftið er kvikt af örvum.

Þurrkaðu af þér svitann eftir árás óvinarins. Á stundu atlögunar mun ég ræða um málefni eilífðarinnar. Fögnum, því möguleikarnir margfaldast. Ég sé að hvert óvinveitt hjarta elur með sér gagnlegt sæði.

18. Stjörnuefnafræði er fær um að ákvarða hvaða áhrif eru best fyrir sérhverja lífveru. Stjörnuspeki er ekkert annað en formúlur í stjörnuefnafræði. Maður sem kemur inn í hús mettað nikótíni tekur eitraðar agnir með sér þegar hann fer. Sambæri¬lega mun maður, sem orðið hefur fyrir beinum verkunum stjörnu¬efnageisla, ætíð svara áhrifum frá einni sérstakri geislasam¬setningu. Með þetta í huga er auðvelt að ákveða hvenær þörf er á að nálgast ákveðna persónu.

Hinir svonefndu sólblettir verka hvetjandi á efnahvörf. Mikið er rætt um óróa í heiminum á meðan sólblettir eru í hámarki, og jafnvel hinir fáfróðu geta dregið réttar ályktanir. En ef við höfum í huga hin skaðlegu efnahvörf er ekki erfitt að skilja að andrúmsloftið geti verið mettað mjög virkum efnasam¬böndum, eins og oxíðum og málmsamböndum. Er hægt að hafna umhugsunar¬laust þróunarhæfni efnisins þegar geislar hellast yfir okkur með takmarkalausum krafti frá hinni óþrjótandi uppsprettu?

Sérstaklega næmir einstaklingar geta vottað að þegar sólblettir eru í hámarki verða geislar sólarinnar þeim óbærilegir vegna eiginleika sinna. Þegar stórir loftsteinar falla til jarðar má einnig skynja skjálfta í taugakerfinu. Hingað til hafa menn ekki áttað sig á hlutverki sínu í þessu risavaxna kerfi. Sá skilningur einn og sér hefði vígbúið lífkerfi mannsins og, í stað þess að fylgjast af kvíða með titringi jarð¬skjálftamælanna, beint leitinni upp í hinar takmarkalausu hæðir — jafn efniskenndar og málsverður gærdagsins, jafn stórbrotnar og aragrúi stjarnanna.

19. Af öllum skapandi orkutegundum er hugsunin æðst. Hver er kristall þessarar orku? Sumir gætu haldið að nákvæm þekking sé kóróna hugsunar; en enn betra er að segja að goðsögn krýni hugsun. Í goðsögn er tjáður kjarni hinnar skapandi orku. Í hinni stuttu formúlu goðsagnarinni er skilgreind bæði von og árangur. Það eru mistök að álíta að goðsagnir séu furðusögur fortíðar. Óhlutdrægur hugur mun skynja þráð goðsagnarinnar um alla tíma og allan alheim. Öll afreksverk þjóðar, allir miklir leiðtogar, allar mikilvægar uppgötvanir, allar náttúruhamfarir og öll afreksverk eru huldar vængjum goðsagnar. Við skulum því ekki lítilsvirða goðsagnir sannleikans heldur greina með nákvæmni og varðveita orð raunveruleikans. Goðsögn tjáir vilja fólksins, og við getum ekki tilgreint neina ósanna goðsögn. Andleg viðleitni hinnar máttugu samheildar skráir ímynd sannrar merkingar. Í ytra formi táknsins birtist alheimslegt táknmerki, hluti alheimsmáls sem er þróuninni nauðsyn.

Réttmæt er leitin að alheimstungu. Réttmæt er sköpun heimsgoðsagna. Þrefalt er réttmæti afreksverka!

20. Nauðsynlegt er að hugsa sér hið nýja svo gagnlegt að ekki megi dragast að taka það í notkun. Hugtök sem ekki koma að gagni eiga ekki rétt á sér. Við erum þreyttir á loftköstulum. Menn þurfa jafnvel að ná valdi á hinum fjarlægu heimum í efnislegum veruleika sínum. Hið sama vald, eins og til dæmis, á ísmola eða efnahita sólarinnar, verður að komast inn í vitundina, sem og vald á hinum smæstu afurðum efnisins. Tafir á andlegum skilningi má skýra með því að fyrirbrigðum náttúrunnar er ekki veitt nægileg athygli. Tapi maðurinn athyglisgáfu sinni þá missir hann einnig hæfileikann til samfjöllunar.

Verði notkun peninga aflögð mun það frelsa mannkynið undan fjötrum sem slæva sjónina. Þeir tímar koma í þróuninni þegar múrarnir sem reistir eru um langvarandi uppsöfnun hefðbundinna tákna verða að hindrunum. Tími er kominn fyrir frelsun þekkingar og persónulegri ábyrgð á notkun hennar.

Hinn frjálsi hugur hefur þau forréttindi að geta leitað að nýju mynstri sem byggir á óvenjulegri samsetningu. Þessir hingað til óþekktu þræðir munu leiða hann til upphafnari efnissviða. Þegar skoðaðar eru huglitlar og takmarkaðar athafnir, er rétt að hinn frjálsi hugur bendi á nýjar og betri samsetningar.

Fagnið í hinum stórbrotna lífsleik Heimsmóðurinnar!

21. Umræður ykkar um róginn sem skráður er á spjöld sögunnar eru réttmætar. Rógur er eins og eldsneyti fyrir eld afreksverka. Rógur er truflandi í daglegu lífi, en þegar litið er yfir söguna sést að logi rógsins tekur á sig margvíslegan litblæ; og án rógs hefði þakklátt mannkynið urðað margar mikilvægar raunbirtingar.

Andstæðutæknin tryggir að klingjandi bjöllur mannkynsins þagni ekki. Tónlist himnanna þarf á undirleik að halda, en þeir rógberar sem eru helteknir öfund ímynda sér að væl þeirra geri andrúmsloftið svo þétt að hljómkviður eilífðarinnar geti ekki náð til Jarðar. En góður ráðsmaður finnur alltaf einhver not fyrir úrkastið. Lát því kyndla rógsins lýsa braut hinna óhagganlegu afreka.

Með því að kalla sendiboða okkar loddara ber fólk vott um fágæti þeirra. Gróf eru atlot hinna lágstæðari dýrategunda. Og ruddaskapur leifa hins hverfandi kynstofns hefur jafnvel farið fram úr grófleika miðalda. Það sem gerir fjöldann að óhæfum efniviði er ekki síður grófleiki í næmni en varmennska. Það er einmitt grófleiki sem er upphaf hugsunarleysis og afleiðingum hennar — svikum.

Því skulum við skilgreina róg sem kyndla villimanna. En á næturferðum koma allir eldar að gagni!

22. Engir dómar eru jafn rangir og þeir sem byggjast á augsýnilegum atburðum. Fólk tapar þræði raunveruleikans þegar það sér hinar augljósu afleiðingar. Sú fræðsla sem leiðir til uppsprettu raunveruleika nefnir fólk oftast drauma.

Flestir sjá lífið eins og að þar séu hvergi vísar að nýrri sköpun, og sjá aðeins hina augljósu hnignun. Þannig er auðveldlega hægt að sökkva sér alveg niður í sundrun og eyðingu án þess að taka eftir hinum mikilvægu vísum sköpunar. Þræðir nýrrar byrjunar eru af ásetningi faldir; að öðrum kosti hefðu náttúruöflin eytt frjóöngum hinna nýju möguleika. Tregða er nauðsynlegur eiginleiki þessara náttúruafla, og til að gæða þau þróunarkrafti er nauðsynlegt það högg andans sem getur fóstrað hugsun. Þannig er hugsun tengiliður til náttúruaflanna.

Þegar rætt er um þá þörf að efla tæki hugans, þá er það aðvörun um óhefta árás náttúruaflanna. Á ákveðnum heimstímabilum á plánetunni eru árásir náttúruaflanna algengar. Eina viðnámið sem hægt er að veita þeim er stöðug viðleitni manna til endurnýjunar lífsins. Slík samþjöppun hugsunar gerir mögulega einbeitingu að fræðslunni sem mun sundra skýjum hins óbeislaða óskapnaðar eins og sverðshögg. Hugsun getur veitt vörn gegn náttúruöflunum; að öðrum kosti færi jafnvægið svo úr skorðum að kosmískir atburðir fylgdu í kjölfarið. Myndi ekki ár hungursneyðar, þurrka og sjúkdóma verða afleiðing af fjöldahnignun hugsunar? Hugsun eins manns getur ekki staðið gegn náttúruöflunum. Hin nýja vitundarstefna getur ekki enn gefið hinni meðvituðu hugsun nauðsynlegt form. Aðeins fullkominn skilningur og ábyrgðartilfinning getur gætt hugsun mætti. Að öðrum kosti verður þenslan án skilnings eins og segl þanin í ofsa hvirfil¬byls.

Við sjáum mikla þenslu í segulsveiflum og efnavirkandi geislum. Mennsk hugsun er sveigð eins og óhert hnífsblað. Óskapnaðurinn ólgar í djúpum vitundar.

Getur maðurinn þraukað? Hugmyndin um leiðarljós Okkar byrjar að síast inn í hugana. Því smám saman er það að verða ljóst að ekkert annað verður eftir í hringiðu óskapnaðarins. Hve sársaukafullt fyrir hinn næma anda! Hve grannt við fylgjumst með öldum hins fordæmislausa myrkurs! Hjartað getur aðeins tekið við takmörkuðu magni af þessu frumeitri.

23. Hvað hefur þrýst eitrinu í átt til hinna jarðnesku sviða? Truflun á náttúruöflunum leiða til þess að mjög eitrað gas myndast. Undir venjulegum kringumstæðum leysist gasið upp í geimnum, en efnageislar sólarinnar þrýsta öldum gassins niður í lögin nálægt yfirborði plánetunnar. Afleiðingin er hættuleg efnahvörf, en þeir sem fá viðvörun geta sigrast á eitrinu. Geðillska og afsprengi hennar, illskuhvati, ganga auðveldlega í samband við eitrið í geimnum sem nefnist „loftháski”. Lögmálin eru svipuð í öllum hlutum.

Fræðarinn ber stundum grímu til varnar gegn gasinu. Að sjálfsögðu verkar eitrið ekki alltaf á sama hátt. En næm tæki eru móttækileg. Kuldi dregur stórlega úr virkni gassins.

24. Getur verið að einhver vilji ekki viðurkenna forspá og segi: „Allt get ég viðurkennt en ekki spádóma.“ Svara þá: „Við skulum þá ekki nota þetta orð. Orðin 'fyrirmæli Hinnar ósýnilegu stjórnar' hafa meiri merkingu fyrir þig. Nútímalegu hjarta þínu fellur betur í geð nútímalegt orðalag. Fyrir okkur skipta orðin ekki máli. Okkur finnst mikilvægara að þú upplifir afleiðingar þessara fyrirmæla og að heili þinn muni eftir því að Hin ósýnilega, alþjóðlega stjórn er til. Orðið spádómur hljómar of óvísindalega í orðaforða þínum; en auðsveipur vani mun koma þér til aðstoðar við að flokka með nákvæmni gildi orðsins fyrirmæli; og sú tilhneiging þín að sjá samsæri allsstaðar hjálpar þér við að viðurkenna tilveru Hinnar ósýnilegu stjórnar. Að auki mun samsvörun staðreynda og afleiðinga vekja virðingu þína.

„Við deilum ekki um heiti heldur ljúkum gagnlegu verki. Kominn er tími til að nákvæmur skilningur taki við af biblíuhug¬tökum. Verndargripur í vasanum hefur ekki mikið gildi fyrir Hina ósýnilegu stjórn. Þörf er á hollustu sem reynd hefur verið í meðvituðu starfi. Þú hugsaðir þér að sigra okkur á sviði hugtaka; en þú kallaðir fram fyrirmæli, og við biðjum þig að gefa gaum að afleiðingum þeirra. Gættu orða þinna og hugsana. Við metum hugprýði dirfskunnar mikils; en Stjórnin hefur ímugust á slægvisku meðalmennskunnar.“

25. Í öllum efnafræðitilraunum kemur hagstætt andartak þegar niðurbrot og ummyndun efnisins byrjar — þetta er andartak sköpunarárangurs. Af því leiðir að ekki er hægt að álykta að ógæfa Numa Pompilusar stafi af hnignun Rómaveldis. Það er einfaldlega svo að efnið hefur glatað rafeindum sínum. Og þannig verður það ætíð með allt starf sem tengist þróuninni. Oftast áttar fólk sig ekki á andartaki árangursins. Það heldur að byggingin eigi að rísa í sífellu í trássi við öll lögmál uppbyggingar.

Ekki er rétt að halda að síðasta tilraun vinar míns hafi verið misheppnuð. Gefum ekki gaum að þessum fáu kjánum sem við mætum á leiðinni. Áfangar að hinni nýju vitund hafa verið traustlega lagðir. Svo er einnig um leiðina sem við vöktum, lagning hennar hefur verið árangursrík. Á sama hátt var H.P.B. þakklát hinum hæðnisfullu trumbuslögurum, því hún þekki hið sanna gildi þeirra, sem eins og hún, voru trumburnar sem fjöldinn slær. Nálgist með vakandi athygli þá staði þar sem fjöldinn sér aðeins loddara. Munið að Kristur og Búdda voru heiðraðir með þessari nafnbót.

26. Þið spyrjið oft hvernig hægt sé að samræma gleðina sem rætt er um og gleðisnauð samskipti við annað fólks. Sannarlega fagnar hver fræðari hinni óendanlegu fegurð fjarlægu heimanna og þjáist yfir takmarkandi heimsku svo margra. Hvernig er hægt að gefa þeim lykilinn að þessum fjarlægu heimum? Eftir að hafa losað sig við hina þungu byrði heimskunnar verða þeir að sigrast á eitruðu slími efans og svo ógnvaldi sjálfsþóttans. Þá mun þungur trjástofn falla á höfuð þeirra og í fallinu niður þrepin er helsta von þessara snigla að geta í það minnsta fundið festu í neðsta þrepinu. Þessi ístöðulausi mannsandi gæti verið efni í lærdómsríkt leikfang fyrir börn. Svo sannarlega hafa sniglarnir betri festu við sína staði. Þeir taka að minnsta kosti ekki þátt í heimskulegum styrjöldum.

27. Einn nauðsynlegur eiginleiki fræðarans er að hafa ekki fastan bústað. Fræðarinn á sér samastað en ekki heimili. Fræðarinn kemur inn í lífið en fylgir ekki siðvenjum. Fræðarinn gæðir umræðuna fegurð en dregur hana ekki á langinn. Hann sýnir meðaumkun en syrgir ekki. Fræðarinn ver en hefur ekki frammi látalæti. Fræðarinn fullvissar en er ekki ráðvilltur. Hann varar við en tefur ekki. Ef nauðsyn krefur ber hann frá sér en særir aldrei. Hann er þakklátur og gleymir ekki. Hann leggur mat á tilgang en sýnir engin merki veikleika. Hann vakir yfir með aðgætni en beitir ekki valdi. Hann óttast ekki en er þó ekki kærulaus. Virðið því fræðarann sem birtist til að efla vöxt andans. Andinn þarf meðvitaða umönnun.

28. Við getum ekki lítið á Hatha jóga sem óháða aðferð. Við vöxt andans breytist það í Raja jóga. Ógerlegt er að nefna dæmi um mann sem hefur náð markmiðinu með Hatha jóga. Að auki getur árangur Hatha jóga í heimi myrkurs og fordóma valdið skaða með eflingu geðlíkamans. Fakírarnir geta samið sig að þessum myrka heimi og óafvitandi dregið úr flugi hugsananna. Jafnvel persóna sem situr hljóð í hugleiðslu getur náð lengra; því hugsun er Raja alls í tilverunni. Fegurð verður til við leiftur hugsunar. Logandi Bhakti getur vissulega vakið nýja heima með hugsun. Og eitt skref Jnana er aðeins bros Raja-Bhakti. Því eru Hatha og Jnana ekki upprunaleg og ófullnægjandi. Hvaða viskuspekingur er ekki einnig lávarður kærleikans?

29. Láttu fræðslu okkar vera sem þitt aðsetur, sem þína eigin byggingu. Láttu andardrátt endurnýjunar fylla alla tilveru þína. Gildi samfélagsins er tjáð í sameinaðri hugsun um þróun heimsins. Útdeiling efnislegra frumþarfa mun koma í kjölfar skilnings á hinum æðstu sannindum. Léttvægar eru hugsanir um hin lægri efnislegu gæði. Einnig er mikilvægt að hugsa ekki um magn en leita þess í stað eingöngu eftir gæðum. Ræða þarf án afláts um mikilvægi gæða og skaðsemi efa.

30. Einn samstarfsmanna okkar hafði lokið umfangsmikilli og mikilvægri efnafræðitilraun þegar barn eitt hrópaði: „Sjáið hve fagurlega hann leikur sér með glösin!” Við sjáum mann klífa fjall, dettur okkur þá í hug að hann sé að hraða sér á fund fræðarans? Við virðum fyrir okkur mann að sníða til timbur, er okkur þá ljóst hvaða hluta hússins hann ætlar að endurnýja? Við mætum konu sem ber vatn, vitum við þá hverra þorsta það mun svala? Við sjáum læsta hurð, getum við þá vitað hver mun fyrstur ganga þar í gegn? Skyndilega heyrum við þrumu, vitum við þá hvar eldingunni lýstur niður?

En menn eru þess fullvissir að hver sá sem beygir sig niður sé að gæta að heppilegu morðvopni. Þeir „vita“ að hver sá sem hvetur hest sinn sporum er að hraða för til að dreifa óhróðri. Þeir „vita“ að sá sem talar segir ekki sannleikann. Þeir „vita“ að sá sem býður fram hönd sína hefur svik í huga. Þeir ætla að allar gjörðir stjórnist af sömu hvötum og þeirra eigin hugsanir.

Ó, þið aumu! Hver hefur lagt á ykkur bölvun sjálfsvitundar? Hvar hafið þið grafið upp fordómana sem þið byggið mat ykkar á? Við hvaða krossgötur hlustuðuð þið á slúðurberana? Einföld kveðja virðist ykkur sem fordæming. Þið vonið að fjöllin standist ógn rógberanna og að höfin þorni ekki upp af svikum.

Fyrir ykkur hefur hinn helgi snákur þekkingarinnar ekki enn verið gerður!

31. Nauðsynlegt er að greina á milli reiði andans og skapstyggðar. Eld skapstyggðar þarf að greina í tvo flokka. Ef hún hefur í sér kosmískan eiginleika er hægt að fjarlægja eitur hennar með straumi prönu. En útfelling eitursins mun setjast á orkustöðvarnar ef skaðlegar tilfinningar, eins og þótti eða sjálfsmeðaumkun, efla skapstyggðina. Þá er engin leið til að fjarlægja hana; aðeins er mögulegt að afmá hana með því að þroska kosmíska skynjun.

Menn verða að sjá að góð hugsun hefur í sér fólginn lækningamátt. Einnig er þakklæti hið besta hreinsimeðal lífkerfisins. Sá sem hefur fundið fræið og áttað sig á umhyggju Sendandans getur sent frá sér þakklæti út í geiminn. Mikill lækningamáttur stafar frá útgeislun þakklætis. Allt sem er óeiginlegt verða menn að umbreyta í raunveruleika.

32. Hin alþjóðlega stjórn hefur aldrei afneitað tilveru sinni. Hún hefur kunngert tilveru sína, ekki með stefnuyfir¬lýsingum, heldur athöfnum sem jafnvel eru dæmi um að skráðar hafi verið á spjöld sögunnar. Hægt er að vitna í dæmi úr frönsku og rússnesku byltingunni sem og úr sögu ensk-rússneskra og ensk-indverskra samskipta, þar sem utanaðkomandi hönd breytti rás atburða. Stjórnin leyndi ekki tilveru erindreka sinna í ýmsum löndum. Eðlilega leyndu þeir aldrei stöðu sinni, því það hefði verið ósamboðið virðingu Stjórnarinnar. Þvert á móti komu þeir oft opinberlega fram, heimsóttu margar þjóðstjórnir og voru þekktir af mörgum. Bókmenntirnar geyma nöfn þeirra og prýða þá með hugmyndaflugi samtímamanna þeirra. Það eru raunverulegar persónur en ekki leynifélög — sem þjóðstjórnir óttast svo mjög — sem sendir eru út af örkinni samkvæmt fyrirmælum Hinnar alþjóðlegu stjórnar.

Alþjóðleg verkefni skaðast af sérhverju sviksamlegu athæfi. En Hin alþjóðlega stjórn lýsir því yfir að eining þjóðanna, skilningur á gildi skapandi starfs og vöxtur vitundarinnar séu mál sem ekki þoli neina bið. Ef athugaðar eru aðgerðir Stjórnar¬innar er ljóst að ekki er hægt að ásaka hana um athafnaleysi.

Aftur og aftur hefur staðreyndin um tilveru Hinnar alþjóð¬legu stjórnar undir ýmsum nöfnum náð að skjóta rótum í vitund mannkynsins. Sérhver þjóð fær viðvörun, en aðeins einu sinni. Erindrekar eru sendir, en aðeins einu sinni á hverri öld — þannig er lögmál Arhatanna. Athafnir Hinnar ósýnilegu stjórnar eru í fullu samræmi við þróun heimsins, af því leiðir að afleiðingarnar byggjast á náttúrulegum lögmálum. Þar er ekki um neina persónulega löngun að ræða, aðeins óbreytanleg lögmál efnisins. Ég þrái ekki — ég veit! Því eru ákvarðanir ósveigjanlegar þrátt fyrir hina ólgandi strauma.

Hægt er að klífa fjall frá norðri eða suðri – niðurstaðan er sú sama.

33. Fyrirbærin sem þið hafið tekið þátt í hafa krafist stillingar. Þar að auki hafið þið hugsanlega séð þörf fyrir vissa spennu. Þetta ástand skapaði uppsöfnun orku sem líkja mætti við orkuna í brunahana. Því er líklega réttara að segja að til að fyrirbærin geti átt sér stað sé þörf fyrir hreina stillingu.

34. Viðleitnin er innstillt í miðju sólarplexus-orkustöðvarinnar á vaxtarskeiði vitundarinnar. Fari viðleitnin út fyrir sín hæfulegu mörk er hinn svonefndi elddauði er óhjákvæmilegur. Óþroskuð vitund getur afborið afleiðingar viðleitninnar, en hærra flug krefst þess að fjársjóðurinn sé tímabundið geymdur í vörðu skríni.

Sérhver hugsun veldur útfellingum á veggjum taugarásanna. Eftir því sem viðleitnin er fullkomnari verður útfellingin meira sjálflýsandi. Eini staðurinn, sem er nægilega varinn til að geyma þetta eldsneyti, er sólarplexusinn, sem smám saman drekkur í sig útfellingarnar frá hinum ytri rásum. Stundum getur þessi upptaka orðið svo kraftmikil að hún valdi sársaukafullri stjörnulaga tilfinningu. Þá verður fræðarinn að beita kælandi geisla sem auðveldar söfnun útfellinganna frá útlimunum til orkustöðvarinnar. Þetta er allt hluti af vexti vitundarinnar. Hægt er að sjá hvernig næmnin vex í þriggja ára skrefum. Hvert skref krefst varðveislu skrínsins fyrir næstu lofsverða notkun.

Varðveitum lögmál lífsins sem vísar veginn upp þrep fegurðar og hamingju.

35. Þegar rætt er um gagnsemi einhvers er meiningin ekki sú að hann sé máttarstólpi fræðslunnar. Nauðsynlegt er að meta menn eftir raunverulegu gildi þeirra, vegna þess að oflof er sama eðlis og vanvirðing. Engann má draga með valdi til himins. Á tilsettum tíma fá blindir aftur sýn. Gagnlegt er að benda á í hve miklum mæli lífið er reglubundið og forðast allan óþarfa, svo að jafnvel hinn lægsti geti séð gagnsemi hinna efnislegu framfara. En rangt er að þvinga fólki til að þvo sér um andlitið. Veittu athygli gagnsemi hvers sendiboða, en láttu ekki asna bera byrði úlfalda.

36. Sérhvert andartak vitundar verður að flæða með straumi þróunarinnar. Líta verður svo á að sérhvert skref lífsins sé óaðgreinanlegt frá sjálfsfullkomnun. Form sem hefur mótast í fast form er hægt að fjölfalda, en bylgjan endurtekur aldrei eina einustu öldu.

Svefn eða árvekni, starf eða hvíld, hreyfing eða kyrrð, allt þetta ber okkur jafnt í átt til fullkomnunar á markmiði lífsins. „Eins og fallin laufblöð,” segir hinn huglitli. „Eins og fræ til sáningar,” segir sá vitri. „Eins og örvar ljóss,” segir sá hugdjarfi.

Hver sá sem fyllist skelfingu við gný straumsins er enn ófæddur í anda. Sá sem svífur á öldunni getur hugleitt hinar fjarlægu heima.

37. Svaraðu ekki fyrr en þú sérð að svarið verður skilið. Oft getur spyrjandinn ekki náð merkingu svarsins. Þá er nauðsynlegt að finna samhljómandi hljóm áður en hugsunin er send í nýja átt. Rangt er að ætla að straumur sem sker hugsunina sé meinlausari en hnífur sem sker í sundur æð. Ekki má rjúfa hugsun spyrjandans, veitum heldur nýju lífsblóði með því að næra og styrkja taugakerfið. Lát orðin í svari þínu ekki verða sem nagli í líkkistu, heldur sem geisli læknandans. Síðbúið svar má gefa í formi ráðleggingar.

38. Sá sem vill taka þátt í samvinnu verður að fá tækifæri til að sýna skilning sinn. Segið því við lækninn, „Þú getur sýnt útsjónarsemi við að gefa moskus, valeríana eða sedrusviðartjöru. Einnig, menn geta sýnt góða eftirtekt með því að lýsa rás lífsins. Menn geta sýnt stöðuglyndi í viðleitni við að nálgast fræðarann, lausir við efa og fordóma.”

Vitnisburður lífsins sýnir fram á hve miklum árangri menn hafa náð. Og við metum mikils hvert stig árangurs. Sérhver klukkustund býður nýja óafmáanlega möguleika. Greinileg forrétt¬indi fást sem afleiðing af fyrri árangri — þannig næst árangur með lögmætum hætti.

39. Rangt er að ætla að auðvelt sé að tapa nokkru hér á jörðinni. Að finna er jafnvel enn erfiðara. Orðið tap gerir ráð fyrir eign. Sá sem safnar eignum þarf að dragnast með þær á eftir sér. Stundum er illmögulegt losa sig við eignir, bæði efnislegar og óhlutlægar. Því ráðleggjum við að eignum sé veitt viðtöku með allri þeirri ábyrgð sem þeim fylgir. Það gefur möguleika á því að bæta gæði eigna sinna og hugsana. Erfitt er að draga á eftir sér útslitnar og gagnslausar leifar.

Hvernig er hægt að hreinsa burt hin ljótu fleiður hugleysis og sviksemi? Sedrusviðartjara læknar ekki áruna. Fleiðrin verður að brenna með loga áfallsins, og hugrekki þarf til að þola sársaukann. En hvernig getur hugrekki risið af hugleysi? Óttinn skekur hugleysingjann, en fyrir Okkur er ótti alger óhæfa.

Þið sem safnið eignum — íhugið eiginleika þeirra.

40. Blindan mann dreymir um efnislega umbun. En fengi hann sjón yrði hann forviða að sjá að hann skapar sjálfur sína eigin umbun. Maðurinn er fullur gleði þegar vitund hans er að vaxa og þroskast, en tilhugsun um umbun bindur honum fjötra. Þrælar eru ófáir. Það eru einmitt þeir sem dylja þrælsótta anda síns undir kuldagrímu ósnertanleika og falskri höfnun þess sem þeir ekki eiga. Hver sá sem æskir launa er um leið orðinn þræll. Framþróun getur aðeins orðið með frjálsri vitund, án sjálfsþótta og sjálfslítillækkunar.

Hamar andans er það vopn sem verðugast er að eignast.

41. Brýrnar sem spanna þrepin í þroska vitundarinn¬ar eru óháðar atburðum samtímans. Rangt er að bíða eftir réttri afstöðu stjarnanna; vinna snáks sólarplexusins flæðir óháð ytri aðstæðum. En þessu innra starfi fylgir sérstakur næmleiki fyrir ástandi andrúmsloftsins. Þéttleiki andrúmsloftsins gerir starfsemi taugakerfisins erfiðara um vik. Því er þörf á læknandi áhrifum róseminnar.

42. Lyf þarf að greina í þrjá flokka — lífgjafa, verndara og hressingarlyf. Látum óvinum okkar eftir fjórða flokkinn — eiturlyfin. Snúum okkur fyrst að lífgjöfunum, því þeir verka fyrst og fremst á taugakerfið. Taugastöðvarnar og framleiðslu¬efni innkirtlanna vísa til framtíðarstefnu læknisfræðinnar. Á þessum vettvangi mun mannkynið uppgötva fíngerðustu orkuna, sem við enn nefnum anda til einföldunar. Uppgötvun á áhrifum þessarar orku mun verða næsta þrep í þróun siðmenningarinnar.

Þegar málmar eru notaðir við ræktun plantna munu ræturnar gefa frá sér gagnleg efni. Það er því nauðsynlegt að beina athyglinni enn og aftur að jurtaríkinu. Veitið auk þess næringareiginleikum grænmetis og korntegunda eftirtekt, og margt mun vekja undrun ykkar. Dómgreindarskortur í vali manna á fæðu er furðulegur. Hér hef ég gæði í huga.

43. Neminn má ekki vera haldinn þráhyggju, og Fræðarinn má ekki vera sem einvaldur. Sannlega er þess krafist af nemanum að hann hafi skilning á Helgivaldinu og á samræmi í athöfnum – að frjáls vilji og viðurkenning á Fræðaranum sé samrýmanlegt. Veiklyndur hugur er oftast ráðvilltur. Að sjálfsögðu munu aðstæður og takmarkanir fræðslunnar stangast á við hugtakið frelsi í sinni grófustu merkingu. En með aukinni menningu og skilningi á réttri stefnu mun hin háleita hugmynd um Fræðarann mótast. Skilningur á mikilvægi hugmyndarinnar um Fræðarann felur í sér að neminn kemst í gegnum fyrsta hliðið á þróunarleiðinni. Engar væntingar um yfirnáttúrulega hluti ætti að tengja hugmyndinni um Fræðarann. Fræðarinn er sá sem veitir bestu ráðin í lífinu. Í þessu felst raunhæf þekking, sköpunarmáttur og óendanleiki.

44. Segið ekki: „Ég man ekki.“ Segið: „Ég tók ekki nógu vel eftir.“ Skellið ekki skuldinni á minnið, athugið heldur skort ykkar á athygli. Menn falla heldur niður stigann en að gæta að því hvar þeir stíga niður.

Segið ekki: „Ég veit það ekki.“ Segið: „Ég er ekki enn búinn að kynna mér það.“ Hvorki aldur né heilsa né lífsaðstæður réttmæta hið neikvæða hugtak „Ég veit það ekki.“ Brennandi lífsáhugi er í sama liði og löngunin til að læra.

Segið ekki: „Ég hef ákveðið.“ Segið: „Ég tel að þetta samrýmist markmiðinu.“ Auðvelt er að aðlaga betur stefnuna að markmiðunum, en það er óverðugt að breyta ákvörðun sinni.

Fyrir alla muni forðist að bjóða óhamingjunni stöðugt heim, eins og svo algengt er.

45. Maður ætti staðfastlega að segja fólki að Nýi heimurinn sé nú þegar staðreynd. Fólk er ekki reiðubúið að taka þátt í verkefnum sköpunar. Það er rangt að ætla að hernám tengist á nokkurn hátt verkefnum Nýja heimsins. Hvort sem það er hernám landa eða ákveðinna þjóðfélagshópa, þá telst það úreltur og víkjandi hugsunarháttur. Í framþróuninni er aðeins hægt að gera ráð fyrir upphafningu vitundar sem byggist á frjálsum tækifærum.

Þegar skoðuð er þróunarsaga mannkynsins, má greina heil tímaskeið vitundarvaxtar. Við skulum ekki leyna því að einmitt núna eru að opnast fyrir mannkyninu bók uppgötvananna og ljós dirfskunnar. Þessi þroskaði ávöxtur hins þyrnum stráða erfiðis samfélagsins er núna að því kominn að því að springa utan af fræunum. Er unnt að höggva ávöxtinn í sundur með sverði, eða kremja hann með hræðslu eða skríðandi hugleysi, eða sölsa hann undir sig með svikum og prettum? Nei, eingöngu eining vitundar og öflun þekkingar getur fært mannkyninu nýjan kynstofn. Drifkrafturinn til þessa veitist ekki með kosmískum fyrirbrigðum, heldur straumi hugsunar.

Missum ekki af þeim ákvarðaða degi þegar eldingar hugsunar munu forma úrlausn fyrir heiminn. Við leggjum til að mannkynið hugsi ekki aðeins um, heldur skilji og skynji andartak stjörnuefnavirkni plánetunnar þegar hugsun magnar andrúmsloftið, eins og efnahvati.

Hvað sem öðru líður mun hugsun renna yfir enni efasemdamannanna þar til menn hafa öðlast skilning á útgeislun hugsunar. En andartakið bíður ekki!

46. Ákveðin einkenni greina á milli vaxandi og hnignandi þjóða. Vaxandi þjóð dreymir um hetjur. En fyrir þjóð sem er útbrunnin er hugmyndin um hetju bæði þreytandi og tilgangslaus. Þó yfir slíka þjóð sé ausið gulli og hún upptendrist af monti, er hún óhæf til hetjudáða. Draumar og brennandi áhugi hinnar raunverulegu dirfsku hefur yfirgefið þá þjóð sem aðeins þekki skynsemi.

Allir muna eftir sögunum um börnin sem yfirgáfu heimili sín í leit að hamingju, og í ævintýrum allra tíma veitist þessum börnum hamingja.

47. Menn eru því ekki mótfallnir að dreyma um æskilegar breytingar á grundvallarvirkni mannslíkamans. Getnaður fósturs, upplausn efnis, þyngdarleysi líkama og meðvituð efnisbirting eru umræðuefni, jafnvel í kirkjulegum skrifum. Það mætti álykta að sjóndeildarhringur möguleikanna ætti að víkka frá frumbernsku og fá stuðning í tilraunastofum nákvæmra vísinda. En það er einmitt hér sem ófullkomleiki mannkynsins veldur hindrun. Hinn djarfi leitandi sem helgar sig nákvæmum vísindum snýst fljótlega yfir á almennt stig og tekur til við að líkja eftir siðum forfeðra sinna.

Við sáum hvernig hinn rauði logi umbyltingar minnkaði niður í reyk í arninum. Við sáum hvernig hinir mörgu ljósfánar voru endursaumaðir til að hylja fordóma. Við fréttum hvernig tignarlegar byggingar voru notaðar fyrir markaðsviðskipti. Huglítil fáfræði hefur ofið net sín og óttast fyrst og fremst að yfirgefa hinar mosavöxnu strendur þaktar hrörnandi beinum.

Fræðsla þróunarinnar kennir að hugleysi vex sem undanfari kynstofnsbreytinga. En tíminn nálgast, og þeir sem ekki hafa lært að synda neyðast til að gleypa saltvatnið.

Fylgjumst með stökkum hinna hugdjörfu.

48. Það er brýn þörf á því að aðstoða pílagrímana við að skilja Fræðsluna. Einföldustu atriði til endurbóta í lífinu verður þeim til hjálpar við að fylgja þessari nytsömu leið. Gagnsemi mun beina þeim til að leita fegurðar. Lífið sjálft mun sýna fram á skilyrðin fyrir því að nálgast markmiðið. Einföld útskýring á verkefni getur gefið mönnum sjálfstraust til að ljúka því. Á þann hátt munu þeir finna hinar auðveldari, fljótlegri og gagnlegri leiðir til framfara.

Dirfska hins óhlekkjaða manns er ekki eitthvað óhlutstætt hugtak. Hugrekki fuglsins sem flýgur yfir úthöfin gefur mannkyninu fordæmi, þótt svo enginn álíti að svalan sé hetja.

Samt sem áður, viðrið geymslur ykkar og veggi.

49. Spurt verður: „Hver gaf ykkur rétt til dirfsku?“ Svarið: „Þróunin gefur okkur rétt til dirfsku. Réttur þróunarinnar er skrifaður eldstöfum í hjörtum okkar. Ekki er unnt að svipta okkur sannindum framþróunarinnar. Bæði mitt í fjöldanum og í einsemd þekkjum við okkar óafsalanlega rétt. Við getum fullyrt að aðeins hinir blindu eru ófærir um að sjá stefnu þróunarinnar. En þegar dyr þekkingarinnar eru markaðar skýrum dráttum, er ekki erfitt að stefna út úr myrkrinu.“

Dirfska! Ætti maður að skilja hana sem fáheyrt afrek? Ætti dirfskan ekki að vera daglegt brauð, og klæði hverrar hugsunar? Munu ekki fangelsismúrar verða gegnsæir? Og mun ekki innsigli hinnar duldu bókar bráðna fyrir þeim sem dirfist?

Með því að mæla með dirfsku, erum við að bjóða fram einföldustu leiðina. Hjartað nemur að sú leið er sönn. Um þessar mundir er ekki hægt að benda á neina aðra.

Sýnið dirfsku! Það er mikið um elda í heiminum, en aðeins í eldi er unnt að móta grundvöll hins nýja heims. Járnsmiður, haltu hamrinum stöðugum!

50. Hvenær munu menn skilja gildi hugsana og orða? Menn telja ennþá að verra sé að missa niður venjulegan fræsekk, en að láta út úr sér skaðleg orð. Hvaða nagdýr sem er getur tínt upp fræin, en jafnvel Arhat er ekki fær um að eyða afleiðingum hugsana og orða. Þegar menn fara í sjóferð þá taka þeir með sér vandlega valda hluti; en í mæltu máli vilja þeir ekki huga að merkingu orðanna og afleiðingum þeirra. Við komum ekki með ógnanir, en Við bendum á fyrstu ummerki um reyk sem liðast undan skyrtunni.

Tenging í enska útgáfu. Þessi bók hefur ekki verið þýdd á íslensku.