Æðri heimar

1938

Vinir, hvernig getum við rætt um æðri heima, ef orkan er ekki viðurkennd sem grundvöllur tilverunnar? Margir munu alls ekki skilja hvað átt er við með því, aðrir telja sig skilja mikilvægi grundvallarorkunnar, en geta ekki hugsað um hana með skýrum hætti. Nauðsynlegt er að þjálfa hugsun sína með hugmyndinni um orku, þar til tilfinningin um hana verður eins raunveruleg og tilfinningin um hvaða efnislegan hlut sem er. Við tölum um tilfinningu, því að þekkingin ein getur ekki veitt skilning á orku.

Jafnvel þótt maðurinn viðurkenni þau sannindi að í grundvallaratriðum sé aðeins um að ræða eina orku, er það eitt ekki nóg til framfara – menn verða einnig að gera sér í hugarlund hina óteljandi eiginleika hennar. Hin hefðbundna takmörkun hugsunar kemur í veg fyrir víðtæka skynjun á eiginleikum orkunnar og setur þannig skilninginum þröngar skorður. Háleit hugsun hjálpar til við að koma í veg fyrir skaðann af takmörkum hugsunar, en ekki er auðvelt að móta hæfilegt stig fegurðar og háleitni í hugsun mitt í áföllum lífsins og ákaflega fáir eru undir það búnir að skilja að sjálfir erfiðleikar lífsins geta ýtt undir háleita hugsun. Rétt viðmiðun styður hugsunina þegar eiginleikar grundvallarorkunnar virðast stangast á. Blindum manni getur verið ókleift að skynja atburð sem öðrum er sýnilegur, en allir geta skilið æðri heimana með því að þjálfa skilning sinn á hinum mörgu eiginleikum grundvallarorkunnar.

Þeim sem hugsa sér æðri heimana sem hið allra æðsta hafa á réttu að standa. „Sem hið efra, svo hið neðra“. Lát þennan forna málshátt leiðbeina okkur til skilnings á kröftum æðri heima.

divider

1. Urusvati þekkir turninn í Chun og minnist þess hvernig hann að utanverðu líkist náttúrulegum kletti. Það er ekki erfitt að hindra aðgöngu að Turninum. Lítil skriða getur hulið bygginguna neðan frá séð. Lítil stífla getur breytt fjallalæk í stöðuvatn og ef brýna nauðsyn ber til er unnt að umbreyta landslaginu á svipstundu. Menn brosa ef til vill og hugsa með sjálfum sér að skipulagðir rannsóknarleiðangrar hljóti fyrr eða síðar að grandskoða allar leiðir. En jafnvel áður en þarf að umbreyta landslaginu hefur máttur hugsana beint vagnalestinni á aðrar slóðir. Að auki er hægt að hagnýta sér áhrif vissra efna til að hindra að hinir forvitnu nálgist. Þannig stöndum við vörð um Bræðralagið.

Hinar fullkomnustu flugvélar geta ekki fundið aðsetur okkar. Einsetumenn sem dvelja í nálægum hellum eru vökulir varðmenn. Ferðamenn hafa stundum minnst á að þeir hafi mætt einsetumanni sem benti þeim mjög ákveðið á að fara tiltekna leið og varaði þá við hættum ef þeir reyndu að komast inn á ákveðið svæði. Einsetumaðurinn sjálfur hafði aldrei farið lengra, en hann hafði fengið tilmæli um að segja ekki frá ákveðnum leiðum. Einsetumennirnir þekkja bannsvæðið og vita hvernig gæta skal leyndarinnar. Þetta geta verið stigamenn, en jafnvel stigamenn geta verið traustir varðmenn leyndardómsins helga. Efumst ekki um tilvist hins friðhelga aðseturs.

Urusvati man eftir umhverfi leiðanna sem liggja til Okkar og minnist einnig ljóssins frá Turninum Okkar. Mörg smáatriði leiðarinnar eru systur okkar Urusvati minnisstæð. Þessi kennileiti eru ógleymanleg og veita öllum hugrekki, á öllum leiðum. Hún hefur séð samverkamenn Okkar safna gagnlegum plöntum og einnig geymslur Okkar, grafnar djúpt í jörðu. Þessar þekkingargeymslur ættu menn að sjá til að öðlast skilning á vinnu Okkar hér. Þið ættuð að heyra söng Okkar til að öðlast skilning á lífinu hér. Þannig munum við ræða um líf Okkar og vinnu.

2. Urusvati hefur séð mörg tæki Okkar. Að útliti eru þau ekki mjög frábrugðin þeim sem notuð eru annars staðar. En þau eru notuð á annan hátt, því andlegri orku er beitt. Það er löngu þekkt að sum tæki eru ekki nothæf nema ákveðin einstaklingur sé viðstaddur og nú eru jafnvel til menn sem geta með sínu eigin lífkerfi komið í stað flókinna tækja. Menn eru farnir að venjast innri mætti sínum.

Við höfum fyrir löngu viðurkennt það lögmál að mönnum sé unnt að efla mátt tækja. Hægt er að ummynda allt sitt líf með því einfaldlega að gera sér grein fyrir frumorkunni. Frá alda öðli höfum við vanist þeirri hugmynd að samþjappaðri orku sé hægt að beina inn á hvaða svið sem er. Orka, líkt og elding, sameinar uppsafnaða krafta þegar hún losnar úr læðingi. Það sem nefnt er galdur byggist á sama lögmáli. Í raun og veru er hugtakið „galdur“ aðeins til að blekkja. Ræða má um öll raftæki sem galdratæki. Þegar Urusvati sveif í lausu lofti eða lét hluti færast úr stað, var það ekki gert með göldrum, heldur einfaldlega með því að hindra ekki verkun orkunnar. Hin raunbirta orka var viðurkennd og síðan beint á ákveðna braut. Hún sameinaðist kosmískri orku og þannig gat hún haft áhrif.

Spegla Okkar er ekki heldur hægt að nefna galdratól. Þeir einfaldlega auka áhrifamátt orku Okkar. Mörg áhöld eru til sem auka áhrif orkunnar. Varla er unnt að segja að sterkur segull sé galdratæki, jafnvel þótt verkun hans sé athyglisverð. Fíngerði líkaminn og allar tilraunir honum tengdar tilheyra sviði vísindanna en ekki sviði galdra. Því er rétt að afnema hjátrúartengda notkun hins misvísandi hugtaks „galdur“.

Menn hafa alltaf hræðst hið leyndardómsfulla, en gleyma því að lykilinn að leyndardómnum er að finna innra með þeim sjálfum. Menn verða að leysa sig undan öllum hamlandi aðstæðum eða kringumstæðum, en allt slíkt er einstaklingsbundið. Framför byggist á frjálsum vilja sem er beint til góðs. Máttur góðleikans getur jafnvel þvingað vélar til að vinna, ekki aðeins fyrir þær sjálfar, heldur fyrir mannkynið. Á þann hátt verka tæki Okkar með Okkar samvinnu.

Menn geta hlegið, en hugmyndir ráða heiminum. Þessi orð eru skráð í lögbók Bræðralagsins.

3. Urusvati hefur sjálf séð sumar geymslur Okkar. Listaverkum er safnað frá mismunandi svæðum, en þetta safn er ekki minjasafn í hefðbundnum skilningi. Þessir hlutir þjóna sem geymsla fyrir samsafnaðar árur, því hin skapandi áhrif fyrri eigenda viðhaldast í þeim mun lengur en ætla mætti. Ef hægt er að safna saman hlutum sem búnir voru til á sama tíma og með sama markmiði, væri unnt að sjá raunveruleg geislaáhrif þess tíma. Með þessari aðferð getum við rannsakað hina sönnu merkingu ákveðins tímaskeiðs. Slíkur möguleiki er ákaflega mikilvægur fyrir andleg vísindi. Sumir bræðra Okkar eru fyrrverandi eigendur einhverra hluta í geymslum Okkar. Stundum er einhver hlutur sendur út í heiminn til að vinna ákveðin verkefni. Til dæmis væri hægt að grafa hann á ákveðnum stað sem segul.

Lát hina fáfróðu hæðast að geymslum Bræðralagsins. Lát eigingirni fáfræðinnar álíta að geymslur Okkar geymi fjársjóði nirfla. Í reynd er sérhver hlutur gagnlegt tæki fyrir Okkur og nýtist við mikilvægar athuganir. Það hefur sérstaklega mikið gildi að athuga tengsl fornra áhrifa við seinni tíma áhrif. Stundum má sjá fullkomna andstöðu milli hluta eða gagnkvæm tengsl. Við allar Okkar mörgu tilraunir með forna hluti notum Við ekki aðeins andlega sýn, því Við notum tækin Okkar til að staðfesta niðurstöðurnar. Hér er ekki um að ræða svonefnda hlutskyggni, heldur vísindi útgeislunar. Á sama hátt og þið getið athugað gagnsemi ávaxta og plantna, getum Við rannsakað tungumál hlutanna út frá útgeislun þeirra. Á þennan hátt getum við séð að fáir trúarlegir hlutir hafa fagra útgeislun, því þeir voru of oft smíðaðir með eigin hagsmuni í huga og féllu jafnvel í hendur kaupmanna.

Jafn lærdómsríkt er safn Okkar af uppgötvunum. Sú andlega orka sem uppgötvunin er gædd setur mark sitt á hana; hún gagnsýrir allar uppgötvanir með skaðlegum eða gagnlegum áhrifum. Lát hendur hugvitsmanna vera hreinar!

Við fylgjumst grannt með hugvitsmönnum. Stundum fögnum Við, en oftar en ekki valda þeir Okkur hryggð. Turn Okkar er opinn fyrir öllum nýungum og það er sérstök gleði þegar verðugur verkamaður hefur tekið á móti hugsun sem Við höfum sent.

4. Urusvati veit hve erfitt er að senda hugsanir um langan veg. Margar aðstæður geta haft áhrif á þær. Menn eru annað hvort eins og sjóðandi katlar eða kringlukastarar sem skjóta hugsunum út í geiminn. Ekki aðeins þarf að hafa stjórn á sjálfum sér, heldur ættu menn einnig að sjá fyrir efnahvarfið sem getur jafnvel stöðvað sterkan vilja með andstæðri verkun.

Okkur er oft álasað fyrir það að Við stöðvum stundum útsendingu hugsana Okkar. Hinir jarðnesku vinir Okkar gera sér ekki grein fyrir því að með slíkum hléum erum Við ekki að verja Okkur sjálfa, heldur þá. Við vitum hvernig á að skynja spennu í geimnum og verja vini Okkar á jarðneska sviðinu.

Ætlið ekki að yfirborðslegar aðferðir skili fullkomnum árangri. Hið nauðsynlegasta er að finna í djúpum vitundarinnar. Grófgerður þjónandi getur ekki viðhaft hreina athöfn og hinir bestu helgisiðir geta ekki leyst hann frá óhreinum hugsunum sínum. Þannig vaða margir í villu, og telja að ytri helgisiðir geti bætt fyrir innri andstyggð.

Hugsanir Fræðarans verða að sigrast á mörgum hindrunum í geimnum. Ég fullyrði að allar athafnir verði að samræma hugsunum Fræðarans; slík hjálp er sönn samvinna.

Við eigum tæki sem aðstoðar við flutning hugsana um langar vegalengdir. Menn yrðu undrandi ef þeir sæju ákveðin tæki, sem þeir þekkja vel, notuð á allt annan hátt en þeir eiga að venjast.

Hagnýting andlegrar orku getur umbreytt hinum einföldustu vélum.

5. Urusvati hefur séð Okkur bæði í efnisþéttu og fíngerðu líkömum Okkar. Aðeins þeir fáu sem reynt hafa slíkt geta gert sér grein fyrir því sem því fylgir. Oft leyfum Við aðeins að andlit Okkar eða hendur sjáist, til að koma í veg fyrir áfall. Þú minnist ef til vill skrifandi handar, en jafnvel sú birting var of kraftmikil, vegna þess að ekki var unnt að hemja sveiflutíðnina. Því er nauðsynlegt að vera enn varkárari.

Það er ekki að ástæðulausu að Við tölum mikið um varkárni. Menn gera sér einfaldlega ekki grein fyrir mikilvægi varfærni. Hve margir hættulegir sjúkdómar orsakast af vöntun á gagnkvæmri varúð milli einstaklinga! Varúð er algjör nauðsyn þegar um er að ræða mikinn mun á sveiflutíðni. Þörf er á árvekni og gagnkvæmri aðgát til að koma í veg fyrir skaða.

Á jarðneskum ferðum Okkar sendum við stundum fyrirmæli í gegnum þriðja aðila, sem þekkir ekki hina sönnu merkingu skilaboðanna og er aðeins að sinna skyldu sinni.

Við raunbirtingu hlífiskjaldar Okkar er einnig þörf á varúðarráðstöfunum. Erfitt er að skilja mikilvægi slíkrar aðgátar. Menn geta ekki gert sér grein fyrir öllum þeim ástæðum sem knýja Okkur til að vera svo varkára og í fáfræði sinni óska þeir eftir að upplifa hinar kraftmestu raunbirtingar án þess að skeyta um afleiðingar.

Á sama hátt vilja menn ekki skilja hvaða kraftmunur er á milli sveiflutíðni Okkar og venjulegs líkama á fíngerða sviðinu. Stundum hafa þeir séð efnisbirtingar án þess að verða fyrir sterku áfalli, en sveiflutíðni Okkar er af allt öðrum styrkleika. Allt er afstætt og menn ættu að gæta vel að hrynjandi og sveiflutíðni.

Í dag ræddir þú um ótta sem plöntur skynja. Sé næmni við sveiflutíðni háþroskuð hjá plöntum, hlýtur hún að vera margfalt meiri hjá mönnum.

Höfum í huga að sveiflutíðni Okkar gleymist aldrei þeim sem hefur reynt hana, því í henni er gleði, en einnig kraftur sem ekki öll hjörtu geta þolað.

6. Urusvati hefur orðið vitni að læknandi geislun frá Okkur. Hrynjandi hennar er mismunandi og ekki geta allir greint hana. Sumir telja að hún stafi af jarðskjálfta, aðrir gætu haldið að hún sé vegna hitasóttar og enn aðrir tengja hana við sína eigin taugaveiklun. En meirihlutinn telur að hún sé ekkert nema ímyndun. En læknandi umhyggja okkar greinist oft í öllum heimshornum. Fólk fær hjálp og skynjar oft skyndilegan bata, en áttar sig ekki á hvaðan hjálpin barst. Við erum ekki að tala um þakklæti, því Við þörfnumst þess ekki, en meðvituð viðtaka hjálpar frá Okkur eykur hin góðu áhrif. Sérhver neikvæð viðbrögð eða háð lamar jafnvel hinar kraftmestu sveiflur. Við hröðum okkur til hjálpar, Við hröðum okkur til að senda bót, en hve oft er Okkur veitt viðtaka?

Hinir fáfróðu halda því fram að við ýtum undir byltingar og væringar, en í reynd höfum Við oft reynt að koma í veg fyrir morð og eyðileggingu. Sjálfur bróðir Rakoczy birti æðsta stig kærleika til mannkynsins en var hafnað af þeim sem hann reyndi að bjarga. Verk hans voru skráð í vel þekktum minningum sem enn eru til, en samt segja vissir lygarar hann vera föður frönsku byltingarinnar.

Menn skilja ekki heldur boð okkar til Viktoríu drottningar, en sagan sýnir fram á réttmæti þeirra. Aðvörun okkar var hafnað; Samt sem áður er það skylda okkar að vara þjóðirnar við. Á sama hátt var aðvörun okkar til norrænu þjóðarinnar ekki skilin. Um síðir munu menn muna og bera saman staðreyndir. Ég get nefnt dæmi um atburði úr sögu ýmissa landa – munið eftir Napóleon, framkomu ráðgjafans við ráðstefnuna um stjórnarskrá Bandaríkjanna, það sem gerðist í Svíþjóð og vísbendingarnar sem voru sendar til Spánar.

Munið eftir því að fyrir tíu árum var sagt fyrir um hrun Spánar. Tákn lausnar var lagt fram, en eins og venjulega var því hafnað. Við hröðum för til að senda hjálp hvert sem er og fögnum þegar henni er veitt viðtaka. Við hryggjumst þegar Við sjáum þau hlutskipti sem þjóðirnar búa sér.

7. Urusvati þekkir raddir Okkar, bæði sem talað orð upphátt eða í hljóði. Menn geta undrast mismuninn á sendingunum, en það eru margar ástæður fyrir þeim, handan jarðneskra aðstæðna.

Við ráðleggjum oft að reynt sé að viðhalda einingu. Slík boð eru ekki einfaldlega siðferðisboðskapur – óeining er skerandi ósamræmi. Ekkert hefur jafn stingandi áhrif sem ósamræmi. Þegar menn eru fylltir skaðlegu misræmi, leiðir það sjálfkrafa til röskunar í umhverfinu. Þannig menn skaða ekki aðeins sjálfa sig, þeir mynda einnig karma af sérstakri gerð sem tengist einnig öðrum sem líkjast þeim. Það er hræðilegt að glíma við slíkan nýgerðan óskapnað.

Menn sem birta ósamræmi eru í reynd skapendur óskapnaðar; afleiðingar þessarar skaðlegu misnotkunar eru hörmulegar. Við neyðumst sífellt til að berjast við þá og það kemur ekki á óvart að slíkur bardagi er oft erfiðari en árekstur geimstrauma. Í hvert sinn sem nauðsynlegt reynist að kljást við frjálsan vilja manns má gera ráð fyrir mikilli orkueyðslu, Máttur hins frjálsa vilja er mikill, hann er sambærilegur við hina kröftugustu orku, og með illsku sinni geta menn valdið eyðingu sviða í fíngerða heiminum. Hve mikið þarf ekki hinn reyndi læknandi að hafa fyrir því að loka þessum sárum í geimnum!

Við verðum að vinna að einingu, ekki með sálmum og hörpuslætti, heldur með vinnu og striti. Fáir munu setja stefnuna á Bræðralag Okkar eftir að hafa frétt af mikilli og erfiðri vinnu Okkar.

8. Urusvati hefur séð svitann drjúpa af Okkur og veit hve þjáningarfullar þær aðstæður eru sem skapast af spennu í geimnum, en án hennar væri ekki unnt að vinna að verkefnum yfir miklar vegalengdir. Sérhver athöfn sem felur í sér samvinnu er til hjálpar. Við ræðum um samvinnu, ekki aðeins sem siðferðilegt hugtak, heldur einnig sem uppskrift að nýjum möguleikum til árangursríkrar vinnu.

Ef menn aðeins skildu á hvern hátt sýnilegar og ósýnilegar leiðir geta unnið saman! Ef menn aðeins gerðu sér grein fyrir hve mikið þeir gætu aukið krafta sína með samvinnu við Bræðralagið! Ef þeir að minnsta kosti myndu leiða hugann að samvinnu, sem mögulegt er að viðhafa á hverju einasta andartaki! En menn nálgast ekki einu sinni Bræðralagið í hugsun, þeir álíta jafnvel að hugsun um Bræðralagið sé heimskuleg. Allir geta nýtt krafta sína alltaf; aðeins þarf að gera sér grein fyrir því að í fjöllunum Okkar er í gangi linnulaus vinna til hjálpar mannkyninu. Ein slík hugsun skapar orkuflóð og færir vitundina nær þjónustu fyrir mannkynið. Hún hvíslar að mögulegt sé að elska mannkynið, en við jarðneskar aðstæður er oft erfitt að ímynda sér að slík ást sé möguleg. Lát hugsun um tilvist Bræðralagsins stuðla að því að opna hjörtun. Þá mun samvinna opinberast, ekki sem skylda, heldur sem gleði og sviti og helgar kvalir sem veita munu kórónu upplýsingar. Lítum ekki á þetta sem óhlutlæg orð, því slík afneitun lokar fyrir besta viðtakann – hjartað. Sérhver svitadropi vinnunnar, sérhver þjáning vegna mannkynsins, býr í hjartanu.

Dýrð sé hinu allt umlykjandi hjarta.

9. Urusvati hefur verið í rannsóknarstofum Okkar og hefur séð eina af formúlunum fyrir kjarnorku. Hún gat ekki geymt hana í efnislegu minni sínu, en innri viðtakandinn tók við henni. „Atómísk atóm!“ hrópaði bróðir Okkar þegar atómkjarninn var klofinn. Eins og hveitiaxið þroskast fyrir uppskeruna, þannig verður þessi möguleiki og árangur geymdur allt til þess tíma að hann verður afhentur mannkyninu. Það er erfitt að gera uppgötvanir og geyma síðan birtingu þeirra þar til rétti tíminn rennur upp. Í æði sínu myndu menn dreifa þekkingu eins og hagléli á akrana, án þess að skeyta neitt um skrímslin sem vaxa af taumlausum ástríðum. Skilningur á réttri tímasetningu er stórt skref í átt til Bræðralags.

Hin norðlæga túndra og Góbí eyðimörkin geyma fjársjóði; ætti að opinbera þá sem fyrst? Aðeins háþróuð vitund getur fengist við svo dýrmæta fjársjóði; og vegna þekkingar á spíralvindu þróunarinnar, mun demöntum ekki verða kastað fyrir vagnhjólin. Það er stundum erfitt, jafnvel fyrir þrautreynda þolinmæði, að bíða komu vagnanna sem flytja gleði. „Ef til vill hefur dagurinn þegar liðið hjá“, segir titrandi hjartað. En viturleg reynsla hvíslar: „Enn er of snemmt.“ Baráttan milli hjartans og skynseminnar er furðulegt sjónarspil. Hamingjusamur er sá sem getur skilið boð hjartans.

Við eigum margar formúlur sem eru tilbúnar til birtingar. Geislinn frá Turninum í Chun glampar þegar uppgötvanir vísindanna koma fram á réttum tíma. Í einfaldleika sínum skilja menn ekki samræmið í tímasetningum viðburða og reyna að þröngva sinni eigin ringulreið og ábyrgðarleysi á öll mál. Það skiptir þá engu þótt mikilvæg hugmynd geti glatast séu viss skilyrði ekki uppfyllt. Að auki krefjast þeir þess að allt sé gert eftir þeirra höfði, þeir líta á árangur sem ógæfu og fagna hörmungum. Hið smáa virðist þeim stórt og hið stóra léttvægt.

Sú nákvæma þekking sem send er út til heimsins frá rannsóknarstofum Okkar skilst oft ekki, vegna þess að formúlurnar eru gefnar upp með óvenjulegum táknum. En hvers vegna ættum Við að afbaka fornar formúlur, sem að öðrum kosti hefðu gleymst? Ef formúlan er upprunnin frá Atlantis, ætti ekki að takmarka hana með hugtökum nútíma vísinda. Mikið haf aðskilur vísindin sem samfjalla og vísindin sem aðgreina. Þess vegna er svo erfitt að finna samræmið sem blómstrar í Bræðralaginu.

10. Urusvati þekkir tungu Okkar, en við verðum að læra tungu allra þjóða. Stöðugt vakna spurningar um það á hvaða tungu sé best að senda hugsanir. Sérhver ætti að senda hugsanir á móðurmáli sínu, tungumálinu sem hann hugsar á. Það eru mistök að senda hugsanir á erlendu tungumáli, með það í huga að það auðveldi viðtakandanum. Það myndi aðeins minnka mátt sendingarinnar. Ef maður neyðir sig til að hugsa á erlendu tungumáli kallar það fram innri myndir sem tengjast menningu þeirra sem nota það mál og truflar skýrleika hugsunarinnar. Mín ráðlegging er sú að senda hugsanir á móðurmáli sínu í einföldu og venjulegu umhverfi. Vel þekktir hlutir dreifa síður athyglinni, flækja ekki hugsanirnar og útgeislun þeirra veldur ekki truflunum.

Við hugsanaflutning notum Við næstum tómt herbergi málað í bláum eða grænum lit. Græni liturinn getur verið mjög samhljómandi fyrir marga einstaklinga. Við kjósum einnig þægilegan stól með örmum sem heldur hryggnum beinum. Stóllinn ætti ekki að valda líkamanum neinum óþægindum. Ljósið ætti ekki að trufla augun og það er betra að ljósgjafinn sé fyrir aftan. Engin þörf er á að mynda einhverja spennu, fullkomin einbeitni er hið eina sem þarf. Stundum getur verið gott að setja mynd fyrir framan sig af þeim sem hugsunin er send til, en það er jafnvel betra að halda myndinni í huganum. Rósemi er nauðsyn og hljómræna tónlist má nota með sendingu hugsana.

Hafið í huga þessar aðstæður, þegar þið sjónmyndið Okkur í huganum og sendið Okkur hugsanir.

11. Urusvati hefur löngun til að veita mönnum meiri þekkingu, bein þekking gefur henni vísbendingu um takmörk þess sem er mögulegt. Uppgötvun þessara marka verður mörgum að fótakefli og mikil ógæfa fylgir því að virða þau ekki. Það er ómögulegt að gefa til kynna í jarðneskum hugtökum hin duldu viðeigandi mörk, en víðfeðm vitund getur bent á hvar mörk mögulegs skaða liggja. Þið sjálf vitið hve oft menn krefjast svara sem þeir geta svo ekki tekið á móti. Þeir segja: „ Segið það fljótt og við munum ákveða hvað við viðurkennum og hverju við höfnum.“ Þeir hafa ánægju af því að draga um spil, en draga aðeins það sem þeim líkar best. Þeim er sama þótt öll heildin hrynji til grunna, þótt jafnvel börn viti að ekki ætti að raska heildinni. Fullorðir kasta sprengjum og furða sig svo á því að þær meiði þá sjálfa. Þeim finnst gaman að endurtaka samlíkingu okkar um bjúgverpilinn, en sjá ekki afleiðingar sinna eigin kasta.

Menn ásaka Okkur oft fyrir að afneita mörgu því sem er til og ganga jafnvel svo langt að segja að Við höfnum Kristi. Er hægt að trúa slíku guðlasti? En margir þjónar myrkursins eru jafnvel reiðubúnir að dreifa slíkum óhróðri í þeim tilgangi að valda óeiningu. Öllum sem þekkja uppbyggingu Bræðralagsins ofbýður fáfræðin sem lýsir sér í slíku baknagi. Rógur er oftast afleiðing fáfræði og menn hika ekki við að endurtaka lygar. Hægt er að tiltaka mörg dæmi um ósannar frásagnir um Bræðralagið. Til dæmis voru Bræðurnir taldir þjóna myrkraöflunum og það má telja upp margar hræðilegar hörmungar sem Þeir voru taldir bera ábyrgð á. Við höfum verið ásakaðir um að beita hótunum og ofbeldi. Þeir sem ekki kusu að taka mark á orðum Okkar gengu sérstaklega hart fram. Skömm sé hinum vantrúuðu! Skömm sé hinum fáfróðu! Og skömm sé þeim sem valda óeiningu! Lát þá stundum spyrja sjálfa sig hvort þeir hafi ekki rangt fyrir sér. En hinn fáfróði getur ekki orðið rangindamaður, því hann lifir nú þegar í villu. Lát þessa blaðsíðu um Bræðralagið geymast í minni þeirra sem eru logandi í hjarta. Sannlega geta allir sett fram að minnsta kosti smáfræ sannleika.

12. Urusvati getur sagt frá þeirri sérstöku tilfinningu sem skynjast í fíngerða líkamanum á ferðum til hinna fjarlægu heima. Það er erfitt að lýsa í jarðneskum orðum þessum fíngerðu skynjunum handan marka hins jarðneska sviðs. Menn verða sjálfir að reyna þessar flugferðir til að vitundin geti lagað sig að þessum yfirjarðnesku skynjunum. Þessar flugferðir til fjarlægra heima eru iðkaðar reglulega af Bræðrunum. Menn sækjast einnig eftir æðri sviðunum, en til allrar óhamingju hafa menn ekki enn viðurkennt fullkomlega hreyfihæfni fíngerða líkamans. Margar tilraunir heppnast, en með mikilli fyrirhöfn.

Margt er rætt um geislana sem gera menn ósýnilega. Næsta skref mun verða uppgötvun lítils tækis sem gerir þann sem ber það ósýnilegan. Við verðum ósýnileg með því að draga að okkur nauðsynlega geisla úr geimnum. Þetta er að nokkru leyti hliðstætt þeirri afholdgun líkamshluta, sem þið hafið nýlega heyrt um. Til að framkvæma mörg fyrirbrigði verða menn að hafa hreyfanlegan fíngerðan líkama. Flugferðir til hinna fjarlægu heima gera vissulega kröfu um þennan hreyfanleika fíngerða líkamans, en með þeirri þjálfun sem því fylgir öðlast hann eldlega hæfni. Þá hæfni er hægt að öðlast með stöðugri viðleitni um mörg æviskeið. Hreyfanleika er ekki hægt að öðlast með þvingun.

Systur Okkar eru sérstaklega færar í þessum flugferðum, vegna þess að samfjöllunarhæfni kveneðlisins er til mikillar hjálpar. Stundum standa þessar flugferðir yfir í langan tíma, en Bræðralagið veit hvernig vernda skal líkamana sem skildir eru eftir.

Það sem virðist vera líkamleg deyfð er oft ekkert annað en afleiðing langrar flugferðar. Menn vita oft ekki hvernig á að sinna þeim sem eru á slíku ástandi. Á fornum tímum var talið að þeir væru haldnir „heilögum“ sjúkdómi og menn vissu hvernig átti að þekkja einkennin. Við eigum mörg dæmi um slíka reynslu; í óendanleika tíma og rúms eru slíkar athuganir óteljandi. Við skráum af kostgæfni sérhverja skynjun, þótt útvarpsbylgjur og rafstraumar hindri oft athuganir Okkar.

13. Urusvati gæti sagt frá nöfnum margra meðlima Bræðralagsins, en mun ekki gera það því hún vegur og metur gagnsemi slíkra upplýsinga. Nú þegar eru sjö nöfn á vörum fólks, en hver er ávinningurinn? Þörf er á framkvæmdum en ekki nöfnum. Af því leiðir að þegar Við tölum um persónuleg málefni Bræðranna þá lýsum við verkum en gefum ekki upp nöfn. Fólk deilir ekki um dáðir heldur nöfn. Þegar nafn eins Bræðra Okkar sem dvaldi í heiminum varð þekkt, varð nauðsynlegt að lýsa yfir andláti Hans, til að Hann gæti um frjálst höfuð strokið. Við höfum oft neyðst til að skipta um nöfn til að vekja ekki forvitni. Við höfum neyðst til að dyljast í flýti til að góð starfsemi hlyti ekki af skaða. Ein fyrsta forsenda Bræðralagsins er að setja vinnuna ofar öllu öðru.

Til eru tvær gerðir hugsunar. Önnur sprettur af tilfinningu, eða með öðrum orðum, frá hjartanu, en hin frá huganum eða vitsmunum. Sjálfsfórn sprettur frá hjartanu og Bræðralagið byggist á henni. Samvinna Okkar nærist á hjartanu.

Þegar við tölum um einingu, þá gerum við ráð fyrir lifandi hjarta. Hræsnisfull eining er eitthvað það ógeðfelldasta sem hægt er að hugsa sér. Marga hefur dreymt um að nálgast Bræðralagið, en hefur mistekist einmitt vegna hræsni sinnar. Hræsnin kemst ekki inn í aðsetur Okkar. Uppgerð leyfir ekki þátttöku í hinni mikilvægu þjónustu.

Mönnum finnst erfitt að venjast hugmyndinni um hugræn samskipti. En meðal Okkar er slíkur áfangi fullkomlega eðlilegur og þjónar þeim tilgangi að einfalda samskipti Okkar. Oft getur ein hugsun komið í staðin fyrir löng orðaskipti. Í daglegu lífi er algengt að þeir sem hafa lengi búið saman skilji hugsanir félaga sinna. Til eru ákveðnar æfingar sem gera mönnum kleift að skilja hugsanir samverkamanns án tækja. Við ræðum aðeins það sem Við ástundum í Okkar lífi.

Lát þá sem kappkosta að nálgast Okkur skilja að gæði vinnunnar eykst með tilfinninganæmu hjarta.

14. Urusvati, geturðu nefnt eina Systur eða Bróður sem ekki varð fyrir pyntingum og ofsóknum í jarðnesku lífi sínu? Það er vissulega ekki hægt. Sérhver hetjudáð kallar á ofsóknir. Baráttan við myrkraöflin er óhjákvæmileg og öldur óskapnaðarins munu kaffæra djarfa bardagamenn. Slíkur prófsteinn er aðeins vitnisburður um ósigranleika andans. Menn voru brenndir á báli, krossfestir, hálshöggnir, kyrktir, drepnir af villidýrum, seldir í þrældóm, byrlað eitur eða varpað í fangelsi; í stuttu máli, þeir gengu í gegnum allar hugsanlegar misþyrmingar svo að hægt væri að prófa þol þeirra.

Ekki skyldi ætla að hægt sé að öðlast víðtæka vitund án baráttu. Allir sem óska að þjóna Okkur vita að þeir þurfa að þola árásir myrkraaflanna. Allir eru reiðubúnir að gera slíkt í orði, en forðast það í verki. Veit enginn að öll frávik lengja aðeins leiðina?

Jarðnesk blessun er augsýnileg, en æðri heimar eru ósýnilegir, eins og þeir séu huldir skýjum. Sérhver tilraun til að nálgast fíngerða heiminn getur orðið til þess að skýra hugmyndina um óendanleikann. Það er jafnvel hægt að dreyma venjulega persónu samtímis á mismunandi stöðum í heiminum. Það er ekkert ógerlegt við það að fíngerði líkaminn geti birst samtímis á fjarlægum stöðum. Rannsókn á eðli mannsins gefur stefnu og útvíkkun vitundarinnar og menn munu sigla til Okkar stranda á náttúrulegan hátt, án þess að þarfnast sinna eldri farartækja. Lát Santana, straum lífsins, bera hinn eftirvæntingarfulla ferðalang til hinnar nýju strandar.

Margir bíða. Lát þá fyrst læra um erfiðleika fararinnar og fá skýran skilning á baráttunni við myrkraöflin. Lát þá ekki vonast eftir að komast hjá henni. Leiðin til gleðinnar getur ekki verið auðveld.

Það verður gleði. Við munum ræða meira um gleði, en fyrst skulum við íklæðast brynju andans.

15. Urusvati varð forviða þegar hún sá þá miklu spennu sem fylgdi sendingu Okkar á hugsunum til fjarlægra staða. Við erum í raun hlaðnir rafspennu til að efla frumorkuna og notum óvenjuleg raftæki til að skapa það sérstaka umhverfi sem nauðsynlegt er við sendingu hugsana. Sjá má að sálræna næmni er hægt að auka í raforkuverum, en slík mettun umhverfisins af raforku getur einnig orsakað eldlega sjúkdóma. Samræmis er alls staðar þörf.

Takið eftir því sem Ég sagði um spennuna sem fylgir sendingu hugmynda. Hugsun, sem er send á sérstakan stað til ákveðinnar persónu, þarfnast ekki eins mikillar spennu og sending hugsunar út í geiminn þar sem hún rekst á miklar hindranir. Ofsafenginn bardagi umlykur slíkar sendingar, þess vegna er þörf á rafsveip sem vörn. Þannig sveipir laða til sín vissar háþróaðar sálir, sem finna við það fyrir mikilli þreytu, því orka þeirra hefur tengst straumum með segulmagnstengingu. Ef þú finnur fyrir óútskýranlegri spennu og orkutapi, er hugsanlegt að þú hafir tengst slíkum geimsendingum.

Á mestu umbrotatímum heimsins sendum Við stundum hugsanir sem greinir á við langanir flestra manna. Menn skilja ekki að brjálsemi er ekki hægt að lækna með brjálsemi og reyna að endurtaka eyðingu sem Jörðin hefur orðið fyrir oftar en einu sinni. Við reynum að viðhalda jafnvægi eins og kostur er, en sameiginleg áhrif hins frjálsa vilja geta yfirbugað góðviljug ráð Okkar.

Urusvati mun ekki gleyma hve Við umbreytumst á tímum spennu og átaka. Lát mannkynið biðja um lækningu, því lækning er ekki möguleg án samþykkis.

16. Urusvati veit að líkama Okkar má greina í þrjú stig. Hvert stig hefur sín sérstöku einkenni og jafnvel hið efnisþétta stig er svo fíngert að ekki er hægt að líkja því við hið jarðneska. Fíngerða stigið er orðið svo aðhæft aðstæðum jarðneska andrúmsloftsins að það er mjög ólíkt hinum venjulegu hjúpum fíngerða sviðsins. Að síðustu, þriðja stigið, sem er mitt á milli hins efnisþétta og fíngerða, er einstakt fyrirbrigði. Öll þessi þrjú stig eru óvenjuleg og áhrif þeirra eru ekki auðveld fyrir jarðnesk lungu og hjörtu. Jarðneskur maður verður að venjast þeim, að öðrum kosti fengi hann að minnsta kosti ákafan hjartslátt. Þetta eru ekki galdrar, heldur hin náttúrulega þensla andrúmsloftsins í bústað Okkar.

Sérhvert hús á Jörðinni hefur sitt eigið andrúmsloft og hægt er að sjá hvar iðjusemi er ríkjandi, því þar er andrúmsloftið mettaðra. Í Bræðralaginu, þar sem allir eru gæddir mikilli spennu, þar sem eru svo mörg máttug tæki, og þar sem svo margar mismunandi tilraunir eru gerðar samtímis, er andrúmsloftið mjög mettað. Gleymið ekki birgðum ýmissa efna og lækningaplöntunum, sem bæði stafa frá sér ákaflega máttugum áhrifum. Hægt er að forðast lykt, en útgeislun er óhjákvæmileg. Mikið samræmi verður að ríkja á þeim stað þar sem hugmyndir eru sendar út í geiminn.

Lamar tala um bústað hinna miklu sólarhöfðingja. Sérhver lýsir Shamballa eftir sínum eigin skilningi. Rætt er um fjársjóði, sem er rétt, en þeim er lýst á mismunandi hátt. Goðsagnir um bardagamenn Okkar eru til um allan heim og það er fótur fyrir þeim. Einnig er lýst mörgum hliðum og speglum. Goðsögin um Tashi Lama sem veitir aðgang að Shamballa er táknræn. Svipuð tákn sem finnast vítt og breitt um heiminn sanna hve mikil sannindi hafa breiðst út. Í Mexikó til forna var jafnvel til vitneskja um Fjallið helga þar sem hinir útvöldu dvöldu. Það er ekki undarlegt að allar þjóðir Asíu geyma goðsagnir um Fjallið helga. Því er lýst nokkuð nákvæmlega, en sá sem ekki fær köllun kemst ekki til þess.

Margir leitast við að finna Okkur, en það er réttmætt að verjast slíkum ferðalöngum. Menn verða að finna Okkur, ekki landfræðilega, heldur í anda. Þið vitið hvers er vænst af Okkur – ekki aðeins vænst, heldur krafist – og kvartanir slíta síðustu þræðina. Menn átta sig ekki á því að kvartanir þeirra þétta andrúmsloftið sem nú þegar er mettað. Að sjálfsögðu er Okkur kennt um mistökin í samræmi við skilning þess sem kvartar: Við kunnum ekki að tala, Við kunnum ekki að skrifa! Menn átta sig ekki á því hve þessar kröfur eru óviðeigandi. Haldið ekki að Okkur mislíki; Við finnum einfaldlega til sorgar þegar Við sjáum að orkan er illa nýtt. Umræður eru æskilegri en kvartanir. Einlægar umræður eru í meira samræmi við andrúmsloftið í bústað Okkar. Sé mögulegt að veita hjálp, þá er hún hiklaust veitt. Í þessu fellst fegurð skapandi hugsunar.

Augljóslega erum Við til staðar til að hjálpa þeim sem þjást, en menn ættu ekki að brjóta niður hliðin með hnefunum. Sagt er „Ríki Guðs er unnið með mætti,“ en það er máttur andans en ekki hnefanna. Lát menn hugsa þannig um Bræðralagið og lát þá ekki gleyma hvar hin sönnu hlið er að finna.

17. Urusvati hefur ekki gleymt að í geymslum Okkar eru líkön af mörgum borgum og sögulegum stöðum, sem hafa sérstaka innri þýðingu. Þau þjóna þeim tilgangi að mynda tengingu milli hinna fornu staða og nýrra verkefna. Í geymslum Okkar eru einnig geymdir mikilvægir hlutir sem eru stundum sendir út í heiminn til að vera sem segull fyrir ákveðnar athafnir.

Það hefur mikla þýðingu að sendiboðar Okkar ferðast um tiltekna staði. Á sumum stöðum grafa þeir ákveðna hluti, annarsstaðar fara þeir einfaldlega um staðina og efla með því áru þeirra. Menn veita þessum pílagrímum enga athygli, en auga sagnfræðingsins gæti greint háttbundið eðli slíkra ferða. Þá mætti sjá að hinir helguðu staðir reyndust hafa mikla þýðingu í sögu þjóðanna.

Auk íbúa Bræðralagsins eru aðrir einstaklingar á Jörðinni sem sinna verkefnum fyrir Okkur. Hægt er, í gegnum söguna, að greina hvernig menn sem eiga ýmislegt sameiginlegt í aðferðum og verkefnum, hafa komið fram í mismunandi löndum. Yfirleitt var þessum mönnum tekið með tortryggni og fjandskap, þar sem menn skynjuðu ýmislegt hjá þeim sem ekki var unnt að tjá í orðum.

Í geymslum Okkar má sjá landakort með ádregnum landamærum sem ekki fylgja þeim sem nú eru í gildi. Grafnir seglar eru táknaðir með stjörnum. Stundum opinberast gildi þessara segla innan fárra ára.

18. Urusvati, í fíngerða líkama sínum, tekur sífellt þátt í hjálp Okkar fyrir mannkynið, Í flugferðum sínum í fíngerða líkamanum veita samverkamenn Okkar mönnum svo mikla hjálp að ekki er unnt að skrásetja það allt. Hafa þarf í huga að við tökum mjög sjaldan þátt í svonefndum miðilsfundum spíritista og Við teljum slíka fundi skaðlega vegna þess hve orkuútgeislun þátttakenda er full ósamræmis. Það kemur varla fyrir að nokkur hópur sé myndaður þar sem tekið er tillit til hinnar mismunandi orkuútgeislunar einstaklinganna. Hægt er að gera sér í hugarlund hverskonar verur það eru sem svara hinu ósamræmisfulla hugarástandi hópsins og koma fram og efnisbirtast á slíkum fundum og við höfum nú þegar vakið athygli á heimskulegum svörum við heimskulegum spurningum frá þessum hópum!

Framkoma Okkar og hjálp er með öðrum hætti. Við björgum verðugum á hættustund. Með blíðlegri snertingu vekjum við athygli leitenda og vörum þá við skaðlegum ákvörðunum þeirra. Við hjálpum til við að skapa og styðja við hið góða. Vinna okkar er tileinkuð þekkingu. Við hjálpum sérhverjum gagnlegum verkamanni, óhindraðir af hefðbundinni aðgreiningu í kynþætti og stéttir. Við fylgjumst með af kostgæfni til að greina alla geisla sem glampa frá afrekum unnum í sjálfsfórn. Musteri Okkar er musteri þekkingar. Þangað færum Við allt hið æðsta og þar gætum Við allra framtíðaráforma.

Glatið ekki hinu beina sambandi við Okkur. Lát það vera æðstu tjáningu tilveru ykkar. Leyfið ekki að slíkt samband verði að formlegri skyldukvöð. Þvinguð viðleitni getur aldrei orðið styrkur grunnur, því að í fíngerða heiminum verður öll vinna að vera náttúruleg tjáning hins frjálsa vilja. Reynið ekki að þvinga neinn til slíkra starfa, því að löngun verður fyrst að myndast í vitundinni. Það er erfitt að dæma um það hvenær löngun vaknar til að vinna fyrir mannkynið. Allir geta fundið sína leið og Við munum veita þeim hjálp á þeirri leið.

19. Urusvati er þakklát Indlandi og Tíbet fyrir að veita Bræðralaginu vernd sína. Við getum sannarlega verið þakklát fyrir að Bræðralagshugtaksins sé svo vel gætt. Yfirleitt er lagst gegn því þar að rætt sé um Bræðralagið og ekki er greint frá nöfnum, því betra er að afneita tilvist Bræðralagsins en að svíkja það. Munnmælanna um Bræðralagið er gætt, ásamt hinum helgu bókum.

Forvitni Vesturlanda er Austurlandabúum illskiljanleg. Við skulum athuga hvers vegna Vesturlönd vilja fá vitneskju um Bræðralagið. Vilja vestrænar þjóðir líkja eftir Bræðralaginu í daglegu lífi? Vilja þær hafa lögmál Bræðralagsins í heiðri? Vilja Vesturlönd dýpka þekkingu sína? Hingað til hafa þau aðeins sýnt fram á fánýta forvitni og leitað að ástæðum til að gagnrýna og ásaka. Við munum ekki hjálpa þeim á þeirri leið.

Ímyndum okkur að hernaðarleiðangur uppgötvi Bræðralagið. Það er auðvelt að gera sér í hugarlund hvað kæmi út úr slíkri uppgötvun og fordæmingarnar og ásakanirnar sem kæmu í kjölfarið! Krossfestingar eiga sér stað enn þann dag í dag. Vesturlönd hafa aldrei skilið eðli Helgivaldsins. Einvaldshugtakið hæfir ekki Helgivaldinu. Við höfum lögfest þá hugsun að máttur fellst í sjálfsvörn. Hver af núverandi leiðtogum heimsins myndi viðurkenna slíkt lögmál?

Við skiljum vel eðli Austurlanda og vegna eðli þeirra skyldi enn frekar taka eftir virðingu þeirra fyrir aðsetri Okkar. Mörg ashröm voru flutt til Himalajafjalla, vegna þess að andrúmsloft annarra staða var orðið óþolandi. Síðasta egypska ashramið var flutt til Himalaja vegna hinna vel þekktu atburða í Egyptalandi og á nærliggjandi svæðum. Við upphaf Harmagedóns gerðist nauðsynlegt að safna öllum ashrömunum saman í aðsetrinu í Himalajafjöllum. Rétt er að menn viti, að nú á dögum yfirgefum Við ekki aðsetur Okkar og Við ferðumst til fjarlægra staða eingöngu í fíngerða líkamanum. Þannig opinberast gögn um innra líf aðseturs Okkar.

20. Urusvati gerir greinarmun á hagstæðum straumum og þeim straumum sem hindra. Menn geta gert sér í hugarlund viðbrögð mikils mannfjölda sem er gripinn sömu tilfinningu. Síðar munum Við greina frá tilraunum sem gerðar voru mitt á meðal mikils mannfjölda og niðurstöðurnar munu sýna fram á yfir hversu miklar fjarlægðir orka mannfjöldans getur borist. Hugarástand fjarlægra hópa greinist einnig sterklega í aðsetri Okkar. Það er ekki að ástæðulausu að Við leggjum mikla áherslu á að halda vingjarnlegri einingu. Jafnvel niðurstöður hreinna lífeðlisfræðilegra tilrauna eru mismunandi í samræmi við efnaáhrif þátttakenda og nálægð einnar persónu getur haft áhrif á virkni næmra mælitækja. Þetta þýðir að ruglingsleg og reiðileg útgeislun mannfjölda getur truflað mikilvægar tilraunir, en það veldur Okkur miklum erfiðleikum.

Við leitumst við að breyta sálrænu ástandi fjarlægra hópa í þeim tilgangi að vernda vísindarannsóknir Okkar. Arkimedes verndaði uppgötvanir sínar fyrir sýnilegum barbörum, en hversu miklu erfiðara er að verja vísindalega fjársjóði gegn ósýnilegum, ofbeldisfullum skemmdarvörgum! En það eru ekki aðeins skemmdarvargar og óvinir sem eru Okkur ógn, heldur einnig stuðningsmenn sem skapa ósamhljóma aðstæður. Við erum tilbúnir að biðja þá innilega að skemma ekki formúlur Okkar. Það eru mörg slík afbrot til, en í rót þeirra fellst vantrúin í öllum sínum myndum.

Gerið ykkur í hugarlund að í aðsetri Okkar trufli sérhvert hljóð samræmi sveiflutíðninnar. Við höfum hljóðeinangrað rannsóknarstofur Okkar nægilega vel, en ekki er hægt að stöðva sálræna orku. Samstarfsmenn okkar nær og fjær verða að hafa skilning á því hvaða hugarástand er Okkur hjálplegt. Mikil þjónusta er ætíð samvinna í þjónustu. Allir sem hafa nálgast Okkur, jafnvel aðeins einu sinni, hafa þá þegar axlað þá ábyrgð að forðast að hindra vinnu Okkar.

Turnar Okkar eru á mörgum hæðum og rannsóknir eru stöðugt í gangi. Hver er svo hugsunarlaus að dirfast að skyggja á hina uppsöfnuðu orku? Endurkastið getur orðið mjög kraftmikið og enginn getur komið í veg fyrir það ef grundvallarorkan er komin á hreyfingu. Við vörum því við því að vekja upp óþægilegt endurvarp.

21. Frá frumbernsku hefur Urusvati geymt í hjarta sínu þá lifandi vitneskju að kennari ljóssins sé „einhversstaðar.“ Aðeins minningar um raunverulega atburði gætu kallað fram í vitund barnsins svo skýra mynd. Við fögnum þegar við sjáum að samverkamenn Okkar geyma innra með sér, allt frá fyrstu stund lífsins, mynd af því sem þeir hafa áður séð. Ráðvilltur andi sér allt í óreiðu, en andi sem er upplýstur af mörgum afreksverkum geymir skýrar minningar.

Þótt leiðbeiningar séu skýrar, geymast þær sjaldan í minni hins nýja líkama, en þegar pílagrímur hefur verið sendur af Okkur, eftir að hafa áður haft samband við Okkur, fær hann skýrar minningar, jafnvel í frumbernsku. Hann sér ljósfánana. Við komum til hans í ýmsum myndum. Hann heyrir silfurbjöllur Okkar og þanin silfurþráður hans er tengdur Okkur.

Þessari litlu stúlku var stýrt af sinni eigin vitund til fyrirfram ákveðinna afreksverka, án nokkurrar hvatningar frá öðrum. Þessi pílagrímur ljóssins hélt ótrauður áfram, þrátt fyrir slæmar aðstæður í bernsku. Eftir að hafa öðlast innri styrk, fékk hún loks í sýn boð Okkar til framkvæmda. Við fögnum þegar slíku verkefni er tekið, ekki í orðum, heldur með eldi hjartans. Slíkur eldur er undanfari uppljómunar og helgra þjáninga. Því aðeins með því að veita þjáningum viðtöku getur kviknað fyrsti vísirinn að gleði viskunnar. Hún fæst aðeins með þjáningu. Aðeins með Okkur verður þessi gleði til.

Urusvati kom til þessa heims að eigin frumkvæði. Orðið um eldinn hafði verið ákvarðað í fyrri samskiptum hennar við Bræðralagið. Orðið átti að kunngera á tímum Harmagedón. Ekki auðveldur tími! Ekki auðvelt orð, ekki auðvelt að segja frá tilvist Bræðralagsins þegar öll máttaröfl myrkursins berjast gegn því. En Við fögnum og tökum því opnum örmum þegar afreksverk rísa.

Ætlið ekki að innra líf Okkar sé ráðandi. Þvert á móti, ímynd mannsins er mótuð af manninum sjálfum. Sérhver silfurþráður hljómar eins og strengur í óendanleikanum.

22. Urusvati getur borið vott um hið mikla hjartans. Ofar og handan virkni allra orkustöðvanna er gildi hjartans augljóst. Lítill skilningur er á gildi hjartans, en samanborið við það virðist Kúndalini jarðneskt. Litið er á hjartað sem miðdepil hins jarðneska lífs, en sú viðmiðun er ekki fullnægjandi. Hjartað er brú milli heimanna. Þar sem tengsl heimanna þriggja eru sérstaklega virk, er gildi hjartans skynjað á djúpstæðan hátt. Í aðsetri Okkar er sérstök virðing borin fyrir hjartanu.

Til eru þeir í aðsetri Okkar sem hafa gengið í gegnum jarðvistarskeið með margra alda millibili. Ætla mætti að hugarfar þeirra sé gerólíkt hugsunarhætti nútímans, þar sem hugarfarið breytist algerlega eftir þrjár kynslóðir, en Við tökum ekki eftir því í samvinnu Okkar. Ein megin ástæðan er víkkun vitundarinnar, en það eitt er ekki nægjanlegt. Hið nauðsynlega er samvinna hjartastöðvarinnar. Aðeina hjartað getur sameinað vitundir sem eru aðskildar um margar aldir. Eiginleiki hjartans er nauðsynlegur við allar fíngerðar athafnir.

Þegar menn hafa viðurkennt möguleikann á hugsanaflutningi yfir miklar fjarlægðir, munu menn öðlast skilning á þeim aðstæðum sem ráða þessum fíngerðu athöfnum. Sagt verður að þörf sé á samræmi, en samræmi ræður því ekki hvaða orkustöð verður notuð. Við hugsanaflutning er hjartað helsti aflvakinn.

Þið sendið hugsanir, stillið hjarta ykkar, en munið að þensla hjartans ber með sér eldlega ógn. Aðeins sá sem hefur reynt slíkan bruna, ótjáanlegan í orðum, getur þekkt þessa miklu hættu. Þessi þjáning er mest hinna helgu þjáninga og orsakast af ójafnvægi milli heimanna. Margvíslegir hjartakvillar stafa af þessari sömu ástæðu. Menn kæra sig ekki um að gæta að þessu virki, hjartanu, sem varðveitir eldlegt fræ sitt um allan heim.

Hugsanlega hafið þið heyrt að hægt sé að vekja þennan eld með því að beita krafti. Slíkt er mögulegt, en ákaflega hættulegt, því eldurinn getur komist í snertingu við eld umhverfisins, með eyðileggjandi afleiðingum.

Gildi hjartans er mikið; í framtíðinni mun það koma í stað flókinna tækja. Sannlega, í nýja heiminum munu koma fram menn sem búa yfir lífkerfi sem er fært um slíkt. Nú á tímum smíða menn róbóta, en eftir að þessi véla-sótthiti hefur rénað mun athygli manna snúast að mættinum sem býr með þeim sjálfum.

Í aðsetri Okkar er öllum rannsóknum beint að því markmiði að leysa manninn frá vélum. Í þeirri viðleitni verða menn að mennta hjartað. Menn verða að læra að hlusta á rödd þess. Þeir sem ásaka okkur um eigingirni ættu að hafa í huga alla Okkar nafnlausu vinnu.

23. Urusvati hefur mörgum sinnum orðið vitni að lækningaraðferðum Okkar með sveiflutíðni. Þeir tímar munu koma að læknavísindin munu breytast. Sveiflutíðni og sefjun með dáleiðslu verður beitt samhliða lyfjameðferð og hinir stóru skammtar sem nú eru oftast notaðir verða minnkaðir. Aðeins verður þörf fyrir lyfjagjöf í litlum mæli, en batinn mun að mestu byggjast á sveiflutíðni og sefjun. Smáskammtalæknar sáu að vissu leyti fyrir framtíðarstefnuna í lyfjagjöf, en nú á tímum geta aðeins þeir smáskammtalæknar náð árangri, sem búa yfir mikilli sálrænni orku. Ef til vill eru þeir ekki meðvitaðir um ástæðu árangursríkra lækninga sinna, en smám saman munu þeir læra um samræmi innri og ytri áhrifa og þá munu hinar nýju lækningaraðferðir hefjast. Nú á tímum, vegna þess hve þekkingin er á lágu stigi, eru læknar hikandi við að viðurkenna að það sé að mestu leyti þeirra eigin sálræna orka sem sé virki þátturinn í lækningunni. Þeir eru reiðubúnir að þakka árangur sinn mjög veikum lyfjaskömmtum, en gera sér ekki grein fyrir sínum eigin máttugu áhrifum.

Mjög fáir gefa nokkurn gaum þeirri sveiflutíðni sem skynjast við tilteknar kvalir. Ef þeir gerðu það myndu þeir taka eftir því að eftir að kvalirnar hurfu, hvarf einnig titringurinn sem hafði komið rúmi þeirra á hreyfingu. Í aðsetri Okkar þróum við lækningaraðferðir með sveiflum, sem getur haft áhrif yfir miklar vegalengdir, ef sjúklingurinn meðtekur hin fíngerðu áhrif. Sjálfviljug og algjör móttaka er nauðsynleg, að öðrum kosti rofna straumarnir og hörmungar eru óhjákvæmilegar.

Í aðsetri Okkar notum Við einnig sveiflutíðni sem kemur þeim að gagni sem eru mitt á milli efnisþétta og fíngerða sviðsins. Það er ekki af tilviljun að Okkur er umhugað um sviðið milli hins efnisþétta og fíngerða. Fyrir mörgum öldum höfðu menn séð fyrir þennan vanda og hans vegna er þörf á sérstakri aðgæslu.

24. Urusvati hefur skilning á þeirri samsvörun sem er á milli svefns og vöku. Fyrir sumum er svefninn andstæða vökunnar, en fyrir Okkur er svefninn áframhald vinnu, en á öðru tilverustigi. Ekki ætti að líta á svefn á annan hátt. Ekki er hægt að neita því að hann sé nauðsynlegur. Við sumar aðstæður er þörf á minni svefni, en þörfin fyrir hann hverfur aldrei. Í mikilli hæð getur fjögurra stunda svefn verið nægilegur, en það gildir aðeins í vissri hæð.

Trúið því ekki ef einhver reynir að sannfæra ykkur um að hann þurfi engan svefn. Þrátt fyrir hinn skelfilega sjúkdóm svefnleysi, verða menn að viðurkenna svefninn sem nauðsynlegan þátt í tilveru þeirra. Allar gerðir svefns færa menn nær fíngerða heiminum. Í svefni eru mismunandi stig vitundar og rækta þarf skýrleika vitundar. Menn ættu að endurtaka fyrir sjálfum sér, áður en þeir sofna, að þeir séu að halda til nýrra starfa. Ef frjálsi viljinn samþykkir þetta, verður auðveldara að nýta kraftana í fíngerða heiminum. Hafið ekki áhyggjur af því að hvíldin verði minni. Hvíldin verður fullkomin, vegna þess að í fíngerða heiminum nota menn fíngerða eiginleika sem leiða ekki til þreytu.

Það er mun verra ef menn leggjast til svefns yfirkomnir af veraldlegum löngunum og hugsa aldrei til æðri heimsins. Í stað þess að vera niðursokknir í upplýsandi athafnir og þekkingu, reika menn um á myrkum sviðum og hina þreytandi samfundi þar er auðvelt að ímynda sér. Þegar menn sofna, ætti það að vera meðvituð tilfærsla inn í æðri heim. Hinn frjálsi vilji mun lyfta ykkur upp á vængjum sínum. Ég ræði um svefn í þeim tilgangi að sýna ykkur fram á að í aðsetri Okkar er Okkur ekki ókunnugt um þá sérstöku gerð svefns, sem er flutningur vitundar yfir í æðri heim.

Urusvati skilur það rétt að Við erum ekki mótfallnir tjáningu hins frjálsa vilja. Í tjáningu frjálsa viljans liggur Okkar máttur.

25. Urusvati hefur oft útskýrt hvers vegna Við erum nefndir „Hin ósýnilega stjórn.“ Sannlega skynja allir á einhvern hátt að einhversstaðar sé til miðstöð þekkingar. Þar sem þekkingin er, þar er líka máttur. Það er ekki að ástæðulausu að suma dreymir um Okkur, þótt aðrir hati Okkur og vilji leggja bústað Okkar í eyði.

Þeir sem athuga heimsviðburði geta greint eitthvað sem er handan mennskra raka. Jafnvel sumir sem eru Okkur trúir hafa margsinnis ásakað Okkur um tafir og sinnuleysi, en það er vegna þess að þessir fljótfæru ásakendur hafa aðeins séð hluta atburðanna. Þeir hafa enga möguleika á að þekkja orsakir þeirra né afleiðingar, né heldur bera saman aðstæður sem tengjast þeim. Þeir gætu ekki séð fyrir nákvæmlega hvenær veita verður úrslitahöggið. Hver getur þá þekkt áætlunina og þrepin sem leiða þangað?

Vegna þessa ófullkomna skilnings krefjast menn þess að fá að fara sínar eigin leiðir, en lærisveinar Okkar munu aldrei hindra ákvörðun fræðarans með valdi. Þeir skilja hvernig samræma á frjálsan vilja sinn ákvörðunum Okkar. Nauðsynlegt er að búa yfir miklu jafnvægi til að skilja viskuna í leiðsögn Okkar, án þess að brjóta gegn frjálsum vilja sínum. Okkur er mjög annt um slíkt jafnvægi. Bestu leiðtogar þjóðanna höfðu slíkt jafnvægi og því var auðveldara að senda þeim ákvarðanir Okkar.

Mikhail Ilarionovich Kutuzov (Green Laurel), sem þið hafið oft rætt um, gat sameinað leiðtogahæfileika og næmni fyrir ráðum Bræðralagsins. Hann þáði leiðbeiningar Saint Germains með fullkomnu trausti. Í því fólst velgengni hans. Ef til vill kom Saint Germain sérstaklega til að undirbúa þennan framtíðar leiðtoga.

Um allan heim má finna fastmótuð kennileiti leiðbeininga Okkar. Sumt upplýst fólk meðtekur þær, en sumir þjóðarleiðtogar höfnuðu ráðum Okkar og steyptu með því löndum sínum í ógæfu. En jafnvel þeim aðstæðum breyttum Við til góðs. Þið þekkið andstöðutæknina (Tactica Adversa).

Það má minna á hrokafullan þjóðarleiðtoga sem fékk aðvörun frá Okkur á undan fyrri heimstyrjöldinni, en kaus að hafna ráðum Okkar og missti embætti sitt. Annar þjóðhöfðingi vildi ekki heldur hlusta á sendiherra Okkar, en kaus að gefa þjóð sína ringulreiðinni á vald.

Ekki er rétt að segja að fyrr á tímum hafi leiðbeiningar verið veittar oftar. Nú á tímum eru einnig mörg slík ráð gefin, en eyra mannkynsins heyrir þau ekki frekar en endranær.

Við stöndum vörð um allan heim með vakandi athygli.

26. Urusvati hefur oft varað vini sína við árásum myrkraaflanna. Hvarvetna er þörf á slíkum viðvörunum. Látið ykkur ekki til hugar koma að myrkraöflin hætti eyðandi árásum sínum. Rotnun er næring þeirra, morð er atvinna þeirra. Andlegur og líkamlegur yfirgangur er gleði þeirra. Gerum ekki ráð fyrir að þau reyni ekki að brjótast í gegnum hin rammgerðustu virki. Þau myndu frekar farast en að hætta mannskemmandi spillingarstarfi sínu.

Sumt grunnhyggið fólk telur að með helgisiðum og ákalli helgra nafna veitist því um leið vörn gegn myrkum árásum. En það eru ekki helgisiðir, heldur hinn hreini eldur hjartans sem veitir traustan skjöld.

Hinar kænlegu aðferðir myrkraveranna eru margvíslegar. Auk grófra árása geta einnig verið fíngerðar atlögur að veikari hliðum manna. Ein uppáhaldsaðferð myrkraveranna er að skapa efa, því sá sem er gripinn efa er um leið orðinn varnarlaus. Það mætti gera ráð fyrir að þessi frumregla sé nægilega vel þekkt, en hversu margir eru ekki þeir sem yfirbugast af þessu eitri! Ég tel að stór hluti þeirra sem tala gegn sannleikanum hafi mótast af hinum hvíslandi röddum efans. Þeir sem augljóslega eru heimskingar eru ekki eins varasamir og smásálarlegir hræsnarar. Ef ný tegund eiturs er fundin upp, ætli ný tegund hræsni verði þá ekki einnig til? Þessa lýsingu á árásum myrkraaflanna verðið þið að hafa í huga, þegar þið gerið ykkur mynd af innra lífi Bræðralagsins.

Við erum ætíð á verði. Aldrei líður svo klukkustund að ekki gerist nauðsynlegt að stöðva hættulega árás myrkraaflanna. Ætlið ekki að þau ráðist aðeins á fylgjendur Okkar. Þau reyna að leggja allt uppbyggjandi starf í rúst og vegna lögmáls sveiflutíðninnar er þeim unnt að finna fræ góðleikans sem þau hata svo mikið. Við skulum ekki eigna þeim alvisku, en þau skynja vissulega andstæðinga sína. Orkan sem fer í að sporna við árásum myrkraaflanna gerir vinnu okkar erfiðari. Þau vita að þau geta ekki sigrað Okkur endanlega, en þau taka til sín orkuna sem er send út í geiminn. Þegar Við biðjum um einingu og traust, er það hjálparbeiðni Okkar til að flýta sigrinum.

Mörg merki fljúga til Okkar. Enginn getur gert sér í hugarlund hve mikið uppnám er ríkjandi í heiminum! Menn hafa gleymt að hvert land geymir mörg hjörtu. Þeirra kvöl er Okkar kvöl!

27. Urusvati hefur heyrt þjóðsöguna um þjónustuandann sem byggði musteri. Allar þjóðsögur búa yfir sannleikskorni og hinar sögulegu upplýsingar um hin margvíslegu svik sem fylgt hafa allri uppbyggingu eru einnig sannar. Sagt hefur verið að svikin séu eins og skugginn sem gefur til kynna hæð byggingarinnar. Við höfum verið reyndir með alls konar svikum og Okkar hefur verið freistað með margvíslegum kænskubrögðum. Einnig hefur verið sagt, að til að auka kærleik sinn til mannkynsins verði menn að þekkja öll skuggadjúp þess. En hver hefur þolinmæði til að kafa ofan í öll hyldýpi án þess að missa traust á mannkyninu? Aðsetur Okkar er slíkt virki þolinmæði, og þeir sem hafa verið með Okkur, þeir sem hafa heyrt af Okkur, þeir sem geyma sambandið við Okkur í hjarta sínu, það eru þeir sem íklæðast slíkri brynju þolinmæði. Við metum þennan eiginleika mikils, því hann tilheyrir óendanleikanum.

Menn verða að öðlast skilning á óendanleikanum í sjálfum sér, annars er Turn Okkar þeim óaðgengilegur. Menn ættu að leita til Okkar á tímum þjáninga og hörmunga. Þeir munu fá hjálp Okkar ef hjörtu þeirra hafa ekki orðið að steini. Jafnvel hinir óreyndu fá tækifæri til uppbyggjandi vinnu, búi þeir yfir hugrekki ljónsins og hafi skilning á Helgivaldinu. Lát þessa samverkamenn vera þess fullvissa að frá vinnustöð þeirra til Okkar er strengdur þráður. Lát þá draga til sín orku frá fullvissunni um tilvist Bræðralagsins. Við munum hjálpa þeim ósýnilega, við munum finna bækur sem þeir þarfnast, Við munum sameina þá í voninni um hina fjarlægu heima, Við munum efla traust þeirra og við munum finna fyrir þá kærleiksríkt hjarta að því tilskyldu að þeir hafi rekið burt snáka sína og sporðdreka. Hér hafið þið komist í kynni við mjög mikilvægan þátt í lífi Okkar.

Þið getið ímyndað ykkur gleði Okkar þegar við finnum samverkamenn sem eru verðugir trausts Okkar. Leitandi andi þeirra óttast ekki prófraunir. Aðeins hræsnarar óttast að ljósgeislinn geti upplýst hin dimmu djúp tilveru þeirra. Opin hjörtu mynda fagurt hálsmen fyrir æðri heimana.

Fræðarinn hafnar ekki skyldum sínum. Allur dagurinn fer í að sinna skyldunum. Sá sem hræðist þessi orð ætti ekki að hugsa um Bræðralagið.

28. Urusvati hefur dáðst að blómum Okkar, í sumum tegundum höfum Við vissulega náð fullkomnun. Mikilvægust er notkun sálrænnar orku, þar sem hún stuðlar að vexti jurtanna. Við vökvum einnig með sóda og á þann hátt vinnum við bæði frá innri og ytri hlið. Hægt er að gera víðtækar tilraunir með sálræna orku, en það verður að gera slíkt á skipulegan hátt og muna að þörf er á miklum tíma og þolinmæði. Margar tilraunir sem skiluðu góðum árangri í byrjun hafa menn eyðilagt með skorti á þolinmæði. Að auki má benda á að sveiflutíðni Okkar er samræmd og vegna þess hve sálræn orka Okkar er samhæfð, geta allir meistararnir komið í stað hvers annars.

Menn skilja ekki að hvaða leyti þessar rannsóknir komi þeim að notum. Sálræna orku verður bæði að gefa og þiggja. Það getur verið þreytandi að senda þessa orku til fólks, en þegar jurtir eiga í hlut kemur ekkert óþægilegt endurkast. Gleymum ekki heldur að Við höfum nána samvinnu við fíngerða heiminn og það forðabúr getur auðveldlega endurnýjað orkubirgðir Okkar.

Margir eiga erfitt með að ímynda sér hvernig samvinna getur átt sér stað milli vera á þremur mismunandi vitundarstigum, en í reynd er þetta ekki svo flókið. Samstarfsmenn í fíngerðum líkama eru oft sýnilegir. Í þessu skyni er ekki þörf fyrir neitt útfrymi, í þess stað eru notuð ákveðin efnasambönd sem auðvelda þéttingu fíngerða líkamans. Á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar sáu margir sýnir, en enginn gerði sér grein fyrir því að ástæðuna var að finna í sérstökum efnafræðilegum hvötum. Aðstæður eru svo misjafnar að oft getur eitthvað sem veldur niðurbroti á efnissviðinu haft gagnstæða verkun í fíngerða heiminum.

Urusvati varð undrandi þegar hún sá að blóm sem vaxa á láglendi þrifust vel í þeirri miklu hæð sem Við búum í. Ályktið ekki að slík loftlagsaðlögun gerist hratt. Urusvati hefur hitt hinn tíbeska vin sinn í blómagörðum Okkar. Við höfum einnig margar plöntur inni í byggingum Okkar. Við margar tilraunir er nauðsynlegt að nota lifandi efnivið blómanna. Við ráðleggjum einnig að menn tali meira við blómin, því þeir straumar eru mjög nátengdir fíngerða heiminum. Við beinum mætti okkar til alls í tilverunni. Með því móti fáum við þá lífrænu einingu sem Ég hef oft lagt ríka áherslu á.

29. Urusvati metur hjálp Okkar mikils. Sá sem metur eitthvað mikils gætir þess einnig vel. Öll sönn samvinna hefur fyrst og fremst þörf fyrir varfærið viðhorf. Menn ættu ekki að atyrða Helgivaldssamvinnu af skeytingarleysi, en hlýða með virðingu á rödd hinna eldri. Jafnvel þeir sem af fákunnáttu geta ekki gert sér grein fyrir tilvist Bræðralagsins, geta samt viðurkennt tilvist yfirjarðneskra radda. En þeir sem geta viðurkennt Bræðralagið innra með sér ættu að skilja að allt léttúðugt hugarflökt truflar flæðið í hugsun fræðarans. Sérhvert óviðeigandi orð veldur einhvers staðar brengli. Sérhver slitinn þráður getur hringast upp í snöru. Þetta er ekki ætlað sem hótun, heldur er aðeins sett fram af löngun til að leiða fram betri árangur.

Rétt er að muna eftir visku Indlands til forna, þar sem skyldan var lykilatriði í uppbyggingu lífsins. Hugtakið um skyldu hefur eina rót og hún verkar í samræmi við það í öllum sínum mörgu greinum. Hugtakið um fræðarann er Okkur heilagt. Sérhver Okkar hefur átt sinn fræðara, og þrepin í þessum stiga eru óteljandi. Það er jafnvel ekki nein fullkomnun að vera höfuð plánetu, því það getur ekki verið um neina endanlega fullkomnun að ræða. Í þessu fellst gleði. Ef hin ósegjanlegu nöfn hinna æðri meistara væru sögð, ylli það gríðarlegum skaða. Þannig svik gætu haft víðtækar afleiðingar. Það gætu orðið sýnilegar og ósýnilegar sprengingar. Menn ættu að venja sig á meiri umhyggju í viðhorfi sínu gagnvart Helgivaldinu.

Þeir tímar voru eitt sinn er menn vissu hvernig átti að tjá hugtakið um hið æðsta á sem bestan hátt, en nú er enginn skilningur á hinni miklu þjónustu. Menn gætu ætlað að slíkt væri ekki mögulegt, þar sem fíngerði heimurinn er að nálgast og svo oft er um Okkur rætt. En hyldýpi myrkursins minnkar ekki þegar hugtakið um fræðarann er efað. Þið hafið oft heyrt, að það eru þeir sem vita um Bræðralagið sem enn tala um það af óvirðingu, en slíku tali fylgir eyðilegging.

Menn þröngva upp á Okkur sínum eigin leiðum til að hjálpa, en slík þvingun myndar brot í straumunum. Umhyggjusöm húsmóðir harmar alla sóun. Það ylli mikilli gleði ef þeir sem vita um Helgivaldið myndu af sjálfsdáðum koma með sína eigin lampa.

Frjáls vilji er hreyfiafl Okkar.

30. Urusvati er kunnugt um hinar ýmsu birtingarmyndir ljóssins. Sjái menn ljósblossa er það vísbending um andlega næmni augans. Sjálfir ljósblossarnir hafa enga sérstaka merkingu, en þeir eru sem flögg á leiðinni til Okkar. Menn taka ekki eftir norðurljósunum á lægsta birtustigi sínu. Sambærilega eru fyrstu glampar andans mörgum ekki skýrir. Hægt er að sjá að smáir bjartir neistar geta brotist út í loga og myndað ljós sem minnir á regnboga. Þannig lifnar fögur ára umhverfis fólk. Það má taka fram að þessi ljós eru einstaklega sýnileg í aðsetri Okkar. Þeim hefur verið safnað saman frá fornu fari og sé þess óskað, er hægt að láta þau blossa fram með miklum ljóma. Í þjóðsögum er minnst á menn sem gátu umvafið sig björtu ljósi. Þannig er hægt að umvefja sig eldlegum krafti sé þess óskað.

Menn verða að venjast möguleikanum á slíkum fyrirbrigðum. Nú á tímum geta sumir greint árur, en aðrir nudda augun og halda að eitthvað hafi komið fyrir sjónina. Slíkur ljómi um hábjartan dag líkist oft einhverskonar mistri. Menn skynja þetta ljós á mismunandi hátt. Meðal Okkar er þessi hæfni orðin svo mikil að Við getum lesið við birtuna frá Okkar eigin ljósi.

Hafa verður í huga að hugtakið myrkur hverfur smátt og smátt, vegna þess að menn eru umvafðir eldum, geislum, ljóssúlum og óteljandi leiftrandi blossum, sem eru sýnilegir hvort sem er með opnum eða lokuðum augum. Það er rétt, myrkrið hverfur. Rökkrið ríkir aðeins á lægri sviðum fíngerða heimsins, vegna þess að íbúar þeirra vita ekki hvernig vekja á upp ljós. Sú hæfni byggist á hugsun og hugsun fæðir af sér ljós. Vissulega, hugsuður sendir út skipunina: „Verði ljós!“ Þannig eru hin miklu sannindi kennd, þó menn líti aðeins á þau sem ævintýri.

Aðeins í anda og með persónulegri reynslu er unnt að meðtaka flest náttúruleg lögmál. Ekki er auðvelt að sigrast á öllum mótstöðuöflum umhverfisins. Aðsetur Okkar er svo máttugt vegna þess að í því finnst ekki nein spilling. Vilji Okkar allra er sameinaður í einn máttugan straum. Aflvaki einingar eflir allar orkutegundir. Ekki galdrar, heldur hreinn vilji sendir út í heiminn boðin: „Verði ljós!“

Aðsetur Okkar er vottur um sigur einingar.

31. Urusvati skilur réttilega ástæðu þess að útlit Okkar hefur haldist óbreytt um langan tíma. Samskipti við fíngerða heiminn gefur sérstakan eiginleika sem tilheyrir fíngerða heiminum. Þar breytist útlit manna ekki nema sérstök löngun sé til þess. Hugsun skapar form í fíngerða heiminum. Hægt er að kalla fram hvaða mynd sem er úr djúpi aldanna og lagfæra hana í ímynduninni, ef ímyndunaraflið er nægilega þroskað. Auk þessara áhrifa fíngerða heimsins er einingin, sem er mjög ríkjandi í aðsetri Okkar. Það er til hjálpar við alla þætti daglegs lífs. Það skapar hagstætt andrúmsloft og mótar eldlega vitund.

Þið hafið heyrt að bræður Okkar urðu veikir af því að komast í snertingu við jarðneskt ósamræmi og þjáðust oft vegna langvarandi misklíðar manna. Þetta er ástæðan fyrir því að Við komum svo sjaldan til borga ykkar og dveljum þar aðeins um skamma hríð. Hægt er að finna staði í náttúrunni þar sem straumar hnignunar eru ekki eins sterkir. Í Frakklandi og Englandi eru skógar nálægt borgum þar sem finna má nægilega mikið af hreinu andrúmslofti sem er Okkur bráðnauðsynlegt. Undrist ekki að Við, með Okkar samþjöppuðu orku, þörfnumst hreins lofts. Ályktið samt ekki að Við séum ekki nægilega sterkir til að standast útgeislun mannfjölda. Við getum svo sannarlega eflt orku Okkar gríðarlega, en í öllu ber að viðhafa aðgát og gera aðeins það sem er við hæfi.

Þið hafið lesið um hve ára vissra landeigenda var þjakandi fyrir bróður Okkar. Hann gat að sjálfsögðu hrakið þá á brott með einum blossa af orku sinni, en slíkt athæfi var ekki hluti af hans verkefni. Í mörgum tilfellum verðum Við að hagnýta geislaorkuna á viðeigandi hátt þannig að hún verði að sem mestu gagni. Þannig notkun við hæfi skilgreinir markmið Bræðralagsins. Það felur í sér uppfyllingu lögmála Okkar að verjast árásum myrkraaflanna, að verja þá sem hafa nýtt alla orku sína, og að leita allra leiða til að efla það sem vinnur heildinni til góðs.

Urusvati hefur fengið að vita að til eru ákveðin efni sen viðhalda jafnvægi og gefa lífkerfinu langlífi. Ég mun ekki upplýsa nákvæma samsetningu þessa efnis, því það getur verið hættulegt efnislegu lífi. Mikil geislavirkni er leyfileg á fíngerða sviðinu, en getur eyðilagt efnislíkamann. Við jarðneskar aðstæður getur jafnvel valeríana verið of kraftmikið; Þess vegna er nauðsynlegt að geta greint tengslin milli mismunandi efna. Sem dæmi má nefna að við ákveðna tilraun tók Bróðir minn inn mjög sterkt eitur, sem hefði verið banvænt fyrir venjulegan mann. En þar sem líkami Bróður míns var orðinn nátengdur fíngerða sviðinu, hafði eitrið aðeins góð áhrif. Hægt er að nefna mörg dæmi um að banvænt eitur olli ekki dauða. Ástæðuna má rekja til sérstaks ástands lífkerfisins.

Hægt er að sjá að sérstakt efnislegt ástand verður til hjá mönnum, þegar þeir komast í snertingu við fíngerða heiminn án þess að gera sér grein fyrir því. Það er vissulega athyglisvert að slíkir menn vita oft ekkert um hina mismunandi heima; samt sem áður liggur hjá þeim hugmynd einhvers staðar í djúpum vitundarinnar sem ekki er hægt að tjá. Í slíkum tilfellum notum við oft andstöðutæknina til að vekja vitundina. Nauðsynlegt getur reynst að viðhafa ýktar athafnir til að vekja þessa svefngengla. Það getur einnig verið nauðsynlegt þegar fengist er við ýmsa atburði í heiminum.

Þið sjálf harmið hversu mikið styrkleika skapgerðar hefur hrakað frá því sem var á fyrri tímaskeiðum. Það er rétt og Við getum séð hversu mjög sálrænni orku hefur hnignað. Hún er ekki virkjuð til athafna og helst því í óvirku ástandi og þar sem engin núningsmótstaða er til að vekja eld hennar, glatar hún eldlegu eðli sínu. Þess vegna er aðsetur Okkar enn afskekkt og allar umræður um það virðast óraunverulegar. Harmið það ekki. Ég fullyrði að bardaginn sjálfur sé til vitnis um styrkleika Bræðralagsins. Mikill er bardaginn á þessum dögum Harmagedón.

Hlustum og leggjum eyrun við jörðu, þar sem spenna fer vaxandi.

32. Urusvati fagnar þegar hún sér að vitundarvíkkun er að verða hjá einstaklingi. Sannlega er hægt að gleðjast þegar slík fórn er færð heiminum. Ekki er unnt að líta á vitundarvíkkun sem persónulegan hagnað, því að í allri slíkri hreinsun fellst almenn gagnsemi. Heimurinn fagnar sérhverjum neista vitundarvíkkunar. Það er sönn hátíð.

Í vissum launhelgum var vitundarvíkkun líkt við vorkomuna. Enginn getur fylgst með því hvernig grasið vex, en öll hjörtu fagna þegar fyrstu blóm vorsins birtast. Á sama hátt er ekki unnt að greina öll smáatriðin í vexti vitundarinnar, en ummyndun einstaklingsins er augljós. Sá sem ummyndast gerir sér ekki grein fyrir því hvenær og hvernig endurnýjunin byrjaði. Oft tiltekur hann léttvæga atburði, en lítur fram hjá því mikilvægasta sem hafði áhrif á hann.

Það er ekki af tilviljun að rætt er um þriggja og sjö ára tímabil, því aðeins er unnt að greina breytingar í vitundinni yfir svo löng tímabil. En Við og þeir sem eru Okkur nátengdir getum greint styttri vaxtartímabil í vitundinni. Garðyrkjumaðurinn þekkir sín eigin blóm best. Við fylgjumst einnig með vexti vitundarinnar hjá þeim sem eru Okkur nákomnir. Ástæður slíkra athugana eru margvíslegar.

Við getum staðfest að mikill árangur hefur komið fram hjá öllum sem hafa nálgast Okkur á árangursríkan hátt gegnum aldirnar. Við vitum hvernig á að vera þakklátur, eiginleiki þakklætis er ómissandi í aðsetri Okkar. Allt sem staðfestir Bræðralagið gefur góðan ávöxt. Öll aðstoð sem Okkur er veitt er mikils metin og allt umtal um Bræðralagið er varðveitt. Í aðsetri Okkar eru geymdar skrár um öll slík góðverk. Við viljum skrásetja öll vinsamleg bros og lærisveinar Okkar vita hvernig fagna á sérhverju góðviljuðu orði um Bræðralagið. Enginn getur kennt með valdi slíka geislandi gleði. Enginn getur fyrirskipað þakklæti. Aðeins víðtæk vitund getur gefið til kynna hvar unnt er að vinna meiri góðverk.

Venjulega vilja menn ekki ræða um vitundina, því framför er þeim erfið og það eru ekki margir sem halda áfram að afla þekkingar eftir að námsárum lýkur. Það ætti að ummynda allt lífið þannig að stöðugur lærdómur verði óumflýjanleg nauðsyn. Við fögnum sérhverri vöknun vitundar og Við skrásetjum sérhverja löngun til umhugsunar um Bræðralagið sem merki um árangur, jafnvel þótt það sé aðeins hugsun um hvernig á að beita sér eða hvernig vinna á að einingu.

33. Urusvati leitast við að nota hverja stund til að vinna heildinni til góðs; slíkur ásetningur fæðist í aðsetrinu, þar sem stundirnar eru ekki taldar. Er unnt að hugsa um klukkustundir á svo löngu æviskeiði? Við mælum ekki tímann í jarðneskum stundum, því það eru svo margar þarfir og hjálparbeiðnir frá öllum hlutum heimsins að ógerlegt er að deila vinnu Okkar niður eftir svo afstæðum mælieiningum. Við verðum að viðhalda vitund okkar í mikilli spennu til að vera reiðubúnir hvenær sem er að senda vilja Okkar þangað sem hans er mest þörf. Vafalaust verðum Við ásakaðir fyrir að senda of mikla hjálp til óverðugra og of litla til þeirra sem verðskulda hana.

Þeir sem dæma eftir venjulegum afstæðum viðmiðunum geta ekki greint orsakir og afleiðingar. Ég ræði ekki aðeins um spennu vinnunnar, heldur einnig um árvekni sem gerir það kleift að meta og ákveða á svipstundu hvaða andartak og hvaða athafna er mest þörf. Sérhvert ákall til hjálpar ber með sér fortíðaráhrif og ilm framtíðar. Það ætti að blanda saman þessum áhrifum í vitundinni og skilja merkingu ósamræmis. Við ættum ekki að veita hjálp þeim sem tilbúinn er til illverka, en verðum að hjálpa þeim sem þjáist. Mótsagnir virðast valda ágreiningi, en þekking fortíðar gefur jafnvægi. Samt sem áður er engri hjálparbeiðni sem Okkur berst hafnað, því að með slíkri beiðni tjáir viðkomandi viðurkenningu sína á æðri heiminum og þeirri staðreynd að slíkur raunveruleiki sé til. Við hundsum ekki biðjandi rödd. Við höfnum ekki neinni bæn, en söfnum öllum gagnlegum hlutum í þeim tilgangi að veita viðeigandi hjálp. Í þessu felst sérstök árvekni.

Við vinnum sífellt og verðum að ákvarða ábyrgð Okkar og hvar hjálpar er mest þörf. Systir okkar frá ómunatíð hefur haft þann hæfileika að leitast stöðugt við að vinna þau verk sem mest þörf er á. Slíka hæfni er ekki unnt að öðlast á skömmum tíma, en á hana verður að reyna við margvíslegar aðstæður til að hún geti orðið að uppsprettu gleði. Þessi uppspretta gefur lausn frá pirringi, því hugsun um óendanlega vinnu veldur viðleitni sem væntir engra launa. Engri hugsun er beint til fortíðar og í fluginu fram á við þurrkast út allar afleiðingar fortíðarinnar. Þannig örvar hringiða geimsins árvekni og mun ekki trufla gleði hinnar víðtæku vitundar.

34. Urusvati man hinar mörgu breytingar í langri röð æviskeiða sinna. Þessar minningar eru ekki byrði, heldur auðga vitund hennar. Rétt viðhorf gagnvart fyrri æviskeiðum er mjög sjaldgæft. Oftast er sú raunin að minningar um fyrri æviskeið hvetja ekki til framfara, en hlekkja menn við útbrunnar leifar fortíðar. Þess vegna er sjaldgæft að mönnum sé leyft að fá vitneskju um fyrri æviskeið sín. Vitund nútímans getur ekki tekið við of miklu. Menn geta einfaldlega ekki skilið hvers vegna æviskeið virðingar og erfiðrar vinnu skiptast á. Sú ímynd að hafa verið kóngur eða drottning hindrar skynjun mannsins, þótt enn sé frekari fullkomnunar þörf. Hin jarðneska vitund getur ekki skilið hve mörg æviskeið erfiðrar vinnu getur eflt vitundina umfram það sem gerist hjá mörgum þjóðhöfðingjum þessa heims. Það er enn dýrmætara ef skilningur á upphafningu andans vex á meðan á efnislegri jarðvist stendur.

Margir fá vitneskju um eitt af virðulegum æviskeiðum sínum og verða drambinu að bráð. Það er jafnvel enn verra ef menn lesa úr ósönnum frásögnum ákveðin fjarstæðukennd skapgerðareinkenni og fara að líkja eftir þeim og gera þannig leið sína torveldari. Allar gamlar sálir hafa gengið í gegnum einhver virðuleg æviskeið og öðlast þekkingu á hlutverki leiðtogans. Samt sem áður er sá eiginleiki ekki sá mikilvægasti af hinum mörgu eiginleikum sem menn þurfa að ávinna sér. Hinn ofsótti lærir meira en ofsækjendurnir og á öllum sviðum erfiðrar vinnu má gera fjölda uppgötvana. Margar prófraunir er að finna við öll vegamót. Ég ræði um þetta vegna þess að einnig Við höfum gengið í gegnum öll próf. Við höfum gleymt sársaukanum, þjáningarnar hafa umbreyst í gleði. Kvalarar okkar eru sjálfir að strita einhversstaðar og hefja sig upp með vinnu. Aðsetur Okkar gæti ekki staðist ef Okkur kæmi til hugar að ógna þeim sem hafa kvalið Okkur. Lögmál karma flæðir óaflátanlega.

Við munum fyrri æviskeið Okkar. Við verðum að muna þau, ekki vegna Okkar sjálfra, heldur allra þeirra sem Við höfum hitt og heitið að gleyma ekki. Samfundir ferðalanga á hinum jarðnesku leiðum leiða saman fólk af margvíslegum toga. Eftirvænting um komandi tíma, gleði samfundanna, sorg aðskilnaðarins – ekkert þessara mennsku tilfinninga hverfur. Þeir sem fögnuðu eða þjáðust saman gleyma því ekki öldum saman.

Urusvati man eftir mörgum samfundum. Tilfinningarnar sem þeir ollu eru enn lifandi eftir þúsundir ára. Slíkar minningar geta stuðlað að vitundarvíkkun. Eldar tilfinninganna ljóma í fullkominni friðhelgi. Jarðnesk orð geta ekki tjáð þá, en hjartað mun slá nákvæmlega eins og það gerði fyrir þúsundum ára. Þannig skín regnboginn aftur yfir Kristi alveg eins og hann gerði í eyðimörkinni. Á sama hátt lifir enn gleði Grikklands og hinn mikli norræni dýrlingur Sergius á leið hjá. Margir samfundir eiga sér stað í fíngerða heiminum og einnig í þessu landi sem við nú dveljum í.

Í innra lífi Bræðralagsins gleymist aldrei þessi lifandi tilfinning, því að aðsetur þekkingarinnar getur ekki þrifist án tilfinninga. Hugsun um þekkingu verður einnig hugsun um hina æðstu tilfinningu. Án hennar væru ekki til neinir píslarvottar, dýrlingahetjur né sigurvegarar.

Við eigum myndir og helga hluti sem hafa þann tilgang að efla hjálp Okkar.

35. Urusvati skilur gildi rósemi sem nauðsyn í athöfn. Menn finna margar leiðir til að útskýra þennan eiginleika. Sumir halda að rósemi geti aðeins orðið til með viljabeitingu. Aðrir sjá rósemi sem sannan innri eiginleika, enn aðrir segja að ójöfn byrjun valdi ójöfnum endi, eða að rósemin byggist á aðferðum vinnunnar. Allar þessar athugasemdir hafa í sér hluta sannleikans, en grundvallaratriðið gleymist oft, sem er gjöf reynslunnar. Óreyndur sjómaður er kvíðinn þegar hann leggur út, en eftir tíu sjóferðir gerir hann samferðamenn sína undrandi með ró sinni.

Athafnir Okkar eru fullar rósemi. Eins og reyndir sæfarar höfum Við siglt í gegnum fjölda stormviðra og vitum hvernig á að standast þau. Hjá Okkur er það daglegt verkefni að vinna bug á óskapnaði og myrkri. Dagskipanin er látlaus vinna, en ekki óvæntur bardagi. Athöfnum ætti að fylgja meðvituð rósemi. Þetta er ekki eins og eiturlyfjamók, heldur skynsamleg og vel reynd notkun krafta sem hæfa hverju tilefni. Margt er sagt um rósemi og oft er henni líkt við frosið ástand. Hvílíkur misskilningur! Hugtakið Nirvana er misskilið á svipaðan hátt.

Rósemi í athöfn er æðsta þenslan, líkt og glampi eldingar eða varnarsverð. Rósemi er ekki svefn eða gröf; í því verða til skapandi hugmyndir. Minnumst þess að aðsetur Okkar er mettað rósemi. Þessi þensla er ósýnileg mönnum, því þeir greina hana ekki. Ótal tilraunir hafa leitt í ljós að hægt er að brosa, vinna og safna orku í slíkri rósemi.

36. Urusvati geymir óttaleysi í hjarta sínu. Við fullyrðum að þessa eiginleika sé aflað með trú og langvarandi tilraunum. Upasika (Helena Petrovna Blavatsky) er dæmi um algjört óttaleysi í lífinu. Hún var hugrökk við allar kringumstæður og enginn ótti gat komist að. Líf Upasika var fullt af tilefnum ótta. Það var sorglegt að sjá hve margir ofsækjendur komu saman, hve nafn hennar var rægt. Hún átti ekkert og ásakendur ógnuðu henni frá öllum hliðum. Sannlega var hún prófsteinn óttaleysis! Hægt er að tiltaka mörg dæmi í gegnum aldirnar. Sérhver Okkar hefur oft haft ástæðu til að sýna slíkt óttaleysi.

Ekki skildi ætla að Við séum, í jarðnesku lífi Okkar, varðir gegn öllum árásum myrkraaflanna. Þeir sem taka að sér jarðnesk verkefni, vinna þau við jarðneskar aðstæður. Menn halda oftast að Við dveljum í öryggi og hugsa um Okkur sem yfirnáttúrulegar verur. Í afstæðum skilningi getum Við sigrast á mörgu, en þessi bardagi er raunverulegur. Við erum sigursælir vegna þess að myrkrið getur ekki sigrast á Helgivaldi ljóssins. Þegar ein systir Okkar kallar upp „hve hræðilegt!“ þá er það ekki af ótta, heldur einfaldlega af skilningi á hinni miklu spennu.

Við ferðumst um fjarlæga heima þar sem við lærum margar lexíur um óttaleysi. Hið framandi andrúmsloft plánetnanna getur haft áhrif á hjarta aðkomumannsins. Systir Okkar Urusvati þekkir áhrifin af þessum löngu ferðalögum. Hún þekkir þá einstöku erfiðu tilfinningu sem fylgir endurkomu fíngerða líkamans. Það koma alltaf upp vandamál sem þarf að glíma við og þörf er á miklu hugrekki við þessa reynslu. Skoða ætti heimildir Okkar um þessi langflug til að gera sér grein fyrir því hve mikils hugrekkis þau krefjast.

Hjá mönnum á Jörðinni hefur vaknað löngun til að fljúga. Sumir minnast drauma sinna um dirfsku, aðrir fljúga núna sem fuglar, en sjálf viðleitnin til að sigrast á háloftunum hefur sett mark sitt á núverandi tímaskeið. Fyrir löngu var sagt fyrir um járnfuglinn, sú forspá skilgreinir hina nýju tíma.

37. Urusvati metur mikils hugsanir um Heimsmóðirina. Kvennahreyfingar hafa sérstakt gildi fyrir nánustu framtíð. Það ætti að líta á þessar hreyfingar á þann hátt, að þær séu að móta undirstöður réttlætis en stefni ekki að yfirburðum. Mikið hefur verið rætt um rétt viðmið og jafnvægi; það er einmitt til að koma þessari meginreglu í framkvæmd að nauðsynlegt er að efla full réttindi kvenna. Menn skyldu ekki ætla að slíkt verði eingöngu konum til hagsbóta; það mun stuðla að alheimsjafnvægi og er nauðsynlegt fyrir samstillta framþróun.

Við vinnum að því að koma á framfæri aðferðum til að koma á jafnvægi, en það er við mikla mótspyrnu að glíma. Fornar erfðaeigindir eru enn til staðar meðal allra þjóða. Það ætti samt ekki að dæma eftir þjóðerni, heldur kafa rakleitt niður í vef flókinna persónulegra tengsla. Það er til baga að konurnar sjálfar aðstoða ekki alltaf við að breyta þessum aðstæðum. Þess vegna metum Við enn meira vinnu systra Okkar. Þær fórna löngum flugferðum sem þær meta svo mikils, en stunda með þrautseigju heimsóknir til fjölskyldna, og eru óþreytandi við að ræða við fólk og stjórna umræðum sem oft eru erfiðar og jafnvel leiðinlegar.

Lát systur Okkar rifja upp hve oft hún hefur, í fíngerða líkamanum, talað við algerlega ókunnar konur og hve oft hún hefur orðið vitni að deilum og misskilningi. En fræðslustarfið heldur stöðugt áfram. Heilar þjóðir leita eftir þekkingu og með þekkingu munu full réttindi fást. Við getum sýnt heimildir Okkar um kvennahreyfingar og árangurinn er uppörvandi. Hugsum ekki á vanabundinn hátt. Nú á tímum hefur heimurinn farið út fyrir mörk sín, skipið hefur villst af leið, og hin kosmíska hringiða snýst með auknum hraða. Við erum við stýrið, en aðrir sjómenn ættu einnig að leggja sitt af mörkum. Ógnum Harmagedón er hægt að umbreyta í sigur, en fyrst þurfa menn að gera sér grein fyrir því hvað Harmagedón er og skilja merkingu Helgivalds. Hlutverk kvenna í atvinnulífi heimsins hefur aukist. Aldrei áður hafa svo margar konur verið fengnar til æðstu embætta. Ráðleggingar Okkar beinast til fjarlægra staða.

38. Urusvati kennir í brjósti um fólk sem hafnar Bræðralaginu. Við vorkennum öllum sem leyfa ekki sjálfum sér að öðlast þekkingu á Virki heimsins. Hafi einhver í hjarta sínu sterka vitund um að einhvers staðar sé unnið til hjálpar mannkyninu, þá er hann um leið þátttakandi í lífgefandi hugsun. Í byrjun er hún sem draumur, en stundum blossar hún upp eins og elding. Hver blossi ber vitni um helga orku. Menn ættu ekki að berjast gegn því að þessi sannindi verði viðurkennd.

Sérhver sem ber fram orðið „Bræðralag“ byggir brú til framtíðar. Menn verða að átta sig á því að öll viðurkenning og allur rógur um Bræðralagið berst til Okkar. Eins og alda í straumi sem nær umhverfis allan heiminn nær hljómur orðsins „Bræðralag“ til aðseturs Okkar. Gleymið ekki að orðið „Bræðralag“ heyrist meðal Okkar. Þetta orð dregur til sín samhljóm eins og segull. Hægt er að harma þá sem rægja Bræðralagið. Þeir vilja ekki skilja hverskonar mátt þeir hafa snert. Í sínu illgjarna trúleysi munu þeir segja; „Bræðralagið er ekki til“ og halda því fram að þeir hafi ekki séð Bræðralagið. Þeir hafa ekki heldur séð mikið af heiminum, en er það nokkur sönnun fyrir því að hann sé ekki til? Þar sem lastararnir geta ekki sannað að Bræðralagið sé ekki til, verða þeir pirraðir í hvert sinn sem minnst er á aðsetur Okkar.

Það er betra að yfirheyra lastarana en að skilja þá eftir í feni guðlastsins. Sannlega er sagt: „Þess verður krafist af ykkur að þið gerið grein fyrir ekki aðeins sögðum illviljuðum orðum, heldur einnig margskonar orðum sem ekki voru sögð.“ Mörg ummæli frá fornum tímum kenna mannkyninu einföld sannindi, en þau eru jafn ný í dag og þau voru áður fyrr. Sýnum varfærni við meðhöndlun á hugtakinu Bræðralag og gleymum ekki þeim fíngerðu tækjum sem nema hvert orð um Bræðralagið.

Við skulum ekki vera ein þeirra sem svíkja af ásettu ráði eða óvart. Það er sérstakur sjúkdómur sem fær þann sem örvæntir til að ákalla hinn æðsta mátt með guðlasti. Þá sem eru þannig sjúkir er ekki hægt að setja í sama flokk og þá sem guðlasta af illvilja og eru ekki örvæntingarfullir, en gleðjast yfir eyðingu hinna bestu drauma mannkynsins. Þeir munu ekki fá nein merki frá Bræðralaginu. Sköpunargáfa þeirra mun ekki hefjast upp af fögrum hugsunum. Þess vegna vorkennum við öllum þeim sem hafna Bræðralaginu.

39. Urusvati tekur nærri sér allt sem gerist í heiminum. Öllum athöfnum má skipta í tvo flokka, einlægar og óeinlægar. Mannkynið ætti að muna þessa skiptingu, sérstaklega nú á tímum. Einlægar skynjanir, þótt þær séu misjafnar, er unnt að sameina, en óeinlægni er eining hinna myrku afla og meðal þeirra finnast engir samverkamenn Bræðralagsins. Ef Við rifjum upp öll fyrri æviskeið bræðra Okkar, getum Við ekki fundið eina einustu óeinlæga athöfn. Athafnir hins logandi hjarta leiddi þá til brennunnar, til krossins og til allra þeirra pyntinga sem fundnar hafa verið upp af hinum illgjörnu og hinum fáfróðu.

Við sneiðum ekki hjá lífinu. Þegar Við komum fram í efnislegri birtingu er ekki hægt að aðgreina Okkur frá öðru fólki. Urusvati getur borið vitni um að þegar Djwal Khul kom til að bjóða hana velkomna var hann í engu frábrugðinn öðrum lömum. Urusvati skynjaði samstundis eitthvað óvenjulegt, en sú tilfinning hefði eins getað verið vegna yfirmanns klaustursins. Þannig hafa allir Bræður og samverkamenn hið sama jarðneska yfirbragð. En þrátt fyrir venjulegt útlit skín einlæg hlýja þeirra út úr hverju augnatilliti og hverju brosi. Þessa hjartans einlægni er hægt að nefna með öðru vísindalegra heiti, en Við viljum leggja áherslu á hina mennsku hlið aðseturs Okkar.

Sum nafna Okkar má finna í bókum. Þau eru mjög hátíðleg. Hægt er að nefna Manú, eða um Bodhisattvana. Hafið í huga að sumar þjóðir þarfnast háleitra nafna, en Við erum einfaldlega þjónar ljóssins og Við virðum Helgivaldið. Fyrsta boð okkar er að öðlast fullkomnun, en ekki að öðlast nafnbætur eða tignarstöður. Hvað Helgivaldið áhrærir, ætti ekki að skilja hugtökin „nafnbætur og tignarstöður“ á jarðneskan hátt, þar sem menn tjá áhuga sinn á alls kyns tignarstöðum og sóma. Við þjónum hinu óendanlega Helgivaldi. Við þiggjum stöðu leiðtoga, ekki sem tignarstöðu, heldur sem ófrávíkjanlega nauðsyn. Þannig ábyrgð ætti að vera grundvöllur allra mennskra samfélaga. Við leggjum ekki neitt mikilvægi í nafnbætur, því að í öllum Okkar mismunandi æviskeiðum hefur Okkur veist margvíslegur sómi og nafnbætur á mörgum tungumálum. Margar þessar nafnbætur hafa þurrkast algerlega úr minni mannkynsins. Hver getur nefnt hina glæstu stjórnendur Atlantis? Meðal mýranna í Tsaidam er mögulegt að sjá glæsilegar myndir fornra borga. Urusvati minnist bygginganna þar og styttunnar af nautinu mikla. Hafið hugfast að í gegnum öll æviskeið Okkar höfum Við varðveitt minningar um mikla atburði og skráð þá í skjalasöfn Bræðralagsins. Lát þá sem vilja fá hugmynd um innra líf Okkar safna saman hinum mörgu smáatriðum sem mynda lögmál aðseturs Okkar.

41. Urusvati veit hvernig standast á fjandsamlega strauma. Þessi hæfni verður ekki til að ástæðulausu né án fyrri reynslu. Fyrst verða menn að þekkja æðri heiminn, án þess þó að sniðganga jarðneskt líf. Fjandsamlegir straumar geta birst á margvíslegan hátt, til dæmis sem sálrænar truflanir eða óvenjuleg veikindi og veraldleg vandamál geta komið upp sem krefjast viturlegrar lausnar. Þannig læra menn skarpskyggni á öllum sviðum.

Hafa þarf í huga að straumar utan úr geimnum hafa áhrif á sálarlíf heilla þjóða og mynda ný afbrigði sjúkdóma. Óhagstæðir straumar geta einnig valdið óhöppum í daglegu lífi. Þegar fengist er við straumana er nauðsynlegt að forðast hræsni, hjátrú og hugleysi. Allt hik gefur kraftinum í iðuhvirfli óskapnaðarins færi á að ná yfirhöndinni. Við fögnum sérstaklega jafnvæginu sem ávinnst með víðtækri og margvíslegri reynslu í jarðnesku lífi. Karma getur ekki náð valdi á þeim sem tekur framförum á þann hátt. Sú hugsun sem byggist á þekkingu á samsvörun heimanna fær mátt sinn frá þeim.

Sérhver samverkamaður Bræðralagsins kemst í nána snertingu við fíngerða heiminn. Í þeim heimi eru mörg virki Okkar. Þú hefur nú þegar heyrt nöfn þeirra, þú hefur heyrt um hið undursamlega tré Elgatír og um byggingar gerðar úr hugsunum. Hafa verður skýran skilning á þessum aðstæðum í þeim tilgangi að beina för sinni í átt til Dókjúd. Hugsun sem ekki er myrkvuð af efa mun vísa veginn til aðsetra Okkar í fíngerða heiminum. Aðsetur Helgivaldsins í Himalajafjöllum er í stöðugu sambandi við aðsetrin í fíngerða heiminum og þrumur hins jarðneska bardaga enduróma þar. Menn kæra sig ekki um að skilja þessa samsvörun, þess vegna er Harmagedón fyrir þeim aðeins jarðneskt stríð milli fólks, en þá er mikilvægasti þáttur Harmagedón misskilinn. Hvernig er hægt að taka þátt í einhverju ef aðeins lítill hluti þess sem er að gerast er þekktur? Bardaginn sem geisar í fíngerða heiminum er mun illskeyttari en sá sem háður er á Jörðinni. Vissulega endurómar margt af bardaga fíngerða heimsins á Jörðinni. Oft reynir heimur Okkar að vara menn við þessari skelfilegu hættu, en án árangurs. Einn bræðra Okkar var vanur að segja: „Látum fólk vita enn einu sinni, en hve erfitt er að tala fyrir daufum eyrum.“ Aðvaranir Þeirra eru orð réttlætis og samúðar.

Ef vart verður við óskiljanlega syfju, gæti það verið til marks um samvinnu við fjarlæga heima eða samvinnu við máttarvöld fíngerða heimsins. Tökum með vakandi athygli eftir viðbrögðum líkamans. Ekki er mögulegt að hugsa um léttvæga atburði þegar eitthvað mikilvægt á sér stað. Það er eingöngu fáviska sem veldur því að fyrirmæli Okkar eru virt að vettugi. En því meiri er gleðin þegar ekki aðeins Bræðralagið er skilið, heldur einnig tengsl þess við fíngerða heiminn.

42. Urusvati hefur þroskað tónlistarhæfileika sína frábærlega. Þessi færni hefur fengist með mikilli vinnu á fyrri æviskeiðum. Samkvæmt kenningum Platós ætti ekki að líta á tónlist í þröngum skilningi tónlistarinnar einnar, heldur sem hluta af öllum samræmisfullum listgreinum. Í söng, ljóðlist, málaralist, höggmyndalist, byggingarlist, framsögn og að síðustu í öllum birtingarmyndum hljóðs, er tónlistarhæfileiki tjáður. Í Grikklandi til forna var haldin athöfn helguð öllum listagyðjunum. Harmleikir, dans og öll háttbundin hreyfing þjónaði samræmi alheimsins. Mikið er rætt um fegurð, en lítill skilningur er á mikilvægi samræmis. Fegurð er upplífgandi hugtak og sérhver fórn til fegurðar er fórn til eflingar jafnvægis í alheiminum. Allir sem tjá tónlist fórna, ekki fyrir sjálfan sig, heldur fyrir aðra, fyrir mannkynið, fyrir alheiminn.

Fullkomnun hugsunar er tjáning hinnar fegurstu tónlistargáfu. Æðsta hrynjandin er besta forvörnin, hrein brú til æðstu heima. Þess vegna leggjum Við áherslu á fegurð í aðsetri Okkar. Urusvati hefur tekið eftir því að tónlist himnanna einkennist af samræmdri hrynjandi. Það er einmitt þessi eiginleiki sem færir mannkyninu innblástur. Menn hugsa yfirleitt ekki um uppsprettur andagiftar, en ef þeir gerðu það myndu þeir hjálpa Okkur mikið.

Þið vitið um hin sérstöku hljóðfæri sem eru í Okkar eigu. Urusvati hefur heyrt í þeim. Hinir fíngerðu tónskalar og hljómfall systur Oriole er sem hin æðsta hljómkviða. Oft hefur þannig söngur fært heiminum frið og jafnvel þjónar myrkursins hafa hörfað fyrir hljómum hans. Nauðsynlegt er að þroska tónlistarhæfni sína með öllum tiltækum ráðum.

Tilfinning hjartans skynjast ekki í orðunum sem slíkum heldur í hljómi þeirra. Í samhljómi getur ekki verið um neinn pirring að ræða. Illska getur ekki staðist þar sem andinn upphefst. Það er ekki af tilviljun að hetjukvæðin voru sungin, ekki aðeins til að auðvelda minni, heldur einnig til að veita andagift. Hrynjandi og samhljómur ver okkur einnig gegn þreytu.

Hæfileika til tónlistar og hrynjandi ætti að þroska allt frá barnæsku.

43. Í hinum mörgu æviskeiðum hefur Urusvati ávallt sóst eftir að komast til fjallanna. Hún var nefnd „Fjallafugl“ af læknum, vegna sinnar djúpstæðu þráar til fjallanna fögru, jafnvel þegar hún átti við heilsuleysi að stríða. Með þessum flugferðum andans sýndi hún fram á óvenjulega hollustu til Bræðralagsins. Sérhvert jarðneskt fjall minnti hana á fjöllin Okkar. Hvert afrek benti á leiðina til Okkar.

Fjallaloftið er hollt fyrir sum hjörtu og minnir einnig á hæðina yfir tíu þúsund fetum þar sem eldur og loft hreinsa geiminn, ekki aðeins efnislega, heldur einnig hið innra. Þannig sameinast efnislegar og andlegar þarfir. Hjörtu sem hafa skilið þetta munu leita til fjallanna, vegna þess að innri þekking þeirra opinberar fyrir þeim hin gagnlegu svið. Allir, alls staðar, sem unna Bræðralaginu, munu sækjast eftir að koma til Okkar.

Einnig Við sækjumst eftir að komast til sviðanna þar sem Við dvöldum áður. Við deilum anda okkar víða. Við sendum örvar Okkar með sendiboðum og staðgenglum. Sumum staðgenglum Okkar höfum Við treyst fyrir leiðtogahlutverki í fjarlægu heimunum. Slíkt er erfitt að útskýra með jarðneskum orðum.

Mannleg þekking getur ekki náð yfir alla þætti andans. Á Jörðinni hafa menn jafnvel þekkingu á andsetni, en það er yfirleitt ekki með réttum skilningi. Tvíburasálir eru þekktar, en skilningurinn á þeim jafn lítill og á andsetni. Samt sem áður er sagan til vitnis um þá sem hafa verið óaðskiljanlega tengdir í öllum sínum æviskeiðum. Við skulum útvíkka þessi einkenni út í óendanleikann og margt verður ljóst.

Gleymum ekki hve mismunandi aðstæður er að finna í fíngerða heiminum og í hinum fjarlægu heimum. Frá jarðnesku sjónarmiði er varla hægt að segja að líf sé að finna á sumum plánetum, en vísir að hugsun er samt til staðar og Við nefnum slíkan grunn „líf.“ Meðal fyrstu sáðmannanna sjáum við ljóssúlur leiðtogans, sem gæti verið bróðir Okkar eða staðgengill. Og þegar við höldum áfram inn á næsta svið, er mögulegt að staðgengill Okkar gangi á undan sem fyrirrennari Okkar, á sama hátt og Jóhannes skírari. Í fjarlægu heimunum, alveg eins og á Jörðinni, eru til staðar sendiboðar Okkar, fyrirrennarar og staðgenglar. Hægt er að skynja mikið net tenginga og jarðneskir samstarfsmenn Okkar ættu að vita að bræður þeirra starfa einnig í fjarlægum heimum.

Heilagt er orðið „Bræðralag“! Megi það ætíð hljóma hvenær sem fjöllin ber fyrir augu eða hugsað er um þau. Við virðum Helgivaldið í óendanleika geimsins.

Lát alla jarðneska vegfarendur vita að Við bíðum þeirra á öllum leiðum sem liggja til Okkar.

44. Urusvati býr yfir eldmóði. Hvað felst í þessum dýrmæta eiginleika? Allir hafa eitthvað af eldmóði í sér, en til eru einstaklega eldlegar vitundir sem geta auðveldlega haft samskipti við fjarlæga heima. Venjulega telja menn að eldlegt eðli birtist í reiði, pirringi og bræðiköstum, en slíkt eru aðeins jarðneskir eiginleikar og við skulum ekki reyna að sjá sannan eldmóð í þeim. Sannur eldmóður lýsir sér með samskiptum við ósýnilega heiminn og þátttöku í verkefnum Okkar.

Menn ættu ekki heldur að tengja eldmóð við miðilshæfileika. Þvert á móti, í eldmóði eru slímhimnurnar þurrar og útfrymi streymir ekki út. Hinn sérstaki eiginleiki, eldmóður, stendur einn og stakur. Með honum birtist hugrekki en enginn ótti. Menn sem haldnir eru eldmóði finna ekki til ótta og hræðast ekki neitt úr fíngerða heiminum.

Flestir óttast fyrirbrigði úr fíngerða heiminum og í því felst einangrun þeirra frá honum, þrátt fyrir að engin endurnýjun lífsins geti átt sér stað án þessa náttúrulega sambands. Við hröðum okkur að hvetja fólk til óttaleysis með öllum ráðum. Við reynum að hvísla að fólki að óttinn sé skaðlegur og hve heimskulegt sé að láta hann ráða. Frá fornu fari hafa menn vanist því að óttast umskiptin sem menn nefna dauða. Það var til siðs að hræða menn með ógnum vítis, en þeim var ekki sagt frá því hvað fullkomnun merkir. Ekki er hægt að biðja menn um að vera hugrakka ef þeir vita ekki hvers vegna þeir eru á Jörðinni og hvert þeir munu fara þegar þeir öðlast lausn. Við felum samstarfsmönnum okkar það verkefni að segja mönnum eins oft og þeir geta frá eilífðinni miklu og að lífið sé samfellt og órofið.

Við erum ekki farnir, því Við höfum dvalist áfram á Jörðinni að eigin ósk. Við höfum vitandi vits meðtekið jarðneskt líf. Við gætum verið farnir langt í burtu, en við kusum að dvelja áfram meðal þeirra sem þjást. Vaka Okkar gæti ekki verið staðföst ef óttinn hefði áhrif á Okkur. En eins og læknarnir þá vitum Við hve miklum skaða óttinn veldur líkama mannsins.

Jarðneskir læknar ættu að skilgreina sérstakan sjúkdóm sem stafar af ótta. Lát þá reyna þenslu Okkar. Lát þá skilja hve óttinn er skaðlegur.

Ætlið ekki að eldmóður komi af sjálfu sér; nauðsynlegt er að rækta hann um mörg æviskeið.

45. Urusvati hefur sigrast á öllum jarðneskum ranghugmyndum um velferð og efnislegt öryggi. Hvorugt er til við jarðneskar aðstæður, en samt sem áður draga þessar hillingar fjölda manns á tálar. Þá dreymir um að byggja turna þar sem þeir gætu dvalist í fullkomnu öryggi. Þá dreymir um að safna auðæfum sem veittu þeim efnislegt öryggi, en gleyma því að þannig virki er aðeins að finna handan jarðneskra aðstæðna. Viljum við steypa fólki í örvæntingu? Það verður að vera ljóst að þá aðeins verður ósæranleiki mögulegur að allar hættur séu utan seilingar. Það er eingöngu með því að viðurkenna tilgangsleysi jarðneskra fjársjóða að unnt er að taka á móti arfleifð hinna varanlegu auðæfa. Við skulum ekki líta á þessa fræðslu sem táknrænan siðferðisboðskap. Aðeins með því að skoða þetta frá hreinu vísindalegu sjónarmiði er unnt að sannfærast um að sönn þekking á jarðneskum raunveruleika gefi mannkyninu frelsi vitundar og fullkomnun.

Haldið ekki að eftir milljóna ára tilvist hafi mannkynið viðurkennt grundvöll tilverunnar. Nei, vissulega ekki, því það er nú, þegar bókahillurnar svigna undan þyngd bókanna, að mikil blekking leggur snöru fyrir mannkynið! Okkur er umhugað um að menn fái skilning á blekkingareðli hinna jarðnesku aðstæðna.

Enginn fræðaranna hefur nokkru sinni boðað mannkyninu eigingirni og græðgi. Þessar eiturnöðrur eru ekki frá ljósinu komnar. Til eru svört bræðralög sem dreifa fræðslu um hina illræmdu leiðir eyðingar, hrörnunar og óeiningar.

Íhugum hinn óþrotlega bardaga sem Við leiðum gegn hinum myrku öflum. Menn gefa sér ekki tóm til að átta sig á því að þeir eru umkringdir vel þjálfuðum eyðandi öflum og fáir tala um að þörf sé á því að snúa sér til virkis góðleikans. Við fáum ef til vill boð um að samsæri sé í undirbúningi gegn uppbyggjandi starfi, og Við hröðum Okkur að koma í veg fyrir það, en þið vitið sjálf hve fáir hlusta á Okkur. En það merkir aðeins að nota verður andstæðutæknina.

Við fögnum sérhverjum skilningi á sannleikanum.

46. Urusvati hefur lært list hins jafna bruna. Fyrir nokkru síðan ræddum Við um gagnsleysi lampa með flöktandi loga. Flöktandi logi orsakast annað hvort af olíuskorti eða slæmu ástandi lampans. Með endurbótum verður logi lampans stöðugur og allir verða þakklátir fyrir jafna birtu hans. Hið sama gildir um fullkomnun mannsins, eftir lægðir og hæðir kemst á stöðugleiki sem gefur máttugan ljóma, sem verða mun til aukinnar hjálpar fyrir mannkynið. Við fögnum jöfnum bruna, því þá er samvinna Okkar möguleg.

Ógerlegt er að hugsa sér aðsetur okkar sem stað fullan ósamræmis. Mannfjöldi getur haft mikil áhrif ef hann blandast í máttugan samhljóm. Þess vegna skulum við aga hugsanir okkar þegar samvinna er ástunduð. En margvíslegur misskilningur getur orðið til við sendingu hugsana. Jafnvel þeir sem átta sig á sköpunarmætti hugsana furða sig á því að sjá ekki skjótan árangur. Þeir gleyma því að afleiðingarnar geta komið fram ósýnilega og á óvæntum stöðum. Þeir gera sér ekki heldur grein fyrir því að þar sem hugsanaorka leitast við að fara leið minnstrar mótstöðu, má alltaf búast við óvæntum niðurstöðum. Ástæðan liggur í óþjálfaðri hugsun. Menn halda ef til vill að þeir hafi aðeins sent eina hugsun, en í reynd hafa þeir sent hundruð óvæntra sendinga. Það sem tekið er á móti verður alveg jafn óvænt. Þessi flóasveimur hugsana veldur miklum skaða, þar sem hann sendist um og bítur hið ólíklegasta fólk. Menn hugsa lítið um réttar rásir fyrir dreifingu hugsana.

Að Okkar áliti er mikilvægast að viðhalda hreinleika hugsunar. Þetta er mögulegt þar sem bruninn er jafn. Hugsun er send þegar þroskuð hæfni til einbeitingar er til staðar. Til eru sérstök tæki til að efla einbeitingu hugsunar. Þau eru gagnleg við sendingar hugsana um miklar vegalengdir. Það kann að valda ykkur furðu að þessi tæki eru gerð með blöndun ýmissa málma. Frá fornum tíma hefur þessi málmblöndun verið talin sérstök vísindi og málmblanda var nefnd kór málma.

47. Urusvati gætir vel að matshæfni. Þessi eiginleiki fæðir af sér dómgreind og virðingu fyrir Helgivaldinu. Við gætum vel að matshæfni. Gamall málsháttur segir: „Fílsbyrði mun sliga asna.“ Það eru til dæmi um að eigingirni hafi komið í veg fyrir skilning á réttu mati; en ekkert réttlæti er þó mögulegt án samanburðar. Oft höfum Við bent á hvernig nýliðar rjúfa hugrænt samband af stærilæti. Allir ættu samt að hafa í huga að jafnvel miklir leiðtogar þurftu að læra dómgreind og rétta viðmiðun.

Sérhver fræðari varð að taka ákvörðun í fyrri æviskeiði um það hvort hann vildi hverfa til hinna fjarlægu heima, eða dvelja áfram meðal langvarandi þjáninga Jarðarinnar. Við þessa ákvörðun er þörf fyrir djúpstætt mat og allir kusu að dvelja áfram með þeim sem þjást. Við látum eftir Okkur ferðir til fjarlægu heimanna í þeim tilgangi einum að öðlast þekkingu. Það er ákaflega sjaldgæft að Við leyfum langvarandi dvöl í öðrum heimum. En slíkar heimsóknir eru samt ekki alger aðskilnaður; þvert á móti, þær eru eins og vefur sem tengir saman þræðina. Þannig byggist Bræðralagið, ósigrandi á réttri viðmiðun og trúfestu.

Menn geta líkt eftir Okkur, því allir geta nýtt lögmál Bræðralagsins í lífinu. Það eru aðeins forhertir afneitarar sem tala um að Bræðralagið skipti ekki neinu máli á Jörðinni. Þið hafið lesið í bókum um byggjendur plánetnanna, um leiðtoga þjóðanna. Allir geta glaðst, því að á meðan æviskeiðið varir á Jörðinni er fræðarinn til staðar og leiðin til hans er ekki lokuð. Allir geta fengið innblástur af þeirri vitneskju að mögulegt er að vera í sambandi við fræðarann.

Við skulum aftur minna á matshæfni. Án hennar er hægt að misskilja Bræðralagshugtakið og sambandið milli fræðara og nema. Yfirleitt líkar mönnum það ekki að vera nefndir nemar, en Við höldum jafnvel þessu virðingarverða heiti fyrir Okkur sjálfa. Allir fræðarar eru einnig nemar og í þessari hugmynd felst matshæfni í æðsta skilningi.

Þið verðið réttilega hneyksluð þegar einhver notar óviðeigandi orð um fræðarann. Það bendir til að hugsanir hans séu langt frá réttu mati. Undrist ekki að við ræðum mikið um matshæfni, því hún brenglast einstaklega oft í meðförum manna. Við leggjum áherslu á rétt mat sem eina af grundvallarstoðum innra lífs Okkar.

48. Urusvati er í stöðugu sambandi við Okkur. Það er ekki auðvelt að taka á móti straumi máttugrar orku í efnislegum líkama mitt í daglegu lífi. Við lítum á slíka fjölhæfni sem sérstakt afrek. Nauðsynlegt er að vera fær um að aðlagast sérkennum fíngerðra orkutegunda. Auðvelt er að sýna fram á að jafnvel mjög flóknar draumfarir taka ekki langan tíma. Flóknar athafnir og langar samræður eru meðteknar með skjótum hætti. Slíkir eiginleikar fíngerðra skynjana eru einkennandi fyrir sambandið við Okkur. Hægt er að skilja flóknar hugsanasendingar án þess að hafa hugmynd um á hvaða tungumáli þær eru tjáðar. Hugsunin nær til viðkomandi stöðva og opinberar merkingu sendingarinnar. Sambandið er í gegnum fíngerða líkamann. Menn ættu að venjast þessari fíngerðu skynjun. Skilningur á þessu fæst ekki nema með útvíkkun vitundarinnar. Það er nauðsynlegt fyrir skilning á mörgum vandamálum að vera óháður jarðneskum takmörkunum. Oft taka menn aðeins eftir einu smáatriði, og gera það svo að óbreytanlegu lögmáli.

Almennt séð eru orkustöðvar mannsins skoðaðar á afstæðan hátt. Heiti þeirra hafa breyst í gegnum aldirnar á hinum mismunandi tungum. Sumir nefna Kaleikinn „hinn himneska öxul,“ en það breytir engu um gildi hans. Aðrir ræða um áhrif Heimsmóðurinnar, jafnvel þótt Shakti tákni í eðli sínu hina miklu merkingu frumorkunnar. Menn gleyma einnig samheildarlegum áhrifum allra orkustöðvanna, sem eru allt önnur en áhrif einstakra stöðva. Jafn einstök er ummyndun orkustöðvanna í fíngerða og eldlega líkamanum. Þeir geyma sinn innri kjarna, en þróun þeirra er háð þeim framförum sem verða í jarðnesku æviskeiði.

Ætla mætti að búið sé að rannsaka vöðvana nægilega mikið, en virkni þeirra byggist á skapgerð mannsins. Sérhver líkamshluti hefur sjálfstæða virkni. Göngulag mannsins byggist á sálrænum aðstæðum, sem fær vöðvana til að vinna með sérstakri samsvörun.

Afstæði skoðana kemur skýrt fram við umræður um fíngerðar orkutegundir. Rangt er að halda því fram að fjöldi krónublaða hverrar orkustöðvar sé alltaf sá sami. Sérhvert krónublað er einnig einstakt og ólíkt öllum öðrum. Við skulum ekki takmarka fjölbreytileikann í uppbyggingu heimsins. Mikil og óvænt gróska í vexti taugafruma og taugaþráða auðga lífkerfið. Allar athuganir eru mikils virði, en við skulum varast að alhæfa um of.

Við höfum haft tíma til að læra margt, en það er einmitt þessi lærdómur sem hefur kennt Okkur að sýna varkárni við að tjá þekkingu Okkar. Nýliðar eiga erfitt með að hafa taumhald á tungunni og segja strax frá öllu sem þeir hafa heyrt, án þess að hugsa um afleiðingarnar; en með þekkingu kemur hæfni til að meta rétt aðstæður.

Okkur þykir mikilsvert að útskýra og auðvelda skilning á alheiminum á sem bestan hátt. Fyrst af öllu ætti að losa sig við fornar og úreltar flokkanir.

49. Urusvati hefur fylgst með þeim sem safna lækningajurtum fyrir Okkur. Sumir þeirra vita að þeir vinna að mikilvægu markmiði, en flestir safna plöntunum án þessa skilnings. Þeir koma með plönturnar á tiltekinn stað þar sem einhver kemur og kaupir þær af þeim. Stundum er þetta kínverskur kaupmaður, en þó Sarti eða Hindúi komi veldur það þessum fábrotnum verkamönnum engum heilabrotum.

Það er jafnvel ekki leyfilegt að gefa í skyn að þessar lækningajurtir séu mikilvægar, því þá gætu farið af stað orðrómur og hætta verður á innrás. Við getum auðveldlega varið okkur fyrir árásum, en erfiðara að komast hjá því að vekja athygli íbúa í nágrenninu. Þeir viðhalda mörgum hefðum og eru reiðubúnir að nýta þær í lífi og starfi. Ímyndunarafl þeirra er háþróað og heyrn og sjón svo skörp, að þeir geta tekið eftir mörgu sem öðrum er ósýnilegt. Þeir þekkja lífið í fjöllunum og geta fundið slóðir þar sem öðrum myndi ekki koma til hugar að leita.

En heimamenn skilja einnig mikilvægi bannsvæðisins og þannig verður til góð vörn. Þetta er nauðsynlegt því að Við þurfum stundum að afla Okkur birgða frá borgunum. Stundum útvega kaupendur Okkur ákveðna hluti, sem þeir vita ekki til hvers á að nota og senda þá til Okkar í gegnum Nepal. Ég get sagt ykkur þetta því það er engin hætta á að þessi leið verði uppgötvuð. Margar sagnir hafa spunnist í kringum aðsetur Okkar.

Þið getið verið þess fullviss að eftir allar þessar aldir hefur mönnum lærst að taka mark á ráðleggingum Okkar. Gleymum ekki að á ýmsum tímum höfum Við komið fram á Vesturlöndum. Auk ashrama Okkar í Austurlöndum höfum Við átt ashröm í vestrænum borgum – í Lyon, í Nuremberg, á stöðum nálægt Lundúnum, nærri Pétursborg og á Ítalíu. Auk ashrama í Austurlöndum og Egyptalandi var nauðsynlegt að hafa miðstöð í nokkrum stórum borgum. Gleymum því ekki að baráttan við öfl myrkursins krefst margra úrræða.

Við getum talið upp margar sendingar til mannkynsins á ýmsum tímum. Smáskammtalækningar voru sendar mannkyninu til varnar gegn óhóflega stórum skömmtum af eitri. Draumar um þörfina á alheimslegu tungumáli hafa verið sendir. Eingöngu þannig er mögulegt að viðhalda hreinleika allra tungumála. Allir munu þá hafa vald á móðurmáli sínu og hinu alheimslega tungumáli. Þannig er unnt að mynda samskiptaform sem hæfir best mannlegum samskiptum. Menn skilja ekki að afbökun tungumálsins er glæpsamleg, því að margir orðstofnar hafa mikla þýðingu með hrynjanda sínum og hljómi. Þannig ryðjum Við brautina.

50. Urusvati hefur spurt að því hvernig Við öflum tekna til efnislegrar framfærslu aðsetra Okkar. Munið að í mörgum ám er gull að finna, hægt er að finna silfur og safíra í fjöllunum Okkar og Við vitum um marga dulda fjársjóði. Manstu þegar pund-seðill var sendur fljúgandi til London? Oft þurfa menn á hjálp að halda. Þess vegna tengist hið jarðneska æðri heimum. Samvinnan við fíngerða heiminn verður að vera viðvarandi. Hafa verður skilning á öllum hinum mikla margbreytileika fíngerðu sviðanna til að átta sig á hve flókin verkefni þarf að leysa í aðsetri Okkar.

Fyrst og fremst ætti að veita hjálp á Jörðinni, en jafn mikillar hjálpar er þörf í fíngerða heiminum. Í fíngerða heiminum er óttinn eins og faraldur. Þar geisa bardagar og alvarlegir sjúkdómar breiðast út. Á Jörðinni eru menn vanir því að hræðast smit, og þennan ótta flytja þeir með sér inn í fíngerða heiminn, og þá verða til óttahugsanir. Er mögulegt að menn geri sér ekki grein fyrir því að þeir taka alla jarðneska fordóma sína með sér inn í fíngerða heiminn? Erfitt er að uppræta alls konar skaðlegan vöxt á Jörðinni, en það er enn erfiðara í fíngerða heiminum, þar sem allar jarðneskar eignir kristallast. Ég tel að ástand plánetunnar okkar myndi verða mun betra ef það sem menn flytja með sér inn í fíngerða heiminn væri betra að gæðum. Ein stök hugsun getur eytt fjölda sýkla.

Áttum okkur á því hve mikilli mótstöðu allir mæta sem senda frá sér gagnlegar hugsanir. Í dag varð Urusvati vitni að mörgum sérlega efldum straumum frá Okkur. Slík breyting á straumum gefur til kynna mikla einbeitingu, því að sérhver straumur þarf að yfirvinna andstæðan straum. Þess vegna þurfa mikilvægar ákvarðanir vörn gegn snjöllum eyðendum. Urusvati hjálpaði Okkur alla nóttina, en gat samt sem áður gefið sér tíma til að dveljast í föðurlandi sínu.

51. Urusvati hefur ávallt leitast við að stytta dvöl sína í fíngerða heiminum. Það ber vitni um tryggð hennar við það verkefni að lina þjáningar mannkynsins. Á Jörðinni er hægt að skipta mönnum í þá sem búa yfir hjartahlýju og hina sem eru harðbrjósta, en það er einnig hægt að greina á milli þeirra sem leitast við að dvelja sem lengst í fíngerða heiminum og hinna sem hraða sér aftur til holdgunar til að flýta fyrir fullkomnun sinni.

Við styðjum þá sem hraða för, þrátt fyrir mótsögnina sem felst í því að flýta sér í eilífðinni. Við hvetjum alla viðleitni til fullkomnunar, vegna þess að í henni felst gagnsemi fyrir heildina. Við höfum helgað okkur hinni miklu þjónustu og til hennar bjóðum Við alla velkomna sem geta hjálpað þeim fjölda sem þjáist.

Virki Okkar er byggt á hugmyndinni um hjálp til fjöldans. Á Jörðinni og í fíngerða heiminum er að finna mikinn fjölda manna sem þurfa á aðstoð Okkar að halda. Lát aðsetur Okkar nefnast „Hin mikla þjónusta.“

Við höfum öll hraðað Okkur til Jarðarinnar, þegar rétti tíminn rennur upp, til að taka að Okkur erfiðustu verkefnin. Þannig aðstæður hafa hert Okkur og kennt Okkur að skeyta lítt um ofsóknir. Þeir sem berjast fyrir sannleikanum munu ávallt verða fyrir ofsóknum falsaranna. Enginn skyldi líta svo á að þannig ofsóknir séu aðeins ætlaðar ákveðnum einstaklingum. Hver einasti boðberi sannleikans hlýtur að verða fyrir árásum óheilinda. Slík snerting við óskapnaðinn er óhjákvæmileg.

Þið hafið tekið eftir því að menn staðsetja Shamballa alltaf í norður átt. Jafnvel meðal Eskimóa og íbúa Kamtsjatka eru til sagnir um undraland handan við land miðnætursólarinnar. Fyrir þessu eru ýmsar ástæður. Sumir vildu leyna staðsetningu aðseturs Okkar. Sumir vildu forðast þann vanda að takast á við erfiða umræðu. Sumir telja að nágrannar þeirra í norðri séu einstaklega gæfusamir. Það mætti halda að allar þjóðir viti um forboðna landið, en telji sig ekki þess verðar að hafa það innan landamæra sinna!

Við eigum mikið safn rita um þetta efni. Hægt er að telja upp þær þjóðsagnahetjur sem tengjast aðsetri Okkar. Þið þekkið Gessar Khan og Prester John. Allir þurfa að gera sér grein fyrir því sem greinir sannleikann frá vinsælum skálduðum sögnum. Tilvera Aðsetursins í svo margar aldir hlýtur að hafa haft áhrif með útgeislun sinni á hið sameiginlega minni fólksins. Einnig þarf að hafa í huga að Við erum betur þekktir í fíngerða heiminum en á Jörðinni. Þaðan koma óljósar minningar sem verkar sem hvatning til þeirra sem hafa skilið mikilvægi hinnar miklu þjónustu.

52. Urusvati hefur tekist að viðhalda réttu sambandi við fíngerða heiminn. Við skulum útskýra hvers vegna Við tölum um rétt samband. Til eru menn sem hafna algerlega tilveru fíngerða heimsins, en í slíkri höfnun felst guðlast. Aðrir viðurkenna tilveru fíngerða heimsins, en hafa samt fordóma gagnvart honum og rangt viðhorf þeirra jaðrar oft við guðlast. Auðveldlega má sjá skaðsemi þessara viðhorfa séu þau skoðuð á víðtækan hátt, því þau skaða andrúmsloftið með því að hafna tilvist þess sviðs sem jarðneskt líf ætti að vinna með og viðhalda nánu sambandi við.

Ekki er unnt að búast við því að fíngerði heimurinn nálgist jarðneskt líf ef menn á Jörðinni hafna honum, formæla og óttast. Hið rétta viðhorf felst í viðurkenningu á fíngerða heiminum með rósemi, heiðarleika og góðvild. Aðlaðandi máttur hins góða hefur áhrif í öllum heimum. Hvernig er mögulegt að hafna því sem er til á sama hátt og við öll erum til?

Ekki aðeins ætti að viðurkenna ódauðleika andans, heldur ætti einnig að læra hvernig hægt er að nálgast allar birtingarmyndir óendanleikans. Fíngerði heimurinn getur nálgast okkur á jákvæðan hátt sé honum ekki hafnað. Til er tvenns konar hugrekki. Það eru þeir sem eru mjög djarfir í jarðnesku lífi, en fyllast ótta ef þeir heyra um drauga! En þeir sem eru raunverulega hugrakkir óttast ekki neina svipi, þótt þeir geti birst í mjög ógnvekjandi formi. Reyndur athugandi veit að þessir svipir geta ekki valdið neinum skaða sé þeim mætt með hugrekki.

Í gegnum reynslu margra jarðvista fæst rétt viðhorf til allra fyrirbrigða astral heimsins. Ykkur langar ef til vill að vita hvort þessar margvíslegu ósýnilegu verur geti nálgast aðsetur Okkar. Þær geta að sjálfsögðu nálgast, en þær hafa engin áhrif. Hver einasti afkimi á Jörðinni er fylltur ósýnilegum verum og menn verða að greina að hve miklu leyti þær hafa áhrif á jarðneskt líf.

Fræðarinn verður fyrst af öllu að útskýra samvinnu heimanna. Mannkyninu ætti ekki að leyfast að lifa áfram í þeirri blekkingu að það sé einangrað frá öðrum heimum. Áður en það er of seint verðum við að koma fram með allt sem vitað er um hina nánu samvinnu heimanna. Þrætum ekki um nöfn á íbúum fíngerða heimsins. Í mismunandi kenningum eru sendiboðum æðri heimsins gefin mismunandi nöfn, þau geta verið jafnt hátíðleg sem ógnvekjandi.

Við þrætum ekki um nöfn og við sóum ekki orku í að ræða um hin mörgu svið fíngerða heimsins. Margbreytni virðist vera nauðsynleg fyrir ímyndunarafl mannsins. Ef aðeins það myndi leiða til aukins þroska mannkynsins! Við fögnum því réttu viðhorfi til fíngerða heimsins. Það mun enduróma um allan heim. Aðsetur Okkar verður nær þeim sem tekst að viðhafa rétt viðhorf til fyrirbrigða fíngerða heimsins.

53. Urusvati hefur djúpstæðan skilning á mikilvægi sköpunargáfunnar. Við beinum hugsunum Okkar eftir línum samvinnu og alheimslegs skapandi starfs. Kominn er tími til að átta sig á því að sköpunargáfa manna er lýsandi vitni um þeirra innra gildi. Í allri Okkar vinnu gefum við nægan tíma til að fjölbreytt skapandi starf geti vaxið og dafnað. Ekki aðeins þeir sem hafa helgað sig listum, heldur öll þjóðin í heild sinni ætti að beina hugsunum sínum að skapandi starfi. Lát hendur fjölskyldunnar móta daglegt líf. Lát tómstundir vera fylltar skapandi vinnu og lát fólk syngja, því mikill máttur samræmis og samhljóms felst í kórsöng.

Listir ætti að kenna í skólum. Aldrei ætti að beita þvingun við kennslu lista, því sérhver byrjandi getur fundið fegurðina í iðkun lista. Einnig er rangt að aðeins lítill hópur listamanna skapi og að ávextir hæfileika þeirra séu fjöldaframleiddir. Þess háttar vélræn framleiðsla mun ekki hjálpa neinum. Allir verða að reyna að vinna skapandi starf. Lát menn hafa yndi af íþróttum sköpunargáfunnar; maraþon sköpunarstarfs er óumræðilega miklu háleitara en maraþon hlaupara!

Menn munu spyrja hvernig við skreytum aðsetur Okkar. Við skreytum það vissulega. Sérhver Okkar hefur eitt sinn verið listamaður. Hægt er að draga fram úr kaleik minninga og afreka marga fjársjóði sköpunargáfunnar og tjá þá á hinum margvíslegu sviðum listarinnar. Ef menn lærðu að þekkja og skilja fyrri æviskeið sín, gætu þeir hagnast mjög af fyrri reynslu. En menn vita ekki hvernig þeir eiga að nýta fyrri reynslu sína á viturlegan hátt. Þessi einföldu sannindi krefjast erfiðrar og þjáningarfullrar úrvinnslu.

Það er næstum ómögulegt að kenna mönnum að skapa með mætti hugsunar. Þeir trúa því ekki að strengir geti hljómað sem svörun við straumi hugsunar. Þeir hafa ekki trú á því að hægt sé að umbreyta þurrum lit í fagrar myndir með þrýstingi hugsunar. Samt hafa menn séð hvernig hægt er að mynda mynstur í sand með hljómfalli. Þeir dást að frostrósum og undrast ekki þegar strengir enduróma sem svörun við fjarlægu hljómfalli. En hugsun skapar máttugustu sveiflutíðnina og með slíkum sveiflum geta menn skapað.

Þegar þið heyrið um speglana Okkar, þá skuluð þið ekki draga þá ályktun að við séum galdramenn eða seiðkarlar. Myndin er fest með einbeitingu hugsunar. Þess vegna verða menn fyrst af öllu að fága hugsanir sínar.

54. Urusvati hefur áunnið sér skjótleika. Auðvelt er að tala um þennan eiginleika, en erfitt að beita honum í daglegu lífi. Auðvelt er að segja að hugsun sé óháð tíma, en erfitt að gera sér grein fyrir slíkum skjótleika mitt í umróti atburðanna. Stundum sendum Við aðeins eitt orð sem verður að nægja til að ná merkingu skilaboðanna í heild sinni. Í flestum tilfellum veldur slíkt orð engum áhrifum, en víðtæk vitund grípur hvert merki með ákefð. Margar ástæður liggja að baki svo stuttum boðum. Stundum er umrótið svo ofsafengið að ógerlegt er að senda öll orðin. Sundum eru svo mörg eyru að hlera þessar sendingar að nauðsynlegt er að vera mjög varkár til að veita ekki óboðnum hlustendum upplýsingar. Það er auðveldara að senda út á mjög óaðgengilegu tíðnisviði þegar allt er rólegt, en þegar bardagar geisa geta bestu tíðnisviðin orðið fyrir truflunum og magnað sendikraftinn svo mikið að það verði móttakandanum lífshættulegt.

Urusvati hefur einnig áunnið sér hæfni til að greina hvað er ekta. Raddir Okkar þekkjast á hljómblæ sínum og allir sem eru Okkur nákomnir láta ekki blekkjast. En til viðbótar því að þekkja hljómblæinn er til staðar tilfinning sem skynjar hið upprunalega. Hin víðtæka vitund hefur alltaf þessa skýru tilfinningu og lætur ekki blekkjast. Barnið greinir undantekningarlaust fótatak móður sinnar og föður. Hve miklu nánar skynjar ekki hjartað sendingar fræðarans.

Hinir fáfróðu munu segja að mistök séu möguleg þar sem hægt sé að líkja eftir rödd fræðarans. En víðtækri vitund getur ekki orðið á mistök, því að beinni þekkingu getur ekki skjátlast. Ef mikil spenna er ríkjandi er mögulegt að titringur komi fram, en þá er hægt að endurtaka spurninguna. Það veldur sérstökum vanda að menn geta ekki gert sér grein fyrir eðli bardaganna á innri sviðunum. Við jarðneskar aðstæður er erfitt að ímynda sér bardaga mitt í óendanleikanum. Menn skilja heldur ekki rétt rödd þagnarinnar. Samt sem áður er tekið á móti henni og hún endurómar í vitundinni. Allar hugsanir sem tekið er við eða menn tileinka sér bera með sér sína sveiflutíðni og hljóm. Einnig endurtaka menn oft hugsanir sem þeir taka oft á móti. Það ferli á sér sérstakt heiti – innsiglun hugsunar. Þið vitið að yfirleitt er nauðsynlegt að endurtaka það sem tekið er á móti til að það gleymist ekki. Smæsta truflun getur rofið móttökuna, jafnvel þó um víðtæka vitund sé að ræða.

Þið furðið ykkur með réttu á því að íbúar fíngerða heimsins tala ekki um bardagann í geimnum. Meistararnir hafa meðaumkun með íbúum Jarðar og venjulegt fólk veit ekki af bardaganum. Hið sama gildir um Jörðina, þar eru margir bardagar háðir, en margir annað hvort vita ekki af þeim eða nefna þá öðrum nöfnum. Á sama hátt er í fíngerða heiminum umrót og eyðilegging, en meirihluti manna á Jörðinni skilur ekki ástæðuna fyrir því. Lægri sviðin eru fjölmennari en hin hærri. En umrótið nær ekki til „Sælusviðanna“ sem þið þekkið. Þess vegna dveljast hinir andlegu verkamenn ekki þar, heldur leita eftir virkri þjónustu á Himni sem á Jörðu.

55. Urusvati veit hvernig á að vekja gleði. Þessi hæfni tilheyrir hinum þjálfaða vilja. Skynjun gleði vex með fullvissu, en ekki með því að safna að sér hlutum. Það eru ekki til neinar aðstæður þar sem ekki er hægt að skynja gleði. Þegar Við tölum aftur og aftur um gleði, þá köllum við hana fram sem máttugt og raunverulegt afl. Það er ekki hægt að ímynda sér aðsetur Okkar sem gleðisnauðan stað. Mestu bardagarnir eru fylltir gleði. Án hennar er engin virkni. Með því að útskýra merkingu og gildi gleði er verið að álykta um mikið sálfræðilegt lögmál.

Hinir fáfróðu tengja gleði við góða meltingu eða góðan árangur í lífinu, en gleðin er meira en góð heilsa og árangur. Hún getur einnig ríkt í sjúkleika og niðurlægingu. Þessi tilfinning er ræktuð í gegnum margar jarðvistir en einnig frá viturlegri dvöl í fíngerða heiminum.

Menn íþyngja sér með hlutum, ekki aðeins á Jörðinni, heldur einnig í fíngerða heiminum, þar sem sérhver ónauðsynlegur hlutur verður að þungri byrði. Jafn óþolandi er óheft og óviturleg sköpun í fíngerða heiminum. Þar er unnt að skapa svo mikinn ljótleika að hann mun fylgja manninum eftir í gegnum öll æviskeið. Gleðin getur ekki vaknað þar sem menn dragnast með skítuga hala á eftir sér. Gleðin varðar framtíðina en getur ekki lifað í fortíðinni.

Áttið ykkur á því að Við viljum skilgreina gleði sem skapandi mátt og andagift. Gleðin er traustur segull. Við óskum þess að menn viti hvar þeir geta fundið bót meina sinna. Með gleði geta þeir myndað betra og æðra samneyti. Í gleði finna þeir staðfastan samverkamann. Ósk þeirra verður sú að heimurinn geti lifað í gleði.

Vonleysi getur ekki komist yfir þröskuldinn á bústað Okkar, því þar býr gleðin. Lát menn muna að enginn getur svipt þá gleði sinni. Jafnvel vélar vinna betur ef þær eru notaðar með gleði. Vissulega er hægt að laga allt og bæta og ekkert getur lokað leiðinni til fullkomnunar.

Það er hátíð hjá Okkur þegar við sjáum að samverkamenn Okkar hafa öðlast skilning á varnarmætti gleðinnar.

56. Urusvati hefur áttað sig á því hve varfærni er mikilvæg við notkun lyfja. Ætíð, og í öllum samskiptum Okkar við menn, erum við læknar í sönnum skilningi orðsins. Við erum sífellt að hitta sjúklinga og reynum þá að endurvekja jafnvægi hjá þeim. Menn leita oftast til Okkar þegar þeir eru orðnir sjúkir. Leita verður leiða til að upplýsa vitund þeirra samhliða því að sjúkdómurinn er læknaður.

Menn gera sér ekki grein fyrir því að Við verðum að meðhöndla þá eins og þeir væru hættulega sjúkir. Þegar Við ráðleggjum ykkur að sýna varkárni, er það ekki til marks um að Við teljum ykkur kærulaus. Þvert á móti, athygli Okkar er aðeins vakin þegar viðkomandi er haldinn mikilli spennu og sérstakrar varúðar er þörf. Ef þið hugsið um ykkur sjálf sem lækna, verður markmið ykkar skýrara.

Sérstaklega um þessar mundir eru menn haldnir svo mikilli spennu að nauðsyn er á viturlegri meðferð. Það er oft nauðsynlegt að vera þeim sammála um smáatriði í þeim tilgangi að vernda hið mikilvægasta og uppörva þá til að þeir losni undan ótta. Þannig verður lífsfræðarinn að tileinka sér aðferðir viturra lækna. Stundum er mögulegt að stöðva framgang sjúkdóms með einu uppörvandi orði. Við skulum ekki velta um of fyrir okkur hvar og hvernig sjúkdómurinn byrjaði. Læknirinn kennir aldrei sjúklingnum um ástandið, en leitast við að hindra hnignun lífkerfisins. Í öllum sjúkdómum má finna ummerki niðurbrots. Því er nauðsynlegt að beita aðferðum lækninga við yfirsjónir manna.

Í nýlegu dæmi um andsetni var um að ræða nánast vonlaust tilfelli, vegna þess að hin sjúka kona var orðin þreytt á baráttunni og var orðin fylgjandi kvalara síns. Fólkið sem hún umgekkst jók einnig á sjúkdómsvandann. Yfirleitt ætti að flytja þá sem eru andsetnir á nýjan stað í nýtt umhverfi. Ekki reyndist unnt að hafa áhrif á hana skriflega, en með persónulegum segulkrafti reyndist unnt að stöðva vöxt meinsemdarinnar. Menn gera sér ekki grein fyrir því að hve miklu leyti umhverfið getur ýtt undir ákveðna sjúkdóma. Þess vegna ættu menn að venjast því að taka sér hlutverk læknis. Innra líf Okkar er fyllt af læknandi athöfnum.

57. Urusvati, ásamt Okkur, veit hvernig á að vera góð. Í þessu eina orði felst alheimslegt viðhorf. Ekki er hægt að nefna neitt hugtak sem hefur verið jafn mikið rangfært. Undir dulargervi góðmennsku má finna allt frá leti og hræsni til hreinnar grimmdar. Nauðsynlegt er að vita hvernig á að vera raunverulega góður, til að geta orðið öðrum til góðs en ekki eingöngu sjálfum sér.

Við sendum sífellt út hugsanir um góðmennsku, athafnir og vinnusemi. Góðmennska getur ekki verið til án athafna. Í iðjuleysi er enga góðmennsku að finna. Engin góðmennska er möguleg þar sem ekki er virk andstaða gegn hinu illa. Engin góðmennska verður til ef við tökum ekki þá ábyrgð að greina hið illa, sjá spillingu og nýtum öll tækifæri til að koma með ljós. Fögur eru orðin: „Ljósið eyðir myrkrinu.“ En það verður að koma með ljósið og sú athöfn í sjálfri sér er full sjálfsafneitunar. Ljósið mun einnig upplýsa og eyða skelfilegum óvættum, jafnvel þótt þeir sýni sína verstu hlið. Sérhver ljósberi verður að sigrast á þessum óvættum. Hann ætti ekki að hægja för og ætti að horfa óttalaus á óvættina. Ekki er unnt að sigrast fullkomlega á hræðslunni ef ljósberinn lítur undan í þeirri von að ljósið eitt dugi til að eyða óvættunum. Það er ekki aðeins ljósið heldur einnig frumorkan sem veitir höggið sem eyðir myrkrinu.

Þið hafið heyrt að við sendum örvar Okkar á síðustu stundu. Þið verðið að skilja ástæðuna fyrir þessu og vita hvenær síðasta andartakið fyrir allar ákvarðanir rennur upp. Takið við þessari ábyrgð. Margir reyna að forðast hana með öllum mögulegum ráðum og þess vegna eru slíkir hermenn óáreiðanlegir. Við prófum alla samverkamenn, en fáir eru þeir sem meðtaka gleðina við slíkt verkefni. Flestir munu forðast það og reyna að fela sig þegar tími athafna rennur upp. Lát samverkamennina sýna hver er góður og hver er illur. Lát þá sýna hver er tilbúinn til athafna og hver kýs rökkur letinnar. Myrkrið er þar ekki langt undan.

Aðsetur Okkar er ákaflega friðsælt, en það er reiðubúið að berjast fyrir hinu góða. Við fréttum af því þegar svikarar eru að undirbúa nýjar árásir og getum því valið besta tímann til bardagans. Aftur komum við að karmískum lögmálum. Sérhver athöfn byggist á einhverju sem gerst hefur áður og afleiðingarnar blandast mörgum fyrirliggjandi aðstæðum. Þær þarf að viðurkenna og bregðast við með hliðsjón af þeim. Ég ræði um þetta vegna þess að margir telja að Við getum komist hjá karmalögmálinu.

Margs konar aðstæður þurfa að vera fyrir hendi til að draga úr afleiðingunum. Verum því vakandi svo hið góða verði ekki fyrir neinu tjóni.

58. Urusvati berst gegn allri grimmd og pyntingum. Þetta er ekki af skorti á kjarki, heldur af þeirri innri vitneskju að ekki er hægt að leyfa neins konar pyntingar þar sem það stríðir gegn göfgi mannsins.

Margvíslegum pyntingum er beitt gegn bæði mönnum og dýrum. Hafa þarf í huga að karma pyntinga er ákaflega þungt. Hinni ósiðmenntuðu vitund skyldi gert ljóst hvað er leyfilegt og hvað er ekki. Fáar pyntingar er hægt að afsaka með tilvísun til laga.

Reyndur læknir spyr sjúklinga sína fyrst hvernig þeim líður. Vellíðan er mikilvægari en lyf. En hvernig er unnt að líða vel á Jörðinni ef enginn er öruggur fyrir grimmd?

Vellíðan getur leyst mörg flóknustu vandamál þjóðar, en nauðsynlegt er að vernda friðhelgi og virðingu manna. Við skulum ekki treysta um of á hina svonefndu óhlutdrægni dómstóla, þar sem mannleg sæmd er fótumtroðin af grófgerðum geðþóttahætti. Það er auðvelt að tala um kvalalosta, en það er hræðilegt að horfa upp á það að þessi ótrúlega geðveiki sé ekki stöðvuð. Já, gera verður ráð fyrir því að menn muni ekki skilja hvaða frumeiginleika Við erum að tala um. Það eru til svo margir smáir en samt skelfilegir kvalarar út um allan heim! Vísvitandi pyntingar á náunganum eru í engu frábrugðnar þeim sem voru stundaðar á grófgerðustu tímaskeiðum mannkynsins. Hægt er að minnast mannfjöldans í hringleikahúsum Rómverja; geta hópar nú á tímum stært sig af betri hegðun? Er annar klæðaburður nokkuð til marks um annað hugarástand? Þetta þurfa menn að hafa í huga til að geta gert sér grein fyrir því sem aðsetur Okkar þarf að berjast við.

Til eru mörg félög til verndunar dýra, en of fá til verndunar manna. Lát þá sem beita grimmd ekki dirfast að þykjast vera góðhjartaðir. Það er erfitt að sigrast á grimmd. Við vinnum af kappi, Við sendum máttugar hugsanir, en þær ná sjaldan að vekja steinhjörtu.

Menn geta fundið fyrir mætti sólarupprásarinnar og birgt sig upp af sólarprönu, en óendanlegrar þolinmæði er þörf til að berjast gegn grimmd. Við erum stöðugt að rekast á dæmi um fíngerða grimmd, alveg eins og menn hafi sammælst um að íþyngja karmabyrði plánetunnar. Það er ekki aðeins í stríðum og uppreisnum sem illsku og grimmd er að finna, heldur einnig í skólum og innan veggja fjölskyldunnar. Gerum okkur grein fyrir því hve miklar þjáningar og örvæntingaróp ná til aðseturs Okkar. Öllum þarf að hjálpa.

59. Urusvati getur greint yfirmennskar athafnir með innsæisþekkingu sinni. Við skulum athuga hinar ýmsu gerðir mennskra athafna. Það eru athafnir hins frjálsa vilja, karmískar athafnir og athafnir undir áhrifum andsetni. En það geta verið um að ræða sérstakar athafnir sem ekki falla inn í neinn þessara flokka. Við nefnum þær yfirmennskar athafnir. Útvaldir menn taka að sér verkefni fyrir Okkur, og nýta til þess meðvitað sinn besta vilja og hæfni, en athafnir þeirra stafa ekki frá frjálsum vilja eða andsetni. Né heldur er unnt að kalla þær karmískar, þar sem í þeim er allt karma uppurið eða nýtt að hefjast. Þegar allt þetta er skoðað, er unnt að komast að þeirri niðurstöðu að þannig athafnir séu sérstök tjáning, innblásin af æðri máttaröflum.

Í fyrndinni voru slíkar athafnir nefndar heilagar, því í þeim gátu menn skynjað eitthvað æðra en hið jarðneska og skynjun slíkra athafna er hluti innsæisþekkingar. Það er erfitt að flokka þær í samræmi við mennsk lögmál, en víðtæk vitund getur fundið fyrir nálægð þeirra. Æðri stétt hinna fjandsamlegu máttarafla er sérstaklega í nöp við þá sem Við höfum sent. Hinar myrku verur geta ekki skilið verkefnið eða metið umfang þess og það veldur þeim enn meiri gremju.

Hægt er að nefna mörg dæmi úr sögunni um menn sem unnu að verkefnum fyrir Okkur. Þessi verkefni eru af ýmsum toga. Við setjum aðeins fyrir eitt verkefni, en það getur tekið heilt æviskeið að leiða það til lykta. Við erum vanir að taka ábyrgð á hinum útvöldu. Sérhver félagi í samfélagi Okkar mælir með einstaklingi sem hefur verið prófaður og tekur á sig ábyrgð fyrir hann. Þessar langvarandi prófanir eru Okkur nauðsynlegar og þær geta jafnvel náð yfir mörg æviskeið. Við verðum að vera fullkomlega vissir um að kjarni verkefnisins verði framkvæmdur. Við fáumst ekki um smáatriði, vegna þess að umhverfisaðstæður geta haft áhrif. Við fáumst heldur ekki um minni háttar tímasetningar, því það sem er Okkur mikilvægt er kjarni verksins. Hvar er árangur og hvar eru mistök? Aðeins Við getum dæmt um það. Mörg vandamál blasa við þegar orsakir og afleiðingar eru metnar. Við beinum athygli okkar til framtíðar til að komast hjá ótímabærum niðurstöðum.

Spyrja má hvers vegna Við höfum ekki fyrr minnst á yfirmennskar athafnir. Ekki má ræða of opinskátt um þessi verkefni, því margir gætu fyllst stórmennsku og haldið því fram að geðþótta athafnir þeirra væru hluti af slíku verkefni. Á heildina litið eru margir sem ekki munu skilja þessa skiptingu athafna í fjóra flokka. Ef innsæisþekking bendir ekki á mismuninn, munu vitsmunirnir ekki greina þar á milli.

Sumir höfðu ánægju af því að lesa The History of a Piece of Bread, en öðrum fannst hún þreytandi og leiðinleg. Mörgum mun einnig finnast leiðinlegt að velta fyrir sér mennskum athöfnum. Við skulum minnast þess sem yfirmennskar athafnir munu ábyrgjast. Menn ættu að hjálpa Okkur að hjálpa þeim.

60. Urusvati getur vottað hve lífið er tómlegt án sambandsins við Okkur, hafi áður komist á samband við Bræðralagið. Það er oft nauðsynlegt að finna stuðning og bera ákvarðanir sínar saman við meginreglur sem búið er að sannreyna með langri reynslu. Fræðslan verður lifandi þegar hún tengist uppsprettu sinni. Það er kaldranalegt og niðurdrepandi að ganga einn milli fjandasamlegra tjaldbúða. Fíngerði heimurinn eyðir að sjálfsögðu einmanaleika, en það er óendanlega miklu meira uppörvandi og hvetjandi að vera meðvitaður um aðsetur Okkar. Það er ekki í óendanleikanum, heldur hér og nú sem Virkið opinberast. Þótt menn viti ekki nákvæmlega hvar aðsetrið er staðsett, geta menn snúið sér í áttina til þess, en sú átt opinberast af leitandi hugsun.

Ef listamaður myndi gera mynd af aðsetri Okkar, væri hægt að nýta afurð ímyndar hans sem teraf, þótt hún væri ekki nákvæm. En besta terafið er mannshjartað. Kraftmikill segull myndast frá hjarta til hjarta, en slíkur aðdráttarkraftur getur verið mikill, jafnvel efnislega. Aðdráttaraflið til hjarta Okkar getur vaxið svo mikið að ógerlegt er að halda aftur af því. Slíkur máttur nefnist „Eldvagninn.“ Þannig eldlegar skynjanir verða að byggjast á miklu samræmi, annars geta þær breyst í óskipulegan hvirfilvind.

Þeim sem veit af Okkur verður ekki hafnað. Við munum þekkja hugsanir hans og feginleiki hans verður mikill þegar hann áttar sig á því að engin þörf er á að fela þær. Hann veit að sérhver góðviljuð hugsun styrkir sambandið við Okkur; án orða, einfaldlega með djúpstæðum skjálfta hjartans, munu allar góðviljaðar sendingar ná til Okkar. Af reynsluleysi geta átt sér stað ónauðsynleg áköll, en samhljómur og hollusta byggja upp sanna samvinnu. Við fögnum þegar stigi hinnar sönnu samvinnu er náð; þá munu hin minnstu merki skiljast. Mikils metin eru stutt og viturleg boð og þá er unnt að segja: „Okkar gleði er þín gleði.“

Svo lengi sem menn eru uppteknir við töfra og galdra eru þeir ekki með Okkur. Hjartað er hið eina sem þörf er á fyrir aðsetrið. Fagurt hjarta mun ætíð þjást á Jörðinni, en því hjarta sem þjáist er treystandi. Fiskur getur ekki lifað án vatns og örninn fagnar ekki án frelsis. Við mælum með einfaldleikanum við vini Okkar, því að lífið er orðið svo flókið að það veldur skaða. Þess vegna ræðum við ekki um margar uppgötvanir og þótt margar formúlur séu tilbúnar í aðsetri Okkar, er ekki tímabært að opinbera þær fyrir vísindamönnum, því að háleitu markmiði þeirra er svo auðveldlega hægt að snúa yfir í skaðlega nýtingu. Lát þá sem þekkja Okkur varðveita þessa þekkingu. Svikull trúníðingur hlýtur sár sem ekki grær. En ræðum ekki um afleiðingar, því einhverjir munu líta á þær sem ógnanir. Sérhver vefari harmar slitinn þráð og fagnar sterku bandi – þannig er það einnig með anda mannsins.

61. Urusvati hræðist ekki að taka þátt í bardaga með Okkur. Margir verða hræddir við það eitt að minnst er á bardaga, og aðrir verða ráðvilltir þegar þeir heyra hversu langvarandi hann er. Enn aðrir verða skelfingu lostnir þegar þeir átta sig á því að bardaginn er án enda. Flestir reyna að takmarka hið óendanlega.

Sá dauðans ótti sem gagntekur þá sem telja sig vera mikla dulspekinga er næstum broslegur. Auðvelt er fyrir þá að sitja og skrifa greinar, en þeir fölna ef minnst er á orðið „bardagi!“ Menn sem tala sjálfbirgingslega um vígslur sínar eru langt frá raunverulegum athöfnum. Hvernig er unnt að kenna þeim að hafa yndi af baráttunni fyrir hinu góða? Engin orð geta breytt hugleysingja í hetju. Það er aðeins aðsteðjandi hætta sem getur þvingað menn til athafna, og það er einmitt hugleysinginn sem verður að halda áfram og mæta hættum. Menn biðja Okkur oft um að vernda þá frá hættum, en hættur eru nauðsynlegar innri vexti þeirra.

Óendanleiki baráttunnar veldur hinum fáfróðu oft uppnámi, og betra er að ræða ekki um eilífa baráttu við þá sem ekki eru undir það búnir. Leyfum þeim að halda í vonina um sigur sem þeir geta skilið. Þegar menn hugsa um slíkan sigur, vofir að sjálfsögðu yfir þeim skuggi ósigursins. Í baráttunni í óendanleikanum þekkjum Við ekki ósigur.

Gerum ekki lítið úr æðstuprestum myrkursins; þeir eru ekki auðveldir andstæðingar. Þeir eru slægvitrir og þeir þekkja óendanleikann. En þekking Okkar nær lengra en þeirra, og þeir skynja að eitthvað er til sem þeir geta ekki öðlast. Mikil er reiði þeirra yfir slíkri takmörkun, en þannig er lögmálið. Furðulegt er að sjá hve lítilmótlegar aðferðir þeir nota til að laða til sín fólk! Menn verða að reiða sig á varanleg gildi en ekki hverfular jarðneskar hugmyndir.

Spyrja má hvort við þreytumst í bardaganum. Slík spurning er ekki viðeigandi. Betra væri að spyrja um hversu mögnuð spenna Okkar er, en hún er gríðarleg. Ef systir okkar Urusvati hefur heyrt svitadropa falla, er unnt að ímynda sér hversu mikla spennu orka Okkar hefur. Ef hár Okkar stendur á stilkum í æðandi rafmagnsstormi, getur maður ímyndað sér spennuna. Við leynum því ekki að í bardaganum verða hápunktar hinnar mestu spennu. Séu menn hræddir, ættu þeir ekki að koma nálægt bardaganum fyrir hinu góða. Óttist menn dóma manna, ættu þeir ekki að hugsa um siðfræði. Skjálfi menn af ótta í jarðnesku lífi, munu þeir hrörna í myrkrinu. Unnt er að sjá að hinn huglausi ferst fyrr en hinn hugrakki; verið þess fullviss að sá sem óttast dauðann dregur hann til sín. Þannig má sjá að ævinlega er gagnlegt að þroska vitundina um hið góða. Við skulum því ekki dveljast lengi við hugsanir um hræðslu, því þegar rætt er um Bræðralag er ekkert rúm fyrir ótta.

62. Í fíngerða líkamanum er Urusvati yfirleitt íklædd purpuralitum grískum fötum. Litur fatanna samsvarar yfirleitt lit árunnar og snið fatanna ber oftast svip af tímabilinu sem stendur andanum næst. Alls staðar í fíngerða heiminum er fegurð flíkanna sem maður klæðist tjáning skýrrar hugsunar. Í hugarheiminum íklæðumst við yfirleitt flíkum einhvers fyrra æviskeiðs. Þeir sem ekki hafa skýrar minningar um fortíðina eiga oft við erfiðleika að glíma í fíngerða heiminum. Þeir minnast aðeins brota af ýmsum klæðum sínum í fortíðinni og úr því verður ósmekkleg samsetning. Þeir finna þörf fyrir að skapa sér strax klæði, en óagað ímyndunarafl þeirra getur aðeins gert mynd af hluta klæðanna. Þegar hinir nýkomnu sjá aðra í ýmiskonar fötum, fer hugurinn á flug hingað og þangað og sérhver bylgja hugsunar myndar sérstakan klæðisbút.

Hið sama gerist við alla hugræna uppbyggingu og að lokum verða menn að eyða þessum ljótu haugum. Það er ekki að ástæðulausu að Við ráðleggjum ykkur að einbeita huganum, að þroska hugsun í jarðnesku lífi, og skilja tilfinningu samræmis, svo sérhver andleg sköpun muni reynast gagnleg í fíngerða heiminum. Okkur líka best einföld og þægileg klæði sem hindra ekki störf Okkar. Það væri betra ef allir gætu fundið þægileg klæði sem væru gagnleg í fíngerða heiminum, það er ákaflega dapurlegt að sjá menn klædda óviðeigandi jarðneskum fötum. Að sjálfsögðu mun leiðbeinandinn útskýra ljótleika þeirra og óhentugleika, en sumir eru svo sljóir að þeir skilja ekki þannig ráðleggingar. Þeir vilja eingöngu hafa samskipti með orðum, en geta ekki náð tökum á hugrænum samskiptum.

Í lægri sviðum fíngerða heimsins er mikinn ljótleika að finna. Bráðnauðsynlegt er að Jörðin sé hreinsuð af honum. Þegar ég ræði um mátt fegurðarinnar, þá hef ég ekki aðeins Jörðina í huga, heldur einnig fíngerða heiminn. Við dveljum helming lífs okkar í fíngerða heiminum og margir sem eru okkur nákomnir eru nú þegar í fíngerða líkama sínum. Hægt er að ímynda sér fjölbreytileika hins innra lífs í aðsetri Okkar þegar hin ytri jarðneski heimur kemst í snertingu við æðri heimana. Dýrlegir eru glampar elds og geisla!

63. Urusvati kann að meta gildi alls í tilverunni, því allt er afleiðing af virkri hugsun. Þótt eitthvað sé á hnignunarbraut er samt einhvers staðar dulinn í því neisti æðstu orkunnar. Ef einhver hluti eða þáttur af heildarmynd er andstæður því sem menn telja vera rétt er því oftast hafnað algerlega. Þannig bregst hinn fávísi og óreyndi maður við, en með meiri þekkingu lærir hann að meta alla skapandi krafta, þótt þeir séu lítt hæfir. Jafnvel þjónustuandi getur byggt musteri. Þeir hafa ef til vill ekki skilning á tilgangi byggingarinnar, en vegna hæfileika sinna eru þeir góðir smiðir. Sérhver goðsögn ber í sér sannleiksbrot. Til dæmis er oft minnst á neðanjarðarbúana í Agartha, þótt þeir séu ekki til. Sagan varð til ekki langt frá aðsetri Okkar, þar sem við eigum víðáttumiklar neðanjarðar geymslur, en þær eru ekki eins mikilfenglegar og lýst er í sögunni. Aðrar sagnir minnast á „Hvítuvötn“ og „Hina himnesku Jerúsalem.“ Báðar þessar sagnir tengjast aðsetri Okkar. Óviturlegt væri að hafna þessum þjóðsögum án þess að íhuga merkingu þeirra. Sérhver þeirra geymir nákvæmar vísbendingar, oft vísvitandi faldar. Við sjálfir dyljum oft merkingu þjóðsagnar, svo íbúar í nágrenninu ljóstri ekki upp of miklu. Stundum verðum Við að banna stranglega að gengið sé yfir viss mörk. Ætíð skyldi maður meta vandlega allar aðstæður.

Við skulum samt ekki dvelja of lengi við nákvæm smáatriði vandamálanna. Samverkamenn verða að gera sér grein fyrir því að ætíð er þörf á skjótum ákvörðunum. Ímyndið ykkur magn upplýsinganna sem streymir inn í aðsetur Okkar og við því öllu þarf að bregðast tafarlaust. Með þessu megum Við ekki hræða jarðneska samverkamenn Okkar, en verðum alls staðar að finna nothæfan orkuneista. Margir gagnlegir samverkamenn þurfa á endurteknum vísbendingum að halda, því þeir taka ekki við boðum fyrst þegar þau eru gefin. Þetta eykur þolinmæði hjá samverkamönnum, sem læra að skapstyggð er ekkert annað en veikleiki viljans. Þokukennd hugsun hefur yndi af endurtekningum, en atburðarásin heldur sínum hraða.

Við viðhöfum gríðarlega mikla varúð til að setja samverkamenn Okkar ekki í ónauðsynlega hættu. En auðvelt er að ímynda sér hve erfitt er stundum að vernda þá sem ana út í hættur, hneykslaðir á hinni verndandi hönd. Þannig er andrúmsloft Okkar mettað. Aðeins með samvinnu við fíngerða heiminn er Okkur unnt að auka möguleikana.

64. Urusvati virðir dagsetningar. Undrist ekki að Við ræðum aftur um dagsetningar, sem eru svo mikilvægar í innra lífi Okkar. Hægt er að gefa upp margar dagsetningar, en meiri hluti manna er ekki fær um að nýta sér þær. Það er vegna þess að sjálfshyggja þeirra kemur í veg fyrir það og fær þá til að taka allar vísbendingar til sín persónulega. Minnst er á mikilvæga dagsetningu, en þegar þeir vakna þann morgunn, spyrja þeir önugir: „Hvar er þessi sérstaki atburður?“ Menn gera sér heldur ekki grein fyrir því að oft gerast atburðir á öðrum sviðum. Skapstyggð og ráðleysi trufla andrúmsloftið; það þjóna engum tilgangi en eyðing þess krefst orku. Það væri óskandi að menn myndu heldur spara orkuna og nýta hana sjálfum sér til hagsbóta!

Það er mjög skaðlegt að öfunda aðra af árangri þeirra. Þegar það fréttist að einhver hafi náð til aðseturs Okkar vegna liðsinnis sem hann veitti bróður í eitt skipti, munu margir telja sig geta gert það sama. En þeir gleyma því að þjónustan var aðeins síðasta perlan í heilli perlufesti af óeigingjörnum athöfnum. Mörgum reynist erfitt að viðurkenna að einhver sem lítur út fyrir að vera mjög venjulegur geti geymt mörg afreksverk í hjarta sínu. Í mörgum æviskeiðum hefur eldur þjónustunnar logað skært, en hver getur metið framfarir hjartans? Menn eiga yfirleitt erfitt með það sem er ekki venjulegt. Þannig er mörgu hafnað sem gæti komið að gagni í starfi Okkar. Við höfum þurft að gera okkur mjög venjulega í útliti og höfum stundum neyðst til að taka okkur jarðneska titla til að eiga auðveldara með að fá aðgang að þröngum og spilltum hópum.

Okkur er ætíð umhugað um að sérhver athöfn sé unnin á réttum tíma. Andstæðingar Okkar geta steypt heiminum í ringulreið og jafnvel hrundið af stað styrjöldum og Við verðum að sjá fyrir afleiðingar slíkra atburða til að tryggja að þeir verði til að efla framfarir þjóðanna. Af þessum ástæðum erum Við nefndir Heimsstjórnin. Margir óttast slík hugtök, en beina samt bænum sínum fúslega til hins æðsta og eru reiðubúnir að þiggja leiðbeinandi hönd. Ef við getum ímyndað okkur hinn æðsta og haft lifandi trú á honum, hví getum við ekki viðurkennt Heimsstjórnina? Þannig væri unnt að staðfesta virðingu fyrir hinum æðsta stjórnanda Helgivaldsins.

Dagsetningar eru gefnar. Lát menn taka við þeim með allri hugsanlegri varúð.

65. Urusvati hefur oftar en einu sinni tekið á sig þjáningar annarra. Þessi athöfn verður hluti af hinni miklu þjónustu. Í fyrstu er hún erfið, en síðar verður slík yfirfærsla og sjálfsfórn eðlislægur hluti mannsins. Læknar gætu fylgst með og rannsakað bæði tilflutning, næmni og yfirflutning sjúkdóms í heild sinni, en einkenni hans gætu orðið mjög margþætt vegna samhliða áhrifa frá mörgum mismunandi uppsprettum. Yfirfærsla á þjáningum annarra getur einnig þróast vegna móttækileika persónunnar. Í byrjun takmarkast yfirfærsla sársauka við nákomna aðila, en svo þróast sjálfsfórnin til annarra og eru miklar vegalengdir engin takmörkun.

Verið ekki hissa á því að víðtæk sambönd Okkar færa Okkur margvíslegar þjáningar; hægt er að venjast öllum aðstæðum. Þegar Við ráðleggjum varúð, gerum Við ráð fyrir möguleikanum á tilflutningi sársauka. Við venjulegar lífsaðstæður væru þessar kvalir ekki fyrir hendi, en aðstæðurnar sem Við ræðum um eru ekki venjulegar, heldur hafa orðið til vegna óeðlilegra lífshátta.

Stundum biðjum Við fólk um að íþyngja ekki starfi Okkar með slíkum sendingum og trufla ekki samstarfsmenn Okkar með því að hella yfir þá líkamlegum og andlegum sársauka. Fjöldinn allur hrópar á hjálp í sjúkdómum sínum, jafnvel þótt þeir hafi sjálfir skapað sér þessar aðstæður deginum áður. Læknar ættu að leggja meiri áherslu á að rannsaka orsakir sjúkdóma í þeim tilgangi að uppræta þá á byrjunarstigi. Margir sjúkdómar eru smitandi bæði líkamlega og andlega. Sjá má að andleg smitun á sér stað oftar og af því leiðir að tilflutningur sársauka eykst.

Hægt er að lesa um sérstakar þjáningar sem óvenjulegt fólk verður fyrir. Þetta eru ekki hinar svonefndu helgu kvalir, heldur meðvituð yfirfærsla á þjáningum annarra. Unnt er að segja um aðsetur Okkar að þar sé enga sjúkdóma að finna, samt er þar mikil þjáning. Slíkt er óhjákvæmilegt þegar unnið er fyrir mannkynið og því hjálpað.

66. Urusvati hefur með réttu veitt því athygli að flestir sem leitast við að nálgast Okkur missa áhugann þegar þeir frétta af mikilli vinnu Okkar. En Við beitum engum þvingunum. Aðeins þeir, sem leiðast til hinnar miklu þjónustu vegna karmískra orsaka, geta orðið áreiðanlegir samverkamenn. Ekki er unnt að þröngva mönnum til að líka vel við mikla vinnu. Sérhver þvingun á þessu sviði leiðir einungis til andúðar. Bjóðið þá velkomna sem berja að dyrum, en ekki er skynsamlegt að safna iðjuleysingjum af götunni. Allir geta séð að vinir nálgast eftir sérstökum leiðum og hvorki ætterni né þjóðerni skipta þar neinu máli.

Það er sérstaklega mikilvægt að átta sig á að Við búumst ekki við miklum fjölda samverkamanna og Við sjálf erum ekki mörg. En fámennt samfélag er samt mikils virði, því auk hinnar jarðnesku aðstoðar er unnt að kalla til samvinnu frá fíngerða heiminum. Í vissum tilfellum eru samverkamenn frá fíngerða heiminum mjög gagnlegir. Þeir eiga ekkert sameiginlegt með þeim verum sem safnast að fundum spíritista og drekka í sig orku viðstaddra. Slíkar verur koma að engu gagni. Að sjálfsögðu getur það gerst að samhljómur fundargesta geti veitt þroskuðum anda færi á að birtast, en slíkur samhljómur er fátíður og krefst langvarandi samvinnu. Samstarf Okkar við æðri svið fíngerða heimsins hefur annað markmið. Flammarion hefur verið Okkur mjög gagnlegur, og Marconi mun einnig koma að liði, vegna þess að slíkir menn geta nýtt krafta fíngerða heimsins á viturlegan hátt og skilið hvernig best er að vinna fyrir hina miklu þjónustu á Jörðinni. Íbúar æðri sviðanna geta auðveldlega efnisbirt sig, alveg á sama hátt og hinir bestu íbúar Jarðarinnar geta auðveldlega heimsótt fíngerða heiminn.

Urusvati hefur aftur heyrt um sorgir systur Oriole. Það er að sjálfsögðu mjög erfitt að fyllast ekki óhugnaði yfir því að útbreiðsla jarðneskrar hrörnunar er svo mikil að fordæmislaust er. Ekki er mögulegt að stöðva þessa atburði við lok Kali aldarinnar með skipun. Menn verða að ganga í gegnum þá og endurvinna rykið sem sviptivindar þeirra þyrla upp. Það er vissulega erfitt að gera svo mikið rusl skaðlaust, en nauðsynlegt er að aðgreina fræið frá hisminu! Við fullyrðum að sýna þarf hverju fræi mikla aðgæslu. Við lok Kali aldarinnar kemur fram margt sem ekki hæfir. Því heiftúðugri sem bardagi Harmagedón er, því betur nýtist hann til eyðingar úrgangsins. En Andi Jarðarinnar hefur aðra skoðun. Hann hefur mætur á ruslinu og vonast eftir að geta aukið það. Til eru þeir sem ekki vilja þrífa heimili sín og hið uppsafnaða rusl sem það leiðir til getur orsakað íkveikju. Þess vegna ættu þeir sem óttast vinnu að gleyma því að Við séum til.

67. Urusvati veit vel að við getum ekki notað nein jarðnesk tæki til að bera kennsl á vini Okkar. Ekki er unnt að útskýra fyrir jarðneskum skilningi hve samverkamenn Okkar dreifast víða. Þá má finna á mörgum mismunandi stöðum, jafnvel í andstæðum fylkingum og í stríði má finna þá í andstæðum herbúðum. Þannig þversögn er erfitt að útskýra fyrir jarðneskri vitund, en aðsetur Okkar fylgir ekki jarðneskum lögmálum. Víðfeðm vitund getur skilið að til séu tengsl handan jarðneskra lögmála. Er nokkuð erfitt að ímynda sér vini Okkar víðs vegar um heiminn og það að þeir reyni að hefta mennska brjálsemi? Þeir vita ef til vill ekki hver af öðrum, en munu samt sem áður vinna að hinum sömu almennu úrbótum til góðs.

Vinir Okkar hafa við mörg tækifæri beðið Okkur um að búa til einhvers konar merki sem þeir gætu nýtt til að bera kennsl hver á annan, en slíkar tilraunir hafa ætíð endað illa, vegna þess að svikarar voru oft hinir fyrstu til að nýta sér merkin. Þess vegna höfum við hafnað slíkum ytri merkjum og aðeins í mjög smáum hópum höfum Við leyft notkun á merki aðseturs Okkar. Þess vegna er ekki einu sinni hægt að taka upp jarðneska siði að þessu leyti. Hjartað skynjar handan allra jarðneskra takmarkana. Hugsun um Okkur getur logað skært í djúpum hjartans.

Samverkamenn Okkar munu aldrei tala um sjálfa sig sem innvígða, né munu þeir stæra sig af því að vera öðrum fremri. Mælikvarðar Okkar eru handan allra jarðneskra mælistika. Þótt vinir Okkar þurfi stundum að taka að sér jarðnesk embætti, þekkja þeir að minnsta kosti raunverulegt gildi þeirra. Eitt sinn þegar einn bróðir Okkar kom fram á þjóðþingi skreyttur heiðursmerkjum, brostu vinir hans og sögðu að heiðursmerki hans og orður hlytu að vera þung byrði. Bróðir Okkar svaraði, „Lyklar dyravarðarins eru ekki heldur mjög léttir!“ Í þessum anda verða menn að skilja jarðneska upphefð.

Þetta þýðir ekki að Við getum ekki tekið að Okkur stöðu heimsleiðtoga. Við tökum slíkum stöðum stundum, en aðeins sem sérstaka fórn. Við skulum skilja á víðtækan hátt þá möguleika sem eru handan þeirra jarðnesku. Það hryggir okkur mikið ef bróðir eða systir neyðist til að yfirgefa Okkur til að halda út á jarðneska pílagrímsgöngu. Hver skilur slíka fórn? Hver mun sýna slíkri sjálfviljugri athöfn viðeigandi alúð og umhyggju? Er ekki slík pílagrímsför sem krossburður?

Mönnum hafa verið gefin fögur tákn, en þeir skilja sjaldan fulla merkingu þeirra.

68. Urusvati skynjar jafnvel fjarlæga jarðskjálfta og breytingar á loftþrýstingi. Fáfróðir munu spyrja hvers vegna þola þarf svo þjáningarfulla skynjun, þar sem ekki er unnt að koma í veg fyrir jarðskjálfta. Þannig spurningar líkjast þeim íhaldssömu efasemdum sem menn viðhafa um vísindalegar uppgötvanir. Hvernig getur nokkur sagt að sá sem getur skynjað sveiflutíðni plánetunnar komi ekki að gagni við öflun þekkingar? Því miður eru einstaklingar með svo næm skynfæri ekki rannsakaðir, þess vegna glatast möguleikinn á að nýta þá til vísindalegra athugana. Eftir eitt hundrað ár munu menn harma þessi glötuðu tækifæri, en nú á tímum eru menn fullir efasemda, jafnvel þótt þeir standi frammi fyrir slíkum einstaklingi. Fíngerð næmni tengist bæði útvíkkun vitundar og vísindum sveiflutíðninnar. Bæði þessi viðfangsefni hafa mikið gildi og eru grundvöllur fyrir ummyndun lífsins.

Hægt er að sjá margvísleg frávik í samskiptum við Okkur. Til dæmis koma sum svör Okkar samstundis, þar sem búist var við spurningu sem ekki hafið unnist tími til að setja fram, en önnur svör koma seint. Hægt er að skýra slíkt annað hvort með aðstæðum í andrúmsloftinu eða að Við séum önnum kafnir við sérstök viðfangsefni. Aðstæður geta verið mjög mismunandi og taka þarf eftir þeim öllum. Höfum einnig í huga að töf á svari við spurningu getur oft stafað af því að gera þarf varúðarráðstafanir til að vernda upplýsingarnar fyrir mögulegum óboðnum áheyrendum. Hægt er að hlera hugsanasendingar, þess vegna ráðleggjum Við að gæta varúðar bæði í orðum og hugsunum. Það væri alveg mögulegt að þróa sérstaka vísindagrein um rannsókn á orkuútgeislun orða og hugsana. Staðfesting á áhrifum orða og hugsana á jurtaríkið og aðstæður innan plánetunnar byggist á slíkri rannsókn. Við gerum tilraunir með sveiflutíðni, og bróðir Okkar Waughan er einnig önnum kafinn við þær. Margir vísindamenn ættu að þakka honum fyrir aðstoðina sem hann hefur veitt.

Við fögnum þegar slík fræ bera góðan ávöxt.

69. Urusvati þekkir þá sem eru nákomnir Okkur og hafa ferðast til fjarlægra heima. Hinir fáfróðu geta mistúlkað þessar ferðir af illgirni, en fáir munu skilja að þær eru farnar til að sinna sérstökum verkefnum. Erfitt er að gera sér í hugarlund að milli þessara fjarlægu heima séu hugræn tengsl. Það er ekki auðvelt fyrir menn að slíta sig frá hinni jarðnesku einangrun og átta sig á því að mikilvægasti staðurinn er ekki hér á Jörðinni, heldur þar sem þeir geta aðeins skynjað tómarúm. Þörf er á að endurfæðast til að skilja að jarðnesk fegurð virðist aðeins fögur af því að yfirjarðnesk fegurð er ekki þekkt. Á Jörðinni skilst margt á rangan hátt og menn eru ætíð tilbúnir að ímynda sér að í öðrum heimum sé jafn mikill fjandskapur ríkjandi og á Jörðinni.

Margir átta sig ekki á því að yfirmaður Bræðralagsins getur ferðast til fjarlægra heima. Né heldur skilja þeir hvers vegna vissir jarðneskir leiðtogar, þrátt fyrir að vera upplýstir og einlægir, eru fúsir til að skilja bræður sína eftir. Það er aðeins takmarkaður skilningur manna sem fær þá til að hafna hugmyndinni um útvíkkun samfélagsins til margra heima. Einnig er erfitt að ímynda sér að menn geti varðveitt fræ sinnar skýru jarðnesku vitundar, þrátt fyrir að vera í nýjum líkömum og við ólíkar aðstæður. Samt er frumorkan ein og hin sama hvar sem er. Þannig tengsl eru sterkari en allir efnislegir hlutir.

Menn eru ruglaðir í ríminu um hina fjarlægu heima, en þeir misskilja einnig margt sem gerist á Jörðinni. Til dæmis er því trúað að Panchen Rimpoche gefi út vegabréf til Shamballa. Svo gæti virst að þetta sé út í hött, en í raun og veru vísa þessir pappírar ekki til Shamballa, þeir eru um Shamballa. Frá fornri tíð hefur verið til minnisblað um Shamballa sem var gefið þeim sem voru færir um að beina hugsun sinni þangað, en síðar varð þessi skilningur rangfærður og fram hafa komið nokkur furðuleg vegabréf. Einnig eiga margir erfitt með að skilja hvers vegna nokkrir fáfróðir lamar, að því er virðist, geti verið varðmenn Bræðralags Okkar. Menn verða að skilja að þessir lamar eru einstakir; þeir hafa varðveitt hugmyndina um Shamballa sem helgan fjársjóð.

70. Urusvati getur réttilega verið hneyksluð yfir allri vitleysunni sem er skrifuð um Okkur. Ef öllum þessum fánýtu sögum væri safnað saman í eina bók, myndi verða til óvenjulegt safn ósanninda. Táknrænum frásögnum sem orðið hafa til á löngum tíma hefur verið breytt í ótrúleg ævintýri um fjársjóði sem gætt er af lávörðum Shamballa. Þegar skoðaðar eru hinar ítarlegu tíbesku frásagnir er erfitt að skilja hve mikið hefur bæst við af ímynduðum ýkjum. Með þessum ýkjum óskar tíbeska þjóðin eftir því að leggja áherslu á mikilvægi þessa heimsviðhorfs. Til dæmis er skrifað að stríðsmenn Shamballa séu óteljandi og ósigrandi og að leiðtogi þeirra sigri alla illsku og lýsi yfir konungsríki góðleikans. Þannig er trú manna í Austurlöndum, sem varðveita í hjarta sínu goðsögnina um sigur ljóssins. Í Austurlöndum er sérhvert táknrænt orð sem skrifað er ljósinu til dýrðar talið réttmætt, en Vesturlönd hugsa á andstæðan hátt og vilja opinbera allt, jafnvel svo að það leiði til lítilsvirðingar.

Takið eftir því hvernig talað er um Hvíta Bræðralagið á Vesturlöndum. Sagt er að meðlimir Bræðralagsins dvelji löngum á veitingahúsum, að þeir hafi yfir að ráða miklum fjármunum, að þeir ljúgi, þeim skjátlist, þeir afvegaleiði og viti ekki hvernig eigi að velja bestu samverkamennina; að þeir tæli fólk í uppreisn og stríð, að þeir sitji á svikráðum, bruggi launráð, kollvarpi ríkisstjórnum, skipti sér af friðsömu lífi fjölskyldna, valdi kirkjunni tjóni, og viðhaldi ekki fornum siðvenjum. Það er einfaldlega hægt að telja upp alla myrkustu og ófyrirgefanlegustu glæpina og þeir verða allir eignaðir Okkur. Gleymum ekki að þeir sem tala með háleitum orðum um Hvíta Bræðralagið eru oft þeir sömu og setja fram þessar ásakanir.

Heyra má að bróðir R. búi í Karpatafjöllum, en það væri jafn rétt að segja að ég búi í London. Vafalaust hefur bróðir R. komið til Karpatafjalla, alveg eins og ég hef komið til London, en það ætti ekki að afvegaleiða fólk með því að tala um dvalarstaði sem varanlega bústaði. Á sama hátt ætti ekki að telja að bróðir H. búi í Þýskalandi, jafnvel þótt sumir vilji helst takmarka dvalarstað hans enn meira og telja að hann búi í nágrenni Nurnberg. Það er mörg dæmi um hvernig menn afgreiða Okkur eftir eigin geðþótta, um leið og þeir lýsa því yfir að þeir sjálfir séu vígsluhafar af hárri gráðu, eða jafnvel miklir meistarar.

Fáfróðir menn fylla bækur með upplýsingum um víðtæk áhrif Okkar og halda síðan fram sínum eigin óskum sem boðum frá Okkur. Hægt er að ímynda sér hve flókið líf Okkar verður vegna þessa tilbúnings. Til að bæta gráu ofan á svart, búa þeir til og dreifa furðulegum myndum og skipuleggja fundi þar sem mjög ótrúverðugt fólk hikar ekki við að ræða við hvern sem er um ótrúlegar sýnir sínar.

Að sjálfsögðu eru til sérstök samtök sem helga sig öllu því sem leiðir til eyðileggingar. Við ræðum ekki um þau því uppruni þeirra er augljós. Ósk Okkar er að beina athygli ykkar að þeim sem ræða sífellt heimskulega um Bræðralagið og koma með því óorði á það.

71. Urusvati veitir athygli breytingum á straumum á meðan hún á samskipti við Okkur. Rétt er að útskýra að þessar breytingar gerast ekki vegna áhrifa frá Okkur, heldur vegna þess að geimstraumar breytast þegar þeir komast í snertingu við orkustrauma Okkar. Þessu ætti að veita athygli, því annars gætu menn eignað orkustraumum Okkar eiginleika sem þeir búa ekki yfir. Fræðarinn gerir alltaf ráðstafanir til að samskipti við hann verði ekki erfið.

Straumarnir breytast í samræmi við hugarástand þeirra sem eru viðstaddir. Almennt talað ættu menn að veita öllum breytingum á straumum eftirtekt. Mjög oft eru þátttakendurnir sjálfir ekki meðvitaðir um sitt eigið hugarástand og mótmæla því af einlægni. Af ýmsum ástæðum eru menn ekki færir um að greina hvaða hugarástand er ríkjandi. Þeir eru svo mikið undir áhrifum blekkinganna (maya) að þeir halda að þeir segi satt frá, jafnvel þótt þeir fari með ósannindi um sjálfa sig.

Aðsetur Okkar leitast við að dýpka vitundina til þess að berjast gegn áhrifum blekkinganna (maya). Það er ekki auðvelt, en leysir menn undan því að eiga á hættu rangar skynjanir. Hæfni í starfi eykst þegar menn eru lausir undan byrði efans sem sprettur af blöndun straumanna. Í hvert sinn sem straumar brotna myndast eitthvað sem líkja má við rafstraum. Aðeins næm vitund getur aðgreint þessa rafstrauma frá öðrum sársaukafullum skynjunum. Oft er hægt að verða var við skyndilega hækkun á hita, kuldahroll, stingandi sársauka eða vöðvasamdrátt. Rafstraumar sem verða til við brot á straumum geta verkað á þennan hátt, en þeir sem þekkja þessi fyrirbrigði vita að þau eru ekki til marks um byrjun á sjúkdómi.

72. Urusvati er kunnug fundum Okkar þar sem einbeiting viljans er hagnýtt. Vilji Okkar allra er nægilega þjálfaður, en upp koma aðstæður þar sem þörf er á hópeinbeitingu; á slíkum tímum ráðleggjum við öllum nálægum að halda ró sinni. Við vitum að það er erfitt að fylgja því ráði, en stundum er sérstök þörf á rósemi. Sérhver óróleiki í áru nálægra skaðar einbeitingu heildarinnar.

Spurt verður hvaða ró geti verið ríkjandi þegar mikið umrót er ríkjandi í heiminum, en það er einmitt þörf á rósemi þegar mikil spenna er ríkjandi í heiminum. Á slíkum tímum eru vandamál ekki leyst með hefðbundnum aðferðum. Nauðsynlegt er að kalla fram úr djúpum vitundarinnar alla þá frumorku og allan þann stöðugleika sem rósemin byggist á. Það er samt mikil jarðnesk óþolinmæði ríkjandi, sem rýfur einbeitinguna eins og örvahríð. Þessar örvar þarf að fjarlægja, og við það beinist athyglin frá því mikilvægasta. Á úrslitatímum er mikilvægast að taka þátt í einbeitingu Okkar.

Fyrir kemur að Við segjum: „Leitið til Okkar af öllum ykkar mætti.“ Þannig ákall getur virst óvenjulegt, en þeir sem vita átta sig á hinni brýnu þörf sem í því býr. Ekki er auðvelt að beina athyglinni að einum hlut. Menn geta varið mörgum árum í að þróa slíka hæfni, en þrátt fyrir það getur jafnvel lítil fluga truflað viðleitni þeirra þegar mest liggur við. Við höfum öll einhvern tíma gengið í gegnum slíkt álag. Árangur byggist ekki á sérstökum hæfileikum, heldur mikilli löngun. Sérhver getur keppt að því að nálgast fræðara sinn, en kappið verður að vera svo mikið að hann gleymi öllu í kringum sig, hvort sem er á nóttu eða degi, í hita eða kulda, í skamma stund eða langa. Þetta allt er mönnum mögulegt. Og þannig kappsfull viðleitni er Okkur sannlega gagnleg, vegna þess að hún myndar strauma í geimnum sem samræmast Okkar straumum. Ef svo gagnlegar hugsanir væru sendar samtímis frá mörgum löndum, hversu máttugir orkustraumar yrðu þá til!

Við segjum mönnum: „Biðjið ekki.“ Við þekkjum hvers þið þarfnist. Menn vita ekki hvernig á að einbeita athyglinni að því sem mestu máli skiptir og bænir þeirra eru því aðeins til truflunar. Við gerum allt sem mögulegt er og menn ættu einfaldlega að senda Okkur góðvilja. Við erum ekki að kvarta yfir þeim sem gleyma sjálfum sér við að reyna að uppfylla langanir sínar, en Við ráðleggjum auðveldustu leiðina til að komast út úr hinu jarðneska völundarhúsi. Hún felst í viðleitni hjartans til Okkar. Lát þá viðleitni vera hljóða. Lát hjartað gefa sín merki. Við öll þekkjum slíka viðleitni, Við getum sagt að því sterkari viðleitni, því betra. Kappsfull viðleitni veldur sterku blóði og slíkur eiginleiki er gagnlegur ef hann grundvallast á rósemi. En hafi menn ekki tileinkað sér rósemi, ætti að þjálfa hana með beitingu viljans.

Allir verða að viðurkenna að atburðir lífsins gerast ekki af þeirri ástæðu sem við höldum. Oft getur maður séð vísbendingar um æðri leiðsögn. Með því að samræma þá leiðsögn við manns eigið sjálfstæði, fæst samhljómur í lífinu.

Menn munu spyrja: „Eruð Þið ætíð með okkur?“ Við getum það, en maðurinn verður að óska eftir því. Við opinberum fyrir ykkur marga þætti úr innra lífi Okkar. Við sjálf höfum yfirstigið allar hindranir, oft vissum Við ekki, þegar Við fórum að sofa, hvort Við myndum lifa til morguns. Sérhvert Okkar hefur lært að ganga staðfastlega í fótspor fræðarans.

Á erfiðustu tímunum segir fræðarinn: „Lítið svo á að þið séuð hamingjusamari en flestir. Verið þakklát.“

73. Urusvati veit hvernig á að greina hjúpa blekkinganna. Við ræðum um hjúpa, vegna þess að það er eitthvað sem er hjúpað og það er frumorkan. Vitur er sá sem getur greint við allar aðstæður hvar hinn eilífa og varanlega grundvöll er að finna. Ef þessi næmni er ekki fyrir hendi verður allt sem blekking (maya) eða hvikul hylling. Ógerlegt er að lifa lífinu meðal slíkra tálsýna. Til að finna grundvöll hins eilífa lífs er nauðsynlegt að fá skilning á hvar hægt sé að finna þann stöðugleika sem hinn þreytti ferðalangur getur hvílst á. Óhjákvæmilegt er að menn fari að leita hins eilífa grundvallar. Hugsanir um óbreytanleika geta hvatt menn til athafna og slík viðleitni til aðhafna er góðs viti. Ef spurt er hvað það er sem auðveldar Okkur að veita hjálp, er svarið að sjálfsögðu athafnasemi. Við getum sagt þeim sem biðja um hjálp: „Hefjist handa!“ Því þá er auðveldara fyrir Okkur að veita hjálp. Jafnvel smávægileg árangurslaus athöfn er betri en engin, því þá getum Við bætt Okkar orku við orkuna sem þið myndið. Það er ekki nein furða að auðveldara er að blanda líku við líkt. Þegar Við viljum beita Okkar orku, leitum við að gagnlegustu hagnýtingu hennar. Við sendum orku Okkar ekki aðeins til að vekja, heldur einnig til að efla orku þeirra sem vinna af kappi. Maður sem vaknar skyndilega getur gert eitthvað heimskulegt. Þann sem sefur ætti ekki að trufla með óvæntum hætti, en þegar menn eru sífellt árvökulir, getum Við hjálpað.

Segið því þegar þið eruð spurð hvað á að gera: „Vinnið!“ Í slíkri athafnasemi nær hjálp Okkar til ykkar. Við og bræður Okkar biðjum ykkur að vinna. Þroskun vitundarinnar er nauðsyn og fágun frumorkunnar er nauðsyn, annars munu hjúpar blekkinganna koma í veg fyrir að samband náist.

Við ráðleggjum oft vinnusemi. Þegar þið skrifið vinum ykkar, ráðleggið þeim að vinna. Nú á tímum eru kraftar náttúrunnar mjög þandir. Sá sem flýr mun hrasa, en hver sá sem stendur stöðugur mun finna nýjan mátt. Við hjálpum hinum hugdjörfu og í aðsetri Okkar taka allir þátt í vinnunni. Ný spenna mun ekki valda þreytu, heldur endurnýjun.

74. Urusvati harmar réttilega að ýmsir helgisiðir eru enn við lýði, þrátt fyrir að gagnsemi þeirra sé að engu orðin. Eitt er eilíf viska, en sundurlausir og úreltir siðir sem hindra framför eru allt annað. Á öllum sviðum lífsins má sjá skaðlegar leifar. Þær finna sér alls staðar hreiður, undir konunglegum skrúða, prestshempu, eða hvers kyns búningi. Helgisiðirnir hafa fjarlægst svo upprunalega merkingu sína að það er ómögulegt að ímynda sér hvernig svo fáránlegar venjur gátu nokkru sinni hafa tjáð háleit tákn. Í fyrndinni höfðu slíkir siðir sérstaka merkingu sem nú er algerlega gleymd.

Áður fyrr sameinuðu þjóðhöfðingjar starf sitt háleitum andlegum skyldum og voru leiðtogar fyrir samfélög sem stefndu að háleitu marki. Þegar tímar liðu gleymdust þessi ætlunarverk, þjóðhöfðingjarnir urðu að þjónendum ómerkilegra og jafnvel skaðlegra stofnana. Þannig dæmi er víða hægt að sjá. Það er dapurlegt að aðeins eru til fáein brot af helgisiðum sem enn geyma sína innri merkingu; í höndum fáfróðra geta jafnvel þessi brot valdið skaða. Því reynum Við að hreinsa eða fjarlægja leifar siðvenja sem myrkva vitundina.

Menn segja að Við séum mótfallnir öllum helgisiðum. Það er ekki alveg rétt, því vissir helgisiðir geta kallað fram háa tíðni og hreinsað tilfinningar. Við höfum oft rætt um hrynjandi, og enginn Okkar mun fordæma þá hrynjandi sem leiðir til samræmis. Fagur söngur getur opnað fögur hlið. Greinið því með varúð milli fáránlegra leyfa og þrepa fegurðar. Fræðarinn varar við því að taktur getur haft áhrif á allt taugakerfið. Sum brot af fornum helgisiðum sem hafa varðveist til okkar tíma og trufla vitundina, geta verið mjög hættuleg. Orð sem notuð eru nú á tímum við ýmis konar athafnir voru eitt sinn hluti af særingarþulum til að ákalla myrkraöfl, en núna er þau borin fram án skilnings og jafnvel með rangri hrynjandi. Slík afbökun hljóða getur haft andstæð áhrif við það sem til er ætlast, þess vegna ættu menn að rannsaka hin fornu rit í þeim tilgangi að eyða burt ryki aldanna. Við erum ekki að tala um grófgerðar breytingar, heldur hreinsun hugsunar. Við hörmum það þegar hrynjandi er afbökuð og veldur eyðingu í stað uppbyggingar.

75. Urusvati gerir sér grein fyrir þeim skaða sem felst í því að fyrirgefa ekki. Slíkar tilfinningar geta aðeins grafið um sig við jarðneskar aðstæður, því að í lífi Okkar, þar sem vitneskja um fyrri æviskeið er fyrir hendi, er slík óvild ekki möguleg. Í hverju æviskeiði er að finna mörg tilefni óvildar; væri þeim haldið til haga í gegnum öll æviskeiðin, myndi skapast langur svartur slóði sem dregst á eftir manni og er til hindrunar. Með slíku viðhengi er framför ómöguleg!

Menn valda sjálfum sér miklum skaða með því að takmarka vitund sína við eitt jarðneskt æviskeið. Þeir búa sér til hindranir alls staðar. Þegar Við beinum athygli þeirra til framtíðar, hafa þeir yfirleitt ekki skilning á því hvernig á að byrja að hugsa á þennan nýja hátt. Einn gæti haldið að hann verði ætíð bundinn við sama staðinn; annar gæti haldið að hann verði alltaf að halda sig við sama starfið; sá þriðji gæti sannfært sjálfan sig um að hann myndi ekki þola að skipta um umhverfi; sá fjórði gæti haldið að hann myndi deyja úr fyrsta sjúkdómnum sem hann fengi. Þannig skapar hver sína eigin fjötra og áttar sig ekki á því að í fyrri æviskeiðum hefur hann nú þegar gengið í gegnum margvíslega reynslu. Hefðbundið líf á Jörðinni, í algerri vanþekkingu á fortíðinni, hindrar menn í að hugsa um framtíðina.

Flestir yfirgefa Jörðina án þess að átta sig á því að þeir verði að snúa aftur. Ef þeir gætu aðeins munað eitthvað úr fortíðinni, og lærðu að hugsa um framtíðina, þá myndu þeir forða sér frá mörgum mistökum.

Það er ekki óttinn við helvíti heldur þráin eftir fullkomnun sem mun leiða menn til betra lífs.

Við þekkjum fortíðina, samt lifum við í framtíðinni; Við óttumst ekki óendanleikann og fögnum hverri framför. Framtíðin er sem mikill raunveruleiki, aðgreind frá okkur með þunnri lokaðri hurð, en er samt að myndast við sérhvern andardrátt okkar. Þegar vitundinni er beint til framtíðar, er þá mögulegt að ala með sér óvild? Enginn tími er til að kafa niður í fortíðina. Menn ættu að vita um hið ófrávíkjanlega lögmál; það er ekki fyrir mennska vitund að hafa áhrif á karmalögmálið. Þess vegna skulum við læra að fljúga, ekki aðeins í fíngerða líkamanum, heldur einnig í vitundinni.

Áttum okkur á því að sérhvert andartak er strax orðið að fortíð og að framtíðin er okkur gefin. Þetta er ráð Okkar til allra sem er annt um aðsetur Okkar.

76. Urusvati veit hvernig á að gæta þess sem henni er trúað fyrir. Ekki er auðvelt að finna jafnvægið milli þess að leyna eða afhjúpa. Byrjendur eru gjarnir á að segja frá öllu sem þeir hafa lært, en hugsa ekki um afleiðingarnar. Margar hörmungar hafa hlotist af óviturlegri frásagnargleði þeirra. En reynslan kennir nokkra visku og með tímanum er unnt að finna réttar leiðir til miðlunar. Verkefnið er erfitt og menn ættu að meta hve mikið áheyrendur geta tekið við. Lyf verður að gefa í hæfilegu magni, hvorki of lítið né of mikið. Hægt er að minnast tilvika þar sem eftir langar samræður kom spurning sem opinberaði skilningsleysi hlustandans. Svar getur valdið skaða. Ráð Okkar er að bókunum sé einfaldlega komið þangað sem þær eru aðgengilegar svo að þær finni sínar eigin leiðir. Með þessu erum Við að gefa til kynna sérstaka aðferð við miðlun fræðslunnar.

Til hafa verið pílagrímar sem ekki fengu bækurnar, jafnvel þótt hjörtu þeirra brynnu af löngun til sannleikans, vegna þess að ytra útlit þeirra kom í veg fyrir að þeir mættu réttum skilningi. Til dæmis gæti einn verið of vel klæddur, annar of fátæklega klæddur. Yfirborðslegar athuganir geta komið í veg fyrir gagnleg samskipti.

Meðal fólks á förnum vegi geta verið slæmir einstaklingar, en einnig vitrir menn og lærðir. Vitur athugandi beinir ekki athyglinni að yfirborðslegum smámunum. Menn verða alltaf að leitast við að sjá það sem mestu máli skiptir. Hægt er að mæta mönnum sem er nákomnir Okkur, án þess að veita þeim eftirtekt. Það veldur Okkur oft sorg þegar ekki er tekið á móti gagnlegri sendingu, en lögmál hins frjálsa vilja leyfir ekki að beitt sé þrýstingi. Þannig hefur útbreiðsla fræðslunnar sínar sérstöku leiðir. Áður fyrr voru menn vanir að segja: „Flýttu þér hægt.“ Útbreiðslu bókanna verður að vera í nákvæmu jafnvægi. Á komandi öldum muntu sjá hvernig fræðslan frá Okkur ætti að breiðast út.

Mikill fjöldi manna er byrjaður á sjá skýrt.

77. Urusvati veit að öll efnisleg birting leiðir í ljós einhvern smáan hluta af hinum ósýnilega heimi. Til eru ljósmyndafilmur sem eru næmar fyrir ósýnilegum hlutum, til dæmis útgeislun fyrirsætunnar, en eru ónæmar fyrir hluta af efnislíkama hennar. Hin máttuga útgeislun grundvallarorkunnar getur jafnvel hulið einhvern, alveg eða að hluta. Efasemdamenn geta spurt hvers vegna svo óvenjulegar ljósmyndir eru svo sjaldgæfar. Það gæti stafað af ástandi grundvallarorkunnar, eða einfaldlega af því að ljósmyndafilmurnar eru ekki skoðaðar nægilega vel. Mikið er til af svonefndum misheppnuðum filmum, en enginn leggur á sig þá fyrirhöfn að skoða gaumgæfilega það sem virðist vera ónýtar myndatökur.

Þegar byrjað er að gera tilraunir með ljósmyndun búast menn við skjótum árangri, en árangurs er aðeins að vænta á þeim sjaldgæfu tímum þegar menn eru meðvitað eða ómeðvitað tilbúnir til þess. Ekkert getur gerst án orsaka.

Við gerum tilraunir með filmur og hægt er að fullyrða að nýjustu filmurnar eru alveg hæfar til að gera tilraunir sem geta hjálpað til við að leysa vandamálið um hinn ósýnilega heim. Til viðbótar því að taka myndir með myndavél, er einnig hægt að fá fram myndir á filmuna með því að halda á henni í hendinni eða með því að stinga henni undir koddann á nóttunni.

Nauðsynlegt er að dreifa þekkingu um hinn ósýnilega heim með öllum ráðum. Árangur þróunarinnar byggist á því. Síðar kemur vitneskjan um fíngerðar orkutegundir. Þegar Við ræðum um sýnileika margra fíngerðra fyrirbrigða, líta sumir á það sem skáldskap. Slíkir menn gætu ekki komið í bústað okkar, því þeir myndu verða of hræddir! Öll fíngerð merki myndu virðast þeim ótrúleg og óaðgengileg.

Tæki Okkar gætu líkst einföldum viðtækjum, en þau eru hönnuð fyrir fíngerðari sveiflur. Þörf er á aukinni prönu til að ná fram nægilegri spennu. Öndun ósongjafa okkar má líkja við öndun lifandi vera. Ljóskerfi okkar, sem líkjast neonpípum, geta gefið mjög bjart ljós. Hægt er að auka áhrif slíkra vélrænna áhalda með þekkingu á fíngerða heiminum.

78. Urusvati hefur séð sprengingar frá myrkum skotum. Hvað merkir þetta? Á að líta á þetta sem eitthvað táknrænt, eða raunveruleg skot? Við verðum að viðurkenna með mikilli sorg að slík skot eru raunveruleg, jafnvel í fíngerða heiminum. Þau dreifa eitruðu gasi sem styrkir hið brúna gas sem mengar plánetuna. Myrkraöflin nota ákaflega skaðlegar aðferðir til að komast inn í andrúmsloft Jarðarinnar og dreifa hinum hættulegu efnum. Þau bjóða lögmálum alheimsins birginn og vonast til að vinna sigur með því að valda sem mestri ringulreið. Þeir eru hættulegir andstæðingar, en ekki mjög vitrir, því þeir hugsa ekkert um jafnvægi plánetunnar. Sá sem hefur séð þessar skelfilegu sprengingar frá myrkum skotum getur skilið að gera verður miklar gagnráðstafanir til að eyða hinum skaðlegu áhrifum.

Urusvati veit hve slæm áhrif þessir bardagar hafa á heilsuna. Til viðbótar hinni eitruðu svælu myndast rafmagnshögg sem veldur titringi sem líkist jarðskjálfta og jafnast á við mikið áfall. Jafnvel sterkir einstaklingar geta fundið fyrir óvæntum sársauka, en þar sem hann varir aðeins um skamma hríð, hugsa þeir ekki um hann. Samt sem áður er grafið undan heilsunni og afleiðingin er sjúkdómur. Þannig ólmast myrkraöflin í brjálsemi sinni gegn mannkyninu.

Þið getið ímyndað ykkur hve mikilli orku er eytt til að sigrast á þessum árásum myrkraaflanna! Við höfum sagt að Við erum á verði, en ekki til að fylgjast með, heldur til að berjast. Menn gætu hjálpað, en þeir eru ekki fúsir til að trúa því að allir geti beitt hugsunum sínum og mætti til hjálpar heildinni.

Sá sem hefur séð þessi myrku skot, sá sem hefur heyrt kveinstafina í geimnum, mun ekki gleyma skyldu sinni við mannkynið.

79. Urusvati hefur reynt eitt hið erfiðasta af jarðneskum fyrirbærum – skynjun algers myrkurs. Það er skelfilegt, því það veldur svo magnaðri angist, að hún jafnast á við köfnun. Hvaðan kemur svo skaðlegt myrkur? Það gæti virst eins og andlegt hugboð, sem líkt og bein þekking knýr allt lífkerfið til að upplifa tilfinningu um að eitthvað sé í vændum. En í reynd er það margfalt hættulegra, því það er útgeislun frá pláneturotnun. Þegar menn komast í snertingu við þetta myrkur, er ólýsanleg angist þeirra skiljanleg. Þessi snerting gerist yfirleitt í undirmeðvitundinni, því fáir hafa skynjað þetta skaðlega myrkur meðvitað. Þeir sem það reyna upplifa sérstaklega sterka tilfinningu. Ef menn komast í snertingu við algert myrkur á meðan þeir eru í efnislíkamanum, er líklegt að þeir upplifi ákaflega sársaukafullar skynjanir, einnig er hugsanlegt að það valdi bruna í orkustöðvunum. Við þekkjum þessa snertingu, hún ræðst á sálrænu orkuna. Menn þurfa að búa yfir mikilli prönu til að standast árás hins eitraða efnis. Snerting við algert myrkur er svipað því að snerta rotnandi lík. Þegar við eigum von á sérstaklega miklum þrýstingi frá myrkraöflunum, eflum Við með ákveðnum hætti lífsorku Okkar. Þeir sem eru undir Okkar verndarvæng fá sérstaka aukaorku til að standast áhlaup myrkursins.

Mörgum gæti virst að þessi frásögn um myrkrið sé tilbúningur, en jafnvel efasemdamenn hafa vitneskju um banvænt gas sem getur streymt upp úr jörðinni. Ef við höldum áfram þessari hugsun leiðir hún okkur að lokum til hins algera myrkurs. Við höfum sýnt Urusvati það, svo að hún geti verið lifandi vitni um þá dauðans angist sem maður finnur fyrir þegar maður snertir þennan óvin plánetunnar. Tilfinningin er svipuð og sú sem verður við árás kyrkislöngu.

Við skulum ekki ætla að myrkrið snerti aðeins ákveðna menn; ummerki þessa eitruðu áhrifa er alls staðar að finna. Áhrif þess getur verið allt frá slæmu skapi til hættulegs sjúkdóms. Ef myrk skot falla að ofan, og myrkrið streymir upp að neðan, gæti virst sem aðstæður mannkynsins séu vonlausar. En hinir vitru segja: „Hugsið ekki um aðstæður, betra er að hugsa um stöðuga framför.“

80. Urusvati hefur heyrt söngva náttúrunnar, en það nefnum Við samhljómana sem óma þegar myrkrið er sigrað. Þeir líkjast tónlist himnanna, en tengjast meira Jörðinni en æðri sviðunum. Flestir hafna sérhverjum votti hinna æðstu samhljóma og þegar þeir hljóma, kvarta þeir yfir sóni í eyrunum.

Margir sem telja sig vera dulspekinga loka fyrir náttúrulegar tilfinningar sínar. Of margar bækur rugla þá með lýsingum á æfingum sem ætlaðar voru í öðrum tilgangi. Við kjósum að hitta nýtt fólk sem er ekki hamlað af þessum gagnslausu æfingum. Tónlist himnanna og söngvar náttúrunnar eiga greiðari leið að fólki með kærleiksríkt hjarta. Þeir sem heimta æfingar fyrir hjartað, fyrir kærleika, fyrir samúð, munu ekki opna eyrun fyrir hinum æðri samhljómum.

Álítið ekki að Við höfnum bókum og starfi þeirra sem leitast við að skilja alheiminn. Alls ekki. Við hörmum það aðeins hversu þekking þeirra er illa nýtt í lífinu. Þeir sem eru Okkur nákomnir líkjast ekki þessum gervi meisturum. Sá sem vill taka þátt í aðsetri Okkar verður að eiga oftar samskipti við hjarta sitt og senda í gegnum það að minnsta kosti hljótt ákall til Okkar. Stundum er talað um slík áköll að þau séu „án hugsunar,“ vegna þess að tjáning þeirra er með tilfinningu frekar en hugsun. Skilin á milli hugsunar og tilfinningar eru óljós, þið skiljið þessi mörk, þau eru eins og mörkin á milli hliðanna á dýrmætum gimsteini. Aðeins ljós getur birt þessar hliðar og ljós hjartans verður líkt og dýrmætur gimsteinn. Manni gæti virst að þetta sé allt mjög flókið, en í raun og veru er hægt að tjá það með fjórum orðum: „Ég elska þig Drottinn.“ Þetta er tengingin til Okkar. Slík tenging er mun sterkari en beiðnin: „Hjálpaðu mér Drottinn.“ Við vitum hvenær mögulegt er að hjálpa og hjálpin flýgur auðveldlega á vængjum kærleikans. Hún kemst í gegnum allar hindranir. Elskum hvert annað.

Verið er að vinna að þýðingu bókarinnar. Við munum bæta við þýðinguna eftir því sem verkið vinnst.

Tenging í enska útgáfu. Þessi bók hefur ekki verið þýdd á íslensku.