Ákallið (AUM)

1936

Þegar hafist er handa skal varast það sem dregur úr starfsorkunni. Af fávisku er mögulegt að fyllast veikjandi hugsunum sem hamla vexti vitundarinnar. En minnumst frumorkunnar. Verum óþreytandi við að rifja upp grundvallaratriðin um uppsprettu framfara og óþreytandi elju.

Lögmál hinnar óþrjótandi uppsprettu gleymist oft, þess vegna skulum við virkja alla okkar athygli til að verða gagntekin frumorkunni.

divider

1. Virðum fyrir okkur regnbogann — takið eftir að í honum er hvorki blóð-rauður litur né svartur; í æðri geislun finnast aðeins skærir og hreinir litir. Vissir litir, sem minna á æðri sviðin, ná niður á yfirborð jarðar. Sumir eru hugfangnir af þessu bergmáli æðri heima, en aðrir, gagnstætt þessu, halda upp á dekkstu skuggana. Af slíkum merkjum má glögglega greina innri eiginleika manna. Sá sem ekki er hugfanginn af fíngerðari eiginleika litanna hefur ekki enn náð því stigi að vera skjótur til skilnings á æðri heimunum. Reynið jafnvel ekki að nálgast slíkan mann, því hann dvelur undir blóð-rauðu skýi. Slíkir menn farast oft, og það er næstum ómögulegt að gera þá að betri mönnum. Mörg læknisráð verða þeim að engu gagni.

2. Læknar hafa tekið eftir því að viss lyf hafa ólíka verkun á fólk. Lyf sem hefur almennt góða örvandi verkun hefur ef til vill aðeins kynörvandi áhrif á suma. Hægt er að meta fólk eftir því hvernig það bregst við lyfjum. Lágstætt eðli dregur til sín grófari þætti efnisins, en sá sem tengist hinu æðsta laðar eingöngu til sín hið fíngerðasta. Þetta lögmál þarf að hafa í minni. Læknar eiga oft erfitt með að túlka rétt mismunandi áhrif lyfja. Gæta þarf að því að meta rétt samverkun þátta.

3. Læknar geta verið sannir hjálpendur mannkynsins við að upphefja andann. Þeir verða þó að auðga vitsmuni sína með áhrifum hjartans. Fáfróðum afneitara er varla mögulegt að stunda lækningar. Læknirinn verður að vera góður sálfræðingur, og hann má ekki virða að vettugi hina undraverðu andlegu orku. Það er ekki að ástæðulausu að í upphafi þessara skrifa um Aum skuli vera minnst á lækna. Nefna skal alla þá sem geta stuðlað að tengingu manna við hinar æðri orkutegundir.

4. Hafi jarðnesk efni svo fjölbreytileg áhrif á mismunandi manngerðir, hversu miklu margbreytilegri eru þá ekki áhrif hinna æðstu orkugeisla! Áður fyrr skildu menn að nauðsynlegt var að samstilla lífkerfið fyrir rétta móttöku æðri geisla. Í þeim tilgangi hafa Hinir vitru bent á mátt heilagra ákalla. Aum, hljómað sem Óm, var slík samstillt viðleitni með tóna. Bænagjörð og hugræn einbeiting eru ágætar aðferðir til að skapa heilbrigt andlegt ástand. Menn stuðla að andlegri einbeitingu hver með sínum hætti. Það getur verið með tónlist, söng eða dansi; en einnig eru til dæmi um grófar aðferðir sem leitt hafa til æðis og vímu. Margan villustíginn hafa menn gengið, en mestu hefur skipt sú viðleitni að skapa sérlega upphafið hugarástand til að stuðla að móttöku hinna æðri orkugeisla.

5. Maðurinn gæti ekki lifað lífinu án þess að finna fyrir hlýju hjartans, þó ekki væri nema einu sinni. Það er svo sannarlega eldleg tilfinning, og þegar hún er umvafin lýsandi ljósbaug og regnboga er hún samofin hinni æðri orku. Fólk ætti ekki að kvarta yfir því að allt sé því útilokað; þvert á móti, því í lífi sínu á jörðinni getur það nú þegar skynjað hina æðri orku. Jarðneska líkamanum er þó ekki alltaf kleift að skynja slíka orkugeisla, því þeir gætu brennt hann eins og eldur. En á æðri stigum getur andinn samt sem áður fundið fyrir geislum Náðar.

Kvartið því ekki, lifið heldur í meiri hreinleika.

6. Í djúpri íhugun sjáið þið Okkar leið. Við erum tilbúnir að hjálpa hvenær sem lögmálið leyfir. Það veldur Okkur sorg þegar Við sjáum fólk, sem ekki hefur náð markalínu frelsunar, kasta sér út í hyldýpið eins og viti firrt. Hve mörgum hugsunum er ekki varið til að ná hinum einfaldasta og besta árangri? Samt dirfast vitfirringar að ráðast á Hið æðsta á meðan þeir eru enn hjúpaðir myrkri. Þetta er líkt því að kasta steini í öldur hafsins. Það er rétt, hann kann að skapa litla skvettu, en hann getur tæpast haft áhrif á hinn máttuga straum. Þannig er því háttað um allar árásir á Hina miklu andlegu orku. Hið villimannlegasta áhlaup tvístrast á bjargi hins ósigrandi anda. Gort hinna myrku afla er aðeins til marks um brjálsemi þeirra. Almáttugt Aum sigrast á ofsafengnustu árás brjálseminnar.

7. Nú á tímum er margt í sköpun. Í fávisku sinni kann einhver að halda að eitthvað sé ekki til, þegar tilvera þess er nú þegar staðreynd. Þannig er það einnig með heilar þjóðir — sumar halda áfram sem dauðar væru, aðrar sem nýfæddar. Hið sama gildir um allt í tilverunni.

8. Þið þekkið vel leifturhraða og skjótleika hugsana sem sendar eru að ofan. Erfiðleikarnir við að muna slíkar hugsanir gefa til kynna hversu framandi orka það er sem ryðst inn í venjubundinn straum vitundarinnar. Slík gleymska byggist ekki á vanhæfni vitundarinnar, heldur á gerólíkum eiginleikum hinnar máttugu orku. Menn verða að gera sér ljóst hversu erfitt er að geyma slíkar sendingar í minni. Venjulegar aðferðir við upprifjun eru gagnslausar; ef menn minnast slíkra sendinga, er það á einhvern óvæntan hátt, það er að segja fyrir snertingu við svipaða orku.

Hin forna viska kenndi, að til að rifja upp slíkar sendingar væri nauðsynlegt að þrýsta á þriðja augað. Þetta var mjög viturleg ráðlegging, því einfaldlega með því að þrýsta með fingrum á staðinn milli augabrúnanna er hægt að láta orkustöð þriðja augans geyma geisla hugsunarinnar. Þið vitið einnig vel að hið æðsta stig Samadhi er hættulegt jarðneskum líkama. Mátt æðri orkutegunda er ekki hægt að leiða í gegnum veikbyggðan líkama, en með því að yfirvinna hið venjulega ástand ósamræmis er hægt að gera snertingu hinna hærri vængja hættuminni. Rifjum enn á ný upp mismunandi aðferðir til að koma sjálfum sér í upphafið ástand. Frá fornu fari hefur fólk reynt með sérstökum ráðum að verja sig gegn hættum sem því fylgja að ná sambandi við æðri krafta. En besta úrræðið er stöðug hugsun um æðri krafta. Á þann hátt venst orka mannsins möguleikanum á því að komast í snertingu við hina æðri krafta, og til að verða ekki fyrir áfalli er efni tauganna eflt sambærilega. Að sjálfsögðu getur mönnum brugðið við af því einu að góður vinur birtist óvænt.

9. Mjög fáir halda ró sinni ef þeim er sagt frá því hvað er í raun og veru allt í kringum þá. Við getum talið upp geislana og öll hin efnislegu áhrif, bæði frá hinum fjarlægu heimum og jörðinni sjálfri. Vissulega er endurskin geisla og geislabrot mjög ólík frumgeislunum. Þegar menn heyra að umhverfis þá sé ekki eingöngu loft í jarðneskum skilningi, heldur einnig kornóttir ether-kristallar og jafnvel samfelldar sprengingar þá tapa mörg hjörtu ró sinni. Að sjálfsögðu er loftið blátt og tómt, jörðin stöðug og óhreyfanleg og sólin í hlutverki ljósgjafans! Spurðu manninn á götunni — hugmyndir hans eru ekki fjarri þessari trú. Aðeins fáir reyna að gefa umhverfi sínu gaum.

10. Tregða manns til að hugsa felur dyrnar að framtíðinni. Virðum fyrir okkur mismun vitundar á hverri öld. Mismunur á eiginleikum vitundarinnar er furðulegur. Oft er fáfræðin næstum því á sama stigi, en eiginleikar hennar eru mismunandi. Nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir þessum sveiflum í sögu menningarinnar, og þá kemur í ljós merkilega brattur spíralferill þróunar, en veitum því eftirtekt að stundum hefur hringur spíralsins næstum því snert þann sem á undan fór, en fjarlægst síðan aftur og haldið áfram upp á við. Það er því hægt að vera fullur bjartsýni.

11. Ég fagna þegar ég sé bardagamenn fulla af þrótti. Leiðirnar eru margar og ofsækjendurnir hafa ekki erindi sem erfiði. Ennfremur, sérhver barátta við myrkraöflin er verðugt verkefni. Manninum ber skylda til að eyða myrkrinu. Hetjan kallar á drekann með lúðrablæstri í þeim tilgangi að fella hann. Svo lengi sem höggormurinn er neðanjarðar hefur fólkið engan frið við sín daglegu störf. Eyðing hinna illu afla verður til góðs fyrir framtíðina. Hetjan getur ekki misst kjarkinn.

12. Sjá má að andleg orka og aðsendar hugsanir birtast víða í sköpunargáfu, rannsóknum og uppgötvunum. Sendingarnar geta verið frá mönnum komnar, eða þeim sem búa í fíngerða heiminum eða eldheiminum, og jafnvel frá hinum óumræðilegu æðstu sviðum. Oft er ekki auðvelt að gera stigsmun á þessum sendingum. Til þess er nauðsynlegt að hafa vakandi aðgát á sjálfum sér og umhverfi sínu. Með vakandi athygli tekst að greina ákveðin merki.

Jarðneskar hugsanir eiga greiðan aðgang að vitundinni, en illar hugsanir geta valdið taugakerfinu óþægilegu áfalli. Hugsanir frá fíngerða heiminum valda sérstökum hjartslætti og eru ekki svo auðveldlega meðteknar; þær geta jafnvel valdið höfuðverk eins og verið sé að stinga í gegnum heilann. Hugsanir eldheimsins blossa eins og stjörnuhrap, og þegar flug hinna eldlegu sendiboða lýsir upp loftið í kring veldur það þrumandi hljóði. Eldur fylgir birtingu eldheimshugsana, og þær rjúfa jafnvel straum hinna venjubundnu hugsana. Hugsanir eldheimsins eru mjög hverfular og gleymast auðveldlega. En hinar fágætu lýsandi sendingar æðri sviðanna eru eins og leiftur, bæði af því hversu óvænt þær koma og hvernig þær gagntaka hjartað. Aðeins óvenjulegt fólk fær staðist þessi leiftur. Hægt væri að telja upp mörg merki um hugsanasendingar, en sérstaklega mikilvægt er að viðurkenna staðreynd þeirra.

13. Við þurfum að skilja það í hjartanu að maðurinn er ekki slitinn úr tengslum við æðri heimana. Slík staðföst vitund hjálpar við að þekkja eitt hið mesta undur — hversu hátt upp í háloftin sem svifið er, hvaða flug sem hægt er að gera sér í hugarlund — ætíð finnast háleitar hugsanir svífandi frjálst um öll svið. Íhugið — hugsun frá óendanleikanum berst um alla heimana. Aum er máttur Náðar. Þegar í fjarlægri fortíð þekkti fólk hina guðdómlegu alvisku í formi alls staðar nálægrar orku.

Er því ekki hugsun frá óendanleikanum mikið kraftaverk?

14. Móttaka lifandi hugsunar utan frá óendanleikanum er í sjálfu sér staðfesting á því að maðurinn er andleg vera, sendiboði og vörður ljóss. Fáir skilja hið undraverða gildi lifandi hugsunar úr geimnum. Mun heimurinn ekki blómstra fyrir þeirri vitund sem meðtekur fegurð lifandi hugsunar? Ég staðhæfi að hugsun frá óendanleikanum flæðir í skiljanlegu formi.

15. Hugsun úr geimnum er stundum útskýrð sem þrýstingur og sveiflur hugsunar frá hinum fjarlægu heimum. Hugsun, sem hverfist eins og henni sé endurvarpað í gjallarhorni óendanleikans, er hrein og upphafin þegar hún snýr aftur til hinna raunbirtu heima. Fólk hefur oft reynt að endurbæta sínar eigin vélrænu útskýringar, en öll slík viðleitni sýnir einungis fram á takmarkanir hugsunar. Í eigingirni sinni óska menn þess að þeirra eigin hugsanir snúi aftur upphafnar. En þegar við þekkjum óendanleika Hins helga stigveldis lífsins verða miklu stórbrotnari lausnir viðeigandi. Óvirðum ekki þar sem hægt er að upphefja!

16. Hugsun getur hreyft líkama og efnisþétta hluti. Á sama hátt hlýtur hugsun úr geimnum að verka. Sem dæmi má benda á tilraunir sem gerðar voru fyrir mörgum öldum. Í loft hússins voru festir margir þræðir af mismunandi gildleika og lit, og eftir að kyrrt var orðið í húsinu voru sendar út hugsanir. Hin svonefnda harpa andans byrjaði að titra, og þá mátti greina að vissar hugsanir höfðu áhrif á þræði af sérstökum lit; einnig var mögulegt að virða fyrir sér verkanir hugsana sem sendar voru langt að. Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að vita hvernig á að útiloka sínar eigin ósjálfráðu sendingar við slíkar tilraunir. Við minnumst þess ef til vill að fíngerðir hlutir byrja stundum að titra án augljósrar ástæðu; fyrir efasemdarmönnunum er það aðeins vindgustur, eins og gjólan í þeirra eigin höfði. Eigingirni fólks gerir það tregt til að viðurkenna tilveru einhvers ofar þeirra eigin göfgi.

17. Öll merki um hugsanir úr geimnum skyldi geyma í minni. Mögulegt er að skynja eitthvað sem líkist ósýnilegum kóngulóarvef á andlitinu. Hægt er að finna snertingu eða svara kalli sem enginn annar heyrir. Maðurinn getur greint rafsegulbylgjur án nokkurra tækja, sem merkir að mennskir móttakarar geta einnig numið annars konar bylgjur. Mikilvægt er að gefa því gaum að næm skynjun getur jafnvel myndað efnislega bylgjuhreyfingu. Einmitt þannig er mögulegt að nema hugsanir fjarlægra heima.

18. Hve margir láta sig einhverju skipta hugsanir úr geimnum? Það er áhyggjuefni að sjá hversu fáir þeir eru. Er mögulegt að lifa allt sitt líf án þess að hugsa nokkru sinni um Hið æðsta? Dæmi um svo sljóa tilveru blasa við augum. En enginn skyldi nokkru sinni undir neinum kringumstæðum setja sig á bekk með því lægsta. Við skulum gera okkur grein fyrir því hvað maðurinn meðtekur, þó ekki sé nema fyrir eina tilraun til að nálgast hina fjarlægu heima. Slík viðleitni aðskilur manninn frá öllu því sem er lágstætt. Ein sýn inn í hina fjarlægu heima er nægileg til að umbreyta öllu lífi mannsins. Að skilja, þó ekki sé nema hluta af lífi æðri heimanna, jafngildir því að eignast til frambúðar lifandi minningu. Slík viðleitni er þá þegar uppljómun vitundarinnar. Aum er máttur Náðar, og hjálp er nálæg öllum sem setja stefnuna í átt frá strönd hins efnislega. Jafnvel hinar smæstu tilraunir til að nálgast hugsanir úr geimnum skyldi virða.

Í stað vantrausts og afneitana lát samhljóma hinna fjarlægu heima enduróma. Sérhver skynjun fjarlægra radda er þá þegar sigur yfir fjarlægðum. Sumir þekkja tónlist himnanna og söng geimsins. Fáir hafa nálgast það þrep, samt sem áður eru þessir ummyndarar lífs meðal okkar hér á jörðu. Við skulum standa vörð um slíka sendiboða fjarlægra heima.

19. Nauðsynlegt er að skilja merkingu hjálpar. Menn vilja fá hjálp eftir eigin geðþótta, en fáir skilja sanna hjálp. Sambærilegt er það nú á tímum, þegar heimurinn er í uppnámi, að mjög margir taka ekki eftir hinni eldlegu ógn. Þeir vilja fá að sjá himinháan erkiengil sem sérstakt tákn! En sérhvern dag gerist eitthvað ólýsanlegt. Eftir fyrstu viku ársins, sjáið hve mikið hefur þá þegar gerst! Ásýnd margra þjóða er að breytast.

20. Skiljið ekki jörðina eftir í reiðileysi. Skilningur á hinum fjarlægu heimum hlýtur að víkka vitundina, en virðið ekki að vettugi jarðneskar þjáningar. Annars myndu allir flýja og yfirgefa heimili sín. Nauðsynlegt er að hafa rétt gildismat svo ekki sé nein togstreita milli hins himneska og hins jarðneska.

21. Fullkomnun jarðneskra starfa mun ekki koma í veg fyrir þekkingu á hinum fjarlægu heimum. Eiginleikar starfsins þjálfa einnig hæfileikann til einbeitingar á öllum sviðunum. Við skulum ekki draga úr möguleikum okkar heldur margfalda þá. Sá sem þráir á óeigingjarnan hátt að ná árangri finnur leiðina til æðri heimanna.

22. Skip nær til hafnar þegar sjólag er gott, en sjómenn þekkja veðrabrigðin á úthöfunum og gera þess vegna ráð fyrir óvæntum töfum. Eins er það, þegar góðar ákvarðanir eru teknar, að gera verður ráð fyrir mótbyr. En þegar andinn keppist áfram í átt til æðri heimanna, mæta honum ekki nein skelfileg áföll upplausnar — hann svífur yfir öldum óskapnaðar.

23. Sérhver steinn á jörðinni er skapaður af hugsun. Allir hlutir hafa þróast fyrir skapandi mátt hugsunar. Berum virðingu fyrir öllum sköpuðum hlutum. Sýnum ófullkomleika umburðarlyndi, því að allir skaparar voru einhvern tímann ófullkomnir. Allir eiginleikar eru áunnir ávextir vinnu og álags. Með því að skilja það lærum við að bera virðingu fyrir sköpunarhæfileikanum. Byrjum með hinu smáa að læra að þekkja hið mikla. Áður en maðurinn getur byrjað að tóna Aum á réttan hátt, þarf hann að vera gagntekinn virðingu fyrir mikilleika sköpunarinnar.

Þannig verður hugtakið um mátt Náðar hin fegursta gjöf. Aðeins hin besta viðleitni öðlast umbun hennar. Það er auðkenni hins besta að vera í samræmi við Hið æðsta lögmál; þráður tengir eitt við annað — sé hann óþaninn hangir hann laus í geimnum.

24. Auk hins sýnilega ávinnings hetjudáðar, getur verið til dýrmætur ávinningur sem ekki sést. Í andanum fær afreksmaðurinn æðsta sköpunarmátt sinn og verður þannig til aðstoðar Skaparanum. Á jörðu og himni, í heimunum tveim fléttast hugsunin saman í einn skilningsstraum, og slíkt afrek endurómar mannkyninu til lausnar.

25. Hví að tóna Aum þegar mögulegt er að biðja? Að innihaldi eru Aum og bæn eitt og hið sama, en vegna þess hve hljómurinn Aum er ævaforn og hreinn eru áhrif hans máttugri. Íhugum hljóm Hins æðsta hugtaks. Orðið sjálft er sérstök bylgjuhreyfing; slík endurómandi sveiflutíðni er nauðsynleg til að viðhalda samræmi í geimnum.

Atorkumiklir andlegir leitendur biðja ekki fyrir sjálfum sér.

26. Fólk mun koma og fullyrða að jafnvel hin æðsta fræðsla fullnægi því ekki. Enn þráir það eitthvað annað. Spyrjið hvaða persónulegs ávinnings það óski sér — það er ekki rangt að spyrja þannig. Óánægja þess sprettur oftar en ekki af löngun eftir persónulegum ávinningi. Óendanleikinn freistar ekki slíkra hræsnara. Eini áhugi þeirra felst í brennandi leit að efnislegum unaði. Þeir munu ekki dvelja lengi í nálægð fræðslunnar; þeir hverfa á braut jafnskjótt og þeir skynja að markmiðið er andlegt en ekki efnislegt. Einmitt þannig fólk verður að hinum verstu svikurum þegar það finnur ekki sjóði silfurs. Því mun hvorki máttur Náðar né Aum hafa áhrif á það né upplýsa — hið kolsvarta hjarta er áfram svart og verður að ösku.

27. Þið sjáið hve góðviljuð hjörtu þjást vegna myrkra fyrirætlana manna. Fyrir hinum illu eru hreinar ójarðneskar hugsanir aðeins skotmörk háðs og spotts. Ógerlegt er að lýsa öllu því sem mettar andrúmsloft jarðar. Hugsanaform myrkraaflanna eru sem óteljandi klær! Krossinn — tákn lífsins — leitast þau við að brjóta niður, eins og hann sé óhæfur til að upphefja andann. Þótt krossinn vari við hættum, nota þjónar myrkursins krafta sína til að eyðileggja hann. Hunsum ekki vélabrögð hins illa. Notum skynsemina og gerum okkur grein fyrir raunveruleikanum, þess betur getum við metið mátt Náðar sem gefinn er til lausnar.

28. Særingar eru óhæfa og glæpur gegn mannkyninu. Ekki má líta á særingar sem rangindi gagnvart einum einstaklingi, afleiðingar þeirra eru miklu mun viðurstyggilegri — þær ganga gegn alheimslegri framvindu og beina truflunum inn í hin yfirjarðnesku svið. Þó að særingarmanni mistakist að koma höggi á andstæðing sinn, er ekki þar með sagt að högg hans hafi ekki hitt menn annars staðar, ef til vill í mörgum löndum. Sending illviljans getur fundið festu þar sem síst er búist við. Ómögulegt er að gera sér grein fyrir öllum þeim fjölda dauðsfalla og veikinda sem illur vilji hefur orsakað! Þessir svermar af klóm berast um geiminn, og enginn getur séð fyrir hvar sá eitraði hópur stingur sér niður. Sterkur andi verst illum sendingum, en einhvers staðar mun veiklundaður maður smitast af þeim. Hið kosmíska tjón sem af þessu hlýst er ekki hægt að meta. Einungis hinn máttugi hljómur Aum getur skapað samhljóm mitt á meðal hinna ómstríðu sveiflna. Jafnvel máttur Náðar getur ekki verkað með fullum krafti, ef hann þarf að yfirvinna hið illa á leið sinni. Brýnt er að vara mannkynið við öllum særingum.

29. Enginn skyldi gera gys að bæn. Jafnvel þó hún sé frumstæð, er hún samt sem áður vitnisburður um andlega leit. Það hæfir ekki manni að gera gys að virðingarverðustu viðleitni meðbróður síns. Maðurinn hefur engan rétt til að gera lítið úr fórn til Hins æðsta. Venjulega gerir lítilmótlegt fólk sér sérstakt far um að ráðast á bænir annarra. Fyrir því er Aum og aðrar bænir tilefni háðs og spotts. Oftast er svo lítilmótleg vitund afleiðing grófrar fáfræði.

30. Markverð sérkenni hafa bundist ýmsum átrúnaði. Á fornum tímum var talið nauðsynlegt að presturinn laugaði sig og klæddist hreinum klæðum áður en gengið var til bæna. Nú á tímum tíðkast hið gagnstæða — skrautleg klæði hið ytra, en hreinleikinn hið innra gleymist. Við skulum velta fyrir okkur slíkri hnignun grundvallaratriða og íhuga stöðu andlegra eiginleika. Mikilvægi þess að ákalla Hið æðsta hefur að miklu leyti gleymst. Þrátt fyrir að margar bækur hafi verið skrifaðar eru hjörtun ósnortin. Því er nauðsynlegt að muna að ekki er þörf á skrautlegum klæðum, heldur hreinleika. Lát hreinleika leiðarinnar leiða til hreinleika hjartans. Bæn getur ekki risið frá flekkuðu hjarta.

31. Engin trúarbrögð hafa nokkru sinni krafist byggingar mustera. Þau hafa risið eitt af öðru sem merki virðingar. Hin upprunalega kenning hefur alltaf verið andleg og afdráttarlaus. Það er aðeins á síðari tímum að lögmál andans hafa verið sett undir jarðnesk boð og bönn. Hversu margir hinna bestu vængja hafa ekki sviðnað af jarðneskum eldum! Hefjum okkur yfir allar úreltar erfikenningar til að geta flogið upp á við eftir megni. Látum því hinn helga samhljóm, Aum, fylla hjartað Náð eins og á bestu tímum mannkynsins.

32. Við verðum oft vör við að merking orðsins samhljómur er misskilin. Sumir ímynda sér hann sem hávært hljóð, en samhljómur getur verið jafn lágvær og hljómur hjartans. Því það er hjartað sem syngur; það endurómar og fyllir allt lífkerfið sérstakri orku. Sjálf bænin, Aum, getur einnig verið í hjartanu, en hún gefur frá sér sömu geislun og hið framborna hljóð.

Venjum okkur við tjáningu hjartans. Ekki er hægt að tjá betur stöðuga viðleitni sína með neinu öðru en bæn hjartans.

33. Réttilega hefur verið bent á að viss máttarorð hafa tapað merkingu sinni og halda aðeins eftir hljómi sínum. Þannig sannast mikilvægi sveiflutíðninnar. Af þessari ástæðu var margt ekki ritað, heldur eingöngu tjáð munnlega. Hin rituðu orð ein og sér án hljóms skapa engin áhrif. Það sem meira er, sjálfur eiginleiki raddarinnar hefur sérstakt gildi. Djúpur tónn frá brjósti getur gefið meiri hljómfyllingu heldur en hár tónn, flatur eða nefhljóð. Þannig er það ekki aðeins laglínan sjálf sem er mikilvæg, heldur einnig raddblærinn. Ég tel að eiginleiki raddarinnar sé vanmetinn nú á tímum. Það er ekki styrkur né tæknileg fullkomnun sem er mikilvæg, heldur innra seiðmagn — hið sama er grundvallarskilyrði í sönglist. Margar raddir hafa glatað náttúrlegum eiginleikum sínum með óeðlilegri raddþjálfun.

34. Bænina mun aldrei skorta fegurð; nær og fjær flytur hún hið sama máttuga ákall. Lærið að elska fegurð hljómsins. Mannsröddin er í raun kraftaverk. Sjá má að tjáning raddarinnar er áhrifarík, jafnvel án orða. Allir hafa heyrt kórsöng í fjarska; þó orðin séu ekki greinanleg lifa samt töfrar hljómsins.

Því er ætíð nauðsynlegt að muna hve mörg kraftaverk búa með manninum.

35. Bænin er upphafning og alsæla. Eigingjörn bæn er nokkuð sem tilheyrir meira síðari tímum. Hvernig er hægt að biðja fyrir sjálfum sér? Veit ekki hin æðri viska hvers maðurinn þarfnast? Bænin er tengirás inn í straum góðgerðar. Straumurinn flæðir ríkulega, en nauðsynlegt er að vera sameinaður honum. Maðurinn verður að finna í hjarta sínu samhljóman sem er þess verð að taka á móti og bjóða velkominn hinn æðsta og helgasta fjársjóð. Því er sérhver eigingjörn bæn óviðeigandi. Það var ekki fyrr en trúarbrögðin urðu að tæki ríkisins að farið var að stunda hefðbundnar fyrirbænir gegn greiðslu. Bænir og peningar — hve ósamrýmanlegt! Af þessari ástæðu hafa margir snúið baki við hinni launuðu þjónustu. Öll gleði upphafinnar bænar flýgur á brott þegar klingir í málmi.

36. Þið hafið heyrt bænir fuglanna — litlu bræðurnir vita vissulega hvernig bjóða á ljósið velkomið. Þeir syngja fagnaðarríkustu tóna sína frammi fyrir dýrð ljóssins. Plönturnar teygja sig í átt til ljóssins. Aðeins manninn dreymir um munn sinn og maga þegar andi hans ætti að vera fylltur tign Hins æðsta. Þannig fremur hann helgispjöll sem líkja mætti við sjálfsmorð. Göfugir sálmar hafa verið ortir, en fólk fer með þá án þess að hjarta þess verði snortið, rétt eins og glamri í glerbrotum.

Tími er kominn til að snúa sér aftur að grundvallaratriðunum, svo að jafnvel fordæmi hinna minni bræðra geti kallað menn aftur til hinnar æðri leiðar.

37. Líkja má bæn við segul. Bænin þenur hjartað og dregur til sín hinar bestu hugsanir úr umhverfinu; þó svo slíkar hugsanir jarðneska sviðsins séu ekki Náðin sjálf, eru þær samt af hinu góða. Að auðgast slíkum hugsunum gefur nýjan mátt líkt og samfundir vina. Slíka vini ber að meta. Þó svo að þeir sjáist ekki eru þeir nálægir. Sjálft andrúmsloftið er mettað þeim; það þarf aðeins að senda þeim hlýja hugsun. Bænin býr yfir eiginleika segulorku.

38. Andstæða bænar er guðlast. Það mengar og truflar umhverfið. Í borgum er bannað að reka verksmiðjur sem gefa frá sér eitraðar lofttegundir, þó er guðlast og illt orðbragð mun skaðlegra. Fólk er tregt til að losa sig við hættuleg efni sem valda illkynja sjúkdómum, þó ekki sé minnst á sjúkdóma sem orsakast af truflunum í andrúmsloftinu. Verri en nokkur sjúkdómur er eyðilegging sviðsins næst jörðinni. Hversu margar bænir og góðviljaðar hugsanir þarf til að fylla þessi hyldýpi og sár? Ef ófrjóar eyðimerkur og fellibylir eru hættuleg, þá er hinni sömu hættu boðið heim þegar mannkynið tortímir byggingarkröftunum sem eru allt umhverfis það. Því að menn sem ræna frá sjálfum sér eru sem rotnandi grafir.

Varist guðlast!

39. Aldrei er hægt að semja vopnahlé við Satan. Í nálægð Satans er aðeins undirokun. Ógerlegt er að blíðka Satan. Aðeins án ótta er hægt að ganga yfir hann eða í gegnum hann. Í fornri sögn er sagt frá því hvernig Satan ætlaði sér að hræða einbúa. Hann birtist frammi fyrir honum í ógnvænlegu gervi. En meinlætamaðurinn fylltist eldlegri geislun og réðst á Satan og brenndi sér leið í gegnum hann. Eldur hjartans er máttugri en nokkur satanískur logi. Allar háðsglósur umhverfast í sviðnar grettur sé maðurinn fylltur slíkum eldi. Þannig skulum við ráðast á Satan.

40. Allir opinbera sérkenni sín, jafnvel í daglegu lífi sínu. Sumir hrífast sérstaklega af hinum djúpa bláma fjallstindanna og láta þannig í ljós bestu fullvissu um andann; aðrir þarfnast grænku gróðursins og kalla hana lit vonarinnar; enn aðrir búa í þrengslum borganna og láta sér það lynda. Bænir fólks eru einnig mismunandi. Lítið skilur það hvert annað. Þess vegna er nauðsynlegt að rækta vitundina, svo að hún verði umburðarlynd og fær um að komast í snertingu við hinar margvíslegu hliðar tilverunnar.

41. Einsetumaður var eitt sinn spurður að því hvernig hann gæti dvalið í samfelldri þögn. Hann varð mjög undrandi og svaraði: „Ég er aldrei þögull, þvert á móti, ég á stöðugt í samræðum, því svo margir félagar heimsækja mig.“ Einbúinn hafði nálgast svo mjög hina ósýnilegu veröld að hún hafði orðið honum auðskynjanleg. Bænin varð að nánu andlegu sambandi, og innri heimurinn opinberaðist honum í öllum sínum mikilleika. Fyrir slíkan anda er tilfærslan inn í fíngerða heiminn alveg ómerkjanleg.

Í umræðum um hið góða er hægt að færast upp á við eftir öllum leiðum. Í byrjun er bænin útræð, síðan sprettur hún frá hjartanu, og eftir það verður hún samfélag við hið góða.

42. Til er sú skoðun að bænin sé aðskilin frá daglega lífinu, en hún er í raun grundvöllur lífsins. Án tengingar við æðri heiminn væri mannkynið ekki fært um að hugsa; það væri verra en skepnurnar! Því er hægt að líta á þessa tengingu við æðri heiminn sem grundvöll þess að vera til. Engu máli skiptir á hvaða tungumáli ákallið fer fram. Hugsun á sér enga tungu, samt er hún alls staðar nálæg.

43. Sumir helga allt líf sitt bæninni, aðrir geta tengt bænina daglegu starfi sínu. Við skulum ekki reyna að meta hvort sé dýrmætara; látum nægja þá vitneskju að bænin og sambandið við æðri heiminn séu staðreyndir og umbreyti lífinu. Verið ekki undrandi þó starfsmaður vinni betur með því að ákalla æðri hjálp við framkvæmd verksins. Verið ekki furðu lostin þó stysta bænin reynist áhrifaríkust.

Þannig skulum við eiga samskipti við æðri heiminn, ekki með skipun, heldur með hneigð hjartans. Aðeins fyrir samband við æðri heiminn er hægt að umbreyta jarðnesku lífi, að öðrum kosti mun ekki draga úr þjáningunni; það mun þvert á móti leiða til hruns. Uppræta verður fáfræði, en besta fræðslan kemur að ofan.

44. Það eru svo margar myrkar vitundir sem sjá ekki neina þörf á sambandi við æðri heiminn. Nóg er af rusli, forðið samt börnum frá slíkri fáfræði. Steinrunnið hjarta er ekki lengur hjarta heldur sem gagnslaust glingur.

Höfum því samneytið við æðri heiminn með í öllum okkar athöfnum.

45. Kyrrð vitundarinnar vex í réttu hlutfalli við þekkinguna á æðri heiminum. Engin gleði né fegurð er meiri en fullvissan um tilveru hinnar æðri veraldar. Bænin er afleiðingin af skilningi á hinu lifandi sambandi við æðri heiminn. Sjálf hugmyndin um slíkt samband gerir manninn sterkan og leitandi.

Berum virðingu fyrir öllu sem ber merki um hina æðri veröld.

46. Má það vera að fólk komi ekki auga á allt hið sataníska samsæri gegn æðri heiminum?

47. Maðurinn biður um fyrirgefningu; samt breytir hann ekki lifnaðarháttum sínum. Maðurinn grætur ógæfu sína, en lætur samt ekki af einum einasta ávana sem kom honum í þetta ógæfusama ástand. Bæn um fyrirgefningu hefur enga þýðingu ef henni fylgja ekki umbætur í lífinu. Það er ekki sorg heldur hræsni þegar hinni æðri visku er íþyngt með sjálfsvorkunn. Jafn tilgangslaus er þvinguð bæn. Svo lengi sem fólk skilur ekki mikilvægi tengingarinnar við æðri heiminn, fremur það aðeins guðlast með óeinlægum bænum sínum. Frammi fyrir Sannleikanum eru ósannindi útilokuð, og ómögulegt er að fela neitt í hinu alls staðar nálæga Ljósi. Ennfremur, hví að leyna því sem er heilagt og rökstutt af hjartanu? Tengingin við æðri heiminn verður aðlaðandi þegar hjartað staðfestir sinn eigin dóm.

48. Hjartað dæmir á milli góðs og ills. Þannig er mögulegt að bera í brjósti óhagganlega fullvissu um hið æðsta. Hægt er að gera sér grein fyrir því sem er að sumu leyti ófullkomið en vera samt sem áður fær um að staðfesta hiklaust hið góða. Menn reyna að prófa glæpamenn með því að athuga blóðþrýsting þeirra, en sjá ekki að ein einstök grunsemd getur komið öllu lífkerfinu í uppnám. Betra er að hafa samneyti við æðri heiminn, því þar eru allir leyndardómar opinberaðir.

49. Draumar eru handan tímans; þeir sýna fram á afstæði jarðneskra viðmiðana. Hugsun getur einnig náð til æðri heimanna án tíma. Hin hraðasta sending með flugpósti þarf samt sinn tíma. Rannsakið hraða hugsunar, slík athugun er gagnleg til að skilja hina fjarlægu heima.

50. Hægt er að hafa réttan skilning á hljómi en ná samt engum árangri. Gleymum því ekki orku hjartans sem verður að fylgja hljómnum. Það væri ekki við hæfi ef hljómurinn einn hefði úrskurðandi gildi, þá gætu margir söngvarar náð óverðskulduðum árangri. Innantómum hljómi má líkja við klingjandi málm. Þið hafið heyrt að glermunir hafa verið brotnir með hljóðsveiflum; slíkum sveiflum verður samt að fylgja hugsun. Utanaðkomandi hugsun getur jafnvel valdið auknum áhrifum. Því er hugsunin svo mikils metin sem drifkraftur.

Furðið ykkur ekki á því, þegar rætt er um bænir, að lögð er áhersla á þörfina fyrir vandlega aðgæslu á aðstæðum fyrir sveiflur. Slík athugun á öllum eigindum sambandsins við æðri heiminn er hin sanna leið. Ekki má gleyma hjartanu við þessar athuganir, því allar aðrar eigindir verða að lúta hjartanu.

51. Ásamt hjartanu, haldið vitundinni skýrri. Ógerlegt er að sjá til botns í gruggugu vatni. Allt uppnám og umrót hefur nákvæmlega sömu verkun í vatni og vitund. Finna verður hinn gæfulega meðalveg milli næmni og viðkvæmni. Við jarðneskar aðstæður er ekki auðvelt að forðast uppnám og spennu sem geta skaðað heilsuna. Þegar sambandið við æðri heiminn hefur náð festu, gefur það sérstaka næmni og skýrleika sem ekki lætur gruggast af hinum myrku straumum.

52. Eining og sigur eru bestu máttarorðin. Styrkur hinna myrku afla tvístrast á slíku bjargi. Munið einnig að íþyngja fræðaranum ekki að tilefnislausu. Lát kærleik og trúfesti lifa í hjartanu.

53. Margvíslegir helgisiðir sem fylgja bænahaldi eru dæmi um gagnslausar tilraunir til að auka gildi bænarinnar. Öldum saman var fólki kennt að halda á lofti mikilvægi æðri heimsins. En nú hefur mannkynið aftur snúið frá viðurkenningu á hinum grundvallandi lögmálum. Í stað helgisiða eru það vísindin sem nú nálgast hina réttu leið, en í fánýti hins veraldlega lífs er boðun þeirra aðeins sem rödd hrópandans í eyðimörkinni.

Allt mælir með því tilvist æðri heimsins sé viðurkennd. Það er skammarlegt fyrir mannkynið að hafa hrakist burt frá ströndum þekkingarinnar!

54. Hið nýja er álitið gamalt, þess vegna gleymist hið nýja. Nauðsynlegt er að því sé haldið hreinu, annars, í stað fagurra táknmynda, verður það aðeins sem rykugar grímur.

Köllum saman alla þá sem geta nálgast hinar miklu táknmyndir án þess að guðlasta. Lát þá skreyta þær í samræmi við siðvenjur hvers lands, því Við mætum þeim sem koma til æðri heimsins eftir öllum leiðum sem þangað liggja.

55. Vitað er að allir sjá umhverfið í sínu eigin ljósi. Það hafa þegar komið fram útskýringar á mismunandi uppbyggingu augans, en mönnum hefur algerlega sést yfir að bæta við þeirri mikilvægu staðreynd að fólk horfir í gegnum sína eigin áru. Allir eru hjúpaðir sínum eigin lit sem þeir horfa í gegnum. Segið læknum þessi sannindi, og þeir munu hæðast að því, vegna þess að litur geislunarinnar er ósýnilegur, og það er ekki minnst á hann í handbókum augnlæknisfræðinnar. Samt getur taugaáfall valdið blindu. Á sama hátt eru einnig heyrnarleysi og skerðing annarra skilningarvita undir hjartanu komin. Sjálf geislunin er háð ástandi hjartans. Þetta merkir að allt sem frá hjartanu kemur, svo sem bænir, er mjög litskrúðugt. Við skulum vera á verði gagnvart blóð-rauðum og svörtum bænum.

56. Venjulega vekur bænin himinbláan og fjólubláan loga. Silfurlitaðar bænir eru einnig til, en ekki er hægt að gera sér í hugarlund brúna bæn. Í jarðneskri tilveru er eðlisþáttur ljóssins afar mikilvægur. Hægt er að breyta raddblænum, en útgeislun hjartans er ekki hægt að falsa.

57. Bænin hreinsar. Þessa fullyrðingu á að taka bókstaflega. Andlegt heilbrigði er helsta undirstaða líkamlegrar heilsu. Einmitt bænin, sem raunverulegur tengiliður við hina æðri uppsprettu, er besta hreinsimeðal lífkerfisins gegn öllum sjúkdómum. Smit verður þegar líkaminn leyfir efnisgerðum sendiboðum hins illa inngöngu. Öllum líkömum er hætt við mörgum sjúkdómum, en hinn andlegi styrkur er á varðbergi til að bæla niður slík uppþot. Þegar andinn fær rétta næringu frá hinni æðri orku, ver hann líkamann gegn hættum.

Því er hægt að fullyrða að bænin hreinsar.

58. Til eru þeir fávísu menn sem halda því fram að bænir séu almennt ekki viðeigandi í daglegu starfi. Það ætti að spyrja þá hvers konar starfsemi þeir teldu ósamrýmanlega bænum — það sem er af hinu illa? Vissulega eiga bænir sér engan samastað í hinu illa, en við öll góð verk er þörf á bænum — því sem opinberar hina æðri krafta.

Höldum því staðfastlega fram hinum raunverulegu sannindum í nýja heiminum. Okkur fer ekki aftur, ef við höfum hugfast það sem er stöðugt og óbreytanlegt lögmál tilverunnar.

59. Sjá má hve óviðurkvæmilegar aðferðir tengjast oft bænahaldi! Múgsefjun getur ekki orðið að neinu gagni fyrir sambandið við æðri heiminn. Sjónarvottar æðri sýna staðhæfa að þeir hafi ekki getað staðið kyrrir vegna áhrifa hinnar máttugu tíðni. Ennfremur, sérstakur friður andans er undanfari sýna. Er nokkur möguleiki að sveiflur og hringsnúningur geti verið upphaf fagurrar sýnar? Maðurinn getur ekki með vilja sínum þvingað fram opinberun úr æðri heiminum. Það er mögulegt að laða að sér fíngerða heiminn, en tign æðri heimsins er hafin yfir allt jarðneskt eðli. Árum saman vænta einsetumenn hinnar æðri opinberunar. Jafnvel miklir andans menn gætu ekki staðist opinberun úr æðri heiminum nema einu sinni án þess að heilsu þeirra væri hætta búin. Hins vegar veit æðri heimurinn hvenær og hvað er mögulegt.

60. Virðing fyrir Helgivaldinu staðfestir nálægð æðri heimsins. Í samvinnu við Helgivaldið munið þið finna traustar brýr að þeirri strönd. Í öllum trúarbrögðum er sagt frá verndarenglum, leiðbeinendum og huggurum; handan hinna mismunandi nafna liggur sama hugmyndin um Helgivaldið. Sannlega, lát hvern og einn skilja sínum skilningi, en lát hjörtun leita með ákefð upp á við. Í því einu felst leiðin til fullkomnunar.

Bænin er samfélag við hið allra fegursta.

61. Bæn er innblástur til þekkingar. Hver sá sem sér göfgi samneytisins mun óhjákvæmilega byrja með ákefð að afla sér þekkingar. Til að slík vitund geti vaxið er henni nauðsynlegt að afla sér þekkingar á hinum ýmsu sviðum vísindanna. Heimspekin og raunvísindin opna sömu leiðir til æðri heimsins. Hinir fávísu ræða um efnishyggjuvísindi, að þau afneiti öllu sem ekki er sýnilegt auganu. Samt er þeim kunnugt um óskilgreinanleika atómsins, og þeir skilja þörfina á smásjá og sjónauka. Sannlega, þeir gera vísindin að innantómri skel. Þegar merki æðri heimsins opinberast í vitundinni ummyndast allt vísindalegt starf. Sú þekking er ekki til, ef það er sönn þekking, sem ekki staðfestir hið mikla samband milli heimanna. Sá vegur er ekki til, ef honum er sannlega fylgt, sem ekki leiðir til æðri heimsins. Sá sem ekki skynjar mikilvægi einingar og óendanleika hefur ekki vaxið í vitund sinni. Bæn er ekki hróp í dauðans angist, heldur samneyti fullt kærleiks og trúfesti.

62. Ali einhver með sjálfum sér sljótt neikvætt viðhorf, án þess að um neina hugræna uppbyggingu sé að ræða, verður að líta svo á að slík hugarleg fátækt sé merki um vitfirringu. Hve oft hafið þið ekki sjálf hitt fyrir slíka menn! Þeir vekja aðeins meðaumkun. Eins og smákaupmaðurinn sem reiknar ágóða sinn en hæðist að æðri stærðfræði, þannig býr hinn fávísi sér til tannstöngul úr þyrni af kórónu mikils afreks.

Ekki aðeins þekking leiðir til æðri heimsins, heldur einnig vinna. Sérhvert starf færir vissulega þekkingu. Því er vinnan einnig bæn.

63. Oft verður lækning vegna bænar. Ekki er erfitt að sjá að sambandið við æðri heiminn styrkir hjartað og sendir í gegnum taugarnar heilnæma blessun. Að skilja þetta er ekki erfitt, jafnvel frá hinu hefðbundna vísindalega sjónarmiði. Fáfræðin er svo ríkjandi að það er nauðsynlegt að endurtaka hér svo einfalda staðreynd, því ekki má sleppa einu einasta tækifæri til að minna á æðri heiminn. Þannig verður til enn ein bæn.

64. Skelfilegt er að sjá þá sýn vitfirringar þegar hið illa reynir að þurrka allt skynsamlegt út af yfirborði jarðar. Illskan er sem eyðandi stormsveipur. Sambandið við æðri heiminn er það eina sem á ný getur komið á jafnvægi.

65. Sérlega ógeðfellt er að sjá hina myrku Satansdýrkun við hlið einlægrar hollustu við æðri heiminn. Þannig er hægt að finna samlíkingu við Harmagedón í daglegu lífi. Hafa verður í huga að kraftar Ljóssins ráðast stöðugt gegn myrkrinu. Bænin verður einnig heróp, þegar ósannindi eru sigruð í nafni hins æðsta. Eyðing blekkinga er þjónusta við Ljósið.

66. Gremja á enga samleið með bæn. Blekkinguna verður að sigra með því að lyfta logasverði, en ekki með gremju.

67. Bænin niðurlægir ekki, hún upphefur. Ef skapið er þungt eftir bæn, hefur hún ekki verið háleit. Maðurinn er ekki sambærilegur við óendanleikann, en einn neisti hinnar æðri orku ber í sér mikilvægi sem er jafnvel ofar skynjanlegum mörkum. Hverjum manni er gefinn neisti æðri orku, og sem gæslumaður hans er háleit skylda falin honum á hendur. Hann er brú yfir til æðri heimanna. Þess vegna, með afneitun á æðri heimunum, hafnar hinn fávísi því sem gerir hann mennskan.

Áminning um æðri heiminn er sem prófsteinn á sérhvern anda.

68. Hinn andlegi eðlisþáttur er undanfari allra verka. Öll líkamleg starfsemi er háð því að áður hafi orðið viss andlegur samruni. Af því leiðir að hver sem afneitar hinum andlega eðlisþætti sviptir athafnir sínar merkingu. Framþróun getur ekki orðið, ef kraftinum, sem er aðalhvöt hennar, er hafnað. Eitt af einkennum hinnar myrku aldar er afneitun frumreglna og grundvallaratriða. En einmitt slíkt myrkur er tímabundið. Maðurinn verður að búa sig undir að taka á móti ljósinu, og hann verður að skynja innra með sér frumkjarna ljóssins, ef hann ætlar sér ekki að verða að moldvörpu.

Þegar ég tala um andlegt samfélag, þá er ég fyrst og fremst að mælast til þess að þið skiljið raunveruleikann í öllum sínum óendanleika.

69. Bænin á ekkert skylt við ofbeldi eða þvingun. Ekki skyldi hæðast að né ámæla fyrstu bæn barnsins. Eitt sinn bað lítill drengur: „Ó drottinn, við erum reiðubúin að hjálpa þér.“ Nærstaddur maður hneykslaðist og sagði að barnið væri óskammfeilið, og á þann hátt niðurlægði hann fyrsta vottinn um óeigingirni. Lítil stúlka bað fyrir móður sinni og kúnni sinni og hæðst var að bæn hennar. Það varð til þess að minningin geymdi aðeins eitthvað skammarlegt, en í raun og veru var umhyggja hennar ákaflega hjartnæm.

Það er á sama hátt mikið guðlast að nota nafn Guðs til að ógna eða þvinga. Með því að banna barninu að biðja með sínum eigin orðum er verið að beita hina ungu vitund valdi. Ef til vill man barnið eitthvað ákaflega mikilvægt og beinir hugsun sinni upp á við. Hver er slíkur að geta gripið inn í og kæft slíka lýsandi hvöt? Fyrsta fræðslan um bænina mun verða leiðandi fyrir alla lífsbrautina.

70. Umhverfi heimilisins setur svip sinn á allt í lífi mannsins. Jafnvel hinn fátæklegasti kofi misbýður ekki hinu andlega. Ekki skyldi gera ráð fyrir því fyrirfram að börnin taki ekki eftir tilgangslausum erli lífsins, þau eru þvert á móti ákaflega næm fyrir öllu í þeirra daglega lífi; þess vegna er það svo að bænin þrífst best á hreinu heimili.

71. Bænin er til góðs á hvaða tíma sem er; samt eru tvær tíðir dagsins þegar straumarnir breytast, við sólarupprás og eftir sólsetur, sérlega æskilegar til að snúa sér til æðri heimsins. Að auki er til góðs að ákalla æðri heiminn þegar gengið er til náða.

Vísindin hafa ekki réttan skilning á svefni. Hugmyndin um hvíld er of einföld. Ef á undan hverri gjörð fer andlegt starf, verður að gefa sérstaklega gaum að svo óvenjulegu ástandi sem svefninn er. Næstum helming lífs síns felur fólk sig á hendur ósýnilegum heimi. Nauðsynlegt er að hreinsa vitundina áður en haldið er inn um hin helgu hlið. Hugsun um æðri heiminn, hugsun um verndarana, er þegar sem ljós í hinni döpru vitund; af því leiðir að æskilegir samfundir kunna að verða fleiri og árásum er bægt frá. Hugsun hjartans um æðri heiminn veitir ein órjúfanlega vörn.

Þannig skulum við hafa í vitund okkar allt hið fegursta og nauðsynlegasta á hinni löngu ferð.

72. Lát hjartað með slögum sínum ætíð minna okkur á hina andlegu næringu. Glatið ekki þeirri siðvenju að biðja; hrekið ekki burt góðar hugsanir. Of oft sviptir maðurinn sjálfan sig réttinum til inngöngu. Æðri heimurinn er ekki eyðandi eldur fyrir vini og samstarfsmenn. Í nálægð elds gæta menn þess að brenna sig ekki, á sama hátt skulið þið í lífinu gæta sérstaklega að framtíð ykkar.

73. Gott er að þið hittist og sameinist í hugsun; með því móti skapið þið góðvild í umhverfinu. Slík samfjöllun hugsana er bæn — þið hugsið ekki um ykkur sjálf, þið safnist saman fyrir hið góða. Aðstoð veitt vinum er svo fjarlæg ágirndinni.

Ég lít svo á að þær stundir séu verðmætastar sem varið er til að senda hugsanir til vina og allra í nauð.

74. Hver getur veitt aðstoð við að efla mátt hugsunarinnar? Aðeins hinn andlegi fræðari. Hann er bjargið; í nálægð hans er skjól fyrir storminum. Virðing fyrir fræðaranum er leiðin til æðri heimsins. En óskapnaðurinn þolir ekki uppbyggingu. Beinum athygli okkar að grundvelli hugsunarinnar til að vera ekki óvarin fyrir hvirfilbylnum.

75. Til eru þeir sem staðhæfa að þeir biðji aldrei, en samt halda þeir huganum háleitum. Orsakirnar eru margar. Hugsanlegt er að þeir tengist æðri heiminum í starfi sínu án þess að vera sér þess meðvitandi. Ef til vill geymir vitund þeirra logandi ákall djúpt í hjartanu án þess að þeir geti greint það. Mögulegt er að í duldu minni beri þeir með sér helgirúnir frá fyrri æviskeiðum á ókunnu tungumáli. Því er það að fólk fer stundum með óþekkt orð sem hefur merkingu á óvæntri tungu. Margar heilagar minningar geymast í vitundinni. Hvatir til margra verðugra verka eiga sér orsakir í fyrri æviskeiðum. Við þurfum ekki að vera háð því sem á sér orsakir í djúpstæðri reynslu.

76. Enginn hugsar annars hugsun. Frammi fyrir heiminum ber maðurinn sjálfur ábyrgð á dómum sínum. Einsetumaður nokkur bað með því einu að endurtaka á sinni eigin tungu: Þú, Þú, Þú! Hann hélt því fram að stystu orðin fælu í sér mesta máttinn. Þó tungumálin séu mismunandi leitar vitundin samt að sama marki.

77. Hinn fávísi trúleysingi spyr: „Hví þarf að gera ráð fyrir einhvers konar æðri heimum? Ég hef aldrei heyrt um neitt því líkt.“ Það hæfir vel að svara: „Ákveðnar dýrategundir vita ekki um æðri heiminn, þrátt fyrir það hefur fólk mjög oft séð og fundið fyrir hinu æðra sambandi og getur vitnað um tilvist þess. Hafi einhver aldrei fundið fyrir nálægð ósýnilega heimsins, er það merki um rýrnun eða visnun í taugastöðvum hans.“ Þetta svar hæfir fáfróðu trúleysi.

Hvers konar bæn er möguleg úr munni trúleysingjans? Það er jafnvel ekki unnt að tala um bænir í nálægð fáfræðinnar. Þrúgur niðurlægjandi tilrauna verða mjög beiskar. Næmni hinnar þróuðu vitundar hvíslar, þegar ekki er hægt að vitna um æðri heimana.

78. Með dýpstu virðingu segja sumir: „Ekki þetta, ekki þetta,“ til að koma ekki með vanvirðandi samanburð. Aðrir banna algerlega að orðið Guð sé borið fram, til að ekki sé gert lítið úr tign hins æðsta. Þannig nálgast menn óendanleikann á mismunandi hátt. Djúpt inni í vitund sinni vita þeir að ómögulegt er að tjá eða meta það sem er öllu æðra. Blindur maður getur þreifað á lægstu steinunum, en hann þekkir ekki hæð turnsins. Engu að síður getur maðurinn ekki slitið sig frá þrepunum í stigveldi lífsins. Ferðamaðurinn mun finna þrepin á uppgöngu sinni.

Vegur ljóssins syngur og takmarkalaus geimurinn endurómar!

79. Aum hljómar ekki sem orð, heldur sem hugtak. Sá sem skilninginn hefur mun skynja hljóminn sem er í samhljóðan við tónlist himnanna. Fágætt er að heyra þennan enduróm himnanna með jarðneskum eyrum, en hinn fáfróði heldur að það sé aðeins suð í eyrunum. Göngum því þar sem óendanleikinn sjálfur hljómar.

80. Í grundvöll æðri heimsins er mikill kærleikur greyptur. Einungis sambærilegur kærleikur bregst við slíkum eiginleika. Hin æðsta lotning er marklaus án kærleiks. Hvað er tilbeiðsla án kærleiks? Getur visið hjarta sindrað af eldlegri glóð? Þar sem kærleikurinn birtist má gera ráð fyrir einhverju því sem sambærilegt er við æðri heiminn. Aðeins með kærleik er hægt að meta öll viðfangsefni rétt. Með mætti kærleikans er hægt að vinna bug á öllum erfiðleikum.

Sannlega, mikill kærleikur er fólginn í grundvelli æðri heimsins!

81. Ábyrgðarmikil þjónusta getur verið hlutskipti sérhvers manns. Sá sem hefur hugrekki til að takast á við erfitt þjónustustarf fyllist nýju lífi. Maðurinn ákvarðar sjálfur hve mikið hann leggur á sig. Sérhver maður getur skuldbundið sig til að starfa að mikilvægu en ekki léttvægu viðfangsefni, og þannig helgað sig óafturkallanlega æðri heiminum.

Þannig er ábyrgðarmikil þjónusta bæði skylda og heiður.

82. Sá sem veit hvernig á að greina tilveru æðri heimsins í hinu smæsta er þegar kominn á veginn sem liggur upp á við. Það er vissulega nauðsynlegt að tengjast æðri heiminum í öllum orðum og gjörðum. Leiðin mun verða löng ef slík hollusta er ekki viðhöfð. Umlukinn þéttasta myrkviði jarðneskra aðstæðna getur maðurinn samt beint för sinni í átt til æðri heimsins, og þessi heimur fegurðar verður honum þá ætíð nálægur. Þó andinn dvelji í jarðneskum líkama, lærir hann samt að renna inn í æðri heiminn eins og hann sé að snúa aftur til sinna eigin undursamlegu heimkynna. Maðurinn hefur heimþrá til átthaga sinna sem þó eru aðeins stundlegir; hve miklu sterkari er ekki taugin sem dregur hann til síns eilífa föðurlands! Aðeins óskapnaðurinn getur falið fjársjóðinn sem með réttu er eign mannsins. Hljómur samræmis sigrast á upplausn óskapnaðar. Aum!

83. Kraftaverk geta ekki verið óeðlileg fyrir anda sem er eitt með æðri heiminum. Allir óvenjulegir jarðneskir atburðir eru brot af hinum æðsta heimi, eða með öðrum orðum sagt, brot af raunveruleikanum. Hinn sami hljómur samræmis opinberar hinar leyndu dyr. Veitið samt eftirtekt smæstu merkjunum um æðri heiminn. Af slíkum smáum fræjum vaxa há og mikil tré.

Gaumgæfið öll ummerki með athygli. Látið ekki hina meiri vitnisburði fara fram hjá ykkur sem þið, hjúpuð blekkingu holdsins, kunnið að álíta að séu ekki athygli verðir. Holdið er grófgert, en hjartað slær í takt við æðri heiminn. Aum!

84. Eldur eða Ljós æðri heimsins er ekki með öllu óþekkt fyrirbrigði. Þessir geislar ná mun oftar en álitið er niður á jarðneska sviðið. Menn útskýra þá sem rafmagnsfyrirbrigði. Efnislega séð er ekki grundvallarmunur á þeim og því sem menn hafa komið sér saman um að kalla rafmagn, en þessar sendingar stafa frá hugsanaorku æðri heimsins. Eldarnir og ljósin blossa ekki upp fyrir tilviljun; uppörvun, aðvörun eða staðfesting endurómar í þessum ljóssendingum. Yfirleitt kvartar fólk yfir því hversu óvænt sendiboðarnir birtast. Mitt í önnum dagsins má skyndilega sjá lýsandi vísbendingu. Ef til vill kann hún að gefa hugrekki og þrótt og minna á æðri heiminn, í þeim tilgangi að festa enn einn traustbyggðan stein í múrhleðslu vitundarinnar.

Undursamlegir eru eldar og ljós æðri heimsins. Það sviðnar ekki undan þeim þar sem hið góða er ríkjandi. Þeir hvetja ætíð til íhugunar um þennan ósýnilega mikilleika. Viðurkennum þessar brýr sem leiðina einu. Skelfilegt er að hræðast ljósið, því þá breytist eldurinn í eyðandi loga. Ótti er ekki við hæfi, og skelfing er sjálfstortímandi.

85. Sannfæring er vottur um trúnaðartraust. Það veldur því að vitneskjan um æðri heiminn gleymist ekki líf eftir líf. Það er einmitt slíkur eiginleiki sem varir um alla eilífð. Því er svo nauðsynlegt að vera staðfastur í þekkingunni um æðri heiminn. Staðfestingin mun ekki láta á sér standa.

86. Í allri sögu mannkynsins má sjá viðurkenningu á æðri anda, heilögum anda — huggaranum, og fjölmörgum svipuðum hugtökum sem vísa til æðri heimsins. Slíkur vitnisburður frá öllum tímum og öllum þjóðum hlýtur að neyða jafnvel hinn fáfróða til umhugsunar. Ekki getur mannkyninu í heild sinni skjátlast! Við margvíslegustu aðstæður hefur fólk skynjað hina sömu háleitu og óumræðilegu uppsprettu. Merki um tilvist andans er sem viskusteinn í vitund manna. Finna má margvísleg tákn hins mikla raunveruleika geymd í minni þjóðanna. Þau eru ekki eitthvað sem mönnum dettur í hug í sjálfsánægju sinni, heldur skynjun sannleikans. Lát menn rannsaka Egyptaland hið forna, Babýlon og hina huldu menningu Majanna; og alls staðar að baki hinna óræðu tákna má uppgötva sömu háleitu hugtökin.

Þannig gætu vísindin vísað leiðina til æðri heimsins.

87. Mildi er einn eiginleiki æðri heimsins, þess vegna verða menn að tjá þennan eiginleika hvar sem glampa hins góða er að finna. Verið óþreytandi við að leita uppi þennan mátt Náðar. Með þrotlausri árvekni er þannig hægt að taka á sig þjónustu æðri heimsins. Verið ekki stolt yfir slíkum heiðri; ekki neitt sérstakt stolt er viðeigandi, en innileg gleði er leyfileg.

88. Sambandið við æðri heiminn auðgar vitundina ríkulega. Hinar háleitu sendingar ná marki sínu á margvíslegan hátt — hægt er að nema þær í svefni, í vöku geta þær komið sem leifturglampi hugsunar. Hryggist ekki þó slíkar hugsanir virðist stundum gleymast strax, því þá hafa þær sennilega sokkið niður í vitundina. Það kann að vera að hugsunin hafi verið ætluð innsta kjarna vitundarinnar. Þegar rétti tíminn kemur mun hún koma fram; þangað til mun hún lifa áfram og auðga vitundina.

Sagt er að vitundin vaxi eins og grasið. Grasið vex ekki svo á einni klukkustund að merkjanlegt sé, og eins ómerkjanlega birtist blómhnappurinn. Breytingar í vitundinni er aðeins hægt að merkja á löngum tíma; slík breyting er óumræðileg. Vitundin vex með samfjöllun, hún getur ekki vaxið í þröngum farvegi. Framför vitundarinnar gerist innan frá miðju og umlykur sífellt stærri svið nýs skilnings.

Á sama hátt eru sendingar til vísindamanna ekki efnislega takmarkaðar; þær hvetja hugsunina til æ víðari sjónarhrings. Hugurinn er sem slíður fyrir logasverðið. Aðeins víðtæk verkefni koma frá æðri heiminum. Jarðneskar takmarkanir þrengja hugsun æðri sviðanna svo hægt sé að tjá hana með orðum, en hið himneska helgiletur varðveitist inngreypt djúpt í vitundinni.

89. Það er gagnlegt að líta svo á að samfélag við æðri heiminn sé jafn nauðsynlegt og hreint loft. Enginn þarf að sitja í daunillu og eitruðu andrúmslofti. Jafnvel hinir fáfróðustu skilja að eitur er skaðlegt.

Eins má sjá að með andlegum þroska losnar fólk við ógeðfellda lykt sem er eðlileg hinni óþroskuðu lífveru. Við skulum gera okkur ljóst að áhrif æðri heimsins geta ummyndað samsetningu blóðsins. Álítum ekki að slíkar efnabreytingar séu yfirnáttúrulegar, þvert á móti, þær eru mjög svo náttúrulegar. Þegar einhver kemur inn úr hreinu útiloftinu stafar frá honum ferskum ilmi. Jafn ilmandi er sú vitund sem yfirskyggð er Náð.

90. Jarðnesk hugsun getur komið efnisþéttum hlutum á hreyfingu — af því má gera sér í hugarlund mátt skapandi hugsunar æðri heimsins. Sagt er að þegar hugsunum lýstur saman leiði það til sannleika, þannig setja menn fram mikil sannindi án þess að vita af því. Sannlega, sá leyndardómur sem vitringar heimsins hugleiða mest er hinn skapandi máttur hugsanaorkunnar. Einmitt, það er ekki ein hugsun, heldur samfléttaðir straumar hugsana sem mynda spíralrás sköpunar. Hægt er að tilfæra margar vísindatilraunir því til sönnunar, en fyrst af öllu er nauðsynlegt að uppgötva hinn efnislega kraft hugsunar. Ef hægt er að hreyfa létta hluti með krafti hugsunar, er hægt að ímynda sér að slíkt þróist áfram út í hið óendanlega. Ekki síður efnisleg en andleg eða siðfræðileg rök geta gefið vísbendingar um hinar æðri stærðir. Menn verða að gera sér ljóst að orka þeirra getur valdið feikimiklum afleiðingum. Mönnum hefur verið treyst fyrir mætti hugsunar, en hana má nota vísindalega og skynsamlega, eða sóa henni til skaða fyrir alla tilveruna. Þannig getur bænin verið mikil vísindatilraun og sönnun.

Þegar ég mæli fram, „Aum,“ hef ég gagn fyrir heiminn í huga.

91. Rangt er að ætla að ekki megi minnast á sönn vísindi í sambandi við bænir um hið æðsta og besta. Skilningurinn getur verið mjög nærri æðri heiminum, en menn geta þó gert sínar eigin athuganir, og hvar sem er í heiminum geta menn tekið á móti hugsanastraumum sem með samfléttun geta skapað iðuhvirfil nýrra möguleika. Vissulega er æðri heimurinn hinn fegursti möguleiki.

92. Ríki mannkynsins nær yfir vítt svið; tindar þess snerta æðri heiminn í hetjum og miklum andans verkamönnum; við botninn verður til kosmískt ryk sem er efniviður í steina á nálægum plánetum. Gífurleg fjarlægð skilur að mikilhæfan verkamann andans, upplýstan ljósi æðri heimsins, og hinar rykugu dreggjar.

Þegar höfð er í huga sú staðreynd, að hverjum manni er gefin hlutdeild í grundvallarorku, er erfitt að gera sér í hugarlund á hve andstæðan hátt fólk hefur meðhöndlað þessa miklu gjöf. Sjálft ímyndunaraflið getur varla spannað slíka hyldýpisgjá. Fólk lítur svo á að það sé erfitt sem er óþægilegt, og að það sé auðvelt sem veldur því engum vandkvæðum; vegna slíkra venjubundinna viðhorfa opnast gínandi gjár. Menn hafa ekki vanist því að halda æðri heiminum í vitund sinni, samt er ekki erfitt að skipta á tómleika fyrir hið óendanlega líf. Hversu miklu fegurri er ekki skilningur á æðri heiminum en fjötrun í steinhlekki!

Þegar hægt er að halda óendanlega upp á við, hví að byrja enn aftur á byrjuninni?

93. Hægt er að rækta með sér hvaða tilfinningu sem er. Einnig er hægt að þjálfa með sér óttaleysi. Hægt er að setja sér fyrir verkefni í óttaleysi í stað þess að fyllast skelfingu.

Svipir eru jafn raunverulegir og skuggar á sandi, en við vitum hvað veldur skuggunum. Sýnir úr fíngerða heiminum eru einnig ekki ómögulegar. En óttumst ekki, heldur berum fram nafn fræðarans með endurómandi mögnun.

94. Mikið er um elda, því eru skiljanlegar þær sveiflur sem brenna og valda mönnum þreytu. Eldar í iðrum jarðar og eldar innri sviðanna eru skyldir, en áhrif þeirra eru mjög mismunandi. Menn eru ófúsir að gera sér grein fyrir áhrifum sínum á innri elda jarðarinnar. Frá stjörnuspekinni koma vísbendingar um fyrirhyggju og sérstaka aðgát, en í stað þess auka menn aðeins hættuna. Hvað varðar það tvífætlingana þó að þeirra vegna brjótist út eyðandi eldar í öðrum heimsálfum!

95. Lögmál alheimsins eru óhagganleg, en samt getum við séð greinileg frávik frá þeim. Ef við skoðum karma sjáum við að einnig er hægt að breyta karmískum böndum, alveg eins og tímabilið á milli jarðvista getur verið breytilegt í mismunandi tilfellum — allt frá andartaki til mörg þúsund ára. Þeim sem ekki þekkja til getur virst það ruglandi hvernig slíkur óhagganleiki getur samtímis verið svo breytilegur. En slíkt þekkingarleysi sýnir aðeins fram á að skilning skortir á dýpt og umfangi tilverunnar.

Fólk skilur heldur ekki hvaða orka er hinn ákvarðandi þáttur. Hugsunin er hinn grundvallandi þáttur á öllum sviðum alheimsins; hún getur breytt karma, hún getur ákveðið tímasetningu, hún opnar dyr og hún getur lokað þeim. Hún myndar geislavængi út frá öxlunum. Hún getur leitt manninn að mörkum æðri heimsins eða varpað honum í hyldýpið. Virkni lögmála hvílir á hugsun. Hin mikla viska hugsunar er hlíf og vörn gegn ringulreið óskapnaðar. Í raun ræður hugsun ríkjum yfir æði óskapnaðarins.

Lögmál alheimsins eru sannarlega óbreytanleg, en þau eru upplýst hugsun og hæfa því markmiðinu. Skilningur á réttu gildismati er nauðsynlegur til að geta áttað sig á virkni lögmála.

Höfum því ætíð skapandi hugsun í minni. Aum!

96. Mörgum virðist það óhugsandi að unnt sé að breyta karma, en þeim skjátlast, því þeir gleyma hinu himneska réttlæti. Mögulegt er að upplifa hinn æðsta skilning í einu svipleiftri. Hvar sem hægt er að stíga fæti getur hugsun flogið. Í vissum trúarsamfélögum voru nýliðar svæfðir, og með dáleiðslu voru þeir látnir endurlifa með miklum hraða alla þrautaleið síns karmíska lífsmynsturs. Þannig fékkst skilningur á óhjákvæmileika og einnig möguleika þess að hraða framgangi lögmálsins. Hugsun skapar líf.

97. Ekki aðeins er erfitt að öðlast skilning á karmalögmálinu, það er enn erfiðara að skilja hið einfalda lögmál sem ræður holdgun mannsins. Þó hafa ritningar frá elstu tímum oft minnst á þessar breytingar lífsins. Íbúar fíngerða heimsins hafa oft haft samband við jarðneskt fólk og flutt því skilaboð sín. Ekki er sjaldgæft að fólk muni fyrri æviskeið sín. Öldum saman var endurholdgun viðurkennd staðreynd, en síðar féll hún aftur í gleymsku, og það var jafnvel bannað að hugsa um hana. Það er erfitt að skilja ástæðuna fyrir slíkri baráttu gegn rökum. Stundum virtist sem svo að hinir vitru teldu æskilegt að beina athyglinni eingöngu að framtíðinni, en slík viska er einhliða.

Fólk ætti að sækjast eftir ótakmarkaðri þekkingu. Segið ekki fyrir um hvað fólk má vita og hvað ekki. Sviptið ekki manninn rétti sínum til sjálfsfullkomnunar. Látið menn vita og muna að lífsfræðarinn dregur markalínu milli fortíðar og framtíðar.

Lokum því ekki augunum fyrir raunveruleikanum. Lögmál endurholdgunar er réttlátt. Kjarni andans er heilagur og eilífur. Óendanleikinn staðfestir eilífðina. Allir geta séð fyrir sér óendanleikann — af því leiðir að allir geta gert sér grein fyrir eilífðinni.

Ekki skyldi rengja frásagnir barna um fyrri æviskeið sín. Þau vita í meginatriðum hvað gerst hefur í kringum þau. Á okkar tímum verða oft skjótar endurfæðingar. Margir íbúar fíngerða heimsins hraða endurkomu sinni, í því birtist vöxtur og hraðaaukning þróunarinnar. Í slíkri hröðun má sjá sættir milli heimanna.

98. Mikil þörf er á að fá fólk til að taka eftir mikilvægustu stundum lífs síns þegar þær koma. Fólk á svo erfitt með að greina á milli aðalatriða og aukaatriða. Oft vekja hinir mest áberandi vegvísar tilverunnar ekki neina eftirtekt. Skólinn ætti að hjálpa til við að upplýsa um þessi atriði.

99. Það er sérstaklega erfitt fyrir fólk að greina hvað því sjálfu er mikilvægast. Ef læknir finnur illkynja innvortis æxli, hraðar hann sér að skera í gegnum hin ytri lög til að komast fyrir hættuna, en hugleysinginn vill ekki skaða húð sína og lætur lífið af völdum æxlisins sem fær að vaxa óhindrað. Ef þörf er á að velja, skal viðhalda því sem er nauðsynlegast. Á sama hátt, þegar menn snúa sér til æðri heimsins, ættu þeir að gefa sér tíma til að íhuga hvað sé mikilvægast.

100. Þreföld yfirskrift er dæmi um lagskiptingu tákna úr heimunum þrem. Ímyndum okkur bókfell sem upphaflega var notað til að skrifa á fræðirit um sköpun heimsins, en síðar var ritað á það ástarljóð, og að lokum var það notað til að reikna út efni og skinn. Það er erfitt að greina tjáningu hjartans í gegnum hinar augljósu verslunartölur, og næstum ógerlegt að ráða í rúnir fræðiritsins um hið mikilvægasta. Gerist ekki það sama hvað varðar myndletur heimanna þriggja? Líkt og reyndur handritafræðingur er fær um að lesa torskilin handrit; eins getur upplýst vitund skilið merkingu áritana æðri heimsins.

Tökum ekki verslunarútreikninga í misgripum fyrir lögmál alheimsins.

101. Þegar tekist er á við fáfræði eru allar samlíkingar nothæfar. Afneiturum fellur vel að afsanna, en þeir bjóða ekki upp á neinar niðurstöður eða lausnir. Þeir hæðast að hinu besta samneyti, en eru ófærir um að tengja saman þó ekki sé nema þrjá stafi.

102. Fólk verður guðrækið þegar vistaskiptin til fíngerða heimsins nálgast. Því sést yfir þá staðreynd að svo flaustursleg mútugreiðsla jaðrar við guðlast. Afleiðingin verður því ekki skilningur á æðri heiminum, heldur greiðsla í flýti fyrir besta staðinn, en undirbúningur þess að nálgast æðri heiminn ætti með réttu að byrja strax á fyrstu dögum hins jarðneska lífs.

Það eru ekki hefðbundnir helgisiðir, heldur bænir hjartans sem færa veröld fegurðarinnar nær og gera hana að daglegri stoð. Hægt er að nálgast hið æðsta með Kaleikinn fylltan hinum bestu hugsunum. Unnt er að bjóða fram vandað vísindastarf, ef tryggt er að það sé ætíð unnið til góðs. Þegar hið góða er ríkjandi, opnast allar dyr til æðri heimsins.

103. Mörgum, og jafnvel þeim sem vita um fíngerða heiminn, finnst sem þeir geti skotið því á frest að nálgast hann með því að fullkomna hugsanir sínar. Þeir hafa rangt fyrir sér, því að það er einmitt þegar að þessu vali kemur að nauðsynlegt er að móta rétta stefnu hugsunarinnar. Strax og ákveðin hvöt hefur vaknað er hægt að hefja undirbúning og þjálfun. Hugsunin verður að sanna sig með því að gangast undir próf jarðneskra hugsana. Það er hryggilegt að koma inn í fíngerða heiminn ráðvilltur og ruglaður. Skýr vitund lyftir manninum upp á við, alveg eins og léttar lofttegundir lyfta loftbelg. Enginn og ekkert getur haldið staðfastri vitund, sem sækir fram til hins góða, í fjötrum lægri sviðanna; því skulum við ekki mæla gegn því að lögð sé áhersla á hugsun. Ekki er til beinni leið til samskipta við æðri heiminn en vegur hugsunarinnar.

104. Hljóð íhugun um æðri heiminn jafnast á við gott lækningalyf. Með henni er hægt að skynja afstæði tilverunnar. Slík vitneskja verður ekki til hindrunar, hún mun þvert á móti styrkja flug hugsunarinnar. Leggið áherslu á einfaldleikann þegar glundroði ræður ríkjum í heiminum.

Jarðnesk tilvera getur ekki verið endalokin, en á svo skömmum tíma er aðeins hægt að undirbúa það sem mest er þörf á fyrir flug framtíðarinnar, með öðrum orðum — að skerpa hugsunina. Vængir vaxa aðeins af hugsun.

105. Án efa fáið þið oft spurningar um samband fíngerða heimsins við jarðneskt líf. Hið rétta svar er að segja að slíkt samband sé ætíð viðvarandi. Allt sem gerist á jörðinni vekur andsvar í fíngerða heiminum. Sérhver jarðnesk hugsun vekur annað hvort gleði og hjálpsemi, eða illvilja og eyðandi sendingar frá fíngerða heiminum. Jafnvel hinir minni andar fylgjast af athygli með jarðneskum hugsunum. Það segir sig sjálft að öflugar jarðneskar hugsanir valda djúpri sveiflutíðni í fíngerða heiminum, því er það aðeins eðlilegt að fíngerði heimurinn andsvari einnig jarðneskum hugsunum. Þegar ég segi að fjöður, sem fellur af væng lítils fugls, valdi þrumuhljóði í fjarlægum heimum, má ekki leggja táknræna merkingu í orð mín, heldur skilja þau sem áminningu um samvinnu alls í tilverunni. Menn þurfa að venja sig við þá staðreynd að ekkert tómarúm er til. Menn verða að styrkja fullvissu sína um mikilvægi starfs síns og skyldu.

Maður sem tekur á sig samneyti við æðri heiminn er sannarlega áræðinn, en slík áræðni er heilög. Fíngerði heimurinn hlustar á þessi áköll og skilur þýðingu þeirra. Slíkt samneyti dregur til sín fjölda áheyrenda — eða samstarfsmanna eftir atvikum — þess vegna verður að útiloka eigingirni úr bæn; því hin besta bæn er afsal og þrá eftir hinu góða.

Látið fræðsluna ætíð leggja áherslu á gagnsemi sambandsins við æðri heiminn; aðeins á þann hátt verður mikil þjónusta innt af hendi.

106. Verum ekki vonsvikin þótt við fáum ekki alltaf svar . Verum ekki furðu lostin þó svar berist þegar við síst búumst við því. Við skulum leitast við að skilja aðstæður á æðri sviðunum og reyna fyrst og fremst að gera okkur grein fyrir hinu mikla ósýnilega starfi. En þið vitið að kraftar æðri heimsins hvílast aldrei. Lát slíkan lýsandi mátt leiðbeina öllum vegfarendum á myrkum stundum.

107. Léttúð, hnýsni, tortryggni og vantrú — þetta allt tilheyrir sömu myrku fjölskyldunni. Gerum okkur í hugarlund hálærðan stærðfræðing útskýra flókna stærðfræðiþraut fyrir börnum í barnaskóla. Ekki aðeins eru þau ófær um að skilja hin miklu vandamál, heldur fara þau einnig fljótlega að flissa hæðnislega. Því má búast við öllum hugsanlegum afleiðingum í formi vantrúar og svika, þegar einhver reynir að nálgast æðri heiminn af hnýsni. Ef vitundin er á því stigi að hún leyfi forvitni þar sem virðing fyrir hinu mikilfenglega ætti að vera, má búast við að þar sé kosmískan sora að finna. Er hægt að nálgast æðri heiminn fyrir forvitnis sakir? Stingum frekar hendinni í eldsloga; þannig skal vantrúin sviðna!

Berum virðingu í hjarta fyrir æðri heiminum sem hinni mikilvægustu og fegurstu staðreynd í jarðnesku lífi.

108. Einhver kann að segja að hann hafi oft heyrt slík áköll til æðri heimsins. Þeim mun verra er fyrir hann að daufheyrast við þeim, því slíkt er ekki við hæfi. Samt eru margir sem telja slík áköll óviðeigandi í atvinnulífinu; þannig eru menn langt frá réttum skilningi á tilverunni, þrátt fyrir margra milljóna ára tilveru plánetunnar. Þess heldur skulum við láta áköll okkar til æðri heimsins hljóma með meiri endurómun.

109. Lauslæti og ruddamennska hafa breiðst ótrúlega mikið út. Villimennskan hefur nú náð inn til borganna og valdið truflunum í því sem andinn hefur komið til leiðar. Vitund fjöldans hefur horfið aftur til hinna myrkustu tíma. Rödd andans drukknar í skarkala vélanna. Því er sérhvert ákall til æðri heimsins ákall til lausnar.

110. Fullkominn árangur næst aðeins ef fullkomið traust er fyrir hendi. Skilningur á slíkri fullkomnun getur einn leitt manninn nær markmiðinu. Ómögulegt er að tjá í orðum hvað fullkomið traust er; aðeins hjartað getur orðið að liði við leitina að þeirri heilnæmu leið.

Fræðarinn þarfnast ekki virðingar, en traust á fræðaranum mun verða eina nauðsynlega tengingin við æðri heiminn. Hafi maðurinn skilið hvað felst í fullkomnu trausti hér á jörðu, getur hann beitt því í sama mæli í öllum heimunum. Með réttu er virðing fyrir fræðaranum traust undirstaða fyrir allan almenning. Glatist virðingin fyrir fræðaranum þýðir það einnig að menn hætta að ná árangri.

Höfum því í minni fullkomið traust.

111. Í grunni allra verka mannsins, í gerð ríkja og þjóðfélaga má greina áhrif æðri heimsins. Jafnvel þótt menn geri sér ekki grein fyrir frumuppruna þjóðfélagsstofnana, má samt sjá votta fyrir hinu lifandi sambandi við æðri heiminn í skammvinnum aðstæðum. Ekki skyldi gera lítið úr aldri jarðarinnar og lífsins á henni; réttara væri að gera ráð fyrir að hann sé mun hærri. Gleymum því ekki að meginlönd hafa mörgum sinnum færst til, en jafnvel á okkar tímum bjóðast mörg tækifæri til uppgötvana í nágrenni heimskautanna. Því skulum við vera varkár við að setja sögu jarðarinnar takmörk. Við munum finna leifar frá vitrum þjóðum sem hafa horfið á braut fyrir tíð frumstæðra þjóðflokka. Samkvæmt varðveittum heimildum er mögulegt að fullyrða að hvötin til skilnings á æðri heiminum hefur verið við lýði frá ómunatíð.

112. Það er rétt skilið að hin svonefndu heilögu dýr voru ekki guðir, heldur eðlileg afleiðing staðbundinna aðstæðna. Jafnvel nú á tímum tala menn um heilaga skyldu og eiga þá ekki við með því trúarlegan helgisið, heldur gagnlegan siðferðislegan verknað. Aðstæður í fyrndinni leiddu oft til þess að taka þurfti sérstakt tillit til vissra dýra, eða trjáa og plantna. Helgi táknaði vernd. Þannig var það varðveitt sem var fágætt og nauðsynlegt. Nú á tímum nota menn orðið náttúruvernd um hið sama. Þannig skyldu menn fjalla með varkárni um hugtök sem ekki eru augljós. Svo mörgu hefur verið bætt við svið trúarbragðanna, að vegna aldurs þeirra eru áhorfendur, sem aðeins sjá yfirborðið, ófærir um að greina grundvallaratriðin frá því sem hlaðist hefur í kring um þau. Nú á tímum eru musterin einnig samkomustaður þar sem sölumennska á sér stað, og menn ræða um staðbundin málefni samhliða helgisiðum trúarbragðanna. Enn á sér stað slík uppsöfnun ólíkra hluta. Því skulum við ekki dæma óhæfilega hart hugmyndina um heilög dýr og önnur löngu gleymd forn tákn.

113. Bænin hlýtur að vera full fögnuðar, því að samneyti við æðri heiminn er í reynd fullt alsælu og hátíðleika. Slík gleði er sérstök viska. Hún er aðeins möguleg ef menn hafa skilning á því hvað er viðeigandi og hæfir markmiðinu sem stefnt er að. Fullkomið traust gerir hana heilnæma. Hún endurómar af hugrekki þegar leiðin er ein.

Margt hefur verið sagt um Samadhi, en hversu margir hafa reynt hin mismunandi stig þeirrar alsælu? Slíkur fögnuður er lausn frá allri sorg, því er þessi leið gleðinnar leið sannleikans.

114. Í mörgum ritum hefur Aum verið útskýrt í smáatriðum. Fínleiki sveiflutíðninnar, viskan í óminu og fegurð formsins hafa verið þekkt um langt skeið, en ef hjartað er ekki lifandi mun jafnvel slíkt „sesam“ ekki opna lásinn.

Aftur er nauðsynlegt að minna sig á rétt gildismat og að efla grunnkjarna hjartans. Hart hjarta hefur ekki aðgang að Aum.

115. Ein ástæða þess að Samadhi er svo sjaldgæft er sú að fólk veit ekki hvernig það á að bregðast við svo upphöfnu ástandi. Mönnum hættir til að trufla upphaf á hvers konar óvenjulegu ástandi. Eins fást menn ekki til að láta í friði þann sem er að komast í Samadhi, og með ónærgætni sinni valda þeir hættulegu áfalli. Í venjulegu daglegu lífi er þörf á aðgát í mannlegum samskiptum. Maður sem hefur orðið fyrir taugaáfalli þarf á friði og ró að halda. En fólk viðhefur jafnvel sjaldan svo einfalda varúðarráðstöfun.

Því er ómögulegt að veita Samadhi án áhættu, svo lengi sem mannleg hugsun fær ekki skilið hvernig á að umgangast æðri orkutegundir. Þess vegna er sérhver hugsun um raunveruleika æðri heimsins til góðs.

116. Mikilhæf þjónusta tekur mið af mannkyninu í heild sinni. Hvorki þjóðerni né nokkur önnur aðgreining skyldi takmarka þjónustu í þágu hins góða. Ekki er auðvelt að forðast hinar ýmsu markalínur sem orðið hafa til í gegnum aldirnar. Aðeins skilningur á æðri heiminum gagnast til að ráða bug á leyfum hjátrúar og straumum úr fortíðinni. Að auki ætti viðhorf manna til karmískra áhrifa ekki að vera tilviljunum háð. Réttlæti við erfiðar kringumstæður gefur til kynna rétta næmni. Einstaklingurinn, sem ábyrgur aðili, verður dæmdur. Það er erfitt að meta einstakling algerlega án tillits til hefðbundinna viðhorfa, en augun opnast þegar maðurinn helgar sig þjónustu, og það gerir honum fært að greina fræ andans.

Þannig mun æðri heimurinn, og eingöngu hann, kveða upp hinn æðri dóm.

117. Tár og munnvatn breytast í samræmi við ástand andans. Hver andardráttur er efnafræðilega mismunandi. Erfitt getur verið að rannsaka venjulegan andardrátt, vegna þess hve yfirborðslegur hann er, en andvarp sem veldur skjálfta í lífkerfinu gefur ýmislegt til kynna. Sjá má að djúpt andvarp veldur stundum einhverju sem líkist innri krampa. Slíkur taugasamdráttur gefur vísbendingu um aukið útstreymi andlegrar orku. Í samræmi við tilhvötina mun andvarpið örva starfsemi ákveðinna líffæra sem breyta efnafræðilegri samsetningu andardráttarins. Þegar Aum er borið fram verður til andardráttur sem hefur mjög heilnæma efnafræðilega samsetningu.

118. Sumir líta svo á að maðurinn sé stöðugt að deyja; aðrir vita að maðurinn endurfæðist sífellt. Hinir fyrrnefndu láta stjórnast af ótta en hinir síðarnefndu af gleði. Hinir fyrrnefndu sefja sig með dauða, hinir síðarnefndu sjá lífið. Þannig ákvarðar maðurinn að miklu leyti fyrirfram sína eigin framtíð. Hægt er að vera þess fullviss að sá, sem býr sér þau forlög að deyja, þekkir ekki æðri heiminn. Hann kann að taka þátt í hinum ytri helgisiðum, en hjarta hans er langt frá sannleikanum.

Fullvissa lífsins er fullvissan um Ljósið. Andi mannsins er ódauðlegur, en svo einföld sannindi eru fólki ekki nærtæk, því það metur líkamann meira en andann.

119. Lífið skyldar manninn til að stefna upp á við, en stefna dauðans er niður. Flest fólk kýs að líta á dauðann sem eyðingu. Sjálf tilveran staðfestir eilífa endurnýjun. Sérhver maður deyr gærdeginum og endurskapast fyrir morgundaginn. Öll frumtökin þrjú endurnýjast dag hvern. Á hverjum degi og á hverri klukkustund færist maðurinn nær æðri heiminum eða fjarlægist hann.

Lát hvern og einn styrkja uppför sína og næmleika fyrir æðri heiminum með eiginleikum hugsunar sinnar.

120. Friður er kóróna andans.

121. Í áru mannsins búa margir eiginleikar. Mælikvarði þeirra er ekki aðeins stærð árunnar heldur einnig innri spenna hennar. Ára sem býr yfir mikilli spennu er vissulega besta vörnin, og hún hefur mikil áhrif á umhverfi sitt. Stundum er litur geislunarinnar góður en krafturinn ófullnægjandi.

Áran styrkist vegna sambandsins við æðri heiminn, eftir því sem sjálfselskan hverfur á braut og óeigingirnin fær örvun. Þannig verður allt samneyti við æðri heiminn til þess að orka geislunarinnar eykst. Þetta viðfangsefni er vel fallið til vísindalegrar athugunar.

122. Þegar haft er samneyti við æðri heiminn er hægt að sjá að krosslagðir fætur hafa mikla þýðingu. Lát lækna rannsaka hvaða áhrif slík stelling útlimanna hefur á blóðrásina og taugastöðvarnar. Lát þá einnig athuga vandlega öndunarfærin. Sá sem hefur öðlast skilning á slímhimnu lungnaberkjanna hefur áttað sig á mikilvægi þessara rása.

123. Þátttaka viturs læknis er ómissandi í öllum sérlega gagnlegum atburðum. Haldið ekki að Við forðumst vísindalegar athuganir; þvert á móti, Við metum mikils sérhverja hugsun sem byggð er á vísindalegum grunni.

124. Á hættustundu margfaldast spennan í orku mannsins, á sama hátt veldur ástand algleymis innstreymi krafta frá yfirjarðneskum sviðum. Ef slíkri þenslu er náð, er unnt að framlengja þetta andartak; með öðrum orðum, maðurinn getur tekið við stöðugt vaxandi kröftum. Aðeins er nauðsynlegt að uppspretta kraftana verði stöðug og nálæg. Af þessu leiðir að menn sjá nauðsyn þess að öðlast skilning á æðri heiminum, og sjálf vísindin munu leita hans sem drifkrafts þróunarinnar. Ekki er aðeins hægt að láta sig dreyma um svo náið samband, heldur er einnig mögulegt að nálgast æðri heiminn með jarðneskum aðferðum. Sérhver sátt milli heimanna er um leið sigur yfir holdinu.

125. Oft gerast heimsviðburðir þegar teikn sjást á lofti um að tíðindi séu í aðsigi, þó svo að í raun hafi ekkert gerst. Fólk framkvæmir margt þegar eitthvað gleðilegt er í vændum, þó svo engin ástæða sé enn sýnileg; eins þegar ógn eða stríð er yfirvofandi, þó svo stríðið hafi ekki enn brotist út. Mörgu er komið í verk fyrir væntingar einar, þess vegna hafa slík viðbrögð ákaflega mikið gildi fyrir umbreytingar í lífinu. Hægt er að vitna um mörg slík dæmi. Hvaða þörf er fyrir sjálft stríðið með öllum sínum hörmungum, þegar ein tálsýn getur magnað orkuna? Í raun er hvatinn að mörgum gagnlegum verkum tálsýn ein. Blekkingin getur stundum verið máttugur hvati.

Af þessum sökum er svo nauðsynlegt að gæta vandlega að öllum leiðarmerkjum. Aukinn skilningur á slíkum merkjum verður í raun til þess að hraða þróuninni.

Látum því hið allra mikilvægasta vera leiðarstjörnu okkar.

126. Það er mikil gæfa ef hægt er að vinna gagnlegt verk með vísbendingu eina að leiðarljósi. Ómerkjanlega gerist hin mesta uppbygging; aðeins árangurinn sýnir hve miklu hefur verið áorkað. Þannig má alls staðar sjá athafnir sem sprottnar eru af vísbendingum. Táknmynd er ekkert annað en áminning um vísbendingu. Árangur heilla þjóða byggist á táknmynd.

Ég tel mögulegt að fara um hina hættulegustu stigu með hið æðra tákn að leiðarljósi.

127. Skilningur á æðri heiminum ætti að vaxa án þvingunar, af sjálfsdáðum og með góðvilja. Þvingun er ótæk í svo stórfenglegu máli. Því ætti sérhver kennari að túlka æðri heiminn sem hina æðri gleði. Enginn kallar gleði valdbeitingu. Enginn fordæmir þann sem færir sanna gleði. En hversu mikla andagift þarf maðurinn ekki að öðlast til að verða frumkvöðull gleði! Hafi kennari eignast slíka gáfu á hann alla virðingu skilið.

Æðri heimurinn er prófsteinn vitundarinnar.

128. Hvers vegna er það svo hræðilegur glæpur að svíkja fræðara sinn? Fyrstu þrjú árin getur maðurinn fylgt sinni eigin vitund, en eftir það er valið á fræðaranum endanlegt. Slíkt lögmál hefur djúpa þýðingu. Fræðarinn er brúin til skilnings á æðri heiminum. Slík jarðnesk athöfn skapar á auðveldan hátt tengingu við æðri heiminn, því er ótækt að velja sér fræðara og svíkja hann síðan; það þýddi að tengingin við æðri heiminn rofnaði til frambúðar. Þegar hinn bjargandi þráður er slitinn getur maðurinn fallið undir ill áhrif. Þannig fólk getur enn hreyft sig, etið, sofið og sagt sögur um náungann, en sýkingin kann þá þegar að hafa skotið rótum. Á sama hátt geta svikarar tórt, en mannleg reisn er þeim glötuð. Þannig er hægt að athuga hin viturlegu lögmál sem leggja grunninn að hinum lifandi þrepum til æðri heimsins.

129. Við fögnum hverjum lækni sem hefur löngun til að rannsaka grundvöllinn að betra sambandi heimanna. Þegar hið þrefalda tákn leiðir til þríeiningar, verður nauðsynlegt og brýnt að rannsaka lífkerfi mannsins. Grundvöllur þrískiptingarinnar getur birst um allt lífkerfið. Fræða þarf lækninn um fíngerða heiminn og æðri heiminn. Hann getur aðeins öðlast skilning á hinu fíngerðasta ástandi líffæranna með því að taka til greina slíkar upplýsingar. Fyrir slíkum manni er Aum ekki innantómt hljóð.

130. Ef athugaðir væru atburðir þessa árs á hinu ytra sviði, fengist mjög athyglisvert yfirlit yfir framvindu átakanna í heiminum. Jafnvel þó það væri aðeins samsafn ytri tákna, myndi slík skýrsla vera sögulegt skjal sem hefði mjög mikið gildi. Að sjálfsögðu eru hin ytri tákn aðeins neistar hinna innri strauma. Aðeins þeir sem leggja sig alla fram skelfast ekki þessar ógnvænlegu truflanir.

Einnig er mögulegt að athuga hvernig ákveðnar persónur tengjast heimsviðburðum. Óskiljanlegt er hvernig atburðir heimsins persónugerast í sumum einstaklingum.

131. Hrætt barn heldur sig þétt við kné móður sinnar, það kvartar ekki, heldur finnur fyrir öruggum stuðningi og vernd. Á sama hátt mun maður í erfiðleikum snúa sér fyrr eða síðar til æðri heimsins. Hann hefur engan annan stað að leita til; óumbeðnar ráðleggingar þeirra sem nærri standa geta ruglað hann í ríminu, en í leyndum titrar hjarta hans af eftirvæntingu til hins æðsta.

132. Til viðbótar hinum mörgu skilgreiningum á orðinu Aum skulum við rifja upp að: A er hugsun — grunnurinn; U er ljós — frumorsökin; M er leyndardómur — hið helga.

133. Enn er spurt: „Hvers vegna er haldið áfram að tala um þrjá eðlisþætti þegar vitað er að þeir eru fleiri?“ Með festu ætti að benda á að til eru tvær leiðir — leið aðgreiningar og leið samfjöllunar. Margar millibilsaðstæður eru til, þannig að heimurinn virðist vera sem ein samtengd heild. En síðar er aftur nauðsynlegt að aðgreina meginþættina, og þá hverfum við aftur til hinnar þrískiptu greiningar.

Á jörðinni má sjá gífurlega margbreytilegan andlegan þroska. Sjá má að stundum snertir fólk næstum fíngerða heiminn, þar sem vitundin á ákveðnu sviði í fíngerða heiminum er ekki hafin yfir jarðneska vitund. Þannig eru heimarnir ekki aðeins samtengdir heldur ná þeir einnig inn á svið hvers annars. Hvarvetna í náttúrunni kemur lögmál samfelldninnar greinilega fram. Jafnvel stórfelldar náttúruhamfarir, sem virðast ná út fyrir áhrifasvæði hnattanna, verða aðallega fyrir áhrifum frá sveiflum utan jarðarinnar.

Því skulum við ekki greina í sundur það sem rétt er og viðeigandi að flokka saman. Maðurinn hefur fjarlægst svo mjög skýr hugtök, að hann verður að ganga inn um hin einföldustu hlið.

134. Raunveruleg þekking og skilningur á æðri heiminum er manninum ómissandi. Trúarbrögðin hafa valdið hræðilegum styrjöldum. Ógnarleg grimmd hefur orðið til vegna misskilinna hugmynda um æðri heiminn. Svo skelfilegt ástand gefur til kynna að skilning skortir á æðri heiminum í öllum sínum mikilleika.

Þekking á hinum mikla heimi fegurðar veldur straumi sannrar hugsunar. Sá sem býr yfir vitneskjunni um æðri heiminn rífur ekki niður, því hann er hinn vitri skapandi. Í anda, á tindinum, getur maðurinn orðið þátttakandi í samneyti við hinn æðri mátt.

Því mun aðeins raunverulegur skilningur á æðri heiminum koma á stöðugleika meðal mannkynsins.

135. Stöðugleiki er grundvöllur tilverunnar. Hvenær glatar maðurinn jafnvægi í jarðneskri tilveru? Þegar hann er örvinglaður og veikur, skjögrar hann og þreifar sig áfram og grípur í allt sem hann nær til. Gerist ekki það sama þegar maðurinn er andlega veikur og glatar stöðugleikanum í sambandi sínu við æðri heiminn?

Spyrjið fólk mismunandi trúar á hve traustum grunni það byggi hugmyndir sínar um æðri heiminn. Svörin sem þið fáið verða í formi margs konar undanbragða. Margir neita alveg að svara og skýla sér bak við hræsnisfulla tregðu við að ræða um þetta efni. Aðrir endurtaka utanbókarlærdóm sem ekki býr í hjarta þeirra. Enn aðrir halda því fram að jörðin hafi verið sköpuð árið tvö þúsund fyrir Krist. Þannig megið þið búast við að fá hauga af þurrum laufum í stað andlegra svara fullum kærleiks og hátíðleika.

Lífið sjálft, sem spegilmynd ósýnilegrar tilveru, ætti að örva vitund mannsins. Helmingur lífsins er helgaður dularfullu ástandi sem vísindin hafa ekki skýringu á. En næm augu og eyru geta skynjað margt handan hins daglega lífs.

Fólk kallar áhugaleysi og deyfð „stöðugleika,“ en sjálf náttúran hvíslar að stöðugleikinn sé þensla. Lítið á þenslu sem aðferð til að nálgast leið uppgötvana.

136. Minnist þess, mitt í háleitri umræðu, að hluta hverrar gjafar, sem þegin er, ætti að útdeila til sameiginlegra nota. Skiljið þetta meginlögmál ekki aðeins efnislega, heldur einnig andlega sem leið til stöðugleika.

137. Allt fram til okkar tíma hefur leikið vafi á því hvort líf sé að finna á öðrum hnöttum himingeimsins. Jafnvel hinir færustu stjörnufræðingar hika við að láta í ljós skoðun á þessu máli. Ástæðan felst aðallega í miklu sjálfsáliti manna. Maðurinn kærir sig ekki um að viðurkenna önnur lífsform en þau sem búa við jarðneskar aðstæður. Önnur ástæða er óttinn við óendanleikann. Sannarlega eru það fáir sem dirfast að leiða hugann að svo fjarlægum risa sem Antares mitt í sólnahafi Vetrarbrautarinnar, og handan hans hinn óendanlega geim. Þangað til full sönnun fæst ætti fólk að hugsa sér fjarlægar veraldir sem byggðar.

Menn geta ekki komist til þeirra í efnislíkama sínum, þó hafa hinir bestu andar náð til slíkra hnatta í fíngerða líkama sínum og komið með minningar til baka um yfirborð þeirra, liti og íbúa. Þessi atvik eru sjaldgæf en gerast samt. Þau efla vitund um óendanleika tilverunnar. Til viðbótar hinum þrem ósýnilegu heimum er nauðsynlegt að vita um tilvist byggðra heima. Nauðsynlegt er að skilja þessi úthöf hugsana sem semja tónlist himnanna. Beinum því hugsun okkar af kostgæfni til þessara fjarlægu vina, samverkamanna og verndara. Sú hugmynd að fjarlægir heimar séu byggðir er ekki nein yfirnáttúruleg ímyndun. Maðurinn gengur jarðneska leið sína af öryggi, þegar hann veit um allt hið mikla sem er í kringum hann.

138. Oftar en einu sinni hafa hinir vitru ráðlagt mönnum að halda sig nær jörðinni. Eru slíkar ráðleggingar ekki í mótsögn við hugsanir um óendanleikann? Alls ekki. Við höfum fæðst á Jörðinni og það af mörgum ástæðum. Ef við eigum að vaka yfir og gæta jarðarinnar, verðum við einnig að bera kærleika til hennar. Ógerlegt er að annast um það sem ekki er elskað.

Jörðin býr enn yfir gnótt ónýttra auðæfa. Mögulegt er að styrkja plánetuna með því að bæta heilsu hennar. Gleymið ekki hinum æðri máttaröflum þegar unnið er að heilsusamlegum umbótum á jörðinni. Með því móti kemst á hið sanna jafnvægi.

139. Meðal fjársjóða heimsins eru margar ritningar og fornar sagnir sem segja frá æðri heiminum. Fólk getur ekki borið fyrir sig að það skorti vísbendingar sem varða veginn til þekkingar. Algengt er að heyra fólk kvarta yfir vöntun á vitneskju um leiðina til æðri heimsins. Slíkt er hræsni! Þetta óánægða fólk vill ekki leggja á sig þá fyrirhöfn að leita að uppsprettunni. Sjá má hve mikinn kraft leitandi fólk fær til að uppgötva Ljósið, jafnvel við hinar erfiðustu aðstæður. Við vökum yfir slíkum ljósberum sem vinna bug á ótrúlegum erfiðleikum.

Lögmálið hefur verið gefið; leiðin hefur verið vörðuð; lát þann finna sem leitar.

140. Hugsun er sannur vinur leitandans. Í öllu ræður hugsun. Hugsun er innbyggð í hverri hreyfingu vöðvans. Hugsun leiðir og staðfestir. Hugsun finnur leiðina til lögmála og réttra dóma. Hugsun, ef hún er ekki lítilsvirt, kennir mönnum að gera greinarmun á hinu æðra og hinu lægra. Hugsun varir stöðugt og óendanlega. Hún stuðlar að hreyfingu og þekkingu á hrynjandi. Hún yfirgefur okkur hvorki nótt né dag. Hugsun lyftir vitundinni þegar menn hafa unun af því að hugsa.

141. Maðurinn annað hvort skapar eða eyðir á hverju andartaki lífs síns. Veröldin er full andstæðra hugsana. Margir sjúkdómar hafa skotið rótum vegna eyðandi hugsana. Mörg morð eru framin úr mikilli fjarlægð með mætti hugsana eða samfléttan hugsana, en næstum ómögulegt er að fá mann til að skilja að yfirburðir hans felist í því að hugsa óaflátanlega. Illmögulegt er að leiða manninum fyrir sjónir hversu mikla ábyrgð hann ber á eiginleikum hugsana sinna. Hjartað slær án afláts, jafn óstöðvandi er hrynjandi hugsunarinnar. En það er ekki til siðs að ræða um þessa hluti.

Maðurinn annað hvort skapar eða tortímir.

142. Vitfirringar, þeir þekkja ekki sinn innri mann! Venjulega átelur fólk siðspillingu, en er ekki hugsunum kastað á glæ? Er ekki hin mikla gjöf, sem áunnin er með svo miklum erfiðismunum, að engu gerð? Hugsun, hin mikla gjöf fræðarans, glatast við athafnir sem stjórnast af fáfræði. Þannig eru menn jafnvel reiðubúnir að svíkja sína eigin plánetu, svo fremi þeir þurfi ekki að hugsa.

Við höfum nú þegar bent mörgum sinnum á mikilvægi hugsunar, og Við munum aftur koma að þessu efni. Sjúkum manni þarf að gefa lyfin sín oftar en einu sinni, því erum Við óþreytandi við að minna á fyrsta grundvallaratriðið — Aum!

143. Snúum okkur nú að öðrum staf hins þríeina orðs, það er frumorsökin — Ljós. Fólk hefur ruglað svo hugtakinu ljós við lýsingu að það getur ekki ímyndað sér ljós sem orku. Við skulum ekki dvelja við óendanleikann þar sem hugsun, ljós og allt sem er rennur saman í einingu; lítum heldur á ljós í samræmi við jarðneskan skilning sem heilnæma orku sem lífið getur ekki verið án. Ljós er útbreiddasti sendiboði hjálpræðisins. Auðveldlega má sjá mismuninn á eldi til hagnýtingar og ljósi alheimsins. Það er ekki eldur, heldur geislun sem stafar frá öllum lifandi verum. Hinn velviljaði hugsuður er umvafinn geislabaug, og frá ljósi hans stafar læknandi geislun. Svo oft höfum við sagt fyrir um hverju þessi geislun muni áorka. Við höfum sagt að með slíkum hætti muni sjálf formgerð lífsins ummyndast. Með réttu er hægt að kalla ljósið lögmál sem leiðir til endurnýjunar. Hugsun og ljós eru svo samtvinnuð að segja má að hugsun sé lýsandi.

144. Algjör formyrkvun! — Þannig er upphrópun manns sem fyllist örvæntingu. Allt ljós lífsins hefur slokknað — segir maður sem missir alla von. Allt sem snýr að bjartri framtíð er undantekningarlaust tengt ljósi. En menn vita ekki hvernig fagna á ljósinu sem orku. Læknirinn og fræðimaðurinn eru jafn sekir að því að nota ekki tækifærið til að útskýra gildi ljóssins þegar notuð er ljósmeðhöndlun til lækninga. Ljósgeislinn hefur áhrif á allt — vöðva, bein og taugar. Heilinn lifir á ljósi; heilavefurinn þarfnast geisla ljóssins. Hægt er að telja upp allar hinar lífeðlisfræðilegu aðstæður, og þær munu færa sönnur á kenningarnar um ljósið.

Maðurinn ætti að þróa með sér einbeitingu í þeim tilgangi að athuga hve athyglisverð samskipti eiga sér stað milli geislunar hugsandi manns og geisla utan úr óendanleikanum — geislarnir í geimnum eru strengdir eins og silfurþræðir. Samþjöppun ljóss má sjá í ýmsum raffræðilegum fyrirbrigðum. Hönd manns getur vakið eld úr andrúmsloftinu á undraverðan hátt. Þið vitið að af einni snertingu getur blossað fram eldur sem ekki brennir. Slík fyrirbrigði eru fátíð, en gerast samt, og þau gefa til kynna hve snertingin við hið andlega hefur mikið gildi fyrir sendingu strauma um geiminn. En nauðsynlegt er þó að taka slíkum merkjum með algerri ró. Ljós á ekkert sammerkt með æstu skaplyndi og ótta.

145. Ótti og skelfing skapa kynlegan segul. Hægt er að gera sér í hugarlund hvað svo dökkur segull dregur að sér! Fólk tekur eftir því að óttinn byrgir sýn. Myrkrið sækir einmitt að þeim sem haldinn er ótta.

Á hverju andartaki vekur maðurinn annað hvort ljós eða myrkur.

146. Ljós fíngerða heimsins á ekkert skylt við jarðneskan skilning á sólarljósinu. Á lægri sviðunum skapa myrkvaðar vitundir rökkur, en því hærra sem vitund og hugsun leita því bjartari er hin undraverða geislun. Íbúar fíngerða heimsins sjá vissulega bæði jörðina og himintunglin, en hið jarðneska ljós umbreytist á annan hátt í vitund þeirra. Sama er að segja um hugsanir fíngerða heimsins; þó þær byggist á sömu orku er framvinda þeirra sérstök. Lögmál jafnvægis jafnar út hugrænar öfgar.

147. Hreinn hvítur snjór á hinum hreinasta stað er mettaður jarðnesku og kosmísku ryki; ljóst er að geimurinn er mettaður, þó svo athugunin sé ónákvæm. Bætið við þetta miklum fjölda strauma og geisla, og þið öðlist mynd af raunveruleikanum; þetta fyllir allt umhverfi jarðneskra manna. Hugsanir flæða óaflátanlega frá fíngerða heiminum; stundum snýr maðurinn sér við og stynur undan álagi hugsunar, en gerir sér samt ekki grein fyrir því að hún kemur utan frá. Maðurinn sér neista og jafnvel eldglampa, en hann telur það allt sínar eigin ímyndanir. Það er ómögulegt að kenna mönnum að bera virðingu fyrir því sem er umhverfis þá. Fólk hefur svo lítinn skilning á jafnvægisástandi lífsins að það fyllist annað hvort skinhelgi eða sjálfsánægju. Af þessari ástæðu er brúin yfir í hina fjarlægu heima fólki svo erfið.

148. Þriðja stafinn, Leyndardóminn helga, þekkja aðeins örfáir. Grunnhyggnin hvíslar að allt sem varðar hið dulda sé ónauðsynlegt. Sjálfsánægjan vekur þá hugmynd að allt eigi að vera aðgengilegt, en maður blindaður af eldingu hrópar upp vegna hins óbærilega ljóss. Maður, sem finnur til smæðar sinnar vegna mikilfengleika hugsunar, kvartar yfir því hve ógerlegt sé að ná tökum á henni. Sannlega, Leyndardómurinn er rétt gildismat sem gerir mögulegt að halda upp á við án þess að hrasa.

Leyndardómur viðheldur veröldinni. Óendanleikinn hefur engin takmörk.

149. Leynd er einnig gætni og fyrirhyggja. Blóm þarf að gróðursetja í réttan jarðveg. Nauðsynlegt er að þekkja rétta tímann og vita hverjum á að treysta fyrir fræjunum; þannig dafnar hugmyndin um fræðarann. Fræðarinn segir nemanum með einföldum og viðeigandi hætti frá því sem hann þarf mest á að halda. Ef hann upplýsir ekki leyndardóminn, er það vegna þess að ekki er tímabært að gefa hann upp. Ekki er mögulegt að fræðarinn haldi neinu leyndu svo að til skaða verði. Viðurkenna þarf fræðarann sem leiðbeinanda; á þann hátt sjá menn leyndina í nýju ljósi.

Nauðsynlegt er að meðtaka þá staðreynd að hinn mikli leyndardómur, eins og hann er nefndur, er ekki hindrun, heldur aðeins til verndar brautinni. Ef vantraust og ótti er ástæðan fyrir því að maðurinn hefur ekki hafið ferð sína, er ekkert sem getur leitt hann fram á við. Vegfarandinn snýr baki við slíkri braut, en undanhald er andstyggð. Þess vegna leiðbeinir fræðarinn við að finna bestu leiðina. Hann útskýrir leyndina sem ósnortinn fjársjóð.

150. Glatist rétt gildismat, er leiðin einnig týnd. Er hægt að afsanna hið óþekkta? Er hægt að halda fast við hið takmarkaða frammi fyrir óendanleikanum? Er hægt að leyfa róg um það sem menn hafa enga vitneskju um? Getum við barist gegn öllu ljósi og allri hugsun? Eins og skynsemin getur myrkvast af brjálsemi, þannig leiðir sviksemi við braut ljóssins manninn út í ystu myrkur.

151. Nöfn svikara geymast einnig í sögu mannkynsins. En hvar geta svikarar dulist í fíngerða heiminum þegar minni þeirra er orðið skýrt? Það er ekki af blygðun gagnvart öðrum, heldur af óslökkvandi þjáningu smánarinnar í hjartanu að svikararnir hrekjast út í nístandi kulda og brennandi hita. Hvar eru þeir nú sem hvísluðu drottinssvikum í eyru þeirra? Hvers vegna hlaupa þeir ekki undir bagga með þeim nú? Þeir leita þá ekki uppi í myrkrinu. Hræðilegt er hlutskipti svikara — morðingja líkama og anda!

152. Farið varlega með eitur og gætið þess að ekkert berist út í umhverfið. Margir gætu orðir fyrir eitrun, og enginn veit hversu víða eitrið gæti breiðst. Myrku eiturbyrlarar, þekkið þið fórnarlömb ykkar? Þekkingarleysið verður ekki varanlegt. Sjón verður ykkur gefin svo þið sjáið öll ykkar verk. Þannig kveða eiturbyrlarar upp dóm yfir sjálfum sér.

153. Sérhver maður geymir leyndardóm innra með sér. Sjaldan lyftast tjöld fortíðarinnar — það gerist aðeins þegar mikil fíngerð orka er fyrir hendi í jarðnesku lífi mannsins. Aðeins þegar takmarkanir jarðarinnar eru yfirstignar öðlast maðurinn uppljómun vegna skilnings á hluta af leyndardómi sínum. Stórkostlegur er sá atburður þegar fíngerð orka opinberar kaleik hins uppsafnaða; skyndilega uppljómast minningin og fortíðin stendur í réttlátu ljósi. Furðulegt er hve maðurinn ummyndast á því augnabliki er hann yfirgefur hið jarðneska svið. Fólk nefnir þennan atburð dauða, en hann er í raun fæðing; því er það svo sorglegt ef fíngerði líkaminn sefur lengi. Það er einkum athyglisvert ef umskiptin gerast með fullri meðvitund. Þá getur maður skýrlega áttað sig á hvernig hinir jarðnesku fjötrar falla, og hin óafmáanlega samsöfnun kemur í ljós og opinberast sem sannur fjársjóður. Það er skiljanlegt að þessi fíngerði fjársjóður getur ekki birst við grófar aðstæður.

154. Hægt er að göfga jarðneskar aðstæður. Sú leið liggur ekki um auðlegð né völd, heldur um hátíðleikann sem er innan seilingar þeirra útvöldu sem búa yfir næmni. Sérhver slík æðri tilfinning er sigur yfir holdinu.

Á hátíðisdögum er hinn forni vefnaður tekin upp úr leynikistunni. Ekki má láta fíngerða hluti verða daglega fyrir áhrifum veðurs og vinda. Maðurinn getur glaðst og fagnað þegar vinnan skapar hina æðri gleði í jarðnesku lífi.

155. Auk jarðskjálfta geta einnig orðið skjálftar í lofthjúpnum. Það geta komið eins konar höggbylgjur og valdið titringi í hinu jarðneska sviði. Þetta orsakast ekki aðeins af því að straumar skerast, heldur einnig af aðstæðum í fíngerða heiminum. Oft skynjast eitthvað óskiljanlegt þegar uppgötvanir eru gerðar. Þetta kann að vera eitthvað sem minnir á ósýnilega heiminn, fullan orku. Ég legg til að skrifarar safni saman slíkum óþekktum staðreyndum; þannig verður til efni í bók með nýjum hliðstæðum.

156. Ef gagnverkanir fíngerða heimsins eru svo tíðar, ættu djúpstæð og langvarandi sambönd að myndast milli samverkamanna í heimunum tveim. Það er einnig svo í reynd. Það má geta þess að samböndin eru meir í ætt við andlegan skyldleika en blóðskyldleika eða frændsemi. Oft mætast slíkir samverkamenn einnig á jarðneska sviðinu; þó þeir séu ef til vill aðskildir af mismunandi þjóðerni og kringumstæðum, mun innri skynjun draga þá hvorn að öðrum. Mjög auðveldlega skapast traust á milli þeirra, þó svo gagnstæðar undantekningar séu einnig til. Vanþakklæti er eins og að hjúpast myrkri.

157. Hægt er að líta á líf plánetunnar sem samheild allra þeirra upphafa sem sköpuð hafa verið á henni. Þess meiri er ábyrgð allra hugsandi íbúa hennar. Það er álitið að þeir séu kóróna plánetunnar, en finnist svartir kolamolar í kórónunni í stað gimsteina veldur það tjóni um alla plánetuna. Afleiðing þess er að allir samtengjandi straumar rofna.

158. Þegar ég ræði um tengsl við fíngerða heiminn mæli ég ekki með neinum óeðlilegum ráðstöfunum vegna þeirra. Þessi sambönd eru eðlilegur þáttur lífsins. Aðeins þarf að læra að taka eftir þeim með alsgáðri skynjun; án notkunar eiturlyfja er mögulegt að taka eftir mörgum merkjum allt umhverfis sem augljóslega eiga upptök sín handan við takmörk jarðneskrar tilveru.

Nauðsynlegt er að skilja að hve miklu leyti slíkar eðlilegar skynjanir geta víkkað hugmyndir manna um lífið. Bænin ummyndast í andlegt samneyti, og virðingin verður ekki strangtrúarleg, heldur lifandi og full kærleiks.

Án kærleiks á sér ekki stað nein sköpun.

159. Við gleðjumst yfir því sem snertir hjartað, með öðrum orðum, yfir því sem er elskað. Er mögulegt að ræða um merki hugsunar, Leyndardóms og Ljóss án kærleiks? Leyndardómurinn yrði að launung, hugsunin að ráðabruggi og Ljósið að eldibrandi; þannig væri mögulegt að afskræma hið fegursta. Hin sanna leið, sem finnst með kærleik, leyfir engin helgispjöll. Sýninni er umbreytt í raunveruleika; skark kaupmennskunnar finnur sinn rétta stað; maðurinn mun sjá gildi hátíðleikans.

Þannig verður mikilhæf þjónusta lýsandi.

160. Stundum er eins og maður sé ekki viðstaddur hið daglega líf. Stundum getur maður heyrt hljóma hinna fjarlægu heima. Stundum getur maður skynjað andrúmsloft og ilm fjarlægra staða; mitt í lífi hversdagsins fæst staðfesting á hinu ómælanlega. Vissulega, þessi skynjun hverfulla sambanda er engin sjálfsblekking, en þau sýna fram á hæfileika mannsins. Ekki er hægt að þvinga fram skynjun slíkra kalla úr geimnum, aðeins opin hjörtu eru næm fyrir þeim. Þeir sem halda sig vitra reyna að sýna fram á að þessar skynjanir séu aðeins sjálfssefjun, en á undan hverri sjálfssefjun verður að senda hugræna skipun. Þið vitið samt að slík bein þekking kemur fyrirvaralaust og er handan mannlegrar ímyndunar. Maður er sendur til fjarlægra landa — athafnir andans eru hraðar sem ljósið. Þannig geta menn byrjað að fá hugmynd um hraða í fíngerða heiminum.

161. Fyrir hverja sanna skynjun er þörf á fullkomnu traustiog tilgerðarleysi. Menn ættu að leggja mikla áherslu á þessi hugtök sem grundvöll framfara. Mögulegt er að sýna fram á hvernig vantraust og uppgerð verða hinir verstu óvinir. Þau draga í sig lífsorku og eru sem háskalegar torfærur. Hve mikla orku þarf ekki til að halda áfram á brautinni þegar tekin eru lífshættuleg stökk! Hin helga tónun getur snúið hugsun aftur til undirstöðunnar og til Ljóssins.

Því skulum við sigrast á öllum hindrunum og læra að fagna þeim. Verum ekki langorð um það sem elska ber, því hjartað — það veit.

162. Myrkrið er takmarkað, en ljósið birtist óendanlega. Hver sá sem veit þessi einföldu sannindi er þá þegar ósigrandi. Með því að samsinna að ljósið sé veikt og myrkrið máttugt er sigur ógerlegur. Sama er hvað hinum vantrúaða er gefið, hann drekkir því öllu í úthafi myrkursins. Við skulum því taka okkur ljóssins vopn í hönd, það bregst ekki.

163. Gefum því gaum sem gerist í náttúrunni í tengslum við heimsviðburði. Finna má einkennandi samkvæmni; aftur og aftur segir það okkur að plánetan er í raun lifandi lífkerfi. Allt sem tengist jörðinni er samstillt eins og líffæri í einum líkama, því er ógerlegt að líta á sérhverja lífveru sem einangraðan einstakling. Allir tilheyra einni og sömu skipaninni, og þeir verða að líta á sig sem ábyrga meðlimi samfélags. Á þann hátt getur maðurinn fylgt hinni fullmótuðu reglu alheimsins.

Ekki þarf að furða sig á stöðugum tilraunum til uppreisnar gegn lögmáli reglunnar. Kraftur óskapnaðarins er sem iðusvelgur, og vanmáttugar vitundir verða auðveldlega slíkri farsótt að bráð. Sannarlega ætti að líta á ásókn óskapnaðarins sem smitandi pest.

Gefið gaum að atburðum og gerið samanburð. Slíkar athuganir eru til hjálpar við að skilja lögmál samsvörunar og samtengingar. Fræðslan gefur vísbendingar sem raunveruleikinn staðfestir.

164. Hvers vegna gefa læknar svo lítinn gaum að þrýstingi andrúmsloftsins? Þeir senda sjúklinga á heilsuhæli, niður að strönd eða upp til fjalla, en þeir gefa þeim engar viðvaranir um að eiginleikar andrúmsloftsins kunni að vera gjörbreyttir vegna áhrifa strauma úr umhverfinu. Til eru margs konar stofnanir og rannsóknarstöðvar vísindanna, en þær ættu einnig að gefa upplýsingar er koma læknum að gagni. Ríkið verður að standa vörð um góða heilsu þjóðarinnar.

165. Menn hafa réttilega veitt því athygli að máttug áhrif koma eftir sérstökum leiðum. Fólk virðist oft mjög andsnúið en meðtekur samt það sem sent er. Fyrir Okkur er mjög mikilvægt að það sem gerst hefur sé gagnlegt. Krefjumst þess ekki að lagður sé mælikvarði nútímans á atburðina — það sem skiptir máli er árangurinn. Við verðum að sýna þolinmæði og láta ekki þekkingarskort og vanþroska hafa nein áhrif á okkur. Veitum því inntaki og eðli atburðanna athygli.

166. Ég álít mögulegt að leiða börn til skilnings á æðri heiminum alveg frá þeirra fyrstu árum. Slíkt er ekki nein þvingun, því það mun hjálpa þeim að geyma auðveldlega í huganum margt sem annars myndi fljótt gleymast. Auk þess vekur það óviðjafnanlega fögur form. Fólk keppist eftir fegurð og hátíðleika; á slíkum grunni er mögulegt að segja frá hinum himnesku stærðum. Ekki ætti að slíta þjóðirnar frá bestu fjársjóðum sínum — hver þjóð hefur sinn sérstaka tjáningarmáta.

Aðeins með útvíkkun vitundarinnar er mögulegt að yfirstíga hindranir. Maður þarf að vita hvernig á að nálgast með varfærni hjarta mannkynsins þegar vitund þess víkkar. Nú þegar er verið að þurrka út margar takmarkanir, en fyrir slíkar nýjar brautir er þörf á sérstökum kærleik til mannkynsins. Nauðsynlegt er að rækta slíkan eiginleika samhliða hreinleika líkama og anda. Lát hreinleika andans fá sinn sess í skólunum, þá verða bestu tímarnir að háleitu samneyti.

167. Lífið krefst engra freistinga. Lífið getur ummyndast við allar hugsanlegar aðstæður. Andlegt samneyti er æðsta ummyndun lífs. Margir hinna fáfróðu kæra sig ekki um að skilja að andlegt samneyti byggist ekki á hinu ytra formi. Það verður til þar sem hugtakið um útvíkkun vitundarinnar er lifandi.

168. Andlegt samneyti er mögulegt þar sem lifandi segull býr. Við slíkar aðstæður er mögulegt að tengja náið saman hvert samfélag óháð jarðneskum takmörkunum. Þegar samfélag er eingöngu til fyrir þjónustu við sannleikann, finnast engar hindranir og sérstök samhjálp er hinn eðlilegi lífsmáti.

Þakklæti vex án þvingunar, því er tjáning gleði sérstakt merki um andlegt samneyti — allir vilja bæta sig á einhverju sviði.

169. Bækur um frumreglur og undirstöðuatriði ætti að lesa aftur og aftur. Almennt séð er nauðsynlegt að endurnýja áhrifin sem lesturinn hafði. Ekki er rétt að álíta að bók, sem var lesin fyrir þrem árum, muni ekki lengur virðast sem ný þegar hún er lesin aftur. Maðurinn breytist sjálfur á þessum árum. Vitund hans og skilningur geta ekki haldist óbreytt; umhverfi hans allt hefur tekið breytingum, og honum er ekki mögulegt að snúa aftur til fyrri aðstæðna. Vegna þess að sjónarsvið hans hefur víkkað uppgötvar maðurinn nýtt efni í bókinni. Látið því ekki bók, sem búið er að lesa, liggja óhreyfða til frambúðar; þekking lifir og hlúa verður að öllum merkjum um hana.

170. Maðurinn veit ekki í hverju bestu verk hans liggja, því er það merki um fáfræði að miklast yfir verkum sínum. Mannanna verk eru háð mörgum aðstæðum. Hinir fjarlægu heimar eru annað hvort bandamenn eða andstæðingar. Orsakirnar og tilefnin hafa verið skrifuð á svo langan lista að mennsk augu geta ekki lesið afleiðingarnar.

Notum því alla okkar krafta og bestu viðleitni og látum æðri heiminn um að dæma.

171. Takið eftir því hvernig skynjunin breytist við háleitt samneyti. Menn geta orðið varir við að tilfinningin hverfur smátt og smátt úr útlimunum, og um síðir finnst aðeins fyrir hjartanu. Þetta er ekki sársauki, heldur nokkurs konar þensla og mettun. Samneytið getur átt sér stað í öllum líkamsstellingum — standandi, sitjandi eða liggjandi. Tilfinningin í hjartanu, sem áður var rætt um, er nefnd „silfurþráðurinn.“ Það virðist eins og hann geti undið upp á sig og togað til sín; slík tenging er vottur nálægðar.

172. Fólk ræðir oft um tvífara, eins og það sjái sjálft sig. Til eru margar skýringar á slíkum fyrirbrigðum. Venjulega gleymir fólk eðlilegustu skýringunni — að hér sé um að ræða birtingu geðlíkamans. Birting fíngerða líkamans gerist oftar en menn halda. Hann getur náð vissu þéttleikastigi, en venjulega er hann ekki öllum sýnilegur; ákveðna dulskyggni þarf til að geta séð fíngerða líkamann. Ennfremur getur maðurinn séð sjálfan sig jafn auðveldlega þegar hann er mitt á milli svefns og vöku, eins og þegar hann er vakandi. Fáir gefa nokkurn gaum að umbreytingartímabilinu milli svefns og vöku, en einmitt í því ástandi gerist margt athyglisvert.

Í daglegu lífi sínu stundar maðurinn þó yfirleitt ekki slíkar athuganir; annað hvort afneitar hann algerlega fræðslugildi skynjana sinna, eða hann gefur sig á vald sjálfskapaðri þenslu sem ekki er hægt að telja eðlilega. Þess vegna er svo nauðsynlegt að leita jafnvægis; ef erfitt er að viðhalda því, ætti í það minnsta að hafa það í huga og reyna eftir bestu getu að ná því.

173. Menn vilja hafa allt venjulegt og lítilvægt, en þegar þeir sjá eitthvað sem fellur ekki að hugmyndum þeirra, verða þeir ringlaðir í stað þess að beita athyglinni. Þegar slíkir óvenjulegir atburðir gerast er litið á þá sem hreina tilviljun. Þannig rifnar dýrmætur vefur fyrir tóma heimsku. Oft er það sem gerist svo augljóst að athygli vekur, samt finna menn orð til að andæfa sönnunum. Menn vita hvernig á að brjóta niður heilan stein, en sitja svo eftir með ruslahaug.

174. Mannkynið er að þurrka út mismun kynþáttanna, því er nauðsynlegt að tala með mikilli gætni um kynþætti. Jafnvel þeir kynþættir, sem enn halda sínu sérstaka útliti og tungumáli, eru í eðli sínu ekki aðskildir frá öðrum. Að hefðbundnu mati er mismunurinn skýr, en ekki þegar blóðið er athugað. Blöndun er að gerast, en slíkt er dæmigert þegar kynstofnaskipti eiga sér stað. Það er frekar við hæfi að tala um mannkynið sem eina heild, en að ræða um blöndun kynþátta eins og vanalega er gert.

Það hefur mikið gildi að veita því athygli að grundvallaratriðin eru þau sömu hvaðan sem þau koma. Gleymum ekki að hver einstaklingur hefur sinn sérstaka tjáningarmáta, en sjaldan er slíkt kynþáttareinkenni. Saga hvers ríkis sýnir hve margir vegfarendur hafa átt leið um land þess. Heiðarleg athugun fær manninn til að líta á mannkynið sem heild.

175. Það er nauðsynlegt að hugsa oft um mannkynið sem eitt hjarta. Of mikið er um fáfræði og hindranir þar sem ætti að vera samvinna í sátt og samlyndi. Það ætti að skrifa söguna um hvernig hjarta mannkynsins hefur deilst.

176. Eitt mjög mikilvægt atriði hefur algerlega gleymst í hugrænum athugunum — samanburður hefur aldrei verið gerður á vitund frumstæðs manns og vitund andlegs hugsuðar. Slíkt verkefni krefst vissulega langtíma athugana. Mismunur slíkra vitunda mun reynast áberandi mikill. Ekki aðeins gerir það mögulegt að leggja mat á hinn mikla fjölbreytileika mannkynsins, heldur mun það einnig beina huganum að vitund dýra- og jurtaríkisins.

Í sannleika sagt hafa dýrin þróaða vitund. Hún finnst ekki aðeins meðal húsdýra, heldur ekki síður í frjálsu lífi villtra dýra. Eins er ekki fáránlegt að ræða um vitund plantna. Þegar er vitað um skyntaugar þeirra, en að auki er mögulegt að greina næmni fyrir ljósi og einnig aðlöðun að vissri persónu. Annars vegar er um að ræða innri orku mannsins og hins vegar kærleiksþel til einstaklings. Hægt er að sjá plöntur blómstra á óvenjulegum tímum til að geðjast hjartfólgnum manni. Mörg smáatriði uppgötvast við beinar athuganir.

Það er ósk Okkar að fólk viti að vitund er til á mun lægri tilverustigum en menn gera ráð fyrir.

177. Í steinaríkinu er einnig vísir að vitund, en tjáningarmáti hennar er of fjarlægur skynjun mannkynsins.

Mögulegt er að rannsaka hið talaða orð og hugsanir á margvíslegan hátt, en slíkar athuganir krefjast langs tíma og sérstakrar þolinmæði. Hver vill fórna sér fyrir athuganir sem nauðsynlegt er að framkvæma linnulaust án nokkurs sjáanlegs árangurs? Einnig verða menn að vita að árangur getur birst á óvæntum stöðum. Að auki er stundum erfitt að ná tökum á lögmálum hinnar æðri orku. Verkanir þeirra ná langt út fyrir svið mannlegrar ímyndunar.

178. Illvilja má líkja við ryð.

179. Ómögulegt er að lifa í illvilja án þess að eitra vitundina. Með illvilja kemur ekki aðeins fram líkamleg eitrun, heldur einnig mun verri tegund rotnunar; meginhluti hins kosmíska sora orsakast af illvilja. Við getum ekki ósnortin virt fyrir okkur eyðinguna sem illviljinn veldur.

180. Ég hef áður minnst á að lögmál hinnar æðri orku geta verið flókin og torskilin. Nýlega gafst ykkur tækifæri til að sannfærast um það enn einu sinni. Maður nokkur fékk vitneskju með huglægum hætti um minnisstæðan dag er tengdist vissri persónu sem hann hafði aldrei hitt. Ef hugleitt er hve slík tenging er gagnleg og viðeigandi, má sjá að atburður sem þessi er tímabær. Á fjarlægum stað vitruðust manni andleg tíðindi, og vegna þess skapast tenging milli fjarlægra staða á jörðinni.

Af þessari ástæðu ætti að rannsaka sálræn fyrirbrigði sem spanna miklar víðáttur. Það er ekki auðvelt að sannreyna áhrif hinnar æðri orku þegar ekki er um að ræða gagnkvæm skipti á upplýsingum. Því er mikilvægt að læknar og lærdómsmenn beri saman staðreyndir af kostgæfni.

181. Vissulega er það svo að vinsæll læknir notar ekki aðeins lyf til lækninga, heldur einnig andlega orku. Nauðsynlegt er að endurnýja orku sem þannig er notuð; þessi endurnýjun kemur frá innri skólanum (Ashram). Þannig má sjá dæmi samvinnu um langar leiðir. Þeir sem senda frá sér orkuna skynja aðeins útstreymi hennar, en sjálfir öðlast þeir gagnlegan geisla.

182. Svonefndir táknrænir draumar tjá með háleitum hætti sambandið við ósýnilega heiminn. Vitundin getur ekki ein og óstudd byggt heildarmynd úr brotunum, hún verður að fá aðstoð að ofan til að geta séð framtíðina í einföldu og skýru tákni.

183. Lítum aftur á gagnverkanir. Þið kunnið að hafa heyrt minnst á tilraun efnafræðings nokkurs sem sýndi fram á verkun andstæðra áhrifa. Hann bauð nokkrum vinum sínum til að hlusta á lestur úr verkum eftir nokkra velþekkta rithöfunda; að auki útbjó hann nokkrar efnafræðiblöndur sem framkalla hlátur, tár, gremju eða samúð. Þegar verið var að lesa mjög tilfinningaþrunginn kafla fyllti hann herbergið með gasi sem hafði gagnstæða verkun. Afleiðingin varð sú að áheyrendurnir hlógu að jarðarfararatriði, grétu þegar lesinn var fyndinn kafli og urðu þrætugjarnir þegar lýst var friðsömum atburðum. Þannig varð bersýnilegt við lok tilraunarinnar að áhrif orðanna voru yfirunnin af einhverju sem hvorki var sýnilegt né heyranlegt.

Ef jafnvel hin tiltölulega grófgerðu áhrif lofttegundanna geta afbakað áhrif orða og formanna sem þau mynda, hversu miklu sterkari eru þá ekki áhrif orku hugsunarinnar sem sjálf skapar form!

Í öllu lífinu má því finna hvetjandi áhrif, bæði grófgerð og háleit. Rétt er að þekkja bæði myrkustu haldningar og háleitustu vitranir. Nefnið þær því nafni sem þið viljið, slíkar gagnverkanir eru vissulega til.

184. Hinn reyndi læknir segir við sjúklinginn þegar hann veitir honum læknishjálp: „Gleymdu sjúkleika þínum!“ Hann gerir sér ljóst að yfirleitt veit fólk ekki hvernig það á að beita sjálfssefjun til lækningar. Því er betra að sjúklingurinn þreyti sig ekki með áhyggjum af heilsu sinni. Fólk gæti stuðlað að bata sínum með því að beina orku sinni að lækningu, en það kýs að gera sig veikara með því að leyfa ekki náttúrunni að vinna sitt góða starf.

Er ekki gagnlegt að minnast gagnverkana þegar við tölum um æðri heimana?

185. Sá sem sendir frá sér áhrif hefur ekki alltaf vitneskju um afleiðingarnar. Hann veitir því athygli að orka hefur streymt frá honum; hann kann að finna fyrir skyndilegri þreytu, en eins og hinn gjafmildi gefandi veit hann ekki hversu mikið gagn hann gerir. Fyrst veldur það samúð og síðan kærleik til mannkynsins.

Sá sem elskar hefur aðgang að æðra samneyti.

186. Þegar maðurinn gerir sér grein fyrir öllum ytri áhrifum er hann fær um að hefja innri sjálfsathugun. Hann lærir að greina á milli æðri andlegrar vitrunar og hinna lægri eyðileggjandi áhrifa. Ekki er auðvelt að greina öll hin kænlegu vélabrögð, en það er heilladrjúgt þegar hjartað titrar af vissunni um gagnsemi fyrir æðri heiminn.

Alls staðar í lífinu er hægt að finna snertingu æðri heimsins; jafnvel í hversdagslegum hlutum má greina neista hinnar æðri þenslu. Engin athöfn er til sem ekki eflist af snertingu við æðri heiminn.

Hafið velþóknun á slíkri þenslu, því án hennar er ekki unnt að vinna mikilvægt þjónustustarf!

187. Sá sem leitast við af fremsta megni að nálgast æðri heiminn lætur aldrei neitt illt af sér leiða. Sjálft nafnið — æðri heimurinn — gefur strax til kynna að allt sem því tengist sé háleitt. Fólk kann að kalla þessa viðleitni mismunandi nöfnum, en kjarni hennar er einn og samur, og áhrif hennar eru mannkyninu ávallt gagnleg. Ég tala ekki um ytri verk, heldur um eld hjartans sem prýðir sérhvert verk geislandi eiginleikum.

188. Undan hamri járnsmiðsins hrekkur fjöldi neista. Álítum ekki að hann sé fákunnandi verkamaður. Kominn er tími til að endurskoða skiptingu fólks í stéttir. Upprunaleg merking þeirra hefur glatast í aldanna rás, og afleiðingar þess eru öllum augljósar.

Lát því hvert hjarta gefa æðri heiminum bestu hugsun sína.

189. Hinn þrefaldi samhljómur er borinn fram sem „Óm“! Það er eins og tveir stafir samlagist, en í raun blandast Grunnurinn og Hin fyrsta orsök í Hinum eina ódeilanleika. Alls staðar má sjá á hve viðeigandi hátt lögmál samhljómunar hafa verið sett.

190. Betra er fyrir þann, sem óskar eftir auðveldu lífi, að lifa alls ekki. Lát þann ekki hugsa um æðri heiminn sem af þrákelkni krefst launa fyrir góðverk sín. Sá sem telur aura sína í efnisheiminum er þurfalingur í æðri heiminum.

191. Við skulum ekki meta gildi verðmæta eingöngu eftir jarðneskum viðmiðunum; þær hafa litla merkingu í fíngerða heiminum. Venjum okkur á að auka víðsýni okkar án erfiðis, annars mun jafnvel hin smæsta arða verða okkur ofurefli.

192. Lát engan gera sér í hugarlund að áherslan sem Við leggjum á æðri heiminn merki að maðurinn eigi að slíta sig frá jörðinni. Þvert á móti, mikilleiki æðri heimsins staðfestir allar aðrar lífsbirtingar. Jörðin getur ekki verið lítilvæg pláneta, þar sem hún er umvafin einmitt þeirri orku sem fyllt er hinu æðra ljósi. Sérhver samanburður við æðri heiminn eflir einnig hina góðu eiginleika jarðneskra hugsana. Aðeins hið illa getur aðskilið heimana; aðeins fáfræðin getur sundrað því sem lífið birtir; aðeins skilningsskortur segir að hið jarðneska líf sé ekki hluti af fagurri sköpun; því skulum við beina vísindunum á braut rétts skilnings. Ekkert getur afvegaleitt hjarta manns, ef það býr yfir hollustu og fegurðarskyni.

193. Húsmóðir sem hefur strokkað dálítið af smjöri úr rjóma hefur með því öðlast innsýn í mjög mikilvægan þátt fræðinnar um myndun heimsins. Með því getur hún fengið skilning á því hvernig myndun hnatta í geimnum er háttað. Áður en húsmóðirin byrjaði að strokka hugsaði hún um verkið, og með samverkun hugsunar og vinnu var hið gagnlega efni búið til.

Þar á eftir er hægt að búa til ost, sem þegar er með vísi að íbúum. Við skulum ekki brosa að svo smágerðum heimi, hin sama orka stendur að baki þróunar heimanna. Aðeins er nauðsynlegt að gera sér stöðugt grein fyrir mikilvægi hugsunar, mikilvægi mikillar orku. Er ekki stórkostlegt að þessi sama orka glóir í hjarta sérhvers manns?

194. Það hefur mikla þýðingu að gera tilraunir með ritmál. Ef mögulegt er að sýna á myndrænan hátt að handrit hafi verið mettað æðri orku, þá hlýtur slík aðferð að verða nýtt til að sýna fram á aðra notkun þessarar sömu orku. Maðurinn mettar alla hluti með orku sinni við snertingu. Að auki skilur hann alls staðar eftir sérkenni sín. Af handskrift er hægt að fá þekkingu á eiginleikum skrifarans. Þessar tilraunir er hægt að þróa með öðrum viðfangsefnum. Andlit manns geymir engin leyndarmál.

195. Þegar aðeins annar af tveim talar skapast ekki miklir erfiðleikar; en strax þegar hópur kemur saman, hvort sem hann er stór eða lítill, koma erfiðleikar í ljós. Því með aðeins einni hugsun getur maðurinn vissulega sundrað einingu hvaða samkomu sem er. Reynt hefur verið að sameina vitund fólks með notkun ýmissa ilmefna og með því að brenna reykelsi, en jafnvel slíkar aðferðir duga ekki til að upphefja vitund hópsins. Ekki er mögulegt að byggja upp Musteri hjartans með neins konar þvingun. Hin ýmsu tímabil og trúarbrögð hafa ekki hvatt fólk til að safnast saman í sameiginlegu háleitu samneyti.

En hægt er að ímynda sér hóp fólks sem safnast saman án þvingunar; smátt og smátt getur hópurinn skapað hugsun sem leiðir til æðri heimsins. Það er fagnaðarefni þegar fólk safnast saman í nafni hins góða og ásetur sér að bera þennan frelsandi góðleika með sér á öllum lífsins brautum.

Ég fullyrði að mögulegt er að framkvæma mörg nytsamleg verk, ef orku er ekki sóað í tilgangslausar deilur og rökræður. Getur verið um æðra samneyti að ræða þegar heili og hjarta umbreytast í djúprauðan loga? Jafnvel sjálf baráttan fyrir æðri heiminum framkallar ekki djúprauðan loga. Ljós hugrekkisins getur myndað rúbínrauða glóð, en sérhver vottur gremju sljóvgar.

196. Kurukshetra er hér á jörðu. Harmagedón er lýst sem jarðneskum atburði. Hin fornu heilögu stríð Babýlonar hafa einnig jarðneska skírskotun. Hinu andlegasta á jörðinni hefur verið gefið nafn.

Gerum okkur því ljóst að heimarnir verða ekki aðgreindir. Þegar fólk byggir líf sitt á mikilleika einingarinnar mun það ummynda alla tilveruna.

197. Fórn og aðstoð verða til í leyndum; slíkt er eðli þessara athafna. Aðeins æðri heimurinn veit hver raunverulega hjálpar hverjum. Fórnirnar eru ritaðar á óforgengilegt bókfell. Fagurt er lögmál hinna leyndu fórna hjartans.

198. Öll trúarbrögð hafa forboðið að leggja hið æðsta nafn við hégóma. Slíkt lögmál er fagurt, því með því er sett fram rétt gildismat í æðstu mynd sinni. Ef jafnvel hin jarðnesku börn eru vernduð, hversu mikla aðgætni þarf ekki að viðhafa um hin æðstu hugtök.

Þegar ég mæltist til að orðin „rétt gildismat“ væru rituð á súluna, gat hver sem er skilið hina greinilegu framvindu. En samt eru tvífætlingar til sem setja sjálfa sig á stall. Myrkt er hyldýpi fáfræðinnar!

199. Sagt hefur verið: „Margar mæður, feður, eiginkonur, systur og bræður munu verða ykkur gefin,“ en jafnvel svo skýr vísbending fær fólk ekki til að velta fyrir sér hvar þetta mun eiga sér stað. Það kærir sig ekki um að íhuga jarðnesk æviskeið! Hin vísustu fræði ná ekki lokuðum eyrum.

200. Er mögulegt að hinir illu tali um hið góða? Verið lærisveinar þekkingarinnar og lærið að unna æðri heiminum.

201. Neistum af lögmálum æðri heimsins hefur verið dreift af örlæti um yfirborð jarðarinnar. Hægt er að safna þeim eins og dýrmætum fjársjóðum. Allt verður fagurt í slíkri uppskeru. Hin æðsta marksækni prýðir samhæfingar þess frjálsa vilja sem skilur að allir hinir aðgreinalegu þættir tilverunnar eru órjúfanlegir hlutar af einni heild. Sannlega, lífið verður uppfylling nytsamlegra verkefna frá æðri hugsun.

Ekki auðmýkjandi strit, heldur hetjulegur sigur er merki kærleikans, hins sigursæla!

202. Læknar hafa ekki veitt örvun taugastöðvanna næga athygli. Það er mjög mikilvægt að taka eftir því að bruni í orkustöð veldur einkennum í tilsvarandi líffæri, samt er líffærið sjálft ekki sjúkt, heldur er sveiflutíðni þess í samræmi við bruna orkustöðvarinnar. Hægt er að sýna fram á að sjúkdómsgreiningar lækna eru oft rangar þegar þeir átta sig ekki á grundvallarorsök sársaukaskynjunar. Ennfremur hefur orsök hitasóttar aðeins verið rannsökuð mjög yfirborðslega. Benda má á aðstæður af hreinum kosmískum uppruna; ástand mannkynsins er ekki síður mikilvægt.

Þeim sem taka á sig byrði jarðarinnar má líkja við risann Atlas. Slíkir máttarstólpar heimsins eru mjög fáir; menn ættu að meta þá á sama hátt og eldingavara, en í besta falli brosa menn með sjálfum sér yfir því sem þeim virðist vera móðursýki og kæra sig ekki um að vita meira um grundvöll tilverunnar.

Skilningur er ekki mögulegur svo lengi sem þekking á heimunum þrem og innbyrðis tengslum þeirra er ekki fyrir hendi.

203. Er mögulegt að þrauka umsátur jarðarinnar, ef menn þekkja ekki stigveldi lífsins? Fræðslan um æðri heiminn er send sem frelsandi þráður. Slíkum þræði er hægt að breyta í traustan kaðal, en jarðneskir eldar geta brennt í sundur hinn sterkasta kaðal. En jarðneskir eldar geta einnig liðsinnt eldi æðri heimsins.

204. Sá sem er fær um að heyra tónlist himnanna getur einnig búist við því að heyra harmakvein í geimnum. Lítið ekki á slíka kveinstafi sem óraunverulegt tákn, þeir eiga upptök sín bæði úr fíngerða heiminum og frá jörðinni. Mannkynið kann að vera sofandi, en hjarta þess getur kveinað og stunið. Mörg hjörtu eru sofandi í daglega lífinu, en þegar hugurinn er ekki til trafala og vitundin vaknar, stendur hjartað frammi fyrir raunveruleikanum. Ekki að ástæðulausu hefur verið sagt að fólk sofi á daginn en sé fullt atorku á nóttunni.

Eftir styrkleika kveinstafanna er hægt að meta hversu mikið vitund mannkynsins hefur vaknað. Hún kveinkar sér þegar raunveruleikinn er afhjúpaður. Einnig hefur verið sagt að markaðstorgið sé hjúpur raunveruleikans. Í rykskýi markaðstorgsins verður hjartað þögult. Nauðsynlegt er að vera vel meðvitaður um æðri heiminn til þess að vita hvernig á að feta sig í gegnum forað strætisins með tákn hans að leiðarljósi.

Örvæntið ekki þegar þið heyrið hina óttalegu kveinstafi í geimnum. Þeir tjá ringulreið heimsins, en þið vitið hversu djúpstæð þessi ringulreið er. Sá sem veit það lætur það ekki koma sér úr jafnvægi. Hver sá sem er í snertingu við æðri heiminn í vitund sinni er staðfastur og ósigrandi; hann hefur gefið anda sínum frelsi, anda sem er óforgengilegur og teygir sig út í óendanleikann.

Það er nauðsynlegt að vera viðbúinn því að hlusta ekki aðeins á hina tignarlegu tónlist himnanna, heldur einnig á vein hins dýrslega ótta. Ekki er leyfilegt að þekkja eingöngu eina hlið tilverunnar. Aðeins þekking á alheiminum í heild sinni staðfestir sigur. Hinir fávísu hræðast allt myrkur, en fyrir þann sem skilur er jafnvel myrkrið bakgrunnur sem skerpir ljósið. Sá sem þekkir heim ljóssins er ekki hræddur við myrkrið.

Því er það nauðsynlegt að meta að verðleikum hina undraverðu tónlist himnanna, og skilja að á þessu sama þrepi má einnig heyra kveinstafi heimsins.

205. Ef við viðum að okkur staðreyndum, getum við séð að atburðir gerast fyrirvaralaust. Á hverri klukkustund gerast atburðir sem eiga sér ekki fordæmi.

206. Þegar gerðar eru tilraunir með hina æðri orku , ætti að veita mismunandi blæbrigðum formbirtingarinnar athygli. Athugunin mun fyrst og fremst leiða í ljós hið almenna mynstur, en skarpskyggn athugandi mun greina mikinn fjölda einstakra smáatriða. Til dæmis greindist óvenjuleg krosslaga hreyfing ofan við heila eins þeirra sem athugaðir voru. Þannig hreyfing er í raun mjög slæmt einkenni. Hún táknar annað hvort haldningu á háu stigi eða geðveiki. Einnig er hægt að sjá myndina breytast gjörsamlega á örstuttri stund. Því er nauðsynlegt að endurtaka athugunina aftur og aftur. Eins og öldur í margvíslegum straumum hafsins, verður hin æðri orka fyrir mörgum áhrifum frá aðstæðum að innan og utan. Það er mjög mikilvægt að fylgjast með slíkum hitasveiflum andans. Einnig er mikilvægt að taka eftir því ef hjá hinu lifandi greinist sams konar svörun og hjá hinu dauða. Ástæður slíkra fyrirbrigða eru margar. Það getur verið að lífið sé þegar horfið á braut; það kann að vera að haldning skyggi algerlega á hið upprunalega eðli; það getur verið að reiði hafi kæft allar orkustöðvarnar; það getur verið að allt lífkerfið sé á valdi sjúkdóms; slík fyrirbrigði eru allrar athygli verð, hver sem orsökin er.

Hægt er að sjá útvíkkun vitundarinnar; slíkum árangri ber að fagna. Einnig er nauðsynlegt að veita athygli hvers kyns skjálftum, tálmunum, titringi og frávikum frá réttum formum. Slíkt er háð sálrænu ástandi og ýmsum sjúkdómum. Því er nauðsynlegt að athuga bæði heilbrigða og sjúka. Hægt er að halda áfram þessu sama starfi og taka fyrir handrit, litaða fleti og yfirleitt alla hluti sem menn hafa handleikið.

Á þennan hátt er hægt að vekja nýjan áhuga fyrir útgeislun mannsins og þeim áhrifum sem verða eftir á hlutum sem maðurinn kemst í snertingu við. Vissulega er skýr vitund athugandans sjálfs mjög til hjálpar. Slæmt skap er lélegur stjórnandi.

207. Aum, í æðra tíðnisviði sínu, lyftir vitundinni á það stig sem best er fallið til athugunar á andlegri orku. Það er gleðiefni þegar hægt er með einföldum aðferðum að framkvæma mjög mikilvæga og lýsandi tilraun.

208. Hugsun um Okkur er sem hreinsun vitundarinnar og má líkja því við það að horfa langt út í fjarskann. Þá öðlast andi mannsins sérstakt hugrekki sem yljar honum og fleytir yfir hættur. Án æðri heimsins er erfitt að leggja út á brautina.

209. Það er óþarfi að láta það trufla sig að orðið lífeðlisfræði sé notað um æðri heiminn. Vissulega getur hver vitandi maður fundið mun betra orð, en eftir hefðbundnum skilningi er hvorki rangt að nota orðið efni né lífeðlisfræði. Efni er andi; lífeðlisfræði er lögmál tilverunnar. Enginn getur sagt að andinn nái ekki yfir alla hluti. Lífeðlisfræðin er aðeins hin hefðbundna skilgreininga á mörgum starfandi lögmálum.

Vissulega, við ítarlegar rannsóknir munu finnast mun nýtilegri nöfn. Jafnvel fyrir hin háleitustu hugtök er hægt að finna líkingar í efnislegri notkun. Fólk bindur ekki þétt um opið sár. Það skilur þörfina á því að hleypa lofti að, svo að hinn særði líkamshluti verði ekki sviptur gagnlegu efni; á sama hátt má ekki svipta hina andlegu skynjun samneytinu við æðri heiminn. Alveg eins og hreinlæti er ómissandi fyrir jarðneskt líf, þannig hefur andinn einnig þörf fyrir forvarnarstarf. Verið ekki forviða á því að við notum læknisfræðileg hugtök um andann; með því móti kann læknum að finnast að starfssvið þeirra liggi nær æðri heiminum. Lát hvern og einn finna Leiðina einu á sinn eigin hátt, jafnvel þó það sé leið tæknilegra hugtaka.

210. Bannið því ekki frjálsa þekkingarleit. Slíkt bann er merki um vanþekkingu. Í vexti þekkingarinnar felst hin sanna leið . Því fjölbreyttari rannsókn, þeim mun fegurri árangur. Engar myrkar leiðir eru til fyrir hinu upplýsta auga; það skynjar sérstaklega afgerandi vísbendingu með því að athuga hvernig mannkynið leitar eftir hinum margvíslegu leiðum. Við erum ekki afneitarar, því höfnun leyfir ekki rækilega athugun. Mörg helgitákn er að finna víða um heiminn, en aðeins er mögulegt að nálgast hin helgu tákn með vinsemd.

211. Nauðsynlegt er fyrir fólk að losa sig við hvers kyns hroka gagnvart öllu því sem það þekkir ekki. Sífellt má sjá að hinir fáfróðu snúast öndverðir gegn öllu sem þeir fá ekki skilið. Það er bráðnauðsynlegt að hinir fremstu meðal fræðimanna séu verðugar fyrirmyndir í víðsýni. Engin framþróun verður hjá þeim sem viðurkenna ekki möguleikann á óendanleika þekkingarinnar. Ég endurtek, fullkomnun hefst með sjálfsfullkomnun.

Hver sá sem vill taka þátt í mikilvægu þjónustustarfi verður að frelsa sig frá hroka.

212. Nauðsynlegt er að leitast við að finna einföldustu skýringar á fyrirbrigðum. Fólk tekur eftir því að dulheyrn gengur betur í dagrenningu. Ástæðurnar sem gefnar eru fyrir þessu eru langt frá hinu sanna. Gert er ráð fyrir því að eftir nóttina sé líkaminn hvíldur, og talið er að straumar rétt fyrir dögun séu til hjálpar. En menn sjá ekki einföldustu og eðlilegustu skýringuna; augljósasta skýringin felst í þeirri staðreynd að í svefni hefur maðurinn náð sambandi við fíngerða heiminn og með því eflt hina fíngerðu eiginleika sína.

Hægt er að tilfæra svipaðar hliðstæður frá mörgum sviðum; en allar gefa aðeins til kynna að maðurinn hugsi of lítið um æðri heiminn og svipti sjálfan sig með því móti sönnustu lausnunum.

213. Svefninn er þátttaka í lífi fíngerða sviðsins. Svefninn hefur mikið gildi frá sjónarmiði hinnar æðri orku. Hún styrkist vissulega, þó einkum hvað varðar ákveðinn eiginleika; með öðrum orðum, hún bætir við sig hinum einkennandi eiginleika fíngerða heimsins

214. Til er fólk sem neitar að skilja hvað hroki er. Hjálpum því að skilja með því að segja: „Lítillækkið ekki, og losið ykkur við hið ógeðfellda viðhorf sem felst í því að lítilsvirða eða smána.“ Sá sem lítillækkar er næstum því jafn slæmur og svikari. Í návist slíkra höggorma er umræða um samneyti við æðri heiminn ekki möguleg. Það er óverðugt að smækka eitthvað svo það verði einskis vert. Sá sem stöðugt dvelur við lítilsverða hluti lendir á braut tómleikans. Hið æðra samneyti er ekki mögulegt þegar hugsað er um léttvæga hluti. Hægt er að ræða saman með einföldum orðum, en merking þeirra þarf ekki að vera léttvæg. Hver sá sem er önnum kafinn við að gera lítið úr náunga sínum dæmir eftir sínum eigin lítilmótlega mælikvarða.

215. Mögulegt er að hitta fyrir fólk sem er svo neikvætt að því finnst eitthvað óviðeigandi við orðið Aum. Það mun spyrja: „Hvers vegna hafa önnur fögur tákn gleymst? Hver er tilgangurinn með því að minnast ekki á önnur háleit hugtök?“

Svörum: „Engu hefur verið gleymt, ekki hefur verið gert lítið úr neinu og ekkert hefur verið eyðilagt. Við lítilsvirðum ekki, né erum Við haldin hroka. En enginn getur rænt hugtakinu Aum fornum uppruna sínum með mikilsverðu þreföldu gildi sínu. Leggið ekki til hliðar hin grundvallandi tákn. Reynið að ávinna ykkur mannúð í stað þess að sýna fáfræði með neikvæðu viðhorfi. Sýnið að ykkur sé annt um öflun þekkingar. Vinnið sigur með kærleikanum!“

216. Til er fólk sem getur skynjað útvarpsbylgjur án tækja. Slíkur hæfileiki einn sér er ekki merki um sérstakan árangur, en hann er gagnlegur til samanburðar við hugsanaflutning; grunnorkan er sú sama. Ef hægt er að taka á móti hinum grófgerðu sendingum útvarpsbylgna, er næsta skref einnig mögulegt. Fólk tekur sífellt á móti hugsunum og þýðir þær yfir á sitt eigið tungumál; svo einföld sannindi þarf samt að endurtaka.

Það er óskiljanlegt hvers vegna fólk er svo andsnúið því einfalda atriði að hugsun sé orka. Eins og slík sannindi gætu lagt heimili fólks í rúst! Satt er að orkan getur hrist burt eitthvað af rykinu, en húsið verður aðeins hreinna fyrir vikið.

Sleppið engu tækifæri til að ræða um hugsun sem leiðandi kraft!

217. Þegar líkaminn er orðinn þreyttur á einni stellingu er ráðlegt að skipta um stöðu. Þetta sama gildir um allar kringumstæður í lífinu. Sérhver breyting á sína orsök. Við skulum læra að íhuga þær; á þann hátt koma kostir allra aðstæðna í ljós. Því endurtek ég, sýnið þolinmæði.

218. Lífið verður að hafa hreinan grundvöll. Að sönnu eyða sumir tvífætlingar öllu lífi sínu í forarsvaði; þeir skrimta einhvern veginn, en hver sá sem vanist hefur þrifnaði kafnar í óþverranum.

Það sama á við um fæðuna. Fyrir þann sem vanur er hreinni fæðu er mjög óheilnæmt að neita fæðu sem er óhrein og rotnandi. Hver sá sem vanist hefur óhreinni fæðu frá barnæsku er ekki í yfirvofandi hættu, en hafa verður í huga að sóttkveikjur illkynja sjúkdóma er að finna í óhreinni fæðu. Aðeins er hægt að fresta því um takmarkaðan tíma að þetta verði ljóst; um síðir er upp skorið eins og sáð var til.

219. Svefndá er sérstakt óskilgreint ástand mitt á milli svefns og dauða. Hjartað stöðvast næstum því, líkaminn er hreyfingarlaus, og yfir andlitinu hvílir ójarðneskur svipur. En samt er maðurinn ekki aðeins lifandi, heldur snýr hann aftur til meðvitundar af eigin orsökum sem enginn skilur. Þegar maður fellur í svefndá gerist það óvænt, og enginn af þeim sem nærstaddir eru getur vitað um kringumstæðurnar sem valda þessu tímabundna ástandi. Með orðum Okkar er þetta nefnt viðvarandi fráhvarf fíngerða líkamans . Slíkt ástand er ekki sjúkdómur, heldur óeðlileg spenna lífkerfisins í tengslum við fíngerða heiminn. Það getur verið afleiðing ofþreytu, ótta, sorgaráfalls eða óvæntrar gleði. Sérstaklega athyglisvert er andartakið þegar maðurinn vaknar. Venjulega valda þeir sem nærstaddir eru miklum skaða með ótímabærum upphrópunum og spurningum. Allar slíkar spurningar hafa sefjunaráhrif. Gæta skyldi ýtrustu varkárni til að eyða ekki þeim áhrifum sem komist hafa í gegn. Algengast er að fólk, sem vaknar úr svefndái, fullyrði að það muni ekki neitt. Líklegra er að minningunum hafi verið sópað burt úr vitund þeirra vegna óviðeigandi spurninga eða hávaða. Þannig glatast tækifæri til að kynnast fíngerða heiminum. Þegar vaknað er úr svefndái er ilmur rósaolíu mjög gagnlegur.

220. Einnig ætti að gefa gaum að krampaflogum hjá ungum börnum. Þau gefa til kynna þroskun taugastöðvanna. Meðan slíkt ástand varir er nauðsynlegt að viðhafa sérstaka kyrrð og ró. Að eðlisfari eru slík börn mjög vel gefin, en vörn líkamans verður að vera sterk. Nauðsynlegt viðhorf til slíkra fyrirbrigða er að líta svo á að Kaleikurinn sé yfirfylltur. Það var ekki að ástæðulausu að í fyrndinni var þetta nefnt „guðleg vitjun.“ Þegar þessi köst koma er mikilsvert að viðhafa algera kyrrð í umhverfinu, hlýju, rósaolíuilm og jafnt hitastig. Sumir hafa notað róandi tónlist og reyndist það hjálplegt; því sú hjálp sem veitt er verður að vera af sálrænum toga.

221. Allar tegundir taugaáfalla er hægt að lækna með kyrrð og ró, jöfnu hitastigi og með notkun tónlistar, lita og ilms. En það er erfitt að finna aðstæður sem bjóða upp á allt þetta. Enn fremur er bráðnauðsynlegt að nota nákvæmlega þá samsetningu tóna, lita og ilms sem hæfir hverjum einstaklingi í þessu ástandi.

Það er því mjög mikilvægt að tilraunir með hvernig brugðist er við hljóði, lit og ilm séu gerðar á eins víðtækan hátt og frekast er unnt. Í skólum væri jafnvel hægt að framkvæma margar nytsamar tilraunir. Á einkaheimilum er sjaldgæft að finna sérstakt herbergi hæfilega búið til þessara nota, en skólar og sjúkrahús ættu að búa yfir hæfilegri aðstöðu með viðeigandi tækjum. Því það er mögulegt að nota margs konar aðstæður til hjálpar, auk sefjunar.

222. Unnt er að lækna margar tegundir lömunar með því að beita djúpri sefjun. Margra sjúkdóma á byrjunarstigi, til dæmis krabbamein, berkla og magasár, er hægt að hindra með sefjun sem efld er með sálrænum svörunum. Sjá má að þjáningar af völdum krabbameins aukast í skarlatsrauðu ljósi, en fjólublátt ljós hefur aftur á móti sefandi áhrif. Sama á við um tóna, samhljómur í dúr-tóntegund eflir áhrif fjólubláa geislans, en ómstríður hljómur eykur kvalirnar.

Sviptum ekki lækna neinum tækifærum til nýrra uppgötvana. Lát þá rannsaka margs konar samsetningar, en nauðsynlegt er að þeir séu minntir á þá braut vísindanna sem nærtækust er. Þegar grundvöllur meðhöndlunarinnar er samhljómur, er hægt að ímynda sér hversu fíngerðar orkutegundir eru ákallaðar til hjálpar mannkyninu.

223. Enginn skyldi kalla áhrif andlegrar orku „kukl.“ Slík skoðun lýsir fáfræði og tilheyrir löngu liðnum tímum. Aftur á móti er rannsókn á andlegri orku hin sanna framför.

224. Sú skoðun, að sálræn meðferð sé nú þegar nægilega fullkomin, er fánýt. Tilraunir til lækninga með ljósum og tónum hafa verið máttvana og ósamhæfðar. Enginn fæst við að rannsaka hliðstæður ilms við lit og tón. En meginvandinn liggur í þeirri staðreynd, að næstum því engir læknar eru undir það búnir að skilja hliðstæður heimanna. Án skilnings á þessum grundvallaratriðum er mögulegt að sökkva sér niður í hið þrönga efnislega svið, samt umlykur hin æðri orka öll svið. Aðeins með mikilli næmni er hægt að skilja hana. Læknirinn getur því ekki rætt um haldningu, ef hann sjálfur hefur enga vitneskju um fíngerða heiminn! Læknirinn getur ekki skilið meðferð með ljósi, ef hann getur ekki greint á milli litbrigða. Sá sem er gefinn fyrir grófgerða tónlist ber ekki skynbragð á fíngerð blæbrigði tónlistar. Sá sem getur ekki gert greinarmun á ilmefnum er ófær um að segja fyrir um meðferð sem byggist á ilmi. Ætlun mín er ekki sú að gera lítið úr læknum, þvert á móti, það er ósk mín að gera þá hæfa til bjargar mannkyninu. Eiturefni hafa aukist í of miklum mæli. Margar auðlindir hafa verið nýttar til þess eins að brjóta niður hina æðri orku, þannig að ekki aðeins í borgum, heldur einnig út í náttúrunni, er prönuorkan í hættu vegna tilkomu framandi strauma. Nauðsynlegt er fyrir mannkynið að skilja að það hefur engan rétt til að eitra andrúmsloft jarðar; mannkynið ber ábyrgð á heilbrigði plánetunnar.

Æskilegt er að fara þess á leit við lækna að þeir líti á samband heimanna með vökulum skilningi og stuðli að aukinni næmni sinna eigin skilningarvita. Illur maður getur ekki rætt um hið góða. Gróf persóna er ekki dómbær á siðfágun.

225. Eftir að hafa gert sér grein fyrir áhrifamætti sefjunar er æskilegt að byrja að hugleiða leiðir til að efla hana. En fyrst er nauðsynlegt að þekkja öll stig sefjunar. Ef einhver stundar stöðuga sefjun og er undir áhrifum sefjunar, hversu rækilega verður hann ekki að þjálfa með sér hæfni til að greina á milli hinna jarðnesku og fíngerðu áhrifa! Til þess er þörf vísindalegra rannsókna sem miða að því að vísindamaðurinn sjálfur öðlist þekkingu á lagskiptingum heimanna. Sé hann afneitari, vex upp kynslóð fávísra manna.

226. Sálfræði er ekki kennd í neinum læknaskólum. Slíkt námsefni fyrirfinnst alls ekki.1 Orðið sálfræði er venjulega tengt kennslufræði, en ekki skilningi á eiginleikum andlegrar orku. Það er óskiljanlegt að slíkt grundvallarnámsefni sé virt að vettugi í læknisfræðikennslu. Skilningur á sálarorku útilokar ekki að hefðbundnum læknisúrræðum sé veitt tilhlýðileg athygli. Mun minni þörf er á notkun lyfja þegar læknar geta beitt sálrænni meðhöndlun. Notkun sálarorku til lækninga mun endurnýja alla lífsbirtinguna. Við skulum ekki aðskilja hinar æðri hugmyndir um lífið frá læknisfræðinni. Í mörgum fornum heimildum má sjá að prestar voru einnig læknar. Þar með var lögð á það áhersla að læknirinn þyrfti að hafa vald, að öðrum kosti myndu sjúkdómarnir alltaf vera skrefi á undan, án þess að hann hefði möguleika á því að ná tökum á þeim.

En nauðsynlegt er að finna skýr og greinargóð rök til að staðfesta að samband heimanna er sem trygging fyrir heilbrigði almennings. Heilbrigði er ekki möguleg svo lengi sem fólk veit ekki um ástæðu þess að það ber hina jarðnesku byrði. Vitundinni getur ekki verið fullnægt eingöngu innan sviðs þessarar smáu plánetu. Það hjarta er níst skelfingu sem er svipt hinni fögru hugmynd um einingu heimanna.

Lát lækninn, sem prest vísindanna, færa þekkinguna um heim ljóssins inn á heimilið.

227. Lát fólk meta alla þekkingu að verðleikum!

228. Lát þann sem valdið hefur verða fyrstan til að sýna vísindunum virðingu, því oft telur valdsmaðurinn sig ekki skyldugan til að beygja kné sín fyrir þekkingunni.

Endurnýjaður skilningur á æðri heiminum mun koma í gegnum þekkinguna. Engin önnur leið er til!

229. Lát fólk sýna löngun til að bæta sig í stað þess að lifa lífinu án markmiðs. Það gleymir hinu fagra lögmáli framfaranna. Orðið þróun er oft skilið sem ytri kvöð, en fögnuður framfaranna kemur ekki frá neinni ytri skyldu; hann er óaðskiljanlegur frá fræi andans. Aðeins þessi skilningur gerir það mögulegt að komast yfir allar gjár myrkursins.

230. Ég ráðlegg ætíð að niðurstöður margvíslegra athugana séu skráðar; þegar tímar líða er hægt að vinna úr þeim efni í dýrmætan annál. Slík skrif eru gagnleg við athugun á þróunarsögunni. Sem dæmi vil ég minna ykkur á eina slíka ritaða frásögn . Reyndur athugandi greinir frá fundi sínum með virtum leiðtoga: „Á meðan á samræðunum stóð tók ég eftir því að viðmælandi minn virtist vera haldinn svefndrunga. Samtímis mátti greina umhverfis hann þokukenndan bjarma sem flökti og hreyfðist um. Mátti á því skilja að fíngerði líkaminn væri um það bil að yfirgefa félaga minn; samt var hann óhagganlegur og gerði ráðstafanir fyrir væntanlega brottför sína. Þegar hann kvaddi mig tók hann hring af fingri sér og bað mig skyndilega að taka við honum til minningar um sig. Áður en þrír tímar voru liðnir var vinur minn drepinn af illviljuðum samsærismanni. Þá vaknar sú spurning hvers vegna vitundin gaf ekki aðvörun um samsærið, þar eð fíngerði líkaminn hafði vitneskju um undirbúning morðsins, og andinn hafði þegar gefið mér hringinn sem vott um það sem framundan var? Það er augljóst að hér er um að ræða mjög flókið lögmál hinnar æðri visku.“ Þannig hljóðaði frásögn skrifuð af frönskum athuganda.

Menn kunna að minnast tilvika þar sem fólk lét í ljós undrun yfir því hvers vegna sumir virtust ekki taka eftir yfirvofandi atburðum. Gerum okkur grein fyrir því hversu menn eiga erfitt með að skilja karmalögmálin og vitund fíngerða líkamans.

231. Það er gagnlegt að rannsaka forn tungumál; í þeim er skráð saga hugsunar mannsins, og hægt er að fylgjast með þróun og hnignun hugtaka. Tökum sem dæmi sanskrít og latínu. Sjá má hvernig hið síðarnefnda hafði þegar glatað djúpsæum hugtökum; en ekki er hægt að bera saman Róm til forna, sem stefndi að efnishyggju, og heimildir um hugsun Indlands.

Tungumálið er annáll þjóðar; orðabókin er saga menningar.

232. Sál þjóðar er sem opin bók. Nauðsynlegt er að vita hve greinilega hún endurspeglast í hverri athöfn og gjörð. Því er rannsókn á þjóðum vísindagrein. Hver sá sem æskir eftir því að skyggnast inn í framtíðina verður að vita hvaða dyr er hægt að opna. Traust og góðleika má byggja á þekkingu á þjóðinni sem heild. Mögulegt er að greina á milli hins dýrmæta og hins einskis verða.

233. Það er hughreysting að vitneskjunni um heimana þrjá. Ekkert annað getur lagt mat á auðlegð sannleikans.

234. Án efa munið þið rekast á eftirfarandi andmæli: „Hvers vegna er rætt um æðri heimana og vísindi á sömu síðunni?“ Þeir sem þannig mæla skilja ekki æðri heiminn og gera lítið úr vísindum. Fólk með svo takmarkaða vitsmuni er víða að finna, og vegna þess að það skortir hlýju hjartans er það ákaflega illviljað. Það gegnir ýmsum opinberum stöðum og getur því sáð fræjum víða. Gagnslaust er að andmæla því. Sérhver maður, sem hefur hjartað á réttum stað, mun fagna öllum réttum skilningi á æðri heiminum. Vitur maður hefur í hávegum orð sem sögð eru til varnar vísindum.

Af öll því, sem jarðneskt er, er kærleikurinn og sköpunargáfan nátengdust hugmyndinni um æðri heiminn. Þegar minnst er á æðri heiminn fagnar hinn verðugi maður. Hann gleðst hjartanlega þegar rætt er um vísindi. Ef bæði þessi viðfangsefni vekja eingöngu fordæmingu, er það til marks um líflaust hjarta. Látið það ekki á ykkur fá þegar þið hittið afneitara og fordæmendur, slíkt er jafn óhjákvæmilegt og staðreyndin um tilveru ljóss og myrkurs. Hin beina þekking hvíslar þegar myrkrið er svo þétt að frekari fortölur eru gagnslausar; ekki er ráðlegt að sá nema í góðan jarðveg. Þið vitið að skilningsríkir vinir skjóta upp kollinum án tillits til jarðneskra aðstæðna. Það getur jafnvel gerst að þjónustuandar byggi musteri, en æðri heimurinn og þekking eru þeim ekki aðgengileg. Fyrr eða síðar gera þeir uppreisn og snúa aftur út í myrkrið. Ég get nefnt um það mörg dæmi!

Þjónið því æðri heiminum og vísindum. Látið hugsun um æðri heiminn skýrast með kærleik, upplýstum ljósi þekkingar.

235. Mjög erfitt er að skilja af hverju fólk hverfur oft frá virðingu til lítilsvirðingar. Það reynir að tjá hið ósegjanlega; afleiðingin er fölsk ásýnd sem aðeins vanvirðir hina háleitu hugmynd. Í tímans rás má finna margar slíkar ósannar ímyndir. Fólk endurtekur frásagnir um hið ósýnilega, og um leið er byrjað að byrgja ljósið inn í steinrunnin form.

Rétt gildismat er orðið tímabært.

236. Æðri heimurinn er óforgengilegur, en í stað þess að hreinsa sjálfa sig með vinnu og íhugun reyna menn enn að múta hinni æðri Náð. Með slíkri fáfræði sýna menn að þá skortir algjörlega hvöt til að hugleiða eðli heimanna. Saga bænahalds sýnir að í byrjun voru sálmar sungnir, síðar voru beðnar bænir fyrir öllum verum, en aðeins á seinni tímum dirfðust menn að koma með kröfur fyrir sjálfa sig. Nægar sannanir hafa komið fram fyrir því að allt sem byggt er á eigingirni er einskis virði fyrir þróunina. Ekki er hægt að kaupa álit og réttlæti. Er ekki skammarlegt að þörf sé á því að endurtaka þessi orð?

Hægt er að spyrja sjálfan sig hvort nú eigi sér stað öfugþróun. Endir Kali-tímabilsins getur einnig valdið slíkum fyrirbrigðum. Sagt hefur verið fyrir um ógnarlegar hamfarir, en hvað getur verið skelfilegra en hrun andans? Enginn jarðskjálfti er sambærilegur við upplausn vitundarinnar. Efla þarf alla krafta til að forða mannkyninu frá hyldýpinu, því er hugleiðing um æðri heiminn nauðsyn á okkar tímum.

237. Það er rétt athugað að vissar plöntur gefa frá sér moskusilm. Gagnlegt er að safna upplýsingum um slíkar plöntur. Þær búa ekki yfir öllum hinum dýrmætu eiginleikum lífgjafans, moskuss; samt býr í þeim sá gagnlegi eiginleiki að viðhalda lífsþrótti. Stundum má sjá að nálægar plöntur byrja að gefa frá sér sama ilm; rætur og jarðvegur geta þjónað sem leiðarar.

238. Hægt er að nálgast flókin efni með einföldum aðferðum; meginforsenda er að athyglin sé virk. Jafnvel reyndir athugendur glata henni í gráma hversdagsleikans. En vegna æðri heimsins er þörf á kærleik og þakklæti. Hvernig er með öðrum hætti mögulegt að leita uppi hin leyndu merki á meðal jarðneskra aðstæðna?

239. Ekkert í heiminum er hægt að endurtaka. Af því sést hve margt er óvenjulegt. Fólk mun ekki skilja jarðneska stöðu sína nema það átti sig á þessu. Ómögulegt er að hugleiða þróunina, ef drifhvötin og næsta markmið eru óþekkt. Jarðnesk tilvera er merkingarlaus, ef menn átta sig ekki á orsökum og afleiðingum. Jafnvel þó fólk skildi aðeins að hluta til hversu óvenjulegt umhverfi þess er, væri því auðveldara að beina hugsunum sínum að æðri heiminum. Það er ómögulegt að fá fólk til að snúa sér að svo algerlega nýju sviði, sem æðri heimurinn er, án þess að hafa eitthvað millistig. En ef augað lærir smátt og smátt að greina margbreytileika umhverfisins verður auðveldara fyrir það að venja sig við að greina fíngerðari hluti. Vissulega, allt þarfnast ræktunar og þjálfunar.

240. Spyrja má hvers vegna fólk í efnislegri tilveru man ekki eftir dvöl sinni í fíngerða heiminum. Ein ástæðan fyrir því, að ekki er hægt að rifja upp allt sem tilheyrir fíngerða heiminum, er vanhæfni efnislega líkamans til að ná tökum á slíkri vitneskju. Andinn gæti alls ekki tekið þátt í efnislegri þróun, ef hann gæti geymt með sér minningar um víðáttur fíngerða heimsins. Að sjálfsögðu er stöku sinnum hægt að nema frá fíngerða heiminum glampa hinar eldlegu dýrðar sem efnisheimurinn getur aðeins sárasjaldan skilið. Jafnvel þroskaðir andar geta aðeins stöku sinnum munað tilvist sína í efnisheiminum, og ákaflega sjaldan muna þeir kringumstæður sínar í fíngerða heiminum. Við sálfarir kemur fíngerði líkaminn stundum til baka með vissan skilning á lífi í fíngerða heiminum. En að muna eftir fíngerðum tilverustigum er mjög erfitt, því þau eru ósamrýmanleg jarðneskum aðstæðum.

241. Það má gefa þá skýringu að bókstafirnir þrír AUM merki fortíð, nútíð og framtíð. Þessi skilningur á sinn grundvöll. Grunnurinn er fortíðin, Ljósið er nútíðin, og að nálgast Hið helga er framtíðin. Þeir sem koma með hinar ýmsu túlkanir hafa vissulega í huga að útskýra með sem bestum hætti; en slíkar skýringar eiga oft rætur sínar að rekja til jarðbundins skilnings. Hugsun er óheft af fortíð, nútíð og framtíð; hún er jafn eilíf og óendanleikinn. Til að hægt sé að ræða um óendanleikann þarf að endurskoða allar viðmiðanir; þar af leiðir að hugtökin endanlegt og óendanlegt verða víðtækari. Um óendanleikann gilda engar einstrengingslegar túlkanir, vegna þess að óendanleikinn felur allt í sér.

Þegar við því ræðum um umfang grundvallaratriðanna, skulum við varast að beita jarðneskum mælikvörðum. Við skulum sérstaklega gæta að því að byggja hugtök okkar ekki á hinu endanlega, því að þegar á allt er litið er hið endanlega alls ekki til.

242. Lát hugsun ná gagnlegu flugi. Þessa viðleitni þarf að þjálfa til að hinar miklu fjarlægðir rugli ekki hugsandann. Áður en maðurinn getur séð sjálfan sig sem gest á öllum plánetum, verður hann að venja vitund sína við smæð jarðarinnar. Gerð hafa verið sérstaklega slæm mistök með röngum hugmyndum um jörðina og stöðu hennar í alheiminum. Þetta hefur gert trúarbrögðin torræð, valdið vanþekkingu á málefnum stjórnunar og ótímabæru vandræðaástandi. Því verður hugsunin ekki aðeins að umlykja jörðina, heldur þarf hún einnig að hafa unun af því að svífa til hinna fjarlægu heima.

243. Það sem sagt hefur verið virðist einfalt; hvers vegna er það þá svo sjaldan hagnýtt? Ekki er kennt neitt óskiljanlegt, né mælt fyrir um hreint hugarflökt. Nauðsynlegt er að örva viðleitni raunsannrar hugsunar. En aðeins fáir skilja muninn á óljósu hugarflökti og raunsannri hugsun. Æðri heimurinn skín aðeins í óhagganleika.

Jafn einföld er sú hugmynd að rúmið sé fullmett. Um þetta hefur margt verið skrifað, en þrátt fyrir það eru slíkar upplýsingar flestum algerlega óskiljanlegar.

Nauðsynlegt er að þjálfa hugann.

244. Margt hefur verið gefið í skyn um nauðsyn þess að ávinna sér þolinmæði, en hvar er slíkan prófstein að finna? Gagnlegt er að hefja samræður við þröngsýnan afneitara; lát hann útskýra sín ótrúverðugu undanbrögð; hinn þolinmóði hugsuður vinnur bug á allri fáfræði án þess að hverfa til afneitunar. Í skapandi hugsun sinni gætir hugsuðurinn þess að láta ekki skapraun ná tökum á sér; í kennslustund þolinmæðinnar má ekki láta neitt fara í taugarnar á sér. Lát hinn fáfróða missa stjórn á skapi sínu, því hann hefur engin önnur svör, en reynsluneminn í þolinmæði lítillækkar sig ekki með þeim aðferðum sem hinn fáfróði temur sér. Í skólunum ætti að setja fyrir verkefni í þolinmæði.

Án þolinmæði er ómögulegt að íhuga óendanleikann. Víðfeðm verkefni æðri heimsins fela í sér próf í þolinmæði

245. Hugsuðir verða fyrir margs konar ofsóknum. En lát hina ofsóttu svara: „Þó að þið ofsækið okkur, getur ekkert eytt hugsunum sem við höfum þegar sáð í geiminn.“ Gagnslaust er að gera hugsuðinn útlægan, arfleifð hans er óafmáanleg um alla heimana. Ekki aðeins er hugsun óforgengileg, hún jafnvel magnast í geimnum. Sjálft brotthvarf hugsuðarins frá efnisheiminum opnar aðeins fyrir honum víðara svið hugsunar. Morðingjar og eiturbyrlarar sýna litla skarpskyggni; markmið þeirra er að losa sig við áhrif hugsuðarins, en með verki sínu gera þeir aðeins áhrif hans sterkari.

246. Margir lærisveinar söfnuðust í kringum virtan kennara. Þeir sýndu góðan árangur í starfi sínu þar til sögusagnir bárust til þeirra um annan kennara sem komið hafði fram í fjarlægri borg. Þessar fréttir ollu smátt og smátt efa og skiptum skoðunum meðal lærisveinanna; þær drógu úr athygli lærisveinanna og hindruðu framfarir þeirra.

Dag nokkurn sagði kennarinn: „Ég er á förum upp í fjöllin; á meðan skuluð þið treysta þekkingu ykkar á því sem ég hef kennt ykkur.“ Og kennarinn hélt á brott. Að skömmum tíma liðnum kom til þeirra nýr kennari sem féll þeim ákaflega vel í geð. Loks mælti einn lærisveinanna í þeirri von að geðjast nýja kennaranum: „Þín kennsla er miklu betri og auðskiljanlegri en gamla kennarans okkar!“ Þá tók nýi kennarinn af sér vefjarhöttinn, fletti frá sér klæðum sínum og breytti andlitssvip sínum, og þekktu þá lærisveinarnir aftur sinn fyrri kennara. Lærisveinarnir fóru mjög hjá sér og hvísluðu: „Hvers vegna breyttir þú um útlit?“ Hann mælti til þeirra: „Þið óskuðuð eftir nýjum kennara og betri fræðslu, svo ég varð við óskum ykkar.“ Þannig má sjá í fornum sögnum eiginleika fólks sem eru sameiginlegir öllum tímum.

247. Sækist ekki eftir hinu nýja með því einu að afneita grundvallaratriðum. Skilningur er ráðlegging okkar og fyrirmæli. Skilningur á ekkert sameiginlegt með svikráðum og guðlasti. Þar sem illt orðbragð er viðhaft er þýðingarlaust að leita að sönnum skilningi. Enginn sem vill varðveita fíngert blóm stingur því ofan í malpokann. Hið fíngerða þarfnast gætilegrar meðhöndlunar. Ekki aðeins á hátíðisdögum heldur einnig í daglega lífinu skal gæta þess að fara vel með klæði sín. Menn hugsa vel um föt sín í frítíma sínum, en við vanabundin störf skeyta þeir ekki um þau. Hversu mörg fíngerð klæði verða ekki eyðileggingunni að bráð!

248. Gáleysi leiðir til mistaka. Hvar er hið gamla og hvar er hið nýja? Nauðsynlegt er að sýna aðgæslu.

249. Þið sjáið sjálf hve margir skilja ekki meiningu einfaldra orða. Á þessu stigi verða menn að afsaka þokukennda hugi þeirra og endurtaka orðin, eins og verið sé að tala við heyrnarsljóa einstaklinga. Oft þegar talað er við mann sem heyrir illa, er óljóst hve mörg orð skiljast. Það er erfitt að taka tillit til allra annmarka heyrnar, sjónar og annarra skilningarvita. Haldið samt áfram, vitandi að þó fáir hlustendur heyri og fáir sjái, hafa veggirnir augu og eyru. Haldið því ótrauð fram á við.

250. Þið hafið þegar séð hvernig hægt er að sjá andlitsmyndir frá fyrri jarðvistum með því að beita augunum á sérstakan hátt. Greinilega má sjá hvernig andlit nútímans umbreytist í ímynd liðins tíma. Sveiflutíðni og kristallamyndun gefa til kynna að sérstök gerð orku er að verki. Ekki getur verið um að ræða sjálfssefjun, því enginn sem tekur þátt í tilrauninni veit fyrirfram hvaða form umbreytingin mun taka. Oft hefst ummyndunin ekki með breytingu andlitsdrátta, heldur með smávægilegum breytingum í höfuðbúnaði eða klæðnaði. Sjálf sérkenni andlitsins breytast ómerkjanlega og taka á sig óvænt svipmót. Benda má á að andlitin halda sjaldan núverandi gerð sinni. Meðan á öllum þessum óvæntu myndbreytingum stendur er fyrirfram ákveðinn ásetningur algerlega útilokaður. Hin sársaukafulla þensla augnanna gefur til kynna að ekki er um hugrænt starf að ræða, heldur að æðri orka er að verki í gegnum sjónstöðvarnar. Endurteknar tilraunir af þessu tagi geta skaðað sjónina, samt er efnisleg dulskyggni af þessari gerð ákaflega mikilvæg. Dulskyggni getur átt sér stað undir sefjun, en þá starfar hin æðri orka í gegnum heilann, og alltaf er mögulegt að dáleiðandinn sjálfur beiti sefjun. Það er mun trúverðugara þegar orkan starfar milliliðalaust. Slík milliliðalaus virkni kemur einnig fram í notkun á pendúl lífsins. Sjálfssefjun er sömuleiðis útilokuð. Einlægur rannsakandi veit ekki fyrirfram hver niðurstaðan verður. Oft er hann meira undrandi en aðrir nærstaddir. Í báðum framangreindum tilfellum eru áhorfendur ekki æskilegir. Ekki ætti neitt að vera í námunda sem getur haft áhrif á orkuna.

Slíkar tilraunir eiga rætur að rekja langt aftur í forneskju. Þær hafa að auki komið að gagni við málefni ríkis og dómstóla. Nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir hinum einstæðu notum sem hafa má af slíkum tilraunum með æðri orku. Þær gefa okkur mælitæki á sjúkdóma og truflanir andans, sem og á sjálfa einlægnina — og einnig á haldningu.

251. Ef gerð væri samantekt yfir allar tilraunir með sálarorku , ættum við handbæran heilan fjársjóð aðferða til að færast nær æðri heiminum. Ekkert yfirnáttúrulegt eða myrkt ætti að íþyngja slíkum athugunum. Þessar rannsóknir á hinni göfugu sálarorkuættu að vera eðlilegar, einlægar og nytsamar.

252. Eftirfarandi túlkun á Aum leggjum við einnig fram: Fyrsti stafurinn er grunnurinn; annar stafurinn birtist í fíngerðum orkutegundum; sá þriðji er hið ósegjanlega í eldi og tign. Sérhver túlkun leiðir til hinnar sömu þríeiningar, sem ekki verður hjá komist frekar en sannleikanum.

Einnig er sagt að hin almenna merking orðsins já, sem samþykki, sé hin sama. Orðið má finna á öllum tungum; stundum hljómar það jafnvel á hinu ytra sviði. Við skulum því ekki sökkva okkur um of niður í útskýringar sem oft hefur verið breytt. Aðalatriðið er að kjarni hugtaksins haldist óbrenglaður. Megi stöðugleikinn vera markmið okkar.

253. Á fornum tímum var ístöðuleysi sérstaklega átalið. Menn nefndu það eyðileggingu og fordæmdu það sem hindrun framfara. Litið var á óákveðni sem fáfræði og skort á grunnmenntun. Talið var sjálfgefið að lærisveinn viki aldrei frá hinum sanna grunni og héldi áfram ótrauður við að fullkomna sjálfan sig.

254. Menn litu ekki svo á að viðleitni til sjálfsfullkomnunar væri eigingjörn. Markmið framfara er hin almenna velferð, og í eðli þeirra felst ekki persónulegur ávinningur; sem dæmi má nefna, að allar góðar hugsanir hafa áhrif til góðs um allan heim.

255. Í ýmsum löndum er það til siðs, þegar fólk vill staðfesta samþykki, að það mælir hátíðlega orðið amen. Uppruna margra orða má rekja langt aftur í tímann. Þegar við rannsökum merkingu orðsins amen í grísku, hebresku, egypsku og súmersku, komumst við að lokum að hinni sömu yfirlýsingu hins þríeina tákns.

Við sjáum því að í stað sundrungar kennir þekkingin okkur aðeins einingu. Aðeins hinir illu lítilsvirða og leitast við að valda sundrungu. Allir þeir sem unna þekkingu finna hvarvetna hina gullnu leið til einingar Tignar og Ljóss.

256. Til eru þeir sem er sérstaklega í nöp við staðfestingar og sannanir. Þekkingu þeirra er svo sannarlega ábótavant. Með sanni mætti spyrja: „Höfðu þeir nokkurn tíma vitund, eða eru þeir sprottnir beint frá stigi dýraríkisins?“

Ekki er ólíklegt að þið verðið oft spurð að því hvort vitundin eyðist og verði að engu. Fræ andans er ævarandi, kaleikurinn fyllist smátt og smátt, en ástand vitundarinnar getur verið breytilegt. Meginástæðan er aðgerðaleysi í fíngerða heiminum. Slíkt getur bundið fræ andans og kaleikinn í rammgerða fjötra. Veikri vitund, sem lifir sínu jarðneska lífi án þess að sigrast á hindrunum og starfar ekki, er sérstaklega hætt við slíkum sljóleika. Sjá má hversu slíkar vitundir halda sér fast við fíngerða heiminn; ekki í tvö þúsund ár, heldur miklu lengur myndu þær vilja hlífa sér við nýrri reynslu. Þetta er ein ástæða þess að illviljaðir afneitarar fæðast.

257. Í fíngerða heiminum er mögulegt að haldast við á lægri sviðunum í millibilsástandi öldum saman. Hreint ótrúlegt er hvað sumt fólk getur fundið mörg úrræði; í brjálsemi sinni getur það úthugsað margt sem heilbrigðum manni væri ógerlegt. Í fíngerða heiminum er að finna sérstaka gerð brjálsemi. Undantekningalaust krefst lögmálið þess að tími endurholdgunarinnar sé ákvarðaður, en brjálsemi vitundarinnar getur verið slík að það sem fæðist verður að mestu leyti hrein illska. Brjálæðingarnir sem dvelja í fíngerða heiminum leggja á ráðin um að forðast kallið sem kveður þá til starfa, eins og huglausir hermenn sem skera af sér fingur til að þurfa ekki að berjast. Ógerlegt er að sniðganga lögmálið algerlega, en mögulegt er að dyljast tímabundið í myrkrinu.

258. Sé fræðimönnum sagt frá segulmögnuðu vatni, gera þeir enga athugasemd við orðalagið; en ef þú ræðir um vatn bundið álögum ertu flokkaður með fáfróðum villimönnum. Þó felst munurinn aðeins í nafngiftinni, því að í grundvallaratriðum er orkan sú sama.

Kominn er tími fyrir vísindin að víkka út sjóndeildarhring sinn, óhindruð af lítt hugsuðum orðatiltækjum. Öll átök lífsins stafa einmitt af nafngiftum . Maðurinn ætti strax frá barnæsku að leitast við að skilja raunverulega merkingu orða og atburða.

259. Þið vitið hve stóru hlutverki andleg orka gegnir í fíngerðum fyrirbrigðum. Fólk á erfitt með að gera sér grein fyrir því að sérhver birting hugsunar skilur eftir sig ummerki sem hægt er að greina efnislega. Er ekki stórkostlegt að fylgja flæði hugsunar í sérhverri línu handrits? Ekki er síður athyglisvert að taka eftir því hvernig ein gerð orku getur vakið aðra orku sem liggur eins og lag á yfirborði hlutarins. Með þessum hætti er mögulegt að skilja hversu andrúmsloftið, mettað útfellingum orkunnar, raunbirtist sem greinanlegir kristallar. Sá tími mun koma að hægt verður að sýna fram á að hugsun sé mælanleg.

260. Margar þjáningarfullar skynjanir orsakast af sálrænni spennu andrúmsloftsins. Við eigum ekki aðeins við sjálfan þrýsting þess, heldur einnig raunverulegar sálrænar sveiflur sem valda ekki aðeins geðbrigðum, heldur geta jafnvel haft áhrif á taugastöðvarnar. Erfitt er að ímynda sér hversu andrúmsloftið er mettað andlegum orkutegundum; slík geislun hefur ekki aðeins áhrif á dýralífið, heldur einnig á jurtirnar. Því er óhugsandi að gera grófar efnislegar aðstæður ábyrgar fyrir öllum þessum fyrirbrigðum. Mörg hinna fíngerðari fyrirbrigða af sálrænum toga hafa ekki verið skýrð; því sjálf vitundin er oft frumstæð. Þið hafið oft tekið eftir slíku ósamræmi.

261. Þið hafið séð að ógerlegt er að eyða andlegri orku sem sest hefur á hlut. Þetta eykur ábyrgð mannsins vegna hæfileikans sem hann býr yfir. Frá þessu var sagt til forna, en hinn dulfræðilegi tjáningarmáti hefur torveldað fólki að gera sér grein fyrir mikilvægi áhrifamáttar orkunnar. Hvaða rétt hefur maðurinn til að menga umhverfi sitt með óhreinum hugsunum!

Mikil þörf er á skrifum um gildi grundvallarorkunnar; annars er hætt við að óskýr og óupplýst hugsun myrkvi uppsprettu farsældarinnar. Saga gleymskunnar hefur ekki enn verið rituð. Slíkur annáll um öfugþróun væri gagnlegur. Rannsókn fornra tíma hefur vissulega verið gerð mjög erfið, því margar uppgötvanir bíða afhjúpunar; samt eru til ákveðnar upplýsingar sem eru nú þegar nægilegar til að gera mannkyninu kleift að athuga margar bylgjur gleymsku.

262. Maðurinn skapar bæði gott og illt. Góðar hugsanir og góðviljuð samskipti sameinast og mynda blessunarrík áhrif; en aftur á móti getur snerting hins illa umbreytt aðstæðum í smitandi pestarbæli.

Ræðum ekki vanhugsað um kjarna sálarorkunnar.

263. Þegar tilraunir eru gerðar með andlega orku er ákveðin þreytutilfinning óhjákvæmileg. Slík þreyta gefur aðeins til kynna að orkan sé virk. Það er sorglegt að óvirða þessa orku með því að líta á hana sem lægri gerð efnislegs krafts. Hægt er að rannsaka hana á öllum sviðum og skoða útþenslu hennar í geimnum. Tilraunir sem gerðar eru í háloftunum geta gefið mikilsverðar niðurstöður.

264. Þegar litið er á sögu trúarbragða geta menn séð hvernig mannkynið hefur aftur og aftur náð skilningi á æðri hugtökum til þess eins að gleyma þeim aftur og hafna síðar algerlega því sem áður hafði verið uppgötvað. Sjá má hvernig fólk á fornum tímum öðlaðist skilning á endurholdgunarlögmálinu til þess eins að hafna því í reiðikasti. Ástæða þessarar kirkjulegu höfnunar er skiljanleg — ein stétt var að vernda forréttindi sín, því lögmál tilverunnar bauð að gera alla menn jafn réttháa.

Slíkir hlutir hafa gerst á mismunandi tímabilum, en öldur vitneskju og fáfræði eru alls staðar eins. Þær skapa umrót sem er nauðsynlegt framför vitundarinnar. En sérhver sem sækist eftir þekkingu öðlast frið í anda mitt í stormi og streitu.

Dveljum ekki á stigi fáfræðinnar þegar þekkingin knýr dyra.

265. Þekkingin verður ætíð jákvæð og staðfestandi. Enginn tími er til að fást um höfnun og bönn. Vantrú og villa orsakast af fáfræði. Þekkingin leitar, rannsakar og staðfestir. Þegar hún rekst á hindranir spyr hún fyrst af öllu: „Er þetta ekki aðeins blekking? Er vofa mótsagnanna að koma í ljós?“ Þekkingin getur ekki leitt hjá sér slíka vofu, því rannsakar þekkingin með vinsemd það sem virðist vera mótsögn. Þekkingin leyfir ekki sundurþykkju frammi fyrir æðri heiminum. Skoðanaskipti eru ekki deilur.

266. Svo mikið vægðarleysi og hrottaskap er að finna meðal mannkynsins að ekki er erfitt að komast að niðurstöðu um fáfræðistig þess. Slík fáfræði knýr til þess að hamrað sé á undirstöðuatriðum. Hvað stoðar það manninn að kunna að lesa, ef hann er enn á stigi dýrsins! Dýrin hafa einnig lært að skilja ákveðin merki, en þau eru enn dýr og þyrstir í blóð.

Því er nauðsynlegt að segja frá skömm fáfræðinnar í sem stystu máli.

267. Bænin er upphaf en ekki endir. Venjulega er litið á bæn sem eitthvað afmarkað, en í raun er alls ekki hægt að hafa neitt samneyti við æðri heiminn án þess að afleiðingar fylgi í kjölfarið. Sérhver smávægileg opnun hinna helgu hliða endurnýjar strengi vitundarinnar. Þessi endurnýjun beinist til framtíðar en ekki fortíðar. Þannig er bænin leið til framtíðar. Hafa skal í huga þennan skapandi kraft. Það er ótækt að takmarka sig við ytra form bænarinnar; slík hræsni er hið hættulegasta guðlast. Samt er ógerlegt að viðurkenna mátt samneytisins við æðri heiminn, ef ekki er fyrir hendi þekking á grundvallarorkunni. Því hjálpar þekking á fíngerða heiminum við að byggja upp þrep til æðri heimsins. Fíngerði heimurinn er nú þegar næstum orðinn þekkt hugtak meðal vísindamanna. Þó nöfnin séu mismunandi er markmið leitarinnar hið sama. Truflum ekki fræðimennina sem eru að nálgast hið óþekkta. Okkur er sama hvaða nöfnum þeir nefna neista hins eina ljóss. Þegar þeir þokast nær mun þá gruna að fjölmargar undirgreiningar sé að finna. Frá þeirra sjónarmiði séð hafa þeir rétt fyrir sér, því hin andlega orka birtist í því formi sem hæfir eiginleikunum sem orka rannsakandans býr yfir.

268. Margbreytileiki orkunnar ber vitni um kraft hennar; hún getur ekki legið í dvala. Hún sveiflast og starfar án afláts eins og hinn sanni eldur. Fólk gæti haldið að orka þess sofi rótt, en vegna tengsla hennar við hina æðri orku leyfir frumeðli hennar ekki að hún sé óvirk

269. Allir sem hafa löngun til að rannsaka andlega orku verða að byrja á því að prófa sína eigin andlegu orku. Athuga má við mismunandi tilraunir hvernig eigin orka vinnur. Hver tegund orku býr yfir sínum sérstöku eiginleikum. Rangt er að álíta að þar sem lögmálið er eitt, hljóti sérhvert brot raunbirtingarinnar að vera nákvæmlega eins.

Því fíngerðari sem orkan er, þeim mun illgreinanlegri eru eiginleikar hennar fyrir hina grófgerðu sjón. Því er fyrst af öllu nauðsynlegt að efla hinn grundvallandi eiginleika sem er prófsteinninn. Þessi eiginleiki er hrein hugsun sem á rót sína að rekja til þeirrar löngunar að stefna að óeigingjarnri hjálpsemi. Geislar árangursríks starfs eru bestu ljósberarnir við rannsókn orkunnar. Athyglisgáfan er einnig góð aðstoð við slíkar tilraunir. Allar fyrirfram ákveðnar hugmyndir eru til skaða.

Andleg orka loðir við alla hluti. Þétting hennar er sambærileg við útfellingu úr geimnum, þess vegna er bæði hægt að rannsaka ástand hinnar persónulegu orku og orku heildarinnar. Í þessu skyni er nauðsynlegt að gera rannsóknir með snjó eða regnvatn. Í hinni almennu framvindu rannsóknanna verða til margar nýjar samsetningar.

270. Aðstoð frá fíngerða heiminum og æðri heiminum er einnig gagnleg við tilraunir. Hrein hugsun er trygging fyrir samvinnu. Ekki er þörf á neinu ákalli, því samhljómur hjartans myndar ljósbrú. Þannig er í öllu hægt að finna það sem að mestu gagni kemur. Einstök hugsun um æðri orkuna skapar tækifæri til útþenslu vitundarinnar.

271. Næmni er sérstakur eiginleiki vitundarinnar. Hún er óháð vitsmunum; hún er óháð umhverfinu; hún er óháð lærdómi — hún verður til í híbýlum hjartans. Sá sem hefur öðlast þennan eiginleika getur ekki glatað honum. Fyrir tilstilli andlegrar orku finnur hann tækifæri til athugana jafnvel við óhagstæðustu kringumstæður.

Einkum er athyglisvert að fylgjast með slíku fólki allt frá barnæsku. Það sker sig greinilega úr, og er sem það viti fyrir forlög sín. Stundum opinberast þessi þekking í óvæntum orðum. Stundum má sjá í athöfnum barns hversu ákaft andi þess leitar að ákveðnu marki, en venjulega er slík leit misskilin. Mjög er gert gys að heilögum sérkennileika þess er stefnir til hins æðra. En í framtíðinni munu menn hafa þá í hávegum sem skara fram úr í næmni.

272. Til einskis er að staðhæfa að hin ósýnilega veröld sé ekki til, slíkri vitleysu má líkja við að tilveru hugsana sé hafnað. Hugsunin er einnig ósýnileg, en aðeins hinir fáfróðu afneita starfsemi hugans. Á líkan hátt mætti hafna tilveru allra orkutegunda, því þær eru einnig ósýnilegar. En er hin óséða veröld öllum ósýnileg? Lát afneitarann ekki dæma út frá sjálfum sér. Ef dæmt er eingöngu út frá eigin reynslu skapar það aðeins gróðrarstíu sjálfsþótta.

273. Það gæti virst sem svo að fræðslan sem veitt er vísi aðeins í eina átt, en með því að rekja feril fræðslunnar er hægt að sjá sveigmyndaðan boga hins hækkandi spírals. Sveigjan er til þess að hægt sé að þoka mannkyninu ómerkjanlega áfram. Alveg eins og við getum ekki merkt að grasið vaxi frá andartaki til andartaks, þannig er því einnig háttað um hverja nýja sveigju spíralsins, vitundin greinir hana ekki. Rökhyggja mannsins getur ekki spannað hið eldlega svið; því skyldi aðeins gefa henni það sem henni hæfir og hún getur tekið á móti. Afleiðingar ósambærileikans eru óvætti líkastar, og ekki má varpa slíkum óvætti yfir heiminn vegna eigin fávisku. Samræmi verður að ríkja í byggingunni. Því er það upplýsandi að gera samanburð á þeim þrepum sem fræðslan veitir; þannig fæst mikilvægur stigi til uppgöngu.

274. Ef einhver segir: „Ég hef gert allt sem í mínu valdi stendur,“ takið þá ekki orð hans trúanleg. Hann er að afsaka sig og samtímis að setja sér takmörk. Þegar maðurinn ímyndar sér að allt sé þrotið, þá og einmitt þá glatar hann lyklinum að dyrum frelsisins. Fólk hafnar oft bestu lausninni af fávisku eða leti. Hversu oft höfum við ekki talað um takmarkalausa orku hjartans, en maðurinn sjálfur getur byrgt hana inni og svipt sig besta kostinum. Sú fullyrðing, að öll orka sé þrotin, er í eðli sínu þóttafull. Er það ekki sjálfsvorkunnsemin sem býður manni að gefast upp og þvo hendur sínar af ástandinu? Ósjaldan vorkennir maðurinn sjálfum sér og lokar þar með fyrir aðgang að hinum æðri öflum.

Þegar fólk fær skilning á gagnkvæmu sambandi orkutegundanna mun það uppgötva höfuðvígi síns eigin ósigrandi máttar.

275. Rétt er að veita athygli árásunum sem ára mannsins bægir frá. Fáir gera sér grein fyrir slíkum hugrænum árásum. Venjulega álítur fólk slíkt vera af ófyrirsjáanlegum efnislegum orsökum, en hin þroskaða vitund skynjar jafnvel í svefni hina sönnu orsök. Vitundin er tryggur skjöldur. Áran og vitundin eru varnarvopn mannsins.

276. Eining er orð sem fólk forðast og er hrætt við að nota. Á sama tíma talar það mikið um samúð, en gleymir því að þessi hugtök merkja það sama — ekki er hægt að hugsa sér annað án hins. Sama er að segja um önnur hugtök; fólk vill heldur viðurkenna þau sem bera minnsta ábyrgð. Samúð getur takmarkast við orð, en eining krefst athafna. Sérhver athöfn er hugleysingjanum hræðsluefni. Hann kærir sig ekki um að vita að sérhver samúðarhugsun er máttug athöfn, ef hugsunin er tjáð á réttan hátt. Oft takmarkast samúð við innantóm orð. Í slíkum tilfellum verður hvorki til skapandi hugsun né athöfn. Án hugsunar verður samúð að engu, og athafnaleysi þurrkar út einingu. Maðurinn hræðist ábyrgð, og þannig verður hann hugleysinu að bráð.

277. Eindir hinnar æðri orku, sem er að finna í lífkerfi allra manna, eru á sama hátt til í öðrum ríkjum náttúrunnar. Dýr og plöntur vita einnig hvernig á að viðhalda orkueindum í fíngerða heiminum. Þetta á sérstaklega við um viss dýr sem lifðu í nábýli manna; þau viðhalda ákveðnum tengslum við lífkerfi íbúa fíngerða heimsins. Þegar ég ráðlegg að menn sýni dýrum hlýhug, hef ég í huga að betra er að hitta fyrir smáa vini en fjendur. Vissulega ætti ætíð að hafa rétt viðhorf, að öðrum kosti gæti maðurinn orðið fyrir skaðlegum áhrifum frá dýrum.

Sambærilega, þegar ég mæli með jurtafæðu, er ég að vara við því að næra fíngerða líkamann á blóði. Kjarni blóðsins smýgur um allan líkamann og jafnvel inn í fíngerða líkamann. Blóð er svo óæskilegt í fæðunni að við leyfum aðeins í sérstökum undantekningatilfellum neyslu á kjöti sem hefur verið þurrkað í sólinni. Einnig er mögulegt að nota þá hluta dýrsins þar sem blóðið hefur verið algerlega ummyndað. Þannig hefur jurtafæða einnig gildi fyrir lífið í fíngerða heiminum.

278. Oft er spurt að því hvort dýrin haldi útliti sínu í fíngerða heiminum. Það er sjaldgæft, vegna þess að fjarvera vitundarinnar gerir þau formlaus; stundum eru þau þokukenndar útlínur eins og orkustraumar, en oftast eru þau ekki greinanleg. Í raun og veru tilheyrir raunbirting dýraforma lægri sviðsstigum fíngerða heimsins. Slíkar ógreinilegar myndir geta valdið ótta vegna furðulegs útlits þeirra. Ég lít svo á að fíngerði líkami mannsins ætti ekki að dvelja á þessum lágu sviðum, en í vitund sinni líkist fólk oft dýrum.

279. Fíngerði heimurinn er fullur af frumgerðum dýra, en aðeins sterk vitund getur greint þær. Afbrigði slíkra dýramynda eru óteljandi, allt frá hinum flóknustu til sora hinna rotnandi leyfa. Ekki skyldi ætla að íbúar fíngerða heimsins búi allir yfir sömu sjónhæfninni.

Góð skýr sjón er afleiðing af skýrleika vitundarinnar, því er það ætíð ráðlegging Okkar að aðgæsla sé viðhöfð varðandi skýra vitund. Til forna var sagt að ekkert gott væri að finna í gruggugu vatni.

280. Það er ljóst að finna má menn af mjög ólíkum þroska samtímis á jörðinni — allt frá frumstæðum villimönnum til háþróaðra hugsuða. Sumir munu halda því fram að jörðin sé enn á stigi fornsteinaldar, en aðrir munu sýna fram á að jörðin sé þegar kominn inn í hina gullnu öld. Sérhver lætur leiðast af því sem honum virðist augljóst. Sambærilega, þegar rætt er um uppruna og þróun alheimsins, er óþarft að verða undrandi á nálægð svo ólíkra tímabila. Alheimurinn er svo margbreytilegur í öllum sínum mikla óendanleika.

281. Taka verður tillit til andlegrar orku fjölmennis. Unnt er að ganga úr skugga um að kraftaukningin er í beinu hlutfalli við fjöldann; í raun þrefaldast krafturinn þegar tveir sameinast í hugsun. En ekki má gleyma því að sérhver andstæð hugsun drekkur í sig mikið af orkunni; það er ástæðan fyrir því hversu sjaldgæft er að verða vitni að vel heppnaðri einingu. Einn hestur getur vissulega stöðvað heila hestalest og komið í veg fyrir að fullkomnun náist. Enn á ný er ofinn vefnaður hinna bestu orkutegunda, en mannkynið mun sóa árangrinum sem fyrirsjáanlegur er. Auðvelt er að skilja gildi sameinaðrar orku. Hér er ekki um neitt óraunverulegt að ræða heldur raunverulega efnislega staðreynd.

Fólk vill ná valdi á og eigna sér alla hluti, samt er máttur hugans fyrir þeim draumórar einir! Þannig glatast sannir fjársjóðir.

282. Lygarinn er þess jafnan fullviss að lygin verði ekki uppgötvuð. Morðinginn trúir því að glæpnum verði haldið leyndum. Stundum heyrir maður að sefjun og andleg orka sé notuð í réttarsölum, en slíkar tilraunir eru einangruð fyrirbrigði, og enginn skilningur vaknar á hinum eðlilegu möguleikum sem til eru í baráttunni gegn hinu illa.

283. Berjast skal gegn hinu illa, því það er raunbirting óskapnaðarins. Heilu löndin verjast ágangi sjávar sem annars myndi færa þau í kaf til frambúðar. Með sameinuðu átaki heillar þjóðar eru byggðir upp miklir varnargarðar. Óskapnaðurinn getur á sama hátt gleypt í sig auðlegð þjóðanna. Nauðsynlegt er að menn skilji að öldur óskapnaðarins eru að brjóta sér leið inn í vitund mannkynsins. Framþróun er andstæða óskapnaðarins. Við skulum ekki vera ónæm fyrir drunum óskapnaðarins!

284. Aðeins með erfiðismunum dirfist fólk að mæla fram hið einfalda lögmál: „Blessaðir séu erfiðleikarnir, því þeirra vegna vöxum við.“ Nógu fúslega viðurkenna menn nauðsyn prófa, svo lengi sem menn þurfa ekki gangast undir þau. Enginn er fús til að flýta framförum sínum með því að ganga í gegnum erfiðleika.

Samt finnst mönnum enn illþolanlegra að heyra um gagnsemi þjáninga. Ástæðan er ekki ótti við þjáningar eða óþægindi, heldur geta menn ekki gert sér í hugarlund líf sem nær út fyrir jarðneska tilveru. Þeir eru fúsir til að þola óþægindi hvaða næturstaðar sem er vegna hátíða morgundagsins, en þeir eru ófúsir að lifa hinu jarðneska lífi með hliðsjón af óendanleikanum.

Af öllu því sem hin hugsandi lífvera gerir er óttinn við óendanleikann sú vanvirða sem síst er við hæfi.

285. Hvar er hægt að ímynda sér hugsun um óendanleikann ef maðurinn takmarkar sig við jarðneska tilveru? Enginn hjálpar barninu að líta með fögnuði til framtíðar, þess vegna er litið á vinnuna sem böl. Að vísu hefur meðalævi fólks verið lengd, en hvaða gildi hefur slík lenging ef menn halda áfram að virða tign óendanleikans að vettugi!

286. Önnur takmörkun sem torveldar framför mannsins er sú hversu litla athygli hann veitir því sem er að gerast allt í kringum hann. Hann þráir það sem tilheyrir öðrum; aðeins eitthvað sem er framandi vekur athygli hans; en hið nánasta og dýrmætasta vekur enga athygli hans og er ekki tilefni til athugunar. Svo rangt gildismat er afleiðing fáfræði. Þetta ástand er mjög algengt, en hin þroskaða vitund verður að leiðrétta svo takmarkaða hugsun.

287. Sálfræði er vísindi hugans. Rannsókn hugsana er ekki hægt að takmarka við einn mann eða eina manngerð. Samanburður á vitund manna af mismunandi þjóðerni mun leiða í ljós óvæntar niðurstöður. Sjá má hversu hugræn geta er óháð hinni ytri menningu. Einnig geta menn fullvissað sig um að ríkidæmi er ekki í neinum tengslum við hugsun. Að því er virðist stuðla erfiðar kringumstæður að djúpstæðri hugsun. Fátækt auðveldar hreinsun vitundarinnar.

Sagan sýnir okkur hvernig hreiður sannra hugsana hafa orðið til, þess vegna má líta á vísindi hugsunar sem vísindi tilvistar. Það er ekki við hæfi að flækja rannsókn hugsunar með nokkurs konar takmörkunum. Að auki, þessi vísindi verða alltaf að vera lifandi, því hugsun lifir og er ævarandi. Þannig mun framsækin rannsókn hugsunar leiða til skilnings á svonefndum dulrænum fyrirbrigðum, en þau eru ekkert annað en óþekkt æðri orka í sínum ýmsu formum.

288. Illviljaðar bænir og sjálfsmeðaumkun eru algerlega óleyfilegar. Þegar maðurinn hrópar upp — hvers vegna? — er hann hvorki að hugsa um fortíð né framtíð. Hann einangrar sig frá hinum æðri öflum eins og hann sé að ásaka þau. Vei þeim manni sem nauðar í hinum æðri öflum til að fá þau til að skaða aðra. Bæði hégómleiki og fáfræði enduróma þegar maðurinn reynir að beina hinum æðri öflum inn á braut haturs og illsku í stað þess að hann sjálfur sameinist þeim.

289. Gerðar hafa verið furðulegar tilraunir til að rannsaka hugsanaflutning úr fjarlægð. Menn hafa tengt tvær persónur saman með því að binda um úlnlið þeirra vaxborinn silkiþráð. Þeir athuguðu vandlega hreinleika silkisins og eiginleika vaxins. Þeir brutu heilann mikið um það hvernig best væri að einangra þráðinn frá jörðinni. En þeir voru fjarri því að muna að andleg orka þarf hvorki á þræði né vaxi að halda. Menn álykta að hjálpartækin hafi raunverulega eitthvað með árangur að gera, en sá sem fyrst fann upp á þessari aðferð leit einfaldlega á þráðinn sem tákn til að beina athyglinni að.

290. Þar eð hugsanaflutningur um miklar fjarlægðir er staðreynd, hlýtur að vera hægt að stöðva eða trufla slíkar hugsanir í geimnum. Menn skyldu einmitt hafa þessa möguleika ríkt í huga. Auk truflana af völdum aðvífandi hugsana, bæði í jarðneska og fíngerða heiminum, eru til sérstakar kringumstæður sem geta truflað hugsanasendingar. Svipuð árísk útgeislun getur auðveldað móttöku hugsana; þegar fólk hefur verið lengi í sambúð eða skrifast á getur það tengst hugsanastraumi. Ef þannig fólk verður hættulegt, er nauðsynlegt að rjúfa tengsl áranna. Slíkt má ekki gerast án undirbúnings, því þá getur það skaðað heilsuna. Það verður að gerast á eðlilegan hátt.

291. Vissulega verður að eyða öllu ójafnvægi á eðlilegan og óþvingaðan hátt. Ekki er hægt að koma í veg fyrir ástríðufullt ójafnvægi með skipun eða þvingun. Stöðug viðleitni byggir trausta brú á grunni hreinnar vitundar. Menn verða að koma auga á gagnsemina, og sönn þróun mun verða að staðreynd. En án skilnings er ógerlegt að sigrast á lágstæðum jarðneskum hvötum.

Hjúpurinn næst jörðu er þéttur af ástríðum mannkynsins. Enginn ytri kraftur mun eyða þessari þoku sem mannkynið sjálft hefur búið til. Samhljómur, litur og hinar bestu hugsanir mynda móteitur gegn smiti óskapnaðarins.

292. Á þeim tímum, þegar straumar eru sérstaklega stríðir, verður fræðarinn að minna á allar þær kringumstæður þar sem þörf er á athöfn til mótvægis. Ekki skyldi líta svo á að slíkar endurtekningar séu vegna gleymsku manna, þær eru aðeins til eflingar þegar atburðir gerast svo margbrotnir að það virðist sem skýrleiki leiðarinnar tapist.

Atburðir gerast mjög margslungnir, þegar hinu skapaða og óskapnaðinum, eða ljósi og myrkri, slær saman. Við slík gífurleg átök verða mörg millistig áberandi, þar af leiðir að augljóslega verður margt illskiljanlegt fyrir þeim sem ekki geta greint nákvæmlega hin fíngerðu blæbrigði. Í regnboganum eru mörg og mismunandi ljósbrot.

293. Ef þau efni sem falla á borgir utan úr geimnum væru rannsökuð, myndi eitthvað sem líkist illskuhvata finnast á meðal hinna eitruðu efna. Þegar menn rannsaka vandlega þetta eitur, fá þeir fullvissu fyrir því að það sé upprunnið frá útöndun hins illa. Án efa ber illsku-mettuð útöndun með sér skaðleg áhrif. Ef eitur getur orðið til í lífkerfinu vegna skapillsku, og ef hægt er að gera munnvatn eitrað, hlýtur andardrátturinn einnig að geta orðið eiturberi. Nauðsynlegt er að áætla hve mikilli illsku er andað út og hve margbreytileg illska þjappast saman í hinum nýju eiturtegundum sem er að finna í miklum mannfjölda. Við þetta bætist margs konar ódaunn af rotnandi matarleifum og alls kyns rusli sem er að finna á víð og dreif um stræti borganna. Tími er kominn til að huga að hreinsun bakgarðanna. Hreinleiki er nauðsynlegur utan dyra sem og í andardrætti manna. Illskuhvatinn, sem geðillt fólk andar frá sér, er sambærilegur við óþverra eða skammarlegan úrgang. Það er áríðandi að fólk sé meðvitað um þá staðreynd að allur óþverri skaðar þá sem nálægir eru. Óþverri siðspillingar er verri en nokkur úrgangsefni.

294. Ekkert getur réttlætt sjálfskapaða eitrun , hún er sambærileg við morð eða sjálfsmorð. Jafnvel óþroskað fólk skynjar þegar slíkur eiturberi nálgast. Þjáning, óróleiki og ótti fylgja honum. Margir efnislegir sjúkdómar brjótast út sem afleiðing af því að illskuhvati smýgur inn — rétt eins og eldibrandur hafi náð að brjótast inn.

295. Hraði hugsanaflutnings milli fjarlægra staða er ótrúlegur. En til eru aðstæður sem hindra jafnvel þessa leifturhröðu orku; það er andrúmsloft mengað eitri illskunnar. Athuganir á hugsun geta leitt í ljós athyglisverðar niðurstöður sem varða bæði hið efnislega og hið hugræna. Sjá má hvernig illar hugsanir leiða af sér illskuhvata, sem er efnislegt fyrirbrigði; þetta sama efni tengist einnig hugrænum sendingum og getur jafnvel hindrað skjóta viðtöku sendinganna. Þannig getur illskuhvatinn dregið úr áhrifum hugsana stig af stigi. Gerið ykkur grein fyrir því að illskuhvatinn orsakast af sjálfselsku, og verkun hans nær út til fjöldans. Þetta þýðir að sjálfselska er glæpsamleg, ekki aðeins gagnvart hinum eigingjarna manni sjálfum, heldur einnig gagnvart fólki almennt.

Margar hinna gagnlegustu athugana verða til þegar gerðar eru tilraunir með hugsun. Einmitt slíkar íhuganir fela í sér andstæðu sjálfselskunnar. Sérhver þjáning hefur framför í för með sér.

296. Til eru margar frumstæðar aðferðir til að bæta minnið. Lesa má um þjóðhöfðingja einn sem beygði höfuð sitt niður að hnjám í þeirri von að breyting á hringrás blóðsins myndi vekja minni hans úr dvala. Þekkt er að einbúar berja sér á brjóst til að örva svörun kaleiksins . Af mörgum dæmum má ljóst vera að hringrás blóðsins tengist sálrænni starfsemi. Því er mjög nauðsynlegt að virða vísindin sem rannsaka hina efnislegu hlið lífsins en leiða á sama tíma í ljós nýtt andlegt samband sem greypt er í alla tilveruna.

297. Gott hljóðfæri sýnir auðveldlega nýja eiginleika við hvert próf. Sannlega, allt sem af hagleik er gert þolir hvaða prófraun sem er. Hvert próf leiðir í ljós nýjar hliðar sem ekki yrði tekið eftir að öðrum kosti. Hver sá sem óttast prófraun er fáfróður hugleysingi. Þegar maðurinn er reiðubúinn í hjarta sínu að ganga í gegnum alla lífsreynslu, getur hann farið að hugsa um framfarir; hann getur greint á milli skaða og gagns.

Mikil gleði er að helga sig því sem er öllum til góðs, ekki aðeins í hugsun heldur í meðvitaðri framför!

298. Við minnumst oft á lækna og vísindamenn, en það má ekki líta svo á að ekki ætti einnig að minnast á aðrar starfsgreinar þegar rætt er um æðri heiminn. Geta lögfræðingar og dómarar beitt jarðneskum lögum, ef þeir gera sér enga grein fyrir lögum alheimsins? Hvernig geta þeir komið á jarðneskum lögum án þess að leiða hugann að alheimslegu réttlæti? Það er ekki hægt að einangra jörðina frá öllum heimunum; nauðsynlegt er að skilja samverkun hins jarðneska heims og fíngerða heimsins í þeim tilgangi að ávinna sér rétt til að dæma framferði manna. Rangt er að takmarka sig við fyrri tíma ómarkvissar ákvarðanir sem eru óviðeigandi við núverandi aðstæður. Hvert tímaskeið býr yfir sínum sérkennum, og án þess að hafa skýra yfirsýn yfir þróunarstöðuna mun réttinum skeika. Sannlega, dómarinn tekur á sig mikla ábyrgð þegar hann stendur við stjórnvöl hins alheimslega réttlætis.

299. Á sama hátt verða arkitektar að auðga vitund sína með andagift frá fjárhirslum hinna alheimslegu vitsmuna. Stíll hvers tíma mótast af lífi sem borið er á vængjum þekkingar. Hversu glæstar eru ekki þær byggingar sem mótaðar eru af hugsun fegurðar! Í uppbyggjandi innblæstri þeirra má sjá framþróun heilla tímaskeiða. Gæði bygginganna skynjast í styrkleika byggingarefnanna. Byggingameistarinn verður einnig að þekkja það efni sem endist. Getur hann afneitað æðri heiminum

300. Það væri að bera í bakkafullan lækinn að tala við skáld, tónlistarmenn, myndlistarmenn, myndhöggvara og söngvara um gildi þess að sækjast eftir æðri heiminum vegna þess að fegurðartjáning þeirra byggist á innblæstri. En hver getur skilgreint markalínuna á milli innblásturs og Helgivalds-innblásturs? Slíka markalínu er ekki hægt að draga. Öll andagift ber með sér einhvern vott Helgivalds-innblásturs. Aðeins hjartað sjálft getur ákvarðað hversu háleitur hann er. Hinn sanni þátttakandi fegurðar getur skynjað hið leiðbeinandi lögmál sem vakir yfir jarðneskri tjáningu. Því er engin þörf á að sannfæra þjóna fegurðarinnar um háleita tinda hennar.

Sá sem enga hrifningu finnur við þann skilning, að hann skapi fegurð, sáir engum fræjum í akur sköpunarinnar.

301. Né heldur geta önnur starfssvið mannkynsins hafnað hinu æðra lögmáli. Ef sá sem yrkir jörðina er aðeins þræll sinna daglegu starfa, mun vinna hans aldrei verða upphafin. Öll störf búa yfir eigin skapandi sviði. Jarðneskar hugsanir binda manninn við jarðnesk takmörk, en í þróun felst hið æðra lögmál.

Það væri gagnlegt að skrifa bækur um margvíslega þætti allra starfa. Þar ætti að bera saman ánauðuga og takmarkaða vinnu við óbundið skapandi starf. Nauðsynlegt er að sýna með vísindalegum hætti fram á þá möguleika sem hugsanlegir eru með endursköpun á eðli og eiginleikum vinnunnar. Fólk sem er þjakað og þrúgað af daglegum vanastörfum missir sjónar á sjóndeildarhringnum. Augu mannsins geta heldur ekki aðlagast skærri birtu ljóssins á svipstundu. Látið vísindin aðstoða á allan hátt við að víkka út sjónarsvið þekkingar og reynslu.

302. Í smáatriðum daglegs lífs má sjá hversu margar kosmískar sveiflur snerta jörðina. Aðeins hinir fáfróðu afneita tíðum ferðum voldugra strauma um geiminn. Hægt er að segja fyrir um atburði, en einnig er mikilvægt að sjá samhengi atburða og sálrænna og efnislegra fyrirbrigða. Mögulegt er með einskærri athugun á náttúrunni, án hjálpar stjörnuspekinnar, að gera samanburð á efnislegum fyrirbrigðum og atburðum samtímans.

Mannkynið skapar fleira en margur hyggur.

303. Segið mönnunum: „Eyðið ekki orku ykkar; óánægja, efi, sjálfsvorkunn, allt þetta gengur á forða sálarorkunnar.“ Hve hræðileg sjón er að sjá takmarkað og nauðugt strit! Bera skyldi saman ávexti starfs sem er opið og lýsandi við afrakstur stritsins sem hjúpað er hulu manns sem rænt hefur sjálfan sig vinnugleðinni.

Ég álít að vísindin ættu einnig að veita aðstoð við þetta verkefni. Nú þegar eru til tæki til að mæla blóðþrýsting, og það munu einnig verða til tæki til að gera samanburð á ástandi lífkerfisins í þrúguðu og upphöfnu ástandi. Hægt er að sýna fram á að maður, sem er ósnortinn af áhrifum hinna þriggja ofangreindra eitursnáka, vinnur starf sitt tíu sinnum betur en ella; að auki býr hann yfir ónæmi gegn öllum sjúkdómum. Þannig er aftur á skýran hátt hægt að sjá að hið andlega eðli ræður ríkjum yfir hinu efnislega.

Það er greinilegt, sérstaklega nú á tímum, hversu miklum skaða mannkynið veldur sjálfu sér. Sérhver hugsun er annað hvort sem hleðslusteinn í bygginguna eða eitur í hjartanu. Ekki skyldi ætla að við höfum neitt nýtt í huga þegar við ræðum um sjálfseitrun — þau sannindi eru jafngömul heiminum! En þegar skipið er að sigla í strand, þarf að stefna saman öllum kröftum til hins sameiginlega verkefnis.

304. Jarðneskar áhyggjur eru sem fallandi steinar í fjallshlíð. Því neðar sem þeir falla þeim mun ónotalegri verða áhrif þeirra. Væri ekki betra að klífa upp á tindinn þar sem engar skriður er að finna? Uppgangan umbreytir einnig viðhorfi mannsins til jarðneskra áhyggna. Jafnvel þó þær hverfi ekki hefur merking þeirra breyst.

Þannig má sjá hve tindurinn hefur marga kosti umfram gilskorninginn.

305. Haldning og sjálfseitrun eru náskyld. Bæði eru jafn lítt þekkt meðal almennings. Þegar sjálfseitrun á sér stað er haldning sérstaklega auðveld, en í ástandi haldningar er sjálfseitrun óumflýjanleg um síðir; slík eitrun er óafmáanleg. Sumt fólk heldur því fram að heilsan versni ekki heldur batni jafnvel við haldningu. Slíkt er mikill misskilningur, það sem virðist vera góð heilsa er aðeins afleiðing taugaspennu. Það sem meira er, innrás utanaðkomandi orku opnar óhjákvæmilega inngönguleið fyrir margs konar sýkingar. Haldning er ekki dulargáfa, en hún hefur áhrif á allt lífkerfið. Við skulum taka það skýrt fram að haldning er ekki aðeins sálrænn sjúkdómur, heldur einnig vísbending um að allt lífkerfið sé sýkt. Margar farsóttir eiga rót sína að rekja til haldningar. Hin myrka haldningarvera ber vissulega enga umhyggju fyrir heilsu fórnarlambs síns. Sérhver sjúkdómur er upplausnarkraftur sem fellur hinum myrku öflum vel. Tvær gerðir sálrænna orkutegunda geta ekki lifað lengi í sambýli. Öðru hverju kann haldningin að víkja frá um stundarsakir; slíka aðferð nota haldningaverurnar ef þær telja fórnarlömb sín einhvers virði.

306. Öflug viðleitni og þrá til æðri heimsins er besta hjálpin gegn haldningu. Hugleiðing um æðri heiminn hefur reynst vera besta móteitrið. Háleitar hugsanir hafa ekki aðeins áhrif á efni tauganna, þær hreinsa einnig blóðið. Sérlega fræðandi eru rannsóknir á samsetningu blóðsins við mismunandi hugsanir sjúklingsins.

307. Andrúmsloftið er sannarlega þrúgandi. Við tökum eftir því að sviðið næst jörðinni hefur þést. Orsakirnar eru margar, en óhugsandi er að átökin hafi ekki einhverjar afleiðingar. Því er nauðsynlegt að gæta heilsunnar; í raun er nauðsynlegt að hyggja vel að öllum hlutum.

Þegar ég ræði um einingu, hef ég ekki aðeins í huga andlega nauðsyn, heldur einnig líkamlega heilsu. Fólk kýs að vera án vitneskju um hið síðarnefnda, en harmar síðar hinar sorglegu afleiðingar.

308. Í afturbata má stöku sinnum sjá að eitthvað hindrar framför. Ætla mætti að sjúklingurinn sjálfur hindri starf lífkerfisins með neikvæðri afstöðu, en mögulegt er að fullvissa sig um að aðrar orsakir utan áhrifasviðs mannsins eru fyrir hendi. Straumar úr umhverfinu geta haft sterk áhrif á allar verkanir. Í sjúkrahúsum, þar sem hægt er að gera athuganir á mörgum einstaklingum, ættu sérfræðingar að rannsaka ástæður mismunandi svarana við sama lyfi. Margar vísbendingar um þetta er að finna í ytri aðstæðum. Ekki skyldi ætla að blár og heiður himinn hljóti að vera vísbending um gagnlega strauma; það má vera að þungbúinn og drungalegur himinn beri með sér betri strauma.

Lítt er skeytt um áhrif úr geimnum og lítill gaumur gefinn hinum ýmsu geðbrigðum manna. Ekki er hægt að segja að allt orsakist af hugsunum sem fylla rúmið. Hinar fíngerðu efnabreytingar fjarlægra veralda koma einnig við sögu; slíkir straumar komast í snertingu við hin lægri yfirjarðnesku svið. Hægt er að gera sér í hugarlund þær samsetningar sem það veldur! Einnig að þessu leyti skeytir maðurinn of lítið um náunga sinn.

309. Sjáið þróun vísindanna síðustu hálfa öldina; framþróun þekkingarinnar er ótrúleg. Skólarnir ættu að sýna vísindin eins og þau voru fyrir fimmtíu árum og eins og þau eru nú. Svo áhrifamikill samanburður getur opnað augu manna fyrir möguleikum framtíðarinnar. Enginn ætti að vera svo formyrkvaður að vilja hindra vöxt þekkingar. Sá sem ofsækir hefur ekki í sér mennskar taugar. Við munum ekki hætta að endurtaka þessa ákæru á meðan slík ill hugsun er við líði.

Slík áminning er ekki síður tímabær af þeirri ástæðu að vísindin hafa ekki, þrátt fyrir hraðan vöxt sinn, áorkað einum tíunda af því sem þeim var ætlað á þessu tímabili. Tregðu mannkynsins má um kenna að miklu leyti. En þrátt fyrir það er illt að sjá að hinir fremstu meðal vísindamanna eru lítils metnir. Menn vilja rannsaka geiminn, kanna lofthjúpinn, gera athuganir með sjónaukum og rannsaka stjörnurnar — en allt er þetta bundið sem í vítahring, vegna þess að ekki er búið að uppgötva sálarorkuna. Án hennar er hin djarfasta flugferð aðeins sem barnagaman. Án sálarorkunnar verður erfitt að rata um stigu geimsins.

Það sama er að segja um öll svið vísindanna. Það er engin skynsemi í því að hafa að engu hina æðri orku. Alveg eins og á tímum trúarbragðastyrjalda og ofsókna verða þeir sem búa yfir djarfri og næmri skynjun að dyljast eins og gullgerðarmennirnir fyrr á tímum. Svo skammarlegt ástand er óþolandi.

310. Ekki má líta svo á að eftirhreytur rannsóknarréttarins séu ekki starfandi á okkar tímum. Því miður finnur hann sér starfsvettvang á mörgum sviðum. Mörg svið lífsins eru undir þrýstingi rannsóknarréttarins. Sannarlega veikir þetta myrka fyrirbrigði hinar bestu framkvæmdir. Myrkrið býr um sig í höllum sem og hreysum.

Við skulum ekki láta sefjast af þeirri hugmynd að einhverjir snilldarhugsuðir leysi vandann fyrir alla. Mannkyninu ber skylda til að hugsa; það verður að berjast í sameiningu fyrir markmiðum sínum. Það er ekki hægt að leyfa óskapnaði fáfræðinnar að brjótast inn í glysklæðum og gera gys að þekkingunni.

311. Í ýmsum löndum er komið á fót stofnunum til að rannsaka ástand andrúmsloftsins. Veðurfræðilegar athuganir í fjarlægum löndum hafa vissulega mikið gildi.

Með sömu nákvæmni ætti að samræma athuganir á andlegri orku í mismunandi löndum. Einstöku sinnum má sjá í löndum, sem liggja fjarri hvert öðru, að andlegar öldur blossa upp samtímis, eins og endurvarp einhverra æðri orsaka. Á sama hátt má sjá andlega lægð koma fram hjá mjög ólíkum þjóðum. Slík fjöldaáhrif verður að rannsaka. En engar stofnanir eru til sem gætu tekið að sér svo mikilvægt verkefni. Ef til vill má finna einstaklinga sem skilja mikilvægi slíks samanburðar, en þar sem athuganir þeirra eru ósamhæfðar leiða þær aðeins til ringulreiðar og efasemda. Til eru félög sem virðast helga sig hinni æðri visku, en í þeim eru engar deildir sem sinna vísindarannsóknum.

Samvinna ætti að vera milli allra þjóða um vandlega athugun og samanburð á raunbirtingum sálarorkunnar. Algildi athugananna mundi sýna fram á einingu hinnar æðri orku. Aðeins með slíkum athugunum er mögulegt að öðlast skýra hugmynd um æðri heiminn eftir náttúrulegum leiðum.

Hvaða tunga, hvaða orð, geta fært mönnum skilning á því í hverju hin sanna framför þeirra liggur!

312. Tímarnir eru sannarlega ógnvænlegir, samt skynjar meirihluti manna ekki orsakir þess. Það ætti að blása í alla lúðra og tilkynna — Harmagedón! En fólk mun aðeins spyrja; „Hvað kostar kílóið af Harmagedón?“ Aldrei áður hafa menn ruglað eins saman hinu léttvæga og hinu mikilvæga. Betra væri, ef fólk skilur ekki, að það láti að minnsta kosti hjá líða að blanda sér í bardagann, því með slíku gerir það beinustu leiðirnar ógreiðfærar.

313. Mikið er um vanþakklæti . Ég ráðlegg ykkur að birgja ykkur upp af þolinmæði gegn vanþakklæti og fávisku. Ókunnugir eru oft tillitssamari, því er flokkun Okkar á fólki fyrst og fremst byggð á þakklátssemi.

314. Allir geta séð merki um hina æðri orku hvar sem er og hvenær sem er. Beita þarf athyglinni og skrifa minnispunkta um það sem gerist. Þeir þurfa ekki að vera ítarlegir, og vissulega má finna meðal þeirra ýmsa sem að engu gagni koma, en slíkt skiptir ekki máli. Skrifaðar heimildir hafa mjög mikla þýðingu, vegna þess að raunbirting orkunnar gleymist furðufljótt. Daglega gerist eitthvað óvenjulegt. Ekki skyldi ætla að eingöngu áberandi fyrirbrigði hafi eitthvert gildi; með því að öðlast skilning á hugmynd eða finna ákveðnar gagnlegar blaðsíður í bók má stundum sýna fram á mjög mikilvæg dæmi um hvernig orkan vinnur. Leið athyglinnar gefur einnig þolinmæði sem er ómissandi eiginleiki fyrir þann sem rannsakar.

315. Þið stundið bréfaskriftir til ýmissa landa. Ef vinir ykkar skrá hjá sér slíkar athugasemdir um andlega orku er hægt að gera mikilvægan samanburð, ekki aðeins á staðreyndunum sem slíkum, heldur einnig á einstaklingsbundnum viðhorfum gagnvart þeim. Að auki gefa loftslag og staðbundnir atburðir óhjákvæmilega sérstakan blæ. Með slíkum skrifum er hægt að skoða breytilegar aðstæður lífsins í heild sinni. Stöðugleiki einbeittrar athygli gerir athugunina dýpri.

316. Sú hugmynd er vel til fundin að skrifa hjá sér minnispunkta um hinar ýmsu reglugerðir og stofnanir sem eru mannkyninu gagnlegar . Þróunin þarf á nýjum formum að halda á öllum sviðum. Það ætti að vera hægt að draga gagnlegar ályktanir af kringumstæðum sem þegar eru fastmótaðar. Heimur þekkingarinnar er stöðugt að víkka út. Ný gagnkvæm tengsl eru að myndast milli hinna ýmsu sviða vísindanna. Nú hefur verið sannað að margt af því, sem áður virtist aðgreint, á sér sameiginlega rót. Þörfin fyrir nýja samvinnu milli mismunandi sviða er augljós. Nauðsynlegt er að skoða vandlega hinar fyrri aðgreiningar og setja í stað þeirra aðrar sem eru betur við hæfi. Þörf fyrir slíkt er á öllum sviðum lífsins — allt frá heimspeki og trú til hagnýtra raunvísinda.

Þegar ég nota orðið hagnýtur, á ég ekki við eitthvað sem er hentugt, heldur það sem kemur að gagni. Gagnsemi er vissulega víðs fjarri hentugleika. Sú hæfni, að sjá hve hið gagnlega er langt hafið yfir hið vélræna viðhorf til lífsins, gerir kleift að skilja hve mikla þörf mannkynið hefur fyrir endurnýjun vegna þróunarinnar.

Ekki ætti að láta það á sig fá þó svo að vissar þarfar stofnanir öðlist ekki viðurkenningu nú þegar. Lát hugsun starfa í sífellu. Fólk nær ekki að fylgja eftir flugi hugsunar, samt er það hugsun sem þrátt fyrir allt leiðir heiminn.

317. Spyrja má: „Hvert er sambandið á milli Aum og gagnlegra stofnana?“ Bæði eru þau tjáning samræmis, því ekki er mögulegt að aðgreina háleit hugtök. Aðeins fordómar eru svo blindir að sjá ekki þær brautir sem leiða til einingar.

318. Stundum er fólk svo takmörkum háð að því tekst að gera alla hluti einskis verða. Fyrir því er hið æðsta samneyti aðeins eitthvað sem hægt er að græða á! Viðleitninni hrakar vegna alls kyns hjátrúar. Slík sýking grefur um sig hjá hinu ólíkasta fólki.

Sagt hefur verið um Miðveginn eða Hinn gullna veg: „Réttara er að kalla hann stíg, svo þröngt er skarðið milli óvættanna.“

319. Mörg ljón eru á vegi framfaranna. Óvættir þessar taka á sig ýmis gervi. Meðal hinna ógeðfelldustu er hinn drungalegi dreki daglegs vana . Hann gerir jafnvel hið háleitasta samneyti að innantómum gráum hversdagsleika. Samt veit fólk í daglegu lífi sínu hvernig á að viðhalda ferskleika endurnýjunarinnar. Fólk þvær sér daglega og er sem endurnært þegar það tekst á við næsta verkefni. Á sama hátt ætti hin andlega laugun ekki að verða að rykugu striti. Fáir kunna að sigrast á dreka hins daglega vana. En slíkir kappar tífalda krafta sína, og dag hvern lyfta þeir augum sínum á ný til himnanna.

Óendanleikinn er til, því er ekki til eitt einasta hversdagslegt andartak í anda mannsins. Einstæði skynjunar getur veitt gleði. En háleitt samneyti getur ekki orðið hversdagslegt. Í óendanleikanum finnast ekki leiðindi, þau er aðeins að finna í takmörkunum mannsins.

Leyfið ekki hinum gráa dreka að sigra. Hann er ekki sterkur í raun, og ógeðfeldni hans felst aðeins í ljótleika vanans. Hinn grái dreki getur ekki þrifist þar sem búið er að hreinsa burt allan ljótleika og óþrif. Þannig er sigur yfir hversdagsleikanum virðing við æðri heiminn.

320. Hver sá sem ann nákvæmri vitneskju verður að vita hvernig á að afla hennar. Margir tala um hversu mikils þeir meta nákvæma vitneskju, en í raun klæða þeir sérhverja staðreynd í trúðsbúning fordómanna. Þeir skynja ekki óraunveruleika sinna eigin forsendna. Þeir kvarta sáran yfir því að rannsóknarefnin séu ófullnægjandi, en láta á sama tíma hina óvenjulegustu atburði fram hjá sér fara. Þeir myndu umsnúa alheiminum í samræmi við sitt eigið líkamsástand. Þeir hafna hinum augljósustu fyrirbrigðum, ef þau eru þeim ekki að skapi. En getur þetta verið leið hinnar nákvæmu þekkingar? Hvar er þá þolinmæðin? Hvar er góðviljinn? Hvar er hin óþreytandi elja? Hvar er rannsóknin? Hvar er athyglin sem opnar hliðin?

Verum óþreytandi við að endurtaka hversu greiðlega öll hlið opnast í fjarveru umkvörtunar, óánægju og höfnunar.

321. Sandstormar eru uppsprettur sýkingar. Við skulum taka eftir því hvar þessar óttalegu eyðingaröldur fara um. Það er langt frá því að vera gagnlegt að leyfa slíka eyðileggingu. Réttilega getur fólk fordæmt þá sem hafa leyft eyðingu lífs. Öldum saman hefur fólk stuðlað að því að fylla lægri svið andrúmsloftsins rotnandi leyfum.

Er ekki kominn tími til að íhuga sambandið á milli andlegu orkunnar og lofthjúpsins allt umhverfis? Það er ekki leyfilegt að eitra andlega orku heilla kynslóða! Svo margar fagrar sálir farast vegna eitrunar plánetunnar!

322. Hrynjandi vinnunnar er prýði heimsins. Líta má á vinnu sem sigur á vana hversdagsins. Sérhver vinnusamur maður er velgjörðamaður mannkyns. Að ímynda sér jörðina án verkamanna er það sama og sjá allt hverfa til óskapnaðarins. Í deiglu vinnunnar mótast ósigrandi þrautseigja; því einmitt í hinni daglegu vinnu safnast fjársjóðurinn. Hinn sanni verkamaður ann vinnu sinni og skilur mikilvægi þenslu.

Áður hefur vinnu verið líkt við bæn. Hin æðsta eining og gæði starfsins stafar frá hrynjandi hennar. Hin besta vinna kallar fram hrynjandi fegurðarinnar. Í sérhverju starfi er fegurðina að finna.

Vinna, bæn, fegurð — allt eru þetta hliðar á hinum mikla kristal tilverunnar.

323. Að starfi loknu er verkamaðurinn betri og umburðarlyndari. Í vinnu fullkomnast margt. Í starfi felst þróun!

324. Sköpun hins góða ætti að vera svo eðlilegt viðfangsefni mannsins að um það ætti ekki að þurfa að ræða. Ekki getur maðurinn bent á góðverk sín sem eitthvað óvanalegt, því þá mætti gera ráð fyrir því að hið illa sé hið venjulega ástand mannsins, og hið góða aðeins sjaldgæf undantekning.

Á umliðnum aldatugum hafa verið gerð mörg mistök. Fólk fór að gera gull að mælistiku fyrir hið góða. Menn báru gull og dýra steina inn í musterin og voru þess fullvissir að slíkt væri ígildi þess besta sem fáanlegt væri í heiminum. Menn fylltust fölskum hugmyndum um verðmæti; þeir minntust þjóðsögunnar um gullið sem uppsprettu hins illa, en voru fljótir að umsnúa henni í ævintýri. Saga mannkynsins geymir mörg dæmi um uppreisn gegn gulli. Allir miklir fræðarar hafa barist gegn gulli, en menn hafa í skyndi komið fyrir kattarnef öllum þeim djörfu uppreisnarmönnum sem barist hafa gegn hinu dáða átrúnaðargoði þeirra. Ég á vissulega ekki við gullið sjálft, heldur allan þann óhugnað sem það er umvafið.

325. Meðal þeirra leyndardóma, sem torvelt er að ráða, er vitneskjan um það hver uppsker mest af því góða sem sent er. Enginn veit hverjum hið góða , sem hann sendi, hefur hjálpað. Gera má ráð fyrir að hugsun góðvildar nái til einhverrar sérstakrar persónu, en það er aðeins tilgáta. Það má vera að hugsunin hafi komið einhverjum algerlega ókunnugum stórlega til hjálpar. Slík hugsun er sendiboði hins góða, en manninum sem bjargað var er ókunnugt um bjargvætt sinn, svo að þakklæti hans stígur upp til æðri heimsins. Þegar hann, frá sér numinn, vill tjá þakklæti sitt, lítur hann upp í átt til hinnar eilífu deiglu skapandi hugsunar.

326. Hugsanir óþekktra manna vekja einnig leynda þakklátssemi . Sérhver góð hugsun hlýtur mikið þakklæti. Það er ekki okkar að segja til um hvar söngur þakklætisins mun hljóma. Þakklæti þarfnast ekki skilgreiningar. Hinn fegursti söngur þakklætis hljómar á stundu gleðinnar; en hugsun slíkrar gleði hlýtur að eiga sér upptök hjá einhverjum.

Segjum með þakklæti — Aum!

327. Ef maðurinn lærir ekki þolinmæði, stillingu og dómgreind eftir lestur fjölda bóka um hið góða, er hann ekki þess verður að kallast maður. Ekkert þakklæti hljómar frá slíku steinhjarta. Ég ræði oft með mismunandi táknum um eiginleika þakklætis. Bráðnauðsynlegt er að skilja eðli þakklætis — það er óbifanlegur grunnur tilverunnar.

328. Leyndardómur viðheldur veröldinni. Öll viskurit tala um Leyndardóminn, Hið helga . En einnig hefur verið sagt að allir leyndardómar verði opinberaðir. Þeir sem leita ákafir að mótsögnum geta fagnað, því þeim virðist sem ósættanlegt misræmi hafi uppgötvast. En dómur þeirra byggist á jarðneskri viðmiðun, og að sjálfsögðu virðist þeim allt yfirjarðneskt vera órökrétt. En notið þessi sömu orð um fíngerða heiminn og æðri heiminn og skýring fæst á hinu jarðneska ósamræmi. Allt sem gert er í leyndum á jörðinni er vissulega opinbert á hinu æðra sviði, og hinn óræði leyndardómur reynist rökréttur á sviði óendanleikans.

Nauðsynlegt er að vita hvernig leggja á mat á jarðneskar mótsagnir ; þær stafa einfaldlega af takmörkunum hugans. Jafn skjótt og skilningur fæst í raun á æðri heimunum skýrist hið jarðneska ósamræmi.

329. Það er leitt að gagnlegt próf , sem áður var þreytt við útskrift úr framhaldsskóla, skuli nú hafa verið lagt niður. Neminn fékk það verkefni að skýra kenningu að eigin vali fyrir mjög ólíkum áheyrendum. Það krafðist þess að notuð væru hugtök sem öllum væru skiljanleg, en það var erfitt verkefni. Vegna sumra varð hann að finna einföld orð, án þess þó að hinum fróðari meðal hlustenda myndi leiðast. Þó svo áheyrendur væru ekki alltaf fullkomlega ánægðir, gerðu nemarnir samt sitt besta til að gera sig skiljanlega og fjalla jafnframt um flókin og háleit hugtök. Slíkar æfingar eru alltaf gagnlegar.

330. Gæta skal þess sérstaklega að fremja ekki óréttlæti ; frá því stafar hið ljóta. Maðurinn ætti að skynja hvar óréttlætið byrjar. Skilgreining þess býr ekki í orðum heldur í hjartanu.

331. Maðurinn telur sig sterkan þegar hann er reiður eða uppstökkur — en það er samkvæmt jarðneskri viðmiðun. Frá fíngerða heiminum séð er hinn uppstökki maður sérlega kraftlaus. Hann dregur til sín fjölda af smáum verum sem nærast á reiðinni sem frá honum stafar. Að auki rýfur hann sinn eigin varnarskjöld og leyfir jafnvel lágstæðum verum að lesa hugsanir sínar. Þess vegna er ekki leyfilegt að vera á valdi reiði eða skapillsku, því það veldur ekki aðeins illskuhvata, heldur er það einnig opin leið fyrir lágstæðar verur.

Hinn uppstökki maður fellst vissulega greiðlega á þessa skýringu, en hann er fljótur að verða enn meiri skapillsku að bráð — því slíkt er eðli hins venjulega manns. Furðulegt er hve greiðlega þeir eru á sama máli, en falla síðan í sömu gryfju jafn auðveldlega. Til að réttlæta sjálfa sig munu þeir finna upp á hinum ólíklegustu skýringum. Sjálfur æðri heimurinn gæti virst sekur í hinni brengluðu vitund hins yfirborðslega jarðarbúa! Furðulegt er að fólk skuli skella skuldinni af sínum eigin ávirðingum á æðri heiminn!

Af þessu má sjá að stöðugt er þörf á því að endurtaka hin einföldustu sannindi.

332. Maðurinn getur ekki fordæmt þau fyrirbrigði sem eiga sér óþekktar orsakir. Aðeins skilningur á fyrirbrigðum fíngerða heimsins getur gefið manninum víðsýni í ályktunum. Gott er að minnast dæmisögunnar um blinda manninn sem sleginn var af fílsrana og hélt þá að hönd Guðs hefði slegið sig.

Við skulum taka mið af æðri heiminum í öllum málum.

333. Hvernig á að gera greinarmun á réttlátri reiði og gremju, eða áfalli og ótta? Engin orð eru til sem lýsa mismun þessara tilfinninga, því þær eru næstum því eins. En sá tími mun koma að vísindin uppgötva aðferð til að greina efnin sem hver tilfinning myndar. Þannig verður ákvarðað á efnafræðilegan hátt eingöngu hvar og hvenær tiltekin tilfinning hefst.

Með hreyfingum sínum sýnir pendúll lífsins breytingar á andlegri orku. Á jafn nákvæman hátt verða efnabreytingar tilfinninganna greindar. Breytingar á tíðnisviði andlegrar orku gefa til kynna að sveiflutíðnin er samfelld og að hún nemur jafnvel smávægilegar breytingar orkunnar. Á sama hátt geta efnabreytingar tilfinninganna ekki haldist stöðugar. Sjá má í smáheimi mannsins hvað kosmískar sveiflur hafa mögnuð áhrif. Ekki skyldi ætla að allar þessar athuganir séu ónauðsynlegar; þvert á móti, leiðir ekki skilningur á eðli mannsins til fullkomnunar mannkynsins?

334. Ég fel fræðsluna í hendur hverjum og einum sem lifir í öllum heimunum. Lítið ekki á slíka skilgreiningu sem óviðeigandi. Maðurinn lifir í raun í öllum heimunum. Dag hvern hverfur hann til annarra heima, en hann getur ekki verið sér vitandi um þessi andartaks fráhvörf. Aðeins fáir skynja þá tilfinningu að hafa verið fjarri. Andinn þarf ekki neina ákveðna tímalengd, því tilvera hans er óháð tíma. Þessar skynjanir eru mjög einkennandi fyrir þá sem hafa þroskaða vitund.

335. Stöku sinnum er pendúll lífsins algerlega óvirkur. Slík merki koma fram þar sem illskan hefur lamandi áhrif. Setningin: „Hann kafnaði úr illsku“ varð ekki til fyrir tilviljun eina. Það hefur verið sýnt fram á að illskan er takmörkuð. Straumur illskunnar er ekki óendanlegur. En nauðsynlegt er að fylgjast með breytingum á orkutíðnisviðunum.

336. Sérhver afneitun sannleikans er merki um fávisku og er ekki aðeins skaðleg fyrir þann sem afneitar, heldur einnig fyrir umhverfið. Barátta gegn sannindum sýkir geiminn, en það er enn óhugnanlegra þegar fólk hverfur frá sannleikanum eftir að það hefur öðlast skilning á honum. Slíkt afturhvarf til myrkursins er brjálsemi!

Í sögu mannkynsins má finna dæmi um að ákveðin sannleiksbrot hafi fengið viðurkenningu en þau síðan orðið fyrir árásum frá falskennurum sem, vegna mikillar fávisku, reyndu að dylja fyrir fólki hinar óhagganlegu staðreyndir; afleiðing þessa varð það sem síðar verður litið á sem skammarlegar síður í mannkynssögunni. Yfirgangsmennirnir komu ekki með neinar sannanir, heldur kröfðust þess að hinu augljósa væri hafnað. Þetta er líkt því að einhver gefi fyrirmæli um að hafna eigi tilveru sólarinnar, vegna þess að augu hans þoli ekki geisla hennar! Á sama hátt var lagt bann við skilningi á lögmálum fíngerða heimsins. Af eigingirni sinni og vanþekkingu bönnuðu menn öðrum að þekkja raunveruleikann.

Lát fólk minnast þess hversu oft hefur orðið afturhvarf til myrkursins á hinum ýmsu tímum. Ef til vill mun slík minning verða mannkyninu hvatning til þess að halda fram á við í átt til réttlætis og heiðarleika.

337. Þegar lagt er stund á sögu og samanburð trúarbragða í skólum, má ekki gleyma því að á ráðstefnum, þingum og löggjafarsamkomum eru ýmsar andstæðar ákvarðanir teknar og úrskurðir kveðnir upp. Þekking sannleikans er nauðsynleg, ekki til að rugla menn í ríminu, heldur til að byggja á undirstöðu framtíðarinnar. Fullkomnun hvílir á grundvelli þekkingar.

Enginn ætti að leyfa sér að gefa mönnum fyrirmæli um að hafa hið sanna að engu og leita þess ekki.

338. Þó svo mistök hafi stundum verið gerð af fáfræði eða illvilja á ekki að halda áfram að ala heilar kynslóðir upp á þessum sömu mistökum. Fólk ræðir mikið um fordóma, en er samt reiðubúið að bæla unga fólkið með kröfum sem eiga sér engan tilgang.

Allt frá hversdagslegum hlutum til kenninga um uppruna alheimsins má finna fjöldann allan af tilhæfulausum fullyrðingum sem hvorki hafa verið sannaðar með tilraunum né athugunum.

Hefting hugsunar er alvarlegt ódæði.

339. Frá sérhverju útstreymi og sérhverri útöndun stafar straumur andlegrar orku. Maðurinn mettar allt umhverfi sitt ríkulega; þess vegna er honum skylt að huga að því að bæta sálrænt orkustreymi sitt. Ef fólk gerði sér grein fyrir því að sérhver andardráttur hefur áhrif á umhverfið, myndi það leitast við að hreinsa öndun sína. Sýna má fram á útstreymi orkunnar með einföldum mælitækjum. Sveiflur pendúls lífsins sýna hversu stöðug orkutíðnin er. Með sama hætti má nema útgeislun árunnar, en það gefur vísbendingu um að eindir úr árunni streymi stöðugt út í umhverfið, og að orkan endurbyggi varnarhlífina í sífellu.

Sá sem segir að tilraunir með andlega orku gefi ekki neinar skýrar vísbendingar er venjulega ekki að velta neitt fyrir sér tilveru hennar. Algjör fáfræði stuðlar að eitrun andrúmsloftsins. Þetta ber að skilja á bókstaflegan hátt. Hrein öndun fæst ekki með lyfjum.

Hreinsun öndunarinnar byggist á andlegri orku.

340. Mörg fögur hugtök hafa verið afbökuð. Hugtakið um fyrirgefningu alls hljómar fagurlega, en menn hafa stuðlað að því að gera úr því afskræminguna: „Hinir æðri kraftar fyrirgefa allt,“ og þá um leið alla glæpi. Aðalatriðið felst þó ekki í fyrirgefningunni, sem er vissulega möguleg, heldur í því að lifa lengur en verknaðurinn sem framinn var. Réttlátt er alheimslegt lögmál lækninga. Meðhöndla þarf sár með aðferðum læknisfræðinnar. Líkaminn þarf tíma til að græða sár sín, því hinn skemmda vef þarf að lagfæra. Aum tónað í réttum samhljómi getur stuðlað að því að sár grói. En samhljómar lita og ilms geta því aðeins komið að gagni að hin andlega orka leyfi slíka samvinnu.

341. Baráttan gegn fáfræðinni hlýtur að eiga sér stað um heim allan. Ekki ein einasta þjóð getur hrósað sér af því að búa yfir nægri þekkingu. Enginn hefur krafta til að sigrast á fáfræðinni í einni orrustu. Þekkingin verður að vera alheimsleg og efld með fullri samvinnu. Á brautum samskiptanna líðast engar hindranir; á sama hátt verða brautir þekkingarinnar að styrkjast með gagnkvæmum hugmyndaskiptum.

Ekki má líta svo á að einhvers staðar hafi nóg verið unnið að menntunarmálum . Vöxtur þekkingarinnar veldur svo mikilli útþenslu að stöðugt er þörf á nýjungum og endurbótum á aðferðum. Skelfilegt er að sjá steinrunna hugi sem standa í vegi fyrir nýjum afrekum! Enginn afneitari getur kallast vísindamaður. Vísindi eru frjáls, heiðarleg og óttalaus. Vísindi geta breyst auðveldlega og varpað ljósi á vandamál alheimsins. Vísindi eru fögur og því óendanleg. Vísindi þola ekki bannfæringar, fordóma né hjátrú. Vísindi geta fundið hið mikla, þó rannsóknir þeirra beinist að hinu smáa. Innið mikla vísindamenn eftir því hversu oft stórmerkar uppgötvanir hafa verið gerðar þegar unnið var að hversdagslegum athugunum. Augað var opið og heilinn kristalstær.

Braut þeirra sem vita hvernig á að rannsaka frjálsir án hafta verður braut framtíðarinnar. Í raun er jafn brýnt að berjast gegn fáfræði og gegn upplausn og spillingu. Baráttan gegn myrkri fáfræðinnar er ekki auðveld. Fáfræðin á sér marga bandamenn; hún á sér skjól í mörgum löndum; og hún tekur á sig mörg mismunandi gervi. Nauðsynlegt er að vera vopnaður bæði hugrekki og þolinmæði, því baráttan gegn fáfræðinni er barátta gegn óskapnaðinum.

342. Tilraunir með andlega orku er hægt að gera við mismunandi aðstæður og á öllum tímum sólarhringsins. Stundum er dauft ljós til gagns fyrir birtingu orkunnar, en skært sólarljós getur haft áhrif á tilraunina með sterkri efnaverkun sinni. Aðstæður á tilraunastaðnum geta einnig verið margvíslegar. Besti staðurinn er herbergi sem mettað er af útgeislun vísindamannsins. En allir nálægir hlutir geta valdið eigin svörunum. Ekki er rétt að geyma hluti sem verið er að rannsaka á sama stað, sérstaklega á það við þegar verið er að gera tilraunir. Eins ætti ekki að hafa á staðnum endurómandi hluti eða strengjahljóðfæri sem geta farið að titra vegna óviðkomandi áhrifa. Skap athugandans hefur einnig mikið gildi. Skapvonska og tilfinningarót stuðla ekki að gagnlegri rannsókn.

Þegar þið finnið til þreytu skulið þið ekki reyna um of á orkuna. Undir öllum kringumstæðum ætti að hafa aðgát á kraftinum. Sóið ekki, heldur varðveitið kraftinn sem á undraverðan hátt víkkar út svið vitsmunanna.

343. Hlutir umhverfis tilraunastaðinn hafa oftar en einu sinni vakið furðu hjá þeim sem eru að byrja rannsóknir. Stundum hefur hversdagslegur hlutur komið að gagni við tilraunina, en annar, sem tekinn var með að vandlega athuguðu máli, hafði aðeins þau áhrif að hindra straum orkunnar. Af þessu má sjá hve erfitt það er að ná tökum á lögmáli hinna fíngerðu orkutegunda. Sem dæmi má nefna að loðfeldur dýra stuðlar ekki að góðum árangri tilraunar, vegna hinna sérkennilegu raffræðilegu áhrifa sem hann hefur.

344. Þolinmæði er meðvitaður og kerfisbundinn skilningur á því sem fram fer. Rækta þarf þolinmæði til að stuðla að framförum. Það er út í hött að skilgreina þolinmæði sem visnun hið innra, þvert á móti, eigind þolinmæðinnar gefur mikinn kraft. Þannig tekur orka þátt í öllum atburðum, leggur sitt af mörkum til þeirra og kemur ekki með rangar forsendur fyrirfram.

Þannig ætti að venja nemendur við þolinmæði í sinni réttu mynd.

345. Fólk reynir að skilja þolinmæði á þann hátt að verið sér að gangast undir mótlæti. En slíkur skilningur er ekki alls kostar réttur, vegna þess að hann gerir lítið úr gildi orkunnar. Sá sem veit, að það er viturlegra að nota ekki kraft sinn í dag heldur á morgun, er einmitt sá sem hefur skilning á hinni gagnlegu leið. Hann þjáist ekki og skilur hið nytsama. Af þessu má sjá hversu mikilvægt er að skýra merkingu margra hugtaka.

Sérhvert orð gefur til kynna ákveðinn hugblæ. En ef merkingin er ekki nákvæm getur áhrif þess orðið til sorgar í stað gleði og öfugt. Nákvæmni er þörf alls staðar um allan heim. Hver tilraun með andlega orku staðfestir einmitt það sem mestu máli skiptir — en það er nákvæmni og skjótvirk hugsun. Með þeim mun bestur árangur nást.

346. Athuganir með pendúl lífsins munu sýna fram á hið mikla gildi andlegrar orku. Einföld tæki geta vakið djúpsæjar skynjanir innst í vitundinni. Að auki er sérlega mikilvægt að gefa gaum að sveiflum í geimnum, sem hafa svipaða verkun og útvarpssendingar. Á hverri stundu geta eigindir strauma að utan raunbirst; þær eru lýsandi fyrir ástand heilla þjóða

Er ekki furðulegt að manninum hefur verið gefið að þekkja þessar samfjallanir heimsviðburða og hversu lítinn gaum hann gefur þessum auði sínum?

347. Samhljómur Aum minnir á orkuna sem ummyndar í leyndum mikilfenglega möguleika í eldi hugsunar.

348. Oft næst sami árangur samtímis í mismunandi löndum . Fyrirvaralaust byrja vísindamenn, rithöfundar eða listamenn að vinna að sama verkefni. Vissulega getur þetta gerst vegna ytri samskipta, en það getur einnig orðið vegna innri skilaboða frá fjarlægum samverkamanni. Þau geta borist með fjarhrifum og vakið innblástur hjá þeim sem er hæfilega innstilltur, því er gagnlegt að vinna sameiginlega að rannsóknum. Margt líður hjá án þess að eftir því sé tekið, vegna þess að maðurinn getur ekki rifjað upp andartakið þegar hann varð fyrir andlegum hughrifum, en hægt er að greina tengslin milli vitunda manna ef athuguð eru viðfangsefnin sem þeir vinna að. Þegar unnið er að tilraunum með andlega orku er mjög mikilvægt að rannsaka vitundir sem eru líkar að þessu leyti.

Hugsun getur mjög auðveldlega örvað sambærilega vitund . Slíkar vitundir geisla frá sér sama litblæ, en sendingar með dekkri litblæ fá yfirleitt aðgang að vitund með ljósari lit. Það þýðir þó ekki að hinn ljósari litblær sé ekki jafn kraftmikill eða jafn góður, heldur er það svo að sterkari liturinn á greiðari aðgang að hinum grynnri lögum vitundarinnar, en ljósi litblærinn leysist fljótar upp í hinum dýpri lögum og getur ekki leitt fram titring geislunarinnar. Þessi skjálfti árunnar er dyrnar að vitundinni.

Við skulum ekki rugla saman þessum skjálfta árunnar og titringi af völdum högga sem hún verður fyrir. Hið fyrrnefnda veldur hugljómun en hið síðarnefnda áfalli.

349. Tilraunir með andlega orku vekja gleði . Hver athugun kallar fram möguleikann á næstu viðleitni. Fjöldi tilgátna og samanburða er ótölulegur. Á þennan hátt, allt frá daglegu lífi til fjarlægra veralda, er mögulegt að framkvæma prófanir á orkunni.

350. Tilraunir með andlega orku valda alltaf þreytu . Viðhaldið ekki slíkri spennu lengur en í hálfa klukkustund í senn, til að ofgera ekki heilsunni. En viðleitni í stutta stund er gagnleg, sérstaklega ef athugasemdir eru skrifaðar niður, því að hver slík þjálfun eykur styrk.

351. Gagnlegt er að láta reyna á orkuna ; hver prófraun vekur með henni nýjan eiginleika. Nauðsynlegt er að hafa þetta í huga, því ekki fyrir löngu síðan ræddi ég um þreytu sem orsakast af spennu orkunnar. Ályktið samt ekki að tilraunir séu óæskilegar vegna þess að þær geti valdið þreytu. Það er mögulegt að láta reyna á orkuna án þess að þreytast . Eins og allt annað í tilverunni þarf slíkt þjálfunar við. Með skynsamlegum æfingum er að miklu leyti hægt að koma í veg fyrir þreytu. Nauðsynlegt er að láta reyna á alla orku í starfi. Jafnvel vöðvarnir þarfnast þjálfunar; þannig getur fólk stöðugt vakið með sér krafta sem liggja í dvala. Lítið á slíka vöknun sem skyldu mannsins við æðri heimana. Margar ástæður eru fyrir því að kraftar geta legið í dvala. Ein ástæðan er karmísk áhrif. En oftast sefur vitund mannsins vegna leti. Slíkt ástand er nefnt gróðrastía hins illa. Bestu eiginleikarnir öðlast ekki líf þegar augnaráð mannsins er sveipað hinni þungu blæju letinnar. Engar afsakanir koma að gagni þegar líkami og andi eru beygðir af leti.

Sagt var einu sinni að letin væri villunni verri.

352. Letinni fylgir óvissa og sjálfsmeðaumkun . Svo niðurdrepandi hindrun kemur í veg fyrir að nokkur orka geti starfað. Efinn hefur alltaf veikjandi áhrif. Ómarkviss áform og sjálfsmeðaumkun draga jafnvel úr krafti þeirra sem eru sterkir í anda. Þennan inngang verður að gefa öllum þeim sem vilja virkja andlega orku.

353. Andleg orka getur bæði gefið til kynna gæði fæðunnar og hugsanlega eitrun . Sannlega geymir maðurinn prófstein innra með sér. Þessa sömu orku er einnig hægt að nota með góðum árangri við greiningu sjúkdóma. Möguleikar hennar eru sérstaklega miklir þegar fylgst er með breytingum á aðstæðum.

354. Oft sjá læknar að hættulegur sjúkdómur hverfur skyndilega án þess að skilja eftir sig nokkur merki. Vissulega geta menn sér þess til að læknismeðhöndlunin eða einhverjar aðrar ytri kringumstæður hafi haft bætandi áhrif. En meginástæðunni — andlegri orku — sem getur valdið hinum óvenjulegustu áhrifum, gleyma menn alltaf; hún ein megnar að breyta rás sjúkdómsins.

355. Allar tilraunir með æðri orku stuðla að aga . Nauðsynlegt er að sjá að aginn er hin heilnæma hrynjandi. Ef athyglin er ekki virk er mögulegt að merkilegustu tilrauninni verði ýtt til hliðar. Truflun getur stöðvað það sem þegar er hafið. Hvers kyns þvingun orkunnar er andstæð náttúrunni. Við skulum líta á tilraunir með ljósmyndir. Ef fyrsta myndin er misheppnuð verður hin óagaða vitund fyrir vonbrigðum. En tilraunir eru ekki mögulegar ef vonbrigði láta á sér bæra. Margt getur truflað fyrstu tilraunirnar. Hugleysið hvíslar að ekki skuli halda leitinni áfram. Óttinn við að verða að athlægi getur eyðilagt hinar gagnlegustu athuganir.

356. Mitt í rannsóknum á andlegri orku getur pendúll lífsins orðið grundvöllur að ákaflega merkilegum tilraunum. En til að stunda slíkar athuganir verður maðurinn að búa yfir agaðri orku. Pendúll lífsins kemur ekki að gagni fyrr en orkan hefur náð vissu þenslustigi. Sterk óvirkjuð orka kemur ekki að gagni fyrr en náttúruleg uppsöfnun hennar hefur átt sér stað. Allar slíkar tilraunir varða fíngerðar orkutegundir og eru þar af leiðandi afar viðkvæmar.

Athugandinn getur sjálfur smátt og smátt viðað að sér mörgum einstökum smáatriðum. Ekki er rétt að álykta að fjölbreytileiki slíkra smáatriða sé andstæður lögmálinu, þvert á móti, hin greinilegu frávik mynda samsetningar nýrra orkueinda. Tveir hljómlistarmenn fá ekki nákvæmlega sömu hljóma úr sama hljóðfærinu, samt er ekki auðvelt að skera úr um hvor þeirra sé betri túlkandi. Hver og einn lætur í ljós sína eigin dýrmætu eiginleika.

Þegar gerðar eru tilraunir með andlega orku er eðlilegt að fylgja einstaklingseðli sjálfrar orkunnar. Í gnótt alheimsins er sérhver tjáning orkunnar einstök. Sérhver leit er því þeim mun merkilegri.

357. Til eru sjálfskipaðir sjúklingar sem vekja með sér öll einkenni sjúkdóms með sjálfssefjun. En til eru enn alvarlegri tilfelli þar sem maðurinn hefur í sér sóttkveikjur sjúkdómsins og lætur undan fyrir honum í stað þess að berjast gegn honum og sviptir sig um leið möguleikanum á bata. Í fyrra tilfellinu er mögulegt að nota sefjun, því ekki er um neinn raunverulegan sjúkdóm að ræða. En síðara tilfellið er mun erfiðara; maðurinn sjálfur flýtir fyrir framgangi sjúkdómsins. Hann verður þræll sjúkdómsins og reynir eftir fremsta megni að efla sjúkdómseinkennin. Hann fylgist stöðugt með sjálfum sér, en ekki vegna löngunar eftir bata. Hann verður djúpri sjálfsmeðaumkun að bráð, og með því hrekur hann frá sér alla möguleika á sefjun. Hann verður jafnvel móðgaður og reiður ef rætt er við hann um batamöguleika. Með þessu móti getur hann náð hættulegu stigi þunglyndis sem ekki er hægt að ummynda í vaxandi styrk. Þetta skapar mótstæða orku, og maðurinn sviptir sjálfan sig grundvallareiginleika — viðleitninni til sjálfsfullkomnunar.

358. Það er eðlilegt að sefjun sé nú loks orðin viðurkennd aðferð í sjúkrahúsum. Það hefur tekið nokkrar aldir að uppgötva áhrifamátt þessarar orku. Samt er skilningur manna á henni allt of takmarkaður. Í staðin fyrir víðtæka beitingu hennar á öllum sviðum lífsins er hún aðeins notuð við vissar skurðaðgerðir. En við eigum möguleika á því að nota einnig þessa sömu orku við óreglulegum hjartslætti, taugaáfalli, lömun og húðsjúkdómum.

Í stuttu máli, hin æðri orka getur hjálpað mannkyninu á öllum sviðum.

359. Fólk er ófúst að sjá hvert sé raunverulegt eðli þess sem er að gerast. En raunveruleikinn breytist ekki við samþykki eða afneitun fólks. Enginn getur sagt að Harmagedón muni ekki leiða til fyrirsjáanlegs sigurs. Furðulegt er að sjá hve lengi fólk lætur hjá líða að skilja það sem þegar hefur verið ákvarðað. Þetta sama gerist við eldsvoða, þegar íbúarnir vilja ekki trúa því að slíkur atburður hafi gerst. Sannanirnar koma ekki að neinu gagni ef menn loka augunum fyrir þeim.

360. Athugið hvers konar veruleika fólk á erfiðast með að samþykkja. Eitt þeirra sönnu fyrirbrigða, sem einkum er erfitt að gera sér grein fyrir, er að hugsanasendingar séu óháðar tíma . Jafnvel þó menn rannsaki hraða rafeindabylgna eru þeir ekki sannfærðir. Þeir geta ekki sætt sig við þá staðreynd að hugsun sé óháð tíma. Enginn er fús til að skilja að hugræn spurning geti vakið tafarlaust svar.

Takið einnig eftir mörgum öðrum hlutum sem eru ósættanlegir þeirri vitund sem ekki er þjálfuð í hugsun. Í samræmi við slík neikvæð merki er mögulegt að mynda sér skoðun á því sem hrjáir mannkynið mest.

361. Sá hæfileiki, að sjá hvað það er sem áheyrendur manns skilja síst af öllu, sýnir bestu leiðirnar að vitund þeirra. En látið ekki í ljós að þið getið séð þetta hugarástand þeirra. Slíka skarpskyggni mun fólk ekki fyrirgefa; það getur orðið að óvinum.

Hafa verður skilning á þolinmæði til að geta snúið sér að sama viðfangsefninu frá annarri hlið.

362. Rannsaka verður gildi vissra siðferðishugtaka , ekki aðeins frá andlegu sjónarmiði heldur einnig vísindalegu. Við skulum taka til athugunar hugtakið traust — jafnvel meðal frumstæðra þjóðflokka var hugtakið traust álitið grundvöllur samneytis. Í fyrndinni hafði fólk þegar öðlast skilning á því að slíkt hugtak hafði sérstakt gildi. Það var ekki fyrr en síðar að fólk byrjaði af hræsni að sýnast annað en það var og hélt að það gæti blekkt hina innri vitund. En með því að þróa vísindalegar aðferðir er mögulegt að sannreyna merkingu hins sanna trausts.

Við skulum líta á samræður milli tveggja manna. Ef á milli þeirra ríkir gagnkvæmt traust, verður útgeislun þeirra mjög góð og mun jafnvel batna vegna þess að orka þeirra blandast. En nú skulum við sjá hvað gerist ef annar þeirra er hræsnari, eða ef þeir vantreysta hvor öðrum. Þá verður áran fráhrindandi, og í henni myndast svartir og gráir blettir. Það sem meira er, hræsnararnir valda hvor öðrum skaða, og í þeim myndast hin ákjósanlegasta gróðrarstía fyrir sjúkdóma. Að auki mun umhverfið skaðast af svo rangri meðhöndlun orkunnar.

Af þessu sjáum við að ekki er nóg að líta á traust sem huglægt siðferðilegt hugtak. Traust skyldi metið eftir heilnæmu gildi sínu.

363. Að sýna traust er ómissandi fyrir æðra samneyti. Án þess er betra að láta algerlega vera að nálgast slíkt efni, því í stað innblásturs verður afleiðingin aðeins andstyggð. Störf unnin án trausts eru sem skaðleg meinsemd sem bitnar síðar meir á líkamanum. Því skulum við sýna gætni við notkun æðri hugtaka.

364. Þar sem raunverulegt traust ríkir er litið á allar athafnir samverkamanns sem velviljaðar. Sé eitthvað sérstakt verk unnið, er litið svo á að það hafi verið nauðsynlegt. Vantraust er ekki mögulegt þar sem eldur gagnkvæmra tilfinninga logar. Á sama hátt má líta á allar aðrar hliðar samstarfs.

365. Í þrumuveðri gefur að líta tvennar öfgar hjá mönnum — sumir leita skjóls í angist, en aðrir fara sinna ferða af dirfsku og eiga á hættu að verða fyrir hættulegu raflosti. Alveg það sama má sjá hvað varðar æðri heiminn þegar athugaður er skilningur meiri hluta mannkyns — sumir fyllast skinhelgi en aðrir guðlasta. Aðeins sárasjaldan viðurkennir maðurinn æðri heiminn sem eðlilegt og hliðstætt ástand.

Fólk er ekki alið upp í skilningi á grundvallaratriðum tilverunnar. Afrek vísindanna standa ein sér og stuðla ekki að ummyndun alls lífsins. Það er ómetanlegt að endurtaka sannindin um æðri heiminn. Ekki má líta svo á að það sem þegar hefur verið sagt um hann hafi skilað sér nægilega vel inn í vitund fólks. Hægt væri að finna upp nýjar aðferðir til að mikilleiki tilverunnar sé sameinaður vitundinni í ævarandi skilningi.

Nauðsynlegt er að læra að unna þessum athugunum til að geta haldið áfram viðleitninni af hjarta óeigingjarn án þess að þreytast eða verða grófgerður.

366. Margir fylgjast með sólmyrkvum , en þeir veita tengslum þeirra við andlega orku enga athygli. Þið hafið aftur á móti haft tækifæri til að sannfærast um að orkan bregst við sólmyrkva á einstæðan hátt.

Er ekki furðulegt að fólk athugar ekki sína eigin frumorku? Hún hlýtur vissulega að bregðast við í samræmi við allt sem gerist. Nýja eiginleika er aðeins hægt að leiða í ljós með vakandi athygli. Látið ykkur ekki nægja þær athuganir sem gerðar hafa verið á fyrri tímum. Hvert tímabil býður upp á sínar eigin nákvæmu athuganir.

Ástæða er til að fagna, því að fólk býr yfir krafti sem getur ummyndað allt lífið. En við skulum vera mjög varkár, því fíngerðar orkutegundir þurfa varlega meðhöndlun. Við getum verið þess fullviss að jafnvel nálægð eins hlutar getur haft sérstök áhrif á sveiflutíðnina.

367. Þið hafið haft tækifæri til að sjá hve mikil áhrif straumar umhverfisins hafa á andlega orku . Einnig sáuð þið hversu skjótt straumarnir geta breyst og algerlega ný þensla orkunnar orðið til. Slíkar athuganir ætti að leggja vandlega á minnið. Fólk veit ekki hvernig það á að samræma athafnir sínar straumum úr umhverfinu. Það ímyndar sér jafnvel að athugun á áhrifum ytri strauma sé einhvers konar yfirnáttúruleg fjölkynngi. Þið furðið ykkur réttilega á því að margt skynsamt fólk, sem rannsakar sálræn fyrirbrigði, er samt sem áður eitt og einangrað án þess að hafa nokkur áhrif á fjöldann.

Það er ekki auðvelt að sannfæra fólk um sinn eigin mátt, en þrátt fyrir það skulum við fyrir alla muni endurtaka sannindin um hina athyglisverðu möguleika.

368. Það er þekkt staðreynd að hverri illri athöfn verður að fylgja endurbót , en þá verður spurt: „Hvernig verður réttlætinu fullnægt fyrir þann sem er á valdi haldningar? Hver tekur afleiðingunum — er það þolandi haldningarinnar eða er það gerandinn?“ Hver getur greint á milli vilja haldningarverunnar og vilja þess sem haldinn er?

Haldning er ekki möguleg nema opnað sé fyrir aðgangsleiðina. Ennfremur, áður en haldning á sér stað, hvíslar hinn illi og undirbýr hinn veika anda. Þeir sem hneigjast til illverka laða til sín illar verur. Þungbært er karma hins haldna!

369. Hreyfing orkunnar er nauðsynleg í öllu. Við skulum ekki rugla saman efnislegri hreyfingu og andlegri. Í fyrndinni skildi fólk að leikfimi getur verið tvenns konar — andleg og líkamleg . Hin fyrrnefnda verður jafnvel enn gagnlegri en hin síðarnefnda, ef hún er stunduð á meðvitaðan hátt.

370. Við tilraunir með andlega orku kunna menn að furða sig á leifturhraða orkunnar við sendingu milli fjarlægra staða. Fólk býst alltaf við að starfið taki einhvern tiltekinn tíma. Þegar það segir að einhver sé haldinn vafa, gerir það venjulega ráð fyrir að þáttur tímans sé merkjanlegur; en réttara væri að segja að efinn hafi komið sem leiftur. Það er einmitt þannig leiftur sem skilur eftir sig óafmáanlegt merki.

Menn ættu að læra að átta sig á eiginleikum orkunnar. Segi einhver að hann hafi lesið nægjanlega mikið um eiginleika orkunnar, sýnir hann aumkunarverða fáfræði. Allt til okkar tíma hefur svo sannarlega hvergi verið hægt að kynna sér rannsóknir á raunverulegum grundvelli tilverunnar. Rannsóknir voru einangraðar, og þeir sem unnu að rannsóknum urðu stundum fyrir ofsóknum. Margar dýrmætar niðurstöður hafa aldrei verið birtar og hafa glatast í handritum á víð og dreif um heiminn. Þið gerið rétt með því að ræða með velvild um þekkingaröflun.

Nauðsynlegt er að ryðja frá þeim hindrunum sem menn hafa reist í fáfræði sinni.

371. Mætum hverju andartaki skynjunar með vinsemd. Finnum styrk til að hafna persónulegum venjum og hjátrú . Ímyndum okkur ekki að auðvelt sé að sigrast á fornum áhrifum, því hin efnislegu svið bera með sér fordóma margra alda. En ef við staðfastlega áttum okkur á þungu fargi slíkra útfellinga, mun einn erfiðasti lásinn opnast. Sá næsti opnast einnig þegar við skiljum að við verðum að vinna allt okkar starf í jarðnesku lífi. Aðeins á þann hátt nálgumst við þriðja hliðið, þar sem við áttum okkur á fjársjóði grundvallarorkunnar sem falin er mannkyninu í hendur. Hver sem kennir þennan skilning er sannur kennari.

Maðurinn öðlast ekki skilning á mætti sínum án leiðbeinanda. Margar mismunandi gildrur eru faldar á vegi mannsins. Sérhver leynilegur svikari vonast eftir því að geta haldið hinu dýrmætasta leyndu fyrir manninum. Eins og ferðalangur sem hefur villst af leið, veit maðurinn ekki hvert hann á að snúa sér, samt er fjársjóðurinn hið innra með honum sjálfum.

Viska allra alda mælir svo fyrir: „Þekktu sjálfan þig!“ Með þessari ráðleggingu er athyglinni beint að hinu leyndasta, sem svo hefur verið fyrir mælt að eigi að opinberast. Hinn eldlegi máttur, sem nú er nefndur andleg orka, mun opna fyrir manninn veginn til framtíðar hamingju. En við skulum ekki vonast eftir því að fólk uppgötvi arfleifð sína auðveldlega. Það mun finna upp alls kyns röksemdir í því skyni að niðurlægja allar uppgötvanir orkunnar. Það mun sniðganga með þögn eðli þeirra framfara sem því er ætlað, en þrátt fyrir allt — leiðin er ein!

372. Leiða þarf í ljós hið sanna gildi svonefndra miðla. Samkvæmt merkingu orðsins eru þeir milligöngumenn milli heimanna. En gleymum því ekki að öllum hefur verið gefið þetta samneyti; allir menn eru miðlar. Það er vissulega svo að í margbreytileika alheimsins, þar sem ekkert er nákvæmlega eins, fær hver lifandi vera sína hlutdeild í samneyti. En staðreyndin er sú að meirihluti fólks gerir sér ekki grein fyrir möguleikum sínum. Þvert á móti, undir fargi fáfræðinnar reynir það að eyða hverjum votti um sín eigin einstaklingsbundnu sérkenni. Við skulum því gera okkur grein fyrir því að öllum mönnum hefur verið gefið, hverjum á sinn hátt, að vera milligöngumenn milli heimanna. Hve fagurt er að líta svo óviðjafnanlegan fjölbreytileika!

373. Frammi fyrir margbreytilegum upplýsingum er nauðsynlegt að gera sér viturlega grein fyrir því hvaðan skilaboðin eru komin . Staðreyndin er sú að til eru mjög myrkar samskiptaverur. Það er engin mótsögn í hinum mikla fjölbreytileika milliliðanna, eiginleikarnir eru svo mismunandi og líkur sækir líkan heim. Miðlunin getur verið mjög svo óhugnanleg, en einu úrlausnina er að finna hið innra með okkur sjálfum. Sú vitund, sem hefur náð upplýstum hreinleika, er fær um að varast aðstæður eins og finnast á skítugum krám. Eitt er að opna glugga inn í myrkrið, en allt annað að hleypa inn geisladýrð ljóssins.

Þekking gædd hjartahlýju afhjúpar hinn fagra fjársjóð.

374. Varið alltaf við lægri dulargáfum sem leitt geta til haldningar. Það felst engin mótsögn í því að sömu orku er hægt að nota góðs eða ills. Nákvæmlega sami krafturinn getur þjónað til uppbyggingar eða niðurrifs. Aðeins háleit hugsun og hreinleiki hjartans er trygging fyrir því að mátturinn sé notaður til góðs. Maðurinn verður að hafa í huga að honum hefur verið treyst til að starfa og stuðla þar með að framför heimsins. Frá öllu þessu hefur verið sagt áður, en þið sjáið réttilega að hinn fáfróði getur fundið í því mótsögn. Hinn slæmi mun efla hið illa, en hinn góði mun þjóna hinu góða.

Þegar fólk finnur löngun til að andmæla, er það jafnvel ekki tilbúið til að viðurkenna hin einföldustu sannindi. Hvert er hægt að beina orkunni ef vilja og hugsun hefur verið beint að hinu illa? Að sjálfsögðu mun krafturinn flæða eftir hinni myrku rás. Hver sá sem sækist eftir hinu lægsta mun fá það. Ekki má hagga við því sem sagt hefur verið um haldningu, því hún skapar hættu fyrir fullkomnun lífsins. Einnig er nauðsynlegt að milligöngumenn séu ekki á lágu stigi. Fáfræði og illvilji laða aðeins til sín sambærilegar svaranir. Maðurinn verður að sækjast eingöngu eftir hinu besta.

375. Orku er ótvírætt hægt að nota í öllum tilfellum . Hún getur gefið til kynna hve háu stigi mögnun hluta og vatns hefur náð. Eins og næmt tæki getur hún á svipstundu skynjað breytingar á straumum í mikilli fjarlægð. Hún getur fylgt hugsunum hverrar línu í handriti. Hún er mælikvarði á eiginleika geislunarinnar. Í góðum höndum er hún verkfæri til góðs.

Það er vissulega heppilegt að fáir vita hvernig á að nálgast máttinn. Ekki er mögulegt að leyfa víðtæka notkun andlegrar orku fyrr en eftir miklar endurbætur á vitundinni. Lát þann góða tíma nálgast hraðar!

376. Allir hafa hlotið sína gjöf. Það er fagnaðarefni að leið eins er ætíð aðgreind frá leiðum annarra. Hin víðfeðma vitund gefur til kynna hversu birtingar hinnar æðri orku eru margvíslegar, því ættu allir sem skrifa um hana að segja frá sinni eigin reynslu og því sem þeir hafa sjálfir séð. Ekki skyldi alhæfa um skynjanir, því birting orkunnar er háð mjög mörgum aðstæðum.

Það sem mestu máli skiptir er hreinleiki hugsunarinnar.

377. Athugun á framrás samsafnaðrar orku getur sýnt fram á að eining er ekki eingöngu siðferðilegt hugtak, heldur einnig máttugur sálrænn drifkraftur. Þegar Við ræðum um einingu er ósk Okkar að þrýsta inn í vitundina vitneskju um hinn mikla kraft sem hver maður hefur yfir að ráða. Ekki er mögulegt að sýna óreyndum athuganda fram á hversu mjög samsöfnuð orka getur margfaldast. Vitundin þarf undirbúning fyrir slíka birtingu. Árangur tilraunar er háður viðleitni allra þátttakenda; þó ekki sé nema einn, sem ekki er reiðubúinn að taka heilshugar þátt í tilrauninni, væri best að byrja alls ekki á henni.

Í fyrndinni vissu menn um mátt hins sameinaða krafts. Stundum voru einstakar athuganir sameinaðar í almenna heildarathugun; á þann hátt myndaðist heil keðja, og hver athugandi setti hönd sína á öxl þess sem fyrir framan hann var. Hægt var að sjá óvenjulegar sveiflur orkunnar; magnaður kraftur var afleiðing hinnar samræmdu viðleitni. Þegar ég því tala um einingu, hef ég í huga raunverulegan kraft.

Lát alla minnast sem þess þurfa.

378. Í fyrndinni var sálræn orka stundum nefnd lífsloft hjartans . Með þessum orðum vildu menn tjá að hjartað lifir á andlegri orku. Alveg eins og maðurinn getur í raun ekki lifað lengi án lofts, þannig getur hjartað ekki lifað lengi ef það er svipt hinni æðri orku.

Það ætti að rannsaka á ný með góðvild margar fornar skilgreiningar. Á löngu liðnum tímum höfðu menn komið auga á ofangreint fyrirbrigði, en því er ekki sinnt á okkar tímum.

379. Mögnun vatns, sem látið er standa nálægt sofandi manni, gefur til kynna útstreymið frá útgeislun hans og sýnir fram á að kraftur hans sest á nálæga hluti. Slíkar útfellingar þarf að skoða mjög nákvæmlega; þær geta minnt á þá skyldu mannsins að fylla umhverfi sitt með fögrum orkuútfellingum. Svefninn er ekki aðeins lærdómstími fyrir fíngerða líkamann, hann er einnig vaxtartími sálrænna útfellinga.

380. Tilraunir með það hvernig útfelld orka þynnist eru einnig lærdómsríkar. Sjá má að orka gufar misjafnlega hratt upp. Vissar kraftmiklar orkusveiflur geta verkað miklu mun lengur en aðrar, en þær hafa þá átt upptök sín í hreinni hugsun. Þannig má sjá að hrein hugsun er ekki eingöngu siðferðilegt hugtak, heldur einnig raunveruleg margföldun krafts. Sú hæfni að sjá gildi siðferðilegra hugtaka tilheyrir sviði vísindanna.

Það er óhæfa að deila vísindunum hugsunarlaust í efnisleg og andleg vísindi; markalínan þar á milli er alls ekki til.

381. Við athuganir skyldi ekki aðeins skoða hliðstæða þætti, heldur einnig þau fyrirbrigði sem eru ósamhljóða. Marghliða tilraunir eru gagnlegar. Við upphaf tilraunar er ekki hægt að segja fyrir með nákvæmni hverra efna er þörf til að gera hana áhrifaríkari.

Það er mögulegt að fá aðstoð frá ólíklegustu hlutum, því að eigindir hinna fíngerðu orkutegunda eru ótakmarkanlegar. Slíkur óendanleiki í margbreytni og fjölda rýrir alls ekki vísindalegt gildi tilraunarinnar. Maðurinn getur nýtt sínar eigin einstaklingsbundnu aðferðir og meðtekið af hugrekki hinar nýju niðurstöður.

Enginn getur sagt fyrir um hve langt kraftur mannsins nær. Auk þess er það ekki ofurmennið, heldur aðeins heilbrigður og heilsteyptur maður sem skrýðist vængjum velheppnaðra afreka. Hvarvetna í daglegu lífi er hægt að rannsaka andlega orku. Engra kostnaðarsamra rannsóknarstofa er þörf til að rækta vitundina.

Hvert tímabil hefur sín sérstöku skilaboð að færa mannkyninu. Það eru forlög hinnar æðri orku að hjálpa mannkyninu að leysa vandamál sem að öðrum kosti gætu virst óleysanleg.

382. Lærið að athuga með þolinmæði hvaða aðstæður eru hagstæðastar til tilrauna. Það kunna að vera kosmískar aðstæður sem eru hagstæðar fyrir tilraunir með litaútgeislun, steina og málma eða dýr. Þegar ég ræði um járn og niturefnasambönd, þá hef ég í huga einstaklingsbundið gildi. Hver og einn ætti að athuga sjálfur í hvaða tilfellum saltpétur eða silfurnítrat er hagstæðara. Mörg efnasambönd eru til sem stuðla að betri árangri við að efla andlega orku.

383. Hægt er að sjá að nærvera manns í næsta herbergi getur haft áhrif á orkustrauminn. Í raun eru slík áhrif margs konar. En fólk gefur ekki gaum að hugarástandi sínu á tilteknum tímum.

Þegar maður segist vera í mjög góðu skapi, geta mælitæki aftur á móti sýnt skapstyggð eða önnur óæskileg geðbrigði. Það er ekki af ósannindum að maðurinn lætur ekki í ljós tilfinningar sínar, heldur er það yfirleitt af því að hann kann ekki að greina á milli tilfinninga sinna.

384. Gerið einnig tilraunir með hljóð og ilm til viðbótar því að rannsaka andlega orku með notkun lita. Mögulegt er að fá athyglisverðar svaranir við tónlist; að auki, athugið bæði áhrif fjarlægðar og áhrif mjög hljómrænna samhljóma. Margt er sagt um áhrif tónlistar á fólk, en næstum engar lýsandi tilraunir eru gerðar. Athuga má áhrif tónlistar á skaplyndi fólks, en slíkt er ekki óvenjulegt. Sagt er að fjörleg tónlist veki gleði og að sorgleg tónlist veki hryggð, en slíkar ályktanir eru ófullnægjandi. Hægt er að ganga úr skugga um hvaða samhljómar liggja næst orku mannsins eða hvaða sinfónía geti haft sterkust róandi eða örvandi áhrif á fólk. Nota þarf mismunandi tónverk við tilraunir. Sjálfur eiginleiki hljómsetningarinnar mun gefa bestu vísbendingarnar um leiðir hljómsins og líf mannsins.

Á sama hátt er bráðnauðsynlegt að rannsaka áhrif mismunandi ilms. Nauðsynlegt er að skoða bæði ilmandi blóm og mismunandi efnasambönd sem hafa örvandi eða hamlandi áhrif á orkuna.

Að lokum er hægt að setja saman liti, hljóð og ilm og athuga sameiginleg áhrif allra aflvakanna þriggja.

385. Um síðir munu menn gera sér grein fyrir því hversu máttug áhrif eru alls staðar umhverfis þá. Þeir munu skilja að allt daglegt líf þeirra hefur mikil áhrif á hlutskipti þeirra í framtíðinni; þeir munu læra að athuga gaumgæfilega hvern hlut; þeir munu safna í kring um sig sönnum vinum og verjast slæmum áhrifum .

Þannig hjálpar hin heilnæma orka við enduruppbyggingu lífsins.

386. Oft fær hið mikilvægasta minnstu athyglina. En Við verðum ávalt óþreytandi við að minna aftur og aftur á það sem mannkynið hefur brýnustu þörf fyrir. Ein slík endurtekning er áherslan sem Við leggjum á þekkingarþrá. Menn hafa vanist um of þeirri hugmynd að einhver taki að sér að hugsa fyrir þá, og að heimurinn sé skyldugur að annast um þá. En allir verða að leggja sinn skerf af mörkum til samvinnunnar. Það að læra að hagnýta eigin andlega orku þýðir að vitundin er ræktuð smátt og smátt.

387. Ekki ætti að finnast nein mótsögn í þeirri staðreynd að tilraunir með andlega orku muni valda þreytu . Hinn fáfróði kann að segja: „Ef þetta er grundvallarorkan, hvers vegna veldur þá samneyti við hana þreytu?“ Þannig andmælendur vilja ekki skilja að þegar gerðar eru tilraunir er orkan eins og hún sé samþjöppuð, og ennfremur að aðalástæðurnar fyrir þreytu er að finna í ytri aðstæðum. Óeðlilegt umhverfi kemur í veg fyrir mögulegan árangur. Þess vegna ráðlegg ég að tilraunir séu gerðar fjarri þéttbýlisstöðum, slíkar aðstæður eru ekki lítil hjálp.

Á sama hátt ætti að forðast hin mettuðu áhrif frá illdeilum og hvers kyns skapillsku. Illskuhvati verður aðalandstæðingur þróunar hinnar æðri orku. Einnig er andrúmsloft, sem mettað er útstreymi frá fæðuefnum, skaðlegt. Jafn skaðleg er nærvera dýra. Þannig mun hver og einn fjarlægja það sem ekki kemur að gagni eftir því sem hann er fær um.

388. Andleg orka er ákaflega fíngerð, því verður að fást við hana með næmni og göfgi. Hafa verður staðfastlega í huga að kraftur orkunnar er eldlegur máttur. Það verður að viðhafa sérstaka gætni þar sem útræður eða innræður eldur er nærri. Maðurinn ætti að læra að láta sér annt um þessa sífellt nálægu orku. Ómögulegt er fyrir mann að gera tilraunir ef hann er haldinn vafa eða óvinsemd. Á löngu liðnum tímum var farið að ræða um vinsamlegt og góðviljað viðhorf; smátt og smátt hefur mönnum verið kennt að nálgast þetta mjög svo mikilvæga hugtak.

Þegar náð er tökum á aðferðunum við að gera tilraunir með andlega orku, er alveg ómissandi að vita hvernig á að ná valdi á eigin hugsun; ekki aðeins til að geta stjórnað henni, heldur einnig til að geta haft hemil á virkni hugans.

389. Sjaldan gerir fólk sér grein fyrir því hversu langt áhrif andlegrar orku geta náð, en tímabært er að skilja að mjög mikilvægir atburðir grundvallast á æðri orku. Finna má merkileg dæmi um persónuleika sem hafa, meðvitað eða ómeðvitað, skipt sköpum í veraldarsögunni.

Fræðimenn þekkja ef til vill þá staðreynd að tilraunir með andlega orku geta gefið mjög óvæntar niðurstöður. Við skulum ekki gera aðstæður til uppgötvana of auðveldar — hið auðvelda er ekki mikils metið.

390. Við gefum vísbendingar um rannsóknir á andlegri orku með mikilli varfærni. Í fyrsta lagi gætu vissir aðilar hagnýtt sér slíkar upplýsingar í illum tilgangi; í öðru lagi gætu einhverjir gengið of langt í tilraunum og haft skaðleg áhrif á heilsu sína; í þriðja lagi gætu sumir, sem skortir hæfni til slíkra tilrauna, hafið rógburð um lítið hagnýtt gildi þess sem látið hefur verið uppi. Lát aðeins þá sem helga sig þekkingunni stunda alvarlegar rannsóknir. Allir hafa einhvern tíma hitt fólk sem hefur gert hið mikilvægasta að aðhlátursefni. Lítilsvirðing er ekki aðeins fáviska; hún opinberar grófleika vitundarinnar.

Ég fullyrði að rannsaka verður andlega orku með vakandi athygli. Engin sundurþykkja er leyfileg við umræður um andlega orku. Hægt er að endurtaka allar tilraunir með skilningi á sérstæði hvers tilfellis. Vissulega fer sérhver tilraun fram við sérstakar aðstæður. Þessar kringumstæður verður að hafa í huga, því til er fólk sem krefst þess jafnvel, að hægt sé að endurtaka hina fíngerðustu orku á vélrænan hátt.

Að viðhalda sérstæði og réttmæti er oft ákaflega erfitt.

391. Sjá má einnig að straumar geta orðið fyrir truflunum. Alveg eins og hægt er að rekast á loftpytti á flugi, þannig má einnig taka eftir óvæntum hléum þegar straumar eru athugaðir. Í fyrndinni var slíkt nefnt þagnir náttúrunnar. Það má jafnvel greina skjálfta í vélum þegar straumarnir breytast. Andleg orka er vissulega sérstaklega næm á slíkar breytingar.

392. Eðlilegt er að andleg orka gefi góða svörun við efnum sem eru fólki gagnleg. Ekki þarf að furða sig á því að góð svörun sé í samræmi við persónulegar tilfinningar. Skynjanir okkar ættu að samsvara réttu mati. Efni sem maðurinn getur ekki þolað reynist venjulega skaðlegt. Ástæðuna er ekki að finna í sjálfssefjun heldur í beinni þekkingu.

Ljóst er að við vitum mun meira en við getum ímyndað okkur. Sú hæfni að öðlast beina þekkingu djúpt úr vitundinni eflist með andlegri orku.

Því er auðsjáanlegt að orkan er sem leiðsögumaður á öllum sviðum þekkingarinnar.

393. Menn hafa séð að vissar þjóðir birta auðveldlega andlega orku. Athuga skyldi slíkar þjóðir. Ástæðan getur annað hvort legið í eiginleikum fólksins eða í áhrifum frá náttúrunni.

Vissir málmar geta samsvarað eðlisfari hinna innfæddu; það geta verið staðbundnir segulmagnaðir straumar sem tengjast grunnvatni. Á sama hátt geta vissar trjátegundir eflt eða dregið úr virkni orkunnar. Eik og fura eru góðar, en ösp, elrir og dvergálmur örva sjaldan orkuna. Slíkar kringumstæður eru samt sem áður ekki mikilvægar.

Það sem skiptir mestu máli er manninum áskapað. Það er þekkt að jafnvel til skamms tíma hefur mönnum verið ókunnugt um mikilvæga innkirtla. Eins dettur fólki ekki í hug að hugsa mikið um andlega orku nú á tímum.

394. Bæði lífeðlisfræði og heimspeki mismunandi þjóða forðast að minnast á það sem er mikilvægast. Þrátt fyrir að margar ráðstefnur séu haldnar er sérstaklega sorglegt að sjá hin slóttugu undanbrögð sem gripið er til í þeim tilgangi að forðast að tjá það sem liggur beinast við og finna einföldustu lausnirnar.

Hæfnin til að álykta með einföldum og skýrum hætti er afleiðing af ræktun andans.

395. Rannsaka ætti hugsanasendingar sem berast á straumi andlegrar orku. Þessar sendingar eru ef til vill ekki skynjaðar í orðum, en þær geta endurspeglast í hrynjandi orkunnar. Þetta kemur ekki fram sem truflun, eins og þegar straumarnir breytast; það veldur samt sem áður því að táknrún orkunnar breytist; ef til vill myndast sporbaugur í stað hrings, eða þvermál hringsins breytist, eða að sveifluhreyfing kemur í ljós — á þann hátt er hægt að verða var við áhrif hugsunar, ef hugsunin er nægilega kraftmikil. Hinir fornu athugendur áttu nöfn yfir þetta, svo sem „snerting vængja,“ vegna þess að hugsun hefur ætíð verið táknuð með vængjum.

Mörg vandlega úthugsuð tákn hafa verið skilin eftir okkur til túlkunar. Með rannsókn tákna getum við öðlast skilning á djúpsæi hinna fornu hugsuða. Þó sjaldan finnist leifar fornrar hönnunar, svo sem tækja, er samt mögulegt að sjá í táknmyndum ýmislegt sem er mun djúpstæðara en menn kæra sig um að viðurkenna. Stundum koma þó í ljós við uppgröft brot af hlutum sem samræmast ekki hugmyndum manna um forna tíma.

Menn þurfa að íhuga viðfangsefni hugsunar fyrri tíma. Slíkar rannsóknir, sem byggjast á efnislegum fundum, geta leitt til merkilegra niðurstaðna. Þegar fólk athugar fornar áletranir, les það oft úr þeim merkingu sem er ekkert nema persónuleg samsuða. Skarpskyggni er nauðsyn.

396. Eftirfarandi spurning er mjög mikilvæg: Geymast hugsanir sem sest hafa á hluti í langan tíma? Sjá má að stundum varðveitast þær öldum saman. Stundum voru málmblöndur notaðar í því skyni að varðveita betur slíkar útfellingar. Slík viðleitni er athygli verð; því hún sýnir að þekking manna til forna var mun meiri en yfirleitt er ætlað. Öfgarnar í lifnaðarháttum hafa verið miklar, en þegar best lætur er framför hugsunarinnar dýrleg.

397. Þegar rannsakað er útstreymi frá rós, kemur í ljós að það eitt að ganga fram hjá blóminu hefur áhrif á útstreymi þess. Með þessari einu athugun verður ljóst hve næmar plöntur eru og hversu sterklega þær bregðast við áhrifum frá mönnum. Til er einnig önnur tilraun sem hefur umtalsvert gildi. Ef maðurinn getur með orku sinni varpað áhrifum sínum í gegnum loft og gólfteppi upp á næstu hæð hússins, hvaða ályktanir er þá hægt að draga af því um samfélög manna!

Það er álitið að hugsanasamband milli manna sé aðeins mögulegt þegar alger góðvilji er ríkjandi. Enn á ný verður siðferðilegt hugtak að virkum drifkrafti. Þannig verður sálfræðin að áhrifaríkri vísindagrein. Það er mjög einkennandi fyrir núverandi tímabil, að jafnvel hin svonefndu óhlutlægu hugtök gerast drifkraftar í lífinu.

Spyrja má: „Er nýtt tímabil að hefjast?“ Það hefur svo sannarlega hafist, því skilningur á miklum orkutegundum er að vakna, og vísindin eru að rísa í nýjar hæðir.

398. Til er fólk sem er svo fávíst að það leggst gegn hagnýtingu hinna æðri orkutegunda. Það gengur svo langt í guðlasti sínu að lýsa því yfir að viðurkenning orkunnar sé lævís brögð hins illa. Þið munið vissulega rekast á furðulegar skoðanir um að vísindin séu af hinu illa. Jafnvel nú á tímum er til fólk sem í fáfræði sinni berst gegn því sem er mannkyninu til góðs. Látið slíkar raddir myrkursins sem vind um eyru þjóta — þær verða alltaf til. Guðlast, lítilsvirðing og illt umtal eru aðalvopn myrkursins. Þið sjáið samt nú þegar hina fögru orku, og engin illmælgi hefur áhrif á ykkur.

399. Merkjum hins nýja tíma fer sífellt fjölgandi. Þau glatast ekki í baráttunni. Blómin á enginu deyja ekki í þrumuveðrinu, og regnið gefur þeim aðeins nýjan ferskleika. Á þennan hátt ættu menn að skilja áhrif pólarandstæðnanna.

400. Sérhver líkamleg snerting felur í sér áhrifaríka athöfn. Allir dýratamningamenn þekkja mátt snertingarinnar. Jafnvel garðyrkjumenn vita um mikilvægi umönnunar plantna með höndum, en fólk kærir sig ekki um að þekkja nauðsyn á varfærni í samskiptum sínum við aðra. Þið hafið þegar séð að jafnvel einn maður getur algerlega raskað hrynjandi orkunnar. Þar sem ekki er svo erfitt að fá afgerandi niðurstöðu, þess þá heldur ættu menn að hagnýta sér svo sannfærandi þekkingu.

Fólk kærir sig ekki um að viðurkenna lögmál samfélagslífs. Hægt er að ræða ótal sinnum um hve mikill hagur er af einingu, en þeir eru fáir sem íhuga ástæðurnar fyrir þessari þráfylgni.

401. Fáir hafa gengið úr skugga um gildi mögnunar með handayfirlagningu. Slík fyrirbrigði hljóta að vera óaðgreinanleg frá andlegri orku, annars mætti draga þá óheyrilegu ályktun að sefjun, mögnun, dulskyggni, dulheyrn og öll önnur dulræn fyrirbrigði séu hvert um sig aðgreind og eigi mismunandi rætur.

Það er kominn tími til að gera sér grein fyrir einingu grundvallarorkunnar. Sérhver tilraun leiðir margbreytileika í ljós, en fjölbreytnin er þó aðeins þáttur af einingu grundvallarorkunnar.

402. Skynjun jarðskjálfta í fjarlægð líkist skynjun hugsunar úr fjarlægð. Orkan skynjar og nemur á sama hátt allar sveiflur, allt frá laufblaði sem fellur til jarðar til hinna stærstu atburða. Hin æðri orka er vökul og tilbúin að nema allt sem gerist.

403. Í fornum sögnum er oft sagt frá því hvernig hetjurnar urðu að komast fram hjá ógnvekjandi drekum til þess að finna fjársjóðinn. Þeir máttu ekki finna til ótta því þá myndu óvættirnar rífa þá í sig. Þegar hefur verið minnst á þann sérstæða eiginleika sjónarinnar, að horfa án þess að sjá. En nú nálgast sá tími að hin andlega orka raunbirtist, og þá þurfa menn sérstaklega á því að halda að vita hvernig á að hafa stjórn á tilfinningum sínum. Það verður að þjálfa þær þannig að hægt sé að virkja þær eða halda aftur af þeim á meðvitaðan hátt, allt að því marki að þeim sé algerlega haldið niðri.

Einmitt nákvæmlega það sem sagt hefur verið, að horfa án þess að sjá, er besta dæmið um stjórn á skynjun. Sá sem gerir tilraunir með orkuna ætti að vita hvernig hann á að hafa stjórn á tilfinningum sínum til að vera laus við allar fyrirfram myndaðar skoðanir.

404. Einnig hefur verið sagt að stundum sé erfitt að þvinga sjálfan sig til að hugsa, en enn erfiðara er að skipa sjálfum sér að hugsa ekki.

Sá hæfileiki, að hafa stjórn á hugsun sinni, byggist á stöðugri þjálfun, og fyrir tilraunastarfið er slík þjálfun ómissandi. Á hverjum degi er hægt að aga sig með því að forðast að hugsa um einhvern vissan hlut. En menn skyldu varast sjálfsblekkingu, því að ákvörðunin að hugsa ekki getur sjálf falið í sér hugsun.

Algjör stjórn hugsunar og lausn frá fordómum er mikil hugræn þjálfun.

405. Athuganir á andlegri orku grundvallast á innri heiðarleika athugandans. Hann einn getur um það dæmt hvort hann sé laus frá væntingum; hann einn getur um það dæmt hvenær hann hefur losnað undan valdi löngunar.

406. Ekki ætti að stunda tilraunir lengur en eina klukkustund í senn, til að ganga ekki um of á orkuforðann. Að vissum tíma liðnum koma afleiðingar misnotkunar í ljós.

407. Í fornu riti er sagt. „Lát mig drekka hið lifandi vatn sem stendur nærri höfði þínu.“

Þeir sem síðast hafa túlkað þessi orð hafa gefið þeim táknræna merkingu á þann veg að „hið lifandi vatn“ þýði haf viskunnar og „höfuð“ í þessu tilfelli merki hátind vitsmunanna. En í raun höfðu orðin læknisfræðilegt gildi. Lærisveinninn bað fræðarann um að mega drekka hið orkumagnaða vatn sem stóð við rúm hans. Hægt er að finna margt ritað um mögnun vatns. Á fornum myndum má sjá menn drekka úr íláti eða helgri uppsprettu.

Í fyrndinni vissi fólk um aðferðirnar tvær við að magna vatn. Önnur fólst í handayfirlagningu, en hin, sú náttúrulega, fólst í því að láta vatn standa við rúmið. Fyrri aðferðin var meira notuð við vissum kvillum, en hin síðari var álitin betri sem almennt viðhald á lífsþrótti. Þannig vatn var annað hvort drukkið eða notað útvortis.

Sagt er að drottning nokkur í Palmýra hafi skipað þjónustuliði sínu að dvelja yfir nóttina umhverfis baðkar sem hafði verið fyllt fyrir hana með baðvatni. Einnig má sjá í biblíusögunni um Davíð konung hve menn mátu mikils heilbrigða útgeislun manna. Í félagsskap manna ætti að gæta vandlega að því að útgeislunin sé full samræmis. Andleg orka mun aðstoða við val samverkamanna.

408. Orkumögnun klæða er einnig vel þekkt. Föt eða klæðisbútar hafa verið mögnuð og síðan gefin. Orkumögnunin hefur verið framkvæmd með sömu tveim aðferðunum — með handayfirlagningu eða með því að bera klæðin. Til var gamall siður, að gefa klæði sem borið var á öxlunum. Höfðingjar í fyrndinni álitu að slíkar gjafir væru til þess fallnar að auka hollustu viðtakendanna. Til er þjóðsaga sem segir að vitur einbúi hafi kennt konungi nokkrum þennan sið.

409. Mögnun með náttúrulegum aðferðum er æskilegri; hún er gerð án nokkurrar áreynslu eða þreytu, og útgeislunin sest á hlutinn ríkulega og án hindrana.

Þið vitið nú þegar um áhrifamátt útgeislunar. Það verður að venjast smám saman andrúmslofti gamalla húsa með fornum húsgögnum, til þess að uppsafnaðar geislaútfellingar verði ekki til skaða.

410. Mögulegt er að greina orkuútfellingar á fjallasnjó og dögg. Í fyrndinni skildi fólk læknisfræðilegt gildi daggar. Minnst var á það í fornum sögnum að menn þyrftu að ganga í dögginni í sjötíu daga til að öðlast spádómsgáfu. Og nýlega voru opnaðir spítalar þar sem einn hluti meðhöndlunarinnar fólst í því að ganga berfættur í dögginni, en venjulegt vatn var gagnslaust vegna þess að þörf var á hinum sérstæðu eiginleikum daggar.

Snjór, sem hlaðinn er geimryki, býr yfir sams konar læknandi eiginleikum.

411. Ef þið viljið færa einhverjum bók að gjöf þá ráðlegg ég ykkur að senda hana eftir að þið hafið lesið hana sjálf. Fyrr á tímum var bók, sem gefandinn hafði lesið, í hávegum höfð. Menn áttuðu sig á því að við lestur bókarinnar safnaðist sérstök gerð orku í hana. Þannig skulum við veita athygli öllum möguleikum á orkuskiptum milli manna.

412. Þegar maðurinn verður meðvitaður um eðlislæga orku sína, getur hann samt sem áður ekki hagnýtt hana eftir hentugleikum. Afleiðingarnar verða margs konar óeðlilegar aðstæður, en við slíku ætti að bregðast af mikilli þolinmæði.

Gestgjafinn hlær ekki að erlendum gestum sem hafa tunguna ekki fullkomlega á valdi sínu; hann reynir að skilja og hjálpa. Á sama hátt, þegar skynjaðar eru fíngerðar orkutegundir, ættu menn að beita allri athygli sinni. Fólk reynir oft að fela eða ef til vill ýkja skynjanir sínar, en lítilsvirðing er ekki við hæfi, jafnvel við fyrstu tilraun.

Einmitt nú á tímum á sér óefað stað mikil framþróun vitundarinnar. Þar sem búast hefði mátt við höfnun eru einmitt að opnast nýir möguleikar. Fögnum við hvert nýtt upphaf.

413. Andúð er ekki viðeigandi þar sem aðlöðun er að finna, þó hún sé aðeins í litlum mæli. Fræðslan verður að gera þekkinguna andlega og færa siðferðileg hugtök nær hinum ríkjandi æðri öflum. Hafnið ekki neinu sem getur minnt á gleymd sannindi.

Það er ekki af tilviljun að ég kem með dæmi úr þjóðsögum og þjóðháttum. Sérhver lausleg tilvitnun í þekkingu fortíðarinnar ber í sér merki um göfgi mannsins.

414. Sumir bíða tíðinda að ofan, aðrir leggja eyra við jörðu. Taka verður tillit til alls í alheiminum.

Menn ættu að gera sér grein fyrir helstu gjöfum þróunarinnar: Í fyrsta lagi — andlegri orku; í öðru lagi — kvennahreyfingunni; í þriðja lagi — samvinnu. Allar þessar gjafir verða menn að meðtaka fullkomlega, en ekki óhlutrænt. Margsinnis höfum við bent á mátt hinnar æðri orku. Með jafn mikilli ákveðni skulum við nú benda á eiginleika hinna næstu tveggja sérkenna aldarinnar.

415. Heimsmóðirin! Ætla mætti að með því að mæla fram þetta orð einu sinni ætti göfgi hugtaksins að verða öllum augljós, en lífið sýnir okkur að svo er ekki.

Skáld og söngvarar hefja konuna oft upp til skýjanna, en ríkisstjórnir eru ófærar um að viðurkenna einfalt jafnrétti. Það verður skammarleg síða í sögunni sem segir frá því að jafnvel nú á tímum hefur jafnrétti kynjanna ekki enn verið komið á. Uppeldi og menntun kvenna er ekki á sama stigi og karla, og sjálft móðurhlutverkið er ekki verndað.

Hver sá sem er fyrstur til að koma í framkvæmd þessu verki, sem hefur svo mikla alheimslega þýðingu, starfar í fullkomnu samræmi við þróunina.

416. Konan verður sjálf að setja fordæmi um einingu. Við vitum hve sjaldan slíku samræmi er náð. En ef lögð er áhersla á hina einu raunverulegu ástæðu, verður ekki mögulegt að daufheyrast eingöngu vegna fáránlegra siðvenja. Margar þeirra byggjast vissulega á sögulegum grunni, en þessum hindrunum verður að ryðja úr vegi.

Konur allra kynþátta og trúarbragða munu með eigin höndum vinna að því að móta skref þróunarinnar. Látum ekkert verða til tafar!

417. Þið munið rekast á tvenns konar andstæðinga jafnréttis — annar hefur kvennabúr í hávegum og segir að ekki megi raska fornum siðvenjum; en hinn ber ekki neina virðingu fyrir fortíðinni og mun krefjast forréttinda sjálfum sér til handa í öllu. Báðir eru þeir víðs fjarri leiðum þróunarinnar.

Alveg er óheimilt að draga gamlar misgerðir inn í framtíðina. Einnig er óheimilt að viðhalda stirðnuðum úreltum lífsháttum. Óheimilt er að leggja stein í götu frjálsrar þekkingarleitar. Yfirlýsing um fullt jafnrétti ætti frekar að kallast fullkomin réttindi. Þær skyldur sem fylgja viðurkenningu á fullu jafnrétti munu leysa lífið undan grófgerðum siðvenjum, illu orðbragði, ósannindum og gráum hversdagsleika. En hin nýja þróun verður að byrja snemma á ævinni ef hugmyndir um hana hafa ekki þegar komið fram á sjálfstæðan máta.

Nú á tímum eru margar konur um allan heim sem skilja fullkomlega mikilvægi fullra réttinda. Hægt er að reiða sig á þær.

418. Full réttindi fyrir allt mannkyn um allan heim ætti að vera tímanna tákn. Almenningsálitið verður að krefjast réttlætis afdráttarlaust. Slík fullkomin mannréttindi verða að komast á sem eðlilegt lögmál í samskiptum heimsins. Fullkomin réttindi mynda hinar ómissandi aðstæður.

Menn hrósa sér af afnámi þrælahalds, en hefur það örugglega verið þurrkað út alls staðar? Geta íbúar jarðarinnar sofið rótt, þegar mannleg reisn er niðurlægð og troðin í svaðið? Geta menn hreykt sér af æðri þekkingu, þegar þeir vita að fullkomin réttindi eru ekki staðreynd?

Þess vegna ætti ekki að líta svo á að nú þegar sé búið að koma á fullum mannréttindum með réttlátum hætti.

419. Þegar unnið er að því að koma á fullum réttindum er nauðsynlegt að forðast að láta það virðast sem eitthvað óvenjulegt. Þau eru hið náttúrlega ástand, og þeim verður að taka með rósemi. Hægt er að harma það í anda að slíkt náttúrlegt ástand hafi ekki komist á fyrr. En það er engin ástæða til að hreykja sér af því þegar eitthvað er gert sem náttúran sjálf hefur mælt fyrir um.

420. Fullum réttindum fylgja að sama skapi miklar skyldur. Ef þann skilning vantar munu fullkomin réttindi breytast í geðþóttahátt. Meðal kvenna er að finna þá skyldurækni og vandvirkni sem er inntak þróunarinnar.

Það er ekki mögulegt að öðlast tilfinningu fyrir fullkomnun án sterkrar innri viðleitni.

421. Konur geta verið jafnt dómarar sem lögfræðilegir ráðunautar, því óréttlætið mun eyðast þegar dómstólarnir sjálfir andæfa hinu illa afli. Slíkir yfirburðir munu ummynda alla þætti lífsins.

Þegar ég segi: „Þið konur hafið hæfni til að skilja samvinnu,“ er ég með því að reyna að vekja eldana sem blunda djúpt í hjörtum ykkar.

422. Samvinna er tímanna tákn. Margt hefur verið um hana ritað, en lífið krefst þess að þetta hugtak verði göfgað. Engir útreikningar munu koma að liði við að styrkja samstarf. Menn geta fullvissað sig um það af þeirri staðreynd að einn einstakur illur vilji hefur þegar fært heildarkerfið úr skorðum. Ekki má líta svo á að hægt sé að hylja hið óttalega ástand með neins konar ytri skuldbindingum. Ef traust er ekki fyrir hendi, breytist samvinnan í körfu fulla af eitursnákum. Ég fullyrði að skilningur á andlegri orku myndar trausta undirstöðu fyrir samvinnu. Það eru ekki óhlutlæg hugtök, heldur vísbendingar orkunnar sem kalla fram nýjar hugsanir.

423. Sérhvert svið lífsins er orðið svo flókið að samvinnu er alls staðar þörf. Ekki er hægt að nefna eina einustu starfsgrein sem er sjálfstæð og öðrum óháð. Af þessari ástæðu verður samvinnan að vísindum lífsins. En til að gefa henni vísindalegan grunn er nauðsynlegt að viðurkenna hana á öllum sviðum lífsins. Ekki er mögulegt að kalla fólk til samvinnu eins og um einhverja óraunhæfa hugsýn sé að ræða. Í öllum námsgreinum skólanna ætti einmitt að benda á hinn eðlislæga möguleika á samvinnu.

Í öllum lögum ætti að ætla samvinnu stóran hlut. Lát réttlát lög vernda alla vaxtarsprota hennar. Lífið er margbreytilegt og því er ekki hægt að líta á eina skilgreiningu sem algilda fyrir samvinnu. Fíngerðar orkutegundir eiga þátt í hverju starfi, og þær verður að vernda vandlega með lögum. Hinar fíngerðu orkutegundir birtast í mjög margvíslegum gerðum mennskrar vitundar. Ógerlegt er að skilgreina hinar fíngerðu samsetningar með grófgerðum orðum.

Það verður að rækta hugsunina þannig að hún nemi hina ýtrustu gagnsemi ofan og handan við hið hefðbundna. Sumir skilja ef til vill ekki hvaða samband er á milli ræktunar á hugsun og lögmála samvinnu, en í samvinnu birtist samhljómur mannkynsins.

424. Mikil andstaða mun koma fram gegn samvinnu. Af eigingirni munu sumir alls ekki vilja viðurkenna hana; aðrir munu hagnýta sér hana í eiginhagsmunaskyni, en hafna þó tilvist hennar; og enn aðrir munu líta á samvinnuhugtakið sem algjört stjórnleysi.

Mörgum mótbárum verður beitt; því verður það eitt af erfiðustu verkefnunum að koma á samstarfi. Djúp gjá fortíðaráhrifa mun opnast; bent verður á furðuleg dæmi frá fyrri tíðar úreltum hugmyndum; taldir verða upp glæpir sem voru afleiðingar óheiðarlegrar samvinnu. Of oft hafa hindranir verið reistar og nýir lífshættir gleymst. Með samvinnu er hægt að koma með róttækum hætti í veg fyrir tilhneiginguna til að hjúpast andlausri vélvirkni.

Ennfremur, samvinnu má ekki takmarka eingöngu við vissa þætti starfsins. Líta verður á samvinnu sem grundvöll tilverunnar. Aðeins með víðtækri samvinnu er hægt að mynda hið rétta samband ríkisins við vinnuframlag þjóðarinnar. Að öðrum kosti vex hin eyðileggjandi skuld ríkisins. Það er aðeins merki um villimennsku að leysa slíkt vandamál með stríði. Maðurinn má ekki hugsa um eyðingu þjóða, heldur um framfarir plánetunnar! Þegar andleg orka hefur hlotið sinn réttmæta sess, þegar konan er orðin verndari menningarinnar, þegar samvinna er gerð að grundvelli lífsins — þá mun allt lífið ummyndast. Þekking og skapandi eiginleikar munu skipa sína fyrri stöðu. Með því á ég við að jafnvel í fyrndinni má finna dæmi um skilning á mikilvægi vísinda og lista. Samvinna leiðir í ljós auðvelda leið til fullkomnunar.

425. Sjálfsfullkomnun og heilbrigði þjóðarinnar eru nátengd verkefni. Leitum til konunnar vegna hins fyrra og vegna hins síðara. Bæði þessi verkefni eru unnin á sviði fjölskyldunnar, miklu fremur en á sviði stjórnunar. Ekki er hægt að gefa fyrirmæli um hreinar hugsanir; ekki er einu sinni hægt að gefa fyrirmæli um hreinan talsmáta. Ekki er hægt að skipa fyrir um heilnæmt hreinlæti heimilisins. Það er aðeins upplýst vitund sem er grundvöllur að heilbrigði anda og líkama.

426. Hvaða jarðnesk orð geta tjáð þá staðreynd að í sérhverri hreyfingu mannsins birtist fíngerð orka? Hvernig á að segja að hin sama orka hrindi af stað hreyfingu heimanna? Hvernig á að gefa í skyn að hana er einnig að finna í hugsun og starfi? Hún er bæði hvetjandi og letjandi orsök. Hún gerir ekki greinarmun á hinu smáa og hinu stóra. Hver gerir sér grein fyrir því hvar hina fyrstu orsök alls er að finna? Hver getur þá breitt út þekkingu um hina miklu orku um allan heim?

Hægt væri að skrifa bók um smáar orsakir og miklar afleiðingar. Slíkar skilgreiningar eru vissulega aðeins mögulegar út frá jarðneskum viðmiðunum. En það er lærdómsríkt að rannsaka hvaða orsakir hafa valdið hinum miklu afleiðingum; furðulegt er hversu smáar hinar sýnilegu orsakir eru. Margir muna alls ekki hinar smáu tilhvatir. Við skulum skoða hvernig slíkt ósamræmi getur orðið til. Eina skýringu er að finna í karmískum orsökum. Einnig á maðurinn erfitt með að greina á milli hins smávægilega og hins mikilvæga.

Andleg orka hlýtur að vera áminning um tilveru mikillar orku í öllu. Þannig skulum við læra að tala með gætni um hið smáa. Lærið að íhuga hina miklu orku.

427. Það er ekki auðvelt að veita öllum fyrirbrigðum lífsins nána eftirtekt. Nauðsynlegt er að endurtaka sannindin um nauðsyn þess að beita skarpri athygli, til að hin helga orka verði ekki misnotuð. Margar ráðleggingar hafa verið gefnar varðandi þessa leið. Rætt er um kærleik, góðvild, samúð og marga aðra eiginleika, en nauðsynlegt er að styrkja þá með skilningi á hinni miklu orku. Ekki er auðvelt að hafa þetta í huga mitt í umróti lífsins.

428. Hvers vegna er þátttaka konu svo nauðsynleg í tilraunum með andlega orku? Hvers vegna er umönnun konu svo góð fyrir blómin? Hvers vegna hefur snerting konu svo mikil læknandi áhrif í veikindum?

Hægt er að nefna mörg dæmi um að það er einmitt kona sem getur veitt hinni andlegu orku sérstaka þenslu. En slíkum sérstökum eiginleikum kvenna hefur ekki verið veitt næg athygli. Læknar hafa sjaldan skilning á því að þátttaka konu í læknisaðgerðum getur verið ákaflega gagnleg. Hið eilífa kvenlega frumtak hefur ekki enn verið túlkað á réttlátan hátt.

Vísindamenn viðurkenna ekki að nálægð ákveðins fólks ein og sér jafngildi notkun á áhrifaríkum tækjum. Það eru ekki gerðar tilraunir sem gætu leitt í ljós á myndrænan hátt hinar mismunandi svaranir sem mismunandi fólk veldur. Sérhver tilraun með andlega orku er ólýsanlega gagnleg.

429. Enginn ætti að mæla á móti því að hann búi sjálfur yfir einhverju sérstöku innra gildi. Notagildi þess hefur ef til vill ekki fundist, en það merkir ekki að möguleikinn sé ekki fyrir hendi.

430. Virkni elds í iðrum jarðar er mikil. Enginn veitir því þó nokkra eftirtekt hvernig atburðir heimsins samsvara fyrirbrigðum náttúrunnar. Það stafar ekki svo mjög af vanrækslu, heldur er ástæðan sú að þekkingu skortir á því hvernig tengja á atburði við kosmísk fyrirbrigði. En einmitt á þessu ári geta markverðir atburðir gerst.

431. Kosmísk fyrirbrigði samsvara ekki aðeins efnislegum stríðsátökum heldur einnig andlegum árekstrum. Áhrif magnaðrar orku geta valdið iðuhvirflum í mikilli fjarlægð.

432. Spyrja má: „Hvaðan kemur þreytan þegar gerðar eru tilraunir með andlega orku? Eru fyrir hendi einhverjar ytri ástæður til viðbótar hinni innri þenslu?“

Þetta er rétt tilgáta. Þegar mögnuð orka fær útrás verður til sérstakur segull sem dregur að sér ákveðinn þrýsting orku úr umhverfinu. Þessi ytri þrýstingur stuðlar að þreytu. En á hinn bóginn vekur þessi segull einhugula athygli og gerir athöfn trúverðuga. Ræðumenn og söngvarar finna til þreytu, ekki eingöngu vegna taugaþenslu, heldur einnig vegna þrýstings andlegrar orku sem dregst til þeirra frá umhverfinu. Afleiðingin er flókin atburðarás — á aðra hlið innblástur en þrýstingur á hina.

433. Segja má öllum frá því hversu eining er ómissandi. Áður hefur verið bent á að eining sé raunverulegur drifkraftur. Sagt hefur verið að eining sé segull. Hún er læknandi máttur, hún er heilsa, hún er skjótvirk leið að markinu. Hverju fleiru þarf að bæta við?

Ef það sem sagt hefur verið hefur engin áhrif, er til lítils að bæta því við að eining gefur samhljóm við Helgivaldið. Sé þessi vísbending ekki meðtekin, er erfitt að meðtaka hugmyndina um Helgivaldið. Slíkt er sambærilegt við hús sem stendur á ótraustum grunni. Fyrsti vindgustur mun feykja um koll slíku hrófatildri. Hvaðan kemur styrkurinn til að standast fyrsta stormviðrið?

434. Mörg söguleg dæmi eru til vitnis um þá staðreynd að jafnvel sterkar persónur hafa lamast í návist annarra sem búa yfir minni krafti. Að auki má sjá að þessar tálmandi persónur eru af tveim gerðum. Önnur þeirra hindrar aðeins visst fólk, en hin verkar almennt truflandi á streymi orkunnar.

Fyrrnefnda tegundin er skiljanleg, vegna þess að allt misræmi leggur hömlur á viðleitni orkunnar, en hin síðarnefnda er tjáning á einhvers konar kosmísku fyrirbrigði. Það felst ekkert gott í því að trufla orkustrauma; menn þurfa að búa yfir neikvæðum krafti í talsverðum mæli til að trufla sterkt gagnvirkt samband. Þeir sem slíkt gera nefnast kosmískar blóðsugur. Ytra útlit þeirra þarf ekki að segja neitt um þeirra innri mann, því eins líklegt er að þeir líti út fyrir að vera frekar litlausar persónur.

Látið ekki reyna á orkuna ef þið skynjið návist slíkrar persónu.

435. Það er óheppilegt að í mörgum tungumálum eru notuð mismunandi orð um sama hugtakið sem gera með því merkinguna torskildari. Til dæmis er hægt að fela orðið „ósannsögli“ bak við önnur orð, eins og uppgerð, óheiðarleiki, svik, fordómar, uppspuni og mörg önnur, en rótin að þeim öllum er sama hugtakið, ósannindi. Greina má mismunandi blæbrigði, en rótin hefur ekki breyst. Hið sama má segja um mörg hugtök sem hafa greinst mjög í meðförum almennings. Slík sundurgreining er langt frá því að vera gagnleg þegar nauðsynlegt er að hugsa um einingu.

Það eru til svo mörg nöfn yfir hið sama!

436. Gagnkvæm orkuskipti milli manna eru eðlileg fyrirbrigði, en óleyfilegt er að draga til sín orku annars án þess að gefa orku af sjálfum sér í staðinn. Slík dæmi eru jafn algeng og smitandi pestir. En mögulegt er að andæfa gegn svo ofsafenginni sjálfselsku að vissu marki. Ef fólk venur sig frá barnæsku á mikilvægi samskipta og samvinnu, mun það einnig meðhöndla orku af skynsemi.

Margs konar athafnir af blóðsugu tagi eru ekkert annað en heimskulegt siðleysi.

437. Margt af því sem orð fá ekki tjáð er hægt að skýra nánar með táknum. Í sérhverju tákni felst því vottur af hinu ósegjanlega. Mögulegt er að skynja gildi hins leynda, en orð eru ófullnægjandi.

Skoða ætti tákn með mikilli athygli. Eins og leyndar helgirúnir geyma þau kjarna hins mikla alheims. Venjulega veit fólk ekki hvernig það á að skoða tákn. Fólki líka ekki vísbendingar, því það álítur að þær hamli gegn frjálsum vilja þess. En ef fólk er hins vegar látið afskiptalaust er það ógæfusamt og finnst það vera yfirgefið.

Tákn eru eins og stríðsfánar sem bardagamenn geta hópast um til að fá vitneskju um fyrirmæli sín. Í stríði hefur fall fánans verið talið jafngilda ósigri hersins. Á sama hátt, ef tákn eru virt að vettugi, getur það orðið til þess að hugtök, ótjáanleg í orðum, fari forgörðum. Ennfremur, tákn eru áminning um fræðsluna í heild sinni. Það virðist sem svo að leynd táknsins feli í sér orkuþenslu.

438. Örvænting er slæm, en til er önnur gerð ýtrustu þenslu sem er nauðsynleg til árangurs. Hið ytra er hún næstum því óaðgreinanleg frá dýpstu örvæntingu, en hið innra eru þær andstæður. Örvænting er niðurbrjótandi, en ystu mörk þenslu eru uppbyggjandi.

439. Ófögur hugsun getur ekki valdið fagurri athöfn. Þegar ég tala um fegurð hef ég fyrst og fremst í huga fegurð hugsana. Hugsun hefur form, sem þýðir að hafa verður skilning á fegurð hugsunar á margan hátt. Vegna alheimsins má maðurinn ekki hugsa ófagrar hugsanir.

Þið vitið að í fíngerða heiminum á sér stað samsöfnun hins ljóta. Bardaginn í fíngerða heiminum veldur bæði góðum árangri og ógeðfelldum athöfnum. Ástand fíngerða heimsins er skelfilegt þegar myrkar sendingar eitra geiminn. Ef jarðneskar sprengingar skekja jörðina, hversu miklu meira eyðileggjandi eru þá verkanir fíngerðra orkutegunda! Fólk hugsar lítið um þessi tengsl hins jarðneska og fíngerða heimsins; í jarðneskum orðum sagt — afleiðingar fíngerðra orkutegunda fara mörg þúsund sinnum fram úr jarðneskum verkunum. Að vísu endurspeglast þær í jarðneskum skynjunum, en margir útskýra þær aðeins sem vont veður. Í besta falli eru þær eignaðar sólblettum eða sólmyrkva, en lengra í ályktunum sínum vogar mannkynið sér ekki að ganga.

440. Þekking er öllu ofar. Hver sá sem leggur til þekkingarbrot er góðgerðarmaður mannkynsins. Sérhver sem safnar saman þekkingarneistum er ljósberi. Lærum að vernda hvert þrep vísindalegs skilnings. Andúð á vísindum er sem stökk út í myrkrið.

Allir eiga rétt á því að fá aðgang að fræðslunni. Lesið vandlega þau verk sem eru full sannleiksleitar. Hinn fáfróði sáir fordómum án þess einu sinni að hafa fyrir því að lesa bók. Hið jákvæðasta rit kallar hann höfnun. Viðurkenning æðri lögmála er álitin vera skelfilegt guðlast. Sannarlega eru fordómar slæmir ráðgjafar! En við megum ekki vanrækja alla hina uppsöfnuðu þekkingu.

Við skulum ekki gleyma að bera þakklæti í brjósti til þeirra sem með lífi sínu hvöttu til þekkingarleitar.

441. Samvinnufélag er ekki lokað samfélag. Samvinna byggð á lögmálum náttúrunnar felur í sér brot af óendanleikanum. Verkaskiptingin og hin gagnkvæma aðstoð má ekki byggja upp hefðbundnar takmarkanir. Þvert á móti, samvinnufélagið opnar dyr fyrir öllum möguleikum. Að auki eru samvinnufélög samtengd, og með því móti verður til net starfsemi sem umlykur alla veröldina.

Enginn getur ákveðið fyrirfram hvaða form samvinnan muni taka. Stofnanir sem grundvallaðar eru á samvinnu geta verið margvíslegar og náð yfir svið menntunar, iðnaðar og landbúnaðar. Ekki er hægt að ímynda sér eitt einasta svið sem ekki er hægt að bæta til mikilla muna með samvinnu. Það ætti ekki að banna fólki að koma saman til samvinnu á algerlega nýjum nótum. Samvinnufélagið er varnargarður ríkisins og vöggustofa samfélagslífsins. Hvaðan mun almenningsálitið koma? Hvar munu hinar langþráðu framfarir taka á sig mynd? Hvaðan munu þeir sem starfa einir fá aðstoð? Sannlega, samvinnan mun einnig kenna einingu.

442. Það eru margir möguleikar fyrir hendi; aðeins er nauðsynlegt að uppfylla það sem sagt hefur verið fyrir um, sérstaklega nú á tímum þegar mannkynið grípur hvert hálmstrá sér til bjargar. Ekki er hægt að ætla að tilvera fáeinna auðkýfinga sé til marks um velsæld þjóðar í heild sinni. Tími er kominn til að hafna þeirri villu að hundrað hallir byggi upp ríkið. Kominn er tími til að skilja og skoða dvalarstaði fátæklinganna; aðeins þar er mögulegt að mynda sér skoðun um raunverulegar aðstæður þjóðar.

Kominn er tími til að skilja hvar raunverulegt gildi liggur og hvar virkisgarðinn fyrir þróun vitundarinnar er að finna.

443. Hverjir eru þeir sem virða ekki né unna einingu? Þeir hafa ekki reynt þá tilfinningu stöðugleika sem alltaf tengist einingu. Þeir þekkja ekki hugdirfskuna sem er óaðskiljanleg frá einingu. Þeir hafa hafnað framförum sem eining gefur ríkulega. Þeir hafa ekki tekið þátt í gleðinni sem fylgir einingu. Þeir hafa hrakyrt virki einingarinnar. Hvað er þá eftir fyrir þá? Annað hvort að farast í fárviðrinu, visna í sólinni eða þá að rotna í mold fordómanna.

Hverjir eru þeir sem forsmá einingu?

444. Augljósasta dæmið um tálmynd og raunveruleika er að finna í stjörnum himinsins. Þó stjarna hafi eyðst fyrir þúsundum ára er ljós hennar enn sjáanlegt frá jörðinni. Hver getur þá gert tilraun til að skilgreina markalínu hins raunverulega og tálsýnarinnar? Einnig má finna svipuð dæmi meðal jarðneskra fyrirbrigða.

445. Jarðneskir sigurvegarar, hvar eruð þið í raun og hvar eru aðeins skuggar ykkar? Hver vill greina á milli — er það sigur eða aðeins endurspeglun fjarlægra atburða? Hvar liggur markalína raunveruleikans? Þó öllum tölum sé safnað saman er lausnartöluna ekki að finna. Aðeins fíngerð orka getur greint á milli lífs og dásvefns.

En fólk kýs að lifa meðal svipa.

446. Til eru margir prófsteinar. Mögulegt er að prófa vitund manna með helstu grundvallarhugtökunum. Segið við þá — þróun og þroski, framfarir og árangur; og án nokkurra mælitækja munið þið skynja hvernig slíkum hugmyndum er tekið. Þeim verður að taka með gleði, hugrekki og innsæi; en oftast munið þið verða vör við hik, efa og sjálfsvorkunn.

Gleði verður ekki til við sjálfsvorkunn, né hugrekki við efa. Aftur á móti ætti eitt orð um árangur að vekja innsæi. Ein hugsun um framfarir ætti að margfalda kraftana. Hvað varðar þann sem nær árangri um alla dreka? Hann virðir að vettugi hinar illvígu óvættir, því andagiftin er traustur skjöldur.

Þið vitið að innblástur sameinar manninn máttugri orku. Allir hafa einhverju sinni reynt hvernig þreytan hverfur við mikla viðleitni. Sem barn veit maðurinn að mögulegt er að yfirvinna þreytu, en þegar tímar líða verður hinn vesæli og vegmóði ferðamaður vantrúnni að bráð.

447. Þið vitið sjálf hve miklu auðveldara það er að leiðbeina mönnum sem sýna góða viðleitni. Þið vitið að örvar hæfa ekki mann á hreyfingu og að snúningshreyfing þeirra beinir þeim aftur að andstæðingnum. Mörgum sinnum hafið þið séð hvernig vængir hafa vaxið og borið manninn yfir djúpið.

Hvorki þreyta, skapstyggð né andstæðar hugsanir leiða til framfara.

448. Eitt sinn sá lærisveinninn fræðarann í samræðum við bogaskyttu sem átti leið hjá. Á eftir spurði lærisveinninn undrandi: „Hvaða gagn er hægt að hafa af slíkum samræðum?“

Fræðarinn svaraði: „Ég spurði hann hvernig hann smíðaði góðan boga og hvernig hann hæfði markið. Það er alltaf við hæfi að ræða um styrk, skotfimi og hæfni.“

449. Allir menn verða fyrir hugljómun, en þessir neistar af háleitum fögnuði koma sem einangraðir glampar og ummynda ekki allt lífið. En þrátt fyrir allt er slíkt ástand andans mögulegt, jafnvel við erfiðar aðstæður. Gerum okkur í hugarlund að svo háleitt ástand sé viðvarandi; það mun þá veita enn æðri uppljómun. Að sjálfsögðu mun öll tilveran upphefjast á sama hátt, og sjálf náttúran mun enduróma þessa þróun.

Fólk telur að þróunin gerist eða öllu heldur ætti að gerast á löngum tíma, en hægt er að flýta þessu ferli í samræmi við löngun mannsins í þá átt. Fólk getur, ef það óskar, tekið framförum með miklum hraða. Allir aðrir þættir tilverunnar eru reiðubúnir fyrir hraða þróun, en maðurinn verður að þrá hana. Menn mega ekki kæfa hvern neista andagiftar. Þeir verða að læra að unna þeim sem hinu æðra samneyti.

Kærleikur þarf ekki á neinum töfrabrögðum að halda. Né heldur þarf að safna birgðum þar sem óendanleikinn er. Með einfaldri þrá er mögulegt að vinna að framförum. Útþensla hugans veldur strax óendanlegri gleði.

Aðeins samhliða sönnum uppgötvunum er mögulegt að öðlast viðvarandi hugljómun.

450. Hafið í huga það ráð að geyma bók fræðslunnar við krossgötur. Hafið ekki áhyggjur af því hvaðan vegfarendur koma, eða hvaðan vinirnir sem hafa hugboð um að visku sé að finna muni koma. Verið ekki mædd vegna þeirra sem fara framhjá; þeir kunna óafvitandi að vekja athygli einhvers. Ef til vill hneykslast þeir og vekja athygli margra með upphrópunum sínum. En við skulum ekki ræða um hinar óræðu leiðir. Enn er ekki hægt að gera þær opinberar, en hjartað þekkir þær.

451. Nauðsynlegt er að ítreka þá staðreynd að innsæi er meðfæddur eiginleiki hjá öllum. Venjulega ætla menn að innsæið sé aðeins virkt hjá lærdómsmönnum, skáldum, tónlistarmönnum og myndlistarmönnum, en allir sem láta sig varða sína eigin vitund geta öðlast þessa æðri gjöf.

Hjá fólki háleitrar hugsunar má innsæið ekki aðeins vera sjaldgæfur gestur; það ætti að vera sjálfur grundvöllur lífs þess. Aðeins er nauðsynlegt að veita þessum tengingum athygli; venjulega ýtir fólk þeim frá sér eins og truflandi flugnasveimi. Það gæti virst sem svo að maðurinn hafi ákveðið að hafa að engu hinar æðri orkutegundir sem hafa svo rausnarlega verið fengnar honum til afnota. Ég ráðlegg ykkur að íhuga gaumgæfilega — hvað er innsæi?

452. Hjálpsemi er nauðsynleg alls staðar og í öllu. Hindranir í vegi hjálpar af stjórnmálalegum, þjóðernislegum, samfélagslegum eða trúarlegum toga eru mannkyninu ekki samboðnar. Öllum sem þess þurfa ætti að veita hjálp á öllum sviðum. Ekki er við hæfi að velta fyrir sér háralit þegar hætta steðjar að. Ekki ætti heldur að spyrja um trúarskoðanir þegar bjarga þarf mönnum úr eldsvoða.

Öll viskurit benda á nauðsyn skilyrðislausrar aðstoðar. Líta má á þannig hjálp sem sannan innblástur. Þetta hefur þegar verið ítrekað, en vegna hinna mörgu hefðbundnu viðhorfa er knýjandi að endurtaka sannindin um óhefta hjálpsemi.

453. Angist hjartans er óhjákvæmileg ef vitað er af ógæfu á heimili nágrannans. Hinar opnu orkustöðvar geta skynjað margar truflanir nær og fjær — þær fá hjartað til að titra. En menn taka oft ekki eftir merkjum hjartans; þeir telja þau oftast vera merki um sjúkdóma. Þess ber þó að minnast að hjartað slær í takt við alla tilveruna. Kosmískir atburðir og átök meðal þjóðarinnar eru sem hamarshögg.

Fólk talar um aukningu hjartakvilla. Það er rétt, einkennin eru vaxandi, en það er einföldun að tengja það eingöngu taugaspennu samtímans. En hvar liggja þá orsakir þessara truflana? Þegar straumar þéttast veldur það nýjum birtingum sálarorkunnar. En fólk lítur ekki á orkuna sem hið þýðingarmesta í þessu sambandi, og einmitt það veldur svo mörgum truflunum og alls konar átökum.

Sagt hefur verið: „Örvið ekki orkuna svo mikið að það nálgist brjálsemi.“ Þessi viðvörun er ekki fjarri sanni. Hægt er að gera sér í hugarlund ofsa orkunnar — yfirspennt, niðurbrotin og misnotuð. Er mögulegt að hjartað haldi ró sinni við slíkar aðstæður?

454. Þakklæti er mikill drifkraftur. Enginn þrábiður um þakklæti, en þessi máttur býr yfir miklum og góðum eiginleikum. Þakklætið hreinsar, og allt sem hefur hreinsast á auðveldara með að hreyfast. Þannig er þakklæti aðferð til að hraða för.

Sumir trúa því að þeir lítillækki sig með því að bera fram þakklæti. Hvílík fáfræði! Þakklætið göfgar og hreinsar; það laðar til sín nýjar orkutegundir. Jafnvel vélar vinna betur ef þær eru lausar við ryk.

455. Við skulum ekki búast við mjög mikilvægum rannsóknum ungra fræðimanna á fyrri tíðar nafngiftum manna á andlegri orku. Án efa hefur tilvera þessarar orku verið þekkt meðal ólíkra þjóða á löngu liðnum tímum. Á öllum tímum hafa menn uppgötvað nýja eiginleika hennar og tjáðu þá með sínum sérstaka hætti. Sumir lögðu andlega orku að jöfnu við ljós og bættu við hugtökunum uppljómun og geislun; aðrir tóku eftir segulmögnun og hreyfiorku hennar; einnig sáu menn dæmi um leifturhraða hennar.

Þannig hafa menn aflað talsverðra upplýsinga, hver í samræmi við sína eigin eiginleika. Berið saman svipaðar athuganir, með því móti má fá mjög athyglisverðar niðurstöður. Enn fremur, sjá má að fólk fyrri tíma bjó yfir talsvert mikilli athyglisgáfu, jafnvel meiri en nú á tímum. Nauðsynlegt er að rannsaka hvernig upplýsingum um eiginleika æðri orku hefur verið safnað saman og þær skráðar.

Heimspekingar, eðlisfræðingar, sagnfræðingar og málfræðingar geta tekið höndum saman um gagnlegar rannsóknir.

456. Samstarf fræðimanna er ómissandi. Menn verða að finna það sem tengir saman margvísleg viðfangsefni, því aðgreining margra fræðigreina byggist einfaldlega á vana.

457. Oft kemur í ljós við athuganir að upplýsingar fengnar með dulskyggni og dulheyrn eru ekki tæmandi. En nauðsynlegt er að rifja upp mörg lögmál til að öðlast skilning á því sem er að gerast. Oft stafar brotakennt eðli þess sem skynjað er af jarðneskum viðmiðunum. Fólk greinir ekki fíngert samhengi þess skynjaða. Tengslin eru ef til vill mjög rökrétt, en jarðnesk rök eru ekki hin sömu og rök fíngerða heimsins.

Því má heldur ekki gleyma að æðri heimurinn hefur eftirlit með lögmálum karma. Lítill skilningur er á markalínunni milli þess sem er leyfilegt og þess sem er háð hinu helga karma. Hlið karma eru ekki skilgreinanleg með jarðneskum orðum. Einnig er ekki auðvelt að útskýra hvernig maðurinn hefur sjálfur áhrif á dulheyrn sína. Hann getur lokað fyrir eyru sín á þúsund vegu. Fyrst af öllu er nauðsynlegt að efla vitundina til að allar rásir verði hreinar.

458. Nauðsynlegt er að útskýra mörghugtök. Eitt þeirra er hugtakið mystík, en það hugtak verður að skilgreina. Ef merking þess er nákvæm vitneskja, þá er rétt að halda því. En ef markmið þess er ekki þekking heldur þokukenndar hugmyndir, þá er rétt að láta orðið mystík hverfa úr notkun.

Við mælum með þekkingu sem er til hagsbóta fyrir framfarir mannkynsins.

459. Bardaginn er svo harður að ógerlegt er að eyða nokkrum tíma í venjulegar athafnir. Við stöndum vörð, en fólk skilur ekki hinar óvenjulegu kringumstæður. Jafnvel þeir sem heyra um átökin halda samt að ekkert sérstakt sé að gerast.

460. Ekki er auðvelt að útskýra hinar nýju aðstæður þeirra sem búa á æðri sviðum fíngerða heimsins, það er rétt eins og hið jarðneska ryð falli burt og sannur skilningur opinberist. Sjá má hvernig jarðnesk áhrif falla burt, því þau eru ekki viðeigandi lengur. Andleg orka vinnur óheft, þegar hún er ekki lengur takmörkuð af þvinguðum ytri áhrifum; innsta eðli hennar leitar sannleikans. Hugrekkið bendir á bestu lausnirnar. Í jarðnesku lífi er á sama hátt hægt að leysa orkuna úr fjötrum að mikilsverðu leyti. Á þann hátt er mögulegt að nálgast skilning á fíngerða heiminum.

Ógerlegt er að eyða orkunni, en það er mögulegt að vísa henni á svo óverðskuldaðan stað að hún geti hugsanlega bundið enda á jarðneskt líf með sprengingu. Dæmi er um að heilir heimar hafi farist af sömu orsökum! Þegar ég því segi — gætið að hjartanu og andlegu orkunni — gef ég lífsnauðsynlegt heilræði.

Á sama hátt verða læknar að læra að leiðbeina sjúklingum sínum um grundvallareðli orkunnar. Það er ekki nægilegt að læknirinn gefi sína eigin orku, hann verður einnig að kalla fram orku sjúklingsins. Með því móti er hin dýrmæta orka notuð með sem mestri hagkvæmni.

461. Drukknandi maður verður að liðsinna þeim sem er að reyna að bjarga honum. Það hæfir ekki að hann sé eins og þungur sekkur. Með tilraun er mögulegt að fullvissa sig um hve mikið hugsunin getur hjálpað samstarfsmanni. Slíkar tilraunir er einnig hægt að gera með dýrum. Eitt er það ef knapinn hvetur reiðskjóta sinn hugrænt, en allt annað ef skelfing og reiði situr í hnakknum. Mögulegt er að fullvissa sig stöðugt um virkni hugsunar þegar hún ummyndast í efnislega orku.

462. Athugið að gefa verður orkunni andartaks frjálsa stund áður en tekið er til starfa. Nauðsynlegt er að slaka á jarðneskum tökum til að gefa henni færi á að sameinast frumuppsprettunni. Rangt er að þvinga orkuna skyndilega með jarðneskum sendingum. Mynda þarf farveg fyrir hana með því að styrkja sambandið við æðri heiminn. Slíkt samband hlítir ekki fyrirmælum. Ekki er hægt að skipa bréfdúfu að fljúga, aðeins er hægt að sleppa henni lausri; hún þekkir sinn ákvörðunarstað. Á sama hátt er nauðsynlegt að sleppa orkunni lausri úr efnislegu búri sínu; samstundis myndast segulmögnuð tenging.

Margir munu mæla með einbeitingu, en slíkt ástand gerir ráð fyrir spennu, þar sem hins vegar þarf aðeins að sleppa orkunni lausri; við það tekur hún til starfa. Þetta þarf ekki að taka langan tíma; minna en sekúnda nægir til að leysa orkuna. Því skulum við fyrst af öllu frelsa fanga okkar. Nægilega mikið hefur verið sagt frá hinni máttugu ósýnilegu veru í ævintýrum.

463. Við ræðum um andlega orku eins og hún sé máttugur drifkraftur. Við erum ekki að tala um fjölkynngi heldur um efnislegt lögmál. Við bendum á einföldustu leiðirnar til framfara. Við minnum á það sem menn vissu fyrir löngu, en samt sem áður mun hinn fávísi telja að umræða okkar fjalli um hið yfirnáttúrulega. Hann mun hagnýta sér hinar fíngerðu orkutegundir en mun ekki kæra sig um að viðurkenna hina æðri orku.

Því skulum Við enn og aftur endurtaka að Við erum að segja frá efnislegu lögmáli.

464. Minnir ekki þessi umræða um efnislegt lögmál ykkur á hvernig gullgerðarmennirnir á sínum tíma neyddust til að finna upp ónauðsynleg heiti til að ná til vitundar samlanda sinna? Vitund manna hefur ekki þroskast mikið frá þeim tíma.

465. Útfrymi er birgðageymsla andlegrar orku. Í raun er efni útfrymisins mitt á milli hins jarðneska og hins fíngerða efnis. Andleg orka, sem er eðlislæg í öllum heimunum, tengist fyrst og fremst því efni sem er nátengt fíngerða heiminum. Af því má sjá að nauðsynlegt er að varðveita hreinleika útfrymisins eins og hreinleika orkunnar.

Hafa skal í huga að miðillinn setur sig í mikla hættu með því að gefa frá sér útfrymi í návist allra þeirra sem af tilviljun eru nærstaddir. Varhugavert er að láta svo dýrmætt efni í hendur óboðinna gesta. Mikilsverðara er hið æðra samneyti; það gengur ekki á orku okkar, öllu heldur, það veitir nýjan orkustraum. Menn verða að skilja að sýna verður fyrirhyggju í sálrænum rannsóknum. Óleyfilegt er að ganga á forða efnis eða orku annarra.

466. Enginn ætti að halda því fram að birting á krafti hinnar æðri orku geti ekki verið smitandi. Í flestum tilfellum gerist það sem nefnt er sefjun ómeðvitað. Menn þurfa að rækta með sér hugsun af krafti til að efla með sér næmni.

Margt er sagt um innsæi. Margsinnis höfum við rætt um beina þekkingu. Í raun hvílir hún í andlegu orkunni, en neistar hennar leiða í gegnum útfrymið. Svo mikilsvert efni verður að varðveita. Í fyrndinni var sagt að maðurinn geti birt tvífara sem er fær um að framkvæma skynsamlegar athafnir.

467. Rétt er að bera saman atvik fortíðar og nútíðar í þeim tilgangi að uppgötva rökrétt samhengi þeirra. Slíkur samanburður getur útskýrt atburði samtímans, en líta verður á staðreyndirnar í heild sinni, vegna þess að menn einangra oft einstök smáatriði til ítarlegrar skoðunar. Við allt er þörf á hinni vísindalegu aðferð. Aðeins á þann hátt er unnt að færa hin mismunandi tíðnisvið nær hvert öðru.

468. Við skulum staðfastlega minnast eiginleika hinnar andlegu orku. Þegar menn hefja athuganir á orkunni gleyma þeir oft grundvallareiginleikum hennar. Þeir flækja jafnvel einfaldar rannsóknir með vanabundnum viðhorfum sínum. Tímaleysi er grundvallareiginleiki orkunnar, en menn hafa vanist því að langvarandi hugsun sé máttugust. Með því móti sést þeim yfir þá staðreynd að hugsun er óháð tíma.

Einnig taka þeir ekki tillit til þess að meðan á langvarandi hugsun stendur verður til fjöldi hugrænna sendinga af margvíslegri gerð. Við þannig langvarandi hugsun glatast einbeiting sendingarinnar. Tímaleysi hugsunar verður að kenna mönnum að skjótvirk hugsun samræmist eðli og eiginleikum orkunnar.

Nauðsynlegt er að rækta með sér hæfni til skjótrar hugsunar. Hraða og kraft hugsunarinnar verður að samræma sendingum orkunnar.

469. Ekkert er fullkomnað í einni svipan. Fyrir löngu var sagt að hægt væri að sigrast á fjarlægðum með einu andvarpi, en nauðsynlegt er að vita hvernig andvarpið á að vera. Það gæti virst sem svo að í einu andvarpi birtist eðliseiginleikar andlegu orkunnar, en vitundin öðlast ekki samstundis skilning á þessari samsvörun. Frumstæð vitund býr auðveldlega til blekkingar úr mörgu af því sem hún sér, en þegar vitundin hefur þroskast ályktar hún af meiri varfærni.

Margir svipir leysast upp þegar þekking fæst á hinni æðri orku.

470. Líkt og hjartað þekkir andlega orkan enga hvíld.s Starfsemi hjartans er aldrei með löngum hléum, á sama hátt er útstreymi orkunnar viðvarandi. Hjartans er ekki þörf í jarðneskum skilningi á meðan æðri heimurinn er sóttur heim, en hin æðri orka getur aldrei rofið straum sinn.

Viðvaranleiki er einnig grundvallareiginleiki orkunnar. Hreyfikraftur orkunnar felst í spíralgangi alls alheimsins. Sjá má dýrlegt kerfisskipulag í heildarsamræmi allra hinna óteljandi orkustrauma.

471. Við segjum að andleg orka „vaxi ævarandi.“ Hún getur nært vöxt sinn frá óendanleikanum. Eina ómissandi skilyrðið er þekking á henni og hagnýting til góðs. Án þekkingar og viðurkenningar er orkan sem í fjötrum.

Spurt er: „Er hugsanlegt að svo dýrmætur máttur sé hagnýttur í illum tilgangi?“ Öll misnotkun máttarins leiðir til eyðingar. Það geta komið mismunandi tímabil og stig þessarar eyðingar, en hin endanlega upplausn er óhjákvæmileg.

472. Þar sem það er eðli orkunnar að vera eilíflega vaxandi, sjáið þá hve glæpsamlegt það er að spilla straumi þess sem myndar grunn alls!

473. Við nefnum orkuna einnig „virki óeigingirninnar.“ Af mætti þess eru afreksverk unnin. Án andlegu orkunnar er ekki hægt að finna til upphafningar.

Þið takið réttilega eftir því að svonefndir miðlar vinna ekki nein afrek. En nægilega margt er búið að segja um atvinnumiðla sem aðeins skaða sjálfa sig og aðra.

474. Orkan er einnig nefnd „segull,“ en í slíkri skilgreiningu felst mikill sannleikur. Að sjálfsögðu hefur lögmál aðlöðunar og fráhrindingar sérstök áhrif á sálarorkuna. Ekki er unnt að athuga pósitífa og negatífa eiginleika án samstarfs orkunnar. Því er viðeigandi að tala um segul þegar ætlunin er að leggja áherslu á aðlöðun orkunnar.

475. Við nefnum þessa sömu orku einnig „réttlæti.“ Þar sem mögulegt er að ganga úr skugga um mismunandi eiginleika fólks samkvæmt svörunum orkunnar, er hún vissulega leið réttlætisins. Þegar gerðar eru tilraunir með andlega orku má fá staðfestingu á því að ytri svipbrigði samsvara aðeins að litlu leyti hinu innra ástandi.

Hin sanna prýði dómarans verður vitneskjan um það hvernig hann getur kallað orkuna sér til aðstoðar.

476. Við nefnum andlegu orkuna einnig „hin óþreytandi.“ Að sönnu getur líkami mannsins orðið þreyttur vegna þenslu orkunnar, en orkan sjálf er óþrotleg. Þessi eiginleiki orkunnar bendir til kosmísks uppruna. Orkuna getur hvorki þrotið vegna elli né sjúkleika. Hún getur orðið þögul, ef hún er ekki kvödd til virkni.

En hvílíkri hæfni þarf vitund mannsins að búa yfir til að hann takmarki ekki víddir máttarins sem honum er treyst fyrir!

477. Við nefnum orkuna einnig „vinnu.“ Við samfellda meðvitaða viðleitni öðlast orkan ögun. Frumskilyrði fyrir þróun vitundarinnar er að gera sér grein fyrir gildi vinnu; hún felur í sér upphaf á virkni orkunnar. Rangt er að ætla að ein stök tilraun dugi til að setja orkuna á hreyfingu.

Þegar ég ræði um það að menn sjái gildi vinnu, á ég við þá uppljómun sem viðvarandi og óþvinguð vinna veitir.

478. Innsæið tengist andlegri orku, því er uppspretta fegurðar einnig sú sama. Því segi ég að hin æðri orka sé „fegurð.“ Þannig er hægt að nefna alla eiginleika hinnar miklu orku, en þar sem hún er nátengd öllum atvikum lífsins er rétt að segja að hún sé alls staðar nálæg og grundvallandi. Því skulum við nefna hana svo.

Fagurt er að skynja að slíkur óþrotlegur máttur hefur verið falinn sérhverjum einstaklingi í hendur. Með slíkum mætti getum við fært efnislega hluti úr stað. Þar sem mátturinn er óþrjótanlegur er stærð hlutanna afstæð. Í dag getum við hreyft smáa hluti, á morgun gætum við hreyft stærri. Árangur þróunarinnar felst í þessari framvindu.

Ekki er langt síðan fólk neitaði að viðurkenna að hægt væri að hreyfa efnislega hluti með leyndum krafti mannsins. En þið hafið séð að það er ekki ytri kraftur sem hreyfir hlutina, heldur vinnur ykkar eigin orka á sama hátt og kosmískur kraftur.

479. Að sönnu er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir alheimslegu eðli orkunnar, annars mun hinn fáfróði eigna hana manninum einum. Enn á ný getur lítilsvirðing látið á sér kræla.

Vitundin verður að þenjast það mikið út að hún nái að skynja hinn kosmíska andardrátt bæði undir og yfir.

480. Sérhver sem talar til fólks er eins og fiskimaðurinn sem kastar neti sínu. Nauðsynlegt er að kasta út yfir það sem veiða á. Þegar þið hvetjið einhvern til dáða er um leið orðið nauðsynlegt að gæta þess að hann fyllist ekki ofmetnaði. Náttúran krefst þess að meðalhófið sé virt.

En hvorki andagift né fegurð liggur í miðjunni; það þýðir að meðalvegurinn, alveg eins og jafnvægið, staðfestir en slakar ekki á þenslu orkunnar. Það sem við nefnum Nirvana er hið sama. Meðalhófið er ekki lægri sveiflutíðni, heldur jafnvægi hærri þenslu.

481. Þensla hinnar æðri orku margfaldar lífsþróttinn. Fullvíst er að fólk lifir lengur á tímum andlegrar þenslu. Ekki er hægt að þakka það mataræði eða hreinlæti, vegna þess að á umbrotatímum eru lífsskilyrðin mjög erfið, en aðalástæðan felst í meiri virkni orkunnar.

En það ætti að skilgreina fyllilega í hverju þensla orkunnar felst. Ef veikburða maður ofreynir sig líkamlega leiðir þensla hans ekki til neins árangurs. Líta verður fyrst á þenslu orkunnar frá andlegu sjónarmiði. Ekki má gleyma hvar allar athafnir eiga upptök sín. Af því má sjá að aukning orku mun valda líkamlegum svörunum, en sérhver svörun er aðeins endurspeglun hinnar sönnu orsakar.

482. Þegar læknir bannar manni, sem misst hefur andlegt jafnvægi sitt, að starfa að hugrænum viðfangsefnum, þá breytir hann ekki viturlega. Til eru vel þekkt dæmi um reynda lækna sem, gagnstætt þessu, efldu virkni orkunnar. Vissulega verða slíkir læknendur að búa yfir andlegri orku í talsverðum mæli til að geta gert sér grein fyrir því hvaða þekkingarsviði þeir geti beint sjúklingnum að.

Þreyta er skaðleg, en þensla örvar lífskraftinn. En markalínan þar á milli er mjög óljós. Reyndir læknar, sem fága andlega orku sína, geta gefið mönnum vísbendingar um gagnlega þenslu.

483. Geitur stökkva um holt og hæðir, en slíkar æfingar hæfa ekki mönnum. Rannsaka ætti sérkenni hverrar íþróttagreinar. Margar þeirra stuðla ekki að auknum lífsþrótti.

Á sama hátt ættu þeir sem sjá um uppfræðslu að beita meiri næmni við að meta hæfni nemanna. Þessi sömu sannindi þarf einnig að kunngera öllum þeim sem hafa í hyggju að úthluta verkefnum og viðurkenningum í samræmi við hæfileika. Rétt er að gera slíkt, en þeim mun nauðsynlegra er að vita hvernig meta skal hæfni manna.

Ógerlegt er fyrir dómara að dæma um eiginleika orku, ef hann hefur ekki sjálfur neina þekkingu á henni.

484. Hrekið ekki neinn í burtu þó svo hann vilja rannsaka orkuna eingöngu með vísindalegt markmiðí huga. Gangið aðeins úr skugga um að hið vísindalega markmið sé ekki gervivísindi. Vísindalegt starf byggist á umburðarlyndri viðurkenningu, en gervivísindi eru full afneitunar. Íþyngið heldur ekki starfi vísindamannsins með fyrirfram ákveðnum aðferðum. Sérhver rannsakandi á rétt á því að velja sér sína eigin leið. Þó svo leiðin kunni að vera flókin, má vel vera að hann uppgötvi óvænt nýtt þekkingarbrot. Gagnslítil er leið hinna einstrengingslegu kennara sem hæðast að öllum tilraunum manna til að finna nýjar leiðir til lausnar vandamála. Fagnið allri viðleitni til að finna nýjar leiðir að sannleikanum. Sé maður þess fullviss að sannleikurinn sé aðeins einn, er ekki mögulegt að óttast að neinn annar sannleikur finnist.

Sýnið umburðarlyndi í víðasta skilningi, því aðeins þannig er unnt að byggja upp samvinnu.

485. Við samræður skyldi ekki slá því föstu að viðmælandinn hafi rangt fyrir sér fyrr en eftir vandlega íhugun. Sérstaklega er brýnt að gæta vel að merkingu orðanna. Oft talar fólk um nákvæmlega sama efni með gjörólíkum orðum, á hinn bóginn getur fólk einnig notað alveg sömu orðin en tengt við þau alls ólíka merkingu.

Þegar rætt er um æðri viðfangsefni ber að auðsýna sérstaka gætni til að forðast misskilning.

486. Vegna alls sem gerist skyldi maðurinn spyrja sjálfan sig: „Hvers vegna gerist þetta nákvæmlega á þennan hátt en ekki hinn? Hvers vegna einmitt nú en ekki fyrr?“ Margar hugsanir munu vakna við hvern atburð. Hugsun mun beinast að mörgum orsökum, og af og til mun margt skýrast.

487. Látum sönnum vísindum eftir að úrskurða í hinni þokukenndu umræðu um vofur, fyrirboða og aðrar slíkar vísbendingar. Verum ekki hrædd við að fela fræðimönnum rannsóknir á öllum fyrirbrigðum í ljósi gaumgæfilegrar vísindalegrar athugunar. En látum slíka rannsókn vera í raun mjög nákvæma, eða með öðrum orðum, réttláta. Þegar unnið er með kosmísk lögmál er þetta eina skilyrði nauðsynlegt.

Berum saman hugsanaflutning og þráðlaus fjarskipti. Lítum á fjarskyggni með hliðsjón af lögmálum sjónvarpstækninnar. Tökum til athugunar nýjustu uppgötvanir, þær munu koma að gagni við athuganir á andlegri orku. Verum ekki hrædd við að bera saman hugsýnir og vísindalegar uppgötvanir. Að sjálfsögðu er það hvorki helgispjöll né sjálfsþótti að nota samlíkingar frá öllum sviðum náttúrunnar. Lát eðlisfræðina sanna hina æðstu andlegu raunbirtingu.

Þar sem hinn æðri máttur er orka mun hann ekki brjóta lögmál eðlisfræðinnar.

488. Reynið af öllum mætti að breiða út góðvilja og stillingu. Enga vísindalega staðhæfingu er að finna sem þið getið ekki viðurkennt; með því móti er staða ykkar betri. Þið hafið enga ástæðu til skapraunar, vegna þess að þið viðurkennið allar vísindalegar athuganir. Stundum mun ykkur mislíka framsetningarmátinn, en kjarninn fær sinn stað í vitund ykkar. Slík viðurkenning mun skapa ótvíræða kosti.

489. Hvar er leiðsögn að finna? Einmitt í vísbendingunum um hvers sé mest þörf og í vörn gegn því sem hættulegast er. Nauðsynlegt er að íhuga hvað orðið sjálft merkir. Venjulega gefur fólk því sína eigin skilgreiningu, en í henni mun finnast vísir að vantrausti, eða byrjun upplausnar. Vísindamaður getur ekki gert tilraun með vantrú sem forsendu. Sjá má að þá hafa líkindin fyrir árangri minnkað allt að þrem fjórðu.

Við skulum íhuga hugtakið leiðsögn.

490. Í öllu er hreyfing; leiðsögn hefur einnig sína sveiflutíðni. Æðri eiginleikar leiðsagnar eru góð svörun, skarpskyggni og stilling. Það er ekki góður leiðsögumaður sem takmarkar sig við eina skipun! Æðri leiðsögn er bæði ósýnileg og hljóðlaus. Það eru sérstök vísindi að gefa hvorki meira né minna en aðstæður á plánetunni leyfa.

Undrist ekki þó þeir sem leiðsagnar njóta séu oft ekki meðvitaðir um leiðsögnina. Það veldur þó leiðbeinandanum vissulega ekki neinu hugarangri. Sundkennarinn hjálpar nemum sínum í byrjun við að fljóta, hvetur þá og hvíslar: „Þú flýtur af sjálfsdáðum.“ Sama á við á öllum sviðum. Það væri ekki viturlegt fyrir leiðbeinandann að greina frá öllum karmískum og kosmískum skilyrðum. Slík upptalning myndi aðeins vekja ótta og hefta orku.

Samverkanir atburða heimsins eru flóknar; karma kynþátta og þjóðflokka; karma persónuleikans; karma efnisheimsins og fíngerða heimsins; fornt karma og karma nútímans — allt þetta myndar flókna hnúta. Erfitt er að breyta karma, en samt sem áður er mögulegt að hafa stjórn á því að vissu marki; að þessu leyti er leiðsögn ákaflega mikilvæg.

Ekki má eingöngu líta á leiðsögn sem eitthvað að handan; hana er einnig að finna með öðrum hætti í efnisheiminum. Þess vegna er hin forna hugmynd um fræðarann svo mikilvæg; þessi hugmynd er umvafin virðingu, hollustu og kærleik. Hinn lifandi straumur andlegrar orku er að verki í slíku sambandi kennara og lærisveins.

Leiðsögn er margstrengja harpa!

491. Oft má heyra fjarstæðukenndar sögur sem benda til að sama persónan hafi fæðst samtímis í fleiri en einum líkama — ályktun sem bæði er heimskuleg og skaðleg. Þeir sem eru á móti hugmyndinni um endurholdgun hagnýta sér slíkar sögur sem röksemdir gegn henni. Þeir koma heldur ekki auga á það að frjóu ímyndunarafli er um að kenna, en það felur í sér nokkrar málsbætur. Sumir muna margt um ákveðið tímabil; þegar þá dreymir sjálfa sig sem vel þekkta persónu, tekur minningin um drauminn á sig mynd ímyndaðrar jarðvistar. Þær rangfærslur sem þetta veldur eru bundnar persónunni en ekki tímabilinu sem um ræðir. Barn ímyndar sér að það sé hershöfðingi, og þessi leikur er þá þegar varðveittur í kaleik þess.

Margir muna fyrri æviskeið sín, en vegna takmarkana vitundarinnar birtast aðeins myndir fyrri ímyndana. Einnig er nauðsynlegt að áfellast ekki mistök annarra um of. Ef ekki er um að ræða hégómlegt sjálfsálit eða fáfræði, er eins líklegt að aðeins sé sagt rangt frá að sumu leyti, án þess að um vísvitandi blekkingar sé að ræða. Vissulega eru einnig til annars konar haldningar og rógburðir, en nú þegar hefur verið greint nægjanlega frá haldningu.

492. Kennari og nemi eru órjúfanleg heild. Hver kennari er einnig lærisveinn, því í stigveldi lífsins er hann hlekkur í keðju eilífðarinnar. Í neðri þrepunum er hver lærisveinn á sama hátt einnig kennari.

Það er rangt að halda að ákveðnar vitundarvígslur geri menn að fullnuma kennurum; hin lifandi uppspretta fullkomnunar felst aðeins í stöðugri þjálfun vitsmunanna. Leitum ekki að takmörkunum í óendanleikanum. Lítum ekki á vitsmuni sem eitthvað endanlegt; með þeirri hömlu glötum við lífsgleðinni.

493. „Það er ekki ég sem gef, heldur þið sem takið við.“ Leiðbeinandinn segir sjaldan að hann gefi. Aðeins ef brýn nauðsyn krefur mun hann staðfesta heitið sem hann hefur gefið og leggja áherslu á sitt eigið sjálf. Leiðbeinandinn segir ætíð: „Takið á móti.“ Hann segir að gjöf sem hann miðli sé frá Helgivaldinu komin. Þetta ættu menn að hafa í huga, því að í því birtist gleði Helgivaldsins sem starfar fyrir hið góða. Það ætti ekki að vitna vanhugsað til orða, því þau bera með sér merki takmörkunar — það sem virðist. Engin ástæða er að gleyma hinum heilnæmu tengslum við Helgivaldið! Þess vegna — „Það er ekki ég sem gef, heldur þið sem takið við.“

494. Líf er táknað með fljóti eða stríðum straumi, en aldrei með stöðuvatni eða brunni. Hreyfing gefur í skyn líf. Hreyfing alls og hreyfing í öllu er grundvöllur tilverunnar. Nauðsynlegt er að læra að unna hreyfingu, þá fremur innri hreyfingu en ytri.

Menn gefa ekki hreyfingum himinhnattanna gaum þrátt fyrir allan hraða þeirra. Jörðin virðist óhreyfanleg í augum íbúa hennar. Einnig er innri hreyfing hennar ósýnileg jarðneskum augum, en innsti kjarni mannsins verður að skynja hina óstöðvandi hreyfingu; aðeins hennar vegna getur hjartað slegið. Ímyndið ykkur ekki að þið séuð hreyfingarlaus, því jörðin ber ætíð vitni um látlausan snúning; tilvera hennar byggist á hreyfingu. Af þeirri ástæðu getur maðurinn ekki verið til án hreyfingar. Samt sem áður hvíslar vitundin að asi og óðagot séu aðeins fölsk hreyfing. Enn á ný komum við að leið hrynjandi og samræmis. Asi er ósamræmi og getur aðeins truflað og rifið niður það sem byggt hefur verið upp. Aðeins þroskuð vitund skynjar mörkin á milli asa og sterkrar viðleitni.

Það eru margir sem geta ekki skilið hvers vegna til er slíkur blæbrigðamunur, en þeir hafa sannarlega ekki heyrt tónlist himnanna og skilja ekki gildi hrynjandi.

495. Eins óreyndir eru þeir sem gera ráð fyrir því að þögn sé möguleg í náttúrunni. Þögn er ekki til. Aðeins byrjendur í skáldskaparlistinni syngja þögninni lof og gerast með því sjálfir sekir um að rjúfa hana. En vísindin hafa uppgötvað rafsegulbylgjur sem sumt fólk getur skynjað án tækja. Andleg orka lýkur upp hinu innra heyrnarskyni. Geimurinn getur ekki verið þögull, hann er fylltur hljómum allra heimanna þriggja. Hann er fullur, því tóm er ekki til.

Lát fólk minnast þess að þögnin getur aðeins verið til fyrir hinum heyrnarlausu, en jafnvel þeir sem kallaðir eru heyrnarlausir heyra innri enduróm sem getur jafnvel verið mun fegurri en hinn ytri.

496. Þeir sem fæðast blindir hafa án efa innra sjónskyn, en þeir vita ekki hvernig þeir eiga að tjá skynjun sína í orðum. Litirnir sem þeir sjá eru margbreytilegir, og þeir eru fínlegri vegna þess að þeir eru á mörkum fíngerða heimsins. Það þarf að taka eftir svipbrigðum á andlitum þeirra til að merkja hinar innri tilfinningar.

Hinir heyrnarlausu og hinir blindu eru oft góðmenni og síður á valdi skapstyggðar. það er ekki eingöngu vegna þess að þeir eru í minni tengslum við jarðneskt líf, heldur einnig vegna þess að þeir eru svo nátengdir fíngerða heiminum.

497. Gerið ykkur í hugarlund hvernig hinn fáfróði nálgast flókna vél. Hann hugsar ekkert um það hvernig á að nota tækið, heldur fálmar í stjórntækin án þess að gera sér grein fyrir afleiðingunum. Sambærilegt dæmi er maður sem man aðeins eitt atriði allrar fræðslunnar og er furðu lostinn yfir því að hann getur ekki séð heildarmyndina. Óvarleg meðhöndlun véla er hinum fáfróða hættuleg, á sama hátt er sá maður í hættu staddur sem daufheyrist við kjarna fræðslunnar.

Einn hugsar aðeins um gæði fæðunnar; annar leitast við að forðast illt orðbragð; hinn þriðji reynir að losna undan skapstyggð; sá fjórði forðast ótta; en þessi gagnlegu atriði eru samt sem áður aðeins aðgreind tæki — ekkert þeirra getur eitt og sér lyft allri byrðinni. Nauðsynlegt er að kafa smátt og smátt inn í einingu fræðslunnar; aðeins regnbogi samfjöllunarinnar getur veitt hinn þráða árangur. Sjái einhver að hann hafi eitt þessara atriða á valdi sínu, lát hann þá einnig ástunda með kostgæfni öll hin atriðin sem talin voru upp.

Við látum margt í té óbeint og færum fólki skilninginn í smáum skrefum. Lát fólk ekki hræðast, heldur færast nær, þar til það hefur drukkið í sig hrynjandi allrar heildarmyndarinnar.

Þannig aðferð við að ná tökum á samfjöllun kennir mönnum að færa sér í nyt öll smáatriðin.

498. Það er ekki ósk mín að leggja á ykkur byrðar, en ég staðhæfi að ósamræmi smáatriða getur skaðað alla uppbyggingu. Maðurinn verður að læra að unna sérhverju blómi sem opnast. Við skulum ekki í sjálfsþótta okkar umbylta öllum lögmálum tilverunnar.

499. Margs konar misskilningur tengist hugtakinu samfjöllun. Þó svo sumir viðurkenni gagnsemi hennar, halda þeir að samfjöllun þýði smávegis af öllu. Þeir réttlæta þessa skoðun sína með því að maðurinn geti ekki vitað allt á núverandi stigi þróunar á þekkingu. En er þá samfjöllun í raun það að vita allt? Einn maður getur ekki meðtekið þekkingu allra vísindagreina, en nauðsynlegt er að öðlast skilning á inntaki þeirra. Á þann hátt er hægt að meðtaka þekkinguna fullkomlega og meðvitað.

Aðeins hinn fávísi getur haldið því fram að samfjöllun sé honum óskiljanleg. Hinn fávísi viðurkennir auðveldlega eina vélræna grein og er reiðubúinn að fela þröngsýni sína með fordómum um að öll samtenging sé ómöguleg.

500. Nauðsynlegt er að sýna með sögulegum dæmum að hve miklu leyti þessi hæfileiki heildarsýnar og samhæfingar hefur verið til merkis um víðsýni og skírleika hugans. Áður en langt um líður mun vélvæðingin gera fólki kleift að verja miklum hluta dagsins til tómstunda. Við hljótum að spyrja hvernig þessum frítíma verður varið.

Gerið ykkur grein fyrir því að menn hljóta að starfa að nokkrum mismunandi viðfangsefnum, annars geta menn orðið sljóleika að bráð. Aðeins útþensla vitundarinnar getur orðið til hjálpar við að skipuleggja daginn skynsamlega. En slík útþensla vitundarinnar er merki um ást á hugrænu starfi og sterka viðleitni eftir æðri kostum.

Samfjöllun mun aðstoða okkur við að læra að unna eðli alls lífs.

501. Sagt er að samfjöllun geti verið ákveðið skapgerðareinkenni, en rangt er að líta á slíkt sem sjálfgefið. Innri samfjöllun verður ekki til án þrotlausrar ræktunar andlegrar orku. Einnig er því haldið fram að efnisvísindin standi í vegi fyrir því að samfjöllun þróist, en samt þekkjum við öll vel til mikilhæfra lækna, stjörnufræðinga, efnafræðinga og tæknifræðinga sem einkennast fyrst og fremst af hugrænni samfjöllun. Við þurfum ekki að nefna þá með nafni, en segja má að stórbrotin vísindi skapi stórbrotna hugi.

Mikil skarpskyggni, óþreytandi eljusemi og trúmennska hafa lagt grunn að sérhverri samfjöllun. Það er skiljanlegt að maður sem þjálfar með sér athyglisgáfuna kemur auga á margar víðtækar leiðir og áttar sig á hversu miklu meiri kostum þær eru búnar. Samfjöllun byggist vissulega á sannfæringu og aðlöðun. Samfjöllun felur í sér kjarnann svo auðveldlega að afneitun er framandi hinum samfjallandi huga. Ekki má eingöngu eigna vissum gæfusömum einstaklingum hina sérstæðu gjöf samfjöllunar. Nauðsynlegt er að þroska með sér þennan dýrmæta eiginleika af kostgæfni.

502. Lítið ekki svo á að þið búið yfir einhverjum ákveðnum eiginleikum sem komi ykkur til bjargar. Með öðrum orðum, sjálfsmeðaumkun er skaðleg. Sérhvert áhlaup sjálfsmeðaumkunar hrekur hugrekkið af hólmi.

Það er ekki viturlegt að dvelja um of við mistök fortíðarinnar. Slík heilabrot eru nefnd brunnur fortíðarinnar. Uppspretta framtíðarinnar er mun heilnæmari. Allir geta drukkið af hinu lifandi vatni. Menn verða að læra að tileinka sér þá staðreynd að andinn lifir í framtíðinni.

503. Aum er sameining á hinum bestu sveiflum; það þýðir að í návist slíkrar samfjöllunar er nauðsynlegt að leitast við að skynja á meðvitaðan hátt bestu eiginleikana. Hreinsið hugann af öllum tálmandi hégóma. Forðist að rækta með ykkur þykkju og gremju. Lítið á hverja klukkustund sem upphaf á fyrirfram ákveðnu starfi. Nauðsynlegt er að bæta og aga sjálfan sig í þeim tilgangi að ekkert geti staðið í vegi fyrir endurnýjun vitundarinnar.

504. Alla gagnlega eiginleika ætti að prófa í reynd. Ekki er nægilegt að ímynda sér hugrekki, þolgæði, trúmennsku og allt það sem þarf til að búa sig herklæðum til afreka. Sá sem ekki hefur sannað óttaleysi sitt í athöfn er ekki hæfur leiðtogi. Allir geta ímyndað sér hugrekki, en þegar á hólminn er komið er hið gagnstæða oft raunin. Nauðsynlegt er að láta á það reyna hvort óttinn geti læðst inn með því að mæta hinu ógnvekjandi augliti til auglitis. Þegar ég ræði um að vöxtur byggist á hindrunum, hef ég einmitt slíkar prófraunir í huga.

Menn ættu að venja sig við þá staðreynd að sérhver vísbending er nærtækasta og nauðsynlegasta þekkingin. Því við höfum oft séð menn sem töldu sig hugrakka fara að skjálfa við fyrsta merki um hættu. Eins höfum við séð menn, sem höfðu ásett sér að sýna umburðarlyndi, verða miklum skapofsa að bráð við fyrsta vott af ósætti. Við höfum einnig þekkt menn sem voru álitnir trúir en flúðu af hólmi við fyrstu árás. Hægt væri að telja upp mörg fleiri dæmi þar sem ímyndaðir eiginleikar voru ekki raunverulegir þegar á reyndi. En við þekkjum einnig mörg afrek þar sem fólk sigraðist meðvitað á líkamlegu mótlæti og umbreytti takmörkunum sínum í hina fegurstu eiginleika. Slík ögun viljans er í sjálfu sér mikið afrek.

505. Eins telur fólk sig oft vera iðjusamt, en gefst upp þegar á reynir í langvarandi vinnu. Í fyrndinni var sagt: „Verið hin sömu í gæfu og þraut, í sigri og ósigri.“ Fólk fer sjaldan eftir slíkum ráðum; það heldur að sá sem gefur slík heilræði fari ekki eftir þeim sjálfur. En við þekkjum þá sem hagnýta sér þessa eiginleika. Mögulegt er að nefna augljós dæmi í jarðneskri tilveru.

Hafa skyldi í heiðri þá menn sem eru færir um að starfa án afláts.

506. Hinn nagandi ormur efans er mjög lýsandi tákn. Í raun er ormurinn ekki ósvipaður þeirri bakteríu sem brýtur niður andlega orku og hefur jafnvel áhrif á samsetningu blóðsins. Á komandi tímum munu vísindamenn sýna fram á sálræn og líkamleg einkenni þess manns sem verður efanum að bráð. Efinn er bráðsmitandi sjúkdómur.

Nauðsynlegt er að hagnýta allar góðar varnir gegn efa allt frá fyrstu bernskuárum. Heilbrigður, skynsamur og leitandi hugur elur ekki með sér efa, en öll fáviska getur orðið uppspretta hins ófrýnilegasta efa. Efinn er fyrst og fremst ljótleiki, og um síðir leiðir hann til svika. Þessi faraldur svika er nú þegar orðinn að alheimsógæfu.

Þannig verður til ógurlegur dreki úr vesælum ormi.

507. Efasemdir eru mikil hindrun í vegi fyrir árangursríkum tilraunum með andlega orku. Frjáls og óttalaus viðurkenning mun skapa tilrauninni vængi. Þið hafið séð að hugsunin sækist eftir frelsun. Þið viljið ef til vill beina hugsuninni í ákveðinn farveg, en kjarni orkunnar sendir vitundina til annarra sviða. Viðurkennið slík flug einnig, því starf hugsunar er marggreint. Hugtakið um marggreiningu andans er einnig vísbending um marggreiningu hugsunar. En til eru tilvik, þar sem þensla orkunnar er svo mikil og hugsuninni hefur verið beint til svo fjarlægs staðar, að það virðist sem hún hafi horfið. Slík tilfinning orsakast af breyttri stefnu orkunnar.

508. Þekking leiðir til einfaldleika. Fólk sem þekkir hvert annað vel hefur enga þörf fyrir langar og flóknar samræður; það kýs fremur að skiptast á orðum sem varða kjarna málsins. Fögur er sú þekking sem leiðir til skilnings; aðeins gervivísindi hjúpa sig með haugum af smáatriðum og fela með því móti markmiðið. Það er lærdómsríkt að skoða hinn mikla fjölda útlegginga og útskýringa sem hafa flækt einföldustu grundvallaratriði í mörgum ritum. Hægt er að byggja heilt rannsóknarverkefni á því að skoða flóknar leiðir skýringarrita. Sú aðferð sem ritskýrendur nota við að safna upplýsingum um ákveðið efni gerir það oft að verkum að grundvallaratriðið glatast. Hin sömu örlög bíða samskipta manna þegar fólk glatar hugmyndinni um sitt eigið markmið í öllu umstangi sínu og asa.

Hin æðri orka reynir árangurslaust að komast inn, en hin helkalda hönd sljóleikans hindrar streymi lífgjafans. Lát einfaldleikann aðstoða við frelsun fólks frá því fánýta.

509. Hinn sami einfaldleiki er til hjálpar við að sjá hið góða. Þið hafið heyrt að skilaboð um hið góða hafa verið nefnd boðskapur hins illa. Þið vitið að hinir illu hafa andstyggð á hinu góða; því fyrir þeim er það bæði grimmt og óréttlátt. Hið illa þekkir ekki hið góða. Þessi staðreynd er svo augljós að engra útskýringa ætti að vera þörf. Samt er í öllum kenningum að finna mjög afdráttarlausar vísbendingar um þetta efni. Slíkar endurtekningar sýna hve nauðsynlegt er að minna stöðugt á að hið illa þekkir ekki hið góða.

510. Réttur verkamannsins er að vinna að endurbótum á starfssviði sínu. Það er ekki eingöngu réttur heldur einnig skylda. Öll störf er hægt að endurbæta. Gleði verkamannsins felst í þessum skapandi þætti endurbótanna.

Hægt er að sýna fram á að ríkið verður að hvetja og styrkja allar framfarir atvinnuveganna. Öll störf má endurbæta takmarkalaust. Það eru ekki aðeins miklir uppfinningamenn sem eiga þátt í því að auðga mannkynið, heldur getur sérhver vinnandi maður fundið nýja möguleika og aðhæfingar í gegnum reynslu sína. Slíkri viðleitni ætti ekki að hafna. Hægt er að sameina slíka krafta og fá þannig árangursríka lausn á verkefnum. En best er að hver og einn líti á sjálfan sig sem sannan samverkamann.

511. Árangursrík samvinna stuðlar að því að menn geri sér grein fyrir eðli samfelldrar vinnu. Maðurinn getur ekki starfað eingöngu við eitt og hið sama. En með því að bæta og auðga gæði starfsins, og með því að finna upp nýjar aðferðir, endurnýjast hugsunin sífellt.

Aðeins með því að auka gæði starfsins er mögulegt að læra að unna samfelldri vinnu.

512. Nauðsynlegt er að skynja hve þenslan er mikil. Menn verða að viðurkenna að aldrei áður hafa verið slíkir tímar sem þessir. Á óvenjulegum tímum ættu venjulegar hugsanir ekki að vera til. Skilningur á þessu er það sama og að flytjast í fremstu víglínu baráttunnar. Þenslan er nú þegar mikil, og hún verður engu minni í framtíðinni. Nauðsynlegt er einnig að viðhalda í vitundinni sigurhugsun sem rammgerðri hlíf. Fyllið umhverfið með sigurvissum hugsunum, því í þeim felst óson og vörn.

513. Glæpir fara vaxandi; grimmd og ofbeldi eru að aukast. Nauðsynlegt er að leita að rótum svo smánarlegrar hegðunar. Mannkynið getur ekki orðið verra nema einhverjar ástæður liggi að baki. En auk hinna kosmísku ástæðna er meðal mannkynsins sjálfs að finna ástæðu til skelfingar. Ógerlegt er að afneita hinni æðri orku endalaust. Þrýstingur andlegrar orku mannkynsins eykst einnig vegna kosmískrar streitu. Það er ekki aðeins að orkan sé ekki viðurkennd, hún er jafnvel fyrirlitin, en það veldur líkamlegum og sálrænum sjúkdómum.

Langt er síðan að staðfest var að glæpahneigð er geðrænn sjúkdómur. Kvalalosti, grimmd og ofbeldi stafa einnig frá hinni sömu geðrænu farsótt.

Ómögulegt er að bjarga mannkyninu frá slíkum plágum ef það snýr ekki athygli sinni að ástandi orkunnar — þrýstingur hennar fer vaxandi. Þetta ástand bíður heim hættu á sprengingu, líkt og eldfim gastegund. Okkar hlutverk er að beina orkunni í sinn máttuga fyrirfram ákveðna farveg, að öðrum kosti mun hún binda enda á þróunina. En aðgerðir til að hafa áhrif á grundvallarorkuna mega ekki vera tilviljanakenndar. Um alla plánetuna verða hópar fræðimanna og fólks, sem hefur áhuga á menningu, að rísa upp og taka að sér það hlutverk að rækta andlega orku í fullri samvinnu sín á milli. Hópar sem þannig eru samtengdir geta myndað grundvöll að vísindalegri þjálfun.

514. Við skulum ekki bíða með það að miða menntun mannsins við þá staðreynd að hann ber í sér andlega orku. Gerðar hafa verið margar einstakar tilraunir, en nú er helst þörf á því sem nefna mætti samvinnufélag til rannsóknar á þessum orkutegundum. Svo gagnlegt starf má ekki takmarka með hefðum, því hinir ólíklegustu og ólíkustu samverkamenn geta lagt reynslu sína á vogarskálarnar.

515. „Elskið hvert annað“ — Þetta boðorð var gefið af mikilli visku. Ekkert er betra en kærleikur til að samræma orkuna. Allt æðra samneyti hefur grundvallast á þessari sömu tilfinningu og hefur sömu góðu áhrifin á orkuna. Léttar öndunaræfingar styrkja einnig grundvöll orkunnar. Þannig verður fólk að safna saman og leggja áherslu á allt það sem er gagnlegt fyrir orkuna. Allir verða að gæta að forða hinnar andlegu orku. Jafnvel eitt andvarp endurnýjar kraftana.

Það er ákaflega upplýsandi að orkan er endurnýjuð fyrst og fremst með tilfinningum, en ekki með hvíld líkamans. Því hefur verið sagt: „Lát mig bera þungar byrðar þegar ég geng inn í garðinn fagra.“ Einmitt byrðar og þrýstingur eru upptök sterkra tilfinninga. Ef maðurinn kann að greina á milli tilfinninga sinna mun hann velja hina verðugustu þeirra, og það mun verða kærleikurinn.

516. Sagt var endur fyrir löngu: „Sá sem kann að elska hefur eldhjarta.“ Eldlegur farvegur er nauðsynlegur til að styrkja orkuna. Engin rökfræði skapar þann eld sem kviknar af neista kærleikans.

Þegar mótaðar verða hugrænar stefnur verður gildi tilfinninganna einnig prófað. Berið saman góða og slæma tilfinningu, og sjáið aftur hversu hið góða endist miklu betur en hið illa.

517. Ætlið ekki að með því að líkja tilfinningum við orku sé með því verið að gera lítið úr tilfinningum. Sumir ímynda sér að það sé óviðeigandi að minnast á æðra samneyti og orku í sömu setningunni. Í augum sumra er orka fyrirbrigði sem finnst í vélum, en svo jarðnesk túlkun er ekki við hæfi. Lærið því að unna orkunni sem ykkur hefur verið treyst fyrir. Orkan er dropi úr æðsta kaleiknum. Án kærleiks verða engar framfarir.

518. Við skulum minnast þess aftur hvers vegna meiri hluti manna verður að lesa bækur hinna lifandi vísbendinga aftur og aftur. Sumir munu segja að þeir hafi vitað þetta fyrir löngu, en samt munu þeir ekki fara eftir því; næst munu þeir segja að vísbendingarnar séu draumórar og ónothæfar á jörðinni. Við þriðja lestur sjá þeir að ef til vill er til fólk einhvers staðar sem gæti hagnýtt sér heilræðin, og við fjórða lestur munu þeir einnig hafa sjálfa sig í huga. Aðrir byrja á því að niðra bókina, því næst kasta þeir henni út úr húsinu; síðar, eins og fyrir tilviljun, muna þeir eftir henni; og að lokum byrja þeir að hafa eftir hugmyndir úr henni.

Vegir vitundarinnar eru afar mismunandi, og því þarf fólk að venja sig við að meðtaka hugmyndir sem það heyrir. Leitt er að sjá hinar ónauðsynlegu krókaleiðir sem vitundin þarf að fara vegna eigingirni, hroka og fyrirlitningar á skoðunum annarra. Þess vegna verður fólk að marglesa það sem annars væri hægt að nema mun fljótar og greiðlegar með skynjun hjartans.

519. Jafn óþolandi og þistlar í garði er hið illa í lífinu. En ef skarpskyggn augu greina veg góðleikans, ætti að gæta hans vel. Lát hann vera langan og þröngan. Þó svo hann hyljist gróðri sums staðar, gæt þó vandlega að hverju góðu sæði. Þótt fuglar góðleikans syngi ekki alltaf þannig að skiljist, er hver hljómur hins góða samt dýrmætur.

520. Í útvarpssendingum má stundum greina óboðnar raddir. Það eru raddir fólks sem tækin hafa óvart numið. Á sama hátt má einnig æ oftar heyra raddir hinna lifandi meðal radda frá fíngerða heiminum. Hinir fáfróðu andstæðingar hagnýta sér þessar kringumstæður til að afneita sambandi við fíngerða heiminn. En þeir gleyma því að hin andlega orka er alls staðar sú sama. Hún getur ekki eingöngu tilheyrt hinum dauðu eða hinum lifandi, vegna þess að hún er grundvöllurinn. Hugsun er ósigrandi, og hún endurómar um alla heimana.

Hinir fáfróðu afneita fíngerða heiminum, en með því hafna þeir um leið hugsun. Ekkert í tilverunni styður höfnun; þvert á móti, allt staðfestir hinn eina sannleik.

521. Margoft hefur heimsendir verið boðaður, en jörðin er enn til. Hinir fáfróðu fá hér enn ástæðu til að hrósa sigri, en þeir hæddust einnig rétt áður en Atlantis leið undir lok. Auk þess hafa eyðandi árekstrar oftar en einu sinni ógnað plánetunni. Hægt var að sjá þetta fyrir með næmum mælitækjum. Ekki er langt síðan plánetan slapp mjög naumlega við árekstur.

Ef til er fólk sem fær fyrirboða um fjarlæga jarðskjálfta, er það alveg eins skiljanlegt að einnig sé hægt að greina aðrar kosmískar sveiflur. Við skulum ekki dæma um ástæðurnar fyrir því að mörgum hættum er bægt frá — orsakir þess eru margar. Til eru eyjar sem eru í mikilli hættu, samt vilja íbúarnir ekki yfirgefa þær. En enginn hæðist að vísindamönnum sem rannsaka breytingar á strandlínum.

Gagnrýni sem ekki er byggð á þekkingu ætti að beita með mikilli varúð, bæði við efnislegar rannsóknir og rannsóknir á sviði andlegra ábendinga.

522. Það er rétt að gera ekki ráð fyrir því að opinberun eins leyndardóms dragi úr mikilvægi þess sem á eftir kemur. Sagt hefur verið að hver leystur leyndardómur sé aðeins hlið að hinum næsta. En einnig hefur verið sagt að hver leyndardómur sé umgirtur hærri vegg, þannig að æ erfiðara sé að nálgast þá eftir því sem lengra dregur.

Lát þá sem hræðast vita strax um erfiðleikana framundan. Þeir ættu ekki að láta tælast af hugsunum um auðveldan árangur. Þegar ákvörðun hefur verið tekin, munu þeir sem sterkir eru í anda láta sér vel líka hina erfiðu leið, því hvernig geta þeir á annan hátt látið reyna á krafta sína?

Það eru mikil mistök að álíta að allar uppgötvanir séu til þess eins að gera lífið ánægjulegra. Hver uppgötvun býr aðeins til lítinn glugga út í óendanleikann, og eitt augnatillit þangað mun ákvarða eðli mannsins. Fáir kunna því vel að stara út í óendanleikann; flestir finna til skelfingar þegar hinn óendanlegi vegur blasir við augum. Jafnvel á jörðinni eru fáir ferðamenn sem hafa skilið slíkar óravíddir framvindunnar.

523. Menn ættu einnig að endurskoða aftur hugtök að baki orða. Í dag er tímabært að ræða um hátíðleika, því margir leggja rangan skilning í þetta fagra hugtak. Fyrir mörgum er hátíðleiki aðeins hátíð aðgerðarleysis, að reika um án markmiðs og hafa yfir innantóm orð. En í raun er hátíðleiki upphafin fórn allra bestu tilfinninga mannsins; hann er þensla allra hinna æðstu orkutegunda, samband við Hliðin sem nálgast.

524. Fólk á erfitt með að gera sér í hugarlund áhrif strauma úr geimnum. Jafnvel upplýstir fræðimenn gera sér ekki alltaf grein fyrir hinum stöðugu breytingum á eiginleikum andrúmsloftsins; hinn augljósi stöðugleiki umhverfisins er of mikill. Raunveruleikinn felst handan við hið hefðbundna og augljósa viðmót.

Fræða ætti ungdóminn um þá staðreynd að allt í umhverfinu sé á stöðugri hreyfingu; það veldur engri skelfingu, heldur gefur til kynna mátt hinna fíngerðu orkutegunda. Hinn menntaði maður ætti að hafa greinargóða þekkingu á hinni eilífu hreyfingu og þeirri staðreynd að atburðir endurtaka sig aldrei nákvæmlega á sama hátt. Eins mun hann þá auðveldlega skilja breytileika straumanna sem fylla rúmið.

Maðurinn getur fundið samsvaranir skaplyndis síns og skynjana í fjölmörgum ytri ástæðum.

525. Ennfremur verður maðurinn að læra að hlusta eftir ráðleggingum sem byggjast á reynslu. Margir eldar kvikna af slíku almennu áliti. Ekki ætti að forðast umræður, þær mynda miðpunkta fyrir hringiður straumanna og breytingar á orku.

Lát straumana breytast; vissulega hljóta að koma betri straumar í kjölfar þeirra sem eru miður góðir.

526. Höfðingi nokkur kom til einsetumanns og bað hann að útskýra fyrir sér grundvallaratriði lífsins. Einbúinn byrjaði að tala en um leið hellti hann smátt og smátt vatni í bikar. Höfðinginn tók að lokum eftir því að vatnið flóði út úr bikarnum og vakti athygli einbúans á því. En einbúinn svaraði og sagði: „Satt er það, þess vegna skaltu koma með stærri bikar næst.“ Með slíkum sögum hefur verið reynt að fá menn til að meðtaka þá staðreynd, að visku er úthellt til einskis, ef getan til að veita henni viðtöku er ekki fyrir hendi. En þessi sama saga felur einnig í sér uppörvandi boðskap — í hvert skipti er mögulegt að koma með stærri bikar.

527. Hvers vegna er svo erfitt að viðurkenna það lögmál, að sérhver orkutegund er einnig efnislegur máttur? Fólk getur hreyft vöðva sína að vild, sem þýðir að þessi orka birtist á efnislegu sviði. Hið sama má sjá ef athugaðir eru þjálfaðir íþróttamenn og Hatha-jóga meistarar sem hafa með viljaorku áunnið sér athyglisvert vald yfir starfsemi vöðvanna.

Hinn hugsandi maður felur oft líkamlega orku sína.

528. Þunglyndi er ekkert annað en sundrung. Lendi hinn niðurdregni maður í nægilega mikilli hættu er hann nauðbeygður til að beita hugrekki; en áfallið verður að vera nægilega mikið til að þvinga manninn til að breyta hugarástandi sínu. Það eru jafnvel til sjúkdómar sem eru meðhöndlaðir með losti. Hræðslan við dauðann virðist öllum veikleikum mannsins meiri, en það má þó finna það sem er henni yfirsterkara. Til eru margar frásagnir um dauðvona menn sem fengu bata eingöngu vegna yfirvofandi hættu; ósjaldan hefur lamaður maður forðað sér út úr brennandi húsi; oft hefur innri sýking læknast þegar athyglinni var beint í aðra átt.

Spurt er, hvort fólk muni læknast af einum hættulegasta sjúkdómnum — sundrungu, ef það áttar sig á hættunni sem býr allt umhverfis.

529. Það hefur verið réttilega á það bent að eiginleikar vitundarinnar hafa í grundvallaratriðum haldist næstum óbreyttir í þúsundir ára. Ef til vill hefur svo ógurlegur atburður, sem eyðing Atlantis var, valdið vissri endurnýjun vitundarinnar, en til að slíkt geti orðið þarf áfallið að vera ógnarlega stórt í sniðum.

530. Sársauki er merki um truflun á starfsemi líffæris, með öðrum orðum, hann er skilaboð um sjúkdóm. En það getur einnig verið um annars konar sársauka að ræða. Hann getur stafað af því að eitt líffæri þroskast á kostnað annars. Þetta á sérstaklega við þegar um hjartakvilla er að ræða. Hjartað getur verið heilbrigt, en samt svo næmt að það virðist sem önnur líffæri hefti það.

Venjulega álítur fólk að lífkerfi sé heilbrigt ef það finnur engan sársauka, en slík skilgreining er frumstæð. Heilbrigt hjarta getur þjáðst, vegna þess að í því endurspeglast of margt.

Nauðsynlegt er að læknar greini nákvæmlega orsakir sársauka. Skilningur á andlegri orku mun verða þeim til hjálpar.

531. Fyrsta staðfestingin á æðra stigi hjartans er hæfileikinn til að skynja eiginleika strauma úr umhverfinu. Ógerlegt er að skipa hjartanu að finna til, ef það hefur ekki náð hæfilegu þroskastigi; aðeins andleg orka, sem kölluð hefur verið til starfa, er undirrót næmleika.

532. Sá maður, sem gerir anda og efni að andstæðingum, skaðar með sérstökum hætti vöxt vitundarinnar. Vissulega er einnig oft sagt að efnið sé þétting andans. Auðvelt er að hlýða á slíkar útskýringar, en ef litið er á yfirborðið, standa hinar grófgerðu röksemdir föstum fótum á hinni fornu tvískiptingu. Það er ekki auðvelt að sjá fyrir sér öll stig andans, ef ímyndunarhæfninni eru skorður settar. Það má rifja upp að villimaður nokkur særði vin sinn með steini, og baðst síðan fyrirgefningar, vegna þess að hann hélt að hlutur gerður úr anda gæti ekki valdið sársauka.

Það ætti að verða vísindunum styrkur að hin mismunandi stig andans verði leidd í ljós. Og vísindin verða að leggja sitt að mörkum til að glöggva ímyndunarafl mannsins.

533. Öll hefðbundin sundurgreining er til skaða fyrir einingarhugtakið. Skilningur á grundvallarorkunni hjálpar til við að leysa manninn frá ónauðsynlegum byrðum. Flest hefðbundin hugtök hafa orðið til vegna eigingirni einstaklinga sem hver um sig þráði að nefna hlutina eftir eigin höfði. Að sönnu hefur blöndun tungumálanna einnig valdið sérstæðum skilgreiningum. Menn ættu að vinna að því að fastmóta hreinar og sameinandi skilgreiningar.

534. Við hvað ætti maðurinn að fást — hið þrönga eða hið breiða, hið stutta eða hið langa? Einfaldasta og viturlegasta svarið er: „Lát það besta vara lengst.“

Við skulum bera saman jarðneskt líf og dvöl á yfirjarðneskum sviðum. Með fáum undantekningum varir tilveran í fíngerða heiminum margfalt lengur. Þetta þýðir að við verðum að vera reiðubúin, ekki aðeins fyrir stutt hlé, heldur þurfum við að leggja áherslu á það sem nauðsynlegt er fyrir langa dvöl. Grundvallarorkan, hugsun, vitund, ímyndunarafl og innsæi mynda til samans ómetanlegar eignir okkar.

535. Skiljanlegt er hvers vegna tiltölulega lítið var rætt um endurholdgun í fornum ritum. Vitneskjan um hana var nægilega mikil; hins vegar hefði ekki verið gagnlegt að beina athyglinni að fortíðinni. Aðeins fólk með sérstaklega þroskaða vitund getur kafað í fortíðina án þess að vinna framþróun sinni skaða. Fyrir smáa vitund getur verið mjög skaðlegt að líta til baka. Fólk verður stöðugt að búa sig undir framtíðina. Aðeins þegar vitundin er þannig innstillt getur orðið samræmi í jarðnesku lífi þess. Þegar fólk flytur inn í nýja og betri íbúð tekur það bestu eigur sínar með sér, en enginn tekur með sér skítuga larfa. Eins vandlega og viturlega verður maðurinn að búa sig undir dvölina í fíngerða heiminum.

536. Þegar heitt er og mollulegt flytur fólk upp til fjallanna. Á sama hátt getur maðurinn klifið hæðir og gert það með sérstakri gleði. Hrein andleg orka hjálpar honum við að kynnast hinu nýja umhverfi. Hún laðar einnig að bestu leiðsögumennina. Hún er nefnd Segull, Brú, Hlið og Fjársjóður, eða hinum bestu nöfnum, til þess að maðurinn geti hrifist af sínum eigin sanna fjársjóði.

537. Aðeins skýr skilningur á fíngerða heiminum gerir fólki kleift að viðurkenna jarðneskar eignir án hræsnisfullrar afneitunar. Maðurinn mun skilja hvaða eignir tilheyra honum, og hinir jarðnesku hlutir munu öðlast sinn réttmæta sess í hinni löngu tilveru mannkynsins. Meginatriðið felst ekki í afsali, heldur í skilningi á því sem er einstaklega fagurt.

538. Maður, sem uppgötvar návist andlegu orkunnar innra með sjálfum sér, getur einnig séð hana hjá öðrum. Það hefur verið sagt að Leiðin felist í því að þekkja sjálfan sig. En fyrsti eiginleikinn er ástand orkunnar.

Fyrir mörgum virðast umræður um andlega orku vera einhvers konar óráðshjal; þeir geta ekki yfir höfuð skilið umræðuefnið. Þeir munu reiðast öllum þeim sem reyna að hefja samræður um það sem þeim er óskiljanlegt. Hafa ber í huga að hin fyrsta óljósa skynjun orkunnar er sú erfiðasta. En nauðsynlegt er að íhuga með ró skilningsleysið sem fáfræðin veldur. Þannig geta margir alls ekki ímyndað sér neitt ástand eftir lok jarðneskrar tilveru. Meðal slíkra manna má bæði finna trúleysingja og menn kirkjunnar, en þeir eru allir jafn langt frá því að skynja grundvallarorkuna.

Það er mjög lærdómsríkt að sjá að andstæðar skoðanir geta báðar verið jafn fjarri hinu sanna.

539. Líkt er með afneitara og sofandi manni. Sannlega er gagnslaust að ræða við mann sem sefur eins og steinn!

540. Nú getið þið skilið betur hvers vegna Við höfum ekki bent mönnum á að stunda Hatha-jóga. Það beinir mönnum síður en nokkurt hinna jóga-kerfanna til grundvallarorkunnar. Að vísu veldur það hægfara framförum með því að fullkomna stjórn vöðvanna og mátt viljans, en mesti grundvallarþátturinn, sem ætti að vera fyrsta viðfangsefni mannsins, er vanræktur.

Því að byggja starf sitt á því lægra þegar bestu gjafirnar koma að ofan? Mun ekki þekking á mestu grundvallarorkunni fela í sér skjótustu framfarirnar? Það var ekki Hatha-jógi sem sagði: „Heimurinn er hugsun.“

541. Við hugsanaflutning er nauðsynlegt að hafa í huga vissa eiginleika orkunnar. Fyrst og fremst þurfa menn að skilja að svarið hlýtur óhjákvæmilega að koma á óvæntan hátt. Þessi eiginleiki orsakast af mismun skynjunar á fíngerða sviðinu og hinu jarðneska; hinar fíngerðu orkutegundir verða ævinlega að kljást við jarðneskar aðstæður. Jarðneskar hindranir eru eins og einangrandi hjúpur. Þó slíkt vari aðeins örskamma stund er samt sem áður kominn möguleiki fyrir hið óvænta. Fólk hefur vanist því að nota jarðneskar viðmiðanir, og það kann sjálft að hafna hinum fíngerðu sendingum.

Þess vegna er svo mikilvægt að leggja rækt við sína eigin fíngerðu orku.

542. Einnig er brýnt að hafa í huga aðrar kringumstæður — hjartað mun óhjákvæmilega nema sendingar. Það er ekki hjartakvilli, heldur titringurinn í flæði orkunnar. Ógerlegt er að skilgreina í orðum skynjanir hjartans. Aðeins fólk sem er þjálfað í hugsanasendingum hefur skilning á því hvað þessi titringur gefur til kynna.

543. Það er hugsanlegt að fram komi sársaukafullar skynjanir í taugastöðvunum. Hafa ber í huga að næmar taugastöðvar hljóta að bregðast við ytri straumum. Þessir verkir eru oft nefndir taugapína, en skilningur er ekki fyrir hendi á orsökum þeirra. Venjulega er orsakanna leitað í ofkælingu eða ofþreytu, en ekki er reiknað með hinum ytri sálrænu orsökum.

544. Það er alls ekki auðvelt hlutverk að vera Móðir Agni-jóga. Aðeins þegar fram líða stundir mun fólk virða að verðleikum alla þá sjálfsfórn sem nauðsynleg er þeim sem kunngerir hinn eldlega mátt.

545. Nauðsynlegt er að veita nána athygli öllum atburðum sem gerast á tímum kosmískrar þenslu. Margt hafa menn séð, en enn fleira fer hjá þeim óséð. Fólk hefur fjarlægst svo skilning á grundvallarorkunni að það getur ekki fundið nein orð yfir hinar augljósu raunbirtingar og heimsviðburði. Því vissulega er ekki hægt að aðgreina ytri atvik frá sálrænum fyrirbrigðum.

546. Reyndur viðtakandi hugsanasendinga veit hvernig einstök orð geta glatast vegna ytri truflana. Auðveldlega er hægt að ímynda sér að margir orkustraumar verði fyrir truflunum! Margar gagnlegar tilraunir er unnt að gera á hugsanasendingum, einnig er gagnlegt að rannsaka afleiðingar straumamóta, það er skörun orkustrauma í rúmi.

Hægt er að senda og taka beint á móti mörgum orkustraumum. En ytri bylgjur, líkar að krafti og eiginleikum, geta valdið truflunum — nauðsynlegt er að rannsaka hið flókna bylgjumunstur sem við það skapast.

Við slíkar athuganir verður ljóst að sterkur straumur verkar eins og segull á hina veikari, af því leiðir að til verður samfléttaður straumur margra bylgna. Næmur viðtakandi mun skynja titring hinna flóknu bylgjuhreyfinga.

547. Eins er greinilegt að vissar bylgjur geta valdið sársaukafullu höggi á áruna. Slík högg geta orsakast af ósamræmi í sendingum og flóknu sveiflumunstri.

Einnig er algengt að menn heyri greinilegan són fyrir eyrunum. Auk starfsemi vissra kirtla ætti að hafa í huga að þrýstingur andrúmsloftsins getur valdið þannig svörunum — hér er um að ræða visst bergmál af hinum mikla hljómi heimanna.

548. Það er rétt ályktað að nútíma jóga-kenningar leggja mikla áherslu á skaplyndi mannsins. Það virðist sem svo að þetta atriði sé þekkt og öllum skiljanlegt, en reynslan sýnir að fólk skilur ekki gildi eftirvæntingarfulls ákafa annars vegar eða þunglyndisdrunga hins vegar. Lát fræðimenn rannsaka hugsanaflutning við hinar ólíkustu kringumstæður. Auk hugarástands er einnig hægt að rannsaka áhrif mismunandi hitastigs. Mikill hiti veldur meiri næmni.

Að sjálfsögðu er ég að ræða hér um aukinn hita lífkerfisins. Það er ekki sjúkdómur, heldur samtvinnun eldlegra bylgna sem spinnur þráð sambands og svörunar.

549. Hvaða hugsun nær bestu sambandi? Gamalt fólk segir að það sé hugsun frá hjartanu. Slík einföld skilgreining er rétt. Það er einmitt ástand andlegu orkunnar sem annað hvort stuðlar að eða hindrar móttöku hugsunar. Hægt er að gera sér í hugarlund hve margar hugsanir eru til í geimnum sem enginn hefur tekið á móti! Þar sem hugsun er orka sem eyðist ekki, hversu mikla ábyrgð ber þá ekki mannkynið á sérhverri hugsun sinni!

Það er mögulegt að ganga úr skugga um heildarmagn hugsana sem þjóta samtímis um heiminn. Það er lærdómsríkt að sjá hvað mannkynið er að hugsa á hverri mínútu. Niðurstaðan verður algerlega óvænt. Mögulegt er að skipta hugsunum í nokkra flokka; aðeins mjög smár hluti þeirra virðist beinast að hinu sameiginlega góða. Niðurstöður úr slíkum útreikningum eru ógnvænlegar.

Rangt er að ætla að mannkynið hafi nú þegar uppgötvað mikilvægi hugsunar. Verið óþreytandi við að endurtaka staðreyndina um gildi hugsunar, en að sjálfsögðu munið þið verða fyrir ásökunum um ófyrirgefanlega nýbreytni, og jafnvel það að brjóta niður undirstöður samfélagsins.

Hvernig er hægt að fullyrða að það sé hættulegt fyrir ríkið að hugsun sé gert hátt undir höfði? Samt hafið þið nú þegar verið ásökuð um að kynna eitthvað hættulegt. Hversu lágt hlýtur sá maður að lúta sem álítur það ófyrirgefanlegt í mannlegu hátterni að minnast á hugsun!

Heimspeki, hversu harkalega er hæðst að þér fyrir að kenna mönnum að hugsa!

550. Næsta erfitt er að finna fólk sem stundar af kostgæfni listina að hugsa. Fólk er reiðubúið að hylla og verðlauna sigurvegara í keppnisgreinum Ólympíuleikanna. En hvar er að finna viðurkenningu og hvatningu fyrir hugsun?

Fagnaðarlætin sem hástökkvarar hljóta eru næstum því ærandi, en flug hugsunar hlýtur aðeins háð og aðdróttanir.

Lát þá sem berjast fyrir hugsun sameinast!

551. Allt sem varðar andlega orku verður að rannsaka með aðferðum sem byggjast á tilraunum. Ekki má leyfa neitt sem er aðeins persónulegar vangaveltur. Vitneskju úr fornum ritum ættu menn að hagnýta með mikilli varkárni. Hafa verður í huga að merking margra hugtaka var á sínum tíma túlkuð að ýmsu leyti á annan veg en nú tíðkast. Margt af því, sem nú er nefnt dulspeki, var á fyrri tímum raunveruleikinn sjálfur.

Margir fornir heimspekingar skildu aðeins eftir sig táknrænar frásagnir. Þeir földu hina raunverulegu merkingu; ástæðan er ekki þekkt, en einnig notuðu þeir ýmsar styttingar sem urðu til við kennslu.

Nákvæm athugun á því hvernig skilningi manna á andlegri orku var háttað á hinum ýmsu tímabilum mun leiða í ljós margar mjög ólíkar skoðanir. Látið ekki slík völundarhús mennskrar hugsunar leiða ykkur á villigötur! Orsök þess að slíkar villur komu fram var eingöngu sú að vísindalegar rannsóknir skorti. Engin þörf er á ævintýrasögum um andlegu orkuna. Fyrir mannkynið mun drifhvöt framfaranna koma frá nákvæmum rannsóknum og tilraunum sem staðfestar verða á mismunandi stöðum á jörðinni. Eining er forsenda slíkra raunverulegra sannana.

552. Móðirin getur lagt fyrsta grunninn að rannsókn andlegu orkunnar; alveg fram að fæðingu barnsins gefur hún gaum að daglegum gangi lífsins og næringunni. Eiginleikar hinnar ófæddu persónu ákvarðast strax í móðurkviði. Mögulegt er að sjá ákveðin merki, sem ákvarða skapgerðareinkenni, í löngunum og atferli móðurinnar. Þessi athugun verður að vera algerlega heiðarleg. En mikilvægt er að rækta sjálfan athugunarhæfileikann.

Aftur má sjá að Við beinum athyglinni ekki að kenningum og kreddum, heldur að tilraunum og athugunum.

553. Þreyta eykst vegna ytri aðstæðna. Athuganir á þessu efni eru einnig nauðsynlegar. Þunglyndi og þreyta geta tekið á sig einkenni farsóttar. Við athuganir getur komið í ljós að landsvæði eða heilar þjóðir séu á svæði þar sem þensla er ríkjandi.

554. Hjá ungbörnum er einnig unnt að sjá merki um birtingu. En nauðsynlegt er að læra að aðgreina þessi merki, því í þeim er mikið um bergmál frá fíngerða heiminum. Áhrif fyrri æviskeiða koma greinilega fram í leikjum og tilhneigingum barnsins. Það ber ekki vott um skarpskyggni að segja að allir barnaleikir séu eins. Í hópleikjum má sjá að hvert barn sýnir einstaklingseðli sitt. Hægt er að auðga þekkingu sína á andlegri orku með því að fylgjast með atferli barna.

Það eru mistök að álíta að aðeins sé hægt að nota taugaveiklaða fullorðna einstaklinga sem viðfangsefni athugana. Við tilraunir gefur betri raun að athuga börn, vegna þess að andleg orka þeirra hefur ekki orðið fyrir neinni röskun.

555. Menn gera oft læknisráð að umræðuefni sínu, en aðeins læknar láta sig varða þau málefni er snerta grundvallarorkuna. Margir segja að það sé ekki þeirra hlutverk að kryfja læknisfræðileg vandamál til mergjar, en allar slíkar athugasemdir eru skaðlegar í fávisku sinni. Lífið er fyrir allt sem lifir, og allir verða að leggja sinn stein af mörkum til byggingarinnar.

556. Úr musterinu skulum við ganga niður í kjallarann. Við skulum ásetja okkur að geyma með okkur, ekki aðeins flug um háloftin, heldur einnig samúð. Hjá öllum mönnum má finna opna und. Aðeins hin andlega orka getur vísað á þessa þjáningu. Öll rannsókn á æðri orkutegundum kennir óhefta aðstoð. Þess vegna verður einnig að rækta með sér hvötina til að veita hjálp.

557. Allir menn hafa í sér opna und, en þeir geyma einnig rúbínstein í hjarta sínu sem nefnist Hið allra helgasta. Slíkan segul þarf að varðveita af kostgæfni. Hann hefur verið nefndur gimsteinn. Á fornum tímum var rætt um gimsteininn, en síðar fóru menn að leggja táknræna merkingu í orðið. Þið vitið nú að þetta hugtak hefur tvöfalda merkingu en ekki táknræna. Auðveldlega má kalla skurðpunkta orkunnar stein, vegna þess að í hugum fólks tengist segulmagn hugmyndinni um segulstein. Menn eiga auðvelt með að gera sér í hugarlund segulmagnað fjall, en þeir skilja ekki segulorku manns. Ef segulorka birtist á margvíslegan hátt í stórheiminum, þá er hinn sami eiginleiki hennar einnig óafmáanlegur í smáheimi mannsins.

558. Fólk þekkir rafmagnaða hrökkála, en sambærilegt rafmagnshögg frá manni virðist því vera eitthvað yfirnáttúrulegt, svo yfirmáta erfitt er fyrir vitundina að meðtaka þá staðreynd að bókstaflega allt sé að finna í manninum. Slíkir eiginleikar hjá manninum ættu að hvetja hann til sérstakrar varúðar, en sá skilningur, að maðurinn geymi í sér allan heiminn, hefur ekki öðlast viðurkenningu. Orðin stórheimur og smáheimur eru endurtekin í hugsunarleysi án þess að nokkur innri skilningur fylgi.

559. Er mögulegt að hugtakið mikla um Hið allra helgasta verið skilið og viðurkennt? Stundum kemur fíngerði líkaminn úr flugferðum sínum með Hið allra helgasta á vörunum í þeim tilgangi að það renni saman við jarðneskt líf. Fíngerði líkaminn getur borið með sér mörg geislandi sannindi, þegar hann snýr aftur til efnislíkamans. Hann getur heimsótt hin ýmsu svið og átt samskipti við lifandi fólk í ýmsum löndum — og allt þetta í óendanleika og tímaleysi.

Geta þá ekki allir slíkir eiginleikar smáheimsins gert úr honum altari hins æðri máttar?

560. Sumt fólk leitar einungis eftir hinu nýja, en kærir sig ekki um það sem áunnist hefur í fortíðinni. Margar hættur felast í slíkum stökkum út í óvissuna. Ekki er alltaf hægt að treysta þannig fólki. Það er vafasamt að það geti gætt þess sem því er treyst fyrir.

Ákafi er mikilsverður þegar hann er afleiðing fullrar vitundar.

561. Aum getur hljómað, alveg eins og hinar æðri sveiflur, til samstillingar á andlegri orku. Allar hörpur þarf að stilla; því er enn frekari ástæða til að koma hinni andlegu orku í friðsælt ástand, vegna þess að hún er móttækileg fyrir öllum kosmískum sveiflum. Í fornum umræðum um grundvallarorkuna var það einmitt í Aum sem frumkjarni slíkra ráðlegginga fólst.

Hversu margvísleg er ekki hin andlega orka! Nokkrir þættir hennar hafa fengið sérstakt nafn. Við skulum snúa okkur að einum háleitum þætti hennar sem nefndur er „vernd.“ Ekki skyldi ætla að þessi eiginleiki sé aðeins til verndar þeim sem sjálfur býr yfir slíkri orku. Hann er einmitt einnig vernd fyrir aðra, því þeir deila orkunni frjálslega með honum. Andlegri orku er einmitt útdeilt þar sem hennar er þörf alveg á sama hátt og andinn getur deilst. Slíkur læknir veit ekki af því þjáða fólki sem hlýtur lækningu af hans völdum. Þetta er erfitt en blessunarríkt verkefni!

562. Titringsnudd með rafmagnstæki er gagnlegt ef sveiflutíðnin er við hæfi. Ekki er viturlegt að koma sjúklingi í snertingu við sveiflur sem eru honum framandi. Fyrst af öllu ætti að rannsaka andlega orku hans, eiginleika hennar og þenslu. Nudd grundvallast á hrynjandi, en hrynjandin er ákaflega breytileg eftir einstaklingum. Mögulegt er að nudda inn í sjúkling algerlega óviðeigandi áhrifum.

Þess vegna er nauðsynlegt í læknaskólum að leggja stund á hrynjandi og sveiflutíðni.

563. Agni-Purana, Upanishad og önnur forn viskurit miðla í grunnhluta sínum lögmálum tilverunnar með fullkominni nákvæmni. Hafnið ekki, heldur gætið með ýtrustu athygli að neistum sannleikans. Tvo málma er ekki hægt að bræða saman án elds; á sama hátt getur aðeins eldlegt hjarta tekið á móti straumi æðri orku.

Við skulum ekki virða að vettugi neinar uppsprettur hins góða. Hver sá sem óhreinkar skínandi klæði nágranna síns hefur um leið kveðið upp dóm yfir sjálfum sér.

564. Í helgisöngvum mismunandi trúarbragða má greina sérstaka hljómsetningu. Ef hinir elstu þeirra eru bornir saman, er mögulegt að sjá athyglisverða líkingu meðal þeirra í tónrænni uppbyggingu. Að auki má greina að notaðar hafa verið merkilega líkar takttegundir; en allt þetta bendir til þess að tónskáldin sem sömdu þessa sálma hafi haft sameiginlegan skilning á gildi samhljóma og hljóðfalls. Það er ógjörningur að ætla að slíka líkingu í grundvallaratriðum megi einfaldlega skýra með því að vitneskjan berist mann fram af manni. Sjá má að þeir hafa verið undir áhrifum sameiginlegrar uppsprettu. Ekki er hægt að draga í efa að hin eina grundvallarorka tilverunnar muni skapa svipaða hrynjandi fyrir ákveðið form innblásinnar tjáningar. Sannarlega getur hinn skarpskyggni víða séð staðfestingu hinnar miklu einingar.

565. Þið hafið heyrt að maður, sem haldinn var málgalla, var skyndilega fær um að flytja fagra og innblásna ræðu. Hinn persónulegi vilji gat ekki valdið þessu einn sér, þátttöku annarrar orku var þörf. Einhver hafði sent verndarorku sína. Það getur verið að slík orka lækni málgallann varanlega. Mögulegt er að taugakvillinn hverfi algerlega, ef ræðumaðurinn getur viðhaldið sams konar eldmóði og hann var fylltur þegar hann flutti hina fögru ræðu. Lát hann fylgjast með hrynjandi hjarta síns. Lát hann minnast hvernig samræmið var í hinni árangursríku ræðu sem hafði slík áhrif á áheyrendur. Það er strax mikill árangur að viðhalda samstillingunni. Hægt er að vitna í mörg dæmi þar sem hrynjandi hinnar andlegu orku hefur lyft manni upp og hjálpað honum að vinna bug á öllum taugakvillum. Hægt er að nefna mörg tilfelli þar sem fólk hefur endanlega gleymt takmörkunum sínum og göllum undir áhrifum frá hinni æðri orku.

566. Allt óþarft álag vinnur gegn samræmi. Það er nauðsynlegt að hið árangursríka samræmi geymist í minni án nokkurrar þvingunar. Einbúar hafa bent á hið mikla gildi hljóðrar bænar; slíkur er dómur þeirra sem gera sér grein fyrir mætti samræmisins.

567. Geislunarmælir nemur einn þátt birtunnar; en hið sama tæki getur einnig staðfest áhrif andlegu orkunnar á birtustigið. Sjá má að mismunandi hugarástand athugandans hefur áhrif á útgeislunina. Það má því segja að andleg orka manns og hluts úr steinaríkinu hafa áhrif hvor á aðra, því þær eru eitt og hið sama. Það er allt undir hugarástandi mannsins komið hvort til verður samtengd virkni eða sambandsrof. Ekki fyrir löngu hefði yfirlýsing sem þessi verið nefnd hindurvitni, en nú þegar eru til menn sem skilja slíka samvirkni orku, og aðrir sem dirfast ekki lengur að hæðast að þessum hugmyndum — þannig fer þekkingunni fram. Einkum er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að með jákvæðu hugarfari er hálfur sigur unninn.

568. Lát fólk læra að unna þenslu, því að í veikleika verða upplausnarkraftarnir strax virkir. Enginn getur þekkt nokkurn hlut í raun og sannleika ef hann er á valdi veikleika. Staðfesta andans hefur verið nefnd herklæði, en menn verða að venjast því að bera slík herklæði.

569. Er það tilviljun að þessar hugleiðingar eru settar fram í smábrotum? Getur ekki verið að í þessari mósaíkmynd felist hrynjandi og sérstakur tilgangur? Hugleiðið stundum með vinum ykkar hvers vegna þessi aðferð hefur verið valin! Felst ekki í henni sú sérstaka aðferð að hafa áhrif á mismunandi orkustöðvar? Fullkomnun skynjunarhæfileikans er ákaflega mikilvæg.

570. Hinar mikilvægustu dagsetningar geta liðið hjá án þess að eftir þeim sé tekið. Það kann að vera að aðeins fáeinir hafi skynjað mikilvægi 16. september. Það er líkt því þegar eldur geisar handan veggsins, og fólkið safnast saman í leikhúsinu án þess að átta sig á því að tjaldið hylur eyðilegginguna. Hægt er að segja fyrir um daginn eftir kosmískum merkjum, en fólk lætur sig engu skipta þau merki sem gefin hafa verið. Á líkan hátt reiknar reyndur læknir viturlega út framgang sjúkdómsins; en þegar hinn tiltekni dagur rennur upp, tekur sjúklingurinn á móti honum og hlær að lækninum; en hve oft hefur ekki verið sagt: „Að kvöldi skal dag hvern lofa!“

Séu menn beðnir að lýsa því hvernig þeir sjá fyrir sér eitthvað sem er mikilvægt, þá setja þeir fram hinar barnalegustu hugmyndir, og ekki einn einasti þeirra kemur nálægt kjarna þess sem er að gerast. Slíkur hringlandaháttur með raunverulegt eðli hlutanna er aðeins til merkis um skort á þeirri grundvallarorku sem beint getur ímyndunaraflinu á réttar brautir.

571. Innra með sér þekkir maðurinn ljóslega orkuna sem er honum eðlislæg. Þegar hann meiðir sig nuddar hann auma blettinn með hönd sinni. Þegar hann vill vekja á sér athygli stappar hann niður fæti; hann veit að það eru einmitt útlimirnir sem gefa frá sér orku. Í sögum er sagt frá því að eldsneistar stöfuðu frá höggi handarinnar, og að eldur glóði af fótspori einhvers á jörðinni. Samt er erfitt fyrir manninn að átta sig á sínum eigin mætti í daglegu lífi sínu.

572. Að læra að þekkja hljóðfall er skref í átt til hinna fjarlægu veralda. Enginn getur skynjað fíngerðar sveiflur, ef hann hefur ekki lært að þekkja hljóðfall og skilur ekki mikilvægi samræmis. Fyrir suma eru þetta innantóm hljóð, en til eru þeir sem hafa komið á samræmi í öllu lífi sínu. Það er ekki hljóðfall léttvægrar tónlistar, heldur eldlegur taktur hjartans sem ég hef í huga.

Maður nokkur, sem heyrði um gagnsemi hljóðfalls, réði sér trommuslagara til að slá fyrir sig taktinn — en bjálfinn varð aðeins enn heimskari.

573. Átakanlegt er að sjá hvað dómar manna um hið sama geta verið ólíkir. Tökum sem dæmi ástand þess sem horfið hefur yfir í fíngerða heiminn. Um sömu persónuna munu menn segja: hann er horfinn, hann hefur þurrkast út, hann þjáist, hann sefur, hann hvílist, hann lærir, hann er upphafinn, hann dvelur í dýrlegum fögnuði — þannig dæmir hver og einn um fíngerða heiminn eftir sínum eigin skilningi. En vegna þess að enginn hefur sagt fólki frá fíngerða heiminum fer það að mynda sér skoðanir í samræmi við ímyndanir sínar; en oft er ímyndunarhæfileikinn lítt þroskaður. Með þessu móti heldur sviðið, sem er næst okkur, enn áfram að vera heimur skugga og svipa.

Þegar einhver grætur við jarðarför, þá getur verið að einhver sé þar sem harmi slíka fáfræði. Á sama hátt ef einhver fagnar við slíkt tækifæri, hneykslast fólk á því er virðist vera óviðeigandi hegðun. Á þessu sést að fólk getur ekki skilið tengsl jarðneskrar og yfirjarðneskrar tilveru. Hægt er að vitna í mörg dæmi um það að fólk hafi séð sína nákomnustu í fíngerða heiminum, en slíkar sannanir eru aðeins flokkaðar sem einstök fyrirbrigði. Það er vonlaust að sannfæra menn um að vistaskiptin milli heimanna séu náttúruleg atburðarás. Þeim er bannað að hugleiða endurholdgun, og þeir hafa komið sér saman um þá hugmynd að þeir dvelji á brún óþekkts hengiflugs. Samt verða heimarnir nátengdari hvor öðrum með hverju ári sem líður, og mögulegt er að koma með fleiri sannanir byggðar á minningum um fyrri æviskeið. Nú þegar geta menn vitnað í mörg dæmi; góðviljuð afstaða er allt sem þarf.

574. Hinnar sömu góðviljuðu afstöðu er þörf þegar gerðar eru tilraunir með andlega orku. Það ætti ekki að nota hana til að grennslast fyrir um framtíðina; samt sem áður er athyglisvert hvernig orkan sjálf getur séð fyrir leiðir í nánustu framtíð. Hún hefur verið nefnd „auga sálarinnar.“ Þannig hefur henni verið líkt við efnislega sjón. Ef það er eðlilegt að augað geti séð fram á veginn, þá er eðlilegt að auga sálarinnar geti séð inn í framtíðina.

575. Ekki aðeins er sérhver orkustöð sem rafall, heldur framleiðir einnig hvert atóm orku. Er mögulegt að líta á rannsókn á andlegri orku sem eitthvað óeðlilegt og óvísindalegt? Ég tala til þeirra sem hafa sérstök tækifæri til að þekkja orkuna, en afneita samt svo oft því sem þeir sjálfir búa yfir. Fólk verður að læra, læra og læra. Á þann hátt munu vísindin í öllum sínum mikilleika veita mönnum möguleika á að ná árangri.

576. Talið er að hlutskyggni sé hæfileiki sem aðeins ákveðnum útvöldum sé gefinn, en það er enginn vafi á því að þetta er sameiginleg gáfa sem allir hafa fengið í vöggugjöf. Margar skynjanir láta á sér kræla við það að snerta hluti. Það sem gerir gæfumuninn er það að einn beinir athygli sinni að skynjununum, en annar lætur þær fara fram hjá sér án þess að gefa þeim gaum. Menn ættu að veita öllum skynjunum athygli.

Hvílík auðlegð lífsins opnast fyrir þeim sem eru næmir fyrir öllum skynjunum! Það er ekki erfitt að gera sig næman fyrir margvíslegum skynjunum. Hver bók og hver einasti stafur ber með sér fullkomna útgeislun. Eitthvað ólýsanlegt, en þó augljóst hjartanu, veitist við snertingu. Engin ástæða er til að ætla að aðeins vissir gæfusamir einstaklingar búi yfir þessari gáfu og að öllum öðrum sé hún forboðin. Hugsun um möguleika er strax opin leið.

577. Sá sem rannsakar andlega orku þarf að vinna við allt aðrar aðstæður en flestir aðrir vísindamenn. Þeir síðarnefndu geta varið vissum afmörkuðum tíma í rannsóknir sínar, en hann, hins vegar, þarf að nota allan sinn tíma til athugana. Hann veit aldrei hvenær búast má við merkilegum viðburðum. Hann getur aldrei vikið athygli sinni frá hugsanastraumunum, því þeir geta farið af stað hvenær sem er. Hann verður að vita hvernig á að vakna til fullkominnar meðvitundar. Hann verður að veita útgeislun fólks og hluta athygli. Hann verður að búa yfir þolinmæði og góðvilja. Honum leyfist ekki að kvarta né verða þunglyndi að bráð. Margir eru eiginleikarnir sem athugandanum eru nauðsynlegir, nefna má hugmyndaauðgi og beina þekkingu.

578. Hver getur sagt að hann skorti allar nauðsynlegar aðstæður? Hver getur fullyrt að hann muni ekki uppgötva á morgun það sem hann finnur ekki í dag?

579. Á undan mikilvægum kosmískum tímamótum er hugsanlegt að komi tilfinning fyrir þrýstingi og jafnvel sársaukafullar skynjanir, þess vegna leggjum við til að menn þroski með sér hátíðleikatilfinningu. Við nefnum þessa tilfinningu „vængi.“ Án hátíðleika munu geislar afreka ekki skína. Hátíðleikinn er einnig nauðsynlegur við heitstrengingu. Mjög er við hæfi að ganga inn í musterið í þessum anda. Fyllum hjörtu okkar hátíðleika.

580. Menn þurfa að þroska með sér árvekni. Að vera viðbúinn er ekki það sama og að vera spenntur á taugum, það er ekki skammvinn þensla. Þessi hæfileiki er samstilling orkustöðvanna, ávalt opnar fyrir skynjunum og svörunum. Sá sem er fullur samræmis er stöðugt að gefa og taka á móti. Tilvera hans nærist ætíð á órofnum straumi. Að rjúfa slíkan straum felur í sér endi framfara. Sá sem allt veit er einnig sá sem allt gefur. Við skulum skilja þessi sannindi á víðtækan hátt en takmarka þau ekki með jarðneskum aðstæðum.

Til er lögmál sem þetta varðar, en þetta lögmál má ekki túlka þannig að það að taka á móti sé það sama og söfnun persónulegra eigna. Hjartað getur skilið þetta hugtak. Hjartað lætur ekki blekkjast af fölskum yfirlýsingum. Efling andlegu orkunnar veldur staðfestu.

Að vera stöðugt viðbúinn er afleiðing heilbrigðrar andlegrar orku.

581. Yfirbiskup í frumkristni nefndi andlega orku blessun. Læknir samtímans nefnir hana andlega heilbrigði. Nauðsynlegt er að beita mikilli athygli við skilgreiningu fornra hugtaka. Það væri sjálfbirgingsháttur og bæri vott um fáfræði að hafna ályktunum þúsunda ára. Athugandinn þarf fyrst og fremst að losa sig við sjálfsþótta.

582. Lærisveinn kom að máli við fræðara sinn og taldi upp langan lista af dyggðum, nauðsynlegum til framfara. Hann sagði dapurlega: „Fræðari, ég get aldrei öðlast þessar dyggðir.“ Fræðarinn spurði: „Sagðirðu allar?“ Lærisveinninn hélt áfram: „Mér virðist sem ég hafi ekki öðlast eina einustu þeirra.“ Þá mælti fræðarinn hughreystandi: „Það er ekki svo slæmt að þér finnist sem þú hafir ekki öðlast allar hinar nauðsynlegu dyggðir. Það væri mun verra ef þú héldir að þú hefðir tileinkað þér þær allar.“

583. Lærisveinn mælti með óþolinmæði og gremju við fræðara sinn: „Ég les kenningarnar frá upphafi til enda, en þrátt fyrir allt þetta veit ég ekki hvernig ég á að byrja.“ Fræðarinn svaraði: „Það er augljóst að þú þarft fyrst og fremst að losa þig við skapstyggð. Hún veldur mestu um það að þú færð ekki séð leiðina.“

584. Lærisveinn spurði fræðara sinn: „Segðu mér hvernig ég á að nota fræðsluna í lífinu?“ Fræðarinn ráðlagði honum og sagði: „Í byrjun skaltu leitast við að öðlast góðmennsku. Líttu ekki á hið góða sem yfirnáttúrulega gjöf. Láttu hið góða verða grundvöll hjarta þíns; á því skaltu byggja eld þinn, því ekki sviðnar frá eldi sem byggður er á slíkum grunni.“ Þannig spurði lærisveinninn, en fræðarinn varð mjög undrandi á því að slík spurning um byrjunaratriði væri nauðsynleg eftir alla fræðsluna sem hann hafði veitt.

Það er ekki aðeins í ævintýrum, heldur einnig í lífinu sjálfu sem dæmi um svo ófullnægjandi skilning koma í ljós. Lærisveinninn verður að finna í hjarta sínu hvaða eiginleiki stendur honum næst.

„Ég mun taka á móti ykkur, hvaða leið sem þið komið til mín.“

585. Sjá má hversu mikið kosmískir straumar auka svörun ýmissa líffæra. Hægt er að skynja það sem virðast vera breytingar á heyrn og sjón, óþægindi í sólarplexus-stöðinni, þenslu í liðaböndum og glóandi bruna í orkustöðvunum. Smáheimurinn bregst við stormviðri stórheimsins. Hversu mikinn stöðugleika verða menn ekki að finna hið innra með sér! Með hverju er hægt að yfirvinna þenslu umhverfisins? Aum, sem hljómur samræmis, er læknandi kraftur.

586. Við skulum enn einu sinni hvetja alla þá til dáða sem hafa orðið fyrir vonbrigðum með árangur fyrstu tilrauna sinna með andlega orku. Lát þá muna hve margar orsakir geta haft áhrif á og hindrað árangur tilraunar. Nærstatt fólk og hlutir, straumar úr geimnum, eigin heilsa, og að síðustu, hugsanir sem mótteknar eru úr fjarlægð — allt þetta getur annað hvort bætt árangur eða hindrað. Margar tilraunir hafa farið út um þúfur strax í upphafi vegna hæðnislegra athugasemda eða fjandsamlegrar hugsunar sem lamaði andlegu orkuna.

Það er sorglegt ef maður lætur hugfallast við fyrstu misheppnuðu tilraunina. Það gefur aðeins til kynna að sálarorka hans sé í algjöru upplausnarástandi. Þá verður athugandinn að íhuga með skýrri vitund hvernig hann getur ræktað og eflt sína eigin andlegu orku. Þó ekki sé verið að gera tilraunir er alls ekki rétt að láta grundvallarorkuna vera óskipulagða og vanrækta. Lát hvern nýliða í rannsóknarstarfinu prófa sjálfan sig við mismunandi aðstæður. Aðeins með margvíslegum prófunum er hægt að sjá nákvæmlega hvaða eiginleikar eru ráðandi í andlegri orku persónunnar.

Eins ætti athugandinn ekki að hafa áhyggjur af ýmsum sérkennum sem hann kann að uppgötva í sinni eigin orku þegar hann ber hana saman við tilraunir annarra. Sumum hættir til að ýkja, en aðrir vanmeta sjálfa sig vegna hógværðar; af þeim sökum sést þeim oft yfir verðmætustu eiginleika sína. Nauðsynlegt er að brynja sig með þolinmæði og trúfesti við athuganirnar. Varast ber óstöðugleika og hvatvísi, sem svo oft leiðir til óþolinmæði og gremju.

Á þennan hátt, með stöðugri umhyggju, skal styðja og hvetja byrjendur á braut athugananna.

587. Til eru tvær manngerðir — annarri líkar best að hagnýta sér vinnu annarra, en hin vill helst ná árangri af sjálfsdáðum. Gefðu gaum að hinni síðarnefndu; þar á meðal er að finna leitendur og samverkamenn. Veittu þeim aðstoð, því þannig fólk er sérstaklega orðvart og móttækilegt.

Ekki ætti að fordæma nýjar aðferðir við rannsóknir. Margt brautryðjendastarf í rannsóknum hefur miskunnarlaust verið rifið niður af hinum fáfróðu. Verndið hina næmu leitendur fyrir árásum böðlanna. Allir geta unnið mjög margt gagnlegt og óeigingjarnt, hver á sínu eigin sviði.

Verum óeigingjörn.

588. Við frumstæðar trúarathafnir, við bænagjörðir, áköll og helgisiði voru notaðir lúðrar myndaðir með höndum, blásturshljóðfæri og margs konar sívalningar til að gera hljóðið kraftmeira og samanþjappaðra. Slík tákn þenslu og einbeitingar má sjá á öllum tímum, bæði í smáu og stóru, jafnvel allt til háleitra bæna. Hljóð trompetsins magnar umhverfið á vissan hátt, og taktur ásláttarhljóðfæra gerir einbeitingu auðveldari. En vissulega er ekki þörf á svo frumstæðum hjálpartækjum þegar æðra samneyti er myndað.

Ég tel að einmitt nú sé nauðsynlegt að minnast á viðleitni hjartans. Við hugræn áköll mynduðu hinir fornu einsetumenn í huga sínum beina braut út í óendanleikann og létu hugsanir sínar leitast við að fylgja henni. Til eru margar hugrænar myndir sem hjálpa til við einbeitingu. En engum kemur til hugar að hugsunin eigi að reika um völundarhús.

Hreinskilni og einfaldleiki mynda bestu og árangursríkustu brýrnar.

589. Látið ykkur ekki til hugar koma að fólk kunni að nota ímyndunaraflið. Slíkur sköpunarhæfileiki er fágætur. Það kann að virðast einkennilegt, en fjöldinn allur af furðusýningum er alls ekki til þess fallinn að efla þroska ímyndunaraflsins, það hefur einmitt gagnstæð áhrif — eins og myndir sem renna eftir fægðum fleti.

Sífellt fær maður fullvissu fyrir því að ekkert hið ytra hafi neitt gildi, sé hjartað ekki með í athöfn.

590. Fyllumst hátíðleika. Bætum ekki óreiðu við þenslu geimsins. Verum ekki óþreyjufull þegar nauðsynlegt er að sjá fyrir hvað gerast muni. Hyljum okkur ekki í rykskýi þegar þörf er á víðsýni til allra átta. Mælum fram kærleiksorð sem trausta hlíf.

591. Í dimmum hellum er betra að hafa bjart og stöðugt ljós en flöktandi og reykspúandi kyndla. Hið sama gildir um andlega orku. Neistar frá reykjandi kyndli gera ástandið ekki betra. En hvernig er hægt að öðlast stöðugt ljós? Það er aðeins hægt með stöðugri íhugun um grundvallarorkuna. Eins og hugarstarf án orða eflist hið óslökkvandi Ljós í hrynjandi hjartans.

Lát bæði einsetumenn og fræðimenn meta ljós hjartans að verðleikum. Ljómi birtunnar samsvarar viðurkenndri þenslu. Tökum eftir því að fólk sér oft og tíðum þennan ljóma, samt grípur það til margra afsakana og afneitana og feimnislegrar þagnar. Fólk getur oft séð ákveðin sérkenni á hversdagslegum hlut, en það sviptir sig þessum möguleikum.

Ef fólk myndi athuga með meiri athygli starf sinnar eigin andlegu orku eftir lestur þessara skrifa, mætti líta á það sem góðan árangur.

592. Skoða verður með hugrekki bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar andlegu orkunnar. Stöku sinnum verður orkan þögul, og enginn vilji getur vakið hana. Fákunnandi rannsakandi kynni að láta hugfallast, en reyndur vísindamaður sér að þetta gefur til kynna sérstakar kringumstæður. Hann bíður um stund og heldur síðan með gætni aftur áfram með tilraunina. Sérhver breyting á orkunni bendir til kosmískra áhrifa.

593. Lítið á ykkur sem íbúa alheimsins en ekki aðeins íbúa jarðarinnar. Með því móti axlið þið meiri ábyrgð. Á sama hátt munið þið skilja hversu erfið barátta liggur að baki hvers sigurs á sviði óendanleikans. Haldið ekki að þið munið fyllast hroka við það að taka á ykkur meiri ábyrgð. Hroki hæfir aðeins fáfræði. Ábyrgðin er skylda manns við sjálfan sig og hið æðsta. Hugsun um skyldu er í sjálfri sér uppbyggjandi viðleitni, en til að þræða slíka braut verður maðurinn að rækta sjálfan sig án afláts.

Sá sem ekki kann að hugsa um samstarf við æðri orkutegundir er ekki þess verður að kallast maður. Hvernig getur hann átt háleitt samneyti ef hjarta hans er lokað fyrir andagift!

Lærið að skilja fullt gildi orðanna, annars verða háleit hugtök eins og andagift að innantómu hljóði. Um leið og ég kalla ykkur til fararinnar er mér annt um að þið gleymið ekki því sem mest er þörf á í öllu annríkinu og umstanginu. Oft hlaða ferðalangar á sig ónauðsynlegum hlutum en gleyma lyklinum að nauðsynlegustu töskunni.

594. Spyrja má hversu mikinn hluta af orkunni má gefa frá sér við lækningar. Þessi spurning hefur mikla þýðingu, því að þeim manni sem tapað hefur andlegri orku sinni má líkja við hermann sem glatað hefur vopnum sínum. Gefa má helming orku sinnar, jafnvel tvo þriðju, en ef þrír fjórðu hlutar hennar eru gefnir stefnir það lækninum í bráða hættu. Í svo berskjaldaðri stöðu tekur læknirinn sjálfur á sig sjúkdóminn, en það getur leitt hann til dauða. Þess vegna er sagt svo ákveðið um hinn gullna meðalveg: Hóf og samræmi er best í öllu — höfum það í huga.

595. Ósamstillt Aum breytist í verkfæri eyðingar. Hið æðsta samneyti breytist í guðlast sé það ekki hreinsað í eldi hjartans. Hugtakið um eld hjartans er oft nefnt hjátrú, en spyrjum vísindamenn, og við munum sjá að hinir bestu meðal þeirra eru sammála um tilveru geislandi orkutegunda. Enginn getur stöðvað rás þróunarinnar með neins konar banni. Hinn fávísi getur valdið umróti á sviðum þekkingar, uppreisnum og eyðileggingu. Það er einmitt með bönnum sem hinn fávísi vekur upp öldur óskapnaðar, en hið alheimslega lögmál mun vinna bug á öllum myrkum vélabrögðum.

Útrýma verður vanþekkingu.

596. Nákvæmlega sama orkan er notuð við sendingar jarðneskra hugsana og hugsana frá fíngerða heiminum. Samhliða sendingar jarðneskra og fíngerðra hugsana hafa ruglað rannsakendur ákaflega í ríminu; þeir hafa haldið að slík samtenging sé ekki möguleg. Helsta ástæðan fyrir þessum misskilningi er sú að enginn hefur veitt þeirri staðreynd athygli að báðar gerðir þessa sambands hafa orðið til við nákvæmlega sömu aðstæður og með atbeina sömu orkunnar. Skoða verður sérstaklega slíkar tilraunir, því þær útmá mörkin á milli heimanna.

Er ekki rétt að hlusta með athygli á allt sem getur sameinað heimana? Mitt í amstri hversdagsins er nauðsynlegt að koma auga á öll hin smáu merki sem geta vísað veginn út fyrir takmörk hins jarðneska heims. Engin nauðsyn er á þokukenndum kenningum þegar hægt er að gera vísindalegar tilraunir, né heldur ruglingslegum efasemdum þegar hægt er að greina milliliðalaust og með skörpu skyni sjónarinnar hin óhagganlegu lögmál.

Ekki alls fyrir löngu voruð þið að velta fyrir ykkur rökréttu samhengi vissra atburða. Rétta aðferðin er sú að skoða bæði ytri og innri orsakir. Margir skilja ekki hvers vegna atvik gerast á vissum tíma, en ekki fyrr eða síðar; í þeirra augum eru mikilvægir atburðir tilviljunum háðir, og engin tilraun er gerð til að skilgreina orsakir þeirra. En reyndur athugandi veitir því athygli í hve miklum mæli eitthvað gerist án þess að það sé hending ein. Skoðum allar verkanir lögmálsins. Orkan er ein og lögmálið er eitt.

597. Mikið er rætt um prófraunir. Fólki finnst skelfilegt að hugsa til þess að jafnvel sjálfir heimarnir skuli gangast undir próf. Mikil sjálfsmeðaumkun fylgir erfiðum prófum. Fólk efast jafnvel um réttmæti prófa sem slíkra. Það gæti verið til hjálpar fyrir þá, sem skilja þetta ekki, að setja orðið staðfesting í staðin fyrir orðið próf. Áður en farið er yfir brú fullvissar hver einasti maður sig um að hún muni halda — og það gerir hann sjálfur með eigin hreyfingum. Hver einasti maður athugar umhverfi sitt til að treysta sitt eigið öryggi. Mönnum líka ekki próf vegna þess að það einhver annar sem prófar þá, en prófanir sem þeir sjálfir gera til að tryggja öryggi sitt eru þeim ekki mótfallnar. Lát manninum skiljast að öll próf eru eingöngu til að tryggja velferð hans sjálfs. Það er vert að endurtaka að samhæfing heimanna felur í sér stórbrotið próf.

598. Einstaklingsbundin tjáning manna á andlegri orku er margháttuð. Sjálf orkan er alltaf hin sama og grunnlögmál hennar eru óumbreytanleg, en þrátt fyrir það eru engir tveir einstaklingar til sem tjá hana á nákvæmlega sama hátt. Þessi fjölbreytni leiðir af sér margar ranghugmyndir. Hinir smámunasömu þola ekki margbreytileika, og þess vegna búa þeir til hefðbundna aðgreiningu með tilbúnum nöfnum í stað grundvallareiningarinnar. Í gegnum tímans rás hefur orðið til mjög skaðlegur ruglingur, og fáir eru þeir sem dirfast að snúa aftur til grunnatriðanna. Mitt á meðal uppsafnaðra hrauka dafna smáar hugsanir, en slíkar leifar mynda ekkert nema hauga af rusli, og stundum er nauðsynlegt að ryðja þeim frá. Einhvern tímann verður að safna saman brotum Ósírisar. Mun Ísis ekki safna þeim saman?

Mannkynið viðurkennir nú þegar hina fíngerðu orku. Fólk veit ekki hvernig það á að rannsaka hana eða hagnýta í lífinu, samt hefur orkan sem slík án nokkurs vafa hlotið viðurkenningu á ýmsum sviðum vísindanna. Margar sannanir eru að berast alls staðar að. Nú er svo komið að allmargir efasemdarmenn dirfast ekki að andmæla né gera lítið úr þeim. Sá tími er ekki langt undan að full viðurkenning fæst á einingu grunnorkunnar. Einstaklingseðli orkunnar verður engin hindrun við rannsókn hennar en mun gleðja leitandi huga. Læknar munu ráða niðurlögum á faröldrum haldninga. Dregnar verða ályktanir af brotakenndum athugunum, og gerðar verða margar meðvitaðar umbætur í lífinu. Opnið fyrir þeim sem knýja á; hjálpið hinum sjúku; leiðréttið þann sem fer villur vegar; en varist hina lævísu. Þegar unnið er að einingu er einkum nauðsynlegt að skilja eftir allt sem veldur vandræðum, því það er ekki viðeigandi fyrir æðra samneyti.

Haldið verndarhendi yfir samverkamönnum ykkar sem eru ykkur samskipa, sumir þeirra eru ekki vanir löngum siglingum. Vissulega hafa ekki allir gengið í gegnum sambærilega reynslu. Hver sá sem hefur náð meiri árangri hefur einnig kynnst veglyndi. Hann hefur þjálfast í þolinmæði, því án hennar verður leitin árangurslaus.

Sá sem skilur mikilvægi hinnar andlegu orku mun ætíð stunda rannsóknir. Hann vinnur stöðugt að því að fullkomna sjálfan sig, það er, hann mun leysa sig frá hrörnun.

Ég fullyrði, að ekki aðeins mun orkan leyfa að hún sé rannsökuð, heldur mun hún eflast í hvert sinn sem hugsun beinist að henni. Hugsun er stundum táknuð með ör. Ákafi orkunnar mynda vængi mannkynsins.

599. Vanræksla andlegu orkunnar kemur fram sem uppspretta margvíslegra kvilla. Segja má að bæði líkamlegir og sálrænir sjúkdómar og einnig haldning séu algerlega háðir ástandi orkunnar. Maður sem hefur tapað ónæmi sínu mun einnig tapa orkubirgðum sínum. Sá maður, sem hefur raskað siðferðislegu jafnvægi sínu, sýnir með því fram á upplausn andlegrar orku sinnar. Allir vita að það er auðveldara að hafna upplausninni í byrjun en að ráða niðurlögum ofsa hennar þegar hún ræður ríkjum. Allir skilja að óregla orkunnar er uppspretta margvíslegrar ógæfu, bæði fyrir manninn sjálfan og aðra. Maðurinn heldur sjaldan aftur af sjálfum sér, en lát hann sjálfan læra að skilja mikilvægi orkunnar. Lát manninn ekki óttast að hann verði skilinn eftir á braut vitsmunanna án þess að fá aðgang að fleiri uppsprettum þekkingar. Segull viðleitninnar mun draga til leitandans bestu möguleikana. Margir bera því vitni hvernig þeir fengu óvænta aðstoð til frekari framfara. Lát efasemdir ekki skyggja á ljós uppgötvananna!

Brautin hefur verið opnuð og ferðamaðurinn er boðinn velkominn.

600. Tákn fyrir sameiningu hinna æðri orkutegunda er AUM

divider

Á braut vinnunnar fæst þekking á hrynjandi og skilningur á orku. Á brautinni er sannarlega mögulegt að öðlast skilning á hreyfingu og samræmi. Þegar unnið er að stórbrotnum verkefnum má greina neista innblásturs og andagiftar. Sá sem starfar verður samverkamaður.