Bræðralag

1937

Hugmyndin um bræðralag er umvafin hinu allra helgasta.

Dýpsta gleði vitundarinnar felst í þeirri vitneskju að til er samstarf um þekkingarleit.

Slíkar hugsanir staðfesta að einhvers staðar búi sannir samverkamenn.

Við skulum rifja upp grundvallaratriðin sem leiða til bræðralags.

divider

1. Við tökum nú til athugunar hugtak sem mjög er orðið ofhlaðið í vitund manna. Í daglegu lífi sínu eiga menn í erfiðleikum með að öðlast skilning á samvinnu, þó er hugmyndin um bræðralag þeim enn erfiðari og óaðgengilegri. Hugmyndin um líkamlegar erfðir eða skyldleika hindra það að almennt bræðralag manna sé viðurkennt. Mönnum finnst einfaldast að útiloka alveg hugmyndina um alheimsbræðralag. Þeir vilja heldur ræða um það sem útópíu en að velta fyrir sér þeim möguleika að það geti orðið hluti daglegs lífs.

Ef ekki finnst hið innra viðurkenning á bræðralagi á þröngu sviði heimilislífsins, er líklegt að mönnum finnist það ekki heldur hafa hagnýtt gildi á víðtækara sviði. Enn fremur eru hin fornu helgirit, sem ræða um mikinn fjölda bræðra og systra, lesin án djúprar hugsunar.

Minningar frá fíngerða heiminum hafa einnig orðið þokukenndar. Aðeins þar er mögulegt að kynnast víðtækum skilningi á bræðralagi. Efnislíkaminn hindrar skilning á mörgum víðtækum hugmyndum. Þekking á samvinnu í anda bræðralags er því aðeins möguleg að takmarkanir hins líkamlega skilnings séu yfirstignar. Söfnum saman vísbendingum um svo yfirgripsmikla vitund.

2. Menn hafa reynt að innsigla einingu bræðralags í blóði. Þeir hafa gefið hluta af dýrmætustu eign sinni í þeim tilgangi að komast upp á stig bræðralags. Sé hlustað á alla söngva mannkynsins um bræðralag, skynjast draumur mannkynsins sem fagurt ljóð. Ef athugaðir eru allir þeir siðir, sem tengjast hugmyndinni um bræðralag, kemur í ljós ákaflega hjartnæmur vitnisburður um háleita þrá þjóðanna. Afreksverk sem unnin eru í nafni bræðralags sýna að óeigingirni tengist ætíð þessari viðleitni hins hreina hjarta. Samt er það einmitt hugmyndin um bræðralag sem orðið hefur fyrir hvað mestri vanhelgun og niðurlægingu.

3. Jafnvel bestu viðaukar við bræðralagshugtakið hafa aðeins dregið það niður og gert það að markmiði sem erfitt er að ná. Það hefur verið tengt við frelsi og jafnrétti, en þessi þrenning var getin með jarðneska merkingu í huga; með öðrum orðum, við aðstæður þar sem hvorki frelsi né jafnrétti er til.

Í æðri heiminum, þar sem lögmálin eru skilin sem fagur og óumbreytanlegur veruleiki, er mögulegt að gera hið háleitasta frelsi að raunveruleika. Þar skilst einnig að í fræi andans felst jafnrétti sem helsti mælikvarði víðsýnis og jafnvægis. Venjulega eru jarðneskar styttur, sem eiga að tákna frelsi, hafðar með vængjum eða kyndlum og eru þannig áminning um hin æðri svið og aðstæður.

Til er gamansaga um líkneski sem áttu að tákna jafnrétti: Eitt sinn fékk myndhöggvari fyrirmæli um að túlka jafnrétti með þúsund styttum til skreytingar meðfram vegi við sigurhátíð. Hann gerði eina styttu og áformaði síðan að steypa allar hinar í sama mót.

4. Sjaldan er unnt að gera bræðralag að umræðuefni. Einkum á þeim tímum, þegar mikil harka einkennir jarðneskt líf, er oft eins og menn hafi komið sér saman um að vanvirða einmitt þetta hugtak. Nú þegar hefur hin forna siðvenja, að sverja bræðralag með því að blanda saman blóði, breyst í slíka ógn fyrir allt mannkynið að líta má á hin frumstæðustu hefndarvíg sem barnabrek.

Þið sjáið að ég er hér að ræða um efni sem hefur mikla þörf fyrir eflingu og stuðning.

5. Ávarpi einhver samkomu með orðunum, „vinir og samverkamenn,“ fyllast flestir tortryggni. En ef hann dirfist að nefna þau bræður og systur er vísast að hann verði ásakaður um að viðhafa ósæmilegt orðbragð.

Menn hafa stundum stofnað bræðralög, en svo yfirborðslegur og hástemmdur félagsskapur á ekkert sameiginlegt með hinu háleita bræðralagshugtaki. Menn stofna einnig sameignarfélög, samvinnufélög, ýmis konar bandalög og hreyfingar; en þar finnst ekki einu sinni einfalt traust. Af því leiðir að þessar stofnanir komast ekki nálægt því bræðralagi sem er sterk og stöðug eining byggð á trausti.

Hugsanlegt er að nú á tímum láti nokkrar góðar sálir sig dreyma um að mynda samtök sem byggjast eingöngu á gagnkvæmu trausti. Ekki er hægt að halda því fram að allt sé slæmt, þegar menn geta séð brot þess sem einkenna mun komandi tímaskeið.

Yfir rústum hinna fornu tákna er mögulegt að sjá lífsmátt frumhugtakanna. Einmitt þegar allt virðist í rúst frá jarðnesku sjónarmiði, má sjá að hin fegurstu hugtök eru að fæðast.

6. Hvenær er þá rétt að ræða um hin nauðsynlegu hugtök? Einmitt þá, þegar þau hafa verið niðurlægð, er sérstök ástæða til þess. Einmitt þá, þegar fólk hefur enga trú á þeim, skulum við ræða um þau. Hvers vegna minnumst við einmitt nú á bræðralag? En fólk mun koma í örvæntingu og leita að dreifðum fræjum hins bróðurlega samfélags sem sagt hefur verið fyrir um. Látum ekki truflast af sveiflum pendúls lífsins. Örvænting kann að vera undanfari nýrrar sýnar.

7. Menn hafa réttilega tekið eftir því að ákaflega erfitt er að greina suma geisla, ásamt öllu því sem þessum geislum tengist. Af þessari ástæðu reynum við ekki að þvinga vitund til skilnings sem er henni framandi. Nauðung er ekki einn þáttur sannfæringar. Ekki er mögulegt að fyrirskipa vináttu. Það á sérstaklega við um bræðralag. Þessi hugtök krefjast óeigingirni og skilnings á frumatriðum.

Ef skilningur á hinu víðtæka bræðralagshugtaki hefur verið þrengdur niður í blóðskyldleika, er það aðeins merki um mikla vitundarfátækt. Vitundin er oft svo takmörkuð að fólk getur alls ekki skilið þá tegund bræðralags sem tengist ekki frændsemi. Menn hafa skipt skyldleika í mismunandi stig, eins og bræðra- eða systrabörn, þremenningar og jafnvel fjórmenningar, en lengra hefur ímyndunaraflið ekki treyst sér til að fara. Margar bækur væri hægt að skrifa um hefðir og siðvenjur sem myndast hafa í kringum hugmyndina um bræðralag.

Frá fornu fari hafa margar mismunandi þjóðir lagt áherslu á gildi bræðralags. Bróður- eða systurmorð var talið mjög alvarlegur glæpur. Af þessu má greina virðingu fyrir sérstöku æðra stigi; fólk varðveitti með festu eitthvað sem ekki var til í daglegum hugsunum þess. Þetta var nokkuð sem skynsemin hafnaði, en hjartað í djúpum elds sín staðfesti. Hjartað titraði yfir fegurðinni sem býr í inntaki og merkingu bræðralags. Enn á ný mun mannkynið snúa sér til hjartans og öðlast skilning á eðli bræðralags.

Ef til vill er Bræðralag til! Ef til vill viðheldur það jafnvæginu eins og jarðneskt akkeri! Ef til vill hefur það haldist eins og óumbreytanleg staðreynd í draumum mannkynsins! Við skulum rifja upp vissa drauma og sýnir, svo skýrt mótaða í minningunni, sýnir um veggi og turna Bræðralagsins. Hugsýn er aðeins minning um það sem er til.

Ef til vill minnist einhver þess að hafa séð turninn í Chun í raunveruleikanum!

8. Allt þarf að bera með sér neista óendanleikans. Í öllum hugtökum þarf að gera ráð fyrir þeim möguleika að þau þróist áfram út í óendanleikann. Sjá má röð hugtaka þar sem eitt tekur við af öðru. Hvorki vinátta né samvinna geta verið lokamarkmiðið. Milli þeirra og fíngerða heimsins hlýtur að vera eitthvað sem tilheyrir jafnt báðum heimum. Þetta eitthvað nefnist bræðralag.

Ekki er hægt að nefna neitt hugtak því æðra, ekkert sem getur þannig kórónað samskipti manna og samsvarað frumeðli fíngerða og eldlega heimsins. Af því leiðir að bræðralagið er þrígreint. Það spannar heimana þrjá eins og traustbyggð brú. Það er næstum því ógerlegt að ímynda sér samband á milli hins jarðneska heims og eldheimsins, en með hlíf bræðralagsins er slíkt samrennsli gert mögulegt.

9. Enginn óskar þess að vera lokaður af í afmörkuðu rými og geta jafnvel ekki skyggnst yfir vegginn. Nauðsynlegt er að finna rifu, jafnvel þó smá sé, til að geta skynjað möguleika þess að nálgast óendanleikann. Í daglega lífinu þarf að finna hið sameinandi frumtak svo að almennt sé hægt að meðtaka jafnt hið örsmáa sem og hið stóra.

Ef til vill er á sérhverri plánetu til staður fyrir mikla samfundi.

10. Þegar kletturinn byrjar að molna er hann brotinn niður og fjarlægður til að hann valdi ekki hættu á veginum. Sama gildir um sérstakar skilgreiningar manna. Hugtak getur glatað upprunalegri merkingu sinni í rás aldanna. Þá ætti að skipta á því og orði sem stendur nær samtímanum. Þetta hefur gerst með orðið vígður. Upprunaleg merking þess ásamt merkingu orðsins smurður tilheyrir fortíðinni. Við skulum í þess stað segja reyndur og óreyndur, eða vitur og fávís. Þá er betra að tjá vígsluna sjálfa með orðinu menntun. Með því móti er hægt að tjá þetta hugtak án vanvirðingar með orði sem stendur samtímanum nær.

Á engan hátt er rétt að dylja eitthvað gott með úreltum orðum, ef hægt er að tjá öllum fjölda fólks það með skiljanlegri hætti. Vissulega er þekkingin ekki aðeins fyrir fáa útvalda heldur alla! Þess vegna skulum við ekki endurtaka úreltan boðskap heldur búa vísindalegum skilningi hinar bestu aðstæður. Aðeins hinn fáfróði fær ekki skilið að nauðsynlegt er að stuðla að sem bestum aðstæðum í lífinu fyrir árangursríkar framfarir vísindanna.

Vísindin geta ekki yfirstigið takmarkanir hins vélræna fyrr en sú hindrun hefur verið sigruð með skilningi á fíngerða heiminum.

11. Á sumum stöðum eru smáskammtalækningar bannaðar. Einnig krefjast sumir þess að aðeins séu notaðar þeirra eigin aðferðir við lækningar. Hugsunarháttur boða og banna er takmarkandi. Óhugsandi er að leyfa aðeins eina sérstaka lækningaaðferð. Hafa verður í huga að öll læknislyf eru aðeins viðbótarúrræði; án frumorkunnar hafa lyfin ekki nein læknandi áhrif.

Ekki er mögulegt að skipta læknum í flokka eftir aðferðunum sem þeir beita, því allir nota þeir sína bestu aðferð. En læknum ætti að vera kunnugt um frumorkuna, því hún reynist áhrifaríkasti þátturinn í skjótum bata.

12. Spurt verður: „Hvaða samband er á milli lækningaaðferða eða úreltra hugtaka og umfjöllunar okkar um bræðralag?“ Varpa ætti ljósi á tengsl margvíslegra hugtaka, því það mun gera skilning okkar á bræðralagi víðtækari.

13. Á leiðum okkar til bræðralags skulum við styrkja okkur með trausti. Við erum ekki að ræða um neins konar blinda trú, heldur um eiginleika trausts. Hafa verður í huga að eiginleikar okkar eru vaxtarstaðir fjörefna. Eiginleiki vantrausts eða efa hefur eyðandi áhrif á hin bestu fjörefni. Hví skyldum við metta okkur með verksmiðjuframleiddum fjörefnum, þegar við framleiðum sjálf bestu fjörefnin og hin máttugustu?

Þegar utanaðkomandi fjörefni finna sér sinn eðlilega vaxtarstað, verka þau af fullum krafti. En jafnvel hin bestu fjörefni eru ófær um að birta bestu eiginleika sína þegar þau lenda í spilltu lífkerfi. Því metum við mikils þau lífkerfi þar sem grundvallareiginleikar mannsins hafa fundið sér starfssvið.

Maður fullur vantrausts er óhæfur fyrir jafnvel frumstætt form samvinnu. Hann er ófær um að skilja hinar fögru agareglur bræðralags. Einmitt agi, því ekki er hægt að nefna það sjálfviljuga samræmi sem felst í undirstöðum starfs Bræðralagsins öðru nafni. Bræðurnir sameinast í starfi, en ef traust skortir væri starf þeirra lítils virði.

14. Fíngerða heiminum er oft lýst sem þokukenndum og köldum, sem heimi ráfandi skugga. Ætla mætti að slíkar lýsingar stafi af hjátrú. En gætu þær ekki stafað af vanhæfni til að njóta þeirra kosta sem fylgja eiginleikum þessa æðra stigs? Fordómar og vantraust geta í reynd hulið hið sanna eðli fíngerða heimsins. Jafnvel í efnislegri tilvist sér maðurinn það sem hann kýs að sjá; því er líklegt að sjón hans sé með sama hætti í þeim heimi þar sem allt er skapað af hugsun. Íbúar þess heims geta skapað og skynjað umhverfi sitt í samræmi við eiginleika hugsunar sinnar.

Hrein hugsun er gagnlegur eiginleiki, því hún veit svo sannarlega hvaða merkingu traust hefur.

15. Af litlum neista getur máttug orka losnað úr læðingi. Eins getur einn blossi taugaorku opnað fyrir viðvarandi innstreymi krafta. Fyrr á tímum vissu menn að uppspennt taugaorka er margfalt máttugri en vöðvaorka. Sagt var að kraftþensla tauganna væri skammvinn og að máttleysi fylgdi í kjölfarið. En slík fullyrðing fær ekki staðist. Það eru aðeins aðstæður jarðlífsins sem koma í veg fyrir stöðuga endurnýjun með æðri orku. Hægt er að skapa þannig aðstæður í lífinu að hin andlega orka sé í réttu hlutfalli við orku vöðvanna. Eftir að frumreglan hefur verið uppgötvuð munu menn leitast við að færa hana út á víðara svið. Á sama hátt mun samvinna ekki takmarkast við skammvinna viðleitni, hún mun fá sinn stað í vitundinni og bræðralagið í kjölfar hennar. Ekki er viturlegt að fela dýrmætan vasa í hendur óreyndum sendiboða. Eins er Bræðralaginu ekki mögulegt að nýta krafta skilningssnauðra manna. Loftbelgur getur ekki staðist ótakmarkaðan þrýsting án prófunar. Menn geta ekki tekið á sig byrðar hinna æðri hugtaka, ef þeir hafa ekki traustan skilning. Jafnvel hestar eru látnir venjast þungum byrðum smám saman. En hafi neisti skilningsins kviknað, verður mögulegt að bæta á sig smátt og smátt þeim byrðum sem eftir eru.

16. Sumir tala lítið um bræðralag en vinna því mikið gagn. Og til eru aðrir sem eru sífellt með bræðralag á vörunum en eru aldrei fjarri svikum.

17. Bræðralagið verður að skoðast sem samfélag þar sem unnið er að verkefnum en ekki aðeins dagsverkum skilað. Til að kjósa fremur að sinna verkefnum verða menn að finna gleði vinnunnar. Hafa verður í huga að verkefnin eru óendanleg, og að vinnan við endurbætur og fullkomnun er einnig án enda. Hver sá sem finnur til hræðslu getur ekki fengið ást á vinnunni.

Þið hafið stundum hlustað á fagran söng verkamanna. Vissulega, vinnunni getur fylgt bæði gleði og innblásin hugsun. En maðurinn verður að reyna sjálfan sig í öllu.

18. Á þeim leiðum sem liggja til bræðralags er einnig þörf á óeigingirni. Að líkindum mun mörgum finnast erfitt að uppfylla slíkt skilyrði. Þeir gera sér ekki grein fyrir því hversu oft þessi eiginleiki birtist, jafnvel við hversdagslegar aðstæður. Við sérhvern innblástur, hvern blossa eldmóðs, er ætíð óeigingirni að finna. Menn verða að gera sér mjög nákvæma grein fyrir gildi orðanna.

Í lífinu eru ekki til neinir eiginleikar sem eiga eingöngu við um hetjur. Staðreyndin er sú að hetjur eru ekki sjaldgæfar, en þær eru ekki alltaf vopnaðar sverðum og spjótum. Á þennan hátt verða menn að skilja og birta hin bestu hugtök í lífinu.

Menn geta svipt sig hugrekki og stöðugleika með því að mikla fyrir sér erfiðleikana við að ná markinu. Engu máli skiptir hvernig hugrekkinu er beitt, en það verður að vaxa án afláts. Í stað þess að tala um að menn bresti hugrekki, væri betra að ræða um slíkt ástand sem skort á dáð og djörfung. Bein og vöðvar geta brostið, en andinn brestur ekki! Hinn huglitli og ráðlausi maður getur ekki þjónað Bræðralaginu.

Óeigingirni er ekkert annað en innblástur; hugleysi á ekkert sammerkt með innblæstri.

19. Tökum þrjóskuna ekki með okkur. Það er ekki til óþægilegri byrði en þrjóskan. Menn kæra sig ekki um að nota þrjóskan hest, og þeir taka ekki þrjóskan hund með sér í ferðalag. Þrjóskan kemur í raun í veg fyrir starf bestu orkustöðvanna. Enginn árangur fæst af tilraunum sem gerðar eru af þrjósku.

Í vitsmunum og visku felst ekki nein takmarkandi þrjóska.

20. Fyrtni er ekki góður ferðafélagi á löngum ferðum. Með þessu er ekki átt við að Við leitum aðeins eftir guðdómlegum fullkomleika. Við vörum aðeins við því sem ekki ætti að hafa með í för. Maðurinn verður að efla sig með gleði og láta reyna á hana við margvíslegar kringumstæður og misjöfn veður. Ekki ætti hann að pína sig eða kvelja, heldur prófa sig í þeim tilgangi að ganga úr skugga um líkamsþol sitt.

21. Öll fæða sem inniheldur blóð er skaðleg fyrir þróun andlegrar orku. Hraði þróunarinnar myndi aukast verulega ef mannkynið legði sér ekki dauða líkama til munns. Kjötætur hafa reynt að fjarlægja allt blóð, en hafa ekki haft árangur sem erfiði. Ekki er hægt að fjarlægja áhrifin af þessu máttuga efni úr kjötinu, þó svo blóðið sjálft sé fjarlægt. Geislar sólarinnar geta að nokkru leyti eytt þessum áhrifum, en dreifing þeirra út í andrúmsloftið er einnig mjög skaðleg. Ef þið reynið að gera tilraunir með andlega orku í nágrenni sláturhúss, munið þið greina áhrif frá magnaðri brjálsemi, þótt ekki sé minnst á þær verur sem leggjast á úthellt blóðið. Það er ekki að ástæðulausu að blóðið hefur verið nefnt heilagt.

Hægt er að greina mismunandi manngerðir. Einkum er mögulegt að sannfærast um sterk áhrif fortíðarinnar. Löngunin í fæðu sem inniheldur blóð er efld með fortíðaráhrifum, vegna þess að margar fyrri kynslóðir voru gegnsýrðar blóðneyslu. Því miður gera ríkisstjórnir engar tilraunir til að bæta heilsufar íbúanna. Ríkisrekin heilsuvernd og hollustuvernd er á lágu stigi. Eftirlit með heilsufari er í engu skárra en löggæslan. Engar nýjar hugmyndir ná að festa rætur í þessum útslitnu stofnunum. Ofsóknir eru þeim ekki um megn, en enga hjálp geta þær veitt.

Af þessu er ljóst að á leiðinni til bræðralags ættu ekki að finnast nein sláturhús.

22. Til er fólk sem leggst mjög gegn blóðsúthellingum, en er þó ekki frábitið kjötneyslu. Í manninum finnast margar mótsagnir. Aðeins andleg orka getur stuðlað að samræmi í lífinu. Mótsagnir eru ekkert annað en óreiða. Í lagskiptingum lífsins hefur hvert svið sitt sérstaka innihald. En ofviðrið getur valið umróti, og langan tíma getur tekið fyrir hinn rétta straum að komast aftur á.

23. Við höfum rætt um blöndun sviðanna. Í kosmískum stormum raskast straumur efnaskiptanna sífellt og geislarnir brotna. Það er ekki auðvelt að gera sér grein fyrir slíku umróti, nema að hafa jafnframt í huga óbreytanleika lögmálanna. Þótt stjörnuspekin sé vísindagrein, getur hún gengið í gegnum margvíslegar sveiflur vegna skorts á upplýsingum á jarðneska sviðinu. Einnig hefur mörgum vísbendingum verið haldið leyndum. Við segjum þetta ekki í þeim tilgangi að gefa mönnum í skyn að þeir hafi verið blekktir, heldur þvert á móti til að minna okkur á það hve allar aðstæður eru flóknar.

24. Hræsni, þröngsýni og hjátrú eru þrír af hinum myrku eiginleikum sem maðurinn verður að hafna á leið sinni til bræðralags. Hugleiðum hvaðan þessi handbendi fáfræðinnar eru komin. Hægt væri að skrifa heilar bækur um slíka stíga myrkursins. Menn ættu að íhuga hvernig þessi skaðlegu spillingaröfl hafa vaxið og dafnað. Þau vaxa án þess að merkjanlegt sé. Aldrei nokkru sinni hafa þau verið jafn útbreidd og nú á tímum. Þrátt fyrir stefnubreytingu vísindanna til andlegra markmiða og skynsamlega rannsókn á fyrirbrigðum fíngerða heimsins, á vöxtur glæpa vegna fáfræði sér ekki fordæmi. Fólk skilur ekki að háleit hugsun getur leyst það úr fjötrum sínum.

Lítum svo á að hinir myrku tímar séu á förum – þekkingin veldur hinum fáfróða skömm.

25. Stígurinn til bræðralags liggur hátt. Eins og fjall séð úr fjarlægð, þannig einnig er bræðralag. Fræðarinn getur ekki verið kröfuharður ef augun eru nærsýn. Og á uppgöngunni eru útlínur tindsins faldar sýnum. Nálægt fjallinu er ekki mögulegt að gera sér grein fyrir hæð þess, svo er einnig með stíginn til bræðralags, á honum eru margir sveigar. Venjum okkur við þá hugmynd að leiðin að markinu sé vandrötuð. Látum okkur þykja vænt um hindranirnar, því steinarnir á stígnum eru aðeins þrepin í uppgöngu okkar. Fyrir löngu var sagt að leiðin upp brattann væri hvorki slétt né greiðfær.

26. Ákalli til Bræðralagsins er ekki látið ósvarað, en svörin geta verið með margvíslegu móti. Fólk er svo bundið af takmörkunarhring sinna eigin tjáninga að það skynjar ekki nein önnur merki. Enn fremur eru menn ófærir um að greina óbeina merkingu eða viðvörun sem stundum felst í einstöku orði og einstökum neista. Þeir kæra sig ekki um að íhuga ástæðurnar fyrir svo stuttum boðum. Jafnvel hálærðir fræðimenn gera sér ekki grein fyrir karmalögmálinu. En þegar menn sjá vegfaranda í yfirvofandi hættu, aðvara þeir hann með stuttu hrópi, en halda ekki yfir honum fyrirlestur um ástæðurnar fyrir óláni hans. Hið sama gildir um karmískar svaranir, yfirleitt er unnt að aðvara með stuttu kalli, án þess að kafa djúpt í rætur karma.

Sérhver hefur mörgum sinnum fengið tækifæri til að sannfærast um að svar Bræðralagsins hefur birst með táknum sem á ytra borði virðast mjög lítilvæg. Því má hiklaust halda fram að lang flestar vísbendingar fari annað hvort fram hjá vitundinni án þess að eftir sé tekið eða að þær séu ranglega túlkaðar. Slík brenglun merkingar er skaðleg, sérstaklega í meðförum kærulausra manna sem gefa vísbendingunum merkingu eftir sínu eigin tilviljanakennda hugarástandi.

Mörg dæmi eru um að mikilvægum skilaboðum hefur verið gefin andstæð merking í útskýringum fáfróðra manna. Samkvæmt jarðneskum vana túlkar fólk oft tákn eftir eigin geðþótta og lætur sig litlu skipta nákvæma merkingu orðanna. Á leiðinni til Bræðralags verður að leggja niður slíkar vanabundnar eigingjarnar athafnir.

27. Með því að beita nákvæmni og vakandi athygli í öllum jarðneskum samböndum, venja menn sig jafnframt á nákvæmni í hinni æðri þjónustu. Látið spurningum ekki ósvarað. Betra er að gefa stutt svar en að skilja eftir gróðrarstíu eitrunar. Auðvelt er að sýna fram á hvílík eiturgerjun hefst þar sem engin tenging hefur myndast.

28. Nóg er vitað um Bræðralag hins góða og Bræðralag hins illa. Það er einnig vel þekkt að hið síðarnefnda leitast við að líkja eftir hinu fyrrnefnda í háttum og starfsaðferðum. Hinir fáfróðu spyrja, „Er mögulegt að greina eftir athöfnum hvort um er að ræða þennan eða hinn bróðurinn?“ Ef framkoma og orð eru hin sömu, er auðvelt að skjátlast og taka ráðum sem leiða til ills. Þannig ályktar sá maður sem ekki veit að hæfnin, sem greinir á milli góðs og ills, felst í hjartanu. Hagnýting andlegrar orku aðstoðar við að greina með óskeikulum hætti innra eðli fyrirbæra. Engin þörf er á flóknum tækjum þegar maðurinn sjálfur býr yfir neista þekkingar.

Þeir sem rannsakað hafa andlega orku geta borið vitni um að vísbendingar orkunnar eru óskeikular. Þær geta verið afstæðar varðandi jarðneskan tíma, en þeim skeikar ekki um eðliseigindir. Það eru einmitt eðliseigindir sem skipta máli fyrir aðgreiningu kjarnans. Frumorkan getur ekki gefið þá vísbendingu að neikvætt sé jákvætt. Slík hrein vísindaleg sönnun ver fólk gegn brögðum hins illa. Það er ekki að ástæðulausu að slík dómgreind nefnist brynja Ljóssins.

29. Spyrja má hvers vegna ekki er hverjum sem er treystandi fyrir svo nauðsynlegu vopni. Allir hafa það, en oft er það læst inni með sjö lásum. Mönnunum sjálfum er um að kenna að þeir skuli læsa sinn mesta fjársjóð inni í kjallaranum. Jafnvel þótt menn hafi heyrt um orkuna, eru margir sem ekki hafa neinn áhuga á því að vita hvernig hægt er að uppgötva hana – svo vanþroskuð er þekkingarþrá mannsins!

30. Þessi sama vakandi orka gerir mönnum mögulegt að halda ró sinni við athugun fyrirbæra. Við rannsóknir mega menn ekki láta gremju eða æsing ná tökum á sér. Hugarró er til marks um þjónustu. Ekki er unnt að helga sig þjónustu ef innri kjarni mannsins bylgjast eins og öldurót í stormviðri.

31. Fræðslan hefur nú þegar ummyndað allt þitt líf. Hún hefur leitt þig í gegnum margar hættur. Fræðslan veitir þér lið við að greina hvar þér er hætta búin og hvar kosti er að finna. Hæfni til að greina réttu leiðina er ekki auðfengin, en þú veist hvernig hægt er að klífa sléttan klettavegg. Andleg orka þroskast við slík átök.

32. Andlega orku ætti ekki eingöngu að rannsaka, hana ætti einnig að nota meðvitað í lífinu. Meðvituð samvinna, eins og bræðralag, þarfnast andlegrar orku. Án andlegrar orku er ekki unnt að samræma vinnu. Án andlegrar orku er ekki hægt að öðlast gagnkvæman skilning. Án andlegrar orku er þolinmæði og þrautseigja ekki möguleg. Án andlegrar orku getur maðurinn ekki leyst sig undan skapraun. Í öllu þarf að hagnýta sjálfa frumorkuna.

Komið hefur í ljós að nærvera einstaklings hefur áhrif á sveiflur orkunnar, einnig má sjá að myndir af fólki verka á hina fíngerðu orku. Takið ekki eingöngu eftir næmni orkunnar, hafið einnig í huga þessa eiginleika hennar varðandi hlutlæg fyrirbrigði. Í eyrum þeirra, sem ekki hafa séð tilraunir gerðar með andlega orku, hljóma umræður um verkanir mynda eins og fáránleg ævintýri. En í huga slíkra er tilvera sjálfrar orkunnar vafamál. Þeir eru ekki mótfallnir því að ræða um andann eða sálina, en fyrir þeim er þessi mjög svo augljósa orka sem fjölkynngi.

33. Nauðsynlegt er að læra að skaprauna ekki þeim sem ekki hafa vissa þekkingu á valdi sínu. Þjálfuð athyglisgáfa hvíslar og lætur vita þegar umræður koma ekki að gagni.

34. Rökræður geta hugsanlega staðfest sannleikann, en oftast menga þær aðeins andrúmsloftið. Kennarinn þarf að gera sér grein fyrir því að hve miklu leyti neminn getur tekið þátt í rökræðum án þess að komi til pirrings.

Þessi mörk verða að vera þekkt, því bræðralag þarf fyrst og fremst á jafnvægi að halda.

35. Verið ekki undrandi á því að ég minnist á frumorkuna þegar ég ræði um bræðralag. Fyrir því eru tvær ástæður. Það er fyrst sú staðreynd að á leiðinni til bræðralags er nauðsynlegt að þroska frumorkuna. Sé það ekki gert eru orkustöðvarnar lokaðar, og skilningur á svo fíngerðri næmni er þá ekki mögulegur. Á slíkum fíngerðum sveiflum byggist samvinna í anda bræðralags. Í öðru lagi þarf að muna að ekki hafa allir lesið bækurnar sem á undan hafa komið, en í þeim var rætt um andlega orku. Sérhver bók þarf að innihalda grunnatriði framfara. Það væri bagalegt að koma ekki einu sinni með stuttorðar tilvitnanir í fyrri fræðslu, þar sem fjallað var um ómetanleg atriði.

Verum vakandi fyrir öllum smáatriðum í umhverfinu. Í jarðnesku lífi er erfitt að greina á milli hins smáa og hins mikla, hins gagnslausa og hins gagnlega. Mörgum perlum hefur verið sópað burt með rykinu. Ef þú sérð að samferðamaður þinn veitir aðeins viðtöku hluta nauðsynlegra frumatriða, veittu honum þá aðstoð. Í slíkri þolinmóðri aðstoð birtist mjög mikilvægur eiginleiki bræðralags.

36. Andleg orka er nefnd líffæri fjórðu víddarinnar. Þessi staðhæfing um fjórðu víddina er að vísu afstæð; hún er aðeins tjáning hins æðra og hreina stigs allra tilfinninga. Mikill hreinleiki gefur möguleika til skilnings á yfirjarðneskum aðstæðum. En ef þessi nafngift, fjórða víddin, hefur fest rætur í orðaforðanum, lát þá svo vera – að minnsta kosti á meðan við hverfum ekki niður á stig tveggja vídda. Á sama hátt skulum við ekki andmæla þó að andleg orka sé nefnd líffæri. Hún er til, hún veldur máttugum svörunum, hún tekur við kosmískum straumum, hún tengist lífinu. Við skulum jafnvel nefna hana líffæri, því í slíkri skilgreiningu felst um leið viðurkenning á tilvist hennar.

37. Gleymum því ekki að á heildina litið eru margir sem skilja ekki eitt einasta orð þegar rætt er um andlega orku. Þeir vilja ekki meðtaka hana. Maður sem aldrei hefur séð eldingu veit ekki hvernig hún er. Eins eru þeir til sem alls ekki skilja hvað átt er við með hugsun. Það er ekki ólæsi sem einkennir þá, heldur forherðing. Slíkir náir eru ófáir!

Þeir sem rannsaka andlega orku mega ekki láta sér bregða við að mæta slíkum steingervingum. Margt þarf að rita í dagbækurnar um augljósa vanhæfni til skynjunar.

38. Menn vænta sendiboða, en þeir fyllast skelfingu af tilhugsuninni einni um komu þeirra. Ef spurt væri í hvaða formi menn búist við að sjá sendiboðann, kæmi fram einkennileg samsuða sem jafnvel jaðraði við afskræmingu. Fuglsfjaðrir væru ekki aftast á listanum yfir eiginleika sendiboðans. Og þegar sagt er frá því að sendiboðinn sé umvafinn ljósi, dettur mönnum fyrst í hug að gera ráðstafanir til að varast því að blindast.

Vissulega geta menn orðið fyrir áfalli við hin algengustu fyrirbrigði. Menn fá ekki aðeins hjartslátt vegna hins óvænta, það getur einnig gerst vegna snertingar við ólíka útgeislun. Afleiðing slíkrar þenslu getur jafnvel verið hörmuleg; þess vegna birtast sendiboðar sjaldan. Það er vissulega ekki ætlun þeirra að valda dauða með komu sinni, af því má ráða að nauðsynlegt er að venja sig smátt og smátt við margvíslega þenslu. Þeir sem rannsaka andlega orku vita hvers konar þjálfun átt er við.

Til viðbótar rannsóknum á andlegri orku er nauðsynlegt að venja sig á samskipti við fíngerða heiminn – án þess að beita við það kynngi. Við allt sem er eðlilegt ber að beita eðlilegum aðferðum. Aðeins með tilraunum geta menn vanist mismunandi þenslu. Það er rétt ályktun að sjálf væntingin sé eðlilegur undirbúningur eða ögun, eins og sagt er.

Maður, sem er ávallt viðbúinn, er þess albúinn að taka á móti sendiboðanum.

39. Menn óttast próf. Þeir hræðast tilraunir, en þeir geta ekki gert sér í hugarlund allar þær leiðir sem mögulegar eru til þekkingaröflunar. Aftur er það líkamlegur ótti, hræðsla holdsins, sem leggur skynsamlegar athafnir í fjötra. Því er fyrsta verkefnið í þjálfuninni að yfirvinna óttann.

40. Bræðralagshugtakið stendur á traustum fótum. Í því er ekki að finna neina takmörkun vegna aldurs, kynþáttar eða hugarástands. Þar er vissulega frumorkan framar öllu öðru ríkjandi. Ef hún er í birtingu, og ef hægt er að samræma samskipti með henni, verða til varanleg tengsl.

41. Hver er hin náttúrulega leið? Það er leið náms án nokkurra hafta í anda þrautseigju og þolinmæði og laus við fyrirfram mótaðar skoðanir. Óhefta þekkingarleit er ekki auðvelt að tileinka sér. Allt sem tengist vinnu mannsins er takmarkað. Það virðist sem svo að öll störf loki mörgum samskiptaleiðum. Jafnvel frábærir hugsuðir hafa hrakist inn í þröng sund. Sjúkdómur sjálfstakmörkunar líkist í engu sjálfsfórn. Maðurinn takmarkar sig til þæginda fyrir sjálfan sig. Dirfskufullar athafnir í þágu óheftrar þekkingarleitar eru vissulega undantekning. Illska og hatur finna sér starfsvettvang í þröngum og takmörkuðum huga. Í frjálsu starfi er nauðsynlegt að vera fullur göfuglyndis og rekja orsakir og afleiðingar með góðviljuðu viðhorfi. Strangur einfaldleiki vinnunnar á ekkert sameiginlegt með gagnrýnu viðhorfi. Fordæming er aðeins notuð af fólki með takmarkaða og þrönga hugsun. Fullkomnun fæst ekki með fordæmingu.

Er unnt að láta sig dreyma um ótakmarkaða þekkingu þegar hugurinn er fullur óvissu og ringulreiðar? Menn geta lært allsstaðar og alltaf. Möguleikarnir dragast að hinni óstöðvandi og kappsfullu viðleitni. Aðeins í hreyfingunni er hina náttúrulegu leið að finna!

42. Sannlega verður maðurinn að leita! Hafa verður í huga að smár neisti veldur mikilli sprengingu. Einstök hugsun getur bæði laðað að og hrundið frá. Þeir sem leiða hugi manna eru oft sjálfir leiddir. Og hvaða innantóm hljóð geta kæft vilja mannsins og til frambúðar aftrað honum að fara þá leið sem þegar hefur verið mótuð!

Hið góða hindrar ekki, en það gerir hið illa. Því skulum við muna að smáir neistar valda miklum sprengingum.

43. Er þörf fyrir slíkan undirbúning fyrir bræðralag? Vissulega, ekki aðeins undirbúning heldur einnig hugljómun. Mun sá sem ákveður að helga sig mikilli þjónustu sjá eftir þeirri ákvörðun? Af hugleysi vakna margar hugsanir um þægindi og hagkvæmni. Það kann jafnvel að birtast bros með votti af eftirsjá. Hvernig er þá hægt að sigra slíka árás án uppljómunar hugans?

44. Við skulum koma okkur saman um hvað hugtakið hvíld merkir. Umhverfis þetta hugtak hefur safnast haugur falskra og skaðlegra skilgreininga. Menn hafa vanist þeirri hugmynd að hvíld merki aðgerðaleysi. Þannig hefur hún umbreyst í sálræna veiklun. Aðgerðaleysi er ákaflega skaðlegt fyrir andlega orku. Allt andlegt hreyfingarleysi veldur þreytu en ekki endurnýjun.

Læknar gefa fyrirmæli um hvíld, þögn og alls kyns aðgerðaleysi, og telja að í ástandi sem líkist dauðadái sé mögulegt að ná fyrri styrk. En þessir sömu læknar vita að veiklun og niðurbrot orsakast af röskun jafnvægis. Þar af leiðir að hvíld er ekkert annað en jafnvægi. En jafnvægi felst í samræmdri orkuþenslu. Aðeins þannig er mögulegt að endurnýja og efla krafta sína.

Engu máli skiptir hvort jafnvægi sé náð út í eyðimörk eða í stórborg – frumskilyrðið er að þenslan sé viðvarandi. Leið þenslunnar er leið hinnar kappsfullu viðleitni, með öðrum orðum, leið lífsins.

Hinn vanhæfi læknir varar við því að kröftum sé eytt, en þreki er aðeins sóað með skorti á jafnvægi. Sannarlega er jafnvægið best, hið eina sanna undralyf. Hreint loft í skynsamlegum mæli er athugandi sem viðbótarúrræði, en þess er ekki þörf til langs tíma.

Við skulum hafa réttan skilning á hugtakinu hvíld til uppbyggingar bræðralags. Hvíldarleysi veldur tilgangslausu erli og umstangi.

45. Meðal kosmískra fyrirbrigða hafa stöðugar sprengingar sérstaka þýðingu. Í manninum verða einnig samdrættir og sprengingar í orkunni. En hvers vegna eru kosmískar sprengingar til góðs, þegar sprengingar í manninum geta aftur á móti haft eyðileggjandi áhrif á lífkerfið? Mismunurinn felst í þeirri staðreynd að kosmískar sprengingar eru samstilltar í mikilli hrynjandi, en sprengingar í manninum skortir einmitt þessa hrynjandi.

46. Allt er afstætt, en ekki er unnt að bera saman samræmi alheimsins og frjálsan vilja mannsins. Þessi ríkulega gjöf hefur í för með sér alvarlegar afleiðingar sé hún ekki notuð á réttan hátt. Margt hefur verið sagt um gildi mannsins í alheiminum, en þau sannindi verður að endurtaka í sífellu. Auðvelt er að sannfærast um að fólk veltir ekki mikið fyrir sér hlutverki sínu.

47. Til var forn leikur sem fólst í því að allir reyndu að espa hvern annan til reiði. Sá tapaði sem fyrst varð reiður.

48. Oft er minnst á stöðuga árvekni, en hve sjaldan er hún skilin rétt! Yfirleitt krefjast menn hennar af öllum viðstöddum en ætlast ekki til hennar af sjálfum sér. Menn ættu hins vegar fyrst af öllu að stilla sitt eigið hljóðfæri. Aðeins þá hafa menn áunnið sér næmni. Er mögulegt að vænta samvinnu og bræðralags án þess að ávinna sér næmni? Hinar gleggstu ráðleggingar mega sín lítils gegn brynju afneitunarinnar.

Að því kemur að læknar munu uppgötva hvaða aðstæður eru hagstæðastar fyrir verkun andlegrar orku. Ekki skyldi gera ráð fyrir því að andleg orka verki eins við allar aðstæður. Til er fólk, sem hið sterkasta eitur hefur engin áhrif á, því má gera ráð fyrir að andleg orka sé móttekin á mismunandi vegu. Ef næmnin hefur ekki verið þroskuð, glatar maðurinn dýrmætasta skyntæki sínu. Fyrir næmnina verður maðurinn að ávinna sér stöðuga árvekni. Til þess þarf enga yfirnáttúrulega hæfileika, aðeins vakandi athygli.

49. Meðal æviskeiða hvers manns er undantekningarlaust að finna æviskeið sem helgað er háttbundnu starfi. Hvort sem starfið felst í iðn eða tónlist, söng eða bústörfum, verður það til þess að maðurinn ræktar með sér hrynjandi sem fyllir allt lífið. Þegar menn fá fregnir af vissum æviskeiðum sínum, eru þeir oft undrandi á því hve lítilvæg þau virðast hafa verið. En í þeim mótaðist hrynjandi starfsins. Hún er einn merkasti eiginleiki mannsins, og hana þurfa menn að ávinna sér með átökum og þolinmæði.

50. Aðeins er mögulegt að læra að unna starfinu með því að öðlast þekkingu á því. Á sama hátt er skilningur á hrynjandi aðeins mögulegur, ef hann hefur samlagast eðli mannsins. Að öðrum kosti mun fáfræðin rísa upp gegn leyfilegum aðferðum og sífelldri ögun. Fyrir slíkri fáfræði virðist sjálft bræðralagshugtakið sem draumórar einir.

51. Bræðralag er háleit tjáning gagnkvæmra mannlegra samskipta. Á stigi bræðralags er skilningur á Helgivaldinu eðlilegur áfangi. Einmitt, Helgivaldið birtir sig aldrei með þvingun. Það ríkir eingöngu í óþvinguðum og sjálfviljugum skilningi. Ekki er mögulegt að viðurkenna tilvist þess með kænlegum röksemdafærslum, því slíkt falskt ástand endar í skelfilegri upplausn. Viðurkenning Helgivaldsins hefur gleði í för með sér, en sorg fylgir allri þvingun og blekkingu.

Fyrir ekki svo ýkja löngu hefðu umræður af þessu tagi verið álitnar siðferðilegar vangaveltur; en þegar andleg orka er vegin og metin verða mennskir eiginleikar að vísindalegum gildum. Er það ekki athyglisverður möguleiki, að í tilraunaskyni sé unnt að búa til mælikvarða yfir eiginleika?

52. Ekki er rétt að segja að sérhver gróandi jurt hreyfist eftir hringferli. Nákvæmara er að tala um spíralferil. Menn skilja snúningshreyfingu sem eitthvað endanlegt, en hins vegar getur ekki nein sveigja spíralsins verið sú síðasta, þar sem hann sveigist stöðugt fram á við.

Slíkar tilraunir þarf ekki að takmarka við plöntur, þær er einnig hægt að nota við margvíslega hluti; og að síðustu, þegar flug hugsana er athugað, verður augljóst að öll hreyfing myndar spíralferil. Við rannsóknir á andlegri orku eru slíkar athuganir gagnlegar.

53. Er mögulegt að hægt sé að hafa áhrif á hugsanaflutning, sem byggður er á vísindalegum grunni, þannig að hann verði misvísandi? Grundvallaratriðin eru vissulega traust, en viðtakendurnir geta verið óstöðugir. Slíkt misræmi ætti ekki að tengja á neinn hátt við grunnforsendurnar. Er ekki réttara að leita orsakanna í eigin skilningsleysi? Eingöngu víðfeðm vitund getur gefið skýran skilning, að öðrum kosti er mögulegt að hið augljósasta sé misskilið.

Óstöðugleiki er ekki viðeigandi.

54. Berið útlínur góðs vilja og þakklætis saman við það sem illgirni og öfund skapa. Hið fyrra myndar fagran hring, en hið síðara veldur ljótu hrafnasparki. Illvilji myndar óreglulegar línur þrátt fyrir sterka þenslu sína. Svo ósamhæfð bygging niðurlægir öll grundvallaratriði sköpunar. Sköpun byggð á illsku er ógerleg; hún veldur tímabundnum krampaflogum sem leiða síðan til brjálsemi og sjálfseyðingar.

Hve fagur er hringur göfuglyndis; hann er sem skjöldur ljóss! Hann getur þanist út og dýpkað í samræmdri hreyfingu. Við rannsóknir á frumorkunni er lærdómsríkt að fullvissa sig um hve augljóslega manninum hefur verið gefinn sá hæfileiki að greina á milli jákvæðra og neikvæðra eiginleika. Margt hefur verið sagt um afstæði góðs og ills. En ekki er hægt að villast á frumhvötinni, og ómögulegt er að falsa vísbendingar orkunnar; þær segja til um frumeðli hins skynjaða.

55. Ekki er unnt að efast um vísbendingar andlegu orkunnar. Þar sem hún er frumkraftur skilningsins er ekki mögulegt að misskilja þannig merki hennar að tilviljanakennt hugarástand sé tekið fyrir sjálfan kjarnann. Birting hugsunar um mikilvægi andlegu orkunnar er líkt og þétting orku sem dregin er úr umhverfinu.

Segull hugsunar dregur að sér hinar verðmætustu agnir andlegrar orku. Lærum að elska þessa orku. Við verðum að skynja sífellda nálægð hennar. Slíkt hugarstarf er alls ekki auðvelt. Gríðarlegrar þolinmæði er þörf til að verja hana fyrir árásum allra hinna óbeisluðu áhrifa frá umhverfinu.

56. Þolinmæði, þolinmæði, þolinmæði – lát hana ekki vera innantómt hljóð, lát hana vera vörn okkar á öllum leiðum. Stundum virðist sem kraftarnir séu að þrotum komnir, en slík blekking er hættulegust. Kraftarnir eru óþrotlegir, en mennirnir sjálfir reyna að stöðva flæði þeirra.

Leiðin til bræðralags krefst einnig mikillar þolinmæði. Beita verður sama mætti hugsunar til að nálgast vitund heimanna þriggja.

57. Hin sanna fjölskylda er ímynd samfélagslífs. Hún getur persónugert samvinnu og Helgivaldið og allar forsendur bræðralags. En slíkar fjölskyldur eru sjaldgæfar, og því er ómögulegt að segja við hvern sem er að fjölskyldan sé tákn bræðralags. Búast mætti við svari í líkingu við: „Er fjölskyldan ekki tákn fjandskapar?“ Svo mjög hafa menn vanist því að virða ekki heimilið. Þess vegna skulum við veita heimilislífinu sérstaka athygli í málum sem varða uppeldi. Ekki er hægt að byggja upp ríki ef ekki er hugað að uppbyggingu heimilisins.

Hvaða hugmynd geta menn gert sér um bræðralag, ef þeir hafa engan skilning á göfgi þeirra stofnana sem nefnast ríki og heimili? Engin fyrirmæli geta endurvakið virðingu sem búið er að afmá. Nauðsynlegt er að rækta hana með menntun, með viðurkenningu á gildi víðtækrar þekkingar og nákvæmra vísindalegra rannsókna. Aðeins á þann hátt geta menn aftur minnst þess hvað mannúð er.

Skilningur á bræðralagi mun byggjast á því að menn hafi náð stigi mannúðar.

58. Með því að afmá öll grófgerð áhrif og innleiða hugsjón samvinnu, getur eljusemi vinnunnar öðlast fagra merkingu. Við verðum að muna að grófleiki er andstæður öllum lögmálum náttúrunnar. Sérhvert ruddalegt verk myndar ákaflega ógeðfelldan iðusvelg; ef hann væri sýnilegur, myndu menn gæta betur að athöfnum sínum. Ruddalegt og klúrt athæfi skapar þunga karmabyrði.

Með útvíkkun vitundarinnar verða menn sérstaklega næmir fyrir öllu sem er ruddalegt og gróft. Því getum við verið þess fullviss að grófleiki er allra síst við hæfi.

59. Vafalaust vildu margir hlustendur fá fyrr að heyra um Bræðralagið sjálft; en lát þá fyrst leggja af alla hnýsni og tálmandi siðvenjur. Með virðingu er innganga möguleg. Því er fyrst af öllu nauðsynlegt að ganga úr skugga um hvernig menn skilja mismunandi tilfinningar. Verðmæta hluti ætti ekki að fela neinum til varðveislu, ef búast mætti við því að hann seldi þá í stað þess að gæta þeirra vandlega.

Sá sem vill læra mun ekki þreytast á leið þekkingarinnar.

60. Við eflum alla eiginleika hlustenda okkar sem nauðsynlegir eru á leiðinni til bræðralags. Ekki er nóg að búa aðeins yfir vissum aðgreindum eiginleikum, nauðsynlegt er að átta sig á fullkominni sameiningu þeirra. Samhljómur eiginleikanna er eins og hljómkviða himnanna. Ef einn eiginleiki þroskast fagurlega en aðrir sitja eftir, er afleiðingin sundrandi mishljómur. Misræmi getur verið veikjandi eða truflandi, eða jafnvel eyðandi. Jafnvægi eiginleikanna fæst með mikilli þenslu vitundarinnar. Hirðirinn verður að gæta hjarðar sinnar af kostgæfni, og á sama hátt verður maðurinn að bæta úr ágöllum eiginleika sinna. Maðurinn veit sjálfur með vissu hvaða eiginleikar hans þurfa á úrbótum að halda. Lífið býður upp á tækifæri til að prófa hvaða eiginleika sem er. Í daglegu lífi er hægt að fá tækifæri til að beita hvaða eiginleika sem er. Ef maðurinn heldur því fram að hann fái ekki tækifæri til að nýta bestu eiginleika sína, er hann aðeins að opinbera heimsku sína. En ef maðurinn á hinn bóginn fagnar því að fá tækifæri til að virkja eiginleika sína, sýnir hann með því fram á útvíkkun vitundarinnar. Þá birtist næsta þrep gleðinnar – já einmitt það sem tengist fegurðinni í samhljómi eiginleikanna.

61. Tilraunir með andlega orku munu sýna fram á hve mikið slíkur samhljómur þenur út hið gagnlega áhrifasvið. Þjálfaðir athugendur eiga auðvelt með að skilja samsvörun eiginleika og andlegrar orku, en fáfróðum mun finnast slíkur samanburður óskiljanlegur.

Söfnum saman eins mörgum góðum eiginleikum og kostur er fyrir hina löngu ferð. Lát hvern og einn þeirra vera sem bestan!

62. Gleymið því ekki að hverri nýrri uppgötvun fylgir einnig uppgötvun á andstöðu hennar. Þið hafið heyrt að útsendingar útvarpsstöðva hafa orðið fyrir víðtækum truflunum; af því sést að jafnvel slík mikilvæg uppgötvun hefur sína galla. Sumir geislar gera hluti ósýnilega, aðrir fara í gegnum þétt efni. Aðeins hugsun og andleg orka verkar algjörlega án hindrunar.

Mannkynið verður að velja traustustu leiðirnar. Öll vélræn uppgötvun sýna aðeins fram á þörfina fyrir máttinn innra með manninum sjálfum. Látum okkur annt um alla þá sem geta nýtt bestu krafta sína mannkyninu til góðs. Og verum þakklát bræðrunum sem eru óþreytandi við að auka skilning manna á andlegri orku. Á þeirri leið verður mikil óeigingirni að ríkja. Hinn fáfróði þolir ekki þá sem leita hinna óforgengilegu fjársjóða. Búast má við ræningjum á hinum bestu leiðum. Til allrar hamingju eru þeir sem bera hinn ósýnilega fjársjóð ósæranlegir.

63. Sagt hefur verið að útgeislun dyggðar birtist sem regnbogi. Regnboginn er tákn samfjöllunar. Birtist ekki dyggð sem samfjöllun góðra eiginleika? Í öllum fornum táknum er ótvíræðan sannleik að finna. Menn hafa skilið að dyggðin felst ekki eingöngu í góðverkum. Þeir hafa greinilega vitað að aðeins samhljómur þenslu hinna bestu eiginleika veitir samfjöllun uppgöngunnar. Þeir hafa vitað að tilhvötin ein er staðfesting dyggðar. Ytri athafnir geta ekki borið vitni um fyrirætlun. Tilraunir með andlega orku munu leiða í ljós að hve miklu leyti hægt er að aðgreina athafnir frá fyrirætlun. Fjálgleg orð og athafnir geta ekki dulið tilhvötina. Hægt er að vitna til margra tilvika úr sögunni þar sem ekki var hægt að réttlæta athafnir, sem þó voru gagnlegar, vegna óverðugrar tilhvatar. En á hinn bóginn hefur margt geislað af fagurri tilhvöt sem óútskýrt er og grunsamlegt virðist. Hin andlega orka mun staðfesta slíkar vísbendingar um kjarna lífsins.

64. Við þurfum að skilja að miklar skyldur fylgja því að nálgast svo háleitt hugtak sem Bræðralagið. Nota þarf viljann til að losa sig við hvern smávægilegan vana. Að auki getur vani, sem virðist vera yfirunninn, birst aftur sem tvíefldur; það bendir til þess að gallinn hafi verið áfram til djúpt í vitundinni.

Spyrja má, „Geta venjur viðhaldist um mörg æviskeið?“ Það er mögulegt, og þær geta jafnvel eflst, ef tímanum í fíngerða heiminum hefur ekki verið varið á æðri stigunum. Það er ætíð og allsstaðar tilhvötin sem úrslitaþýðingu hefur. Við komuna inn í fíngerða heiminn er það því tilhvötin sem stjórnar för. Það er ekki hið augljósa, heldur hin góða frumhvöt sem finnst í hjartanu sem birtir fegurðina, meiri fegurð en fræknustu dáðir. Aðeins maðurinn sjálfur veit hvernig sérhver tilfinning hefur orðið til innra með honum. Hann getur fylgst með vextinum hið innra. Því er besti dómarinn innra með hverjum manni.

En lát sérhvern muna að jafnvel í jarðneskri tilveru er óhlutdrægt vitni að öllum gjörðum – það er frumorkan.

65. Strangleiki og grimmd eru mjög ólíkir eiginleikar. En menn vita ekki hvernig aðgreina á sanneðli strangleika frá bræðiköstum grimmdar. Strangleikinn er eitt afbrigði réttlætis, en grimmdin er mannhatur. Engin leið liggur frá grimmd til Bræðralags. Merki strangleikans birtist sem hringform, en grimmdin ber vott um brjálsemi. Lítum ekki á grimmd sem sjúkdóm; á sama hátt og gróft orðbragð er hún einfaldlega vottur um lágstætt eðli.

Ríkið ætti að banna með lögum bæði þessu myrku afkvæmi, grimmd og sóðalegt orðbragð. Í grunnskólum ætti að móta lífsreglur sem sýndu ljóslega að þessir lágstæðu gallar eru algerlega óviðunandi.

66. Samverkamenn og sendiboðar eru annað hvort meðvitaðir eða ómeðvitaðir um hlutverk sitt. Venjulega telja menn sæmd að því að vera útvaldir til að sinna einhverri köllun, en þeir sem eru ómeðvitaðir samverkamenn vita ekki einu sinni af því að þeir hafi verið innblásnir af köllun. Þeir vinna sitt verk í samræmi við óþekkt boð og koma með skilaboð eða viðvörun, en þeir gera sér sjálfir hvorki grein fyrir upphafi né endi köllunar sinnar. Til eru margir slíkir sendiboðar; ástand þeirra og eðlisfar er ólíkt, en samt hraða þeir ætíð för sinni. Einnig eru til sérstök tegund skilaboða þar sem nauðsynlegt er að beita áhrifum, ekki með orðum heldur þögn.

67. Stundum forðar staðfast orðlaust augnatillit frá hættu. Hugsun þarf engin orð. Sefjun þarf engin orð. Aðeins óreyndir dávaldar reyna að beita áhrifamætti með hrópum og handapati, en hvorugs er þörf í hugsanaflutningi. Meiri þörf er á háttbundinni öndunarhrynjandi, en oft er hún leyst af hólmi með hrynjandi hjartans.

Hugsun er send með hjartanu, og hún er einnig móttekin af hjartanu.

68. Mönnum sem vænta skilaboða má einnig skipta í tvo flokka. Minnihlutinn kann að bíða, en flestum er fyrirmunað að skilja það sem er að gerast og valda jafnvel skaðlegum áhrifum. Þeir hætta að starfa. Þeir kvarta í sífellu. Þeir trufla þá sem eru nálægir. Án þess að vita af því líta þeir á sjálfa sig sem útvalda og fara að koma með hrokafullar fullyrðingar um aðra. Takmörkuð þekking veldur miklum skaða, en enn meiri skaði stafar frá steinrunninni vitund. Slíkt verður sem gróðrarstía ruglings og efasemda. Hrynjandi vinnunnar glatast þegar efasemdirnar taka völdin. Menn sem þannig er ástatt um eru mjög skaðlegir fyrir útbreiðslu fræðslunnar. Þeir óska eftir nýjustu upplýsingunum til að fullnægja persónulegum metnaði sínum, en lítið gagn er að slíkum ræningjum. Látið ekki hjá líða að gera ráð fyrir þannig veikgeðja mönnum – þeir eru sem bæli full svika. Ekkert getur stöðvað ráðabrugg þeirra. Góðum tíðindum ættu ekki að fylgja neinar eyðileggjandi athafnir. Þeir eru fáir sem kunna að bíða skilaboða með fullkomnu göfuglyndi, mitt í önnum og erfiðleikum – það eru slíkir samverkamenn sem verða að bræðrum.

69. Við getum ekki viðurkennt áreiðanleika alls þess sem ritað hefur verið um Bræðralagið. Mörgu hefur verið ruglað saman við ímyndanir úr fíngerða heiminum; margir persónulegir draumar eru samofnir raunveruleikanum. Til eru margar þjóðsagnir um margvíslega kynstofna og horfin meginlönd. Menn tengja oft mörg smáatriði við hugmyndir, sem þeir hafa áhuga fyrir, án þess að hirða um ósamræmi atburða og tímasetninga. Óþroskað ímyndunarafl lítilsvirðir oft það sem það ætlar að upphefja.

70. Rétt er leiðin frá hinu smáa til hins mikla. Öll fræ eru því til staðfestingar. En oft taka menn hið smáa fyrir hið mikla og halda að smápeningur geti hulið sólina.

71. Seiðmaðurinn töfrar burt sjúkdóminn, en það er ekki fyrr en nú á tímum að fólk er farið að skilja að í athöfninni felst aðeins einföld sefjun. Sjá má að seiðmennirnir þylja einhverjar óskiljanlegar og meiningarlausar þulur, en fáir átta sig á því að áhrifin stafa ekki frá merkingu orðanna, heldur frá hrynjandinni og þó aðallega frá þeim hugsunum sem sendar eru.

Með sefjun er ekki aðeins hægt að koma í veg fyrir sársauka, það er jafnvel hægt að breyta stefnu sjúkdómsins algerlega. Hið síðarnefnda er sjaldan viðurkennt, því allt til okkar tíma hafa menn ekki haft mikla trú á áhrifamætti hugsunar. Frá sömu uppsprettu vantrúar sprettur stöðnun vitundarinnar. Menn eitra fyrir sjálfum sér með vantrú. Vísdómur aldanna hefur skráð mörg dæmi um mikið traust og einnig eyðileggingu sem orsakaðist af vantrausti. Þegar Við ræðum um samvinnu og jafnvel bræðralag, verðum Við að endurtaka hugmyndina um traust – því án þess myndast engin hrynjandi, án þess skapast enginn árangur, án þess getur engin framför orðið. Haldið ekki að ég sé að endurtaka eitthvað sem er almennt þekkt; þvert á móti, á stund hættunnar ítreka ég heilnæm ráð. Andleg orka verður ekki vakin á annan hátt. Hjartað getur ekki myndað glóð sigurs á neinni annarri leið. Það er ekki auðvelt að komast hjá þreytu ef myrkur er í hjartanu.

72. Hægt er að fá hinar bestu ráðleggingar, en samt eru þær aðeins sem sölnuð lauf að hausti. Skilningur á mikilvægi orkunotkunar í lífinu er hið eina sem veitt getur árangursríka leiðsögn. Innantóm orð leiða ekki til bræðralags.

73. Þegar efi og ráðleysi ríkja er þögnin besti vinurinn. En lát þá þögn ekki vera kyrrð illskunnar. Þó aðeins sé um skamma hríð, lát hrynjandi hjartans hægjast. Finn aftur þögn andlegu orkunnar; þannig eflist starf orkustöðvanna – þær lýsa en loga ekki.

74. „Virkið er fullbyggt, veggir þess og turnar eru styrkir vel, við hvert hlið standa varðmenn á vakt, og enginn óvinur getur brotist inn. Varðmenn, verið vel á verði, látið ekki örvar óvinarins blekkja ykkur. Örvarnar hafa verið búnar sérstakri áletrun í þeim tilgangi að draga úr athygli þeirra sem standa vörð. Áletrununum er ætlað að freista og tæla varðmennina svo að hugir þeirra fyllist efa og ráðleysi; þá er vörn hliðanna brostin.“ Þetta er lýsing hjá sérstökum launhelgum á ástandi andlegu orkunnar þegar efi og ráðleysi ríkja.

Hvort sem hugmyndinni er lýst á ljóðrænan hátt, með táknum, í helgiletri, með hugtökum læknisfræðinnar eða ströngu boði – beinist merking formsins ætíð að gildi frumorkunnar. Í launhelgunum voru notuð tákn sem vöruðu við skaðsemi efa og ráðleysis. Við getum eflt mjög andlegu orkuna, en jafnvel smávægilegur efi getur opnað hliðin fyrir hinum hættulegasta óvini. Á stundu skelfingar og ofboðs verðum við að vita hvernig við getum ákallað ró og frið, þó svo það sé aðeins um skamma hríð. Þannig rósemi ásamt einni innöndun prönuorku mun mynda sterka vörn.

Læknar verða að gefa náinn gaum að hinum fornum táknum. Þegar frásagnir Biblíunnar greina frá ásókn sjúkdóma og plága, má af því skilja að hinn beygði andi hafi leyft inngöngu hinum skelfilegustu sýkingum.

75. Við verðum einnig að skilja að þegar rætt er um hið góða er um leið gert ráð fyrir réttum athöfnum. Réttar athafnir leiða til góðs. En ef samhliða fjálglegum umræðum um góðsemi fylgja aðeins lágkúrulegar athafnir, myndast illt eitt.

Margt er rætt um góðsemi, en margt illt er gert.

76. Menn telja að hægt sé að bæta fyrir morð með því að víkja smápeningi að betlara! Ef menn hafa ekki rétt gildismat getur ekki verið um neinn stöðugleika að ræða. Menn hafa heldur ekki skilning á því að morð getur bæði verið andlegt og líkamlegt. Hvar er Bræðralagið ef mögulegt er að fremja andlegt morð? Það telst jafnvel ekki til glæpa!

77. Hugrekki er eflt með því að þroska andlegu orkuna á réttan hátt. Menn verða að líta á réttan þroska sem eðlilegan vöxt. Aukið forða ykkar af hugrekki; það er eins og að opna glugga.

78. Að finna til fullnægju er skaðleg tilfinning. Hún leiðir til mettunar og lamar orkuna. Í fíngerða heiminum má sjá aumkunarverð örlög þeirra sem slíkri lömun verða að bráð. Jafnvel hið litla sem þeim hefur tekist að safna að sér í jarðnesku lífi sínu er þeim gagnslaust vegna lömunar orkunnar. Þessir flöktandi skuggar ná engum árangri, því án orkunnar er framför þeim ómöguleg. Menn spyrja ef til vill hverra hlutskipti sé verra, hinna lömuðu eða illra hatursmanna. Því er erfitt að svara. Hatursmenn geta þjáðst og hreinsast á þann hátt, en með því að hagnýta ekki orkuna glata hinir lömuðu tækifærinu til framfara. Er ekki betra að þjást mikið en eiga þó möguleika á framförum? Hreinsunareldur þjáningarinnar er betri en upplausn án vonar. Hatrið má ummynda í ást, en lömun er ógn næturinnar. Slík vonlaus upplausn getur ekki leitt til bræðralags. Lömun einstakra útlima er hægt að lækna með viljaboði, en ef frumorkan sjálf er óvirk, hvernig er þá mögulegt að framkvæma slík boð? Margir slíkir lifandi náir eru á ferð!

79. Það er gagnlegt að sjá hvernig menn geta starfað undir áhrifum sefjunar en mótmælt því kröftuglega um leið að slík áhrif séu möguleg. Af illsku fullyrða menn stundum að athafnir þeirra séu að þeirra eigin frumkvæði, þó svo frumhvötin sé bein sefjun. Menn miðla hugsunum sem ekki eru þeirra eigin hugsanir og nota tjáningarform sem eru þeim framandi, en af illsku láta þeir sem að það allt sé frá þeim sjálfum komið. Ef vitað er hvaðan sefjunin er komin, er hægt að álykta hvort um vísvitandi rangfærslu sé að ræða.

Allt sem af illsku er skapað er myrkt og óstöðugt.

80. Þegar menn snúa aftur til fyrri dvalarstaðar finna þeir oft fyrir vissri hryggð. Þeir skynja að einhverju hafði ekki verið lokið. Og þannig er það einmitt. Í óendanleikanum hljóta menn ætíð að skynja eitthvað sem er fyrirfram ákveðið.

81. Bókinni um bræðralag verður skipt í tvo hluta. Fyrri hlutinn, um grundvöll bræðralags, kemur fram nú; seinni hlutann, um innra líf bræðralags, munum Við senda þeim sem viðurkenna grundvöllinn.

82. Fjölþættir draumar og minningar mynda heila fræðigrein. Stundum blandast minningarnar ímyndunum, en þegar þær eru aðgreindar og flokkaðar birtast ljóslifandi heilir sagnabálkar sannra atburða. Þegar menn því segja að eitthvað gæti alls ekki hafa gerst, ættu þeir að íhuga hvort samsetning einhverra þátta í atburðarásinni sé ekki óeðlileg, því hver einstakur atburður gæti verið sannur. Fróðlegt er að athuga nákvæmlega hvaða þættir minninganna gleymast helst; á þann hátt koma vel í ljós persónueiginleikar þess sem segir frá.

Mjög fornar minningar geta myndað flókið mynstur samsettra minninga frá mismunandi tímaskeiðum. Á þann hátt geta skapast minningar um mjög ósamstæða samfundi. Þannig er mögulegt að menn hafi hitt einhvern Bræðranna, en jafnvel háleitustu samfundir geta hulist af ýmsum léttvægum atburðum frá ýmsum tímum. Það er ekki að ástæðulausu að sagt hefur verið að sérhver maður sé fulltrúi fyrir mikið og margbrotið geymslusafn. Mikinn eld þarf til að lýsa upp allar hinar myrku geymslur.

83. Menn ræða mikið um hugsanaform, en ekki er hægt að færa allar hugsanir í form. Til er nokkuð sem líkja má við hugrænt ryk. Það er alveg formlaust og blandast öðrum svipuðum rykmökkum. Af slíku rusli geta menn fengið hnerra.

84. Þeir sem ræða um hugsanaform hafa sjaldan mikinn áhuga á því að fága og upphefja þessar formmyndanir. En í því skyni getur jafnvel sjálfssefjun verið gagnleg. Í fyrndinni var sagt að hugsanir verði til í geimnum; af því leiðir að þeim verður að gefa form. Mökkur af hugrænu rusli er ekki til þess hæfur að vera efni í hugræna sendingu.

85. Sæla hugsuðar eða þraut hugsuðar? Það er til siðs að sýna hugsuðinn í þraut, en ef þú spyrðir hvort hann vildi losna undan slíkum þrautum, væri svar allra hugsuða neikvætt. Í djúpum vitundarinnar finnur hann mikla sælu, því með hugsun nýtur hann æðri fögnuðar. Menn eiga aðeins kost á tvenns konar gleði – fögnuði hugsunar og algleymi fegurðar. Þetta tvennt staðfestir leiðina til eldheimsins. Aðeins með þessu tvennu geta menn komist til hinna háleitu sviða. Jafnvel æðra samneyti felur í sér þessi tvö grunnatriði. Þess vegna er fáránlegt að ræða um þrautir hugsuðarins eða skaparans. Þeir fagna en þjást ekki. En menn hafa gert sér svo einhæfa mynd af gleðinni! Hjá sumum felst gleðin í því að hugsa ekki og gera ekkert.

Leiðin til bræðralags verður til með hugsunum og vinnu.

86. Miskunnsemi er ekki einfalt hugtak, og aðeins þeir sem víðsýnastir eru geta gengið úr skugga um áhrif hennar. Þegar göfuglyndið býður, „Gefið líf!“ er úrskurðurinn ekki erfiður. Einmitt á þeirri stundu gætu eyðingaröflin verið að nálgast, en hinn víðsýni skilur að hið jákvæða er hinu neikvæða meira. Hinum skammsýna virðist slík miskunnsemi óviðeigandi, en hinum víðsýna er hún sem ör skotið beint í mark.

87. Leiðin til bræðralags er vörðuð mörgum táknum. Leiðin er löng og öll aðstoð er gagnleg. Hver er slíkur að geta fullyrt að þessi eða hinn eiginleikinn hæfi honum ekki? Það kann að vera að einmitt skorti það sárast sem mest hefur verið vanrækt.

88. Byrði þessa heims. Tveir lærisveinar ræddu um hvaða tákn væri mest lýsandi fyrir þetta hugtak. Annar stakk upp á gulli, en hinn taldi að hvítur marmari hæfði betur. Báðir voru sammála um að best væri að tákna byrði, í merkingunni þungt farg, með steini. En fræðarinn mælti, „Hið smæsta fræ samsvarar hugtakinu byrði heimsins.“

89. Ræðið ekki um hina fjarlægu heima við þá sem í jarðnesku lífi sínu eru ekki færir um að skilja sinn eigin áfangastað. Þeir glata aðeins því litla sem þeir hafa og læra ekkert gagnlegt úr heimi hinnar æðri þekkingar. Gætið vel að því hverju maðurinn er fær um að taka við. Menn byrja ekki máltíð með því að bera fram eftirréttinn. Fólki er einnig óhollt að nærast á tormeltri fæðu. Það er því enn meiri ástæða til að þjálfa með sér athyglisgáfuna. Gætið þess að áheyrendum ykkar fari ekki að leiðast, því leiði veldur stöðnun.

90. Menn eru fúsir til að sækjast eftir bræðralagi sem fellur að fyrirfram mótuðum hugmyndum þeirra. En ef þeim er sagt frá því að þar séu deilur ekki leyfðar, dvínar áhugi margra þeirra.

Spyrjið fólk að því hvaða hugmyndir það geri sér um bræðralag. Í svörunum koma oft fram margvísleg smáatriði sem eru sérstaklega mikilvæg í augum þess. Fyrirspyrjandi nokkur varð furðu lostinn og mælti að síðustu, „Getur verið að fólk meti óreiðuna svo mikils?“

Sannlega, menn þekkja ekki hin óbreytanlegu lögmál náttúrunnar.

91. Á tímum hinna mestu ógna og átaka geta menn samt haldið áfram sínum vanabundnu athöfnum. Skilningsleysið sem menn sýna oft á eðli þess sem er að gerast er furðulegt. Þó að oft sé sagt frá mikilvægi líðandi tíma, ber það lítinn árangur. Skilningurinn vaknar ekki í hjartanu. Bíðum þess ekki að vitranir birtist okkur, en mjög eðlilegt er að við verðum vör við ýmsa fyrirboða. Samt hafna menn slíkum fyrirboðum, vegna þess að enginn hefur sagt þeim frá frumorkunni. Þannig ná menn árangri á einu sviði, en fara halloka á öðru, ekki síður dýrmætu.

92. Ógeðfellt starf er ekki aðeins áþján fyrir hinn ófarsæla verkamann, heldur eitrar einnig allt umhverfið. Óánægja starfsmannsins gerir honum ómögulegt að finna til gleðinnar sem felst í því að leggja sig fram og auka gæði vinnunnar. Að auki tvíefla hin illu áhrif óánægjunnar dapurlegar hugsanir og gera að engu sköpunarhæfileikann. En sú spurning hlýtur að vakna, hvernig hægt sé að liðsinna þeim sem ekki geta fengið starf sem þeim hentar. Vissulega eru þeir margir sem ekki geta nýtt starfsgetu sína á þann hátt sem þeir helst vildu. Til er ráð sem léttir slíka þraut. Dáðir vísindanna sýna okkur að handan vanastarfa hversdagsleikans býr fagurt svið sem allir geta nálgast – það er skilningur á andlegu orkunni. Þegar orkan er rannsökuð kemur greinilega í ljós að bændur búa yfir umtalsverðum forða hennar. Ennfremur eru mörg önnur starfssvið sem stuðla að varðveislu orkunnar. Það er því mögulegt að finna upplífgandi styrk í margvíslegum störfum.

93. Allt er mögulegt; aðeins andlegt þunglyndi getur lætt að mönnum veikjandi hugsunum. Sérhvert skref vísindanna felur í sér nýja möguleika en ekki neina takmörkun. Það sem virðist ógerlegt frá jarðnesku sjónarmiði getur reynst gerlegt með hagnýtingu fíngerðra orkutegunda. Andlit mannsins breytist eftir því hvernig ljósið fellur á það. Lýsing getur breytt svipmóti andlits svo mikið að það verði óþekkjanlegt og leitt í ljós mjög óvanaleg svipbrigði. Til eru geislar og straumar sem hafa svo margvísleg áhrif, og þeir geta ummyndað alla hluti!

Er ekki uppörvandi að gera sér grein fyrir því að allt er mögulegt?

94. Dapurlegt er ástand þess manns sem ekki verður fyrir neinum árásum. Það bendir til þess að orkan sé mjög kraftlítil og ekki fær um að vekja neitt andsvar. Aðeins hinir fávísu líta á það sem ógæfu að verða fyrir aðkasti. Offita flýtur í feiti aðgerðarleysisins. Að hvaða gagni getur slík fita komið? Útgeislun fitu dregur til sín óæskilegar verur. Gagnlegri er vökul og snör viðleitni; hún viðheldur hæfilegri hlíf fyrir taugarnar. Ennfremur, megurð má ekki verða til þess að stöðugleikanum sé hætta búin.

95. Allt sem gerist hefur margar hliðar. Einstaklega rangt er að ímynda sér að eitthvað eigi sér aðeins eina orsök og eina afleiðingu. Sjá má að sérhver athöfn ber með sér mörg mismunandi svið sem valda áhrifum og verða sjálf fyrir áhrifum. Gerum okkur grein fyrir þeirri staðreynd að áhrifasvið allra athafna er mun víðtækara en hægt er að álykta út frá jarðnesku sjónarmiði. Þannig tengjast menn mörgum áhrifasviðum í sérhverri athöfn og hugsun. Gleymum því ekki að hugsanir valda óhjákvæmilega umróti í fíngerða heiminum. Þær ná ekki alltaf þangað skýrar og tærar, en þær hafa í það minnsta viss truflandi áhrif á orkusviðið. Svo margir straumar og geislar brotna og tvístrast í geimnum, því er ómögulegt að líta eingöngu á athafnir mannsins sem vissa starfsemi vöðva og sina. Af því leiðir að við verðum að venja okkur við margvísleg áhrif athafna.

96. Einu sinni var listamaður sem vildi mála mynd af hugsun, en hann gat ekki ákveðið hvaða táknmynd hann ætti að nota til að lýsa henni sem best. Heimspekingur nokkur stakk upp á að hann mótaði skýjabólstra, því hugsun dvelst í geimnum. Annar hugsuður taldi að stjörnubjartur himinn væri áhrifameiri. Sá þriðji benti á að elding væri einföld og sterk ímynd hugsunar. Sá fjórði kom með þá hugmynd að hafa strigann auðan, því að á sama hátt og jarðnesk augu geta ekki greint hugsun væru öll form of grófgerð til að tákna ljós orkunnar.

97. Stjörnubjartur himininn er sú mynd sem helst getur leitt manninn frá jarðneskum aðstæðum. Óendanleikinn getur yfirskyggt jarðneskar eignir. Geisladýrð hinna fjarlægu heima er hið eina sem getur eytt hinni jarðnesku ógn.

98. Takið ekki ákvörðun í skyndi. Menn flýta sér venjulega um of og flækja þannig örlagaþræði afleiðinganna.

99. Bræðralag eða samvinna? Ekki er unnt að gera skörp skil þar á milli. Menn vilja helst að hugtök séu mjög skýrt aðgreind. En margt blandast inn í hugtökin frá öðrum hugtökum. Þannig er samvinna sem fordyri bræðralags; gætum því vel leiðanna að Virki andans.

100. Heimilið og fjölskyldan mun sundrast vegna hugsana, en ekki vegna orða og athafna. Í þögn er grafið undan undirstöðunum. Án þess að veita því eftirtekt kynda menn sjálfir undir upplausninni. Ekki eru til mörg heimili þar sem unnið er saman af fullkomnum skilningi. En sérhvert slíkt heimili er skref í átt til bræðralags.

101. Hestasveinn nokkur tjáði húsbónda sínum að hann hefði áhuga á því að rækta ákveðið hestakyn. Húsbóndinn svaraði, „Fyrirætlun þín er góð, en fyrst þarftu að koma hesthúsunum í gott lag.“ Rithöfundur er ákaflega þakklátur, ef hugsanir hans koma að gagni og eru ekki lesnar hugsunarlaust og í flýti. Hægt er að koma með mörg dæmi frá mismunandi sviðum sem áminningu um þjónustu sem er byggð upp á skipulegan hátt. Beita verður þeirri sömu skipulagningu þegar hugsun bræðralags er mótuð.

102. Metum mikils þann tíma sem við verjum til að vinna að ætlunarverki okkar. Þjónusta felst ekki í því að stuðla að hamingju í venjulegum skilningi, heldur í því að vinna mannkyninu gagn. Það getur verið erfitt að hugsa ekki um einstakar persónur, en hugsun um andlit alls mannkynsins er leyfileg.

103. Hvernig er hægt að koma því heim og saman að maðurinn hafi frjálsan vilja en mótist samt af þeim áhrifum sem svo mikið hefur verið sagt frá? Frjáls vilji mannsins er staðreynd, enginn getur neitað því, samt er mögulegt að verða þess oft var að visst ósamræmi er milli viljans og athafna og hugsana hinna yfirjarðnesku krafta. Meginatriðið er það að vilji mannsins getur verið í samræmi við hina æðri krafta, eða hann getur verið í óreiðu og unnið gegn uppbyggingu. Það er hörmulegt að meðal mannkynsins skuli óskipulegur vilji vera ríkjandi. Þetta ástand batnar ekki með hefðbundinni menntun. Frjáls vilji eru forréttindi mannsins, en án samstillingar við hina æðri krafta veldur hann aðeins ógæfu.

104. Þótt oft hafi verið sagt frá skaðsemi lægri dulargáfna, geta hinir fáfróðu ekki aðgreint þetta ástand frá hinum eðlilega vexti frumorkunnar. Ef við verðum vör við að lægri dulargáfum sé ruglað saman við andlega orku, ætti okkur að vera ljóst að í slíkum tilfellum er gagnslaust að reyna að fá menn til að skilja mistök sín og breyta um háttu. Við verðum að skynja hvar uppsprettan er sem gæðir orku okkar eiginleikum sínum. Sá fjársjóður verður aldrei ofmetinn.

105. Í fornum ritum má finna hugtakið „bæklaðar sálir.“ Sagt er að slík bæklun sé ætíð af völdum mannsins sjálfs. Jafn skjótt og maðurinn ímyndar sér að öll sund séu lokuð, fjötrar hann frumorku sína rammgerðum hlekkjum. Í þannig fjötrum eru framfarir ekki mögulegar. Maðurinn tekur á sig þunga ábyrgð með því að loka þannig leið sinni. Slíkt er ekki hægt að réttlæta með vonleysi eða örvæntingu, því að sjálfsögðu skapast þessi myrka óvættur af veikum vilja mannsins sjálfs. Þegar slík vofa hefur sest að í anda mannsins veldur hún heilsu hans tjóni. Í henni er ekki neinn raunveruleika að finna. Ef menn rannsaka hinar sönnu orsakir örvæntingar eða vonleysis, verður bersýnilegt hversu marklausar þær eru. Væri hugtakið um Bræðralagið mönnum nærtækt, hversu miklu væri ekki hægt að eyða af slíkri ástæðulausri örvæntingu og vonleysi! Samt vill fólk heldur hamla sinni eigin framför en að íhuga hin læknandi frumatriði. Rithöfundar hinna fornu rita um bæklaðar sálir höfðu ríkar ástæður fyrir því að ræða um þetta hugtak.

106. Við öll störf er greinilegt að ákaflega erfitt er að leiðbeina mönnum þar sem andsnúinn vilja er að finna. Það er ekki aðeins fjandsamlegur, heldur einnig óvirkur vilji sem getur orðið til skaða. Illur vilji hafnar mörgum opnum leiðum. Slíkt ástand er að finna alls staðar í lífinu, bæði í smáu sem stóru.

107. Oft heldur sá er afneitar því fram að hann hafi engin áhrif. Í slíku tilfelli getur Bræðralagið komið að miklu liði. Unnt er að nálgast mann á óvæntan hátt með ákalli til bræðralags. Eins og læknandi máttur getur Bræðralagið haft áhrif á fjandsamlegan vilja. En til að slíkt geti gerst verða menn að viðurkenna og skilja bræðralagshugtakið. Er algengt að svo sé?

108. Er mögulegt að nokkur verði ánægður með hálfa flík í stað þeirrar heilu sem hann hafði vænst? Sama á við um samvinnu. Ef helmingur þess sem menn hafa fram að færa eru grunsemdir og efi í stað heilshugar samstarfs í bróðurlegum anda, hvaða árangurs geta menn þá vænst? Gagnlegt er að rækta með sér hæfni til samvinnu. Í því skyni er rétt að byrja á hversdagslegustu verkunum. Rangt er að ætla að samvinnan geti birst í miklum afreksverkum, ef hún er ekki til staðar í daglegum störfum. Lítum djúpt í eigin vitund og spyrjum okkur hvort andinn sé reiðubúinn fyrir samvinnu.

Það er jafnvel ekki til neins fyrir manninn að hugsa um bræðralag, ef hann er ekki alshugar glaður yfir tækifæri til að taka þátt í sameiginlegu starfi. Öll verk sem unnin eru í sameiningu bera með sér marga þætti sem krefjast mismunandi hæfni. Er svið starfsins þröngt? Er ekki gleðilegt að vera umkringdur sönnum samverkamönnum? Okkar gleði er ekki lítil yfir sérhverjum samverkamanni. Það er nauðsynlegt að hvetja með varfærni alla þá sem nálgast. En ástæðulaust er að syrgja þá sem kjósa að verða eftir, ef andi þeirra fær ekki skilið sanna gleði.

109. Í óendanleikanum eru margar skynjanir sem ógerlegt er að tjá í jarðneskum orðum. Sumar þeirra vekja hjartslátt, en slík þensla er hvorki skelfing né sæla. Erfitt er að lýsa tilfinningum þess sem stendur frammi fyrir hinu botnlausa hyldýpi. Hann hræðist ekki, en samt getur hann ekki hreyft sig með djörfung. Hann sér engan stuðning og hann veit ekki hvernig hann á að bregðast við slíkum aðstæðum. En það er hans gæfa ef hann hefur að baki sér Bræðralag, sem hann tengist í fullkomnum skilningi. Bræðralag ætti ekki að skilja sem eitthvað óhlutlægt hugtak. Það er hér í raunveruleikanum til að stuðla að hamingju mannkynsins.

110. Þótt erfitt sé að henda reiður á hverfulli tilfinningu bræðralags við jarðneskar aðstæður, er Bræðralagið samt vel innan seilingar hvers leitandi huga. Engin þörf er á því að gera það að flóknu fyrirbrigði, ef þú ert reiðubúinn að gera ekki náunga þínum neitt sem þú ekki óskar sjálfum þér. Á þann hátt getum við verið staðföst sérhvern dag, í öllum störfum og sérhverri hugsun í sannfæringu okkar um tilvist Bræðralagsins.

111. Góðverk eru eins og margvísleg blóm í haga. Innan um þau sem gædd eru lækningamætti geta verið önnur sem eru eitruð, þótt fögur séu á að líta. Meðal dásamlegra sköpunarverka er hægt að finna nokkur sem eru baneitruð, en aðeins með tilraunum er unnt að velja rétt. Óeinlægni og hræsni bera með sér eyðandi eitur. Við getum séð að öll starfsemi sem byggist á svikum og blekkingum mun úrkynjast og aðeins leiða af sér ljótleika. Mikið er rætt um góðverk, en þau verða að vera sannarlega góð. Leitið í djúpi hjartna ykkar að staðfestingu þess að þau hafi raunverulega verið góð. Engin gríma getur hulið hina ljótu ásýnd óeinlægninnar. Dæmum ekki, því sérhver hefur þegar dæmt sjálfan sig.

112. Aldrei hefur tré klofið af eldingu gróið aftur saman. Ógerlegt er að skyggnast inn í djúp þess hjarta sem hefur sortnað eins og af eldingu sem slegið hefur niður. Við getum ekki vænst þess að hið klofna tré verði aftur máttugt og skuggsælt. Á sama hátt, þegar kallað er til bræðralags, skulum við ekki leggja traust okkar á hjarta sem hefur gleymt hinu góða.

113. Öll vísindaleg þekking er fögur ef hún endar ekki í blindgötu. Sannur leitandi þekkingar lítur aldrei svo á að neinar aðstæður séu vonlausar. Hann getur stöðugt viðað að sér með því að þroska nýjar leiðir til skilnings. Þannig óendanleg þekkingarviðleitni er besta leiðin til að vera ætíð reiðubúinn fyrir bræðralag. Ekki er auðvelt að gera sér grein fyrir slíkum óendanleika, en fyrir þann sem þekkir stefnu þróunarinnar er sú leið eðlileg og hin eina mögulega. En lát hjartað ekki herðast á þeirri leið. Varðveitum heldur hrifninguna sem vaknar við hvert nýtt skref í vexti vitundarinnar. Hart hjarta getur ekki stigið upp til Turnsins. Það styrkir ekki fíngerða líkamann. Slíkt steingert hjarta helst innan jarðneskra marka. Það er ákaflega mikilvægt að skilja líf hjartans. Látum það ekki umbreytast og verða að forsögulegum steini. Vökum með athygli yfir tjáningu hjartans. Án þess er bræðralag ekki mögulegt.

114. Gleymum ekki heldur öðrum eiginleika sem nauðsynlegt er að hafa með í för – þeim eiginleika að vera ekki háður eignum. Almennt séð er ágirnd hvergi viðeigandi; hún heldur manninum föstum við lægri sviðin. Fastheldni nirfilsins er óyfirstíganleg hindrun. Höfnun eigna er ekki auðvelt skref, en græðgin er vissulega eitt alvarlegasta tilfellið af falli mannsins í hyldýpið.

115. Við getum gert þau mistök að álíta að meiri hluti fólks kunni að lesa bækur. Slíka hæfni þarf að rækta. Þótt menn taki við bók er ekki sjálfgefið að þeir kunni að lesa hana svo vel sé. Sjá má að skilningur þeirra á því sem þeir lesa er oft mjög fjarlægur hugsun höfundarins. Ég held því fram að skilningur manna á bókum sé ekki nægilega mikill, en þar getur vitnisburður frumorkunnar verið prýðileg leiðsögn. Hún er oft til hjálpar við að finna nauðsynlega bók og velja úr henni það sem menn þurfa á að halda. Aðeins er þörf á vakandi athygli. En þann eiginleika þarf maðurinn einnig að rækta með sér.

116. Oft höfum við heyrt sagnir um upphaf eða endalok Bræðralagsins. Bent er á ýmis lönd og mörg tímaskeið nefnd, en enginn getur sagt með neinni vissu um hvenær samfélög hafa verið stofnsett. Menn líta á leifar óljósra vísbendinga um Bræðralagið sem fagurt ævintýri. Margvíslegar deilur og misskilningur rísa út af smáatriðum í uppbyggingu hins jarðneska Bræðralags. Oftast er hin almenna skoðun sú að það sé alls ekki til. Athyglisvert er að menn finna til sérstaks pirrings við umræður um gerð og uppbyggingu Bræðralagsins. Einkum eru þeir tortryggnir sem ekki viðurkenna neitt sem er æðra þeirra eigin ímyndun. Þeir gleyma að ímyndun er samsafn staðreynda. Af því leiðir að þeir geta ekki viðurkennt neitt sem er æðra og handan þeirra eigin hugmynda um lífið.

Of fáir eru þeir ferðalangar sem veita óvenjulegum fyrirbrigðum eftirtekt. Augljósum vísbendingum er þvert á móti oft hafnað með haldlitlum rökum. Eins og slegnir blindu eru menn ófúsir að skoða sannanir; þeir forða sér sem skjótast frá þeim og hjúpa sig hefðbundnum blekkingum. Spyrja má: „Hvor virðir sannleikann meir, sá er hjúpar sig sljóleika blekkinganna eða sá sem er reiðubúinn að mæta raunveruleikanum með vakandi athygli og hugrekki?“

Við metum mikils þá sem helga sig raunveruleikanum.

117. Lítum ekki svo á að efahyggjumenn aðhyllist raunveruleikann. Efahyggjumenn lifa lífinu sveipaðir gráum hjúpi. Þeir álíta að þeir séu að berjast gegn blekkingum, en þeir þekja sig sífellt með kóngulóarvef. Veitum eftirtekt þeim sem hafa látið sér annt um sannleikann allt frá barnæsku.

118. Í fornum sögnum um Harmagedón er minnst á fólk með hulin andlit. Er ekki eitthvað áþekkt að gerast nú á tímum? Sjá má að heimurinn allur er að sveipa sig hulum og bróðir rís gegn bróður. Já, svo sannarlega, hulin andlit eru tímanna tákn.

119. Tökum eftir því að sumir efla með sér ýtrustu þolinmæði, en aðra skortir algerlega þennan eiginleika. Hver er ástæðan fyrir þessu? Slíkur grundvallareiginleiki getur ekki verið tilviljunum háður. Verum þess fullviss að sá sem gæddur er þolinmæði hefur byggt upp með sér þann eiginleika æviskeiðum saman. Þolinmóður maður er athafnamaður sem býr yfir víðtækri reynslu. Aðeins með þátttöku í viðamiklum verkefnum getur maðurinn gert sér grein fyrir gagnsleysi önuglyndis. Frammi fyrir Hinni miklu ímynd skynjar hann algert tilgangsleysi hverfulla fyrirbrigða. Án margvíslegra prófana er ekki unnt að meta og aðgreina eiginleika alls sem lífið hefur að bjóða. Ætlum ekki að þolinmæði sé viðurkenning sem veitt er að ástæðulausu; þvert á móti, hún tilheyrir þeim eiginleikum sem menn ávinna sér með sérstöku erfiði, bæði í lífinu á jarðneska sviðinu og hinu fíngerða. Af því má ráða að hinn þolinmóði maður er maður auðugur af reynslu, en hinn óþolinmóði er byrjandi í lífinu. Minnumst þessa á leið okkar.

120. Sjálfstæði í athöfnum er ómissandi eiginleiki. Það er einnig eiginleiki sem ekki er auðvelt að ávinna sér. Hann getur umhverfst í geðþóttahátt eða veikst svo að algert upplausnarástand nær yfirhöndinni. Sérhver fræðari beitir áhrifum sínum til að efla árangursríkt sjálfstætt starf lærisveinsins, en hvernig er unnt að samræma þetta hugmyndinni um Helgivaldið? Margar rangtúlkanir finnast sem hindra menn í að öðlast heildarskilning á hugtakinu. Hægt væri að rita heil fræðirit um ósamkvæmni sjálfstæðra athafna og Helgivaldsins. Margir slóttugir slúðurberar munu koma fram og reyna að sanna að með þessu móti séu brestir að myndast í trausta undirstöðu Helgivaldsins. Þeir forðast að benda á þá staðreynd að sjálfstæðri athöfn verður að fylgja samstilling eða samræmi við öll stig vitundar.

121. Okkur er nauðsynlegt að vita hvernig á að sigrast á blekkingu ósamkvæmninnar. Annars vegar er þörf á að rækta með sér hjartagæsku og hins vegar að hafa skilning á strangleika. Fyrir mörgum er slíkt algerlega óleysanlegt verkefni; aðeins hjartað getur gefið til kynna hvenær þessir tveir eiginleikar eru ekki í mótsögn hvor við annan. Hjartað hvetur þegar nauðsynlegt er að skunda til hjálpar náunganum. Hjartað segir til um hvenær stöðva þarf æði óargadýrs. Ógerlegt er að tjá í lögmáli nákvæmlega hvenær þessi eða hin athöfnin verður nauðsynleg. Óskrifuð eru lögmál hjartans, en aðeins þar er réttlæti að finna, því hjartað er brúin milli heimanna.

Hvar er óeigingirnin vegin og metin? Hvar er sá sem dæmir um afreksverk? Hvar er mælikvarði skyldunnar? Sverð þekkingarinnar glampar að skipun hjartans. Hjartað skynjar enga mótsögn.

122. Öflun þekkingar um svið fíngerða heimsins er ekki andstæð jarðnesku lífi. Líf fíngerða heimsins er ekki tengt særingum og svartagaldri; við þurfum að venjast réttum skilningi. Þó að jarðnesk augu sjái ekki, né eyrun heyri, skynjar hjartað samt raunveruleikann. Við verðum að skynja og skilja hinn yfirjarðneska heim til að geta tekið framförum. Slík útvíkkun vitundarinnar ummyndar viðhorf mannsins til lífsins. Sá tími er nálægur að við verðum að undirbúa vitundina fyrir víðtækar skynjanir. Víðtækur skilningur er hið eina sem gerir manninum mögulegt að greina það sem er að gerast.

123. Þið sjáið að stríðsástand er ríkjandi í heiminum. Stríðið birtist í mörgum myndum. það er sums staðar dulið og sums staðar augljóst, en í eðli sínu er það eitt og hið sama. Bylting hefur einnig fengið sérstaka merkingu; hún getur einnig gerst án þess að vera nefnd því nafni. Sumir kunna að álíta að atburðarásin sé hægfara, en í raun er henni jafnvel flýtt.

124. Jörðinni hefur margsinnis stafað hætta af árekstrum við halastjörnur. En þrátt fyrir hina miklu spennu andrúmsloftsins urðu menn ekki varir við neitt óvenjulegt. Örfáir einstaklingar fundu spennuna í loftinu, en langflestir tóku alls ekki eftir neinu. Hægt er að gera sérstakar tilraunir sem felast í því að athuga á hvern hátt mannkynið bregst við sérstökum atburðum. Nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir því að jafnvel áberandi heimsviðburðir ná oft ekki að vekja athygli vitundarinnar. Ástæðan er sú að fólk vill meðtaka skynjanir á eigin forsendum en leyfir ekki vitundinni að starfa á eðlilegan og réttan hátt. Þannig fólk er ekki vel fallið til samvinnu.

125. Einnig er lítið gagn af þeim sem ætíð starfa af hálfum hug. Þeir verða auðveldlega fyrir vonbrigðum og ná engum árangri. Vinnan verður að byggjast á því að menn leggi sig alla fram. Oft er mönnum ekki gefið að sjá árangur vinnu sinnar, en við verðum að vita að hvert einasta andartak starfsins er um leið orðið að ótvíræðum ávinningi. Slík vitneskja gerir það einnig mögulegt að viðhalda þrotlausu starfi í fíngerða heiminum. Hefur það ekki sama gildi að vinna verk hugrænt og móta hugsanaform? Eina skilyrðið er að það sé gagnlegt. Það er ekki okkar að dæma um hvar starf kemur að mestum notum; það hefur sinn eigin spíralferil.

126. Aldrei áður höfum við rætt saman þegar svo mikil spenna hefur verið ríkjandi. Aldrei áður hefur jörðin verið eins umlukin kæfandi gashjúpi. Aldrei áður hefur eins mikið hatur flætt um plánetuna. Óhugsandi er að menn verði ekki varir við umbrot þjóðanna; þegar ég því ræði um heilsuvernd hef ég í huga hið óvanalega ástand í heiminum. Það er sorglegt að þjóðirnar skuli ekki leitast við að bæta ástandið. Mikilli orku er sóað. Haldið ekki að þessi sérstaka spenna orsakist einungis af einstaklingsbundnum aðstæðum; hún breytist í samræmi við ástand heimsins. Andlega orkan er undir mikilli spennu, reiðubúin bæði fyrir móttöku og höfnun. Andinn skynjar hugsanir fíngerða heimsins.

127. Sprengingar sólstjarna, eða svonefndar blossastjörnur, hafa mikið gildi fyrir jörðina; ekki á því andartaki sem sprengingin verður, heldur þegar svörun ljósefnavirkninnar hefst. Þetta dæmi er einnig mjög lýsandi fyrir mannleg samskipti. Ógerlegt er að greina mörk upphafs og enda gagnkvæmra sambanda. Til eru hnettir í himingeimnum sem eru undir sterkum gagnkvæmum áhrifum, þrátt fyrir að miklar fjarlægðir skilji þá að. Af því má ljóst vera að mennsk áhrif geta einnig spannað miklar fjarlægðir. Milli efnisþétta og fíngerða heimsins má því greina mjög flókin víxláhrif. Hér á ég ekki við hugsanaflutning, heldur útgeislun flæðiefna sem stjórnast af lögmáli segulafls á sama hátt og það stjórnar stöðugu útstreymi frumorkunnar. Hafið þetta frumatriði í huga við alla samvinnu.

128. Það er til siðs að tákna hinn raunbirta heim með hring, og gert er ráð fyrir að utan hans sé hið óskapaða. Slíkt tákn er afstætt, vegna þess að markalína óskapnaðarins er mjög hlykkjótt. Hann smýgur inn hvar sem mótstaða er veik.

129. Til lítils er að ætla að óskapnaðurinn sé einhvers staðar langt í burtu; mannkynið hleypir honum inn hvar sem hugsanaóreiða er leyfð. Aðeins staðföst vitund getur myndað vörn gegn óskapnaðinum. Stundum veldur djúpstætt hömluleysi smávægilegum ytri atvikum. Svörunin þarf ekki að stafa af illsku einni saman; rotnandi leifar óskapnaðarins geta einnig komið þar við sögu; en við samvinnu eru öll slík áhrif ákaflega varhugaverð.

130. „Bræðralag á jörðu er óhugsandi!“ Þannig fullyrða þeir sem haldnir eru sjálfsþótta. „Bræðralag á jörðu er óhugsandi,“ segja hinir myrku spellvirkjar. „Bræðralag á jörðu er óhugsandi,“ hvísla hinir veiklunduðu. Þannig reyna margar raddir að hafna grundvelli tilverunnar. Þó hafa mörg bræðralög verið til á hinum ýmsu tímaskeiðum, og ekkert gat komið í veg fyrir tilvist þeirra. Menn halda að það sem þeir geta ekki séð sé ekki til. Slík fáviska hefur lifað og dafnað frá fornöld og allt til okkar tíma. Ekkert getur þvingað neinn til að sjá það sem hann vill ekki sjá. Það er tímabært að skilja og viðurkenna að raunveruleikinn er ekki eingöngu það sem er sýnilegt, því heimurinn er fullur af ósýnilegum veruleika.

131. Með hvaða hætti geta bræðurnir haft samband sín á milli? Í jarðneskum líkama er slíkt samband skammvinnt og óstöðugt. Í fíngerða líkamanum er slík eining einnig ótraust. Það eru aðeins ljóshjúparnir sem geta tengst traustum böndum. Aðeins á hinum eina geisla brennipunktsins er gagnkvæmur skilningur mögulegur. Reynum því að skilja bræðralagshugtakið eins og það er í innsta eðli sínu, því annars er skilningur okkar bundinn jarðneskum takmörkunum og því gagnslaus. Við getum hvorki umlukið fullkomlega hinn leiðandi segul í jarðneska né fíngerða líkamanum, það er aðeins unnt í fræi andans, í því ljósi sem gefið er, ljósinu handan ímyndunaraflsins. Sá sem ekki skilur æðri leyndardóm Bræðralagsins ætti að varast að vanvirða þetta hugtak. Lát hann kafa enn einu sinni inn í fíngerða heiminn og læra um ljóma og dýrð æðri heimsins. Ef til vill mun ferðalangurinn taka með sér einn ljósgeisla þegar hann heldur aftur upp á við.

Við skulum temja okkur aðgæslu þegar bræðralagshugtakið ber á góma.

132. Spegilmynd er skýr á sléttu yfirborði. Sérhver ókyrrð gerir myndina óskýra. Frumorkan þarf einnig á rósemi að halda til að geta endurspeglað sannleikann. Drögum ekki þá ályktun að rósemi sé vottur um afturför og veiklun. Það er aðeins óreiða og uppnám sem getur brenglað spegil orkunnar.

Menn ræða mikið um rósemi viturra manna, en ró þeirra er í raun mikil spenna, svo mikil að yfirborð orkunnar verður sem spegill. Við skulum því ekki ganga að því sem gefnu að rósemi sé hið sama og athafnaleysi.

133. Rógburður og niðrun svartbræðranna er sem lof. Við getum fylgst með því hvernig þjónustuandinn aðstoðaði við byggingu mustera. Hann gerði sér ekki grein fyrir hve mikið var hægt að nýta af verki hans. Hægt væri að rita bók um starf þjónustuandanna.

134. Við getum fylgst með mönnum sem hafa í sér allt frá barnæsku eiginleika bróðurlegrar samvinnu. Þeir greina sig oftast skýrt frá öðru fólki. Þeir búa yfir þjálfaðri athyglisgáfu og næmni þeirra er mikil. Meðalmennskan fullnægir þeim ekki, og þeir sneiða hjá skemmtunum og afþreyingu sem almennt er stunduð. Sjá má að þeir virðast sinna einhverjum innri starfa sem er hluti af innra lífi þeirra. Þeir taka eftir mörgu og geyma það í vitund sinni. Samúð er eiginleiki sem þeir eru oftast gæddir, því það er eins og þeir muni hve mikils virði hún er. Grófgerð framkoma hneykslar þá, því þeir virðast skynja hve allt slíkt er lítilmótlegt. Þeir einbeita sér að viðfangsefnum sem eru þeim hjartfólgin, en allt í kringum þá ríkir öfund og illvilji, því fólk skilur þá ekki og þeir eru flestum framandi. Það er ekki auðvelt að lifa lífinu með upphafinni vitund, því hún getur ekki sætt sig við það almenna viðhorf að hafna öllu sem leiðir til ljóssins.

Sjaldgæft er að hitta fyrir þá sem þannig eru útvaldir. Oft eru þeir alveg óþekktir. Þeir eiga sér draum sem ættaður er frá fjarlægum slóðum, en flestum virðist hann jaðra við brjálsemi. Hugtakið „heilög brjálsemi“ er ættað langt aftan úr öldum. Oft er rætt um visku sem brjálsemi. Á líkan hátt ræða menn um upphafna vitund. Við skulum ekki gera ráð fyrir því að þessar grundvallarreglur séu almennt þekktar, því í raun eru þær algerlega vanræktar heilu tímaskeiðin.

Þannig fæðist bræðralagshugtakið með erfiðismunum í vitund mannkynsins.

135. Rökkur andans verður til af völdum mannsins sjálfs. Arfleifð fíngerða heimsins verður engu raunverulegri en draumsýn. Hún mætir jafnvel fjandsemi rökhyggjunnar. Rökhugurinn getur ekki viðurkennt fyrirbrigði æðri heimsins. Eldleg geislun reynist honum ákaflega þung í skauti.

136. Það er mikilsverður hæfileiki að vita hvernig á að umgangast fólk með tilliti til vitundareiginleika þess. Gleymum því ekki að meginhluti allra ólána stafar af skorti á slíkri matshæfni. Ógerlegt er að setja neitt fram, hversu gagnlegt sem það kann að vera, ef vitundargeta einhvers í hópnum ræður ekki við það. Ekki er ráðlegt að ræða um samhljóm eða samsetta sveiflutíðni við mann sem ekki er viðbúin slíku umræðuefni. Hver getur gert sér í hugarlund hvað slíkum manni muni detta í hug þegar minnst er á samhljóm eða samsetta sveiflutíðni? En hann mun skilja ef rætt er um nauðsyn þess að vernda umhverfið. Einföldustu hugtökin varðandi umhyggju eru traustasti grunnurinn til að byggja á samvinnu bræðralags. Það er æskilegt að öll samvinna sé um leið þjálfun í umönnun. Með henni er einnig tjáð aðgát, umhyggja, samúð og sjálfur kærleikurinn. Hversu mikla orku má ekki spara með umönnuninni einni saman! Hægt er að koma reglu á svo margar kosmískar svaranir andans með einfaldri umönnun. Við getum ekki gert okkur í hugarlund hve mikið geislahjúpur heimilis styrkist þar sem umönnun er auðsýnd af innileik og staðfestu. Hjá mörgum er engan skilning að finna á Helgivaldinu, en jafnvel í þeim tilfellum mun umhyggjan stuðla að því að bæta ástandið – það gerist einfaldlega með því að menn sýni hver öðrum umhyggju! Hér erum við ekki að tala um neina mikla skyldu, en samt er hún sem hyrningarsteinn.

137. Menn ræða mikið um siðmenningu, en þetta frumatriði má ekki gera of flókið. Nauðsynlegt er að líta einfaldari augum á umbætur í lífinu og eflingu siðgæðis. Hver sem er meðvitaður um möguleikann á betra lífi mun gæta vel að allri fegurð. Við verðum ætíð að efla hið góða með okkur.

138. Vakandi aðgát gerir mönnum kleift að veita mörgum ytri áhrifum athygli, en jafnvel slík viðleitni er aðeins þroskuð með langri þjálfun og reynslu.

139. Við skulum bera saman ávexti af hugrænu starfi og það sem áunnist hefur í jarðneskum athöfnum. Athyglisvert er að sjá hinn mikla fjölda hugrænna lausna samanborið við það hve litlu hefur verið komið í verk á jarðneska sviðinu. Sérhver hugsun til góðs er vissulega mikils virði. Það er lærdómsríkt að sjá hversu leiðin til að umbreyta hugsunum í jarðneskar athafnir hefur verið gerð torveld. Menn geta svo sannarlega undrast hvers vegna hugsanir hafa verið svo fjarlægar athöfnum!

Nægilega sterk hugsun þarf ekki stuðning athafna, en auk slíkra einstakra hugsuða er mikill fjöldi góðra hugsana, en þær eru ekki nægilega kraftmiklar til að vekja hugræna svörun, og verða því aldrei að veruleika í athöfn. Eins og ætíð einkennist slík hálfvelgja af óvirkni og aðgerðarleysi. Hún getur hindrað heilbrigða framför mannsins.

Veitum því liðsinni okkar af alúð, til að allir vísar góðra hugsana geti komið að gagni í athöfnum.

140. Sérhver framför birtist sem athöfn, en ekki er auðvelt að dæma um hvaða athöfn hæfir hugsuninni best. Mörg aukaatriði þvælast fyrir og móta á sinn hátt allar tilraunir til athafna. Við þurfum að vera gædd mikilli þolinmæði og næmri athyglisgáfu til að geta ratað um frumskóg þeirra mótsagna sem óskapnaðurinn myndar. Við verðum að unna starfi okkar til að það geti veitt okkur hvíld og lífsfyllingu.

141. Spyrja má: „Mun læknum fækka við það að góðum lyfjum fjölgar?“ Slíkt væri mikil ógæfa. Mikil þörf er á læknum, ef með orðinu læknir er átt við vel menntaða velgerðamenn mannkyns. Vissulega geta lyf, sem gerð eru á hefðbundinn hátt, valdið sjúkdómum. Slíkum sjúkdómum verða læknar að sinna sérstaklega í hverju tilfelli fyrir sig. Beita þarf hárfínni samsetningu lyfjagjafa og sefjunar. Við erum ekki að ræða um skurðlækningar, því það svið þarf ekki á nánari umfjöllun að halda, sé því haldið innan réttra marka. Skurðlæknir sem gerir óþarfa aðgerð er oft líkt við morðingja. Því er einnig á þessu sviði þörf fyrir sanna innsæisþekkingu.

Vandi læknisins vex til muna ef um er að ræða flókna samtvinnun margra sjúkdóma; slíkum tilfellum fer fjölgandi. Mögulegt er að meðhöndlun eins sjúkdóms valdi því að annar sjúkdómur verði illskeyttari. Jafnvel nú á tímum vantar góða læknisþjónustu á mörgum stöðum. Ástandið veldur því að almennt dregur úr lífsþrótti. Úrkynjun er ekki neinn hugarburður. Alls staðar má greina ummerki slíkrar ógæfu. Slíkar hörmungar skaða ekki eingöngu núverandi kynslóð; þær skemma einnig fyrir mannkyni framtíðar. Sagt verður að þessi viðvörun sé ekki ný af nálinni. En sé svo, hvers vegna hafa menn ekki brugðist við henni fyrr?

Bræðralag fær þrifist við aðstæður þar sem fullkomin heilbrigði er ríkjandi.

142. Leiðið ekki þá sem ráðvilltir eru til hinna fjarlægu pláneta. Af vankunnáttu munu þeir ekki kunna fótum sínum forráð. Lát þá fyrst efla vitund sína með námi á jörðinni. Lát þá læra um samvinnu, traust og aga. Hægt er að gefa mönnum gagnleg verkefni við umbætur í lífinu. Rjúfum hvorki né truflum störf manna, því það myndi aðeins rugla þá í ríminu. Það eru ekki undantekningarnar sem miða þarf við heldur allur fjöldinn. Gefum því í byrjun það sem nauðsynlegast er. Hvers konar bræðralag er mögulegt ef undirstöðurnar vantar?

143. Sundurlaus brot gera skilning á grundvallaratriðum tilvistar erfiðan. Nauðsynlegt er að finna tenginguna milli jarðneska heimsins og fíngerða heimsins. Ekki með skrifuðum orðum, heldur í hjartanu, er nauðsynlegt að vita hvers menn þarfnast. Áhyggjur og þjáningar benda til þess að mörg mistök hafi verið gerð. Þeim veldur sú staðreynd að oft höfðu menn aðeins í huga einhvern ákveðinn hóp en ekki allt mannkyn. Menn þurfa á hollráðum að halda.

144. Bóndinn undirbýr og bætir akurinn, sáir tímanlega og bíður með þolinmæði fyrstu sprotanna og uppskerunnar. Hann girðir akurinn svo skepnur troði ekki niður hinn unga gróður. Sérhver bóndi þekkir orsakir og afleiðingar. En svo er ekki í samskiptum manna; menn kæra sig hvorki um að þekkja orsakir né afleiðingar. Þeir láta sig vaxtarsprotana litlu skipta, og vilja að allt gerist að eigin geðþótta. Þrátt fyrir mörg dæmi efast menn um hin kosmísku lögmál. Þeir sá fúslega orsökum, en kæra sig ekki um að íhuga að illgresi kunni að verða þeirra eina uppskera.

Í skólum ætti að bjóða upp á umræður um orsakir og afleiðingar. Lát kennarann tilgreina orsök og nemana íhuga hugsanlegar afleiðingar. Slíkar umræður draga fram eiginleika nemanna. Mögulegt er að ímynda sér margar afleiðingar af einni orsök. Aðeins víðfeðm vitund mun skilja hvaða afleiðingar muni hljótast af ráðandi kringumstæðum. Látum ekki þá staðreynd villa um fyrir okkur að jafnvel einfaldur bóndi geti reiknað út uppskeru sína. Kosmískir straumar og hugræn átök eru margfalt flóknari. Lát unglingana venjast flóknum afleiðingum og áhrifum hugsana úr geimnum allt frá barnæsku. Ályktum ekki að nauðsynlegt sé að viðhafa sérstakar varnir gegn því að unga fólkið noti hæfileika sinn til hugsunar.

145. Menn vita meira en þeir hyggja. Þeir heyra um líf í fjarlægum heimum. Þeir vita um orku og strauma. Þeir tengjast mörgum fyrirbrigðum náttúrunnar. Það er aðeins spurningin um það hversu móttækilegir þeir eru fyrir þessum upplýsingum. Á þessum tímum, þegar hraði uppgötvana fer vaxandi, er sérstaklega nauðsynlegt að skíra vitundina. Grundvallaratriði siðfræðinnar verða, eða öllu heldur ættu að verða, ein eigind þekkingar; að öðrum kosti verður gjáin milli þekkingar og siðgæðis hættulega víð.

146. Mörg fræ munu spíra á einu ári. Eðli Harmagedón felst ekki eingöngu í því að vinna úr gömlum orsökum, heldur ekki síður í því að mynda nýjar. Rétt er að minnast þess sem gefið var í skyn fyrir tíu árum. Orsakirnar eru farnar að birtast í afleiðingum. Ef til vill sagði einhver eitthvað afdrifaríkt í skjótræði, og á tíu ára tímabili hefur það annað hvort leitt til eldsloga eða vatns. Þannig vinnur hugsun.

147. Ekki er mögulegt að fjarlægja neina liti úr regnboganum, ekki hið smæsta litbrigði. Eins er ógerlegt að afmá jafnvel hinn smæsta hlekk úr fræðslu lífsins. Regnboginn birtir allt tíðnisviðið, og fræðsla lífsins veitir mönnum útbúnað á ferðum um alla stigu. Ferðamaðurinn lætur sér jafn annt um yfirhöfn sína, höfuðbúnað og fótabúnað. Engum dettur í hug að segja að hann kjósi hatt umfram skó eða hið gagnstæða. Þegar því einhver kýs ákveðinn hluta fræðslunnar fram yfir annan, er honum farið eins og ferðamanni sem gleymt hefur skóm sínum.

Eitthvað getur virst ónauðsynlegt í dag, en á morgun gæti það einmitt verið hluturinn sem nauðsynlegur er til fararinnar. Til eru menn sem þurfa mest á hinu einfaldasta að halda. Ógerlegt er að ímynda sér allan fjölbreytileik mennskrar vitundar. Betra er að þeim leiðist um stund sem þekkinguna hafa en að einhverjum verði hafnað endanlega. Nýjar aðferðir til fullkomnunar birtast óvænt, og erfitt er að greina hvar nýja samstarfsmenn er að finna.

148. Menn leita árangurslaust nýrra lækninga og lyfja án þess að hagnýta það sem fyrir er. Jafnvel mjólk og hunang eru ekki nýtt sem skyldi. Hvað getur verið betra en einmitt afurðir úr jurtaríkinu sem farið hafa í gegnum sérstaka endurvinnslu næsta þróunarríkis. Hægt er að neyta mjólkur og hunangs í óendanlegri fjölbreytni, og þau eru ein besta forvörn gegn sjúkdómum séu þau nýtt af skynsemi og á vísindalegan hátt. Aðalatriðið er ekki eingöngu það að drekka mjólk og borða hunang; menn verða fyrst og fremst að íhuga hvers konar mjólk og hvers konar hunang. Rétt er að álykta að besta hunangið komi frá þeim stöðum þar sem mikið vex af læknandi jurtum. Hafa verður í huga að býflugurnar safna ekki birgðum sínum á tilviljunarkenndan hátt. Sagnir um býflugur hafa sérstakt gildi á þann hátt að beina athyglinni að einstökum eiginleikum hunangs.

Að auki er nauðsynlegt að rannsaka betur margar grænmetisafurðir. Menn meta hluti á svo frumstæðan hátt, því þeir gera sig ánægða með umsagnir eins og „gott og slæmt,“ „ferskt og skemmt;“ auk þess eru þeir hreyknir yfir stærð og magni afurðanna, en gleyma því að óeðlileg stærð rýrir gæði vörunnar. Mönnum sést yfir jafnvel svo einfalda athugun. Til að byggja upp lífsþrótt er nauðsynlegt að kjarni hans sé fenginn úr öllum ríkjum náttúrunnar.

149. Samfelldni er einn frumeiginleiki hinna fíngerðu orkutegunda. Menn geta einnig tekið dæmi frá æðri heimum fyrir jarðneska tilveru. Erfitt getur verið að vinna án afláts, en mögulegt er að skilja fullkomlega þessa hæfni við andlega viðleitni. Við, vegfarendur Jarðar, getum tengst æðri heimum í andanum; slíkt samband gerir okkur kleift að vera nátengdir hinum ósýnilegu heimum. Slík eining fræðir okkur einnig um jarðneska einingu. Byrjum á hinu æðra, en verum jafnframt staðföst í hinu lægra. Ekki er auðvelt að viðhalda jarðneskri einingu. Margar smávægilegar aðstæður og atburðir trufla og koma í veg fyrir góðar fyrirætlanir. Aðeins með því að láta reyna á krafta í æðri verkefnum er mögulegt að viðhalda stöðugum samskiptum við hinn æðri heim. Einnig í svefni er unnt að viðhalda tengingunni við uppsprettu þekkingarinnar. Þannig geta menn viðhaldið eiginleika æðri heimsins – samfelldni – í því sem snýr að jarðneskri tilveru.

Ógerlegt er að ákvarða samsetningu og gerð geimkrafta; mikill fjöldi samsettra strauma fylla óendanleikann, en ekki einn einasti þeirra mun glatast úr vef Heimsmóðurinnar. Þegar viðleitni til æðri heimanna vaknar ummyndast allt lífið. Ekki geta allir skilið hvernig ummyndun alls lífs er að gerast. Unnt er að endurtaka fyrir sjálfum sér hugsunina um samfelldni, og spinna hluta vefsins á hverjum degi.

150. Menn vita ekki hvernig á að finna hið allra fegursta. Þeir gleyma sínum bestu stundum hugljómunar. En slíkar stundir veitast öllum, þrátt fyrir margvíslegar kringumstæður. Andartak hugljómunar leiftrar sem demantur. Andartakið er örstutt, en sú skamma stund felur í sér samband við hinn yfirjarðneska heim. Slík snerting er ógleymanleg! Hún er sem ljósgeisli á jörðu og tekur vitsmununum fram. Varðveitum hina yfirjarðnesku neista af alúð.

151. Skerðing á hugsanafrelsi er mikill glæpur. Slíkt er á engan hátt hægt að réttlæta. Afleiðingin verður aðeins sú að kalla fram meira ofbeldi, og hvenær mun þá óhæfuverkunum linna? Rangt er að álykta að það sem skapað er í nafni haturs geti verið varanlegt. Ekki niðurrifsstarf, heldur aðeins uppbyggjandi starf, eykur mátt til frjálsar hugsunar.

Hugsun ber að vernda. Við verðum að unna sjálfri athöfninni að hugsa.

152. Uppsöfnuð lög af reynslu athugana um mörg æviskeið samfellt, sem geymast í djúpum vitundarinnar, nefnast blundandi viska. Unnt væri að gera athyglisverðar tilraunir með því að athuga hvenær maðurinn nýtir sér upplýsingar úr þekkingarbanka sínum. Gera mætti samanburð á því og arfleifð hans frá fyrri kynslóðum sem birtir erfðaeinkenni kynstofnsins. En maðurinn safnar sínum eigin sjóðum á andlegri vegleið sinni og gætir þeirra í vitund sinni. Fróðlegt er að gefa gaum þeirri þekkingu og tilhneigingum sem maðurinn gefur til kynna strax í bernsku, því ekki er unnt að skýra slíkt á annan hátt en að um sé að ræða þekkingu frá fyrri æviskeiðum. Þess heldur er nauðsynlegt að veita slíkum einstaklingsbundnum tilhneigingum athygli; þær kunna að gefa til kynna hæfileika sem síðar gætu skaðast af röngu uppeldi. Á fornum tímum gerðu menn sér grein fyrir blundandi visku, því þá höfðu menn skilning á andlegum uppruna mannsins. Aukinn þroski vitsmunanna olli vissu tapi og hindraði eðlilega þróun hinna duldu krafta mannsins.

153. Í sumum mönnum hefur frumorkan hætt að bæra á sér. Þá höfum við nefnt lifandi nái. Þeir eru ófáir sem halda áfram efnislegri virkni þó orka þeirra sé deyjandi. Frá slíkum mönnum má finna fyrir svipuðum áhrifum og stafa frá líki – því þeir eru í raun lifandi lík. Þeir tilheyra ekki lengur jörðinni. Samt hreyfa þeir sig, sofa og gefa frá sér hljóð. Astrallíkaminn hreyfist einnig og kann að vera sýnilegur! Háþróaðir menn geta gert sér grein fyrir þessu ástandi og séð þessi lík sem hafa gleymst á jörðinni. Hæfnin til slíkrar skynjunar tilheyrir venjulega þeim sem hafa dvalið mörgum sinnum í hinum mismunandi heimum.

154. Heimurinn hraðar för – hér undir merkjum styrjaldar, þar undir afskræmingu léttúðar, hér undir verkum haturs, þar undir orðum leiðtoga ríkisins. Sérhver flýtir eigin ferð, en hyggur ekki að því hvað verður um hinn ofkeyrða hest! Ímyndið ykkur ekki að unnt sé að nota og miðla orkunni endalaust þegar spenna hennar er slík.

155. Sjálfsfórn er ein hinna sönnu leiða til Bræðralags. Hvers vegna er þá brýnt fyrir mönnum að varðveita krafta sína? Í þessu er enga mótsögn að finna. Leiðin gullna, leið samfjöllunarinnar, leggur áherslu á hvor tveggja – að ná árangri og gæta varúðar. Ella myndi allt leiða til sjálfseyðingar. Afrek eru unnin með fullri vitund og ábyrgð. Enn gæti einhver fundið mótsögn; en allsráðandi kærleikur getur kennt mönnum að tengja saman æðri eiginleika. Brjálsemin vinnur engin afrek. Hugleysi getur ekki komið í staðin fyrir sanna varkárni. Meðvitaður skilningur á skyldu kallar á rétta hagnýtingu orku. Lát menn íhuga samsvörun eiginleika.

Brjálsemi og hugleysi hæfa ekki Leiðinni.

156. Margt er rætt um lífsskilyrði á plánetum, en fágætt er að finna þann sem skynjar svo fjarlægar aðstæður. Jarðneskt eðli manna er ekki móttækilegt fyrir slíkum hugmyndum. Jafnvel hugsun manna um líf á fíngerðum sviðum tekur ekki til fjarlægra samferðamanna. Eldleg vitund ein, sameiginleg öllum heimum, getur skilið og vitnað um fjarlægar lífverur. Þar af leiðandi er aðeins hinum eldlega vitundarkjarna unnt að fást við slík viðfangsefni.

Þeir íbúar jarðar sem hafa bæði þroskaða innri líkama og háleita eldlega vitund geta fengið vísbendingar um hina fjarlægu heima.

157. Jafnvel í dáleiðslu ræða menn sjaldan um fíngerða heiminn. Jarðneskur vilji getur ekki fengið neinn til að tala um fíngerða heiminn. Hver er ástæða þess? Hana er að finna í Helgivaldinu sem gætir þess að upplýsingum sé ekki dreift að þarflausu. Sú almenna skoðun er ríkjandi að í fíngerða heiminum sé einstaklingseðlið ráðandi, en hið rétta er að þar er lögmál Helgivaldsins ráðandi og enn meir á æðri sviðum. Ráðandi stjórn með hugsun verður fýsileg þegar hin efnisþétta líkamlega hindrun hefur verið yfirstigin. Þegar ég því ræði um Helgivaldið, er ég að búa ykkur undir að taka meðvitað við framförum framtíðar.

Til eru tvær manngerðir: önnur veitir viðtöku öllu hinu uppbyggjandi lögmáli Helgivaldsins, en hin leggst með offorsi gegn öllu sem miðar að því að nálgast Helgivaldið. Sjá má hve mjög slíkt fólk berst gegn ráðleggingum Helgivaldsins. Þessu stigi þróunar, eða fáfræði öllu heldur, er eingöngu hægt að breyta með prófraunum fíngerða heimsins. Aðeins þar er unnt að taka á móti hugsun úr geimnum og skynja hinn óbreytanlega stöðugleika í óendanleika Helgivaldsins.

Reynum ekki að halda fram tilvist Helgivaldsins þar sem menn geta ekki viðurkennt hana. Sá sem býr yfir nægilegri reynslu bregst strax við orðum um Helgivaldið, en hinir vanþróuðu geta ekki skilið þau.

158. Samt sem áður komast upplýsingar um fíngerða heiminn til jarðar. Slíkum tíðindum er leyft að berast, að svo miklu leyti sem það er hægt án þess að valda ruglingi hjá hinni hjúpuðu vitund. Menn ættu að veita athygli börnum sem hafa ekki aðeins minningar um fyrri æviskeið, heldur muna einnig vissa atburði frá fíngerða heiminum. Þó svo þessar upplýsingar séu í brotum, getur hinn reyndi fræðimaður raðað þeim saman í rökrétt samhengi. Aðalatriðið er að hafna ekki strax öllu sem virðist óvenjulegt eða ólíklegt við fyrstu sýn.

159. Sannarlega, leið þvingunar líkist leið vímuefnanna. Sá sem tekur vímuefni verður sífellt að auka skammtinn af eitrinu. Á sama hátt verður stöðugt að auka þvingunina, allt þar til hún nálgast stig brjálsemi. Sé þvingun rofin er veruleg hætta á því að myrkraöflin nái yfirráðum. Af því má sjá að þvingun er gagnslaus fyrir þróunina. Meðvituð varurð stríðir gegn þvingun. En þar sem varurð skortir hrynur öll byggingin.

160. Undrist ekki að einföldustu dæmin reynast mest lýsandi. Við upphaf langrar ferðar hlakka menn til að sjá fagra staði; ef slíkt gerist ekki verður öll ferðin þeim mjög leiðigjörn. Á sama hátt skulum við læra að unna hugmyndinni um fíngerða heiminn og hina fjarlægu heima. Hægt er að hræðast svo mjög hina fjarlægu heima að ekki virðist gerlegt að stíga eitt einasta skref í átt til þeirra. Menn gera sér venjulega svo drungalega mynd af öllu sem snýr að öðrum heimi að hægt er að líkja þeim við sorgmæddan ferðalang sem týnt hefur öllum farangri sínum. Styrkjum okkur heldur með hugsunum um hina bestu möguleika til árangurs á hinni fjarlægu leið. Með því móti færumst við inn í ríki hugsunar. Þjáningar eru ómögulegar þeim sem hugsar fagrar hugsanir! Hann gengur inn í hús Föðurins og skynjar fyrirfram alla hina blessuðu fjársjóði. Á sama hátt skulum við skynja leiðina til Bræðralags.

161. Menn kunna vel við sannanir með hagnýtum dæmum. Þó svo að hin innri merking sé ekki ætíð sambærileg, meta menn slíkar vísbendingar mikils. Straumur árinnar líkist aðeins lítillega flæði lífsins, samt hefur slíkur samanburður verið notaður um langt skeið. Eins er ör ekki fyllilega sambærileg við hugsun, en hefð er fyrir því að nota slíka samlíkingu. Íþyngjum ekki vitund nýliðanna um of; höfum byrðina þannig að þeir geti borið hana á leið sinni.

162. Í heimspekifræðum til forna var lagt til að menn hugsuðu um hina fjarlægu heima eins og þeir sjálfir tæku þátt í lífi þeirra. Slíkar vísbendingar hafa verið gefnar með ýmsu móti. Hvert er meginatriði þeirra? Ólíklegt er að þær séu aðeins táknrænar frásagnir. Áhersla sú sem lögð er á þátttöku í slíku, sýnir hversu mikils menn mátu hugsanir um hina fjarlægu heima. Geislar frá plánetunum eru máttugir, og þeir hafa mikil áhrif á mannkynið. En hugsun meðtekur máttuga strauma, og mannkynið getur með góðum árangri viðurkennt tilvist hinna fjarlægu heima með hugrænu starfi. Vissulega er nauðsynlegt við slíka skynjun að hugsa sér þá mjög nærri. Hugsun myndar sérstakt andrúmsloft, í því er mögulegt að ummynda strauma frá plánetunum þannig að þeir hafi jákvæð áhrif. Á hinn bóginn geta þessir sömu straumar haft slæm áhrif ef þeim er mætt með hugsun sem einkennist af höfnun. Ekki er nauðsynlegt að hugsa án afláts um hina fjarlægu heima. Hið mikilvæga er að beina til þeirra einfaldri grundvallarhugsun, og hún mun flæða með eðlilegum hætti í vissa stefnu. Hugsun er af tveim gerðum: útræð og innræð. Áhrif hugsunar sem er útræð má nema með tæki, en innræð hugsun er næstum ógreinanleg, þó svo hún hafi sinn sérstaka litblæ og efnaverkun.

Látum hugsun um hina fjarlægu heima vera einfalda og lausa við efa; efi er eins og brúnt gas. Þannig verður okkur ljóst að hin fornu heimspekifræði hafa að geyma ákaflega gagnlegar vísbendingar.

163. Einstaklingsbundin sérkenni fela í sér óútskýranlega aðlöðun eða höfnun, og virðast gefa til kynna traustar sannanir fyrir endurholdgun. Ekki er unnt að útskýra með öðru móti þessar óviðráðanlegu tilfinningar. Gagnslaust er að reyna að útskýra þær sem erfð áhrif, því hægt er að sýna fram á að þær eru ekki á neinn hátt tengdar siðvenjum forfeðranna. Hinn sérstaki kraftur þessara áhrifa gefur til kynna að þau hafi djúpar rætur í vitund einstaklingsins. Þau eru svo fastmótuð að dáleiðsla getur ekki unnið bug á þeim. En ef athuguð væru röð æviskeiða einstaklings, myndi koma í ljós að sérkennin væru eðlileg afleiðing þess sem áður hefur gerst. Það er því einstaklega lærdómsríkt að athuga slík fastmótuð einkenni. Þau leiða í ljós bæði eðlislæga hæfni mannsins og hvers konar umhverfi er honum hagstæðast. Gleymum því ekki að sérhver jurt grær best í mold sem hæfir henni; á sama hátt eru þær aðstæður nauðsynlegar í lífi mannsins sem eru honum eðlilegar og viðeigandi.

Lát stjórnendur læra hvernig best er að rækta hinn mennska garð.

164. Það er nauðsynlegt að sigrast á tómleikatilfinningunni. Margt skaðlegt fylgir í kjölfar þessarar blekkingar; menn glata ábyrgðartilfinningu og afleiðingin eru blekkingaráhrif þess að stökkva út í tómið og leysast upp í því. En hvað um hin óafmáanlegu fræ? Með skilningi á þeim byggist upp vitund um fyllingu og þéttleika geimsins. Slíkt er grundvöllur ábyrgðartilfinningar. Byrjum því með umhugsun um fræ andans og víkkum síðan út hugsunina þannig að hún feli í sér allan geiminn.

165. Verum ekki undrandi á því að sum nöfn eru ekki borin fram. Þannig er unnt að skilja muninn á hugsun og orði á lægri sviðunum. Hugsun skynjast ekki, og aðeins hljómur orðs getur ljóstrað upp því sem á að halda leyndu. Beitum því dómgreind okkar þegar við berum fram og skrifum nöfn, því hið ritaða dylst ekki.

166. Enn á ný skulum við minnast á mismun samvinnu og bræðralags. Ég verð var við að þetta vekur undrun, eins og menn telji að þessi hugtök séu eitt og hið sama. En þau eru mismunandi þróunarþrep. Samvinna birtist greinilega í ytri athöfn, en bræðralag skynjast í djúpum vitundarinnar. Samstarfsmenn geta verið á mismunandi vitundarstigi, en bræður tengjast hver öðrum í samræmi við vitundarskyldleika. Bræður starfa ef til vill ekki mikið saman á hinu ytri sviði, en hugsun þeirra er nátengd. Þeir sameinast í frelsi, og eining þeirra er þeim aldrei byrði né fjötur. En einmitt þeir munu skilja hvernig einingin er máttugur kraftur til góðs fyrir heiminn. Ógerlegt er að takmarka slíka einingu, því hún grundvallast á kærleik. Þannig verður samvinna til að búa menn undir skilning á bræðralagi.

Menn eru oft ekki færir um að skynja hvar ytri athafnir enda og hvar hin óafmáanlegu frumatriði hefjast. Lítið ekki svo á að óþarft sé að leggja áherslu á grundvöll bræðralags. Erfitt er að gera sér í hugarlund allar þær fölsku hugmyndir sem vakna við umræður um bræðralag. Þeir sem ekki hafa fengið fræðslu halda að Bræðralagið sé goðsögn, og að allir geti reist turna eftir eigin höfði. Þeir telja að ósannaðar sagnir um Bræðralagið geti ekki sannfært skynsemina; en enginn hefur áhuga á því að sannfæra þá. Eins getur enginn komið á samstarfi með þvingunum. Fólk uppgötvar af sjálfsdáðum nauðsyn samvinnunnar. Á sama hátt mun það uppgötva staðreynd Bræðralagsins.

167. Fágætt er að rekast á vitundarstig sem er vakandi og opið, vitund sem takmarkar sig ekki með ótta, efa, illvilja né hræsni. Sjá má að skaðlegar takmarkanir koma ekki að utan; þær hrærast fyrst og fremst í afkimum vitundarinnar.

168. Sjaldgæft er að menn geti gengið fram hjá beiðni um hjálp án þess að hjarta þeirra verði snortið. Hugsanlegt er að siðlaust hjarta láti hjá líða að rétta hjálparhönd, en samt er því brugðið. Tjá má hjálparbeiðni í orðum eða einstöku hljóði, en hjartað birtir sömu merkinguna. Áköll í geimnum geta einnig verið brotakennd og orðin merkingarlítil, en það er innri merking þeirra sem er mikilvæg. Ekki er sjálfgefið að bergmál fjarlægrar hugsunar hafi tapað merkingu sinni; jafnvel einsatkvæðisorð hafa sín áhrif. Stundum streymir hjá röð andlita; þau eru ef til vill ekki kunnugleg, samt er unnt að skynja margvíslegt hugarástand. Á þann hátt er mögulegt með skynjun að byggja upp heildarmynd af heilum þjóðum. Hægt er að skynja hvar menn deila, hvar menn syrgja, hvar menn fagna – slík merki kenna mönnum að beita athyglisgáfunni. Ekki aðeins getur flókið bergmál atburða gefið tilfinningu fyrir almennu hugarástandi, heldur einnig stundum einstök upphrópun. Eins og einn hljómur á strengjum hljóðfæranna birtir tóntegund alls tónverksins, þannig hefur sérhver samhljómur í geimum sitt sérstaka gildi. Á orrustuvellinum ákvarðast örlög alls hersins á einum hljómi lúðursins. Enginn segir að menn eigi ekki að hlusta eftir fjarlægum merkjum. Margir lúðrar hljóma á jörðinni.

169. Er hægt að gera sér grein fyrir þeim truflunum sem hugrænar sendingar geta orðið fyrir? Erfitt er að gera sér í hugarlund í hvaða hliðarrásir er hægt að beina orkunni. Menn kunna að taka á móti þeim af slysni, en illviljaðar verur geta einnig nálgast. Slíkir hlerarar geta tekið við hugsanabrotum, og hægt er að ímynda sér þann óskaplega rugling sem það veldur öllum samböndum. Verum tilbúin að takast á við margvíslega atburði.

170. Reyndur leiðsögumaður vísar þyrstum ferðalangi hvorki of snemma né of seint á uppsprettulindina. Leiðsögumaðurinn mælir fyrir um hvíld í samræmi við getu ferðamannsins.

171. Allir húsráðendur vita að taka verður háttvíslega á móti gestum, en ekki er við hæfi að draga þá inn með valdi. Nákvæmlega sama gildir um hagnýtingu hinnar andlegu orku – beitum hana ekki valdi, en veitum viðtöku öllum verkunum hennar með virðingu. Lát hina fávísu fjölyrða um hve óæskilegt sé að nýta andlega orku. Þegar orkan er orðin virk er ógerlegt að hafna henni, og þá þarf að finna henni eðlilegan farveg í gagnlegri virkni. Lát hina lærðu fræða okkur um hvað gerast muni sé raforka spennt upp takmarkalaust. Lát þá segja okkur til hvers svo óhæfilega mikil spenna mun að lokum leiða. Ekki er unnt að mæla því mót að nú á tímum hafa straumar í geimnum aukist og eflst gríðarlega. Við höfum engan tíma til að hafna þeim; en nauðsynlegt er að hraða því að finna þeim gagnlega hagnýtingu. Margoft hefur verið bent á hættu hinna lægri dulargáfna. Af því leiðir að nauðsyn ber til að íhuga hina æðri orku, sem nefnd er andleg göfgi.

172. Óreyndir læknar leitast við að reka sjúkdóm inn á við í þeim tilgangi að forðast tímabundið hættuleg einkenni – þannig verða til gróðrarstíur sjúkdóma. En hinn reyndi læknir leitast við að þrýsta kveikjum sjúkdómsins upp á yfirborðið til að geta eytt þeim þegar tímar líða. Þessa aðferð ætti að nota við öll veikindi. Betra er að ganga í gegnum hættuleg sótthvörf en að eyðandi hrun nái valdi á öllu lífkerfinu. Mögulegt er að lifa af hættuleg sóttbrigði, og slíkt getur orðið til að hvetja til starfa nýja krafta í líkamanum. En upplausn og rotnun smita allt umhverfi sitt. Þannig skulum við skilja þetta á fjörutíu mismunandi vegu.

173. Hver sá sem gerir lítið úr hinu æðsta sýnir aðeins fram á upplausn sinnar eigin vitundar. Hinn illi afneitari verður spillingunni að bráð. Hann leiðir ekki hugann að eyðingunni sem óhjákvæmilega bíður hans. Menn kæra sig ekki um að vita hvað þeir hafa búið sjálfum sér í framtíðinni. Allir morðingjar ímynda sér að þeir geti sloppið við refsingu. En hvar er unnt að finna slíka friðhelgi?

174. Hugsið um uppbyggingu og framfarir á öllum dögum, jafnvel hinum erfiðustu. Rangt er að stefna með ákefð að takmörkuðu markmiði; lát uppbyggingu stafa af viðleitninni til Hins allra æðsta. Tindarnir eiga ekki að hverfa í skugga dalbotnsins. Látið ekki tilbúnar takmarkanir hefta ykkur. Hvaða gagn gerir þá óendanleikinn?

175. Mikils misskilnings hefur gætt um hugtakið ábyrgðarmikil þjónusta. Flestum finnst að þeir geti ekki valdið henni. Þeir vona að þeir sleppi undan slíkri ábyrgð. En við skulum beina huganum að nokkrum mikilhæfum þjónendum. Athugum hvort þeir hafi verið ósnertanleg ofurmenni. Pýþagóras, Plató, Boehme, Paracelsus og Thomas Waughan voru menn sem báru lampann sinn meðal félaga sinna undir hríð misskilnings og ávirðinga. Allir gátu nálgast þá, en aðeins fáeinir voru færir um að greina hina andlegu útgeislun undir hinu efnislega yfirborði. Við getum nefnt mikilhæfa þjónendur í austri, vestri, norðri og suðri. Við getum grandskoðað ævisögur þeirra; en við sjáum að andleg útgeislun er sjaldgæft fyrirbrigði. Lærum af raunveruleikanum.

Göngum ekki í lið með ófrægingarmönnum Platós og ofsækjendum Konfúsíusar. Þeir voru kúgaðir af mönnum sem taldir voru bestu synir landsins. Þannig lyftir heimurinn hendi sinni gegn miklum þjónendum. Þið getið verið þess fullviss að Bræðralag Pýþagórasar virtist hættulegt í augum borgarvarðanna. Paracelsus var skotspónn háðs og illgirni. Thomas Waughan var sem útlægur, og fáir sóttust eftir því að hitta hann. Þannig birtast yfirráð myrkursins. Myrkrið hefur einnig sín eigin lögmál. Þjónendur myrkursins veita „hættulegri“ þjónustu nána athygli.

Nýtum okkur dæmi úr fortíðinni til að bregða ljósi á vandamál nútímans.

176. Höfum í huga að máttaröfl myrkursins berjast stöðugt gegn bræðralagi. Ráðist verður með hörku gegn öllu sem minnir á bræðralag, hversu smátt sem það kann að vera. Allt sem leitt getur til bræðralags verður fordæmt og svívirt. Höldum því vöku okkar.

177. Sjá má í einföldum dæmum vísbendingar um gleymd grundvallaratriði. Óskýranlegir duttlungar barnshafandi kvenna minna okkur á endurholdgun, einkum þegar skapgerð barnsins er athuguð. Nútíma læknisfræði hagnýtir sér einnig hugmyndina um frumorkuna og bendir á að uppruna margra sjúkdóma megi rekja til ástands taugakerfisins. Talið er að ónæmi gegn sjúkdómum tengist ástandi taugakerfisins alls, og þannig er bent á gildi frumorkunnar. Hvernig er unnt að hafna tilveru hennar, ef vísindin veita henni sérstaka athygli? Er hægt að hafna grundvallarþættinum sem ónæmi byggist á? Fólki er sérstaklega annt um heilsu sína, en missir samt sjónar á því sem mestu máli skiptir. Hvernig er unnt að leiða hugann að bræðralagi ef grundvallaratriði lífsins eru vanrækt?

178. Það er rétt að geðveiki er gríðarlega algeng. Sjúkdómurinn verður að fá rétta meðhöndlun, en einnig er nauðsynlegt að uppgötva orsökina fyrir þessari miklu aukningu. Að auki þarf að fylgjast vel með veikgeðja fólki. Brjálsemi er smitandi. Sé barn veikt á geði má búast við að það þurfi að kljást við afleiðingar þess allt sitt líf. Menn eru sammála um að aðstæður séu almennt heilsuspillandi, en þrátt fyrir það leggjast menn gegn öllum tillögum um að bæta ástandið. Í því felst óttinn við allt sem raskað gæti undirstöðunum.

Skelfilegt er þegar hið dýrmætasta er í hættu! Menn verða sífellt að sýna varúð. Þegar ég bendi á nauðsyn einingar, hef ég í huga möguleikann á sprengingum. Mitt í eldi sprenginga verða menn að þræða með varfærni hina hættulegu leið.

179. Til að eyrað geti heyrt verða menn að hlusta. Nauðsynlegt er að beita meiri einbeitni til að hin innri heyrn geti greint sveiflurnar í geimnum. Ímyndið ykkur ekki að hugrænar sendingar geti náð til áfangastaðar síns sé þeim ekki veitt viðtaka. Fíngert skyn þarfnast næmrar athygli. Engin uppskera fæst ef engu er sáð; segjum þetta þeim, sem í sjálfumgleði sinni telja að fagrir fuglar komi fljúgandi til þeirra án þess að búast við frækorni.

180. Við hörmum hina almennt viðurkenndu hugmynd um þægindi og öryggi sem markmið í lífinu. Hún leiðir til deyfðar og tómleika. Við fögnum allri byrjun á hugsun, og Við metum ætíð mikils þann þrýsting sem viðleitni til framfara veldur. Hægt er að vitna til fjölda dæma úr eðlis- og aflfræði sem vitna um þrýsting sem mótandi kraft. Margir eiga erfitt með að viðurkenna þá staðreynd að þrýstingur sé í raun leiðin til framfara. En ef mannkynið skilur þessi sannindi, mun það einnig skilja hvað átt er við með framförum. Frá slíkum skilningi er ekki löng leið til bræðralags.

181. Vegfarandinn getur ekki séð fyrir hverju hann kann að mæta á leið sinni, en hann getur gefið sér tíma til að fylgja þeim sem eru á leið til næstu vegamóta. Hann ætti ekki að láta það á sig fá þótt hann sé stundum skilinn eftir í einsemd. Til eru leiðir sem erfitt er að fara í félagi með öðrum. Óslitin einbeiting að markmiðinu mun leiða til nýrra ferðafélaga. Á veginum er nauðsynlegt að stefna staðföstum skrefum að markmiðinu.

182. Sverð er hert í eldi og köldu vatni; á sama hátt styrkist andinn í eldi upphafningar og kulda rógs og vanþakklætis. Látum það ekki koma okkur á óvart að afreksverkum fylgi venjulega rógur og óhróður. Fylgifiskur þjónustu er vanþakklæti. Slík hersla hefur verið þekkt frá ómunatíð, en menn hafa ekki nægan skilning á andstæðum eigindum elds og vatns.

183. Listamanni var eitt sinn falið að teikna táknræna mynd af trú. Hann gerði mynd af manni sem sýndi fullkomna staðfestu. Andlitinu var lyft til himins, og það bar svip af ósveigjanlegri viðleitni; af andlitinu stafaði eldlegri geislun. Allt útlitið bar vitni um göfgi og háleitni, en undan klæðafaldinum hlykkjaðist lítill svartur snákur. Þegar listamaðurinn var spurður um þessa dökku viðbót sem ekki virtist í neinu samræmi við glæsileika myndarinnar, svaraði hann, „Þetta er ormur vantrúarinnar.“

Þetta táknar að oft getur læðst inn í sterka trú lítill svartur ormur vantrúar. Lát hann minna okkur á eitursnák. Slíkir smáir snákar geta dreift eitri sínu víða. Einn eiturdropi getur svipt geislandi trú gagnsemi sinni. Margt hefur verið sagt um hinn mikla mátt trúarinnar, en það verður að vera fullkomin trú, laus við eitrun.

184. Vantrúin er kristall efans. Þess vegna þarf að gera greinarmun á þessu tvennu. Hægt er að meðhöndla efa, sem er eitt form óstöðugleika, með andlegri orku, en vantrúin er næstum því ólæknanleg. Hinn vantrúaði sekkur niður í myrkt gljúfur og bíður þar skjálfandi þar til hann fær hreinsandi högg.

Vantrú gerir leiðina til bræðralags ófæra.

185. Þið sjáið hvernig orð Okkar eru vanvirt af þeim sem ættu þó að geta greint Sannleikann. Þess vegna bendum Við á nýliðana sem ekki eru sýktir af vantrú. Sannlega getur vantrúin verið margvísleg. Hún leynist bak við ýmis gervi. Nauðsynlegt er að greina hvar hinir banvænu litlu snákar felast.

186. Fólk heyrir oft raddir eins og verið sé að kalla á það. Stundum heyrir einhver svo greinilegt kall að hann fer að litast um, þó svo aðrir nálægir heyri ekki neitt. Er unnt að efast um að slíkar hugrænar sendingar geti átt sér stað?

Erfiðara er að skilja hvers vegna menn geta svo sjaldan veitt viðtöku hugsun sem send er á ákveðnum tíma eftir fyrirfram gerðri áætlun. Fyrst ber á það að líta að menn vita ekki hvernig þeir eiga að setja sig í sérstakt tiltekið hugarástand. Oft ýta menn hugsuninni frá sér í stað þess að taka við henni. Af þessari ástæðu koma oft aðrar hugsanir en þær sem ráðgert var að taka við, en það eru hugsanir sem falla að hrynjandi þeirri er ríkir í huga viðtakandans. Enn algengara er að menn taki við hugsunum frá fíngerða heiminum, vegna þess að þær falla betur að ríkjandi orkutíðni hugans. En menn veita hugsunum frá fíngerða heiminum of litla athygli. Ein ástæðan er sú að aðeins sterkir háleitir andar geta yfirunnið takmarkanir tungumálsins. Hér á jörðinni eiga menn oft í erfiðleikum með að skilja það sem sagt er, og enn erfiðara er að laga sig að fjarlægum sendingum. En það er þó engin ástæða til að láta hugfallast, því öll athygli sem beint er að hugsun leiðir til frekari hreinsunar vitundarinnar.

187. Líkt og blóðið þarf frumorkan stundum á útrás að halda. Þrýstingur hennar er sérstaklega mikill við eldlega þenslu. Hún dregst einnig að fólki sem hefur þörf fyrir hana. Í þessu tilliti er nauðsynlegt að greina á milli þeirra sem hafa raunverulega þörf fyrir hana og blóðsuga sem drekka hana í sig.

188. Hin helga fræðsla getur ekki staðnað í einhverju einu föstu formi. Sannleikurinn er einn, en sérhver öld, jafnvel sérhver áratugur, tengist honum á sinn sérstaka hátt. Nýjar síður opnast og mennsk vitund skynjar heiminn á nýjan hátt. Við leit sína uppgötva vísindin nýjar samsetningar. Þannig uppgötvun staðfestir grundvallaratriðin sem áður var búið að lýsa yfir. Sérhver ný framsetning hinnar miklu visku er óumdeilanleg, en hún mun fá sína sérstöku fylgismenn. Jafnvel þeir sem hafa andstyggð á Helgivaldinu virða boðbera þess. Heimurinn getur ekki lifað án hreyfingar, og birting hinnar helgu fræðslu byggist á því að menn taki framförum. Meðalmennskan kallar slíkar framfarir vanhelgun á grundvallaratriðum, en hugsuðirnir vita að lífið er hreyfing.

Jafnvel tungumálakunnátta eykur flæði nýrra uppgötvana. Hversu miklu meira hlýtur ófjötruð hugsun að færa! Sérhver áratugur birtir nýja hlið hinnar helgu fræðslu. Lesendur fyrir hálfri öld lásu hana á allt annan hátt. Þeir lögðu áherslu á allt aðrar hugsanir en þeir sem lesa hana nú á tímum. Tölum ekki um nýja fræðslu, því Sannleikurinn er einn! Nýjar upplýsingar og ný skynjun þeirra er aðeins framhald þekkingaröflunar. Hver sá sem hindrar þessa þekkingarleit fremur glæp gegn mannkyninu. Fylgjendur hinnar helgu fræðslu leggja ekki hindranir á leið þekkingaröflunar. Kreddutrú og ofstæki eiga ekki heima á leiðum þekkingarinnar. Hver sá sem getur hugsað sér að hindra þekkingarleit er ekki fylgismaður Sannleikans. Á umbyltingartímum verða menn að hlynna sérstaklega að sérhverri grein vísindanna. Þeir tímar, þegar miklar orkutegundir eflast, verða að taka opinskátt á móti þessum lýsandi leiðum. Tímar sterkrar viðleitni til æðri heimanna verða að vera verðugir slíks verkefnis. Deilur og erjur eru hlutskipti sóðanna.

189. Menn verða að skilja að illviljuð umræða er algerlega óleyfilegt í návist hinnar helgu fræðslu. Sundrung og upplausn eru hlutskipti illskunnar. Er viðeigandi að viðhafa illt orðbragð á leiðinni til bræðralags?

190. Heimskingjar geta haldið því fram að Bræður Okkar kyndi undir óánægju og erjum, þegar reyndin er sú að Þeir leita allra leiða til að sætta menn og stilla til friðar. Þeir eru reiðubúnir að sinna því erfiða hlutskipti að aðvara tímanlega þá sem hafa örlög þjóðar í hendi sér. Þeir hlífa ekki kröftum sínum við að koma boðunum fljótt til skila. Þrátt fyrir öll óþægindi bera Þeir ljósið sem kraftar myrkursins leitast við að slökkva. Samt þorna ekki fræ hins góða, og á tilsettum tímum munu þau blómstra. En hvað á að kalla þá sem skaða hið góða? Þeir geta bæði komið í veg fyrir að góðum ráðum sé sinnt og túlkað eðlilegar afleiðingar sem mistök. Með hvaða mælikvarða munu heimskingjar meta áhrif? Hvers vegna taka þeir á sig að dæma um það hvort góðum árangri sé náð eða ekki? Hvað getur gerst án aðstoðar Bræðralagsins? Erfitt er að ímynda sér hvernig sérhver mikil þjónusta er lögð út á versta veg!

191. Að ástæðulausu útskýra læknar marga kvilla sem hreint efnislegt ferli. Slímhúðarbólgu, berkla, kvef í höfði og hálsi, og marga aðra sjúkóma má fyrst og fremst rekja til taugakerfisins. Menn geta öðlast ónæmi með hugljómun og upphafningu taugaorkunnar, eða glatað vörnum sínum sem afleiðingu af taugaáfalli. Þessi einföldu sannindi eru virt að vettugi. Sá tími er þó ekki langt undan að hinir ólíkustu sjúkdómar verði læknaðir með því að vinna með orku taugakerfisins. Meðhöndlunin verður að fylgja sömu leiðum og vitundin byggist á. Menn munu uppgötva að unnt verður að stöðva framgang ólæknandi sjúkdóma með því að hafa áhrif á orku tauganna. Á hinn bóginn getur smávægilegur lasleiki náð hættulegu stigi ef ekki er gætt að kröftum taugakerfisins.

192. Ekki aðeins hafa fjendur mannkynsins fundið upp byssukúlur sem geta komist í gegnum hvað sem er, heldur hafa þeir einnig yfir að ráða nýjum tegundum eiturs. Ógerlegt er að stöðva flæði ills vilja. Aðeins óeigingjörn og stöðug áminning um hið góða getur stöðvað bylgju hinna skaðlegu áhrifa. Haldið ekki að áður fyrr hafi grimmd fólks verið minni en nú á tímum; svo er ekki, en nú er hún réttlætt með ótrúlega blygðunarlausri hræsni.

193. Ekki er ætíð unnt að öðlast samræmi í lífinu, þó svo að því sé haldið fram í orðum. Það er algeng villa að telja að hægt sé að mynda samræmi með röksemdum. Aðeins fáir skilja að hjartað er bústaður samræmisins. Menn endurtaka orð um einingu, en hjörtu þeirra eru full af stingandi örvum. Menn hafa eftir munnmæli frá ýmsum tímum um mátt einingar, en þeir leitast ekki við að hagnýta þessi sannindi í sínu eigin lífi. Þeir saka heiminn um sundurþykkju, en sá sjálfir fræjum óeiningar. Sannlega, ógerlegt er að lifa lífinu án hjartans. Hjartalaus maður finnur sér ekki bústað samræmis. Þeir sem sá óeiningu skaða sjálfa sig og sýkja einnig umhverfið, og hver getur séð fyrir hve langt eitrið getur borist?

Ætlið ekki að nægilega oft sé búið að segja frá einingu og skapandi samræmi. Nauðsynlegt er að endurtaka þessi sannindi á hverri síðu; í sérhverju bréfi ætti að minnast á einingu og samræmi. Hafa verður í huga að sérhvert orð um einingu er móteitur sem eyðir eitrinu í geimnum. Hugsum um gagnsemi einingar.

194. Athugum hvernig Bræðralög hafa flust á milli staða. Þær leiðir kenna okkur um hreyfingu þróunarinnar. Ályktum ekki að Bræðralög hafi verið flutt með hraði til óaðgengilegra og afvikinna staða. Þau hafa aðeins sameinað krafta sína í eina sterka heild, bæði landfræðilega og andlega. Það má minnast þess að Bræðralög hafa átt sér samastaði í mörgum löndum, en þegar vissir tímar nálguðust var þeim safnað saman í eitt máttugt höfuðvígi.

195. Það hefur mikið gildi að sammælast vinum sínum um að senda góðar hugsanir á tilteknum tímum. Slík athöfn styrkir bæði góðvild og hreinsar geiminn, en hið síðarnefnda er ákaflega nauðsynlegt. Eitrað útstreymi getur sýkt menn og einnig sest á nálæga hluti. Slík óhreinindi er erfitt að afmá. Þau geta fylgt hlutum langtímum saman. Þegar tímar líða verða menn færir um að greina þá sérstöku útgeislun sem þannig sýktir hlutir gefa frá sér. Þeir sem eru næmir geta fundið fyrir áhrifum þeirra á sjálfum sér. Góðar hugsanir eru bestar til að hreinsa umhverfið. Einbeittar og ákveðnar sendingar hins góða eru enn sterkari en hreinsandi reykelsi. Venjum okkur við slíkar sendingar. Orð eru ekki nauðsynleg, aðeins einbeitt tilfinning góðvildar. Mitt í önnum dagsins er mögulegt að skapa mikla góðvild. Sérhver slík sending er sem hreinsandi elding.

196. Gætið að hálsstöðinni; sem miðstöð samfjöllunar er hún vissulega fær um að nema áhrif úr geimnum. Þar sem útsendingar útvarpsstöðva geta haft áhrif á slímhúðina eru mörg önnur áhrif líkleg til að íþyngja orkustöðvunum.

197. Sannlega er fræðsla lífsins prófsteinninn. Enginn gengur framhjá án þess að afhjúpa sitt innra eðli. Sumir fagna, sumir skelfast, sumir hneykslast. Þannig hlýtur sérhver að sýna það sem dylst í djúpum vitundarinnar. Undrist ekki að fræðslan veldur svo mismunandi og sterkum viðbrögðum. Narada vakti á sama hátt mismunandi gneista úr mennskri vitund. Geti einhver ekki tekið við grundvelli réttlætis og siðgæðis, lát hann þá sýna sitt lítilmótlega eðli. Í stuttu máli, afhjúpum eins margar hræsnisgrímur og mögulegt er. Lát villimennskuna afhjúpa sig, því hún getur ekki viðhaldist lengi undir hjúpi blekkinganna. Lát einnig hið unga hjarta fagna; það getur opinberað sig í fögnuði uppgöngunnar. Lát vogarskálar fræðslunnar þannig vera til marks um skiptingu mannkynsins. Aðgreina verður hið illa og góða, en slíkt er á engan hátt auðvelt.

198. Veitið flökkurunum athygli þegar þið athugið hin ytri merki um hæfni. Það er eitthvað sem heldur þeim gangandi og leyfir þeim enga hvíld. Þeir eiga auðveldara en aðrir með að skilja hverfulleika jarðneskra eigna. Þeir óttast ekki fjarlægðir; þeir læra mikið. Meðal þeirra má finna boðbera.

199. Menn geta haldið að þeir séu enn í hættu þó svo þeim hafi verið bjargað. Sá sem er á glötunarbraut kann að halda að hann sé að sigra heiminn. Alls staðar í heiminum er hægt að rekast á slíkan misskilning. Fólk er í raun umkringt vofum. Hægt er að skynja brjálsemi heilla þjóða. Fræðslan getur opnað augu margra og minnt á óbifanleika grundvallaratriðanna.

200. Sá sem sækist eftir betri eiginleikum er þegar á veginum.

201. Næringarefnin sem mestan lækningamátt hafa eru oft vanmetin. Litið er á mjólk og hunang sem góð fæðuefni, en menn hafa algerlega litið framhjá þeim styrkjandi áhrifum sem þau hafa á taugakerfið. Best er að neita þeirra í sínu upprunalega ástandi, því þá búa þau enn yfir dýrmætri frumorku sinni. Það er einmitt mikilvægast að viðhalda þessum frumeiginleika þeirra. Gerilsneiðing mjólkur og hin sérstaka meðhöndlun hunangs sviptir þau bestu eigindum sínum. Næringargildið helst, en frumgildi þeirra hverfur.

Það er vissulega mikilvægt að fæðan sé hrein og í upprunalegu ástandi. Gæta þarf að því að umhverfi dýranna og býflugnanna sé heilsusamlegt, en allar ónáttúrulegar aðferðir við hreinsun afurðanna koma í veg fyrir að þær komi að beinu gagni.

Þekking fornaldar lagði vernd á kýr sem heilög dýr, og hún spann heillandi helgisögn um býflugur. En þegar tímar liðu glötuðu menn fyrri skilningi sínum á lækningaefnunum. Í fornum lækningabókum voru öll lyf metin bæði eftir gagnsemi sinni og skaðsemi. En dýrmæt efni eins og mjólk, hunang og moskus hafa engin skaðleg áhrif séu þau hrein. Einnig er hægt að benda á mörg gagnleg lækningaefni úr jurtaríkinu, en flest þeirra eru best hrá og óunnin, þegar eðlislæg frumorka þeirra, yfir og ofar hinum svonefndu fjörefnum, hefur ekki glatast. Safi úr gulrótum, radísum eða jarðarberjum er bestur hreinn og óunninn. Það er því skiljanlegt hvernig hinir helgu menn fyrri tíma gátu lifað á þessari heilnæmu fæðu.

202. Með sífelldri þjálfun er unnt að efla hæfni og snerpu hugsunar. Fyrsta leiðin er að íhuga þessa eiginleika; síðar er gott að beina hugsuninni inn á við, svo lífsmáttur hennar minnki ekki við margvíslegar athafnir.

203. Jarðskjálftamælar sýna stöðugan titring jarðskorpunnar, en hann er alls ekki hið eina sem næm skynjun verður vör við. Ástæðan er sú að eldur kemur fram í margvíslegum eiginleikum. Maðurinn skynjar einnig oft ýmis smávægileg merki sem ruglað er saman við áhrif frá umhverfinu. Skynjun mannsins verður vör við mun fjölbreyttari áhrif en almennt er talið. Maðurinn skynjar allt það sem tengist eldi á einhvern hátt. Á þessari sérstöðu hafa menn fáar skýringar. Menn munu ræða um þreytu og lasleika eða sérstakt hugarástand, en ekki verður minnst á viðbrögð við áhrifum elds. Í raun og veru gera menn sér ekki grein fyrir því að þeir eru umkringdir eldi sem hefur bein áhrif á frumorku þeirra. Ætla mætti að nauðsynlegt sé að meta mikils allt sem stuðlað getur að eflingu frumorkunnar. Sagt var til forna að sjálfshyggjan afmáist í eldi. Á meðan menn eru ekki meðvitaðir um eldlega skírn, ríkir sjálfselskan í hugum þeirra, og þar til menn fá skilning á máttugasta frumefninu, verður sjálft bræðralagshugtakið aðeins sem líflaus beinagrind.

204. Smátt og smátt munu menn gera sér grein fyrir því að þjóðsögurnar geyma sannar frásagnir; þá munu og ritaðar heimildir finnast. Sérhver opinberun staðfestir þá staðreynd að sannleikurinn heldur velli og að nauðsynlegt er að greina ummerki hans. Fyrst munnmæli glatast ekki, mun saga Bræðralagsins einnig verða talin trúverðug. Sjá má að menn eiga sérstaklega erfitt með að viðurkenna upplýsingar um Bræðralagið. Margvísleg menningarsamfélög eru fúslega viðurkennd, en hugmyndin um tilvist Bræðralagsins hefur einkum og sérílagi örlagarík áhrif. Menn eru tilbúnir að mæta óþekktum einsetumanni, en af einhverjum ástæðum eiga þeir erfitt með að ímynda sér heilt samfélag slíkra manna. Til er samfélag um sannindi sem mætir sérstaklega mikilli andstöðu. Það er ekki erfitt að sjá hverjir eru á móti bræðralagshugtakinu. Þeir vita fullvel um tilvist Bræðralagsins, en þeir óttast mjög þá tilhugsun að þessi þekking nái til fjöldans. En allt tekur sinn tíma. Þótt menn viti ekki nú, eru þeir samt farnir að fá hugboð.

205. Sumir sendiboðar vinna að sérstöku ætlunarverki og vita hvaðan, hvert og hvers vegna – og hvernig þeir muni snúa aftur. Aðrir geyma aðeins ábendinguna innst inni, og þeir ljúka jarðneskri vegferð sinni sem venjulegir borgarar. Við skulum ekki meta hvorir ljúka ætlunarverki sínu af meiri ósérplægni. Lát menn vita að til er fjöldi afbrigða meðal hinna miklu andlegu verkamanna. Mestu skiptir að átta sig á árangri og tilhvötum. Ekki er okkar að dæma um mikilvægi góðverkanna. Allar athafnir byggjast á margvíslegum orsökum sem augu manna fá ekki séð.

En við skulum meta að verðleikum hið góða sem okkur er fært, og veitum sendiboðanum samfylgd með vinsemd. Það er einmitt slík vinsemd sem er lykillinn að velgengni.

206. Við skulum á sama hátt læra að greina hin smæstu merki. Þau eru fjölmörg og blossa upp eins og gneistar; en föllum ekki í gildru hleypidóma eða tortryggni. Aðgreina þarf hið síðarnefnda frá skarpskyggni. Sagt er að skarpskyggnin sé bein en tortryggnin krókótt. Auk þess má benda á að sá sem er tortrygginn er ekki hreinn í sinni og ekki frjáls. Þekkingu má ekki hylja með ofbeldi, hvorki hið ytra né hið innra. Menn harma oft grimmd, en eru samt sjálfum sér grimmir. Slík grimmd er verst. Sjáum með sanngirni miðleiðina sem liggur milli þess sem lítur út fyrir að vera mótsagnir.

207. Takið eftir á hve óvenjulegan hátt rás atburðanna mótast. Í því er að finna svörun við nýjum samsetningum orkutegunda. Nú á tímum er ekki unnt að spá fram í tímann með hefðbundnum ályktunum. Einnig má gera ráð fyrir óvæntri tregðu. Ég fullyrði að ekki er hægt að breyta rás atburðanna með hefðbundnum aðferðum. Höldum því vöku okkar.

208. Menn líta ekki svo á að næmleiki skynjunar sé til bóta. Jafnvel menntaðir og upplýstir menn eru oft hræddir við slíka framþróun. Í sannleika sagt er nauðsynlegt að vitundin sé víðfeðm, til að maðurinn skilji hve ómissandi aukinn næmleiki er fyrir frekari framfarir. Búast má við ýmsum óþægindum við ríkjandi aðstæður í jarðnesku lífi, og vissulega verða menn fyrir óþægindum, en það er ekki afleiðing meiri næmleika, heldur af óeðlilegu ástandi lífsins. Væri andrúmsloftið óspillt, myndu menn sjá raunverulegt gagn aukins næmleika; en menn kjósa heldur að menga jörðina, svo að þeir geti dvalist áfram á stigi villimennskunnar. Það eru ekki ýkjur að ræða um villimennsku. Maðurinn getur borið dýr klæði en samt verið villimaður. Því er misgerð þeirra, sem heyrt hafa um ástand plánetunnar en beita samt ekki kröftum sínum til bóta fyrir heildina, enn alvarlegri.

209. Varið fólk við því að rægja hina æðri krafta. Brjálæðingar skilja ekki að hugsanir þeirra endurkastast af máttugum geislum og hitta þá sjálfa fyrir. Þótt þeir falli ekki samstundis dauðir niður, er ekki þar með sagt að upplausnarkraftarnir hafi ekki náð yfirhöndinni í lífkerfi þeirra. Ör sem maðurinn sjálfur skýtur finnur upptök meinsemdar og flytur hana fram í dagsljósið.

210. Sjúkdómar líkamans geta náð yfir fleiri en eitt æviskeið. Ásökum ekki foreldra okkar, en skoðum heldur okkar eigin fortíð. Oft fæðast veikburða börn hjá fullkomlega heilbrigðum foreldrum. Jarðnesk hugsun mun reyna að leita orsakarinnar hjá löngu liðnum forfeðrum, en sá sem er meðvitaður um röð æviskeiðanna mun athuga orsakir í fortíð persónunnar sjálfrar. Á lægri og miðsviðum fíngerða heimsins er að finna margvíslegt líkamsástand.

Það er til bóta að leita af kappi upp á við.

211. Vistaskiptin yfir í fíngerða heiminn ættu að vera eðlileg og sársaukalaus. Þegar menn hafa lokið jarðneskri vegferð sinni ættu þeir að hefja næsta áfanga liðlega og eðlilega. En þeir sjálfir flækja hin hátíðlegu umskipti lífsins. Þeir hafa alið með sér sjúkdóma og smita sína nánustu. Þeir sýkja umhverfið, en aðeins með eigin viðleitni er þeim unnt að feta leið hreinsunarinnar. Forvörn með ytra boði getur ekki komið að liði til frambúðar, nauðsyn er á almennri samvinnu. Boð og bönn geta aðeins komið litlum hluta hinna fjölmörgu sjúklinga að liði. Mannkynið allt ber ábyrgð á heilsu plánetunnar. Fyrst af öllu verða menn að skilja að maðurinn læknar ekki aðeins sjálfan sig, heldur einnig allt umhverfi sitt. Í slíkum skilningi felst sönn mannúð. Slík tilfinning hlítir ekki neinum ytri boðum. Hún verður að birtast sjálfkrafa úr djúpum hjartans.

Lát vitfirringana ekki undrast að Við leggjum svo mikla áherslu á bætt heilsufar. Það er óheimilt að vera sjálfselskur og hugsa eingöngu um sjálfan sig. Við verðum að stuðla að því, bæði með hugsunum og orðum, að menn láti sig alls staðar varða umbætur á jarðneskum aðstæðum. Stingum ekki höfðinu í sandinn þegar nauðsynlegt er að beita allri okkar skarpskyggni og góðvilja til hjálpar mannkyninu.

212. Mikið er rætt um sjálfsfórn og helga viðleitni, en hér á jörðinni eru dæmi um háleita sjálfsfórn. Sérhver móðir sýnir sjálfsfórn á sinn sérstaka hátt við margvíslegar kringumstæður. En verum á varðbergi og gerum okkur þannig kleift að greina hin vel földu ummerki þessarar háleitu tilfinningar, því hún er svo djúpstæð að ytri merki hennar eru vart sýnileg. Meðal þessara fögru blóma er einnig að finna aðferðir til að efla góða heilsu. Reynum að finna bestu orðin svo að maðurinn hrasi ekki. Megi skilningur á bræðralagi á sama hátt verða hluti af lífinu.

213. Höfnum ekki hinu góða, hvaðan sem það kemur. Þróunin verður að innleiða vörn gegn spillingu og úrkynjun. Eigingirni má ekki tengjast hinu góða. Setjum æðri góðsemi í stað þeirrar sem spillst hefur af lægri eiginleikum. Svo mikil gleði ríkir í vitundinn ef unnt er að fagna hjartanlega yfir gæfu náungans. Því það hefur svo mikið myrkur í för með sér að draga til sín það sem ætlað er öllum til góðs. Lát hina illu íhuga þessi orð.

214. Ég staðhæfi að nú þegar hafa mörg mikilvæg merki séð dagsins ljós, en menn eru svo blindir að þeir sjá ekki hina tilbúnu rétti. Menn kæra sig ekki um að skilja það sem nú þegar er að nálgast af fullum krafti. Lát ferðamenn syngja á krossgötum um Bræðralagið sem mælt hefur verið fyrir um.

215. Þekkingin þróast bæði sem heildarsýn og þröng sérgreining. Sumir fræðimenn hefja þekkingarleit sína með hinu fyrrnefnda, en aðrir komast ekki út fyrir takmörk hins síðarnefnda. Fyrr eða síðar neyðast þeir einnig til að beita aðferð heildarsýnar. Leggjum stund á slíka aðferð hugsunar. Í henni felst sköpunarhæfni. Sérgreiningin verður sem undirbúningur að hinu sama marki. Gagnlegt er að geta skilið mismuninn á þessum tveimur leiðum. Nú á tímum eru vissulega til margir iðnir og ástundunarsamir fræðimenn sem eru fullkomlega sáttir við seinni aðferðina. En hún kemur að litlu liði þegar þörf er á samfjöllun margra vísindagreina við sérhvern nýjan skilning. Nauðsynlegt er að búa yfir miklum hugrænum sveigjanleika til að geta fundið samanburð og staðfestingu frá ólíklegustu sviðum vísindanna. Sú hæfni að geta sameinað nauðsynlegar vísbendingar frá mismunandi sviðum er órækur vottur um háleita vitund. Margt hefur farið forgörðum vegna ónauðsynlegra sérgreininga. Borið hefur á fjandskap milli mismunandi vísindagreina. En eru ekki hugvísindi og raunvísindi greinar á sama tré sannleikans?

216. Fordæmum ekki nákvæmar rannsóknir, svo fremi þær ali ekki á óvild í garð annarra rannsókna á skyldu sviði. Lát fræðimenn ákveða með sjálfum sér að hafna ekki í fljótræði neinu sem þeir skilja ekki við fyrstu sýn.

217. Menn munu segja að hvíld sé ekki möguleg á tímum mikils umróts. Svarið: „Deilum ekki um mismunandi orð.“ Hvíld, eins og Nirvana, er gleði sem gufar ekki upp. En ef menn geta ekki skilið það hugtak, beinum þá athygli þeirra að skýrri hugsun. Fáið þá til að viðurkenna að jafnvel í umróti Harmagedón sé nauðsynlegt að vitundin sé skýr. Ef við glötum skýrri hugsun í jarðneskri baráttu, hvernig er okkur þá unnt að viðhalda henni við umskiptin yfir í fíngerða heiminn? Sérhvert jarðneskt áreiti er aðeins sem prófsteinn á vitund okkar. Leyfum jafnvel ekki hneykslun að gera hugsunina óskýra. Þeir sem hafa mikla reynslu vita að straumar í geimnum eru mun sterkari en nokkuð það sem átök manna geta myndað, en jafnvel við slíkar máttugar árásir skulum við halda markmiði tilverunnar skýru fyrir hugskotssjónum okkar.

Lát menn lítillar trúar ekki harma þótt hvíld þeirra truflist. Þeir umbreyta merkingu hinna bestu orða og verða tómleikanum að bráð. Getur nokkuð verið verra?

218. Í þrumuveðri er mönnum ráðlagt að halda kyrru fyrir og forðast snöggar hreyfingar. Á sama hátt er bent á mikilvægi samræmis þegar veraldarstormar geysa. Reynum ekki að verjast með púða þegar þruman gnýr. Skundum ekki til hins smæsta þegar hið mikla knýr dyra. Við verðum að láta reyna á getu okkar við margvíslegar aðstæður; í þessu felst leyndardómur margbreytileika jarðvistanna. En menn geta ekki skilið hvernig konungur getur orðið að skósmið.

219. Segjum þeim sem leitast við að leggja stund á hagnýta dulfræði að íhuga æviskeið og leyndardóma fæðingar og færslu á milli tilverustiga. Ekki er við hæfi að sniðganga atburði sem mikið gildi hafa. Slíkir atburðir lífsins, sem öllum eru augljósir, geta vakið hugsanir um eðli tilvistar. Ekki er hægt að hafa að engu athyglisverð fyrirbrigði eins og sendingu og móttöku hugsana. Drögum ekki dár að frásögnum um börn sem virðast taka með sér minningar frá fyrri æviskeiðum, eða þeim sem geta greint hugsanir annarra.

220. Sérhver hlið fræðslunnar svarar einhverri ákveðinni þörf mannkynsins. Okkar tímar einkennast af upplausn siðgæðis. Nauðsynlegt er að hagnýta hjálp fræðslunnar til að móta traustan siðferðisgrundvöll. Uppgötvanir vísindanna fylgja leið sem ekki er í samræmi við leið lífsins; afleiðingin verður sérstök tegund villimennsku búin vísindatækni. Smár minnihluti vel upplýstra fræðimanna stendur upp úr úthafi fáviskunnar eins og fágætar eyjar. Að vera læs og skrifandi er ekki það sama og að búa yfir upplýstri þekkingu; þess vegna er okkur ráðlagt að efla hjartað sem miðpunkt upplýsingar og þekkingar. Fræðslan veitir vísindalegar og læknisfræðilegar vísbendingar; þær ættu að hjálpa okkur við að efla heilbrigði líkama og anda. Áhrif þessara ráða eru í beinu hlutfalli við það hversu vel og nákvæmlega við þeim er tekið. Vottur ákefðar vex og breytist í fagran innblástur. Dropi góðmennsku umbreytist í áhrifaríka góða orku. Fræ kærleika vex og breytist í fagran garð. Hver er slíkur að hann telji ámælisvert að menn fyllist löngun til að hjálpa náunganum?

221. Sérhver bók fræðslunnar hefur sérstakt innra hlutverk. Finni maðurinn í sér þá grimmd að hæðast að bræðralagi, gerir hann sig sekan um villimennsku af versta tagi. Lát menn finna kraft til að varast aðkast og háð. Háð er ekki það sama og skarpleiki hugsunar. Kímnigáfa felst í viturlegri afstöðu til þess sem gerist, en gapandi munnur heimskingjans er mannkyninu skömm. Telst það einhver leikur þegar mannkynið gerist leiksoppur brjálseminnar? Þeim mun vegna vel sem lyfta Kaleiknum með hreinum höndum.

222. Einingar er einnig þörf þar sem fræðslan er lesin. Lesturinn einn og sér er ekki nægileg vörn. Sérstök gleði ætti að fylgja því að meðtaka það sem lesið er. Í önnum dagsins er hægt að hagnýta eitthvað af fræðslunni; því fylgir fögnuður einingarinnar.

223. Frumorkan leitast við að flæða um allar taugar mannkynsins. Hún er vissulega til. Kosmískar aðstæður hafa gefið henni þanþol. Ekki er viðeigandi að spyrja hvort menn eigi að þjálfa hana með sér. Ógerlegt er að þjálfa með sér frumorkuna, aðeins er unnt að verja hana gegn bylgjum óskapnaðarins. Verndum af alúð fjársjóði þróunarinnar. Fyrr á tímum var mikið rætt um þá tíma þegar frumorkan myndi byrja að raunbirtast af miklum krafti. Menn mega ekki hafna því sem leitar svo brýnt markmiðs síns. Hver er svo hrokafullur að hafna því sem er tímanna tákn? Aðeins hinir fávísu og þeir, sem vilja upphefja sig með falskri visku, munu berjast gegn vísbendingunum. En tökum ekki tilraunir fávísra nærri okkur. Þeir reyna aðeins að gera lítið úr öllum ráðleggingum til hjálpar mannkyninu.

224. Ógerlegt er að segja fyrir um hverjir muni bæla niður með hörku rannsóknir og athuganir. Hyljum ekki Ljósið þegar það lýsir úr djúpum skilningsins. Lát Ljósið finna leiðirnar sem því eru fyrirhugaðar. Þegar siðgæði hnignar eru atlögur gegn Ljósi óhjákvæmilegar.

225. Svið hinna fíngerðu orkutegunda er óþrjótandi uppspretta. Hægt er að tala um að læra um það, en ekki er unnt að segjast hafa þekkingu á því. Með þessum orðum vil ég ekki draga úr ykkur kjarkinn, heldur hvetja ykkur til dáða. Ef við drögum upp mynd af könnunarferðum manna inn í forgarð hinna fjarlægu orkusviða, myndar framlína þeirra mjög óreglulegt mynstur. Menn hafa kastað sér út í hið óþekkta án stuðnings frá félögum sínum eða æðri máttaröflum; afleiðingin hefur orðið eitthvað í líkingu við kafara sem látinn hefur verið kafa einhvers staðar niður á hafsbotn og á síðan að gefa nákvæma lýsingu á öllu neðansjávarlífi. Nauðsynlegt er að athuga öll fyrirbrigði og rannsaka þau með hinum bestu vísindalegu aðferðum. Ótal sinnum hefur verið á það minnst að einstakur athugandi sé ekki fær um að hafa yfirsýn yfir alla þræði hinna mismunandi orkutegunda. Mjög oft gætu einlægar tilfinningar barns orðið kveikjan að nauðsynlegum rannsóknum. Það er ekki af tilviljun að ég minnist á lækna og kennara; þeir hafa í kringum sig víðtækt svið til margvíslegra athugana. Þeir geta beint athygli manna að háleitum viðfangsefnum. Þeir geta orðið vísindunum að miklu gagni, rétt eins og veðurathugunarstöðvar. Venjulegt fólk getur heyrt minnst á ýmis smávægileg fyrirbrigði, en hver getur dæmt um hvað er smátt og hvað er stórt? Oft vantar aðeins einn hlekk í niðurstöður mjög mikilvægrar athugunar.

226. Ekki er auðvelt að venjast þeirri hugsun að skynjanir okkar séu oft háðar straumum úr geimnum.

227. Ekki er auðvelt að venjast þeirri staðreynd að með sérhverju nýju andartaki geta hugsanirnar breytt skaplyndi okkar.

228. Ekki er auðvelt að skilja að enginn er nokkru sinni einn síns liðs.

229. Ekki er auðvelt að skynja að maðurinn lifir samtímis í tveimur heimum.

230. Ekki er auðvelt að átta sig á því að jarðneskt líf er aðeins skammvinn sýn. Ekki er auðvelt að skilja allt þetta, þótt menn ættu að hafa haft hugboð um það allt frá fæðingu.

231. Vegna fátæktar tungumálanna hafa orðið til margvíslegar rangtúlkanir í aldanna rás. Menn hafa snúið sér að dulmáli, táknum og myndmáli, áletrunum og alls kyns helgirúnum, en slík ráð hafa aðeins komið að skammvinnu gagni. Aðeins samtímamenn skildu merkingu þessara hefðbundnu hjálpartækja. Merkingin máðist í tímans rás og nýr misskilningur skapaðist. Aðeins með erfiðismunum getur mannkynið geymt upplýsingar í eitt þúsund ár. Hvað þá ef um er að ræða hundruð alda, þegar sjálf tungumálin hafa margsinnis gerbreyst! Einstakir fornir hlutir sem hafa varðveist til okkar tíma geta ekki gefið nægar upplýsingar til að hægt sé að gera skýra mynd af fyrri tímum. Það er því nauðsynlegt að álykta með varfærni um forn tímabil sem aðeins birtast okkur í ruglingslegum myndbrotum.

Sá tími kemur að dulskyggni verður beitt á vísindalegan hátt við að raða saman brotum hinnar dreifðu fornu þekkingar. Lát hæfnina til að ráða í hinar máðu rúnir vera aðalsmerki hins sanna fræðimanns. Hann mun einnig skilja merkingu yfirsýnar og afmörkunar.

232. Fjarhrif voru viðurkennd löngu á undan hugsanaflutningi. Maðurinn á auðveldara með að gera sér grein fyrir tilfinningatengslum en sendingum hugsana. Sjá má að orðið fjarhrif er mönnum mun tamara á tungu en orðið hugsanasending, en það hugtak óttast margir. Jafnvel innan geðsjúkrahúsa munu læknar fallast greiðlega á að fjarhrif geti átt sér stað, en möguleikinn á hugsanasendingum myndi teljast varhugaverður. Notkun sefjunar til lækninga var fordæmd, en dáleiðsla er viðurkennd. Mikið er um óréttlæti, en stuðla þarf að því að réttláti nái að ríkja.

233. Ef við athugum skaphöfn spámanna má sjá tvo ólíka þætti birtast. Annars vegar virðist sem einvera sé nauðsynleg, en á hinn bóginn virðist spámaður stundum öðlast vitrun mitt á meðal fjölda manna. Þessar tvær aðstæður eru ekki eins andstæðar og þær kunna að virðast. Mannfjöldi getur einnig gefið frá sér orkustrauma. Engar aðstæður finnast sem ekki geta miðlað fíngerðum orkutegundum.

234. Ég minnist oft á varfærni, en það er ekki ætlun mín að hvetja ykkur til óframfærni eða hugleysis. Stormský á himni hvetja garðyrkjumanninn til að gera varúðarráðstafanir, en hann hræðist ekki sérhvern hvirfilvind.

235. Hatrið í garð mannkynsins leitast við að finna róttækar aðferðir til eyðingar – með gasi og eitri. Lát vísindamennina gera öllum ljóst að þessar gastegundir hverfa ekki skjótt, því þær loða við hluti langtímum saman. Lát þá sem vinna að því að búa til eiturgas dvelja í húsi þar sem veggirnir hafa verið ataðir arseniki eða kvikasilfurstvíklóríði, eða öðrum uppgufandi eiturefnum. Lát þá finna af eigin reynslu á augum, húð og lungum hve lengi eiturefnin halda áfram að vera virk. Að auki má benda á að í mörgum tilfellum geta skaðleg áhrif eiturefnanna borist um langar vegalengdir. Það er glæpsamleg heimska að halda að aðeins óvinurinn skaðist.

Jafn eitraðar eru þær gastegundir sem erta slímhúð öndunarfæra. Það getur ekki verið leyfilegt að eitra fyrir fólki, og dæma það til sjúkdóma sem koma fram síðar á lífsleiðinni. Svonefndir upplýstir ráðamenn eitra víðáttumikil svæði og friða sig með þeirri hugsun að eitrunin sé skaðlaus. Lát þá reyna að dvelja í húsi sem hefur verið úðað með eitri!

Eitraðar gastegundir munu verða smánarblettur á sögu vísindalegra uppgötvana.

236. Einhver ráð verða að finnast til að fólk megi skilja merkingu einingar, að öðrum kosti munu fjöldasamkomur líkjast klasa af blöðrum sem leita hver í sína áttina. Sumir telja að ytri svipbrigði ein eigi að tjá einingu. En fyrir þeim er máttur einingarinnar framandi.

237. Vegfarandi er ekki aðeins sá sem þegar er lagður af stað, heldur einnig sá sem er að búa sig til farar. Hið sama á við um heimsviðburð; hann hefur verið skipulagður, hann er þegar til, jafnvel þó að skipið hafi ekki enn losað landfestar. Nauðsynlegt er að greina ytri hreyfingu frá innri vilja. Sumir leggja enga merkingu í innri vilja. Ef atburður er ekki að gerast fyrir augum allra, finnst þeim að hann hafi alls ekki gerst. Snúum okkur aftur að læknisfræðilegum dæmum. Margir sjúkdómar hafa engin ytri einkenni þó svo sjúkdómsferlið sé þegar hafið hið innra. Hin ytri einkenni birtast aðeins á síðustu stigum sjúkdómsins, þegar um seinan er að hefja meðhöndlun. Látum ekki atburð eingöngu varða okkur þegar hann er kominn á lokastig. Hið sama á við um mannleg samskipti.

238. Í mörgum kenningakerfum er mælt gegn öllu drápi. En í þeim er ekkert rætt um dráp á hinum örsmáu ósýnilegu lífverum. Það sem átt er við er að sjálfsögðu dráp með ásetningi og af illvilja; að öðrum kosti mætti halda því fram að maðurinn myrti í hvert sinn sem hann dregur andann. Vitundin hvíslar hvar markalínan liggur. Hjartað getur skynjað og forðað manninum frá drápum.

Hafi trjágrein verið brotin í skeytingarleysi, flytjum hana samt til musterisins; með öðrum orðum, sýnum samúð. Þessi sama tilfinning fær manninn til að varast dráp.

239. Mikið er um elda. Hinar fjarlægu stjörnur glóa, og í þeim má sjá eld hjartans. Þenslan er sannarlega mikil.

240. Sjá má að stundum hafa miklar umbyltingar mun minni eyðandi áhrif á lífkerfið en smærri atvik. Ástæðan er sú að við mikið umrót byrjar andlega orkan að verka á sérstakan hátt og myndar máttuga vörn. Við smávægilegt uppnám er vörnin ekki eins sterk. Þegar ég segi, „Láttu mig fá þyngri byrðar þegar ég geng inn í hinn fagra garð,“ er ég ekki að nota skáldlegt líkingamál, heldur að benda á hagnýtt atriði. Fyrir löngu var sagt að við mikil umbrot myndi andinn styrkjast og vitundin hreinsast. En við slíka atburði er það frumorkan sem mestu máli skiptir. Látum það ekki angra okkur þó hún verði virk á einn sérstakan máta. Það er mun verra ef eitthvað smávægilegt grefur undan lífkerfinu og hinn bjargandi máttur er óvirkur. Menn verða að átta sig á þessum verkunum, annars fara þeir að sækjast eftir hinu léttvæga og sætta sig við meðalmennskuna. Endurnýja verður birgðir hinnar andlegu orku. Án þrýstings fær hún ekki æðri hjálp. Hið torræða orðatiltæki, „því verra, því betra,“ hefur í sér vissan sannleiksvott.

Það er eftirtektarvert að sjá hve ofsóknir og þvinganir margfalda kraftana. Hægt er að dást að því á hvern hátt fólk fær orku til að þrauka og verjast svívirðingum. Hin sama bjargandi orka sem hreinsar vitundina skapar einnig brynju. Lærum að unna henni og hafna henni ekki í léttúð. Menn biðja um vörn, en eyðileggja sjálfir bestu gjöfina.

241. Innan bræðralags er mælt með því að menn forðist að beita gagnkvæmu háði og níði. Jafnvel við flóknar kringumstæður er unnt að finna jákvæðar hliðar, og með slíkum steinum er hættuminna að komast yfir fljótið. Svívirðingar, eins og þistlar, vaxa hratt, og þeim fylgja engar framfarir. Oft eru notuð orð sem kalla fram slæma útgeislun. Hvert orð markar tákn á áruna. Menn verða að taka ábyrgð á því sem þeir koma til leiðar. Óþverri hæfir ekki í neinu bræðralagi.

242. Drögum ekki handahófskenndar ályktanir um ástæður þess að hraði atburða eykst eða þeir dragast á langinn. Taka verður tillit til margra þátta, og oft er litið fram hjá þeim sem mestu máli skipta. Mín tilmæli eru þau að þið eflið athyglisgáfu ykkar í þeim tilgangi að gera aðstæður ekki of flóknar. Menn vilja ekki viðurkenna, sjálfviljugir né á annan hátt, hve oft korn sundurþykkju hafa spillt hinum bestu samböndum. Hægt er að líkja manni við segul, en jafnvel segull getur misst segulmagn sitt, ef hann er settur í óhagstætt umhverfi. Venjum okkur því á að veita hinum smáu kornum eftirtekt. Eining getur ekki blómstrað ef sandur hefur komist í hvert hjól.

243. Samvinnu verður ekki auðveldlega komið á. Stundum tekur nokkur æviskeið að byggja hana upp. Menn eiga erfitt með að gera sér grein fyrir því hvernig einstaklingur tengist samfélagslegu starfi. Mennsk vitund byltist eins og skip í stórsjó og öll samfjöllun er henni gleymd.

244. „Vináttan býr í þögninni,“ sagði Kínverji nokkur endur fyrir löngu. Hinu gagnstæða má einnig halda fram. Hugsun kemur í staðin fyrir mörg orð við slíkt æðra vitundarstig. Fólk getur skilið hvert annað á mismunandi tungumálum með hugrænni tjáningu. Leyndardómur slíks hugsanaflutnings er dæmi um stórbrotna birtingu frumorkunnar.

245. Ef menn sýndu hver öðrum meira traust, gætu þeir veitt eftirtekt mun merkilegri atvikum af kosmískum toga. Ef þeir, til dæmis, væru ekki svo þvingaðir af þeirri þörf að dylja tilfinningar sínar, gætu þeir tekið eftir heilum bylgjum skammvinnra strauma. Mögulegt er að veita eftirtekt sérstakri tilfinningu í hálsinum, eða hjartaslætti, eða spennu í hnjám og olnbogum. Straumar geta streymt í gegnum allar orkustöðvarnar. Það er ekki vottur um sjúkleika, heldur sérstaka viðkvæmni. Samkvæmt þessum einkennum er unnt að sjá stefnuna í spennu straumanna. En í það minnsta verða menn að hafa sjálfstraust í einhverjum mæli, án þess að hræðast aðhlátur.

246. Þessi sami ótti hindrar viðurkenningu á Helgivaldinu. Réttlátt er að segja að Helgivaldið sé fjarlægt öllu ofbeldi. Það er reiðubúið til að hjálpa og senda ráðleggingar, en mennirnir eru ætíð tilbúnir að véfengja hverja góða fyrirætlun. Engin samvinna er möguleg án trausts. Gleymum því ekki að skortur á trausti er vottur um ófullkomleika. Maður fullur vantrúar mun alls ekki trúa nágranna sínum. Köllum ekki þessar ráðleggingar siðferðilegar umvandanir. Köllum þær efnisleg og tæknileg lögmál. Engu máli skiptir hvaða nafni grundvallaratriði tilverunnar eru nefnd, að því tilskyldu að eftir þeim sé farið.

247. Við ráðleggjum aldrei uppgerðarbros. Sérhver óréttlát yfirlýsing er andstyggð, á sama hátt er hræsnisfull gríma vottur um falska lund og sjúkleika árunnar. En við biðjum ykkur að sýna meiri hjartagæsku – hún er besta græðismyrslið.

248. Menn furða sig á hinum mikla fjölda glæpa sem framdir eru, en þeir gleyma hinum margfalt fleiri illverkum sem aldrei verða opinber. Hægt er að fyllast hryllingi yfir hinum óteljandi hugrænu glæpum sem engin lög ná yfir, en eru þó að leggja líf fólks í rúst og ógna öllu lífi plánetunnar. Íhugum stundum hve mikið frjósemi jarðarinnar er að minnka, þrátt fyrir allar þær aðgerðir sem stjórnvöld grípa til öðru hverju. Unnt er að planta trjálundi og eitra og eyða stórum skógum á sama tíma. Menn dást að leifum skógarrisa fyrri tíma, en þeir leiða hugann aldrei að því hvort slíkir risar geti vaxið og dafnað nú á tímum. Menn fletta burt hinni ósnortnu gróðurþekju plánetunnar og verða svo undrandi á því hve sandauðnin vex hratt. Þegar við skoðum allar plöntutegundir jarðarinnar, koma í ljós furðulega litlar framfarir. Tökum ekki tillit til einkennilegra kynblandana sem geta aukið stærð vissra grænmetistegunda með vatnssöfnun. Slíkar tilraunir hafa engin áhrif á almennt ástand plánetunnar.

249. Hjartað bægir frá mörgum sjúkdómum. Það er óráð að sinna ekki hjartanu fyrst af öllu. Á ytra borði getur hjartað virst í ró, en þarf samt á því að halda að fá stuðning og hvöt til að það geti haft styrkjandi áhrif á allar hinar orkustöðvarnar.

250. Er hugsanlegt að flóðbylgja geti skolað burt heilum landsvæðum? Getur komið svo stór jarðskjálfti að hann leggi heil lönd í rúst? Getur hvirfilbylur þurrkað út heilar borgir? Getur jörðin lent í árekstri við gríðarstóran loftstein? Allt þetta er mögulegt, og sveifla pendúlsins getur magnast. Hafa eiginleikar hugsana mannsins ekkert gildi? Íhugum þannig eðli hlutanna, því það liggur mjög nærri hugsuninni, og mörgum hugsunum er beint hingað frá öðrum heimum. Skellum ekki allri skuldinni á sólbletti.

Hugsun um bræðralag hefur mikil heilnæm áhrif.

251. Ógnanir og ofbeldi tilheyra ekki Okkar sviði. Samúð og viðvörun eru viðfangsefni Bræðralagsins. Aðeins illt eðli lítur á aðvörun sem ógnun. Menn dæma út frá sjálfum sér; þeir leitast við að gefa sérhverju orði sem þeir heyra sína eigin persónulega merkingu. Það er fróðlegt að láta ólíkt fólk fá einfaldan texta til útskýringar. Merking textans er útskýrð á ákaflega mismunandi hátt. Með því endurspeglast ekki eingöngu ráðandi eðli mannsins, heldur einnig geðrænt ástand mannsins þá stundina, og veldur því að merkingin er rangtúlkuð. Á þennan hátt má staðfesta að illur greinir hið illa og góður sér hið góða. Í öllum greinum þekkingar má greina þessi sömu sannindi. Aðeins mjög skarpskyggn augu geta greint raunveruleikann á bak við blekkingar geðbrigðanna.

Þegar manninn dreymir um bræðralag, lát hann þá fyrst af öllu hreinsa rykið úr augum sínum.

252. Allmargir telja að Bræðralagið sé alls ekki til. Vera kann að í kyrrð næturinnar bregði stundum fyrir glömpum af myndbrotum minninga, en þessir draumar eyðast vegna sljóleika vitsmunanna. Einstök minningabrot geta að vísu brennt sig inn í vitundina. Ef til vill er þeim ekki unnt að mynda ákveðið form, en merking þeirra glampar eins og fljúgandi ör. Það kann að vera að sýnin geti ekki formbirst af þeirri ástæðu að menn hafa ekki tamið sér að hugsa í myndum.

253. Einnig má benda á að menn eru ekki vanir að greina tilviljanir frá reglubundnum atburðum; þeir læra ekki að fylgja ferli hugsananna, ásamt öllu sem því fylgir. Það eru svo margir möguleikar til þjálfunar við allar hugsanlegar aðstæður! Slíkar eðlilegar leiðir til eflingar metum Við mikils.

254. Enginn krefst þess að símtal eða símskeyti sé tvítekið áður en það er tekið trúanlegt. En annað er uppi á teningnum þegar um er að ræða upplýsingar frá fíngerða heiminum. Af einhverjum ástæðum krefjast menn þess undantekningarlaust að allt sé endurtekið, eins og endurtekningin ein geti sannfært þá. Með þessu móti fer mikil orka í súginn. Aðstæður allar hafa breyst, en menn vilja samt snúa aftur til þess sem áður var. Margt verður og mun erfiðara við slíkt afturhvarf.

255. Einnig eru menn ófúsir að veita því eftirtekt hve ferli hugsunarinnar er háð breytingum á umhverfisaðstæðum. Slík athugun getur leitt í ljós margvíslegar efnislegar svaranir, og því til viðbótar geta þær sýnt fram á að meðal hinna sýnilegu áhrifa eru önnur sem sífellt er hægt að verða var við – ósýnileg, en ákaflega máttug.

Hver sá sem er reiðubúinn til starfa í anda bræðralags verður að vita hvernig hann á að fylgjast með sjálfum sér.

256. Sjá má að fólk sem man fyrri æviskeið sín er af mjög ólíkum uppruna. Þetta sýnir aðeins fram á að lögmál annars heims eru mun flóknari en menn hafa talið. Það er því enn gildari ástæða til að virða þau og rannsaka. Slíkar rannsóknir eru óhjákvæmilega brotakenndar, en þessi upplýsingabrot verða þó að mynda sannfærandi röksemdafærslu. Því fyrr sem byrjað er á að safna þessum gögnum, því fljótar verður sannleikurinn opinberaður. Menn verða að skilja að það er ekki siður Okkar að krefjast blindrar trúar. Hvaða gagn er að slíkri kröfu, ef athuganir og einbeitt athygli leiða til betri árangurs?

Sagt hefur verið að vefur Hins æðsta sé gerður úr neistum; því telst það mikið afrek að greina þó ekki sé nema einn þeirra. En árangur af slíkri tilraun er þá aðeins mögulegur að um gagnkvæmt traust sé að ræða. Jafnvel frá börnum, sveitafólki og mönnum af ýmsum stéttum er unnt að fá verðmætar upplýsingar, ef í vitund þeirra hefur náð að festast í það minnsta einn af neistum þeim sem orðið hafa á leið þeirra. Mjög oft eiga menn einhverjar minningar, en finnst óviðeigandi að tala um þær. Slíka falda staði þarf að nálgast með varúð og umhyggju. Menn munu ekki leysa frá skjóðunni við hrokafullan fyrirspyrjanda eða mann á hraðferð. Auk þess banna jarðnesk lög að hróflað sé við því sem talið er heilagt. Læknar telja oft að slíkar játningar séu merki um geðbilun.

Við höfum áður sagt að allar spurningar varðandi innri vitundina verði að prófa mjög rækilega, og ef eitt dæmi af hundrað vafasömum og torráðnum frásögnum reynist sannleikanum samkvæmt, telst það góður árangur. Þannig skulum við leita sannleikans.

257. Látið skapraun ekki fylgja sannleiksleitinni. Ef menn fyllast gremju við að týna einhverjum hlut á heimili sínu, hvers er þá að vænta við alheimslega leit?

Vinsamleg samvinna er sannarlega ómissandi.

258. Vindar geta feykt fræjunum út í buskann; fuglar geta étið þau; þau geta skolast burt í rigningu – orsakir og afleiðingar eru óteljandi. Það veldur mönnum miklum erfiðleikum að geta ekki sagt fyrir um afleiðingar sáningarinnar. En þeir ættu þó ekki að dreifa ávöxtum starfsins af handahófi. Menn verða að gera sér skýra mynd af markmiði sínu, en láta ekki mismunandi leiðir og nýjar hindranir setja sig út af laginu. Frá jarðnesku sjónarmiði er erfitt að sætta sig við þá hugsun að fræ geti dafnað á ólíklegum stöðum. En menn mega ekki gleyma því að lífsmáttur fræsins er mikill. Með það í huga skulum við sá, án þess að velta því fyrir okkur hvar hinn fagri garður mun vaxa og dafna. Menn geta valið garði sínum fagran stað í samræmi við hugmyndir sínar, en staðurinn við hlið hans kann að reynast mun frjósamari, svo að jafnvel fræ sem berast þangað með vindinum beri mikinn ávöxt. Þannig skulum við sá, án þess að efast um lífsmátt fræjanna.

Grundvöllur bræðralags er vinna byggð á trausti.

259. Stundum virðist eins og leiðbeiningar hafi ekki verið gefnar með nægilega skýrum hætti, en er það svo í raun? Villir ekki hula breytilegra geðsmuna okkur sýn? Þegar tímar líða hverfur þessi hula og hinir sönnu drættir koma í ljós. Þá liggur í augum uppi að leiðbeiningarnar voru nákvæmar og réttar. Þannig er leiðin til bræðralags mótuð.

260. Undrumst ekki þótt svo virðist sem spennan aukist eftir að komið er fram yfir tiltekna dagsetningu. Gleymum því ekki að það er afleiðing þess sem á undan er gengið. En sáning orsaka kann þá þegar að hafa minnkað.

261. Þegar maðurinn íklæðist jarðneskum hjúp verður hann að vinna að framgangi hins góða, og þannig að fullkomna sig – svo mælir viska aldanna. Yfir hliðum Bræðralagsins ljómar ætíð þessi sáttmáli. Þetta er ekki í andstöðu við skilning þeirra sem gera sér grein fyrir hinni óbirtu og endalausu illsku ófullkomnunar. Þó svo ekki sé hægt að komast hjá ófullkomleikanum, eru til greinar starfs sem fela fullkomlega í sér hið góða. Er ekki starf bóndans gott? Er ekki fögur sköpun góð? Er ekki háleit verkkunnátta til góðs? Er þekkingin ekki af hinu góða? Er ekki þjónusta við mannkynið til góðs? Hægt er að fullyrða að kjarni lífsins er hið góða, en vegna tregðu sinnar til að fullkomnast kjósa menn þó fremur að viðhalda fáfræði sinni, með öðrum orðum, að viðhalda hinu illa.

262. Hin bestu eggjárn eru hert í eldi. Ekki er unnt að hreinsa orkustöðvar líkamans nema með eldi. Óhjákvæmilega blossar upp eldur í orkustöðvunum, og því er nauðsynlegt að sýna mikla gætni við slíkar aðstæður. Glóandi heitt sverðsblað getur auðveldlega brotnað; á sama hátt getur glóandi taugaþráður auðveldlega slitnað. Sýnum því mikla varkárni. Þegar slík forsjálni er auðsýnd er það til marks um að menn hafi þekkingu á því sem er að gerast.

263. Gerðu þér í hugarlund hús þar sem er fjöldi fólks meðvitaður um mikilvægan atburð, en þar á meðal er einn sem ekki veit hvað allir hinir eru að hugsa. Mikill og augljós munur mun verða á milli þeirra sem vita og hins sem ekki veit. Þó aðeins sé litið á ytra borðið er auðvelt að mynda sér skoðun um hinn augljósa mismun. Þeim sem ekki veit líður ekki vel, hann skyggnist um og leggur við hlustir; hann fyllist tortryggni og horfir í kringum sig með fjandsamlegu augnaráði. Þeim mun meiri skapraun sem hann fyllist, því fjær er lausn ráðgátunnar. Með slíkum einföldum dæmum má sjá áhrifamátt hugsana og ástæður sem koma í veg fyrir skynjun þeirra. Fyrst af öllu þarf að hafa í huga að skapstyggð kemur að engu gagni. Brennandi áhugi eða rósemi eru leyfileg, en alls ekki reiði né skapstyggð.

Lát þá sem ætla sér að rannsaka hugsanaflutning hafa í huga að í ljós kunna að koma hindranir sem virðast óviðráðanlegar, en eru í raun auðveldlega yfirstignar af manninum sjálfum. Að lægja erfitt skap er nokkuð sem aðeins virðist erfitt. Munum eftir þeirri aðferð að horfa á súlu sem tákn fyrir geiminn, og reynum að sjá hvar hægt sé að koma skapstyggðinni fyrir – en engan stað er þar að finna fyrir hana, og sama má segja um eigingirnina, þegar óendanleikinn er fyrir augum.

264. Samanburður á hinu smæsta og hinu stærsta leiðir til þess að jafnvægi finnst. Á sérhverri erfiðri leið má finna fótfestu, jafnvel á sléttum klettavegg. En steinninn hefur mótast af miklum fjölda strauma. Lát því vegfarandann sjá að það er ekki aðeins hann einn sem hefur þurft að glíma við erfiðleika.

265. Gamalt spakmæli segir, „Sá sem hugsar um dauðann kveður hann á sinn fund.“ Læknar hafa einnig tekið eftir því að hugsun um endalokin færir þau nær. Margt af þjóðlegum vísdómi felur í sér sannleiksbrot. En við þurfum fyrst af öllu að íhuga hvort unnt sé að vera upptekinn af hugsunum um það sem ekki er til? Kominn er tími til að menn átti sig á því að lífið er viðvarandi. Með því móti gerbreytist viðhorfið til jarðneskrar tilveru. Nauðsynlegt er að leggja sem fyrst áherslu á rétt viðhorf varðandi samfellt líf. Vísindin verða að leggja sitt lið við að eyða drungalegum misskilningi. Það hæfir ekki mönnum að hugsa um gröfina, þeir ættu að fylla hugann vængjuðum hugsunum um fegurð komandi heima. Með því að gera sér skýra mynd í vitundinni um fegurð heimanna er verið að auðvelda sér aðlögun að hinum nýju aðstæðum.

266. Lífsspekin verður fyrst og fremst að leggja áherslu á lífið handan við takmörk hins jarðneska hjúps. Hvaða tilgang hefði hugmyndin um Bræðralagið, ef aðeins væri hægt að þróa hið dýrmætasta í fáeina áratugi? Maðurinn byggir ekki upp vitund sína fyrir morgundaginn eingöngu, heldur fyrir hina endalausu leið út í óendanleikann. Gagnlegt er að endurtaka þessi sannindi í birtu dagsins og myrkri næturinnar.

267. Samvinna getur haft byrjun og endi, en við bræðralagi má ekki hrófla eftir að það hefur orðið til. Við skulum því ekki hugsa með léttúð um slíkt hugtak, sem hefur svo fastmótaðan grundvöll. Bræður munu hittast á öllum tilverustigum og vinna að sameiginlegum verkefnum. Fögnum slíkum möguleika, sem viðhelst um ótaldar aldir.

268. Þegar menn byrja að greina orsakir frá afleiðingum verður margt ljósara, en allt til okkar tíma hafa menn aðeins greint afleiðingar, og það á mjög grófgerðan máta. Enginn virðist kæra sig um að skilja að viss tími þarf að líða frá orsök til afleiðingar. Venjulega er hæðst að þeirri næmu vitund sem greinir orsakir. Grófgert auga sér ekki það sem hefur átt sér stað, og hinn fávísi lýsir því yfir að ekkert hafi gerst. Það er því tímabært að beina hugsuninni að kjarna málsins. Það er þó ekki auðvelt, því traustið hefur veikst, og það hefur valdið því að orka skynjunar og næmni er ekki lengur virk. Hægt væri að nefna mörg dæmi um það að skynjunin var fær um að sjá upphaf afleiðinga í orsökunum, en smávægileg vantrú riður öllum möguleikum úr vegi.

269. Óskapnaðurinn geisar reiður og afbrýðisamur. Hann nær alls staðar fótfestu þar sem hin minnsta veikleika er að finna. Óskapnaðurinn sleppir engu tækifæri til að brjóta sér leið í gegn hvar sem vörnin er ekki nægilega sterk. Sjá má að svik eru framin rétt á undan mjög gagnlegum verkum. Sviksemi tengist ætíð þeim tímum þegar búið er að móta leið framfaranna. Myrkraöflin og óskapnaðurinn geta í raun alls ekki þolað neitt sem er uppbyggjandi. Þau vaka yfir leiðunum og leita þeirra sem geta veitt þeim liðsinni. Hægt er að nefna mörg dæmi, en hins vegar hafa mörg lýsandi verk verið unnin þar sem eining hjartans hefur sigrað myrkrið. Því er svo nauðsynlegt að standa vörð um hugtakið bræðralag.

270. Helgar kvalir stafa ekki af neins konar sjúkdómi. Svo óvenjulegt ástand er handan allra þekktra sjúkdóma. Spennan verður svo mikil að hið smávægilegasta áfall getur slitið hina þöndu strengi. Á það hefur verið minnst hve hið óeðlilega ástand plánetunnar hefur gert illt verra. Sjúkleiki plánetunnar veldur hjartanu ógn með þrýstingi. Af gildri ástæðu var þess gætt fyrr á tímum að vernda þá sem höfðu næm og fíngerð starfstæki. Hugtakið helgar kvalir ætti að beina athyglinni að hjarta sem hefur tengst fíngerðum orkutegundum. Slík hjörtu þarfnast aðgæslu, því þau eru leiðarar fyrir æðri spennu. Þeirra þarf að gæta bæði heima og í öllu lífinu. Væru læknar ekki eins vissir í sinni sök myndu þeir reyna að gefa gaum að slíkum sjaldgæfum fyrirbrigðum. En því miður fæla öll óvenjuleg einkenni værukæra rannsakendur frá. En samhliða tæknivæðingu lífsins verða menn að leggja stund á að kanna æðri orkutegundir.

271. Stundum leiðir það til andstæðra niðurstaðna þegar fólk nálgast æðri orkutegundir með grófgerðum aðferðum. Tökum sem dæmi gleraugu sem hönnuð eru til að skoða árur. Hugmyndin er ekki slæm, en aðferðin er grófgerð og hefur slæm áhrif á sjónina. Hafa verður í huga að þegar reynt er að auka næmleika skilningarvitanna verður það að gerast án þess að skerða hið náttúrlega ástand líffæranna. Notkun radíums hefur reynst skaðleg, en á hinn bóginn er geislunarvirkni sem meginregla læknandi. Á sama hátt breytist alkóhól úr læknislyfi í eyðandi fíkniefni. Dæmin eru fjölmörg. Frumástæðan felst í því að menn tregðast við að gera sér grein fyrir tengslum lífkerfisins og fíngerðra orkutegunda.

Bræðralag og samvinna ættu að stuðla að hreinni og fíngerðari hugsunum. Hreinsun hugsana mótar leið til hreinna lífernis. Hreinleiki er einnig uppörvun og vöxtur.

272. Það er ekkert undarlegt við það að tiltölulega einfaldur maður geti séð geislablik manns – ástæður þess eru margvíslegar. Það kann að vera að hann sé óvenjulegur maður vegna reynslu fyrri æviskeiða, eða að þessi sérstaka hæfni sé þroskaðri en aðrir eiginleikar hans almennt eru. Slík einstök tilvik eru ekki fátíð. Þess ber að gæta að jafnvel ómenntaðir einstaklingar kunna að búa yfir óvenjulegri skynhæfni. Þeir gera sér ekki grein fyrir því hvers vegna þeim veitist þessi þekking, því í þeim finnst engin slægð. Þótt slíkir hæfileikar séu mjög áberandi eiga þeir ekkert skylt við afrakstur fyrri æviskeiða. Margvíslegar efnabreytingar, sem geta vakið upp blundandi hæfileika einstaklings, birtast skyndilega og geta svo horfið aftur tímabundið. Aðeins með skilningi á breytingum strauma í andrúmsloftinu er unnt að skýra þær breytingar sem verða í lífkerfinu. Þið vitið að sjón og heyrn og allar skynjanir okkar taka breytingum vegna áhrifa frá straumum í umhverfinu. Við getum verið þess fullviss að slíkt flökt gerist ekki eingöngu vegna þekktra áhrifa, heldur einnig af ástæðum sem eru utan mannlegrar rökhyggju. Í raun eru það aðeins ytri aðstæður sem geta valdið svo óskiljanlegum fyrirbrigðum.

273. Vitur heimspekingur sagði, eftir að hafa verið seldur í þrældóm, „Kærar þakkir! Augljóslega get ég nú endurgoldið nokkrar gamlar skuldir.“ Keisari nokkur sem nefndur var Hinn gullni, var skelfingu lostinn. „Auðlegðin eltir mig. Hvenær get ég borgað skuldir mínar?“ Þannig hafa vitrir menn íhugað fljótlegustu leiðina til að greiða skuldir sínar. Þeir vissu að á fyrri æviskeiðum sínum höfðu þeir án efa safnað skuldum. En maður með miklar tekjur verður að greiða skuldir sínar eins fljótt og honum er unnt.

274. Haldi einhver því fram að hann sé hvorki hlynntur né andvígur einhverju, skaltu ganga út frá því gefnu að hann sé því andvígur. Mun fleiri andstæðinga er að finna meðal hins þögla fjölda en hinna sem tjá sig opinskátt. Menn telja sig geta dulið andstöðu sína undir hræsnisgrímu. Það er því einstaklega mikils virði að hafa kjark til að tjá skoðun sína. Til að lofið sé réttlátt er samt sem áður nauðsynlegt að hafa fullan skilning á Bræðralaginu sem vogarstöng heimsins. Lítum ekki eingöngu á persónuna, því enginn er einn og einangraður, og sá sem rýfur sambandið hrapar niður á lægri sviðin og skaðar sjálfan sig.

275. Það er rétt að menn ættu að hafa sömu stjórn á samstæðum líffærum, en slík stjórn þarf að hefjast strax í barnæsku. Barnið notar báðar hendur sínar til jafns, en í fordæmi þeirra sem það umgengst sér það að hægri höndin fær forgang. Í skólanum er orðið of seint að koma á jafnvægi. Aðeins meðal fyrstu glampa vitundarinnar getur barnið forðast fordóma hinna fullorðnu. Ekki er nægur gaumur gefinn að forvitni barnsins. Margt er hægt að læra á því hve fljótt það greinir umhverfi sitt.

276. Börn eiga mjög auðvelt með að meðtaka fræðsluna, en taka þarf tillit til sérkenna hvers og eins. Barnið á auðvelt með að muna það sem það hefur áður tileinkað sér, og í stað nýrrar þekkingar er mjög gagnlegt að hjálpa því að rifja upp eldri þekkingu. Á þann hátt á það auðveldara með að tileinka sér ný viðfangsefni síðar, en aðgæslu er ætíð þörf.

277. Sérhver sannur verkamaður verður stundum fyrir því að svo virðist sem allt hans starf hafi orðið að engu, eins og það hafi sokkið niður í botnlaust hyldýpi. Þegar þetta gerist stendur andi mannsins frammi fyrir hættulegu ástandi fyrirfram mótaðra viðhorfa. Hinn veiklundaði skynjar hyldýpið og vonleysi grípur hann, en hinn hugaði skynjar snertingu óendanleikans. Margs þarf að gæta og margt að reyna áður en hægt er að mæta óendanleikanum með fögnuði. Ekki er lengur eftirsjá að horfnum sköpunarverkum mannsins. Þau munu öll tvístrast í óendanleikanum, jafnvel hin göfugustu þeirra. Hinn jarðneski hugur fær ekki skilið hvar fjársjóðir hans geta birst. Maðurinn vill gefa mannkyninu allt hið besta, en í stað ávaxta vinnu sinnar stendur hann frammi fyrir óendanlegu djúpi. Slíkt getur valdið máttugum huga hrolli, en hinn þjálfaði stríðsmaður daglegra starfa skynjar ekki hyldýpisgjá, heldur geisladýrð óendanleikans.

Bræðralags er þörf í allri sinni gagnkvæmu aðstoð. Hver þá, ef ekki bróðir, birtir ljós hins varanlega starfs? Sérhver sproti vinnunnar vex í geimnum. Sköpunarverkin eyðast ekki, en sá allt í kringum sig óteljandi ósýnilegum formum. Hin ævarandi nálægð óendanleikans er sönn blessun. Hægt er að fylla hana fagursköpuðum formum.

278. Sagt var til forna, „Allir menn eru englar.“ Sannlega eru menn boðberar fjarlægra heima. Ábyrgð þeirra er því mikil. En þeir sinna sjaldan þeirri skyldu að koma til skila því sem þeim er treyst fyrir, og þeir láta sig oft litlu skipta þótt fjársjóðurinn glatist. Aðeins fáeinir harma það að þeir hafi ef til vill gleymt fyrri vitneskju. Lát fólk ekki gleyma því að það er boðberar og tengiliðir við fjarlæga heima. Slík vitund gæðir daglegt líf fegurð.

279. Það er þekkt staðreynd að munnvatn mannsins er annað hvort læknandi eða eitrað. En í þessu sambandi hefur þó mjög mikilvægt atriði gleymst, en það er að eituráhrif munnvatns tengjast ekki sjúkdómum. Læknandi áhrif þess viðhaldast þó svo maðurinn sé sjúkur. Þetta merkir að slíkir eiginleikar eru ekki eingöngu efnislegir, heldur hafa þeir í sér fíngerða þætti sem tengist sálrænum kröftum. Umbreyting sálrænnar orku í efnislegt form er staðfesting á tilvist fíngerðra orkutegunda. Við skulum taka eftir þessum fyrirbrigðum hjá dýrum og jafnvel hjá jurtum.

Þeir tímar nálgast að nauðsynlegt verður að gera sér grein fyrir tengslum og samvinnu efnislegra og sálrænna krafta, að öðrum kosti er hætta á að mannkynið eitri fyrir sér með orkutegundum sem það þekkir hvorki né skilur. Hinn vaxandi fólksfjöldi er ekki jafn hættulegur mannkyninu og eitrunin sem það getur orðið fyrir.

280. Lærisveinarnir tóku eftir því að fræðarinn hvíldist oft á árbakka og starði fast á rennandi vatnið. Þeir spurðu, „kemur ölduhreyfingin að gagni fyrir pranajama?“ Fræðarinn svaraði, „það er rétt til getið, því ölduhreyfingin er einstök sveifluhreyfing sem aðeins er að finna í náttúrunni. Í fjölbreytileikanum má greina undraverða einingu.“ Takið því eftir allri hreyfingu í náttúrunni.

281. Til að reyna að vera klókir bera menn því oft við að margvíslegar aðstæður komi í veg fyrir að þeir geti komið góðu til leiðar. En hitt ber að hafa í huga að góð verk er hægt að vinna við allar hugsanlegar aðstæður. Slík eru forréttindi þess að vera maður.

282. Í Bræðralaginu vinna allir eftir bestu getu. Bræðurnir leggja sitt af mörkum í samræmi við krafta sína; þeir forðast að fordæma í hjarta sínu; þeir bera þekkingunni vitni í samræmi við reynslu sína; þeir sóa aldrei tíma sínum, því hann er ekki afturkræfur; þeir eru reiðubúnir að leggja bróður lið; þeir sýna sína bestu eiginleika; þeir fagna allir góðum árangri bróður. Eru þessi frumatriði of erfið? Eru þau yfirnáttúruleg? Eru þau mannlegum kröftum ofraun? Krefjast þau ofurþekkingar? Er hugsanlegt að hetjum sé einum fært að skilja einingu? Til skilningsauka hafa verið gefin dæmi um að mikilsvert fólk hafi gerst læknar, skósmiðir, vefarar eða slátrarar í þeim tilgangi að efla gæði hugsunar með mismunandi tegundum starfa.

Ofar og æðri öllu starfi mannsins er konan. Hún vísar veginn, hún blæs mönnum í brjóst andagift, hún leiðbeinir á öllum stigum, hún er lýsandi dæmi um samfjöllun. Það er undravert hve hratt hún nær árangri á öllum sviðum. Hún getur ofið ljósvængi allt frá jörðu til hinna fjarlægu heima. Hún veit hvernig á að viðhalda Kaleiknum við margvíslegar aðstæður. Þegar Við tölum um samvinnu, þá bendum Við ætíð á afreksverk konu. Á sviði Bræðralagsins er samvinna ríkjandi.

283. Sá er eignar fræðsluna sjálfum sér er á valdi sjálfsblekkingar. Uppruni fræðslunnar er utan seilingar mannsins. Sannleikurinn hefur verið ritaður í eilífðinni, en á hverjum degi leiðir hann í ljós nýtt helgiletur eilífðareðlis síns. Sá sem hreykir sér af fræðslunni í jarðnesku lífi er ekki með fullu viti. Hinn mesti vitringur lítur á sjálfan sig sem boðbera. Það eru ekki boðaðar nýjungar, heldur það sem nauðsynlegt er fyrir líðandi stund. Brytinn býður mönnum að matast; í því felst engin nýjung, en fyrir hina hungruðu hefur það mikið gildi. Því er það ákaflega slæmt ef einhver kemur í veg fyrir að boðið sé til borðs. Sá sem hindrar smíðar sjálfum sér hlekki.

284. Því má líkja við morð að vísa hungruðum manni á dyr. Sjaldan er ekkert matarkyns að finna í húsinu. Hörku, ágirnd og grimmd er ekki að finna á þröskuldi Bræðralagsins.

285. Skapstilling er ekki tilfinningaleysi eða áhugaleysi. Menn verða ekki gramir við að lesa frásagnir frá fyrri tímum, vegna þess að atburðirnir tilheyra fortíðinni, og reynslan kennir að næstum öll miðlun upplýsinga tengist líka fortíðinni. Reynslan hvíslar einnig að framtíðin geti beint hugsunum upp fyrir og handan við skapstyggð og óróleika. Því er það aðeins framtíðin sem er laus undan valdi ástríðna. Af henni fæðist virk skapstilling. Venjulega telja menn þetta hugtak neikvætt, og rugla því saman við eigingirni; en réttara er að tengja það hugtakinu réttlæti. Aðeins framtíðin, óspillt af umróti nýliðinna atburða, getur gert manni kleift að hugsa rökrétt. Við skulum því skilgreina vandlega gildi margra hugtaka sem hafa að ástæðulausu verið niðurlægð eða upphafin.

286. Sannlega ætti að vernda tungumálið fyrir alls kyns afbökun sem er bæði til lýta og eykur ekki skilning. Auk þess er nauðsynlegt að hreinsa tunguna af vissum fornum orðatiltækjum sem byggjast á löngu úreltri notkun. Menn nota oft orð án þess að leiða hugann að merkingu þeirra. Þannig fylla menn orðræðu sína með merkingarlausum nöfnum og hugtökum. Líklega yrði þeim skemmt ef þeir færu að íhuga raunverulega merkingu þess sem þeir hafa sagt. Ætíð skyldu menn taka úr notkun það sem ekkert gildi hefur lengur og hefur glatað upprunalegri merkingu sinni.

287. Verum saman; stöndum saman stöðug fyrir framtíðina. Aðeins með svo trygglyndri afstöðu klæðumst við órjúfanlegri brynju.

288. Í mörgum iðngreinum anda menn að sér og komast í snertingu við margvísleg kemísk efni. Við fyrstu sýn virðist slík snerting ekki valda skaða, en það er aðeins yfirborðsleg ályktun. Hægt er að sýna fram á að með tímanum verða til starfsgreinatengdir sjúkdómar. Áhrifin af fyrstu inntöku hættulegs efnis eru ekki merkjanleg, en með langvarandi endurtekningu nær það tökum á öllu lífkerfinu og gerir ástandið ólæknanlegt. Ég minnist á þetta vegna annarra áhrifa sem fólk leiðir sjaldan hugann að. Menn hafa veitt eftirtekt áhrifum tunglsins; jafnvel læknar hafa tekið eftir þeim verkunum sem tunglið hefur á margvíslegt ástand mannsins. En slík áhrif verða með reglubundnum hætti. Afleiðingarnar þurfa ekki að vera sjáanlegar mennskum augum, en geislar himintunglanna ríkja ekki aðeins yfir efnisstarfstækinu, heldur einnig öllum tilfinningum. Sjá má að fólk sem er gætt kraftmikilli sálrænni orku er ekki eins móttækilegt fyrir áhrifum geislanna. Þannig er ljóst að eðlilegur þroski sálrænu orkunnar gefur mjög góða vörn. Hún er einnig góð vörn gegn mörgum öðrum straumum; því er vanræksla sálrænu orkunnar vottur um fáfræði.

289. Ef boðberi heldur í ferð með sérstaka köllun en gleymir henni á leiðinni, hvað ætti hann að gera? Ætti hann að vonast eftir að fá minnið aftur, eða ætti hann hraða sér að spyrjast fyrir um þann sem sendi hann? Sú þekking að vita hvernig á að spyrja er mikill ávinningur.

290. Ef sálræn orka eins einstaklings getur haft læknandi áhrif, hversu miklu máttugri verða þá ekki áhrif sameinaðrar orku. Merking bræðralags felst í einingu frumorkunnar. Útvíkkun vitundarinnar er það eina sem leitt getur til skilnings á samhljóm orku. Á öllum sviðum lífsins birtist kraftur hennar til góðs. Líklega hefur þú oft verið spurður að því hvernig eigi að efla sálræna orku og hvernig eigi að gera sér grein fyrir gagnsemi hennar. En nægilega oft hefur verið greint frá því að það hjarta sem sækist eftir æðri eiginleikum alls lífs mun verða leiðari fyrir andlega orku. Allar hefðbundnar aðferðir til að vekja hjartað til virkni verða til lítils. Hjartað er ákaflega sjálfstætt líffæri; hægt er að gefa því frelsi til að leggja út á braut hins góða, og það mun skjótt fyllast orku. Á sama hátt er aðeins unnt að tryggja ávexti sameinaðrar orku í vinsamlegum samskiptum, en til þess verða menn að skilja hvað átt er við með vinsamlegu samkomulagi.

291. Það er ákaflega erfitt að gera sér grein fyrir ævarandi virkni fíngerða líkamans. Fólk hefur vanist því svo að líta á tímahugtakið á hefðbundinn jarðneskan hátt, að því er ógerlegt að slíta sig frá þeirri hugmynd að allt taki ákveðna tímalengd. Aðeins þeir sem eru orðnir því vanir að ferðast í fíngerða heiminum vita hve mikið er hægt að skynja á einu andartaki. Margt er hægt að skynja í andanum, og alla skynjun þarf að varðveita.

292. Nú þegar er farið að nota tónlist til meðhöndlunar á sjúkdómum, en áhrifin eru ekki alltaf greinanleg. Ástæðan er sú að almennt er tónlistarskyn ekki þjálfað. Menn ættu að venjast því frá barnæsku að skynja fegurð hljóma og tóna. Tónlistarhæfileika þarf að efla með kennslu og þjálfun. Allir hafa meðfædda hæfni til að skynja tónlist, en án þjálfunar er hæfileikinn í dvala. Menn ættu að hlusta á fagra tónlist og söng. Stundum getur einn samhljómur orðið til þess að vekja varanlegt fegurðarskyn. Það er því vottur um mikla vanþekkingu að hin bestu læknisráð í daglegu lífi hafa gleymst. Þegar jörðin skelfur af hatri er sérstaklega mikilvægt að opna eyru ungu kynslóðarinnar. Ef menn gera sér ekki grein fyrir gildi tónlistar er einnig ómögulegt að öðlast skilning á hljómum náttúrunnar; og að sjálfsögðu er þá ógerlegt að hugsa um tónlist himnanna – hávaði er það eina sem andi hins fáfróða getur skynjað. Söngur fossins eða fljótsins eða hafsins verður aðeins eins og gnýr eða drunur; vindurinn hljómar ekki sem laglína og endurómar ekki í trjánum sem hátíðlegur sálmur. Fyrir lokuðum eyrum er hinn besti samhljómur sem ekki neitt. Geta menn upphafist án söngs? Getur Bræðralagið staðist án söngs?

293. Meðhöndlun sjúkdóma með litum er á sama hátt háð því að augun séu opin fyrir áhrifum litanna. Oft er ein skynjun nægileg til að augun verði varanlega næm fyrir fegurð lita, samt er þörf á hvatningu frá þeim sem hafa til að bera þekkingu og visku. Þótt augun hafi áður verið opnuð vegna fyrri reynslu, er samt nauðsynlegt að kallið "sjáðu!" hljómi.

Og í Bræðralaginu er fegurðin það sem framar öðru veitir uppörvun og hvatningu.

294. Ytri orkutegundir ætti að hagnýta með skynsemi. Það er glæpsamlegt að láta mannslíkamann verða fyrir áhrifum frá lítt rannsökuðum orkutegundum. Með slíku er auðveldlega hægt að dæma fjölda manna til úrkynjunar. Þannig úrkynjun gerist ómerkjanlega, samt eru áhrifin ógnvænleg. Menn glata bestu eiginleikum sínum, og afleiðingin líkist helst heilalömun sem svipar til eitrunaráhrifa ópíums. Sá sem reykir ópíum líkist oft manni sem orðið hefur fyrir eitrun af völdum kola eða bensíns. Hvetja þarf allt mannkyn til þess að gera ráðstafanir gegn mengun borga af völdum olíu og bensíns. Hættan á geðrænum sjúkdómum fer vaxandi.

295. Bræðralagshugmyndin ætti að styrkja tilfinningu hátíðleika. Hátíðleiki ætti ekki að vera orðið tómt. Hátíðleiki táknar að sungnir séu sálmar til hinnar rísandi sólar. Hafa verður í huga hve mikla hreinsun það veitir að vera fylltur styrkjandi hátíðleika. Öll hugtökin sem minnst hefur verið á hafa gildi bæði til upphafningar og til lækningar. Við minnumst á allt sem getur einnig eflt líkamann. Drögum ekki þá ályktun að upphafin hugtök séu aðeins ætluð til upphafningar; þau hafa einnig læknandi áhrif sem styrkja lífkerfið. Menn ættu að gera sér grein fyrir mætti góðra hugtaka.

296. Þegar óendanleiki hefur upplýst vitundina er hátíðleiki nærri. Sumir undrast þá staðreynd að bókin Óendanleiki (Infinity) var sett fram á undan bókunum sem á eftir komu. En hvernig er unnt að skilja Hjarta (Heart), Helgivald (Hierarchy), Eldheim (Fiery World) og Óm (Aum) ef ekki er áður búið að minnast á hugtakið óendanleiki? Öll hugtökin sem minnst hefur verið á geta ekki verið í endanlegu formi. Maðurinn getur ekki tileinkað sér neitt þeirra, ef hann andar ekki að sér kalli óendanleika. Er unnt að líta á mannshjartað sem efnislegt líffæri eingöngu? Er mögulegt að staðsetja Helgivaldið í takmörkuðu rými? Eldheimurinn byrjar ekki að skína fyrr en logar hans blossa fram í óendanleika. Ef Aum er tákn fyrir æðri orkutegundir, er hugsanlegt að þær séu takmarkaðar? Þannig skulum við bera fram orðið óendanleiki með hátíðleika.

297. Er hægt að ræða um einfalda jarðneska einingu eftir mikilfengleika óendanleikans? Þó ekki sé spurt, munu margir hugsa þannig. En hver hefur sagt að jarðnesk eining sé einföld? Til að skilja hana er fyrst og fremst nauðsynlegt að hafa skilning á samfjöllun. En slík alhæfing er aðeins möguleg eftir að hafa fengið skilning á óendanleika. Jarðnesk eining er vissulega ekki einföld!

Þetta orð er mikið notað, en sjaldan nýtt í athöfn. Getur fólk komið saman í einingu? Um leið og vinnan fær fólk til að safnast saman, koma upp aðstæður þar sem ósætti rís. Ógerlegt er að útskýra hvað felst í hugtakinu eining ef í hjartanu finnst enginn hugmynd um mikla þjónustu.

298. Aðeins ákall til Bræðralags getur stundum blossað fram eins og elding. Lát fólk halda að Bræðralag sé ótímabært, að það sé ómögulegt; en þrátt fyrir það mun jafnvel frumstætt hjarta fara að titra, jafnvel hart og biturt hjarta er ekki ósnortið af slíkri áminningu um eitthvað sem hefur gleymst. Nauðsynlegt er að finna einföld orð, því fólk býst við hinu einfalda. Fólk getur tekið á móti góðu orði, ef hægt er að sannfæra það um að það muni gera líf þess betra.

299. Þú hefur sannfærst um að fólk sé móttækilegt fyrir þekkingu. Þetta skref í þróuninni er engin tilviljun. Mörg áföll og mikill kvíði hefur þvingað hjörtun til að titra og byrja að enduróma. Sannlega, byrðin þarf að vera þung til að hægt sé að ganga inn í hinn fagra garð.

300. Það væri auðvelt að ímynda sér þær skelfilegu afleiðingar sem hlytist af því að jörðin myndi skyndilega hægja eða auka snúningshraða sinn. Af því leiðir að nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir mikilvægi takts og stöðugleika. Ætíð ætti að krefjast þess að vinna hafi jafna hrynjandi. Bestur árangur fæst með órofinni og stöðugri vinnu. Vinna Bræðralagsins er dæmi um þetta. Jafn og stöðugur taktur er ómissandi því hann leiðir til meiri gæða vinnunnar. Sá sem þekkir hrynjandi ann starfi sínu. En segul kærleikans er ekki auðvelt að magna. Án hans vakna aðfinnslur og óbeit. Án hans verða gæði vinnunnar minni og tíma og hráefni er sóað. Nauðsynlegt er að ræða um vinnutakt, annars glata jafnvel hæfileikaríkir og góðir starfsmenn áhuga sínum.

Framleiðsla gagnslausra hluta er móðgun gagnvart fólki. Á leið til óendanleika er gagnlegt að hugsa um gæði allrar vinnu. Fræðslan varðar fyrst og fremst gæði, og því hljóta öll verkefni að verða háleit.

301. Þegar haft er í huga að umfang verkefna fer sífellt vaxandi er ljóst að gæði vinnunnar skipta æ meira máli. Samstarf ólíkra starfssviða krefst þess að gæði vinnunnar séu á háu stigi á viðkomandi sviðum – og á það bæði við um hugræna og efnislega vinnu. Á sviði hugrænnar vinnu er athyglisvert að sjá að viðleitnin beinist í mismunandi áttir. Skoðanir geta verið skiptar, en vanda þarf til verka. Þekking getur verið mikil eða lítil, en í báðum tilvikum er unnt að móta bróðurlegt samstarf í þekkingarviðleitni. Hér er ekki verið að koma í veg fyrir öflun þekkingar, en slíku má vissulega líkja við morð. Margir vísar afreksverka eru kæfðir í fæðingu af þeim sem vilja hindra öflun þekkingar.

Þekkingin sjálf er dýrmæt, en jafn mikið gildi hefur sjálf þekkingaröflunin. Heimspekingur nokkur líkti eitt sinn þekkingaröflun við æðri fögnuð. Því dýpra sem menn skynja þessa viðleitni, því meiri verður gleðin. En ef fjötrar eigingirni blandast inn í þekkingarleitina leiðir hún ekki til gleði, heldur óvildar og beiskju. Þegar þekkingar er leitað eru árekstrar óhjákvæmilegir, en í þeim er einnig fjársjóði að finna. Engar þekkingarleiðir verða til ills fyrir mannkynið.

302. Við skulum aftur íhuga hvaða þýðingu hugarástandið hefur. Við hugsanaflutning um langar vegalengdir vill oft verða vart við hindrandi aðstæður, sem lita hugsanir og breyta merkingu þeirra. Hugarástand mannsins mótar og litar allt lífið óvæntum litum. Lundarfar okkar má nefna þöglar hugsanir. Þær mótast ekki í orð, en þær geta haft áhrif á hugræna orku. Auðvelt er að sýna fram á að sendandi og móttakandi eru oft í ólíku skapi, af því leiðir að sending hugsana er ekki nákvæm. Af þessu má ekki draga þá ályktun að hugsanaflutningur sé ekki mögulegur; því hann getur auðveldlega átt sér stað með nákvæmni, þegar búið er að bregðast við með mótvægum aðgerðum. Skaplyndi er það sem oftast myndar slíkar aðstæður, en mögulegt er að bregðast við slíku. Lífkerfi, sem eru bróðurlega samstillt, samhljóma án þess að gripið sé til sérstakra ráðstafana.

303. Sumir byrjendur á lærisveinsbrautinni óttast það að færast ofar í þrepstiga þróunarinnar, því þeir vilja forðast ábyrgðina sem eykst við hvert þrep. Þeir ímynda sér jafnvel að vegferð þeirra á lægri þrepunum sé mun áhugaverðari. Þeir sætta sig við þá iðju að efnisbirta hluti og aðrar áþekkar óábyrgar athafnir. Samt vita þeir að um síðir verður sérhver lærisveinn að finna sinn sess í daglegu lífi og starfi, og verða fyrir árásum óskapnaðarins. Slík tilhugsun er þeim ekki geðfelld. Þannig getur jafnvel Bræðralagið sýnst erfitt í þeirra augum.

304. Margir vonast eftir því að erfiðleikarnir hverfi, og handan þeirra hefjist sæla Amrita. Hvað ætli þeir hugsi ef þeim er sagt að eftir erfiðleikana komi enn meiri erfiðleikar? Ef til vill munu menn reyna að sleppa burt frá hinni mennsku þróunarbraut? En hvert geta þeir farið? Aðeins sá sem ekki óttast hið allra erfiðasta mun kynnast sælu Amrita.

305. Lítum á þá sem afneita trú sinni, en slíka er að finna á öllum tímum. Hægt er að sjá mörg sameiginleg einkenni í svikum þeirra. Einnig má sjá hvernig þeir, í samræmi við karmísk tengsl sín, hafa nálgast leið þeirra einstaklinga sem myrkraöflin óttast. Sjá má hin sömu óheilindi koma fram á mörgum tungumálum. En hægt er að fullyrða að ekki ein einustu svik hafa megnað að varpa skugga á nafn hins ofsótta – svo segja sannindi allra tíma.

Finna má óvenjuleg ritverk sem skýra frá fordæmislausum tilraunum myrkraaflanna til að grafa undan framkomu þekkingar.

306. Væntingar eru mismunandi. Til er afhjúpandi vænting og einnig hindrandi vænting. Í hinni fyrrnefndu er það hjartað sem bíður, en í hinni síðarnefndu er það ég-sjálfið sem bíður. Jafnvel háleit hugsun á erfitt með að berast í gegnum hjúp sjálfshyggju. Hún dofnar við beitt spjót eigingirninnar. Eigingirnin er skörðótt, og brotin upp af öfund og illgirni. Þannig aðstæður leyfa ekki fagra hugsun. Margt gerist óafvitandi þegar tekið er á móti hugsun. Undanfari hins æðri sendiboða er andartak hljóðrar rósemi. Er hugsanlegt að uppblásin sjálfshyggja geti skynjað þetta sæluþrungna andartak? Hjartað eitt veit hvernig hægt er að vera fullur eftirvæntingar. Hjartað hrópar ekki, ég bíð! Mikil eigingirni felst í slíku kalli. En að bíða í þögn hjartans merkir að skynja fyrirboða. Slíkri tilfinningu fylgir mikil gleði. Á fyrri tímum nefndist hún leiðarljós. Ég fullyrði að fyrirboðinn hefur þá þegar opnað hliðin. Hjartað er innilegur gestgjafi; það er ætíð til reiðu fyrir langt að komna gesti. Nauðsynlegt er að nota bestu tilfinningar sínar við móttöku hugsunar.

307. Sagt er að taka verði við hugsun í þögn; slíkt er gagnlegt, en það felur samt ekki í sér öll hin fíngerðu blæbrigði skynjunarinnar. Í reynd er hátíðleikinn það hugtak sem nær merkingunni best. En hátíðleiki krefst hjartahreinleika.

308. Læknir getur fundið fyrir hátíðleika; jafnvel sjúkdómur getur ekki myrkvað hjarta sem lýsir af hjálpsemi til samferðamanns. Undursamlegt er að sjá hve hið góða verður að lækningamætti. Samúðin sprettur aðeins upp af hjartanu. Þannig safnast upp bróðurlegir eiginleikar.

309. Undir áhrifum hugsunar er mögulegt að heyra ekki nálæga tónlist – þannig er sýnt fram á hvernig hugsun ræður yfir efnislegum líffærum. Í ólgusjó lífsins er á sama hátt mögulegt að verða ekki var við snertingu Bróður, en hún getur samt komið á jafnvægi. Líkt þessu stuðlar tónlist að upphafningu hugsunar, þó svo hún heyrist ekki. Hjá Okkur er snerting Bróður nefn leynilegu orði. Það er ekki tjáð munnlega, heldur birt í hjartanu; þess vegna er hjartað nefnt birting Bræðralags.

310. Vitnisburð flugmannanna þriggja sem sáu hesta í mikilli hæð yfir jörðu, ætti ekki að telja fjarstæðu. Fyrir slíkri sýn geta verið ýmsar ástæður. Sjálf hreyfingin getur kallað fram form sem tengist henni, og einnig getur hraði fallið saman við atvik í fíngerða heiminum. Eins og ætíð er nauðsynlegt að ráðleggja mönnum að taka eftir slíkum merkjum. Það er ekki sjálfgefið að telja þau fyrirboða, heldur ætti að viðurkenna þau sem staðreyndir frá sviðum fíngerða heimsins. Slík fyrirbrigði eru ekki fátíð, en öfgakennd afstaða gagnvart þeim er ekki leyfileg. Fólk talar um þau annað hvort með fyrirlitningu eða fáránlegum ýkjum; sjaldan rekast menn á skynsamlegar athuganir.

311. Það eru sérstök vísindi að vita hvernig skal hafa skynsamlegt viðhorf til mismunandi viðfangsefna. Slík afstaða getur af sér sannan skilning á Bræðralagi. Varðveisla helgra hugtaka gefur til kynna þroskaða vitund.

312. Að vissu marki ýtir hröð hreyfing undir samskipti við fíngerða heiminn. Það er eins og hvirfill hreyfingarinnar feyki burtu rykugum hjúpi lægri sviðanna. Trúflokkar sem nota dans og hraðar hreyfingar starfa á þessum grunni. Og á þennan hátt staðfesta þeir að hve miklu leyti slík þvinguð samþjöppun orku er óæskileg. Lægri sviðin á ekki að sigra með efnislegum krafti. Rétta leiðin er náttúruleg andleg viðleitni. Við slíka fagra andlega viðleitni er Bræðralagið vissulega mikil hjálp.

313. Mögulegt er að merkja óvenjulega strauma í geimnum sem hafa svo háa spennu að þeir koma í veg fyrir hugrænar sendingar. Þessi fyrirbrigði eru sjaldgæf, en þess heldur ætti að veita þeim athygli. Ofsafengnir geimstraumar eru ekki langvinnir, því er mjög lærdómsríkt að fylgjast með þeim. Ekki er unnt að draga þá á langinn, því þá myndu þeir valda miklum hamförum. Jafnvægið, sem slíkt, getur varist þeim, en hvert andartak er hættulegt. Við nefnum þetta ástand hyldýpi orkuhvirflanna.

314. Vökul athyglisgáfa er ákaflega nauðsynleg, því ómögulegt er að ímynda sér á hvern hátt mikilvægir atburðir geta gerst. Aðeins mjög næmt lífkerfi getur skynjað nokkurs konar boð sem hvetur það til að beita athyglisgáfunni. Brýnt er að vera viðbúinn slíku boði.

315. Það er ekki auðvelt að mynda bræðralag sem einkennist af fullkomnu samræmi. Lát hópinn vera smáan, en lausan við ósamkomulag; það er auðveldara fyrir lítinn hóp að koma saman og aðskiljast. Öll þvingun og höft eru andstæð Bræðralagi. Lát þá aðeins vera þrjá, en samt mun samstaða þeirra vera sterkari en óákveðni eitt hundrað manna. Hik og óreiða er skaðleg fyrir fólk, og þá ekki síður fyrir umhverfið.

Fyrr á tímum tóku menn sér langan tíma til reynslu við val á hópi andlega samstiga manna. Tímalengdin dugir samt ekki ein og sér til að leysa vandann við valið. Fræ hins illa getur dulist árum saman. Skynjun hjartans getur hvíslað betri vísbendingum. Fólk meðhöndlar hin æðri hugtök af of miklu kæruleysi, aðeins fáeinir vita hvernig á að gæta þeirra í fullkomnum kærleika. Slík varðveisla felst ekki í handapati eða hneigingum, heldur í varanlegri hollustu hjartans. Fyrir sumum er tengingin fjötrar og hlekkir, en fyrir öðrum er hún stigi uppgöngunnar.

Hinir fáfróðu, með hulin hjörtu, segja, “Þessi hugmynd um stiga er óljós,” því það er ekki þeirra að upphefjast. Því er enn mikilvægara að útskýra Bræðralagið, því bráðlega mun fólk leita eftir samvinnu. Þörf er á fullum stuðningi við slíka samvinnu. Þannig mun um allan heim eflast virðing fyrir mikilvægi vinnu. Vinna mun verða sem móteitur gegn gulli. Þrátt fyrir það er nauðsynlegt að tala oft um fegurð vinnunnar.

316. Sagt er að jörðin, laus við heimsku, væri sem paradís. Það eru mistök að láta huggast af þeirri hugsun að nú á tímum sé heimskan minni en til forna, hún er jafnvel enn illskeyttari um þessar mundir. Heimska á háu stigi er sérstaklega varasöm þegar menn leika sér með sprengiefni. Heimskan hugsar ekki um framtíðina. Hún verður ekki óróleg við umhugsun um faraldra. Margar tegundir nýrra sjúkdóma hafa komið fram, samt munu þeir verða enn fleiri. Framkoma Bræðralags mun verða sem óson á meðal eitraðra rústa.

317. Raftæki gefur frá sér rafhögg þegar orka safnast saman í því. Það er ekki ætlunin að gefa fólki raflost, en rafhleðslan hleypur til þeirra sem nálægt standa. Á sama hátt lýstur andleg orka þá höggi sem nálgast hana með illum hug. Sá sem býr yfir slíkri orku ætlar sér ekki að koma höggi á neinn, samt sem áður sendir andlega orkan frá sér orkuhögg þegar fjandsamlegur kraftur stendur gegn henni. Orkuhöggið er ekki sent, það er vakið upp af hinum fjandsamlega krafti. Orkuhöggið verður að sjálfsögðu kröftugra eftir því sem andlega orkan er máttugri. Það væru óafsakanleg mistök að álasa þeim sem býr yfir hinni máttugu orku fyrir að eyða einhverjum. Það er ekki svo, því að árásarmaðurinn kallar sjálfur yfir sig tortímingu.

318. Hæfni til vinnu verður að þjálfa, annars liggur hún í dvala. Hæfni til vinnu í fíngerða heiminum verður einnig að þjálfa. En aðferðin verður að samræmast aðstæðum í fíngerða heiminum. Til eru margvíslegar jarðneskar aðferðir til að nálgast og skilja fíngerða heiminn, en engar þvingaðar hefðir geta skapað besta samhljóminn við hann. Eins og ætíð er náttúrulegur skilningur á samvinnu nauðsyn. Hvort sem um er að ræða fullkominn skilning eða ekki, ætti hann að vera blandaður beinni þekkingu. Menn ættu ætíð að hafa þá tilfinningu að þeir dvelji í báðum heimunum. Ég er ekki að tala um að vænta dauðans, því dauðinn er ekki til; ég er að ræða um vinnu, bæði jarðneska og fíngerða. Iðni við fíngerða starfið ætti ekki að koma í veg fyrir efnislega vinnu, þvert á móti verður hún til að bæta hana. Rangt er að hugsa ekki um fíngerða heiminn; því bæði sofandi og vakandi geta menn tekið þátt í upplífgandi verkefnum í huganum.

319. Með því að velta fyrir sér háleitum vandamálum, býr maðurinn sig undir æðri tilvistarsvið. Smátt og smátt venst hann svo mjög þessum hugsunarhætti að hann fer að tilheyra fullkomlega samsvarandi fögru lífi fíngerða heimsins. Jarðneska lífið er tímabil sem á sér enga samsvörun í æðri heiminum, þess vegna er hyggilegt að nýta sér hið stutta jarðneska tímaskeið til hagsbóta fyrir hið lengra.

Bróðurleg samvinna færir manninn nær upplífgandi verkefnum.

320. Reyndur sundmaður stingur sér af háum palli niður í dýpi vatnsins. Hann finnur fyrir dirfsku og gleði við það að koma aftur upp á yfirborðið. Einnig þannig dýfir hinn meðvitaði andi sér niður í efnislegt hold, í þeim tilgangi að rísa aftur upp til hæða fjallstindanna. Æfingin gerir slíka reynslu gleðiríka. Meðal hins jarðneska er nauðsynlegt að finna samlíkingar við æðri heimana. Vegfarandi virðist gagnlegt dæmi til skoðunar. Berið saman reynslu vegfaranda við ferðalag um fíngerða heiminn, og hliðstæðan verður ljósari. Ímyndið ykkur einnig mjög ólíka vegfarendur, og þið fáið með því glögga mynd af íbúum fíngerða heimsins. Sumir eru jafnvel hræddir við það almennt að leiða hugann að veginum. Suma dreymir um ágóða; sumir skunda til aðstoðar nærstöddum; sumir brenna af illsku; sumir leita þekkingar. Unnt er að sjá fyrir sér hin mismunandi einkenni vegfaranda og dæma út frá því hverjum þeirra muni veitast leiðin léttust.

321. Þeir sem óttast ferðalög eru ekki hæfir til að feta veginn. Er hægt að ímynda sér vatnshræddan sundmann? Jafn skaðlegur er óttinn við tilfærsluna yfir í fíngerða heiminn. Aðeins stöðugleiki og þrá til hins æðsta getur flýtt uppgöngunni. Sá sem hraðar för til þess sem er honum kært telur ekki þrepin í stiganum. Þess vegna er nauðsynlegt að elska til að öðlast.

Bræðralag kennir slíka uppgöngu.

322. Vakandi athygli er merki um víkkaða vitund. Margir hafa engan skilning á því hvaða þýðingu það hefur að gæta þess sem er dýrmætast. Ekki er hægt að reiða sig á þá sem ekki hafa skilning á verðmætum. En hægt er að gleðjast yfir sérhverjum árvökulum varðmanni.

Bræðralag kennir þannig árvekni.

323. Krijasakti, í öllum sínum óþrjótanleika, hefur verið þekkt frá ómunatíð. Ég nota Hindú orðið til að sýna hve langt er síðan þessi orka var skilgreind með fullkominni nákvæmni. Er hugsanlegt að nútíma hugsuðir séu eftirbátar forfeðra sinna? Nú á tímum er svo mikill vafi talinn á sköpunarmætti hugsunar, að hugarorkan er ekki talin til raunvísinda, þótt hún ætti, samkvæmt þeim skilningi sem menn nú á tímum leggja í orku-hugtakið, að tilheyra efnisvísindunum. Þeir sem ekki viðurkenna orku hugans hljóta að teljast til hóps hinna fáfróðu. Haldið ekki að hér sé um eitthvað nýtt að ræða; því miður eru þeir fáir sem búa yfir sannri þekkingu, og afleiðing þess er sú að fullkomlega náttúruleg viðfangsefni eru talin vera einhvers konar kukl. Það er mikil nauðsyn að eyða hjátrú og fáfræði.

324. Það er einstaklega erfitt að veita hjálp þeim sem eru flæktir í bönd karma. Sjá má að sérhvert góðverk verður fyrir ákveðinni andstöðu frá þeim sem fær hjálp. Það er til vitnis um hina sínálægu orku sem nefnist verndari karma. Þeir sem hrófla við karma verða fyrir höfnun, að því er virðist. Allir geta orðið fyrir því að gagnlegar ráðleggingar valdi óskiljanlegri andstöðu. Fólk sem talið er skynsamt hefur stundum farið að tala gegn eigin hag. Leita skyldi ástæðunnar fyrir þessu í karmískum orsökum. Verndari karma er ákaflega máttugur.

325. Stundum er hægt að sjá hugsun sem eldingarleiftur. Þetta fyrirbrigði er mjög sjaldgæft, en þegar orka hugsunar nær slíkri spennu ætti að meta hana mjög mikils. Nú á tímum telja margir að sagnir um slík fyrirbrigði séu tómur skáldskapur, en sá tími mun koma að menn munu rannsaka og mæla strauma hugsunar.

326. Menn eru ávalt furðu lostnir yfir óvæntum atvikum, en þeir gleyma hve margar ósýnilegar aðstæður þurfa að vera fyrir hendi fyrir sérhvert atvik á jarðneska sviðinu.

327. Margir menntamenn hafa séð Himalaja-ljósin, en samt sem áður telja hinir fáfróðu mjög vafasamt að þau séu til. Logi Himalaja brennir ekki, og þó menn hafi séð hann og snert, telst hann enn sem fyrr í hópi furðufyrirbrigða. Öll ljósfyrirbrigði byggjast á einhvers konar orku, en slíkri orku er hafnað. Jafnvel glitrandi stjörnur og ljósblossar, sem margir skynja, eru talin stafa af afbrigðilegri sjónskynjun. Þessi skilningur stangast á við þá staðreynd að slík fyrirbrigði sjást af mörgum mönnum samtímis. En menn deila ógjarnan með öðrum því sem þeir skynja og sjá. Af því leiðir að margt gerist án þess að eftir sé tekið. Þess vegna telja flestir að eldingarleiftur hugsana sé aðeins skynvilla. Samt eru mörg dýr talin rafhlaðin vegna þess að þau geyma í sér talsvert mikla orku; og á sama hátt má tala um að vissir einstaklingar séu rafhlaðnir. Er of erfitt að gera sér í hugarlund að hugsanaorka þeirra geti verið sýnileg eins og leiftrandi blossi, sér í lagi þegar straumar mætast? Nauðsynleg er að vita hvernig á að hafa augun opin. Leggja verður á sig þá fyrirhöfn að veita eftirtekt, að öðrum kosti geta margvísleg athyglisverð fyrirbrigði átt sér stað án þess að tekið sé eftir þeim. Gott dæmi um slíkt eru Himalaja-ljósin.

328. Þessi sama orkuspenna getur einnig haft læknandi eiginleika. Til dæmis hefur eldingarleiftur hugsunar mjög góð áhrif á sjónina. En ekki aðeins er nauðsynlegt að sjá það, heldur þarf einnig að skilja mikilvægi þessa fyrirbrigðis. Til forna nefndust slíkar eldingar framsýni. Önnur ljósfyrirbrigði geta einnig haft læknandi gildi.

329. Við höfum hér rætt um hæfni til vinnu bæði í jarðneska og fíngerða heiminum. En vinnusemin ein og sér er aðeins möguleiki til framfara. Einnig er nauðsynlegt að rækta með sér þann eiginleika að elska af öllu hjarta viðleitnina til starfs í fíngerða heiminum. Á sérhverju andartaki er unnt að leggja stund á þessa viðleitni, og hún ætti að hafa forgang umfram allt annað.

330. Það verður oft misskilningur í tengslum við nöfn á orkutegundum. Menn geta ekki skilið hvers vegna frumorkan er nefnd mörgum mismunandi nöfnum. En það geta verið til nöfn sem gefin eru af mismunandi fólki. Að auki hafa mismunandi þættir hennar verið einkenndir með margvíslegum skilgreiningum. Ógerlegt er að gefa svo fjölbreyttu fyrirbrigði eitt nafn. Í sögu mannkynsins má rekja hve nákvæmlega menn hafa skilgreint hin fíngerðustu blæbrigði þessarar sömu orku. Ætla mætti að nú á tímum væru athuganir gerðar á enn djúpstæðari hátt, en í reynd er næstum hið gagnstæða raunin. Menn reyna að réttlæta sig með því hve lífið sé flókið, en réttari skýring er stjórnlaust flökt hugsunar. Þess heldur ætti að ítreka nauðsyn þess að leggja stund á list hugsunar. Ef skólarnir sinna þessu hlutverki ekki nægilega vel, ætti fjölskyldan að koma til aðstoðar. Ekki ætti að leyfa neinum að verða grunnhygginn, eða með öðrum orðum, óábyrgur.

331. Áföll og erfiðleikar geta í reynd snúið fólki aftur til skýrrar hugsunar. Þið hafið oftar en einu sinni tekið eftir því hversu mjög mikil áföll hafa umbreytt fólki. Heilnæm grundvallaratriði hafa verið ítrekuð með þrumum og eldingum. Menn þjást áður en þeir halda upp á við. Hinir fáfróðu geta ekki skilið eldlega hreinsun, en hvað er fegurra en einmitt slíkt, þegar enginn ótti er til staðar! Þannig beinum Við ykkur oft til fíngerða heimsins sem inngönguhliði að eldheiminum.

332. Það eru sérstakar ástæður fyrir því að andlit frá fíngerða heiminum, sem menn hafa séð, eru ógreinileg og óljós. Andlit frá miðsviðunum geta verið þreytandi, og menn sveipa um sig hlífðarneti, að því er virðist, til að þessir gestir þreyti þá ekki að óþörfu. Í fíngerða heiminum má greina svipaða afmörkun sviðanna, annars yrði afleiðingin óreiða sem myndi endurspeglast á ýmsan hátt.

333. Því er ekki að neita, að það er gagnlegt að efla með sér skýra hugsun til skynjunar á fíngerða heiminum. Aðeins á þann hátt er unnt að komast yfir hinn mikla þröskuld með fullri vitund.

334. Mögulegt er að gera margvíslegar athuganir á útgeislun. Hægt er að færa sönnur fyrir því að handan þeirra geisla, sem jafnvel er unnt að greina með ljósmyndatækni, eru enn fíngerðari ljósbylgjur sem hægt er að nema með næmari tækjum. Bylgjuáhrifin dreifast yfir miklar víðáttur. Einnig er útskýrður sá möguleiki að unnt sé að slíta frá hluta af grunn geislablikinu með fíngerðum bylgjum. Það er sjaldgæft en samt mögulegt, að orkumiklir einstaklingar geti séð hluta af sinni eigin útgeislun. Slík fyrirbrigði eru fátíð vegna þess að venjulega sér maðurinn ekki sína eigin útgeislun. Það má benda á að slíkar útsendingar á orkubliki tengjast hugsanasendingum. Hugsun sem smýgur í gegnum áruna tekur með sér hluta af henni. Agnir úr árunni geta orðið eftir á tengiþræðinum. Sá sem sendir frá sér mikið af hugsunum, rífur burt mikinn fjölda af ögnum úr áru sinni. Þess vegna er slíkt hugrænt starf sannarlega mikið afrek. Sjálfsafneitun felst einnig í því að götóttir hlutar árunnar geta auðveldlega orðið fyrir áhrifum andstæðra strauma. En endurbygging árunnar krefst bæði tíma og orku.

Lát engan draga þá ályktun, að lagt sé til að menn almennt hugsi ekki; hins vegar verður að hafa í huga að sérhvert óeigingjarnt slit árunnar kallar fram eflingu frumorkunnar. Þar af sést að við öðlumst með því að gefa.

335. Mörg íhugunarefni tengjast hugmyndinni um útgeislun. Rannsaka skal með gaumgæfni útgeislun lækna og allra þeirra sem vinna þjónustustörf. Læknir getur borið burt smit með líkama sínum og fötum, og einnig með útgeislun sinni. Hafi dæmi um þetta ekki verið skráð, þýðir það ekki að slíkt sé ekki til. Á sama hátt er hugarástandið, sem streymir frá sumum, háð eiginleika útgeislunar þeirra. Almenn ættu menn að venjast þeirri staðreynd að hugsun ræður örlögum mannsins.

336. Stundum má greina eins konar titrings-snertingu á húðinni á ýmsum stöðum líkamans, þá helst í námunda við mænuna; það ætti að vera ljóst að slík fyrirbrigði tengist einnig hugsanasendingum, sérstaklega þegar orkumiklar hugsanir eru á ferð. Þessar skynjanir vekja yfirleitt ekki neina sérstaka eftirtekt, en nú á tímum þegar verið er að ræða um hugarorku, ætti að taka til sérstakrar athugunar hin efnislegu skynhrif sem tengjast henni. Viðtakandi hugsunar umbreytir henni ekki alltaf í orð, en hún er samt sem áður inngreypt í hugræna starfstækið og hefur áhrif á aðrar hugsanir. Veita ætti eftirtekt þannig skilningi á móttöku hugsana. Hingað til hafa menn aðeins tekið til athugunar hugsanir sem hafa verið formaðar í orð, en ekki tekið eftir djúpstæðustu svöruninni, sem er án orða.

337. Í þessu tilliti má benda á lýsandi dæmi frá fyrri tíð. Fyrir löngu áttuðu menn sig á því að hugsun þarfnast ekki orða á ákveðnu tungumáli. Hugræn orka verkar á heilann og vekur upp hljóm sem vitundin skilur. Hvort slíkur hljómur er settur saman úr orðum eða liggur dýpra í vitundinni er ekki meginatriði. Með hugrænu starfi næst skilningur á því sem mestu máli skiptir.

338. Vísindi hugsunar hafa gríðarlega mikið gildi við það að öðlast skilning á Bræðralagi. Þegar samræmi er byggt á samvinnu hjartna, en ekki á hefðbundnu samkomulagi, er raunbirting hugsana sérstaklega skýr og áhrifarík. Menn ættu ekki að furða sig á því að bræðralagshugtakið þarfnast svo margra samhljóma. Þær samhljómandi sveiflur eru gleðigjafar.

339. Líflaus perla er endurlífguð með því að vera borin af ákveðnum einstaklingum. Aðeins tilvist frumorkunnar getur útskýrt þetta náttúrulega ferli. Menn ættu að taka eftir svipuðum fyrirbrigðum á öllum sviðum lífsins. Sjá má hve ýmsir hlutir endast lengi hjá sumum. Unnt er að sjá hve líflega frumorkan vinnur af eigin krafti þegar hún er yljuð af eldi hjartans. Sjá má hve heilnæm áhrif stafa frá vissum mönnum, sem ef til vill hafa ekki hugmynd um hina lifandi tilvist frumorkunnar í þeim sjálfum. En ef þeir að auki væru meðvitaðir um orku sína, myndi heillavænleg virkni þeirra eflast til muna.

Aldrei skyldi komið í veg fyrir neina virkni hinnar gagnlegu orku, hversu smávægileg sem hún er. Enginn hefur rétt á því að nýta ekki allt sem að gagni getur komið fyrir mannkynið. Það eru undanbrögð að afsaka aðgerðarleysi sitt undir því yfirskini að einhver annar sé hæfari. Ákaflega skaðleg eru öll undanbrögð frá sjálfsfórn. Menn geta endurlífgað perlur án þess að finna til þreytu; það er einnig mögulegt að ylja mörgum um hjartaræturnar með því að finna til gleði.

340. „Hvert hrekið þið okkur, hatursfullu ofsækjendur? Óafvitandi eruð þið að ýta okkur í skjól ljóssins.“ Þessa fornu setningu má endurtaka á öllum tímum. Á öllum tungumálum er mögulegt að staðfesta þessi sannindi, þess vegna er betra að vera ofsóttur en að ofsækja.

341. Hugsun er lögmál heimsins. Þetta lögmál verða menn að skilja í allri sinni dýpt. Hugsun er ekki eingöngu tjáning orða, svið hugsunar er einnig svið hinnar hugrænu orku. Einmitt þessi þáttur hefur horfið sjónum, og aðeins þröngu sviði er úthlutað hugsun. Slík takmörkun kemur í veg fyrir að hugsun sé tjáð þannig að hún takmarkist ekki af Jörðinni, með öðrum orðum, hún sviptir hugsunina göfugri merkingu sinni. Hugsun og hugræn orka fær í raun ekki sitt rétta gildi nema sá skilningur sé fyrir hendi að hún sé óháð takmörkunum Jarðarinnar. Ógerlegt er að takmarka hugsun við hið jarðneska svið, því þá myndu útvarpsbylgjur keppa við þessa mestu orku allra orkutegunda. Takmörkun mestu orkunnar stuðlar einnig að því að gera lítið úr mennskri hugsun. Sannlega, því meir sem maðurinn takmarkar möguleika sína, því meir útilokar hann sig frá æðri samvinnu.

Rannsaka ætti hugsun í hinum bestu vísindastofnunum. Skipa ætti hugsuninni í fremsta sæti hinna efnislegu aðstæðna lífsins.

342. Fordómar eru aðgangsleið fyrir óréttlæti og fáfræði. En menn ættu að gera sér grein fyrir markalínu fordóma. Þessi ormur býr í sama húsi og efinn, eins og yngri ættingi. Skarpskyggni er þörf til að greina þessa hættulegu ógn. Venjulega mæta menn sérhverju fyrirbrigði og sérhverjum hlut með mismiklum fordómum. Menn reyna að réttlæta sig með því að segja að fyrst þeir geti skynjað hluti þá hljóti þeir einnig að hafa til að bera fordómalausa dómgreind. En staðreyndin er sú að í stað óhlutdrægni opinbera þeir miskunnarlausa fordóma. Menn ættu að hafa þennan algenga veikleika í huga til að vita hvað skyldi forðast.

343. Fordómar hæfa ekki Bræðralagi.

344. Sérhver lítillækkun hugsunar hæfir ekki Bræðralagi.

345. Öll kærulaus viðhorf gagnvart fyrirbrigðum æðri sviðanna hæfa ekki Bræðralagi.

346. Eining er hinn háfleygi draumur mannkynsins; þegar draumurinn nálgast veruleika, eru aðeins fáeinir fylgjendur eftir. Umbreyting ásetnings í athafnir fælir flesta burtu. Staðfesting einingar er viðleitni til æðri lögmáls, sem mannkynið á núverandi stigi tekur á móti með erfiðleikum. En hver sá sem óskar að þjóna Bræðralagi er óhræddur við hugmyndir sem jafnvel flestir hafna; hugsun sem leitar eftir einingu er aðeins að finna í óvenjulegri vitund. Sérhvern heilbrigðan stað þarf að vernda. Á þann hátt fer að myndast heilbrigður hjúpur um jörðina. Nú er hann mjög sýktur.

347. Ó, tvífættu verur! Hvers vegna eigið þið svo auðvelt með að sökkva niður í óheilbrigt ástand?

348. Með venjulegri sjón er unnt að greina merki frá fíngerða heiminum. Oft má sjá sérstök litbrigði, að því er virðist. Það er furðulegt að sjá hve sumir eru í raun huldir þéttri þoku, meðan aðrir sjá mjög skýrt. Allir geta munað eftir tilvikum þegar þeir nudduðu augun eftir að hafa séð eitthvað óvænt, og eins og venjulega útskýrðu þeir sýnina sem einhvers konar sjóntruflun. Þeim datt ekki í hug að fyrirbærið væri til í raun og veru og væri sýnilegt mörgum öðrum.

349. Í stórum geymsluhúsum er hægt að finna marga merkilega hluti, en sérfræðingar og vísindamenn kjósa stundum frekar að leita á smáum óþekktum stöðum, og þannig leit gefur af sér óviðjafnanlegar uppgötvanir. Hið sama gildir um allt í lífinu, menn ættu að leita víða til að glata ekki nýrri og dýrmætri samvinnu. Á það hefur þegar verið bent, að einn af hundraðþúsund kemur með gagnlega steina í bygginguna, samt er óafsakanlegt að stjaka við burðarmanni á sinni erfiðu braut. Menn ættu ekki að ásaka hann né ávíta. Ekki má steypa veggina of snemma; vegfarendur geta ekki komist hraðar en mannlegur styrkur þeirra leyfir. Því fylgir sérstök gleði að sjá hvernig byggingin fær á sig endanlegt form. Margir höfðu ekki trú á því að nærliggjandi steinar væru nægilega traustir; þeir mynduðu sér skoðun af eigingirni. En dögunin mun leiða í ljós hvar rétta ákvörðunin lá.

Þannig er það ekki aðeins í stórum geymsluhúsum heldur einnig á smærri stöðum sem hægt er að finna dýrmæta hluti.

350. Enginn getur umbreytt vitund sinni á svipstundu. Margar ytri aðstæður eru nauðsynlegar. Aðeins í traustum byggingum hreyfast steinarnir ekki við jarðskjálfta. Á sérhverjum degi leggjum við grunninn að nýrri byggingu.

Hver sá sem getur glaðst yfir vinnu hvers dags er á leið til Bræðralags.

351. Jafnvel í mjög tæru lofti leiðir sólargeisli í ljós rykagnir. Slíkt má sjá með berum augum. Hve miklu meira er þá unnt að sjá með augum fíngerða heimsins. Menn geta vissulega vanið sig á að skynja mettun geimsins. Lítt þroskuð vitund sættir sig við að geimurinn virðist tómur, en frá slíku tómi fæðist vitundartómleiki. Fólk verður óábyrgt ef það lifir í tómi, en öll óábyrgni er fals. Líf í óheilindum er daður við myrkrið.

Jafnvel frumstæð smásjá getur fært okkur heim sanninn um það að geimurinn er fullur. Hann er ríkulega fylltur. Það er fræðandi að sjá hvernig hinar örsmáu lífverur eru í snertingu við fíngerða heiminn. Mikil átök eiga sér stað vegna hreinsunar geimsins. Þessi næstum því ógreinanlegu átök leiða til mikils óróa. Smáheimurinn glímir við stórheiminn. Slíkur ágreiningur virðist ólíklegur, þó er markalína hins raunbirta og óskapnaðarins jafn dularfull.

352. Menn kunna að heyra talað um gæfu- og ógæfumerki frá þeim sem rannsaka áhrif himinhnattanna. En í reynd er ekki mögulegt að gæfa eða ógæfa hafi áhrif á allan heiminn. Það er því til lítils að halda að einn ógæfudagur geti stefnt öllum heiminum í voða. Samt sem áður ætti að viðhafa varúð ef áhrifin eru erfið og þung. Athugun og varkárni gefa bestan árangur. Það er nauðsynlegt að viðhafa varúð á erfiðum tímum, en það skiptir ekki eins miklu máli þó að menn glati skarpskyggninni á auðveldum tímum. Rangur skilningur á stjörnuspeki hefur leitt til margra vandamála. Gleymum ekki að himinhnettirnir geta ekki haft jöfn áhrif á allt og alla. Uppi á fjöllum, á sjónum og undir yfirborði jarðar, geta viðbrögðin við áhrifum ekki verið eins. Vísindin um áhrif himinhnattanna eflast mjög þegar unnt er að meðtaka þau án fordóma.

353. Hafa skal í huga að góð læknislyf geta orðið skaðleg við sérstakt ástand lífkerfisins. Til dæmis getur lyfið strófantín haft eiturverkun ef það er notað í geðvonskukasti. Strófantín kemur reglu á starfsemi hjartans, og er mjög gott þegar spenna eða þreyta er ríkjandi, en ekki í reiði eða skapstyggð. Á sama hátt eru önnur lyf góð þegar þau samræmast ástandi lífkerfisins.

354. Áhrif tunglsins og sólbletta hafa fyrir löngu vakið eftirtekt fræðimanna. En hvers vegna eru önnur, ekki síður mikilvæg fyrirbrigði, vanrækt? Tunglfyrirbrigði eins og svefnganga eru afskaplega grófgerð í samanburði við virkni margra geisla og strauma. Jafnvel þeir sem búa yfir fíngerðum starfstækjum eiga erfitt með að viðurkenna þá staðreynd að innri skynjanir þeirra byggist fyrst og fremst á straumum úr geimnum.

Meðal vísindalegra uppgötvana getur sú staðhæfing hljómað einkennilega, að sólblettir hvetji til styrjalda. Væri ekki betra, frá vísindalegu sjónarmiði, að segja að sólblettir veki upp geðveiki hjá mönnum? Slík skilgreining er mun nær sannleikanum, því þessi áhrif verka í reynd á taugakerfið. Gleymum ekki í þessu sambandi að slík efnisleg áhrif er mjög langvinn. Það væri óvarkárni að gera ráð fyrir að áhrifin í geimnum hverfi um leið og sólblettirnir minnka.

Á sama hátt er verkun eiturgass mjög langvinn. Það er óskynsamlegt að halda að eitrið gufi upp um leið gluggi er opnaður. Jarðvegur og föt draga það í sig, og það hefur tvímælalaust áhrif á innri líffærin. Að auki má benda á að slík áhrif eru svo ógreinileg að aðeins framtíðar afleiðingar munu vekja eftirtekt. Mikið er um eituráhrif!

355. Hver sá sem eitrar fyrir bróður sínum skapar sér hræðileg örlög.

356. Smátt og smátt eru menn að fara að átta sig á því að þjáningar þeirra eru ekki tilviljunum háðar. Menn eru byrjaðir að íhuga örlög heilla þjóða. Það er ekki auðvelt að átta sig á því hvaða athafnir hafa ráðið úrslitum. Oft er mjög erfitt að gera sér grein fyrir athöfnum sem hafa mjög fjölbreyttar afleiðingar. Margir óupplýstir glæpir eru í heiminum, samt mettar slíkt karma allan heiminn.

357. Heimurinn er hræðilegur, vegna þess að menn kæra sig ekki um að öðlast þekkingu á yfirjarðnesku heimunum. Menn hafa hafnað Bræðralagi og gleymt samvinnu og einingu.

358. Þið hafið heyrt um fólk sem finnst öll vötn vera lík, allt andrúmsloft eins, öll tré af sömu tegund keimlík, jafnvel andlit fólks finnst því hvert öðru líkt – slíkt eftirtektarleysi er furðulegt. Og þannig fólk, sem ekki er fært um að greina fíngerðar breytingar náttúrunnar, er enn óhæfara til að mynda sér skoðun á því sem ekki er sýnilegt. Nauðsynlegt er að tala oft og með ríkri áherslu um svo lágstæðar vitundir, því þær hafa þrumuraust.

359. Menn ættu einnig að veita því eftirtekt hve margt gerist með óreglubundnum hætti. Margir furða sig á því að jafnvel hreyfing plánentanna er óstöðug, en samt er þetta vísindalega staðfest. Smám saman munu ástæðurnar fyrir svo óskýrðum fyrirbrigðum opinberast, en þær ástæður munu reynast mjög óvæntar.

360. Umskiptin úr fíngerða sviðinu yfir á hugarsviðið vekja upp í huganum hugmyndina um umskiptin frá jarðneska sviðinu yfir á hið fíngerða. Það er ekki oft hægt að fylgjast með umbreytingu fíngerða líkamans í hugarlíkamann. Það er mjög einkennandi að hinn frelsaði veltir því fyrir sér hvað hann á að gera við fíngerða líkamann. Hann eyðist hægt, og þess vegna er skiljanlegt að menn furði sig á því hvað verði um hann. Þessi hjúpur getur raunbirst, hann getur verið yfirtekinn, en aðeins sterkur andi getur aðstoðað við að eyða þessari skel án þess að hún fari á flakk. Engin nauðsyn er á slíkum ráfandi skeljum. Ístöðuleysi vitundar og sterk tenging við efnislíkamann skapar þessa aðlöðun að efnissviðinu. En ef máttugur andi getur hvatt hinn frelsaða og róað skelina sem er yfirgefin, þá geta umskiptin orðið eðlileg. Þannig var það í nefndu tilviki.

361. Hjá sumum þjóðum er Bræðralag svo fjarlægt að þær forðast jafnvel að leiða hugann að því. Þær gera gys að Asíuþjóðum sem enn líta á bræðralagshugtakið sem heilagt. Það er fagnaðarefni þegar hugtök, sem eru fögur í háleitni sinni, lifa utan og ofan við mennsk lög. Þegar menn geta fest í sessi einingu við bræðralagshugtakið, er unnt að hlakka til þess að byggðar verði traustar undirstöður. Lát fjöllin í Kákasus, Altai og Himalaja verða bústaði hins fagra Bræðralags.

362. Mitt í auknum átökum og erjum skulum við leggja áherslu á Bræðralag.

363. Alveg eins og líkaminn er til á mismunandi stigum, eru til mismunandi lagskiptingar hugsana og minnis. Ef hugsanasending hefur snert svið fíngerðs minnis, er ákaflega erfitt að yfirfæra hana yfir á jarðneska sviðið. Hugsanlega er unnt að bera fram orðin, en samt munu þau hverfa á svipstundu. Þau munu viðhaldast í geymslu fíngerða minnisins og munu aðeins koma fram við sérstaka samsetningu strauma.

364. Framfarir eru ekki mögulegar án skilnings á heimunum þremur. Í þessu sambandi verður að taka á móti þeim eins eðlilega og geislum sólarinnar. Margir endurtaka utanbókarlærdóm um heimana, en hleypa þeim ekki inn í vitund sína. Hægt er að gera sér í hugarlund hvað gengur á þegar útilokuðum ögnum úr heimunum er ekki leyft að eiga samvinnu við æðri sviðin! Réttilega hefur verið á það bent maðurinn er sinn eigin fangavörður.

365. Þegar verið er að taka á móti og senda hugsanir er unnt að merkja ákveðin fyrirbrigði sem staðfesta að hugsun er orka. Stundum verður andardrátturinn erfiður. Sumir segja að ástæða þess sé mikill einbeiting. En fyrir athugandann er mjög mikilvægt að taka eftir því að hugsunum fylgja efnislegar skynjanir. Stundum fellur út hluti orðs, en slíkt orsakast af geimstraumum, með öðrum orðum, vegna áhrifa orku. Einnig má merkja aukinn hjartslátt og óreglulegan hjartslátt sem einnig stafar af áhrifum orku. Það er líka hægt að verða var við snöggar breytingar á skapi og hitastigi, sem bera vott um þessa strauma. Þannig er mögulegt að rekja að hve miklu leyti allt hugrænt starf tengist efnislegum fyrirbrigðum. Hliðstæðu má finna með því að athuga útvarpsbylgjur.

Um langan tíma hefur mannkynið verið að venjast því að hugsun sé viðurkennd, en hve lítið hefur skilningur á þessu frumlögmáli náð til hins almenna fjölda! Viturlega hefur verið sagt að hugmyndir ráði heiminum. Allt til okkar tíma hafa menn endurtekið þetta, en nýta sér það ekki í lífinu.

366. Takið eftir því hve ákveðin orð þjóta fram hjá með miklum hraða. Ástæðan þarf ekki að liggja eingöngu hjá sendandanum; leitið orsakanna í efnislegum iðustraumum, sem þið hafið nú þegar veitt eftirtekt. Aðeins er hægt að sigrast á slíkum aðstæðum með mikilli þolinmæði. En verið þess fullviss að jafnvel slíkar hraðar hugsanir viðhaldast í fíngerða minninu.

367. Hugsun er elding. Móttekin hugsun kveikir oft lýsandi blossa í okkur; hún eflir síðan útgeislun orkustöðvanna. Einnig má skilja það svo að titringur í mænu sé nátengdur móttöku hugsunar. Ég minni á slík fyrirbrigði, vegna þess að á leiðunum til Bræðralags er óhjákvæmilegt að öðlast skilning á efnislegum áhrifum hugsunar.

368. Það er vissulega hægt að skynja það sem virðist vera útþensla líffæris, eða hreyfing í kviðarholinu eða sólar-plexus stöðinni. Hinn huglitli mun segja, „Betra er að reka burt allar hugsanir en að leyfa slík áhrif sem jaðra við sársauka.“ Við skulum svara, „Reynið bara að eyða hugsun!“

369. Meðan erfiðir straumar eru ríkjandi ættu menn að hugsa mjög vel um heilsuna. Ekki skildi ætla að þessi hugsun sé í mótsögn við óeigingirni. Meginatriðið felst í því að hagnýta orku á skynsamlegan hátt.

370. Ef trúnaðarsambönd milli fólks væru fleiri, væri hægt að staðfesta margar vísindalegar athuganir. Við skulum leiða hugann að því fyrirbrigði þegar sama hugsunin vaknar samtímis á mörgum stöðum á jörðinni. Svo margar ásakanir um ritstuld er hægt að hrekja! En núna hugsum við um þetta í tengslum við útbreiðslu hugsunar. Framkoma sömu hugsana, hugmynda og ímynda getur sannfært mann um tilvist hugarorku. Þessi samlíking getur gefið til kynna skyldleikatengsl milli mismunandi þjóða.

Menn tala oft um ímynda tísku, og einmitt nú á tímum má sjá hve sömu áleitnu hugmyndirnar herja á þjóðirnar. Því líkari sem hugsanir eru í geimnum, því kraftmeiri orkuhvirflar geta myndast. En haldið ekki að í þeim finnist hin læknandi eining sem Við höfum svo margsinnis lýst.

371. Óttinn við hið óvenjulega tengir fólk saman, bæði í smáu sem stóru. Einn hræðist að yfirgefa stað, annar hræðist fyrirbrigði frá fíngerða heiminum. Það er skiljanlegt að áfall geti orðið við snertingu við fíngerða heiminn, vegna mismunandi sveiflutíðni, en erfitt er að skilja hvers vegna meirihluti manna óttast allt sem er óvanalegt. Sérhver ný tíðni angrar fólk. Þegar menn hafna einhverju, leitið orsakanna í ótta eða í hugboði um aukna tíðni. Óttinn við hið óvenjulega hæfir ekki Bræðralagi.

372. Spurt er hvort hjúpurinn sem huglíkaminn skilur eftir sé sjáanlegur. Ekki aðeins er hann sjáanlegur heldur laðast hann sérstaklega að efnislega sviðinu. Fíngerði líkaminn dregst að jarðneska sviðinu, ef huglíkaminn dregur hann ekki upp á hærra svið. Það er mjög líklegt að hjúpur skilinn eftir af huglíkamanum laðist að efnissviðinu. Þannig svipir eru mjög ógnvekjandi fyrir sumum, vegna þess að vitræni þátturinn er ekki lengur til staðar. Slíkt reik er ekki heldur gagnlegt fyrir sjálfa hjúpana; aðlöðun þeirra að efnissviðinu veldur því að þeir eflast og kemur í veg fyrir að þeir leysist upp eftir náttúrlegu ferli. En öll slík fyrirbrigði tengjast eingöngu lægri og miðsviðum fíngerða heimsins. Fíngerðara ástand hraðar upplausn hinna yfirgefnu hjúpa. Þess vegna eyðist hinn yfirgefni hjúpur samstundis þegar fíngerð vitund hjálpar þeim sem gengur í gegnum umskiptin. Þetta er nákvæmlega það sama og líkbrennsla. Hin fullkomna samlíking ætti ekki að koma á óvart.

373. Magnaðir eru geislar Júpiters; þeir ýta undir skjóta dreifingu á kröftum Úranusar. Þegar tímar líða munu menn uppgötva aðferðir við meðhöndlun með geislum himinhnattanna. Fyrst jarðneskir ljósgeislar hafa lækningamátt, hve miklu máttugri eru þá geislar himinhnattanna!

374. Umræddur hjúpur leystist hratt upp, vegna þess að aðstoð var veitt. Fíngerði líkaminn getur einnig veitt slíka hjálp meðan hann er enn bundinn jarðnesku lífi. En til að slíkt sé mögulegt, er nauðsynlegt að hafa fullkomna sjálfsstjórn á hvaða sviði sem er og vera laus við ótta. Slíka sjálfstjórn geta menn ekki lært af sjálfsdáðum; hún verður að fæðast af vitundinni. Reynsla lífsins kennir vissulega hugrekki. Sagt hefur verið, „Sérhver hugleysingi skelfur svo lengi sem hann finnur ekki demant hugrekkisins.“

375. Menn undrast hvers vegna mjög mikilvæg hugsun berst stundum ógreinilega, á meðan hversdagsleg samskipti berast mjög skýrt. Með varkárni skyldu menn dæma um mikilvægi þess sem virðist venjulegt. Stundum felst lausn á einhverju mikilvægu í mjög hversdagslegum kringumstæðum. Oft er það aðeins eitt orð sem varar við einhverju nauðsynlegu. Oft fá menn viðvörun um hættu með einu kalli. Það er gott ef hægt er að greina viðvörunina í þessu stutta orði. Mörg dæmi eru um fólk sem heyrði ekki mjög áríðandi vísbendingar. Á andartakinu, þegar ógæfan dynur yfir, rifjast upp fyrir því í svipleiftri hvernig því var boðin hjálp, en þá er allt orðið um seinan. Venjulega halda menn að hægt sé að veita hjálp við allar aðstæður. En er lækningar að vænta þegar upplausn lífkerfisins er þegar hafin? Ógerlegt er að hönd vaxi að nýju, og ómögulegt er að endurlífga deyjandi heila. Mörg dæmi eru um að fólk hafi sárbænt um endurlífgun hins deyjandi. Slík viðhorf sýna einungis algeran skilningsskort á því hvernig unnt er að vinna með orku.

Á meðan missa menn sjónar á baráttunni við náttúruöflin. Sjái menn ekki þessa baráttu, er hún ekki til fyrir þeim. Á erfiðustu stundunum eru þeir reiðubúnir að fást við hversdagsleg vandamál, án þess að hafa áhyggjur af því að skelfileg hringiða gæti verið að steypast yfir þá. Þeir kjósa að sökkva sér niður í daglegt amstur og láta einhvern annan um að leysa öll mál.

376. Sennilega verður spurt hve hratt hugsun getur verkað. Samstundis, en taka verður á móti henni með væntingu. Menn verða að vita hvernig varðveita skal væntinguna, jafnvel þó vinnuálagið fari vaxandi. Það er óhæfilegt að gleyma slíkum möguleika, þótt menn séu heilshugar í viðleitni sinni við að ná þráðu marki. Að vera reiðubúinn sýnir sannan kjark.

377. Sérhver vél veldur ákveðnu sálarástandi hjá þeim sem vinnur við hana. Taktur vélarinnar bendir sterklega til hugsunarháttar. Af því leiðir að menn skyldu rannsaka takt mismunandi véla. Segja má að vél sé dæmi um ákveðið ástand. Þeir sem vinna við vélar ættu að fá sérstaka hugræna þjálfun í því að forðast að verða fyrir áhrifum frá takti vélarinnar. Margir munu alls ekki skilja hvað hér er rætt um, og munu telja að slíkar óhlutstæðar ályktanir séu merkingarlausar. Tímabært er að greina á milli líkinga og staðreynda.

378. Hugsun fjarar ekki út í geimnum. Lárétt og lóðrétt streymir hugsun um geiminn. Útþensla hennar á sér engin takmörk. En ekkert getur viðhaldist á sama stigi. Við vitum um óbreytanleika hugsunar, en hún virðist verða fyrir ummyndun, og menn þurfa að vita í hvað hún ummyndast. Hún flæðir inn í hreinan eld. Afleiðingin er fagur hringur. Af eldinum rís orka – skapandi hugsun – og í gegnum hinn jarðneska bræðsluofn sameinast þessi hugsun aftur eldi. Hringurinn lokast, og hin endurnýjaða orka streymir upp, endurnýjuð til nýrra verka. Sjá má slíka fullkomnaða hringi um allan alheim. En þróun hugsunar mun verða einstaklega göfug. Knýr því ekki þessi þekking um gildi hugsunar manninn til að auka hugarorku sína? Lát hvern og einn finna út hvers konar hugsun muni verða mest skapandi. Lát manninn meta í hjarta sínu hvaða hugsun hæfir honum best. Þannig á sér stað val á gildum.

379. Bræðralag er í eðli sínu ákveðinn háttur hugsunar. Sérhver athöfn Bræðralags felur í sér tjáningu hugsunar sem kemur mannkyninu að gangi. Sérhver ný vitund er boðin velkomin af Bræðralaginu og fær stuðning frá því.

Það er rétt að samtímis í mismunandi löndum er samvinnan lofuð; slíkur vefur verður Heimsmóðurinni samboðin.

380. Sýnið meiri hugdirfsku, lærið hvernig þekkja á örlagadaginn!

381. Við rannsóknir á hugsanaflutningum verða menn oft fyrir vonbrigðum vegna þess að þeir nota rangar aðferðir. Þeir byrja strax á því að reyna að senda hugsun til ákveðins manns á vissum tíma, en rétt er að prófa sína eigin næmni án þess að annar aðili sé með í spilinu. Menn verða að læra að greina á milli eigin hugsana og þeirra sem koma utan frá. Slík greining er vel kunnug þeim sem hafa vanist því að fylgjast með ferli hugans. Slíkar æfingar með sjálfan sig efla athyglisgáfuna.

382. Einsetubúi sem bjó við fjallalæk var eitt sinn spurður, „Er ekki fossniðurinn truflandi fyrir þig?“ Hann svaraði, „Þvert á móti, hann eflir heyrnarskyn mitt. Auk þess minnir árniðurinn mig á tvö hugtök – samhljóm og varanleika. Ég minnist þess hvernig fólk leiðist út af sinni réttu braut. Þessi tilbrigði hugsana hefur lækjarniðurinn gefið mér.“

383. Er ekki furðulegt hve mikil sannindi vekja litla athygli, en hið léttvæga verður miðpunktur viðleitninnar? Ættu menn ekki að meta vitund sína eftir þessum mælikvarða? Hver setti fram lögmál lágkúrunnar, og hvenær?

384. Stundum er eins og flæði hugsananna hætti. Menn skyldu ekki álykta að orkan hafi minnkað. Þvert á móti, útstreymi orku á sér stað, og það svo öflugt að orkan verkar innan frá. Taka verður tillit til slíkra aðstæðna. Að sjálfsögðu er orkuútstreymið ekki eingöngu meðvitað, það flæðir líka af sjálfsdáðum, og færir hjálp eða eflir varnir. Margs konar aðstæður koma við sögu við hugsanasendingar og hugsanaflæði. Menn verða að hafa mjög skýra sjón til að greina nokkurs konar iðuský sem fylgir í kjölfarið. Gleymum heldur ekki að vitund okkar leitast við að veita hjálp hið innra í það miklum mæli að efnislíkaminn er alls ekki meðvitaður um þá blessun.

385. Röksemdafærslur leiða til misskilnings. Með þessum orðum er mælt gegn rökréttri hugsun, en einnig eru óskynsamlegar athafnir fordæmdar. Það bendir til þess að til sé einhvers konar kraftur sem ætti að aðstoða rökhugsunina. Hjartað hlýtur að vera æðsti dómarinn. Hjartað er samviska fólksins og leiðir til jafnvægis. Rökhugsun er ekki jafnvægi.

386. Núverandi þekking á eiginleikum hins innri manns verður að verða víðtækari, en enn er það fjarlægt markmið. Fyrst verður mannkynið að hreinsast í eldi prófraunar.

387. Tilfinning fyrir verndandi hendi getur verið ákaflega raunveruleg. Hér er ekki um táknmynd að ræða, heldur raunbirtingu hinnar dýrmætu orku.

388. Samvinna bendir á leiðir fyrir nýja uppbyggingu, en menn ættu að vera næmir fyrir atburðum lífsins. Vöxtur birtist víða. Samfélag Okkar beitir ekki valdi, það iðkar sjálfviljuga samvinnu. Skilningur ryður brautina fyrir sendiboða Ljóss.

389. Menn furða sig á hugmyndinni um tilvist æðri heimsins. Þeir vilja ekki viðurkenna áhrif hans á jarðneska lífið. Hraðinn eykst. Stormsveipir atburðanna gefa mannkyninu ekki færi á að átta sig. Maðurinn telur sjálfan sig vera skapara Nýja heimsins. Leiðtogar samtímans telja sig vera að byggja upp Nýja heiminn, en engum kemur til hugar að þeirra Nýi heimur sé aðeins gretta hins gamla. Nýi heimurinn þróast eftir nýjum leiðum.

390. Einlæga viðleitni til ljóssins er ekki hægt að kæfa. Við þekkjum leynistaði andans, og froða lífsins stöðvar Okkur ekki. Tímabundið fráhvarf þýðir ekki að maðurinn sé fallinn. Nauðsynlegt er að vita hvernig greina á einkenni slíkra atburða og tímabundið eðli þeirra; þannig er mögulegt að finna og halda í gagnlegt fólk. Þess vegna veldur val okkar oft furðu. Aðalatriðið er að greina á milli þess sem er raunverulegt og þess sem er yfirborðslegt.

391. Finnum hugrekki til að mæta örlagatímum; skiljum hvernig atburðir leiða hver af öðrum; og þegar ógnin er yfirvofandi skulum við brosa þegar við fréttum af afreksverkum. Rökkur ríkir á Vesturlöndum. Brjálæðingar vita ekki hvað þeir troða fótum, og hinir fáfróðu lýsa yfir yfirburðum sínum. Betra er að sjá ekki útgeislum mannkynsins. Myrkrið hellist yfir þá sem glatað hafa leiðinni til Ljóssins.

392. Sá sem telur að óheppnin elti sig, hefur verið nefndur myrkvari himnanna. Hann hefur safnað umhverfis sig myrkri og drunga og smitað fjarlæga staði. Hann hefur skaðað sjálfan sig, en þó meira allt sem lifir. Hann hefur sýnt fram á eigingirni sína og gleymt umhverfi sínu. Með því að afsala sér gæfu og hamingju hefur hann orðið gróðrarstía hörmunga og böls. Eins og hinn sjálfsánægði glatar þræði framfara, þannig kemur sá sem fullur er sjálfsmeðaumkun í veg fyrir sinn eigin árangur. Það hæfir ekki manninum að dæma sjálfan sig til ógæfu. Langvarandi kveinstafir og stunur breytast í eyðandi iðuhvirfil. Öfund breytist í holdsveiki; tungan dofnar af illsku. Sá sem helgar líf sitt blekkingunni um ógæfu byggir upp gróðrarstíu ófara. Slíkir eiturbyrlarar eru ósamrýmanlegir Bræðralaginu. Samt dreymir marga um Bræðralag, án þess að leiða hugann að því hvaða byrði þeir bera! Hve sterkur er sá maður sem hefur skilning á þeirri gæfu að vera maður!

393. Þegar hugsanir eru sendar skal velja hljómfögur og óvenjuleg orð. Endurtakið þau ekki, og forðist að flækja sendinguna. Hægt er að endurtaka til skýringa, en menn ættu ekki að endurtaka sama orðið í mismunandi merkingum. Aðalatriðið er að forðast léttvægar hugsanir, sem rjúfa grunnstraum hugsananna. Erfitt er að slökkva þessar smáu flugur; þær gefa líka útgeisluninni gráleitan blæ. Maðurinn telur að enginn og ekkert trufli hugsanir hans, samt er vitund hans fyllt smáum halakörtum, og hugsun hans breytist í kviksyndi.

394. Hljómur orðanna ætti að vera fagur, slíkur samhljómur leiðir einnig til upphafinna hugsana. Það er óhæfilegt að hafna nokkrum ráðum til að hækka vitundarstigið. Sóðalegt orðbragð er eins og sýking í geimnum sem leiðir til niðurlægingar vitsmunanna. Ljótleiki í öllum sínum myndum er hættulegt mein. Sakir mannkynsins verða menn að skilja hvar er lækning og hvar er upplausn. Kominn er tími til að átta sig á gildi hreinsunar á jarðneskri tilvist. Það er óleyfilegt að trufla umhverfið með blótsyrðum sem geta skaðað þá sem enga sök eiga á málum. Ör sem skotið er á hóp á hreyfingu getur hitt saklausan. Á sama hátt getur hugsun fundið höggstað þar sem karmað hefur myndað veikan blett. Ef til vill hefði verið hægt að breyta karmanu að einhverju leyti, hefði slíkt högg ekki komið til; ógæfan af völdum höggsins getur verið óverðskulduð. Þess vegna verða menn að gera sér grein fyrir ábyrgð sinni á sérhverju orði sem þeir láta frá sér fara.

395. Margir telja það hafa litla þýðingu að láta sig einhverju varða orð og hugsanir, því heimurinn heldur sínu striki þrátt fyrir bölbænir. En slíkir óvitrir menn eru blindir, því þeir einmitt sjá ekki allan skaðann og ógæfuna sem mannkynið laðar að sér. Ógnum ekki, en leggjum áherslu á að hreinsa andrúmsloftið. Enn og aftur eru stór svæði á valdi mikils uppnáms. Búast má við áföllum. Ekki er hægt að forðast til langframa afleiðingar þess sem menn hafa til sáð.

396. Jógar eru vel kunnugir því að verða fyrir skyndilegri ásókn syfju og þreytu, af því tagi sem nefnist ský þekkingar. Jóginn veit að á slíkum tímum flæðir orkan frá honum, vakin af máttugu flæði geimstrauma. Jóginn veit að hann hefur tekið þátt í mikilli þjónustu til góðs fyrir mannkynið. Mögulegt er að greina margs konar hliðar á slíkri þjónustu. Stundum skynjast aðeins svefnhöfgi, en stundum leitast fíngerði líkaminn við að taka þátt í þjónustu sem ekki má skjóta á frest. Þá er unnt að sjá slíkan fíngerðan líkama í sýn, eða skynja ósýnilega nálægð. Slíkar athafnir gerast samstundis yfir miklar vegalengdir. Engan jarðneskan tíma þarf fyrir langvinnar samræður og viðbrögð. Þegar jógi finnur að andartaks syfja sækir að, gefur hann sig að slíku áríðandi kalli, annars gæti hann misst af tækifæri til samvinnu í einhverju mikilsverðu. Það er sérstaklega markvert að þessi samskipti eiga sér stað yfir miklar vegalengdir og við algerlega óþekkta einstaklinga. Þessi segull aðlöðunar er þeim mun athyglisverðari að hann byggist á grunni hugarorku. Mörg fyrirbrigði má greina sem yfirleitt vekja enga athygli.

397. Jóginn metur mikils marga jarðneska erfiðleika sem hann verður fyrir. Hver þjáning er nefnd hröðun á veginum. Skerping tilfinninganna getur ekki átt sér stað án þess að hindranir séu yfirunnar. Þess vegna skulum við ekki vanmeta þær leiðir sem flýta för.

398. Eftir viðskilnað kýs hinn vitri að sitja um stund í þögn. Slík byrjun byggist á mikilli reynslu. Leyfum útgeisluninni að dvína og hugarorkunni að ná jafnvægi. Sérhver hagnýting orku ætti að vera skynsamleg.

399. Takið eftir hve mjög menn verða fráhverfir, þegar þeir verða fyrir áhrifum sögusagna. Heilar þeirra hætta að starfa og verða eins og svampar skildir eftir í óhreinu vatni.

400. Jafnvel smæstu vísar leiða til mikilla atburða, en menn skilja ekki að torfær stígur geti leitt til glæstra dáða. Það eru hefðbundin mistök að krefjast þess að framförum fylgi stórbrotin jarðnesk ummerki. Menn verða að skilja allan hinn fíngerða vef sem hæfir æðstu ímyndinni. Ekki má leyfa fólki að vanvirða fagra tilvist. Færa verður til Jarðar þær ímyndir sem ekki valda skaðlegum ruglingi. Nú er hið mikla Tré klofið, og aðskildar greinar þess visnaðar. Það er ekki augljóst að neinn hafi harmað það að fjársjóðurinn eini hafi tvístrast. Þeir fáfróðu telja að umræður um hinar afhöggnu greinar sé ónauðsynlegt tákn, því þeir eru ekki einu sinni færir um að hugsa um einingu. Þessir fáfróðu einstaklingar geta ekki skilið heildarhugmyndina um Bræðralag. Hvað er hvolfþakið fyrir þeim, þegar þeir hafa ekki einu sinni lagt grunnsteinana!

401. Kominn er tími til að átta sig á því að leið mannkyns beinist í átt til samvinnu. Engin ríkisstjórn verður langlíf sem ekki leggur áherslu á samvinnu. Þetta eru ekki skýjaborgir, heldur forsendur fyrir framþróun. Við skulum því ekki telja að um líkingamál sé að ræða þegar okkur er bent á hina bjargandi leið.

402. Hver getur tekið sér það hlutverk að dæma um það sem hann ekki þekkir? Hver telur sig færan um að staðhæfa um hvort hið óþekkta sé til eða ekki? Það er mun skynsamlegra að viðurkenna að það er margt til sem menn ekki þekkja. Lát menn endurlesa öðru hvoru þessi einföldu sannindi.

403. Sumir koma sem sendiboðar sem hafa, með fullri vitund og á óeigingjarnan hátt, tekið við ábyrgðinni; aðrir flytja tíðindi án þess að vita af því; þriðji hópurinn kemur að hluta til gagnlegu orði á framfæri; fjórði hópurinn lýsir gagnlegum athöfnum með fordæmi sínu í lífinu. Það er margvíslegum boðskap komið á framfæri. Við skulum ekki fullyrða hver þeirra getur komið að góðu gagni. Allir geta leiðbeint fólki til góðs að einhverju leyti. Fögnum sérhverri góðri ábendingu. Hugrekki gerir manni kleift að búast órjúfanlegri hlíf.

404. Hvers vegna er ekki kallað eftir hjálp þegar tíminn er að renna út? Hjálp er máttur Bræðralagsins. Ógerlegt er að telja hughvarf fólki sem ekki veit af því tíminn er naumur. Öll ráð um mátt einingar eru til einskis fyrir þann, sem ekki kærir sig um að fylgja leið sem er hagstæð bæði fyrir hann sjálfan og Bræðralagið, svo lengi sem hann gerir sér ekki grein fyrir því að hann fer villur vegar.

405. Tilvist viturlegra andlegra fræðirita gerir mönnum kleift að missa ekki sjónar á markinu. Reyndur bogmaður sendir örina af öryggi, en hönd hins kjarklitla titrar. Markinu verður ekki náð með ráðleysi og óstöðugleika. Andinn fyllist óróleika þegar gert er lítið úr hinu æðsta. Fegurð hins æðsta er vörn gegn öllum villum. Maðurinn leitar beint til hins fagra. Hann snýr ekki baki við því, né heldur mun hann mæla eitt niðrandi orð um það.

406. Vantrúin fellur ekki eingöngu undir andlega umræðu, hún tilheyrir öllum sviðum þekkingar. Það er sérstök manngerð sem aðhyllist vantrú. Með því hindra þeir sköpunarkraft sinn; þeir eru ófærir um að finna upp nýjungar; þeir þekkja ekki innblástur. Slíkir menn geta tafið fyrir þróuninni. Fjöldi þeirra er mikill, og þeir eru tilbúnir að fordæma allt sem vitund þeirra nær ekki yfir. Við skulum ekki taka okkur slíka gangandi nái til fyrirmyndar.

407. En hvernig á þá að fást við vantrúaða sem alls staðar reyna að valda deilum? Fjöldi þeirra er mikill, og vegna fáfræði sinnar eru þeir mjög hávaðasamir og afskiptasamir. Menn ættu að hafa á reiðum höndum nokkrar vísindalegar röksemdir til andsvara gegn þeim. Þeir eiga erfitt með að þola það þegar bent er á hve skoðanir þeirra eru léttvægar. Til allrar hamingju hjálpa vísindin á mismunandi sviðum við að varpa ljósi á brautir þróunarinnar. Að sjálfsögðu munu hinir fáfróðu halda fast við útslitin hugtök. Þeim fellur ekki að vera beðnir um sannanir. Tilraunir þeirra til að fela sig á bak við vísindaleg hugtök sýna aðeins fram á þröngsýni þeirra. Stundum er gagnlegt að komast í snertingu við stöðnun í þeim tilgangi að gera sér betur grein fyrir öllu því sem hindrar frelsi þróunarinnar. Engin ástæða er til að verða miður sín yfir slíkum brennimerktum vitundum. Hvert orð sem ögrar þeim er gagnleg sáning. Lát þá jafnvel hella úr skálum reiði sinnar, samt sem áður leiðir það til hreyfingar á efni.

408. Bræðralag kennir mönnum hæfni til að greina hvar mögulegt sé að ná fram árangri. Margir eru svo langt leiddir að í stað þess að hreyfing verði í efninu, verður afleiðingin aðeins mengun geimsins. Sérhver lærisveinn Bræðralagsins hefur skilning á því hvar tenging er ekki möguleg.

409. Umburðarlyndi er eitt af forsendum athugunar. Sönn athugun er grunnur þekkingar. Maður sem skortir umburðarlyndi getur ekki myndað sér sanna mynd af viðfangsefninu. Hann sviptir sig skýrri athugun og tapar skarpskyggninni. Hvers konar þekking getur orðið til af eigingirni sem hafnar raunveruleikanum? Til eru mörg dæmi um að mikil sannindi hafa orðið fyrir afbökun vegna skorts á umburðarlyndi. Segja má að harðneskja sé fáfræði, en sú skilgreining er of mild. Harðneskja er illska; góð harðneskja er ekki til. Henni fylgja óhjákvæmilega ósannindi, vegna þess að hún dylur sannleikann. Aðeins þeir sem skortir skynsemi geta komist hjá því að líta á harðneskju sem eitthvað óverðugt.

410. Sagt hefur verið að mannkyninu sé ætluð sú hæfni að þróa vísindi hugsanasendinga um fjarlægðir. En þau vísindi verða að vera sönn og skipa þann virðingarsess sem þeim ber. Það er óhæfilegt að menn beri meiri virðingu fyrir frumstæðum tækjum, en hinni miklu orku sem dylst í þeim sjálfum. Teljið ekki að skilningur á innri kröfum mannsins hafi fest sig nægilega vel í sessi. Þeir sem hafa litla menntun kunna alls ekki að meta þessa krafta að verðleikum. Þeir eru reiðubúnir að kasta sér út í myrkt hyldýpi hins svonefnda spíritisma, en kæra sig ekki um að leiða hugann að þeim mætti sem býr í hugsunum. Vísindi hugsunar geta ekki þróast ef menn veita þeim enga athygli.

411. Verið mjög varkár, því straumarnir eru ekki eðlilegir. Hinar snöggu breytingar, ekki aðeins á hitastigi heldur einnig á áhrifunum sjálfum, geta ekki verið eðlilegar. Svo mikið uppnám og óreiða er ríkjandi í heiminum að nauðsynlegt er að verja sjálfan sig, annars er hætta á að orkustöðvarnar verði fyrir skaða. Áhrif straumanna geta verkað eins og eitur. Truflanir á straumum eða áhrifum frá öðrum plánetum hafa verið of lítið athugaðar. Menn telja að ástand andrúmsloftsins sé eðlilegt, einnig ástand vatns og elds. En er ekki staðreyndin sú að þessi fyrirbrigði breytast á sérhverju andartaki?

412. Allir bogar hafa sinn hápunkt. Fari þessi punktur úr skorðum hrynur allur boginn. Á sama hátt er í lífinu æðsti snertipunkturinn sem kemur í veg fyrir að lífið breytist í óskapnað. Er auðvelt að skynja þennan hápunkt óendanleika? Örfáir hafa skynjað hann, og af þeirri ástæðu hefur raunbirting óendanleika uppljómað vitund þeirra varanlega. Máttugt er hugtakið um fíngerðustu orkuna sem lyftir vitundinni. Fíngerðasta orkan er eina nafnið sem hægt er að gefa henni. Jarðnesk tæki greina hana ekki. Enginn hefur séð hana, en fáeinir hafa sannfærst um tilvist hennar vegna ólýsanlegrar tilfinningar. Það gæti virst sem svo að jarðneskir kraftar séu að eilífu aðgreindir frá fíngerðasta sviðinu, en samt sem áður er plánetan okkar á mörkum þess að uppgötva hinar æðri orkutegundir, óski mannkynið þess. Í þessu skilyrði felst framsetning á möguleika, því öllum möguleikum er unnt að hafna með vitfirringu viljans. En það er algerlega ósæmilegt að hápunktur hins fagra boga sé eyðilagður í geðveikiskasti. Lát hvern og einn minnast bestu stunda lífsins. Er hugsanlegt að jafnvel grimmt hjarta mýkist ekki! Lát hvern og einn skynja í sínu eigin lífi snertinguna við hæsta punkt fagurra orkutegunda.

413. Gerðu þér mynd í huganum af því hvernig hin fíngerðasta orka snertir okkur. Slík ör hlýtur að smjúga um allan geim. Það kann að vera ómögulegt að finna orð í huganum til að tjá þessa óendurtakanlegu skynjun, samt er hún og verður það varanlegasta í tilverunni.

414. Sá sem getur viðhaldið í vitund sinni þó ekki sé nema einni af hinni fíngerðustu skynjun, verður óvenjulegur maður allt frá þeirri stundu.

415. Það eru ekki aðeins örfáir sérstakir einstaklingar, heldur meirihluti manna sem getur skynjað fíngerðustu orkutegundirnar. Þeir verða aðeins að hugsa um þær.

416. Já, já, já, algengustu mistökin eru þau að jafnvel þó menn viðurkenni tilvist hinna fíngerðustu orkutegunda, þá ímynda þeir sér virkni þeirra á rangan hátt. Menn hugsa sér að fíngerðustu orkutegundirnar birtist með þrumukrafti og hafi efnislega mikil áhrif. Það er ógerlegt að útskýra fyrir fólki að jarðneskt eðli þess gerir fíngerðustu orkutegundirnar nánast þöglar og ógreinanlegar. Að sjálfsögðu verður hin innri svörun feikileg, en fáir eru vitundarlega reiðubúnir að skynja þessar æðri snertingar. Ekki skyldi ætla að unnt sé að taka við þessum sendingum frá fjarlægum heimum án undirbúnings. Menn ættu ekki að fárast yfir því að hið tvígreinda eðli, hið jarðneska og hið fíngerða, eigi erfitt með að birtast sem ein heild. Enn á ný ber mönnum skylda til að minnast jarðneskrar samvinnu, hugmyndar sem á erfitt með að ná fótfestu. Hún örvar oft lægstu hvatirnar í stað þess að leiða til skynsamlegrar vinnu. Ef samvinna er fátíð, jafnvel í smáum hópum, hve miklu erfiðari er þá að taka við samfjöllun hinna fíngerðustu orkutegunda! Við segjum þetta ekki til að valda ykkur angist, heldur til að vekja upp þolinmæði og andlega viðleitni.

417. Það er sérlega óæskilegt að leitast við að hagnýta fíngerðustu orkutegundirnar til persónulegs ávinnings. Þó að hinn æðri kraftur veiti okkur innri mátt, þá er óleyfilegt að þvinga hina fögru orku í eiginhagsmunaskyni. Opnið einfaldlega fyrir hinn fagra kraft, og miklu verður bætt við.

418. Það eðli tilrauna með fíngerðustu orkutegundirnar, að þær er ekki hægt að endurtaka, það fær fræðimenn oft til að missa áhugann. En þeir gleyma því að það er ekki orkan sjálf sem ekki er hægt að endurtaka, heldur þeir sjálfir. Að auki eru þeir ófærir um að endurskapa nákvæmlega sömu aðstæður við tilraunir. Mjög oft hefur þú haft tækifæri til að sjá hve kringumstæður tilrauna hafa verið mismunandi. En jafnvel mjög reyndir fræðimenn skynja ekki mikilvægi mismunandi aðstæðna. Til að byrja með þá gefa þeir ekki gaum að eigin geðrænu ástandi; þó hefur ástand taugastöðvanna úrslitagildi við margar tilraunir. Einnig líta menn fram hjá eðli og eiginleikum þeirra sem taka þátt í tilrauninni. En jafnvel á fornum tímum, og síðar hjá gullgerðarmönnum, var ríkur skilningur á gildi samstarfs. Þeir þekktu einnig hvaða gildi kynferði hafði. Þeir höfnuðu ekki áhrifum tunglsins og krafti plánetanna. En nú á tímum er nánast litið á þessar frumaðstæður sem fjölkynngi. Það er nánast ógerlegt að sannfæra menn um að þeir sjálfir geymi í sér svörin við mörgum spurningum.

419. Meðal þess sem gleymist er einnig það að menn vanrækja að gefa gaum að eiginleikum hugsunar. Ekki er enn búið að ræða nægilega mikið um þennan mátt. Til dæmis er ekki gefinn gaumur að þeirri staðreynd að við mikla og sterka hugsun senda menn ómeðvitað hugsanir frá sér. Miklir hugsuðir verða sannarlega að vera mjög varkárir. Auðveldara er að nema hugsanir þeirra í geimnum. Þú veist nú þegar um strauma sem geta varðveitt senda hugsun, líkt og í lokuðum hólk, en jafnvel slík ráð koma ekki alltaf að gagni.

420. Hægt er að lesa skeytasendingar, það er á sama hátt hægt að lesa hugsanir. Því er þögn ekki trygging fyrir varðveislu leyndarmáls.

421. Sérhver maður tengist mörgu fólki sem er honum algerlega óþekkt. Einnig er nafn hans borið fram einhvers staðar. Gleymum því ekki að slíkar fjarlægar tengingar hafa oft meira gildi en tengsl okkar við þá sem eru okkur nákomnir. Við getum gengið úr skugga um hve mikið upplýsingar úr fjarlægð endurspeglast í öllum innri orkustöðvunum. En það er nánast ekki tekið neitt tillit til slíkra óumdeilanlegra aðstæðna. Menn telja það sjálfgefið að líkamleg snerting sé sérlega mikilvæg. Höfnum því ekki að handtak hafi líka mikið gildi. En hugsun, fjarlæg, ósamhæfð, getur haft mjög sterk áhrif. Enginn getur greint þessa fjarlægu þræði, en næm vitund skynjar þá.

422. Er ekki athyglisvert að vitundin skuli hafa getað greint aðvífandi hjartaáfall? Einnig er markvert að með sérstökum sveiflum er mögulegt að koma í veg fyrir sársaukaköst. Margt er unnt að greina.

423. Margir munu lesa um Bræðralag; margir munu ræða viðfangsefnið – en munu margir hagnýta í lífi sínu grundvallaratriði Bræðralags? Ekki er þörf á lestri né samræðum, heldur glömpum af bróðurlegum samskiptum. Á sama hátt er þörf á tilraunum með orku hugsana; þótt árangurinn sé ekki neitt afburðagóður, verða þær samt til að metta geiminn og hjálpa einhverjum óþekktum. Vísum á bug innantómum fullyrðingum um að engum árangri hafi verið náð. Árangursleysi dagsins í dag er aðeins forspil að góðum árangri morgundagsins.

424. Að auki er nauðsynlegt að skilja gildi gagnkvæmrar virðingar, sem felst í grundvelli Bræðralags. Það er nauðsynlegt að skilja hið djúpstæða gildi gagnkvæmni þegar kraftarnir magnast tífalt. Bróðir lastar ekki bróður, því hann veit að fordæming ber með sér upplausn. Viturlega veitir bróðir hjálp við hverja sveigju brautarinnar. Þannig er samvinna fyrst og fremst vísindaleg athöfn.

425. Þegar við berum saman vaxtarskeið vitundar við vísindalegar aðferðir, er alls ekki ætlun okkar að þurrka upp fagrar uppsprettur, þvert á móti er ósk okkar að mynda stöðugt framstreymi orku. Vísindin verða að styrkja leiðirnar til æðri þekkingar. Sá tími nálgast þegar ummynda verður hin fornu tákn þekkingar í vísindalegar formúlur. Gerum ekki lítið úr slíkum aðferðum við að skýra hugsunina. Lærum hvernig hægt er að finna bandamenn á óvæntum sviðum. Ekki óvinir, heldur samstarfsmenn munu afla sér þekkingar á öllum kröftum náttúrunnar.

Vísbendingarnar benda á djúp raunveruleikans. Því skulum við, í stað þess að kryfja lifandi líkami, vinna að einingu vitundar. Lát fólk ekki kalla Okkur draumóramenn, því Við höfum mikið dálæti á nákvæmri þekkingu, að svo miklu leyti sem hún getur verið nákvæm.

426. Kynna verður í skólum nýtt námsefni um samfjöllun vísindanna. Það mun stuðla að því að nemar átti sig á hve nátengdar margar námsgreinar eru. Þeir munu sjá hve vísindin ná yfir vítt svið! Þeir munu skilja að sérhver vísindamaður er í snertingu við fjölda fræðasviða. Þótt hann geti ekki rætt um þau öll af djúpum skilningi, getur hann samt haft skilning á helstu viðfangsefnum þeirra. Með því að kynnast samfjöllun fræðigreina eiga nemar auðveldara með að velja sér námsbraut við hæfi. Gleymum því ekki að hingað til hefur slíkt val verið ákaflega tilviljanakennt, og byggst á óljósum fjölskylduhefðum. Einnig má segja að neminn hafi lagt stund á aðgreindar námsgreinar án þess að vita með vissu hvers vegna þær voru nauðsynlegar. Við tungumálanám hefur ekki verið til siðs að benda á hvaða hagnýtt gagn má hafa af náminu. Þess vegna er námsleiði svo algengur. Hann stafar ekki af leti, heldur einfaldlega af skilningsleysi á þýðingu og markmiði námsefnisins. Sé gert ráð fyrir því að hver fræðigrein sé kynnt þannig að hún veki áhuga nemans, mun hugmyndin um samfjöllun fræðigreina upplýsa jafnvel hinn tregasta nema og stuðla að vinnusemi. Ekki skyldi ætla að eingöngu sé unnt að fá skilning á slíkri samfjöllun á fullorðinsárum. Í reynd eiga börn mjög auðvelt með að tileinka sér víðtæk viðhorf þegar þau byrja skólagöngu. En að sjálfsögðu verður að kynna þeim hugmyndina um samfjöllun þannig að hún veki áhuga þeirra.

427. Vissulega mun fegurð samfjöllunar endast allt lífið. Sérhver athugandi, sem helgar líf sitt þó ekki sé nema örlitlu smáatriði í uppbyggingu alheimsins, nálgast viðfangsefnið eftir víðtækum leiðum, en ekki þröngum. Þannig verður skilningurinn víðfeðmur. Sannlega, þar sem eldar þekkingarinnar loga, þar hefur verið mælt fyrir um bjarta framtíð.

428. Þekking er inngönguhlið Bræðralags. Við skulum ekki furða okkur á því að upphaf Bræðralags byrji með samfjöllun vísindanna. Þrátt fyrir að vísindamaður leggi aðeins stund á eina fræðigrein, mun hann samt sem áður vita hvernig á að votta hinum óteljandi greinum þekkingar virðingu sína. Með slíkri virðingu fæðist skilningur á Bræðralagi.

429. Jafnvel á einu stuttu æviskeiði má sjá eyjar hverfa og nýjar birtast, breytingar á stöðuvötnum og ám, kulnun og virkni eldfjalla. Menn geta séð strandir sem stöðugt færast út og aðrar þar sem sjórinn sækir á. Enginn getur sagt að á nokkrum áratugum eigi sér ekki stað nein breyting á yfirborði Jarðar. Ef við skoðum tilfærslu strandlínu á hálfrar aldar tímabili, og framlengjum breytinguna yfir á hundruð milljónir ára af tilvist plánetunnar, er unnt að gera sér grein fyrir þeim gífurlegu breytingum sem geta orðið. Vekið athygli á þessum þekktu staðreyndum, og látið menn undrast þær breytingar sem verða á aðstæðum á jörðinni. Slíkar vísbendingar eru mjög gagnlegar fyrir þá sem ekki hafa vanist rökréttri hugsun. Jafnvel allt til okkar tíma eru efasemdir uppi um forna tíma, því menn hugsa ekki út frá hundruðum milljóna ára; slíkir útreikningar eru bannaðir af þeim sem afbaka forn tákn. En unga kynslóðin ætti að horfast í augu við þessi miklu vandamál. Hreyfing er sá grunnur sem byrjað er frá. Lát plánetuna okkar með sína miklu hreyfingu breytast í smáan hnött. Hræðumst ekki þá vitneskju að við erum stödd í hringiðu eilífðarinnar. Einnig þá verður hugmyndin um Bræðralag að staðföstu akkeri.

430. Einhver mun segja, „Ég veit þetta allt,“ en sa hefur á röngu að standa. Hann þekkir ekki merkingu Bræðralags. Hann hefur ekki metið gildi plánetunnar við útreikning tímaskeiðanna. Hann hefur ekki íhugað flæði sjóndeildarhringsins. Lát hann þannig viðurkenna hve lítið hin mestu grundvallaratriði hafa komist inn í líf og hugsun. Slíkur skilningur verður fyrsta leiðin til Bræðralags.

431. Lát fólk spyrja Hinn mikla vegfaranda, hvaðan kemur þú? Hann mun engu svara, vegna þess að Hann býr yfir leyndri þekkingu og Hann veit hvenær og hverjum Hann getur afhent byrðina sem Honum er treyst fyrir.

432. Landnemi nokkur byggði hús sitt við rætur eldfjalls. Þegar hann var spurður að því hvers vegna hann setti sig í svo mikla hættu, svaraði hann. „Munurinn er eingöngu sá að ég veit um hættuna, en þið vitið ekki hvað umkringir ykkur.“ Mikið jafnvægi verður að ríkja milli kyrrðar og vitneskju um hættu. Það er óráðlegt að umkringja sig með ógnum, en kæruleysi er ekki heldur nein lausn.

433. Af einhverjum ástæðum eru fuglar taldir áhyggjulausir, en ekki aðeins skynja þeir óveður í aðsigi, heldur sýna þeir einnig meiri forsjálni um tímasetningu fyrir hreiðurgerð og flutninga en fólk gerir. Fyrirhyggja hefur þróast með ágætum í öllum ríkjum náttúrunnar. Fólk metur þennan eiginleik ekki alltaf að verðleikum; það veit of lítið um fortíðina, og það forðast að hugsa um framtíðina. Rannsóknir á fortíðinni eru að mestu leyti tilviljanakenndar, því eru uppgötvanir sundurlausar. Venjulega takmarka menn leitina við þekkta staði; þeir gleyma að lífið fer hinar óvæntustu leiðir, og ummerki má óvænt finna á ólíklegum stöðum. Nauðsynlegt er að varðveita rit samtímamanna, sem munu þegar tímar líða verða til hjálpar við að finna staði sem jafnað hefur verið við jörðu.

434. Þú hefur heyrt minnst á að til séu fornir geymslustaðir. Bræðralagið hefur varðveitt ómetanlegar minningar um mjög forna tíma. Til er fólk sem hefur séð þessar margra hæða geymslur. Fólk getur sameinast í gagnlegri samvinnu með því að líkja eftir frumverkefnum Bræðralagsins. Bræðralagið er ekki goðsögn, og með því að fylgja í fótspor þess er afleiðingin ótvíræð uppbygging. Það er ekki óleyfilegt að líkja eftir hverju því sem er háleitt. Í öllum kenningum er mælt með því að maðurinn prófi sjálfan sig með því að bera sig saman við það besta og það sem erfiðast er að ná. Setji menn sér háleitt markmið, er mögulegt að árangurinn verði mikill. Allar hættur munu reynast sem broslegir draugar.

435. Jarðneskt líf hefur stundum verið nefnt skammært. Sannlega, ef miðað er við aðrar aðstæður, þá er jarðneskt líf sem örskotsstund. Bræðralag beinir hugsunum til fjarlægra veralda.

436. Sameiginleg bróðurleg þjónusta getur hafist þegar búið er að útskúfa gagnkvæmum ásökunum. Umræður eru ekki fordæming. Það kunna að vera bróðurlegar athafnir sem ekki skiljast um leið. Það er hægt að spyrjast fyrir um ástæður, en óleyfilegt er að bera fram af vanþekkingu ásakanir sem særa eins og hárbeittur hnífur. Bræður bera svo mikla virðingu hver fyrir öðrum að þá grunar aldrei bróður um ósæmilegar athafnir; þeir skoða allar aðstæður og íhuga hvernig unnt er að veita aðstoð. Í slíkri samvinnu er ekki að finna neina þvingun. En sameiginlegur skilningur verður ekki til á svipstundu – vissan tíma þarf til að samhæfa orkustöðvarnar. Þess vegna höfðu menn í fyrndinni ákveðinn reynslutíma fyrir nýliða. Á þeim tíma gátu þeir yfirgefið Bræðralagið án þess að því fylgdu nokkrar slæmar afleiðingar. Þessi tími var allt frá þremur að sjö árum, en eftir að þeim tíma lauk hefðu svik haft mjög alvarlegar afleiðingar. Menn ættu ekki að líta á þetta sem grimmd, því sá sem flýr í þrumuveðri getur orðið fyrir eldingu. Hraði flóttans eykur aðeins á hættuna.

437. Samt sem áður, Bræðralaginu er viðhaldið, ekki með hættum eða ógn, heldur gleði. Í samhljómi vaxa æðri tilfinningar. Hver sá sem einu sinni hefur reynt þessar upphefjandi skynjanir þekkir þá þegar aðlöðunarmátt Bræðralagsins.

438. Við tilraunir ætti aldrei að leiðast út í öfgar. Almennt talað eru öfgar óleyfilegar, því þær eru andstæða jafnvægis. Maðurinn, sem fullkominn smáheimur, má ekki fótum troða jafnvægi sem áunnist hefur með svo mikilli fyrirhöfn.

439. Dulrænir hæfileikar eru einstaklingsbundnir, bæði hjá mönnum og dýrum. Það er rangt að eigna þá einum kynstofni eða tegund. Hægt er að sjá tilhneigingu til dulrænna hæfileika hjá vissu fólki, en slíkur eiginleiki getur samt ekki skýrt þá miklu hæfileika sem birtast hjá ákveðnum einstaklingum; og hið sama má segja um dýraríkið. Sumir gætu sagt að þetta gæfi til kynna tilviljanakennda birtingu vissra lögmála. En slíkt er alls ekki raunin. Það sannar þvert á móti tilvist lögmála yfir og handan við jarðnesk rök. Menn hafa vanist því að hugsa um handahófskennd landamæri þjóða sem eitthvað óbreytanlegt; á sama hátt mætti segja að heil þjóð ætti að hugsa á áþekkan hátt, eða að dýrategund ætti að búa yfir eins eiginleikum – samt kennir lífið okkur að skynja mikinn fjölbreytileika. Maðurinn verður mun hamingjusamari þegar hann hefur uppgötvað farvegi dulrænna lögmála.

440. Er ekki út í hött að skrifa eitthvað niður til skoðunar og varðveislu ef hamfarir ógna Jörðinni? Aðeins frá jarðnesku sjónarmiði er hægt að komast að þeirri niðurstöðu. Það hefur engan tilgang frá jarðnesku sjónarmiði, ef fíngerði heimurinn er ekki til. En Við erum að tala um líf, en ekki handfylli af mold.

441. „Við vitum þetta allt nú þegar,“ segja þeir sem ekki sinna grunnatriðum lífsins. Allir hafa rekist á þá sem stæra sig af því að vita allt, og öllum bregður við fávisku slíkra hávaðasamra gortara. Það er aðeins hægt að harma svo vanhugsaðar fullyrðingar. Lát þessa einstaklinga prófa hina augljósu fávisku sína á sjálfum sér. Á sjálfum sér staðfesta þeir hvaðan svo mörg mistök komast inn í heiminn. Við skulum ekki hafa fyrir því að endurtaka ástæður slíkrar ógæfu.

442. Án nokkurra leiðbeininga vita menn hvernig á að annast um kæran hlut. Með útsjónarsemi finna þeir út hvernig þeir geta haldið honum leyndum. Þeir munu leggja sig fram um að brjóta hvorki né skemma hinn ástfólgna hlut. Sagt hefur verið að fólk sé hæfast til að annast steina og málma, síður jurtir, enn síður dýr, og síst af öllu að annast um menn. Þið getið dæmt fyrir ykkur sjálf réttmæti þessarar fullyrðingar. Maðurinn er fíngerðasta lífkerfið, en samt fellur versta meðferðin í hans hlut. Við skulum ekki loka augunum fyrir því að hið svonefnda afnám dauðarefsingar er ekkert annað en skálkaskjól fyrir enn meiri grimmd. Hvenær verða andlegar ofsóknir loks afnumdar! Hvenær munu menn átta sig á því að verstu pyntingarnar felast í pyntingum andans! Á meðan menn hafa ekki vitneskju um fíngerða heiminn, er mannúð ekki möguleg. Furðum okkur ekki á því að sumir þurfa á því að halda að æðri heimunum sé skipt upp í mörg svið. Lát menn, og þá meðtalda sem mest krefjast, reyna heldur að skilja að minnsta kosti fíngerða heiminn, svo þeir geti vitað hvernig á að komast inn í hann á verðugan hátt. Menn munu síðar læra greininguna í svið, þegar þeir hafa að minnsta kosti öðlast skilning á fyrsta stigi óendanleikans.

443. Bræðralagið dregur að sér reiðubúnar sálir eins og segull. Leiðirnar eru mismunandi, en það er innri hljómur sem ómar og hvetur til einingar. Hægt er að skynja ákaflega heilnæmar sveiflur, en aðeins fáeinir skilja gildi slíkra læknandi krafta. Það er ógerlegt að útskýra í orðum einum saman hvernig einingin á sér stað. Menn verða að búa yfir víkkaðri vitund til að geta skilið og meðtekið með þakklæti senda hjálp. Þannig mun maðurinn byrja að greina hvernig hin æðri orka nálgast.

444. Hver getur sagt að spennan í heiminum fari minnkandi? Þvert á móti, hún ólgar og kraumar, og menn vita ekki einu sinni hvernig á að skilgreina það sem er að gerast.

445. Mikill misskilningur tengist hugtakinu fyrirgefning. Sá sem hefur fyrirgefið einhverjum gerir ráð fyrir því að hann hafi áorkað einhverju óvenjulegu, en reyndin er sú að hann hefur eingöngu forðað sínu eigin karma frá flækjum. Sá sem fyrirgefið var heldur að þessu öllu sé lokið, en að sjálfsögðu er karmað enn framundan. Rétt, sá sem fyrirgaf greip ekki inn í karma þess sem var fyrirgefið og kom þannig í veg fyrir að það yrði enn þyngra, en karmalögmálið er enn í fullu gildi fyrir báða aðila. Karmalávarðarnir geta breytt þessi að nokkru leyti ef eldur hreinsunarinnar blossar skært upp, en ekki er auðvelt að kveikja slíkan loga.

Miklar fórnir hafa verið færðar til að kveikja slíkan eld. Menn hljóta að bera virðingu fyrir minningu slíkra dáða sjálfsfórnar. Fegurð viðhelst í slíkum verkum. Hvorki tíminn né mannleg óreiða getur stíflað hvötina til sjálfsfórnar. Helgirit Bræðralagsins greina frá þessu sama. Það er fagurt að ennþá hefur þessi forna hugmynd ekki gleymst.

Við skulum ekki hafna neinum skilningi á hinni yfirjarðnesku braut, hversu smávægilegur sem hann er.

446. Sumir skrifa niður breytingar sem verða á viðhorfi þeirra til umhverfisins. Slíkar athugasemdir eru gagnlegar, því þær hvetja til íhugunar um hreyfingu þróunarinnar. Óttumst ekki að gera mistök í slíkum athugunum. Hugsanlegt er að hugarástand hafi áhrif á athugun, en þrátt fyrir slík áhrif má enn greina hreyfinguna. Það er einmitt slík hreyfing sem mun leiðbeina manninum, því hún er til marks um líf.

447. Nauðsynlegt er að viðhalda öllum þeim siðvenjum sem stuðla að upphafningu andans. Upprætum ekki tilfinningar sem geta gefið af sér dýrmætar greinar. Skerum ekki burt heilbrigða sprota, því ekki er unnt að skapa á svipstundu eitthvað nýtt og fegurra.

448. Oft eru venjulegar mannlegar skynjanir taldar yfirnáttúrulegar. Hugboð er mjög venjuleg skynjun, en vegna hjátrúar er það talið eitthvað óvenjulegt. Tilfinningin blekkir ekki, en það er sérstakur árangur að skynja hana. Menn verða einstaklega ráðvilltir þegar öldur mismunandi skynjana flæða yfir þá samtímis. Jafnvel þjálfaður athugandi er ekki fær um að greina á milli andstæðra tilfinninga. Ein kann að stafa frá nágranna í grenndinni, en önnur getur komið fljúgandi yfir fjöllin í fjarlægð. Oft geta nálægar aðstæður truflað mjög mikilvæga strauma úr fjarlægð. Látum ekki hið smáa angra okkur þegar hugsanlegt er að mikilvægar sendingar séu á leiðinni. Nauðsynlegt er að aðlaga tilfinningarnar því sem er mikilvægt, með það í huga að það gæti birst hvenær sem er. Sérstaklega verður að halda athyglinni á mikilvægum verkefnum vegna spennunnar sem er ríkjandi.

449. Stundum er talað um hugboð sem stafnlíkan á skipi. Það fer fyrir og leyfir ekki að farið sé fram úr því. Hin nýja vitund skilur að skip hefur stafn og skut, en hjátrúin skreytir stafn skipsins furðulegri mynd. Á sama hátt skreytir mennsk hugsun hinar einföldustu skynjanir með fáheyrðum formum.

450. Í hverju liggur framför? Sumir telja að hún felist í stöðugri viðtöku nýjunga. En verður ekki slík viðleitni einhæf, og er ekki nauðsynlegt að bæta við hana endurskoðun á hinu gamla? Oft hefur verið sýnt fram á að fólk sækist eftir nýjungum í orði, en dvelur samt áfram í gamalli svínastíu í reynd. Einhver flytur erindi um hreinlæti, en er samt mjög óhreinn sjálfur. Er slíkur fyrirlestur sannfærandi? Eða latur maður sem hvetur til vinnu; hver mun taka mark á honum? Verum ekki hrædd við að endurtaka svo frumstæð dæmi, því lífið er fullt af þeim.

Hver sá sem hugsar um samhljóm veit að hús þar sem gamalt rusl hefur safnast fyrir getur ekki talist nýtt. Og sjá má að fögur afrek visna vegna þess að þau geta ekki þrifist í skítnum. Það er ekki aðeins hörmulegt að sjá þannig örlög gagnlegra verka, það er sorglegt að upplausn þeirra sóðar út leiðirnar um langan tíma sem búið var að finna. Þess vegna ræði ég um jafnvægi.

451. Leyfið ekki rógburð um neina rannsókn, ef hún er einlæg og byggist á góðum grunni. Nauðsyn er á umhyggju og aðgæslu. Verum reiðubúin að styðja hið nýja og endurmeta hið gamla eins og garðyrkjumaðurinn sem ræktar nýja ávexti og auðgar jarðveginn. Hver sá sem vill hjálpa verður að vera tilbúinn að hjálpa á allan hugsanlegan hátt. Það er aðeins með því að vera reiðubúinn á þennan hátt að unnt er að finna sér réttan starfsvetvang.

452. Takið eftir og skrifið niður dagsetningar atburða sé þess kostur. Síðar má setja saman athyglisverða mósaíkmynd.

453. Ég hef rætt um tengsl hins nýja við hið gamla, á sama hátt tala ég einnig um samsvörun hins innra við hið ytra. Áður fyrr var mönnum kennt að ljúga og hræsna og fengu hrós fyrir óeinlægni, en nú hefur slíkt námsefni verið aflagt, því þessir eiginleikar eru orðnir meðfæddir. Reyndar er nauðsynlegt að taka eftir hinu sorglega misræmi milli hins innra og hins ytra. Er hugsanlegt að búast megi við að menn nái góðum tökum á hinni háleitu orku við slíkt niðurbrjótandi ósamræmi? Sinnuleysi er komið á svo hátt stig að menn geta ekki einu sinni gert sér í hugarlund að maðurinn geti bæði haft í sér andstæðing og vin í stöðugum átökum. Enginn getur búið yfir áhrifamætti ef andlitið er hulið grímu og rýtingur dvelst í hjartanu. Góður þroski er ekki mögulegur ef allt lífkerfið er í stöðugu ástandi ósamræmis. Við höfum rætt um einingu til að menn hafi skilning, ekki aðeins hvað varðar samskipti við sína nánustu, heldur einnig vegna sjálfs sín. Þessi innri óeining er sjálfsspillandi og sjálfseyðandi.

Við umræður um Bræðralag er ekki að ástæðulausu að svo oft er minnst á einingu. Menn verða að skilja fullkomlega merkingu þessa eiginleika.

454. Menn hafa tekið eftir því sér til furðu að ósamræmis gætir í hinum bestu fræðsluritum. Sumir kennarar hafa jafnvel talið að slíkt sé gagnlegt til að vekja umræður. En menn þurfa að íhuga að sannleikurinn leyfir ekkert misræmi. Það eru aðeins blindir sem ekki sjá það sem stendur fyrir framan þá. Er ekki orsaka slíkrar blindu að finna í manns eigin óeiningu?

455. Frásagnir um margvíslegar fáránlegar deilur fyrri tíma ættu að vera mönnum lærdómsríkar. Um allan heim er verið að fremja slík heimskupör. Er ekki tímabært að minna á Bræðralag?

456. Það sem hindrar framför er ekki aðeins ósamræmi milli hins gamla og hins nýja, hins innra og ytra, heldur einnig mismunandi skilningur á einföldustu orðum. Látið ykkur ekki bregða þótt hin einföldustu hugtök séu rangt túlkuð – því eining vitundar er ekki til staðar. Þrátt fyrir einstaka fögur háflug eru flestir fastir í sama feninu. Ekki er mögulegt að veita fræðslu um æðri orkutegundir, þegar nauðsynlegt er að lagfæra sjálfa lífshætti manna. Þið hafið heyrt um hörmuleg endalok tilraunar með háspennustrauma, og þið hafið réttilega áttað ykkur á því að orsökin lá í aðgæsluleysi. Góður árangur í byrjun hvatti ekki til aðgæslu, heldur leiddi þvert á móti til vanrækslu. Til eru mörg svipuð dæmi. Oft er ógerlegt að leyfa góðan árangur, vegna þess að hann reynist hættulegt leikfang í óreyndum höndum.

Margs konar fáfræði hindrar framfarir.

457. Verkefni hefur líka í sér sínar hættur. Menn verða að gæta vel að verkefni sínu, því hendur teygja sig fram frá öllum hliðum. Það er því ekki undarlegt að svo margar viðvaranir sé að finna á leiðinni til Bræðralags. Aðeins heimskur maður telur þessar áminningar óþarfar. Hver getur stært sig af því að allur hans farangur sé í lagi?

458. Varðandi undirbúning fyrir Bræðralag verða menn að skilja hin einföldu sannindi – því meira því betra. Gerum ekki ráð fyrir að nóg sé til af öllu. Menn verða að viðurkenna nauðsyn þess að endurskoða allt sem tekið er með. Menn ættu ekki að taka mikið, en það er óleyfilegt að gleyma því sem þörf er á. Valið er í sjálfu sér fullnægjandi prófraun.

459. Þorsti er slökktur með vatni. Þekkingarþorsti er slökktur með leiðinni til æðri heimsins. Margir fræðimenn þjást allt sitt líf af ólýsanlegri angist, vegna þess að þeir gera sig fráhverfa þekkingu á æðri heiminum. Angist hinnar röngu leiðar er ákaflega sár, ákaflega eyðandi! Að lokum bindur slíkur maður enda á framför sína og þjáist án þess að skilja sína eigin villu. Slíkir menn eru mikil uppspretta illsku. Þeir eru tilbúnir að ofsækja hinn minnsta vott af birtingu ljóss.

460. Margar eru grímur mannanna, en sú sem er ógeðfelldust er yfirskin einingar. Maðurinn þarf að sökkva niður í forarvilpu til að dirfast að viðhafa þau óheilindi, að birta á yfirborðinu bros einingar, þegar í djúpi hjartans dylst gretta illskunnar. Menn þurfa að ímynda sér algjöra eyðingu andans til að fá skilning á því að hve miklu leyti slíkur maður niðurlægir mannlega sæmd.

Þannig ófögur tilfelli eru algeng, og hve fjarlæg eru þau Bræðralagi!

461. Bræðralagið er ekki athvarf, heldur leiðarljós, það er eins og varðturn; þannig verða menn að skilja Bræðralagið. Að öðrum kosti munu menn oft gera ráð fyrir því að Bræðurnir þurfi skjól frá ýmsum ofsækjendum. Nei, einangrun Bræðralagsins er nauðsynleg af allt öðrum ástæðum. Eins og viti á háum tindi hagnýtir Bræðralagið þekkingu sína til lausnar mannkyninu.

462. Sumir kennarar hafa ráðið frá því að minnst sé á óleysanlegar spurningar. Að sjálfsögðu voru þeir að hugsa um að reita ekki óundirbúna huga til reiði, en þar sem umræður eru mögulegar, ætti að hvetja til eins víðtækra vitsmunalegra könnunarferða og kostur er. Fegurð geislar frá þeirri framsýni sem getur orðið að raunveruleika við bróðurlega einingu.

463. Á það mun verða bent að mörg samfélög og bræðralög hafi lagst af, en það eru ekki þau sem Við ræðum um. Það er einnig hugsanlegt að þau hafi verið flutt til annars staðar, en fyrir ókunnugum gæti virst sem þau hafi farið í eyði. Vita menn í raun nokkuð að ráði um lífið í húsi nágrannans, og því minna um það sem þeim er ekki ætlað að vita? Allir geta rifjað upp mikilvæg atvik í lífi sínu sem enginn veit af. Sérstaklega ólíklegt er að vitneskjan berist út, ef hún er send með hugsun um langar vegalengdir. Það er rétt, að hægt er að hlera hugsanir, en til þess þarf sérstakar aðstæður. Hafi hugsun verið beint að vissri persónu með miklum skýrleika, mun hún ófrávíkjanlega snerta áru hennar. Þannig er unnt að viðhalda samfélögum gangandi með mætti hugans. En sumir eru svo hræddir við hugsun að þeir hafna öllu sem tengist því sviði. Þannig fólk ætti ekki að hvetja til samstarfs, því það mun enda með svikum. Oftar en einu sinni hafa samfélög verið flutt í burtu í þeim tilgangi að forða þeim frá óæskilegu fólki. Það er auðveldara að tilkynna um upplausn samfélags, en að opinbera þá sem valdið geta skaða. Með vísan til slíkra aðstæðna er auðveldara að skilja hvers vegna Bræðralagið er að finna á óaðgengilegum stað. Einnig af sömu ástæðu varast þeir sem vita um staðsetningu Bræðralagsins að veita þær upplýsingar. Fólk á illt með að þola það sem það ekki skilur. Slíkur skilningur vaknar hægt. Mjög sjaldan er Kaleikurinn fylltur þannig að út úr flóir. Sem samfjöllunarstöð geymir Kaleikurinn hina nauðsynlegustu og ólýsanlegustu fjársjóði.

464. Eins og hjartað er Kaleikurinn sérstaklega nátengdur hugtakinu um Bræðralag. Kaleikurinn er geymslustaður fyrir allt sem er elskað og dýrmætt. Stundum dylst margt af því sem safnað hefur verið í Kaleikinn um mörg æviskeið, en ef Bræðralagshugtakið hefur síast inn í Kaleikinn mun það enduróma í gleði og þrá í öllum æviskeiðum. Þeim sem þekkja það mun Bræðralagshugtakið verða bjargvættur á tímum erfiðleika og átaka.

465. Fordómafullir athugendur sjá aðeins sitt eigið fyrirfram mótað mynstur í verkunum og gagnverkunum. Ef kallaðar eru fram í hugann allar afbakaðar staðreyndir, er skelfilegt að sjá hve margt hefur verið eyðilagt af því sem þegar var búið að uppgötva. Ekki er hægt að finna neina framför sem ekki hefur verið flekkuð með úthugsuðum vélabrögðum! Fyrir illum ásetningi eru margar ástæður –fyrst er fáfræði, síðan koma illgirni, öfund, andúð á velgengni einhvers, óbeit á nýjungum – þannig má sjá að margir smánarlegir eiginleikar afskræma staðreyndir. Er þá auðvelt með slíku hugarfari að halda áfram þeirri viðleitni að skilja hina miklu orku?

Við hvert skref mætir manninum misskilningur og illgirni. Menn þurfa að þjálfa viljann með sérstökum hætti til að geta litið á slíkar hindranir sem óhjákvæmilegar. En jafnvel þótt maðurinn búi yfir nægilegri staðfestu til að yfirstíga slíka erfiðleika, glatast samt svo margt hagstætt samflæði orkutegunda.

466. Það er erfitt að skilja hvers vegna litið er framhjá hinum einföldustu athugunum. Til dæmis, þegar verið er að rannsaka ilmtegundir er gagnsemi eða skaðsemi hinna mismunandi ilma ekki veitt nægileg athygli. Öll blóm hafa sitt sérstaka einkenni, en samt bera hin svonefndu ilmvötn hefðbundin jurtaheiti. Enginn lætur sig varða neitt um gagnsemi ilmvatna, en hráefnin sem notuð eru við framleiðsluna jaðra stundum við það að vera eitruð. Það er sorglegt að sjá þær villigötur sem fræðin um liti og ilm eru komin út á, þegar fólk mælir með því að nota arsenikblandaða liti eða eitraðar ilmtegundir!

467. Víðtæk gagnsemi verður skrautfjöður samvinnustefnunnar. Leyfið engu skaðlegu að fljóta með undir fölsku flaggi. Þannig skulum við nálgast Bræðralagshugtakið.

Höfum í huga að erfiðasti tíminn getur verið upphaf nýs afreks.

468. Munið ætíð eftir unga samstarfsfólkinu. Munið að alltaf er hægt að finna það. Munið að það bíður ykkar, þó búningar þess séu margvíslegir. Þó hugsjónin sé ekki sterk, er það samt tilbúið að veita viðtöku orðum um ný viðfangsefni. Lát kallið um hinn yfirgripsmikla sannleika enduróma um öll svið vísindanna. Þó viðfangsefnin séu efnisleg, lát samt alla byrja að íhuga ræktun andans. Lát líffræðina minna á óendanleika lífsins. Þyki einhverjum gott að nota framandleg orð, viðhafið engar mótbárur, því leiðirnar eru óendanlegar. Sé einhver ráðvilltur, uppörvið hann, því ósjaldan er ráðgáta merki um leynda hugsun. Sé einhver dauflegur á svip, er það ekki til marks um vonir sem ekki hafa ræst? Eitt orð um óendanleikann getur gefið vængi. Sé einhver þögull, er hann ef til vill að leita að bestu orðunum til að tjá sig – uppörvið hann með augnatilliti. Hægt er að nefna margar brýr sem hinir ungu vinir geta notað til að komast yfir strauminn. En meginatriðið er samt að fúsleiki hinna ungu krafta er mikill. Þetta þurfa allir þeir að muna sem hrista höfuð sín í vantrú.

469. Nauðsynlegt er að hugsa sérstaklega um alla þá af ungu kynslóðinni sem hafa kosið hina bróðurlegu leið. Það er ákaflega mikilvægt að þessi óþrjótandi uppspretta efli kraftana stöðugt með gagnkvæmum samskiptum. Gerum ekki ráð fyrir því að börn verði aðeins móttækileg þegar vissum aldri er náð. Minnið vaknar oft mjög snemma, og það er undravert hve hugsunin getur verið skýr hjá mjög ungum börnum.

470. Vitund fullorðinna fjarar stundum út um tíma, en börn eru sérstaklega næm fyrir dýrmætum eiginleikum. Fullorðnir eru oft ósnortnir af frásögnum um hetjuskap, en börn eru hrifin af vinsælum hetjum; þau eru frá sér numin af afreksverkum, og þau dreyma um að vera sjálf meðal þeirra sem berjast fyrir sannleikanum. Það er óleyfilegt að svipta börnin þessari lifandi uppsprettu innblásturs, því hún mun dvelja með þeim sem lýsandi glóð alla ævina. Þessi löngun er ekki ástríða, heldur vöxtur vitundar sem hefur komist í snertingu við fagra ímynd. Nauðsynlegt er að viðhalda öllum slíkum tengslum; af þeim kviknar einnig Bræðralagshugtakið.

Ekki skyldi ætla að skilningur á Bræðralagi komi vegna trúfræðilegra umvandana. Fagurt afrek getur upplýst ungt hjarta varanlega.

471. Gleði kennarans felst í því að hvetja lærisveininn til að voga sér að nálgast fegurð. Langur listi af þreytandi og hversdagslegum atvikum hvetur ekki til að slíkum árangri sé náð. Kennarinn verður sjálfur að vera fullur ákafa, svo að eldmóður hans smiti frá sér. Þannig dagleg verkefni eru erfið, en fólk er einmitt prófað í daglegu lífi, sem er systir óendanleikans.

472. Útstreymi andlegrar orku er alls ekki háð meðferð með blóðgjöf, heldur valeríana, moskus og mjólk með matarsóda (natríumbíkarbónat). Við þessi frum-læknisúrræði bætist andleg orka læknisins – hið síðastnefnda er ákaflega mikilvægt. Hinn ungi vinur okkar býr yfir góðum eiginleika – hann getur gefið frá sér mikla orku án þess að skaða sjálfan sig, því það er ekkert af þeirri illsku í honum sem svo oft hefur veikjandi áhrif. Illska getur valdið sterkum krampa, þess vegna er hún ekki hæfur grundvöllur.

473. Blóðleysi er yfirleitt talið stafa af blóðskorti, en sá þáttur skiptir ekki mestu máli. Blóðleysi stafar af útflæði andlegrar orku. Kærulaus læknir telur að unnt sé að efla styrk með því að drekka blóð, en hann gleymir því að slíkt innflæði orku er ekki raunverulegt. Það er svipað því að ætla sér að lýsa upp heilt hús með einni eldspýtu. Inntaka blóðs veldur miklum skaða; þetta efni þarfnast rannsóknar og aðlögunar. Það er ástæðan fyrir því að við mælum almennt ekki með þannig blöndun blóðs. Það sem skiptir mestu máli er að hún er ónauðsynleg. Aukning andlegrar orku fæst með einföldum ráðum, sem Við erum nú þegar búnir að fjalla um. En við slíkar aðstæður skulum við gæta þess að enginn sé nálægur sem dregur til sín orkuna. Það er vissulega hægt að soga til sín orkuna meðvitað eða ómeðvitað. Sérhver pirringur og örvænting mun vissulega drekka í sig hina dýrmætu orku. Þegar kennd eru undirstöðuatriði Bræðralags, skulum við fyrst fjarlægja allt það sem andstætt er andlegri orku.

474. Mælt er með því að fylgst sé með aðferðunum sem óskapnaðurinn beitir til innkomu. Margir gera ráð fyrir því að óskapnaðurinn í sjálfu sér útiloki hvers kyns skipulag. Sú kenning að óskapnaðurinn sé algerlega formlaus er ekki sönn. Í hverju lífi má sjá hve lævíslega óskapnaðurinn laumast inn. Hann treður sér inn sem raunverulegur niðurbrjótandi kraftur. „Innrás óskapnaðarins“ gæti verið titillinn á ákaflega fræðandi bók um athuganir.

475. Minnst hefur verið á raddir úr geimnum undir ýmsum heitum í trúarritum allra þjóða. Við skulum ekki sökkva okkur niður í það hvers vegna þessar raddir hafa verið eignaðar mjög mismunandi uppsprettum. Nú er aðeins nauðsynlegt að hafa í huga að þekking á þessum röddum nær langt aftur í fjarlæga fortíð. Menn skyldu ekki gera ráð fyrir að fólk úr mismunandi menningarsamfélögum geti haft rangt fyrir sér eða verið vísvitandi lygarar. Vísindin hafa nú þegar náð tökum á þráðlausum fjarskiptum, og þau er stöðugt verið að endurbæta. Að auki er verið að rannsaka hugsanir, og athyglisverðar niðurstöður eru þegar komnar fram, en þrátt fyrir allt þetta er fáfræðin svo ríkjandi að nauðsynlegt er að endurtaka hin einföldustu sannindi.

476. Ekki aðeins eru skoðanir og hugmyndir um frumorkuna bannaðar, heldur telja menn jafnvel skaðlegt að hugsa um hana. Svo fáránleg rök heyrast. Þeir sem fordæma þannig geta ekki viðurkennt að hugsanir geti verið eitthvað annað en skaðlegar heilsunni, og gefa með því í skyn að allt sem viðkemur hugsun sé eingöngu til skaða. Ég fullyrði að hugsun er hið náttúrulega frumlögmál lífsins. Ekkert sem tengist þessu frumlögmáli getur valdið skaða, en skelfilegt er það að hugsa alls ekki.

477. Við höfum öll rekist á menn sem spyrja mjög flókinna spurninga, en nýta sér samt ekki hin einföldustu frumatriði í lífi sínu. Slíkt ósamræmi er ekki gott merki. Væri ekki betra fyrir þá að hagnýta hinar ígrunduðu reglur í lífinu? Þannig ósamræmi er það fyrsta sem leggja þarf fyrir róða á leiðinni til Bræðralags.

478. Andleg skilaboð berast til Jarðar í gegnum ólíklegustu viðtakendur. Mikilvæg boð um fórnfýsi og gagnkvæman skilning berast vissu fólki. En veitið því athygli hve óvænt þau koma. Ef við myndum merkja á hnattlíkani staðina þar sem tekið er við skilaboðum Okkar, kæmi í ljós óvænt mynstur. En til eru þeir sem bera fram þessi sömu boð án nokkurs skilnings. Stundum eru þeir sem ala á sundurþykkju ekki frábitnir því að tala um fórnfýsi. Með því er sjálf merking orðsins gerð að engu, og í stað sameiginlegs skilnings verður til haturshugur. En yfir og handan allra hindrana lifa boðin um fórnfýsi og gagnkvæman skilning. Það sem ekki skilst í dag mun skiljast á morgun.

479. Fólk á erfitt með að skilja eftir hverju eigi að meta athafnir. Skoðun er tjáð á afburða snjallan hátt, en samt telst hún ekki mjög góð frá æðra sjónarmiði. Á hinn bóginn fær hugmynd, sem tjáð er með hikandi röddu, hæversklega og með hlédrægni, glaðlegt hrós. Fyrir þeim sem sjá aðeins yfirborðið gæti slíkt mat virst óskiljanlegt. Gimsteinn getur dulist í óásjálegu grjóti. Hægt er að tjá djúpa hugsun með mjög fáum orðum. Þar sem er innri glóð, er einnig meiri hvatning. Þegar ég ræði um einfaldleika, hef ég sannfæringarmátt í huga. Þegar rætt er um að færa fólk upp á hærra plan, er þörf á einfaldleika, fyrst og fremst, með öllum sínum sannfæringarmætti. Þann eiginleika skal ekki aðeins meðtaka hugrænt, heldur með kærleika hjartans; frá honum stafar bæði samvinna og Bræðralag.

480. Auðveldara er að greina ómstrítt hljóð en samhljóm. Þegar hlustað er á lægri fíngerðu sviðin, geta hinar kvalafullu stunur, kvein og hræðsluóp slegið menn út af laginu. Eftir þennan hávaða virðist þögn ríkja á æðri sviðunum, en það er afstætt. Tónlist himnanna er háleit, en hún hefur ekki sterk áhrif á taugastöðvarnar. Einnig af þessari ástæðu dregst fólk að ómstríðum hljóðum, en aðeins fáeinir eru færir um að greina samræmi. Á leiðunum til Bræðralags verða menn að skilja mátt samræmis.

481. Þeir sem brjóta gegn tilverunni treysta á að komast upp með hinar illu athafnir sínar án refsingar; þeir reyna að halda áfram á braut hins illa og stæra sig af því að réttlætið muni aldrei ná þeim. Er unnt að reiða sig á það sem ekki hefur enn komið fram? Hugsanir þeirra reyna að forðast það, með því að skynsemin getur fundið dæmi um að menn hafi komist hjá refsingu. En lát þá muna hve skammsýn skynsemin er.

482. Takið eftir því hve mjög hinir ágætustu menn geta verið sem slegnir blindu! Þeir eru að sönnu ekki einu sinni færir um að skynja viðvaranir. Nauðsynlegt er að gefa þeim ráðleggingar með varúð. Gefa verður viðvörun í smáum skömmtum, því ekki er hægt að reiða sig á að augu þeirra opnist strax í upphafi.

483. Í fornum samfélögum var glaðst yfir öllum sem gengust undir prófraunir. Þeim var sýnd umhyggja, því menn gerðu sér grein fyrir því að mjög óæskilegt var að trufla þessa reynslu. Það var litið á allar prófraunir sem upphaf framfara. Ekki var unnt að breyta afleiðingunum, en bróðurleg hvatning hjálpaði þeim til að halda ótrauðir áfram, jafnvel frammi fyrir ógnþrungnum sýnum. Að sjálfsögðu reynir óskapnaðurinn, í öllum sínum ljótleika, að hindra för allra sem taka prófið. En lát þessar sýnir vera hræðilegar; birting hins mesta hryllings er í sjálfu sér vottur þess að endir prófraunanna nálgast.

484. Lærisveinn, þegar þú kýst þér mjög takmarkandi dvalarstað, geymdu samt eina stund fyrir hið allt umlykjandi. Mönnum er þungt um andardrátt í aðþrengdu rými, en jafnvel smár geisli óendanleika gefur næga prönu. Í óendanleika dvelur hið allt umlykjandi. Þegar þessi sannindi verða ljós, eru ekki til neinir aðþrengdir og kæfandi staðir. Við leitina að Bræðralagi verða menn að hafa í huga þessa leiðarsteina á braut lausnarinnar.

485. Þegar skært ljós nálgast einhvern, hrópar hann, „Það er ekki nógu mikil birta“! Er ekki orsakanna að leita í blindu? Hægt er að nefna mörg dæmi um það að ónæm augu gátu ekki séð ljósið. Ónæmi fyrir ljósi er ekki ljósinu sjálfu að kenna, heldur lélegri sjón. Fólk með augun full af ryki lendir oft í þessu. Er slík persóna hæf fyrir leiðina til Bræðralags?

486. Við skulum tjá hugtök á myndrænan hátt. Ímyndum okkur einingu sem fagra og stöðuga hvelfingu. Lát hinar hækkandi línur vísa upp á við og tengjast saman sem hliðar hvelfingarinnar. Enginn skyldi ætla að eining brjóti í bága við einstaklingsvitund. Hjá hinum fornu byggjendum var hver súla og hvert þrep einstakt, en þau öll komu saman og mótuðu heildarsamræmi byggingarinnar. Hvelfingunni var ekki haldið uppi með skreytingum, heldur réttri innri samhæfingu – þar sem skilningur er ríkjandi á innri samhæfingu sem rís upp til toppsins, má fastlega gera ráð fyrir að finna einingu. Þreytumst ekki á því að safna hinum bestu hugmyndum sem tengjast hugtakinu eining. Eining er svo nauðsynleg, en hún er oft ótraust, jafnvel hjá þeim sem eru nú þegar kunnugir Bræðralagi.

487. Skiljum eftir alla eftirsjá eftir fortíðinni, gerum ekki leiðina til framtíðar erfiða fyrir okkur. Ekki má binda athyglina við mistök fortíðar. Viðleitni til framtíðar verður að vera svo sterk að ljósið dofni ekki í augum sem beint er til baka. Höfnum fortíðinni vegna framtíðarinnar. Hægt er að stefna svo kröftuglega til framtíðar að við allar aðstæður verði þessi blessaði ákafi viðvarandi. Sérhver viðleitni til framtíðar er viðleitni til Bræðralags.

488. Nauðsynlegt er að skilja hve mikill fjöldi ytri aðstæðna kemur saman til að mynda hugarástand mannsins. Þessi skari nefnist „engisprettur.“

489. Margir hafa heyrt minnst á Kúmarana, en fáir hafa réttan skilning á þeim. Menn segja að þeir séu yfirjarðneskar verur – en þeir gleyma með hve mikilli vinnu þeir hafa náð þessu stigi. Fræðimenn eru farnir að skilja hvernig maðurinn sem persóna kemst inn í samfélag hetjanna. Með þessari sömu leið öðlast leiðtogar mannkynsins eiginleika sína. Ef þeir ganga ekki í gegnum jarðneskar þjáningar, geta þeir ekki brugðist við þjáningum fólksins. Ef þeir fá ekki reynslu af striti og svita, geta þeir ekki leiðbeint fólki í vinnu sinni. Sjálfsafneitun, miskunn, samúð og hugrekki mótast í lífinu. Ekkert afstætt getur mótað styrk andans. Lát fólk skilja Kúmarana þannig, sem hina sönnu leiðtoga.

490. Inntak bardagans felst ekki í lönguninni til að drepa. Ég fullyrði að kraftar í birtingu leitast ekki eftir bardaga; þeir verjast ágangi óskapnaðarins. Það er ekki auðvelt fyrir marga að skilja að bardaginn er viðvarandi, aðeins eðli hans breytist. Hinir huglitlu skjálfa ef minnst er á bardagann, og spyrja hvenær honum ljúki? En þeir verða fyrir miklum vonbrigðum þegar þeim er sagt að honum muni ekki ljúka fyrr en óskapnaðinum hefur verið útrýmt. Er þetta ekki skelfilegt í augum sumra? En ótti er ekki við hæfi á leiðinni til Bræðralags.

491. Fræðarinn beygði höfuð sitt yfir vatnsgeymi og spurði lærisveininn. „Hvað sérðu?” Sá síðarnefndi svaraði. „Ég sé skýra spegilmynd þína.“ Þá mælti fræðarinn. „Snertu yfirborðið með litla fingri þínum – hvað sérðu þá?“ „Ég sé mynd þína í brotum.“ Íhugaðu, ef snerting litla fingurs þíns dugði til að breyta svo spegilmynd minni í vatninu, hversu mikil afskræming getur þá orðið við grófgerða snertingu mitt í sviði hinna fíngerðu orkutegunda?“ Með einföldum dæmum geta menn einnig séð það sem gerist í fíngerða heiminum.

492. Mikill fjöldi af frumum líkamans er í óvirku ástandi. Á það hefur verið bent að með vöknun þeirra yrði maðurinn lýsandi og fær um að fljúga. Er hugsanlegt að menn á núverandi stigi sínu geti náð slíkri ljósvöknun innra með sér? Veltið því fyrir ykkur að menn eru reiðubúnir fyrir mikla þróun, en fjársjóðurinn verður að haldast sofandi. Vitundarstigið leyfir ekki hraða framför. Aðeins í örfáum tilfellum er lífkerfið uppljómað og, með hjálp frá fíngerða heiminum, skynjar tímabundið þá möguleika sem því eru ætlaðir.

493. Á leiðinni til Bræðralags verða menn að losa sig við þann vana að lítilsvirða. Hví að snerta við því sem vitundin er ekki enn fær um að viðurkenna? Leyfið ekki neinn skaða, jafnvel þó það sé vegna vanþekkingar.

494. Ætlið ekki að manns eigin hugsanir geti haft mikil áhrif á drauma. Fjarlægar ytri hugsanir geta einnig valdið slíkum áhrifum. Mjög auðvelt er að taka á móti fjarlægum hugsunum í svefni. Nauðsynlegt er að rannsaka drauma enn betur.

495. Oftar en einu sinni hefur fræðarinn hrópað upp. „Gleði!“ En lærisveinarnir litu í kringum sig ráðvilltir og spurðu. „Hvar er þessi gleði“ Himininn er skýjaður og sorgin ríkir alls staðar.“ En samt skynjaði fræðarinn gleði yfir og handan hins tímabundna hugarástands.

496. Oftar en einu sinni hefur fræðarinn varað við hættu, en lærisveinarnir urðu furðu lostnir. „Hvaðan mun hættan brjótast fram mitt í öllum þessum friði og þögn?” Fræðarinn hafði þá þegar skynjað hvar hætta gat legið í leyni. Látum ekki hættuna skelfa okkur, heldur mætum henni með aðgát. Hið sama gildir um gleði – köstum ekki frá okkur verkinu, hættum ekki við verkefnin okkar, en látum gleðina efla þau og gæða þau nýjum eiginleikum.

497. Þeir sem leita Bræðralags búa yfir eigindum eldsins. Af eldi fæðist sæla og innblástur. Hið lýsandi frumefni getur opinberast í sérhverju andvarpi vegna Bræðralags.

498. Jafnvel stórglæpamenn hafa verið nefndir „stórbrotnir“ vegna þess að þeir kunnu að meta fegurð. Hvarvetna í sögu mannkynsins má finna sannfærandi vísbendingar um fegurðina sem hlíf. Hefting sköpunargáfunnar er til marks um hnignun mannkynsins, en sérhvert tímaskeið endurreisnar hins skapandi máttar er framfaraskref. Þar eð þessi vitneskja er þekkt, hvers vegna er listin þá ekki nýtt meira í lífinu? Við getum minnst þess að fögur minnismerki um sköpunarmátt hafa orðið sem upphefjandi kennileiti; í viðleitni sinni hefur fólk hraðað sér til þeirra, því þau bera með sér frið.

Án fegurðar er ekki unnt að hugsa um Bræðralag.

499. Við skulum tala um hreyfingu. Misskilningur heldur áfram að hlaðast upp umhverfis þetta hugtak. Þegar fólk heyrir um hreyfingu og hreyfanleika, breytist það í eirðarlausa hlaupara. En hæfir ys og þys æðri raunbirtingum? Einnig gera menn ekki greinarmun á ytri og innri hreyfingu, þótt slík aðgreining sé ákaflega mikilsverð; hún leysir frá erli og umstangi, sem óhjákvæmilega leiðir til óheilinda

Einnig mun skilningur á innri hreyfingu veita hreyfingum háttvísi. Látbragð og hreyfingar eru ekki auðlærðar; oft vita menn ekki hvernig þeir eiga að hreyfa hendur og fætur, og jafnvel höfuðið. Höfuðið vaggar, hendurnar baðast út, fæturnir hrasa – þarf jafnvel að kenna mönnum að ganga? En allar þessar skyssur stafa af vitundaróreiðu. Stefnulaus erill er til marks um vöntun á hæfni til að aðlagast lífinu. Það hæfir ekki að vera sem trúður á leiðinni til Bræðralags.

Þess vegna skulum við læra að greina á milli innri og ytri hreyfingar.

500. Við skulum einnig vera óþreytandi við að tala um einingu; í þessu hugtaki blandast hið innra stöðugt við hið ytra. Menn munu segja. „Við erum ein heild, það finnast aðeins smáar glufur“. En þeir gleyma að í sprungum er uppspretta hnignunar. Með því gera þeir innri einingu ekki nægilega hátt undir höfði. En hvaða tilskipanir geta innprentað samræmi? Það eina sem eftir stendur er að höfða til blygðunarkenndar mannkynsins. En án skilnings á samræmi er Bræðralag óhugsandi.

501. Við skulum einnig ræða oft um frið. Látið sjálft orðið fylgja fólki á öllum sínum leiðum.

502. Er nokkur möguleiki á því að þeir sem fullir eru ruddaskapar og grimmdar geti verið dómbærir á frið? Fylgjast ætti með slíkum friðflytjendum í daglegu lífi þeirra. Menn ættu að hlusta á hvernig þeir ræða um sín eigin málefni og annarra. Menn ættu að kynna sér hvernig þeir spauga og rægja, og gera sér með því grein fyrir því hve algerlega óhæfir þeir eru til að sinna málefnum friðar. En enginn virðist láta sig varða siðgæði þeirra sem ráða örlögum heilla þjóða. Enginn veltir því fyrir sér að ekkert hreint getur komið frá óhreinindum.

503. Grimmd nefnist það hryllilega ástand sem þeir falla í sem helteknir eru af eigingirni og nálgast hina æðri fræðslu í hagnaðarskyni. Ástand þeirra er ekki hægt að nefna neinu öðru orði en grimmd. Lát lækna rannsaka munnvatn þeirra til að fullvissa sig um sjúklegt ástand lífkerfisins. Einhver kann að spyrja. „Bíta þeir?“ Hann hefur rétt fyrir sér, því að snerting þeirra er eitruð. Hægt er að nefna mörg dæmi um slíka vitfirringu. Ótrúlegt er að sjá með hvaða tilgangi þannig fólk nálgast uppsprettu ljóssins. Það er átakanlegt að gera sér grein fyrir því að maðurinn æðir áfram út í ógnarlegt hyldýpi án þess að horfa lengra fram á við en einn dag.

504. Hvar ættu menn þá að leita af glömpum Bræðralags í jarðneskri tilveru? Ummerki þess má sjá meðal mjög einfaldra verkamanna sem unna starfi sínu. Vinna, kærleikur og bræðralag fylgjast að.

505. Sú eining sem nefnd er sameignarfélag, byggt á trausti, þarf mjög á gagnorðum lögum að halda, en Bræðralagið getur ekki haft skriflegar reglur. Ekki er hægt að viðhalda Bræðralagi með skilyrtum hömlum. Sjálft orðið takmörkun er óviðeigandi í takmarkaleysi Bræðralags.

Lát þann sem lítur á Bræðralag sem byrði hverfa skjótt frá. Lát þann sem niðurlútur beygir höfuð sitt fyrir hliðum Bræðralags snúa fljótt til baka. Það að geta fagnað Bræðralagi er vissulega viturleg gleði.

506. Viturleg gleði mun einnig vakna við samfundi sem byggjast á fornum kynnum. Það er ekki oft sem menn skynja að samfundir eigi sér djúpar rætur. Skýrar minningar blossa fram sem skyndilegir glampar. Stundum valda þeir óþægilegu uppnámi, eins og þeir eigi ekki heima í háttum dagslegs lífs. Því er nauðsynlegt að greina skynjanir sínar með varfærni. Samhliða hinum áreiðanlegu fyrstu áhrifum geta komið ýmsar minningar. Stundum birtir gott fólk ekki sína bestu hliðar. Ég minnist á þetta svo menn forðist að dæma of fljótt. Þið hafið áttað ykkur á því að vinir geta oft tekið þá hlið sem maðurinn birtir, sem hans innsta eðli.

507. Stundum birtast skýrt í draumum andlit ókunnugra, sem maðurinn hittir svo síðar á lífsleiðinni. Slík forsýni á sér margar skýringar, en fyrst og fremst er augljóst að maðurinn skynjar með einhvers konar sjónskyni það sem hann mun síðar sjá efnislega. Þessir samfundir eru vissulega til vitnis um fíngerða heiminn og athafnasemi í svefni. En þeir sem rannsaka drauma dettur ekki í hug að álykta á þennan veg. Það er sérstaklega athyglisvert að samfundir sem þannig eru fyrirséðir reynast sjaldnast sérstaklega mikilvægir í efnislíkamanum. Aðstæður sýna fram á að athafnir í fíngerða heiminum ganga fyrir sig á annan hátt en í efnisheiminum. Ástæða er til að fagna því að jafnvel með sýnilegum dæmum má sjá hve líf mannsins er margskipt.

508. Geimstraumar eru ekki eitthvað óhlutstætt. Þeir hafa áhrif bæði á ástand mannsins og einnig útvarpsbylgjur. Á flugi má einnig sjá furðuleg fyrirbrigði sem aðeins er hægt að skýra með straumum í geimnum. Þannig skulum við taka eftir öllum vísbendingum um hinar fíngerðu orkutegundir.

Nauðsynlegt er að hafa opin og óbundin augu á leiðinni til Bræðralags. Þegar svar úr fjarlægð berst ekki af einhverri ástæðu, verður að gera ráð fyrir margs konar ástæðum. Auk ástæðna sem liggja hjá sjálfum aðilum samskiptanna, geta verið áhrifamiklar umhverfisaðstæður. Straumar geta verið svo sterkir að nauðsynlegt getur verið að bíða um stund til að hægt sé að ljúka sendingunni.

509. Í Austurlöndum hugsuðu menn sér hið norðlæga Shambhala birtast eins og norðurljósin. Þar mátti einnig heyra þá goðsögn að fáni væri reistur á norðurpólnum. Þannig rætast arfsagnir; og hægt er að líta til fjarlægrar framtíðar þegar ný lönd verða uppgötvuð vegna tilfærslu jarðarmöndulsins. Ég hef nú þegar minnst á afhjúpun túndranna. Ég votta þeim virðingu mína sem horfa til framtíðar.

510. Á fornum tímaskeiðum var skilningur manna á lífinu mun djúpstæðari en hann er nú á tímum. Allar hinar athyglisverðu uppgötvanir okkar tíma hafa ekki aðeins beint athyglinni frá grundvallarmerkingu lífsins, heldur hafa þær oft afvegaleitt hugann, jafnvel að hinu tæknilega sviði. Leita verður allra leiða til að beina huganum að sjálfum grundvelli tilvistarinnar. Bera skyldi saman hugsunarhátt fornra heimspekinga og röksemdafærslur nútíma vísindamanna. Ef þekking á mörgum vísindalegum uppgötvunum er frátalin, þá kunnu heimspekingar til forna að setja fram mjög flóknar formúlur lífsins. Það er bráðnauðsynlegt að list hugsunar rísi aftur yfir hinar ytri aðstæður, sem eru hinir óæðri þættir tilvistarinnar.

511. Veit maðurinn um alla þætti athafna sinna? Er mögulegt að maðurinn geti metið gott og illt sem athafnir hans hafa leitt af sér á meðan mannleg hugsun er bundin í jarðneska hlekki? Sannarlega veit maðurinn ekki umfang þess sem hann skapar. Það er aðeins hugsun um yfirjarðneska, eilífa tilvist sem getur leitt vitundina út úr fangelsi sínu, en það er erfitt að samræma hið yfirjarðneska hinum jarðneska skilning mannsins.

Hver getur verið laus við áhyggjur af ímynduðum mótsögnum? Hver viðurkennir staðreyndina – „því hærra, því erfiðara?“ Hver andvarpar vegna þess að ekki er auðvelt að nálgast hið fagra? Það er rétt að uppljómun getur verið tafarlaus, en það er ekki til marks um að leiðin framundan verði auðveld. Frá venjulegu jarðnesku sjónarmiði auðveldar maðurinn sér leið sína með skilningi, en þetta þarf að skilgreina nákvæmlega. Skilningur afhjúpar leiðina, en það væri hugleysi að gera ráð fyrir að leiðin verði auðveld. Sérhver gleði skapar nýjar verkefni, þannig vex margbreytni skynjananna.

Þegar rætt er um fíngerða heiminn fagnar fólk því að eina hvötin til athafna þar sé máttur hugsunar. Það er rétt, og auðvelt að segja það, en er auðvelt að starfa með mætti hugans? Til að geta slíkt þarf maðurinn að kunna að hugsa. Meta verður hugarstarfið mikils. Mitt í öllum störfum verður maðurinn að finna tíma til að rækta hugann. Að auki verður að greina á milli eigingjarnra hugsana og hugsana um hið sameiginlega góða.

512. Meðvitaður hugsanaflutningur milli fjarlægra staða er enn á frumstigi. Fagna ætti öllum viðfangsefnum sem unnið er að á þessu sviði, en þau hafa ekki mikla þýðingu fyrir allan fjöldann. Því ætti að skipuleggja fyrirlestra um hugsanaorku sem víðast, samhliða því að gerðar séu tilraunir með hana.

Bræðralag er fyrst og fremst hugræn stefna.

513. Vitund mannsins er mótsstaður allra heimanna. Með öldum samræmis, sýnum og skynjunum, mætast allir heimar. Manninum hefur verið treyst fyrir fjársjóði – hefur hans verið vel gætt? Hinn kosmíski gestur kann að berja að dyrum, og vei þeim sem ekki tekur á móti honum.

Menn halda að verið sé að ræða um eitthvað afstætt, þegar sagt er að hinn kosmíski gestur berji að dyrum; en þekkja ekki læknar samt til líkamlegra kvilla sem stafa af óskilgreinanlegum orsökum? Óvandað málfar bendir til veikinda í sálinni. Til eru margir slíkir sjúkdómar!

514. Til voru lækningaaðferðir sem nýttu náttúrlegar útgeislanir. Í stað inntöku var sjúklingurinn umkringdur viðeigandi málmum eða plöntum. Þessi aðferð gerir að sjálfsögðu ráð fyrir næmni fyrir fíngerðum áhrifum. En ef menn bera segulmagnaða hringa og nota heimatilbúna jurtaáburði, geta nálæg efni líka verið gagnleg. Ekki ætti að telja það sjálfgefið að snerting málma og nálægð ákveðinna plantna hafi engin áhrif á manninn. Menn telja slíkar hugmyndir sérvisku, en eiginleikar málma og plantna eru samt óumdeilanlegir. Menn geta orðið ölvaðir af því að þefa einu sinni af áfengi; þeir verða æstir ef þeir nálgast ákveðnar plöntur – hvarvetna er hægt að sjá viðbrögð við útgeislunum. Rannsaka ætti tengslasvið mannsins.

515. Svif í lausu lofti var vel þekkt í fyrndinni, og menn höfðu á því vitsmunalegar skýringar. Í fáfræði miðalda var jafnvel litið á hugsanir um flug sem ástundun galdra. Það er ekki fyrr en nú á tímum að menn líta til baka með vorkunnsemi vegna fáfræði miðalda og líta á flugferðir sem eðlilegan hlut. En hugsuðu forfeður núverandi kynslóðar á sama hátt?

Ég minnist á þetta vegna þess að viðhorf manna til margra uppgötvana eru enn á svipuðu stigi og þau voru á miðöldum. Áður en langt um líður munu menn taka ljósmyndir af útgeislun manna, hugsanir verða mældar og það verða til tæki til að mæla útgeislun, samt eru þeir tiltölulega fáir sem viðurkenna slíka möguleika. Ekki er langt síðan litið var á sjónvarp sem fánýtt ævintýri, menn töldu það ekki mögulegt, samt voru þeir fljótir að meðtaka það til aukinna þæginda. Við því má búast að margir þeirra sem vanir eru að því að geta dulið sinn innri mann, muni ekki verða hrifnir af þeirri hugmynd að hægt sé að mæla hugsanir og greina útgeislun.

Þannig skulum við íhuga þá gleðilegu möguleika sem munu fara vaxandi eftir því sem bræðralagshugtakið fær meiri viðurkenningu.

516. Læknar fornaldar greindu eiginleika útgeislunar með notkun plantna og málma. Þeir notuðu einnig ákveðið hundakyn sem var ákaflega næmt fyrir útgeislunum mannsins. En nú á tímum eru til mjög einföld raftæki til að mæla og birta á skjá sveiflur og eiginleika útgeislunar.

517. Það er óhugsandi að menn skynji ekki virkni hinna kosmísku strauma sem draga til sín andlegu orku. Það getur birst sem ákveðin syfju-tilfinning, eða eins og menn séu utan við sig; ósjálfráður pirringur getur komið fram – það er fræðandi að veita athygli þessum merkjum sem fylgir því þegar orkan er fjarlægð. Menn hallast að því að kenna um sínum eigin slappleika, en við skulum ekki gleyma hinum ytri ástæðum.

518. Sá sem ætlar að skemma strengjahljóðfæri lemur á strengina með illsku í þeim tilgangi að slíta þá og rjúfa algerlega samstillingu hljóðfærisins. Gerist ekki það sama þegar fjandsamlegur kraftur ryðst inn í þeim tilgangi að rjúfa takt vinnunnar? Aðeins sannir verkamenn skilja gildi hrynjandi; þeir vita hve erfitt er að ná slíku stigi. Truflun hennar jafngildir stundum morði eða eiturbyrlun. Í raun og veru er hönd óvinarins að teygja sig fram til að skemma einmitt það sem er eitt af bestu afreksverkum mannsins.

Hinn fáfróði mun segja að auðvelt sé að skipta um strengi. En jafnvel venjulega strengir velur hljóðfæraleikarinn af alúð. Hrynjandi vinnunnar er langtum fíngerðari uppbygging. Eyðileggingu hennar er ekki hægt að bæta. Bræðralaginu er sérstaklega annt um að viðhalda vinnunni í sínum besta takti. Á sama hátt ættu menn í öllum samfélögum að læra sameiginlega að vernda vinnuna; í því er tjáð hið háleita gildi gagnkvæmrar virðingar.

519. Ætlið ekki að margir skilji hinn fagra samhljóm vinnu. Einnig skilja margir ekki mismuninn á sameiginlegri og einstaklingsbundinni vinnu; flestir telja að umskiptin frá sjálfmiðaðri vinnu yfir í samvinnu feli í sér mótsögn, en slíkt er í reynd þróun. Menn mega ekki glata einstaklingseðli sínu, en í samkór gefur hver rödd sína sérstöku eigind sem stuðlar að sameiginlegum árangri; og samhliða þessum skilningi verða menn að hafa í huga grundvallaratriði Bræðralags.

520. Leitið Bræðralags í öllu um allan heim. Það hefur engan tilgang að ætla að hin æðri hugtök sýni gildi sitt eingöngu í óvenjulegum tilfellum.

521. Það hefur ákveðið gildi að líkamleg áreynsla stuðlar stundum að sérstaklega skýrri hugsun. Hið sama gerist sem viðbrögð við kulda eða hita. Er þetta ekki til marks um að hugsun sé orka? Margar nýjar uppgötvanir verða gerðar þegar lögð verður áhersla á hugsun, og reynt að mæla orkuna. Mörg einstök atvik eru samfara einingu hugsunar. Þið hafið lesið um atvik sem mögnuðust vegna hins mikla fjölda fólks sem var saman kominn. Ólíklegt má telja að allir hafi hugsað í samstillingu. Þetta merkir að orka hugsunar virkaði á þennan hátt. Orkustraumurinn stuðlaði að þátttöku krafta frá fíngerða heiminum. Alltaf þegar fólk kemur saman er hægt að greina að margir hjálpendur frá fíngerða heiminum dragast að. Við skulum vona að hugsanir fólksins muni laða að góða hjálpendur. Með samstilltri hugsun sinni skapar Bræðralag máttugan straum góðvildar.

522. Maður nokkur fann uppsprettu með læknandi vatni. Hann bar með sér vatnið í íláti, en í gleði sinni missti hann hinn dýrmæta vökva niður. Það er ekki öll viðleitni sem eflir hugsun, því ef svo væri myndu allir íþróttaverðlaunahafar verða hugsuðir. Gagnlegt er að viðhafa rétt gildismat í öllu.

523. Hugsun um hjálp er sérstaklega gagnleg. Manni sem sjálfur er þurfandi og býr við erfiðar kringumstæður dettur í hug að hjálpa öðrum; þannig sjálfsafneitun er mikill prófsteinn.

524. Á ýmsum tímaskeiðum hafa birst sérstök viðfangsefni og tákn, sem ekki er hægt að telja sem verk eins manns. Þau viðhéldust sem tákn alls tímabilsins. Nú á tímum er mikið rætt um Atlantis. Í ýmsum heimshornum hafa menn rifjað upp gleymdar náttúruhamfarir. Við skulum ekki líta á slíkar minningar sem ógnanir. Við erum víðs fjarri ógnunum. Hugsanlega munum Við koma með áminningar og viðvaranir, en enginn Okkar notar þann myrka mátt að kynda undir ótta og skelfingu. Frjáls vilji er hinn einkennandi eiginleiki mannsins. Það er hörmulegt ef þessi dásamlega orka hrindir brjálæðingum út í hyldýpið. Hægt er að gera varúðarráðstafanir, en það er óleyfilegt að brjóta gegn lögmáli hins frjálsa vilja. Nægar viðvaranir komu fram áður en Atlantis mætti örlögum sínum, en vitfyrringarnir hlustuðu ekki á þær. Á öðrum tímaskeiðum er einnig unnt að greina aðvaranir.

525. Atlantisbúar réðu yfir flugtækni, þeir kunnu að kynbæta plöntur, þeir hagnýttu máttugar orkutegundir, þeir þekku leyndardóma málma, þeir höfðu yfirburði í mannskæðum stríðsrekstri. Minna þessi afrek ekki á einhverja aðra tíma?

526. Samskiptum heimanna mun miða fram undir merkjum vísindanna. Höfum í huga að mörg smáatriði þessarar miklu framvindu virðast ótengd og óvænt. En þetta samhengisleysi er aðeins það sem virðist vera. Í reynd er kerfið sem býr að baki raunbirtingu heimanna mjög nákvæmt. Lát ólíka vísindamenn framkvæma athuganir sínar. Augljóst má vera að vísindamenn hafa aldrei áður gert svo víðtækar athuganir sem nú. Um sinn getum við litið á þær sem hagnýtar rannsóknir; meginatriðið er að allar þessar athuganir eru skráðar á spjöld vísindanna. Fyrr eða síðar munu þessi brot verða tekin saman í eitt kerfi. Þannig verður unnt að sýna fram á víðtæk svið sem mögulegt er fyrir vísindin að staðfesta.

527. Straumur hugsunar verður oft fyrir mjög óvæntum áhrifum og innskotum. Sannur hugsandi leynir ekki þeirri staðreynd að hugsun getur truflast af utanaðkomandi áhrifum. Auk þess er hugsanlegt að gagnverkun hugsunarinnar verði svo kröftug að hin upprunalega hugsun breyti algerlega um stefnu. Við skulum ekki ætla okkur þá dul að ákveða hvers vegna slík gagnverkun gerist. Það kann að vera að kraftur hugsunarinnar laði að sér aðra hliðstæða hugsun. Ef til vill skerast áhrifamiklir straumar? Aðalatriðið er að utanaðkomandi orka hefur haft áhrif. Í Bræðralaginu eru þessi fyrirbrigði oft athuguð.

528. Vinna skal með öllum ráðum að samvinnu vísindagreina.

529. „Það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja” – viturlegur málsháttur sem bendir á hve mjög vaninn ræður yfir manninum. Það er einmitt vaninn sem gerir manninn óhreyfanlegan og ónæman. Hægt er að bæla niður vana, en ekki er auðvelt að eyða honum. Menn rekast oft á þá sem hæla sér af því að hafa sigrað vanann. En fylgist með daglegum háttum þessara sigurvegara, og þið munið sjá að þeir eru í raun þrælar vanans. Þeir hafa orðið svo samdauna vananum að þeir taka ekki eftir þunganum af þeirri byrði. Það er sorglegt þegar maðurinn er sannfærður um að hann sé frjáls, en er í raun hlekkjaður í fjötra vanans. Það er erfitt að lækna mann sem hafnar því að hann sé sjúkur. Allir geta nefnt einhvern slíkan ólæknanlegan á meðal þeirra sem þeir þekkja. En það er einmitt bráðnauðsynlegt að ná tökum á ríkjandi vana til að geta tileinkað sér Bræðralag. Þegar Við ræðum um vana höfum við ekki í huga þjónustu fyrir hið góða, heldur hina smásmugulegu vana eigingirninnar.

Það er siður Okkar að ganga úr skugga um að þeir sem eru að nálgast Bræðralagið séu lausir við fjötra vanans. Slík próf verða að vera óvænt. Best er að byrja á vana tengdum smáatriðum. Mönnum eru oft annt um að verja þá umfram nokkuð annað. Litið er á þá sem náttúrulega eiginleika, svipað og fæðingarbletti. Samt hafa nýfædd börn enga vana. Forfeðraáhrif, fjölskyldan og skóli rækta vana. Í öllum tilfellum er vani andstæður þróuninni.

530. Með skilningi á sönnum gildum missa hefðir og vani sitt vægi. Besta lausnin kemur með samanburði á því sem er léttvægt og því sem er mikilsvert. Það má ekki skilja það svo að ekki sé leyfilegt að ræða um hið smáa á leiðinni til Bræðralags. Það er sorglegt að grundvallaratriðið samvinnu og samfélagslífs mæta svo litlum skilningi hjá mannkyninu. Mestu andstæðingar samvinnu munu verða hinir smáu vanar eigingirninnar.

Er mögulegt að hugsa um Bræðralag ef menn hafa ekki einu sinni skilning á samvinnu?

531. Heimarnir eru að gangast undir próf, hver einasta ögn er prófuð. Ekki er ólíklegt að einhver verði skelfingu lostinn við þessa hugsun. En aðeins óviturleg hugsun getur komið í veg fyrir að lögmáli þróunarinnar sé tekið feginshendi. Með vitundarvíkkun lærir maðurinn að kunna vel við þessa stanslausu hreyfingu; væri betra að dvelja í hinu óbreytanlega fangelsi villna og blekkinga? Það er þvert á móti miklu gleðilegra að skynja hina stöðugu prófun sem veldur ábyrgðartilfinningu.

Í allri samvinnu á leiðinni til Bræðralags mun ábyrgðartilfinningin verða grundvöllur vaxtar.

532. Þróun, sem hið fagra lögmál hreyfingar, verður einnig að skilja í tengslum við orkustöðvar mannslíkamans. Eins og sinfónía hefur þörf fyrir breytingu á tóntegund, þannig reiðir lífkerfið sig á mismunandi orkustöðvar. Slík hreyfing gefur ekki til kynna að ein orkustöð hafi slokknað, heldur er hún merki um að næsti möguleiki sé í þróun.

Veitið athygli formúlunni – hugsun-hjarta. Hún er ekki auðskilin; þvingum aldrei hugsun neins, samt sem áður munu einhverjir beina athygli sinni í þessa átt – hún leiðir til Bræðralags.

533. Sú hæfni að þvinga aldrei vilja nokkurs manns er ein af erfiðustu prófraununum. Þvingun verður aldrei til góðs, en samt er nauðsynlegt að leiðbeina og vernda á hættulegum leiðum. Gefa verður marháttaðar reynsluríkar og umhyggjusamlegar leiðbeiningar.

534. Margar villur stafa af því að menn gera sér ekki grein fyrir óendanleikanum. Þannig ímynda menn sér að Jörðin sé miðpunktur sköpunarinnar, eða reyna að mæla og skilgreina víddir hins raunbirta alheims. Í þessu samhengi gleyma þeir að hið raunbirta er sífellt að þróast. Ekki eitt einasta óbreytanlegt andartak er mögulegt. En menn eru svo gegnsýrðir af jarðneskum viðmiðunum að þeir reyna jafnvel að beita þeim við hið ómælanlega. Við skulum ekki hindra neina leit. Við höfum fagnað jafnvel stuttum flugferðum um heiðhvolfin, en gæta ætti vara við óviðeigandi ályktunum, eins og þeim sem staðsetja Jörðina sem miðpunkt alheimsins. Slíkt stærilæti er ekki viðeigandi upplýstum vísindamanni. Það er hugsanlegt að hann líti á sérhvern punkt í óendanleikanum sem skilyrtan miðpunkt, en líklegra er að hann einfaldlega geri sér ekki grein fyrir óendanleikanum.

535. Vafalaust munu margir líta með vanþóknun á vísbendingar um stöðuga þróun alls í tilverunni. Jafnvel frá sjónarmiði vísindamanna er samt ekki hægt að líta framhjá fullkomnunarferlinu. Aðeins hinir fáfróðu reyna að halda öllu í óbreytanlegu ástandi. Það gera þeir vegna vanþekkingar á fortíðinni og vanhæfni til að hugsa til framtíðar. Hægt er að setja fram þúsundir kenninga, en lát þær vera á hreyfingu, um hreyfingu og vegna hreyfingar.

Bræðralagið metur þá sem nálgast fyrst og fremst eftir skilningi þeirra á hreyfingu og óendanleika.

536. Það er óhæfilegt að líkja eftir hinum myrku rannsóknaröflum sem leituðust við að takmarka alheiminn í fangelsi óhreyfanleika.

537. Á meðal þess sem skrifað hefur verið í grískum og rómverskum fornbókmenntum má finna nokkrar vísbendingar sem varða hinn djúpstæða grundvöll tilvistar. Réttilega hefur verið sagt að „svefn er sem dauði.“ Með þessum fáu orðum er útskýrt að bæði þessi tilvistarstig tilheyri fíngerða heiminum. En þessi merking hefur gleymst og hugmyndin um óhreyfanleika líkamans hefur haft forgang í þessu orðtaki; en samt eru málshættir fornaldar jafnvel kenndir í grunnskólum. Nauðsynlegt er að benda á gildi orða og innræta þannig mörg sönn hugtök. Ómetanlegt er að geta sett fram sannindi í einföldum orðum, það jafnast á við heilt bókasafn helgirita.

Að auki mætti benda á að menn þurfa ekki að takamarka sig við hinn svonefnda klassíska heim. Mjög hnitmiðuð og hugvitsamleg orðtök má fá frá fjarlægri fortíð, en það er háð því að menn skilji merkinguna á hinni fornu tungu.

538. Rétt er að mæla með ajurvedískri læknisfræði. Hafa skyldi í huga að á mörg þúsund árum hefur safnast saman gríðarleg reynsla og viska. En við skulum ekki, að hætti hinna fáfróðu, gera óyfirstíganleg skil á milli smáskammtalækninga og almennra lækninga. Gleymum ekki hinni miklu uppsöfnuðu þekkingu Kína og Tíbets. Þjóðirnar þurftu að standa frammi fyrir ógnvænlegum hættum og gripu til sérstakra ráðstafana til að mæta þeim. Sá sem safnar bestu blómunum verður góður læknir.

539. Bræðralagið var stundum nefnt heilsubætandi samfélag. Þessi skilgreining hefur tvíþætt gildi. Í raun er Bræðralaginu fyrst og fremst umhugað um læknandi þætti og hagnýtir þá til hagsbóta fyrir bræðurna. Sérhvert bræðralag sem sönn eining, geislar frá sér heilbrigði. Veita skal því athygli hve sameiginlegir lífshættir hafa styrkjandi áhrif á lífkerfið ef samhljómur er ríkjandi. Vísindin ættu að rannsaka lögmálið um gagnkvæma styrkingu. Það er sérstaklega fræðandi að taka eftir því hve gagnkvæm aðstoð hefur mikið gildi, jafnvel í efnislegum skilningi. Til eru óseðjandi vampírur, en einnig óþreytandi velgerðarmenn.

Bræðralag velgerðarmanna er óvinnandi vígi.

540. Getur trú og traust komið í staðin fyrir kraft vöðva og tauga? Vissulega, lífið sjálft staðfestir þessi sannindi, en hvernig trú og hvernig traust! Maðurinn skyldi ekki halda því fram að trú hans hafi einhver takmörk. Kærleikurinn hefur engin mörk, hið sama gildir um trú. Enginn dirfist að halda því fram að trúin geti ekki náð lengra. Margir munu hneykslast á því ef sagt er að þeir hafi ekki næga trú, en einhvern tímann munu þeir skilja hve mikið þeir gætu hafa aukið orku sína.

Bræðralag er byggt á trausti.

541. Sumir munu segja að Bræðralag sé nokkurs konar upphafið samvinnufélag. Stöndum ekki í vegi fyrir slíkri skilgreiningu. Nauðsynlegt er að hugtakið Bræðralag komist inn í vitund mannkyns, og samvinna hefur nú þegar náð nokkrum skilningi hjá fjöldanum. Sérhver aukning samvinnu verður því leið til að nálgast Bræðralagið. Lát menn skoða vandlega þá eiginleika í skapgerð sinni sem stuðla að samvinnu. Það eru einmitt þessir eiginleikar sem þeir þarfnast á leiðinni til Bræðralags. Höfnum ekki einkennum samfélagslífs ef það viðheldur einstaklingseðlinu. Sérhvert samvinnufélag verður einnig að viðhalda einstaklingseðlinu; það er aðeins með þeim hætti sem samvinnan getur orðið fjölþætt og gagnleg.

Þannig er hægt að hefja sig yfir Jörðina til skilnings á hinu fagra bræðralagshugtaki.

542. Við mælumst til rósemi, en á sama tíma ræðum við stöðugt um baráttu. Menn verða að skilja baráttuna sem uppsöfnun orku í gegnum vinnu. Ógerlegt er að efla orkuna án vinnusemi, og hvert verkefni er barátta gegn óskapnaðinum. Þannig mun þekking á gildi baráttunnar leiða til rósemi.

Ekki eru til neinar mótsagnir sem skilningur greiðir ekki úr.

543. Skiljum einnig hve nauðsynlegt er að útrýma óréttlæti. Það er brýnt að styrkja sig með þeirri staðföstu ákvörðun að leyfa ekkert óréttlæti. Sé þessi ákvörðun staðföst, verður afleiðingin ný kraftaukning. Það er ekki auðvelt að tryggja sig gegn óréttlæti; það getur birst í hvaða smáatviki daglega lífsins sem er. Ekki ætti að umbera neins konar smávægilegt óréttlæti; hvert þeirra brýtur gegn grundvelli þróunarinnar.

Þannig skulum við hafa réttlæti í heiðri á leiðinni til Bræðralags.

544. Hinum eyðandi ormi óánægjunnar verður að úthýsa í allri samvinnu. Sumir munu nefna hann viðleitni til fullkomnunar, aðrir nefna hann efa. Hægt er að telja upp mörg kænskubrögð, en öll gera þau ekkert annað en að dylja hina óbærilegu tilfinningu óánægju. Menn ganga ekki úr skugga um hvaðan þessi ormur birtist. Skelfilegt er að hugsa um hve mörg verkefni eru eyðilögð vegna óánægju. Menn ættu að rannsaka hvaðan hún kemur.

545. Menn laðast að Bræðralagi vegna tilfinninga og af líkamlegum orsökum, en fyrst og fremst andlega. Aðeins í andanum, í hjartanu, er hina sönnu leið að finna.

546. Við hugsanaflutning um fjarlægðir eru notaðar vissar aðferðir sem ekki eru með öllu úr lausu lofti gripnar. Í tveimur herbergjum, sem bæði eru máluð í sama lit, helst grænum, hljómar einn tónn og einn ilmur angar. Slík smáatriði hafa vafalaust ákveðið gildi, en þau eru aðeins til aðstoðar. Máttur hugsunarinnar byggist á rósemi og hjartaviðleitni. Það ætti ætíð að hafa í huga, því menn staðsetja oft viljann í heilanum. Þannig heila-sendingar er unnt að trufla í geimnum með sterkari straum. Almennt má segja að þörf er á hárfínni næmni varðandi vilja og hugsanasendingar.

Sú hæfni að geta aðgreint skýra hugsun, án hugarflökts, felur í sér andlega ögun. Í Bræðralaginu er athyglinni beint að því að bæta og hreinsa hugsanir. Þegar rætt er um Bræðralag er ekki hægt að komast hjá því að minnast á hugsanasendingar. Starf hugsunarinnar mun færast frá smáum málum til stórra verkefna, en þörf er á ögun hjartans til að ná árangri. Hjartað er umkringt áhyggjum, uppnámi og skjálfta. Slíka skjálfta er hægt að yfirvinna með því að snúa sér beint til Helgivaldsins, ekki með hálfum hug, heldur fullkomlega; slíkt ákall er alls ekki algengt. Samt er þörf á óhagganlegri viðleitni við einföldustu tilraunir. Yfirleitt reynir aragrúi af smáum og illviljuðum skorkvikindum að slæva hreinleika hugsunarinnar. Allar þessar smáu verur þarf að yfirvinna með bróðurlegri einingu.

547. Hinar fyrirfram mótuðu skoðanir manna sem þykjast vera fræðimenn eru ykkur augljósar. Það er hryggilegt þegar þjálfuð hugsun kýs leið fordómanna. Það er óheiðarlegt að lesa bók sem fyrirfram er ákveðið að fordæma. Hafi slíkur lesandi ekki enn öðlast persónulega reynslu af mörgum lýsandi fyrirbrigðum, ætti hann að sýna þeim mun meiri varkárni í dómum sínum.

Við metum fyrst og fremst raunveruleikann, staðreyndir og óumdeilanleg fyrirbrigði.

548. Sæl er sönn samvinna; í henni felst eiginleiki víðáttunnar. Eins og óendanleikinn blossar stöðugt fram í sérhverjum neista rafmagnsútleiðslu, þannig veitir sameiginleg vinna takmarkalaus áhrif. Við skulum því ekki tala um vinnu sem eitthvað smátt og léttvægt; engan neista úr geimnum ættu menn að fordæma. Líta ætti á eiginleika víðáttunnar sem nokkuð sem tilheyrir æðri sviðunum. Og þannig er vinnan deigla yfirjarðneskra blossa.

Samvinna er fögur, en jafnvel enn fegurra er Bræðralag.

549. Ég ræði um bræðralagshugtakið; það minnir okkur á það Bræðralag sem ætíð mun verða draumur mannkynsins. Svo margar hetjudáðir eru drýgðar í minningu hins Mikla Bræðralags. Hugsunin um tilvist Bræðralagsins gæðir menn hugrekki. Menn verða að taka á öllu sínu hugrekki til að verjast árásum myrkursins. En hvað er það sem mun efla slíkt yfirmannlegt hugrekki? Það er einmitt Bræðralagið sem getur veitt ósigrandi kraft.

550. Viljið þið vegsama vinnuna? Sýnið þá hæfni ykkar til þess. Ávítið ekki þann sem vinnur dag hvern. Dragið ekki úr orku ykkar með ómarkvissri vinnu; vöðvakrampi er ekki til marks um kraft. Gefið á þann hátt til kynna hve mjög vinnan er orðin lífsnauðsyn. Aðeins þá verður lofgjörð ykkar til vinnunnar Bræðralaginu samboðin.

551. Viljið þið hafa einingu að leiðarljósi? Sannið þá hollustu ykkar. Sýnið í verki að þið getið unnið að sameiginlegri þjónustu. Í fyrndinni voru lærisveinar sendir til fjarlægra landa til að staðfesta að þeir myndu ekki glata þekkingu sinni og hæfni við fjölbreyttar kringumstæður ferðarinnar. Sjá má hve reikul vitund lætur truflast af öllu því sem dregur að sér athyglina. Er mögulegt að lifa í einingu og hollustu þegar grundvöllur tilvistarinnar getur brugðist við sérhvert skref á veginum?

Undrumst ekki hve margar prófraunir tengjast Bræðralagi.

552. Viljið þið vera hugrökk? Sannið þá hugrekki ykkar í baráttu fyrir Bræðralagi. Yfirlýsingin ein gefur ekki hugrekki, né er lofgjörð staðfesting árangurs. Enginn undirbúningur getur tryggt árangur. Hugrekki er prófað með óvæntum hindrunum. Ég hef áður rætt um hugrekki; endurtekningin merkir að sérstök nauðsyn er á þessum eiginleika á leiðinni til Bræðralags.

553. Viljið þið lækna? Athugið þá fyrst af öllu hvort þið búið yfir nægilegri orku til að geta nýtt hana til hjálpar öðrum. Gangið sérstaklega úr skugga um að þið getið gefið án nokkurrar hugsunar um eigin hag. Sannið að orka ykkar geti læknað án notkunar læknislyfja. Við erum ekki að tala um viljabeitingu eða sefjun, því frumorkan nægir. Menn ættu að rannsaka sjálfa sig á þennan hátt á leiðinni til Bræðralags.

554. Viljið þið sýna fram á bestu eiginleika ykkar? Leitið þeirra hjá ykkur sjálfum. Bíðið ekki eftir tækifæri, vegna þess að sérhvert andartak felur í sér mörg tækifæri til að birta hvaða eiginleika sem er; menn verða aðeins að hafa vilja til að sýna þá. Slíkur vilji eru besti búnaðurinn á leiðinni til Bræðralags.

555. Verum ekki í vafa um hvað við eigum að aðhafast í frístundum okkar. Gleymum ekki að sérhvert andartak er unnt að nýta til æðri samskipta. Gleði felst í því að þráður hjartans getur verið í stöðugu sambandi við hið hjartfólgnasta. Ég fullyrði að rödd kærleikans hefur ekki þörf fyrir neinn tíma. Eins og grasflöt stráð margvíslegum blómum, þannig ljóma áköll hjartans mitt í erli dagsins; þau gefa til kynna nálgun Bræðralagsins.

556. Samneyti dreifist víða eins og ilmur. Sé það fagurt, hefur víðtæk útbreiðsla þess mikla blessun í för með sér. Lát geiminn mettast góðum hugsunum; margar þeirra munu tengjast samhljómandi geislum. Þótt ekki geti allir meðtekið fulla tjáningu hugsana, hafa hin heilnæmu áhrif þeirra læknandi áhrif. Þakka skyldi hinum óþekktu sendendum sem gæða geiminn heilnæmum áhrifum. Hugsanir sem verða til við háleitt samneyti eru sem svalandi lind í eyðimörk. Sé stefnan tekin á slíkar lindir er unnt að finna Bræðralagið.

557. Sá sem heldur fast við Bræðralagið veit með vissu hvar hið ósegjanlega byrjar. Reynið ekki að rjúfa þögn hans, þegar hann hefur náð mörkum hins mögulega. Íþyngjum honum ekki með spurningum sem ekki er unnt að svara án skaða. Það er aðeins fáviskan sem telur að hún geti meðtekið öll svör. En til eru svör sem eru óskiljanleg. eins og þau séu töluð á óþekktu tungumáli, svo að hljómur hinna framandi orða getur virst tjá ranga merkingu. Mikil þörf er á aðgæslu þegar fjallað er um æðri hugtök, en Bræðralagið er eitt þeirra.

558. Sannlega skyldu menn ekki undrast það þegar andlega orkan beinist ósjálfrátt af brýnni þörf til fjarlægra staða. Viðurkenna skyldi slíkt ástand sem óhjákvæmilegt, og liðsinna andlegri orku sinni í samræmi við það sem hún laðast að; lát hana vinna til gagns.

559. Ef skoðuð er saga heimsins má greina bylgjur mikils áhuga um innri krafta mannsins. Þessar bylgjur tengjast þróunartímabilum. Hvað sem öðru líður, er vaxandi athygli á innra eðli mannsins ætíð til marks um mjög mikilsvert tímaskeið. Ef menn greina nú á tímum sérstaka viðleitni til skilnings á eðli innri krafta mannsins, þá samsvarar sú viðleitni kosmískum aðstæðum.

560. Á alla handunna hluti setjast áhrif þeirra sem búa þá til. Bæði setjast á þá áhrif af heilsufari handverksmannsins sem og af andlegri viðleitni hans; allt þetta geymist á hlutnum um aldir. Mögulegt er að eyða áhrifum eiturs eða leyfum smitandi sýkinga, en áfellingar tilfinninga er ekki unnt að hreinsa burt. Þess vegna er svo mikilsvert að allir hlutir séu gerðir með góðum vilja. Fyrir mörgum er þessi hugmynd sem goðsagnir einar, en samt sem áður er ekki óalgengt að menn tali um hluti sem góða eða illa, nákvæmlega á sama hátt og þegar rætt er um fólk.

Bræðralagið kennir okkur að líf er í öllu og alls staðar.

561. Menn munu spyrja hvort hinir svonefndu lifandi náir geti lifað lengi á Jörðinni. Mjög lengi, en það ræðst af því hver sterkt þeir laðast að efnisheiminum. Sálræn orka hverfur frá þeim, útgeislun þeirra verður svo lítil að hún greinist varla, og unnt er að greina á þeim merki dauðans. Þessir gangandi náir verða auðveldlega fyrir áhrifum ókunnugra. Þeir endurtaka frásagnir úr fortíðinni, en sannfæra enga. Læknar geta árangurslaust rannsakað ástand æðakerfisins sem bendir til sjúkdóms í hjartalokum. Sum dýr skynja stundum þessa nái. Þeir eru oft forstjórar stórra fyrirtækja, samt mettast allt fyrirtækið af dauðaáhrifum þeirra. Þessir gangandi náir eru sterklega tengdir lífinu, því þeir skilja ekki að aðstæðurnar hafa breyst. Þeir óttast dauðann.

562. Menn munu spyrja hvernig á að þekkja þá sem hafa aflað sér mikillar þekkingar. Því meiri sem þekkingin er því erfiðara er að greina þann sem ber hana. Hann veit hvernig á að gæta hins ósegjanlega. Hann freistast ekki af jarðneskum geðhrifum. Honum er treystandi fyrir leiðinni til Bræðralagsins.

563. Þeir sem geta séð munu margt sjá. Þeir sem geta skynjað munu margt heyra og munu vita hvernig á að taka á móti óvæntum sendiboðum – algerlega óvæntum, en samt þeim sem eftir er vænst.

564. Bræðralagið þekkir enga hvíld. Lát hvíld aðeins fá jákvæða merkingu á stígum efnisheimsins.

565. Silfurtár nefnum Við það háa stig sem felst í því að vera reiðubúinn fyrir prófraunir. Fyrri hluti orðsins minnir á silfurþráðinn, en seinni hlutinn bendir á kaleik þolinmæðinnar. Menn þurfa sífellt að hafa í huga að hugtök æðri heimanna standa við hlið jarðneskra hugtaka. Þessari þekkingu er mjög erfitt að viðhalda, því jafnvel þroskuð vitund hugsar aðeins á einn hátt meðan á prófraun stendur. Látum ekki sefast af þeirri hugsun að silfurþráðurinn sé sterkur; gætum hans heldur eins og hann sé mjög veikbyggður. Að auki, gleymum ekki að auðveldlega er hægt að fylla kaleik þolinmæðinnar í daglegu lífi svo út úr flæði. Auðvelt er að leggja dóm á kringumstæður annarra. Leggjum sjálf fyrir okkur próf jafnvægis. Sigur í slíku prófi er sannur árangur. Lífið veitir okkur mörg tækifæri til slíkra sigra. Geymum í minni öll slík átök, því fræðandi hugsanastraumar verða til í þeim. Það er ekki af tilviljun að tár er notað sem tákn fyrir kaleik þolinmæði. Það er erfitt að halda aftur af reiðinni þegar menn verða vitni að tilgangslausri eyðileggingu. Oft flæða um silfurþráðinn kvartanir um villimennsku manna. Fræðarinn sendir oft ljósgeisla svo unnt sé að líta til fjarlægðar. Aðeins sjónauki andans getur sýnt allan dóminn.

Brumknappar Harmagedón dafna, í þeim er að finna orsök orsakanna.

566. Geðveiki á sér margar orsakir. Skellum ekki skuldinni einfaldlega á haldningu, íhugum allt það ljóta sem óhófið leiðir til. Gleymum ekki heldur að löngun til að sleppa undan karma getur valdið vitundinni skaða. Maður, sem finnur að eitthvað nálgast án þess að undan verði vikið, getur ofreynt vilja sinn svo mikið að vitundin myrkvist. Slíkt getur einnig leitt til heilasjúkdóma. Fækkun geðveikitilfella byggist á læknum. Hugmyndin um samvinnu felur einnig í sér gagnlega hjálp.

Sönn þróun mun leysa mannkynið úr viðjum geðveiki.

567. Menn þekkja klaustur sem hafa verið til um þúsundir ára. Menn vita um fyrirtæki sem starfað hafa um aldir. Menn eru þannig sammála um að viðurkenna staðreyndir um tilvist margvíslegra stofnana. En aðeins um Bræðralagið setja menn fram ýmsar efasemdir. Sérhverjum möguleika á tilvist Bræðralagsins hafna menn staðfastlega. Margar ástæður eru fyrir því að menn óttast svo mjög hugmyndina um hið allra fegursta. Er ekki einhver sem óttast að tilvist Bræðralagsins muni afhjúpa fyrirætlanir hans? Eða að hann neyðist til að hugsa um velferð samferðamanna sinna? Heilt vopnabúr sjálfselsku er notað gegn hinu friðelskandi Bræðralagi. Einfaldast er að hafna algerlega möguleikanum á tilvist Bræðralagsins. Söguleg dæmi, studd ævisögum, virðast sanna tilvist Bræðralagsins á ýmsum tímum.

En þeir sem ekki vilja heyra eru ákaflega heyrnarsljóir.

568. Sagt hefur verið að sérhver maður hafi sitt sérstaka ætlunarverk. Í reynd er það svo að hver sá sem fæðist í efnislegum líkama er sendiboði. Er það ekki dásamlegt? Engu breytir það að flestir hafa enga hugmynd um ákvörðunarstað sinn. Þessi gleymska orsakast af skilningsskorti á heimunum þremur. Hægt er að gera sér í hugarlund umskiptin sem verða hjá þeim sem uppgötvar gagnsemi sinnar jarðnesku tilveru. Bræðralagið stuðlar að slíkum skilningi.

569. Þar sem allir hafa sitt sérstaka ætlunarverk ætti ekki neinn að vera án hjálpar – og þannig er það í reynd. En hægt er að ímynda sér þjáningu og sorg Leiðbeinandans þegar hann sér hve mörgum ráðum hans er hafnað! Við allar krossgötur má greina baráttuna milli visku Leiðbeinandans og hugsunarleysis vegfarandans. Það er einmitt í smáum ákvörðunum sem hinn frjálsi vilji kemur fram, og Leiðbeinandinn verður að beygja sig með sorg fyrir hinu ófrávíkjanlega lögmáli. En í Bræðralaginu geta ekki átt sér stað neinir slíkir skaðlegir árekstrar, þar sem allt byggist á gagnkvæmri virðingu.

Frelsi er fagurt skraut viskunnar, en siðleysi er ófagur fylgifiskur fáviskunnar.

570. Hinn frjálsi vilji er hátíðlegt boð til vegfarandans. Nauðsynlegt er að gefa honum dýrmæta gjöf hins frjálsa vilja áður en hann nær til hinna fjarlægu brauta. Allir geta hegðað sér í samræmi við getu sína, enginn er hindraður. En hinn vitri skilur hvaða ábyrgð honum er falin með notkun hins dýrmæta frjálsa vilja. Það er eins og honum hafi verið gefinn gullsjóður; hann getur varið honum eins og hann sjálfur kýs, en gera verður reikningsskil fyrir öllu. Og Bræðralagið kennir að nýta aðeins til gagns fjársjóðinn sem mönnum hefur verið treyst fyrir.

571. Valdið ekki þjáningum – þannig er boðskapurinn sem Bræðralagið kennir vegfarandanum. Lát hann skilja hve miklu auðveldara er að valda ekki þjáningum, en að bæta úr þeim síðar. Ef mannkynið myndi hafna orsökum þjáninga, myndi lífið ummyndast á svipstundu. Það er ekki erfitt að forðast að valda vini sínum þjáningum. Það er ekki erfitt að hugleiða hvernig koma má í veg fyrir sársauka. Það er ekki erfitt að ímynda sér að það sé mun auðveldara að koma í veg fyrir sjúkdóm, heldur en að lækna hann síðar.

Valdið ekki þjáningum – þannig er boðskapur Bræðralagsins.

572. Er erfitt að gera sér í hugarlund á hve fjölbreyttan hátt aðstoð er veitt? Ekki skyldi ætla að hjálp takmarkist eingöngu við aðferðir góðgerðarsamtaka. Besta hjálpin berst óvænt, en menn verða að veita henni viðtöku. Margir fundir eiga sér stað; mörg óþekkt bréf eru skrifuð; margar óvæntar bækur eru sendar, eins og af tilviljun. Sá sem býr yfir leitandi huga mun íhuga þessi furðulegu tilfelli sem eiga sér stað yfir langt árabil, og ef hann skortir ekki algerlega þakklætistilfinningu, mun hann senda þakklæti sitt til hins óþekkta Leiðbeinanda. En hert hjarta gleymir hjálpinni sem það hefur fengið, og hæðist jafnvel að hinum duldu Hjálpendum. Bræðralagið ræktar fyrst og fremst hina fögru tilfinningu þakklætis.

Sá sem hafnar samvinnu hlýtur óhjákvæmilega að verða þræll. Gerum okkur grein fyrir því að til er margs konar ánauð, að öðrum kosti mun hinn ánauðugi þræll telja sig frjálsan og verður jafnvel svo vanur fjötrunum að hann fer að líta á þá sem heiðurskeðju. Menn verða að skilja að í mennsku samfélagi getur aðeins verið frjáls samvinna eða mismunandi tegundir ánauðar.

Bræðralag er birting hinnar æðstu samvinnu.

573. Verið óhrædd við að endurtaka aftur og aftur, ef þið sjáið að hið gagnlega ráð er haft að engu af hinum fáfróða. Réttilega var rætt um að henda perlum fyrir svín, en einnig var talað um að byggja heilt fjall með því að kasta daglega handfylli af sandi.

Skilningur á gildi gagnstæðrar stöðu leiðir til Bræðralags.

574. Fyrir sumum eru ráðleggingar Okkar áreiðanleg hjálp, en fyrir öðrum eru þær óþolandi byrði. Sumir taka á móti fræðslunni eins og einhverju sem lengi hefur verið vænst, en aðrir finna ástæðu til óánægju með sérhvert ráð. Menn skilja ekki hve fullkomlega ráðleggingin verður að vera í samræmi við vitundina. Mörg gagnleg ráð er ekki unnt að hagnýta sér, einfaldlega vegna þess að þeim er hafnað. Ekkert gott kemur af höfnun. Dyr hins góða eru ólæstar.

Aðeins í Bræðralaginu er hægt að læra um opinberun og leynd.

575. Hvernig er hægt að finna stofnanda Bræðralagsins í rás árþúsundanna? Þjóðirnar hafa nefnt hann Rama, Ósíris, Orfeus og mörgum öðrum nöfnum sem hafa geymst í minni fólks. Deilum ekki um hver þeirra sé æðstur. Allir voru þeir pyntaðir og brytjaðir niður. Samtímamenn fyrirgefa ekki umhyggju fyrir hinu sameiginlega góða. Lát fræðsluna ummyndast í gegnum aldirnar, og þannig mun hinum dreifðu líkamspörtum vera safnað saman. En hver mun safna þeim? Í minni þjóðanna hefur geymst Sú sem mun nýta krafta sína til að safna saman hinum lifandi pörtum. Minnist þeirra mörgu sem hafa stritað fyrir Bræðralagið.

576. Eilíft líf er mjög óskýrt hugtak frá sjónarmiði jarðneskrar hugsunar. Ýmsir gera lítið úr því með því að telja að það merki framlengingu lífs hér á Jörðu. Hvílík skekkja! Heimarnir endurnýjast, en samt verða íbúar Jarðar að dvelja hér staðnaðir í sömu hjúpunum! Er hugsanlegt að Fræðarinn láti sig einhverju varða að lengja jarðneskt líf? Fræðarinn hugsar um eilíft líf í öllum heimunum. En hvers vegna sækist mannshjartað eftir eilífu lífi? Hjartað leitar eftir eilífu lífi vitundarinnar. Það veit að það er til mikils góðs ef meðvitund helst órofin við umskiptin yfir á innri sviðin án þess að þreytast – þannig kennir Bræðralagið.

577. Menn ættu ekki að tala né jafnvel hugsa um Bræðralagið ef sundurþykkja, umrót og vantrú er ríkjandi. Eins og viðkvæmt blóm fölnar í reykmettuðu andrúmslofti, þannig hverfa hugsýnir Bræðralagsins skjótt burt við geðvonsku og fals. Það sem var sannfærandi í gær getur brenglast við uppnám hjartans. Skýr spegilmynd Turnsins í Chun getur truflast af grófgerðri snertingu.

Er unnt að smána háleit hugtök með blótsyrðum? Óhjákvæmilegt er að slíkt guðlast setjist í áruna. Það límist fljótt við karma, eins og leirinn á hjólbarðana. Ekki er auðvelt að þvo það burt. Við beitum ekki hótunum, en við setjum fram samlíkingar.

578. Með hverju er hægt að hindra framrás hins illa? Aðeins með vinnu á Jörðinni. Hugsanir og vinna sem beinist að hinu sameiginlega góða er máttugt vopn gegn hinu illa. Menn reyna oft að berjast gegn því með niðrandi ummælum, en lítillækkunin sjálf er ljót, og ekki gagnar að berjast gegn illu með ljótleika. Slík vopn eru einskis virði. Vinna og háleitar hugsanir verða vopn til sigurs – slík er leiðin til Bræðralags.

579. Mikil fegurð felst í því að taka á sig fulla ábyrgð. Ábyrgð hjartans greinist með þeirri tilfinningu samúðar sem efla mun frumorkuna. Menn munu oft spyrja hvernig hægt sé að auka þann mátt. Það er gert með því að hjartað taki á sig ábyrgð. Meðvituð ábyrgðartilfinning mun verða hinn fagri drifkraftur orkunnar. Þannig kennir Bræðralagið.

580. „Því skærari sem ljósið skín, því þéttara verður myrkrið“ – en þessi málsháttur er einnig misskilinn, því menn verða að skilja hann á einfaldan hátt. Ekki skyldi ætla að myrkrið aukist vegna ljóssins. Ljósið opinberar myrkrið og eyðir því svo. Ljósberinn sér einnig hina myrku skugga, sem hverfa þegar ljósið nálgast. Hinir huglausu álíta að myrkrið umvefji þá; þannig hugsar hræðslan, og ljósið titrar í höndum hennar, og vegna skjálfta óttans lifna skuggarnir við og dansa trúðsdans. Óttinn er slæmur ráðgjafi.

Nýliðar í Bræðralaginu eru látnir gangast undir próf í ótta. Þeim eru sýndar erfiðar aðstæður, og svo er fylgst með því hvað þeir taka til bragðs. Mjög fáum kemur í hug sú hugsun, að ekkert sé að óttast þar sem Bræðralagið sé með þeim. Það er einmitt þannig viðhorf sem leysir menn frá ótta og leiðir í ljós auðvelda og heppilega lausn. En yfirleitt kemur þeim ekki til hugar að leita til Bræðralagsins og verða fljótt miður sín, ergilegir og fullir gremju. Bæn þess sem fullur er neikvæðni kemur ekki að notum.

Ljós sannleikans er ljós hugrekkisins, ljós tilbeiðslunnar – með þessum orðum hefst lögmál Bræðralagsins.

581. Það er ekki auðvelt að finna aðsetur Bræðralagsins í hinum víðáttumiklu fjallahéruðum. Erfitt er að ímynda sér allan fjölbreytileika hinna stórbrotnu fjallgarða. Þið vitið um þær sérstöku varúðarráðstafanir sem eru viðhafðar. Ef einhver merki eru sett sem afmarka svæðið, hver getur lesið úr þeim? Jafnvel þótt til sé lýsing á leiðinni, hver getur greint vísbendingarnar sem leynast í hinum flóknu táknum? Samt mun jafnvel hugsunarlaus maður skilja ástæðurnar fyrir slíkri varúð. Í daglegu lífi vita menn hvernig á að verja ástfólginn mann. Þar sem hjarta er og tilfinningar, þar munu leiðir finnast.

Við skulum gæta Bræðralagsins.

582. Sumir munu segja við ykkur. „Við höfum búið okkur undir skilning á grundvallaratriðum Bræðralags. Við erum reiðubúin að vinna að samvinnu, en aðstæður okkar eru svo slæmar að við getum ekki komið hugmyndum okkar í framkvæmd.“ Það eru vissulega til þannig aðstæður að ekki er unnt að framkvæma það sem hjartað er reiðubúið til. Setjum ekki saklausa iðkendur í hættu; þeir geta nýtt hæfni sína við aðrar kringumstæður. Látum þá byggja upp bræðralag í huganum. Þannig uppbygging stuðlar að því að hreinsa umhverfið, og slíkar hugsanir verða til góðs. En leyfum þeim ekki að falla í þá sjálfsblekkingu að halda að nægilegt sé að byggja hugrænt. Nei, vegfarandinn hlýtur að vinna að verkefnum með eigin höndum.

En þótt við sýnum þeim umhyggju sem eru yfirhlaðnir, þá skulum við samt vara þá við því að gefa sig á vald ástæðulausum ótta. Þegar hugurinn er bældur af ótta er íhugun um Bræðralagið óhugsandi. Besta leiðin til Bræðralags getur myrkvast af ótta. Gleymum því ekki að menn eru vanir því að lifa í stöðugum ótta um allt.

583. Skilningur á Bræðralagi getur komið óvænt. Mennirnir sjálfir breyta möguleikum í hindranir. Einhver telur Jörðina vera kirkjugarð vegna þess að dauðinn hefur alls staðar barið að dyrum, en annar telur þessa sömu Jörð vera fæðingarstofu vegna þess að líf hefur alls staðar orðið til. Báðir hafa á réttu að standa, en sá fyrrnefndi hefur lagt á sig fjötra, en sá síðarnefndi hefur frelsað sig til frekari framfara.

Þess vegna skaltu leita að samstarfsmönnum þar sem hugsunin snýst um nýtt líf.

584. Nýtt líf felst í samvinnu og gleðinni yfir Bræðralaginu. Hafið ekki það viðhorf að hugsanir um Bræðralag séu nú þegar orðnar gamlar. Þær birtast eilíflega, eins og blóm sem lengi hefur verið vænst.

Einhvern tímann verður mannkynið þreytt, svo þreytt að það hrópar eftir frelsun, og sú frelsun mun koma með bræðralagi.

585. Á sérhverju andartaki er einhvers staðar einhver sem verður fyrir mikilli ógæfu. Gleymum ekki hinum ógæfusömu; sendum þeim hjálparhugsun. Hugsanlega gera menn sér ekki grein fyrir því að hörmungar gerast ætíð, án enda. Bræðralaginu er kunnugt um þær, og góðviljaðar hugsanir eru sendar. Þótt þið getið ekki ákveðið nákvæmlega ákvörðunarstaðinn, sendið samt hjálparhugsanir ykkar út í geiminn. Þær munu finna sína réttu leið og munu dragast að og sameinast hjálp Okkar. Fagurt er þegar hjálparhugsanir koma fljúgandi frá ólíkum heimshornum – á þann hátt geta allir líkt eftir Bræðralaginu.

586. Þegar grundvöllur Bræðralagsins var lagður, var hugmyndin ekki sú að búa til athvarf fyrir flóttamenn, heldur að mynda miðstöð fyrir hugsanir. Eining hugsana leiðir af sér margföldun orkunnar í mikilfenglegri framrás, því er eðlilegt að leiddar séu saman máttugar hugsanir. Slíkur grundvöllur verður að miðpunkti fyrir hugsun frelsunar. En menn vita ekki hvernig á að sameinast í hugsun, jafnvel þótt það sé aðeins í örstutta stund. Þeir rjúfa eininguna með fjölda léttvægra hugsana. Sumir hafa reynt að binda fyrir augun og troða upp í eyru og nef til að koma í veg fyrir truflanir frá ytri skynjunum. En kemur truflunin að utan? Í raun og veru stafar hún af óagaðri vitund.

Aðeins bræðralag getur ræktað viljann.

587. Menn geta auðsýnt bræðralagi virðingu með ytra látbragði, en reynt hið innra að forðast bræðralag fullir ótta. Til eru mörg dæmi um hræsnara sem hafa orðið andsnúnir bræðralagshugtakinu, þótt þeir votti því virðingu sína til þess eins að sýnast fyrir mönnum. Heimskingjar eru betur settir en slíkir hræsnarar. Hverja telja þeir sig vera að blekkja? Getur það verið að það sé Bræðralagið?

588. Lítum til framtíðar með gleði; vinnum að samskiptum með kærleika – þannig hljómar boðskapur bræðralags.

589. Menn taka þátt í samvinnu oftar en þeir halda. Þeir gefa stöðugt frá sér sálræna orku. Við allar efnisbirtingar losnar eitthvað af útfrymi, en að því frátöldu, þá eiga sér almennt stað talsvert mikil orkuskipti milli manna, því þeir gefa frá sér orku við öll samskipti, og við það myndast nokkur tenging. Jafnvel nirfill tekur þátt í þessu samstarfi og gefur frá sér orku. Samt gleyma menn yfirleitt þessum stöðugu orkuskiptum. Þeir skilja ekki þessa mikilvægu athöfn, því enginn hefur sagt þeim frá útgeislun orkunnar. Aðeins frá Bræðralaginu hefur breiðst út fræðsla um hið mikla gildi frumorkunnar.

590. Mikilvægt er að þjálfa sig við að skynja fíngerð áhrif. Vissulega ættu menn að leggja mikið á sig við að efla næmni skilningarvitanna. Stundum reyna menn að þjálfa heyrnina við að greina ákveðna hljóma í mismunandi fjarlægð. Jafnvel svona einfaldar tilraunir leiða af sér óvæntar niðurstöður. Sami hljómurinn greinist misjafnlega í mismunandi fjarlægð, sem gefur til kynna að eitthvað sé í umhverfinu sem hefur áhrif og breytir eiginleikum hljómsins. Ef hægt er að skynja breytingar í svo algengri skynjun, þá má ímynda sér hve margvísleg gagnverkun á sér stað við fíngerðar skynjanir! Mönnum kemur ekki til hugar að slíkt geti átt sér stað.

591. Svo mikilvægt er að vinnan sé í samræmi við hugarástand og líðan mannsins að sérstök áhersla er lögð á ræktun vinnunnar í Bræðralaginu. Við leggjum til að menn vinni að nokkrum verkefnum samtímis, til að auðveldara sé að velja sér verk sem samræmist ástandi vitundarinnar. Með því fást betri gæði vinnunnar. Það er óheppilegt ef menn fá leið á vinnunni vegna skammvinnra umhverfisáhrifa.

Ég fullyrði að viturleg breyting á störfum mun efla gæði vinnunnar. Bræðralagið kennir mönnum að hugsa vel um vinnuaðstæður.

592. Vegna hinna óþrjótandi auðæfa náttúrunnar er erfitt að einangra einn þátt frá heildinni. Sannarlega er allt svo gegnsýrt hinum allt umlykjandi eðlisþætti, að erfitt er að aðgreina eitt frá öðru, jafnvel frá hreinu efnislegu sjónarmiði. Tökum lítið skordýr sem dæmi; er unnt að rannsaka það aðgreint frá umhverfi sínu, án þess að taka tillit til allra verkana og gagnverkana? Enn erfiðara er að rannsaka manninn aðskilinn frá náttúrunni. Öll aðgreining manna á þekkingu í hinar mismunandi fræðigreinar bera vitni um hina tilbúnu skiptingu. Líffræði, lífeðlisfræði, sálarfræði, dulsálarfræði, og fjöldi annarra svipaðra þekkingargreina knýr mann einungis til að spyrja – Hvar er manninn að finna? Ógerlegt er að rannsaka hinn margþætta smáheim án þess að viðurkenna frumorkuna. Það er aðeins þannig einingarhugtak sem getur orðið til framfara og fært rannsóknir á eðli mannsins upp á víðtækara svið. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga hin háleitu hugtök sem auðga andann; Bræðralagið mun verða eitt hinna fyrstu.

593. Þjóðir Asíu hafa geymt minninguna um Bræðralagið; hver á sinn hátt, á sinni sérstöku tungu, með sínum eigin möguleikum, hafa þær varðveitt í djúpum hjartans draum um hið sanna athvarf. Hjartað mun ekki afsala sér draumi sínum um samfélag frelsunar, heldur minnast þess mitt í sorgum og þjáningum að einhvers staðar handan fjallstindanna dveljist Verndarar þjóðanna. Sjálf hugsunin um þá skýrir hugsanirnar og eflir lífsþróttinn. Þannig skulum við heiðra þá sem afsala sér ekki dýrmætasta fjársjóði sínum.

594. Á öllum öldum hefur Bræðralagið átt sína sérstöku skóla. Mögulegt er að flytja þá, en aðalstöðvarnar standa óhagganlegar í klettaturnum sínum. Rétt er að leggja á það áherslu að áhrifastraumar frá Bræðralaginu streyma stöðugt um allan heim. Engin þörf er á því að dæma um hvort þeir séu árangursríkir eða gagnslausir; svo ótímabær ályktun sýnir aðeins fram ákaflega takmarkaða hugsun um Bræðralagið.

595. Sú hugmynd er rétt, að skilningur fáist með því að nálgast viðfangsefnið annað hvort að ofan eða að neðan. Oftast fæst skilningur með vexti vitundarinnar. Maðurinn lyftir sér með erfiðismunum, eins og þegar gengið er upp fjall. Það sem hann verður var við, en er hærra en vitundin, hvílir þungt á honum. Mörg hugtök virðast mjög erfið, og hann fer að forðast þau. En önnur leið til þekkingar er möguleg – maðurinn lyftir vitund sinni hetjulega og horfir svo á viðfangsefnin að ofan. Með því móti virðast hin flóknustu fyrirbrigði vera neðan vitundarinnar og skiljast auðveldlega. Þessi seinni aðferð skynjunar er leið Bræðralagsins. Með ströngum og hvetjandi aðferðum vekur hún vitundina og leiðir hana upp á við, til að geta skilið hin flóknustu fyrirbrigði á auðveldari hátt. Þessi aðferð að lyfta vitundinni er sérstaklega brýn á tímum streitu og mikils áreitis. Hana er hægt að nota í öllum góðum skólum hugsunar, en hún ætti að vera þekkt sem leið Bræðralagsins.

596. Borg helguð vísindum hlýtur ætíð að vera draumur menntaðra manna. Enginn myndi dirfast að mótmæla vísindamiðstöð, þar sem unnið væri í friði og með viturlegu samstarfi að því að leiða sannindi í ljós. Allir fræðimenn hefðu hin bestu áhöld og gögn til afnota. Hægt er að ímynda sér hve miklar uppgötvanir væru gerðar með almennri samsvörun og samvinnu allra greina vísindanna! Enginn myndi telja slíka hugmynd vera draumsýn. Ef aðeins aðferðir og góðan vilja væri að finna! En ef sagt væri frá því að ákveðin miðstöð þekkingar væri til, þá væru viðbrögðin efasemdir og höfnun. Og ef við orðið vísindi væri bætt orðinu Bræðralag, væri áreiðanlega sagt að slík samsetning væri ógerleg. En hver hefur sagt að Bræðralag og vísindi séu ósamrýmanleg?

597. Sannlega, Bræðralag er byggt á þekkingu. Sönn vísindi dafna með bróðurlegri samvinnu – þannig er boðskapur Bræðralagsins.

598. Samkeppni um forgangsröð getur ekki verið til í Bræðralagi. Eðlileg veldisröð myndast af yfirburðum þekkingar og anda. Þannig leysast í Bræðralaginu, með einföldum hætti, aðstæður sem valda erfiðleikum hjá mannkyninu, án þess að til komi deilur og ágreiningur. Þegar menn fá skilning á því að áhrifastaða felur í sér mikla fórn, getur ekki orðið neitt karp um jarðneska titla. Lífsreglur bræðralags spara mikinn tími og orku. Við skulum ekki láta þá staðreynd skyggja á hið skýra hugtak að það hefur stundum komið fram með hinum misskildu hugtökum frelsi og jafnrétti. Allir skilja hið afstæða gildi beggja þessara hugtaka, en bræðralag sem byggist á beinni þekkingu hjartans er óskilyrt. Þannig má líta á Bræðralagið sem raunveruleika.

599. Safnið þekkingu eins og býflugur safna hunangi. Spurt verður – hvað er nýtt í þessari ráðleggingu? Hið nýja felst í því að menn ættu að safna þekkingu alls staðar. Allt til okkar tíma hefur þekkingin verið einskorðuð við ákveðin mörk, og heil þekkingarsvið hafa verið bönnuð, tortryggð og vanrækt. Menn hafa ekki haft hugrekki til að brjóta gegn fordómum. Þeir hafa gleymt að fræðimenn verða fyrst og fremst að vera opnir fyrir öllu í tilverunni. Fyrir fræðimanni eru ekki til nein forboðin svið. Hann gerir ekki lítið úr neinum fyrirbrigðum náttúrunnar, því hann skilur að orsök og afleiðing allra fyrirbrigða hefur djúpstætt gildi.

Bræðralagið kennir fordómalausa þekkingu.

600. Lát vísindamenn ekki halda að Bræðralagið beiti þá neinum ámælum. Vísindamenn eru vinir Okkar. Við lítum ekki á hjátrúarfulla bókamenn sem vísindamenn; en sérhver upplýstur vísindamaður er boðinn velkominn af Bræðralaginu.

601. Bjóðum einnig þá kennara velkomna sem gefa sér tíma til að tala við nemendur sína um göfgi og ábyrgð mannsins, um frumorkuna og um fjársjóðina sem tilheyra öllum mönnum. Slíkir fræðarar munu vissulega ryðja braut vinnu og framfara. Þeir munu finna samstillingu milli yfirburða andans og heilsu líkamans. Þeir færa öllum dvalarstöðum bók þekkingarinnar. Líf þessara kennara er erfitt. Lát hinn lífgefandi draum Bræðralagsins lifa með þeim.

602. Viðhaldið hátíðleika. Hjúpið ykkur hátíðleika þegar þið hugsið og talið um Bræðralagið. Öll umhugsun um Bræðralagið er í sjálfu sér mikil samskipti. Hrein og skýr hugsun mun ná ákvörðunarstað sínum. En búist ekki við uppskeru ef umræður um Bræðralagið blandast ryki markaðsins. Hringiða formælinga mun ekki stöðvast; þekking á kröftum náttúrunnar fæst ekki mitt á meðal smánaryrða. Fyrir löngu ræddum Við um að viðhafa rétta viðmiðun. Hvert hugtak þarfnast síns rétta umhverfis. Með þetta í huga, leitið ástæðu þess að stundum er hugtak í hávegum haft, en á öðrum tímum dofnar það og verður innantómt.

Samræmisfullar umræður um Bræðralagið munu leiða til upphafningar andans sem aldrei fyrr, sé samræmið raunverulegt. Þannig skulum við afla okkur allra nauðsynlegra eiginleika til að geta nálgast Bræðralagið. Enn og aftur skulum við leggja áherslu á að hugarfar hátíðleika er besta leiðsögnin til Bræðralags. Merking orðsins hugarfar gefur til kynna að það vísi til hins innra en ekki hins ytra, það bendir til samræmis allra strengja starfstækisins. Svo skýrt samræmi er sjaldnast raunin.

Á krossgötum hrópar fólk kröftuglega um Bræðralag, en öll ögun virðist því sem þvingun. Það er aðeins með hátíðleika að hægt er að bera fram með virðingu hið fagra orð Bræðralag.

603. Djúpt niðursokkin í störf sem krefjast mikillar athygli hafið þið oftar en einu sinni fundið fyrir skyndilegri orkunotkun. Jafnvel við ákaflega krefjandi störf hafið þið hugsanlega fundið fyrir óskýranlegri fjarlægingu. Næmur lærisveinn metur mikils þessi flug vitundar. Að honum hvarflar þessi hugsun – „Megi Fræðarinn hjálpa mér við að aðstoða þar sem hennar er þörf. Megi hún verða heiminum til góðs.“

604. Skammarlegasta birting á ófullkomleika andans er sú hugsun að telja sig yfir aðra hafna. Ekki aðeins spillir hún fyrir öllu umhverfinu, heldur er hún einnig versta hindrunin fyrir framförum. Bráðnauðsynlegt er að vega upp á móti slíkum galla með máttugri gagnverkun. Hugsun um samvinnu og bræðralag er til góðs við að verjast slíkum hættulegum galla, og eflir kraftana.

Í Bræðralaginu er óhugsandi að nokkur telji sig yfir annan hafinn, alveg á sama hátt og sjálfsánægja er ekki möguleg.

605. Hvar sem er má sjá aukningu glæpa. Því verður ekki á móti mælt að mjög lúmskir glæpir laða til sín veiklynda huga. Hinar venjulegu aðferðir við að berjast gegn glæpum skila ekki árangri. Þess vegna er aðeins eftir sú von að lögmálið um heilbrigða samvinnu geti leitt mannkynið inn á svið göfgaðrar vinnu, en við skulum einnig kalla til aðstoðar lögmál bræðralags.

606. Ákvarðið í vitund ykkar hvort bræðralagshugtakið komi til með að takmarka eða auka möguleika ykkar. Finni einhver ykkar hina smávægilegustu takmarkandi svörun, lát hann ekki koma nálægt Bræðralaginu. En ef hjartað er reiðubúið að taka á móti kostum Bræðralags, þá munu boðin ekki láta á sér standa.

607. Stríðsfangar voru áður fyrr taldir ómissandi fylgifiskar sigurvegarans. Síðar áttuðu menn sig á því að slíkir villimannlegir siðir samrýmast ekki virðingu mannsins. En hefur fjöldi stríðsfanga nokkuð minnkað? Þvert á móti, hann hefur aukist á öllum sviðum lífsins. Slík niðurlæging er sérstaklega áberandi þegar í hlut eiga fangar fáfræðinnar. Það er erfitt að gera sér í hugarlund fjölda þeirra sem eru í fjötrum hjátrúar og margvíslegra fordóma! Smáðasti þrællinn gæti ekki verið á lægra stigi en þeir tvífætlingar sem bundnir eru hlekkjum fáfræði. Aðeins brýnustu aðgerðir þekkingar geta komið í veg fyrir fjöldageðveiki.

608. Tíðni sjálfsvíga eykst. Enginn getur mótmælt því að aldrei áður hafa átt sér stað svo mörg tilvik þar sem maðurinn sjálfur hefur bundið enda á líf sitt. Það þýðir að enginn hefur sagt þessum ógæfusömu einstaklingum frá því hvaða gildi lífið hefur. Enginn hefur varað þá við afleiðingum gerða sinna. Er enginn meðal fjöldans sem getur hafið upp raust sína til varnar sannleikanum og fegurð lífsins?

Bræðralagið hefur bjargað fjölda manna frá því að taka líf sitt í geðveikiskasti. Meðal laga Bræðralagsins er að finna boð um að lækna sál og líkama. Margir sendiboðar eru að hraða för til að koma í veg fyrir geðveikisáform. Stundum munu menn taka við þeim, en oft ryðst hinn frjálsi vilji áfram með ofsa og kveður upp dóm yfir sjálfum sér.

609. Ímyndunaraflið er ekki nægilega þroskað hjá mönnum. Þeir geta ekki ímyndað sér orsakir og afleiðingar. Þeir kunna ekki að ímynda sér hina fegurstu möguleika fyrir sjálfa sig. Þeim hefur ekki verið kennd ímyndunarhæfni og andagift. Hæðst er að fagurri viðleitni, og mönnum er talin trú um að þeim beri að forðast að hugsa. En þeir sem ekki kunna að hugsa hafa heldur ekkert ímyndunarafl. Missir ímyndunarhæfni er það sama og að afneita gleðinni.

610. Ferðalangar geta barið að dyrum. Ferðalangar gætu sagt frá hinum miklu sálum sem dveljast í óhagganlegri þjónustu handan hinna fjarlægu eyðimarka, handan fjallanna, handan jöklanna.

Ferðalangar ljóstra því ekki upp hvort þeir hafa verið á Staðnum. Ferðalangar bera ekki fram orðið Bræðralag, samt mun sérhver sem á þá hlustar átta sig á hvaða miðstöð þekkingar þeir eru að tala um. Sáðmenn góðleikans ganga um heiminn þegar mannkynið óttast.

Menn vilja heyra um Virkið, Borgina. Þótt þeir kynnist ekki lögmálunum, munu þeir samt verða styrkari af þeirri einu ástæðu að hafa heyrt skilaboðin um að Virki þekkingarinnar sé til. Lótus hjartans titrar þegar tíminn nálgast.

Fagnið tilvist Bræðralagsins!

divider

Þegar vitundin er myrkvuð, þegar hin æðri hugtök virðast fjarlæg, reynið að minnsta kosti að hugsa um sameiginlegt starf til góðs.

Óhugsandi er að snúa frá öllu því sem gefur kraft.

Engin vinna getur verið varanleg þegar sundurþykkja er ríkjandi; ryk á þröskuldinum er ótækt.

Þegar þið búið ykkur undir hina löngu ferð, þurrkið af allt ryk til að gera hreint fyrir ykkar dyrum.

Þannig, í öllum atvikum lífsins, skulum við muna eftir miðstöð þekkingar og réttlætis – eftir Bræðralaginu.