Æðri heimar

1938

Vinir, hvernig getum við rætt um æðri heima, ef orkan er ekki viðurkennd sem grundvöllur tilverunnar? Margir munu alls ekki skilja hvað átt er við með því, aðrir telja sig skilja mikilvægi grundvallarorkunnar, en geta ekki hugsað um hana með skýrum hætti. Nauðsynlegt er að þjálfa hugsun sína með hugmyndinni um orku, þar til tilfinningin um hana verður eins raunveruleg og tilfinningin um hvaða efnislegan hlut sem er. Við tölum um tilfinningu, því að þekkingin ein getur ekki veitt skilning á orku.

Jafnvel þótt maðurinn viðurkenni þau sannindi að í grundvallaratriðum sé aðeins um að ræða eina orku, er það eitt ekki nóg til framfara – menn verða einnig að gera sér í hugarlund hina óteljandi eiginleika hennar. Hin hefðbundna takmörkun hugsunar kemur í veg fyrir víðtæka skynjun á eiginleikum orkunnar og setur þannig skilninginum þröngar skorður. Háleit hugsun hjálpar til við að koma í veg fyrir skaðann af takmörkum hugsunar, en ekki er auðvelt að móta hæfilegt stig fegurðar og háleitni í hugsun mitt í áföllum lífsins og ákaflega fáir eru undir það búnir að skilja að sjálfir erfiðleikar lífsins geta ýtt undir háleita hugsun. Rétt viðmiðun styður hugsunina þegar eiginleikar grundvallarorkunnar virðast stangast á. Blindum manni getur verið ókleift að skynja atburð sem öðrum er sýnilegur, en allir geta skilið æðri heimana með því að þjálfa skilning sinn á hinum mörgu eiginleikum grundvallarorkunnar.

Þeim sem hugsa sér æðri heimana sem hið allra æðsta hafa á réttu að standa. „Sem hið efra, svo hið neðra“. Lát þennan forna málshátt leiðbeina okkur til skilnings á kröftum æðri heima.

divider

1. Urusvati þekkir turninn í Chun og minnist þess hvernig hann að utanverðu líkist náttúrulegum kletti. Það er ekki erfitt að hindra aðgengi að Turninum. Lítil skriða getur hulið bygginguna neðan frá séð. Lítil stífla getur breytt fjallalæk í stöðuvatn og ef brýna nauðsyn ber til er unnt að umbreyta landslaginu á svipstundu. Menn brosa ef til vill og hugsa með sjálfum sér að skipulagðir rannsóknarleiðangrar hljóti fyrr eða síðar að grandskoða allar leiðir. En jafnvel áður en þarf að umbreyta landslaginu hefur máttur hugsana beint vagnalestinni á aðrar slóðir. Að auki er hægt að hagnýta sér áhrif vissra efna til að hindra að hinir forvitnu nálgist. Þannig stöndum við vörð um Bræðralagið.

Hinar fullkomnustu flugvélar geta ekki fundið aðsetur okkar. Einsetumenn sem dvelja í nálægum hellum eru vökulir varðmenn. Ferðamenn hafa stundum minnst á að þeir hafi mætt einsetumanni sem benti þeim mjög ákveðið á að fara tiltekna leið og varaði þá við hættum ef þeir reyndu að komast inn á ákveðið svæði. Einsetumaðurinn sjálfur hafði aldrei farið lengra, en hann hafði fengið tilmæli um að segja ekki frá ákveðnum leiðum. Einsetumennirnir þekkja bannsvæðið og vita hvernig gæta skal leyndarinnar. Þetta geta verið stigamenn, en jafnvel stigamenn geta verið traustir varðmenn leyndardómsins helga. Efumst ekki um tilvist hins friðhelga aðseturs.

Urusvati man eftir umhverfi leiðanna sem liggja til Okkar og minnist einnig ljóssins frá Turninum Okkar. Mörg smáatriði leiðarinnar eru systur Okkar Urusvati minnisstæð. Þessi kennileiti eru ógleymanleg og veita öllum hugrekki, á öllum leiðum. Hún hefur séð samverkamenn Okkar safna gagnlegum plöntum og einnig geymslur Okkar, grafnar djúpt í jörðu. Þessar þekkingargeymslur ættu menn að sjá til að öðlast skilning á vinnu Okkar hér. Þið ættuð að heyra söng Okkar til að öðlast skilning á lífinu hér. Þannig munum við ræða um líf Okkar og vinnu.

2. Urusvati hefur séð mörg tæki Okkar. Að útliti eru þau ekki mjög frábrugðin þeim sem notuð eru annars staðar. En þau eru notuð á annan hátt, því andlegri orku er beitt. Það er löngu þekkt að sum tæki eru ekki nothæf nema ákveðin einstaklingur sé viðstaddur og nú eru jafnvel til menn sem geta með sínu eigin lífkerfi komið í stað flókinna tækja. Menn eru farnir að venjast innri mætti sínum.

Við höfum fyrir löngu viðurkennt það lögmál að mönnum sé unnt að efla mátt tækja. Hægt er að ummynda allt sitt líf með því einfaldlega að gera sér grein fyrir frumorkunni. Frá alda öðli höfum við vanist þeirri hugmynd að samþjappaðri orku sé hægt að beina inn á hvaða svið sem er. Orka, líkt og elding, sameinar uppsafnaða krafta þegar hún losnar úr læðingi. Það sem nefnt er galdur byggist á sama lögmáli. Í raun og veru er hugtakið „galdur“ aðeins til að blekkja. Ræða má um öll raftæki sem galdratæki. Þegar Urusvati sveif í lausu lofti eða lét hluti færast úr stað, var það ekki gert með göldrum, heldur einfaldlega með því að hindra ekki virkni orkunnar. Hin raunbirta orka var viðurkennd og síðan beint í ákveðna braut. Hún sameinaðist kosmískri orku og þannig gat hún haft áhrif.

Spegla Okkar er ekki heldur hægt að nefna galdratól. Þeir einfaldlega auka áhrifamátt orku Okkar. Mörg áhöld eru til sem auka áhrif orkunnar. Varla er unnt að segja að sterkur segull sé galdratæki, jafnvel þótt verkun hans sé athyglisverð. Fíngerði líkaminn og allar tilraunir honum tengdar tilheyra sviði vísindanna en ekki sviði galdra. Því er rétt að afnema hjátrúartengda notkun hins misvísandi hugtaks „galdur“.

Menn hafa alltaf hræðst hið leyndardómsfulla, en gleyma því að lykilinn að leyndardómnum er að finna innra með þeim sjálfum. Menn verða að leysa sig undan öllum hamlandi aðstæðum eða kringumstæðum, en allt slíkt er einstaklingsbundið. Framför byggist á frjálsum vilja sem er beint til góðs. Máttur góðleikans getur jafnvel þvingað vélar til að vinna, ekki aðeins fyrir þær sjálfar, heldur fyrir mannkynið. Á þann hátt verka tæki Okkar með Okkar samvinnu.

Menn geta hlegið, en hugmyndir ráða heiminum. Þessi orð eru skráð í lögbók Bræðralagsins.

3. Urusvati hefur sjálf séð sumar geymslur Okkar. Listaverkum er safnað frá mismunandi svæðum, en þetta safn er ekki minjasafn í hefðbundnum skilningi. Þessir hlutir þjóna sem geymsla fyrir samsafnaðar árur, því hin skapandi áhrif fyrri eigenda viðhaldast í þeim mun lengur en ætla mætti. Ef hægt er að safna saman hlutum sem búnir voru til á sama tíma og með sama markmiði, væri unnt að sjá raunveruleg geislaáhrif þess tíma. Með þessari aðferð getum við rannsakað hina sönnu merkingu ákveðins tímaskeiðs. Slíkur möguleiki er ákaflega mikilvægur fyrir andleg vísindi. Sumir bræðra Okkar eru fyrrverandi eigendur einhverra hluta í geymslum Okkar. Stundum er einhver hlutur sendur út í heiminn til að vinna ákveðin verkefni. Til dæmis væri hægt að grafa hann á ákveðnum stað sem segul.

Leyfum hina fáfróðu hæðast að geymslum Bræðralagsins. Leyfum eigingirni fáfræðinnar álíta að geymslur Okkar geymi fjársjóði nirfla. Í reynd er sérhver hlutur gagnlegt tæki fyrir Okkur og nýtist við mikilvægar athuganir. Það hefur sérstaklega mikið gildi að athuga tengsl fornra áhrifa við seinni tíma áhrif. Stundum má sjá fullkomna andstöðu milli hluta eða gagnkvæm tengsl. Við allar Okkar mörgu tilraunir með forna hluti notum Við ekki aðeins andlega sýn, því Við notum tækin Okkar til að staðfesta niðurstöðurnar. Hér er ekki um að ræða svonefnda hlutskyggni, heldur vísindi útgeislunar. Á sama hátt og þið getið athugað gagnsemi ávaxta og plantna, getum Við rannsakað tungumál hlutanna út frá útgeislun þeirra. Á þennan hátt getum við séð að fáir trúarlegir hlutir hafa fagra útgeislun, því þeir voru of oft smíðaðir með eigin hagsmuni í huga og féllu jafnvel í hendur kaupmanna.

Jafn lærdómsríkt er safn Okkar af uppgötvunum. Sú andlega orka sem uppgötvunin er gædd setur mark sitt á hana; hún gagnsýrir allar uppgötvanir með skaðlegum eða gagnlegum áhrifum. Látum hendur hugvitsmanna vera hreinar!

Við fylgjumst grannt með hugvitsmönnum. Stundum fögnum Við, en oftar en ekki valda þeir Okkur hryggð. Turn Okkar er opinn fyrir öllum nýjungum og það er sérstök gleði þegar verðugur verkamaður hefur tekið á móti hugsun sem Við höfum sent.

4. Urusvati veit hve erfitt er að senda hugsanir um langan veg. Margar aðstæður geta haft áhrif á þær. Menn eru annað hvort eins og sjóðandi katlar eða kringlukastarar sem kasta hugsunum út í geiminn. Ekki aðeins þarf að hafa stjórn á sjálfum sér, heldur ættu menn einnig að sjá fyrir efnahvarfið sem getur jafnvel stöðvað sterkan vilja með andstæðri verkun.

Okkur er oft álasað fyrir það að Við stöðvum stundum útsendingu hugsana Okkar. Hinir jarðnesku vinir Okkar gera sér ekki grein fyrir því að með slíkum hléum erum Við ekki að verja Okkur sjálfa, heldur þá. Við vitum hvernig á að skynja spennu í geimnum og verja vini Okkar á jarðneska sviðinu.

Ætlið ekki að yfirborðslegar aðferðir skili fullkomnum árangri. Það nauðsynlegasta er að finna í djúpum vitundarinnar. Grófgerður þjónandi getur ekki viðhaft hreina athöfn og hinir bestu helgisiðir geta ekki leyst hann frá óhreinum hugsunum sínum. Þannig vaða margir í villu, og telja að ytri helgisiðir geti bætt fyrir innri andstyggð.

Hugsanir Fræðarans verða að sigrast á mörgum hindrunum í geimnum. Ég fullyrði að allar athafnir verði að samræma hugsunum Fræðarans; slík hjálp er sönn samvinna.

Við eigum tæki sem aðstoðar við flutning hugsana um langar vegalengdir. Menn yrðu undrandi ef þeir sæju ákveðin tæki, sem þeir þekkja vel, notuð á allt annan hátt en þeir eiga að venjast.

Hagnýting andlegrar orku getur umbreytt hinum einföldustu vélum.

5. Urusvati hefur séð Okkur bæði í efnisþéttu og fíngerðu líkömum Okkar. Aðeins þeir fáu sem reynt hafa slíkt geta gert sér grein fyrir því sem því fylgir. Oft leyfum Við aðeins að andlit Okkar eða hendur sjáist, til að koma í veg fyrir áfall. Þú minnist ef til vill skrifandi handar, en jafnvel sú birting var of kraftmikil, vegna þess að ekki var unnt að hemja sveiflutíðnina. Því er nauðsynlegt að vera enn varkárari.

Það er ekki að ástæðulausu að Við tölum mikið um varkárni. Menn gera sér einfaldlega ekki grein fyrir mikilvægi varfærni. Hve margir hættulegir sjúkdómar orsakast af vöntun á gagnkvæmri varúð milli einstaklinga! Varúð er algjör nauðsyn þegar um er að ræða mikinn mun á sveiflutíðni. Þörf er á árvekni og gagnkvæmri aðgát til að koma í veg fyrir skaða.

Á jarðneskum ferðum Okkar sendum við stundum fyrirmæli í gegnum þriðja aðila, sem þekkir ekki hina sönnu merkingu skilaboðanna og er aðeins að sinna skyldu sinni.

Við raunbirtingu hlífiskjaldar Okkar er einnig þörf á varúðarráðstöfunum. Erfitt er að skilja mikilvægi slíkrar aðgátar. Menn geta ekki gert sér grein fyrir öllum þeim ástæðum sem knýja Okkur til að vera svo varkára og í fáfræði sinni óska þeir eftir að upplifa hinar kraftmestu raunbirtingar án þess að skeyta um afleiðingar.

Á sama hátt vilja menn ekki skilja hvaða kraftmunur er á milli sveiflutíðni Okkar og venjulegs líkama á fíngerða sviðinu. Stundum hafa þeir séð efnisbirtingar án þess að verða fyrir sterku áfalli, en sveiflutíðni Okkar er af allt öðrum styrkleika. Allt er afstætt og menn ættu að gæta vel að hrynjandi og sveiflutíðni.

Í dag ræddir þú um ótta sem plöntur skynja. Sé næmni við sveiflutíðni háþroskuð hjá plöntum, hlýtur hún að vera margfalt meiri hjá mönnum.

Höfum í huga að sveiflutíðni Okkar gleymist aldrei þeim sem hefur reynt hana, því í henni er gleði, en einnig kraftur sem ekki öll hjörtu geta þolað.

6. Urusvati hefur orðið vitni að læknandi geislun frá Okkur. Hrynjandi hennar er mismunandi og ekki geta allir greint hana. Sumir telja að hún stafi af jarðskjálfta, aðrir gætu haldið að hún sé vegna hitasóttar og enn aðrir tengja hana við sína eigin taugaveiklun. En meirihlutinn telur að hún sé ekkert nema ímyndun. En læknandi umhyggja okkar greinist oft í öllum heimshornum. Fólk fær hjálp og skynjar oft skyndilegan bata, en áttar sig ekki á hvaðan hjálpin barst. Við erum ekki að tala um þakklæti, því Við þörfnumst þess ekki, en meðvituð viðtaka hjálpar frá Okkur eykur hin góðu áhrif. Sérhver neikvæð viðbrögð eða háð lamar jafnvel hinar kraftmestu sveiflur. Við hröðum okkur til hjálpar, Við hröðum okkur til að senda bót, en hve oft er Okkur veitt viðtaka?

Hinir fáfróðu halda því fram að við ýtum undir byltingar og væringar, en í reynd höfum Við oft reynt að koma í veg fyrir morð og eyðileggingu. Sjálfur bróðir Rakoczy birti æðsta stig kærleika til mannkynsins en var hafnað af þeim sem hann reyndi að bjarga. Verk hans voru skráð í vel þekktum minningum sem enn eru til, en samt segja vissir lygarar hann vera föður frönsku byltingarinnar.

Menn skilja ekki heldur boð okkar til Viktoríu drottningar, en sagan sýnir fram á réttmæti þeirra. Aðvörun Okkar var hafnað; Samt sem áður er það skylda okkar að vara þjóðirnar við. Á sama hátt var aðvörun Okkar til norrænu þjóðarinnar ekki skilin. Um síðir munu menn muna og bera saman staðreyndir. Ég get nefnt dæmi um atburði úr sögu ýmissa landa – munið eftir Napóleon, framkomu ráðgjafans við ráðstefnuna um stjórnarskrá Bandaríkjanna, það sem gerðist í Svíþjóð og vísbendingarnar sem voru sendar til Spánar.

Munið eftir því að fyrir tíu árum var sagt fyrir um hrun Spánar. Tákn lausnar var lagt fram, en eins og venjulega var því hafnað. Við hröðum för til að senda hjálp hvert sem er og fögnum þegar henni er veitt viðtaka. Við hryggjumst þegar Við sjáum þau hlutskipti sem þjóðirnar búa sér.

7. Urusvati þekkir raddir Okkar, bæði sem orð upphátt eða í hljóði. Menn geta undrast mismuninn á sendingunum, en það eru margar ástæður fyrir þeim, handan jarðneskra aðstæðna.

Við ráðleggjum oft að reynt sé að viðhalda einingu. Slík boð eru ekki einfaldlega siðferðisboðskapur – óeining er skerandi ósamræmi. Ekkert hefur jafn stingandi áhrif sem ósamræmi. Þegar menn eru fylltir skaðlegu misræmi, leiðir það sjálfkrafa til röskunar í umhverfinu. Þannig menn skaða ekki aðeins sjálfa sig, þeir mynda einnig karma af sérstakri gerð sem tengist einnig öðrum sem líkjast þeim. Það er hræðilegt að glíma við slíkan nýgerðan óskapnað.

Menn sem birta ósamræmi eru í reynd skaparar óskapnaðar; afleiðingar þessarar skaðlegu misnotkunar eru hörmulegar. Við neyðumst sífellt til að berjast við þá og það kemur ekki á óvart að slíkur bardagi er oft erfiðari en árekstur geimstrauma. Í hvert sinn sem nauðsynlegt reynist að kljást við frjálsan vilja manns má gera ráð fyrir mikilli orkueyðslu, Máttur hins frjálsa vilja er mikill, hann er sambærilegur við hina kröftugustu orku, og með illsku sinni geta menn valdið eyðingu sviða í fíngerða heiminum. Hve mikið þarf ekki hinn reyndi læknandi að hafa fyrir því að loka þessum sárum í geimnum!

Við verðum að vinna að einingu, ekki með sálmum og hörpuslætti, heldur með vinnu og striti. Fáir munu setja stefnuna á Bræðralag Okkar eftir að hafa frétt af mikilli og erfiðri vinnu Okkar.

8. Urusvati hefur séð svitann drjúpa af Okkur og veit hve þjáningarfullar þær aðstæður eru sem skapast af spennu í geimnum, en án hennar væri ekki unnt að vinna að verkefnum yfir miklar vegalengdir. Sérhver athöfn sem felur í sér samvinnu er til hjálpar. Við ræðum um samvinnu, ekki aðeins sem siðferðilegt hugtak, heldur einnig sem uppskrift að nýjum möguleikum til árangursríkrar vinnu.

Ef menn aðeins skildu á hvern hátt sýnilegar og ósýnilegar leiðir geta unnið saman! Ef menn aðeins gerðu sér grein fyrir hve mikið þeir gætu aukið krafta sína með samvinnu við Bræðralagið! Ef þeir að minnsta kosti myndu leiða hugann að samvinnu, sem mögulegt er að viðhafa á hverju einasta andartaki! En menn nálgast ekki einu sinni Bræðralagið í hugsun, þeir álíta jafnvel að hugsun um Bræðralagið sé heimskuleg. Allir geta nýtt krafta sína alltaf; aðeins þarf að gera sér grein fyrir því að í fjöllunum Okkar er í gangi linnulaus vinna til hjálpar mannkyninu. Ein slík hugsun skapar orkuflæði og færir vitundina nær þjónustu fyrir mannkynið. Hún hvíslar að mögulegt sé að elska mannkynið, en við jarðneskar aðstæður er oft erfitt að ímynda sér að slík ást sé möguleg. Látum hugsun um tilvist Bræðralagsins stuðla að því að opna hjörtun. Þá mun samvinna opinberast, ekki sem skylda, heldur sem gleði og sviti og helgar kvalir sem veita munu krýndar upplýsingar. Lítum ekki á þetta sem óhlutlæg orð, því slík afneitun lokar fyrir besta viðtakann – hjartað. Sérhver svitadropi vinnunnar, sérhver þjáning vegna mannkynsins, býr í hjartanu.

Dýrð sé hinu allt umlykjandi hjarta.

9. Urusvati hefur verið í rannsóknarstofum Okkar og hefur séð eina af formúlunum fyrir kjarnorku. Hún gat ekki geymt hana í efnislegu minni sínu, en innri viðtakandinn tók við henni. „Atómísk atóm!“ hrópaði bróðir Okkar þegar atómkjarninn var klofinn. Eins og hveitiaxir þroskast fyrir uppskeruna, þannig verður þessi möguleiki og árangur geymdur allt til þess tíma að hann verður afhentur mannkyninu. Það er erfitt að gera uppgötvanir og geyma síðan birtingu þeirra þar til rétti tíminn rennur upp. Í æði sínu myndu menn dreifa þekkingu eins og hagléli á akrana, án þess að skeyta neitt um skrímslin sem vaxa af taumlausum ástríðum. Skilningur á réttri tímasetningu er stórt skref í átt til Bræðralags.

Hin norðlæga túndra og Góbí eyðimörkin geyma fjársjóði; ætti að opinbera þá sem fyrst? Aðeins háþróuð vitund getur fengist við svo dýrmæta fjársjóði; og vegna þekkingar á spíralvindu þróunarinnar, mun demöntum ekki verða kastað fyrir vagnhjólin. Það er stundum erfitt, jafnvel fyrir þrautreynda þolinmæði, að bíða komu vagnanna sem flytja gleði. „Ef til vill hefur dagurinn þegar liðið hjá“, segir titrandi hjartað. En viturleg reynsla hvíslar: „Enn er of snemmt.“ Baráttan milli hjartans og skynseminnar er furðulegt sjónarspil. Hamingjusamur er sá sem getur skilið boð hjartans.

Við eigum margar formúlur sem eru tilbúnar til birtingar. Geislinn frá Turninum í Chun glampar þegar uppgötvanir vísindanna koma fram á réttum tíma. Í einfaldleika sínum skilja menn ekki samræmið í tímasetningum viðburða og reyna að þröngva sinni eigin ringulreið og ábyrgðarleysi á öll mál. Það skiptir þá engu þótt mikilvæg hugmynd geti glatast séu viss skilyrði ekki uppfyllt. Að auki krefjast þeir þess að allt sé gert eftir þeirra höfði, þeir líta á árangur sem ógæfu og fagna hörmungum. Hið smáa virðist þeim stórt og hið stóra léttvægt.

Sú nákvæma þekking sem send er út til heimsins frá rannsóknarstofum Okkar skilst oft ekki, vegna þess að formúlurnar eru gefnar upp með óvenjulegum táknum. En hvers vegna ættum Við að afbaka fornar formúlur, sem að öðrum kosti hefðu gleymst? Ef formúlan er upprunnin frá Atlantis, ætti ekki að takmarka hana með hugtökum nútíma vísinda. Mikið haf aðskilur vísindin sem samfjalla og vísindin sem aðgreina. Þess vegna er svo erfitt að finna samræmið sem blómstrar í Bræðralaginu.

10. Urusvati þekkir tungu Okkar, en við verðum að læra tungu allra þjóða. Stöðugt vakna spurningar um það á hvaða tungu sé best að senda hugsanir. Sérhver ætti að senda hugsanir á móðurmáli sínu, tungumálinu sem hann hugsar á. Það eru mistök að senda hugsanir á erlendu tungumáli, með það í huga að það auðveldi viðtakandanum. Það myndi aðeins minnka mátt sendingarinnar. Ef maður neyðir sig til að hugsa á erlendu tungumáli kallar það fram innri myndir sem tengjast menningu þeirra sem nota það mál og truflar skýrleika hugsunarinnar. Mín ráðlegging er sú að senda hugsanir á móðurmáli sínu í einföldu og venjulegu umhverfi. Vel þekktir hlutir dreifa síður athyglinni, flækja ekki hugsanirnar og útgeislun þeirra veldur ekki truflunum.

Við hugsanaflutning notum Við næstum tómt herbergi málað í bláum eða grænum lit. Græni liturinn getur verið mjög samhljómandi fyrir marga einstaklinga. Við kjósum einnig þægilegan stól með örmum sem heldur hryggnum beinum. Stóllinn ætti ekki að valda líkamanum neinum óþægindum. Ljósið ætti ekki að trufla augun og það er betra að ljósgjafinn sé fyrir aftan. Engin þörf er á að mynda einhverja spennu, fullkomin einbeitni er hið eina sem þarf. Stundum getur verið gott að setja mynd fyrir framan sig af þeim sem hugsunin er send til, en það er jafnvel betra að halda myndinni í huganum. Rósemi er nauðsyn og hljómræna tónlist má nota með sendingu hugsana.

Hafið í huga þessar aðstæður, þegar þið myndið Okkur í huganum og sendið Okkur hugsanir.

11. Urusvati hefur löngun til að veita mönnum meiri þekkingu, bein þekking gefur henni vísbendingu um takmörk þess sem er mögulegt. Uppgötvun þessara marka verður mörgum að fótakefli og mikil ógæfa fylgir því að virða þau ekki. Það er ómögulegt að gefa til kynna í jarðneskum hugtökum hin duldu viðeigandi mörk, en víðfeðm vitund getur bent á hvar mörk mögulegs skaða liggja. Þið sjálf vitið hve oft menn krefjast svara sem þeir geta svo ekki tekið á móti. Þeir segja: „ Segið það fljótt og við munum ákveða hvað við viðurkennum og hverju við höfnum.“ Þeir hafa ánægju af því að draga spil, en draga aðeins það sem þeim líkar best. Þeim er sama þótt öll heildin hrynji til grunna, þótt jafnvel börn viti að ekki ætti að raska heildinni. Fullorðir kasta sprengjum og furða sig svo á því að þær meiði þá sjálfa. Þeim finnst gaman að endurtaka samlíkingu okkar um bjúgverpilinn, en sjá ekki afleiðingar sinna eigin kasta.

Menn ásaka Okkur oft fyrir að afneita mörgu því sem er til og ganga jafnvel svo langt að segja að Við höfnum Kristi. Er hægt að trúa slíku guðlasti? En margir þjónar myrkursins eru jafnvel reiðubúnir að dreifa slíkum óhróðri í þeim tilgangi að valda óeiningu. Öllum sem þekkja uppbyggingu Bræðralagsins ofbýður fáfræðin sem lýsir sér í slíku baknagi. Rógur er oftast afleiðing fáfræði og menn hika ekki við að endurtaka lygar. Hægt er að tiltaka mörg dæmi um ósannar frásagnir um Bræðralagið. Til dæmis voru Bræðurnir taldir þjóna myrkraöflunum og það má telja upp margar hræðilegar hörmungar sem Þeir voru taldir bera ábyrgð á. Við höfum verið ásakaðir um að beita hótunum og ofbeldi. Þeir sem ekki kusu að taka mark á orðum Okkar gengu sérstaklega hart fram. Skömm sé hinum vantrúuðu! Skömm sé hinum fáfróðu! Og skömm sé þeim sem valda óeiningu! Látum þá stundum spyrja sjálfa sig hvort þeir hafi ekki rangt fyrir sér. En hinn fáfróði getur ekki orðið rangindamaður, því hann lifir nú þegar í villu. Lát þessa blaðsíðu um Bræðralagið geymast í minni þeirra sem eru logandi í hjarta. Sannlega geta allir sett fram að minnsta kosti fræögn sannleika.

12. Urusvati getur sagt frá þeirri sérstöku tilfinningu sem skynjuð er í fíngerða líkamanum á ferðum til hinna fjarlægu heima. Það er erfitt að lýsa í jarðneskum orðum þessum fíngerðu skynjunum handan marka hins jarðneska sviðs. Menn verða sjálfir að reyna þessar flugferðir til að vitundin geti lagað sig að þessum yfirjarðnesku skynjunum. Þessar flugferðir til fjarlægra heima eru iðkaðar reglulega af Bræðrunum. Menn sækjast einnig eftir æðri sviðunum, en til allrar óhamingju hafa menn ekki enn viðurkennt fullkomlega hreyfihæfni fíngerða líkamans. Margar tilraunir heppnast, en með mikilli fyrirhöfn.

Margt er rætt um geislana sem gera menn ósýnilega. Næsta skref mun verða uppgötvun lítils tækis sem gerir þann sem ber það ósýnilegan. Við verðum ósýnileg með því að draga að okkur nauðsynlega geisla úr geimnum. Þetta er að nokkru leyti hliðstætt þeirri afholdgun líkamshluta, sem þið hafið nýlega heyrt um. Til að framkvæma mörg fyrirbrigði verða menn að hafa hreyfanlegan fíngerðan líkama. Flugferðir til hinna fjarlægu heima gera vissulega kröfu um þennan hreyfanleika fíngerða líkamans, en með þeirri þjálfun sem því fylgir öðlast hann eldlega hæfni. Þá hæfni er hægt að öðlast með stöðugri viðleitni um mörg æviskeið. Hreyfanleika er ekki hægt að öðlast með þvingun.

Systur Okkar eru sérstaklega færar í þessum flugferðum, vegna þess að samfjöllunarhæfni kveneðlisins er til mikillar hjálpar. Stundum standa þessar flugferðir yfir í langan tíma, en Bræðralagið veit hvernig vernda skal líkamana sem skildir eru eftir.

Það sem virðist vera líkamleg deyfð er oft ekkert annað en afleiðing langrar flugferðar. Menn vita oft ekki hvernig á að sinna þeim sem eru á slíku ástandi. Á fornum tímum var talið að þeir væru haldnir „heilögum“ sjúkdómi og menn vissu hvernig átti að þekkja einkennin. Við eigum mörg dæmi um slíka reynslu; í óendanleika tíma og rúms eru slíkar athuganir óteljandi. Við skráum af kostgæfni sérhverja skynjun, þótt útvarpsbylgjur og rafstraumar hindri oft athuganir Okkar.

13. Urusvati gæti sagt frá nöfnum margra meðlima Bræðralagsins, en mun ekki gera það því hún vegur og metur gagnsemi slíkra upplýsinga. Nú þegar eru sjö nöfn á vörum fólks, en hver er ávinningurinn? Þörf er á framkvæmdum en ekki nöfnum. Af því leiðir að þegar Við tölum um persónuleg málefni Bræðranna þá lýsum við verkum en gefum ekki upp nöfn. Fólk deilir ekki um dáðir heldur nöfn. Þegar nafn eins Bræðra Okkar sem dvaldi í heiminum varð þekkt, varð nauðsynlegt að lýsa yfir andláti Hans, til að Hann gæti um frjálst höfuð strokið. Við höfum oft neyðst til að skipta um nöfn til að vekja ekki forvitni. Við höfum neyðst til að dyljast í flýti til að góð starfsemi hlyti ekki af skaða. Ein fyrsta forsenda Bræðralagsins er að setja vinnuna ofar öllu öðru.

Til eru tvær gerðir hugsunar. Önnur sprettur af tilfinningu, eða með öðrum orðum, frá hjartanu, en hin frá huganum eða vitsmunum. Sjálfsfórn sprettur frá hjartanu og Bræðralagið byggist á henni. Samvinna Okkar nærist á hjartanu.

Þegar við tölum um einingu, þá gerum við ráð fyrir lifandi hjarta. Hræsnisfull eining er eitthvað það ógeðfelldasta sem hægt er að hugsa sér. Marga hefur dreymt um að nálgast Bræðralagið, en hefur mistekist einmitt vegna hræsni sinnar. Hræsnin kemst ekki inn í aðsetur Okkar. Uppgerð leyfir ekki þátttöku í hinni mikilvægu þjónustu.

Mönnum finnst erfitt að venjast hugmyndinni um hugræn samskipti. En meðal Okkar er slíkur áfangi fullkomlega eðlilegur og þjónar þeim tilgangi að einfalda samskipti Okkar. Oft getur ein hugsun komið í staðin fyrir löng orðaskipti. Í daglegu lífi er algengt að þeir sem hafa lengi búið saman skilji hugsanir félaga sinna. Til eru ákveðnar æfingar sem gera mönnum kleift að skilja hugsanir samverkamanns án tækja. Við ræðum aðeins það sem Við ástundum í Okkar lífi.

Lát þá sem kappkosta að nálgast Okkur skilja að gæði vinnunnar eykst með tilfinninganæmu hjarta.

14. Urusvati, geturðu nefnt eina Systur eða Bróður sem ekki varð fyrir pyntingum og ofsóknum í jarðnesku lífi sínu? Það er vissulega ekki hægt. Sérhver hetjudáð kallar á ofsóknir. Baráttan við myrkraöflin er óhjákvæmileg og öldur óskapnaðarins munu kaffæra djarfa bardagamenn. Slíkur prófsteinn er aðeins vitnisburður um ósigranleika andans. Menn voru brenndir á báli, krossfestir, hálshöggnir, kyrktir, drepnir af villidýrum, seldir í þrældóm, byrlað eitur eða varpað í fangelsi; í stuttu máli, þeir gengu í gegnum allar hugsanlegar misþyrmingar svo að hægt væri að prófa þol þeirra.

Ekki skyldi ætla að hægt sé að öðlast víðtæka vitund án baráttu. Allir sem óska að þjóna Okkur vita að þeir þurfa að þola árásir myrkraaflanna. Allir eru reiðubúnir að gera slíkt í orði, en forðast það í verki. Veit enginn að öll frávik lengja aðeins leiðina?

Jarðnesk blessun er augsýnileg, en æðri heimar eru ósýnilegir, eins og þeir séu huldir skýjum. Sérhver tilraun til að nálgast fíngerða heiminn getur orðið til þess að skýra hugmyndina um óendanleikann. Það er jafnvel hægt að dreyma venjulega persónu samtímis á mismunandi stöðum í heiminum. Það er ekkert ógerlegt við það að fíngerði líkaminn geti birst samtímis á fjarlægum stöðum. Rannsókn á eðli mannsins gefur stefnu og útvíkkun vitundarinnar og menn munu sigla til Okkar stranda á náttúrulegan hátt, án þess að þarfnast sinna eldri farartækja. Lát Santana, straum lífsins, bera hinn eftirvæntingarfulla ferðalang til hinnar nýju strandar.

Margir bíða. Megi þeir fyrst læra um erfiðleika fararinnar og fá skýran skilning á baráttunni við myrkraöflin. Látum þá ekki vonast eftir að komast hjá henni. Leiðin til gleðinnar getur ekki verið auðveld.

Það verður gleði. Við munum ræða meira um gleði, en fyrst skulum við íklæðast brynju andans.

15. Urusvati varð forviða þegar hún sá þá miklu spennu sem fylgdi sendingu Okkar á hugsunum til fjarlægra staða. Við erum í raun hlaðnir rafspennu til að efla frumorkuna og notum óvenjuleg raftæki til að skapa það sérstaka umhverfi sem nauðsynlegt er við sendingu hugsana. Sjá má að sálræna næmni er hægt að auka í raforkuverum, en slík mettun umhverfisins af raforku getur einnig orsakað eldlega sjúkdóma. Samræmis er alls staðar þörf.

Takið eftir því sem Ég sagði um spennuna sem fylgir sendingu hugmynda. Hugsun, sem er send á sérstakan stað til ákveðinnar persónu, þarfnast ekki eins mikillar spennu og sending hugsunar út í geiminn þar sem hún rekst á miklar hindranir. Ofsafenginn bardagi umlykur slíkar sendingar, þess vegna er þörf á rafsveip sem vörn fyrir þær. Þannig sveipir laða til sín vissar háþróaðar sálir, sem finna við það fyrir mikilli þreytu, því orka þeirra hefur tengst straumum með segulmagnstengingu. Ef þú finnur fyrir óútskýranlegri spennu og orkutapi, er hugsanlegt að þú hafir tengst slíkum geimsendingum.

Á mestu umbrotatímum heimsins sendum Við stundum hugsanir sem greinir á við langanir flestra manna. Menn skilja ekki að brjálsemi er ekki hægt að lækna með brjálsemi og reynir að endurtaka eyðingu sem Jörðin hefur orðið fyrir oftar en einu sinni. Við reynum að viðhalda jafnvægi eins og kostur er, en sameiginleg áhrif hins frjálsa vilja geta yfirbugað góðviljug ráð Okkar.

Urusvati mun ekki gleyma hve Við umbreytumst á tímum spennu og átaka. Megi mannkynið biðja um lækningu, því lækning er ekki möguleg án samþykkis.

16. Urusvati veit að líkama Okkar má greina í þrjú stig. Hvert stig hefur sín sérstöku einkenni og jafnvel hið efnisþétta stig er svo fíngert að ekki er hægt að líkja því við hið jarðneska. Fíngerða stigið er orðið svo aðhæft aðstæðum jarðneska andrúmsloftsins að það er mjög ólíkt hinum venjulegu hjúpum fíngerða sviðsins. Að síðustu, þriðja stigið, sem er mitt á milli hins efnisþétta og fíngerða, er einstakt fyrirbrigði. Öll þessi þrjú stig eru óvenjuleg og áhrif þeirra eru ekki auðveld fyrir jarðnesk lungu og hjörtu. Jarðneskur maður verður að venjast þeim, að öðrum kosti fengi hann að minnsta kosti ákafan hjartslátt. Þetta eru ekki galdrar, heldur hin náttúrulega þensla andrúmsloftsins í bústað Okkar.

Sérhvert hús á Jörðinni hefur sitt eigið andrúmsloft og hægt er að sjá hvar iðjusemi er ríkjandi, því þar er andrúmsloftið mettaðra. Í Bræðralaginu, þar sem allir eru gæddir mikilli spennu, þar sem eru svo mörg máttug tæki, og þar sem svo margar mismunandi tilraunir eru gerðar samtímis, er andrúmsloftið mjög mettað. Gleymið ekki birgðum ýmissa efna og lækningaplantna, sem bæði stafa frá sér ákaflega máttugum áhrifum. Hægt er að forðast lykt, en útgeislun er óhjákvæmileg. Mikið samræmi verður að ríkja á þeim stað þar sem hugmyndir eru sendar út í geiminn.

Lamar tala um bústað hinna miklu sólarhöfðingja. Sérhver lýsir Shamballa eftir sínum eigin skilningi. Rætt er um fjársjóði, sem er rétt, en þeim er lýst á mismunandi hátt. Goðsagnir um stríðsmenn Okkar eru til um allan heim og það er fótur fyrir þeim. Einnig er lýst mörgum hliðum og speglum. Goðsögin um Tashi Lama sem veitir aðgang að Shamballa er táknræn. Svipuð tákn sem finnast vítt og breitt um heiminn sanna hve mikil sannindi hafa breiðst út. Í Mexikó til forna var jafnvel til vitneskja um Fjallið helga þar sem hinir útvöldu dvöldu. Það er ekki undarlegt að allar þjóðir Asíu geyma goðsagnir um Fjallið helga. Því er lýst nokkuð nákvæmlega, en sá sem ekki fær köllun kemst ekki þangað.

Margir leitast við að finna Okkur, en það er réttmætt að verjast slíkum ferðalöngum. Menn verða að finna Okkur, ekki landfræðilega, heldur í anda. Þið vitið hvers er vænst af Okkur – ekki aðeins vænst, heldur krafist – og kvartanir slíta síðustu þræðina. Menn átta sig ekki á því að kvartanir þeirra þétta andrúmsloftið sem nú þegar er mettað. Að sjálfsögðu er Okkur kennt um mistökin í samræmi við skilning þess sem kvartar: Við kunnum ekki að tala, Við kunnum ekki að skrifa! Menn átta sig ekki á því hve þessar kröfur eru óviðeigandi. Haldið ekki að Okkur mislíki; Við finnum einfaldlega til sorgar þegar Við sjáum að orkan er illa nýtt. Umræður eru æskilegri en kvartanir. Einlægar umræður eru í meira samræmi við andrúmsloftið í bústað Okkar. Sé mögulegt að veita hjálp, þá er hún hiklaust veitt. Í þessu fellst fegurð skapandi hugsunar.

Augljóslega erum Við til staðar til að hjálpa þeim sem þjást, en menn ættu ekki að brjóta niður hliðin með hnefunum. Sagt er „Ríki Guðs er tekið með valdi,“ en það er vald andans en ekki hnefanna. Megi menn hugsa þannig um Bræðralagið og látum þá ekki gleyma hvar hin sönnu hlið er að finna.

17. Urusvati hefur ekki gleymt að í geymslum Okkar eru líkön af mörgum borgum og sögulegum stöðum, sem hafa sérstaka innri þýðingu. Þau þjóna þeim tilgangi að mynda tengingu milli hinna fornu staða og nýrra verkefna. Í geymslum Okkar eru einnig geymdir mikilvægir hlutir sem eru stundum sendir út í heiminn til að vera sem seglar fyrir ákveðnar athafnir.

Það hefur mikla þýðingu að sendiboðar Okkar ferðast um tiltekna staði. Á sumum stöðum grafa þeir ákveðna hluti, annarsstaðar fara þeir einfaldlega um staðina og efla með því áru þeirra. Menn veita þessum pílagrímum enga athygli, en auga sagnfræðingsins gæti greint háttbundið eðli slíkra ferða. Þá mætti sjá að hinir helguðu staðir reyndust hafa mikla þýðingu í sögu þjóðanna.

Auk íbúa Bræðralagsins eru aðrir einstaklingar á Jörðinni sem sinna verkefnum fyrir Okkur. Hægt er, í gegnum söguna, að greina hvernig menn sem eiga ýmislegt sameiginlegt í aðferðum og verkefnum, hafa komið fram í mismunandi löndum. Yfirleitt var þessum mönnum tekið með tortryggni og fjandskap, þar sem menn skynjuðu ýmislegt hjá þeim sem ekki var unnt að tjá í orðum.

Í geymslum Okkar má sjá landakort með ádregnum landamærum sem ekki fylgja þeim sem nú eru í gildi. Grafnir seglar eru táknaðir með stjörnum. Stundum opinberast gildi þessara segla innan fárra ára.

18. Urusvati, í fíngerða líkama sínum, tekur sífellt þátt í hjálp Okkar fyrir mannkynið, Í flugferðum sínum í fíngerða líkamanum veita samverkamenn Okkar mönnum svo mikla hjálp að ekki er unnt að skrásetja það allt. Hafa þarf í huga að við tökum mjög sjaldan þátt í svonefndum miðilsfundum spíritista og Við teljum slíka fundi skaðlega vegna þess hve orkuútgeislun þátttakenda er full ósamræmis. Það kemur varla fyrir að nokkur hópur sé myndaður þar sem tekið er tillit til hinnar mismunandi orkuútgeislunar einstaklinganna. Hægt er að gera sér í hugarlund hverskonar verur það eru sem svara hinu ósamræmisfulla hugarástandi hópsins og koma fram og efnisbirtast á slíkum fundum og við höfum nú þegar vakið athygli á heimskulegum svörum við heimskulegum spurningum frá þessum hópum!

Framkoma Okkar og hjálp er með öðrum hætti. Við björgum verðugum á hættustund. Með blíðlegri snertingu vekjum við athygli leitenda og vörum þá við skaðlegum ákvörðunum þeirra. Við hjálpum til við að skapa og styðja við hið góða. Vinna okkar er tileinkuð þekkingu. Við hjálpum sérhverjum gagnlegum verkamanni, óhindraðir af hefðbundinni aðgreiningu í kynþætti og stéttir. Við fylgjumst með af kostgæfni til að greina alla geisla sem glampa frá afrekum unnum í sjálfsfórn. Musteri Okkar er musteri þekkingar. Þangað færum Við allt hið æðsta og þar gætum Við allra framtíðaráforma.

Glatið ekki hinu beina sambandi við Okkur. Lát það vera æðstu tjáningu tilveru ykkar. Leyfið ekki að slíkt samband verði að formlegri skyldukvöð. Þvinguð viðleitni getur aldrei orðið styrkur grunnur, því að í fíngerða heiminum verður öll vinna að vera náttúruleg tjáning hins frjálsa vilja. Reynið ekki að þvinga neinn til slíkra starfa, því að löngun verður fyrst að myndast í vitundinni. Það er erfitt að dæma um það hvenær löngun vaknar til að vinna fyrir mannkynið. Allir geta fundið sína leið og Við munum veita þeim hjálp á þeirri leið.

19. Urusvati er þakklát Indlandi og Tíbet fyrir að veita Bræðralaginu vernd sína. Við getum sannarlega verið þakklát fyrir að Bræðralagshugtaksins sé svo vel gætt. Yfirleitt er lagst gegn því þar að rætt sé um Bræðralagið og ekki er greint frá nöfnum, því betra er að afneita tilvist Bræðralagsins en að svíkja það. Munnmælanna um Bræðralagið er gætt, ásamt hinum helgu bókum.

Forvitni Vesturlanda er Austurlandabúum illskiljanleg. Við skulum athuga hvers vegna Vesturlönd vilja fá vitneskju um Bræðralagið. Vilja vestrænar þjóðir líkja eftir Bræðralaginu í daglegu lífi? Vilja þær hafa lögmál Bræðralagsins í heiðri? Vilja Vesturlönd dýpka þekkingu sína? Hingað til hafa þau aðeins sýnt fram á fánýta forvitni og leitað að ástæðum til að gagnrýna og ásaka. Við munum ekki hjálpa þeim á þeirri leið.

Ímyndum okkur að hernaðarleiðangur uppgötvi Bræðralagið. Það er auðvelt að gera sér í hugarlund hvað kæmi út úr slíkri uppgötvun og fordæmingarnar og ásakanirnar sem kæmu í kjölfarið! Krossfestingar eiga sér stað enn þann dag í dag. Vesturlönd hafa aldrei skilið eðli Helgivaldsins. Einvaldshugtakið hæfir ekki Helgivaldinu. Við höfum lögfest þá hugsun að máttur fellst í sjálfsvörn. Hver af núverandi leiðtogum heimsins myndi viðurkenna slíkt lögmál?

Við skiljum vel eðli Austurlanda og vegna þess ætti enn frekar að meta virðingu þeirra fyrir aðsetri Okkar. Mörg Ashröm voru flutt til Himalajafjalla, vegna þess að andrúmsloft annarra staða var orðið óþolandi. Síðasta egypska Ashramið var flutt til Himalaja vegna hinna vel þekktu atburða í Egyptalandi og á nærliggjandi svæðum. Við upphaf Harmagedóns varð nauðsynlegt að safna þeim öllum saman í aðsetrið í Himalajafjöllum. Rétt er að menn viti, að nú á dögum yfirgefum Við ekki aðsetur Okkar og Við ferðumst til fjarlægra staða eingöngu í fíngerða líkamanum. Þannig opinberast gögn um innra líf aðseturs Okkar.

20. Urusvati gerir greinarmun á hagstæðum straumum og þeim straumum sem hindra. Menn geta gert sér í hugarlund viðbrögð mikils mannfjölda sem er gripinn sömu tilfinningu. Síðar munum Við greina frá tilraunum sem gerðar voru mitt á meðal mikils mannfjölda og niðurstöðurnar munu sýna hversu hversu langt orka mannfjölda getur borist. Hugarástand fjarlægra hópa greinist einnig sterklega í aðsetri Okkar. Það er ekki að ástæðulausu að Við leggjum mikla áherslu á að halda vinsamlegri einingu. Jafnvel niðurstöður hreinna lífeðlisfræðilegra tilrauna eru mismunandi vegna efnaáhrifa þátttakenda og nálægð einnar persónu getur haft áhrif á virkni næmra mælitækja. Þetta þýðir að ruglingsleg og reiðileg útgeislun mannfjölda getur truflað mikilvægar tilraunir, en það veldur Okkur miklum erfiðleikum.

Við leitumst við að breyta sálrænu ástandi fjarlægra hópa í þeim tilgangi að vernda vísindarannsóknir Okkar. Arkimedes verndaði uppgötvanir sínar fyrir augljósum villimönnum, en hversu miklu erfiðara er að verja vísindalega fjársjóði gegn ósýnilegum, ofbeldisfullum skemmdarvörgum! En það eru ekki aðeins skemmdarvargar og óvinir sem eru Okkur ógn, heldur einnig stuðningsmenn sem skapa ósamhljóma aðstæður. Við erum tilbúnir að biðja þá innilega að skemma ekki formúlur Okkar. Það eru mörg slík afbrot til, en rót þeirra er vantrúin í öllum sínum myndum.

Gerið ykkur í hugarlund að í aðsetri Okkar trufli sérhvert hljóð samræmi sveiflutíðninnar. Við höfum hljóðeinangrað rannsóknarstofur Okkar nægilega vel, en ekki er hægt að stöðva sálræna orku. Samstarfsmenn okkar nær og fjær verða að hafa skilning á því hvaða hugarástand er Okkur hjálplegt. Mikil þjónusta er ætíð samvinna í þjónustu. Allir sem hafa nálgast Okkur, jafnvel aðeins einu sinni, hafa þá þegar axlað þá ábyrgð að forðast að hindra vinnu Okkar.

Turnar Okkar eru á mörgum hæðum og rannsóknir eru stöðugt í gangi. Hver er svo hugsunarlaus að dirfast að skyggja á hina uppsöfnuðu orku? Endurkastið getur orðið mjög kraftmikið og enginn getur komið í veg fyrir það ef grundvallarorkan er komin á hreyfingu. Við vörum því við því að vekja upp óþægilegt endurvarp.

21. Frá frumbernsku hefur Urusvati geymt í hjarta sínu þá lifandi vitneskju að kennari ljóssins sé „einhversstaðar.“ Aðeins minningar um raunverulega atburði gætu kallað fram í vitund barnsins svo skýra mynd. Við fögnum þegar við sjáum að samverkamenn Okkar geyma innra með sér, allt frá fyrstu stund lífsins, mynd af því sem þeir hafa áður séð. Ráðvilltur andi sér allt í óreiðu, en andi sem er upplýstur af mörgum afreksverkum geymir skýrar minningar.

Þótt leiðbeiningar séu skýrar, geymast þær sjaldan í minni hins nýja líkama, en þegar pílagrímur hefur verið sendur af Okkur, eftir að hafa áður haft samband við Okkur, fær hann skýrar minningar, jafnvel í frumbernsku. Hann sér ljósfánana. Við komum til hans í ýmsum myndum. Hann heyrir silfurbjöllur Okkar og þanin silfurþráður hans er tengdur Okkur.

Þessari litlu stúlku var stýrt af sinni eigin vitund til fyrirfram ákveðinna afreksverka, án nokkurrar hvatningar frá öðrum. Þessi pílagrímur ljóssins hélt ótrauður áfram, þrátt fyrir slæmar aðstæður í bernsku. Eftir að hafa öðlast innri styrk, fékk hún loks í sýn boð Okkar til framkvæmda. Við fögnum þegar slíku verkefni er tekið, ekki í orðum, heldur með eldi hjartans. Slíkur eldur er undanfari uppljómunar og helgra þjáninga. Því aðeins með því að veita þjáningum viðtöku getur kviknað fyrsti vísirinn að gleði viskunnar. Hún fæst aðeins með þjáningu. Aðeins með Okkur verður þessi gleði til.

Urusvati kom til þessa heims að eigin frumkvæði. Orðið um eldinn hafði verið ákvarðað í fyrri samskiptum hennar við Bræðralagið. Orðið átti að kunngera á tímum Harmagedón. Ekki auðveldur tími! Ekki auðveld orð, ekki auðvelt að segja frá tilvist Bræðralagsins þegar öll máttaröfl myrkursins berjast gegn því. En Við fögnum og tökum því opnum örmum þegar afreksverk rísa.

Ætlið ekki að innra líf Okkar sé ráðandi. Þvert á móti, ímynd mannsins er mótuð af manninum sjálfum. Sérhver silfurþráður hljómar eins og strengur í óendanleikanum.

22. Urusvati getur borið vott um hið mikla hjartans. Ofar og handan virkni allra orkustöðvanna er gildi hjartans augljóst. Lítill skilningur er á gildi hjartans, en samanborið við það virðist Kúndalini jarðneskt. Litið er á hjartað sem miðdepil hins jarðneska lífs, en sú viðmiðun er ekki fullnægjandi. Hjartað er brú milli heimanna. Þar sem tengsl heimanna þriggja eru sérstaklega virk, er gildi hjartans skynjað á djúpstæðan hátt. Í aðsetri Okkar er sérstök virðing borin fyrir hjartanu.

Til eru þeir í aðsetri Okkar sem hafa gengið í gegnum jarðvistarskeið með margra alda millibili. Ætla mætti að hugarfar þeirra sé gerólíkt hugsunarhætti nútímans, þar sem hugarfarið breytist algerlega eftir þrjár kynslóðir, en Við tökum ekki eftir því í samvinnu Okkar. Ein megin ástæðan er víkkun vitundarinnar, en það eitt er ekki nægjanlegt. Hið nauðsynlega er samvinna hjartastöðvarinnar. Aðeins hjartað getur sameinað vitundir sem eru aðskildar um margar aldir. Eiginleiki hjartans er nauðsynlegur við allar fíngerðar athafnir.

Þegar menn hafa viðurkennt möguleikann á hugsanaflutningi yfir miklar fjarlægðir, munu menn öðlast skilning á þeim aðstæðum sem ráða þessum fíngerðu athöfnum. Sagt verður að þörf sé á samræmi, en samræmi ræður því ekki hvaða orkustöð verður notuð. Við hugsanaflutning er hjartað helsti aflvakinn.

Þið sendið hugsanir, stillið hjarta ykkar, en munið að þensla hjartans ber með sér eldlega ógn. Aðeins sá sem hefur reynt slíkan bruna, ólýsanlegan í orðum, getur þekkt þessa miklu hættu. Þessi þjáning er mest hinna helgu þjáninga og orsakast af ójafnvægi milli heimanna. Margvíslegir hjartakvillar stafa af þessari sömu ástæðu. Menn kæra sig ekki um að gæta að þessu virki, hjartanu, sem varðveitir eldlegt fræ sitt um allan heim.

Hugsanlega hafið þið heyrt að hægt sé að vekja þennan eld með því að beita krafti. Slíkt er mögulegt, en ákaflega hættulegt, því eldurinn getur komist í snertingu við eld umhverfisins, með skaðlegum afleiðingum.

Gildi hjartans er mikið; í framtíðinni mun það koma í stað flókinna tækja. Sannlega, í nýja heiminum munu koma fram menn sem búa yfir lífkerfi sem er fært um slíkt. Nú á tímum smíða menn róbóta, en eftir að þessi véla-sótthiti hefur rénað mun athygli manna snúast að mættinum sem býr með þeim sjálfum.

Í aðsetri Okkar er öllum rannsóknum beint að því markmiði að leysa manninn frá vélum. Í þeirri viðleitni verða menn að mennta hjartað. Menn verða að læra að hlusta á rödd þess. Þeir sem ásaka okkur um eigingirni ættu að hafa í huga alla Okkar nafnlausu vinnu.

23. Urusvati hefur mörgum sinnum orðið vitni að lækningaraðferðum Okkar með sveiflutíðni. Þeir tímar munu koma að læknavísindin munu breytast. Sveiflutíðni og sefjun með dáleiðslu verður beitt samhliða lyfjameðferð og hinir stóru skammtar sem nú eru oftast notaðir verða minnkaðir. Aðeins verður þörf fyrir lyfjagjöf í litlum mæli, en batinn mun að mestu byggjast á sveiflutíðni og sefjun. Smáskammtalæknar sáu að vissu leyti fyrir framtíðarstefnuna í lyfjagjöf, en nú á tímum geta aðeins þeir smáskammtalæknar náð árangri, sem búa yfir mikilli sálrænni orku. Ef til vill eru þeir ekki meðvitaðir um ástæðu árangursríkra lækninga sinna, en smám saman munu þeir læra um samræmi innri og ytri áhrifa og þá munu hinar nýju lækningaraðferðir hefjast. Nú á tímum, vegna þess hve þekkingin er á lágu stigi, eru læknar hikandi við að viðurkenna að það sé að mestu leyti þeirra eigin sálræna orka sem sé virki þátturinn í lækningunni. Þeir eru reiðubúnir að þakka árangur sinn mjög veikum lyfjaskömmtum, en gera sér ekki grein fyrir sínum eigin máttugu áhrifum.

Mjög fáir gefa nokkurn gaum þeirri sveiflutíðni sem skynjast við tilteknar kvalir. Ef þeir gerðu það myndu þeir taka eftir því að eftir að kvalirnar hurfu, hvarf einnig titringurinn sem hafði komið rúmi þeirra á hreyfingu. Í aðsetri Okkar þróum við lækningaraðferðir með sveiflum, sem getur haft áhrif yfir miklar vegalengdir, ef sjúklingurinn meðtekur hin fíngerðu áhrif. Sjálfviljug og algjör móttaka er nauðsynleg, að öðrum kosti rofna straumarnir og hörmungar eru óhjákvæmilegar.

Í aðsetri Okkar notum Við einnig sveiflutíðni sem kemur þeim að gagni sem eru mitt á milli efnisþétta og fíngerða sviðsins. Það er ekki af tilviljun að Okkur er umhugað um sviðið milli hins efnisþétta og fíngerða. Fyrir mörgum öldum höfðu menn séð fyrir þennan vanda og hans vegna er þörf á sérstakri aðgæslu.

24. Urusvati hefur skilning á þeirri samsvörun sem er á milli svefns og vöku. Fyrir sumum er svefninn andstæða vökunnar, en fyrir Okkur er svefninn áframhald vinnu, en á öðru tilverustigi. Ekki ætti að líta á svefn á annan hátt. Ekki er hægt að neita því að hann sé nauðsynlegur. Við sumar aðstæður er þörf á minni svefni, en þörfin fyrir hann hverfur aldrei. Í mikilli hæð getur fjögurra stunda svefn verið nægilegur, en það gildir aðeins í vissri hæð.

Trúið því ekki ef einhver reynir að sannfæra ykkur um að hann þurfi engan svefn. Þrátt fyrir hinn skelfilega sjúkdóm svefnleysi, verða menn að viðurkenna svefninn sem nauðsynlegan þátt í tilveru þeirra. Allar gerðir svefns færa menn nær fíngerða heiminum. Í svefni eru mismunandi stig vitundar og rækta þarf skýrleika vitundar. Menn ættu að endurtaka fyrir sjálfum sér, áður en þeir sofna, að þeir séu að halda til nýrra starfa. Ef frjálsi viljinn samþykkir þetta, verður auðveldara að nýta kraftana í fíngerða heiminum. Hafið ekki áhyggjur af því að hvíldin verði minni. Hvíldin verður fullkomin, vegna þess að í fíngerða heiminum nota menn fíngerða eiginleika sem leiða ekki til þreytu.

Það er mun verra ef menn leggjast til svefns yfirkomnir af veraldlegum löngunum og hugsa aldrei til æðri heimsins. Í stað þess að vera niðursokknir í upplýsandi athafnir og þekkingu, reika menn um á myrkum sviðum og hina þreytandi samfundi þar er auðvelt að ímynda sér. Þegar menn sofna, ætti það að vera meðvituð tilfærsla inn í æðri heim. Hinn frjálsi vilji mun lyfta ykkur upp á vængjum sínum. Ég ræði um svefn í þeim tilgangi að sýna ykkur fram á að í aðsetri Okkar er Okkur ekki ókunnugt um þá sérstöku gerð svefns, sem er flutningur vitundar yfir í æðri heim.

Urusvati skilur það rétt að Við erum ekki mótfallin tjáningu hins frjálsa vilja. Í tjáningu frjálsa viljans liggur Okkar máttur.

25. Urusvati hefur oft útskýrt hvers vegna Við erum nefndir „Hin ósýnilega stjórn.“ Sannlega skynja allir á einhvern hátt að einhversstaðar sé til miðstöð þekkingar. Þar sem þekkingin er, þar er líka máttur. Það er ekki að ástæðulausu að suma dreymir um Okkur, þótt aðrir hati Okkur og vilji leggja bústað Okkar í eyði.

Þeir sem athuga heimsviðburði geta greint eitthvað sem er handan mennskra raka. Jafnvel sumir sem eru Okkur trúir hafa margsinnis ásakað Okkur um tafir og sinnuleysi, en það er vegna þess að þessir fljótfæru ásakendur hafa aðeins séð hluta atburðanna. Þeir hafa enga möguleika á að þekkja orsakir þeirra né afleiðingar, né heldur bera saman aðstæður sem tengjast þeim. Þeir gætu ekki séð fyrir nákvæmlega hvenær veita verður úrslitahöggið. Hver getur þá þekkt áætlunina og þrepin sem leiða þangað?

Vegna þessa ófullkomna skilnings krefjast menn þess að fá að fara sínar eigin leiðir, en lærisveinar Okkar munu aldrei hindra ákvörðun fræðarans með valdi. Þeir skilja hvernig samræma á frjálsan vilja sinn ákvörðunum Okkar. Nauðsynlegt er að búa yfir miklu jafnvægi til að skilja viskuna í leiðsögn Okkar, án þess að brjóta gegn frjálsum vilja sínum. Okkur er mjög annt um slíkt jafnvægi. Bestu leiðtogar þjóðanna höfðu slíkt jafnvægi og því var auðveldara að senda þeim ákvarðanir Okkar.

Mikhail Ilarionovich Kutuzov (Green Laurel), sem þið hafið oft rætt um, gat sameinað leiðtogahæfileika og næmni fyrir ráðum Bræðralagsins. Hann þáði leiðbeiningar Saint Germains með fullkomnu trausti. Í því fólst velgengni hans. Ef til vill kom Saint Germain sérstaklega til að undirbúa þennan framtíðar leiðtoga.

Um allan heim má finna fastmótuð kennileiti leiðbeininga Okkar. Sumt upplýst fólk meðtekur þær, en sumir þjóðarleiðtogar höfnuðu ráðum Okkar og steyptu með því löndum sínum í ógæfu. En jafnvel þeim aðstæðum breyttum Við til góðs. Þið þekkið andstöðutæknina (Tactica Adversa).

Það má minna á hrokafullan þjóðarleiðtoga sem fékk aðvörun frá Okkur fyrir fyrri heimstyrjöldinni, en kaus að hafna ráðum Okkar og missti embætti sitt. Annar þjóðhöfðingi vildi ekki heldur hlusta á sendiherra Okkar, en kaus að gefa þjóð sína ringulreiðinni á vald.

Ekki er rétt að segja að fyrr á tímum hafi leiðbeiningar verið veittar oftar. Nú á tímum eru einnig mörg slík ráð gefin, en eyra mannkynsins heyrir þau ekki frekar en endranær.

Við stöndum vörð um allan heim með vakandi athygli.

26. Urusvati hefur oft varað vini sína við árásum myrkraaflanna. Hvarvetna er þörf á slíkum viðvörunum. Látið ykkur ekki til hugar koma að myrkraöflin hætti eyðandi árásum sínum. Rotnun er næring þeirra, morð er atvinna þeirra. Andlegur og líkamlegur yfirgangur er gleði þeirra. Gerum ekki ráð fyrir að þau reyni ekki að brjótast í gegnum hin rammgerðustu virki. Þau myndu frekar farast en að hætta mannskemmandi spillingarstarfi sínu.

Sumt grunnhyggið fólk telur að með helgisiðum og ákalli helgra nafna veitist því um leið vörn gegn myrkum árásum. En það eru ekki helgisiðir, heldur hinn hreini eldur hjartans sem veitir traustan skjöld.

Hinar kænskulegu aðferðir myrkraveranna eru margvíslegar. Auk grófra árása geta einnig verið fíngerðar atlögur að veikari hliðum manna. Ein uppáhaldsaðferð myrkraveranna er að skapa efa, því sá sem er gripinn efa er um leið orðinn varnarlaus. Það mætti gera ráð fyrir að þessi frumregla sé nægilega vel þekkt, en hversu margir eru ekki þeir sem yfirbugast af þessu eitri! Ég tel að stór hluti þeirra sem tala gegn sannleikanum hafi mótast af hinum hvíslandi röddum efans. Þeir sem augljóslega eru heimskir eru ekki eins varasamir og smásálarlegir hræsnarar. Ef ný tegund eiturs er fundin upp, ætli ný tegund hræsni verði þá ekki einnig til? Þessa lýsingu á árásum myrkraaflanna verðið þið að hafa í huga, þegar þið gerið ykkur mynd af innra lífi Bræðralagsins.

Við erum ætíð á verði. Aldrei líður stund að ekki gerist nauðsynlegt að stöðva hættulega árás myrkraaflanna. Ætlið ekki að þau ráðist aðeins á fylgjendur Okkar. Þau reyna að leggja allt uppbyggjandi starf í rúst og vegna lögmáls sveiflutíðninnar er þeim unnt að finna fræ góðleikans sem þau hata svo mikið. Við skulum ekki eigna þeim alvisku, en þau skynja vissulega andstæðinga sína. Orkan sem fer í að sporna við árásum myrkraaflanna gerir vinnu okkar erfiðari. Þau vita að þau geta ekki sigrað Okkur endanlega, en þau taka til sín orkuna sem er send út í geiminn. Þegar Við biðjum um einingu og traust, er það hjálparbeiðni Okkar til að flýta sigrinum.

Mörg merki fljúga til Okkar. Enginn getur gert sér í hugarlund hve mikið uppnám er ríkjandi í heiminum! Menn hafa gleymt að hvert land geymir mörg hjörtu. Þeirra kvöl er Okkar kvöl!

27. Urusvati hefur heyrt þjóðsöguna um þjónustuandann sem byggði musteri. Allar þjóðsögur búa yfir sannleikskorni og hinar sögulegu upplýsingar um hin margvíslegu svik sem fylgt hafa allri uppbyggingu eru einnig sannar. Sagt hefur verið að svikin séu eins og skugginn sem gefur til kynna hæð byggingarinnar. Við höfum verið reyndir með alls konar svikum og Okkar hefur verið freistað með margvíslegum kænskubrögðum. Einnig hefur verið sagt, að til að auka kærleik sinn til mannkynsins verði menn að þekkja öll skuggadjúp þess. En hver hefur þolinmæði til að kafa ofan í öll hyldýpi án þess að missa traust á mannkyninu? Aðsetur Okkar er slíkt virki þolinmæði, og þeir sem hafa verið með Okkur, þeir sem hafa heyrt af Okkur, þeir sem geyma sambandið við Okkur í hjarta sínu, það eru þeir sem íklæðast slíkri brynju þolinmæði. Við metum þennan eiginleika mikils, því hann tilheyrir óendanleikanum.

Menn verða að öðlast skilning á óendanleikanum í sjálfum sér, annars er Turn Okkar þeim óaðgengilegur. Menn ættu að leita til Okkar á tímum þjáninga og hörmunga. Þeir munu fá hjálp Okkar ef hjörtu þeirra hafa ekki orðið að steini. Jafnvel hinir óreyndu fá tækifæri til uppbyggjandi vinnu, búi þeir yfir hugrekki ljónsins og hafi skilning á Helgivaldinu. Látum þessa samverkamenn vera þess fullvissa að frá vinnustöð þeirra til Okkar er strengdur þráður. Látum þá draga til sín orku frá fullvissunni um tilvist Bræðralagsins. Við munum hjálpa þeim ósýnilega, við munum finna bækur sem þeir þarfnast, Við munum sameina þá í voninni um hina fjarlægu heima, Við munum efla traust þeirra og við munum finna fyrir þá kærleiksríkt hjarta að því tilskyldu að þeir hafi rekið burt snáka sína og sporðdreka. Hér hafið þið komist í kynni við mjög mikilvægan þátt í lífi Okkar.

Þið getið ímyndað ykkur gleði Okkar þegar við finnum samverkamenn sem eru verðugir trausts Okkar. Leitandi andi þeirra óttast ekki prófraunir. Aðeins hræsnarar óttast að ljósgeislinn geti upplýst hin dimmu djúp tilveru þeirra. Opin hjörtu mynda fagurt hálsmen fyrir æðri heimana.

Fræðarinn hafnar ekki skyldum sínum. Allur dagurinn fer í að sinna skyldunum. Sá sem hræðist þessi orð ætti ekki að hugsa um Bræðralagið.

28. Urusvati hefur dáðst að blómum Okkar, í sumum tegundum höfum Við vissulega náð fullkomnun. Mikilvægust er notkun sálrænnar orku, þar sem hún stuðlar að vexti jurtanna. Við vökvum einnig með sóda og á þann hátt vinnum við bæði frá innri og ytri hlið. Hægt er að gera víðtækar tilraunir með sálræna orku, en það verður að gera slíkt á skipulegan hátt og muna að þörf er á miklum tíma og þolinmæði. Margar tilraunir sem skiluðu góðum árangri í byrjun hafa menn eyðilagt með skorti á þolinmæði. Að auki má benda á að sveiflutíðni Okkar er samræmd og vegna þess hve sálræn orka Okkar er samhæfð, geta allir meistararnir komið í stað hvers annars.

Menn skilja ekki að hvaða leyti þessar rannsóknir komi þeim að notum. Sálræna orku verður bæði að gefa og þiggja. Það getur verið þreytandi að senda þessa orku til fólks, en þegar jurtir eiga í hlut kemur ekkert óþægilegt endurkast. Gleymum ekki heldur að Við höfum nána samvinnu við fíngerða heiminn og það forðabúr getur auðveldlega endurnýjað orkubirgðir Okkar.

Margir eiga erfitt með að ímynda sér hvernig samvinna getur átt sér stað milli vera á þremur mismunandi vitundarstigum, en í reynd er þetta ekki svo flókið. Samstarfsmenn í fíngerðum líkama eru oft sýnilegir. Í þessu skyni er ekki þörf fyrir neitt útfrymi, í þess stað eru notuð ákveðin efnasambönd sem auðvelda þéttingu fíngerða líkamans. Á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar sáu margir sýnir, en enginn gerði sér grein fyrir því að ástæðuna var að finna í sérstökum efnafræðilegum hvötum. Aðstæður eru svo misjafnar að oft getur eitthvað sem veldur niðurbroti á efnissviðinu haft gagnstæða verkun í fíngerða heiminum.

Urusvati varð undrandi þegar hún sá að blóm sem vaxa á láglendi þrifust vel í þeirri miklu hæð sem Við búum í. Ályktið ekki að slík loftlagsaðlögun gerist hratt. Urusvati hefur hitt hinn tíbeska vin sinn í blómagörðum Okkar. Við höfum einnig margar plöntur inni í byggingum Okkar. Við margar tilraunir er nauðsynlegt að nota lifandi efnivið blómanna. Við ráðleggjum einnig að menn tali meira við blómin, því þeir straumar eru mjög nátengdir fíngerða heiminum. Við beinum mætti okkar til alls í tilverunni. Með því móti fáum við þá lífrænu einingu sem Ég hef oft lagt ríka áherslu á.

29. Urusvati metur hjálp Okkar mikils. Sá sem metur eitthvað mikils gætir þess einnig vel. Öll sönn samvinna hefur fyrst og fremst þörf fyrir varfærið viðhorf. Menn ættu ekki að atyrða Helgivaldssamvinnu af skeytingarleysi, en hlýða með virðingu á rödd hinna eldri. Jafnvel þeir sem af fákunnáttu geta ekki gert sér grein fyrir tilvist Bræðralagsins, geta samt viðurkennt tilvist yfirjarðneskra radda. En þeir sem geta viðurkennt Bræðralagið innra með sér ættu að skilja að allt léttúðugt hugarflökt truflar flæðið í hugsun fræðarans. Sérhvert óviðeigandi orð veldur einhvers staðar brenglun. Sérhver slitinn þráður getur hringast upp í snöru. Þetta er ekki ætlað sem hótun, heldur er aðeins sett fram af löngun til að leiða fram betri árangur.

Rétt er að muna eftir visku Indlands til forna, þar sem skyldan var lykilatriði í uppbyggingu lífsins. Hugtakið um skyldu hefur eina rót og hún verkar í samræmi við það í öllum sínum mörgu greinum. Hugtakið um fræðarann er Okkur heilagt. Sérhvert Okkar hefur átt sinn fræðara, og þrepin í þessum stiga eru óteljandi. Það er jafnvel ekki nein fullkomnun að vera höfuðplánetu, því það getur ekki verið um neina endanlega fullkomnun að ræða. Í þessu fellst gleði. Ef hin ósegjanlegu nöfn hinna æðri meistara væru sögð, ylli það gríðarlegum skaða. Þannig svik gætu haft víðtækar afleiðingar. Það gætu orðið sýnilegar og ósýnilegar sprengingar. Menn ættu að venja sig á meiri umhyggju í viðhorfi sínu gagnvart Helgivaldinu.

Þeir tímar voru eitt sinn er menn vissu hvernig átti að tjá hugtakið um hið æðsta á sem bestan hátt, en nú er enginn skilningur á hinni miklu þjónustu. Menn gætu ætlað að slíkt væri ekki mögulegt, þar sem fíngerði heimurinn er að nálgast og svo oft er um Okkur rætt. En hyldýpi myrkursins minnkar ekki þegar hugtakið um fræðarann er efað. Þið hafið oft heyrt, að það eru þeir sem vita um Bræðralagið sem enn tala um það af óvirðingu, en slíku tali fylgir eyðilegging.

Menn þröngva upp á Okkur sínum eigin leiðum til að hjálpa, en slík þvingun myndar brot í straumunum. Umhyggjusöm húsmóðir harmar alla sóun. Það ylli mikilli gleði ef þeir sem vita um Helgivaldið myndu af sjálfsdáðum koma með sína eigin lampa.

Frjáls vilji er hreyfiafl Okkar.

30. Urusvati er kunnugt um hinar ýmsu birtingarmyndir ljóssins. Sjái menn ljósblossa er það vísbending um andlega næmni augans. Sjálfir ljósblossarnir hafa enga sérstaka merkingu, en þeir eru sem flögg á leiðinni til Okkar. Menn taka ekki eftir norðurljósunum á lægsta birtustigi sínu. Sambærilega eru fyrstu glampar andans mörgum ekki skýrir. Hægt er að sjá að smáir bjartir neistar geta brotist út í loga og myndað ljós sem minnir á regnboga. Þannig lifnar fögur ára umhverfis fólk. Það má taka fram að þessi ljós eru einstaklega sýnileg í aðsetri Okkar. Þeim hefur verið safnað saman frá fornu fari og sé þess óskað, er hægt að láta þau blossa fram með miklum ljóma. Í þjóðsögum er minnst á menn sem gátu umvafið sig björtu ljósi. Þannig er hægt að umvefja sig eldlegum krafti sé þess óskað.

Menn verða að venjast möguleikanum á slíkum fyrirbrigðum. Nú á tímum geta sumir greint árur, en aðrir nudda augun og halda að eitthvað hafi komið fyrir sjónina. Slíkur ljómi um hábjartan dag líkist oft einhverskonar mistri. Menn skynja þetta ljós á mismunandi hátt. Meðal Okkar er þessi hæfni orðin svo mikil að Við getum lesið við birtuna frá Okkar eigin ljósi.

Hafa verður í huga að hugtakið myrkur hverfur smátt og smátt, vegna þess að menn eru umvafðir eldum, geislum, ljóssúlum og óteljandi leiftrandi blossum, sem eru sýnilegir hvort sem er með opnum eða lokuðum augum. Það er rétt, myrkrið hverfur. Rökkrið ríkir aðeins á lægri sviðum fíngerða heimsins, vegna þess að íbúar þeirra vita ekki hvernig tendra á ljósið. Sú hæfni byggist á hugsun og hugsun fæðir af sér ljós. Vissulega, hugsuður sendir út skipunina: „Verði ljós!“ Þannig eru hin miklu sannindi kennd, þó menn líti aðeins á þau sem ævintýri.

Aðeins í anda og með persónulegri reynslu er unnt að meðtaka flest náttúruleg lögmál. Ekki er auðvelt að sigrast á öllum mótstöðuöflum umhverfisins. Aðsetur Okkar er svo máttugt vegna þess að í því finnst ekki nein spilling. Vilji Okkar allra er sameinaður í einn máttugan straum. Aflvaki einingar eflir allar orkutegundir. Ekki galdrar, heldur hreinn vilji sendir út í heiminn boðin: „Verði ljós!“

Aðsetur Okkar er vottur um sigur einingar.

31. Urusvati skilur réttilega ástæðu þess að útlit Okkar hefur haldist óbreytt um langan tíma. Samskipti við fíngerða heiminn gefur sérstakan eiginleika sem tilheyrir fíngerða heiminum. Þar breytist útlit manna ekki nema sérstök löngun sé til þess. Hugsun skapar form í fíngerða heiminum. Hægt er að kalla fram hvaða mynd sem er úr djúpi aldanna og lagfæra hana í ímynduninni, ef ímyndunaraflið er nægilega þroskað. Auk þessara áhrifa fíngerða heimsins er einingin, sem er mjög ríkjandi í aðsetri Okkar. Það er til hjálpar við alla þætti daglegs lífs. Það skapar hagstætt andrúmsloft og mótar eldlega vitund.

Þið hafið heyrt að bræður Okkar urðu veikir af því að komast í snertingu við jarðneskt ósamræmi og þjáðust oft vegna langvarandi misklíðar manna. Þetta er ástæðan fyrir því að Við komum svo sjaldan til borga ykkar og dveljum þar aðeins um skamma hríð. Hægt er að finna staði í náttúrunni þar sem straumar hnignunar eru ekki eins sterkir. Í Frakklandi og Englandi eru skógar nálægt borgum þar sem finna má nægilega mikið af hreinu andrúmslofti sem er Okkur bráðnauðsynlegt. Undrist ekki að Við, með Okkar samþjöppuðu orku, þörfnumst hreins lofts. Ályktið samt ekki að Við séum ekki nægilega sterkir til að standast útgeislun mannfjölda. Við getum svo sannarlega eflt orku Okkar gríðarlega, en í öllu ber að viðhafa aðgát og gera aðeins það sem er við hæfi.

Þið hafið lesið um hve ára vissra landeigenda var þjakandi fyrir bróður Okkar. Hann gat að sjálfsögðu hrakið þá á brott með einum blossa af orku sinni, en slíkt athæfi var ekki hluti af hans verkefni. Í mörgum tilfellum verðum Við að hagnýta geislaorkuna á viðeigandi hátt þannig að hún verði að sem mestu gagni. Notkun við hæfi skilgreinir markmið Bræðralagsins. Það felur í sér uppfyllingu lögmála Okkar að verjast árásum myrkraaflanna, að verja þá sem hafa nýtt alla orku sína, og að leita allra leiða til að efla það sem vinnur heildinni til góðs.

32. Urusvati hefur fengið að vita að til eru ákveðin efni sem viðhalda jafnvægi og gefa lífkerfinu langlífi. Ég mun ekki upplýsa nákvæma samsetningu þessa efnis, því það getur verið hættulegt efnislegu lífi. Mikil geislavirkni er leyfileg á fíngerða sviðinu, en getur eyðilagt efnislíkamann. Við jarðneskar aðstæður getur jafnvel valeriana verið of kraftmikið; Þess vegna er nauðsynlegt að geta greint tengslin milli mismunandi efna. Sem dæmi má nefna að við ákveðna tilraun tók Bróðir minn inn mjög sterkt eitur, sem hefði verið banvænt fyrir venjulegan mann. En þar sem líkami Bróður míns var orðinn nátengdur fíngerða sviðinu, hafði eitrið aðeins góð áhrif. Hægt er að nefna mörg dæmi um að banvænt eitur olli ekki dauða. Ástæðuna má rekja til sérstaks ástands lífkerfisins.

Hægt er að sjá að sérstakt efnislegt ástand verður til hjá mönnum, þegar þeir komast í snertingu við fíngerða heiminn án þess að gera sér grein fyrir því. Það er vissulega athyglisvert að slíkir menn vita oft ekkert um hina mismunandi heima; samt sem áður liggur hjá þeim hugmynd einhvers staðar í djúpum vitundarinnar sem ekki er hægt að tjá. Í slíkum tilfellum notum við oft andstöðutæknina til að vekja vitundina. Nauðsynlegt getur reynst að viðhafa ýktar athafnir til að vekja þessa svefngengla. Það getur einnig verið nauðsynlegt þegar fengist er við ýmsa atburði í heiminum.

Þið harmið hversu mikið skapgerðarstyrkur hefur hrakað frá því sem var á fyrri tímaskeiðum. Það er rétt og Við getum séð hversu mjög sálrænni orku hefur hnignað. Hún er ekki virkjuð til athafna og helst því í óvirku ástandi og þar sem engin núningsmótstaða er til að vekja eld hennar, glatar hún eldlegu eðli sínu. Þess vegna er aðsetur Okkar enn afskekkt og allar umræður um það virðast óraunverulegar. Harmið það ekki. Ég fullyrði að bardaginn sjálfur sé til vitnis um styrkleika Bræðralagsins. Mikill er bardaginn á þessum dögum Harmagedón.

Hlustum og leggjum eyrun við jörðu, þar sem spenna fer vaxandi.

33. Urusvati fagnar þegar hún sér að vitundarvíkkun er að verða hjá einstaklingi. Sannlega er hægt að gleðjast þegar slík fórn er færð heiminum. Ekki er unnt að líta á vitundarvíkkun sem persónulegan hagnað, því að í allri slíkri hreinsun fellst almenn gagnsemi. Heimurinn fagnar sérhverjum neista vitundarvíkkunar. Það er sönn hátíð.

Í vissum launhelgum var vitundarvíkkun líkt við vorkomuna. Enginn getur fylgst með því hvernig grasið vex, en öll hjörtu fagna þegar fyrstu blóm vorsins birtast. Á sama hátt er ekki unnt að greina öll smáatriðin í vexti vitundarinnar, en ummyndun einstaklingsins er augljós. Sá sem ummyndast gerir sér ekki grein fyrir því hvenær og hvernig endurnýjunin byrjaði. Oft tiltekur hann léttvæga atburði, en lítur fram hjá því mikilvægasta sem hafði áhrif á hann.

Það er ekki af tilviljun að rætt er um þriggja og sjö ára tímabil, því aðeins er unnt að greina breytingar í vitundinni yfir svo löng tímabil. En Við og þeir sem eru Okkur nátengdir getum greint styttri vaxtartímabil í vitundinni. Garðyrkjumaðurinn þekkir sín eigin blóm best. Við fylgjumst einnig með vexti vitundarinnar hjá þeim sem eru Okkur nákomnir. Ástæður slíkra athugana eru margvíslegar.

Við getum staðfest að mikill árangur hefur komið fram hjá öllum sem hafa nálgast Okkur á árangursríkan hátt gegnum aldirnar. Við vitum hvernig á að vera þakklát, eiginleiki þakklætis er ómissandi í aðsetri Okkar. Allt sem staðfestir Bræðralagið gefur góðan ávöxt. Öll aðstoð sem Okkur er veitt er mikils metin og allt umtal um Bræðralagið er varðveitt. Í aðsetri Okkar eru geymdar skrár um öll slík góðverk. Við viljum skrásetja öll vinsamleg bros og lærisveinar Okkar vita hvernig fagna á sérhverju góðviljuðu orði um Bræðralagið. Enginn getur kennt með valdi slíka geislandi gleði. Enginn getur fyrirskipað þakklæti. Aðeins víðtæk vitund getur gefið til kynna hvar unnt er að vinna meiri góðverk.

Venjulega vilja menn ekki ræða um vitundina, því framför er þeim erfið og það eru ekki margir sem halda áfram að afla þekkingar eftir að námsárum lýkur. Það ætti að ummynda allt lífið þannig að stöðugur lærdómur verði óumflýjanleg nauðsyn. Við fögnum sérhverri vitundarvakningu og Við skrásetjum sérhverja löngun til Bræðralagsins sem merki um árangur, jafnvel þótt það sé aðeins hugsun um hvernig á að beita sér eða hvernig vinna á að einingu.

34. Urusvati leitast við að nota hverja stund til að vinna heildinni til góðs; slíkur ásetningur fæðist í aðsetrinu, þar sem stundirnar eru ekki taldar. Er unnt að hugsa um klukkustundir á svo löngu æviskeiði? Við mælum ekki tímann í jarðneskum stundum, því það eru svo margar þarfir og hjálparbeiðnir frá öllum hlutum heimsins að ógerlegt er að deila vinnu Okkar niður eftir svo afstæðum mælieiningum. Við verðum að viðhalda vitund Okkar í mikilli spennu til að vera reiðubúnir hvenær sem er að senda vilja Okkar þangað sem hans er mest þörf. Vafalaust verðum Við ásökuð um að senda of mikla hjálp til óverðugra og of litla til þeirra sem verðskulda hana.

Þeir sem dæma eftir venjulegum viðmiðunum geta ekki greint orsakir og afleiðingar. Ég ræði ekki aðeins um spennu vinnunnar, heldur einnig um árvekni sem gerir það kleift að meta og ákveða á svipstundu hvaða andartak og hvaða athafna er mest þörf. Sérhvert ákall til hjálpar ber með sér fortíðaráhrif og ilm framtíðar. Það ætti að blanda saman þessum áhrifum í vitundinni og skilja merkingu ósamræmis. Við ættum ekki að veita hjálp þeim sem tilbúinn er til illverka, en verðum að hjálpa þeim sem þjást. Mótsagnir virðast valda ágreiningi, en þekking fortíðar gefur jafnvægi. Samt sem áður er engri hjálparbeiðni sem Okkur berst hafnað, því að með slíkri beiðni tjáir viðkomandi viðurkenningu sína á æðri heiminum og þeirri staðreynd að slíkur raunveruleiki sé til. Við hundsum ekki biðjandi rödd. Við höfnum ekki neinni bæn, en söfnum öllum gagnlegum hlutum í þeim tilgangi að veita viðeigandi hjálp. Í þessu felst sérstök árvekni.

Við vinnum sífellt og verðum að ákvarða ábyrgð Okkar og hvar hjálpar er mest þörf. Systir okkar frá ómunatíð hefur haft þann hæfileika að leitast stöðugt við að vinna þau verk sem mest þörf er á. Slíka hæfni er ekki unnt að öðlast á skömmum tíma, en á hana verður að reyna við margvíslegar aðstæður til að hún geti orðið að uppsprettu gleði. Þessi uppspretta gefur lausn frá pirringi, því hugsun um óendanlega vinnu veldur viðleitni sem væntir engra launa. Engri hugsun er beint til fortíðar og í fluginu fram á við þurrkast út allar afleiðingar fortíðarinnar. Þannig örvar hringiða geimsins árvekni og mun ekki trufla gleði hinnar víðtæku vitundar.

35. Urusvati man hinar mörgu breytingar í langri röð æviskeiða sinna. Þessar minningar eru ekki byrði, heldur auðga vitund hennar. Rétt viðhorf gagnvart fyrri æviskeiðum er mjög sjaldgæft. Oftast er sú raunin að minningar um fyrri æviskeið hvetja ekki til framfara, en hlekkja menn við útbrunnar leifar fortíðar. Þess vegna er sjaldgæft að mönnum sé leyft að fá vitneskju um fyrri æviskeið sín. Vitund nútímans getur ekki tekið við of miklu. Menn geta einfaldlega ekki skilið hvers vegna æviskeið virðingar og erfiðrar vinnu skiptast á. Sú ímynd að hafa verið kóngur eða drottning hindrar skynjun mannsins, að enn sé frekari fullkomnunar þörf. Hin jarðneska vitund getur ekki skilið hve mörg æviskeið erfiðrar vinnu getur eflt vitundina umfram það sem gerist hjá mörgum þjóðhöfðingjum þessa heims. Það er enn dýrmætara ef skilningur á upphafningu andans vex á meðan á efnislegri jarðvist stendur.

Margir fá vitneskju um eitt af virðulegum æviskeiðum sínum og verða drambinu að bráð. Það er jafnvel enn verra ef menn lesa úr ósönnum frásögnum ákveðin fjarstæðukennd skapgerðareinkenni og fara að líkja eftir þeim og gera þannig leið sína torveldari. Allar gamlar sálir hafa gengið í gegnum einhver virðuleg æviskeið og öðlast þekkingu á hlutverki leiðtogans. Samt sem áður er sá eiginleiki ekki sá mikilvægasti af hinum mörgu eiginleikum sem menn þurfa að ávinna sér. Hinn ofsótti lærir meira en ofsækjendurnir og á öllum sviðum erfiðrar vinnu má gera fjölda uppgötvana. Margar prófraunir er að finna við öll vegamót. Ég ræði um þetta vegna þess að einnig Við höfum gengið í gegnum öll próf. Við höfum gleymt sársaukanum, þjáningarnar hafa umbreyst í gleði. Kvalarar okkar eru sjálfir að strita einhversstaðar og hefja sig upp með vinnu. Aðsetur Okkar gæti ekki staðist ef Okkur kæmi til hugar að ógna þeim sem hafa kvalið Okkur. Lögmál karma flæðir óaflátlega.

Við munum fyrri æviskeið Okkar. Við verðum að muna þau, ekki vegna Okkar sjálfra, heldur allra þeirra sem Við höfum hitt og heitið að gleyma ekki. Samfundir ferðalanga á hinum jarðnesku leiðum, leiða saman fólk af margvíslegum toga. Eftirvænting um komandi tíma, gleði samfundanna, sorg aðskilnaðarins – ekkert þessara mennsku tilfinninga hverfur. Þeir sem fögnuðu eða þjáðust saman gleyma því ekki öldum saman.

Urusvati man eftir mörgum samfundum. Tilfinningarnar sem þeir ollu eru enn lifandi eftir þúsundir ára. Slíkar minningar geta stuðlað að vitundarvíkkun. Eldar tilfinninganna ljóma í fullkominni friðhelgi. Jarðnesk orð geta ekki tjáð þær, en hjartað mun slá nákvæmlega eins og það gerði fyrir þúsundum ára. Þannig skín regnboginn aftur yfir Kristi alveg eins og hann gerði í eyðimörkinni. Á sama hátt lifir enn gleði Grikklands og hinn mikli norræni dýrlingur Sergius á leið hjá. Margir samfundir eiga sér stað í fíngerða heiminum og einnig í þessu landi sem við nú dveljum í.

Í innra lífi Bræðralagsins gleymist aldrei þessi lifandi tilfinning, því að aðsetur þekkingarinnar getur ekki þrifist án tilfinninga. Hugsun um þekkingu verður einnig hugsun um hina æðstu tilfinningu. Án hennar væru ekki til neinir píslarvottar, dýrlingahetjur né sigurvegarar.

Við eigum myndir og helga hluti sem hafa þann tilgang að efla hjálp Okkar.

36. Urusvati skilur gildi rósemi sem nauðsyn í athöfn. Menn finna margar leiðir til að útskýra þennan eiginleika. Sumir halda að rósemi geti aðeins orðið til með viljabeitingu. Aðrir sjá rósemi sem sannan innri eiginleika, enn aðrir segja að ójöfn byrjun valdi ójöfnum endi, eða að rósemin byggist á aðferðum vinnunnar. Allar þessar athugasemdir hafa í sér hluta sannleikans, en grundvallaratriðið gleymist oft, sem er gjöf reynslunnar. Óreyndur sjómaður er kvíðinn þegar hann leggur út, en eftir tíu sjóferðir gerir hann samferðamenn sína undrandi með ró sinni.

Athafnir Okkar eru fullar rósemi. Eins og reyndir sæfarar höfum Við siglt í gegnum fjölda stormviðra og vitum hvernig á að standast þau. Hjá Okkur er það daglegt verkefni að vinna bug á óskapnaði og myrkri. Dagskipunin er látlaus vinna, en ekki óvæntur bardagi. Athöfnum ætti að fylgja meðvituð rósemi. Þetta er ekki eins og eiturlyfjamók, heldur skynsamleg og vel reynd notkun krafta sem hæfa hverju tilefni. Margt er sagt um rósemi og oft er henni líkt við frosið ástand. Hvílíkur misskilningur! Hugtakið Nirvana er misskilið á svipaðan hátt.

Rósemi í athöfn er æðsta þenslan, líkt og glampi eldingar eða varnarsverð. Rósemi er ekki svefn eða gröf; í henni verða til skapandi hugmyndir. Minnumst þess að aðsetur Okkar er mettað rósemi. Þessi þensla er ósýnileg mönnum, því þeir greina hana ekki. Ótal tilraunir hafa leitt í ljós að hægt er að brosa, vinna og safna orku í slíkri rósemi.

37. Urusvati geymir óttaleysi í hjarta sínu. Við fullyrðum að þessa eiginleika sé aflað með trú og langvarandi tilraunum. Upasika (Helena Petrovna Blavatsky) er dæmi um algjört óttaleysi í lífinu. Hún var hugrökk við allar kringumstæður og enginn ótti gat komist að. Líf Upasika var fullt af óttatilefnum. Það var sorglegt að sjá hve margir ofsækjendur komu saman, hve nafn hennar var rægt. Hún átti ekkert og ásakendur ógnuðu henni frá öllum hliðum. Sannlega var hún prófsteinn óttaleysis! Hægt er að tiltaka mörg dæmi í gegnum aldirnar. Sérhver Okkar hefur oft haft ástæðu til að sýna slíkt óttaleysi.

Ekki ætla að Við séum, í jarðnesku lífi Okkar, varin gegn öllum árásum myrkraaflanna. Þeir sem taka að sér jarðnesk verkefni, vinna þau við jarðneskar aðstæður. Menn halda oftast að Við dveljum í öryggi og hugsa um Okkur sem yfirnáttúrulegar verur. Í afstæðum skilningi getum Við sigrast á mörgu, en þessi bardagi er raunverulegur. Við erum sigursæl vegna þess að myrkrið getur ekki sigrast á Helgivaldi ljóssins. Þegar ein systir Okkar kallar upp „hve hræðilegt!“ þá er það ekki af ótta, heldur einfaldlega af skilningi á hinni miklu spennu.

Við ferðumst um fjarlæga heima þar sem við lærum margar lexíur um óttaleysi. Hið framandi andrúmsloft plánetnanna getur haft áhrif á hjarta aðkomumannsins. Systir Okkar Urusvati þekkir áhrifin af þessum löngu ferðalögum. Hún þekkir þá einstöku erfiðu tilfinningu sem fylgir endurkomu fíngerða líkamans. Það koma alltaf upp vandamál sem þarf að glíma við og þörf er á miklu hugrekki við þessa reynslu. Skoða ætti heimildir Okkar um þessi langflug til að gera sér grein fyrir því hve mikils hugrekkis þau krefjast.

Hjá mönnum á Jörðinni hefur vaknað löngun til að fljúga. Sumir minnast drauma sinna um dirfsku, aðrir fljúga núna sem fuglar, en sjálf viðleitnin til að sigrast á háloftunum hefur sett mark sitt á núverandi tímaskeið. Fyrir löngu var sagt fyrir um járnfuglinn, sú forspá skilgreinir hina nýju tíma.

38. Urusvati metur mikils hugsanir um Heimsmóðurina. Kvennahreyfingar hafa sérstakt gildi fyrir nánustu framtíð. Það ætti að líta á þessar hreyfingar á þann hátt, að þær séu að móta undirstöður réttlætis en stefni ekki að yfirburðum. Mikið hefur verið rætt um rétt viðmið og jafnvægi; það er einmitt til að koma þessari meginreglu í framkvæmd að nauðsynlegt er að efla full réttindi kvenna. Menn skyldu ekki ætla að slíkt verði eingöngu konum til hagsbóta; það mun stuðla að alheimsjafnvægi og er nauðsynlegt fyrir samstillta framþróun.

Við vinnum að því að koma á framfæri aðferðum til að koma á jafnvægi, en það er við mikla mótspyrnu að glíma. Fornar erfðaeigindir eru enn til staðar meðal allra þjóða. Það ætti samt ekki að dæma eftir þjóðerni, heldur kafa rakleitt niður í vef flókinna persónulegra tengsla. Það er til baga að konurnar sjálfar aðstoða ekki alltaf við að breyta þessum aðstæðum. Þess vegna metum Við enn meira vinnu systra Okkar. Þær fórna löngum ferðum sem þær meta svo mikils, en stunda með þrautseigju heimsóknir til fjölskyldna, og eru óþreytandi við að ræða við fólk og stjórna umræðum sem oft eru erfiðar og jafnvel leiðinlegar.

Systir Okkar rifja upp hve oft hún hefur, í fíngerða líkamanum, talað við algerlega ókunnar konur og hve oft hún hefur orðið vitni að deilum og misskilningi. En fræðslustarfið heldur stöðugt áfram. Heilar þjóðir leita eftir þekkingu og með þekkingu munu full réttindi fást. Við getum sýnt heimildir Okkar um kvennahreyfingar og árangurinn er uppörvandi. Hugsum ekki á vanabundinn hátt. Nú á tímum hefur heimurinn farið út fyrir mörk sín, skipið hefur villst af leið, og hin kosmíska hringiða snýst með auknum hraða. Við erum við stýrið, en aðrir sjómenn ættu einnig að leggja sitt af mörkum. Ógnum Harmagedón er hægt að umbreyta í sigur, en fyrst þurfa menn að gera sér grein fyrir því hvað Harmagedón er og skilja merkingu Helgivalds. Hlutverk kvenna í atvinnulífi heimsins hefur aukist. Aldrei áður hafa svo margar konur verið fengnar til æðstu embætta. Ráðleggingar Okkar beinast til fjarlægra staða.

39. Urusvati kennir í brjósti um fólk sem hafnar Bræðralaginu. Við vorkennum öllum sem leyfa ekki sjálfum sér að öðlast þekkingu á Virki heimsins. Hafi einhver í hjarta sínu sterka vitund um að einhvers staðar sé unnið að hjálp mannkynsins, þá er hann um leið þátttakandi í lífgefandi hugsun. Í byrjun er hún sem draumur, en stundum blossar hún upp eins og elding. Hver blossi ber vitni um helga orku. Menn ættu ekki að berjast gegn því að þessi sannindi verði viðurkennd.

Sérhver sem ber fram orðið „Bræðralag“ byggir brú til framtíðar. Menn verða að átta sig á því að öll viðurkenning og allur rógur um Bræðralagið berst til Okkar. Eins og alda í straumi sem nær umhverfis allan heiminn nær hljómur orðsins „Bræðralag“ til aðseturs Okkar. Gleymið ekki að orðið „Bræðralag“ heyrist meðal Okkar. Þetta orð dregur til sín samhljóm eins og segull. Hægt er að harma þá sem rægja Bræðralagið. Þeir vilja ekki skilja hverskonar mátt þeir hafa snert. Í sínu illgjarna trúleysi munu þeir segja; „Bræðralagið er ekki til“ og halda því fram að þeir hafi ekki séð Bræðralagið. Þeir hafa ekki heldur séð mikið af heiminum, en er það nokkur sönnun fyrir því að hann sé ekki til? Þar sem lastararnir geta ekki sannað að Bræðralagið sé ekki til, verða þeir pirraðir í hvert sinn sem minnst er á aðsetur Okkar.

Það er betra að tala við lastarana en að skilja þá eftir í feni guðlastsins. Sannlega er sagt: „Þess verður krafist af ykkur að þið gerið grein fyrir ekki aðeins sögðum illviljuðum orðum, heldur einnig margskonar orðum sem ekki voru sögð.“ Mörg ummæli frá fornum tímum kenna mannkyninu einföld sannindi, en þau eru jafn ný í dag og þau voru áður fyrr. Sýnum varfærni við meðhöndlun á hugtakinu Bræðralag og gleymum ekki þeim fíngerðu tækjum sem nema hvert orð um Bræðralagið.

Við skulum ekki vera eitt þeirra sem svíkja af ásettu ráði eða óvart. Það er sérstakur sjúkdómur sem fær þann sem örvæntir til að ákalla hinn æðsta mátt með guðlasti. Þá sem eru þannig sjúkir er ekki hægt að setja í sama flokk og þá sem guðlasta af illvilja og eru ekki örvæntingarfullir, en gleðjast yfir eyðingu hinna bestu drauma mannkynsins. Þeir munu ekki fá nein merki frá Bræðralaginu. Sköpunargáfa þeirra mun ekki hefjast upp af fögrum hugsunum. Þess vegna vorkennum við öllum þeim sem hafna Bræðralaginu.

40. Urusvati tekur nærri sér allt sem gerist í heiminum. Öllum athöfnum má skipta í tvo flokka, einlægar og óeinlægar. Mannkynið ætti að muna þessa skiptingu, sérstaklega nú á tímum. Einlægar skynjanir, þótt þær séu misjafnar, er unnt að sameina, en óeinlægni er eining hinna myrku afla og meðal þeirra finnast engir samverkamenn Bræðralagsins. Ef Við rifjum upp öll fyrri æviskeið bræðra Okkar, getum Við ekki fundið eina einustu óeinlæga athöfn. Athafnir hins logandi hjarta leiddi þá til brennunnar, til krossins og til allra þeirra pyntinga sem fundnar hafa verið upp af hinum illgjörnu og hinum fáfróðu.

Við sneiðum ekki hjá lífinu. Þegar Við komum fram í efnislegri birtingu er ekki hægt að aðgreina Okkur frá öðru fólki. Urusvati getur borið vitni um að þegar Djwal Khul kom til að bjóða hana velkomna var hann í engu frábrugðinn öðrum lömum. Urusvati skynjaði samstundis eitthvað óvenjulegt, en sú tilfinning hefði eins getað verið vegna yfirmanns klaustursins. Þannig hafa allir Bræður og samverkamenn hið sama jarðneska yfirbragð. En þrátt fyrir venjulegt útlit skín einlæg hlýja þeirra úr hverju augnatilliti og hverju brosi. Þessa hjartans einlægni er hægt að nefna með öðru vísindalegra heiti, en Við viljum leggja áherslu á hina mennsku hlið aðseturs Okkar.

Nokkur nöfn Okkar má finna í bókum. Þau eru mjög hátíðleg. Hægt er að nefna Manú, eða Bodhisattvana. Hafið í huga að sumar þjóðir þarfnast háleitra nafna, en Við erum einfaldlega þjónar ljóssins og Við virðum Helgivaldið. Fyrsta boð Okkar er að öðlast fullkomnun, en ekki að öðlast nafnbætur eða tignarstöður. Hvað Helgivaldið áhrærir, ætti ekki að skilja hugtökin „nafnbætur og tignarstöður“ á jarðneskan hátt, þar sem menn tjá áhuga sinn á alls kyns tignarstöðum og sóma. Við þjónum hinu óendanlega Helgivaldi. Við þiggjum stöðu leiðtoga, ekki sem tignarstöðu, heldur sem ófrávíkjanlega nauðsyn. Þannig ábyrgð ætti að vera grundvöllur allra mennskra samfélaga. Við leggjum ekki neitt mikilvægi í nafnbætur, því að í öllum Okkar mismunandi æviskeiðum hefur Okkur veist margvíslegur sómi og nafnbætur á mörgum tungumálum. Margar þessar nafnbætur hafa þurrkast algerlega úr minni mannkynsins. Hver getur nefnt hina glæstu stjórnendur Atlantis? Meðal mýranna í Tsaidam er mögulegt að sjá glæsilegar myndir fornra borga. Urusvati minnist bygginganna þar og styttunnar af nautinu mikla. Hafið hugfast að í gegnum öll æviskeið Okkar höfum Við varðveitt minningar um mikla atburði og skráð þá í skjalasöfn Bræðralagsins. Lát þá sem vilja fá hugmynd um innra líf Okkar safna saman hinum mörgu smáatriðum sem mynda lögmál aðseturs Okkar.

41. Urusvati veit hvernig standast á fjandsamlega strauma. Þessi hæfni verður ekki til að ástæðulausu né án fyrri reynslu. Fyrst verða menn að þekkja æðri heiminn, án þess þó að sniðganga jarðneskt líf. Fjandsamlegir straumar geta birst á margvíslegan hátt, til dæmis sem sálrænar truflanir eða óvenjuleg veikindi og veraldleg vandamál geta komið upp sem krefjast viturlegrar lausnar. Þannig læra menn skarpskyggni á öllum sviðum.

Hafa þarf í huga að straumar utan úr geimnum hafa áhrif á sálarlíf heilla þjóða og mynda ný afbrigði sjúkdóma. Óhagstæðir straumar geta einnig valdið óhöppum í daglegu lífi. Þegar fengist er við straumana er nauðsynlegt að forðast hræsni, hjátrú og hugleysi. Allt hik gefur kraftinum í iðuhvirfli óskapnaðarins færi á að ná yfirhöndinni. Við fögnum sérstaklega jafnvæginu sem ávinnst með víðtækri og margvíslegri reynslu í jarðnesku lífi. Karma getur ekki náð valdi á þeim sem tekur framförum á þann hátt. Sú hugsun sem byggist á þekkingu á samsvörun heimanna fær mátt sinn frá þeim.

Sérhver samverkamaður Bræðralagsins kemst í nána snertingu við fíngerða heiminn. Í þeim heimi eru mörg virki Okkar. Þú hefur nú þegar heyrt nöfn þeirra, þú hefur heyrt um hið undursamlega tré og um byggingar gerðar úr hugsunum. Hafa verður skýran skilning á þessum aðstæðum í þeim tilgangi að beina för sinni í átt til Dokyood. Hugsun sem ekki er myrkvuð af efa mun vísa veginn til aðsetra Okkar í fíngerða heiminum. Aðsetur Helgivaldsins í Himalajafjöllum er í stöðugu sambandi við aðsetrin í fíngerða heiminum og þrumur hins jarðneska bardaga enduróma þar. Menn kæra sig ekki um að skilja þessa samsvörun, þess vegna er Harmagedón fyrir þeim aðeins jarðneskt stríð milli fólks, en þá er mikilvægasti þáttur Harmagedón misskilinn. Hvernig er hægt að taka þátt í einhverju ef aðeins lítill hluti þess sem er að gerast er þekktur? Bardaginn sem geisar í fíngerða heiminum er mun illskeyttari en sá sem háður er á Jörðinni. Vissulega endurómar margt af bardaga fíngerða heimsins á Jörðinni. Oft reynir heimur Okkar að vara menn við þessari skelfilegu hættu, en án árangurs. Einn bræðra Okkar var vanur að segja: „Látum fólk vita enn einu sinni, en hve erfitt er að tala fyrir daufum eyrum.“ Aðvaranir Þeirra eru orð réttlætis og samúðar.

Ef vart verður við óskiljanlega syfju, gæti það verið til marks um samvinnu við fjarlæga heima eða samvinnu við máttarvöld fíngerða heimsins. Tökum með vakandi athygli eftir viðbrögðum líkamans. Ekki er mögulegt að hugsa um léttvæga atburði þegar eitthvað mikilvægt á sér stað. Það er eingöngu fáviska sem veldur því að fyrirmæli Okkar eru virt að vettugi. En því meiri er gleðin þegar ekki aðeins Bræðralagið er skilið, heldur einnig tengsl þess við fíngerða heiminn.

42. Urusvati hefur þroskað tónlistarhæfileika sína frábærlega. Þessi færni hefur fengist með mikilli vinnu á fyrri æviskeiðum. Samkvæmt kenningum Platós ætti ekki að líta á tónlist í þröngum skilningi tónlistarinnar einnar, heldur sem hluta af öllum samræmisfullum listgreinum. Í söng, ljóðlist, málaralist, höggmyndalist, byggingarlist, framsögn og að síðustu í öllum birtingarmyndum hljóðs, er tónlistarhæfileiki tjáður. Í Grikklandi til forna var haldin athöfn helguð öllum listagyðjunum. Harmleikir, dans og öll háttbundin hreyfing þjónaði samræmi alheimsins. Mikið er rætt um fegurð, en lítill skilningur er á mikilvægi samræmis. Fegurð er upplífgandi hugtak og sérhver fórn til fegurðar er fórn til eflingar jafnvægis í alheiminum. Sérhver sem tjáir tónlist, fórnar, ekki fyrir sjálfan sig, heldur fyrir aðra, fyrir mannkynið, fyrir alheiminn.

Fullkomnun hugsunar er tjáning hinnar fegurstu tónlistargáfu. Æðsti hrynjandin er besta forvörnin, hrein brú til æðstu heima. Þess vegna leggjum Við áherslu á fegurð í aðsetri Okkar. Urusvati hefur tekið eftir því að tónlist himnanna einkennist af samræmdri hrynjandi. Það er einmitt þessi eiginleiki sem færir mannkyninu innblástur. Menn hugsa yfirleitt ekki um uppsprettur andagiftar, en ef þeir gerðu það myndu þeir hjálpa Okkur mikið.

Þið vitið um hin sérstöku hljóðfæri sem eru í Okkar eigu. Urusvati hefur heyrt í þeim. Hinir fíngerðu tónskalar og hljómfall systur Oriole er sem hin æðsta hljómkviða. Oft hefur þannig söngur fært heiminum frið og jafnvel þjónar myrkursins hafa hörfað fyrir hljómum hans. Nauðsynlegt er að þroska tónlistarhæfni sína með öllum tiltækum ráðum.

Tilfinning hjartans skynjast ekki í orðunum sem slíkum heldur í hljómi þeirra. Í samhljómi getur ekki verið um neinn pirring að ræða. Illska getur ekki staðist þar sem andinn upphefst. Það er ekki af tilviljun að hetjukvæðin voru sungin, ekki aðeins til að auðvelda minni, heldur einnig til að veita andagift. Hrynjandi og samhljómur ver okkur einnig gegn þreytu.

Hæfileika til tónlistar og hrynjandi ætti að þroska allt frá barnæsku.

43. Í hinum mörgu æviskeiðum hefur Urusvati ávallt sóst eftir að komast til fjallanna. Hún var nefnd „Fjallafugl“ af læknum, vegna sinnar djúpstæðu löngunar til fjallanna fögru, jafnvel þegar hún átti við heilsuleysi að stríða. Með þessum flugferðum andans sýndi hún fram á óvenjulega hollustu við Bræðralagið. Sérhvert jarðneskt fjall minnti hana á fjöllin Okkar. Hvert afrek benti á leiðina til Okkar.

Fjallaloftið er hollt fyrir sum hjörtu og minnir einnig á hæðina yfir tíu þúsund fetum þar sem eldur og loft hreinsa geiminn, ekki aðeins efnislega, heldur einnig hið innra. Þannig sameinast efnislegar og andlegar þarfir. Hjörtu sem hafa skilið þetta munu leita til fjallanna, vegna þess að innri þekking þeirra opinberar fyrir þeim hin gagnlegu svið. Allir, alls staðar, sem unna Bræðralaginu, munu sækjast eftir að koma til Okkar.

Einnig Við sækjumst eftir að komast til sviðanna þar sem Við dvöldum áður. Við deilum anda okkar víða. Við sendum örvar Okkar með sendiboðum og staðgenglum. Sumum staðgenglum Okkar höfum Við treyst fyrir leiðtogahlutverki í fjarlægu heimunum. Slíkt er erfitt að útskýra með jarðneskum orðum.

Mannleg þekking getur ekki náð yfir alla þætti andans. Á Jörðinni hafa menn jafnvel þekkingu á andsetu, en það er yfirleitt ekki með réttum skilningi. Tvíburasálir eru þekktar, en skilningurinn á þeim jafn lítill og á andsetu. Samt sem áður er sagan til vitnis um þá sem hafa verið óaðskiljanlega tengdir í öllum sínum æviskeiðum. Við skulum útvíkka þessi einkenni út í óendanleikann og margt verður ljóst.

Gleymum ekki hve mismunandi aðstæður er að finna í fíngerða heiminum og í hinum fjarlægu heimum. Frá jarðnesku sjónarmiði er varla hægt að segja að líf sé að finna á sumum plánetum, en vísir að hugsun er samt til staðar og Við nefnum slíkan grunn „líf.“ Meðal fyrstu sáðmannanna sjáum við ljóssúlur leiðtogans, sem gæti verið bróðir Okkar eða staðgengill. Og þegar við höldum áfram inn á næsta svið, er mögulegt að staðgengill Okkar gangi á undan sem fyrirrennari Okkar, á sama hátt og Jóhannes skírari. Í fjarlægu heimunum, alveg eins og á Jörðinni, eru til staðar sendiboðar Okkar, fyrirrennarar og staðgenglar. Hægt er að skynja mikið net tenginga og jarðneskir samstarfsmenn Okkar ættu að vita að bræður þeirra starfa einnig í fjarlægum heimum.

Heilagt er orðið „Bræðralag“! Megi það ætíð hljóma hvenær sem fjöllin ber fyrir augu eða hugsað er um þau. Við virðum Helgivaldið í óendanleika geimsins.

Lát alla jarðneska vegfarendur vita að Við bíðum þeirra á öllum leiðum sem liggja til Okkar.

44. Urusvati býr yfir eldmóði. Hvað felst í þessum dýrmæta eiginleika? Allir hafa eitthvað af eldmóði í sér, en til eru einstaklega eldlegar vitundir sem geta auðveldlega haft samskipti við fjarlæga heima. Venjulega telja menn að eldlegt eðli birtist í reiði, pirringi og bræðiköstum, en slíkt eru aðeins jarðneskir eiginleikar og við skulum ekki reyna að sjá sannan eldmóð í þeim. Sannur eldmóður lýsir sér með samskiptum við ósýnilega heiminn og þátttöku í verkefnum Okkar.

Menn ættu ekki heldur að tengja eldmóð við miðilshæfileika. Þvert á móti, í eldmóði eru slímhimnurnar þurrar og útfrymi streymir ekki út. Hinn sérstaki eiginleiki, eldmóður, stendur einn og stakur. Með honum birtist hugrekki en enginn ótti. Menn sem haldnir eru eldmóði finna ekki til ótta og hræðast ekki neitt úr fíngerða heiminum.

Flestir óttast fyrirbrigði úr fíngerða heiminum og í því felst einangrun þeirra frá honum, þrátt fyrir að engin endurnýjun lífsins geti átt sér stað án þessa náttúrulega sambands. Við hvetjum fólk til óttaleysis með öllum ráðum. Við reynum að hvísla að fólki að óttinn sé skaðlegur og hve heimskulegt sé að láta hann ráða. Frá fornu fari hafa menn vanist því að óttast umskiptin sem menn nefna dauða. Það var til siðs að hræða menn með ógnum vítis, en þeim var ekki sagt frá því hvað fullkomnun merkir. Ekki er hægt að biðja menn um að vera hugrakka ef þeir vita ekki hvers vegna þeir eru á Jörðinni og hvert þeir munu fara þegar þeir öðlast lausn. Við felum samstarfsmönnum okkar það verkefni að segja mönnum eins oft og þeir geta frá eilífðinni miklu og að lífið sé samfellt og órofið.

Við erum ekki farin, því Við höfum dvalist áfram á Jörðinni að eigin ósk. Við höfum vitandi vits meðtekið jarðneskt líf. Við gætum verið farnir langt í burtu, en kusum að dvelja áfram meðal þeirra sem þjást. Vaka Okkar gæti ekki verið staðföst ef óttinn hefði áhrif á Okkur. En eins og læknarnir þá vitum Við hve miklum skaða óttinn veldur líkama mannsins.

Jarðneskir læknar ættu að skilgreina sérstakan sjúkdóm sem stafar af ótta. Lát þá reyna þenslu Okkar. Lát þá skilja hve óttinn er skaðlegur.

Ætlið ekki að eldmóður komi af sjálfu sér; nauðsynlegt er að rækta hann um mörg æviskeið.

45. Urusvati hefur sigrast á öllum jarðneskum ranghugmyndum um velferð og efnislegt öryggi. Hvorugt er til við jarðneskar aðstæður, en samt sem áður draga þessar hillingar fjölda manns á tálar. Þá dreymir um að byggja turna þar sem þeir gætu dvalist í fullkomnu öryggi. Þá dreymir um að safna auðæfum sem veittu þeim efnislegt öryggi, en gleyma því að þannig virki er aðeins að finna handan jarðneskra aðstæðna. Viljum við steypa fólki í örvæntingu? Það verður að vera ljóst að þá aðeins verður ósæranleiki mögulegur að allar hættur séu utan seilingar. Það er eingöngu með því að viðurkenna tilgangsleysi jarðneskra fjársjóða að unnt er að taka á móti arfleifð hinna varanlegu auðæfa. Við skulum ekki líta á þessa fræðslu sem táknrænan siðferðisboðskap. Aðeins með því að skoða þetta frá hreinu vísindalegu sjónarmiði er unnt að sannfærast um að sönn þekking á jarðneskum raunveruleika gefi mannkyninu vitundarfrelsi og fullkomnun.

Ekki ætla að eftir milljóna ára tilvist hafi mannkynið viðurkennt grundvöll tilverunnar. Nei, vissulega ekki, því það er nú, þegar bókahillurnar svigna undan þyngd bókanna, að mikil blekking leggur snöru fyrir mannkynið! Okkur er umhugað um að menn fái skilning á blekkingareðli hinna jarðnesku aðstæðna.

Enginn fræðarana hefur nokkru sinni boðað mannkyninu eigingirni og græðgi. Þessar eiturnöðrur eru ekki frá ljósinu komnar. Til eru svört bræðralög sem dreifa fræðslu um hina illræmdu leiðir eyðingar, hrörnunar og óeiningar.

Íhugum hina óþrotlegu baráttu sem Við leiðum gegn hinum myrku öflum. Menn gefa sér ekki tóm til að átta sig á að þeir eru umkringdir vel þjálfuðum eyðandi öflum og fáir tala um að þörf sé á að snúa sér til virki góðleikans. Við fáum ef til vill boð um að samsæri sé í undirbúningi gegn uppbyggjandi starfi, og Við hröðum Okkur að koma í veg fyrir það, en þið vitið sjálf hve fáir hlusta á Okkur. En það merkir aðeins að nota verður andstöðu sem verkfæri.

Við fögnum sérhverjum skilningi á sannleikanum.

46. Urusvati hefur lært list hins jafna bruna. Fyrir nokkru síðan ræddum Við um gagnsleysi lampa með flöktandi loga. Flöktandi logi orsakast annað hvort af olíuskorti eða slæmu ástandi lampans. Með endurbótum verður logi lampans stöðugur og allir verða þakklátir fyrir jafna birtu hans. Hið sama gildir um fullkomnun mannsins, eftir lægðir og hæðir kemst á stöðugleiki sem gefur máttugan ljóma, sem verða mun til aukinnar hjálpar fyrir mannkynið. Við fögnum jöfnum bruna, því þá er samvinna Okkar möguleg.

Ógerlegt er að hugsa sér aðsetur Okkar sem stað ósamræmis. Mannfjöldi getur haft mikil áhrif ef hann blandast við máttugan samhljóm. Þess vegna skulum við aga hugsanir okkar þegar samvinna er ástunduð. En margvíslegur misskilningur getur orðið til við hugsanasendinga. Jafnvel þeir sem átta sig á sköpunarmætti hugsana furða sig á því að sjá ekki skjótan árangur. Þeir gleyma því að afleiðingarnar geta komið fram ósýnilega og á óvæntum stöðum. Þeir gera sér ekki heldur grein fyrir því að þar sem hugsanaorka leitast við að fara leið minnstrar mótstöðu, má alltaf búast við óvæntum niðurstöðum. Ástæðan liggur í óþjálfaðri hugsun. Menn halda ef til vill að þeir hafi aðeins sent eina hugsun, en í reynd hafa þeir sent hundruð óvæntra sendinga. Það sem tekið er á móti verður alveg jafn óvænt. Þessi flóasveimur hugsana veldur miklum skaða, þar sem hann flæðir um og bítur hið ólíklegasta fólk. Menn hugsa lítið um réttar rásir fyrir dreifingu hugsana.

Að Okkar áliti er mikilvægast að viðhalda hreinleika hugsunar. Þetta er mögulegt þar sem bruninn er jafn. Hugsun er send þegar þroskuð hæfni til einbeitingar er til staðar. Til eru sérstök tæki til að efla einbeitingu hugsunar. Þau eru gagnleg við sendingar hugsana um miklar vegalengdir. Það kann að valda ykkur furðu að þessi tæki eru gerð með blöndun ýmissa málma. Frá fornum tíma hefur þessi málmblöndun verið talin sérstök vísindi og málmblanda var nefnd kór málma.

47. Urusvati gætir vel að matshæfni. Þessi eiginleiki fæðir af sér dómgreind og virðingu fyrir Helgivaldinu. Við gætum vel að matshæfni. Gamall málsháttur segir: „Fílsbyrði mun sliga asna.“ Það eru til dæmi um að eigingirni hafi komið í veg fyrir skilning á réttu mati; en ekkert réttlæti er þó mögulegt án samanburðar. Oft höfum Við bent á hvernig nýliðar rjúfa hugrænt samband af stærilæti. Allir ættu samt að hafa í huga að jafnvel miklir leiðtogar þurftu að læra dómgreind og rétta viðmiðun.

Sérhver fræðari varð að taka ákvörðun í fyrri æviskeiði um það hvort hann vildi hverfa til hinna fjarlægu heima, eða dvelja áfram meðal langvarandi þjáninga Jarðarinnar. Við þessa ákvörðun er þörf fyrir djúpstætt mat og allir kusu að dvelja áfram með þeim sem þjást. Við látum eftir Okkur ferðir til fjarlægu heimanna í þeim tilgangi einum að öðlast þekkingu. Það er ákaflega sjaldgæft að Við leyfum langvarandi dvöl í öðrum heimum. En slíkar heimsóknir eru samt ekki alger aðskilnaður; þvert á móti, þær eru eins og vefur sem tengir saman þræðina. Þannig byggist Bræðralagið, ósigrandi á réttri viðmiðun og trúfestu.

Menn geta líkt eftir Okkur, því allir geta nýtt lögmál Bræðralagsins í lífinu. Það eru aðeins forhertir afneitarar sem tala um að Bræðralagið skipti ekki neinu máli á Jörðinni. Þið hafið lesið í bókum um byggjendur plánetnanna, um leiðtoga þjóðanna. Allir geta glaðst, því að á meðan æviskeiðið varir á Jörðinni er fræðarinn til staðar og leiðin til hans er ekki lokuð. Allir geta fengið innblástur af þeirri vitneskju að mögulegt er að vera í sambandi við fræðarann.

Við skulum aftur minna á matshæfni. Án hennar er hægt að misskilja Bræðralagshugtakið og sambandið milli fræðara og nema. Yfirleitt líkar mönnum það ekki að vera nefndir nemar, en Við höldum jafnvel þessu virðingarverða heiti fyrir Okkur sjálfa. Allir fræðarar eru einnig nemar og í þessari hugmynd felst matshæfni í æðsta skilningi.

Þið verðið réttilega hneyksluð þegar einhver notar óviðeigandi orð um fræðarann. Það bendir til að hugsanir hans séu langt frá réttu mati. Undrist ekki að við ræðum mikið um matshæfni, því hún brenglast einstaklega oft í meðförum manna. Við leggjum áherslu á rétt mat sem eina af grundvallarstoðum innra lífs Okkar.

48. Urusvati er í stöðugu sambandi við Okkur. Það er ekki auðvelt að taka á móti straumi máttugrar orku í efnislegum líkama mitt í daglegu lífi. Við lítum á slíka fjölhæfni sem sérstakt afrek. Nauðsynlegt er að vera fær um að aðlagast sérkennum fíngerðra orkutegunda. Auðvelt er að sýna fram á að jafnvel mjög flóknar draumfarir taka ekki langan tíma. Flóknar athafnir og langar samræður eru meðteknar með skjótum hætti. Slíkir eiginleikar fíngerðra skynjana eru einkennandi fyrir sambandið við Okkur. Hægt er að skilja flóknar hugsanasendingar án þess að hafa hugmynd um á hvaða tungumáli þær eru tjáðar. Hugsunin nær til viðkomandi stöðva og opinberar merkingu sendingarinnar. Sambandið er í gegnum fíngerða líkamann. Menn ættu að venjast þessari fíngerðu skynjun. Skilningur á þessu fæst ekki nema með vitundarvíkkun. Það er nauðsynlegt fyrir skilning á mörgum vandamálum að vera óháður jarðneskum takmörkunum. Oft taka menn aðeins eftir einu smáatriði, og gera það svo að óbreytanlegu lögmáli.

Almennt séð eru orkustöðvar mannsins skoðaðar á afstæðan hátt. Heiti þeirra hafa breyst í gegnum aldirnar á hinum mismunandi tungum. Sumir nefna Kaleikinn „hinn himneska öxul,“ en það breytir engu um gildi hans. Aðrir ræða um áhrif Heimsmóðurinnar, jafnvel þótt Shakti tákni í eðli sínu hina miklu merkingu frumorkunnar. Menn gleyma einnig samheildarlegum áhrifum allra orkustöðvanna, sem eru allt önnur en áhrif einstakra stöðva. Jafn einstök er ummyndun orkustöðvanna í fíngerða og eldlega líkamanum. Þeir geyma sinn innri kjarna, en þróun þeirra er háð þeim framförum sem verða í jarðnesku æviskeiði.

Ætla mætti að búið sé að rannsaka vöðvana nægilega mikið, en virkni þeirra byggist á skapgerð mannsins. Sérhver líkamshluti hefur sjálfstæða virkni. Göngulag mannsins byggist á sálrænum aðstæðum, sem fær vöðvana til að vinna með sérstakri samsvörun.

Afstæði skoðana kemur skýrt fram við umræður um fíngerðar orkutegundir. Rangt er að halda því fram að fjöldi krónublaða hverrar orkustöðvar sé alltaf sá sami. Sérhvert krónublað er einnig einstakt og ólíkt öllum öðrum. Við skulum ekki takmarka fjölbreytileikann í uppbyggingu heimsins. Mikil og óvænt gróska í vexti taugafruma og taugaþráða auðga lífkerfið. Allar athuganir eru mikils virði, en við skulum varast að alhæfa um of.

Við höfum haft tíma til að læra margt, en það er einmitt þessi lærdómur sem hefur kennt Okkur að sýna varkárni við að tjá þekkingu Okkar. Nýliðar eiga erfitt með að hafa taumhald á tungunni og segja strax frá öllu sem þeir hafa heyrt, án þess að hugsa um afleiðingarnar; en með þekkingu kemur hæfni til að meta rétt aðstæður.

Okkur þykir mikilsvert að útskýra og auðvelda skilning á alheiminum á sem bestan hátt. Fyrst af öllu ætti að losa sig við fornar og úreltar flokkanir.

49. Urusvati hefur fylgst með þeim sem safna lækningajurtum fyrir Okkur. Sumir þeirra vita að þeir vinna að mikilvægu markmiði, en flestir safna plöntunum án þessa skilnings. Þeir koma með plönturnar á tiltekinn stað þar sem einhver kemur og kaupir þær af þeim. Stundum er þetta kínverskur kaupmaður, en þó Sarti eða Hindúi komi veldur það þessum fábrotnum verkamönnum engum heilabrotum.

Það er jafnvel ekki leyfilegt að gefa í skyn að þessar lækningajurtir séu mikilvægar, því þá gætu farið af stað orðrómur og hætta verður á innrás. Við getum auðveldlega varið okkur fyrir árásum, en erfiðara að komast hjá því að vekja athygli íbúa í nágrenninu. Þeir viðhalda mörgum hefðum og eru reiðubúnir að nýta þær í lífi og starfi. Ímyndunarafl þeirra er háþróað og heyrn og sjón svo skörp, að þeir geta tekið eftir mörgu sem öðrum er ósýnilegt. Þeir þekkja lífið í fjöllunum og geta fundið slóðir þar sem öðrum myndi ekki koma til hugar að leita.

En heimamenn skilja einnig mikilvægi bannsvæðisins og þannig verður til góð vörn. Þetta er nauðsynlegt því að Við þurfum stundum að afla Okkur birgða frá borgunum. Stundum útvega kaupendur Okkur ákveðna hluti, sem þeir vita ekki til hvers á að nota og senda þá til Okkar í gegnum Nepal. Ég get sagt ykkur þetta því það er engin hætta á að þessi leið verði uppgötvuð. Margar sagnir hafa spunnist í kringum aðsetur Okkar.

Þið getið verið þess fullviss að eftir allar þessar aldir hefur mönnum lærst að taka mark á ráðleggingum Okkar. Gleymum ekki að á ýmsum tímum höfum Við komið fram á Vesturlöndum. Auk ashrama Okkar í Austurlöndum höfum Við átt ashröm í vestrænum borgum – í Lyon, í Nuremberg, á stöðum nálægt Lundúnum, nærri Pétursborg og á Ítalíu. Auk ashrama í Austurlöndum og Egyptalandi var nauðsynlegt að hafa miðstöð í nokkrum stórum borgum. Gleymum því ekki að baráttan við öfl myrkursins krefst margra úrræða.

Við getum talið upp margar sendingar til mannkynsins á ýmsum tímum. Smáskammtalækningar voru sendar mannkyninu til varnar gegn óhóflega stórum skömmtum af eitri. Draumar um þörfina á alheimslegu tungumáli hafa verið sendir. Eingöngu þannig er mögulegt að viðhalda hreinleika allra tungumála. Allir munu þá hafa vald á móðurmáli sínu og hinu alheimslega tungumáli. Þannig er unnt að mynda samskiptaform sem hæfir best mannlegum samskiptum. Menn skilja ekki að afbökun tungumálsins er glæpsamleg, því að margir orðstofnar hafa mikla þýðingu með hrynjanda sínum og hljómi. Þannig ryðjum Við brautina.

50. Urusvati hefur spurt að því hvernig Við öflum tekna til efnislegrar framfærslu aðsetra Okkar. Munið að í mörgum ám er gull að finna, hægt er að finna silfur og safíra í fjöllunum Okkar og Við vitum um marga dulda fjársjóði. Manstu þegar pund-seðill var sendur fljúgandi til London? Oft þurfa menn á hjálp að halda. Þess vegna tengist hið jarðneska hærri heimum. Samvinnan við fíngerða heiminn verður að vera viðvarandi. Hafa verður skilning á öllum hinum mikla margbreytileika fíngerðu sviðanna til að átta sig á hve flókin verkefni þarf að leysa í aðsetri Okkar.

Fyrst og fremst ætti að veita hjálp á Jörðinni, en jafn mikillar hjálpar er þörf í fíngerða heiminum. Í fíngerða heiminum er óttinn eins og faraldur. Þar geisa bardagar og alvarlegir sjúkdómar breiðast út. Á Jörðinni eru menn vanir því að hræðast smit, og þennan ótta flytja þeir með sér inn í fíngerða heiminn, og þá verða til óttahugsanir. Er mögulegt að menn geri sér ekki grein fyrir því að þeir taka alla jarðneska fordóma sína með sér inn í fíngerða heiminn? Erfitt er að uppræta alls konar skaðlegan vöxt á Jörðinni, en það er enn erfiðara í fíngerða heiminum, þar sem allar jarðneskar eignir kristallast. Ég tel að ástand plánetunnar okkar myndi verða mun betra ef það sem menn flytja með sér inn í fíngerða heiminn væri betra að gæðum. Ein stök hugsun getur eytt fjölda sýkla.

Áttum okkur á því hve mikilli mótstöðu allir mæta sem senda frá sér gagnlegar hugsanir. Í dag varð Urusvati vitni að mörgum sérlega efldum straumum frá Okkur. Slík breyting á straumum gefur til kynna mikla einbeitingu, því að sérhver straumur þarf að yfirvinna andstæðan straum. Þess vegna þurfa mikilvægar ákvarðanir vörn gegn snjöllum eyðendum. Urusvati hjálpaði Okkur alla nóttina, en gat samt sem áður gefið sér tíma til að dveljast í föðurlandi sínu.

51. Urusvati hefur ávallt leitast við að stytta dvöl sína í fíngerða heiminum. Það ber vitni um tryggð hennar við það verkefni að lina þjáningar mannkynsins. Á Jörðinni er hægt að skipta mönnum í þá sem búa yfir hjartahlýju og hina sem eru harðbrjósta, en það er einnig hægt að greina á milli þeirra sem leitast við að dvelja sem lengst í fíngerða heiminum og hinna sem hraða sér aftur til holdgunar til að flýta fyrir fullkomnun sinni.

Við styðjum þá sem hraða för, þrátt fyrir mótsögnina sem felst í því að flýta sér í eilífðinni. Við hvetjum alla viðleitni til fullkomnunar, vegna þess að í henni felst gagnsemi fyrir heildina. Við höfum helgað okkur hinni miklu þjónustu og til hennar bjóðum Við alla velkomna sem geta hjálpað þeim fjölda sem þjáist.

Virki Okkar er byggt á hugmyndinni um hjálp til fjöldans. Á Jörðinni og í fíngerða heiminum er að finna mikinn fjölda manna sem þurfa á aðstoð Okkar að halda. Lát aðsetur Okkar nefnast „Hin mikla þjónusta.“

Við höfum öll hraðað Okkur til Jarðarinnar, þegar rétti tíminn rennur upp, til að taka að Okkur erfiðustu verkefnin. Þannig aðstæður hafa hert Okkur og kennt Okkur að skeyta lítt um ofsóknir. Þeir sem berjast fyrir sannleikanum munu ávallt verða fyrir ofsóknum falsaranna. Enginn skyldi líta svo á að þannig ofsóknir séu aðeins ætlaðar ákveðnum einstaklingum. Hver einasti boðberi sannleikans hlýtur að verða fyrir árásum óheilinda. Slík snerting við óskapnaðinn er óhjákvæmileg.

Þið hafið tekið eftir því að menn staðsetja Shamballa alltaf í norður átt. Jafnvel meðal Eskimóa og íbúa Kamtsjatka eru til sagnir um undraland handan við land miðnætursólarinnar. Fyrir þessu eru ýmsar ástæður. Sumir vildu leyna staðsetningu aðseturs Okkar. Sumir vildu forðast þann vanda að takast á við erfiða umræðu. Sumir telja að nágrannar þeirra í norðri séu einstaklega gæfusamir. Það mætti halda að allar þjóðir viti um forboðna landið, en telji sig ekki þess verðar að hafa það innan landamæra sinna!

Við eigum mikið safn rita um þetta efni. Hægt er að telja upp þær þjóðsagnahetjur sem tengjast aðsetri Okkar. Þið þekkið Gessar Khan og Prester John. Allir þurfa að gera sér grein fyrir því sem greinir sannleikann frá vinsælum skálduðum sögnum. Tilvera Aðsetursins í svo margar aldir hlýtur að hafa haft áhrif með útgeislun sinni á hið sameiginlega minni fólksins. Einnig þarf að hafa í huga að Við erum betur þekktir í fíngerða heiminum en á Jörðinni. Þaðan koma óljósar minningar sem verkar sem hvatning til þeirra sem hafa skilið mikilvægi hinnar miklu þjónustu.

52. Urusvati hefur tekist að viðhalda réttu sambandi við fíngerða heiminn. Við skulum útskýra hvers vegna Við tölum um rétt samband. Til eru menn sem hafna algerlega tilveru fíngerða heimsins, en í slíkri höfnun felst smánun. Aðrir viðurkenna tilveru fíngerða heimsins, en hafa samt fordóma gagnvart honum og rangt viðhorf þeirra jaðrar oft við illmælgi. Auðveldlega má sjá skaðsemi þessara viðhorfa séu þau skoðuð á víðtækan hátt, því þau skaða andrúmsloftið með því að hafna tilvist þess sviðs sem jarðneskt líf ætti að vinna með og viðhalda nánu sambandi við.

Ekki er unnt að búast við því að fíngerði heimurinn nálgist jarðneskt líf ef menn á Jörðinni hafna honum, formæla og óttast. Hið rétta viðhorf felst í viðurkenningu á fíngerða heiminum með rósemi, heiðarleika og góðvild. Aðlaðandi máttur hins góða hefur áhrif í öllum heimum. Hvernig er mögulegt að hafna því sem er til á sama hátt og við öll erum til?

Ekki aðeins ætti að viðurkenna ódauðleika andans, heldur ætti einnig að læra hvernig hægt er að nálgast allar birtingarmyndir óendanleikans. Fíngerði heimurinn getur nálgast okkur á jákvæðan hátt sé honum ekki hafnað. Til er tvenns konar hugrekki. Það eru þeir sem eru mjög djarfir í jarðnesku lífi, en fyllast ótta ef þeir heyra um drauga! En þeir sem eru raunverulega hugrakkir óttast ekki neina svipi, þótt þeir geti birst í mjög ógnvekjandi formi. Reyndur athugandi veit að þessir svipir geta ekki valdið neinum skaða sé þeim mætt með hugrekki.

Í gegnum reynslu margra jarðvista fæst rétt viðhorf til allra fyrirbrigða astral heimsins. Ykkur langar ef til vill að vita hvort þessar margvíslegu ósýnilegu verur geti nálgast aðsetur Okkar. Þær geta að sjálfsögðu nálgast, en þær hafa engin áhrif. Hver einasti afkimi á Jörðinni er fylltur ósýnilegum verum og menn verða að greina að hve miklu leyti þær hafa áhrif á jarðneskt líf.

Fræðarinn verður fyrst af öllu að útskýra samvinnu heimanna. Mannkyninu ætti ekki að leyfast að lifa áfram í þeirri blekkingu að það sé einangrað frá öðrum heimum. Áður en það er of seint verðum við að koma fram með allt sem vitað er um hina nánu samvinnu heimanna. Þrætum ekki um nöfn á íbúum fíngerða heimsins. Í mismunandi kenningum eru sendiboðum æðri heimsins gefin mismunandi nöfn, þau geta verið jafnt hátíðleg sem ógnvekjandi.

Við þrætum ekki um nöfn og við sóum ekki orku í að ræða um hin mörgu svið fíngerða heimsins. Margbreytni virðist vera nauðsynleg fyrir ímyndunarafl mannsins. Ef aðeins það myndi leiða til aukins þroska mannkynsins! Við fögnum því réttu viðhorfi til fíngerða heimsins. Það mun enduróma um allan heim. Aðsetur Okkar verður nær þeim sem tekst að viðhafa rétt viðhorf til fyrirbrigða fíngerða heimsins.

53. Urusvati hefur djúpstæðan skilning á mikilvægi sköpunargáfunnar. Við beinum hugsunum Okkar eftir línum samvinnu og alheimslegs skapandi starfs. Kominn er tími til að átta sig á því að sköpunargáfa manna er lýsandi vitni um þeirra innra gildi. Í allri Okkar vinnu gefum við nægan tíma til að fjölbreytt skapandi starf geti vaxið og dafnað. Ekki aðeins þeir sem hafa helgað sig listum, heldur öll þjóðin í heild sinni ætti að beina hugsunum sínum að skapandi starfi. Lát hendur fjölskyldunnar móta daglegt líf. Lát tómstundir vera fylltar skapandi vinnu og lát fólk syngja, því mikill máttur samræmis og samhljóms felst í kórsöng.

Listir ætti að kenna í skólum. Aldrei ætti að beita þvingun við kennslu lista, því sérhver byrjandi getur fundið fegurðina í iðkun lista. Einnig er rangt að aðeins lítill hópur listamanna skapi og að ávextir hæfileika þeirra séu fjöldaframleiddir. Þess háttar vélræn framleiðsla mun ekki hjálpa neinum. Allir verða að reyna að vinna skapandi starf. Lát menn hafa yndi af íþróttum sköpunargáfunnar; maraþon sköpunarstarfs er óumræðilega miklu háleitara en maraþon hlaupara!

Menn munu spyrja hvernig við skreytum aðsetur Okkar. Við skreytum það vissulega. Sérhver Okkar hefur eitt sinn verið listamaður. Hægt er að draga fram úr kaleik minninga og afreka marga fjársjóði sköpunargáfunnar og tjá þá á hinum margvíslegu sviðum listarinnar. Ef menn lærðu að þekkja og skilja fyrri æviskeið sín, gætu þeir hagnast mjög af fyrri reynslu. En menn vita ekki hvernig þeir eiga að nýta fyrri reynslu sína á viturlegan hátt. Þessi einföldu sannindi krefjast erfiðrar og þjáningarfullrar úrvinnslu.

Það er næstum ómögulegt að kenna mönnum að skapa með mætti hugsunar. Þeir trúa því ekki að strengir geti hljómað sem svörun við straumi hugsunar. Þeir hafa ekki trú á því að hægt sé að umbreyta þurrum lit í fagrar myndir með þrýstingi hugsunar. Samt hafa menn séð hvernig hægt er að mynda mynstur í sand með hljómfalli. Þeir dást að frostrósum og undrast ekki þegar strengir enduróma sem svörun við fjarlægu hljómfalli. En hugsun skapar máttugustu sveiflutíðnina og með slíkum sveiflum geta menn skapað.

Þegar þið heyrið um speglana Okkar, þá skuluð þið ekki draga þá ályktun að við séum galdramenn eða seiðkarlar. Myndin er fest með einbeitingu hugsunar. Þess vegna verða menn fyrst af öllu að fága hugsanir sínar.

54. Urusvati hefur áunnið sér skjótleika. Auðvelt er að tala um þennan eiginleika, en erfitt að beita honum í daglegu lífi. Auðvelt er að segja að hugsun sé óháð tíma, en erfitt að gera sér grein fyrir slíkum skjótleika mitt í umróti atburðanna. Stundum sendum Við aðeins eitt orð sem verður að nægja til að ná merkingu skilaboðanna í heild sinni. Í flestum tilfellum veldur slíkt orð engum áhrifum, en víðtæk vitund grípur hvert merki með ákefð. Margar ástæður liggja að baki svo stuttum boðum. Stundum er umrótið svo ofsafengið að ógerlegt er að senda öll orðin. Sundum eru svo mörg eyru að hlera þessar sendingar að nauðsynlegt er að vera mjög varkár til að veita ekki óboðnum hlustendum upplýsingar. Það er auðveldara að senda út á mjög óaðgengilegu tíðnisviði þegar allt er rólegt, en þegar bardagar geisa geta bestu tíðnisviðin orðið fyrir truflunum og magnað sendikraftinn svo mikið að það verði móttakandanum lífshættulegt.

Urusvati hefur einnig áunnið sér hæfni til að greina hvað er ekta. Raddir Okkar þekkjast á hljómblæ sínum og allir sem eru Okkur nákomnir láta ekki blekkjast. En til viðbótar því að þekkja hljómblæinn er til staðar tilfinning sem skynjar hið upprunalega. Hin víðtæka vitund hefur alltaf þessa skýru tilfinningu og lætur ekki blekkjast. Barnið greinir undantekningarlaust fótatak móður sinnar og föður. Hve miklu nánar skynjar ekki hjartað sendingar fræðarans.

Hinir fáfróðu munu segja að mistök séu möguleg þar sem hægt sé að líkja eftir rödd fræðarans. En víðtækri vitund getur ekki orðið á mistök, því að beinni þekkingu getur ekki skjátlast. Ef mikil spenna er ríkjandi er mögulegt að titringur komi fram, en þá er hægt að endurtaka spurninguna. Það veldur sérstökum vanda að menn geta ekki gert sér grein fyrir eðli bardaganna á innri sviðunum. Við jarðneskar aðstæður er erfitt að ímynda sér bardaga mitt í óendanleikanum. Menn skilja heldur ekki rödd þagnarinnar. Samt sem áður er tekið á móti henni og hún endurómar í vitundinni. Allar hugsanir sem tekið er við eða menn tileinka sér bera með sér sína sveiflutíðni og hljóm. Einnig endurtaka menn oft hugsanir sem þeir taka oft á móti. Það ferli á sér sérstakt heiti – innsiglun hugsunar. Þið vitið að yfirleitt er nauðsynlegt að endurtaka það sem tekið er á móti til að það gleymist ekki. Smæsta truflun getur rofið móttökuna, jafnvel þó um víðtæka vitund sé að ræða.

Þið furðið ykkur með réttu á því að íbúar fíngerða heimsins tala ekki um bardagann í geimnum. Meistararnir hafa meðaumkun með íbúum Jarðar og venjulegt fólk veit ekki af bardaganum. Hið sama gildir um Jörðina, þar eru margir bardagar háðir, en margir annað hvort vita ekki af þeim eða nefna þá öðrum nöfnum. Á sama hátt er í fíngerða heiminum umrót og eyðilegging, en meirihluti manna á Jörðinni skilur ekki ástæðuna fyrir því. Lægri sviðin eru fjölmennari en hin hærri. En umrótið nær ekki til „Sælusviðanna“ sem þið þekkið. Þess vegna dvelja hinir andlegu verkamenn ekki þar, heldur leita eftir virkri þjónustu á Himni sem á Jörðu.

55. Urusvati veit hvernig á að vekja gleði. Þessi hæfni tilheyrir hinum þjálfaða vilja. Skynjun gleði vex með fullvissu, en ekki með því að safna að sér hlutum. Það eru ekki til neinar aðstæður þar sem ekki er hægt að skynja gleði. Þegar Við tölum aftur og aftur um gleði, þá köllum við hana fram sem máttugt og raunverulegt afl. Það er ekki hægt að ímynda sér aðsetur Okkar sem gleðisnauðan stað. Mestu bardagarnir eru fylltir gleði. Án hennar er engin virkni. Með því að útskýra merkingu og gildi gleði er verið að álykta um mikið sálfræðilegt lögmál.

Hinir fáfróðu tengja gleði við góða meltingu eða góðan árangur í lífinu, en gleðin er meira en góð heilsa og árangur. Hún getur einnig ríkt í sjúkleika og niðurlægingu. Þessi tilfinning er ræktuð í gegnum margar jarðvistir en einnig frá viturlegri dvöl í fíngerða heiminum.

Menn íþyngja sér með hlutum, ekki aðeins á Jörðinni, heldur einnig í fíngerða heiminum, þar sem sérhver ónauðsynlegur hlutur verður að þungri byrði. Jafn óþolandi er óheft og óviturleg sköpun í fíngerða heiminum. Þar er unnt að skapa svo mikinn ljótleika að hann mun fylgja manninum eftir í gegnum öll æviskeið. Gleðin getur ekki vaknað þar sem menn dragnast með skítuga hala á eftir sér. Gleðin varðar framtíðina en getur ekki lifað í fortíðinni.

Áttið ykkur á því að Við viljum skilgreina gleði sem skapandi mátt og andagift. Gleðin er traustur segull. Við óskum þess að menn viti hvar þeir geta fundið bót meina sinna. Með gleði geta þeir myndað betra og æðra samneyti. Í gleði finna þeir staðfastan samverkamann. Ósk þeirra verður sú að heimurinn geti lifað í gleði.

Vonleysi getur ekki komist yfir þröskuldinn á bústað Okkar, því þar býr gleðin. Lát menn muna að enginn getur svipt þá gleði sinni. Jafnvel vélar vinna betur ef þær eru notaðar með gleði. Vissulega er hægt að laga allt og bæta og ekkert getur lokað leiðinni til fullkomnunar.

Það er hátíð hjá Okkur þegar við sjáum að samverkamenn Okkar hafa öðlast skilning á varnarmætti gleðinnar.

56. Urusvati hefur áttað sig á því hve varfærni er mikilvæg við notkun lyfja. Ætíð, og í öllum samskiptum Okkar við menn, erum við læknar í sönnum skilningi orðsins. Við erum sífellt að hitta sjúklinga og reynum þá að endurvekja jafnvægi hjá þeim. Menn leita oftast til Okkar þegar þeir eru orðnir sjúkir. Leita verður leiða til að upplýsa vitund þeirra samhliða því að sjúkdómurinn er læknaður.

Menn gera sér ekki grein fyrir því að Við verðum að meðhöndla þá eins og þeir væru hættulega sjúkir. Þegar Við ráðleggjum ykkur að sýna varkárni, er það ekki til marks um að Við teljum ykkur kærulaus. Þvert á móti, athygli Okkar er aðeins vakin þegar viðkomandi er haldinn mikilli spennu og sérstakrar varúðar er þörf. Ef þið hugsið um ykkur sjálf sem lækna, verður markmið ykkar skýrara.

Sérstaklega um þessar mundir eru menn haldnir svo mikilli spennu að nauðsyn er á viturlegri meðferð. Það er oft nauðsynlegt að vera þeim sammála um smáatriði í þeim tilgangi að vernda hið mikilvægasta og uppörva þá til að þeir losni undan ótta. Þannig verður lífsfræðarinn að tileinka sér aðferðir viturra lækna. Stundum er mögulegt að stöðva framgang sjúkdóms með einu uppörvandi orði. Við skulum ekki velta um of fyrir okkur hvar og hvernig sjúkdómurinn byrjaði. Læknirinn kennir aldrei sjúklingnum um ástandið, en leitast við að hindra hnignun lífkerfisins. Í öllum sjúkdómum má finna ummerki niðurbrots. Því er nauðsynlegt að beita aðferðum lækninga við yfirsjónir manna.

Í nýlegu dæmi um andsetu var um að ræða nánast vonlaust tilfelli, vegna þess að hin sjúka kona var orðin þreytt á baráttunni og var orðin fylgjandi kvalara síns. Fólkið sem hún umgekkst jók einnig á sjúkdómsvandann. Yfirleitt ætti að flytja þá sem eru andsetnir á nýjan stað í nýtt umhverfi. Ekki reyndist unnt að hafa áhrif á hana skriflega, en með persónulegum segulkrafti reyndist unnt að stöðva vöxt meinsemdarinnar. Menn gera sér ekki grein fyrir því að hve miklu leyti umhverfið getur ýtt undir ákveðna sjúkdóma. Þess vegna ættu menn að venjast því að taka sér hlutverk læknis. Innra líf Okkar er fyllt af læknandi athöfnum.

57. Urusvati, ásamt Okkur, veit hvernig á að vera góð. Í þessu eina orði felst alheimslegt viðhorf. Ekki er hægt að nefna neitt hugtak sem hefur verið rangfært jafn mikið. Undir dulargervi góðmennsku má finna allt frá leti og hræsni til hreinnar grimmdar. Nauðsynlegt er að vita hvernig á að vera raunverulega góður, til að geta orðið öðrum til góðs en ekki eingöngu sjálfum sér.

Við sendum sífellt út hugsanir um góðmennsku, athafnir og vinnusemi. Góðmennska getur ekki verið til án athafna. Í iðjuleysi er enga góðmennsku að finna. Engin góðmennska er möguleg þar sem ekki er virk andstaða gegn hinu illa. Engin góðmennska verður til ef við tökum ekki þá ábyrgð að greina hið illa, sjá spillingu og nýtum öll tækifæri til að koma með ljós. Fögur eru orðin: „Ljósið eyðir myrkrinu.“ En það verður að koma með ljósið og sú athöfn í sjálfri sér er full sjálfsafneitunar. Ljósið mun einnig upplýsa og eyða skelfilegum óvættum, jafnvel þótt þeir sýni sína verstu hlið. Sérhver ljósberi verður að sigrast á þessum óvættum. Hann ætti ekki að hægja för og ætti að horfa óttalaus á óvættina. Ekki er unnt að sigrast fullkomlega á hræðslunni ef ljósberinn lítur undan í þeirri von að ljósið eitt dugi til að eyða óvættunum. Það er ekki aðeins ljósið heldur einnig frumorkan sem veitir höggið sem eyðir myrkrinu.

Þið hafið heyrt að við sendum örvar Okkar á síðustu stundu. Þið verðið að skilja ástæðuna fyrir þessu og vita hvenær síðasta andartakið fyrir allar ákvarðanir rennur upp. Takið við þessari ábyrgð. Margir reyna að forðast hana með öllum mögulegum ráðum og þess vegna eru slíkir hermenn óáreiðanlegir. Við prófum alla samverkamenn, en fáir eru þeir sem meðtaka gleðina við slíkt verkefni. Flestir munu forðast það og reyna að fela sig þegar tími athafna rennur upp. Lát samverkamennina sýna hver er góður og hver er illur. Lát þá sýna hver er tilbúinn til athafna og hver kýs rökkur letinnar. Myrkrið er þar ekki langt undan.

Aðsetur Okkar er ákaflega friðsælt, en það er reiðubúið að berjast fyrir hinu góða. Við fréttum af því þegar svikarar eru að undirbúa nýjar árásir og getum því valið besta tímann til bardagans. Aftur komum við að karmískum lögmálum. Sérhver athöfn byggist á einhverju sem gerst hefur áður og afleiðingarnar blandast mörgum fyrirliggjandi aðstæðum. Þær þarf að viðurkenna og bregðast við með hliðsjón af þeim. Ég ræði um þetta vegna þess að margir telja að Við getum komist hjá karmalögmálinu.

Margs konar aðstæður þurfa að vera fyrir hendi til að draga úr afleiðingunum. Verum því vakandi svo hið góða verði ekki fyrir neinu tjóni.

58. Urusvati berst gegn allri grimmd og pyntingum. Þetta er ekki af skorti á kjarki, heldur af þeirri innri vitneskju að ekki er hægt að leyfa neins konar pyntingar þar sem það stríðir gegn göfgi mannsins.

Margvíslegum pyntingum er beitt gegn bæði mönnum og dýrum. Hafa þarf í huga að karma pyntinga er ákaflega þungt. Hinni ósiðmenntuðu vitund skyldi gert ljóst hvað er leyfilegt og hvað er ekki. Fáar pyntingar er hægt að afsaka með tilvísun til laga.

Reyndur læknir spyr sjúklinga sína fyrst hvernig þeim líður. Vellíðan er mikilvægari en lyf. En hvernig er unnt að líða vel á Jörðinni ef enginn er öruggur fyrir grimmd?

Vellíðan getur leyst mörg flóknustu vandamál þjóðar, en nauðsynlegt er að vernda friðhelgi og virðingu manna. Við skulum ekki treysta um of á hina svonefndu óhlutdrægni dómstóla, þar sem mannleg sæmd er fótumtroðin af grófgerðum geðþóttahætti. Það er auðvelt að tala um kvalalosta, en það er hræðilegt að horfa upp á það að þessi ótrúlega geðveiki sé ekki stöðvuð. Já, gera verður ráð fyrir því að menn muni ekki skilja hvaða frumeiginleika Við erum að tala um. Það eru til svo margir smáir en samt skelfilegir kvalarar út um allan heim! Vísvitandi pyntingar á náunganum eru í engu frábrugðnar þeim sem voru stundaðar á grófgerðustu tímaskeiðum mannkynsins. Hægt er að minnast mannfjöldans í hringleikahúsum Rómverja; geta hópar nú á tímum stært sig af betri hegðun? Er annar klæðaburður nokkuð til marks um annað hugarástand? Þetta þurfa menn að hafa í huga til að geta gert sér grein fyrir því sem aðsetur Okkar þarf að berjast við.

Til eru mörg félög til verndunar dýra, en of fá til verndunar manna. Lát þá sem beita grimmd ekki dirfast að þykjast vera góðhjartaðir. Það er erfitt að sigrast á grimmd. Við vinnum af kappi, Við sendum máttugar hugsanir, en þær ná sjaldan að vekja steinhjörtu.

Menn geta fundið fyrir mætti sólarupprásarinnar og birgt sig upp af sólarprönu, en óendanlegrar þolinmæði er þörf til að berjast gegn grimmd. Við erum stöðugt að rekast á dæmi um fíngerða grimmd, alveg eins og menn hafi sammælst um að íþyngja karmabyrði plánetunnar. Það er ekki aðeins í stríðum og uppreisnum sem illsku og grimmd er að finna, heldur einnig í skólum og innan veggja fjölskyldunnar. Gerum okkur grein fyrir því hve miklar þjáningar og örvæntingaróp ná til aðseturs Okkar. Öllum þarf að hjálpa.

59. Urusvati getur greint yfirmennskar athafnir með innsæisþekkingu sinni. Við skulum athuga hinar ýmsu gerðir mennskra athafna. Það eru athafnir hins frjálsa vilja, karmískar athafnir og athafnir undir áhrifum andsetu. En það geta verið um að ræða sérstakar athafnir sem ekki falla inn í neinn þessara flokka. Við nefnum þær yfirmennskar athafnir. Útvaldir menn taka að sér verkefni fyrir Okkur, og nýta til þess meðvitað sinn besta vilja og hæfni, en athafnir þeirra stafa ekki frá frjálsum vilja eða andsetu. Né heldur er unnt að kalla þær karmískar, þar sem í þeim er allt karma uppurið eða nýtt að hefjast. Þegar allt þetta er skoðað, er unnt að komast að þeirri niðurstöðu að þannig athafnir séu sérstök tjáning, innblásin af æðri máttaröflum.

Í fyrndinni voru slíkar athafnir nefndar heilagar, því í þeim gátu menn skynjað eitthvað æðra en hið jarðneska og skynjun slíkra athafna er hluti innsæisþekkingar. Það er erfitt að flokka þær í samræmi við mennsk lögmál, en víðtæk vitund getur fundið fyrir nálægð þeirra. Hærri stétt hinna fjandsamlegu máttarafla er sérstaklega í nöp við þá sem Við höfum sent. Hinar myrku verur geta ekki skilið verkefnið eða metið umfang þess og það veldur þeim enn meiri gremju.

Hægt er að nefna mörg dæmi úr sögunni um menn sem unnu að verkefnum fyrir Okkur. Þessi verkefni eru af ýmsum toga. Við setjum aðeins fyrir eitt verkefni, en það getur tekið heilt æviskeið að leiða það til lykta. Við erum vanir að taka ábyrgð á hinum útvöldu. Sérhver félagi í samfélagi Okkar mælir með einstaklingi sem hefur verið prófaður og tekur á sig ábyrgð fyrir hann. Þessar langvarandi prófanir eru Okkur nauðsynlegar og þær geta jafnvel náð yfir mörg æviskeið. Við verðum að vera fullkomlega vissir um að kjarni verkefnisins verði framkvæmdur. Við fáumst ekki um smáatriði, vegna þess að umhverfisaðstæður geta haft áhrif. Við fáumst heldur ekki um minni háttar tímasetningar, því það sem er Okkur mikilvægt er kjarni verksins. Hvar er árangur og hvar eru mistök? Aðeins Við getum dæmt um það. Mörg vandamál blasa við þegar orsakir og afleiðingar eru metnar. Við beinum athygli okkar til framtíðar til að komast hjá ótímabærum niðurstöðum.

Spyrja má hvers vegna Við höfum ekki fyrr minnst á yfirmennskar athafnir. Ekki má ræða of opinskátt um þessi verkefni, því margir gætu fyllst stórmennsku og haldið því fram að geðþótta athafnir þeirra væru hluti af slíku verkefni. Á heildina litið eru margir sem ekki munu skilja þessa skiptingu athafna í fjóra flokka. Ef innsæisþekking bendir ekki á mismuninn, munu vitsmunirnir ekki greina þar á milli.

Sumir höfðu ánægju af því að lesa The History of a Piece of Bread, en öðrum fannst hún þreytandi og leiðinleg. Mörgum mun einnig finnast leiðinlegt að velta fyrir sér mennskum athöfnum. Við skulum minnast þess sem yfirmennskar athafnir munu ábyrgjast. Menn ættu að hjálpa Okkur að hjálpa þeim.

60. Urusvati getur vottað hve lífið er tómlegt án sambandsins við Okkur, hafi áður komist á samband við Bræðralagið. Það er oft nauðsynlegt að finna stuðning og bera ákvarðanir sínar saman við meginreglur sem búið er að sannreyna með langri reynslu. Fræðslan verður lifandi þegar hún tengist uppsprettu sinni. Það er kaldranalegt og niðurdrepandi að ganga einn milli fjandasamlegra tjaldbúða. Fíngerði heimurinn eyðir að sjálfsögðu einmanaleika, en það er óendanlega miklu meira uppörvandi og hvetjandi að vera meðvitaður um aðsetur Okkar. Það er ekki í óendanleikanum, heldur hér og nú sem Virkið opinberast. Þótt menn viti ekki nákvæmlega hvar aðsetrið er staðsett, geta menn snúið sér í áttina til þess, en sú átt opinberast af leitandi hugsun.

Ef listamaður myndi gera mynd af aðsetri Okkar, væri hægt að nýta afurð ímyndar hans sem líkan, þótt það væri ekki nákvæmt. En besta líkanið er mannshjartað. Kraftmikill segull myndast frá hjarta til hjarta, en slíkur aðdráttarkraftur getur verið mikill, jafnvel efnislega. Aðdráttaraflið að hjarta Okkar getur vaxið svo mikið að ógerlegt er að halda aftur af því. Slíkur máttur nefnist „Eldvagninn.“ Þannig eldlegar skynjanir verða að byggjast á miklu samræmi, annars geta þær breyst í óskipulegan hvirfilvind.

Þeim sem veit af Okkur verður ekki hafnað. Við munum þekkja hugsanir hans og feginleiki hans verður mikill þegar hann áttar sig á því að engin þörf er á að fela þær. Hann veit að sérhver góðviljuð hugsun styrkir sambandið við Okkur; án orða, einfaldlega með djúpstæðum skjálfta hjartans, munu allar góðviljaðar sendingar ná til Okkar. Af reynsluleysi geta átt sér stað ónauðsynleg áköll, en samhljómur og hollusta byggja upp sanna samvinnu. Við fögnum þegar stigi hinnar sönnu samvinnu er náð; þá munu hin minnstu merki skiljast. Mikils metin eru stutt og viturleg boð og þá er unnt að segja: „Okkar gleði er þín gleði.“

Svo lengi sem menn eru uppteknir við töfra og galdra eru þeir ekki með Okkur. Hjartað er hið eina sem þörf er á fyrir aðsetrið. Fagurt hjarta mun ætíð þjást á Jörðinni, en því hjarta sem þjáist er treystandi. Fiskur getur ekki lifað án vatns og örninn fagnar ekki án frelsis. Við mælum með einfaldleikanum við vini Okkar, því að lífið er orðið svo flókið að það veldur skaða. Þess vegna ræðum við ekki um margar uppgötvanir og þótt margar formúlur séu tilbúnar í aðsetri Okkar, er ekki tímabært að opinbera þær fyrir vísindamönnum, því að háleitu markmiði þeirra er svo auðveldlega hægt að snúa yfir í skaðlega notkun. Lát þá sem þekkja Okkur varðveita þessa þekkingu. Svikull trúníðingur hlýtur sár sem ekki grær. En ræðum ekki um afleiðingar, því einhverjir munu líta á þær sem ógnanir. Sérhver vefari harmar slitinn þráð og fagnar sterku bandi – þannig er það einnig með anda mannsins.

61. Urusvati hræðist ekki að taka þátt í bardaga með Okkur. Margir verða hræddir við það eitt að minnst er á bardaga, og aðrir verða ráðvilltir þegar þeir heyra hversu langvarandi hann er. Enn aðrir verða skelfingu lostnir þegar þeir átta sig á því að bardaginn er án enda. Flestir reyna að takmarka hið óendanlega.

Sá dauðans ótti sem gagntekur þá sem telja sig vera mikla dulspekinga er næstum broslegur. Auðvelt er fyrir þá að sitja og skrifa greinar, en þeir fölna ef minnst er á orðið „bardagi!“ Menn sem tala sjálfbirgingslega um vígslur sínar eru langt frá raunverulegum athöfnum. Hvernig er unnt að kenna þeim að hafa yndi af baráttunni fyrir hinu góða? Engin orð geta breytt hugleysingja í hetju. Það er aðeins aðsteðjandi hætta sem getur þvingað menn til athafna, og það er einmitt hugleysinginn sem verður að halda áfram og mæta hættum. Menn biðja Okkur oft um að vernda þá frá hættum, en hættur eru nauðsynlegar innri vexti þeirra.

Óendanleiki baráttunnar veldur hinum fáfróðu oft uppnámi, og betra er að ræða ekki um eilífa baráttu við þá sem ekki eru undir það búnir. Leyfum þeim að halda í vonina um sigur sem þeir geta skilið. Þegar menn hugsa um slíkan sigur, vofir að sjálfsögðu yfir þeim skuggi ósigursins. Í baráttunni í óendanleikanum þekkjum Við ekki ósigur.

Gerum ekki lítið úr æðstuprestum myrkursins; þeir eru ekki auðveldir andstæðingar. Þeir eru slægvitrir og þeir þekkja óendanleikann. En þekking Okkar nær lengra en þeirra, og þeir skynja að eitthvað er til sem þeir geta ekki öðlast. Mikil er reiði þeirra yfir slíkri takmörkun, en þannig er lögmálið. Furðulegt er að sjá hve lítilmótlegar aðferðir þeir nota til að laða til sín fólk! Menn verða að reiða sig á varanleg gildi en ekki hverfular jarðneskar hugmyndir.

Spyrja má hvort við þreytumst í bardaganum. Slík spurning er ekki viðeigandi. Betra væri að spyrja um hversu mögnuð spenna Okkar er, en hún er gríðarleg. Ef systir okkar Urusvati hefur heyrt svitadropa falla, er unnt að ímynda sér hversu mikla spennu orka Okkar hefur. Ef hár Okkar stendur á stilkum í æðandi rafmagnsstormi, getur maður ímyndað sér spennuna. Við leynum því ekki að í bardaganum verða hápunktar hinnar mestu spennu. Séu menn hræddir, ættu þeir ekki að koma nálægt bardaganum fyrir hinu góða. Óttist menn dóma manna, ættu þeir ekki að hugsa um siðfræði. Skjálfi menn af ótta í jarðnesku lífi, munu þeir hrörna í myrkrinu. Unnt er að sjá að hinn huglausi ferst fyrr en hinn hugrakki; verið þess fullviss að sá sem óttast dauðann dregur hann til sín. Þannig má sjá að ævinlega er gagnlegt að þroska vitundina um hið góða. Við skulum því ekki dvelja lengi við hugsanir um hræðslu, því þegar rætt er um Bræðralag er ekkert rúm fyrir ótta.

62. Í fíngerða líkamanum er Urusvati yfirleitt íklædd purpuralitum grískum fötum. Litur fatanna samsvarar yfirleitt lit árunnar og snið fatanna ber oftast svip af tímabilinu sem stendur andanum næst. Alls staðar í fíngerða heiminum er fegurð flíkanna sem maður klæðist tjáning skýrrar hugsunar. Í hugarheiminum íklæðumst við yfirleitt flíkum einhvers fyrra æviskeiðs. Þeir sem ekki hafa skýrar minningar um fortíðina eiga oft við erfiðleika að glíma í fíngerða heiminum. Þeir minnast aðeins brota af ýmsum klæðum sínum í fortíðinni og úr því verður ósmekkleg samsetning. Þeir finna þörf fyrir að skapa sér strax klæði, en óagað ímyndunarafl þeirra getur aðeins gert mynd af hluta klæðanna. Þegar hinir nýkomnu sjá aðra í ýmiskonar fötum, fer hugurinn á flug hingað og þangað og sérhver bylgja hugsunar myndar sérstakan klæðisbút.

Hið sama gerist við alla hugræna uppbyggingu og að lokum verða menn að eyða þessum ljótu haugum. Það er ekki að ástæðulausu að Við ráðleggjum ykkur að einbeita huganum, að þroska hugsun í jarðnesku lífi, og skilja tilfinningu samræmis, svo sérhver andleg sköpun muni reynast gagnleg í fíngerða heiminum. Okkur líkar best einföld og þægileg klæði sem hindra ekki störf Okkar. Það væri betra ef allir gætu fundið þægileg klæði sem væru gagnleg í fíngerða heiminum, það er ákaflega dapurlegt að sjá menn klædda óviðeigandi jarðneskum fötum. Að sjálfsögðu mun leiðbeinandinn útskýra ljótleika þeirra og óhentugleika, en sumir eru svo sljóir að þeir skilja ekki þannig ráðleggingar. Þeir vilja eingöngu hafa samskipti með orðum, en geta ekki náð tökum á hugrænum samskiptum.

Á lægri sviðum fíngerða heimsins er mikinn ljótleika að finna. Bráðnauðsynlegt er að Jörðin sé hreinsuð af honum. Þegar ég ræði um mátt fegurðarinnar, þá hef ég ekki aðeins Jörðina í huga, heldur einnig fíngerða heiminn. Við dveljum helming lífs okkar í fíngerða heiminum og margir sem eru okkur nákomnir eru nú þegar í fíngerða líkama sínum. Hægt er að ímynda sér fjölbreytileika hins innra lífs í aðsetri Okkar þegar hin ytri jarðneski heimur kemst í snertingu við æðri heimana. Dýrlegir eru glampar elds og geisla!

63. Urusvati kann að meta gildi alls í tilverunni, því allt er afleiðing af virkri hugsun. Þótt eitthvað sé á hnignunarbraut er samt einhvers staðar dulinn í því neisti æðstu orkunnar. Ef einhver hluti eða þáttur af heildarmynd er andstæður því sem menn telja vera rétt er því oftast hafnað algerlega. Þannig bregst hinn fávísi og óreyndi maður við, en með meiri þekkingu lærir hann að meta alla skapandi krafta, þótt þeir séu lítt hæfir. Jafnvel þjónustuandi getur byggt musteri. Þeir hafa ef til vill ekki skilning á tilgangi byggingarinnar, en vegna hæfileika sinna eru þeir góðir smiðir. Sérhver goðsögn ber í sér sannleiksbrot. Til dæmis er oft minnst á neðanjarðarbúana í Agartha, þótt þeir séu ekki til. Sagan varð til ekki langt frá aðsetri Okkar, þar sem við eigum víðáttumiklar neðanjarðar geymslur, en þær eru ekki eins mikilfenglegar og lýst er í sögunni. Aðrar sagnir minnast á „Hvítuvötn“ og „Hina himnesku Jerúsalem.“ Báðar þessar sagnir tengjast aðsetri Okkar. Óviturlegt væri að hafna þessum þjóðsögum án þess að íhuga merkingu þeirra. Sérhver þeirra geymir nákvæmar vísbendingar, oft vísvitandi faldar. Við sjálf dyljum oft merkingu þjóðsagna, svo íbúar í nágrenninu ljóstri ekki upp of miklu. Stundum verðum Við að banna stranglega að gengið sé yfir viss mörk. Ætíð skyldi maður meta vandlega allar aðstæður.

Við skulum samt ekki dvelja of lengi við nákvæm smáatriði vandamálanna. Samverkamenn verða að gera sér grein fyrir því að ætíð er þörf á skjótum ákvörðunum. Ímyndið ykkur magn upplýsinganna sem streymir inn í aðsetur Okkar og við því öllu þarf að bregðast tafarlaust. Með þessu megum Við ekki hræða jarðneska samverkamenn Okkar, en verðum alls staðar að finna nothæfan orkuneista. Margir gagnlegir samverkamenn þurfa á endurteknum vísbendingum að halda, því þeir taka ekki við fyrstu boðum þegar þau eru gefin. Þetta eykur þolinmæði hjá samverkamönnum, sem læra að skapstyggð er ekkert annað en veikleiki viljans. Þokukennd hugsun hefur yndi af endurtekningum, en atburðarásin heldur sínum hraða.

Við viðhöfum gríðarmikla varúð til að setja samverkamenn Okkar ekki í ónauðsynlega hættu. En auðvelt er að ímynda sér hve erfitt er stundum að vernda þá sem ana út í hættur, hneykslaðir á hinni verndandi hönd. Þannig er andrúmsloft Okkar mettað. Aðeins með samvinnu við fíngerða heiminn er Okkur unnt að auka möguleikana.

64. Urusvati virðir dagsetningar. Undrist ekki að Við ræðum aftur um dagsetningar, sem eru svo mikilvægar í innra lífi Okkar. Hægt er að gefa upp margar dagsetningar, en meirihluti manna er ekki fær um að nýta sér þær. Það er vegna þess að sjálfshyggja þeirra kemur í veg fyrir það og fær þá til að taka allar vísbendingar til sín persónulega. Minnst er á mikilvæga dagsetningu, en þegar þeir vakna þann morgunn, spyrja þeir önugir: „Hvar er þessi sérstaki atburður?“ Menn gera sér heldur ekki grein fyrir því að oft gerast atburðir á öðrum sviðum. Skapstyggð og ráðleysi trufla andrúmsloftið; það þjónar engum tilgangi, en eyðing þess krefst orku. Það væri óskandi að menn myndu heldur spara orkuna og nýta hana sjálfum sér til hagsbóta!

Það er mjög skaðlegt að öfunda aðra af árangri þeirra. Þegar það fréttist að einhver hafi náð til aðseturs Okkar vegna liðsinnis sem hann veitti bróður í eitt skipti, munu margir telja sig geta gert það sama. En þeir gleyma því að þjónustan var aðeins síðasta perlan í heilli perlufesti af óeigingjörnum athöfnum. Mörgum reynist erfitt að viðurkenna að einhver sem lítur út fyrir að vera mjög venjulegur geti geymt mörg afreksverk í hjarta sínu. Í mörgum æviskeiðum hefur eldur þjónustunnar logað skært, en hver getur metið framfarir hjartans? Menn eiga yfirleitt erfitt með það sem er ekki venjulegt. Þannig er mörgu hafnað sem gæti komið að gagni í starfi Okkar. Við höfum þurft að gera Okkur mjög venjulega í útliti og höfum stundum neyðst til að taka Okkur jarðneska titla til að eiga auðveldara með að fá aðgang að þröngum og spilltum hópum.

Okkur er ætíð umhugað um að sérhver athöfn sé unnin á réttum tíma. Andstæðingar Okkar geta steypt heiminum í ringulreið og jafnvel hrundið af stað styrjöldum og Við verðum að sjá fyrir afleiðingar slíkra atburða til að tryggja að þeir verði til að efla framfarir þjóðanna. Af þessum ástæðum erum Við nefndir Heimsstjórnin. Margir óttast slík hugtök, en beina samt bænum sínum fúslega til hins æðsta og eru reiðubúnir að þiggja leiðbeinandi hönd. Ef við getum ímyndað okkur hinn æðsta og haft lifandi trú á honum, hví getum við ekki viðurkennt Heimsstjórnina? Þannig væri unnt að staðfesta virðingu fyrir hinum æðsta stjórnanda Helgivaldsins.

Dagsetningar eru gefnar. Lát menn taka við þeim með allri hugsanlegri varúð.

65. Urusvati hefur oftar en einu sinni tekið á sig þjáningar annarra. Þessi athöfn verður hluti af hinni miklu þjónustu. Í fyrstu er hún erfið, en síðar verður slík yfirfærsla og sjálfsfórn eðlislægur hluti mannsins. Læknar gætu fylgst með og rannsakað bæði tilflutning, næmni og yfirflutning sjúkdóms í heild sinni, en einkenni hans gætu orðið mjög margþætt vegna samhliða áhrifa frá mörgum mismunandi uppsprettum. Yfirfærsla á þjáningum annarra getur einnig þróast vegna móttækileika persónunnar. Í byrjun takmarkast yfirfærsla sársauka við nákomna aðila, en svo þróast sjálfsfórnin til annarra og eru miklar vegalengdir engin takmörkun.

Verið ekki hissa á því að víðtæk sambönd Okkar valda Okkur margvíslegum þjáningum; hægt er að venjast öllum aðstæðum. Þegar Við ráðleggjum varúð, gerum Við ráð fyrir möguleikanum á tilflutningi sársauka. Við venjulegar lífsaðstæður væru þessar kvalir ekki fyrir hendi, en aðstæðurnar sem Við ræðum um eru ekki venjulegar, heldur hafa orðið til vegna óeðlilegra lífshátta.

Stundum biðjum Við fólk um að íþyngja ekki starfi Okkar með slíkum sendingum og trufla ekki samstarfsmenn Okkar með því að hella yfir þá líkamlegum og andlegum sársauka. Fjöldinn allur hrópar á hjálp í sjúkdómum sínum, jafnvel þótt þeir hafi sjálfir skapað sér þessar aðstæður deginum áður. Læknar ættu að leggja meiri áherslu á að rannsaka orsakir sjúkdóma í þeim tilgangi að uppræta þá á byrjunarstigi. Margir sjúkdómar eru smitandi bæði líkamlega og andlega. Sjá má að andleg smitun á sér stað oftar og af því leiðir að tilflutningur sársauka eykst.

Hægt er að lesa um sérstakar þjáningar sem óvenjulegt fólk verður fyrir. Þetta eru ekki hinar svonefndu helgu kvalir, heldur meðvituð yfirfærsla á þjáningum annarra. Unnt er að segja um aðsetur Okkar að þar sé enga sjúkdóma að finna, samt er þar mikil þjáning. Slíkt er óhjákvæmilegt þegar unnið er fyrir mannkynið og því hjálpað.

66. Urusvati hefur með réttu veitt því athygli að flestir sem leitast við að nálgast Okkur missa áhugann þegar þeir frétta af mikilli vinnu Okkar. En Við beitum engum þvingunum. Aðeins þeir, sem leiðast til hinnar miklu þjónustu vegna karmískra orsaka, geta orðið áreiðanlegir samverkamenn. Ekki er unnt að þröngva mönnum til að líka við mikla vinnu. Sérhver þvingun á þessu sviði leiðir einungis til andúðar. Bjóðið þá velkomna sem berja að dyrum, en ekki er skynsamlegt að safna iðjuleysingjum af götunni. Allir geta séð að vinir nálgast eftir sérstökum leiðum og hvorki ætterni né þjóðerni skipta þar neinu máli.

Það er sérstaklega mikilvægt að átta sig á að Við búumst ekki við miklum fjölda samverkamanna og Við sjálf erum ekki mörg. En fámennt samfélag er samt mikils virði, því auk hinnar jarðnesku aðstoðar er unnt að kalla til samvinnu frá fíngerða heiminum. Í vissum tilfellum eru samverkamenn frá fíngerða heiminum mjög gagnlegir. Þeir eiga ekkert sameiginlegt með þeim verum sem safnast að fundum spíritista og drekka í sig orku viðstaddra. Slíkar verur koma að engu gagni. Að sjálfsögðu getur það gerst að samhljómur fundargesta geti veitt þroskuðum anda færi á að birtast, en slíkur samhljómur er fátíður og krefst langvarandi samvinnu. Samstarf Okkar við æðri svið fíngerða heimsins hefur annað markmið. Flammarion hefur verið Okkur mjög gagnlegur, og Marconi mun einnig koma að liði, vegna þess að slíkir menn geta nýtt krafta fíngerða heimsins á viturlegan hátt og skilið hvernig best er að vinna fyrir hina miklu þjónustu á Jörðinni. Íbúar æðri sviðanna geta auðveldlega efnisbirt sig, alveg á sama hátt og hinir bestu íbúar Jarðarinnar geta auðveldlega heimsótt fíngerða heiminn.

Urusvati hefur aftur heyrt um sorgir systur Oriole. Það er að sjálfsögðu mjög erfitt að fyllast ekki óhugnaði yfir því að útbreiðsla jarðneskrar hrörnunar er svo mikil að fordæmislaust er. Ekki er mögulegt að stöðva þessa atburði við lok Kali aldarinnar með skipun. Menn verða að ganga í gegnum þá og endurvinna rykið sem sviptivindar þeirra þyrla upp. Það er vissulega erfitt að gera svo mikið rusl skaðlaust, en nauðsynlegt er að aðgreina fræið frá hisminu! Við fullyrðum að sýna þarf hverju fræi mikla aðgæslu. Við lok Kali aldarinnar kemur fram margt sem ekki hæfir. Því heiftúðugri sem bardagi Harmagedón er, því betur nýtist hann til eyðingar úrgangsins. En Andi Jarðarinnar hefur aðra skoðun. Hann hefur mætur á ruslinu og vonast eftir að geta aukið það. Til eru þeir sem ekki vilja þrífa heimili sín og hið uppsafnaða rusl sem það leiðir til getur orsakað íkveikju. Þess vegna ættu þeir sem óttast vinnu að gleyma því að Við séum til.

67. Urusvati veit vel að við getum ekki notað nein jarðnesk tæki til að bera kennsl á vini Okkar. Ekki er unnt að útskýra fyrir jarðneskum skilningi hve samverkamenn Okkar dreifast víða. Þá má finna á mörgum mismunandi stöðum, jafnvel í andstæðum fylkingum og í stríði má finna þá í andstæðum herbúðum. Þannig þversögn er erfitt að útskýra fyrir jarðneskri vitund, en aðsetur Okkar fylgir ekki jarðneskum lögmálum. Víðfeðm vitund getur skilið að til séu tengsl handan jarðneskra lögmála. Er nokkuð erfitt að ímynda sér vini Okkar víðs vegar um heiminn og það að þeir reyni að hefta mennska brjálsemi? Þeir vita ef til vill ekki hver af öðrum, en munu samt sem áður vinna að hinum sömu almennu úrbótum til góðs.

Vinir Okkar hafa við mörg tækifæri beðið Okkur um að búa til einhvers konar merki sem þeir gætu nýtt til að bera kennsl hver á annan, en slíkar tilraunir hafa ætíð endað illa, vegna þess að svikarar voru oft hinir fyrstu til að nýta sér merkin. Þess vegna höfum við hafnað slíkum ytri merkjum og aðeins í mjög smáum hópum höfum Við leyft notkun á merki aðseturs Okkar. Þess vegna er ekki einu sinni hægt að taka upp jarðneska siði að þessu leyti. Hjartað skynjar handan allra jarðneskra takmarkana. Hugsun um Okkur getur logað skært í djúpum hjartans.

Samverkamenn Okkar munu aldrei tala um sjálfa sig sem innvígða, né munu þeir stæra sig af því að vera öðrum fremri. Mælikvarðar Okkar eru handan allra jarðneskra mælistika. Þótt vinir Okkar þurfi stundum að taka að sér jarðnesk embætti, þekkja þeir að minnsta kosti raunverulegt gildi þeirra. Eitt sinn þegar einn bróðir Okkar kom fram á þjóðþingi skreyttur heiðursmerkjum, brostu vinir hans og sögðu að heiðursmerki hans og orður hlytu að vera þung byrði. Bróðir Okkar svaraði, „Lyklar dyravarðarins eru ekki heldur mjög léttir!“ Í þessum anda verða menn að skilja jarðneska upphefð.

Þetta þýðir ekki að Við getum ekki tekið að Okkur stöðu heimsleiðtoga. Við tökum slíkar stöður stundum, en aðeins sem sérstaka fórn. Við skulum skilja á víðtækan hátt þá möguleika sem eru handan þeirra jarðnesku. Það hryggir okkur mikið ef bróðir eða systir neyðist til að yfirgefa Okkur til að halda út á jarðneska pílagrímsgöngu. Hver skilur slíka fórn? Hver mun sýna slíkri sjálfviljugri athöfn viðeigandi alúð og umhyggju? Er ekki slík pílagrímsför sem krossburður?

Mönnum hafa verið gefin fögur tákn, en þeir skilja sjaldan fulla merkingu þeirra.

68. Urusvati skynjar jafnvel fjarlæga jarðskjálfta og breytingar á loftþrýstingi. Fáfróðir munu spyrja hvers vegna þola þarf svo þjáningarfulla skynjun, þar sem ekki er unnt að koma í veg fyrir jarðskjálfta. Þannig spurningar líkjast þeim íhaldssömu efasemdum sem menn viðhafa um vísindalegar uppgötvanir. Hvernig getur nokkur sagt að sá sem getur skynjað sveiflutíðni plánetunnar komi ekki að gagni við öflun þekkingar? Því miður eru einstaklingar með svo næm skynfæri ekki rannsakaðir, þess vegna glatast möguleikinn á að nýta þá til vísindalegra athugana. Eftir eitt hundrað ár munu menn harma þessi glötuðu tækifæri, en nú á tímum eru menn fullir efasemda, jafnvel þótt þeir standi frammi fyrir slíkum einstaklingi. Fíngerð næmni tengist bæði útvíkkun vitundar og vísindum sveiflutíðninnar. Bæði þessi viðfangsefni hafa mikið gildi og eru grundvöllur fyrir ummyndun lífsins.

Hægt er að sjá margvísleg frávik í samskiptum við Okkur. Til dæmis koma sum svör Okkar samstundis, þar sem búist var við spurningu sem ekki hafið unnist tími til að setja fram, en önnur svör koma seint. Hægt er að skýra slíkt annað hvort með aðstæðum í andrúmsloftinu eða að Við séum önnum kafnir við sérstök viðfangsefni. Aðstæður geta verið mjög mismunandi og taka þarf eftir þeim öllum. Höfum einnig í huga að töf á svari við spurningu getur oft stafað af því, að gera þarf varúðarráðstafanir til að vernda upplýsingarnar fyrir mögulegum óboðnum áheyrendum. Hægt er að hlera hugsanasendingar, þess vegna ráðleggjum Við að gæta varúðar bæði í orðum og hugsunum. Það væri alveg mögulegt að þróa sérstaka vísindagrein um rannsókn á orkuútgeislun orða og hugsana. Staðfesting á áhrifum orða og hugsana á jurtaríkið og aðstæður innan plánetunnar byggist á slíkri rannsókn. Við gerum tilraunir með sveiflutíðni, og bróðir Okkar Waughan er einnig önnum kafinn við þær. Margir vísindamenn ættu að þakka honum fyrir aðstoðina sem hann hefur veitt.

Við fögnum þegar slík fræ bera góðan ávöxt.

69. Urusvati þekkir þá sem eru nákomnir Okkur og hafa ferðast til fjarlægra heima. Hinir fáfróðu geta mistúlkað þessar ferðir af illgirni, en fáir munu skilja að þær eru farnar til að sinna sérstökum verkefnum. Erfitt er að gera sér í hugarlund að milli þessara fjarlægu heima séu hugræn tengsl. Það er ekki auðvelt fyrir menn að slíta sig frá hinni jarðnesku einangrun og átta sig á því að mikilvægasti staðurinn er ekki hér á Jörðinni, heldur þar sem þeir geta aðeins skynjað tómarúm. Þörf er á að endurfæðast til að skilja að jarðnesk fegurð virðist aðeins fögur af því að yfirjarðnesk fegurð er ekki þekkt. Á Jörðinni skilst margt á rangan hátt og menn eru ætíð tilbúnir að ímynda sér að í öðrum heimum sé jafn mikill fjandskapur ríkjandi og á Jörðinni.

Margir átta sig ekki á því að yfirmaður Bræðralagsins getur ferðast til fjarlægra heima. Né heldur skilja þeir hvers vegna vissir jarðneskir leiðtogar, þrátt fyrir að vera upplýstir og einlægir, eru fúsir til að skilja bræður sína eftir. Það er aðeins takmarkaður skilningur manna sem fær þá til að hafna hugmyndinni um útvíkkun samfélagsins til margra heima. Einnig er erfitt að ímynda sér að menn geti varðveitt fræ sinnar skýru jarðnesku vitundar, þrátt fyrir að vera í nýjum líkömum og við ólíkar aðstæður. Samt er frumorkan ein og hin sama hvar sem er. Þannig tengsl eru sterkari en allir efnislegir hlutir.

Menn eru ruglaðir í ríminu um hina fjarlægu heima, en þeir misskilja einnig margt sem gerist á Jörðinni. Til dæmis er því trúað að Panchen Rimpoche gefi út vegabréf til Shamballa. Svo gæti virst að þetta sé út í hött, en í raun og veru vísa þessir pappírar ekki til Shamballa, þeir eru um Shamballa. Frá fornri tíð hefur verið til minnisblað um Shamballa sem var gefið þeim sem voru færir um að beina hugsun sinni þangað, en síðar varð þessi skilningur rangfærður og fram hafa komið nokkur furðuleg vegabréf. Einnig eiga margir erfitt með að skilja hvers vegna nokkrir fáfróðir lamar, að því er virðist, geti verið varðmenn Bræðralags Okkar. Menn verða að skilja að þessir lamar eru einstakir; þeir hafa varðveitt hugmyndina um Shamballa sem helgan fjársjóð.

70. Urusvati getur réttilega verið hneyksluð yfir allri vitleysunni sem er skrifuð um Okkur. Ef öllum þessum fánýtu sögum væri safnað saman í eina bók, myndi verða til óvenjulegt safn ósanninda. Táknrænum frásögnum sem orðið hafa til á löngum tíma hefur verið breytt í ótrúleg ævintýri um fjársjóði sem gætt er af lávörðum Shamballa. Þegar skoðaðar eru hinar ítarlegu tíbesku frásagnir er erfitt að skilja hve mikið hefur bæst við af ímynduðum ýkjum. Með þessum ýkjum óskar tíbeska þjóðin eftir því að leggja áherslu á mikilvægi þessa heimsviðhorfs. Til dæmis er skrifað að stríðsmenn Shamballa séu óteljandi og ósigrandi og að leiðtogi þeirra sigri alla illsku og lýsi yfir konungsríki góðleikans. Þannig er trú manna í Austurlöndum, sem varðveita í hjarta sínu goðsögnina um sigur ljóssins. Í Austurlöndum er sérhvert táknrænt orð sem skrifað er ljósinu til dýrðar talið réttmætt, en Vesturlönd hugsa á andstæðan hátt og vilja opinbera allt, jafnvel svo að það leiði til lítilsvirðingar.

Takið eftir því hvernig talað er um Hvíta Bræðralagið á Vesturlöndum. Sagt er að meðlimir Bræðralagsins dvelji löngum á veitingahúsum, að þeir hafi yfir að ráða miklum fjármunum, að þeir ljúgi, þeim skjátlist, þeir afvegaleiði og viti ekki hvernig eigi að velja bestu samverkamennina; að þeir tæli fólk í uppreisn og stríð, að þeir sitji á svikráðum, bruggi launráð, kollvarpi ríkisstjórnum, skipti sér af friðsömu lífi fjölskyldna, valdi kirkjunni tjóni, og viðhaldi ekki fornum siðvenjum. Það er einfaldlega hægt að telja upp alla myrkustu og ófyrirgefanlegustu glæpina og þeir verða allir eignaðir Okkur. Gleymum ekki að þeir sem tala með háleitum orðum um Hvíta Bræðralagið eru oft þeir sömu og setja fram þessar ásakanir.

Heyra má að bróðir R. búi í Karpatafjöllum, en það væri jafn rétt að segja að ég búi í London. Vafalaust hefur bróðir R. komið til Karpatafjalla, alveg eins og ég hef komið til London, en það ætti ekki að afvegaleiða fólk með því að tala um dvalarstaði sem varanlega bústaði. Á sama hátt ætti ekki að telja að bróðir H. búi í Þýskalandi, jafnvel þótt sumir vilji helst takmarka dvalarstað hans enn meira og telja að hann búi í nágrenni Nurnberg. Það er mörg dæmi um hvernig menn afgreiða Okkur eftir eigin geðþótta, um leið og þeir lýsa því yfir að þeir sjálfir séu vígsluhafar af hárri gráðu, eða jafnvel miklir meistarar.

Fáfróðir menn fylla bækur með upplýsingum um víðtæk áhrif Okkar og halda síðan fram sínum eigin óskum sem boðum frá Okkur. Hægt er að ímynda sér hve flókið líf Okkar verður vegna þessa tilbúnings. Til að bæta gráu ofan á svart, búa þeir til og dreifa furðulegum myndum og skipuleggja fundi þar sem mjög ótrúverðugt fólk hikar ekki við að ræða við hvern sem er um ótrúlegar sýnir sínar.

Að sjálfsögðu eru til sérstök samtök sem helga sig öllu því sem leiðir til eyðileggingar. Við ræðum ekki um þau því uppruni þeirra er augljós. Ósk Okkar er að beina athygli ykkar að þeim sem ræða sífellt heimskulega um Bræðralagið og koma með því óorði á það.

71. Urusvati veitir athygli breytingum á straumum á meðan hún á samskipti við Okkur. Rétt er að útskýra að þessar breytingar gerast ekki vegna áhrifa frá Okkur, heldur vegna þess að geimstraumar breytast þegar þeir komast í snertingu við orkustrauma Okkar. Þessu ætti að veita athygli, því annars gætu menn eignað orkustraumum Okkar eiginleika sem þeir búa ekki yfir. Fræðarinn gerir alltaf ráðstafanir til að samskipti við hann verði ekki erfið.

Straumarnir breytast í samræmi við hugarástand þeirra sem eru viðstaddir. Almennt talað ættu menn að veita öllum breytingum á straumum eftirtekt. Mjög oft eru þátttakendurnir sjálfir ekki meðvitaðir um sitt eigið hugarástand og mótmæla því af einlægni. Af ýmsum ástæðum eru menn ekki færir um að greina hvaða hugarástand er ríkjandi. Þeir eru svo mikið undir áhrifum blekkinganna (maya) að þeir halda að þeir segi satt frá, jafnvel þótt þeir fari með ósannindi um sjálfa sig.

Aðsetur Okkar leitast við að dýpka vitundina til þess að berjast gegn áhrifum blekkinganna (maya). Það er ekki auðvelt, en leysir menn undan því að eiga á hættu rangar skynjanir. Hæfni í starfi eykst þegar menn eru lausir undan byrði efans sem sprettur af blöndun straumanna. Í hvert sinn sem straumar brotna myndast eitthvað sem líkja má við rafstraum. Aðeins næm vitund getur aðgreint þessa rafstrauma frá öðrum sársaukafullum skynjunum. Oft er hægt að verða var við skyndilega hækkun á hita, kuldahroll, stingandi sársauka eða vöðvasamdrátt. Rafstraumar sem verða til við brot á straumum geta verkað á þennan hátt, en þeir sem þekkja þessi fyrirbrigði vita að þau eru ekki til marks um byrjun á sjúkdómi.

72. Urusvati er kunnug fundum Okkar þar sem einbeiting viljans er hagnýtt. Vilji Okkar allra er nægilega þjálfaður, en upp koma aðstæður þar sem þörf er á hópeinbeitingu; á slíkum tímum ráðleggjum við öllum nálægum að halda ró sinni. Við vitum að það er erfitt að fylgja því ráði, en stundum er sérstök þörf á rósemi. Sérhver óróleiki í áru nálægra skaðar einbeitingu heildarinnar.

Spurt verður hvaða ró geti verið ríkjandi þegar mikið umrót er ríkjandi í heiminum, en það er einmitt þörf á rósemi þegar mikil spenna er ríkjandi í heiminum. Á slíkum tímum eru vandamál ekki leyst með hefðbundnum aðferðum. Nauðsynlegt er að kalla fram úr djúpum vitundarinnar alla þá frumorku og allan þann stöðugleika sem rósemin byggist á. Það er samt mikil jarðnesk óþolinmæði ríkjandi, sem rýfur einbeitinguna eins og örvahríð. Þessar örvar þarf að fjarlægja, og við það beinist athyglin frá því mikilvægasta. Á úrslitatímum er mikilvægast að taka þátt í einbeitingu Okkar.

Fyrir kemur að Við segjum: „Leitið til Okkar af öllum ykkar mætti.“ Þannig ákall getur virst óvenjulegt, en þeir sem vita átta sig á hinni brýnu þörf sem í því býr. Ekki er auðvelt að beina athyglinni að einum hlut. Menn geta varið mörgum árum í að þróa slíka hæfni, en þrátt fyrir það getur jafnvel lítil fluga truflað viðleitni þeirra þegar mest liggur við. Við höfum öll einhvern tíma gengið í gegnum slíkt álag. Árangur byggist ekki á sérstökum hæfileikum, heldur mikilli löngun. Sérhver getur keppt að því að nálgast fræðara sinn, en kappið verður að vera svo mikið að hann gleymi öllu í kringum sig, hvort sem er á nóttu eða degi, í hita eða kulda, í skamma stund eða langa. Þetta allt er mönnum mögulegt. Og þannig kappsfull viðleitni er Okkur sannlega gagnleg, vegna þess að hún myndar strauma í geimnum sem samræmast Okkar straumum. Ef svo gagnlegar hugsanir væru sendar samtímis frá mörgum löndum, hversu máttugir orkustraumar yrðu þá til!

Við segjum mönnum: „Biðjið ekki.“ Við þekkjum hvers þið þarfnist. Menn vita ekki hvernig á að einbeita athyglinni að því sem mestu máli skiptir og bænir þeirra leiða aðeins til truflunar. Við gerum allt sem mögulegt er og menn ættu einfaldlega að senda Okkur góðvilja. Við erum ekki að kvarta yfir þeim sem gleyma sjálfum sér við að reyna að uppfylla langanir sínar, en Við ráðleggjum auðveldustu leiðina til að komast út úr hinu jarðneska völundarhúsi. Hún felst í viðleitni hjartans til Okkar. Lát þá viðleitni vera hljóða. Lát hjartað gefa sín merki. Við öll þekkjum slíka viðleitni, Við getum sagt að því sterkari viðleitni, því betra. Kappsfull viðleitni veldur sterku blóði og slíkur eiginleiki er gagnlegur ef hann grundvallast á rósemi. En hafi menn ekki tileinkað sér rósemi, ætti að þjálfa hana með beitingu viljans.

Allir verða að viðurkenna að atburðir lífsins gerast ekki af þeirri ástæðu sem við höldum. Oft getur maður séð vísbendingar um æðri leiðsögn. Með því að samræma þá leiðsögn við manns eigið sjálfstæði, fæst samhljómur í lífinu.

Menn munu spyrja: „Eruð Þið ætíð með okkur?“ Við getum það, en maðurinn verður að óska eftir því. Við opinberum fyrir ykkur marga þætti úr innra lífi Okkar. Við sjálf höfum yfirstigið allar hindranir, oft vissum Við ekki, þegar Við fórum að sofa, hvort Við myndum lifa til morguns. Sérhvert Okkar hefur lært að ganga staðfastlega í fótspor fræðarans.

Á erfiðustu tímunum segir fræðarinn: „Lítið svo á að þið séuð hamingjusamari en flestir. Verið þakklát.“

73. Urusvati veit hvernig á að greina blekkingarhjúpa. Við ræðum um hjúpa, vegna þess að það er eitthvað sem er hjúpað og það er frumorkan. Vitur er sá sem getur greint við allar aðstæður hvar hinn eilífi og varanlegi grunn er að finna. Ef þessi næmni er ekki fyrir hendi verður allt sem blekking (maya) eða hvikul hylling. Ógerlegt er að lifa lífinu meðal slíkra tálsýna. Til að finna grundvöll hins eilífa lífs er nauðsynlegt að fá skilning á hvar hægt sé að finna þann stöðugleika sem hinn þreytti ferðalangur getur hvílst á. Óhjákvæmilegt er að menn fari að leita hins eilífa grundvallar. Hugsanir um óbreytanleika geta hvatt menn til athafna og slík viðleitni til athafna er góðs viti. Ef spurt er hvað það er sem auðveldar Okkur að veita hjálp, er svarið að sjálfsögðu athafnasemi. Við getum sagt þeim sem biðja um hjálp: „Hefjist handa!“ Því þá er auðveldara fyrir Okkur að veita hjálp. Jafnvel smávægileg árangurslaus athöfn er betri en engin, því þá getum Við bætt Okkar orku við orkuna sem þið myndið. Það er ekki nein furða að auðveldara er að blanda líku við líkt. Þegar Við viljum beita Okkar orku, leitum við að gagnlegustu hagnýtingu hennar. Við sendum orku Okkar ekki aðeins til að vekja, heldur einnig til að efla orku þeirra sem vinna af kappi. Maður sem vaknar skyndilega getur gert eitthvað heimskulegt. Þann sem sefur ætti ekki að trufla með óvæntum hætti, en þegar menn eru sífellt árvökulir, getum Við hjálpað.

Segið því þegar þið eruð spurð hvað á að gera: „Vinnið!“ Í slíkri athafnasemi nær hjálp Okkar til ykkar. Við og bræður Okkar biðjum ykkur að vinna. Þroskun vitundarinnar er nauðsyn og fágun frumorkunnar er nauðsyn, annars munu hjúpar blekkinganna koma í veg fyrir að samband náist.

Við ráðleggjum oft vinnusemi. Þegar þið skrifið vinum ykkar, ráðleggið þeim að vinna. Nú á tímum eru kraftar náttúrunnar mjög þandir. Sá sem flýr mun hrasa, en hver sá sem stendur stöðugur mun finna nýjan þrótt. Við hjálpum hinum hugdjörfu og í aðsetri Okkar taka allir þátt í vinnunni. Ný spenna mun ekki valda þreytu, heldur endurnýjun.

74. Urusvati harmar réttilega að ýmsir helgisiðir eru enn við lýði, þrátt fyrir að gagnsemi þeirra sé að engu orðin. Eitt er eilíf viska, en sundurlausir og úreltir siðir sem hindra framför eru allt annað. Á öllum sviðum lífsins má sjá skaðlegar leifar. Þær finna sér alls staðar hreiður, undir konunglegum skrúða, prestshempu, eða hvers kyns búningi. Helgisiðirnir hafa fjarlægst svo upprunalega merkingu sína að það er ómögulegt að ímynda sér hvernig svo fáránlegar venjur gátu nokkru sinni hafa tjáð háleit tákn. Í fyrndinni höfðu slíkir siðir sérstaka merkingu sem nú er algerlega gleymd.

Áður fyrr sameinuðu þjóðhöfðingjar starf sitt háleitum andlegum skyldum og voru leiðtogar fyrir samfélög sem stefndu að háleitu marki. Þegar tímar liðu gleymdust þessi ætlunarverk, þjóðhöfðingjarnir urðu að þjónendum ómerkilegra og jafnvel skaðlegra stofnana. Þannig dæmi er víða hægt að sjá. Það er dapurlegt að aðeins eru til fáein brot af helgisiðum sem enn geyma sína innri merkingu; í höndum fáfróðra geta jafnvel þessi brot valdið skaða. Því reynum Við að hreinsa eða fjarlægja leifar siðvenja sem myrkva vitundina.

Menn segja að Við séum mótfallnir öllum helgisiðum. Það er ekki alveg rétt, því vissir helgisiðir geta kallað fram háa tíðni og hreinsað tilfinningar. Við höfum oft rætt um hrynjanda, og enginn Okkar mun fordæma þann hrynjanda sem leiða til samræmis. Fagur söngur getur opnað fögur hlið. Greinið því með varúð milli fáránlegra leifa og þrepa fegurðar. Fræðarinn varar við því að taktur getur haft áhrif á allt taugakerfið. Sum brot af fornum helgisiðum sem hafa varðveist til okkar tíma og trufla vitundina, geta verið mjög hættuleg. Orð sem notuð eru nú á tímum við ýmis konar athafnir voru eitt sinn hluti af særingarþulum til að ákalla myrkraöfl, en núna er þau borin fram án skilnings og jafnvel með röngum hrynjanda. Slík afbökun hljóða getur haft andstæð áhrif við það sem til er ætlast, þess vegna ættu menn að rannsaka hin fornu rit í þeim tilgangi að eyða burt ryki aldanna. Við erum ekki að tala um grófgerðar breytingar, heldur hreinsun hugsunar. Við hörmum það þegar hrynjandi er afbakaður og veldur eyðingu í stað uppbyggingar.

75. Urusvati gerir sér grein fyrir þeim skaða sem felst í því að fyrirgefa ekki. Slíkar tilfinningar geta aðeins grafið um sig við jarðneskar aðstæður, því að í lífi Okkar, þar sem vitneskja um fyrri æviskeið er fyrir hendi, er slík óvild ekki möguleg. Í hverju æviskeiði er að finna mörg tilefni óvildar; væri þeim haldið til haga í gegnum öll æviskeiðin, myndi skapast langur svartur slóði sem dregst á eftir manni og er til hindrunar. Með slíku viðhengi er framför ómöguleg!

Menn valda sjálfum sér miklum skaða með því að takmarka vitund sína við eitt jarðneskt æviskeið. Þeir búa sér til hindranir alls staðar. Þegar Við beinum athygli þeirra til framtíðar, hafa þeir yfirleitt ekki skilning á því hvernig á að byrja að hugsa á þennan nýja hátt. Einn gæti haldið að hann verði ætíð bundinn við sama staðinn; annar gæti haldið að hann verði alltaf að halda sig við sama starfið; sá þriðji gæti sannfært sjálfan sig um að hann myndi ekki þola að skipta um umhverfi; sá fjórði gæti haldið að hann myndi deyja úr fyrsta sjúkdómnum sem hann fengi. Þannig skapar hver sína eigin fjötra og áttar sig ekki á því að í fyrri æviskeiðum hefur hann nú þegar gengið í gegnum margvíslega reynslu. Hefðbundið líf á Jörðinni, í algerri vanþekkingu á fortíðinni, hindrar menn í að hugsa um framtíðina.

Flestir yfirgefa Jörðina án þess að átta sig á því að þeir verði að snúa aftur. Ef þeir gætu aðeins munað eitthvað úr fortíðinni, og lærðu að hugsa um framtíðina, þá myndu þeir forða sér frá mörgum mistökum.

Það er ekki óttinn við helvíti heldur þráin eftir fullkomnun sem mun leiða menn til betra lífs.

Við þekkjum fortíðina, samt lifum við í framtíðinni; Við óttumst ekki óendanleikann og fögnum hverri framför. Framtíðin er sem mikill raunveruleiki, aðgreind frá okkur með þunnri lokaðri hurð, en er samt að myndast við sérhvern andardrátt okkar. Þegar vitundinni er beint til framtíðar, er þá mögulegt að ala með sér óvild? Enginn tími er til að kafa niður í fortíðina. Menn ættu að vita um hið ófrávíkjanlega lögmál; það er ekki fyrir mennska vitund að hafa áhrif á karmalögmálið. Þess vegna skulum við læra að fljúga, ekki aðeins í fíngerða líkamanum, heldur einnig í vitundinni.

Áttum okkur á því að sérhvert andartak er strax orðið að fortíð og að framtíðin er okkur gefin. Þetta er ráð Okkar til allra sem er annt um aðsetur Okkar.

76. Urusvati veit hvernig á að gæta þess sem henni er trúað fyrir. Ekki er auðvelt að finna jafnvægið milli þess að leyna eða afhjúpa. Byrjendur eru gjarnir á að segja frá öllu sem þeir hafa lært, en hugsa ekki um afleiðingarnar. Margar hörmungar hafa hlotist af óviturlegri frásagnargleði þeirra. En reynslan kennir nokkra visku og með tímanum er unnt að finna réttar leiðir til miðlunar. Verkefnið er erfitt og menn ættu að meta hve mikið áheyrendur geta tekið við. Lyf verður að gefa í hæfilegu magni, hvorki of lítið né of mikið. Hægt er að minnast tilvika þar sem eftir langar samræður kom spurning sem opinberaði skilningsleysi hlustandans. Svar getur valdið skaða. Ráð Okkar er að bókunum sé einfaldlega komið þangað sem þær eru aðgengilegar svo að þær finni sínar eigin leiðir. Með þessu erum Við að gefa til kynna sérstaka aðferð við miðlun fræðslunnar.

Til hafa verið pílagrímar sem ekki fengu bækurnar, jafnvel þótt hjörtu þeirra brynnu af löngun til sannleikans, vegna þess að ytra útlit þeirra kom í veg fyrir að þeir mættu réttum skilningi. Til dæmis gæti einn verið of vel klæddur, annar of fátæklega klæddur. Yfirborðslegar athuganir geta komið í veg fyrir gagnleg samskipti.

Meðal fólks á förnum vegi geta verið slæmir einstaklingar, en einnig vitrir menn og lærðir. Vitur athugandi beinir ekki athyglinni að yfirborðslegum smámunum. Menn verða alltaf að leitast við að sjá það sem mestu máli skiptir. Hægt er að mæta mönnum sem er nákomnir Okkur, án þess að veita þeim eftirtekt. Það veldur Okkur oft sorg þegar ekki er tekið á móti gagnlegri sendingu, en lögmál hins frjálsa vilja leyfir ekki að beitt sé þrýstingi. Þannig hefur útbreiðsla fræðslunnar sínar sérstöku leiðir. Áður fyrr voru menn vanir að segja: „Flýttu þér hægt.“ Útbreiðslu bókanna verður að vera í nákvæmu jafnvægi. Á komandi öldum muntu sjá hvernig fræðslan frá Okkur mun breiðast út.

Mikill fjöldi manna er byrjaður á sjá skýrt.

77. Urusvati veit að öll efnisleg birting leiðir í ljós einhvern lítinn hluta af hinum ósýnilega heimi. Til eru ljósmyndafilmur sem eru næmar fyrir ósýnilegum hlutum, til dæmis útgeislun fyrirsætunnar, en eru ónæmar fyrir hluta af efnislíkama hennar. Hin máttuga útgeislun grundvallarorkunnar getur jafnvel hulið einhvern, alveg eða að hluta. Efasemdamenn geta spurt hvers vegna svo óvenjulegar ljósmyndir séu svo sjaldgæfar. Það gæti stafað af ástandi grunnorkunnar, eða einfaldlega af því að ljósmyndafilmurnar eru ekki skoðaðar nægilega vel. Mikið er til af svonefndum misheppnuðum filmum, en enginn leggur á sig þá fyrirhöfn að skoða gaumgæfilega það sem virðast vera ónýtar myndatökur.

Þegar byrjað er að gera tilraunir með ljósmyndun búast menn við skjótum árangri, en árangurs er aðeins að vænta á þeim sjaldgæfu tímum þegar menn eru meðvitað eða ómeðvitað tilbúnir til þess. Ekkert getur gerst án orsaka.

Við gerum tilraunir með filmur og hægt er að fullyrða að nýjustu filmurnar eru alveg hæfar til að gera tilraunir sem geta hjálpað til við að leysa vandamálið um hinn ósýnilega heim. Til viðbótar því að taka myndir með myndavél, er einnig hægt að fá fram myndir á filmuna með því að halda á henni í hendinni eða með því að stinga henni undir koddann á nóttunni.

Nauðsynlegt er að dreifa þekkingu um hinn ósýnilega heim með öllum ráðum. Árangur þróunarinnar byggist á því. Síðar kemur vitneskjan um fíngerðar orkutegundir. Þegar Við ræðum um sýnileika margra fíngerðra fyrirbrigða, líta sumir á það sem skáldskap. Slíkir menn gætu ekki komið í bústað Okkar, því þeir myndu verða of hræddir! Öll fíngerð merki myndu virðast þeim ótrúleg og óaðgengileg.

Tæki Okkar gætu líkst einföldum viðtækjum, en þau eru hönnuð fyrir fíngerðari sveiflur. Þörf er á aukinni prönu til að ná fram nægilegri spennu. Öndun ósongjafa okkar má líkja við öndun lifandi vera. Ljóskerfi okkar, sem líkjast neonpípum, geta gefið mjög bjart ljós. Hægt er að auka áhrif slíkra vélrænna áhalda með þekkingu á fíngerða heiminum.

78. Urusvati hefur séð sprengingar frá myrkum skotum. Hvað merkir þetta? Á að líta á þetta sem eitthvað táknrænt, eða raunveruleg skot? Við verðum að viðurkenna með mikilli sorg að slík skot eru raunveruleg, jafnvel í fíngerða heiminum. Þau dreifa eitruðu gasi sem styrkir hið brúna gas sem mengar plánetuna. Myrkraöflin nota ákaflega skaðlegar aðferðir til að komast inn í andrúmsloft Jarðarinnar og dreifa hinum hættulegu efnum. Þau bjóða lögmálum alheimsins birginn og vonast til að vinna sigur með því að valda sem mestri ringulreið. Þeir eru hættulegir andstæðingar, en ekki mjög vitrir, því þeir hugsa ekkert um jafnvægi plánetunnar. Sá sem hefur séð þessar skelfilegu sprengingar frá myrkum skotum getur skilið að gera verður miklar gagnráðstafanir til að eyða hinum skaðlegu áhrifum.

Urusvati veit hve slæm áhrif þessir bardagar hafa á heilsuna. Til viðbótar hinni eitruðu svælu myndast rafmagnshögg sem veldur titringi sem líkist jarðskjálfta og jafnast á við mikið áfall. Jafnvel sterkir einstaklingar geta fundið fyrir óvæntum sársauka, en þar sem hann varir aðeins um skamma hríð, hugsa þeir ekki um hann. Samt sem áður er grafið undan heilsunni og afleiðingin er sjúkdómur. Þannig ólmast myrkraöflin í brjálsemi sinni gegn mannkyninu.

Þið getið ímyndað ykkur hve mikilli orku er eytt til að sigrast á þessum árásum myrkraaflanna! Við höfum sagt að Við erum á verði, en ekki til að fylgjast með, heldur til að berjast. Menn gætu hjálpað, en þeir eru ekki fúsir til að trúa því að allir geti beitt hugsunum sínum og mætti til hjálpar heildinni.

Sá sem hefur séð þessi myrku skot, sá sem hefur heyrt kveinstafina í geimnum, mun ekki gleyma skyldu sinni við mannkynið.

79. Urusvati hefur reynt eitt hið erfiðasta af jarðneskum fyrirbærum – skynjun algers myrkurs. Það er skelfilegt, því það veldur svo magnaðri angist, að hún jafnast á við köfnun. Hvaðan kemur svo skaðlegt myrkur? Það gæti virst eins og andlegt hugboð, sem líkt og bein þekking knýr allt lífkerfið til að upplifa tilfinningu um að eitthvað sé í vændum. En í reynd er það margfalt hættulegra, því það er útgeislun frá pláneturotnun. Þegar menn komast í snertingu við þetta myrkur, er ólýsanleg angist þeirra skiljanleg. Þessi snerting gerist yfirleitt í undirmeðvitundinni, því fáir hafa skynjað þetta skaðlega myrkur meðvitað. Þeir sem það reyna upplifa sérstaklega sterka tilfinningu. Ef menn komast í snertingu við algert myrkur á meðan þeir eru í efnislíkamanum, er líklegt að þeir upplifi ákaflega sársaukafullar skynjanir, einnig er hugsanlegt að það valdi bruna í orkustöðvunum. Við þekkjum þessa snertingu, hún ræðst á sálrænu orkuna. Menn þurfa að búa yfir mikilli prönu til að standast árás hins eitraða efnis. Snerting við algert myrkur er svipað því að snerta rotnandi lík. Þegar við eigum von á sérstaklega miklum þrýstingi frá myrkraöflunum, eflum Við með ákveðnum hætti lífsorku Okkar. Þeir sem eru undir Okkar verndarvæng fá sérstaka aukaorku til að standast áhlaup myrkursins.

Mörgum gæti virst að þessi frásögn um myrkrið sé tilbúningur, en jafnvel efasemdamenn hafa vitneskju um banvænt gas sem getur streymt upp úr jörðinni. Ef við höldum áfram þessari hugsun leiðir hún okkur að lokum til hins algera myrkurs. Við höfum sýnt Urusvati það, svo að hún geti verið lifandi vitni um þá dauðans angist sem maður finnur fyrir þegar maður snertir þennan óvin plánetunnar. Tilfinningin er svipuð og sú sem verður við árás kyrkislöngu.

Við skulum ekki ætla að myrkrið snerti aðeins ákveðna menn; ummerki þessa eitruðu áhrifa er alls staðar að finna. Áhrif þess getur verið allt frá slæmu skapi til hættulegs sjúkdóms. Ef myrk skot falla að ofan, og myrkrið streymir upp að neðan, gæti virst sem aðstæður mannkynsins séu vonlausar. En hinir vitru segja: „Hugsið ekki um aðstæður, betra er að hugsa um stöðuga framför.“

80. Urusvati hefur heyrt söngva náttúrunnar, en það nefnum Við samhljómana sem óma þegar myrkrið er sigrað. Þeir líkjast tónlist himnanna, en tengjast meira Jörðinni en æðri sviðunum. Flestir hafna sérhverjum votti hinna æðstu samhljóma og þegar þeir hljóma, kvarta þeir yfir sóni í eyrunum.

Margir sem telja sig vera dulspekinga loka fyrir náttúrulegar tilfinningar sínar. Of margar bækur rugla þá með lýsingum á æfingum sem ætlaðar voru í öðrum tilgangi. Við kjósum að hitta nýtt fólk sem er ekki hamlað af þessum gagnslausu æfingum. Tónlist himnanna og söngvar náttúrunnar eiga greiðari leið að fólki með kærleiksríkt hjarta. Þeir sem heimta æfingar fyrir hjartað, fyrir kærleika, fyrir samúð, munu ekki opna eyrun fyrir hinum æðri samhljómum.

Álítið ekki að Við höfnum bókum og starfi þeirra sem leitast við að skilja alheiminn. Alls ekki. Við hörmum það aðeins hversu þekking þeirra er illa nýtt í lífinu. Þeir sem eru Okkur nákomnir líkjast ekki þessum gervi meisturum. Sá sem vill taka þátt í aðsetri Okkar verður að eiga oftar samskipti við hjarta sitt og senda í gegnum það að minnsta kosti hljótt ákall til Okkar. Stundum er talað um slík áköll að þau séu „án hugsunar,“ vegna þess að tjáning þeirra er með tilfinningu frekar en hugsun. Skilin á milli hugsunar og tilfinningar eru óljós, þið skiljið þessi mörk, þau eru eins og mörkin á milli hliðanna á dýrmætum gimsteini. Aðeins ljós getur birt þessar hliðar og ljós hjartans verður líkt og dýrmætur gimsteinn. Manni gæti virst að þetta sé allt mjög flókið, en í raun og veru er hægt að tjá það með fjórum orðum: „Ég elska þig Drottinn.“ Þetta er tengingin til Okkar. Slík tenging er mun sterkari en beiðnin: „Hjálpaðu mér Drottinn.“ Við vitum hvenær mögulegt er að hjálpa og hjálpin flýgur auðveldlega á vængjum kærleikans. Hún kemst í gegnum allar hindranir. Elskum hvert annað.

81. Urusvati hefur rétt fyrir sér að staðfesta ást á hreyfingu. Án kærleika getur maður ekki skilið nauðsyn hreyfingar. Maður getur hlustað á leiðbeiningar um lögmál hreyfinga alheimsins og getur viðurkennt að minnsta stöðvun hreyfingar truflar allan alheiminn, en það er ómögulegt að beita þessari þekkingu í lífi manns án kærleika. Hreyfing alheimsins er ekki ys basaranna, eða á almenningstorginu, heldur taug skapandi lífs sem knýr meðvitundina í átt að fullkomnun.

Sá iðjulausi mun ekki skilja hvers konar hreyfingu við tölum um. Hann kýs aðgerðaleysi og vill að kosmíska hreyfingin velti honum áfram eins og dauðu sandkorni. Að vísu erum við öll minna en sandkorn í óendanleikanum, en hver hreyfing vitundarinnar verður frábær samvinna. Það er ekki auðvelt að innræta fólki ást á hreyfingu, en það verður að muna að Við vinnum stöðugt og birtum þannig hreyfingu alheimsins.

Það er rétt hjá Urusvati að krefjast einingar. Við köllum einingu græðandi innrennsli, samhljóm hreyfinga sem ekki er hægt að kalla fram eða skapa með þvingunum. Sumir líta á ráðleggingar um einingu sem fjötra. Þeir kjósa frekar að kalla fram eyðileggingarkrafta frumefnanna og láta troða á sér, frekar en að leggja sig fram um samvinnu. Við munum ekki þreytast á að sýna þeim viturlegu samúð sem búa sig undir eigin eyðileggingu. En er ekki ljóst hvað hefur verið sagt? Lærir mannkynið aðeins af bitrum afleiðingum?

Láttu ráð Okkar um hreyfingu og einingu fara fram. Aðsetur Okkar hvílir á þessum meginreglum.

82. Urusvati veit hversu óvænt miklar birtingarmyndir geta átt sér stað. Þannig hefur hún séð svið fíngerða heimsins, ekki í fíngerða líkama sínum, heldur í hinum líkamlega, með opin augu og alveg vakandi. Hún hefur séð mannfjöldann í fíngerða heiminum og var undrandi á mannfjöldanum sem gekk aðgerðalaus án athafna. Að vísu var henni sýnt það svið fíngerða heimsins sem snertir okkur sérstaklega. Þar sáust samtímafötin sem styrkja jarðneskan hugsunarhátt og fólk þyrptist saman eins og á torgi hvers nútímabæjar. Við erum mjög sorgmædd yfir því að slíkur mannfjöldi sé minnst aðgengilegur fyrir þróun.

Það má sjá að hugsun þeirra er svo sjálfhverf að það sér ekki út fyrir sinn eigin fjölmenna og hreyfingarlausa hring. Þau menga hvort annað og, eins og á jörðinni, geta þau ekki litið upp. Urusvati getur vottað hversu þétt þessi svið eru.

Ekki er oft leyft að skoða fíngerða heiminn með opnum augum og með fullri meðvitund. Slík tilraun getur valdið mikilli spennu í lífverunni og er skaðleg fyrir augun. En í tilefni af degi heilags Sergíusar vildum við sýna Urusvati sláandi mynd. Venjulega er það aðeins í draumum og í fíngerða líkamanum sem fólk getur haft samband við fíngerða heiminn og leyft að minnast þessara ósýnilegu mynda.

Við getum séð fíngerða heiminn með opnum augum, en það er ekki auðvelt að öðlast slíka skyggnigáfu. Af ýmsum tegundum skyggnigáfu sem við upplifum er það erfiðast með opnum augum. Urusvati er fær um að sjá með opnum augum þá í fíngerða heiminum sem vilja verða sýnilegir henni, en í fyrra dæminu erum við að tala um að gerast áhorfandi og einfaldlega finna sjálfan þig á götu í fíngerða heiminum án nokkurrar þátttöku í þeim heimi. Stundum ætti að minnast vísbendinga um það líf, svo það hvetji til að reyna af krafti að rísa upp fyrir þessi svið.

83. Urusvati skilur einsleitni lögmála í öllum heimum. Fólk heldur venjulega að lögmál efnisheimsins eigi ekki við um andlega heiminn, en sérhver atburður í lífinu minnir mann á að kjarni lögmála er óumbreytanlegur. Til dæmis, þegar maður klífur fjall skilur maður eftir sig alla óþarfa byrði. Er það ekki eins í hinum andlega heimi? Maður sem dettur úr hæð eykur hraðann þegar hann dettur og ekki einu sinni mýksta dýnan bjargar þeirri sem fellur. Er það ekki eins í hinum andlega heimi? Maður getur borið saman grundvöll allra heima og komið auga á einsleitni lögmálanna. Maður ætti að nálgast fíngerða heiminn með þessum mælikvarða. Sumir eiginleikar geta verið minna áberandi en í hinum líkamlega heimi, á meðan aðrir verða ýktir. Í neðri lögum eykst girnd og á hærri sviðum aukast bestu eiginleikar. Þar vex skyldutilfinning manns og er sérstaklega áberandi á þeim tíma sem endurfæðing fer fram. Háleitur andi stendur ekki á móti því að flytja náttúrulega inn í nýtt líf. Hann gleðst yfir möguleikanum á eigin þroska og leitar á virkan hátt í erfiðari verkefni til að reyna endurnýjaða meðvitund sína. Hinn háleiti andi leitast inn á erfiða braut, en sá veiki heldur fast við leti og hugleysi.

Fólk kemur til Okkar aðeins eftir erfiðum slóðum. Ekki er hægt að nefna neinn bróðir, né systir, sem ekki fór erfiða leið. Hver og einn hefði getað valið auðveldari leið, en gerði það ekki til að flýta uppgöngunni. Maður getur ímyndað sér andrúmsloftið sem magnast við svona erfiði! Titringurinn er svo öflugur að þeir sem ekki eru vanir honum, þola hann ekki. Í sameiningu við kraft titringsins geislar sameinuð spennan skært til að mynda fallegan regnboga.

Andrúmsloft bústaða Okkar geislar á þennan hátt.

84. Urusvati veit hversu mikið maðurinn er stöðugt stýrður af frumorkunni. Allt frá mestu afrekum til hversdagslegustu atburða er fólk undir áhrifum frumorkunnar sem hefur hlotið svo mörg nöfn að hún hefur misst sjálfsmynd sína í augum mannkyns. Það er kominn tími til að endurheimta grundvallarþýðingu þess og ekki nota neitt af fyrrnefndu nöfnunum heldur halda aðeins því einfaldasta og tjáningarmesta, frumorku. Mikilvægast er að fólk læri að skynja nærveru þess, þá verður samstarf við hana að veruleika.

Maður ætti ekki að vera hissa þegar Við tölum um samvinnu með orku sem er innra með okkur. Hvernig getur maður unnið með sjálfum sér? Við skulum ekki gleyma því að frumorkan er til alls staðar og neisti okkar af þeirri orku verður að vinna með hæstu straumum. Þannig getum við skilið betur leiðbeiningarnar, sem svo mikið hefur verið sagt um. Sannarlega eru leiðsögumenn til sem og freistarar. Sérhver maður í jarðvist er umkringdur bæði vinum og óvinum. Án efa safnast að margt af umhyggju og hatri fyrri lífa í kringum mann. Þegar maður biður um hjálp, finnst honum að það hljóti að vera eitthvað raunverulegt nærri honum á meðan hann lifir, og sannarlega hefur hann ekki rangt fyrir sér. Að auki, ef hann gæti áttað sig á nærveru frumorkunnar, væri ákall hans enn áhrifaríkara.

Við viljum skapa ígrundaða samvinnu alls staðar og myndum gleðjast ef fólk drægist að sínum öruggasta leiðsögumanni. Það er einmitt frumorkan sem sýnir manninum mælikvarða möguleikanna. Hann heyrir rödd samvisku sinnar, en það er frumorkan sem gefur þessari rödd hvata. Hver einbeitni er afleiðing þessarar orku og þróast betur með því að viðurkenna hana. Slík viðurkenning er eins og ákall um styrk. Meðal helgisiða hinna fornu leyndardóma má finna ákall valds. Þetta ætti ekki aðeins að skilja sem vernd gegn myrkum öflum, heldur einmitt sem ákall um krafta sem eru falin í djúpum lífverunnar. Þannig geta allir fullkomnað krafta sína með því að viðurkenna þá.

85. Urusvati skynjar segulmagn hluta. Þessi hæfileiki er mögulegur með myndun margra fíngerðra tilfinninga. Við erum ekki að tala um nákvæma útskýringu á sögu hvers hlutar, því mörg uppsöfnunin á hlut getur gefið mismunandi vísbendingar frá mismunandi tímum. Þeir sem halda á hlut og byrja að segja sögur af lífi hans þjóna engum tilgangi; hins vegar er mikilvægt að finna fyrir kjarna hlutar og skynja samhljóm hans.

Það er ekki síður mikilvægt í lífinu að forðast hluti sem hafa haft óþægileg samskipti og áhrif á þá í tilvist þeirra. Jafnvel nýlega framleiddir hlutir halda útgeislun þeirra sem mótuðu þá. Þess vegna ætti maður ekki að vera á kafi í smáatriðum hluta. Frumorkan mun vara við kjarna hlutanna og maður ætti ekki að hafa hluti nærri sem leiða til sorgar og óþægilegra tilfinninga.

Segulmagn hluta má sjá í hringjum sem breyta um lit, allt eftir atburðum. Segulmagn vatns er þekkt, en segulmagn tiltekinna málma kemur fram með erfiðara móti. Þannig fórum við með hring Urusvati til aðseturs Okkar til að segulmagna hann. Við skulum ekki kalla slíka hluti töfra; þeir samræmast einfaldlega frumorku þess sem ber þá. Það er ekki hringurinn sem gefur til kynna atburðina, heldur frumorka eiganda hans. Aðeins hreint silfur getur titrað til frumorkunnar. Hringur Urusvati gæti orðið rauður, svartur eða gulur, allt eftir atburðum. Við gerðum þessa tilraun vegna þess að geislun frumorkunnar vekur sérstakan áhuga Okkar.

Snerting við fíngerða heiminn hjálpar mjög. Grundvallarheimunum þremur er oft líkt við þrjár tegundir hafstrauma. Reyndur sjómaður gefur ekkert fyrir rek yfirborðsfroðunnar og óttast ekki miðóróann, heldur spáir hann stormi eftir dýpstu straumunum. Við skulum því ekki óttast froðu hins líkamlega, heldur gefa gaum að fíngerðum birtingum. Við ættum að skilja kjarnann í samræmi við eldmerkin. Frumorkan er brennandi efnið.

Sannarlega erum við bræður og systur fædd af eldi. Þess vegna, þegar þú sérð Okkur fyrir þér, umkringdu myndir Okkar eldi. Og við munum þekkja þig af eldfræinu.

86. Urusvati veit hve mikil spennan er. Við segjum: „Snúið ykkur til Okkar,“ en maður ætti að spyrja hvernig, og við munum svara: „Af öllum huga, af öllu hjarta. Þetta er auðveldara að segja en að gera, því að bjóða upp á allt hjartað er að vera ástfanginn, og þar sem sönn ást er, er enginn staður fyrir efa. Þeir sem elska munu ekki gagnrýna eitthvað sem þeir skilja ekki. Þar sem gagnrýni er til staðar er ekki algjör ást.

Hálfkák í aðgerðum duga ekki á dögum mikilla hörmunga, þegar eining þarf að vera til staðar, hindrar jafnvel minnsta ósætti. Óvinveittu öflin búa í svo litlum sprungum og eitur seytlar inn í skjöld sem er skemmdur af ósætti, gegn þeim er vörn Okkar fullkomin ást. Láttu alla vini Okkar klæðast þessari áreiðanlegu brynju. Ekki blekkja sjálfan þig með því að halda að litlar flísar séu skaðlausar, því þær valda hræðilegri sýkingu. Í ákafa lífsins eru sprungur efans hættulegastar.

Við leggjum áherslu á að gætt sé að heilsu manns. Getum við leyft samstarfsmönnum Okkar að vera kærulausir? Svo sannarlega getum við það ekki! Við sjáum fyrir árás hinna myrku, sem reyna hvað sem það kostar að stytta líf verkamanna ljóssins og nýta sér hvern veikleika lífverunnar til að valda meiðslum á viðkvæmum stað. Ekki halda að hjálp Okkar sé óviss, en öll röng skref geta reynst banvæn og við getum aðeins verndað þá sem þiggja hjálp Okkar. Sérhver óverðug hugsun getur slitið þráðinn og fólk varpar oft fram óafvitandi skaðlegum hugsunum. Á tímum mikillar neyðar verður maður að geta snúið sér til kennarans af öllu hjarta, vitandi að hjálp hans mun ekki tefjast í eitt augnablik.

Trú er sönn þekking og traust er leiðin til árangurs. Vantraust er afleiðing vanþekkingar á starfi Okkar. Það er nauðsynlegt að tengja hvern einstakan við aðstæður í heiminum og gera sér grein fyrir hvernig mannleg mistök geta flækt hjálp Okkar. Fólk tapar bestu möguleikum sínum. Við bendum á nauðsyn sameiningar, en það eru ekki einu sinni þrír sem geta uppfyllt óskir Okkar!

Að minnsta kosti þegar það er í hættu, ætti fólk að átta sig á þörfinni fyrir einingu - ef ekki með hjartanu, þá með skynsemi. Svona verður maður að hugsa á tímum mikilla hörmunga.

87. Urusvati veit hversu upptekin Við erum af stjörnuefnafræði. Efnafræðivirkni milli plánetna eru vísindi framtíðarinnar. Sama hvaða nafni það kann að vera gefið, þetta efni verður rannsakað af athygli jafnvel í skólum. Réttara væri að kalla það sálefnafræði, því ekki aðeins sérhver himneskur líkami, heldur allt sem til er, framkallar sterk efnahvörf. Það er kominn tími til að gefa þessum samskiptum gaum, ekki aðeins frá sjónarhóli svokallaðs segulmagns heldur einnig af sjónarhóli efnafræðinnar.

Efnahvarf verður til í hverju handabandi. Ekki aðeins getur líkamleg sýking borist heldur myndast einnig efnafræðilegt efni. Fólk afneitar tilvist þessara viðbragða, gerir sér ekki grein fyrir því að allt rými milli pláneta er gegnsýrt af þeim. Mikið hefur verið rætt um litrófsgreiningu og beitingu hennar, en slíkar kenningar hafa að mestu haldist afstæðar. Engu að síður hefur allt þetta veruleg áhrif á jarðlífið. Ef fólk viðurkenndi að allir hlutir hafa útgeislun, væri næsta skref að samþykkja efnafræðilegu þætti þessara útgeislunar. Af litlum staðreyndum geta vaxið miklar uppgötvanir, jafnvel um áhrif milli pláneta.

Við erum upptekin af rannsóknum í sálefnafræði. Fíngerði heimurinn hjálpar til við þessar rannsóknir vegna þess að hann er fullur af fíngerðustu efnafræðilegum athöfnum, sem auðvelda fjarskipti og skapa aðstæður fyrir næma aðgreiningu. Allir geta hafið slíkar tilraunir með því að athuga hvers vegna hann telur sig laðast að eða hrindir frá sér ákveðnum hlutum. Með tímanum verða tilraunir af þessu tagi teknar upp af efnarannsóknarstofum, en jafnvel nú mun nákvæm athugun hjálpa til við að greina slík fyrirbæri og áhrif sálefnafræðilegra viðbragða á frumefnin munu koma í ljós.

Þannig skulum við vera varkár með alla hluti í kring um okkur, án þess að tapa skilvirkni athafna!

88. Urusvati verður reið þegar hún heyrir um stríð, systir Oriole er skelfingu lostin og við erum öll sorgmædd yfir villimennsku mannkynsins. Neikvæðasta birtingarmynd frjáls vilja sést í stríðsumbrotum. Fólk neitar að hugsa um þá hræðilegu strauma sem þeir kalla fram með fjöldamorðum og afleiðingunum sem það mun hafa í för með sér. Hin forna ritning varaði réttilega við því að sá sem lifir fyrir sverðið mun farast fyrir sverði.

Það er munur á karma yfirgangs og varnar. Það má sýna fram á hvernig árásarmenn verða fyrir alvarlegustu afleiðingunum og hversu hræðilegt ástand þeirra er í fíngerða heiminum. Fólk blekkir sjálft sig með því að halda að miklir sigurvegarar uppskeri ekki slæmt karma á jarðnesku lífi sínu. En karma hefur sína eigin tímabæru nálgun og sýnir sig ekki strax. Lífið er samfellt og vitrir skilja líf sitt sem eitt hálsmen.

Árásarmenn íþyngja karma sínu ekki aðeins með því að drepa heldur einnig með því að menga andrúmsloftið, sem á sér stað í stríði. Eitrun á jörðinni og á öðrum sviðum er langvarandi. Þú sem ræðst inn í lönd nágranna þinna, hefur enginn sagt þér hvaða afleiðingar bræðravígið hefur haft?

Bústaður Okkar hefur orðið vitni að mörgum styrjöldum og við getum vitnað um hvernig þessi illska eykst á óvæntustu vegu. Fólk veit að sprengingar geta valdið rigningu, en hvað með eiturgas og hugsanleg áhrif þess? Hversu sorgleg Við erum að sjá frjálsan vilja, sem var veittur sem æðsta gjöfin, birtist á þennan hræðilega, stjórnlausa hátt.

89. Urusvati skilur mikilvægi þagnarinnar. En hvers konar þögn á þetta að vera? Fólk heldur að þögn sé einfaldlega að þegja, en sannur kraftur kemur þegar öll lífveran er yfirþyrmd þögn og orka myndast sem leyfir samfélag við hærri heiminn. Við þekkjum þessar stundir vaxandi orku og getum fullyrt að þögn af þessu tagi er mesta spennan.

Maður verður að æfa sig að ná þessu ástandi, en það er aðeins hægt að öðlast smásaman. Maður getur í lífi manns hvernig meðvitund um þessa orku þróast og þannig víkkað möguleika manns, hverjar sem aðstæðurnar kunna að vera. Því fyrr sem maður fer að eflast í reynslu sinni, því betra.

Þegar þögn ríkir í Turni Okkar, merkir það að Við upplifum þessa kröftugu spennu og samfélag við hærri heim mun leiða til endurnýjunar krafta. Við þurfum slíka uppsöfnun nýrra krafta, eins og allt lífið þarfnast þess. Það væri mistök að ætla að Við þurfum ekki endurnýjun orku. Með því að sýna þér mannlegu hlið Okkar, er Ég að styrkja tengsl Okkar við mannkynið. Við viljum sannarlega ekki birtast sem „verur ofar skýjunum“! Þvert á móti viljum við vera nánir samstarfsmenn mannkynsins. Látum því skapast nánd sem verður að samvinnu. Það er sérstaklega þörf á því.

90. Urusvati hefur upplifað hvernig sérstakur styrkur sjónarinnar getur hjálpað manni að skynja fyrri jarðvist. Maður skyldi halda að slík einbeiting augnaráðs væri öllum eðlileg; hins vegar eru tvær aðstæður sem gera það óvenjulegt í jarðneskum líkama. Óvenju mikil aukning á sálarorku og spennu sjóntauganna er krafist. Myndir fyrri lífa eru dregnar fram úr djúpum geislasöfnunar og rétt eins og í kviksjá sameinast þessi aðskildu brot og mynda heildarmynd. Slík reynsla er því erfið fyrir þá sem eru í jarðneskum líkama sínum og við leyfum hana sjaldan því hún getur skaðað sjónina. Jafnvel þó að það væri hægt að sjá margt merkilegt á þennan hátt í jarðneskum líkama, leyfa lífsskilyrði ekki tíða notkun á þessum náttúrulegu möguleikum. Jafnvel þau Okkar sem erum í líkamlegum líkama verðum að gera tilraunir af varkárni á þessum nótum. Fólk mun líklega ekki skilja hvers vegna, að jafnvel í dvalarstað Okkar, verður að beita jarðneskum lögmálum. Fyrir flestum er allt annað hvort mögulegt eða ómögulegt. Þeir vilja ekki skilja að lögmál alheimsins verður að virða.

Oftast ávítar fólk Okkur áður en verkum þeirra er lokið, eða hugsar aðeins um Okkur eftir að gjörðir þeirra hafa þegar átt sér stað. Við viljum koma á eins mörgum skilyrðum og hægt er sem auðvelda eðlilegt samband við Okkur. Það var tími þegar Við vildum ekki segja fólki hvernig það ætti að eiga samskipti við Okkur, en núna finnst Okkur nauðsynlegt að minna fólk á að Við erum reiðubúin að hjálpa því þegar aðstæður eru við hæfi. Í fyrri bókunum voru mörg skilyrði nefnd sem stuðla að samræmingu mannlegrar meðvitundar. Þeir sem kynna sér fræðsluna af athygli geta auðveldlega skilið hvernig samfélag við Okkur er.

Vér erum ekki spámenn, Vér erum ekki hefnendur, Vér erum ekki kúgarar; Við erum vefarar vængja, varnarsmiðir, leiðsögumenn hugsunarinnar. Það verður þó að skilja að þessi flókna orka krefst vandlegrar beitingar, því hörmungar verða ef henni er ranglega beitt. Við höfum gefið þér dæmi um hvernig hægt er að sjá fyrir sér jarðvist, en á kostnað sjónarinnar. Þegar unnið er með Okkur verður að beita krafti hjartans, ekki með þvingun, heldur með eðlilegustu viðleitni, sem verður að liggja til grundvallar öllu lífi manns.

91. Urusvati þekkir leiðir viðleitninnar. Slíkar aðferðir ættu að umbreytast í vitundinni, því maður getur ekki stjórnað þeim vitsmunalega. Aðeins með augum hjartans er hægt að sjá hvort enn séu fleiri leiðir til að auka viðleitnina. Maður ætti að gleðjast yfir hverri fullri viðleitni. Slík fylling gefur af sér tónlist sviðanna. Aukið samræmi myndast þegar allir strengir hjartans óma. Líttu ekki á slíkan samanburð sem eingöngu tákn; Við höfum talað um augu hjartans. Vissulega sér maðurinn með þeim og heyrir með heyrn hjartans. Hvernig gætum við verið án slíkra skilningarvita?

Í samfélagi Okkar notum við sérstök tæki til að auka getu hjartans. Okkur þætti gaman að deila þessari þekkingu frjálslega, en hendur manna myndu aðeins valda hjartasorg. Þessi tæki ætti ekki að nota án þess að hafa stjórn á hugsunum manns, annars væri hjartanu íþyngt. Að auki ætti umhverfið að vera við hæfi. Þú veist hversu auðvelt það er að hafa samband við Okkur þegar eldar hjartans eru kveiktir og andinn gleðst yfir upphafningu. Varist ertingu og ótta, þessar smávægilegu hindranir, sem skilja þig ekki aðeins frá Okkur, heldur líka íþyngja Okkur. Leitaðu nær þér, leitaðu í hinu smáa, leitaðu í daglegu lífi. Við erum að tala um leiðirnar sem leiða til fjarlægra heima. Smávægilegar hindranir eru ekki til staðar í slíkum undirbúningi.

Dæmi um samneyti við bræðralagið má nefna. Mikinn innblástur má sjá í gegnum aldirnar. Þegar bræðralagið skipar einhverjum til mikillar fórnar, gæti viðkomandi verið án innblásturs? Stig viðleitninnar ræðst af innblæstri. Við hjálpum svo háleitum árangri. Látið ekki úrgang og ryk hindra fallega stíginn og efist ekki um smáatriði brautarinnar, því jafnvel flúðir geta farið yfir regnboga ljóssins. En regnboginn kemur aðeins eftir storminn. Þannig skulum við skilja hæstu stig viðleitninnar.

Ekkert mannlegt rugl eða rógburður mun hindra hinn fagra veg fórnarinnar.

92. Urusvati veit að vinna með Okkur er mikil þjónusta og virðing fyrir Helgiveldinu. Svo margar klofningshugmyndir hafa gegnsýrt heiminn að við verðum að leita rauða þráðarins í öllum hugtökum. Við erum kölluð ýmsum nöfnum á mörgum tungumálum heimsins og mismunandi fólk skilur verk Okkar á mismunandi hátt. En frekari skipting ætti ekki að vera leyfð. Það er ekki ein einasta Fræðsla sem hefur ekki verið afbökuð. Jafnvel Fræðslan sem gefin var seint á síðustu öld hefur þegar klofnað í marga keppinauta. Þess vegna er sameining hugmynda nauðsynleg.

Mörg nöfn eru gefin frumorkunni. Það er ótrúlegt að fólk geti deilt um mismunandi nöfn fyrir sama hlutinn! Þannig ráðleggjum við þér að gleyma öllum tilviljunarkenndum nöfnum og samþykkja „Frumorku“. Slíkt nafn ætti ekki að vera móðgandi fyrir vísindamenn, vegna þess að þeir vita að innan hverrar tilrauna þeirra og leit er ein og sama orkan falin - frumorkan. Sama er að segja um nöfnin okkar. Látið nafnið „Bræðralag“ vera áfram og gefið ekki gaum að öðru.

Sérhver öld hefur sinn tíma í ósætti og einnig sína sameiningu. Þess vegna ættu menn að búa sig undir sameiningartímann. Þetta ætti hvorki að skilja sem ráð, né sem leið til að safna hugmyndum, heldur sem hjálp við að samræma sundrað mannkyn. Í því er hugtakið um mikla þjónustu og hugmyndin um Helgiveldi falin, sem fólk hefur aðeins óljósa hugmynd um.

Það er rétt hjá þér að beita mikilli aðgreiningu við að dreifa bókunum um Helgiveldið. Það eru margir sem vilja ekki samþykkja helgiveldið og maður má ekki þröngva slíkum hugmyndum upp á þá sem hafa myrkvaða vitund. Aðeins frjálsi viljinn getur, með tímanum, hvatt mann í átt að mikilli einingu.

Þannig getur maður fylgst með stefnu Okkar innra lífs. Hugleiddu einingu allra, sérstaklega á dögum hræðilegs ósættis.

93. Urusvati vissi fyrir löngu hver stofnandi bræðralagsins var. Það er hægt að rekja langa keðju jarðvista og tímabila í fíngerða heiminum, en í öllum þessum fjölbreytileika ætti að greina grundvallarmarkmið tilverunnar. Á sama hátt má sjá hvernig, þótt jarðnesk musteri og vígi hafi farist, hafa hugmyndirnar sem komu þeim til sögunnar ekki dáið. Þær næra ekki aðeins heilu kynslóðirnar, heldur halda þær áfram að blómstra fallega með nýjum skilningi eftir því sem aldir líða. Við gefum engan gaum að yfirborðslegum sveiflum, vitandi að kjarninn er óumbreytanlegur.

Hægt er að fylgjast með mismunandi jarðvistum stofnandans í ótrúlegri ytri fjölbreytni: stundum Meistarinn, eða þjáði andlegi Fræðarinn, eða Hetjan; stundum einsetumaður, eða leiðtogi þjóða, eða hinn vitri stjórnandi; síðan munkurinn, heimspekingurinn, og að lokum, í fíngerða heiminum, Græðari manna á jörðinni. Það væri of mikið að telja upp öll fyrri lífin, en í heildina var sama þjónustan og sömu ofsóknirnar. Í fíngerða heiminum var þjónustan friðsamlegri, vegna þess að hægt var að vera áfram í hring þar sem orkunni var ekki eytt stefnulaust. En á jörðinni þarf að nota meiri orku til varnar en til framsækinna athafna og það er íþyngjandi. Það tekur aldir að venjast því að beina orku þangað sem hún nýtist. En þú verður að muna að sérhver orkusending í velviljuðum tilgangi skilar góðum árangri.

Við höfum haft tækifæri til að heimsækja rústir mustera sem Við reistum fyrir löngu síðan. Það eru mörg slík musteri í Egyptalandi, í Grikklandi og um allan heim. Við vitum að þessir veggir þjónuðu tilgangi sínum og er ekki lengur þörf á þeim, en kjarni þeirra er eftir og missir ekki ferskleika sinn. Þannig vitnum Vér, að Við höfum upplifað margt og séð mikið. Fólk skilur oft ekki fylgni fortíðar við framtíð. Samfélag Okkar hefur varðveitt mörg dæmi um þjónustu og við getum vitnað um áframhaldandi lífskraft allra fórnanna.

Mitt í erfiði Okkar gleymum Við ekki öllum þeim sem hafa fært fagra fórn.

94. Urusvati veit vel að erfiðasta verkefnið er að samræma strauma hins frjálsa vilja manna. Það eru engar hamfarir nógu eyðileggjandi til að beina athygli mannkyns að hinu sanna eðli gjörða þess. Við skulum rifja upp hvernig þeir sem lifðu af hinar miklu hamfarir fortíðarinnar kærðu sig ekki um að hugsa um orsakir hamfaranna, heldur að líta á sig sem saklaus fórnarlömb einhverra grimmilegra örlaga. Þeir vildu ekki hreinsa vitund sína og fóru þess í stað enn einu sinni að láta undan frjálsum vilja sínum og urðu brjálaðir.

Straumar viljans lenda í hröðum árekstri og óöguð hugsun fyllir rýmið með eyðileggjandi sprengingum. Sennilega munu hinir fáfróðu lýsa því aftur yfir að Við hótum þeim og hræðum þá, en þeir ættu að fletta upp á blaðsíður sögunnar, þar sem þeir geta rakið hörmungar mannkyns. Þessar hörmungar eru ekki sendar af himni, heldur eru þær af völdum mannlegs samfélags. Fólk ofsækir sína eigin frelsara, hagar sér eins og brjálaður tónlistarmaður sem rífur út strengina á hljóðfæri sínu fyrir tónleikana!

Þegar Við bendum á eðlilegar afleiðingar fáfræði og brjálæðis erum Við vel undirbúin fyrir ásakanir um grimmd. En það eru engin orð á mannamáli sem geta varað fólk nægilega við sjálfseyðingu, eyðingu plánetunnar eða mengun geimsins. Það er þolinmæði Okkar, sem hefur áunnist í gegnum aldirnar, sem hjálpar Okkur að veita mannkyninu stöðugt hjálpræði, þrátt fyrir vanþakklæti þess og grimmd. Á hverjum degi og hverri stundu er Okkur bölvað og hjálparhönd Okkar er hafnað.

Maður getur ímyndað sér hvaða ofbeldisfullir straumar vísvitandi brjálæðis draga úr hverri hreyfingu til góðs! Til hvers að hugsa um fjarlæga illmenni þegar venjulegt fólk, sem virðist berjast gegn illu, er í raun að auka það til hins ýtrasta. Þannig er ástandið á jörðinni. Vanþakklátir synir jarðar eru að flýta sér að færa hörmungar nær og hverri viðvörun er tekin sem móðgun. Þannig hefur heimurinn umritað sannleikann um Golgata.

Þess vegna verður þú að þekkja þennan þátt í innra lífi Okkar. Gerðu þér grein fyrir því og starfaðu með réttum skilningi á tilverunni.

95. Urusvati kannast við jarðneska köfnun. Þetta er það sem Við köllum andrúmsloftsástandið sem skapast af miklum geimstraumum, sem magnast af neðanjarðareldum og geðveiki manna og valda óbærilegu þunglyndi. Við þekkjum svona tíma! Fólk kann að rekja þessar aðstæður til sólbletta eða yfirferðar halastjörnur, en ytri atburðir gætu varla valdið svo óbærilegri spennu. Jafnvel neðanjarðareldarnir sjálfir eru ekki færir um að komast svo algjörlega í gegnum plánetuna án samvinnu mannsins.

Fólk finnur fyrir þessu þunglyndi. Þeir verða haldnir taugaveiklun en geta ekki greint orsök þess. Margir rekja það til farsótta eða nýrra sjúkdóma, en þeir horfa framhjá aðalorsökinni - eigin hegðun. Þannig byggist jarðneska köfnunin upp og viðkvæm hjörtu verða fyrir miklum áhrifum af henni. Jafnvel líkamleg köfnun finnst og hjartað er þunglynt. Gæta skal sérstaklega að hjartanu. Það er huggun í því að slík spenna getur ekki varað lengi. Hún verður að leysast upp í straumum prana, annars veldur það hamförum. En stundum er jafnvel stórslys betra en þessi banvæna köfnun!

Við þekkjum þessa köfnun.

96. Urusvati þekkir þýðingu samræmis. Ef þessi grundvöllur er ekki samþykktur, munu hin bestu verk verða eyðilögð. Kjarni aðseturs Okkar er ekki rétt skilinn vegna þess að fólk flokkar eftir geðþótta sínum. Sumir telja Okkur vera einsetumenn frá Kailas, á meðan aðrir halda að við séum verur fíngerða heimsins. Slík aðgreining eyðileggur samræmi tilveru Okkar.

Fólk neitar að samþykkja rökréttu skýringarnar sem gefnar eru til að auka þekkingu sína og með því að neita, dregur það úr merkingu tilveru Okkar. Ef miðstöð Okkar er til sem hlekkur á milli heimanna, þá verður að koma fram í henni skilyrði beggja heima, líkamlega og fíngerða. En svo einfalda hugmynd getur sá skilið, sem þekkir mikilvægi samræmis.

Mannkyninu má skipta í þá sem samþykkja samræmi og þá sem afneita því. Þeir sem afneita ávinningi samræmis kannast ekki við sögu mannkynsins. Tímabil upplyftingar voru einnig tímabil skilnings á samræmi, þegar hver samhæfing orkustöðva leiddi til vitundarvíkkunar.

Ekki halda að þröng sérhæfing skapi dýrðartíma. Aðeins góðviljað, umvafið samræmi getur gefið hvata að nýrri framþróun vitundarinnar.

Þess vegna skulum við ekki gleyma því að flokkun kemur í veg fyrir réttan skilning á Bræðralagi Okkar.

97. Urusvati þekkir jafnvægið milli samræmis og þróunar. Oft er litið á þessi hugtök sem mótsagnakennd, en í raun, getur þróun einhvern tíma verið ósamræmi? Og hvernig er hægt að skapa samræmi án þróunar? Samt kýs fólk að skilja samræmi sem óhreyfanlegt og óvirkt ástand og notar það sem afsökun fyrir ábyrgðarleysi sínu. Á meðan heimurinn er í krampa, kýs fólk að sitja í ljúfri gleymsku og kalla dofið ástand sitt, því háleita orði „samræmi“.

Hins vegar eru sterkir hljómar samræmis spenntir og þegar þeir eflast stuðla þeir að þróuninni. Á sama hátt er ávinningur þróunar í stöðugri hröðun hennar. Það er fallegt að átta sig á því að heimurinn er í stöðugri þróun, í sívaxandi viðleitni og hreyfingu. Fólk horfir ekki inn í framtíðina heldur dreymir leynilega um ómögulegt kyrrstöðuástand. En það getur ekki verið kyrrstæð þróun. Þróunarspírallinn er eilíf hækkun sem jafnvel krampar glundroða geta ekki stöðvað.

Í jarðnesku ástandi sínu getur fólk ekki alltaf tekið eftir jákvæðum vexti. Öllum vexti fylgir sársauki, með eldingum og í stormi, og aðeins fullkomin vitund getur skynjað útgeislun sannleikans. Sérhver hugsuður í þróun verður að senda skilning sinn á sannleikanum á meðan hann er á jörðinni. Ef hann beitir ekki sannleikanum í lífinu er maðurinn ekki þess verðugur að vera kallaður hugsuður. Hugsun er líf og lífið hreyfist af hugsun.

Þannig áttarðu þig á tveimur undirstöðum lífs Okkar. Við lifum í samhljómi í þágu þróunar. Við verðum að þróast, annars munum við breytast í múmíur.

Maður verður að geta elskað hreyfingu þróunarinnar, því í henni er eilífðin veruleikinn.

98. Urusvati ástundar ögun og hugrekki. Báða þessa eiginleika ætti að þróast með athygli eins og í dæmum hetja. Menn ættu að vera minntir á þá sem sigruðu ofurmannlegar hindranir og skilja hversu flóknar aðstæðurnar umkringdu þá. Sagan skráði ekki allar þær hættur sem ógnuðu þeim nær og fjær. Fólk gerir ráð fyrir að hetjudáðir séu framkvæmdar af sjálfsdáðum, án undirbúnings, en í raun þurfa margar hugsanir að myndast áður en hægt er að taka ákveðin ákvörðun um að framkvæma óeigingjarnt athæfi.

Djörfustu hetjurnar eiga endurminningar frá barnæsku, þegar þær áttu sér sýn og drauma og heyrðu raddir sem kölluðu á þær og leiddu þær. Í barnæsku þeirra mótuðust ákveðnar hugmyndir sem komu fram löngu síðar. Hetjur geta lýst því hvernig tiltekin ósýnileg öfl stýrðu athöfnum sínum og hvernig þeir myndu stundum af sjálfu sér segja orð sem þeir skildu ekki merkingu fyrr en síðar. Þannig streyma áhrif Okkar til margra samstarfsmanna og styrkja hugrekki þeirra. Við kunnum að meta þakklætið sem Við fáum fyrir stöðuga umhyggju sem við veitum hetjum.

Bústaður Okkar er þungamiðjan í sterkum ákvörðunum. En Við verðum að sýna mikla þolinmæði svo þessar ákvarðanir trufli ekki frjálsan vilja. Þolinmæði Okkar, getur talist til fyrirmyndar.

Ekki munu allar hetjur ná takmarki sínu, því frjáls vilji þeirra gerir oft uppreisn gegn þeirra eigin staðföstu ákvörðunum. En ef fólk áttaði sig á því hversu ákaft Við reynum að hjálpa þeim að ná árangri, myndi það sjá hversu gagnlegt það er að vinna með Okkur. Þá kviknar sjálfsfórn, óeigingjörn athöfn, og finnst sem hæsta gleði.

99. Urusvati er sammála Okkur um að núverandi öld sé öld hugsunarinnar. Aðeins á þessari öld eru menn farnir að viðurkenna að hugsun sé orka. Enginn hugsuður fyrri alda gat leitt í ljós að hugsun væri drifkraftur heimsins, því til þess að skilja hugsunarferlið þurfti fyrst þekkingu á raunvísindum og mörgum öðrum uppgötvunum.

Að vísu þekkti Plató mátt hugsunarinnar, en hann opinberaði aðeins vísbendingu um mátt hennar, því það var hættulegt að veita fjöldanum þessa þekkingu of snemma. Fyrst núna eru sumir vísindamenn farnir að átta sig á því hversu aðgengilegir hinir leyndu eiginleikar hugsunarinnar eru. Það þurfti aldamót fyrir svona einfaldar athuganir, en nú er orðið hægt að sanna að hugsun sé áþreifanlegur hvatakraftur.

Hversu miklu hraðar myndi víðtæk þekking á hugsun komast inn í mannkynið ef fólk áttaði sig á tilvist Okkar! Öflugustu hugsunarstraumarnir titra frá aðsetri Okkar og það er auðveldara að ráða hugsun sem er send yfir fjarlægð þegar hún kemur frá svo öflugri uppsprettu. En þegar fólk gerir tilraunir með hugsunarmiðlun gefur það litla sem enga athygli að eigin andlegu ástandi. Enn og aftur erum við minnt á gamla orðatiltækið, að maður verður að þvo sér um hendur áður en tilraun er hafin! Rannsakendur ættu að huga að því að samræma eigin ástand áður en þeir gera tilraunir, því ósamræmi í skapi mun ekki leyfa jákvæðar niðurstöður. Auðvelt er að ná fyrsta stigi flutnings, en æskilegt er að þrýsta áfram með þróun hugsanaflutnings yfir miklar vegalengdir.

Vissulega ætti maður að vera þakklátur þeim vísindamönnum sem hafa sigrast á fordómum sínum og eru að hjálpa fólki að skilja frumburðarrétt sinn. Við sendum stöðugt hugsanaörvar til að komast inn í vitund mannkyns. Megi fólk skynja hversu margir sendiboðar banka að dyrum þeirra!

100. Urusvati minnist þess að spáð hafi verið fyrir um atburðina á Spáni tíu árum fyrr, og að dagsetningar annarra stórviðburða voru einnig gefnar upp. Sumir kunna að velta fyrir sér hvers vegna ákveðnum atburðum hafi verið spáð langt fram í tímann, á meðan aðrir, að því er virðist mun mikilvægari, var alls ekki bent á. Frá jarðnesku sjónarhorni er þessi spurning alveg eðlileg, en á hvaða grundvelli ættu sumir atburðir að teljast mikilvægari en aðrir? Við skulum muna að handan veraldlegs skilnings er til yfirvitslegur skilningur. Sumir atburðir geta haft mikil áhrif á mannleg málefni en skilja þó engin spor eftir á síðum sögunnar. Á hinn bóginn geta atburðir gerst sem virðast einungis vera staðbundnir, en eru í raun mikilvægastir og verða tímamót í sögu heimsins. Slíkar sýnilegar andstæður, sem virðast á milli jarðneska og hærri heima geta valdið ruglingi í huga fólks.

Við höfum oft verið sökuð um að hafa áhuga á ómerkilegum atburðum á sama tíma og við erum vísvitandi áhugalaus um suma mikilvæga. Við þessu segjum við: „Þið trúlitlu, hvar er vogin sem þú getur vegið atburði heimsins á með slíkri nákvæmni? Getur þú tekið á þig réttinn til að dæma þjóðir og þær aðgerðir sem uppfylla karma þeirra? Jafnvel einstaklinga verður að dæma sparlega.

Oft er leiðtogi óverðugur þeirrar virðingar sem hann nýtur á lífsleiðinni og fyrst síðar gefa niðurstöðurnar til kynna hversu árangurslaus starfsemi hans var. Í dag má sjá, en morgundaginn verður maður að ímynda sér. Atburðum heimsins má líkja við mósaík, sem sjást greinilega aðeins úr fjarlægð.

Karma verður til innan um storma og þrengingar og hið óumflýjanlega hefur sinn gang. Landið sem í gær var risi gæti orðið dvergur á morgun. Slík örlög kunna að koma fólki á óvart, en við getum séð keðju orsakanna.

Maður verður að læra að gera greinarmun á stóru og smáu.

101. Urusvati gerir sér grein fyrir því að þó að sumt fólk virðist stundum lifandi í raunveruleika efnissviðsins, þá er það alveg dautt frá sjónarhóli hærri veruleika. Það gæti virst undarlegt að þeir sem hærri veruleiki skilgreinir sem dauða, haldi áfram að hreyfa sig á jörðinni. En hvers vegna ættu slíkar skilgreiningar að vera takmarkaðar aðeins við líkamlegar birtingar? Þegar starfstæki Okkar gefa til kynna dauða, er þá sú vísbending réttari en jarðneskar sannanir. Við gætum nefnt nokkur slík „lifandi lík“ sem hver um sig þjáist af einhverjum líkamlegum kvillum. En líkamlegt ástand þeirra er aukaatriði, það fyrsta er ástand fíngerða líkamans, sem er tilbúinn til að fara og getur ekki lengur verið að fullu tengdur við líkamlega líkamann. Slík sjálfvirk starfstæki geta ekki lengur verið sjálfstætt skapandi og eru auðveldlega leidd af öðrum án þess að gera sér grein fyrir því. Þeir eru mjög jarðbundnir og óttast hugmyndina um dauðann, en skynja samt að þeir tilheyra ekki lengur líkamlegri tilveru. Venjulega eru þeir svokallaðir efnishyggjumenn og óttast jafnvel vísbendingu um samfellu lífsins í fíngerða líkamanum! Þeir gætu jafnvel óttast að hugsa um eigin gjörðir. Maður ætti að geta þekkt þessi lifandi lík og litið á þau sem tómar skeljar. Ég veit, að þeir mundu reiðast, ef nöfn þeirra væru nefnd, og það skulum Við ekki gera, því að þú veist, hvern ég hef í huga. Þú veist líka hverja við teljum vera tómarúm.

Við skulum ekki reikna með jarðneskum mælikvarða og tökum framtíðina með í reikninginn. Flækjustig sambanda er slíkt að hvorki ári né fífl ætti að vísa frá strax, jafnvel þótt þeir virðist geðveikir. Við erum í miðjum atburðum heimsins og getum ekki skorið á karmahnúta, því það gæti valdið hörmungum. Fólk stingur oft upp á því að Við bindum enda á ákveðnar aðstæður, en gerir sér ekki grein fyrir því að endar slíkra þráða geta breyst í snöru fyrir þá, með því að flækja þeim í eigið karma.

Ég verð að leggja áherslu á þetta, því sumir hafa sterkar hugmyndir um Okkur og hugsa um Okkur sem fallega engla, sem búi í skýjunum og spila á hörpur!

Megi fólki vera gefin sönn mynd af áhyggjum Okkar og starfi.

102. Urusvati skynjar tengingu heimanna, en takmörk þeirra eru venjulega ekki skynjuð. Heimarnir eru í mörgum myndum og ganga inn á hvern annan. Aðeins bein þekking getur greint mörk slíkra skiptinga og það er enn erfiðara að átta sig á þróun þeirra. Ef allt líf er á hreyfingu, þá er ástand heimanna einnig háð hreyfingu.

Við höfum þegar rætt um þéttingu astrals líkamans. Aftur á móti hefur efnislegur kjarni jarðlíkamans fágast nokkuð af orku hugsunarinnar. Þetta þýðir að á milli fíngerða og efnisheims eru ný form sem eru ekki alveg sýnileg augum manna. Ný form eiga uppruna sinn á milli fíngerða og eldheimsins. Þessar umskipti kalla fram viðleitina að fullkomnun. Það er enginn vafi á því að slík endalaus styrking er möguleg í óendanleikanum.

Ef við gætum ímyndað okkur mesta Andlega stríðsmanninn á jörðinni, myndum við tengja hann við gífurlegan kraft í fíngerða heiminum. En snerting við hreinsaðan eld geimsins myndi beina honum jafnvel til eldheimsins. Það er ekkert afl sem getur komið í veg fyrir uppgang andans sem gengur efalaus. Efinn er eins og gat á blöðru. Allt er á hreyfingu og flyst inn í óendanleikann. Ég segi þetta til að minna þig á að eðlileg stefna mannsins er upp á við. Efi er ekkert annað en göt í vasa manns og ekki er hægt að bera demanta á öruggan hátt í slíkum vösum.

Í lífi Okkar er enginn efi til. Aðdráttarafl til hærri heima er gríðarlegt og við verðum að leggja mikið á okkur til að vera ekki rifin burt frá jörðinni, þar sem jarðneskar byrðar hafa verið valdar af sjálfsdáðum og meðvitað. Slík fórn er mótuð af kærleika og reynslu fyrri lífs sem kveikti ást til þeirra sem þjást. Reynslan getur annað hvort kveikt ást eða skerpt hatur og hver mun brenna á hatursbáli? Verður það ekki sá sem hatar? Kærleikurinn verður að verða vitur og virkur. Þetta hugtak er mjög fíngert og maður getur auðveldlega hrasað um það, eða orðið hræsni að bráð. Aðeins vinnu í þágu heimsins mun veita rétta jafnvægið. Vinnan vekur gleði og vitneskju um óendanleikann og veitir skilning á hreyfanleika heimanna.

Spyrja má, hvað er besta pranayama? Hvað gefur besta taktinn? Hvað getur drepið orm þunglyndisins? Aðeins vinna! Aðeins í starfi myndast aðdráttaraflið að fullkomnun. Við vinnu kemur eldskírnin.

103. Urusvati veit hversu stundin er brýn. Það er erfitt að sameina það brýna í samræmi, eða óhóf við hófsemi. Margar virðast mótsagnirnar vera, en lífið gefur öllu réttan stað. Ef við setjum athöfn sem grunninn, mun bein þekking gefa til kynna takt vinnunnar. Heimurinn gengur áfram óstöðvandi og takturinn verður að halda í við flæðið inn í óendanleikann.

Við höfum þegar rætt viðleitnina upp á við, en það getur líka orðið eilíft fall niður í hyldýpið og aðeins eiginleiki vinnunnar mun vernda gegn því. Maður verður að læra að elska þennan eiginleika á öllum sviðum lífsins, því að minnsta brot hans stöðvar alla framsækna hreyfingu. Það er því rétt að aumka þær þjóðir sem hafa gleymt þörfinni á að viðhalda gæðum á öllum sviðum lífsins. En menn ættu ekki að örvænta, því að möguleiki hjartans er mikill og brýning stundarinnar eykur alla krafta manneskjunnar.

Ekki halda að aðsetur Okkar hunsi brýna tíma. Það kemur fram á margan hátt og má greina á þeirri almennu togstreitu sem hún skapar í ýmsum hópum. Og nú er líka hægt að sjá hvernig fræ atburðanna flýta sér að blómstra. Fólk vill helst ekki taka eftir þessum takti en viðhorf þeirra líkist óstöðugum gangi blindra.

Við skulum gera okkur grein fyrir því hversu brýnn tíminn er.

104. Urusvati heldur einurð, jafnvel á hættustundum. Fáir geta metið kraft þessa skjaldar. Innan um stormandi strauma stendur bjarg einurðar stöðugt. Með því getur maðurinn sótt hvaða kraft sem er innra með sér og smíðað úr honum ósigrandi herklæði. Fólk ætti að gera sér grein fyrir því að einurð er besta brúin til Okkar. Hjálp Okkar nær þeim auðveldlega í gegnum farveg einurðar, en erfiðari leiðin er með skelfingu og þunglyndi. Sérhver mannlegan kraft er hægt að rannsaka vísindalega.

Maður ætti að vita hvernig Við sendum bláa geisla hjálparinnar á hættustund. Til dæmis spáðu jarðskjálftafræðingar á sínum tíma fyrir um jarðskjálfta sem þá var varla nógu sterkur til að hægt væri að skrá hann. Sumir héldu að jarðskjálftafræðingarnir hefðu rangt fyrir sér og áttuðu sig ekki á því að Við hefðum komið í veg fyrir stórslysið. Svo oft leitar fólk að atburðum langt í burtu þegar þeir gerast rétt við dyr þess. Hvíti svanur einurðarinnar flýgur eftir beinu brautinni.

Við skulum muna að alla boðna aðstoð ætti að þiggja. Þegar við mælum með einingu sem leið til árangurs, eru ráð okkar einfaldlega vísindaleg. Við krefjumst aukinnar orku sem aðeins er hægt að ná ef samstarfsmenn eru sameinaðir. Hvert brot rífur dýrmætan vef og hver getur sagt til um hvort hægt sé að endurheimta hann? Fólk neitar að íhuga svona einfaldar staðreyndir og er alltaf tilbúið að hætta eigin velferð. Hver er sá sem er tilbúinn að stofna sjálfum sér í hættu með þessum hætti? Hver er sá sem á að dæma hvaða brot á ráðleggingum Okkar mun valda hörmungum? Við beinum oft athygli fólks að Okkur svo auðvelt sé að koma á sambandi. En það hefur viljafrelsið en velur sjaldan að fylgja rödd bræðralagsins.

105. Urusvati veit hversu mikil jarðnesk afrek gætu orðið ef sönn samvinna væri stunduð. Enginn veit hversu langt mannleg hugsun getur náð án afskræmingar. Enginn getur fyllilega skilið verkefnið sem honum var falið frá fíngerða heiminum. Öllum er gefið fræ góðvildar sem grunnur að jarðneskum áskorunum sínum. En fólk ræktar ekki þessar velviljuðu gjafir, því það getur ekki skynjað hærri heima sem senda slíkar bylgjur góðvilja.

Ef fólk gæti munað þessi fræ góðvildar sem þeim er trúað fyrir, myndi margar illviljaðar birtingarmyndir eyðast. Við sendum hugsanir um gæsku; Hins vegar eru þessi skilaboð misskilin og jafnvel hafnað með gremju. Þessi reiði stafar af viljaleysi til að muna eftir þeim sviðum, þaðan sem jarðneskt líf sýnist ekkert annað en rykkorn.

Fólki líkar ekki sú hugmynd, að útblásin jarðnesk hugtök þeirra séu litlaus í samanburði við andlega sköpunargáfu hærri sviða. Þessi jarðneska sjálfhverfa gerir samvinnu ómögulega. En án samvinnu, hvernig getur maður vonast til að þekkja hærri svið? Það er nauðsynlegt að viðurkenna hærri sviðin. Það er nauðsynlegt að byrja að hugsa um þau. Slík hugsun mun endurvekja minninguna um fræ góðviljans. Árla dags ætti maður minnast hvernig fyrirskipað er að fíngerðar og fallegar hugmyndir eru fluttar til jarðar. Reyndar er öllum sem eru reiðubúnir til jarðvistar falið verkefni í þágu almannaheilla í samræmi við einstaklingsgetu hans. Maður getur hafnað þessu verðuga verkefni í hringiðu hins frjálsa vilja, en einhvern tíma mun hann snúa aftur til að taka upp dreifð fræin.

Í miklum önnum Okkar er sérstaklega erfitt að minna fólk stöðugt á verkefni þeirra. Þrátt fyrir þá staðreynd að fólk tengir Okkur við ósýnilegu ríkisstjórnina, neita það að fylgja okkar einföldustu ráðum. Hugsið bara hversu oft hefur verið gert grín að bestu ráðunum! Fólk kallar Okkur vitringa og dýrlinga, en vill ekki hlusta á Okkur.

106. Urusvati veit að dulheyrn er erfiðust fíngerðu skilningarvitanna, vegna þess að svo mörg afskipti trufla fíngerða heyrn. Það er athyglisvert að jafnvel sterkar raddir eða hugsanir geta brenglast með einu hljóði. Hugsunin endurhljómar, en fólk skilur það ekki og skynjar ekki, að orð sem lögð er áhersla á, enduróma andlega skýrar.

Við óhagstæða strauma geta andleg skilaboð litast af óvæntum áhrifum. Við sendum orð Okkar á þessum tíma við svo íþyngjandi aðstæður. Í fornöld var vel þekkt að erfið kosmísk tímabil gætu verið langvinn, en í dag, þrátt fyrir stórkostlegar framfarir vísinda, er ekki tekið tillit til slíkra kosmískra aðstæðna. Enn eru deilur um áhrif sólbletta og vandræðalegar vísbendingar um hugsanleg áhrif tunglsins, sem talið er að tengist göldrum. Fáir vísindamenn hafa hugrekki til að tala um tunglið eins og það tengist jarðbundnum aðstæðum, og þeir vísa með hógværð í gleymdar kenningar Austurlanda, þar sem mikilvægi tunglsins var vel þekkt.

Puranas innihalda mikið af vísindalegum gögnum. Fyrir allmörgum árum heyrði Urusvati frá Okkur um mikilvægi ársins 1942. Og nú er þessum upplýsingum dreift víða og eru þær orðnar alþekktar. Endalok Kali Yuga eru mikilvæg, því margir kosmískir atburðir tengjast þessu tímabili. Af ákveðnum ástæðum var hinum sönnu dagsetningum haldið leyndum og aðeins fáir gátu skynjað að hinar gífurlegu tölur sem sagðar voru, væru aðeins tákn. Sömuleiðis eru ákveðnar tilvísanir í Krishna og Avatar Vishnu, einnig táknrænar. Þú veist vel hvaða sérstakan atburð var átt við með þessum vísbendingum. Nú geta allir tekið eftir óvenjulegri uppsöfnun atburða. Harmageddon var spáð fyrir löngu síðan og frávikum í lok Kali Yuga var lýst í Puranas, en jafnvel ákafir hugsuðir vanmátu þessar skýru vísbendingar.

Hins vegar er mannkynið ónæmt fyrir óvenjulegum atburðum, en spáð var fyrir um andlegum ruglingi fyrir löngu síðan. Upphaf þessa mikilvæga tímabils eykur almennan takt í bústað Okkar.

Fólk getur fundið fyrir því, að af einhverjum ástæðum geti það ekki byrjað að gera neitt. Slík stemmning stafar af breytingum á takti. Innri vitund manns kann að hafa þegar tileinkað sér framtíðina, en vélræna rútínan er afleiðing af svefnhöfga Kali Yuga. Þetta er skipting vitundarástands, sem hefur einnig áhrif á almennan takt vinnu Okkar. Ýmsar hörmungar ógna jörðinni. Karma vinnur ákaft. Það verður að gera sér grein fyrir því að karma stjórnenda tímabilana er líka hraðað. Þannig eflast öflin við breytingar á Yugas, stórtímabilunum. Við skulum vera meðvituð um þetta og fylla hjörtu okkar hugrekki.

107. Urusvati veit að flestir sjúkdómar koma frá sefjun. Það má rekja til sjálfsefjunar eða sefjunar úr fjarlægð, sem lítið er vitað um. Rétt eins og maður getur læknað úr fjarlægð getur maður líka valdið sjúkdómum. Í framtíðinni munu vísindin sanna tilvist sefjunarkrafta, en sem stendur skilja mjög fáir að sjúkdómar geta stafað af sefjunarhugsun sem beint er úr fjarlægð. Það er merkilegt að hugsun getur verið bein eða óbein og að örvar hugsunarinnar geta stungið í gegnum frumur lífveru sem er viðkvæm fyrir sjúkdómum. Hið svokallaða illa auga hefur áþreifanlega, dulræna merkingu. Tiltekinni hugsun er kannski ekki ætlað að valda sérstökum sársaukafullum viðbrögðum, en orka hins illa slær á veika hluta lífverunnar og yfirgnæfir sjálfsvörn hennar.

Það er mikilvægt að viðurkenna að hugsun getur ekki aðeins skapað ytri einkenni sjúkdóms, heldur getur hún einnig knúið sofandi fósturvísi sjúkdóma til að vakna upp og hefja eyðingarvinnu sína. Hvað sannar betur tilvist afls hugsunar? Það eru óteljandi slík hugsanaboð á reiki um heiminn.

Læknayfirvöld telja að sýking berist aðeins líkamlega og hunsa aðalorsök sýkingarinnar. Vísindi hugsunar ætti að rannsaka í sínum mörgum myndum. Til dæmis, rétt eins og útvarpsbylgjur trufla hver aðra, geta hugræn skilaboð valdið svipuðum truflunum. Margar slíkar staðreyndir eru enn óþekktar.

Þetta mun gefa hugmynd um flækjurnar í starfi Okkar. Við sendum góðgjarnar hugsanir og hugmyndir og verðum líka að vinna gegn hinum fjölmörgu illgjörnu smitberum. Við erum í aðstöðu til að fylgjast með því hvernig fólk sjálft dreifir hættulegum jarðneskum sýkingum með hugsun, og smitar hvert annað, með skaðsemi, í sannri merkingu þessa orðs. Slík illgjörn áhrif voru áður rakin til galdra, en jafnvel í dag eru fleiri slíkir „galdramenn“ en maður gæti haldið.

Ákveðnir óvenjulegir sjúkdómar breiðast nú hratt út. Annaðhvort hunsar fólk þessa staðreynd, eða ef það tekur eftir henni, vill það helst ekki leita orsaka þeirra. Það má halda því fram að frá sjónarhóli meðalmannsins sé þetta hvorki nýtt né óvenjulegt. Hins vegar verða menn að muna að þetta er öld nýrrar orku og daglegt líf jafnvel hins venjulega manns er hlaðið fjölmörgum mjög einbeittum straumum sem framkalla nýjar hvatir í hugum manna.

Maðurinn verður að tileinka sér margar nýjar hugmyndir.

108. Urusvati sá geislann sem var fullur af mörgum augum. Slík þróunarform ætti líka að horfast í augu við og maður verður að læra að sætta sig við tilvist þeirra. Það þarf sérstakan geisla til að staðfesta sýnileika þessara rýmisforma, sem eru frumgerðir framtíðarvera. Þessi ummerki um mikla hugsun-sköpunargáfu eru skráð í svið Akâsha og eru mynd af sköpunarverki hinna miklu byggjenda, sem fylla rýmið með hugmyndum sínum. Við strauma slíkrar kröftugrar hugsunar fæðist fjöldi mynda.

Við skulum skoða rannsóknarstofu augna, sem eru mismunandi að stærð og tjáningu. Sum eru þegar vakandi og full ljóma, og önnur eru hálflokuð; sum minna á austurlensk augu, en önnur eru augu norðursins. Maður getur séð hvernig hugsun skapar óumflýjanlega úr fjársjóðum Akâsha og uppfyllir þarfir heimanna.

Og nú má til dæmis sjá fiskatorfur í geislanum. Hugsunin verður að vera óvenju skýr til að búa til svona samræmd form, því afbökuð hugsun skapar voðaleg form. Mikilvægast er að líta að minnsta kosti einu sinni inn í fjárhirslu Akâsha, en slík innsýn er erfið fyrir sjón manna og við verðum að gæta varúðar við samstarfsmenn Okkar. Hins vegar, í þessari bók getum við skráð að systir okkar gat séð slíka fjársjóði hugsanasköpunar, jafnvel meðan hún var í líkama sínum. Þessar athuganir ættu ekki að vera endurteknar oft vegna þess að fólk hefur mengað neðri sviðin og sumar tilraunir eru hættulegar heilsunni. Blái geislinn okkar getur leitt í ljós mörg fíngerð form, en sjaldan getum við leyft slíkar birtingarmyndir. Urusvati sá þennan geisla í einvígi við eyðileggjandi eldinn. Aðeins í öfgafullu tilviki er hægt að beita svo öflugum geisla um allan heiminn.

Þú manst kannski hvernig við sáum okkar eigin myndir speglast á yfirborði fágaðs borðs. Sömu lögmál vinna á fíngerðum sviðum og í sjónvarpi í dag, en þú sást þetta fyrirbæri fyrir sautján árum. Slíka reynslu ætti að skrá og að lokum bera saman við nýjar vísindalegar uppgötvanir. Mikið hefur verið sent út í heiminn en það tekur tíma að verða að veruleika.

109. Urusvati gerir sér grein fyrir að sálarorku ætti að varðveita vandlega. Þetta kann að hljóma undarlega. Getur fólk stjórnað frumorkunni, sem gegnsýrir allt, og væri það ekki hroki af mannkyninu að taka sér slíkt vald? Er hægt að þykjast vera vörður og stjórnandi slíks ómælanlegs, óendanlegs valds? Já, því að maðurinn ber ábyrgð á frumorkunni, þar sem hann er fær um samanburð og veit nákvæmlega hvenær hann brýtur í bága við blessunina sem honum er guðdómlega trúað fyrir.

Misnotkun frumorkunnar hefur verið líkt við misnotkun áfengis, sem er gagnleg í litlum skömmtum við ákveðna sjúkdóma, en skaðleg í stórum skömmtum. Svo er líka hægt að nota sálarorku til gagns eða eyðileggingar og aðeins aukin vitund mun skilja hversu mikið er hægt að draga úr þessum orkugjafa án þess að misnota hana. Fólk hefur þá hugmynd, að það geti notað þessa fögru orku án takmarkana, en gleymir sköpunarlögmálum sem veita alla möguleika og takmarka þá um leið.

Hinn blessaði sjálfur prédikaði miðveginn. Aðeins miðvegurinn getur valdið sannri lotningu fyrir hinni dýrmætu frumorku. Bústaður Okkar lifir eftir lögmáli miðvegarins. Sá sem þráir að hugleiða bústað Okkar ætti að spyrja sjálfan sig hvort hann skilji fegurð miðleiðarinnar. Grundvöllinn verður að leggja á það besta, með því besta og fyrir það besta, og það er miðvegurinn sem leiðir hina bestu um bestu grundirnar. Verkið sjálft, þegar það er unnið í anda miðleiðarinnar, mun aldrei verða í ósamræmi og mun leiða í átt að undirstöðum fíngerða heimsins.

Urusvati hefur séð mannfjöldann í fíngerða heiminum, en þeir sem Við tölum um búa ekki á þeim sviðum. Maður verður að læra að þekkja hin ýmsu svið og átta sig á því hverju jörðin er umkringd. Þannig mun maður skilja betur hvers vegna Við verðum að vera svona vakandi.

110. Urusvati veit að sá sem leitast við að gera greinarmun á lögmálum heimanna þriggja í jarðnesku lífi sínu nálgast fyllingu sjálfsskilnings. Hvar ætti maður þá að leita neista eldheimsins? Er hægt að finna þá í jarðnesku ryki? Einmitt í hverri jarðneskri birtingarmynd getur maður fundið neista eldheimsins. Þess vegna ætti hver og einn að vera athuguli í sínu daglega lífi. Maður verður að læra að forðast fljótfærnislegar ályktanir sem geta leitt til skaðlegra viðbragða. Maður verður að skilja skaðinn af tilhæfulausum ásökunum og hugsunarlausum kvörtunum; annars mun maður haga sér eins og maðurinn, sem í stað þess að láta í ljós þakklæti þegar honum var bjargað frá drukknun, fór strax að kvarta yfir því að fötin hans væru skemmd! Oft hefur mannslífum verið bjargað, en með fingramissi, en við heyrum fleiri kvartanir en um týnda fingur en þakklæti fyrir líf sem bjargað var. Hins vegar munum við ekki gleyma þeim hlutum sem eru fjarri eldheiminum og munum halda áfram hjálp Okkar og tala staðfastlega um lotningu fyrir öllum fjársjóðum heimanna þriggja.

Urusvati skynjaði rétt vitundarástand sumra sviða fíngerða heimsins, þar sem vonlaus sorg ríkir einfaldlega vegna vanhæfni til að hugsa eða ímynda sér. Enginn kennir hvernig á að aga hugann og enginn kærir sig um að þróa ímyndunaraflið, en án þessara vængja er ómögulegt að svífa til æðri sviða. Maður ætti að vita að það er ríki þar sem hreinar hugsanir ríkja. Maður ætti að gera sér grein fyrir því hversu fögur leiðin er að þessu ríki, þar sem hugsanir verða að tilfinningum. Jarðnesk hjörtu geta brugðist við þessum velviljaða, hreinsandi hugsunum og skynjað skapandi náð þeirra.

Megum við fylla jarðneska líf okkar, án þess að missa af einu augnabliki, og ná fyllingu tilverunnar sem hægt er að skilgreina sem upphafningu eða sálarvakningu. Slíkt hugarástand umbreytir öllu lífi manns.

Láttu því minnsta tákn endurspeglast í hjarta þínu og mundu að á hinum fjarlægu fjöllum átt þú vini sem hugsa um þig og vinna fyrir þig.

111. Urusvati gerir sér grein fyrir fjölbreytileika Þjónustunnar miklu. Þetta frábæra hugtak, Þjónusta, er venjulega algjörlega misskilið, eða ef það er samþykkt yfirhöfuð, er það ranglega tekið sem klausturleg einhæfni. En hin mikla þjónusta bregst við jarðneskum þörfum og hinn sanni þjónn mannkyns verður að þekkja öll lífsskilyrði. Hann verður að hlífa tilfinningum fáfróðra, hann verður að sefa örvæntingarfulla og kunna að meta hin ýmsu starfssvið til að geta veitt viturlega hvatningu. Þannig mun Þjónusta skila ávinningi alls staðar og þjónn hins góða mun vita hvernig á að finna orðið sem leiðir fólk til bjartari framtíðar.

Við skulum ekki halda að betri framtíð sé aðeins blekking, Maya. Sérstaklega núna, í lok Kali Yuga, ættum við að gera okkur grein fyrir því að bjartari framtíð er að verða veruleiki og að aðeins mannleg illgirni getur dregið úr komu hinnar nýju, lýsandi aldar.

Þeir munu spyrja þig hvernig hægt sé að samræma ógnandi merki um eyðileggingu plánetunnar, við möguleikann á samfelldri og gæfuríkri framtíð. Staðreyndin er sú að mannkynið hefur frjálst val, annaðhvort að komast inn í hið nýja líf, öld mikilla uppgötvana, tímabil hamingjunnar, eða, fyrir kraft frjáls vilja að velja stórslys. Þannig geta menn ekki kvartað yfir því að þeir séu sviptir fögrum örlögum, því það er aðeins illur vilji þeirra sem gæti leitt þjóðirnar til plánetuhamfara. Frjálst val er frumburðarréttur mannsins. Það gefur endalausa möguleika en fólk kærir sig ekki um að beita frelsi sínu á réttan hátt.

Við fylgjumst með alveg frábærum og andstæðum hugsunarhætti. Vísindamenn koma saman til að vinna að framtíðinni og hunsa klúbba villimannanna sem eru tilbúnir til að slá rétt fyrir ofan höfuð þeirra! Þannig sendir bústaður Okkar stöðugt viðvaranir, en án þess að vita af hættunni, hunsar fólk þær. Menn vilja vera öryggir, en vilja ekki láta trufla sig.

Þessi öld er erfið. Fólk neitar að gefa gaum að mikilvægi eyðileggingar þeirra og stríðs, sem valda miklum sviptingum í fíngerða heiminum.

112. Urusvati veit hversu sterkur skjöldur þess er, sem gerir sér fulla grein fyrir réttlætiskennd. Maður verður ekki aðeins að hafa traust, ekki aðeins trú, heldur einnig réttlætiskennd. Annars, hvernig gátu hinir miklu dýrlingar og píslarvottar staðist erfiðleika sína? Sannarlega, aðeins með vitund um réttlæti gátu þeir sætt sig við misnotkun með glöðu hjarta. Það er eins í dvalarstað Okkar, þar sem grundvöllur verka Okkar er réttlæti.

Þú mátt ekki að halda að við séum svo fjarlæg jörðinni, að ekkert jarðneskt vandamál nái ekki til Okkar. Hver jarðneskur órói slær á réttlætisvígi Okkar. Í hinni miklu þjónustu verður að vera ósigrandi stöðugleiki í því að sanna réttlæti. Fólk missir styrk sinn þegar það missir réttlætiskennd sína og hvernig getur maður haldið áfram ef fætur manns finna ekki fyrir traustri jörðu? Andinn verður að styðjast við traust vitundarinnar.

Fólk sem hefur gengið í gegnum margar hættur getur borið vitni um að aðeins réttlætiskennd þeirra bar það yfir hyldýpið. Leyfðu hverjum og einum að hugsa um hættustundirnar og spyrja hvað hafi raunverulega bjargað honum.

Vissulega erum við alltaf tilbúin að rétta út hönd Okkar, en algjört traust er nauðsynlegt fyrir slíkt handaband og fullkomið traust getur aðeins þrifist þegar maður er meðvitaður um eigin réttvísi. Við krefjumst slíkrar meðvitundar, vegna þess að hún auðveldar samvinnu og hreinsuð orkan nær áfangastað án þess að valda sársaukafullum viðbrögðum.

Megi fólk muna sterkan skjöld réttlætiskenndar.

113. Á flugi sínu til fjarlægra heima, skynjaði Urusvati mun þeirra. Það kann að virðast undarlegt að þrátt fyrir einingargrunn þeirra, sé svo margvíslegur munur, jafnvel í birtingarmyndum sem virðast líkjast jarðneskum aðstæðum. Að auki er innra andrúmsloft þessara heima dásamlegt! Litirnir geta stundum minnt mann á jarðneska liti, en efni þeirra er allt annað. Litir hafsins á jörðinni er ekki hægt að bera saman við dýpt og gagnsæi vatnsins í fíngerða heiminum. Andrúmsloft fíngerða heimsins líkist regnboga, en fíngerðir litir hans eru gjörólíkir litum jarðneskra regnboga. Fiskarnir geta flogið, en liturinn á sér enga hliðstæðu í fiskum jarðarinnar, og glæsilegustu fjaðrir jarðneskra fugla hafa engan samanburð við fjaðrir fíngerða heimsins. Fólkið líkist jarðneskum fólki, en maður undrar fíngerða eiginleika þeirra og áferð. Raddir þeirra minna á einn besta söng á jörðinni, en merkingin er allt önnur. Slíkur munur er sláandi fyrir mannlega vitund og maður verður að venjast þeim.

Sælir eru þeir sem, meðan þeir eru í grófum líkama, eru þegar tilbúnir til að samþykkja margbreytileika heimanna. Ekki halda að slík viðurkenning komi auðveldlega, því að maður verður að vera andlega reyndur til að geta samþykkt raunveruleikann. Orðið „samþykkja“ táknar sjálfan kjarna þróunar. Það er meira að segja til menningarlegt og menntað fólk sem getur ekki skilið hina fjölmörgu og fjölbreyttu heima og hefur því ekki aðgang að fíngerða heiminum. Það er aldrei hægt að þvinga fíngerðar tilfinningar.

Sá sem hafnar hugmyndinni um fíngerða heiminn er að búa sér ömurlegan bústað. Maður verður að rækta víðtæka útvíkkun hugmynda, því án hennar er ekki hægt að vonast til að hafa flug í fíngerða líkamanum. Huglítill fíngerður líkami, jafnvel þótt honum takist að yfirgefa líkamlega líkamann, verður skelfingu lostinn og verður áfram hreyfingarlaus. Það er ekki auðvelt að komast inn í fíngerða heiminn án ótta og að fylgjast rólega með og rannsaka. Mannfjöldinn í fíngerða heiminum er jafn óvenjulegur og verurnar í fjarlægum heimum. Lýsandi efnið er ólíkt jarðneska efninu, en jafnvel innan um endalausan ágreining verður maður að halda sig við hugmyndina um einingu. Heimili okkar er eitt, en samt er það margþætt.

114. Urusvati er vel kunnugur hinum svokölluðu helgum sársauka og einnig öðrum sársaukafullum tilfinningum sem ekki er vitað um upprunan á. Maður ætti að leita að orsök þessara undarlegu sársauka í samskiptum manns við fíngerða heiminn. Rétt eins og grófi líkaminn getur tekið á móti „áföllum“ sem fylgja sársaukafullum viðbrögðum, getur fíngerði líkaminn orðið fyrir áhrifum af ýmsum kröftum sem hann sendir síðan til líkamlegrar hliðstæðu sinnar. Mörg taugaviðbrögð eru tengd viðbrögðum fíngerða heimsins.

Maður getur ekki verið líkamlega ónæmir fyrir upplifunum í fíngerða heiminum. Einn verður fyrir mörgum sársaukafullum viðbrögðum, líkt og stungum, sem aftur munu hafa áhrif á taugarnar og valda sársauka í taugastöðvum.

Urusvati hefur hitt gervifræðara og fylgjendur þeirra í fíngerða heiminum. Slík samskipti eru nokkuð venjuleg og engan veginn notaleg, en maður ætti að vita að þau eru til. Slík tilvik kenna okkur að vera varkár og gefa manni hugmynd um óvenjulega fjölbreytni birtinga í allri tilverunni. Aðeins sá sem hefur aflað sér þekkingar af eigin reynslu mun forðast að draga fljótfærnislegar ályktanir og skráir vandlega allar nýjar birtingar í uppsöfnun Kaleik síns.

Við höfum lært mikið af reynslu Okkar í hinum líkamlega og fíngerða heimi. Við fylgdumst með og varðveittum síðan í Kaleikum Okkar einstaklingsupplifunina og dáðumst að fjölbreytileika þess. Við mælum með sömu vinnubrögðum fyrir samstarfsmenn Okkar. Hins vegar er sérstaklega skaðlegt að krefjast lögmáls þegar maður hefur aðeins upplifað lítinn hluta þeirra birtingarmynda sem eru sönnun þeirra lögmála. Það er ekki af hógværð sem Ég segi þetta, heldur af skilningi á mikilfengleika alheimsins.

115. Urusvati man hvernig hún gat breytt skapi sumra með einni handarsnertingu. Við lyftum líka upp vinstri hendinni þegar Við sendum hugsanir. Maður getur í raun nýtt sér grófa segulmagnið sem er staðsett á fingurgómunum og maður ætti að læra að skynja það, sérstaklega þegar það hefur verið styrkt með aukinni hugsunarsendingu.

Í bústað Okkar er venja að senda skilaboð standandi með annan handlegginn uppréttan, en sumar sendingar krefjast afslappaðrar sitjandi stöðu með handleggina krosslagða á brjósti eða hendurnar á hnjánum, til að stemma stigu við útstreymi segulstrauma. Þessar mismunandi stöður líkamans sýna hvernig andleg orka er tengd annarri líkamsstarfsemi. Í dag eru þessar áminningar sérstaklega tímabærar, vegna þess að fólk er farið að rannsaka hugsunarflutning án nægrar þekkingar á nauðsynlegum jaðarskilyrðum. Í austri er efnislíkami rannsakaður, en alvarleg athygli er einnig að mörgum viðbótar kringumstæðum.

Í fornum heimildum er að finna mörg táknræn orðatiltæki en upprunaleg merking þeirra er nú týnd. Hin forna hefð munnlegrar kennslu hafði djúpstæðan tilgang vegna þess að hægt var að miðla fræðslunni beint til verðskuldaðs lærisveins án þess að þörf væri á táknrænni blæju. Hins vegar innihalda hefðbundnar skriflegar skrár margar skaðlegar villur. Þétt fáfræðin getur hulið lítinn hluta hins gefna sannleika og vísvitandi illgjarnar yfirlýsingar afbaka jafnvel augljósustu staðreyndir. Maður getur ímyndað sér hversu mikið átak þarf til að beina hugsunum manna að skynsamlegri upprætingu slíkrar skammarlegrar brenglunar.

Það er grátlegt að flestir gera sér ekki grein fyrir því hversu mikið af krafti þeirra er sóað í tilraunir til að draga úr skapi þeirra sem eru nátengdir þeim. Einhvern tímann verður fólk gagnrýnt fyrir að reyna að skemma skap annarra. Það er nógu ámælisvert að brjóta hljóðfæri, en hversu miklu dýrmætari er mannshugurinn! Það er ómögulegt að endurheimta brotið skap.

116. Urusvati veit að það er fylgni á milli bardaga og sköpunar. Frá jarðnesku sjónarhorni virðast þessi hugtök vera andstæður. En við segjum að sköpunin dreifi myrkrinu, þess vegna er ekki andstaða heldur fylgni á milli þessara tveggja að því er virðist andstæðu hugtaka.

Við erum oft sökuð um að hræða fólk með því að leggja svo mikla áherslu á hugtakið bardaga og fyrir að segja að baráttan Okkar sé endalaus. Fólk gerir ráð fyrir að sköpun sé friðsæl og barátta eyðileggjandi, en hvernig getur maður hugsað sér sköpun án þess að hafa vald yfir frumefnunum, án hugrakkrar baráttu við að yfirstíga hindranir? Þannig er baráttan Okkar líka að ráða yfir glundroða. Ef engin slík vörn væri til, myndu öldur glundroða yfirbuga allan árangur. Það er mikilvægt að gera sér fulla grein fyrir því að barátta og sköpun eru virkar meginreglur tilverunnar.

Þegar við ræðum hreyfingu höfum við sömu dreifingu myrkurs í huga. Við mælum með bardaga, ekki sem bræðravígi, heldur sem fagurri vörn fyrir allan heiminn. Maður getur ekki verið í friði þegar glundroði geisar. Það væri við hæfi að útskýra þessa hugmynd með þeirri fornu setningu, að til að meta öryggi þarf maður að upplifa nokkra jarðskjálfta. Aðeins í hengiflugi lífsins getur maður skynjað óendanleikann.

Flestir munu ekki skilja þetta, því fyrir þá er barátta andstæða sköpunar. Maður getur ekki talað á áhrifaríkan hátt við fjöldann um endalausa bardaga og aðeins fáir sannir leitendur munu átta sig á hversu djarfar tilraunir þeirra líkjast bardaga. Fornu myndirnar af uppljómuðu verunum sýndu þær alltaf í herklæðum. Sérhver vísindamaður hefur sín eigin herklæði, sem er þekking.

Við notum bæði líkamlega og andlega brynju og leggjum til að fylgjendur okkar eignist brynjuna sem mun vernda þá fyrir óreiðuáföllum. Vinsamlegast takið ekki orð Okkar um herklæði sem táknræn, en gerðu þér grein fyrir því að það er þörf fyrir vopn sem vitund þín skapar. Virkið styrkist þegar brúin að turni Chun er traust.

117. Urusvati þekkir hugtakið um sigur. Þegar við hefjum skapandi starf sem er verndað af baráttunni, staðfestum við sigur. Megi hertur sigurstrengur óma! Megi merki hreyfingar fram á við verða sýnileg, því það er enginn ósigur í óendanleikanum. Megi ákall Okkar verða meðtekið sem lifandi ráð.

Urusvati þekkir vel samskiptatengslin við Bræðralagið; aðeins með þessum hlekk er hægt að þekkja hin margvíslegu ástand tilverunnar. Bræðralag Okkar er eins og rannsóknarstofa allra greina lífsins. Nýju fræðslunni er nú dreift um allan heiminn og kynnir nýja þekkingu á fíngerðu kröftunum.

Sigur Okkar er líka háður fíngerðum skilyrðum. Stundum þarf mörg ár til að móta réttu leiðina, sýnilega jarðneskum augum, sem Við höfum þegar lýst. Síðar mun fólk tjá sig um hvernig atburðir hafi sérstaklega verið séðir fyrir og sumir munu þá meta samvinnu Okkar við að opinbera sannleikann. Lærðu því af þolinmæði Okkar. Megi eindregin þrá Bræðralagsins vera þér fyrirmynd í öllum þínum gjörðum.

Innra líf Okkar hefur fíngerða endurspeglun á jarðneska hætti í öllum sínum margbreytileika, þess vegna ráðleggjum Við að þróa skýran og lipran huga. Fornmenn kenndu möguleika alls ómöguleika og kenndu með því vitundarvíkkun. Þeir endurtóku oft dæmisöguna um vanhæfan hershöfðingja, sem stóð á hæðartoppi og hafði svo miklar áhyggjur af ósigri annars hluta her síns, að hann náði ekki að snúa sér í tæka tíð til að sjá hinn hluta hersins vinna mikinn sigur.

118. Urusvati kannast við þau fjölmörgu atriði sem fólki hefur verið gefið um bræðralagið og fíngerða heiminn. Við höfum skrár þar sem öll slík skilaboð hafa verið færð inn, og þegar við tökum saman öll orð Okkar höfum við nákvæma skráningu á mörgum smáatriðum sem saman gefa skýra mynd. Þessum skilaboðum var vísvitandi dreift og er að finna í sögulegum heimildum ýmissa þjóða.

Við höfum aldrei leyft Okkur sjálfum að þvinga fram hugmyndir eða nota flóknar orðræður. Mannleg vitund ætti, eins og býfluga, að safna þekkingu úr öllum áttum til að byggja upp sitt eigið sannleikshugtak, frjálst og fúslega. Aðeins slíkt erfiði flýtir fyrir sjálfsmenntun og menningu.

Það eru margir sem myndu fagna framsettri mynd af sannleikanum. Slíkt fólk vill láta leiða sig eins og væru blindir, en forna aðferðin okkar segir: Maður, þekktu sjálfan þig! Við erum tilbúin að deila auðfúslega myndbrotum af mósaík heimsins, en hver og einn verður að móta sína eigin hönnun.

Fólk kvartar yfir því að það finni ekki nægilegar upplýsingar um fíngerða heiminn, þó eru fjölmargar vísbendingar til í löngum bókahillum ef fólk gefur því gaum og skilur að þjóðsögur eru ekki ætlaðar til blekkja mannlega huga!

Hvert og eitt okkar hefur í mörgum og ólíkum lífum, orðið vitni í fíngerðum líkama að mörgum atburðum. Er hægt að ímynda sér, að þegar Ég birtist frá fíngerða heiminum í hlutverki læknis, gæti læknandi heimsóknir Mínar verið til að blekkja? Við getum bent á fjölda slíkra fyrirbæra sem fólk á jörðinni hefur orðið vitni að. Það er mikilvægt að slíkir jarðneskir vottar fái tækifæri til að bera vitni um reynslu sína, hversu óvenjuleg sem hún kann að virðast. Maður getur ekki gengið út frá því að allt fólk, af öllum trúarbrögðum, séu lygarar!

Miklar upplýsingar hafa verið gefnar um Bræðralagið, en umsækjandi verður að safna þeim sjálfur. Jafnvel nú munu orð Okkar aðeins vekja hrifningu af fáum; engu að síður eru orðin sögð og skráð.

119. Urusvati skynjar rétt truflun straumanna. Við einbeitum Okkur ákaft að því verkefni að viðhalda jafnvægi á slíkum æsingartímum, því það er nauðsynlegt að vernda verkfæri sálarorkunnar. Maður getur fundið fyrir eins konar afturköllun lífverunnar eða stundum fundið fyrir íþyngjandi innri ólgu. Ég ráðlegg þér að borða létt á slíkum stundum, en þessi ráð eru afstæð, allt eftir einstaklingi og aðstæðum.

Líkja má sálarorku á hreyfingu við ólgusjó. Þegar jafnvægi þess er raskað verður út- og innflæði orkunnar of mikið. Þegar bylgjur góðrar orku eru sendar út er mikilvægt að vera meðvitaður um þann hluta líkamans og orkustöðvarinnar sem þær hafa verið sendar frá. Orkuöldurnar geta streymt burt og orðið öðrum aðgengilegar, en mikilvæga spurningin er hvernig þessari hjálp verður tekið. Án meðvitaðrar móttöku getur orðið öfugt högg til baka sem getur haft alvarlegar afleiðingar. Oft geta þessar bylgjur verið svo þéttar að þær hafa áhrif á kaleikinn og mikil tilfinning verður á því svæði. Sérstök spenna sést þegar rýmisstraumarnir hafa verið auknir af frjálsum vilja og mynda hnút af þéttri orku. Sérhver hvatning er tvíeggjað sverð.

Við getum ekki annað en fundið fyrir þessum stormum, sem rífa vefinn sem er ofinn í gegnum aldirnar. Við skulum ekki vanmeta hætturnar sem skapast af frjálsum vilja: mikil gjöf, misnotkun hennar getur dregið mannkynið í hinar mestu hættur. Það er ómögulegt að sannfæra fólk um að skaða ekki hvert annað, en það er hægt að halda áfram baráttunni fyrir jafnvægi.

Þú getur ímyndað þér hvaða spenna umlykur turninn Okkar þegar orkubylgjur geisa í geimnum, en Við höldum áfram starfi okkar og Urusvati hefur stundum heyrt kröftugar upphrópanir Okkar og brýnar vísbendingar.

120. Urusvati þekkir þýðingu augnabliksins sem skilur svefn frá vöku. Þetta augnablik er kallað „demantur meðvitundarinnar“. Á meðan á þessu tímabundna ástandi meðvitundar stendur tilheyrir maðurinn báðum heimunum samtímis – hinum líkamlega og fíngerða. Ef fólk skynjaði slíkar aðstæður meðvitað á það auðveldar með að skilja hugmyndina um sálarorku.

Engar dularfullar vígslur eru nauðsynlegar til að skynja veruleika hinnar helgu stundar. Öllum er gefinn kostur á að skynja báða heimana, en frjáls vilji þeirra má ekki trufla og hvetja til banvænnar afneitun. Okkur líkar ekki orðið „dauði“ og allt sem það gefur til kynna, en samt er hægt að segja að allir fáfróðir afneitendur séu dauðir.

Rétt er að taka fram að sérstakan titring þarf til að átta sig á demanti meðvitundarinnar. Þessi titringur á uppruna sinn í hreinni þrá, sem þarf meðvitaða þekkingu til. Það eru hvorki töfrar né galdrar í hæfileikanum til að skynja þessa fallegu stund. Þegar maðurinn færir tilfinningar frá fíngerða heiminum inn í líkamlegt líf sitt, gæti hann líka skynjað hin eldheitu hlið.

Við styrkjum og dýpkum þessar demantsstundir með skýrum skilningi á mikilvægi þeirra. Reyndar eru þær svo stuttar að ekki er þörf á fyrirhöfn. Hægt er að ná fram langvarandi samskiptum við fíngerða heiminn, en samtíma vitund um heimana tvo er augnabliksstund. Við erum ekki að vísa til leiðbeinandi krafta Okkar og skilaboða Okkar til heimsins. Orðræður Okkar, og orð Mín, koma ekki til þín núna frá fíngerða heiminum, heldur eru þær afleiðingar af miðlun hugsunar úr fjarlægð. Þegar Urusvati sér atburðina gerast í turninum Okkar er það sérstakt hlutverk fjarskiptasýnar, en orðræða við Okkur samsvarar beinum útvarpsskilaboðum. Ekki er hægt að opinbera þá rás fyrir alla, né geta allir haft aðgang að Okkur.

Það sem Við erum að tala um hér er eitthvað annað, demantsstundin milli svefns og vökuástands, á því augnabliki sem fíngerði líkaminn snýr aftur inn í hinn líkamlega. Hver manneskja hefur vald til að upplifa þetta augnablik sem tengir þessa tvo heima, en til þess verður maður að þróa fíngerða vitund. Allar endurminningar um fíngerða heiminn eru afar gagnlegar fyrir mannlega þróun og jafnvel áminningar um lægri svið fíngerða heimsins þjóna sem gagnleg viðvörun. Hugsun mannsins færist í átt að skilningi á hinum ýmsu sviðum, og jafnvel harðasta Harmagedón getur ekki hindrað ætlaða þekkingu.

Sumir skilgreina alla heimana sem efnislega, en þegar upp er staðið kemst maður að því að allt er anda-efni. Því eru heimarnir efnislegir, þegar allt kemur til alls. Sannarlega er Chun-turninn byggður úr efni. En við skulum ekki flækja hugsun okkar með nafnatogi; merki eru um að allir heimarnir þrír eru að birtast og jarðneskur maður getur jafnvel séð neista eldheimsins.

121. Urusvati veit hversu þrálátlega við reynum að pressa ætlaðar uppgötvanir á mannshugann. Tökum flugið sem dæmi. Maður gæti haldið að eftir fljúgandi skip Atlantis hefði hugsun um sigur í loftinu verið yfirgefin um langa framtíð, en hugsunin um flug var ætlað að lifa af. Fólk fór að dreyma um loftskip, járnfugla og fljúgandi teppi. Salómon notaði fljúgandi tæki og að lokum lagði ástkæri Leonardo Okkar grunninn að vísindalegri flugfræði. Þannig má rekja á mörgum sviðum þekkingar, hvernig hugmyndir, jafnvel settar fram í ljóðasögum uxu smám saman í vísindaafrek.

Menn ættu að muna goðsagnirnar um Icarus og Simon Magus, sem benda til flugs inn í fíngerða heiminn. Einhvern tíma mun maðurinn aftur þróa kraftinn til að svífa, en fyrst verður hann að skilja andlega orku. Svipaðar spár má rekja á öðrum sviðum. Við hættum ekki að minna fólk á þá möguleika sem knýja á dyrnar og geta hraðað þróun þeirra.

Menn ættu að muna að nútíma útreikningar eru langt frá því að vera fullkomnir, vegna þess að ákveðnir þættir eru ekki teknir með í reikninginn. Hingað til hefur ekki verið tekið tillit til frumorkunnar og áhrif margra öflugra efnasamsetninga eru ekki þekkt.

Stundum virðist sem ákveðnar uppgötvanir hafi verið gerðar eins og fyrir tilviljun, en var ekki hvísluð aðstoð frá turni Chun? Vísindamenn hlýða þó sjaldan ráðum Okkar og við erum oft neydd til að gefa vísbendingu, ekki sérfræðingnum, heldur móttækilegum starfsmanni í skyldri viðleitni. Eiginkonur, systur og aðrir nánir samstarfsmenn uppfinningamanna geta borið vitni um hvernig þau leiddu vísindamennina stundum til fyrirfram ákveðinna uppgötvana vegna beinskeyttrar þekkingar þeirra.

Við munum óþreytandi minna þig á brýnustu þarfir mannkyns.

122. Urusvati minnist þess hve staðföst Við eru í að vernda hið fagra. Með því að sjá fyrir atburðina í Harmagedón, vinnum við að því að dreifa tillögum Okkar um bestu aðferðir til að varðveita fjársjóði heimsins. Við vitum að myrkraöflin munu beita öllum sínum kröftum til að koma í veg fyrir að brýnar varúðarráðstafanir Okkar verði uppfylltar. Þeir skilja mjög vel að listaverk gefur frá sér öflugustu útgeislunina og getur þjónað sem besta vopnið gegn árásum þeirra.

Myrkraöflin reyna að eyðileggja listina, eða að minnsta kosti beina athygli fólks frá henni. Það verður að hafa í huga að listaverk sem er svipt athygli missir miðlunarmátt sinn og velgjörð þess stöðvast. Það er engin lifandi snerting á milli kaldlynds áhorfanda eða hlustanda og listar sem er ofar skilningi hans.

Hugmyndin um skapandi hugsun er djúpstæð og slík hugsun gegnsýrir listaverk sem síðan verður að sterkum segli og orkusöfnum. Þannig lifir hver listsköpun og hjálpar til við orkuskipti og orkusöfnun.

Jafnvel í miðri Harmagedón getur maður upplifað áhrif listaverka. Umhyggja fyrir dýrmætri list getur varðveitt heilt tímabil. Geymslur Okkar er full af hlutum sem fólk taldi glataða. Kannski verður sumum þeirra skilaðir að lokum til þeirra þjóða sem tókst ekki að vernda þá.

Við höfum bjargað mörgum listaverkum. Við getum séð fyrir hvernig hinir myrku munu beita allri sinni kunnáttu til að lágmarka hagstæð skilyrði, og frá æðstu sviðum tilverunnar vitum við hvenær Við verðum að hjálpa mannkyninu. Þessar áætlanir eru gerðar í fíngerða heiminum með góðum fyrirvara. Við leynum ekki þörfinni á brýnum ráðstöfunum, vegna þess að í áframhaldandi Harmageddon vonast hinir myrku til að spilla allri mannlegri orku. En Við vitum hvernig á að standa gegn þeim. Fylgstu með því hvert Við beinum umhyggju okkar.

123. Urusvati tekur eftir því hvernig kosmískir straumar hafa ekki aðeins áhrif á heimsviðburði heldur líka á líf einstaklinga. Maður getur fylgst með óvenjulegum veikindum og jafnvel farsóttum sem ekki er hægt að skýra með venjulegum orsökum. Maður getur tekið eftir því hvernig fólk verður stundum viðkvæmt fyrir kvefi og skyndilegum taugaverkjum. Meðferð slíkra óvenjulegra kvilla ætti einnig að vera óvenjuleg.

Allt þetta staðfestir að á þessum tímabilum er sálarorkan í óvenjulegu ástandi. Varnarnetið er órólegt; það er bólgið og ytri áhrif geta auðveldlega farið í gegnum það. Við bendum fólk á að fara sérstaklega varlega á slíkum dögum. Við erum ekki að segja að þessir dagar séu hættulegri en aðrir, heldur að viðkvæmni manns verður ákafari. Og við skulum ekki gleyma því að myrkraöflin vilja helst nota þessa tíma í eigin tilgangi. Það er nauðsynlegt að vernda ekki aðeins líkamlega heilsu, heldur einnig taugajafnvægi. Almennt séð verður maður að hafa skynsamlegt viðhorf til tilvistar myrkraaflanna. Það er fáfræði að afneita tilvist þeirra, en það er jafn skaðlegt að vera hræddur við þá. Urusvati hefur séð ímyndir þeirra, sumar ógeðslegar og aðrar fallegar. Þeir hafa hæfileika til að umkringja sig birtu og þeir kunna líka að bjóða upp á ýmsa kosti.

Það má spyrja: „Geta meistarar hins illa nálgast turninn Okkar? Reyndar geta þeir það, þó aðferðir þeirra séu mjög sársaukafullar fyrir þá. Reiði þeirra gefur þeim sterka hvatningu. Stundum er Okkur skylt að nota öfluga orkuútblástur til að hrekja óboðna gesti frá. Með slíkri losun sigrum við óvinina sem reyna að nálgast bræður okkar. Þú getur munað eftir sérstökum straumum sem þú skynjaðir um nóttina. Þessir straumar eru heilnæmir og verndandi. Viðleitni til Okkar mun efla þá. Önnur áhrif geta valdið rifum í varnarnetinu, en straumar Okkar munu vernda þig.

124. Urusvati hefur séð hlífðarvefinn Okkar. Við flýtum fyrir ósýnilegum straumum þessa lýsandi vefs, sem hindrar árás myrkra afla og verndar Dokyood, þar sem samstarfsmenn Okkar slaka á áður en þeir taka að sér ný verkefni.

Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að geislar okkar og straumar eru gagnlegir þegar þeir eru samþykktir meðvitað. Við getum vitnað um að ávinningur áhrifa Okkar eykst hundraðfalt ef þau eru samþykkt í gegnum hjartað.

Fólk þjáist vegna þess að það skilur ekki raunveruleika skilaboða Okkar. Þrátt fyrir að kvartanir þeirra séu stöðugar er skilaboðum Okkar hafnað og gerð að athlægi. Sérhver beiðandi hugsun sem beint er til Okkar mun gefa góða uppskeru, en samt eru augljósustu birtingarmyndir Okkar gleymdar og útskýrðar á almennan hátt. Leyfðu Okkur að velja bestu leiðirnar.

Urusvati kann að taka eftir jafnvel minnstu breytingum á hlífðarvefnum, en flestir geta ekki tekið eftir, jafnvel langvarandi einkennum. Hvernig getum við þá treyst þeim fyrir smáatriðum um innra líf Okkar? Í stað þess að njóta góðs af þekkingunni munu þeir aðeins finna nýjar ástæður til að efast. Þannig munum Við og sannir samstarfsmenn ávallt greina hvað hægt er að segja sem mun vera til bóta. Maður ætti ekki að þvinga fræðsluna upp á neinn, sem getur hvorki viðurkennt gagnsemi né fegurð hennar, nema því að hjartað hafi verið opnað. Djúpur skilningur á fræðslunni krefst opins hjarta. Leyfðu fólki að snúa hjörtum sínum oftar að Okkur og læra að elska að hugsa um Okkur.

125. Urusvati veit hversu mikils við metum einlægni. Reyndar er það einlægni sem viðheldur stöðugri viðleitni okkar upp á við. Þessi tilfinning eykst á dögum þegar minnst er mikilla hetja.

Mannkynið heiðrar marga bræður Okkar, þó undir öðrum nöfnum. Fólk heldur að hetjur þeirra hafi engin tengsl við Okkur, og veit ekki að meðal virtustu og dýrkuðustu risa mannkynsins voru sjálfir stofnendur bræðralagsins Okkar.

Við skulum muna að þeir birtust á jörðinni undir sérstökum geisla og því er fæðing þeirra tengd sérstökum þjóðsögum. Við munum ekki mótmæla þessum þjóðsögum, því þær hvetja til einlægni og hjálpa mannkyninu að skynja hinar miklu myndir. Við leiðréttum heldur ekki dagsetningarnar sem samþykktar hafa verið. Þvert á móti sendum við góðar hugsanir á öllum helgum dögum mannkynsins. Einlægnin eykst ef menn gera sér grein fyrir þeim miklu afrekum sem þessir minningardagar heiðra.

Fólk hefur aðeins óljósan skilning á mikilvægi glæsilegra afreka fræðarans mikla og hefur breytt fegurstu sjálfsfórninni í algenga hluti og eigingjarna. En jafnvel þó það dragi úr gildi þeirra þá varðveitir það ögn hátíðleikans. Leyfðu Okkur af þolinmæði að hjálpa til við að rækta þessa fögru tilfinningu einlægninnar, sem umbreytir lífinu, sem skapar hetjur og leiðir til fjarlægra heima. Höldum minningardaga með jákvæðum og góðum verkum.

Þjónusta kemur fram í góðum verkum sem eru möguleg undir öllum kringumstæðum. Frábær árangur stuðlar að gleði Okkar. Við vísum leiðina, en hana verða fætur manna að troða – þannig var lögmálið sem frelsarinn mikli gaf.

Öll slík mikil afrek eru skráð í fjársjóði Okkar. Hún er fáfróð tilraunin til að afneita þessum sannindum, en sem betur fer varðveitum Við sönnunina fyrir þessum verkum. Þannig skulum við tileinka sérstökum degi miklum afrekum.

126. Urusvati hvetur með réttu samstarfsmenn til að afrita málsgreinar úr bókum fræðslunnar sem fjalla um frumorkuna. Maður ætti að safna þeim saman í heila bók. Jafnframt verðum við að muna að sumir kvarta undan því að bækur fræðslunnar fjalli um einn og sama hlutinn aftur og aftur. Þessir fáfróðu lesa ekki með viðeigandi athygli og taka ekki eftir því að í hverri nálgun að hugmynd kynnum við ný smáatriði. Þess vegna verður að kynna útdrætti í röð; aðeins þá getur maður tekið eftir spíralsveigjum í skilaboðum Okkar. Fólk ætti að læra að hafa gaman af þessu starfi, því með slíkri nákvæmni mun það geta fylgst með aðferðum Okkar á meðan það safnar saman vísbendingum Okkar og ráðum.

Hvaða verðleika hefur nemandinn sem endurtekur orð okkar án þess að beita eigin fyrirhöfn? Vitund auðgast aðeins í ferli réttrar hugsunar og vélrænar endurtekningar geta ekki leitt til nýrra myndanna. Maður ætti að fylgjast með því hvernig Við leiðum hugsun án þess að trufla sjálfstæða virkni. Við vísum leiðina, og bendum á möguleikana án þess að brjóta karma, en hverja beygju á leiðinni verður manneskjan sjálf að staðfesta.

Innra líf Okkar er skilyrt af ákveðnum aðferðum sem byggjast á óbreytanlegum lögmálum. Aðsetur Okkar getur aðeins verið til fyrir uppfyllingu lögmála þróunarinnar. Þú hefur orðið vitni að því, alveg óvænt, að vísindamenn staðfesta stundum það sem fræðslan hefur þegar boðað. Rétt væri að benda á að auk hinnar gefnu fræðslu berast ákveðnir óútskýranlegar hvatar til vísindamanna. Hugsunarboðin Okkar fljúga um allan heim og Við sáum fræjum rausnarlega í geimnum. Rýmið er fullt af hugmyndum. Þetta ástand er kallað „meltingarafl óendanleikans“.

Það er sérstaklega mikilvægt að þróa ást fyrir nákvæmni. Aðeins þannig geturðu kynnst aðferðum okkar.

127. Urusvati man hvernig, þegar hún hitti Okkur í fyrsta sinn, vegfarendur virtust hverfa eins og þeir hefðu tvístrast. Það væri rétt að gera ráð fyrir að þetta væri afleiðing af andlegri skipun Okkar, en þetta eru tímar áður óþekktrar spennu, að ekki er hægt að gefa upplýsa um slíkt. Við samanburð á þessum tímum getum við séð áhrif Harmagedóns.

Sumir kunna að spyrja hvort það sé mögulegt að innan tveggja áratuga geti myndast svo öflug kosmísk spenna. Slík spurning sannar að mikilvægi Harmagedóns er lítið skilið. Allir sem vita um komandi endalok Kali Yuga, gera sér grein fyrir því að það getur ekki gerst án umbreytinga í heiminum. Öflin sem voru sérstaklega öflug á svörtu öldinni verða nú að berjast fyrir að lifa af og þau kjósa almennar hörmungar til að sigra. Við verðum að sammæla krafta Okkar í samræmi við aðstæður plánetunnar, því við slíka spennu getur ýktar áreynslur eyðilagt jafnvægið.

Flestir geta ekki skilið mikilvægi samvinnu og markhæfni. Þeir halda að máttur Okkar geti sigrast á hvaða mótstöðu sem er, óháð kosmísku ójafnvægi. Þetta er einfalt hugtak en samt verður að endurtaka það stöðugt, annars fellur jafnvel lærðasta fólkið í örvæntingu og veltir því fyrir sér hvers vegna eitthvað, sem var mögulegt fyrir tíu árum, er ekki mögulegt í dag. Slík spurning er sönnun þess að þeir skilja ekki kosmíska hreyfingu. Ekki að ástæðulausu köllum við eftir hugrekki og þolinmæði.

Við sendum upplýsingar um dagsetningar sem lúta að endalokum Kali Yuga og fjöldi fólks gefur því gaum. Puranas gefa margar augljósar vísbendingar um þessa atburði, en mikilvægustu skilyrðin voru ekki tilgreind í gömlu handritunum. Ekki var hægt að minnast á spennu staðbundinna strauma og uppgötvun frumorku í Puranas, þó að þau væru ætluð hinum leitandi, háþróuðum hugsuðum. En báðar þessar aðstæður hafa nú komið fram í áberandi mynd, sem gerir mikilvægi þess að nálgun endaloka Kali Yuga er þeim mun augljósari.

128. Urusvati var nokkrum sinnum bannað að fara í mjög hættulegt flug. Kennarinn verður að vernda mann fyrir of hugrökkum rannsóknum. Hærri sviðin brenna eins og hiti sólarinnar og neðri sviðin eru þrúgandi fyrir hærri vitund. Það er ómögulegt að fljúga í gegnum öll svið, því fíngerða líkamanum yrði neytt. Skipting sviða fíngerða heimsins er ákvörðuð innan eigin vitundar manns. Flutningurinn til hærri sviðanna verður að feta smám saman. Rétt eins og læknar hafa umsjón með sjúklingum sínum eru leiðsögumenn skipaðir til að hjálpa lærisveinunum að varðveita jafnvægið, svo að hægt sé að framkvæma þessi flug á skynsamlegan hátt. Í fíngerða heiminum veldur hvert jafnvægisrof áfalli.

Þannig varðveitum Við líka jafnvægi í dvalarstað Okkar. Þetta er sérstaklega nauðsynlegt á mörkum hins líkamlega og fíngerða heima, sem er skýrt afmarkaðir í lífi Okkar.

Það er erfitt fyrir fólk að skilja að þekking sem aflað er á jörðinni er nauðsynleg fyrir upplifun þeirra í fíngerða heiminum - ekki aðeins þekkingin sjálf, heldur einnig stig skynjunar og umburðarlyndis. Þegar fólk krefst þessara eiginleika af sjálfu sér, mun það sjálfkrafa þróa með sér víðsýni sem mun leiða það að Eldhliðunum.

Slík ögun er auðveldari fyrir þá sem gera sér grein fyrir og viðurkenna tilvist bræðralagsins. Á tímum mikillar hættu mun leiðsögumaðurinn vernda og vara við, en aðeins á síðustu stundu.

Urusvati minnist erfiðrar uppgöngu á sleipum fjallavegg í miklum snjó, þegar hönd kennarans var rétti út til að veita stuðning. Urusvati efaðist ekki og sigraði því alla erfiðleika. Þetta ætti að vera samstarfsfólki til fyrirmyndar um hversu erfiðar hækkanir nást. Maður ætti að hugleiða hvernig öðrum bræðrum hefur tekist í viðleitni sinni.

Það getur ekki verið áreynslulaus uppganga.

129. Urusvati reynir að líkja flugi til hinna fjarlægu heima við flug inn á hærri svið fíngerða heimsins eða upp í ríki eldsins. Í grundvallaratriðum eru bæði flugin framkvæmd í fíngerða líkamanum, þó í mismunandi víddum, og það er hætta í þeim báðum. Ákveðna þrýstingsbreytingu gætir þegar nálgast er fjarlæga heima. Við skulum til dæmis muna hvað varð um systur I., en flug hennar sleit næstum sundur tenginguna. Hætturnar eru enn alvarlegri þegar við reynum of snemma að hafa samband við eldheimana. Fíngerði líkaminn getur eyðst, ef hann hefur ekki verið undirbúinn með langri, hægfara nálgun.

Ekki gleyma því að fíngerður líkami, jafnvel af mikilli fágun, er efnislegur líkami og lýtur lögmálum sem eru efnisleg, þótt þau séu af hærri gráðu.

Eldleg fyrirbæri, sjaldgæf á jarðneska sviðinu, hafa áhrif á hjarta mannsins og umbreyta öllum sviðum sem þau snerta. Slíkar tafarlausar umbreytingar geta valdið óvenjulegu áfalli sem líkamlegt umhverfi veitir enga vernd gegn. Með öðrum orðum, brennandi sverðið mun brenna í gegnum hið líkamlega slíður.

Aðeins sjaldan getum við verið í sambandi við eldheiminn. Venjulega eiga þessar snertingar sér stað í gegnum samsvarandi svið fíngerða heimsins og þannig er lögmálinu um markhæfni hlýtt. Með víkkun vitundar er þessari tilfinningu um markhæfni beitt á skynsamlegri hátt. Líkamlegi heimurinn umvefur aðsetur Okkar og við tökum að Okkur það verkefni að viðhalda jafnvæginu.

Bróðir Okkar V. man eftir að hafa séð einu sinni fyrir sprengingu sem átti að verða í hjarta borgar. Við berum ábyrgð á öllu karma sem verður á vegi Okkar og slík ógæfa ætti ekki að vera leyfð. Einnig ætti að beita markhæfni í flugi. Það er enginn ávinningur af því að vera brenndur áður en Eldhliðin hafa opnast. Við berum ábyrgð á öllu karma sem verður á vegi Okkar.

Megi sóknin í átt að sviðum Okkar verða fallegur stígandi!

130. Urusvati er meðvituð um að Við erum ekki heldur ónæm fyrir hættunum sem umlykja Okkur. Í fáfræði ganga menn út frá því að Við stöndum ekki frammi fyrir hættum í óendanleikanum! Vissulega, þökk sé þekkingu Okkar, erum við nægilega vernduð við jarðneskar aðstæður, en allt er afstætt, og þegar hugsun leitast til óendanleikans eru mælikvarðar aðrir.

Hetjulegu viðhorf ætti að viðhalda í öllum kringumstæðum. Þetta er próf sem þarf að standast ef sönn þróun á að vera studd. Við skiptum hetjum í ómeðvitaða og meðvitaða. Þeir sem skilja hvað þeir erfiða og þjást fyrir, eru sannarlega hetjur. Með því að vita sannleikann um aðstæður sínar, snúa þeir samt ekki frá hættunni. Innan um strauma geimsins, innan um illan vilja, innan um skelfingu, vinna hugrakkar hetjur og skapa. Hetjur vita að jarðlífi þeirra getur lokið hvenær sem er, en þær draga ekki úr viðleitni sinni. Þær gera sér grein fyrir því að óeigingjörn sjálfsfórn, mun halda áfram jafnvel við erfiðustu aðstæður. Ekkert getur komið í veg fyrir að vilji þeirra birtist á hvaða sviði sem er.

Það er mikill munur á ómeðvituðum og meðvituðum hetjum. Hjá þeim fyrri getur orðið sjálfsprottinn upphafning. En þó að tímabundin viðbrögð geti átt sér stað og valdið því að hinir meðvituðu draga sig til baka, munu þeir aldrei gefast upp og halda áfram á vegi sínum og beita hinni alheimsþekkingu sem safnast hefur í gegnum aldirnar. Þeir vita hvernig á að umbreyta þekkingu í tilfinningar og hvernig á að fylla hjörtu sín af henni. Þar sem hjartað er fullt, þar er svifið inn í framtíðina. Öflug vitneskja um hættu veitir hetjunni innblástur.

Ég tala um þetta til að undirstrika að hetjudáð er grundvallarvígi Okkar innra lífs. Dæmi um hetjudáð má sjá í fyrri lífum bræðra Okkar. Mun líf Okkar ekki þjóna þér sem hvetjandi dæmi um fallega, en þó þunga brynju?

131. Urusvati skilur fegurð samvinnu við fíngerða heiminn. Sá sem ímyndar sér að slík samskipti séu við dauðan heim sýnir aðeins fullkomna fáfræði. Við vinnum stöðugt með þennan lifandi heim. Við erum sérstaklega styrkt af víðtækri þekkingu sem samstarfsmenn Okkar í fíngerða heiminum miðla. Þeir sem takmarkast af líkamlegri tilveru geta aðeins lært einn þátt sannleikans, en hið víðtæka svið vísinda Okkar er aflað með þekkingu sem við fáum frá fíngerða heiminum. Maður ætti ekki að vera takmarkaður af líkamlega sýnilegum sjóndeildarhring. Sá tími mun koma að fólk mun geta auðgað líf sitt með náttúrulegum hætti, en til þess þarf hæfileikann til að skynja lífið alls staðar.

Fólk kann að spyrja hvort það sé ruglingslegt að vinna með líkamalausar verur og þéttar astral verur – alls ekki. Slík samvinna á sér stað á sviði sameinaðrar vitundar og vegna þess að slíkir samstarfsmenn eru með svipað hugarfar myndar sameiningin sannkallað samfélag.

Það er rétt að segja að samfélag fólks tákni kórónu árangurs, en fyrir fullkomið samfélag þarf að vera fágun og vitundareining. Það er ekki lítið verkefni að sameina vitundina í sannri samvinnu. Á hærri sviðum fíngerða heimsins fer sálin að skilja að samvinna færir kraft og velgengni, en þegar fólk kemur aftur til jarðar gleymir það gildi gagnkvæmni. Það gleymir líka tilveru Okkar, þó það vissi af Okkur í fíngerða heiminum, hittu bræður Okkar og skildu mikilvægi Dokyood. Engu að síður er ákveðin stund að nálgast og fólk mun annað hvort skilja hvað er fyrirætlað eða velja hörmungar.

132. Urusvati minnist heimsóknar sinnar til Dokyood, þar sem það var mikil gleði að sjá börn sækjast eftir hetjudáðum. Það er líka áhugavert að sjá þá sem hafa ekki enn lifað út líkamlega reynslu sína. Þeir geta ekki nálgast hið líkamlega andrúmsloft frá fíngerða heiminum, vegna þess að slík nálgun veldur spennu í fíngerða líkamanum og leiðir til óvenjulegs svita sem dregur úr lífskraftinum. Þannig verður leiðarvísirinn að stjórna innra ástandi til að vera í samræmi við þrá eftir þjónustu.

Nýlega heimsótti Urusvati staði þar sem fólkið býr sem yfirgaf jörðina aldrað. Það er auðveldara að vinna með börnum og þeim sem eru á háum aldri sem hafa lifað af verkefni sín í jarðneskum líkama. Erfiðast er miðaldra fólkið sem er enn uppfullt af óútskýrðri uppsöfnun og óánægju og getur ekki samþykkt Helgiveldið. Það er fórnarlömb eigin óljósra langana og eru ósátt við allt.

Meðal þeirra sem hafa upplifað langt jarðneska líf má finna skipulag sem hjálpar öðrum að viðurkenna Helgiveldi. Verur frá hæstu sviðum eru ekki alltaf skynjaðar af þeim sem eru í fíngerða heiminum og þó nærvera þeirra sé meira áberandi en á jörðinni, þá eru margir vantrúaðir, jafnvel í fíngerða heiminum. Þeir sem voru fáfróðir á jörðinni eru þrjóskir og bera efasemdir sínar og afneitanir með sér inn í fíngerða heiminn. Maður ætti að muna þetta svo maður sé tilbúinn til að fylgja fræðslunni þegar maður er í fíngerða heiminum.

Urusvati sá þá sem voru fúsir til að sjá kennarann sinn. Mundu að við heimsækjum hin ýmsu svið fíngerða heimsins, þó að það sé erfitt fyrir Okkur að vera áfram í neðri lögum. Bróðir K. veiktist þegar hann gegndi hlutverki sínu á jarðneska sviðinu og neðri lög fíngerða heimsins eru jafn þétt. Urusvati er meðvituð um þessa þéttleika og köfnun. Það er betra að vita af öllum erfiðleikum vígðs lífs en að dreyma aðeins um „himneskar hörpur og söngva“. Við leggjum markvisst áherslu á erfiðu hliðina; Í fyrsta lagi, til að fela ekki sannleikann, og í öðru lagi, ef maðurinn gerir sér grein fyrir gleðinni yfir andlegum árangri, mun hann einnig gera sér grein fyrir því að jafnvel mestu erfiðleikar eru ekkert í samanburði við mikilfengleika uppljómunar.

Ungur drengur, sem Urusvati hitti, var að sækjast eftir miklum afrekum og mun örugglega finna gleði á öllum sviðum viðleitninnar.

133. Urusvati veit hversu ákaflega erfitt það er stundum fyrir Okkur að heimsækja fundi jarðneskra manna; Það er auðveldara að heimsækja fíngerða heiminn. Við gerum Okkur öll grein fyrir því, að til að ná árangri á jarðneska sviðinu þarf meiri orku en í að takast á við fíngerða heiminn. Þar sem hægt er að beita orku hugsunarinnar beint er auðveldara að koma á snertingu, en hugsun við jarðneskar aðstæður er svo ruglað að sendingin krefst aukinnar spennu.

Urusvati veit líka að það er mjög þreytandi fyrir ósýnilega vitnið að vera í miðri jarðneskri samkomu, en slíkar heimsóknir er þó tíðar. Fólk getur skynjað hina ósýnilegu nærveru, eins og einhver hafi spurt eða svarað. Stundum finnst þetta svo ákaft að maður er beðinn um að spyrja náunga sinn hvort hann hafi talað. Það má rifja upp atburði í sögunni þegar stjórnmálamenn heyrðu greinilega raddir og viðvaranir. Því miður veittu flestir þeirra þeirri aðstoð enga athygli.

Við vöruðum Napóleon við oftar en einu sinni og hann viðurkenndi að hann „heyrði raddir,“ en samt hélt hann áfram á villubraut sinni. Í aldir hefur það verið skylda Okkar að vara þá í háum stöðum við, sem eru í aðstöðu til að hindra þróun.

Urusvati heimsótti nýlega nokkrar hersamkomur. Þátttakendur skynjuðu að þeir ættu að tala hreint út um vandamál sín en höfðu ekki hugmynd um hverjum það var sem þeir treystu. Þannig eru oft teknar ákvarðanir sem annars myndu vera ósagðar. Við köllum slík áhrif „óheyranleg ráð“.

134. Urusvati veit um líkneski. Sumir kunna að velta því fyrir sér hvort hugmyndin um líkneski stangist ekki á við hugmyndina um kraft hugsunar. Ef hugsun er sterkasta birtingarmyndin, hvers vegna þyrfti þá hlut til að þjóna sem fókus til að einbeita hugsuninni? Það er satt, að ekki er þörf á líkneski fyrir öflug hugræn skilaboð, en þau geta verið notaðir til að spara andlegan kraft. Hver tegund af orku verður að nota skynsamlega. Hluturinn sem þjónar til að safna orku þjónar einnig til að margfalda hana. Slíkir hlutir varðveita orku, sem hægt er að auka smám saman. Frá fornu fari hafa líkneski verið álitin heilög, en í dag er þetta hugtak orðið vísindalegt.

Við höfum fjölda kerfa sem auðvelda sendingu hjálp til ástvina okkar. Það er mikilvægt að skilja að slík uppsöfnuð orka getur verið græðandi kraftur með því að hjálpa til við flutning ákveðins titrings. Taka skal tillit til allra gagnlegra ráðstafana.

Steinninn frá fjarlægum heimum er mikilvægur sem líkneski fyrir bræðralagið. Mikið hefur verið skrifað um þennan stein. Hlutir þess sinna skyldu sendiboða um allan heim, borinn af höndum hinna útvöldu. Fólk kallar steininn „Bikar“ en hann hefur einnig verið kallaður mörgum öðrum nöfnum. Sagnir allra tíma segja nokkurn hluta sannleikans um þennan stein, en mikilvægasta hlið hans er ekki nefnd - steinninn er gegnsýrður af efni sem hjálpar til við að varðveita titringssamskipti við fjarlæga heima. Sömuleiðis þjónar lítil ögn af steininum sem tengill við bræðralagið. Þannig er aftur vísindalegur grundvöllur fyrir goðsögn sem er orðin hluti af mannkynssögunni. Við leggjum viljandi áherslu á vísindalega hlið þessarar goðsagnar því hinir fáfróðu eru alltaf tilbúnir til að heimfæra allt við myrkur hjátrúar. Urusvati þekkir þennan stein Okkar bústaðar. Við varðveitum það á sérstökum stað svo að titringurinn haldi upprunalegum krafti.

Við verðum að benda á að titringsorka loftsteina hefur ekki verið rannsökuð. Sumir innihalda agnir af merkilegum málmum sem enn er hægt að rekja, þó að þær séu litlar. Hugur rannsakandans ætti ekki að takmarkast af gömlum aðferðum.

Sumir gætu haft áhuga á að vita meira um dvalarstað steinsins. Staðurinn þar sem hann var fyrst opinberað, varð grundvöllur Shambhala og það efldi efnafræðilega þýðingu dvalarstaðarins. Margar sögur mætti segja um þennan sendiboða úr fjarlægum heimum. Þú veist nú þegar um ákveðna forráðamenn sem hafa agnir af þessum steini og þú getur staðfest hvernig steinninn opinberar sig. Þú munt verða undrandi að vita hversu mörg mismunandi lönd og hetjur tengjast því og hversu mörg stórvirki voru innblásin af þjóðsögunum sem tengjast því.

Harðir andstæðingar bræðralagsins hafa líka heyrt um steininn og saga hans er þeim ákaflega fráhrindandi. Þeir skilja ekki kjarna þessa fyrirbæris og eru því fullir af hatri og ótta við það.

Megi traustir vinir standa vörð um söguna um steininn.

135. Urusvati veit að hugsanir um fallegar þjóðsögur leiða til fræðarans. Og jafnvel á erfiðustu stundum munu hugsanir um Bræðralagið skapa bestu brúna yfir til þess.

Hugsanir ættu að beinast að hinu fagra, sem heilsubætandi lyfi. Fólk skilur ekki hvað þeim hefur verið gefið öflugt úrræði og það vill frekar kvarta, finna fyrir óánægju og gráta, skilja ekki að slíkar leiðir takmarka bara bestu möguleikana.

Upâsikâ gefur besta dæmið. Jafnvel á erfiðustu augnablikum var hún að leitast við til Okkar. Slíkur viljastyrkur leiðir óhjákvæmilega til öflugs titrings. Ekkert gat neytt hana til að gagnrýna fræðarann, jafnvel óbeint. Engin ógæfa gæti fengið hana til að gleyma Bræðralaginu. Ekki einu sinni skipsstrand gat truflað einbeitingu hennar. Hún hélt fast við tilhugsunina um bræðralagið og þessi áhersla efldi hinn heilaga titring.

Urusvati veit líka að tal eða hugsun um Okkur færir hinn heilaga titring nær. Við þekkjum líka kraft upphafinnar hugsunar og komum saman í þeim tilgangi að hugsa sameiginlega um hið fagra. Hins vegar leggjum við ekki til eina tiltekna mynd; hver einstaklingur velur það fallegasta eftir skyldleika sínum. Þannig verður til sinfónía sem kemst nálægt tónlist sviðanna. Hljómar þess hljóma eins og sigurlúðrar, svo samhljóða að hljóð þeirra fylla hjartað gleði.

Minnstu hins fagra innan um erfiðustu baráttuna. Það getur verið hjálpræði fyrir hjarta stríðsmannsins. Veistu að þetta ráð er ekki aðeins gefið þér; í Okkar bústað er því einnig beitt. Allir hafa sínar hættur og sorgir, en það er ánægjulegt að vita að það er eitt verndarúrræði fyrir alla.

136. Urusvati veit hvað það þýðir að vera í jarðneskum bardögum meðan hún er í fíngerða líkamanum. Líkamleg vopn geta verið notuð gegn hvaða aðila sem er og það kann að virðast undarlegt að þau skaði ekki fíngerðan líkamann. Ástæðan fyrir þessu er sú að í jarðneskum bardaga er vopni beitt meðvitað og af frjálsum vilja, en ekki er hægt að beina meðvituðum vilja að óséðu skotmarki. Þetta er gott dæmi um aukinn kraft meðvitaðrar aðgerða.

Hægt er að finna fornar myndir sem sýna „himneska“ þátttakendur í jarðneskum bardögum. Urusvati getur borið vitni um hversu hratt og örugglega hún gat flogið á milli hermanna. Þú getur ímyndað þér hversu oft við tökum þátt í slíkum jarðneskum bardögum. Við erum ekki berskjölduð fyrir mannlegum vopnum en getum samt orðið fyrir meiðslum af völdum æðstu stjórnendum myrkrasveitanna, sem með eyðileggjandi árásum sínum fylla rýmið. Slíkar ósýnilegir bardagar eru ekki ævintýri. Það er eitt að senda geisla frá turninum, en það er allt annað að fljúga til að taka þátt í réttlátri baráttu í geimnum. Flug er mögulegt jafnvel í líkamanum, og þrátt fyrir efasemdamenn, hefur flug í fíngerða líkamanum oft verið sannað.

Í bæði jarðneskum og fíngerðum bardögum ræðst afgerandi árangur af eiginleikum viðleitninnar sem beint er til Okkur. Menn ættu að endurtaka endalaust að viðleitni til Okkar er sterkur skjöldur. Hjálp er hægt að efla ómælt þar sem ekki er pláss fyrir óánægju, kvartanir, þunglyndi og vantraust. Maður, gefðu ósýnilegu verndurum þínum tækifæri til að rétta fram hendurnar! Svo margir lýsandi vængir hafa visnað vegna vantrausts mannsins!

Ef meðvitað viðhorf getur bætt krafti við vopn, þá getur hrein, upplýst viðleitni vissulega laðið að sér aðstoð. Þetta er ekki siðferðisleg áminning, heldur vísindaleg staðreynd. Óeigingjarnt flug er þegar athöfn trúar og beinna þekkingar. Urusvati þráir sjálfviljug að taka þátt í baráttunni. Einkunnarorð hennar eru: „Vertu sterkur til sigurs.“ Maður getur tekið þátt margoft í baráttunni og við metum hverja viðleitni í þágu sannleikans og ljóssins.

Hræsnarar munu biðja: „Hver erum við? Við erum svo lítil! Hvernig getum við hjálpað ljósinu mikla?" En fyrir löngu var sagt: „Hver andardráttur skal lofa Drottinn.

Í vinsemdarorði fæðist athöfn til góðs.

137. Urusvati man eftir aðlaðandi, ljómandi útliti sem höfðingi hins illa getur kallað fram. Menn ættu líka að hafa í huga að hinir myrku reyna stöðugt að snerta geislana okkar; þetta er hliðstætt því að hlera fjarskipti. Þannig ættu menn að muna eftir mörgum aðferðum myrkursins.

Gleymdu aldrei ljómanum af útgeisluninni sem hinir myrku geta umkringt sig. Fyrir byrjendur er þessi staðreynd frekar furðuleg, en þegar maður hefur kynnt sér vísindin um geislaorku skýrist það. Hins vegar, vegna þess að kraftur hreinnar útgeislunar er ekki í boði fyrir alla, geta útgeislun hinna myrku aldrei náð því titringsstigi sem getur hrist alla tilveru manns.

Við höfum þegar nefnt ýmsa staði þar sem hinir myrku safnast saman. Við gætum endurtekið þær, en það myndi ekki hjálpa. Ef við ættum að nefna B., eða N., eða E., þá væri það ekki heimilisfang, og jafnvel nafn götu eða lýsing á húsi myndi ekki hjálpa til við að finna eitt af myrku hreiðrum þeirra, sem hefði mjög saklaust yfirbragð. Það eru vissulega engar myndir af Satan, en nóg er af trúarlegum hlutum. Aðeins viðkvæmt hjarta mun skynja hvar hinir illu eru. Gleymum því ekki, að þeir eru hæfileikaríkir og grimmir og að enginn getur keppt við þá í þeim eiginleikum. Þannig geta hinir myrku þolað þjáningar og jafnvel eytt sjálfum sér til að taka þátt í eyðileggingunni.

Mikið af styrk okkar er notað til að vinna gegn brellum hinna myrku. Við lítum á þann dag sem sigursælan dag þegar höfðingja hins illa er gert að hörfa.

138. Urusvati veit að Við sjáum aldrei eftir fortíðinni. Dýrmæt er viðleitnin til framtíðar og sérstök orka laðast að þegar hugsun um framtíðina er lifandi. Snilldarlegasta fortíðin þolir engan samanburð við möguleika framtíðarinnar. Vísindin staðfesta að framtíðarhugsanir eru gagnlegar og eftirsjárhugsanir um fortíðina eru eitraðar.

Við bjóðum upp á fróðleik um fortíðina, en hjartað á að fyllast af viðleitni til framtíðar. Látum hæfileikann til að skynja betri möguleika mannkyns þróast út frá slíkum hugsunum.

Ekki halda að það sé auðvelt að hafna fortíðinni. Mikla þekkingu þarf að afla sér áður en hægt er að þekkja þróunarspíralinn, sem sífellt brýst áfram. Venjulega dvelja menn við gærdaginn, en gera sér ekki grein fyrir því að hver morgundagurinn ber með sér nýja þekkingu og dagurinn sem varla er búinn hefur þegar skapað nýja uppsöfnun. Nóttin gefur samfélag við fíngerða heiminn og endurnýjun orku. Að morgni man fólk sjaldan upplifun sína af nýliðinni nóttu, en finnur fyrir aukinni orku. Vísindamenn útskýra þetta fyrirbæri af of þröngri efnishyggju, en reyndari áhorfendur skynja mismunandi orsakir.

Ég á nú við þá sem geta heilsað hverjum morgni sem upphafi nýrrar upplifunar. Sálmur Pýþagórasar við hækkandi sól, byggðist í raun á gleðilegri viðurkenningu á nýjum degi og nýrri þekkingu. Í svo upphöfnu ástandi er varla hægt að sjá eftir fortíðinni.

Hugsun um frelsi krafta andans veitir sköpunargleði. Við sjáum ekki eftir fortíðinni.

139. Urusvati veit að mörg afgerandi augnablik líða í þögn. Fyrst getur komið stormur, með eldingum og þrumum, en grunnurinn er þögn. Þegar Við stingum upp á sameiningu í þögn, þá er einhvers staðar eitthvað merkilegt að eiga sér stað. Slík einbeitt þögn safnar sérstakri orku, sem hugsanlega er öflugri en jafnvel háværustu orðin. Mjög fáir skilja þögn sem aðgerð. Allt heimili Okkar rennur stundum saman í djúpa þögn þegar eitthvað mikilvægt er að eiga sér stað.

Oft finnur fólk þörf á að þegja áður en það grípur til kraftmikilla aðgerða. Þannig mun reyndur ræðumaður þegja um stundarsakir og draga djúpt andann áður en hann mælir afgerandi orð. Sumir vita um mikilvægi slíkrar neyslu prana, en aðrir gera það alveg ómeðvitað. Kraftur sálarorku manns eykst með víkkun vitundarinnar. Það er gleði í dvalarstað Okkar þegar við lærum að eitt stórt verkefni var unnið meðvitað. Þannig getur straumur viðleitni gagnast viðleitni manna.

Kannski er einmitt núna að gerast mikilvægur atburður, en enginn gerir sér grein fyrir hversu nauðsynlegur hann er. Aðeins á komandi árum munu sagnfræðingar meta raunverulega merkingu atburða í dag.

140. Urusvati veit að margir myndu telja umboð Okkar umfram getu sína. Slíkt fólk mælir allt í lífinu á venjulegum mælikvarða. Það myndu ekki reyna að þróa einbeitta viðleitni í sjálfum sér og er takmarkað af draugum núverandi blekkinga sinni. Á sama tíma er svokallaður nútími einfaldlega bilið milli sýnilegra eldinga og heyranlegra þrumna, þegar eldingar hafa þegar slegið niður og þrumur eru óumflýjanlegar. Hvað getur þá bilið milli tveggja sameiginlegra birtinga þýtt? Þannig er nútíminn ruglingslegur fyrir fólk, því hann er ekkert annað en spegill.

Þegar fólk lærir hvernig á að átta sig á mikilvægi liðins atburðar mun það geta sætt sig við óumflýjanlegar afleiðingar hans; slík framtíð er raunveruleiki.

Við felum ekki boðberum Okkar að framkvæma ómöguleg verkefni. Við þekkjum takmarkanir mannlegrar getu og við vitum líka hvers má búast við af manneskju í uppbyggingu raunhæfrar framtíðar. Við getum bara búist við mestu viðleitni frá boðberum Okkar. Við slíkan styrkleika er segull Okkar virkur og þjónar sem sterkur skjöldur. Hins vegar hentar hugleysi ekki fyrir langferð. Það vita allir, innst í hjarta sínu, hvort hann er leiddur af mestu viðleitni eða er bara dreginn af ótta.

Við skulum muna hversu margar hættur hann slapp við þegar hann sótti fram af öllu hjarta og hversu mörg hlið sem virtust vera læst, breyttust í ljóstjöld! Þannig getur sá sem leggur sig fram af einurð sætt sig við raunveruleika framtíðarinnar. Leyfðu fólki að muna hversu vel tókst til vegna Okkar hjálpar og hvernig þeim fannst í raun og veru að leiðandi hönd hefði snert það. Sumir hafa ef til vill ýtt henni til hliðar eins og þetta væri pirrandi fluga, en það voru aðrir sem tóku því með þakklæti.

Sterkir eru þeir sem fyllast þakklæti, því að vængir þeirra geta vaxið! Þeir munu ekki vera hræddir við umboð Okkar. Þeir vita að Við berum þungar byrgðar, en gleðjumst samt á leiðinni í garði fegurðar!

141. Urusvati veit hversu mikla ákveðni þarf til að uppfylla umboð Okkar. Þeir sem eru óundirbúnir munu sjá eftir því að hafa yfirgefið það sem þarf að skilja eftir og aðrir munu harma að þurfa að yfirgefa nágrenni turna Okkar. Þeir gleyma því að andleg snerting er óslítandi og að fjarlægð hefur enga merkingu.

En sá sem er vopnaður ákvörðunarvaldi mun ekki sjá eftir neinu frá fortíðinni þegar hann þekkir leiðina inn í framtíðina. Það er ekki bara viðbúnaður sem þarf heldur ákveðni. Þú skilur muninn á þessum orðum. Við kennum hvernig á að þróa ákvörðunarhæfni þannig að engar jarðneskar aðstæður geti haft áhrif á hæfileikann til að ákveða. Það voru tímar þegar tenging við óverulega jarðneska hluti hafði ekki aðeins áhrif á örlög einstaklinga heldur heilu þjóðanna. Það er skammarlegt þegar hlutur gerður af mannahöndum getur truflað braut sannra afreka.

Við kennum fólki að standast tímabundin gildi sem geta hulið hin mikla óendanleika, og bendum á hin yfirjarðlegu svið til að víkka svið huga þeirra. Ef fólk venst því að hugsa um hærri heima, mun það ekki gera tilkall til yfirburða hversdagslífsins, og finnur innra með sér styrk til að lifa afrekslífi og getu til að uppfylla verkefni Okkar. Menn verða ekki ráðvilltir vegna vandamála jarðlífsins, vitandi að þessi vandamál er hægt að leysa með meiri innblæstri.

Maður verður að hafa slíkt traust á hjálp Okkar að segull trúarinnar dragi að sér hina staðföstu orku. Innra líf Okkar er fúst til að veita hjálp.

142. Urusvati veit hversu vel maður verður að fylgja vísbendingum Okkar, en því miður tengir fólk jafnvel kosmíska atburði við sjálft sig. Einbeitt athygli að orðum fræðarans getur aðeins komið með mikilli ást og tryggð. Á næstu árum muntu átta þig á því hversu tímabærar allar vísbendingar Okkar voru. Oft, til viðmiðunar, nefnum við aðeins landið, eða borgina eða nafn, en ef þessar athugasemdir eru bornar saman mun augljós atburðarás sjást.

Harmageddon hófst árið 1931 og nú er bent á árið 1942 sem mikilvægt ár þegar næsta röð heimsviðburða verður ákveðin. Við höfum áður talað um árið 1942 og það er merkilegt að þetta sama ár hljómar líka meðal mannkyns. Sögur af mikilvægi plánetunnar þróast í kringum hverja vísbendingu.

Við skulum rifja upp hversu stutt orð Okkar voru um örlög Kína og tengda atburði í öðrum löndum. Aðeins næmt eyra gat náð nöfnunum sem voru nefnd svo fljótt. Stundum breytum við nöfnunum örlítið svo að skilaboðin verði ekki stöðvuð, en þegar maður rekur sig á slíkt nafn í atburðarásinni mun bein þekking um leið vekja athygli manns á því. Forspá verður mikil vísindi í framtíðinni, en hana er aðeins hægt að gefa þegar vitund mannsins öðlast geðheilsu sína.

Það er rétt hjá þér að hafna þeirri vanrækslu sem hugvísindum er sýnd. Aðeins skynsamleg samvinna allra vísinda mun skapa skilning á einingu þekkingar. En hvers kyns ofurkapp mun reynast spillandi. Maður verður að skilja að ofstæki er eins konar fáfræði og byggist á afneitun og fordæmingu.

Þannig geturðu séð hvað Við þurfum að glíma við, samt þreytist fólk aldrei á að gagnrýna Okkur. Ekki aðeins ofstækismenn heldur jafnvel góðir hugsuðir reyna að leiðrétta leiðbeiningar Okkar. Megum við minna þig á rithöfund sem lagði til að takmarka þau verkefni sem Við gefum, án þess þó að nenna að lesa ráðin Okkar! Það voru margir sem reyndu að hindra starfsemi Bræðralagsins. Síðar iðruðust sumir afvegaleiddir gagnrýnendur, en skaðinn af völdum dóma þeirra varð að lifa út, og slík karmísk sár eru bitrasta jarðneska reynslan.

Núverandi íþyngjandi dagar eru ekkert annað upplifun af mikilli uppsöfnun. Við hlustum af athygli á stynjandi jörðina.

143. Urusvati veit að andleg orka er háð mörgum líkamlegum áhrifum. Við höfum þegar nefnt að straumar geimsins hafa áhrif á alla lífveru mannsins, en í raun getur hvers kyns líkamleg birtingarmynd orku aukið spennu orkustöðvanna. Til dæmis getur sterk raforka verið hjálpleg við flutning hugsunar í fjarlægð. Þetta er áberandi í Ameríku, þar sem rafvæðing er útbreiddari um þessar mundir, en fólk þar er venjulega ekki meðvitað um hvernig þessi orka hjálpar tilraunum þeirra. Á háþróuðum þroskastigum verður sálarorkan ekki fyrir áhrifum af ytri áhrifum, en byrjendur verða fyrir miklum áhrifum af þeim. Sérhver efling orku eykur enn krafta manns. Einn vísindamaður lýsti því yfir að hann gæti hugsað af mikilli einbeitingu fyrir framan logandi arin og annar uppgötvaði að hann var undir áhrifum frá hljóði sjóðandi vatns. Þriðji komst að því að þrumuveður jók andlega hæfileika hans. Mörg dæmi sýna að jafnvel venjulegur styrkur slíkrar náttúrulegrar orku hjálpar til við kraft hugsunarinnar. Maður verður að læra að fylgjast með því hvað það er sem sérstaklega eykur eða dregur úr hugsunarorkunni.

Við búum yfir þessum hæfileika til að fylgjast með og beita honum á alla þætti lífsins. Kraftur hugsunarinnar mun virka í mestu fjarlægðum þegar náttúrulegar aðstæður aukast.

Við höfum þegar nefnt að þeir sem gera uppreisn gegn Bræðralaginu verða fyrir barðinu á endurkasti. Hinir fáfróðu munu rekja þetta til hefndarhyggju Okkar, en staðreyndin er sú að það er aðeins vegna losunar orku. Ef maður snertir bæði skaut á hlaðinni rafhlöðu fær hann högg, en það væri fáránlegt að saka rafhlöðuna um að vera hefnandi eða illgjarn.

Maður verður einfaldlega að gefa gaum að birtingarmyndum lífsins og viðurkenna að það er til ósýnilegur heimur, jafnvel á jörðinni.

144. Urusvati getur borið vitni um hina miklu fjölbreytni titringsorku til lækninga sem hafa verið framkvæmdar í fjarlægð. Lækning af þessu tagi mun að lokum verða þekkt fyrir læknavísindin, en í augnablikinu myndi einmitt hugmyndin aðeins pirra lækna. Við erum sérstaklega meðvituð um titringsáhrif og beitum þeim mun oftar en fólk gæti haldið. Menn ættu að hafa í huga að slík áhrif geta eflst með meðvitaðri móttöku.

Með fáum undantekningum er lækning Okkar óséð. Fólk hneigðist til að útskýra titringinn með fáránlegum ágiskunum og mun taka eftir öllum minniháttar einkennum vanlíðanar þeirra og hunsa sterka tilfinningu titrings. Stundum skelfur það undir straumum geislanna, en búa samt strax til einhverja skýringu á þeim. Flestir munu ekki sætta sig við að hægt sé að senda titring í fjarlægð og jafnvel þekking á útvarpsbylgjum sannfærir þá ekki um að hliðstæður séu til á öðrum sviðum.

Urusvati getur borið vitni um hversu oft titringsorku er beitt á hinar ýmsu orkustöðvar og hversu fljótt verkir linna. Það er rangt að taka þessum margvíslegu titringi sem sjálfsögðum hlut og eigna þá aðeins sjúklingnum sjálfum; Einnig ætti að huga að ytri áhrifum.

Við staðfestum að meðal mannlegra uppgötvana í framtíðinni verða slíkar titringslækningar. Margir sjúkdómar, taugaveiklun og geðsjúkdómar munu læknast. Krabbamein, á fyrstu stigum þess, getur verið stöðvuð með slíkum titringi, steinar geta leyst upp og kirtlar lagaðir. Á sama hátt munu ákveðnir húðsjúkdómar læknast auðveldlega.

Sumir kunna að velta því fyrir sér hvort meðvitaður móttækileiki muni stuðla að velgengni lækninga. Örugglega svo, og að mestu leyti, því að meðvitaður móttækileiki virkjar sálarorku lífverunnar. Slíkur bandamaður er alltaf nauðsynlegur.

145. Urusvati veit að óþekkt nöfn, óþekktir staðir og ókunn orð koma oft upp á yfirborðið úr djúpum vitundarinnar. Vísindamenn kalla þetta undirmeðvitundina, en þeir gera sér ekki grein fyrir því að fjarskipti úr geimnum safnast fyrir í kaleik mannsins og þegar þau fá hvatningu flytjast þeir til heilans.

Hver er þessi hvatning? Oft er það geislinn Okkar sem kveikir yfirborð kaleiksins og kallar fram samsvarandi heilaga þekkingu. Þess vegna ættu menn að gefa gaum að slíkum vitundarblikum. Þau minna á dulheyrn, en eru í raun leidd fram úr djúpum vitundarinnar af geisla Okkar. Í daglegu lífi ætti maður að læra að þekkja þessi skilaboð sem koma alltaf á réttu augnabliki.

Fólk kvartar yfir því að vera svipt háleitri leiðsögn, en svo sterk staðhæfing er ástæðulaus. Við gefum mikið, en það er fólkið sem skynjar lítið! Þess vegna minnum við á það að gefa meiri gaum að orðum sem spretta skyndilega fram í meðvitundinni. Slík orð ætti ekki að vísa á bug heldur ætti að beita þeim vandlega í lífinu. Margar aðrar gagnlegar hugmyndir koma á svipstundu, eins og fljúgandi fiðrildi, en fólk bandar þeim bara frá sér.

Við þreytumst aldrei á að dreifa gagnlegum upplýsingum og Við ráðleggjum þér að fara varlega með þær, því þær munu nýtast vel í fíngerða heiminum. Þannig ætti maður að þróa sérstaka hæfileika til að fanga hugsanir geimsins.

146. Urusvati hefur minnispunkta sem varða ákveðna daga Pílagrímsins mikla og hefur varðveitt mynd hans í huga sínum. Pílagrímurinn mikli valdi ákafa andlegra afreka, sem voru krýnd með ótrúlegum árangri. Þeir sem tilbiðja hann, skilja ekki að hann átti beint við almúgann og að hann lagði grunninn að nýjum skilningi á stöðu konunnar.

Í hinum fornu launhelgiritum má finna ákveðnar sögur sem voru varðveittar af trúföstum fylgjendum hans. Það væri mistök að hafna þessu svokölluðum launhelgiritum, því hver getur sannað að þær séu rangar? Þau kunna að vera brotakennd og hafa verið skrifuð á mismunandi tímum, en þau eru byggð á dýrmætum minningum. Eiginleikar hollustu eru lítils metin.

Þrátt fyrir róg um óvini og villur fylgjenda hans var fagra myndin áfram lýsandi. Þannig getum við nálgast hina miklu og engum er bannað að líkja eftir þeim á réttan hátt.

Rétt er að benda á að meginkenningin var veitt af honum þegar hann var í sínum fíngerða líkama. Þessi fullkomnun var í fullu samræmi við hinn ljómandi sannleika sem hann boðaði. Viturlega gaf hann fólkinu einföld orð um grundvöll lífsins. Það var mögulegt að fela örfáum fylgjendum kenninguna sem kom frá fíngerða heiminum, þar sem kenningin var send munnlega í samræmi við hefðir. Hins vegar, innihalda launhelgiritin ekki síðustu leiðbeiningar hans, sem fjölluðu um mátt hugsunarinnar og hefðu ekki verið skilin af meirihluta fólks. Fræðarinn vissi að fáfræði gæti afskræmt sannleikann og að aðeins skaði myndi hljótast af.

Birtingarmyndirnar í fíngerða líkamanum voru hápunktur hans mikla afreks. Fræðslunni var haldið áfram án truflana og sumar vísbendingar benda til þess að jafnvel lærisveinunum hafi verið brugðið af kraftmikilli birtingarmynd hans. Eitt launhelgiritið lýsir því hvernig sumir þeirra duttu niður en aðrir dóu úr áfallinu. Samt er ótrúlegasta, mikilvægasta staðreyndin sú að fræðslan lifði af og engin brenglun gat hulið hana.

Það skiptir ekki máli að fólk hafi rangtúlkað fallegu myndina í klaufalegri viðleitni sinni til að sýna hann. Myndirnar sem við þekkjum líkjast ekki Pílagrímnum mikla. Sumir kunna að spyrja hvers vegna sönn mynd hans hefur ekki verið endurreist. En andlitsmyndir bera sjaldan sömu líkindi, því fólk kýs venjulega þá mynd sem þeim finnst best. Nákvæmustu myndirnar eru ekki almennt þekktar.

Fólk sætti sig heldur ekki við sanna lífshætti Pílagrímsins mikla. Það myndi ekki trúa því að hann hafi unnið hörðum höndum og hefði fleiri en eina kunnáttu. Maður gæti fundið í landi hans mikið úrval af keramikhlutum sem hans eigin hendur hafa búið til. Þessir hlutir urðu græðandi líknesi. En hver veit nú um þessi góðviljamerki? Vegur Pílagrímsins mikla var fullur af heilunartáknum.

147. Urusvati minnist áberandi einkenna Pílagrímsins mikla: augun, ennið og ljósbrúna hárið, einkenni sem olli manni undrun og voru svo óvenjuleg að þau vöktu ýktar sögusagnir meðal heimamanna. Hafa ber í huga að allt sem veldur undrun getur leitt til brenglaðra og fáránlegra túlkanna.

Sagan veit lítið um móður Pílagrímsins mikla, sem var eins óvenjuleg og sonur hennar. Móðirin kom af mikilli fjölskyldu og var holdgervingur fágunar og göfgi andans. Hún var sú sem lagði grunninn að fyrstu háu hugsjónum hans og söng vögguvísu fyrir hann þar sem hún spáði fyrir um undraverða framtíð hans. Hún lagði mikla rækt við að gæta barnsins síns og var styrkur fyrir mikil afrek hans. Hún kunni nokkur tungumál og gerði honum þannig leiðina auðveldari. Hún mótmælti heldur ekki löngum pílagrímsferðum hans og safnaði öllu sem þurfti til að auðvelda ferðirnar. Hún mat alþýðu manna réttilega og vissi að þeir myndu gæta fjársjóða fræðslu hans. Hún viðurkenndi glæsileika hátindsins og gat því veitt af hjarta sínu, þeim sem voru veiktir af efa og höfnun. Hún var tilbúin að upplifa sama afrek og sonur hennar og hann fól henni ákvörðun sína, sem var staðfest af fræðaranum. Það var móðirin sem skildi leyndardóminn um ferðalög hans. Til þess að grundvallarsannleikurinn um líf móðurinnar sé skýr, verður maður að skilja staðbundnar aðstæður þess tíma. Hins vegar var hún leidd af innsýn sinni inn í framtíðina og gat lyft sér yfir siði landsins.

Í sannleika sagt er mjög lítið vitað um hana, en þegar talað er um Pílagríminn mikla þarf maður að segja orð um móðurina sem leiddi hann til þess hæsta.

148. Urusvati mun ekki gleyma að skrifa um tónlist sviðanna, sem hún heyrði í dag. Þar komu fram grundvallaratriði komandi atburða, mikilfengleika þeirra og sorg. Mikil er tilurð þessara atburða og djúpstæð sorgin yfir því að árangur skuli nást með svo miklum kostnaði.

Mundu að Við erum tilbúin að kasta hluta af áru Okkar til að ráðast á og sigra myrkrið. Við erum alltaf tilbúin að fórna Okkur, en það er sorglegt að sóa slíkum krafti í að berjast gegn myrkraöflunum. Megi þessi sinfónía hljóma sem tákn.

149. Urusvati minnist Pílagrímsins mikla. Í arabísku eyðimörkinni var hann í einsemd, en í tjaldi sjeiks fann hann vini og aðstoðarmenn. Hann var oft einn og maður skyldi ekki halda að ferðir hans hafi alltaf verið með íburðamiklum ferðahýsum. Munið að allir, þegar þeir eru klæddir jarðneskri líkama, eru háðir skilyrðum efnisheimsins. Venjulega er gert ráð fyrir því að þegar bræður okkar fara út í heiminn að þeir séu settir í sérstakar aðstæður sem eru þeim óeðlilegar, en náttúran er lögmálsbundið ástand. Hvert og eitt Okkar veit þetta og velur leið sína meðvitað.

Það mátti búast við að Pílagrímurinn myndi mæta hinum myrku á vegi sínum. Sagan um fund Pílagrímsins mikla við Myrkraprinsinum ætti ekki að líta á sem ímyndaða eða táknræna. Urusvati getur staðfest að hún hafi séð ýmsar myrkar verur oftar en einu sinni, þar á meðal jafnvel sjálfan höfðingja illskunnar.

Það má velta fyrir sér hvaða munur sé á slíkum árásum og venjulegum þrýstingi myrkurs. Munurinn er mikill, en bræður Okkar óttast þá ekki og geta því ekki skaðast. Pílagrímurinn mikli sá oft slíkar hræðilegar myndir, en hann var aldrei hræddur við þær.

Sumir kunna að velta fyrir sér hvers vegna svo mikill andi þurfti að horfast í augu við ófullkomleika myrkra aðila. En kraftur segulsins laðar að sér jafnvel hina myrku, sem þrá að rugla og skaða hvar sem þeir geta. Til dæmis, jafnvel minnsti efi mun gera það ómögulegt að ganga á vatni eða eldi, eða að svífa. Ég nefni þetta vegna þess að Pílagrímurinn mikli gat framkvæmt þessar athafnir auðveldlega. Mikill kraftur hans var í algjöru óttaleysi hans og hann hélt áfram óbilandi, því í hjarta sínu hafði hann valið líf stórverka.

150. Urusvati veit hvernig Pílagrímurinn mikli beindi og leiðbeindi mannlegri vitund í átt að hinu hæsta. Hann skildi að fólk væri ekki enn tilbúið að fara meðalveginn. Þannig að jafnvel þegar einhver reyndi að orða hið óútskýranlega myndi hinn mikli leyfa honum að ávarpa þann hæsta, frekar en að láta hann lækka hugsunina.

Hinn mikli kenndi fólki að biðja í hjarta sínu, á fjallinu, innan um hvetjandi tinda. Það er ómögulegt að átta sig á dýpt merkingar prédikana hins mikla, því hann gaf fyrirmæli fyrir allt lífið með einföldustu orðum. Lykillinn að þessum mikilleika var í einfaldleika hans, sem gerði honum ekki aðeins kleift að eiga auðveldari samskipti við fólk, heldur var falleg leið til að tjá hið hæsta í einföldustu orðum. Maður ætti að læra að gera hið flókna einfalt, því aðeins í einfaldleikanum endurspeglast góðvild. Þannig var verk Pílagrímsins mikla.

Mikill er birta hans í fíngerða heiminum, og hann elskar að stíga niður í neðri sviðin svo að prana hans geti hreinsað myrku ríkin. Það er ekki auðvelt jafnvel fyrir hann að stíga niður, og maður ætti að meta þetta dæmi um óeigingjarna lækningu hans á þeim sem þjást þar.

Það er venja að Við heimsækjum neðri svið fíngerða heimsins þar sem samúðarfullt hjarta getur bjargað mörgum.

151. Urusvati veit að sérhver mikill fræðari tengist lækningu og listum. Aðeins örfáar vísbendingar og ráðleggingar Pílagrímsins mikla um lækningu eru skráðar í launritum, en maður ætti ekki að álykta að þessi fáu skráðu kraftaverk feli í sér alla lækningastarfsemi hans. Það var mikil lækning, aðallega tvenns konar, þegar fólk kom til hans, eða þegar hann sjálfur snerti mann af því að hann sá upphaf veikinda. Oft skildi sá sjúki ekki hvers vegna útlendingurinn hafði snert hann. Slík athöfn táknaði sannarlegt örlæti af hálfu hins mikla anda, sem eins og óþreytandi garðyrkjumaður sáði slíkum gæskufræjum.

Orð hans um fegurð koma heldur ekki oft fram í ritunum. Fræðarinn vakti athygli fólks á fögrum blómum og geislum sólarinnar. Hann hvatti einnig til hópsöngs, því það er öflugasta aðferðin til að ná fram samhljóma titringi. Fræðarinn lagði ekki áherslu á þennan sérstaka þátt tónlistar og söng, heldur talaði einfaldlega fyrir gleði og innblæstri.

Á meðal lærisveinanna og fylgjenda voru margir sem áttu líf fullt af eymd og daglegum erfiðleikum. Fræðarinn hjálpaði þeim fyrst með því að upphefja andann og aðeins þegar jafnvægi væri komið á ræddi hann vandamál þeirra. Hann fordæmdi aldrei fortíð þeirra heldur leiddi þá inn í framtíðina. Fræðarinn gat greinilega séð framtíðina, en opinberaði hana aðeins í samræmi við meðvitund lærisveina sína. Hann hikaði heldur ekki við að nota alvarleg orð til að endurvekja hina sofandi meðvitund.

Þannig hélt græðarinn og skaparinn áfram sína leið.

152. Urusvati hefur heyrt bæði tignarlega tónlist sviðanna og óhljóð glundroðans. Úr óreiðu og væli samdi fræðarinn mikli samhljóða sinfóníur. Aðeins fáfróðir gera ráð fyrir að himneskar hörpur hljómi við fyrstu beiðni. Frá hyldýpi glundroðans til himnesks samræmis er leiðin sannarlega löng. Þetta er ástæðan fyrir því að hinir miklu fræðarar eru líka stríðsmennirnir miklu og aðeins þeir sem hafa heyrt báðar hliðarnar geta dæmt umfang þessarar þróunar.

Fólk vill sjá fræðarana alveg eins og það sér sjálft sig og ef fræðarinn er öðruvísi á einhvern hátt mun það verða vantrúa. Hinir fáfróðu krefjast, og gera sér aldrei grein fyrir því að krafa þeirra er byggð á fáfræði, og að ímyndin sem þeir hafa fundið upp er lítilsvirðing. Almennt séð eru flestar myndir af hinum miklu fræðurum smekklausar. Fólk vill líta á fræðara sína sem einstaka, jafnvel í ytra útliti. Ef fólk hefur slíka afstöðu til sannarlegs mikilleika, bendir það til þess að það hafi ekki viðurkennt Pílagríminn mikla.

Hann forðaðist ekki að blanda geði við fólk. Hann heimsótti hátíðir þeirra og ræddi daglegar þarfir þeirra, en fáir tóku eftir mörgum viturlegum viðvörunum sem voru gefnar með fallegu brosi og hvatningarorðum. Nákvæm viðkvæmni hans var ekki alltaf vel þegin af lærisveinunum, sem stundum gagnrýndu hann jafnvel fyrir það og töldu að hann hefði ekki átt að veita fólki sem skipti engu máli svo mikla athygli. Hins vegar voru dásamlegar sálir opinberaðar og birtust með brosi hans. Hann var gagnrýndur fyrir að tala við konur, en samt voru það konur sem varðveittu fræðsluna. Hann var líka gagnrýndur fyrir umgengni við svokallaða heiðingja af þeim sem gleymdu að fræðarinn kom til allra, ekki bara til eins sértrúarsafnaðar. Það var hluti af háleitu afreki hans að sætta sig við móðgun með jafnaðargeði.

Við nefnum þessar fordæmingar vegna þess að í gegnum þær er sýnt að mynd Pílagrímsins mikla er mannlegri. Ef hann hefði ekki komist í snertingu við lífið og ekki þjáðst, hefðu verk hans ekki verið eins mikil. Enginn áttaði sig á því hversu kvalinn hann var vegna hinna mörgu truflandi ára sem hann komst í snertingu við á þennan hátt, en tilhugsunin um mikið afrek fór aldrei frá honum.

Þannig gekk fræðarinn mikli á brennandi vegi sínum. Við elskum að dvelja við slík dæmi.

153. Urusvati veit af launhelgiritunum að ákveðnir menn vildu lofa Pílagríminn mikla sem hetju fólksins. Slík ósk er oft sett fram í tengslum við mikinn fræðara, en það getur leitt til sorglegs misskilnings. Mikill fræðari er vissulega hetja og leiðtogi, en fólk getur venjulega ekki skilið hið sanna mikilvægi þessara hugtaka og því er þyrnakóróna ofin.

Urusvati heyrði rödd Pílagrímsins mikla; hvernig gat slík rödd tilheyrt einum leiðtoga mannfjöldans? Það var einmitt fjöldinn sem var orsök tiltekinna þjáninga hans, hrópaði lof um ríki hans og flýtti sér síðan til krossfestingar hans. Þannig hjálpaði fjöldinn á sinn hátt við að uppfylla spádómana. Það er ómögulegt að ímynda sér hvaða karma beið þessa fjölda brjálæðinga! Fólk varð þar vitni að atburðum sem hafa íþyngt líf margra kynslóða. Þetta er ekki refsing, heldur afleiðing af brjálæði frjáls vilja. Þegar ég ráðlegg þér að halda þér frá óviturlegum orðum og hugsunum, vek Ég þig með þeirri beiðni, til umhugsunar um framtíðina.

Fræðarinn hefði getað lifað sínu mikla lífi án fjöldans. Jafnvel þeir sem hann læknaði menguðu geiminn með hótunum sínum og bölvun. Slík birtingarmynd frjáls vilja getur verið nefnd mörgum nöfnum, en samt er hún áfram mynd af frjálsum vilja. Það er rétt að líta á frjálsan vilja sem æðstu gjöfina, en hversu skynsamlega þarf að nota þann dýrmæta fjársjóð!

Í fjárhirslum Okkar eru margir hlutir sem tengjast lífi Pílagrímsins mikla og það er ótrúlegt hversu vel útgeislun hans hefur varðveist á þessum mörgum öldum. Þeir eru marktæk sönnun fyrir krafti uppsafnaðrar sálarorku, sem safnast ekki aðeins þegar höndin eða andardrátturinn sendir kraftinn viljandi frá sér, heldur jafnvel þegar óviljandi snerting skilur eftir sig óforgengileg ummerki um orkuna.

Þannig verður þú að muna eftir ótrúlegum frumkrafti Pílagrímsins mikla.

154. Urusvati er meðvitaður um að hinir miklu fræðarar tala við dýr. Pílagrímurinn mikli var líka merkilegur í þessum efnum. Maður ætti að skilja slík samskipti við dýraríkið. Þó að manneskjur taki ekki mikið mark á dýrahljóðum geta þeir skilið þau, þar sem sálarorka getur haft samband við samsvarandi orku í dýrum og þannig skapað skilningsbrú.

Fjarvera ótta og reiði er þörf á báðum hliðum. Auk þess verður að vera til sannleikur og góður vilji, því að látast í þessum málum er ómögulegt. Huglausir segjast kannski hafa hugrekki og hinir grimmu geta þóst vera góðir, en þá verða náttúruleg tengsl milli heimanna ekki til vegna þess að lífverurnar hafa glatað gagnkvæmu trausti og engin samskipti verða. Nú á dögum þykir það mjög sjaldgæft þegar dýr af mismunandi gerð geta lifað saman. Þegar fólk nálgast dýr með efa getur enginn gagnkvæmur skilningur verið.

Ef maður gæti séð hvernig fræðarinn mikli tengdist dýrum og fuglum væri maður sannfærður um lifandi tengsl ríkjanna. Hann gat kallað fugl til að sitja á handlegg sínum og síðan sent hann í ákveðna átt, eða róað dýr einfaldlega með andlegri vísbendingu um ró. Gömlu þjóðsögurnar segja okkur að sjúk dýr komu til hans til að læknast og mætti nefna mörg sönn dæmi.

Sannarlega hafði fræðarinn rétt á að kalla dýrin smærri bræður sína. Það var ekkert tilgerðarlegt eða þvingað í þeim samskiptum. Það var heldur ekki samband húsbónda og þræls, heldur einfaldlega samvinna manns og dýrs.

155. Urusvati veit að dýr muna lengi eftir útgeislun húsbónda síns. Ef þetta er satt um venjulega manneskju, hversu miklu öflugri hljóta þá að vera uppsöfnuð útgeislun hins mikla fræðara! Af þessum sökum verða fræðarar stundum að eyðileggja persónulegar eigur sem hafa verið gegnsýrðar af segulmagnaðri áru þeirra, til að forðast möguleikann á því að mikil útgeislun þeirra falli í hendur fáfróðra. Svipuð voru örlög hlutanna sem höfðu umkringt Pílagríminn mikla. Ég segi „umkringd“ vegna þess að hann leit ekki á þær sem eigur sínar. Slík höfnun á eignum var honum eðlileg vegna þess að leið hans var leið viðleitninnar.

Sagan hefur skráð að hlutum sem tilheyrt hafa fræðurum hafi verið tvístrað á ýmsan hátt. Til dæmis voru málverk eftir S.G. skilin eftir í Frakklandi, Englandi, Þýskalandi og Hollandi og eignuð öðrum. Flestar myndir hans voru eyðilagðar af listamönnum, en nokkrar voru skildar eftir hjá Van Loo fjölskyldunni.

Maður ætti að íhuga vandlega og skilja staði segulmögnunar sem Pílagrímurinn mikli skildi eftir sig. Þeir eru ekki margir, en staðsetning þeirra er merkileg. Hann sagði lærisveinum sínum að bera slíka segulmögnun til fjarlægra landa. Það ber að muna hversu langt sendimenn hans gengu. Fólk þekkti þá ekki, en það skynjaði mikilvægi þessara sendimanna og hataði þá eins og það hatar allt óþekkt.

156. Urusvati veit að Pílagrímurinn mikli gat beint fólki til hins hæsta bara með því að líta á þau. Lærisveinar hans voru hissa þegar hann vildi vinna með þeim til að vinna fyrir þeirra daglega brauði. Þessi meginregla var notuð af öðrum bræðrum Okkar líka. Einn þeirra, þegar hann var keisari, elskaði að segja við upphaf máltíða: "Svo virðist sem ég hafi unnið mér inn brauðið mitt." Margir kappsamir lærisveinar hafa dottið úr lestinni vegna krafna um stöðuga vinnu. Þú þekkir eitt slíkt dæmi í norðlægu landi.

Fræðarinn var vanur að segja: „Vinir, þið hafið nægan tíma fyrir allt, en fyrir hið hæsta hafið þið aðeins örfáar stundir. Ef þið hefðuð tileinkað hinu hæsta þann tíma sem þið eyðið í að matast, þá hefðuð þið orðið kennarar núna!“ Þannig kenndi hann, í raun og veru, kostina við eflandi hugsun.

Hann var líka vanur að segja: „Þegar þú býður allt hjarta þitt, muntu finna sterka strenginn sem bindur þig við hið mikla hjarta.

Hann sagði líka: „Ekki trufla aðra þegar þú sérð þá á kafi í bæn. Þú getur sært hjörtu þeirra með hugsunarlausum afskiptum.“

Hann sagði líka: „Vertu hreinn. Skolaðu munninn eftir að hafa borðað. Taktu ekki vímugjafa, því í brjálæði vímunnar verður maðurinn lægri en skepna."

Og hann kenndi líka: „Neyttu ekki holds ef þú getur forðast það.

Þannig má finna í launhelgiritum margar vísbendingar um allar hliðar lífsins, og fyrir utan hin þegar þekktu helgirit má enn finna nýja sagnir. Ekki er hægt að rekja tímaröð þessara rita, því þau voru endurskrifuð og þýdd margsinnis.

Við skulum minnast þess að þessi skrif voru tekin af handahófi af þeim mörgu sem voru fyrir hendi. Þess vegna ættir þú að gefa sömu athygli öllu því sem hefur komið til Okkur frá fyrstu öldum. Þótt helgiritin hafi verið skrifaðar á árunum strax í kjölfar tengdra atburða, eru enn að finnast brot af fornu ritunum.

157. Urusvati hefur upplifað tilfinninguna um aðskilnað frá jörðinni. Þessa tilfinningu, og hið öfluga segulmagnaða aðdráttarafl jarðarinnar, geta aðeins þeir sem hafa upplifað hana skilið. Þeir kunna líka að meta hið ótrúlega öfluga aðdráttarafl sem fræðarinn hefur. Hann hefur áunnið sér réttinn til að aðskilja sig frá jörðinni, en kýs að gera það ekki, og upplifir þar með kvalafulla þreytu sem dýpt orða geta ekki lýst. Aðeins vitundarkraftur getur frelsað hann frá þessari yfirþyrmandi angist.

Við ættum líka að benda á deilanleika anda fræðarans. Þeir sem hafa þennan hæfileika vita að á þeim augnablikum sem andans deilist, upplifa þeir algjöra fjarvist. Venjulega eru þessar stundir stuttar, en þegar deilanleiki andans er þróaðri geta þær verið djúpstæðar. Maður getur ímyndað sér fjarverustundir eins og Pílagrímurinn mikli upplifði! Þetta er ekki meðvitundarleysi, heldur fjarvera að hluta þegar sálarorka verkar í mikilli fjarlægð. Það var á slíkum tímum sem ímynd Pílagrímsins mikla var opinberuð samtímis á ýmsum stöðum. Fólk sá hann nokkuð skýrt á vöku sinni og í draumum sínum.

Vegna þess að hjartað er mjög spennt við skiptingu andans, er hættulegt að trufla líkamann í þessum fjarvistum, sem jafngilda nánast flugi geðlíkamans. En fólk tekur lítið eftir þessum aðstæðum og getur stundum valdið miklum skaða.

158. Urusvati þekkir hinn helga sársauka. Læknar í dag myndu kalla það taugaverki, gigt, taugakrampa eða taugabólgu. Greiningarnar kunna að vera margar, en jafnvel jarðneskur læknir tekur eftir því að eitthvað óvenjulegt er að eiga sér stað. Þetta „eitthvað“ er púls sálarorku í óendanleikanum. Maður getur séð að þessir verkir birtast án augljósrar ástæðu og hverfa án nokkurra áhrifa. Þeir eru aldrei eins og ómögulegt er að sjá fyrir hvaða orkustöð verður fyrir áhrifum.

Þú getur ímyndað þér hversu oft miklir fræðarar verða fyrir þessari spennu! Það getur ekki verið annað, vegna þess að frumorkan púlsar á nýjum sviðum og þýtur inn í þau svið þar sem titringur samsvarar henni. En frjáls vilji fræðarans bindur þessa orku við jörðina til hagsbóta fyrir mannkynið.

Lækningin við slíkum sársauka getur aðeins verið með titringi. Við sendum frá okkur slíka strauma, sem stundum ná miklum styrk. Þessir sársauki kvaldi Pílagríminn mikla, og á slíkum stundum fór hann út í eyðimörkina, þar sem auðveldara er að taka á móti læknandi titringi. Fólk gerir ráð fyrir að fræðari sé laus við allar mannlegar takmarkanir og getur ekki ímyndað sér hvers vegna Pílagrímurinn mikli þurfti að þjást af slíkum sársauka.

Pílagrímurinn mikli leyndi ekki þörf sinni fyrir samvinnu fólks. Virkni sálarorkunnar er aðeins hægt að kalla fram ef maður gerir sér fulla grein fyrir nærveru hennar, og hún mun aðeins þjóna rétt þar sem hreinleiki hjartans er. Hann endurtók stöðugt að allt er gefið í samræmi við trú manns. Á þennan hátt kenndi hann mikilvægi frumorku.

Þannig má sjá birtast í lífi Pílagrímsins það mannlegasta og jafnframt vísindalegasta.

159. Urusvati getur lýst einkennum Pílagrímsins mikla fyrir listamönnum sem hafa hæfileika til að sýna mannleg andlit. Að minnsta kosti á almennan hátt ætti að gefa fólkinu þessa mynd. Hér munum við enn og aftur rifja upp einkenni hans. Ljósbrúnt hár hans var frekar sítt, með mjúkum bylgjum í áberandi aðskildum lokka og endum sem voru aðeins dekkri. Enni hans var breitt og bjart, hrukkulaust, með augabrúnir nokkuð dekkri en hárið, en ekki of áberandi. Augun hans voru blá og upphækkuð í hornum, með augnhárum sem gáfu þeim mikla dýpt. Kinnbein hans voru nokkuð há og nefið ekki stórt, en varlega ávalt; Munnur hans var ekki stór, heldur með frekar fullar varir, yfirvaraskeggið ekki þykkt og huldi ekki munninn. Skegg hans var aðskilið í miðjunni og ekki mikið. Þessir eiginleikar voru aðlaðandi, en það var andlitssvipurinn fremur en fegurðin sem gerði það ógleymanlegt.

Hver sem snýr sér til fræðarans ætti að fylla hjarta sitt kærleika þar sem lotning og virðing án kærleika getur ekki verið sönn. Sumir halda að ást muni draga úr lotningu, en það gefur til kynna misskilning á þeirri miklu tilfinningu. Hinn sanni lærisveinn er sá sem elskar fræðara sinn. Öll tilfinning byggist annaðhvort á ást eða ótta, en ótti á ekki við þar sem leitast er til ljóssins.

Urusvati minntist þess að einu sinni þjónaði lótus henni sem bátur! Eins veikburða og slíkur bátur var, óttaðist hún ekki, því ást hennar til fræðarans gaf henni óttaleysi. Aðeins áköf ást getur skapað slíkt óttaleysi og maður ætti að rækta það ákaft. Án verndar kærleikans getur maður ekki staðist árásir óskipulegra afla og jafnvel heilsa manns mun þjást.

Þegar maður hugsar um ímynd fræðarans er maður gagntekinn af kærleik. Samt ber að hafa í huga að þessi kærleikur á ekki einungis við hann. Lærisveinn kann að hafa sinn eigin fræðara, en hann mun finna kærleik til annarra fræðara einnig. Að vísu mun hinn valdi fræðari standa næst, en þegar maður þekkir frábær afrek annarra fræðara mun hann finna fyrir einlægum kærleika einnig til þeirra.

160. Urusvati veit að fræðarinn mikli dró stundum ýmis tákn í sandinn og þurrkaði þau síðan út. Lærisveinarnir voru undrandi og spurðu hann hvers vegna hann skrifaði ekki þessi tákn á eitthvað varanlegt. Sem svar dró hann línu í loftið og sagði: „Þetta eru varanlegt lögmál. Ekkert getur eytt þessari áletrun." Þannig útskýrði fræðarinn kraft hugsunarinnar.

Sumir sögðu að táknin í geimnum væru eins björt og elding. Fræðarinn afneitaði ekki möguleikanum á slíkri útgeislun og sagði: „Það mun koma sá tími að fólk lærir að senda tákn sín til fjarlægra staða. Lærisveinarnir gátu ekki skilið hvað hann átti við með þessum orðum.

Fræðarinn sagði líka: „Varist neikvæðar hugsanir. Þær munu snúast gegn ykkur og íþyngja eins og viðurstyggð líkþrá. En góðar hugsanir rísa upp og munu lyfta ykkur með þeim. Þið verðið að þekkja kraft hins græðandi ljóss og banvæna myrkurs sem maðurinn ber með sér.“

Hann sagði líka: „Við skiljumst hér, en við gætum hist aftur, klæddir ljósklæðum. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að versla flíkur í ríki ljóssins, því þær verða til að vild. Við megum ekki vera of tengd jörðinni þegar bestu vinir okkar bíða okkar með gleði.“

Hann sagði einnig: „Vér skulum ekki harma það sem glatast fljótt, því að okkur bíða óforgengileg klæði.

Hann sagði líka: „Þið eruð vön að óttast dauðann vegna þess að ykkur var ekki kennt að fara inn í betri heim.

Og hann sagði líka: "Þið verðið að skilja að góðir vinir munu halda áfram að vinna saman þar, alveg eins og hér."

Þannig hélt Pílagrímurinn mikli áfram að kenna um eilíf gildi og kraft hugsunarinnar, en aðeins fáir skildu kenningar hans. Þótt hann mælti stutt og einfalt má, voru mjög fáir þeir sem mundu eftir orðum hans.

Í dvalarstað Okkar metum við hæfileikann til að tala stuttlega. Slíkt táknmál koma skýrt fram í geimnum.

161. Urusvati veit að Pílagrímurinn mikli varð oft fyrir árásum myrkraaflanna. Þessi atvik voru nefnd í Ritningunni og maður gæti velt því fyrir sér hvernig atburðir sem enginn hafði orðið vitni að, hafi getað verið skráð. Það var fræðarinn sjálfur sem vildi undirbúa lærisveina sína fyrir þá baráttu og þess vegna, frekar en að leyna baráttunni sem átti sér stað, sagði hann frá eigin reynslu sinni til að sýna baráttuna.

Hann sagði: „Sérhver maður lendir stöðugt í þremur átökum. Þó hann geti ímyndað sér að hann sé algjörlega í friði tekur hann í raun þátt í þremur bardögum samtímis.

„Fyrsta baráttan er á milli hins frjálsa vilja og karma. Ekkert getur afsakað manninn frá því að taka þátt í baráttunni milli þessara tveggja meginreglna.

„Önnur baráttan á sér stað á milli hinna ósýnilegu aðila góðs og ills, sem umlykja manninn og hafa áhrif á hann á einn eða annan hátt. Það er erfitt að ímynda sér reiði myrkraaflanna þegar þau reyna að ná tökum á manninum.

„Þriðja orrustan hljómar í hinu óendanlega, í geimnum, á milli fíngerðu orkunnar og óreiðuskaflanna. Ímyndunarafl mannsins er of takmarkað til að sjá fyrir sér þessa bardaga í óendanleikanum. Mannleg greind skilur jarðneska árekstra, en er ófær um að horfa út í geiminn og ímynda sér kröftuga storma og krafta sem þar starfa. Aðeins þegar mannlegum tilfinningum er fullkomlega stjórnað getur maðurinn farið að hugsa um hina ósýnilegu heima. Maður ætti að þróa slíkar hugsanir, því þær einar munu gera manninn að meðvituðum samstarfsmanni hinna óendanlegu krafta.“

Mundu að þú ert alltaf að horfast í augu við hið óendanlega. Jafnvel háleitustu orð geta ekki tjáð hið háleitasta og aðeins á stuttum augnablikum getur hjarta þitt skráð upphafinn skilning. Lærðu hvernig á að muna þessar stundir, því þær eru lykillinn að framtíðinni.

Það er ómögulegt að skilja fyllingu hinna óteljandi heima, en fræðarinn leiðir í átt að þessari þekkingu. Lærðu að veita honum traust þitt og lotningu, því án þessarar brúar er engin leið.

162. Urusvati veit að Pílagrímurinn mikli umgekkst bæði ríka og fátæka. Ekki var öllum auðmönnum ráðlagt að gefa frá sér auð sinn, því þegar fræðarinn sá rétta afstöðu til jarðbundinna fjársjóða, gaf hann ekki til kynna að þörf væri á að afsala þeim. Við túlkun á viðhorfi fræðarans til jarðneskra auðæfa, er mikilvægt að vita að hann ráðlagði aðeins þeim að afsala sér eigur sínar, þegar þær drógu þá niður andlega. Hann hafnaði ekki jarðneskum auði, því hvernig getur maður afneitað því sem þegar er til? Hann kenndi að það væri nauðsynlegt að finna skynsamlegt viðhorf til alls þess sem er til í lífinu. Reyndar vildi hann ekki sjá almenna fátækt. Hann var vanur að leggja áherslu á að jafnvel fólk með litla burði, ætti að rækta hreina gleði, án öfundar á ríkum nágrönnum.

Fræðarinn deildi félagsskap bæði við ríkra og fátækra og var í hverju tilviki jafn góður og reiðubúinn að hjálpa. Reyndar eru það hinir ríku sem þurfa stundum mest á hjálp að halda.

Fræðarinn var reiðubúinn að hjálpa þegar hann sá óréttlætið og vissi hvernig á að hvetja ofsótta til hetjudáða. Samt vissi hann að allar blessanir hans yrðu fordæmdar. Hann kærði sig lítið um þakklæti í garð sjálfs sín, en í kenningum sínum gleymdi hann ekki að benda á hinn mikla kraft þakklætisins. Þannig skulum við votta því dásamlegu lífi virðingu, sem nærði svo mörg hjörtu.

163. Urusvati veit að bestu orð Pílagrímsins mikla og margar merkilegustu lækningar sem hann framkvæmdi eru enn óskráð. Hann talaði ekki aðeins til fólksins og lærisveina sinna, heldur talaði hann líka einslega við marga aðra. Hver gæti þá hafa skráð þessar merkilegu kenningar?

Fræðarinn talaði ekki um endurfæðingu við fólkið, því í landi hans hefði þessi sannleikur ekki verið skilinn. Jafnvel meðal lærisveinanna gátu mjög fáir skilið lögmálið um endurfæðingu að fullu. Sumir sértrúarsöfnuðir vissu um endurfæðingu, en hugmyndin vakti sterk viðbrögð og meirihlutinn efaðist, rétt eins og hann efast í dag.

Fræðarinn vildi frekar ræða þau efni sem ollu deilum við hvern einstakling fyrir sig, því aðeins þannig gat hann miðlað sannleikanum í samræmi við vitundarstig hlustandans. Mikið var um slíkar viðræður við einstaklinga sem snerust stundum um frumöflin. Á öðrum tímum komu hámenntaðir heimspekingar til hans. Sumir komu feimnir og aðeins á nóttunni en aðrir voru nógu djarfir til að koma á daginn. Hann sýndi þeim öllum mikla þolinmæði.

Maður getur ímyndað sér hversu fullur tími hans var í þessu stutta lífi hetjulegra afreka. Lærisveinar hans veltu oft fyrir sér hvenær hann hefði tíma til að sofa.

Miklar merkilegar lækningar voru framkvæmdar óséðar. Fólk sá aðeins það augljósa, eins og lækningu geðveiki, lömun, blindu og heyrnarleysi. Þessar lækningar vöktu hrifningu mannfjöldans vegna þess að þær voru augljósar. Reyndar, þegar mállausir tóku að tala og holdsveikir urðu hreinir, varð mannfjöldinn agndofa. En frá vísindalegu sjónarhorni var til enn merkilegri lækning: Kennarinn gat stöðvað innri eyðileggingarferli einungis með viljakrafti sínum. Jafnvel nánustu fylgjendur hans gátu ekki að fullu metið slíkar kröftugar birtingarmyndir, þegar dauðir vöðvar tóku að hreyfast og þjáðir vefir voru læknaðir að boðun hans.

Hugsunarkrafturinn sem kom fram í þessum málum var slíkur að venjulegur maður getur aðeins ímyndað sér það. Slík áhrif er ekki hægt að kalla sefjun, heldur sigur hugans yfir efni. Og nú, þegar fólk fer að rannsaka kraft hugsunarinnar, verður það að heiðra þessa merku sigra hugans. Ef tilfinning um samanburð er höfð að leiðarljósi, mun orkan alltaf fara um stystu rásirnar.

164. Urusvati veit hvaða kosmísku áhrif fylgdu flutningi Pílagrímsins mikla inn í fíngerða heiminn, en fyrir utan hinar þekktu ofsafengnu truflanir voru margar aðrar. Er það nokkur furða að jarðneskir atburðir falli saman við kosmíska?

Það er kominn tími til að fólk geri sér grein fyrir því að allir atburðir tengjast og að eining ríkir um allan alheiminn. Margar mismunandi birtingarmyndir fylgja hverju skrefi þróunarinnar, en á þessum merkilegu breytingatímum verður fólk sérstaklega þrjóskt og minnir á ferðalanga sem neita að stíga úr vagninum þegar ferð þeirra er lokið. Á sama hátt, þegar afrek Pílagrímsins mikla voru fullnuð, vildu menn ekki yfirgefa vagninn sinn og gátu ekki skynjað þýðingu atburðanna sem voru að gerast fyrir augum þeirra. Ótrúlegt óréttlæti var framið og enginn þorði að segja fólkinu hversu hræðilegur glæpurinn var.

Fræðarinn mikli hafði speki Periklesar og vissi svo sannarlega að hann ætti ekki að búast við réttlæti frá múgnum. Sá sem gaf svo mikið vissi að hlutfallslögmálið var brotið og varaði fólkið einfaldlega við að ofhlaða karma sitt.

Þannig vissi fræðarinn að atburðirnir voru óumflýjanlegir og byrjaði að kenna frá fíngerða heiminum. Þessar kenningar voru einnig óskráðar og urðu því enn eitt dæmið um óréttlæti. Í handritunum sem hafa komið til okkar rekst maður á stuttar vísbendingar um heimsóknir hans frá fíngerða heiminum, en jafnvel lærisveinunum tókst ekki að nota tækifærið til að opinbera öðrum að mestu opinberanir hans höfðu verið gefnar þegar hann var í fíngerða líkama sínum. En engu að síður hefðu þessar upplýsingar verið mikils virði fyrir allan heiminn. Fræðarinn krafðist þess ekki, því hann vissi að rýmið myndi gæta kenninga hans á mun betri hátt.

Á sama hátt og Við vörum nú við kosmískri spennu, gefa fáir því gaum. Við höfum bent á hina óvenjulegu atburði, en í sannsögulegu dæmi um skort á samanburði telja menn þá tilviljun.

165. Urusvati þekkir marga mismunandi eiginleika sem þarf til að fullkomna sjálfan sig. Stundum er erfitt að þekkja hinar ýmsu samsetningar þeirra eingöngu með vitsmunalegum rökum. Tökum dæmi af Jósúa, sem var leiðtogi óstýrilátrar þjóðar. Þar sem verkefni hans fól í sér stöðugar hættur, ekki aðeins fyrir hann heldur líka fyrir alla þjóðina, varð hann að einbeita vilja sínum að forystu og gat ekki leyft sér að trufla sig með grundvalla og fræðilegum markmiðum.

Ímyndaðu þér fjárhirði sem reynir að leiða hjörð sína í gegnum kjarrið — hversu margar greinar hann verður að brjóta og steina sem hann verður að ýta til hliðar til að ryðja brautinni! Verk smalamannsins er að koma hjörð sinni heim fyrir myrkur og hann er vel vopnaður til verndar gegn villidýrunum sem munu ógna honum á leiðinni. Slíkt er hlutverk leiðtogans sem verður að búa yfir hugrekki, ákveðni, þrá og sjálfsafneitun.

Nú skulum við skoða leiðir, vitsmunalega leiðtogans, sköpunarsama leiðtogans, sem heil öld æðstu afreka er kennd við. Við vísum til tíma Periklesar, tímabils sem tengist fáguðum birtingarmyndum. Vísindi og skapandi kraftur einkenna þetta tímabil. Perikles þekkti viðurkenningu og einnig högg örlaganna. Hann var umkringdur bestu vitsmunum síns tíma, heimspekingum sem skildu eftir fyrir mannkynið arfleifð heilar aldar hugsunar. Pílagrímurinn mikli var vinur Periklesar og var mjög sáttur við þetta ógleymanlega og ljómandi tímabil þekkingar og fegurðar. Athygli vekur hvernig hinir fínustu andar eru settir saman, svo að þeir hittist síðar á starfsvellinum. Menn ættu að fylgjast vel með uppsöfnun fjölbreyttra eiginleika sem leiða til skapandi starfa á heimsmælikvarða.

166. Urusvati veit hvernig sögulegar heimildir um merkilega leiðtoga skortir mikilvæg atriði. En eitthvað annað en mannlegt óréttlæti veldur slíkum upplýsingaskorti. Raunar forðuðust hinir miklu verkamenn sjálfir viðurkenningu almennings og vildu ekki láta skrifa ævisögur, eyðilögðu sjálfir stundum slíka annála. Grundvallaratriði kenninga þeirra voru skráð, en upplýsingar um líf þeirra voru ekki skráðar niður. Nú erum við líka að gefa hugmyndina um fræðsluna einfaldlega, án þess að dvelja við smáatriði sem gætu verið túlkuð á hversdagslegan hátt.

Snúum okkur nú að hinum mikla heimspekingi, Anaxagórasi. Grundvöllur kenninga hans virtist nýr í margar aldir. Jafnvel í dag getur kenning hans um óeyðanleika efnisins sem grundvallaþátt talist ný og hugmynd hans um hæstu vitsmuni gæti auðveldlega hafa verið hugsuð af nútíma vísindamönnum. Hann dró í sig fágun grískrar hugsunar, elskaði list og hjálpaði Periklesi oft með góð ráð. Hann var því innri stjórnandi margra ákvarðana. Hann bjó yfir mikilli reisn, varði vini sína og kaus fremur útlegð en vanvirðu.

Æviritarar þessa heimspekings sýndu ekki veraldlega hlið persónuleika hans. Ferill hans var frábær, en hann kærði sig ekki um að tímabundnir atburðir yrðu skráðir. Hann vissi innst inni að leið hans var afneitun. Margir miklir fræðarar sameinuðu kennsluna og framtíðarleiðir sínar og maður getur þannig skynjað keðju dýrmætra æviskeiða. Það ætti ekki að koma á óvart að ákveðnir hlekkir keðjunnar séu huldir, því þeir voru þröskuldar, undanfarar brýnni innri uppsöfnunar.

167. Urusvati veit að ofsóknir fylgja miklum Fræðara eins og jóreykur á eftir hestamanni. Maður ætti ekki aðeins að fylgjast með fylgjendum hans, heldur einnig ofsækjendum, þar á meðal má greina ákveðna einstaklinga sem, á mörgum æviskeiðum, reyndu þráfaldlega að grafa undan gæskunni sem fylgdu kenningum hans.

Maður gæti spurt hvers vegna þessar illu verur, meðan þær eru í fíngerða heiminum, læri ekki að myrku tilraunir þeirra eru árangurslausar. Staðreyndin er sú að verndarar þeirra eru vakandi! Mundu hina fornu goðsögn um djöflana sem leyndu ljósinu fyrir augum lærisveinanna með vængjum sínum, og veistu að í neðstu lögum geðsviða er slík hula ljóss sannarlega möguleg. Þetta gerist líka á jörðinni. Ofsækjendur kenninga ljóssins valda skaða meðvitað jafnt sem ómeðvitað og verða sífellt reiðari þar sem þeir, gegn vilja sínum, dragast að kenningunni með segulmætti.

Dæmi um þetta brjálæði má sjá á ýmsum tímum og þegar þessir ofsækjendur eru spurðir hvað valdi reiði þeirra og fái þá til að ráðast á kenninguna sem þeir hata svo þráfaldlega, þá er svarið nánast alltaf það sama - þeir geta ekki stöðvað árásir sínar. Slíkur skortur á sjálfsstjórn bendir til andsetu.

Venjulega er nafn Júdasar gefið svikara sem tákn um grófustu ótrúmennsku. Við skulum velta þessu fyrir okkur. Var Júdas ekki í fyrra lífi líka tengdur glæpum? Mundu að á stærstu tímum grískrar sögu voru tilfelli um eitruð svik. Við gætum nefnt nöfn, en það er ekki skynsamlegt að bera fram nöfn sem gefa aðeins til kynna illsku. Það er nóg að muna að sérhver frábær fræðsla hefur átt sína svikara, með djöfullega vængi á bakinu.

Urusvati sá nýlega myrkt yfirvald sem reyndi að nálgast hana, en eldheitar örvar okkar köstuðu honum frá og elding stöðvaði hönd hans.

168. Urusvati veit að sérhvert góðverk umbreytir einhverri óreiðuögn. Hver vinsamleg athöfn brennir í burtu óreiðu. Þessi lýsing á sér stoð í raunveruleikanum, hver hvatningu til góðvildar og ljóss kveikir bestu eldana, sem umbreytir glundroða í nýtt, hreinsað form.

Sumir halda að samstarf við Bræðralagið muni vekja reiði myrkursins, en það væri nær sanni að segja að hvert góðverk veki reiði hinna myrku. Hræddar sálir munu líklega vilja forðast góðverk í öryggisskyni og það eru margir slíkir sem af þessum sökum neita að sýna samúð. Þeir hafa slökkt elda sína og sameinast myrkrinu. En draugar myrkursins eru fráhrindandi, og hver sem óttast hið góða mun sökkva í glundroða.

Pílagrímurinn mikli kenndi kærleikann til góðvildar, en fræðsla hans varð mjög brengluð. Jafnvel einföldustu orð hans gátu ekki bjargað kenningunni, því fólk fann leiðir til að túlka sannleikann sér til gagns. Brottrekstur kaupmanna úr musterinu er táknræn viðvörun og musterið ber einnig að skilja sem mannlegan anda sem græðgihugsun verður að reka út úr. Enginn getur bannað skipti á daglegum nauðsynjum, en kaupmenn verða að sinna viðskiptum sínum af upplýstum hjörtum. Jafnvel grunnþættir lífsins geta verið andlegir.

Ég heyri hlátur og athlægi – ringulreið er í krampa og vonast til að þjónar þess haldi fast við það. Þannig vekur góð hugsun krampa hins illa. Verið ekki hrædd við jafnvel hræðilegustu grimmdarverk hins illa, því aðalverkefni okkar er að stækka forða góðvildar.

169. Urusvati veit að þeir sem brenna burt glundroða og þeir sem skapa hann eru saman á jörðinni. Hér safnast upp ringulreið og henni verður að eyða hér, ekki á hinum hærri sviðum. Það er fólk, ekki bara djöflar, sem er að reyna að auka glundroða og koma því öllu að algjöru myrkri. Urusvati hefur upplifað þetta algjöra myrkur, sem ekkert er hægt að bera saman við.

Það eru mistök að beita á kúlulaga jörð táknrænni vernd hringsins! Staðreyndin er sú að óreiðustraumar þyrlast inn til að eyðileggja jafnvægið, jafnóðum og ljósgeislarnir endurheimta það.

Myrkrið er fullt af eitruðum straumum sem reyna að stöðva áleitna hugsun. Þessa yfirlýsingu ætti að skilja raunsætt. Sannarlega er hægt að hindra hugsunarstrauminn og þá þarf að efla orku hans til að hann nái árangri. Hins vegar þreytir slík kraftanotkun hjarta manns.

Pílagrímurinn mikli var vanur að leggja áherslu á nauðsyn jafnvægis og maður gæti velt því fyrir sér hvort með þessu hafi hann átt við kosmískt jafnvægi. Hann staðfesti tilvist margra heima og beindi hugsunum að hinum hæsta. Slíkar staðfestingar voru nauðsynlegar vegna þess að fólk hugsaði um jörðina sem eina aðsetur mannkyns, og jafnvel í dag takmarka margir hugsun sína við jörðina eina.

Fræðarinn kallaði eftir skilningi á alheiminum. Hann staðfesti stöðugt tilvist vera fíngerða heimsins, sérstaklega í síðustu ræðu sinni.

170. Urusvati veit að rannsaka þarf vandlega gerð alheimsins og trúarbrögð. Maður ætti að meta orð Pílagrímsins mikla þegar hann sagði að hann væri kominn til að uppfylla fyrra lögmálið.

Í hugsunum sínum gat fræðarinn aðskilið þræði fordóma og fáfræði og hann valdi orð til að mæta meðvitund áheyrenda sinna. Þannig að þegar þeir þrýstu á hann með spurningum eins og hvort jörðin væri flöt, myndi hann svara því að fyrir sumum væri hún flöt og fyrir aðra væri svarið stillt í samræmi við vitundarstig þeirra. Í öllu svaraði Pílagrímurinn mikli alltaf eftir getu hlustandans og maður getur lært af einfaldleika svara hans. Bræðralagið leggur áherslu á mikilvægi þess að tala í samræmi við meðvitund hlustandans.

Margar kenningar hans voru djúpstæðar, en áheyrendur hans gátu aðeins samþykkt þær í samræmi við hugsunarstig þeirra. Verkefni fræðara er hið sama um allar aldir. Hann verður stöðugt að takast á við sömu spurningarnar án þess að særa tilfinningar þeirra sem spyrja, með því að segja þeim að spurningum þeirra hafi þegar verið svarað í aldanna rás. Ef maður gæti ímyndað sér andlegt stig þeirra sem spurðu hann, væri maður undrandi á óþrjótandi þolinmæði fræðarans!

Maður verður að lifa í gegnum mörg líf til að öðlast slíka þolinmæði og skilning á því hvernig á að hjálpa mannkyninu. Þannig vex kærleikurinn til mannkynsins, ekki bara til einstaklinga, heldur alls mannkyns. Það er ákaflega sárt að horfa upp á misnotkun á frjálsum vilja, mestu gjöfinni, en þrátt fyrir það verður maður enn ákveðnari í að hjálpa þeim sem skjátlast. Þannig geturðu ímyndað þér innra líf fræðarans.

Skildu gleði sjálfsafneitunar, sem býr í hjarta þess sem var sendur er til að bjarga mannkyninu. Við hikum ekki við að kalla þessa þjónustu hjálpræði mannkyns.

171. Urusvati veit að það er í krafti frjáls vilja sem fólk skapar tilveru sína í fíngerða heiminum. Þegar viljinn er hreinn og sterkur, þegar frumorkan er ekki veikt af grunneðlishvöt, þá verður það auðvelt að fara inn í fíngerða heiminn og hægt er að ná hærri sviðum. Sannarlega skapar maðurinn sín eigin örlög. Pílagrímurinn mikli sagði þetta líka og hann varaði við því að á leiðinni til hærri sviða, reyndu margar hendur að hindra uppgönguna, en viljinn og frumorkan bera leitandann upp á við.

Hægt er að rækta hreinan vilja í öllu umhverfi og sálarorku er hægt að varðveita við allar aðstæður. Sérhver einstaklingur, smár sem mikill, er gæddur frjálsum vilja. Allir hafa þessa æðstu gjöf og geta annað hvort þegið hana eða, eða í fáfræði sóa þeim fjársjóði. Allir hafa næga sálarorku fyrir óttalaust flug inn í fíngerða heiminn, en verða fyrst og fremst að sigrast á óttanum við hið óþekkta og læra eitthvað um fíngerða heiminn.

Jafnvel auðmjúkasti leitandi getur fundið upplýsingar um fíngerða heiminn. Maður þarf aðeins að skerpa á frjálsum vilja sínum í þá átt. Því miður standa flestir á móti þeirri hugmynd að raunverulegt heimili þeirra sé ekki á jörðinni, heldur einhvers staðar í geimnum.

Verkefni fræðara er að þróa hugsun nemenda í átt til fjarlægra sviða.

172. Urusvati skilur móttækileika barna. Sérstaklega í frumbernsku og upp að sjö ára aldri, geta endurminningar um fíngerða heiminn vaknað. Börn skynja að þau hafi upplifað einhvers konar óvenjulegt líf og það getur verið gagnlegt að biðja þau um að rifja upp hvers kyns minni sem þau kunna að hafa sem er óvenjulegs eðlis. Slík hvatning er kölluð „opnun minningarinnar“ og jafnvel þó að úr þeim dragi með árunum, mun alltaf finnast einhver neisti af fyrri fallegri tilveru.

Pílagrímurinn mikli elskaði að opna minningu barna. Hann færði þau nær sér, spurði þau og snerti þau með hendi sinni til að efla skýrleika minninga þeirra. Hann kom fram við börn sem jafningja, því þegar hin fjarlæga fortíð er rifjuð upp verður hugurinn þroskaðri. Börn munu aldrei gleyma þeim sem kemur fram við þau sem jafningja og munu varðveita slíkar minningar alla ævi. Kannski mundu börn Pílagríminn mikla betur en þeir sem hann læknaði.

Pílagrímurinn mikli elskaði börn og sá í þeim þróun mannkynsins. Það eru þau sem munu bera lífið áfram og hvert og eitt okkar verður að deila reynslu sinni með þeim. En það er samt viturlegt að vekja í þeim endurminningar um fíngerða heiminn. Djúpstæðasta andlega lífið mun myndast þar sem meðvitundin er opnuð fyrir skynjun fíngerða heimsins og hið ósýnilega verður aðgengilegt.

Efnisleg birting fíngerða líkama fræðarans varð til að styrkja trú lærisveinanna á veruleika hins ósýnilega heims. Þeir gátu ekki allir skynjað kjarna þess heims, en glugginn hafði að minnsta kosti verið opnaður að vissu marki.

173. Urusvati veit að flestir geta ekki náð því viðhorfi að vera með vakandi eftirvæntingu. Pílagrímurinn mikli kenndi hvernig á að bíða án þess að hugsa, svo að öll veran verði gegnsýrð eftirvæntingu. Með slíku viðhorfi verður eftirvæntingin ekki takmörkuð af hugsun. Maðurinn veit nógu vel að hvert hann leitar og hverju vitund hans tengist. Með þeirri vitund hélt Pílagrímurinn mikli viðvarandi vilja sínum.

Hann vissi hversu erfitt það er að gefa fólki nýja vitund beint í gegnum hjartað, án vitsmunalegs rökstuðnings. Vitsmunaleg röksemdafærsla getur látið hlutina virðast rökrétta, en hjartað veit að fólk gefur ekki auðveldlega upp úrelt hugtök sín.

Við höfum sagt að maður ætti að gefa í samræmi við meðvitund fólks. En hvað getur maður gert, ef í stað meðvitundar er aðeins hvikull, fáfróður hugur? Fræðara er þá skylt að endurtaka einfaldar hugmyndir stöðugt og í því liggur harmleikurinn fyrir fræðara á öllum öllum. Aðeins vitund sem hefur mildast í gegnum mörg líf, getur fetað örugglega þyrnum stráða vegi manna.

Verkefni fræðara er erfitt, og sérstaklega vegna þess að stigveldið er misskilið af flestum. Þetta var Pílagrímnum mikla ljóst og þess vegna flýtti hann sér að uppfylla afrek sitt. Einu afreki er náð á öld, öðru á örfáum árum. Á hvers konar vog er hægt að vega slíka þjónustu?

Verk sannleikans er ekki hægt að mæla á jarðneska kvarða, en mikil er gleðin yfir því að slíkar gjafir eigi sér stað. Þær kenna mannkyninu viðleitni og endurnýja þannig mannlega vitund á öllum tímum.

174. Urusvati veit hvernig ákveðin orðatiltæki eru rangtúlkuð. Alkunna er að orðin um að bjóða hina kinnina, hafa leitt til margra villna. Reyndar, ef þetta orðatiltæki er túlkað einfaldlega í líkamlegum skilningi, leiðir það af sér fáránleika, því þetta var andleg kennsla og átti að þýða, að þegar það er innra jafnvægi, þá geta verk hins illa ekki skaðað. Pílagrímurinn mikli mat mannlega reisn mikils og vissi af kenningum Indlands, að ekkert og enginn getur skaðað hinn yfirvegaða mannsanda.

Við metum mikils hæfileikann til að viðhalda jafnvægi, hvort sem það leiðir til árangurs eða ekki, og hæfileikann til að halda áfram að markmiðinu sem valið er, hvað sem erfiðleikunum líður. En fyrst verður maður að hafa markmið og gera sér grein fyrir því, að án þess verður engin framþróun. Af slíku viðhorfi er möguleiki á miklum árangri. Árangurs er krafist af öllum og hugmyndin um mikið afrek, ætti að hvetja, en ekki hræða.

Pílagrímurinn mikli kenndi einnig um eiginleika afreka og sagði: „Sá sem bætir gæði vinnu sinnar er þegar að vinna gott verk. Jafnvel þó hann vinni aðeins í eigin þágu, leggur hann sitt af mörkum til hagsbóta fyrir aðra. Vinna manns hefur sérstök áhrif á aðra og allir njóta góðs af því. Ekki aðeins á jörðinni eru stórvirki vel þegin; fíngerði heimurinn fylgist líka með fögru starfi af athygli.“

Hann sagði líka: „Þú metur komandi dag út frá sólarupprásinni og gætir þess hvort himininn sé skýjaður eða bjartur og hvort sólin sé skærrauð eða hulin. Í lífinu er líka hægt frá barnæsku að spá fyrir um þróun mannlegs eðlis. Maður getur fylgst með þeim möguleikum í litlu barni sem að lokum munu koma fram. Sá sem elskar vinnu í æsku mun vinna allt sitt líf.“

Athafnasamt eða athafnalítið eðli verður til í fyrri lífum manns. Margir læra ekki að gleðjast yfir vinnu meðan þeir dvelja á fíngerðu sviðunum. Ég fullyrði að gæði vinnunnar byggir upp framtíðarstigið. Það er rangt að halda að aðeins konungar stígi upp og bændur stígi niður, því að gæði vinnunnar er hægt að bæta við allar aðstæður.

Pílagrímurinn mikli kenndi líka kosti þekkingar fram yfir fáfræði. „Þekkingu er náð með mikilli vinnu. Fólk mun aldrei ná árangri nema það reyni að læra. Fáir eru þeir sem eru hæfir til að hjálpa öðrum að læra. Dýrð sé svo upplýstum kennurum! Hver þeirra kennir það sem þegar hefur verið skrifað, en hefur einnig í sér dropa eigin þekkingar. Slíkur dropi er gjöf frá óendanleikanum.“

175. Urusvati þekkir hvernig menningarstarf er lítillægt og misnotuð. Auðvitað veistu þetta líka, en Ég legg áherslu á það enn og aftur vegna þess að Pílagrímurinn mikli var stöðugt spurður hvers vegna bestu verkunum er hafnað af fólki.

Hann þjálfaði lærisveina sína í að umbera móðganir af hugrekki og sagði: „Myrkrið berst við ljósið í viðleitni til að varðveita sjálfsmynd sína. Við gætum óttast myrkrið, en myrkrið óttast okkur líka. Getur ljós nokkurn tíma sætt sig við myrkur? Getur maður þjónað myrkrinu og um leið verið ljósberi?“ Þannig sýndi kennarinn að maður getur ekki þjónað tveimur meginreglum.

Hann sáði í huga lærisveina sinna að hver og einn yrði að leggja sitt af mörkum til þjónustu ljóssins með persónulegum aga. Slík hugmynd um þjónustu er ekki hægt að skilja án þess að gera sér grein fyrir markmiðshæfni og slíkt hugtak verður aðeins að veruleika þegar andinn er meðvitaður um markmið sitt. Hugrekki og viska kemur frá sömu uppsprettu góðvildar.

Maðurinn ber innra með sér mat á verkum sínum. Það er ómögulegt að spá fyrir um hvernig og hvenær hin örlagaríka stund rennur upp, en innst inni í hjörtum okkar vitum við hvenær tíminn er kominn og aðeins viska og hugrekki geta hjálpað okkur að átta okkur á þeirri ábyrgð sem við tökum á okkur þegar við helgum líf okkar velferð mannkyns.

Á meðan hann lifði, hversu skynsamlega tók Pílagrímurinn mikli á sig afrekslíf!

176. Urusvati veit hversu ófyrirsjáanlega mósaík lífsins falla saman, en slíkur ófyrirsjáanleiki er aðeins frá jarðnesku sjónarhorni. Maðurinn getur haldið að hann tali eða skrifi með ákveðnum ásetningi, en honum er beint að allt öðru markmiði af hærri öflum. Hann gæti haldið að hann sé að ná árangri í æskilega átt, þegar hann er í raun að ná meiri árangri á einhvern óvæntan hátt. Hann gæti til dæmis skrifað tilteknum einstaklingi og komist svo að því að viðbrögðin koma úr óvæntri átt.

Oft getur ein athöfn skilað ýmsum árangri. Ef Við töluðum upp allar mögulegar afleiðingar gæti fólk orðið ruglað, meðvitund þeirra gæti þrengst og andleg orka þeirra veikst. Aðeins útvíkkuð vitund getur viðhaldið víðtæku sjónarhorni.

Pílagrímurinn mikli beitti sér fyrir því að víkka vitund og kenndi ítrekað: „Opnaðu augu þín og eyru.“ Vissulega bauð hann fólki ekki að opna augu sín og eyru eingöngu fyrir tilteknum kenningum sínum, heldur að aðeins útvíkkun vitundar leiðir til djúpstæðari skilnings. En því miður, maður getur ekki þrætt nál með reipi, og mikill boðskapur kemst ekki í gegnum lítið eyra.

Maður getur ímyndað sér hversu mikið af fræðslu hans náði aldrei til vitundar áheyrenda hans. Sumt var aðeins munað að hluta og röðin, upprunalega merkingin og fegurð orða hans glataðist. Á sama hátt urðu margir miklir fræðarar fyrir afbökun hugsana sinna.

Í skrám geimsins eru hugsanir hinna miklu fræðara varðveittar á betri hátt. Þær falla niður eins og hressandi dögg til þeirra sem geta tekið á móti þeim. Með því að vita þetta gefa fræðara ekki mikinn gaum að jarðneskri afbökun. Það sem er fyrirfram ákveðið mun koma og hið móttækilega hjarta mun taka við því.

Hugsanir manna vaxa líka í geimnum. Sérhver hetjuleg, óeigingjörn hugsun getur verið fræ til að skapa framtíðarheiminn. Hinir miklu kennarar eru kosmískir skaparar, en sérhver hugsuður getur líka orðið skapari hins góða.

Fólk vill ekki hugsa um fjarlæga heima, en slíkar hugsanir geta orðið frábær hreinsun vitundar. Á brautum geimsins verður engin öfund, hatur eða grófleiki.

Fræðarinn mikli beindi oft augnaráði lærisveina sinna að plánetunum og sagði: „Mörg eru heimilin og alls staðar er líf.“ Hann vildi að lærisveinar hans elskuðu óendanleikann.

Allar okkar systur og bræður eiga samskipti við hina fjarlægu heima. Þegar systir Urusvati snýr augum sínum að geislandi plánetunni rifjar hún upp flugið sitt og gleðst yfir fjarlægum heimum.

177. Urusvati veit að kraftaverk geta ekki alltaf átt sér stað. Auk kosmískra ástæðna og truflana frá neikvæðum öflum fíngerða heimsins getur vantrú manna verið hindrun. Það er erfitt að greina mörkin á milli vantrúar og efa; báðir ormarnir koma úr sama hreiðrinu.

Pílagrímurinn mikli kenndi oft að allt væri okkur gefið, allt eftir tiltrú okkar. Það hefur verið skráð að Kristur sjálfur gæti ekki framkvæmt ákveðin kraftaverk vegna vantrúar fólks. Í dag myndu vísindamenn sennilega skipta út orðatiltækinu „vantrú“ fyrir „ekki viðurkennt vald,“ en það skiptir ekki máli hvaða orðatiltæki er notað, merkingin er sú sama.

Þessi skortur á trú hefst með venjulegum daglegum atburðum. Þegar Við vörum við efa, erum við að tala um eðlisfræðilegt lögmál. Fólk getur hafnað sterkustu hjálp, vegna þess að frjáls vilji þeirra getur afneitað jafnvel hagstæðustu kringumstæðum. Til dæmis getur reiður maður ýtt til hliðar hendinni sem er rétti út til að koma í veg fyrir að hann detti. Fræðarinn varaði við skaðlegum áhrifum efasemda.

Við minnum ykkur á að þegar lærisveinarnir efuðust um mátt fræðarans fengu þeir strax áfall sem þeir túlkuðu ranglega sem örlög. Hvers konar örlög eru það þegar maðurinn sjálfur slítur hollustuböndin!

Fræðarinn mikli lagði opinskátt áherslu á grundvöll trúar sem mikilvæga orsök þróunar. Fræðarinn var fullur mikillar þekkingu og sendi hana með einföldum orðum.

178. Urusvati veit hvernig ofsækjendur geta stundum breyst í starfsfélaga. Við getum bent á dæmi þegar ofsækjendur urðu máttarstólpar þeirrar fræðslu sem þeir höfðu ofsótt. Fræðarinn metur ofsækjendur sína af nákvæmni. Þeir hafa stundum gífurlegan kraft og aðeins einn neisti nægir til að kveikja loga gæsku innra með þeim.

Ofbeldi kemur venjulega frá fáfræði. Pílagrímurinn mikli sagði: „Þegar hundar eru teknir af keðjunni ráðast þeir á þann fyrsta sem þeir sjá.

Fræðarinn benti margoft á að trúskipti andstæðinga gætu verið gagnleg. Hins vegar var viðhorf hans til svikara öðruvísi. Hann sagði: „Ef manni hefur verið falið að gæta fjársjóðs, og í stað þess að gæta hans, stelur hann honum, er honum sannarlega ekki hægt að treysta og hefur undirbúið erfið örlög fyrir sig. Stundum fer það fljótt fram úr honum, en á öðrum tímum seinkar það því fyrirhugaða, sem veldur sérstaklega erfiðu karma.“

Þannig vegur fræðarinn hversu svikin voru. Hann vissi hvenær svik voru að fara að gerast og huggaði þá lærisveina sem þegar grunuðu svikarann.

Ekki er hægt að stöðva grimmdina og straumurinn verður að hafa sinn gang. En erfitt er sannarlega karma svikarans, því að svik eru hræðilegastur allra jarðneskra glæpa.

179. Urusvati veit að sumir trúa því að allt eigi að farast með jörðinni og þeir fordæma þá sem yfirgefa jarðnesku sviðin og fara til hinna fjarlægu heima. Þeir kalla þá liðhlaupa, eða jafnvel hugleysingja, og geta ekki skilið að það eru fórnfúsar hetjur sem viðhalda kosmísku jafnvægi og sem, með því að kynna hina yfirjarðnesku leið, verða frelsarar mannkynsins.

Sá sem tekur að sér vinnu á fjarlægum slóðum má kalla „stríðandi ljósið“ og erfitt verkefni hans, leyst við erfiðar aðstæður, ætti að líta á sem hetjudáð.

Það var ekki fyrir tilviljun, heldur aðeins eftir djúpa og langa íhugun, sem hugsuðurinn mikli ákvað að koma með þekkingu sína frá nýju plánetunni. Þetta var ekki liðhlaup, heldur skilningur á því að hugmyndir stjórna heiminum og sú hugsun er takmarkalaus. Þannig kynnti hann hin nýju samskipti.

Raunveruleg afturköllun frá þessum heimi til hinna fjarlægu heima var í sjálfu sér ekki ný, en meðvituð afstaða hans til ábyrgðarinnar sem hann tók á sig, var það. Hinn fjarlægi heimur, jafnvel í hreinu líkamlegu ástandi, getur ekki verið auðveldur fyrir fræðarann og er sérstaklega erfiður vegna áframhaldandi samstarfs hans við Bræðralagið. Jarðbundnir geislar, í núverandi ástandi, geta ekki talist gagnlegir, vegna þess að plánetan er veik og jafnvægi hennar horfið. Í venjulegum jarðneskum samskiptum geta andrúmsloftsaðstæður verið mjög mismunandi, en hversu miklu fjölbreyttari og öflugri eru útstreymi fjarlægu heimanna!

Fræðarinn hafði lengi hugsað um hina fjarlægu heima og hann leyfði sér að selja sig í þrældóm svo að jarðnesk leið hans rætist eins fljótt og auðið var. Hann þekkti og fann innilega fyrir öllum jarðneskum erfiðleikum í fullum mæli og tókst að safna mikilli reynslu meðan hann lifði á jörðu. Margir merkilegir samtímamenn deildu félagsskap hans og hugmyndum.

180. Urusvati veit að fólk reynir að gera lítið úr og takmarka hæstu birtingarmyndir. Hugsuðurinn sagði: „Verndarskjöldur nær frá himni til jarðar, en í stað þess að rísa upp til hans, notar fólk hvert tæki til að ná honum niður á sitt stig. Fólk gerir sér ekki grein fyrir því að jafnvel gagnlegustu lækningar geta glatað krafti sínum í jarðneskri mýri.“

Einu sinni kom maður til hugsuðarins og sagði honum frá undarlegum draumi þar sem hann sá vin sem bjó langt í burtu endurraða öllu á heimili mannsins. Hugsuðurinn sagði: „Kannski hefur hann ráðist inn í húsið þitt andlega. Reyndar getur kraftur hugsunarinnar hreyft hluti.“

Og aftur var hugsuðurinn spurður hvers vegna ský myndast svo hratt yfir fjöllum. Hann svaraði: "Fyrir utan náttúruöflin geta hugsanir mannsins framkallað ýmis fyrirbæri." Þannig notaði hann hvert tækifæri til að kenna um kraft hugsunarinnar. Flestir gátu ekki skilið þetta vald, sem er frumburðarréttur allra, en auðgar samt þekking þeirra.

Þegar hugsuðurinn var spurður hvers vegna hann minntist ekki á kraft hugsunarinnar í skrifum sínum, svaraði hann: „Sá tími mun koma að mannkynið verður tilbúið að gera sér grein fyrir þessum sannleika, en hver ótímabær sending mun aðeins skapa hindranir. Fólk verður að klifra upp öll þrep stigans.“

181. Urusvati veit að flestir neita að viðurkenna kosti samvinnu. Hugsuðurinn beindi fólki á marga mismunandi vegu að þessu heilsusamlega hugtaki. Hann sagði: „Ekki mun maðurinn fullkomna sjálfan sig með dýrslegum hætti.“ Hann er félagsvera og hver hugsun, hvert orð, er félagsleg eign. Maðurinn getur ekki lifað án þess að umgangast annað fólk og hann verður að læra að skilja þessa göfugustu tilveru.

„Óhæfileg orð og illt tal menga andrúmsloftið og eru í trássi við guðdómlega þáttinn.“ Maður getur selt líkama sinn í þrældóm, en ekki sál sína.“ Kærleikur til mannkyns er afleiðing af þróun hjartans, sem næst með hugsun.

„Viskan getur ekki lifað af í hugsunarleysi.“

„Afleiðingar ósættis, eins og afleiðingar hræðilegs sjúkdóms, koma smám saman.“ Fífl halda að svo lengi sem þeir vakna á morgnana hafi þeir forðast allar afleiðingar. Það verður að dæma þá sem brjóta á samstarfinu sem skaðar almenna velferð og brottrekstur verður hlutskipti þeirra.“

Hann kenndi líka: „Ef ferðalangur bankaði að dyrum þínum að kveldi, myndirðu spyrja hann erindis og hleypa honum inn og veita honum skjól. Hvers vegna rekurðu þá hugsanirnar sem knýja á dyrnar þínar svona þráfaldlega í burtu? Gestur frá fjarlægu landi er velkominn, en vitur hugsun úr fjarlægum heimi er hrakinn. Þú leitar frétta á markaðnum en hunsar boðbera ljóssins.“

„Samborgarar, þið eruð ekki vitrir. Þið borgið gull fyrir rotinn mat, en eruð of slæg til að borga jafnvel koparpening fyrir næringu sálar þinnar. Sérhvert óréttlæti eyðileggur rýmið.

„Samborgarar, ef þið skammist ykkur ekki hvert fyrir annað, snúið ykkur þá frá stjörnubjörtum himni, sem horfir á ykkur með vanþóknun.“

Þannig voru fjarlægir heimar, hugsun og samvinna uppáhaldsefni fræðslu hans.

182. Urusvati veit hversu erfitt það er fyrir fólk að skynja með beinni þekkingu. Þetta gerist vegna þess að innri tilfinning þeirra hefur verið aðskilin frá hugsun þeirra. En hvernig getur tilfinning verið til án þess að hún sé undirstaða hugsunar? Fólk gerir ekki greinarmun á hugsunarferlinu og hugsuninni sjálfri, sem er snögg eins og elding. Þannig kenndi Hugsuðurinn.

Hann talaði um hlutverk hugsunar í allri sköpun, en þessari einföldu staðhæfingu var hafnað af fólki sem hafði ákveðið að samþykkja ekki kraft hugsunarinnar. Þannig þjáðist fræðarinn mjög fyrir hugsunina.

Hann kenndi: „Hugsun er eins og elding, og með því að vita ekki hvaðan hugsun á uppruna sinn, er ekki hægt að umbreyta henni í orð. Hugsun gæti snert meðvitund þína, en án þess að hugsunarferils, mun hún verða óbirt og liggja óspíruð, eins og fræ í ófrjóum jarðvegi. Slíkar þurrar hugsanir hryggja kennarann, sem sendir þessi hollustumerki um geiminn. Aldir kunna að líða þar til að fræ hugsunar geti vaxið rétt.

„Í skólum ætti fyrst og fremst að rannsaka listina að hugsa. Maður ætti að vera þjálfaður í listinni að hugsa stöðugt og læra að skammast sín fyrir hugsunarleysi. Maðurinn er ófær um að hugsa ekki, en það er mikill munur á samræmdri, agaðri hugsun og sveiflum óskipulegs hugsunarleysis, sem hefur ekki aðeins áhrif á manninn, heldur rýmið sjálft. Hvernig getur maðurinn vogað sér að menga allan geiminn?

„Sannlega mun sá tími koma að mannkynið mun loksins átta sig á krafti hugsunarinnar. Og þegar maðurinn byrjar að rannsaka hugsun sem sérstök vísindi gætum við þegar verið í fjarlægum heimum!“

Þannig kenndi hugsuðurinn, vitandi hversu langur tími mun líða þar til maðurinn kemst út úr ölduróti óreiðunnar.

183. Urusvati veit að á öllum öldum lögðu hinir miklu fræðarar áherslu á kraft hugsunarinnar, fjarlægu heimana, samfellu lífs og fíngerða heiminn. Á Indlandi, Egyptalandi, Kína, Persíu, í Palestínu og síðar í Evrópu voru næstum sömu orðin borin fram. Og nú verðum Við að ítreka sama sannleika. Staðfesting sömu staðreynda fyrir næstum fimm þúsund árum endaði með píslarvætti, alveg eins og nú.

Fólk gengur út frá því að það hafi náð framförum á svo margan hátt og bendir stolt á tæknileg afrek sín, en það hefur lítið þróast í skilningi sannleikans. Maður getur leitað um allan heim og mun uppgötva þá skammarlegu staðreynd að aðeins fáir leitast við að átta sig á sannleikanum, og þessir fáu munu aðeins hvísla feimnislega um fíngerða heiminn. Ef maður væri að kanna sögu mannlegrar uppljómunar myndi maður uppgötva að það sé kyrrstaða í vitundinni.

Vertu viss um að aðeins fáir hugleiða hina fjarlægu heima, eða hugsa um samfellu lífsins, og þær hugmyndir sem myndu hjálpa til við að bæta lífið eru vanræktar. Það er ekki hröðun tæknilegra uppgötvana sem leiðir til einbeitingar hugans, heldur löngun fólks sjálfs til að læra eitthvað nýtt. Samt, hvernig geta menn lært ef grundvallarsannindi hafa ekki fundið sér stað í meðvitund þeirra? Maður verður að gera meira en að hlusta kurteislega á þessi sannindi; maður verður að beita þeim sem veruleika.

Hugsuðurinn talaði einmitt um þetta fyrir meira en tvö þúsund árum. Hljómar þetta ekki sem mikil áminning fyrir mannkynið? Menn hafa fullkomnað sjálfa sig í aðferðum við að drepa hver annan, en hafa misst hæfileikann til að íhuga sannleikann. Og þessi orð voru endurtekin af Hugsuðunum fyrir meira en tvö þúsund árum!

Ef Hugsuðurinn var skelfingu lostinn yfir ofbeldi og grimmd manna á þeim tímum, hvað getur maður sagt um nútímann? Blóðugar fórnirnar til Moloch virðast miskunnsamar miðað við morðin sem nú eiga sér stað! Hversu oft verðum við að leggja áherslu á þessi orð! Hvernig getur fólk hugleitt sannleika þegar hugur þeirra er fullur af löngun í morð? Þetta sagði Hugsuðarinn líka og vegna þessara orða var hann ofsóttur og seldur í þrældóm.

Nú munt þú líka verða ofsóttur fyrir að segja slíkt. Berðu saman þessi orð sem eru aðskilin af þúsundum ára og hugsaðu líka um dauða vitundarinnar, fyrr og nú.

184. Urusvati veit hversu erfitt það er stundum að senda hugsun til fjarlægra staða. Sérstaklega er erfitt að komast í gegnum lögin á milli sviðanna, sem getur komið í veg fyrir að jafnvel skýrasta hugsun komist inn og valdið því að hún snertir aðeins yfirborðið. Í ákveðnum dæmum má sjá að hugsunin nær ekki að komast í gegnum persónulega áru viðtakandans. Þessar vísbendingar gleymast af rannsakendum sem gera ráð fyrir að hugsunarflutningur sé háður krafti sendandans og hunsa mikilvæga þáttinn í einstökum eiginleikum útgeislunar viðtakandans. Maður ætti ekki aðeins að íhuga stærð árunnar, heldur einnig að meta innihald hennar. Sama er að segja um púlsinn. Ekki aðeins ætti að fylgjast með hraðanum heldur einnig eiginleikum þess.

Maður getur ímyndað sér hversu mikil boðskapur hugsuðarins er. Fyrir utan venjulegar aðstæður eru þessi skilaboð í hættu vegna möguleika á þjófnaði og laða að fjölda aðila, sem skilja ekki merkingu skilaboðanna, en reyna að nærast á ögnum hugarorku.

Við höfum miklar áhyggjur af því að fjarlæg skilaboðin frá hugsuðinum ættu örugglega að komast á áfangastað. Mikillar fórnar er krafist af honum um að hugsun hans kljúfi öll svið. Hann starfar í þágu mannkynsins, vitandi að í fáfræði sinni mun vanþakklátt mannkyn mæta umhyggju hans með fyrirlitningu.

185. Urusvati veit að það eru margar aðferðir við lækningu. Á sínum tíma var lækning talin list, sem, til að ná sem bestum árangri krafðist innri samruna vilja líknandans og vilja sjúklings. Það var talið að vitsmunaleg greining ein og sér myndi ekki skila árangri.

Hugsuðurinn kenndi, að rétt eins og listamaðurinn sannfærir áhorfendur sína, þá hefur læknirinn áhrif á sjúklinginn sinn og þannig fá listamaðurinn og græðarinn kraft sinn frá sömu uppsprettu.

Það er líka sagt að maðurinn nái árangri þegar hann rennur saman við hærri vilja. Fólk gerir ráð fyrir að kraftur kennara þeirra sé takmarkaður, en hver kennari hefur sinn eigin kennara og hærri vilji er samhljómur margra vitunda. Þegar við segjum: „Við skulum byggja framtíðina,“ meinum Við að vilji þinn ætti að vera í samræmi við Okkar. Jafnvel háleitasta form getur fallið þegar jarðneskur vilji reynir að skemma grunninn!

„Bogavirki, rétt skapaður, getur verið fögur smíð. Það getur staðið í þúsund ár, en ef jafnvel einn steinn er tekinn í burtu mun hann hrynja.“ Þannig mælti Hugsuðurinn.

Kennarinn getur skapað betri framtíð, en lærisveinninn verður að skilja hana og sætta sig við hana. Það er ekki auðvelt að þekkja þróunina. Stundum kemur það í hljóði, en stundum getur upphrópun fjöldans verið merki um framfarir mannkyns. Hvers vegna ættir þú að takmarka þig við þögn eða áhrif hávaðasams mannfjölda? Vissulega takmarkar hærri viljinn sig ekki við þá þætti.

„Smiður musterisins er ekki bundinn við að nota aðeins eina tegund af steini og mun velja það besta úr allri náttúrunni. Aðeins þannig getur hann orðið sannur listamaður.“ Þannig mælti Hugsuður.

„Það er ekki hægt að ímynda sér glæsileika kosmosins og fólk er ófært um að þekkja bestu gjafirnar sem þeim eru sendar eða samræma vitund sína við æðri vilja. Hver manneskja ber ábyrgð á mikilli eyðileggingu í geimnum, en æðri vilji er alltaf tilbúinn til að hjálpa með því að spá fyrir um nýja framtíð.“ Þannig mælti Hugsuður.

186. Urusvati veit að mannkynið sjálft hefur skapað og aukið sjúkdóma sína. Hugsuðurinn sagði: „Náttúran krefst ekki þeirrar þjáningar sem fólk hefur leitt yfir sig. Jafnvel fæðing þarf ekki að vera sársaukafull og sumar konur sanna það. En ótal kynslóðir hafa leitt til lífsins alls kyns sjúkdóma og erfitt er að segja til um hversu margar kynslóðir þarf til að uppræta þá. Ekki aðeins læknar, heldur allir, ættu að reyna að útrýma sjúkdómum.

„Það er heimskulegt að ætla að guðirnir hafi sent sjúkdóma sem refsingu og það er rangt að halda að hærri öflin myndu þjaka saklausa jafnt sem seka með þjáningum. Fólk hefur sjálft framkallað smitsjúkdóma með ójafnvægi sínu og óhreinindum.“

Hugsuðurinn sagði einnig: „Stundum mun fólk sjá ýmsar myndir í steinum, laufum, trjám eða grasi. Steinar geta ekki sjálfir líkt eftir mannlegu andliti, þess vegna verður myndin að fæðast í meðvitund áhorfandans. En jafnvel hugmyndaflugið þarf að hafa einhvern grundvöll fyrir sköpun slíkra mynda. Í raun umlykja ósýnilegar verur fólk, sem það getur ekki séð, en finnur nærveru þess. Meðvitundin grípur hluta þessara hughrifa og leitast síðar við að gefa þeim form í náttúrunni. Margar slíkar myndir, fallegar og ógnvekjandi, umlykja manninn. Suma kallar það kannski drauga, og fyrir þeim eru þetta draugar! Sá tími mun koma að fólk byrjar að eiga almennilega samskipti við hærri sviðin.“

Þannig undirbjó Hugsandinn hlustendur sína fyrir skynjun fíngerða heimsins.

187. Urusvati veit hvers vegna það er óskynsamlegt að tala illa um þá sem hafa farið inn í fíngerða heiminn. Hugsuðurinn varaði fólk oft við þessu og sagði: „Ekki fordæma hinn látna, því hvað munt þú segja við þá þegar þú hittir þá aftur? Hver veit, þið gætuð þurft að lifa einu sinni enn sem nágrannar! Undirbúðu gleði fyrir sjálfan þig." Þessi skilningur er ekki upprunninn í Róm eða Grikklandi, heldur í miklu fjarlægari fornöld, þegar fólk skildi samtvinnun heimanna. Fíngerði heimurinn krefst varkárrar nálgunar, því allt þar er hugarlegt, og jarðnesk gagnrýni getur verið mjög truflandi fyrir fíngerðar verur, sem aftur á móti geta brugðist við með óvinsamlegum hugsunum. Hefndaraðgerðir eru ríkjandi, sérstaklega á neðra og miðsvæði fíngerða heimsins, og menn ættu ekki að ögra þeim.

Það er líka hugsanlegt að með gagnrýni geti maður seinkað þróun þessara vera, sem sumar hverjar geta verið á þeim tímapunkti að sigrast á ranglæti sínu. Það er grimmt að umkringja þá með titringi eins og gelti hunda. Að auki er fólk ófært um að dæma hvaða hvatir ráða gjörðum annarra og óréttlát gagnrýni mun aðeins íþyngja karma hans. Menn dæma í fáfræði og svipta sig því gleðinni og gleðimissir er mikil ógæfa. Hugsuðurinn tók hugmyndina um varfærni gagnvart fíngerða heiminum frá Anaxagoras, sem sagði, að með því að rífa fína áferð hans rífum við líka okkar eigin flík.

Spekingurinn stígur niður í myrkustu djúpin til að lyfta þeim upp sem þrá endurlausn. Hinn vitri mun ekki fordæma þá sem þjást, heldur leiða þá í átt að gullnum geislum dögunar. Í myrkrinu rannsakar spekingurinn ekki alla þá sem bíða hans, heldur hugsar hann aðeins um að hjálpa þurfandi. Hver veit, kannski mun hann leiða fyrrum óvini sína fram? Og þegar spekingurinn leiðir þá í ljósið mun hann brosa til að sjá hvern hann hefur leitt út. Þeir munu skammast sín og fordæmingin er þannig slokknuð.

Urusvati hefur leitt marga út úr myrkrinu, nálægum og fjarlægum, vinum og óvinum. Allt sem skiptir máli er hækkunin í átt að ljósinu. Myrkrið blindar, en sá sem að utan er kominn getur séð ljósglampann. Það verður betri dvalarstaður í ljósinu. Þessi orð ber að muna. Hugsuðurinn og Anaxagóras endurtóku þau oft og báðir voru þeir ofsóttir og fordæmdir.

Innra líf bræðralagsins verður skilið þegar við getum skilið smáatriðin í lífi hetjanna.

188. Urusvati veit að lengd mannlegs lífs fer að miklu leyti eftir lífsviljanum. Hugsuðurinn sagði: "Lífið endist svo lengi sem maðurinn sjálfur vill vera á jörðinni." Jafnvel banvæna sjúkdóma er hægt að lækna með mannlegum vilja. Allir, hvort sem þeir eru sendiboðar hærri sviða, eða útskúfaðir, verða að varðveita gjöf lífsins. Við megum ekki viljandi klippa á silfurstrenginn sem bindur okkur meistaranum.

Þeir sem halda að eftir sjálfsmorð muni þeir snúa aftur til þess staðar sem þeir komu frá, hafa sannarlega rangt fyrir sér, því hringiða geimsins mun flytja þá langt í burtu, eins og laufblað að hausti. Löngunin til að lifa verður að koma fram meðvitað. Maðurinn verður að gera sér grein fyrir hvert markmið hans var og muna að hann hefur góðverk að framkvæma og verkefni að uppfylla hér á jörðu.

Hugsuðurinn sagði einnig: „Lærðu að virða innblásturinn, sem hjálpa þér að verða hetju. Andagiftir leiða þig til afreka, þær fylgja þér í bardaga og í erfiðleikum og heilsa þér með sigurkransi. Andagiftir breyta þjáningum þínum í fegurð. Þær munu finna þig í görðunum sem eru prýddir þekkingartrjánum. Innblásturinn munu ekki yfirgefa þá sem virðir hann. Lærið hvernig á að þjóna honum, hliðverði þess fagra.

Þannig beindi Hugsandinn vitund mannsins að sannleikanum.

189. Urusvati hefur haft mikið tækifæri til að fylgjast með mikilli hræsni. Hugsuðurinn sagði einu sinni: „Samborgarar, segðu mér hvar þú keyptir svona brosandi grímur. Þú verður að segja grínistunum það, svo þeir geti líka öðlast þær. Haldið ekki, borgarar, að þið hafið blekkt nokkurn mann með góðvildargrímum ykkar og enginn þori að líta hvað á bak við þær. Eru borgarfeðurnir ekki líka sekir um hræsni? Maður gæti næstum haldið að hrukkurnar í augabrúnum þeirra séu af umhyggju fyrir velferð fólksins, eða að þeir klæðist grímum eingöngu til skemmtunar fyrir fjöldann! En farðu varlega, það gæti verið einhver nógu áræðinn til að afhjúpa bros þitt og opinbera hræsni þína.“ Þannig varaði Hugsuðurinn borgarana við og þeir hötuðu hann fyrir það.

Sömuleiðis sagði hann: „Er það verðugt að byggja hina tignarlegu Akrópólis, einfaldlega sem minnismerki um veikleika þinn?“ Fræðarinn sá fyrir hnignunina sem var brátt að hefjast og að lygar og hræsni myndu flýta fyrir endalokunum.

Hugsuðurinn sagði einnig við lærisveina sína: „Svik fæðast í húsi hræsninnar og sagan segir svik vera versta glæpinn. Ég þarf ekki að segja ykkur þetta, þar sem þið vitið nóg um meintan göfugleika fólks og líka um glæpamennsku þess. Ég tala til geimsins. Leyfum geimnum að hrópa, láttu hann gráta hátt, láttu hann segja mönnum frá endalokum þeirra. Jafnvel þegar ég er í fjarlægum heimi, mun ég reyna að bjarga mannkyninu.

„Glæpamennska verður að skilja sem hræðilegasta smit. Fólk talar um þjáningar af völdum sjúkdóma, en vill ekki viðurkenna að glæpastarfsemi eyðileggur ekki bara líkamann heldur líka sálina. Ekki missa tíma. Varið vini við hættunni á svikum.“

190. Urusvati veit hversu lítið fólk skilur tengsl um orsök og afleiðingu. Hugsuðurinn sagði frá goðsögninni um mann sem var fullur löngunar að leita að gulli. „Hann taldi að ákveðinn staður við rætur mikils bjargs virtist hentugur til að hefja leit sína og fór að grafa spenntur. Vegfarandi sá að hætta var á að bjargið gæti fallið niður og varaði manninn við. En gullglampinn var svo aðlaðandi að hann hélt áfram að grafa þar til bjargið fór að falla. Vegfarandinn, sem sá hættuna, hrópaði aðvörun í tíma til að bjarga manninum frá öruggum dauða. Maðurinn var þó ekki þakklátur og kenndi örlögunum um að hafa valdið því að hann missti gullið.

„Fólk er ekki meðvitað um hættuna sem það skapar sjálfu sér. Vegfarandinn fékk ekki aðeins þakklæti heldur var hann jafnvel fordæmdur fyrir að hafa ekki hrópað viðvörun fyrr! Gull spilar venjulega mikilvægan þátt í slíkum sögum og í raunveruleikanum er það líka uppspretta mikilla blindu.“ Þannig talaði hugsuðurinn og lærisveinarnir spurðu hann: "Mun fólk nokkurn tíma læra að greina orsakir?" Hugsuðurinn minnti þá á að þúsund jarðnesk ár eru aðeins augnablik á kosmíska mælikvarðanum.

Við munum alltaf eftir því hvernig Hugsandinn gat sameinað vitund mannkyns við vitund alheimsins.

Hugsuðurinn sagði: „Þrír menn unnu stórvirki: sá fyrsti með fullri þekkingu og vitund, sá annar í ölvun og sá þriðji óvart í fáfræði. Hver var verðugur kransins?

Lærisveinarnir bentu á fyrsta manninn. Hugsuðurinn sagði: „Sannlega, þú hefur rétt fyrir þér. Sá fyrsti ætti að vera viðurkenndur, því með fullri vitund og þekkingu, innan um hættur, sýndi hann sannarlega hugrekki. Athafnir sem gerðar eru í ölvun eru óverðugar; né ættum við að samþykkja sem hetjulegt góðverk af tilviljun eða gott verk sem framkvæmt er í fáfræði. Slík „afrek“ geta jafnvel verið gerð af villtum dýrum.

„Ó, þekking, hvenær ætlar þú að koma til mannkyns?“ Þú getur heyrt mannfjöldann öskra, hvort sem er í brúðkaupi eða ógæfu. Í báðum tilfellum sýnir mannfjöldinn fáfræði sína. Sannarlega ættu að vera fleiri skólar þar sem fólki er kenndur tilgangur lífsins, og þar sem kennarar starfa ekki sem hræsnarar sannleikans, heldur sem fulltrúar sannleikans. Fólk verður að læra að vernda kennara sína þegar þeir eru misnotaðir af harðstjórn. Kennarar ættu að afsala sér auðæfum og samborgarar þeirra ættu að veita þeim umhverfi sem stuðlar að þekkingu. Ekki gera ráð fyrir að mikilvægi kennarans verði fljótt skilið. Þúsundir ára munu líða og enn mun kennarinn ekki vera fullkomlega samþykktur.

Þannig talaði hugsuðurinn, og þessi orð eru sönn á öllum tímum.

191. Urusvati veit að fyrir miklar hörmungar geta verið annaðhvort dimmar og ógnandi birtingarmyndir, eða ljósar og fallegar, þegar náttúran verður sérstaklega aðlaðandi, eins og hún brosi sínu síðasta. Hugsuðurinn kallaði þetta „töfra náttúrunnar“. Hann sagði: „Allt er svo fagurt á slíkri stundu, eins og huggun fyrir þjáð hjörtu okkar. Myrkur og stormar geta verið merki um að komu smávægilegrar ógæfu, en fyrir miklar hörmungar klæðist náttúran sínum bestu klæðum eins og til að hugga. Þessi töfrar náttúrunnar er eins og smyrsl sem sefar ferðalanginn.

„Ég óttast ekki þrumuveðrið, en ég skelf fyrir fegurð kosmosins. Getur verið að ég sé að sjá það í síðasta sinn? Verðum við að sigrast á skjálfta okkar fyrir mikilfengleika alheimsins? En hvernig eigum við annars að skynja hina fjarlægu heima? Á næturnar svífum við út í geiminn og þegar við komum til baka virðist jarðneska slíðrið okkar vera of þétt fyrir okkur. Látum við ekki blekkjast af töfrum jarðneskrar náttúru; það er aðeins dropi í hafi óendanleikans. Þegar við erum kúguð ættum við að hugsa um óendanleikann.“

Hugsuðurinn sagði um lífskeðjuna: „Hún er ekki aðeins til, heldur er hún margvíslegs eðlis. Það eru fullkomnar jarðvistir, en einnig aðeins að hluta. Sterkur andi getur gefið hluta af orku sinni. Þetta má kalla geislasendingu eða orkusendingu. Það veitir aukningu á krafti sem víkkar vitundina. Það dregur ekki niður, heldur dýpkar beina þekkingu. Hjá sumum er hægt að skynja eðlilegan ákafa. Þeir gætu sjálfir hafa safnað því í fyrra lífi sínu, en það hefði líka getað verið sent til þeirra sem náð."

Ef við ræðum hina fjarlægu heima verðum við að samþykkja hugmyndina um fjarlæg áhrif. Sterkur andi, á meðan hann er í fjarlægum heimum, getur fyllst löngun til að auka starfið til góðs og mun þannig senda ögn af orku sinni til innblásturs og áræðis þeirra sem eru á jörðinni. Áður fyrr báðu mæður þess að tvöfaldur styrkur yrði veittur hinni nýfæddu sál. Sumar þjóðsögur segja frá tilvist ákveðinna þjóða sem vissu um kraft andans og um fíngerða heiminn.

192. Urusvati þekkir þjóðsögurnar sem segja okkur frá uppfyllingu langana. Hugsuðurinn sagði: „Fólk gerir sjaldan greinarmun á löngun sem kemur innan frá og áhrifum utan frá. Það gerir ráð fyrir að allar langanir þeirra komi innan frá og gleðjast þegar þær eru uppfylltar, gera sér ekki grein fyrir því að stundum eru þetta ekki þeirra eigin langanir, heldur er tekið á móti þeim að utan. Slíkar langanir eru þegar uppfylltar í geimnum og fólk hefur aðeins brugðist við atburði sem ætlað er að gerast. Það gætu hafa haldið að löngun þeirra hefði komið innan frá, þegar hún í raun og veru hafði endurómað utan frá.“

Sagan segir okkur frá trénu sem uppfyllir allar óskir, en skýringin á því liggur í lækningamætti laufanna, sem, þegar þau eru notuð sem lyf, gera fólk móttækilegra fyrir hærri boðunum.

Þegar lærisveinarnir spurðu: „Hvað á maður að gera ef fólk hlustar ekki á gagnleg ráð? Hugsuðurinn svaraði: „Verið þögulir þá. Það er engin hindrun meiri en afneitun. Þegar einhver veikist vegna afneitunar, látið hann í friði, því annars getur það vakið hann til reiði. Þú getur ekki þvingað fram hugarfarsbreytingu, sem: að gefnu tíma, getur endurnýjað hinn þjáða hluta og læknað þann sem er sýktur af afneitun.

Lærisveinarnir spurðu: "Hvað eigum við að gera ef enginn tekur við sannleikanum?" Hugsuðurinn svaraði: „Munið að þið eruð með fætur! Kúgarar þínir munu hrekja þig burt og þú munt þá hafa tækifæri til að segja orð sannleikans annars staðar. Þökk sé ofsækjendunum að sannleikurinn mun verða boðaður víðar.“

193. Urusvati veit hversu grátlegur ruslahaugur sárra tilfinninga er. Hugsuðurinn sagði við lærisveina sína: „Verið ekki móðgaðir við illgjarna og fáfróða sem standa gegn réttlátum vegi ykkar. Sársaukafullar tilfinningar munu aðeins veikja krafta þína, lama viljann og brjóta lífið. Þegar þú stendur gegn hinu illa skaltu ekki gera það af móðgun, heldur til að endurreisa hið góða. Þú getur ekki skaðast af skoðunum fáfróðra. Afsakið fáfræði þeirra, en ekki viðurkenna þá sem félaga í leit eða dóma þeirra sem sannleika. Það er skynsamlegt að svara þeim alls ekki. Skólar ættu að kenna að sá sem fetar rétta braut sé bólusettur gegn slíkum brotum og að aðeins hinir óvitru eitra sig með því að leyfa að særa tilfinningar þeirra.“

Lærisveinarnir spurðu líka: "Hvar verðum við eftir dauðann?" Hugsuðurinn svaraði: „Ekki eins fjarri og þú heldur! Hvert ykkar á lífsleiðinni heimsækir framtíðina í draumum og hefur ferðast til örlagasviðanna oftar en einu sinni. Allir hafa aðgang að hærri sviðum og ættu því að læra að hafa skynsamlegt viðhorf til allra atburða á daginn og á nóttunni.

„Það er oft sagt að svefn sé svipaður dauða, en fólk gleymir hvað þetta í raun þýðir. Svefn líkist ekki raunverulegum líkamlegum dauða, en í fíngerða heiminum er hann svipaður þeirri reynslu. Sumt fólk, þegar það fer inn í hærri sviðin, dregur með sér syfjaða, dofna tilveru og tekst því ekki að læra eða bæta sig. En þeir með þróaðan huga geta strax hafið næstu uppgöngu sína.“

Þessi orð Hugsuðarins eru svipuð þeim sem Ég hef mælt. Þegar þú rannsakar innra líf bræðralagsins ættirðu að bera saman kenningar sem gefnar eru á mismunandi tímum.

194. Urusvati hefur tekið eftir því að þrátt fyrir augljósa nægjusemi eiga íbúar Kamchatka, Lapplands og fjarlægra norðlægra lífsskilyrða skilið betri lífskjara.

Hugsuðurinn sagði við lærisveina sína: „Við gerum mistök þegar við flokkum þjóðir eftir því sem okkur sýnist vera mikilvægustu eiginleikar þeirra. Við rannsökum ekki nægilega trú þeirra og siði, vitum lítið um uppruna þeirra og dæmum þær einfaldlega eftir framandi ytra útliti og þekkingu okkar á nokkrum staðbundnum smáatriðum. Ánægð með fáfræði okkar erum við ekkert betri en fífl!

„Leiðtogar og dómarar þjóðarinnar ættu að ferðast um heiminn og læra að skilja fólk áður en þeir taka að sér skyldur gagnvart samborgurum sínum. Þeir verða að leita að upptökum hamingju sinnar og munu komast að því að fáir lifa í ánægju.

„Dómarar ættu að vera fróðir og heiðarlegir. Maður getur metið vitundarstig heillar þjóðar af dómurum hennar. Þar sem dómarar láta múta sér og hugsunin er lokuð er þjóðarsálin til sölu. Það væri auðveldara að finna afbrotamenn sem eru heiðarlegri en tvöfaldir dómarar!

„Láttu ekki blekkjast af björtu eldunum sem loga í felustöðum spillingarinnar. Sá sem hefur augu sjái hvað þar fer fram. Leitaðu að gleði og ekki vera hissa ef þú finnur hana í kofa.

„Heyrið! Fólk mun falla í slík hyldýpi glæpa að það munu krossfesta þann besta.“

195. Urusvati veit að óvirkt, sofandi jarðlíf, er hindrun í vegi framfara í fíngerða heiminum. Taugastöðvarnar, sem hafa frumgerð sína í fíngerða líkamanum, geta ekki orðið virkar í lífi án athafna.

Hugsuðurinn sagði: „Hvernig getum við treyst herforingja sem var aldrei í bardaga? Hvernig getum við vitað um gæði skips sem hefur aldrei farið á sjó? Sannarlega er áreynsla blessuð, því með mikilli vinnu búum við okkur undir hærri skilning. Maður getur ekki hreyft sig án þess að koma vöðvunum í gang. Maður getur ekki risið upp í anda án þess að skerpa meðvitundina. Aðeins í athöfnum upplifum við þann eldmóð sem leiðir okkur til okkar hæstu leiðsögumanna.

„Þegar við hittum þá verðum við að finna styrk til að spyrja hvort við höfum staðið við verkefni okkar. Þeir munu segja okkur hvar við höfum náð árangri og hvar okkur hefur mistekist. Í okkar jarðneska lífi gefum við sjaldan gaum að boðum leiðsögumanna okkar, en þrumandi skipanir og viðvaranir Þeirra hljóma í vitund okkar aðeins sem smá titringur. Við skjálfum aðeins þegar við skynjum hina miklu nærveru og orð Þeirra ná ekki oft til okkar.“

Hugsuðurinn sagði einnig: „Í mannlegri lífveru liggja taktur og samhljómur í dvala, en við verðum að vekja þá, því þessi tónlist verður að verða mikilvægur hluti af menntun okkar. Án takts og samhljóms förum við ekki inn í hæstu ríkin. Alheimurinn er til af hreyfingu, sem er stjórnað af hrynjandi, en fólk gerir sér ekki grein fyrir því að hjartsláttur er tákn um hreyfingu alheimsins.“ Þannig beindi Hugsuðurinn athyglinni að hæstu sviðunum.

196. Urusvati veit hvernig fólk fyllt hatri mun reyna að eyða jafnvel hinu óeyðanlega! Það var tími í Aþenu þegar boðberar lýstu því yfir opinberlega, að þeir borgarar sem þyrðu jafnvel að nefna nöfn Periklesar, Anaxagórasar, Aspasíu, Phidias og vina þeirra, yrðu reknir í útlegð.

Múgurinn, hvattur til af embættismönnum, krafðist þess að stytta af Seifi yrði eyðilögð, vegna þess að hún minnti þá á hinn fyrirlitna Phidias. Ef nöfn þessara sakborninga fundust í handritum flýttu hinir óttaslegnu borgarar að brenna ritin, burtséð frá gildi þeirra. Þeir sem voru sérstaklega varkárir forðuðust jafnvel að fara framhjá húsum þessara ákærðu borgara. Smjaðrar flýttu sér að skrifa háðsrit sem lýstu með móðgandi orðum falli Periklesar. Anaxagoras var sýndur sem vælandi asni á torginu. Og aðstæðurnar í kringum dauða Sókratesar þekkja allir.

Hugsuðurinn sagði: „Við vitum nöfn Periklesar, Anaxagórasar, Aspasíu og Phidias, en ekki nöfn dómaranna sem fordæmdu þá. Við minnumst höggmynda eftir Phidias, en ekki þeirra sem vildu eyða þeim. Við gætum vonað að þessi skömm mannkyns hafi verið sú síðasta í sögunni, en ég óttast að slík von sé aðeins draumur.

„Maðurinn er félagslegt dýr, en mannlegar hjarðir kunna ekki að horfa til friðar og gera sér ekki grein fyrir því að horn á aðeins að nota til varnar. Jafnvel naut getur verið dæmi um velsæmi. Megi hugsun beina mannkyninu í átt að hinu óendanlega.

Hugsuðurinn sagði einnig: „Leiðbeinendur hafa áhyggjur af varðveislu fegurðar. Phidias var varpað í fangelsi, og með þeirri athöfn var mannkyninu varpað í myrkur. Fólk er undrandi á grimmum örlögum sínum, en hefur það ekki unnið til þess sjálft?

„Ó, stjórnvöld, ó, ofsækjendur sannleikans, nöfn yðar hafa fjarað út, en byrði yðar er orðin þung. Aðeins nýlega hittum við líkþráan sem man ekki hvaða sannleika hann hafði smánað.“ Þannig varaði Hugsuðurinn við, og hvert og eitt Okkar, á ákveðnum tímum og á Okkar eigin hátt, hefur sagt sömu orðin.

Fólki líkar ekki við að hlusta á þessar hugmyndir sem það hefur fyrirfram ákveðið að samþykkja ekki. Á hinni grimmu stundu bræðradeilna ákalla menn nafn Krists og falsvottar sverja eið um helgustu hluti. Slíkt virðingarleysi er þeim mun meira guðlast. Menn er ekki hræddir við að sverja falskan eið eða gera grín að trú annarra. Þeir finna alltaf tíma fyrir gagnrýni og róg, en þeir hafa engan tíma fyrir athafna. Þeir kunna stundum að hugsa um samfélagið en vita ekki hvernig á að vinna saman, jafnvel í daglegu lífi sínu.

Sannarlega, Urusvati veit að það er ómögulegt að eyða hinu óeyðanlega.

197. Urusvati veit hversu mörg ósvikin góðverk hafa aldrei verið skráð. Ef maður kastar sér í sjóinn til að bjarga einhverjum þá telst það mikil fórn en það væri alveg eins mikið afrek að koma í veg fyrir slysið. Mikið er unnið til að koma í veg fyrir ógæfu. Margir eldar eru slökktir, en komið er í veg fyrir jafn marga. Enginn veit hvernig hjálp kemur, því stundum er ekki einu sinni grunur um hættuna. Maðurinn er yfirleitt ekki meðvitaður um þá sem hann á líf sitt að þakka.

Hugsuðurinn sagði: „Hvernig vitum við hvort á þessari stundu gæti þurft að bjarga okkur frá einhverju? Vitum við virkilega hvað ógnar okkur? Við erum sátt við að halda að dagur okkar hafi verið friðsæll, en sáum ekki eitruð nöðruna, sem leyndist að baki okkar og hafði verið hrakinn burt af ósýnilegum frelsara! Við skulum tjá þakklæti okkar til ósýnilegra frelsara.

„Enginn ætti að halda að rýmið í kringum okkur sé tómt. Þvert á móti getum við fundið með hjarta okkar nærveru ósýnilegra vera. Sumir kalla til okkar, aðrir faðma okkur með örlitlum andardrætti, enn aðrir fylla okkur gleði eða sorg eða hvísla að okkur ráðum. Fífl mun segja að hann einn sé ábyrgur fyrir öllum þessum tilfinningum. Fáfræði fyllir mann sjálfslæti. Það væri skynsamlegra af honum að segja að hann beitti öllu sínu, en væri þakklátur fyrir ósýnilega hjálp.

„Þá mun koma, að maður sem talar í Aþenu mun strax fá svar frá Korintu. Maðurinn mun ná tökum á rýminu og átta sig á því að það er fyllt.“

198. Urusvati veit að sá sem leggur sig fram, verður að horfast í augu við storminn. En fólk er hrætt og vill helst vera í skjóli. Það eru fáir sem myndu standa í rigningu eða hagli, jafnvel til þess að flýta fyrir framförum sínum!

Hugsuðurinn sagði: „Við verðum að fara varlega með persónuleiklaust fólk, sem stundum ætti einfaldlega að vera látið eitt með sínum mistökum. Flestir skilja ekki hvað jarðneskar eigur eru hverfular og það er ómögulegt að koma þeim um skilning um raunverulega merkingu lífsins. En eftir að hafa upplifað margar jarðvistir, frelsast þeir smám saman frá töfrum hlutanna. Þeim mun lærast að dást að sköpunargáfunni án þess að tengjast sköpuðu hlutunum. En við ættum ekki að þvinga upp á fólk það sem er ofar getu þess. Það ætti að segja því frá sannleikanum, en maður getur ekki þvingað hann upp á það. Þvingun mun kalla fram uppreisn svo sterka að það verður afturhvarf í stað framfara.

„Til dæmis getur sérhver kennari fylgst með því hversu vandlega maður á að umgangast nemendur á unglingsárum. Kennarinn ætti að kunna að tala um lífið á þann hátt að hver áheyrandi haldi að hann hafi sjálfur komist að réttum niðurstöðum. Slíkur kennari er eins og góður garðyrkjumaður sem skilur hvers konar vindur ber best frjófræin.“

199. Urusvati veit að kenningar meistaranna hafa ekki verið skráðar að fullu í mannkynssögunni. Oft var aðeins lögð áhersla á smáatriði en undirliggjandi meginreglum þeirra var sleppt. Öfund og vanræksla svipta mannkynið mörgum afrekum.

Hugsuðurinn sagði: „Ef þú vilt finna sjaldgæft handrit skaltu ekki leita að því aðeins á bókasöfnunum. Það er betra að flakka um markaðstorgið og jafnvel fylgjast með umbúðapappírnum sem er notaður! Við fundum stundum falleg brot af sjaldgæfum handritum sem notuð voru til að pakka inn grænmeti. Ég man eftir skáldi sem einu sinni ráðlagði rithöfundi að nota ekki blek sem væri eitrað, því það gæti skaðað einhvern sem síðar kaupir kirsuber vafin inn í blaðið. Jafnvel við getum ekki verið viss um að rit Okkar muni ná til komandi kynslóða í upprunalegri mynd.

Og aftur sagði Hugsuðurinn: „Fylgjendur Aesculapiusar notuðu hin fjölbreyttustu lækningaúrræði. Þeir lögðu áherslu á að í náttúrunni hefur allt sitt heilsusamlega notagildi og að það er til náttúruleg lækning við hverjum sjúkdómi. Læknir verður líka að vera náttúrulæknir og fylgja fordæmi Hygeia við að gæta heilsu fólks.

„Ef maður veikist þá er það vegna þess að læknir hans er ekki líka vinur hans. Megi læknar verða vinir mannkyns, ekki líkgrafarar þeirra."

200. Urusvati veit að í fjarlægri fortíð vissi fólk um fjarlæga heima. Þetta ætti ekki að koma þér á óvart, því fólk bjó yfir sannri þekkingu jafnvel í fornöld. Hins vegar höfðu langflestir sérkennilegar hugmyndir og héldu til dæmis að jörðin væri byggð á bakinu á kú, skjaldböku eða einhverju skrímsli. Jafnvel í dag, þrátt fyrir rétta þekkingu og miklu úrvali upplýsinga, má finna álíka fáránlega hjátrú. Spyrja má hvernig þekking hafi borist til forna, eða hvernig fólk af ólíkum þjóðum gæti skipt á upplýsingum án ritmáls eða annarra samskiptamáta. Þeir sem eru meðvitaðir um skyggni og astralflug geta svarað þessari spurningu auðveldlega, en það væri erfitt að útskýra slíkt fyrir þröngsýnum manni!

Vertu ekki hissa á því að fornmenn væru betri í að halda leyndarmál, því þeir töldu að ekki mætti ræða hinn heilaga draum við fáfróða, og dýrmætustu reynslunni var haldið í nánum hring. Það er ótrúlegt að sjá hvernig svona öfgar geta lifað saman! En jafnvel í dag hefur fólk ekki breyst í vitundarstigum sínum.

Hugsuðurinn sagði: „Hver maður hefur innra með sér hugsanlegan kraft sem getur leitt hann í beina snertingu við hæsta heiminn. Þessi kraftur byggir upp kjarna vitundar hans og gerir Okkur kleift að miðla upplýsingum inn í kjarna þess. Sá sem getur komið á stöðugu sambandi við hæsta heiminn getur hjálpað til við að byggja upp framtíðina, en ef þetta samfélag glatast er maðurinn takmarkaður við líf dýrs.

„Fögur tákn hafa verið gefin fólki en lítur á þau sem hjátrú. Menn sjá myndir af vængjuðum verum og telja þær vera fantasíur. En svífur ekki hvert og eitt okkar? Það skiptir ekki máli hvort flugið er í fínlegum eða þéttum líkamanum, þau eiga sér stað, meðvitað eða ómeðvitað. Svefn er frábær gjöf guðanna og opnar innganginn inn í hærri svið. Svefnleysi var alltaf litið á sem refsingu, vegna þess að það svipti manninn náttúrulegu samneyti. Vinir, við verðum að vera þakklát hærri öflum, sem leyfa okkur að eiga samfélag við Þau.

„Maðurinn man venjulega aðeins lítillega eftir upplifunum sínum í flugi sínu, en í djúpi vitundarinnar varðveitir hann dýrmætu fjársjóðina. Ég get ekki fullyrt að Ég sé fær um að tjá í orðum allt sem Ég upplifi, en eins og móðir finnur í líkama sínum fyrstu merki um líf barnsins síns, getur allir fundið innra með sér uppsöfnun fíngerðra athugana.

„Vinir, við fljúgum og tileinkum okkur auðveldlega ljóma fjarlægra heima. Sumir munu andmæla þessari fullyrðingu og munu halda því fram í fáfræði sinni að þessi svið séu ekki til, að þau séu aðeins ímyndanir, en við sem höfum nálgast þau vitum kjarna þeirra.

„Vinir, endurtakið ekki á torginu það sem þið hafið nýlega heyrt, því fólk mun telja ykkur vitlausa. Sá tími mun koma að þessi orð verða skilin. Jafnvel saklausustu spurningum ætti ekki að spyrja of snemma. Fáfróðir menn geta auðveldlega orðið tígrisdýr og það er betra að búa ekki til slík dýr.

„Vinir, ég vil segja ykkur einum, hvernig Ég man eftir fjarlægum heimi. Fjarlægðin sem skilur okkur frá honum er gríðarleg en flugið gerist tafarlaust. Að lenda á þessari afskekktu jörð er ómögulegt fyrir Okkur, jafnvel í fíngerðum líkama Okkar. En við getum séð útlínur hafsins, glaðst yfir fallegum litum og jafnvel séð fugla og fiska. Fólk þar er ekki eins og við og, yndislegt að sjá að það getur flogið! Mál þeirra heyrist ekki, ef til vill vegna þess hve sviðin ómuðu. Ég man eftir bláma vatnsins, eins og safír, grænum engjum og fjöllunum eins og smaragða. Svo virðist sem maðurinn sé ófær um að stíga á svo hreinan jarðveg. Jafnvel loftið er Okkur óbærilegt.

„Engu að síður, eftir að hafa upplifað flugið, þjáumst við þegar við snúum aftur til líkama Okkar. Það er kæfandi, eins og maður væri að fara í þrönga, óþægilega flík. Þannig er sérhver reynsla bæði falleg og erfið.“

201. Urusvati veit að Við höfum margar ástæður til að tala um sameiningu. Við höfum nefnt dæmi um hestinn sem seinkaði allri vagnlestinni og rætt um samtengdu kraftanna sem halda boganum saman. Nú skulum við bæta við orðum hugsuðarins.

Dag einn spurðu lærisveinarnir hann um merkingu sameiningar. Á því augnabliki gengu þeir framhjá risastórum vegg og hann benti á miklu steinsmíðina og sagði: „Sjáðu hvernig þessir steinar styðja hver annan. Við getum ekki sagt hver þeirra sé mikilvægastur. Þeir eru ekki samtengdir af neinu, samt hafa þeir staðist marga jarðskjálfta. Þeir haldast saman sem eining og náttúrulegum skyldleika snertifleti þeirra. Fólk reynir að tengja steina með tilbúnum hætti, með leir eða mismunandi blöndum, en slík mót eyðileggjast oft í jarðskjálftum.

„Ef fólk reynir að styrkja tengsl sín með tilbúnum athöfnum, er það ekki varið gegn upplausn. Það er betra og sterkara þegar hjörtu mannanna sameinast af sjálfu sér. Slík sameining þarf engin tilbúin hjálpartæki, síst af gulli. Varist sérstaklega peningaböndin.

„Ég fullyrði að jafnvel ákafasta fólk getur ekki dæmt um og tengt gildi; aðeins hjörtu mannanna byggja upp samstæðan múr.“

Hugsuðurinn sagði einnig: „Maðurinn mun ekki geta flogið fyrr en hann finnur viðeigandi vængi. Táknið um Daedalus, vængi Ikarusar, verður eilíf viðvörun, en við munum oft ræða fjarlæga heima. Með því að hugsa um þá munum við finna vængina.

„Leyfðu öllum að segja okkur hvernig hann ímyndar sér hina fjarlægu heima. Hver og einn mun hafa rétt fyrir sér, sama hversu lifandi ímyndunaraflið hans er, því í sannleika sagt er ekkert sem er ekki til og ímyndunaraflið okkar getur aðeins fundið upp lítinn hluta af raunveruleikanum.

„Vertu ekki fyrir vonbrigðum með að ímyndunaraflið þitt sé takmarkað, því miðað við óendanleikann er allt takmarkað. Við skulum öðlast sanna viðleitni í miðjum óendanleikanum.“

202. Urusvati veit hversu erfitt það er fyrir fólk að gera greinarmun á hinu nauðsynlega og léttvæga. Þar að auki, þegar fólk skynjar nálgun mikilvægs atburðar, forðast það hann með lítilsverðum afsökunum í stað þess að horfast í augu við hann beint. Það er áhugavert að fylgjast með því hvernig fólk loðir við það lítilsverða sem leið til að forðast að horfast í augu við hið nauðsynlega. Menn átta sig ekki á því að hið ómissandi felur í sér hið fagra. Maður ætti að læra að greina skýrt hvaða ómerkilegu smáatriði eru sérstaklega aðlaðandi fyrir mannshugann, því aðeins með því að skilja slík skordýr mun maður geta útrýmt þeim.

Þegar hið nauðsynlega kemur, kemur það í sérstakri þögn. En á svo mikilsverðum augnablikum munu trúðarnir framkalla hávaða og hringja bjöllum og slá á trumbur sínar. Það má sjá að rétt fyrir stórviðburð verður múgurinn æstur, því hann geta skynjað nálgun hans.

Hugsuðurinn sagði: „Það er ótrúlegt hvernig fólk nuddar ryki í augun á sér og hleypur síðan í leit að lækni. En það munu ekki leyfa að allt rykið verði fjarlægt, því það er orðið vant því, og það er eins og rykið sé orðið hluti af augum þeirra. Blindum okkur ekki með ryki.

„Sérhver hetja sem hefur hreint hjarta eyðir myrkri og ævisögur slíkra hetja ættu að vera rannsakaðar í skólum. Nemendur ættu líka að læra hvað var gert við Perikles og hvernig fólk hefur komið fram við hetjur sínar. Þannig ætti að skrifa mannkynssöguna.

„Hversu langan tíma mun það taka fyrir almenning að vinna bug á ótta sínum við stórmenni? Kannski birtast einhverjir þolinmóðir stríðsmenn sem munu smám saman fjarlægja rykið af augum þeirra.

„Hjartað þjáist óbærilega þegar blóðið verður óhreint af ryki.

203. Urusvati veit hvernig sumir halda því fram að líf á jörðinni ætti að vera, einfalt, jarðneskt. Hvað, nákvæmlega, halda þeir að jarðnesk tilvera sé? Slíkt fólk hefur engan áhuga á yfirjarðneskum málum og hugsar aðeins um hið vonda og fátæka líf sem það hefur komið á, með því að níða stöðugt öll hærri hugtök. Það áttar sig ekki á því, að ekkert er til sem heitir „jarðneskt“. Allt tilheyrir alheiminum, hver steinn er hluti af alheiminum.

Fólk er ekki svín, svipt hæfileikanum til að lyfta höfðinu til himna. Maður lifir ekki af jarðneskum afgöngum, heldur af hærra útstreymi. Engu að síður hefur í þúsundir ára verið ýtt undir mikilvægi hreinnar jarðneskrar tilveru. Ekki aðeins trúleysingjar, heldur einnig guðstrúarmenn, hafa afneitað fíngerðu og hærri sviðum. Það er erfitt að skilja hvernig slíkt andsætt hugarfar gæti komið sér saman um afneitun á grundvallaratriðum lífsins. Af ótta og fáfræði þora þeir ekki að horfast í augu við það fegursta. Jafnvel þekkingaröflun hjálpar þeim ekki að nálgast sálarsviðið, og guðstrúarmenn leyfa ekki guðum sínum að leiða sig að hærri sviðum.

Hugsuðurinn sagði: „Við ættum ekki að gera lítið úr lífinu með því að takmarka okkur við jörðina eina. Þrír heimar eru okkur gefnir, en við verðum að vinna okkur rétt til hvers og eins. Við bindumst við forgengilegu jörðinni og gleymum því að við getum tekið þátt í eilífu lífi!

„Við skulum ekki blekkja okkur með því að takmarka okkur við snertiskynið. Okkur eru gefin önnur skilningarvit sem við ættum að nota fyrir heildarskynjun. En þekkjum við þessi skilningarvit? Hærri sviðin hafa sína eigin tjáningu. Sannarlega erum við rík af þeim fjársjóðum sem okkur eru veittir.“

204. Urusvati veit um óvinina, sýnilega og ósýnilega. Þeir sem stunda rannsóknir á hugsunarsendingum ættu að taka eftir þeim fjandsamlegu aðstæðum sem fylgja tilraunum þeirra. Hugsanir geta verið stöðvaðar af utanaðkomandi verum og vitað er að við tilraunir geta sumir heyrt hugsanir.

Rannsakandi ætti að gefa gaum að sérstöku eðli tilraunahópsins, þar sem fram hefur komið að samhljómur meðal þeirra hjálpar sendingu og kemur í veg fyrir utanaðkomandi truflun. Þar að auki, ef nálægir vinir halda uppi samhljómi, hjálpa þeir einnig til við að vernda hugsunarflutninginn. Þeir sem eru ruglaðir eða pirraðir starfa óafvitandi sem samstarfsmenn utanaðkomandi þjófa. Árur pirraðra manna virka sem sterkustu eyðingarstraumarnir. Þeir geta afneitað samstarfi sínu við utanaðkomandi þjófa, en eru í raun vitorðsmenn þeirra í illu. Einhvern tíma, þegar þeir eru í fíngerða heiminum, munu þeir sjá eftir skorti á sjálfsstjórn.

Fólk skilur ekki að fylgst er með hverri og einni léttvægri athöfn þeirra af ósýnilegum aðila, og því ætti að rækta hugsanir við hagstæðustu andlegu skilyrðin.

Fífl gera ráð fyrir að hægt sé að styrkja hugsun með notkun fíkniefna, en andlegir krampar sem myndast stuðla ekki að þróun. Jafnvel útstreymi fíkniefna laðar að sér hættulega aðila, sem taka upp hugsanabrot og vefa skaðlegan vef úr þeim. Allir geta munað hvernig gagnlegar hugsanir þeirra voru stundum afbakaðar. Leitaðu að orsökinni í umhverfi þínu og þú munt örugglega finna hana.

Hugsuðurinn sagði: „Ó, vesæla hugsun! Þú hefur enga vernd. Um leið og hefur þú öðlast vængi, eru illar klær tilbúnar að rífa þig í sundur. Rétt eins og handfylli af gulli hverfur þegar þeim er kastað inn í mannfjöldann, þannig er auðvelt að grípa hugsun í geimnum. Verðugur andi kann að geta tekið á móti hugsuninni, en það geta verið þjófar meðal þeirra sem ganga framhjá. Við verðum að halda líkama okkar hreinum, en við ættum að viðhalda enn meiri hreinleika í kringum hugsanir okkar.“

205. Urusvati veit að hærri heimar ætti ekki aðeins að skilja sem yfirjarðneska. Rannsóknir á lífinu ættu að ná yfir hærri svið og æðri hugtök. Jarðneskt líf er byggt á óbreytanlegum lögmálum, skilningur á þeim felur í sér tengsl allra heima og viðurkenningu á raunverulegu mikilvægi fíngerða heimsins.

Réttilega er bent á, að fólk er í jarðvist í ákveðnum tilgangi. Til dæmis snýr niðurlægt og pyntað fólk aftur til jarðar til að minna aðra á óviðurkennd réttindi sín, en flest af þessu fólki getur ekki sigrast á lönguninni til hefndar og réttlætingar og fáir ná göfugum hæðum fyrirgefningar og hreinnar sjálfsfullkomnunar. Það eru þeir sem snúa aftur á þann stað sem þeir voru misnotaðir og misþyrmt og koma fram hræðilegri hefnd. Þeir fela sig meðal almúgans, koma á uppreisn og hindra framgang landsins.

Ef fólk skildi afleiðingar þessa ofbeldis væri það áhrifaríkara í uppbyggingu lands síns, en fáir kæra sig um að skilja að blóði úthellt í hatri þarfnast hreinsunar. Þannig höfum Við margoft minnt þig á þörfina fyrir sjálfsfullkomnun og skilning á fíngerða heiminum. Hvert og eitt Okkar hefur kallað til fólks, til að veita þessa þekkingu.

Hugsuðurinn sagði: „Sjá, heiftin eru sköpuð af þér. Guðir sjá ekki um hefnd; það er fólkið sjálft sem býr til þessi hræðilegu skrímsli. Við gleymum því öll að við greiðum okkar eigin leið. Hvernig get ég fundið orð sem eru nógu einföld til að allir geti skilið?“

Við verðum að skilja orsakir deilna og ósættis. Ef við minnum okkur á líf okkar í skugganum, munum við geta skilið að það er einmitt þar sem framtíðartilvera okkar er undirbúin.

206. Urusvati veit að lengd dvalarinnar í fíngerða heiminum getur, eftir aðstæðum, verið mismunandi frá nokkrum mánuðum til þúsunda ára. Erfitt væri að koma með allar ástæðurnar, en sú helsta er frjálsi viljinn. Spyrja má hvort löng dvöl á fíngerðum sviðum eða stutt sé gagnlegri fyrir sálina; bæði geta verið jafnverðmæt. Á sama hátt má spyrja hvort sálin geti valið að snúa alls ekki aftur til jarðar. Sannarlega er allt mögulegt, en dvölin í fíngerða heiminum verður þá að nýtast betur en á jörðinni.

Við höfum nefnt að öflugar verur geta sent hluta af geisla sínum til einhvers á jörðinni sem fær þá uppljómun. Slíkur geisli hefur áhrif á viðtakandann sem jafnast á við endurfæðingu. Hægt er að nýta deilanleika andans og sendingar munu þá færa andlega uppljómun til margra manna samtímis. Þetta er enn meiri þjónusta við þróunina.

Þannig getur maðurinn sannarlega skapað örlög sín. Hann getur þróað hugsunargetu sína að hvaða marki sem er og getur aukið gjafmildi sína að fórnfýsi. Hugsunarkraftur hans mun vaxa eftir því sem hann gengur uppganginn og því meira sem hann gefur, því meira fær hann. Þennan sannleika ætti að kenna í skólum.

Sömuleiðis má spyrja hvort frjáls vilji geti leitt mann til fjarlægra heima. Vissulega, ef honum er beitt af einlægri sjálfsafneitun. Þú veist nú þegar um þá sem fóru til annarra pláneta. Slík afrek er óvenjuleg sem efla hugann og skapar nýjan sjóndeildarhring hugsunar. Hugsuðurinn benti margoft á að hann myndi einn daginn fara í annan heim og koma þaðan á samskiptum. Það þyrfti aldir til að uppfylla þetta verkefni, en ekkert er ómögulegt ef vilji manns beinist að markmiðinu.

207. Urusvati veit að margir samþykkja ekki hugmyndina um hugarorku. Ennfremur eru sumir sem telja að hugsanaflutningur sé takmarkaður og nota sem sönnun þess að útvarpsbylgjur geti ekki komist í gegnum ákveðin lög í andrúmsloftinu. Sú athugun er rétt, en á ekki við um stýrða mannlega hugsun, sem hefur sérstaka orku sem er ekki sambærileg við útvarpsbylgjur. Lög í andrúmsloftinu eru engin hindrun fyrir hugsun. Þegar við ræðum hugarsendingar yfir miklar fjarlægðir höfum við sérstaklega í huga stýrða hugsun.

Hugsuðurinn sagði: „Lærðu hvernig á að hugsa. Byrjaðu á einföldustu hugsunum. Best af öllu, lærðu að dreyma um fallega hluti og lærðu að dreyma lifandi. Aðeins draumar munu þróa ímyndunarafl manns og hvert getum við farið, hvernig getum við tileinkað okkur fegurstu athuganir án ímyndunarafls? Hvernig getum við munað í hversdagslegu lífi okkar, geislaneista hærri sviða ef við þjálfum okkur ekki í að dvelja við þær myndir? Sannarlega, leitin að hinu háleita mun þjálfa ímyndunarafl okkar.

„Ekkert er kyrrstætt. Ímyndunaraflið verður að vaxa, annars sokknar það og hver veit hvenær hægt er að endurvekja það? Heimspekingar verða að hafa sterkt ímyndunarafl, rétt eins og listamenn til að skapa. Draumur fæðist í barnæsku. Það þarf að hjálpa börnum að þróa hugsun sína.“

Þannig talaði Hugsuðurinn þegar hann bað lærisveina sína að verða dreymendur, því aðeins þannig fæðist ímynd mikilla ríkisstjórna og almennrar hamingju. Hamingjan býr í draumum.

208. Urusvati veit hversu skjótt og óvænt sumar sýnir geta birtst. Sérstaklega sláandi fyrir okkur eru sýnir af fólki sem við þekkjum ekki. Það eru margar ástæður fyrir þessu. Þetta fólk er kannski ekki í raun ókunnugt, gæti hafa þekkst í fíngerða heiminum. Það er líka mögulegt að tvær manneskjur muni hafa samhljóðan titring sem framkallar samtímis sýn hjá báðum. Ef fólk myndi skrifa niður sýnir sínar og deila þeim með fólki sem það treystir, myndi svo margt skýrast. En slíkar athuganir eru vanræktar og mannleg vitund missir tækifæri til hagnýts náms.

Til dæmis var einhver að spila á píanó einhvers staðar og framkallaði titringinn sem ómaði í vitund Urusvati og myndaði sýn á óþekkta píanóleikarann. Slík samhljóman hefur áhrif á eldlegu vefina. Fólk hefur samband við hvert annað með samhljóma og skapar þannig samvinnu.

Hversu stutt margra sýnir standa má útskýra með lögmálum fíngerða heimsins, þar sem líkamlegur tími er ekki til. Stuttleiki sýnarinnar er aðeins blekking, því skynjun mannsins er takmörkuð af efnissviðinu og fyrir honum koma og fara fljótt hinar fíngerðu myndir. En við aðstæður fíngerða heimsins göngum við inn í hugarsviðin og atburðir virðast þróast á eðlilegan hátt. Þannig getur maður aukið reynslu sína í fíngerða heiminum og lært að skilja jarðnesku blekkinguna um augnablikið.

Hugsuðurinn vakti athygli á muninum á skynjun í efnisheiminum og í fíngerða heiminum. Hann sagði: „Ósýnilegar verur fara hratt framhjá og aðeins örlítill andvari gæti bent til nærveru þeirra. Stundum nálgast þeir okkur í bláleitu skýi, en við sjáum aðeins sjaldan nærveru svo sjaldgæfra gesta. Þegar við gerum það ættum við að heilsa þeim: „Velkomnir, góðir vinir! Við opnum hjörtu okkar fyrir þér; sendu okkur hjálp frá fögrum heimi þínum.’“

209. Urusvati veit að hægt er að örva hina alltumlykjandi orku með bæði náttúrulegum og gerviaðferðum. Allir skilja að náttúrulegar aðferðir eru æðri, en samt hefur miklu meira verið skrifað um þær tilbúnu. Það er rétt að gerviaðferðir hafa verið rannsakaðar ítarlega frá fornu fari, en nú, á milli hinna tveggja tímabila, er kominn tími til að snúa sér að náttúrulegum aðferðum til að birta frumorkuna.

Fornmaðurinn var miklu grófari og vélrænir taktar og helgisiðir voru nauðsynlegir til að vekja fíngerða orku. En nú þegar taugakerfið er töluvert fíngerðara getur mannkynið séð að vilji og hugsun eru náttúrulegir eiginleikar og því verður að nýta þær á eðlilegan hátt.

Það er rangt að æsa hugann með fíkniefnum, því slíkar aðferðir hafa skaðleg áhrif á jafnvel komandi kynslóðir. Gerviörvandi efni eru jafn skaðleg og alvarlegustu sjúkdómarnir, eini munurinn er sá að áhrif sjúkdóma koma fljótt fram, en áhrif fíkniefna þróast í langan tíma og hafa áhrif á komandi kynslóðir. Maðurinn hugsar lítið um framtíðina og hugsar lítið um hvað hann leggur til hennar.

Hugsuðurinn sagði: „Við virðumst ekki vita fyrir hvern við byggjum vígið. Ef við skiljum að við erum að byggja það fyrir okkur munum við móta steina vandlega. Maður ætti ekki að gleðjast þegar jarðnesku lífi manns er lokið, því enginn veit hvar hann mun þurfa að vinna aftur. Þess vegna ættu vitrir menn að hugsa um hvar þeir gætu þurft að gera upp reikninga sína.“

210. Urusvati veit að breytingar á öllum sviðum náttúrunnar munu eiga sér stað við komu hins nýja kynþáttar. Flestir munu ekki taka eftir þessum breytingum og ef þeir gera það, munu þeir vera of hikandi við að nefna það.

Jafnvel skýrar vísbendingar um nýjar tegundir sjúkdóma örva ekki rannsóknir. Það er nauðsynlegt að fylgjast með öllu umhverfi sínu. Óvenjuleg þróun verður í dýraríkinu og jurtaríkið mun einnig bjóða upp á margar staðfestingar. Sjúkdómar dýra og plantna munu minna okkur á farsóttir meðal manna. Við höfum öðlast þann hæfileika að verja okkur gegn hinum þekktu plágum, hins vegar er það ekki plágur, kólera eða jafnvel krabbamein eða heilahimnubólgan sem mun ógna okkur, heldur nýjar tegundir taugasjúkdóma, sem geta orðið að fullum faraldri. Þessir kvillar eru sjúkdómar í andlegri orku og geta verið smitandi. Samt mun það taka langan tíma fyrir lækna að veita þessum nýju tegundum sjúkdóma athygli. Þeir gætu verið kallaðir eldlegir, en hvað sem við köllum þá, það er mikilvægt að skilja orsök þeirra.

Kynþáttabreytingar munu ekki óumflýjanlega leiða til hörmunga, en það er mikilvægt að sálarorkunni sé haldið í hreinu ástandi, þar sem menguð orka framkallar hörmulegar staðbundnar birtingarmyndir.

Þannig staðfesti Hugsuðurinn: „Við skulum ekki gleyma því að allt er á hreyfingu. Enginn hefur rétt á að menga geimstrauminn, því hann mun auka þjáningar margra, og fyrst og fremst hans eigin. En það er ótti sem heldur fólki frá fíngerðum heimum.“

211. Urusvati veit hversu erfitt það er að ná samræmi í vitundina. Við tölum ekki hér um jöfnun allrar vitunda, því vegna kosmísks margbreytileika, er jafnrétti ekki til. Vegna þess að ekkert er endurtekið, er samhljómur allra hluta nauðsynlegur. Það er erfitt að ímynda sér hvaða flóknum aðferðum þyrfti að beita til að reyna að jafna vitundir. Einn maður er kannski þegar að nálgast tindinn á meðan annar hefur ekki einu sinni náð fjallsrótum! Sannarlega, í hugsun þeirra eiga þeir ekkert sameiginlegt. Ef þú gefur þeim jafna þekkingu, þá er það ófullnægjandi fyrir annan, en fyrir hinn of mikið, ruglar hann og jafnvel veldur því að hann svíkur.

Kennarinn verður oft að velta fyrir sér hvað nemandinn getur tileinkað sér án skaða. Það er betra að láta hlutina ósagða en að segja of mikið og skapa aðstæður sem leiða til svika. Skilningur á öllum þáttum sem henta fyrir samhljóm felur í sér kjarna viskunnar.

Þannig getum við tekið eftir því að kennarinn flýtir sér stundum, og stundum heldur aftur af sér, vakir yfir mörgum pílagrímagöngum samtímis og stjórnar hraða þeirra. Margt gerist sem maðurinn getur ekki séð þegar hann gengur fram. Kennarinn setur áfangana langt áfram. Hann bendir á ýmis merki sem frá venjulegu sjónarhorni kunna að hafa enga þýðingu, en eru í raun frábær tákn. Það kemur ekki á óvart að þessir áfangar séu gefin fyrir tímann, þar sem spurningin um tíma er ekki til í fíngerða heiminum. Slík tákn eru ekki metin jarðneskum skilningi, heldur eftir þýðingu þeirra.

Hugsuðurinn sagði: „Hver þekkir mælikvarðana sem eru notaðir í geimnum? Allt sem við getum gert er að vera athugul og beita ekki mælikvarða dverga á risa.“

212. Urusvati veit að tákn náttúrunnar geta verið mjög fjölbreytt. En fólk hefur oft tilhneigingu til að taka aðeins eftir illum fyrirboðum og sökkva því í hjátrú. Til dæmis, mun greindur athugandi vita að jafnvel þegar uppskeran er mikil, en straumar eru misjafnir og það getur leitt til öfgar af góðu og slæmu.

Vitur maður þarf ekki endilega að gleðjast yfir óvæntum árangri í sínum málum. Bóndi veit að ákveðin straumspenna sem er gagnleg fyrir hans eigin uppskeru getur valdið skaðlegum afleiðingum í fjarlægu landi. Og þannig er það í öllu.

Jafnvel í fornöld vissu vitringarnir að ákveðin merki um velgengni eða mistök gætu gefið til kynna skelfilegar afleiðingar. Það er erfitt að ímynda sér þær hörmungar sem eiga sér stað í geimnum sem ná til okkar öldum síðar. Maður getur ekki komið í veg fyrir það sem þegar hefur átt sér stað, en maður getur öðlast nægilegt andlegt umburðarlyndi til að sætta sig við það sem verður. Þegar við tölum um þörfina fyrir jafnvægi, sjáum við fyrir okkur margar breytingar sem fólk grunar ekki einu sinni að muni eiga sér stað.

Hugsuðurinn varaði oft við möguleikanum á geimhamförum. Fólk hló að honum, en hvernig gat það verið viss um að það hefði ekki átt sér stað stórslys í fjarlægu geimnum sem myndi ná til jarðar þúsund árum síðar? Samt geta boðberar slíks atburðar náð til fólks og truflað vitund þess.

Kennarar verða að tala enn og aftur um samhæfingu heimanna.

213. Urusvati veit að allt sem er til, er gegnsýrt frumorkunni. Hvers vegna þarf að minna fólk oft á þennan sannleika? Mannleg vitund virðist ekki hafa neina hugmynd um frumorkuna. Menn ræða um krafta, en þora ekki að viðurkenna að í grundvallaratriðum er hann aðeins einn.

Það ætti að viðurkenna að orka hugsunar er ein hæsta birtingarmynd frumorkunnar. Það er ómögulegt að einangra hugsun frá grundvallarorku alheimsins. Nákvæmlega er það hugsun sem hreyfir grundvallarorkuna óendanlega. Hugsunin skapar ákveðna strauma sem þjóna sem vakar, eða ef svo má að orði komast, endurnýja krafta alheimsins. Þannig, að þegar Ég segi að hugsandi verur taki þátt í sköpun heimsins, er hægt að skilja það bókstaflega en ekki táknrænt. Af því leiðir að maðurinn ber mikla ábyrgð á gæðum hugsunar sinnar. Sérhver góð og sterk hugsun framkallar fallegan titring, en ill hugsun stráir á jörðinni banvænum afleiðum.

Kennari verður að fræða nemendur um að dvelja stöðugt við hið fagra. Sérhver leitandi getur auðgað rýmið. Ekki halda að jarðvegur þurfi aðeins efnisáburð. Þó tilraunir krefjist mikillar tíma, ætti að gera tilraunir á áhrifum hugsunar. Við helgum Okkur oft slíkum langvarandi rannsóknum, því að heilbrigður skilningur næst ekki með skyndilegum ályktunum. Ef stöðugar rannsóknir eru gerðar, verður greinilega sýnt fram á að fíngerð orka krefst fíngerðar nálgunar. Ég verð að minna þig aftur á að smá mælikvarða ætti ekki að beita á risa.

Hugsuðurinn ræddi við fólk um þetta og minnti það stöðugt á að háleit viðfangsefni yrðu að læra í háleitu hugarástandi. „Við skulum alltaf beita markmiðshæfni.

214. Urusvati veit hversu mikið hugtakið hrynjandi er misskilið af mannkyninu. Hinar fornu kenningar um mikilvægi hrynjanda hafa glatast og hugmyndin um hrynjanda einskorðast við tónlist og grófan dans. Vísindamenn tala um titringstakt, en niðurstöður þeirra fara ekki lengra en frá rannsóknarstofum þeirra. Takturinn ætti að koma fram í öllu starfi, í allri sköpun, í öllu lífinu. Aðeins reyndir samstarfsmenn eru meðvitaðir um að taktbundin vinna er afkastamest.

Sannarlega, þekkir sannur karmajóginn gleði taktsins án gervispennu. Karmajógi vinnur ekki vegna þess að einhver neyðir hann til þess, heldur vegna þess að hann getur ekki lifað án vinnu. Þessi jógi er nátengdur hrynjanda. Gagnkvæmur ávinningur verður aðeins þegar mjög kröftugur hrynjandi getur blandast saman við svipaðan titring alls staðar á jörðinni. Í ósýnileika sínum verður slík hjálp að sönnum samhljóma. Því miður er slík sjálfkrafa og takmarkalaus samvinna mjög sjaldgæf í daglegu lífi.

Sérhver samstarfsmaður fær líka hjálp frá fíngerða heiminum og fólk myndi ná mun meiri árangri ef það gerði sér grein fyrir að þetta ósýnilega samstarf er til staðar. Háðfuglarnir munu segja: „Getur það verið að jafnvel smiðir, bændur og múrarar fái hjálp frá fíngerða heiminum? Þetta háð er út í hött, því hvert vel þegið verk fær hjálp. Fólk ætti að hugsa meira um ótæmandi orkuforðann í fíngerða heiminum.

Ég ætla að tala um enn einn sannleikann sem er lítt skilinn: Fólk er oft í uppnámi þegar hugmyndir þeirra eru gripnar og notaðar af öðrum. Reyndar ætti útbreiðsla gagnlegra hugmynda að veita gleði, en meirihlutinn er ekki nógu stórhuga til að líða þannig.

Hugsuðurinn sagði: "Hugmyndir eru bornar á svífandi vængjum." Það er gleðilegt að frelsa fugl úr búrinu sínu og það ætti að vera jafn gleðilegt að sleppa gagnlegum hugmyndum. Hugsunin verður að næra rýmið, annars verða menn sviptir tækifæri til framfara. Leyfðu Okkur að losa hugmyndir úr allri ánauð og fjötrum. Við skulum ekki treysta á varðmenn, heldur flýta okkar eigin frelsun.

215. Urusvati veit mikilvægi þess að aðgreina hið fíngerða. Slík næm aðgreining, ólýsanleg með orðum, er sjaldan skilin. Hvernig getur maður útskýrt hvers vegna eitt er leyfilegt, enn annað, sem er aðeins hárfínt frábrugðið, er óhugsandi brot? Aðeins aukin vitund getur greint mörkin milli sköpunar og eyðileggingar. Margir fornir sértrúarsöfnuðir sameinuðu sköpun og eyðileggingu í eitt tákn og sýndu þannig nálægð þessara hugtaka, sem eru svo gróflega metin af venjulegum huga.

Það er jafn erfitt að dæma, að hve miklu leyti maður ætti að hafa áhrif á karma annars. Tökum sem dæmi kennara sem vill hjálpa lærisveinum í prófraun. Kennarinn gæti gjarnan viljað hafa áhrif á nemanda sinn, en ruglaður nemandinn tekur ekki eftir hvetjandi táknum og augntillitum. Kennarinn getur auðvitað ekki gripið inn í til að koma í veg fyrir mistök nemandans og óháð löngun hans til að prófið heppnist, þarf hann að þegja og reyna að leiða nemandann á réttan hátt á háttvísan og óbeinan hátt.

Margar aðstæður ættu að íhuga áður en reynt er að trufla karma annars, þar sem nálægir geta átt hlut að máli. Fólk skilur ekki að gott og illt sé svo fínlega fléttað saman og margir munu hæðast að slíkri hugmynd.

Hugsuðurinn benti oft á það og notaði dæmi um skólapróf. En auðvitað vildi fólk ekki hlusta.

216. Urusvati hefur heyrt sprengingar í fíngerða heiminum. Það kann að virðast undarlegt fyrir þig að það séu sprengingar í fíngerða heiminum sem heyrast, en allt sem tengist fíngerða heiminum ætti að skilja á fíngerðan hátt. Sprengingar geta orðið á hvaða sviði sem er. Þeir heyrast ekki með líkamlegu eyranu, en valda óvenjulegum skjálfta í hjartanu, og með dulheyrn er hægt að upplifa nákvæma tilfinningu fyrir sprengingu. Maður ætti að gera sér grein fyrir því að fíngerðu sviðin óma stöðugt í því næma eyra.

Venjulegt fólk getur ekki skynjað svo fíngerð merki. Það eru annað hvort ekki tilbúnir til að viðurkenna tilvist hærri veruleikans eða kemst í uppnám yfir hugmyndinni um hann.

Í bókmenntum ýmissa þjóða má finna furðulegar vísbendingar. Sem dæmi má nefna að Shambhala er sögð vera í ysta norðurhlutanum og norðurljósin virðast staðfesta það. En við skulum ekki gleyma því að svipaðar rafhleðslur má einnig sjá í Himalajafjöllum.

Hugsuðurinn benti á hversu varkár við verðum að gæta þess að opinbera ekki sannleika sem fólk er ekki enn tilbúið fyrir, því mikill ruglingur myndi leiða af því. Leyfðu okkur að fylgja viturlegum ráðum hans og finna leiðir sem passa að vitund fólksins.

Ef Við gætum fundið einfaldari orð, myndum Við nota þau. Sannarlega er þörf á mun meiri einfaldleika.

217. Urusvati veit að eitrun lofthjúpsins er að aukast á þessum tíma. Afleiðingar þessa eru augljósar á mörgum sviðum lífsins. Fólk þjáist af mörgum líkamlegum sjúkdómum vegna einstakra veikleika sinna og samfélagið þjáist af farsóttum og félagslegum hræringum. Við vörum oft við þörfinni fyrir einingu, því samhljómur er besta fyrirbyggjandi aðferðin. Mikið jafnvægi er nauðsynlegt; ef hægt væri að ná því um allan heim myndu hættulegustu stundirnar líða hjá án skaða.

Jafnvægi er viðhaldið með því að beita frjálsum vilja manns, en fólk vill ekki axla ábyrgð sína á því. Sýking verður ekki aðeins vegna tilhneigingar til ákveðinna kvilla, heldur einnig vegna jafnvægisleysis. Pílagrímur mun ekki geta gengið öruggur um mjóan fjallastíginn án jafnvægis og verður hræddur og gengur veg sinn með miklum kvíða. Slíkt ójafnvægi mun granda honum og sýkja þá sem eru honum nærri af ótta.

Reyndar er eitrun í andrúmsloftinu nú að aukast. Vertu vakandi. Við erum meðvituð um slíka tíma, því Við höfum sjálf gengið í gegnum þá oftar en einu sinni á jarðnesku lífi Okkar. Best er að vera meðvitaður um þetta og safna krafti jafnvægis. Þannig munum við standast og umbera allar sviptingar.

Alltaf þegar hugsuðurinn þoldi slíka spennu sagði hann: „Ógnandi ský hafa hulið himininn. Við skulum vera heima, svo við truflum ekki kyrrðina. Jafnvel hræðilegasti stormurinn getur ekki haldið áfram endalaust."

218. Urusvati þekkir segulmagn nafna. Sérhvert hljóð samsvarar tilteknum geimgeisla og er einnig tengt öflugum táknum um stjörnufræðilega þýðingu. Þú veist að stundum bönnum Við ekki að nefna nöfn Okkar, en stundum höfum við ráðlagt þér að segja þau ekki, jafnvel í hugsun. Þetta er vegna þess að stundum mynda samsetningar hljóða ekki öfluga segulstrauma, á öðrum tímum hljómar nafn í geimnum eins og hamarshögg. Á slíkum tímum, til að tryggja jafnvægi, ætti ekki að nefna nöfn Okkar. En þetta á líka við um mannanöfn og jafnvel staðanöfn.

Í fornöld voru nöfn af stjörnuspekilegum uppruna. Hjá mörgum þjóðum voru nokkur önnur nöfn venjulega gefin barni svo að stjörnufræðilegt nafn þess yrði ekki nefnt. Það er betra að segja ekki slíkt nafn, jafnvel á heppilegum augnablikum, því það getur virkað eins og elding.

Fólk veit almennt ekki muninn á segulmögnun og dáleiðslu. Dáleiðsla fjallar um persónuleg öfl en segulmagn er kosmískt fyrirbæri. Hugsuðurinn talaði oft um mikilvægi þessara orku og var vanur að segja: „Í augnablikinu sem maður hrópar: „Ó, hvað ég er óhamingjusamur!“ eykur hann strax vandræði sín. En sá sem segir: „Ég er hamingjusamur!“ opnar hlið hamingjunnar.

„Það er ekki þar með sagt, að maðurinn skipi þannig hamingju sinni og óhamingju. Það nær miklu dýpra, því maðurinn er að fást við kraftmikla orku. Um leið og hann hefur látið í ljós skap sitt er það skráð í geimnum og kallar á hæstu öflin. Við skulum ekki vera vanþakklát eða óskynsamleg.“

Hugsuðurinn kenndi lærisveinum sínum að fylgjast stöðugt með orðum sínum og aldrei að segja þau vanhugsað.

219. Urusvati veit að fíngerðustu samsetningar er ekki hægt að endurtaka. Einu sinni tók Hugsuðurinn eftir því að áheyrendur hans höfðu ekki alveg skilið hugmyndina um sérstöðuna. Hann tók stóran bronsspegil og huldi hann með jöfnu lagi af sandi. Síðan sló hann mismunandi takta við brún spegilsins, sem varð til þess að sandurinn féll í mismunandi form. Eftir það bað Hugsuðurinn lærisveina sína að endurtaka nákvæmlega sömu takta og búa til sömu form. Auðvitað gat enginn gert það.

Hugsuður sagði: „Orð sannfæra ekki alltaf, en einfaldasta dæmið getur sýnt fram á örlæti náttúrunnar. Náttúran endurtekur sig ekki í dýrð sinni. Lögmálið er eitt, en tjáningar þess eru óteljandi. Þú gætir ekki endurtekið formin af mörgum ástæðum, en aðallega vegna þess að kosmískar aðstæður höfðu þegar breyst.

„Slík fíngerð afbrigði ættu að veita þér gleði, því þau gefa til kynna að möguleikar þínir séu óendanlegir. Allt er á hreyfingu og ekkert endurtekur sig. Þessu lögmáli verður að beita alla ævi.

„Ég gef þér þetta ráð núna, en það mun aðeins hafa gildi ef þú beitir því strax. Það er varla nokkur ávinningur af lyfjum sem tekið er ári eftir að því er ávísað. Í leynilegum skjalasafni má finna mörg dæmi um ónýtta ráðgjöf. Veiðimanninum er bent á: „Fljótt, ekki missa af fuglinum!“ En höndin tefst og örin missir marks og veldur jafnvel skaða þar sem ekki var ætlað.

„Ef fólk áttaði sig á lögmálinu um sérstöðuna myndi það fljótt þróast í sjálfsfullkomnun. Hinir dauðu vitsmunir hvísla að hver dagur sé endurtekning á þeim fyrri. Maður heyrir stöðugt svona kvartanir en hvert augnablik er öðruvísi. Vitund þín getur aldrei snúið aftur til fyrra ástands; jafnvel þegar um hrörnandi vitund er að ræða, mun hún dragast aftur úr, en ekki á sama hátt. Óendanleiki er bæði í stórheimi og örheimi. Jafnvel söng er ekki hægt að endurtaka nákvæmlega, því aðstæður verða mismunandi hverju sinni. Ef þú ferð aftur til borgar þar sem þú hefur ekki verið í mörg ár, mun allt líta öðruvísi út. Vitund þín mun aldrei geta afritað fyrra ástandið. Sumt fólk finnur fyrir vanlíðan þegar það hugsar um óendurtakalegt efni, en vitur maður mun gleðjast, því hann skynjar hreyfingu.“

Þannig kom Hugsuðurinn með hvatningu. Maður getur séð heildarbeitingu þessara undirstöður í Bræðralaginu. Ég vitna fyrir þig í orð Hugsuðarins, vegna þess að þú veist hvernig hann vann fyrir bræðralagið.

Ef einhver segir: „Ég vil aðeins fylgja kenningu Pílagrímsins mikla,“ mun hann takmarka framfarir sínar. En við kunnum að meta að hann elskaði Pílagríminn mikla af öllu hjarta, því hjartað er óþrjótandi. Er rétt að bæla niður slíkan flutning hjartans þegar þú veist um það starf sem unnið er í þágu mannkyns?

Fullkomin trúmennska, algjör hetjudáð, fylltu andann eindreginni sjálfsafneitun. Vængir sjálfsafneitunar munu bera okkur til Bræðralagsins.

220. Urusvati veit hversu mikið Við erum í sambandi við fíngerða heiminn. Til að fá fulla þekkingu er nauðsynlegt að vera í sambandi við hin ýmsu svið. Mikill misskilningur hefur vaxið í kringum hugmyndina um fíngerða heiminn, og þá sérstaklega hugtakið, sérstöðu, sem er það sama í fíngerða heiminum og á jörðinni.

Það eru margar lýsingar á fíngerða heiminum, en þær eru allar takmarkaðar af einstaklingsbundinni upplifun áhorfandans. Þannig talar einn maður um lægsta stigið, um næstum voðalega drauga; annar lýsir sofandi skuggum; þriðjungur finnur algjör líkindi við efnisheiminn; og sá fjórði fjallar um lýsandi líkama. Þeir lýsa allir því sem þeir hafa séð, en skynjun þeirra var takmörkuð, sem olli því að þeir héldu að sitt sviðslag væri allur fíngerði heimurinn. Vegna þessarar villu deila menn og saka hver annan um lygar. Ef þeir gætu skilið margbreytileika fíngerða heimsins myndu þeir gera sér grein fyrir hversu gagnlegt það væri fyrir þá að leitast til hærri sviða.

Fyrir ákveðna persónugerð, er ekkert þess virði fyrir hana hér á jörðinni og því hefur hún enga ástæðu til að lifa. Hins vegar, ef slíkar hugsanir fylgja með inn í fíngerða heiminn, mun sama aðgerðalausa tilveran halda áfram þar. Ef fólk takmarkar hugmynd sína um fíngerða heiminn með jarðneskri reynslu sinni, mun það koma í veg fyrir að það öðlist nýja reynslu. Fáir hugsa um hærri heima og flestir myndu óttast útgeislun efnisljóssins, Materia Lucida. Möguleikinn á að hugsunin verði ákafari hræðir hinn takmarkaða huga. Á meðan þeir eru enn á jörðinni ættu menn að benda sjálfum sér á hvar þeir vilja halda áfram framförum sínum. Þeir verða að einbeita sér að frjálsum vilja sínum, svo að hugsun þeirra virki sem boðberi sem gerir ráðstafanir í fíngerða heiminum.

Hugsuðurinn var vanur að segja: „Láttu hugsun þína fljúga á undan þér og undirbúa næsta fallega bústað þinn.

221. Urusvati veit að á jörðinni er fólk stöðugt umkringt fíngerðum verum. Venjulega tekur það ekki eftir þeim, en finna stundum fyrir þeim sem loftblæstri eða léttum snertingum og einstaka sinnum sér það svokallaða drauga. En við verðum að benda á að burtséð frá slíkum ytri skynjunum, finnur sérhver næm manneskja fyrir innri skjálfta og taugaörvun eða þunglyndi af völdum nálgunar fíngerðra aðila.

Dýr, og sérstaklega hundar, skynja nærveru sterkra fíngerðra vera. Spyrja má hvort þeir skynji þær aðallega með sjón eða lykt. Sjón þeirra er ekki eins skýr og þefnæmnin, sem er mjög nákvæm. Það má líka spyrja hvaða hundategund hefur mesta tilfinningu fyrir fíngerða heiminum - auðvitað langhærðir, því þeir geta safnað meiri rafhleðslu. Á sama hátt getur fólk sem safnar meiri rafhleðslu skynjað betur nærveru fíngerðra vera, hvort sem er á nóttu eða degi.

Maður ætti ekki að telja birtingarmyndir fíngerða heimsins óvenjulegar. Allir sem búa yfir næmri móttöku geta við réttar aðstæður skynjað nærveru íbúa fíngerða heimsins. Birting sumra þeirra getur getur valdið óróa og þó sendingar viljans hjálpi til við að hrekja þær frá og verður að gerast tafarlaust, því ef augnabliks ótti er leyfður er ekki hægt að safna viljanum síðar.

Hugsuðurinn vissi að viljinn verður að vera að fullu reiðubúinn. Hann var vanur að segja: „Verndarsverðið er öllum gefið, og vitum hvernig á að nota það án tafar.“

222. Urusvati veit hvernig stundum eitt orð getur afbakað alla kenninguna um kosmosinn. Heimspekingurinn sagði við borgarana: „Þið ættuð að finna að jörðin er eins og miðja alheimsins, þá munuð þið átta ykkur á allri skyldu og ábyrgð mannsins. En fylgjendur hans misskildu eitt af orðum hans og allt önnur hugmynd varð til um heiminn.

Einnig má nefna mörg dæmi um hvernig fólk hefur afbakað kjarna fræðsluna, vegna þess að orð hafa mismunandi merkingu á mismunandi tungumálum. Það hafa alltaf verið til óteljandi mállýskur, þar sem jafnvel nágrannaættir nota eigin orðatiltæki. Áður fyrr voru líka til svokölluð heilög mál, sem voru notuð af prestum og æðstu stjórnendum. Ákveðin heilög orð fóru inn í hið almenna tungumál og voru ranglega notuð. Þannig hefur hnignun tungumála átt sér stað á öllum öldum.

Maður ætti ekki að afsaka óverðug verk vegna tungumála misskilnings. Því miður eru skammarleg verk afleiðing ills vilja og öfundar. Ef menn skoða ástæður fyrir ofsóknum á hendur bestu hugum ólíkra þjóða og bera saman ástæður ofsókna og brottvísunar Pýþagórasar, Anaxagórasar, Sókratesar, Plató og annarra, má sjá að í hverju tilviki voru ásakanir og ástæður fyrir brottrekstri nánast ástæðulausar. En á næstu öldum kom full sýknun, eins og aldrei hefði verið nein ærumeiðing. Rétt væri að draga þá ályktun að slíkir samstarfsmenn voru of upphafnir fyrir meðvitund samtímamanna sinna og sverð böðulsins var alltaf reiðubúið til höggs. Perikles var fyrst þekktur á sínum tíma eftir að fólk hafði lítillækkaðan hann. Aðeins þá gátu samborgarar hans samþykkt hann sem jafningja!

Það ætti að skrifa bók um orsakir ofsókna gegn miklum einstaklingum. Með því að bera saman orsakir er hægt að rekja illa viljann. Ég ráðlegg þér að skrifa slíka bók. Láttu einhvern gera það! Með rannsóknum verður hægt að uppgötva innri líkindin á milli ofsókna Konfúsíusar og Seneku. Bræður Okkar og systur urðu fyrir ofsóknum og minningar Okkar varðveitir marga slíka atburði. Hægt er að nefna Jóhönnu af Örk, Aspasíu og langan lista glæsilegra kvenhetja frá ýmsum öldum. Við sjáum ekki eftir að hafa lent í slíkum prófraunum, en það er þörf á að velta þeim fyrir sér, því hver ofsókn seinkar brýnni áætlun. En jafnvel þessu snúum Við til góðs.

Hugsuðurinn var vanur að segja: „Ég velti því fyrir mér, ofsækir þú mig eða knýrð mig áfram?

223. Urusvati veit að mannleg vitund er mynduð úr fíngerðri uppsöfnun. Það mun virðast næstum of einfalt ef Við segjum þér að hverri jarðvist, eins og lyfi, er ætlað að lækna ákveðna óheilbrigða eiginleika einstaklingsins. Hvíti liturinn kann að virðast einfaldur, en þó ber hann í sér alla liti. Það gæti komið þér á óvart að fylgjast með seinni jarðvistunum, sem eru algjörlegar andstæður, en án nægjanlegrar slípunar fær dýrmætur steinn engan ljóma. Þannig ættu allir að muna hversu erfitt það er að dýpka vitundina.

Sérstaklega er grátlegt að sjá hvernig sumir grunnhyggir menn í yfirlæti sínu, ímynda sér að þeir hafi náð markmiðinu. Maður getur lesið margar bækur, en lestur er ekki ástundun. Við ráðleggjum þér að fylgjast með birtingarmyndum náttúrunnar, sem sýnir margbreytileika tilverunnar í heild sinni.

Maðurinn nýtir sjaldan uppsöfnun fyrri lífa. Oft tekur lítil hætta á sig mynd skelfilegs skrímslis og manneskja breytist úr reyndri vitneskju í hundeltan flóttamann. Hann gleymir því að skrímslið sem hann skapaði sjálfur, mun halda áfram að stækka og að fyrr eða síðar verður hann að horfast í augu við það og eyða því. Leiðsögumennirnir sem maðurinn hittir í fíngerða heiminum ráðleggja honum að losa sig eins fljótt og auðið er frá eigin sköpun, en ef hann er fullur af jarðneskum takmörkunum mun hann hafna ráðinu. Þess vegna er það afar mikilvægt á jarðnesku lífi manns að þekkja þessa fíngerðu tilveru.

Hugurinn getur aðeins starfað skýrt í fíngerða heiminum ef hann var nægilega reyndur í líkamlega heiminum. Þú manst hvernig einhver sem var nýkominn inn í fíngerða heiminn var hjálparvana og gat ekki einu sinni smíðað flík fyrir sjálfan sig vegna þess að hann hafði misst skýrleika hugsunar sinnar, sem aðeins er hægt að varðveita með frjálsum vilja. Ef maður skilur nákvæmlega hverju hann þarf að ná, þá verða ráðleggingar leiðsögumannsins teknar gildar. Leiðsögumaðurinn nálgast þá sem hafa eyrun opin.

Þú veist núna hversu oft systur Okkar og bræður heimsækja fíngerða heiminn. Þau gera þetta fyrst og fremst til að hjálpa þeim sem eru undir eftirliti, og í öðru lagi til að beita stöðugt fíngerðri orku sinni á ýmsum sviðum, því þetta hjálpar manni að finna sig heima alls staðar.

Það má sjá að maður sem talar af tilfinningu getur sigrast á náttúrulegum hindrunum, en um leið og innblástur er horfinn koma gallar hans aftur. Á sama hátt getur andlegur eldmóður manns orðið samfelldur og eins og vængir munu bera mann til leiðsögumannsins. Við getum unnið best þar sem logi er og því varað við ótta, þunglyndi og örvæntingu, sem eins og rök kol, geta ekki framkallað nauðsynlegan eld. Þessi samanburður kom frá Hugsuðinum, sem bjó yfir ótrúlegum hæfileika til að eyða þunglyndi. Bræðralagið þarf slíka hæfileika, bæði fyrir líkamlega og fíngerða heiminn. Það sem við segjum núna hefur náin tengsl við líf bræðralagsins.

224. Urusvati veit að hugsanaflutningur yfir langar vegalengdir krefst sjálfsafneitunar. Engin mannleg hugsun getur horfið í geimnum, en það er mikill munur á hugsun sem flýgur út án tilgangs og þeirri sem send er með ákveðnu markmiði. Síðari boðskapurinn mun fara í gegnum ýmis svið og verða fyrir mörgum áhrifum. Ímyndaðu þér leið slíkrar hugsunar, eins og um útvarpsskilaboð væri að ræða - margar aðstæður geta sett hana í hættu og það geta jafnvel verið snertingar sem valda hörmungum. Það getur jafnvel átt sér stað skammhlaup á straumum sem veldur þjáningum fyrir sendandann. Tilgangur athugasemda Okkar er að minna þig á að þótt verkefni Hugsuðarins hafi í raun ekki verið auðvelt, þá var árangurinn frábær.

Það er sagt að hugsunin hljómi í geimnum. Þetta ber að skilja bókstaflega. Þú heyrðir hljómandi strengi og silfurbjöllur. Spenna hugsunarinnar framkallar hljóð um allan geiminn. Það eru margar goðsagnir um atburði sem báru hljóðbirtingu á undan sér. Það er rétt - einmitt fyrir stórviðburði gæti slík birtingarmynd hugsunar heyrst.

Það eru ekki atburðir sem hljóma, heldur auknar hugsanir sem fylgja þeim, sem geta komið frá jarðneskri uppsprettu eða verið varpað frá fíngerða heiminum. Efni hugsunar er alls staðar eins og virkar sem tengiband milli heimanna. Maður ætti að gefa gaum að birtingarmyndum hljóðs og bera þær saman við atburði.

Hugsuðurinn sagði: „Eftir mikla umhugsun er ég sannfærður um að ég lifi í tveimur heimum. Maður getur fylgst með tvíþættu eðli hlutanna, grófu og fínlegu. Láttu eyrun læra að greina himinhljóð. Lúðrar geta gert mann heyrnarlausa, en ómandi geimur hrífur hjartað.“

225. Urusvati veit að stundum nær titringur geimsins slíkri spennu að hann verða eins og líkamlegur skjálfti. Þó að það sé erfitt fyrir flesta að greina slíka titring, þá finnst hann sérstaklega í Okkar dvalarstað og allir sem eru stilltir inn á Okkur finna fyrir þessum auknu titringi.

Fólk talar oft um samræmi vísinda og andlegheita, en skilningur á tengingu þessara tveggja hugtaka er enn óljós. Þeir verða að vera tengdir með sérstökum loga sem Við köllum upphafningu. Án þess eldmóðs er ekki aðeins þekking heldur jafnvel andlegheit dauð og ótengd.

Ekki vera hissa á því að það geti verið til eitthvað sem heitir „dauð andlegheit“. Sannarlega er slíkt ástand til. Við rekumst oft á fólk sem hefur alla andlega hæfileika, en er samt kalt og óvirkt í lífinu. Hvaða ávinningur er af andlegheitum sem áunnin voru áður? Eins og súrmjólk er hægt að búa til margar vörur úr henni, en það er ómögulegt að koma henni aftur í upprunalegt horf.

Sama á einnig við um þekkingu sem ætti ekki að vera vélræn eða takmörkuð. Ég endurtek að eldur upphafningar er besta tengibrúin, sem einnig þjónar sem jafnvægiskraftur innan um storma geimsins.

Þegar hugsuður var vanur að endurtaka: „Vertu ekki hræddur, flýðu ekki frá jarðneskum truflunum,“ vissi hann mikilvægi upphafningar.

226. Urusvati veit að jafnvel í jarðnesku lífi getur maður yfirunnið tímaskynið. Þegar maður er djúpt hugsi hættir tíminn að vera til. Við höfum alltaf minnt þig á að hugsunin gleypir tímanum.

Með hugarstjórn getur maður auðveldlega áttað sig á aðstæðum á hærri sviðum fíngerða heimsins og sigrast á tímanum. Efld hugsun er besta hreinsun lífkerfis mannsins. Ef þú hittir vísindamenn sem eru við slæma heilsu, þá er rétt að álykta að hugsun þeirra sé brengluð og að geta þeirra til að hugsa óhlutbundið sé ekki jafngild öðrum hliðum lífs þeirra. Ef þeir gætu náð sterku huglægu lífi myndu þeir ekki aðeins njóta framúrskarandi heilsu, heldur gætu þeir einnig sigrast á tímaskyninu.

Það er ekkert nýtt í þessu. „Nýtt“ er í rauninni ekki til, - annað hvort er um að ræða gleymdan sannleik eða enn óuppgötvaðan sannleik. Enginn getur fullyrt að hann hafi fært heiminum eitthvað nýtt, því aðeins augnablikinu áður gæti einhver hafa varpað þeirri hugsun út í geiminn. Fólk ætti ekki að keppast við að vera frumkvætt, heldur ætti að þjálfa sig í að hugsa um hið gagnlega og fallega. Það væri betra að velta fyrir sér nauðsynjum og hvernig hægt er að leggja sem mest gagns til heimsins. Gagnlegustu hugsanirnar eru þær sem eru tileinkaðar fegurð. Ljótt er ekki viðeigandi fyrir þróun.

Hugsuðurinn lýsti því yfir að fegurðin væri mikilvægust og kraftur hans til að sannfæra marga um þetta var mikill.

227. Urusvati veit að markmiðshæfni og þakklæti eru meðal nauðsynlegustu undirstoða bræðralagsins. Það er ósanngjarnt að halda að Bræðralagið myndi þiggja þjónustu einhvers og henda honum síðar eins og útslitinni flík. Ef samstarfsmaður reynist hjálpsamur og svíkur aldrei, verður honum örugglega ekki hafnað. Slíkur samstarfsmaður er vel þeginn og mun hljóta viðurkenningar. Hins vegar getur viðurkenning verið mismunandi og ekki er alltaf tekið eftir henni. Skoðaðu vitund þeirra sem búast við tákni um þakklæti og þú munt vera undrandi að sjá að, líkt og barnið sem kýs glansandi leikfang fremur en verðugan hlut, eru falsir gimsteinar valdir. Í mörgum býr leynileg löngun til að fá inngöngu í Bræðralagið með þá hugmynd að fá gnægð gulls þaðan! Slíkt fólk gerir engan greinarmun á Bræðralaginu og basar.

Öfgar búa oft í sama persónuleikanum. Annars vegar getur maðurinn verið tilbúinn fyrir hærri skynjun, en hins vegar sér hann Okkur sem viðskiptamenn og bíður eftirvæntingarfullur eftir að fá smápening. Slíkur maður gleymir því, að aðeins markmiðshæfni getur tryggt hærri skynjun. Eins og eldflugur gefur hann aðeins hverfult ljós, rennur svo aftur saman við myrkrið og er svo sannarlega langt frá markmiðinu.

Svo mörg lastmæli eru sögð í heiminum, en samt halda menn að rógburður þeirra geti verið refsilaus. Hvert og eitt ykkar man eftir tíma þegar hæstu hugtök voru rægð í návist ykkar. Ekki aðeins munnlega heldur líka huglægt, hollustuböndin rofna og hver sprenging hefur í för með sér eyðileggingu góðrar útgeislunar.

Þú getur séð að þennan sannleik þarf að endurtaka. Þú hefur orðið vitni að því hvernig fólk leitaði til þín af eiginhagsmunum, en þorði samt að bera orðið „bræðralag“ fram. Þegar maður verður vitni að slíkri hegðun má með réttu álykta að lífi Bræðralagsins ætti aðeins að lýsa með lotningu.

Slægt fólk mun hnýsast: „Segðu okkur, hvað borða þau? Hvernig eyða þeir tíma sínum? Hverja hitta þeir? Er mögulegt að þeir stjórni verðinu á markaðnum? Segðu okkur allt um Bræðralagið í smáatriðum og við munum skemmta okkur með því að útvarpa því.“

Reyndar kunnum við að meta þá fáu sem þegja frekar en að útvarpa óskynsamlega.

Hugsuðinum var sérstaklega umhugað um skynsamlega miðlun fræðsluna og beitti ströngum aga, til að koma í veg fyrir að orðið næði til þeirra sem ekki voru tilbúnir til að taka við því. Litið var á heimskan predikara eins og hann væri heltekinn og oft var hann það.

Hugsuðinum var líka mjög umhugað um að skýra mikilvægi þakklætis og líkti því við vökvun í garði.

Hann sagði: „Hvert tré getur verið kát eða sorglegt. Við gætum gert ráð fyrir að þetta sé bara endurspeglun á okkar eigin skapi, en hversu mikið skiljum við raunverulega næmni náttúrunnar?

228. Urusvati veit að margir merkilegir atburðir líða óséður hjá vegna þess að meðvitundin getur ekki skráð þá. Það sama gerist við vísindalegar tilraunir. Athuganir á hugsunarflutningi í fjarlægð verða takmarkaðar og yfirborðskenndar ef ekki er tekið tillit til taugaástands þeirra sem eru viðstaddir. Það er ekki nóg að fólk komi saman á ákveðnum stað á sama tíma; það er líka nauðsynlegt að viðhalda samhljómi og forðast pirring.

Það er heldur ekki nóg að fullvissa hvert annað um að allir séu algjörlega rólegir. Hvernig getur maður vonast til að ná jákvæðum árangri í tilraun þegar maður er að pirringur sýður innra með sér? Þegar þörf er á aukinni orku verður maður að skilja hættuna á pirringi og kvíða, sem virka eins og hindranir sem koma í veg fyrir flæði vatns í læk. Tilraunamenn taka ekki eftir pirringi né gera sér grein fyrir því að slíkt hugarástand hefur áhrif á allan hópinn. Fáir skilja að það að sóa orku annars er glæpur gegn viðkomandi. Á maðurinn rétt á að krefjast eign annars með þessum hætti?

Í mörgum tilfellum líta menn framhjá nauðsynlegum skilyrðum við tilraunir og kvarta síðan yfir því að það mikilvægasta hafi ekki komið í ljós; þegar Við sendum fjölda birtingar voru þær kenndar við tilviljun!

Hugsuðurinn sagði: „Maðurinn getur ekki séð eða heyrt nema hann sé laus við fordóma.

229. Urusvati veit um virkni karmalögmálsins. Maður getur séð að karma nær ekki aðeins þeim sem fremja glæpi, heldur einnig þeim sem taka þátt í glæpum óbeint. Það er sannleikur í orðatiltækinu, að fyrir glæp eins manns þjáist heil þjóð. Það er ekki aðeins hvötin sem sameinar þátttakendur í glæpum heldur sameina þættir í eðli þeirra þá líka. Hver getur sagt um blóðtengls eða dæmt um hversu mikil þátttaka er? Sumir kunna að hafa hvatt glæpamanninn munnlega, aðrir huglægt. Hver getur skilgreint þetta eða ákvarðað meginorsökina?

Fáir kæra sig um að hugsa um umfang áhrifa karma, eða að leita í eigin kaleik uppsöfnunar til að uppgötva hvernig og hvenær þeir hafa tekið þátt í glæpum. Við getum aðeins minnt á lögmálið, en frjáls vilji verður að velja sér leið.

Urusvati heyrir oft um ótta systur O., sem syrgir þegar hún sér hið grimma karma skapað af þeim sem hugsa ekki um gjörðir sínar.

Fólk hefur orðið mjög hrifið af orðinu „karma“. Það er nú endurtekið víða um heim, en fáir hafa lært merkingu þess. Þeir tala frjálslega um Karmalögmálið, en, því miður, gera ekkert til að frelsa sig. Þeir trúa því staðfastlega að einhvers staðar séu til Karmadrottnar, sem munu vera nógu góðir til að frelsa þá frá jafnvel alvarlegustu örlögum!

Fáir skilja að ekki er hægt að breyta áhrifum lögmálsins án gagnkvæmrar viðleitni. Maðurinn er alltaf tilbúinn til að búa til sársaukafullt karma með hugsun og athöfnum, en samt vonast hann til, að með einhverju kraftaverki handan fjallanna verði hann frelsaður frá alvarlegum afleiðingum þess.

Fólk hljómar eins og börn þegar rætt er um karma og ætlast til að einhver annar taki ábyrgð á hegðun sinni. Það safnar karma í blindni, er síðan fullt reiði og kvartanna og eflir aðeins straum áhrifanna. Meðal athafna Okkar, er mikilvægur sess gefinn til að fylgjast með karma fólks sem fylgir þeim á vegi þeirra. Við getum ekki breytt lögmálinu, en innan marka möguleikans erum við tilbúin að gefa í skyn betri leið.

Á mörgum æviskeiðum sínum þreyttist Hugsuðurinn aldrei á að vara fólk við. Margir hlýddu á vandlega viðvaranir hans, en fáir skildu ráð hans. Hugsuðurinn brosti sorgmæddur þegar hann hlustaði á fólk ræða karma. Stundum sagði hann: „Betra væri fyrir þig að ræða þetta lögmál minna og lifa hreinna.

230. Urusvati þekkir hin ýmsu stig viðbragða. Hugsuðurinn sagði: "Þú getur hellt eitruðu lausninni úr sléttasta glasinu, en þó verða leifar af eitrinu eftir á hliðum glassins." Hann sagði einnig: „Ein rispa getur valdið miklum blæðingum en önnur getur verið nánast ómerkjanleg. Samt getur enginn sagt hvaða rispa verður uppspretta sýkingar.“

Á sama hátt fylgjumst Við með sárunum sem ekki blæða, sem eru hættulegri en þau sem blæða mikið. Menn kunna að særa án hnífs; slík sár er erfitt að græða. Það eru ljóðræn verk tileinkuð blóðlausum sárum. Við þekkjum slík sár og erum tilbúin að senda líknandi titring Okkar. Reyndur læknir tekur sérstaklega eftir sárinu sem blæðir ekki og fylgist vel með því hvernig ýmiss konar aðstæður einstaklina geta haft áhrif á lyfjanotkun.

Þannig gefur lífið sjálft okkur dæmi um fjölbreytileika áhrifa og viðbragða. Móttökuleika í hugrænni sefjun er lítill gaumur gefinn. Stutt orð getur haft mikil áhrif, en langlokuræða skilur eftir sig engin áhrif.

Hugsuðurinn sagði: „Þegar þú vilt þrífa húsið þitt, skaltu ekki einungis þrífa nokkra hluti, heldur skrúbba allt húsið. Í samfélagi ætti maður sérstaklega að hlýða slíkum ráðleggingum. Margir dropar af eitri sitja eftir í botni kaleiks manna þó þeir haldi að allt eitrið hafi verið tæmt. Við fjarlægjum oft svona eitraða dropa. Sumir munu brosa og segja: "Aðeins dropar?" En jafnvel dropi af ákveðnu eitri getur verið banvænt.

231. Urusvati veit að jafnvel á erfiðum dögum skapar gleðin kraft. Fyrir löngu sögðum Við að gleði væri sérstök speki. Sannarlega, gleði verður að viðurkenna og skilja. Þungbúið fólk er þrungið vandræðum og sorgum og það getur ekki fundið gleði. Sorgmæði blindar menn og þeir missa styrk og geta ekki hjálpað sér sjálfir. Þeir geta heldur ekki fengið hjálp Okkar, því þunglyndi og pirringur hindra veginn. Það er eins og enginn hafi sagt þeim frá skaðsemi þunglyndis.

Þunglynd fólk er talið ógæfulegt. Hugsaðu um þetta síðasta orð. Hefur einhver svipt þessu fólki gæfu sínum? Það missti af eigin sökum, öllum góðum möguleikum og hóf sína eigin ógæfu fyrir löngu. Óánægja, illgirni og pirringur skera veginn til gleðinnar og dimmar hugsanir þeirra rændu þá uppsprettu styrksins. Sjálfshyggja kom í veg fyrir að þeir þekktu gleðina og hvíslaði: „Gleðin felst aðeins í persónulegum ávinningi.“ Þannig getur frjósamasta gleði leynst undir ljótu skjóli vonleysis. Þeir sem blindaðir eru af vonleysi eru svo sannarlega aumkunarverðasta fólkið.

Maðurinn býr yfir þeirri miklu gjöf að þekkja gleðina. Háa ennið sem honum var gefið er merki um háleitar vonir. Fjarlægir heimar og allt niður í minnstu blómagleði stendur fólki til boða. Nýr styrkur kemur til þín í hvert sinn sem þú leyfir þér að vera glaður, því það er styrkur í gleði sem opnar næsta hlið.

Hver gaf fólki rétt til að telja sig að eilífu ógæfulegt? Fáfræði var uppspretta þessarar lyga. En vís hetja veit að jafnvel á ofsóknastund er leiðin til gleði ekki lokuð. Fólk gleymir þeim einfalda sannleika að allt er á endalausri hreyfingu. Sorgin mun gleymast, en gleðineistar skína að eilífu.

Líf okkar er langt og Við getum staðfest að gleði gleymist aldrei og er endalaus uppspretta krafts. Sælir eru þeir sem geta tekið gleði sína inn í fíngerða heiminn. Þegar við segjum: „Gleði flýtir,“ gerist það í raun. En oft tekur fólk ekki eftir gleðinni, því það hefur bundið sig með vísvitandi sjálfsefjun. Þannig missir gleðin mátt sinn. Leitaðu alls staðar og safnaðu öllum gleðineistum.

Hugsuðurinn kenndi: „Vitið hvernig á að þekkja gleðina. Meðal listgyðjanna er gyðja gleðinnar, en þú getur aðeins boðið þessari verndargyðju fögur orð og huganir. Reyndu ekki að hóta og krefjast, því að hún kemur aðeins eftir vegi fegurðarinnar.“

232. Urusvati veit hvað vígsla er. Það er mikill ruglingur um þetta hugtak. Sumir halda að vígsla sé þekkingaröflun, en hún er aðeins leið. Aðrir halda að hollustan í sjálfu sér sé vígsla, en það er líka aðeins leið. Enn aðrir halda því fram að það að vígjast sé að gæta leyndarmáls, jafnvel það er aðeins leið.

Vígsla er að þora að nálgast ímynd ljóssins og óttast ekki að horfa á það. Að sameinast ljósinu krefst hugrekkis og mikillar sjálfsafneitunar; þetta óttaleysi er í sjálfu sér fögur vígsla.

Fræðarinn miðlar mörgum viturlegum sannindum, en að lokum mun hann segja: "Gakktu nú einn, án ótta." Það er þörf á sérstakri vitundarspennu undir lok leiðarinnar. Vitsmunaleg þekking brotnar upp og hverfur og pílagrímurinn situr einn eftir á klettum uppgöngunnar. Aðeins hjartaloginn getur vermt þegar umvafin klæðin hafa verið rifin af í storminum. Raddir heyrast en þær líkjast ekki kalli hins elskaða. Vertu viðbúinn því að horfast í augu við ljósið og þiggja það án ótta.

Það er óleyfilegt að tala á markaðstorgi um vitund ljóssins. Innvígður mun ekki gefa upp dýrmæta reynslu sína. Enginn getur þvingað hann til að segja hið ósagða. Þetta er munurinn á hinum vígða og blekkingarmeistaranum, sem kann að lyfta augum og syngja ljúflega um sýn sem hann einn getur skynjað. Sannir boðberar eru ekki málglaðir.

Hugsandinn bjóst við að lærisveinar hans bæru vandlega það sem þeim hafði verið trúað fyrir, allt til enda. Hann skildi eins og Sókrates gerði, mikilvægi sannleikans. Hann sagði: „Sannleikurinn krefst traustrar geymslu. Gerðu þig að fjársjóðskistu!“

233. Urusvati þekkir margs konar aðstæður sem kunna að tengjast jarðvistum manns. Hugsuðurinn sagði: „Einu sinni flutti mikill leiðtogi frábæra ræðu og þegar hann hafði lokið máli sínu tók hann til að leita að einhverju við fætur sér. Einfaldur silfurhringur hafði fallið af fingri hans. Fólk brosti og benti honum á að hætta að leita að svo ómerkilegum og lítils virðum hlut, en leiðtoginn sagði: „Þið vitið ekki uppruna þessa hrings. Kannski var öll ræðan flutt vegna hans.’“

Og svo getur það gerst með jarðvist. Fólk gæti þurft að snúa aftur bara til að finna lítinn hring sem er mjög mikilvægur fyrir það, en ekki eins mikils virði fyrir aðra. Fólk getur ekki skilið hvers vegna sumum miklum jarðvistum fylgir að því að virðast ómerkilegar, en hver getur sagt hvaða verðmæta hlut þarf að finna á erfiðri ferð? Oft, á leið sjálfsfullkomnun, þarf lítinn dýrmætan stein sem virðist óverulegur, en er mikils virði. Ýmsar jarðvistir benda til þess að mikilvægt verkefni verði að framkvæma í þágu almennrar þróunar.

Það eru margar ástæður fyrir því að við upplýsum sjaldan um einstaka jarðvist. Flestir geta ekki borið slíka þekkingu og munu ekki sannfærast um margt. Til dæmis skilja þeir ekki hvers vegna sumir einstaklingar hittast oft í jarðlífum og aðrir aðeins eftir þúsundir ára, en samt er nánd þeirra áfram í fullum styrk. Fólk hefur ekki lært að fyrir utan beina nánd geta verið að sambönd byggist á öðrum tilfinningum. Þótt bein nánd kunni ekki að vera til staðar, eru bönd mikillar virðingar, vináttu og þakklætis í fullu gildi.

Þú verður að muna að titringur getur laðað að eða hrakið fólk og þú ættir að fylgjast með slíku aðdráttarafli og fráhrindingu af mikilli athygli. Mikið hefur verið skrifað um þetta, en ekki nægilega beitt í lífinu. Við ættum ekki að dæma stórt og smátt eftir jarðneskum mælikvarða. Oft er eitt lítið fræ meira virði en heil heysáta.

Við skulum læra að gleðjast yfir hverju hærra stigi upphafningar; það færir okkur nær bræðralaginu.

234. Urusvati veit hversu mikið Við hvetjum til vísindalegra tilrauna. Þegar þú ert spurður hvernig maður ætti að líta á tilraunina með eldflaug til tunglsins skaltu svara: "Með virðingu."

Að vísu vitum við að vísindamenn munu ekki fá þær niðurstöður sem þeir vonast eftir, en engu að síður verða gagnlegar athuganir. Maður gæti vonað að hugur þeirra myndi snúast að fíngerða heiminum og að vísindamenn yrðu þá að komast að mörgum nýjum niðurstöðum. Þeir myndu gera sér grein fyrir því að aðeins með flugi fíngerða líkamans geta þeir fengið þær upplýsingar sem þeir leita að.

Við skulum benda á að fólk kemst að sannleikanum á marga mismunandi vegu. Sumir kunna að fara stystu leiðina, en aðrir þurfa að byggja Babelsturn og búa til flóknar formúlur til að komast að einfaldri niðurstöðu.

Við erum ekki á móti jafnvel flóknustu tilraunum. Hver og einn hefur sitt eðli og finnur sína eigin leið og það væri mistök að beina fólki aðeins að einni aðferð. Það eru tilvik þegar sálin færir fjarlægar minningar inn í nýtt líf og reynir að beita þeim. Leyfðu fólki að gera tilraunir eins og það vill! Jafnvel með því að skjóta eldflaug í átt að stjörnunum mun hugsanir manns beinast að þessum heimum. Það er ekki skynsamlegt að trufla hugsunarstrauminn.

Aftur og aftur hefur maðurinn reynt að endurvekja hinar fornu ritningar. Á öllum öldum hefur viðleitni hans jafnt og þétt verið beint að þessu verkefni, jafnvel þó að hann hafi notað mismunandi tungumál og búið á mismunandi stöðum.

Hugsuðurinn var vanur að segja: "Stundum horfir þú á mig með augum margra alda!"

235. Urusvati veit að stjörnufræði er tilgangslaus án þekkingar á sálarorku og fíngerðum líkama. Þegar rætt er um hina fjarlægu heima ættu menn að hætta að nota jarðneskar mælingar.

Maður getur verið að drukkna í stjarnfræðilegum útreikningum, en samt ekki verið nær fjarlægum heimum. Jafnvel litrófsgreining er háð nákvæmni við margar aðstæður og vélræn tæki eru gagnslaus í samskiptum við fjarlæga heima. Af milljörðum himintungla er aðeins hægt að finna þúsundir og jafnvel öflugasti sjónaukinn verður til lítils þegar hann stendur frammi fyrir óendanleikanum.

Engu að síður skulum við umgangast hvert vísindaverkefni af virðingu, en við verðum að bæta sálarkrafti við þekkingu okkar. Stjörnurannsóknarstöðvar ættu að hafa áreiðanlega skyggnimiðla. Vélræn og sálræn ferli ættu að vera sameinuð og við ættum ekki að vera pirruð ef tilnefnd samvinna krefst ítarlegrar samhæfingar og eftirlits til að tryggja nákvæmni. Sérhver tilraun krefst staðfestingar og leiðir af sér nýjar hugmyndir, sem í sjálfu sér er gagnlegt. Slíkar tilraunir voru þegar gerðar í Babýlon og Egyptalandi; þó var ekki hægt að ná fram sannri samhæfingu á þeim tímum þar sem vélræn vísindi voru ekki háþróuð og gátu ekki verið að gagni við sálarrannsóknir.

Störfin í Turninum Okkar eru byggð á samræmi tveggja meginreglna, hinu efnislega og andlega. Aðeins þannig er hægt að komast að réttum niðurstöðum. Það er erfitt að ímynda sér hversu flókin skilyrði eru á milli pláneta. Flugtæknin á fyrstu stigum þess stóð frammi fyrir óútskýranlegum hindrunum. Ef við höldum áfram nákvæmum athugunum okkar á þessum nótum munum við finna sláandi sönnunargögn. Þannig væri skynsamlega hægt að nýta skyggnimiðla í ákveðnar tilraunir.

Hreint andrúmsloft stuðlar að framleiðslu ákveðinna fyrirbæra og ósýnilegir kraftar framleiða sterk efnahvörf. Plánetugeislarnir, sem virka á þessi efni, búa aftur til endalausar samsetningar. Hvílíkt svið er til fyrir rannsóknir, ef rannsóknarstarfsmennirnir myndu losa sig við fordóma sína!

Hugsuðurinn benti margoft á að hugurinn ætti að sameinast hjartanu. Nemandinn getur ekki verið hjartalaus. Hinn grimmi vísindamaður er fjarri sannleikanum, sá þrjóski er ekki verðugur þekkingar og hinn þunglyndi blindur á fjársjóði náttúrunnar. Ef vísindamaðurinn getur ekki sigrast á takmörkum gærdagsins, væri betra fyrir hann að hætta vísindum.

Ég hef tileinkað Hugsuðunum mörg erindi vegna þess að við verðum að muna þrotlausa vinnu hans. Hann helgaði öldum saman vinnu til að dýpka hugsunina, því án slíkrar fórnfýsi væri ómögulegt að koma hugsunum í svo miklar fjarlægðir. Þess vegna er fáránlegt til þess að hugsa að maður geti lært og náð því á nokkrum árum! Að lokum, það er ekki tíminn sem skiptir máli, heldur hversu mikil eftirvæntingin er.

236. Urusvati veit að stjörnuspeki er notuð í læknisfræði og nokkrir leiðtogar ríkja skoða stjörnumerkin. Maður gæti haldið að þessi vinnubrögð myndu styrkja mikilvægi stjörnuspeki sem vísindi, en í raun er það ekki svo. Þessir stjórnmálamenn viðurkenna ekki að þeir leiti í stjörnuspákort, né segja læknar og dómarar hvernig þeir komast að sumum niðurstöðum sínum. Þeir afla upplýsinganna á laun og gera gys að þeim út á við. Þannig er stjörnuspeki menguð af ljótri nálgun fólks á hana og hræsnisfull nálgun á þessi vísindi styrkist. Hversu miklu skynsamlegra væri það að samþykkja þessi fornu vísindi og staðfesta þau, alveg eins og maður samþykkir nýjustu vísindauppgötvanirnar!

Svo miklu væri hægt að ná, ef augu okkar væru ekki blinduð af fordómum. Hver myndi þá neita því að stjörnuspeki séu vísindi og að það sé fylgni á milli pláneta? Jafnvel frumstæður maður í fjarlægri fortíð gæti skynjað þessi sérstöku andrúmsloftsáhrif. Vísindi virðast staðfesta þetta efnafræðilegu tengingu, en vísindamenn óttast að vera grunaðir um kukl. Vissulega eru til fullt af falsspámönnum sem stofna orðspori stjörnuspeki í hættu, en það eru svik í öllum vísindum, samt hafnar enginn vísindum í heild sinni vegna þessa. Maður verður að tala hreint út til að fjarlægja fordóma úr mannlegri vitund. Margir læknar, stjórnmálamenn og dómarar ráðfæra sig við stjörnuspekinga á laun. Leyfðu þeim að finna hugrekki til að viðurkenna það opinskátt, að minnsta kosti sem tilraun. Þetta mun kynna efnið fyrir almenningi. Fólk þráir þekkingu en það verður að hvetja og hjálpa þeim í nálgun sinni að henni.

Hugsuðurinn kenndi lærisveinum sínum hvernig á að sigrast á bönnum sem voru fyrirmæli af fáfræði. Láttu námið blómstra núna!

237. Urusvati veit að allar hliðar mannlífsins ættu að vera samræmdar. Og þó að það sé alkunna að fólk með mikla hæfileika falli oft fyrir löstum sínum, og sumir jafnvel afsaka slíka hegðun með þeim rökum að snilld feli í sér smá geðveiki, þá spyr enginn hversu miklu meiri sköpunarkraftur þeirra gæti verið án slíkrar eftirlátssemi.

Það má nefna dæmi um alkóhólista sem voru mjög skapandi, en ef til vill hefði starf þeirra verið miklu meira án vímugjafa. Enginn getur sannað að sköpunarkraftur sé háður gerviörvun. Maður ætti að hugsa um þá frábæru skapandi samstarfsmenn, sem vitað er að líf þeirra hefur verið samfellt og án óhófs.

Í fornöld var óhóf kallað „fjötrar helvítis“. Mikill sannleikur liggur að baki þessu orðatiltæki. Gerviörvun er niðurlægjandi og takmarkandi, á meðan innblástur sem fæst náttúrulega er takmarkalaus, því hann fylgir lögmálum óendanleikans.

Þannig minnum við fólk á að hvers kyns ósamræmi er eyðileggjandi. Skortur á skilningi á samræmi gerir lífið ljótt og slík fáfræði er glæpsamleg. Maður getur ekki hugsað um þróun þegar fólk sjálft eyðir grunni lífsins.

Sérstaklega um þessar mundir, á þröskuldi nýrra tíma, verður að hugsa um heilsu þjóðanna. Það kann að virðast að í dag, þegar fólk hefur misst traust hvert á öðru, sé ekki í lagi að tala um heilsu, en sérhver kennari verður að tala um leiðir til framtíðar.

Dæmi Hugsuðarins eru lærdómsrík. Jafnvel þegar hann var seldur í þrældóm talaði hann um frelsi og samræmi í lífinu.

238. Urusvati veit hve óvenjulega sjálfsstjórn þarf, þegar maður helgar sig ævarandi árvekni. Ef þú spyrð fólk hvort það sé tilbúið til að vera á verði allan tímann, mun svarið líklega vera: „Alltaf! En hvenær lýkur því?" Og ef þú segir þeim að það sé enginn endir og að ábyrgð þeirra muni aukast að eilífu, þá verður erfitt að finna meðal þeirra verðugan varðmann.

Samt erum við ævarandi vakandi. Við höfum aðlagað alla tilveru Okkar að árvekni. Við getum glaðst og við getum syrgt, Við getum framkvæmt próf og dýpkað þekkingu, allt án þess að missa árvekni Okkar. Það getur ekki verið, né er, neinn endir á slíku meðvitundarástandi. Við öðlumst slíka vitund í hinum jarðneska heimi sem og í fíngerða heiminum, og Við getum fullvissað alla sem leitast við slíka vitund, að það sé sannarlega hægt að ná henni, en verkefnið verður að framkvæma af fúsum og frjálsum vilja.

Nefna má einstaklinga sem náðu slíkri árvekni, sem sættu sig við tilskilið hugarástand, beittu því fagnandi og voru tilbúnir að drekka eiturbikarinn. Við getum nefnt heimspekinginn Seneca, sem þjáðist mikið á valdatíma Nerós, en meðvitund hans hélst ótrufluð. Seneca erfði hugarfar Hugsuðarins og þoldi erfiðustu tíma Rómar til forna, en gat samt verið huggari margra. Orðræða hans um siðfræði var ómissandi á þessum ruglingslegu dögum lítillar trúar. Kannski er Seneca minna þekktur en Hugsuðurinn, en verk hans hafa mikla þýðingu. Hann vildi búa til leiðtoga, en fékk hræðilegt bakslag frá eigin lærisveinum. Eiturbikarinn ruglaði ekki skýrleika huga hans og margir lærðu af honum hvernig á að fara yfir landamæri jarðlífsins. Við virðum slík dæmi innan um fáfræði og stolts.

239. Urusvati veit að virkni orkunnar eykst með aukinni kærleikstilfinningu. Sumir gætu haldið að undir vissum kringumstæðum væri þetta ómögulegt. Getur kærleikur til dæmis verið samhliða réttlátri reiði? Já, því að réttlát reiði er aðeins mögulegt vegna kærleikans. Ef einstaklingur getur ekki elskað, svíður honum ekki óréttlæti. Honum er sama um allt og mun því ekki geta aukið orku sína.

Það eru tvær gerðir manna, logandi og án loga. Þeir eru eins og andstæðir pólar og munu aldrei skilja hver annan. Þessar tvær andstæður eru líka til í fíngerða heiminum. Fólk yfirgefur jörðina með persónur sínar mótaðar og í fíngerða heiminum fylgir það vanabundnum háttum sínum. Það er mjög erfitt að kveikja í þeim logalausu; það þarf sérstakt áfall til að kveikja í dýrmætum rúbín hjartans og vekja hin svæfandi hjörtu. Auðvitað fer mikil orka til spillis í þessu ferli. Fólk skilur ekki hvaða öfgafullu ráðstafanir þarf til að vekja og kveikja hjörtu þeirra svo að þeir geti lært hvernig á að auka orku með aukinni kærleikstilfinningu.

Við virðum orð Hugsuðarins. Hann sagði: „Sofandi hjartað er eins og gröf. Niðurbrot er hlutskipti þess og niðurbrot þess dreifir úrkynjun. Megi okkur verða hlíft við úrkynjun.“

240. Urusvati veit að sérhver leitandi verður fyrir árás myrku aflanna. Einn slíkur góður maður hrópaði: „Mér líður eins og ég sé orðinn miðpunktur hringiðunnar!“ Orð hans voru nærri því sanna, þar sem ástand hans var hliðstætt ákveðnum efnafræðilegum tilraunum, þar sem einum dropi af mjög sterkum kjarna er bætt við massa sem er ekki jafnsterkur. Hann virkar sem miðja massans og framkallar áhrif hringiðu. Slíkt ástand endist ekki og bráðum mun hinn dýrmæti dropi dreifa áhrifum sínum og bæta allt efnið.

Í mannlegum samskiptum, þegar fjöldinn ræðst á háleitan einstakling, mynda þeir svipaða hringiðu í kringum hann. En með tímanum sigrar kraftur einstaklingsins ringulreiðina og gagnleg áhrif verða smám saman beitt á fjöldann. Oft má líkja mannlegum samskiptum við efnahvörf og niðurstöður þeirra verða fróðlegar.

Fólk finnur oft fyrir örvæntingu vegna þess að það hefur verið beitt alvarlegu misrétti, en það ætti að skilja, að það gæti hafa verið að nærvera þeirra hafi ollið glundroðanum. Sterkur einstaklingur mun viðurkenna að æskilegra er að vekja ringulreið, en að leyfa sér að verða hluti af hinu óbirta efni. Mörg dæmi eru frá liðnum öldum þegar glundroði lenti í árekstri við mikla einstaklinga og sjá má að þessir miklu verkamenn höfðu áhrif á fjöldann á með verðugum hætti.

Hugsuðurinn endurtók stöðugt, að reiði glundroðans er hæsta viðurkenning leiðtogans.

241. Urusvati veit að hvert frávik frá upprunalegu áætluninni skapar flækjur. Aftur notum Við dæmi úr efnafræði. Ef við bætum einum dropa af aðskotaefni við flókna blöndu veikist allt efnasambandið. Hægt er að styrkja efnið og nota mikla orku til að breyta því, en efnasambandið verður aldrei það sama og upprunalega.

Ef maður er ekki sannfærður af dæminu um að einn hestur stöðvi vagnalestina, verður þetta dæmi úr efnafræði kannski meira sannfærandi. Dropi, einn lítill dropi, getur breytt eðli alls gagnlegs efnis.

Menn kunna að trúa því að þeir séu fylgjendur æðstu kenninga, en á sama tíma afskræma þeir örlög heilu þjóðanna á óábyrgan hátt. Aftur munu þeir kvarta yfir því að Við hótum, en er viðvörun um hættu ógn? Sá sem kallar sig vísindamann á ekki að brjóta náttúrulögmálin.

Þegar við tölum um einingu og samræmi, lítur fólk á það sem eitthvað óhlutbundið. Fólk býst við raunverulegum skilaboðum, en aðeins samkvæmt eigin skilningi á raunveruleikanum. Það gerir sér ekki grein fyrir því að í Turninum eru fyrirhugaðar nákvæmar áætlanir sem aðeins er hægt að koma í framkvæmd ef samstarfsmenn eru að fullu sameinaðir. Einhvern daginn mun Ég segja þér hvernig ákveðnir sögulegir atburðir voru hindraðir, vegna, að því er virðist, vegna óverulegra hindrana sem skapaðar voru af samstarfsmönnum sem voru ekki meðvitaðir um hvað þeir höfðu gert. Leyfðu samstarfsfólkinu að reyna að ímynda sér hversu flókið og erfitt starf Okkar er! Leyfðu þeim að hugsa um hvers konar strauma verður að ná tökum á!

Þú veist hvernig frjálsum vilja mannkyns er beint. Það geta verið margs konar viðvaranir, jafnvel jarðskjálftar, en frjáls vilji vill frekar eyðingu að eigin vali. Fólk veit að sprengingar valda rigningu, samt munu þær halda áfram að trufla andrúmsloftið, jafnvel þótt það minni á örlög Atlantis. Það eru sumir ábyrgir vísindamenn sem reyna að minna mannkynið á að ekki megi rjúfa samræmi eðlisfræðilegra lögmála. En fólk er áhugalaust og gerir sér ekki grein fyrir hvaða skaðleg öfl eru ákölluð úr geimnum með ósamræmi. Það ætti að gera mikið átak til að halda aftur af slíkum frjálsum vilja.

Hugsuðurinn sagði: „Hvernig getum við séð fyrir allar hindranir? Hvílík sorgleg sjón að sjá mann í hlekkjum, sérstaklega þegar hann grunar ekki einu sinni að hann sé fangelsaður. Samt er hægt að slíta hlekkina!“

242. Urusvati veit að sá sem veldur vindi mun uppskera hvirfilvindinn. En engum er sama hvenær þessi stormur verður og hverju hann mun eyða. Fólk talar um karma og takmarkar það eftir eigin forsendum, en karma virkar smám saman. Þessi stormur mun sannarlega hafa áhrif á marga og refsingin mun falla á þann sem olli vindinum.

Hvenær munu hin hörðu áhrif stormsins koma að fullu fram? Tíminn er auðvitað afstæður og hægfara þróun stormsins er ekki hægt að mæla í jarðneskum tíma. Eitt er þó víst - sá sem sáir mun líka uppskera.

Hægt er að fylgjast með framvindu karma í sögulegum atburðum. Við ráðleggjum rannsókn á ævisögum og sagnfræði, þar sem hægt er að fylgjast með hvernig karma þróast og fellur á fólk til að koma á jafnvægi. Fólk lítur almennt á karma sem refsingu, en hið mikla lögmál ætti ekki að takmarka á þann hátt. Lögmálin starfa í nafni jafnvægis og skaðann sem rofið hefur jafnvægi er ekki hægt að dæma með jarðneskum ráðstöfunum. Aðeins frá hærri sviðum er hægt að sjá hvernig umfang glæps breiður út áhrif sín, þegar hann hefur verið framinn.

Við tölum um eiturdropa, en eitt lítið orð getur verið jafn eitrað. Það er svo sannarlega grátlegt að fólk hugsi ekki um orð sín. Þróunarferlið er langt, en það virðist ekki bæta gæði hugsana og orða manna. Við skulum minna á háan staðal hindúa og grískra heimspekinga. Getur tuttugasta öldin verið stolt af slíkri hreinsun hugsunar?

Hugsuðurinn sagði: „Það voru líklega betri hugsuðir fyrir Okkar tíma. Við skulum ekki halda að við höfum náð árangri; vonum frekar að mistök okkar auðveldi öðrum og leiði þá til fullkomnunar.“

243. Urusvati veit að Við mælum með varðveislu lífsorkunnar, en samt mælumst við með hámarksspennu jafnvel að fórnfýsi. Þetta hljómar misvísandi, en í Okkar huga ætti hvorutveggja að vera samræmt. Það er nauðsynlegt að varðveita styrk, annars geturðu skaðað ekki aðeins sjálfan þig, heldur einnig hærri leiðsögumenn þína. En lífsnauðsynleg orka verður að vera tiltæk til notkunar í neyðartilvikum.

Við höfum miklar áhyggjur af heilsu nemenda okkar. Sérhverjum leiðtoga er annt um velferð samstarfsmanna sinna, en við biðjum líka samstarfsmenn Okkar að hjálpa Okkur að hjálpa þeim. Við getum séð fyrir nánustu hættu, en án samvinnu samstarfsmanna Okkar getum við ekki komið í veg fyrir að allt ferlið eigi sér stað. Reyndar eiga allir sjúkdómar sér sálrænan uppruna. Þannig verður maður smám saman að læra hvernig á að varðveita krafta sína og ef kraftarnir eru helgaðir þjónustu hins góða, er slík umhyggja ekki eigingjörn.

Mundu að orka gæti verið brýn þörf fyrir einhverja óeigingjarna viðleitni og ekki er hægt að safna saman krafti sem hefur verið eytt með skjótum hætti. Myrku óvinirnir munu ekki missa af tækifærinu til að slá á veikan blett og sú stund getur komið þegar brýn þörf verður á öllum kröftum manns. Þú ættir að viðhalda helgum styrkforða og óvinurinn mun örugglega skynja að í þér er forði tileinkaður þjónustu. Mikil viska er nauðsynleg til að viðhalda raunverulegu jafnvægi.

Hugsuðurinn kenndi vanalega: „Lærðu að eyða ekki styrknum sem þér var trúað fyrir. Verndaðu, en vertu ekki tómur."

244. Urusvati veit að hræsni byggir á hjartleysi. Sannarlega myndast tengslin við hærri svið í gegnum hjartað, örlátu hjarta í allri sinni tjáningu. En ofbeldisfull reiði hjartleysisins er hörð og breiðist út víða. Fólk ætlar kannski aðeins að skaða einn, en særir síðan marga. Hræðilegt er karma þessara hjartlausu heimskingja sem muldra háleitar fullyrðingar um sannleikann, en í raun og veru rægja hann.

Hjartlaus hugsun er plága mannkyns. Fornheimspekingar tóku ekki hjartlaust fólk með í hugmyndum sínum um ríkisstjórn. Plató í Lýðveldinu sínu og Aristóteles í Stjórnmálum sínum höfðu í huga skipulögð samfélög skynsamra samstarfsmanna og þoldu ekki harðstjóra, hræsnara eða svindlara. Það er ómögulegt að ímynda sér sterkt ríki sem samanstanda af hræsnurum og svindlurum. Hræsni er ósamrýmanleg æðstu viðhorfum og þekkingu, og slíkur grunnur mun aðeins þjóna fölsku skipulagi. Við samþykkjum ekki minnsta birtingarvott hræsni og trúum því að þessi löstur veki upp allar aðrar spilltar tilfinningar.

Hugsandinn andmælti þegar í stað minnsta snefil af hræsni hjá lærisveinum sínum. Hann myndi segja: „Í þessu tilviki, farðu til prestanna og borgaðu þeim með gulli fyrir bænir þeirra. Þeir gera ráð fyrir að guðirnir muni taka við leigubænum.“

245. Urusvati veit hvaða skaði verður af lítilli þekkingu í röngum höndum. Ímyndaðu þér fáfróðan mann sem tekur ákveðnar staðhæfingar úr fræðslunni af handahófi og byrjar að fylla rýmið af orðum sem hann skilur ekki, vegna þess að hann kærði sig aldrei um að ráðast í þá bráðabirgðahreinsun sem nauðsynleg var til að víkka vitund hans. Því miður getur jafnvel heimskingi slegið ákveðna takta þar sem ómun getur skapað ósamræmi og eyðilegging getur fylgt í kjölfarið. En fólk hugsar yfirleitt ekki um möguleikann á slíkum afleiðingum, né gerir sér grein fyrir því að fyrsta forgangsverkefni nemandans ætti að vera að leggja áherslu á að bæta vitund sína.

Aðeins ef innri viðleitni er til staðar getur maður náð því samræmi sem gerir honum kleift að beita mörgum þáttum fræðslunnar. En sumir heimskingjar krefjast þess tafarlaust að fá stein heimspekingsins og leggja ekki einu sinni í það að leita að þekkingu um þetta efni. Þeir búast við að fræðarinn sendi þeim tákn til að finna falda fjársjóði og gera ráð fyrir að án tillit til vitundarstigs þeirra, ætti hann strax að opinbera þeim leyndarmál náttúrunnar!

Þú hefur fengið fjölda bréfa sem staðfesta orð mín. Slíkt fólk er alltaf tilbúið að hóta og misnota kennarann fyrir að hafa ekki auðga það með gulli! Eins mikið og Ég sé eftir því, verð ég að minnast á þessa fáfróðu, því þeir fylla raðir skaðlegra svikara. Leyfðu öllum að skilja þann einfalda sannleika að þekking er aðeins frjósöm þegar hún er meðtekin.

Hugsuðurinn líkti þekkingu við ávaxtatré. Hann var vanur að segja: „Þornaðar rætur munu vissulega ekki fæða pílagrímann.

246. Urusvati veit að Við samþykkjum ekki tilbúnar eða vélrænar aðferðir til árangurs. Allt það besta kemur af sjálfu sér. Í fornöld, þegar eðli mannsins var grófara, þurfti stundum ákveðnar gerviaðferðir til að aga frjálsan vilja og skapa og styðja við tengslin við hærri heiminn. En það er vissulega alveg ljóst að maðurinn kann að þekkja allar tölur, leggja öll heilög nöfn á minnið og læra allar leynilegar merkingar stafrófsins, en með því mun hann mjög lítið stuðla að þróun mannkynsins.

Gjafir náttúrunnar eru dýrmætari þegar þær eru mótteknar náttúrulega og af fyrri uppsöfnun. Vísindin munu nálgast hærri þekkingu með slíkum athugunum. Nauðsynlegt er að þekkja að hve miklu leyti náttúran styður við þróunina. Að þvinga er ofstækisfull athöfn, eða með öðrum orðum, gegn náttúrunni, og aðeins meðvitundin getur leitt í ljós hvenær maður lærir og vinnur fyrir allt mannkyn.

Tökum sem dæmi mann sem skrifar mörg bréf. Ef hann skrifar eingöngu með sjálfan sig í huga nær hann ekki réttum árangri. Og hann hefur rangt fyrir sér ef hann heldur að hann sé að skrifa aðeins einum einstaklingi sérstaklega. Bréf fullt af háleitum hugsunum tilheyrir ekki aðeins höfundinum, eða þeim sem því er beint til, heldur öllu mannkyni. Við ættum ekki að hafa áhyggjur af því hver mun njóta góðs af hugsunum okkar. Auk persónulegs ásetnings okkar, er verið að senda bréfið út í geiminn og það er ekki okkar að hafa áhyggjur af því, hvar hugsunin sem það inniheldur finnur skjól. Eina áhyggjuefnið sem við ættum að hafa er að hugsun okkar ætti að vera til góðs. Kannski verður hún einhvers staðar móttekin á algjörlega óvæntu tungumáli, eða kemur inn í vitund barns og verður tjáð af því á seinni árum. Kannski mun hugsunin ná til manneskju sem er að yfirgefa jarðneska ástandið og verður beitt í fíngerða heiminum, eða hún getur hjálpað viðkomandi á meðan á ferð stendur. Kannski verða samverkamenn innblásnir af hugsuninni, efla andlega vinnu sína. Hugsunin mun hjálpa sjúkum einstaklingi með því að gefa honum trú á lækni sínum, eða lyfta konu langt út fyrir heimilisskyldur hennar. Hugsunin mun hvísla að kappanum tækifæri fyrir hetjuskap. Hugsunin mun benda bóndanum á þýðingu vinnu hans fyrir jörðina, því að bóndinn ber ábyrgð á jarðskorpunni og bréf til hans verður nauðsynlegt. Þú verður að skrifa arkitektinum, dómaranum og listamanninum. Það skiptir ekki máli þó einhver bréf berist ekki á tilsettum tíma. Sá sem skrifar bréf verður að muna að hann á marga lesendur; svo miklu verra er ef innihald bréfsins er ómerkilegt. Ekki ætti að skrá skaðlegar hugsanir.

Við heyrum mörg bréf. Hver skráð vinsemd veitir Okkur gleði. Látum öll bréf bera hinn mikla boðskap um þróun mannkynsins.

Hugsuðurinn sagði: „Það skiptir engu máli hvort ég tala eða skrifa, skráðar hugsanir munu fylgja mér. Ef hugsanirnar hjálpa einhverjum verða þær vængir mínir."

247. Urusvati veit að reiði vegna óréttlætis er stundum viðeigandi. Það virðist sem fólk ætti að vita og leggja áherslu á það, annars verður gæska og velvild rangtúlkuð. Hvernig getur maðurinn þagað þegar hræðilegir glæpir eru framdir fyrir augum hans? Enginn ætti nokkru sinni að styðja áhugaleysi á niðurlægingu mannlegrar reisnar, því með slíku afskiptaleysi leyfir maður sér að gerast vitorðsmaður glæpsins.

Jafnvel jarðneskir leiðtogar ætlast til þess að fólk læri að lifa í hættu. Við ráðleggjum líka slíka spennu, því stöðug spenna agar titring. Það eru mistök að halda að spenna skaði líkamann. Þvert á móti skapar slík meðvituð vitneskja nauðsynleg efnaskipti sem hjálpa til við að endurnýja þau. Spenna er ekki orsök þreytu. Aðeins þunglyndi dregur úr lífsþrótti, en upphafning skapar fallega endurnýjun. Þannig ættum við ekki að óttast spennu; aðeins fáfróðir menn munu líta á það sem þreytandi ógæfu. Þeir munu geta slakað á í gröfinni! En maður sem er alltaf tilbúinn til að stíga upp, mun fagna vaxandi spennu sem hátíðarhliði endurnýjunar og mun loga af reiði þegar hæstu hugtökin eru niðurlægð í návist hans.

Við elskum að sjá ljóma réttlátrar reiði. Á meðan gamli heimurinn er að þverra, er slík spenna sérstaklega þörf og menn ættu að vita hvernig á að beina þessum eiginleikum á sem áhrifaríkastan hátt.

Hugsuðurinn benti á að reiði sem viðbrögð við óréttlæti getur verið dásamleg lækning andlegrar blindu.

248. Urusvati veit hversu fjölbreytt skilaboðin Okkar eru, sem stundum koma sem stuttar skipanir og stundum sem daufar áminningar. Stundum eru þau geymd í kaleiknum, til að geymast til ætlaðs tíma. Í slíkum tilfellum byrjar fólk að rifja upp eitthvað sem heyrist einhvers staðar og minningin verður sífellt viðvarandi eftir því sem ætlaður tími nálgast. Þessar minningar frá botni kaleiksins verður að meðhöndla af mikilli varkárni. Í þeim eru margir atburðir sem með karmískum lögmáli er aðeins hægt að opinbera í gegnum vitundina.

Það er afar mikilvægt að fylgjast með börnum þegar þau fá slíka leiðsögn. Þau lýsa því oft að önnur börn heimsæki þau og leiki við þau og að í leikjum þeirra eigi þau samtöl um áhugaverð efni. Stundum bjóða þau fullorðnu fólki að vera með í leikjunum, en fullorðna fólkið sér ekki litlu vini þeirra og lítur á yfirlýsingar þeirra sem uppspuna. Slíkar frásagnir eiga þó uppruna hjá öllum þjóðum og ekki ætti að líta á þær sem barnalegar uppfinningar. Maður ætti að fylgjast vel með fullyrðingum barna.

Einnig ber að gefa gaum að sýnum sem alvarlega veikt fólk upplifir, sem sér oft myndir af einstaklingum, þeim óþekktum, sem reyna að lina þjáningar þeirra. Stundum minna þessar myndir þá á ástvini sem eru látnir. Slíkar aðferðir frá hærri sviðum eru margvíslegar og við ættum að meta gæskuna og umhyggjuna sem er svo stórkostlega opinberuð. Því miður vill fólk frekar heimfæra allt til skelfilegra drauga og gleyma því að það eru líka til hærri birtingarmyndir.

Hugsandinn sagði, eftir að hafa heyrt um sýn ættingja: „Kannski birtu miklir andar sig í gegnum þessi form.“

249. Urusvati veit að jafnvel hröð þróun verður að fara í gegnum lögmætt ferli, annars mun glundroði flæða yfir hana og við slíkar aðstæður er sérstaklega erfitt fyrir mann að takast á við eigin frjálsan vilja. Jafnvel gáfað fólk getur ekki alltaf samræmt hið persónulega við það þróunarlega. Það getur ekki skilið þá hugmynd að það séu tímar ætlaðir heiminum sem þeir geta ekki skilið sig frá. Slíkur skilningsskortur væri skaðlaus ef ekki væri fyrir uppreisnarathafnir hins frjálsa vilja, sem valda skaðlegum átökum. Maðurinn er þrjóskur að eigin skynjun og viðurkennir ekki aðrar lausnir. Mikla orku þarf til að temja slíkan frjálsan vilja, þess vegna, þegar við tölum um árvekni og sveigjanleika hugans, viljum við koma í veg fyrir skaðann sem stafar af slíkri þrjósku.

Þegar við tölum um sameiningu höfum Við í huga mikilvægan árangur. Rétt er skilið að hin svokallaða „flétta ódauðleikans“ er jöfn spenna allrar orku. Það er einmitt þessi eining orkunnar sem skapar hæsta ástandið. En fólk vill ekki aga sig til einingar að fúsum og frjálsum vilja. Það telur einingu óhlutbundna hugmynd og vill frekar að kennarinn gefi þeim sérstakar leiðbeiningar, lítill skilningur er á því að undirbúningur fyrir einingu orku er lífsnauðsyn og verður að eiga sér stað í daglegu lífi manns. Lifandi siðferði byggist á ögun, sem gera þér kleift að verða meðvitaðri á hvaða sviði sem er, en því miður forðast fólk slíka daglega ögun. Menn munu oft finna upp algerlega óhagkvæma hugleiðslu í tilraun sinni til að sigra hin hærri svið, en vanrækja skyldur sínar. Gríski heimspekingurinn sagði: „Sá sem kann að stjórna heimili sínu mun einnig geta stjórnað þjóð sinni.“ Að sjálfsögðu er ekki átt við heimilisstörf í merkingu eldamennska og þrifa, heldur frekar í skilningi meðvitaðrar vitundar um almenna fullkomnun, eða einingu.

Urusvati hefur réttilega áhuga á að varðveita bréf Okkar um einingu. Það eru mörg slík. Ef þú bara vissir hversu oft við höldum áfram að endurtaka það sama! Þessi bréf ættu að vera send sem áminning til ýmissa landa. Fólk ætti að heyra um einingu eins og það heyrir um daglegt brauð. Og ef einhver heldur því fram að hann hafi heyrt nóg um einingu, er það merki um ábyrgðarleysi hans. Með tímanum verður hverju orði um einingu beitt bókstaflega og hin mikla, frjálsa eining mun koma sem þróunarstig.

Hugsuðurinn sagði: „Það er ekki á mínu valdi að ná til hinna fjarlægu hnatta, en sannarlega eru það forréttindi mín! Því að mér hefur verið falið að fylgjast með þeim og hugleiða mikilleik þeirra."

250. Urusvati veit að oft er stutt hugsun, fljót sem elding, meira virði en langvarandi íhugun. En þetta er ekki auðskilið. Fólk heldur að gervidýpt sé sterkara en snögg hugsun, og gerir sér ekki grein fyrir því að eldingarhugsun getur verið sönnun um hæstu áhrif. Langdregnar þungar hugsanir má oftast rekja til einhvers jarðnesks eðlis, en mun erfiðara er að greina uppruna skjótrar hugsunar, sem er svo hröð að maður getur ekki skilið hana til hlítar eða komið orðum að henni.

Slík skilaboð geta fjallað um háleitustu hugtök. En þau eru oft rangtúlkuð, fíngerð merking þeirra er brengluð og þau hverfa venjulega sporlaust. Við erum oft uppspretta þessara skilaboða, sem Við sendum út til góðs fyrir mannkynið án þess að vita hverjir viðtakendurnir verða. Þannig kvikna hugsanir á ýmsum stöðum í heiminum. En það er grátlegt að svo mörgum af þessum glæsilegu gestum sé hafnað af mannshuganum.

Fyrir löngu síðan kenndi Hugsuðurinn lærisveinum sínum að gefa stuttum, snöggum hugsunum gaum. „Neistar hæstu greindar komast að okkur eins og elding. Sæll er sá sem kann að geyma þau í hjarta sínu. Reyndar ættir þú að skynja þá með hjarta þínu, sem ekki skaðast af loga þeirra, en heilinn gæti særst. „

251. Urusvati veit um fjölbreytileika kosmískra atburða. Sérstaklega ber að leggja áherslu á fíngerða eiginleika birtingarmynda grunnorkunnar. Fólk býst aðeins við grófustu fyrirbærum og sættir sig við ekkert minna en algjört myrkur um miðjan dag, eða alla jörðina í logum. En slíkir skyndilegir og stórbrotnir atburðir gerast ekki, vegna þess að samhljómur kosmískra laga leyfir ekki slík áföll.

Hins vegar er bók náttúrunnar full af fíngerðum fyrirboðum og fólk ætti að geta lesið þau. Aðeins blindir munu ekki sjá eldmerkin og aðeins óskynsamir læknar munu ekki greina eldlega sjúkdóma. Fólk segir: „Sólin kemur upp, tunglið skín og allt er í röð og reglu; samt af einhverri dularfullri ástæðu finnst okkur ógnað.“ Þeir sem sjá munu benda á óvenjulega atburði sem hafa áhrif á mannlegt eðli, en aðrir atburðir munu líða óséður. Margt gerist á ólíklegustu stöðum og ef þú myndir skrá hvar jarðskjálftar, flóð, farsóttir, óvenjulegir atburðir í andrúmsloftinu og óútskýrð spenna eru niðurkomin, þá ættir þú bók um veikindi plánetunnar.

Við metum mikils hæfileikann til að fylgjast með hlutlægum fyrirboðum náttúrunnar. Lærðu á einkenni sjúkdómsins. Læknar mega ekki hætta að fylgjast með; ef þeir gera það eru þeir ekki læknar. Við gefum gaum að mörgum kosmískum táknum. Plánetan er mjög veik og maðurinn getur ekki verið áhugalaus þegar öll tilvera hans er full af áhrifum fíngerðustu orku.

Hugsuðurinn sagði: "Hver getur sagt til um náttúruöflin?"

252. Urusvati veit hversu fáfróðir flestir eru um uppruna atburða. Þeir geta ekki einu sinni skynjað uppsöfnun staðanna og eru ánægðir með áhrifin ein. En viðkvæmt hjarta mun skjálfa við upphaf atburðar. Kannski finnast engin almennileg orð til að lýsa þessari tilfinningu, en ósögð merking hennar mun um leið óma í djúpi hjartans.

Þegar Við segjum: „Staðfestu niðurstöðuna,“ verður spurt: „En hvar er sönnunin fyrir því að hann hafi átt sér stað? Fólk skilur ekki að eitthvað handan orða er að gerast og þetta „eitthvað“ ákvarðar samsetningu orkunnar. Óreynt auga getur ekki náð fyrstu titringsspennu í andrúmsloftinu. Óþjálfað eyra getur ekki heyrt krafta sem myndast. Fyrir afslappaðan áhorfanda er ekkert að gerast og allt er enn eins og það var alltaf, þakið ryki!

Hvenær gerðist þá eitthvað þýðingarmikið? Viðbrögð hins veraldlega verða þau að ekkert hafi átt sér stað og hann verður reiður og spyr: „Hvar er þessi staðfesta niðurstaða?

Þess vegna ætti að gæta varúðar þegar þú talar um upphaf atburða. Aðeins vel reynd vitund mun meðtaka þessa hugmynd. Maður á ekki að ætlast til þess að fólk gleðjist yfir einhverju sem er ekki augljóst. Og ef við bætum því við að margir atburðir eiga upptök sín á tímum þegar merki eru hagstæð, munu flestir ekki skilja það. Hjátrú er fúslega viðurkennd á meðan vísindalegar ályktanir eru gerðar að athlægi. Þannig munum við í dag segja: "Staðfestu niðurstöðuna."

Hugsuðurinn sagði: „Sérhver maður getur flýtt fyrir kosmískum atburði með brosi hjarta síns.

253. Urusvati veit hversu mikilvægt sambandið milli smáheims og stórheims er. Vísindin rekja sveiflur í hreyfingu jarðar en enginn veltir fyrir sér orsökum þeirra. Og þegar Við segjum, eins og Við höfum þegar sagt, að orsök þeirra liggi í uppsöfnun gass sem mannkynið sjálft dreifir, mun enginn trúa því eða viðurkenna að það séu líka slíkar sveiflur í gangverki annarra pláneta. Ef ein pláneta er veik munu aðrir hlutar sólkerfisins bregðast við. Fólk kannast aðeins við farsóttir á jörðinni, en svipaðar birtingarmyndir koma einnig fram í stórheiminum.

Hætturnar sem Við bendum ítrekað á, eru af völdum tilgangslausra lífshátta sem skapa ójafnvægi og hafa áhrif á tilveru hærri heimana – því er það titill þessara tilteknu skrifa Bræðralagsins. En í stað þess að hafa raunverulegar áhyggjur af neikvæðum áhrifum þeirra á stórheiminn, spyr fólk hvernig verur annarra pláneta klæða sig! Ef kviknar í húsi og einhver spyr eigandann um fötin hans, þá myndi spurningin teljast óviðeigandi, eða fáránleg. Hvernig getum við þá innprentað í mannshugann, að núna erum við að upplifa eldheitt Harmagedón þar sem margt kann að eyðast? Við viljum vekja sérstaka athygli á þessu, svo fólk átti sig á því hversu mikið er háð athöfnum þess. Við skulum ekki vera hrædd við að endurtaka „hversu mikið“. Látum þessi orð gera það ljóst, að hver smáheimur ber ábyrgð á stórheiminum. Ekki halda að slíkur samanburður sé óviðeigandi. Tengingin milli smáheimsins og stórheimsins er undirstaða heimsins.

Hugsuðurinn benti á maur og sagði: „Hann er kominn langt að; ekki trufla vinnu hans."

254. Urusvati veit hversu mikið fólk ruglar hugarró við innri frið, sem er uppspretta friðar fyrir allt annað. Hvetja ætti til að leita að innri friði, því aðeins þetta jafnvægi gerir hærra samfélag mögulegt og opnar dyr fyrir bestu ákvarðanir.

Hins vegar eru þeir til sem leita að innri friði, en fyllast eigingirni og falskri hógværð og trúa því að þeir muni öðlast innri frið með því að gera ekki neitt. Þetta er ekki vont fólk, það gerir ekkert illt, en "hið góða" þeirra er lítils virði. Hvers konar friður getur komið af tregðu? Raunverulegum innri friði má líkja við Nirvana, þar sem allir kraftar eru magnaðir og sameinast í uppgöngu sinni.

Fólk ætti að leitast við innri frið á meðan það tekur þátt í lífinu. Í bestu kenningum er greinilega gefið til kynna að maður geti verið í friði jafnvel á vígvellinum. Það eru mörg fögur myndmál sem kenna okkur hvernig hægt er að miðla sannleika og vera andlega upphafin, jafnvel í hávaða bardagans! Við verðum að minna þá á sem eru týndir í aðgerðarleysi, að í lífsháttum sínum gætu skapað sýndarfrið, en andi þeirra muni ekki eflast og ná framförum.

Hugsuðurinn sagði: „Hafið er stormasamt og órólegt vegna þess að frumöflin eru fáfróð um hærri lögmálin, en mannsandinn er upplýstur og getur verið í friði jafnvel í miðjum stormi. Innri friður er líking hins guðdómlega.“

255. Urusvati veit að fólk elskar að sökkva sér niður í fortíðina. Allt við það heillar og það eru tilbúnið að gleyma ljótustu atburðum í fortíð sinni, til að halda í það sem eru þeim er kærast. Fólk hefur andstyggð á takti dagsins í dag og vonar að lífið snúi aftur í hægfljótandi straum gærdagsins. Ef þú segir þeim að þetta sé ómögulegt, og upplýsir þau um komu nýja heimsins, muntu verða stimplaður eyðandi hefða og hættulegur byltingarmaður!

En hver er nógu sterkur til að koma aftur á fyrri veika flæðinu þegar áin er þegar að flæða yfir bakka sína? Reyndar er nýi takturinn þreytandi fyrir þá sem geta ekki sætt sig við hann. Óreglulegur taktur getur jafnvel orðið eyðileggjandi. Óstjórn lofttegunda geta verið banvænar. Tækni sem er ranglega beitt getur valdið hörmungum og margar hættur hafa skapast vegna fáfræði. Engu að síður er nýi takturinn þegar kominn inn í lífið og fólk getur ekki horft framhjá nýjum aðstæðum sem flæða yfir það. Það er ómögulegt að snúa aftur til fortíðar og maður verður að samræma sig nýjum aðstæðum. Í þeim tilgangi ættu menn að gefa hugvísindum gaum og endurvekja listina að hugsa.

Vísindamenn eru að uppgötva nýja eiginleika mannsheilans og slíkar rannsóknir eru gagnlegar til að koma á jafnvægi í takti. Heilinn og taugakerfið munu veita óvenjulegar uppgötvanir sem skapa möguleika á aðlögun að nýjum takti.

Lífshraðinn mun virðast ógnvekjandi þar til fólk þróar með sér hugsunarhraða sem nægir til að fara fram úr honum. Fólk verður að sætta sig við kosmískar aðstæður, annars verður til hættuleg ósamræmi. Hægja mun á hreyfing jarðar, en á sama tíma mun innstreymi orku verða hraðara. Hvert ósamræmi er í sjálfu sér eyðileggjandi og hver óeining veldur truflun. Þegar því var lýst yfir að hugmyndir stjórnuðu heiminum, var kraftur hugsunarinnar staðfestur.

Vitsmunaleg hugsun verður að hjálpa mannkyninu að sætta sig við nýja taktinn og þekkja nýja heiminn sem hefur þegar nálgast. Sannarlega, nýi heimurinn úthellir áhrifum sínum og hefur sýnt kraft sinn í ljóma vísindalegra afreka. Megum við sigrast á öllum kæfandi hættum með einbeitingu á nýja heiminum!

Mannkynið verður að gera sér grein fyrir því að lífið fær nú merkingu hærri heims. Fólk gæti enn gert grín að stjörnuspeki, en það hefur samþykkt hugmyndina um áhrif kosmískrar efnafræði. Í stað takmarkaðra formúla fortíðarinnar mun mannkynið nú sjá ótakmörkuð afrek hærri heima. Í þessum nýju afrekum verður staður fyrir bæði vitsmuni og hjarta. Menn geta fullyrt að hliðin að nýja heiminum eru galopin og í þeim skilningi verður enginn staður fyrir iðrun eða þunglyndi.

Hugsuðurinn sagði: „Bráðum mun fólk læra hvernig á að fljúga. Ný svið ljóssins verða aðgengileg. Megi fólk vera verðugt slíkra gjafa!“

256. Urusvati veit að ákvarðanir eru teknar í fíngerða heiminum um markmiðin í framtíðarjarðlífi hvers manns. Flestir í jarðneska ríkinu sætta sig illa við þetta, en muna ekki ,að þeir sjálfir, þá í fíngerða heiminum vissu að jarðvist þeirra munu eiga sér stað með eigin þekkingu og það sem meira er, með eigin samþykki. Þegar þeir eru um það bil að fæðast, skilja þeir að karmískt álag mun neyða þá til að gangast undir ákveðnar raunir, en þegar þeir eru komnir í jarðneskt ástand missa þeir minninguna um hvernig örlög þeirra voru ákveðin. Á sama hátt eru íbúar fíngerða heimsins fullkomlega meðvitaðir um lífið í fjarlægum heimum, en þegar þeir eru komnir í jarðneska líkama missa þeir venjulega algjörlega þessa þekkingu.

Það er saga um móður mikils leiðtoga sem dreymdi að sonur hennar myndi verða mikill velgjörðarmaður mannkyns. Hins vegar gat sonurinn ekki séð neina ástæðu fyrir því að hann ætti að sökkva sér niður í mannleg vandamál einfaldlega vegna draums móður sinnar og hann sneri sér að lífi í hugleiðslu.

Hin sanna orsök fyrir þessu átti sér djúpar rætur í hans eigin fortíð þegar hann hafði í mörgum lífum þróað með sér ást og hollustu við hugleiðslu, en vanrækt fórnfúst starf í þágu annarra.

Þrátt fyrir fágaða vitund sína áttaði þessi maður sig ekki á því ,að það var ekki draumur móður sinnar sem hvatti hann áfram til þessa verks, heldur að á meðan hann var í fíngerða heiminum hafði hann gert sér grein fyrir að hve miklu leyti hann var ófær um að samræma hæfileikana sem hann hafði og ákvað að í nýju jarðvist myndi hann helga allt líf sitt þjónustu við mannkynið.

Þannig höfum við lifandi dæmi um mjög fágaðan einstakling sem kenndi draumi móður sinnar um að hvetja hann í átt að því, sem hefði átt að vera hinn sanni tilgangur lífs hans. Það gerist oft að fólk sem sinnir þeim verkefnum sem það hefur sjálft valið verður óánægt með eigin ákvarðanir.

Hugsuðurinn sagði oft: „Við skulum leita í fortíðinni; kannski finnum við týndu lyklana!“

257. Urusvati þekkir þá spennu sem þarf til að vinna verkefni hærri heima á jörðinni. Sumir munu kalla þetta ástand innblástur, aðrir upphafningu og enn aðrir viðleitni, en allir þeir sem verða að uppfylla slík verkefni upplifa það. Taugakerfið mun bregðast kröftuglega við þessari tilteknu spennu, sem getur jafnvel valdið hækkun líkamshita.

Ef fylgst er með hitastigi heilbrigðra einstaklinga má sjá að stundum eru óvenjulegar sveiflur bæði í hitastigi og púls. Á meðan á vinnu stendur eru þessar sveiflur sérstaklega áberandi. Margir halda að þetta sé vegna eðlilegrar áreynslu, en nákvæmar rannsóknir munu sýna að taugastöðvarnar verða fyrir áhrifum frá utanaðkomandi þáttum.

Reyndar hefur fíngerði heimurinn stöðugt áhrif á líkamlega heiminn. Lítil skilaboð munu valda óvenjulegum titringi sem varir í langan tíma, vegna þess að skilaboðin eiga ekki aðeins að vera líðandi hugsanir, heldur verður að umbreyta þeim í ákvarðanir og líkamlegan viðbúnað.

Ekki gera ráð fyrir að fólk þekki auðveldlega svona fíngerð áhrif. Í flestum tilfellum mun það jafnvel mótmæla og reyna að forðast samvinnu, óttast að það dragi úr eigin sjálfsákvörðunum, sem fyrir þeim er mikils virði.

Við viljum aðeins minna á að skilaboð hærri heima eru ekki sjaldgæf; þau koma oft og eru fjölbreytt. Menn ættu ekki að forðast samstarf við hærri sviðin, heldur að gleðjast þegar þeim er trúað fyrir samstarf við Okkur.

Hugsuðurinn sagði oft: „Get ég verið svo heppinn að hafa þau forréttindi að getað hjálpa fræðurum mínum?

258. Urusvati veit að yfirstíga þarf margar flóknar hindranir áður en við getum hjálpað fólki. Ímyndaðu þér þröngan fjallsstíg fullan af stökkandi reiðmönnum, eða götu fulla af mannfjölda sem hleypur í ofvæni. Ímyndaðu þér síðan að reyna að bjarga manni frá troðningnum sem er ekki viðbúinn þeirri hjálp sem honum er boðin. Við getum ekki haldið aftur af mannfjöldanum vegna þess að mikil ringulreið myndi verða og ef Við stöðvuðum hann, jafnvel í eitt augnablik, træðist hann undir. Hins vegar er allt annað þegar sá sem á að bjarga getur skynjað að hjálp bíður hans. Eins og með segli sé hægt að draga hann á öruggan stað sem hefur verið útbúinn fyrir hann. En til þess að þetta geti gerst verður hann að vera tilbúinn að skilja og þiggja björgunina.

Við ættum líka að taka eftir erfiðum tilfellum, eins og þeim sem ímyndar sér að hann sé tilbúinn að þiggja hjálp, en í raun berst gegn henni af öllu afli. Slíkar mótsagnir eru ekki óvenjulegar. Þvert á móti er full samvinna við veitta aðstoð, sem er óvenjuleg. Það er ömurlegt þegar maðurinn fullvissar sjálfan sig um að hann sé tilbúinn, en hans eigin eðli gerir samvinnu ómögulega.

Við getum fullyrt að mestu orkunni er ekki varið í hjálpina, heldur í að yfirstíga þær hindranir sem standa í vegi fyrir því að hún sé samþykkt. Það er ómögulegt að ímynda sér fjölbreytileika þessara hindrana! Þar á meðal eru margar tegundir af karmískum skilyrðum — þroskaleysi, fáfræði og efahyggju. Þessar hindranir verður að yfirstíga, ekki aðeins hjá þeim sem á að bjarga, heldur einnig hjá þeim sem eru í kringum hann. Þessir erfiðleikar eru meðal verka Bræðralagsins.

Við verðum að segja fólki frá frjálsum vilja sínum og ekki skilja það eftir með þá hugmynd að hann sé einskis virði. Frjáls vilji er æðsta gjöfin og það er kominn tími til að fólk læri að nota hana.

Hugsuðurinn fræddi um frjálsan vilja, sem getur gert manninn guðdómlegan.

259. Urusvati hefur heyrt það sagt, að öfl myrkursins séu öflugri en öfl ljóssins. Þetta er skaðleg blekking. Maður ætti að viðurkenna að öfl myrkursins eru sameinuð og hörð í árásum sínum. En það er ekkert sem kemur á óvart í því, því þeir hinir myrku þekkja sitt takmarkaða eðli og verða að verja tilveru sína. Jafnvel bardagaaðferðirnar eru mismunandi, því á meðan Við erum tilbúin að fá mörg högg á skjöldinn okkar, getum við endað bardagann með einni ör.

Mundu að þó að púkinn hafi oft tekið þátt í að byggja musterin, þá var aldrei tilvik þegar bróðir Okkar var til þjónustu við myrkraöflin. Hjá öllum þjóðum og á öllum öldum eru til þjóðsögur um þjóna myrkursins sem voru neyddir til að þjóna ljósöflunum. Það er mikil merking í slíkum þjóðsögum.

Þú getur fylgst með hröðum framförum þróunar. Ekki aðeins eftir kynslóðum, heldur jafnvel eftir áratugum, má mæla töluverðar framfarir lífsins. Reyndir áhorfendur ættu að safna vandlega staðreyndum um framvindu þróunar í gegnum áratugina og á hlutlægan hátt. Sannarlega má lýsa því yfir að hið nýja tímabil sé að nálgast! Jafnvel þótt margt sé misskilið og brenglað, eru nýir möguleikar að koma inn í lífið og munu með tímanum hafa áhrif á vitundarstig mannkynsins.

Reyndar vinna púkarnir líka í þeirri von að nýjar uppgötvanir geri þeim kleift að uppfylla myrka viðleitni sína, en vonir þeirra eru til einskis. Með hverri nýrri kynslóð eru fleiri meðvitaðir leitendur, sem eru fæddir til að gera gott.

Við skulum ekki vera skammsýn þegar við tölum um eyðileggingu heimsins. Það er satt að Harmagedón geisar og ótrúlegir glæpir hafa verið framdir, en það er líka rétt að í bakgrunni þessara skelfinga hraðast þróunin áfram. Er hugsanlegt að fólk sjái ekki hversu mikið af því nýja er að koma inn í lífið? Við ættum ekki að leyfa efasemdarmönnunum að boða að myrkraöflin séu sigursæl. Það sem tilheyrir óendanleikanum er ekki hægt að sigra.

Hugsandinn hvatti lærisveina sína skynsamlega og spáði sigri ljósaflanna.

260. Urusvati veit að frjáls vilji getur sigrast á jafnvel karma og hægt er að nefna tilvik þar sem viljinn gat breytt karma. Almennt er talið að iðrun hafi mikinn kraft, en réttara væri að kalla þetta vitundarástand algeran skilning. Fyrst af öllu verður maðurinn að vita hvers vegna hann ætti að leita nýrra afreka. Maður ætti að stefna að fullum skilningi, því aðeins einbeittur vilji getur gefið til kynna rétta leið. Það er margur efinn og veikar tilraunir hugans, en þær munu ekki snúa lykil örlaganna.

Sum trúarbrögð mæla fyrir um játningu syndanna. Það er enginn vafi á því að slíkar játningar hjálpa til við að mynda skýran skilning á gjörðum manns, en þetta er aðeins fyrsta skrefið. Fólk ætti að þjálfa sig þannig að sjálfsmat þeirra verði nákvæmt og rétt. Þegar maðurinn stendur frammi fyrir leiðsögumanni sínum ætti hann sjálfur að skilja bæði jákvæðu og neikvæðu hliðarnar á persónuleika sínum. Aðeins maðurinn sjálfur getur vitað hina sönnu uppsprettu gjörða sinna.

Með því að fylgjast með athöfnum sínum getur maður ákvarðað orsakir þeirra og afleiðingar og þannig undirbúið sig sjálfstætt fyrir framtíðarpróf. Það eru sumir sem þurfa svefn og langa ígrundun endurminningar í fíngerða heiminum, en aðrir munu strax hefja undirbúning sinn fyrir lengra ferðalag.

Hugsandinn elskaði að segja: „Við megum ekki sóa tíma okkar.

261. Urusvati veit hversu miklu meira kúgandi lægri astral (geð) sviðin eru, en jafnvel lægsta jarðneska ástandið. Neðri lög fíngerða heimsins hafa áhrif á alla jörðina og íbúar hennar ættu að læra að verjast þessum eitruðu áhrifum.

Hvað ætti fólk að gera til að verja sig fyrir svona ósýnilegum spillingaröflum? Fyrst af öllu ættu fólk að sætta sig við stöðuga nálægð þessara illgjörnu nágranna. Ekki halda að þetta ráð skipti ekki máli. Í neðri astral sviðunum eru góðar tilfinningar sjaldgæfar, það er ríkjandi öfund í garð alls þess sem lifir á jörðinni og sérhver andardráttur jarðlífsins er ánægjulegur og aðlaðandi fyrir þessa myrku, óánægðu anda. Það er næstum ómögulegt að sannfæra þá um að þeir ættu að beina athygli sinni ekki að jörðinni, heldur hvernig þeir eigi að losa sig úr fangelsi sínu.

Fólk getur aðeins glímt við astral verur, þegar það er staðfast í skilningi sínum á eigin framtíðarleið. Flutningur þeirra inn á hærri sviðin verður þá auðveldari og þeir munu ekki finna fyrir örvum íbúa neðra astral sviðsins. Því miður velja flestir ekki hærri leiðina og eru því óvarðir.

Þeir fáu sem skilja þetta bera þungar byrðar. Bræðralagið sjálft þjáist mjög af ábyrgðarlausu hugarfari jarðarbúa, sem, í stað þess að verjast þessum skaðlegu aðilum, laða þá að sér.

Hugsuðurinn kenndi: „Leyfðu ekki illum öndum að nálgast þig.

262. Urusvati veit hversu erfitt það er að finna rými fyrir mikil verkefni mitt í jarðlífinu. Það er orðatiltæki sem segir: "Að finna stað fyrir hið góða er jafn erfitt og að pakka niður í kistuna." Þetta orðatiltæki vísar til þess vandamáls sem maður stendur frammi fyrir, þegar pakkað er niður, að finna pláss fyrir hina mörgu litlu hluti sem hafa safnast fyrir. Á sama hátt er mannleg vitund svo full af smávægilegum áhyggjum í jarðlífinu að það er ekki pláss fyrir stór verkefni. Þetta ástand er ekki skynjað af þeim sem fylgjast ekki vel með eigin lífi. Kistan þeirra er oft svo full að ekkert pláss er eftir fyrir jafnvel minnsta verkefni og skaðlegustu smáatriðin fara með óséð.

Í fjölmennu lífi er oft enginn staður fyrir jafnvel lágmarks traust. Mörg dæmi eru um að atburðir hafi komið upp sem trufluðust vegna skorts á trausti. Maður getur vel ímyndað sér hvernig þessar truflanir hafa áhrif á þá sem voru með pláss í sínum kistum! Fólk neitar að skilja hvernig hugsanir þeirra og gjörðir endurspeglast í fjarlægum atburðum. Auk jarðneskra málefna þarf einnig að hafa í huga hærri heimana, og jafnvel með besta ásetningi getur sæmilega gott fólk valdið truflunum.

Stundum virðist sem engin leið sé út, en vonleysistilfinning er óheimil. Á tímum sérstakrar spennu getur komið upp tilfinning sem líkist örvæntingu. Þetta er ekki vonlaust ástand, því það ber í sér fræ einbeittrar ákveðni. Í hverri beygju leiðarinnar finnur maður fyrir þessari spennu. Það getur verið minnkun á styrk, en þetta er aðeins endurspeglun á innri spennu sem finnst sterkast þegar mikilvæg ákvörðun, sem enn hefur ekki verið tekin, er að þroskast innra með sér. Í slíku tilviki ráðleggjum við mikla varúð. Gæta skal að heilsu hvers og eins, því orkustöðvarnar geta orðið bólgnar og viðkvæmar.

Við leggjum alltaf áherslu á vinnu, en ráðleggjum hvíld á slíkum spennutímum. Svona slökun hefur ekkert með iðjuleysi að gera; það er skerping krafta. Hins vegar skilurðu að Við erum núna að tala um mikil verkefni sem krefjast algjörrar fórnar.

Hugsuðurinn elskaði að segja: „Getum við ekki fundið enn meira, sem við getum fórnað?

263. Urusvati veit að flestir forðast að skoða kjarna atburða og eru ánægðir með yfirborðslegar athuganir. Hversu öðruvísi væri sagan skrifuð ef raunverulegar orsakir og hvatir, og hinir sönnu leiðtogar, sem mannkynið veit ekki einu sinni að séu til, væri opinberaðir! Í stað konunga og valdhafa myndu koma fram einstaklingar sem hefðu haldist í bakgrunninum, óþekktir vegna ríkjandi fáfræði, eða þurftu að vera óséðir vegna lögmála bræðralagsins.

Fólk myndi þá sjá að margir atburðir sem mótast án sýnilegrar ástæðu eru í raun vel skipulagðir. Stundum gæti heilt land eða hópur fólks verið fordæmdur af heiminum, en þá er það einmitt það land eða það fólk sem gefur af sér glæsilegustu afrekin. Fáir gera sér grein fyrir því að það er til kraftur umfram jarðneskra forsenda sem geta haft áhrif á atburðarásina.

Fyrir öldum var sagt: „Líttu meðal hinna dæmdu eftir réttlátum,“ því að heimurinn ræðst oft á þá sem bera boðskap sannleikans. Ef fólk gerði tilraun til að rannsaka vandlega kjarna atburða, myndi það greina merki um áhrif Okkar.

Fólk ætti að kynna sér persónurnar sem eru í miðju atburðanna. Það myndu þá skilja að þessir einstaklingar eru oft einungis leikbrúður, sem hringsnúast í kringum atburði sem liggja ofar skilningi þeirra.

Athugaðu að viðvaranir Okkar varðandi ákveðin lönd hafa ræst. Sumir kunna að kalla þessar viðvaranir hótanir, en við hræðum ekki. Við vörum við af samúð, en ef viðvörunum Okkar er hafnað mun atburðarásin fylgja sínum farvegi.

Fólk ímyndar sér að hamfarir komi aðeins í grófu og ofbeldisfullu formi, en það eru aðrar hamfarir, jafnvel verri en stríð. Sársaukafyllasta dæmið er spilling þjóðar. Sannarlega er slík veiklun verri en eyðilegging vegna flóða eða annarra náttúruhamfara.

Það má minna á að Við vöruðum ítrekað ákveðin lönd við og þau höfnuðu ráðum Okkar. Frjáls vilji þeirra kaus að velja eyðileggingu í gegnum hæga hnignun. Berðu saman eðli þjóðar fyrir og eftir viðvaranir Okkar. Stórvirki verða sjaldgæf og fólk missir hæfileikann til að varðveita gildi sín sem breytast í hróp á basarnum. Spilling læðist inn að öllum sviðum lífsins og þó að fólk geti auðveldlega valið að fylgja ráðinu, kýs það frekar að koma á eigin dauða.

Það mætti skrifa heil bindi um veikindi slíkra þjóða. Ef fólk afsakar sig með því að halda því fram að það geti ekki séð kjarna atburða, þá er bara hægt að vorkenna því fyrir blindu sína. Fólk ætti að læra og vera vakandi í lífinu til að viðurkenna sanna leiðtoga sína. Ef næturgalarnir eru drepnir, hvernig getur maður vonast til að heyra lagið þeirra? Við skráum allar afleiðingar fáfræði og þessi annáll mannkyns er ömurlegur.

Hugsuðurinn varaði alltaf við mistökum sem ekki er hægt að leiðrétta.

264. Urusvati veit að bæn er oft hræsni. Við höfum þegar talað um mikilvægi bænarinnar, en það er nauðsynlegt að minnast á skaðsemi hræsni eða leigubæna. Fólk gerir sér ekki grein fyrir miklum skaða hvers kyns lygi, en hræsni og mútur eru grófustu tjáningar þess. Maður ætti að gera sér grein fyrir því hversu útbreidd hver fölsk hugsun dreifist. Það er svo sannarlega guðlast að ráða einhvern til að biðja. Það er glæpsamlegt að reyna að blekkja hann sem af fólki er talinn hinn hæsti. Nefna má voðaleg dæmi um fólk sem muldraði bænir og samdi um leið morð.

Það ætti að kenna fólki ekki aðeins að meta sannleikann, heldur einnig að þróa hæfileikann til að íhuga alheiminn. Auðvitað eigum Við ekki við, að allir ættu að verða stjörnufræðingar, en við erum talsmenn hugsunar um óendanleikann. Hvernig getur fólk haldið áfram að ljúga á meðan það lærir um mikilfengleika alheimsins?

Það á að kenna fólki, að það sé jafn skammarlegt að blekkja sjálft sig og að blekkja hvert annað. Því miður getur ekki verið lögmál sem bannar innri lygar, heldur er hægt að ná vitundarástandi þar sem það verður skammarlegt að ljúga. Leyfðu fólki að hugsa um fegurð heimsins og láttu það vita að hver hugsun er strax þekkt fyrir einhverjum.

Það er undarlegt að sumir binda sig við fræðsluna, en halda samt áfram að fremja skammarleg verk og lygar.

Sá tími er kominn að endurnýja verður grundvallarreglur lífsins. Urusvati telur réttilega að mannkynið þurfi einföld orð. Það er fáránlegt að læra að þekkja hærri orkuna án þess að vita tilgang hennar!

Hugsandinn hafði áhyggjur af sérhverri hugsun, vitandi að tilgangur hverrar hugsunar er að þjóna almannaheill. Hann sagði: „Þegar fólk skilur merkingu almannaheilla, verður hamingjan þeirra.

265. Urusvati veit að í djúpum vitundar manns er óafmáanleg vitneskja um komandi aðskilnaður frá fyrra ástandi manns. Maðurinn þekkir þáttaskil lífs síns innan vitundar sinnar og þó ytri birtingarmyndir þeirra komi miklu seinna, þá þekkir vitundin þær og leiðir veginn.

Maður verður að læra að greina merki um breytingar í djúpum vitundar sinnar. Þessi einkenni geta verið tjáð annað hvort andlega eða líkamlega. Margir telja slík merki vera sjúkdóm á meðan aðrir rekja þau einfaldlega til slæms skaps. En fáir gera sér grein fyrir því að þeir eru að upplifa brotthvarf frá fyrra vitundarstigi og eru að hefja nýtt skref. Fáir munu fagna slíkum merkjum, því að jafnaði óttast fólk hið nýja eða óþekkta. En þeir munu vera tilbúnir og þessir fáu munu gleðjast, því þeir vita að hvert nýtt skref er tilefni til gleði.

Það er ómögulegt að vera að eilífu á jafnvel bestu fíngerðu sviðum. Sumir hryggjast, vilja ekki nýjar prófanir, en aðrir, eins og góðir stríðsmenn, þrá nýja sigra.

Maður verður að hlusta á kall vitundarinnar. Meistarinn íhugar fyrst og fremst vitundarstig lærisveinsins og miðlar síðan þekkingu í samræmi við það. Mikill kostur mannsins liggur í hæfni hans til að átta sig á framförum sínum og það er svo miklu ánægjulegra þegar þessar framfarir eru líka í þágu almennings. Við skulum ekki vera hrædd. Hugrekki og viðleitni eru vængirnir sem munu hjálpa okkur að svífa í átt að markmiðinu.

Hugsuðurinn talaði oft um vængi mannsins og benti á að líkamlegir vængir duga ekki. „Vitið hvernig á að aftengjast, þá muntu geta svífið inn í hærri heiminn.

266. Urusvati veit hversu harðlega sérhverju vitrænu afreki er andmælt af heift fáfræðinnar. Sannarlega, því bjartara sem ljósið er, því þéttara er myrkrið. Það væri rangt að ætla að myrka andstaðan væri blekking. Þvert á móti er þetta algjör heift sem ágerist smám saman og þekkir engar takmarkanir í aðferðum sínum.

Það má oft sjá að þar sem einn fjölskyldumeðlimur leitast við að uppljóma, munu hinir meðlimir hæðast harðlega að vonum hans. Reyndar þarf þessi eini meðlimur allt sitt hugrekki til að standa gegn dónalegum árásum hinna. Það gerist sjaldan að heil fjölskylda keppist að ljósinu í sameinuðu átaki gegn myrkrinu. Vissulega þróar andstaðan við myrkrið styrk, en að þurfa að vera á móti eigin fjölskyldu er vandasamt verkefni. Það er enginn meiri harmleikur en myrkur í fjölskyldu. Þetta er brýnt vandamál, sem verður að leysa, því slíkar fjölskyldur ala á hörmungum næstu kynslóða.

Við hörmum þá staðreynd að það er svo mikill ágreiningur innan fjölskyldna. Jafnvel bestu stríðsmenn missa styrk sinn vegna slíkrar ósamstöðu. Í stað góðvildar, sigrar illvilji og illt tal vonir og veldur sóun á hinni dýrmætu töfralausn sálarorkunnar! Fólk kann ekki að meta þessa gjöf og hún getur spillst niður eins og úr leku íláti. Þar sem því verður við komið verður að hjálpa fjölskyldum að viðhalda jafnvægi sínu.

Við fylgjumst með erfiðustu aðstæðum og sýnum hjálp okkar, en stundum er ósættin svo mikil að lífveran berst gegn áhrifum Okkar og hefur áhrif á heilsu hennar. Í slíkum tilfellum verðum við að hætta tímabundið, því úrræðið gæti verið of sterkt.

Hugsuðurinn taldi að allir læknar ættu að skilja jafnvægislögmálið.

267. Urusvati þekkir á hversu margan hátt þjónustan er móttekin. Fyrir suma er það björgunarefni, fyrir aðra myllusteinn um hálsinn. Sumir skilja hagnýtt gildi þjónustunnar, en fyrir aðra er það einungis óljós óhlutdrægni. Á milli þessara tveggja öfga eru til margar mismunandi nálganir, þar sem fólk þreifar sig áfram marklaust.

Mjög fáir samþykkja fullnustu þjónustunnar í lífsþrótti hennar og árangri. Þessir fáu vita hvernig þjónustuþrepin hafa verið mótuð og eru reiðubúin til að bera hið lifandi orð hvert sem það mun þjóna almennum hagsmunum. Slíkar hetjur eru tilbúnar að afsala sér þægindum lífsins til að geta veitt öðrum innblástur. Þessir fáu gera sér grein fyrir því að auk þess að gera vísindalegar uppgötvanir er nauðsynlegt að grafa upp andlegu fjársjóðina. Nú, þegar fjöldi fólks er að hraða sér og leita, er sérstaklega erfitt fyrir mannkynið að samræma efnislegar framfarir og hærri andleg gildi. Núverandi öld líkist ákveðnu tímabili Atlantis, þegar Atlantisbúar gátu ekki fundið nauðsynlegt jafnvægi. En í dag er fólk meðvitað um þetta ósamræmi og það gefur Okkur von um að mikilvægustu þjóðirnar finni nauðsynlegt jafnvægi.

Við sjáum hvar hægt er að tileinka sér hugmyndina um samræmi. Það mun ekki finnast þar sem pendúll lífsins er dauður, heldur aðeins þar sem hann sveiflast að fullu. Þar er mikilvægi hins almenna góða rétt skilið og vitað er að gott getur aðeins komið af góðu. Þótt þessi formúla sé ekki enn sögð, þá er hún engu að síður að þroskast í djúpum vitundarinnar og það er mjög mikilvægt.

Urusvati er réttilega undrandi yfir því að sjá að fólk nýtur þæginda hins almennrar góðvildar, en reynir samt ekki að vinna fyrir því. Þessi gangandi lík búa aðeins til gröf fyrir sig! Hvar og hvenær munu þeir sjá gagnsemi almannaheilla? Það er fyrst og fremst þjónusta sem opnar leiðina til veruleika almannaheilla. Hvorki klæðnaður né helgisiðir, heldur aðeins þjónustu við mannkynið, er krafist.

Orð um samvinnu hafa verið sögð í margar aldir og hugsjónirnar fóru yfirleitt fram úr efnislegum möguleikum. En nú hefur fólk fundið margar gagnlegar aðferðir og tími er kominn að huga þarf að hinni almennu góðvild.

Hugsuðunum fannst gaman að segja í gríni: „Mig langar að vita fyrir hvern við höfum nýlokið kvöldverðinum okkar, fyrir hvern við höfum endurnýjað krafta okkar. Ef það væri aðeins fyrir okkur sjálf, þá hefði það ekki verið þess virði að borða hann!“

268. Urusvati veit að fólk hefur miklar hugmyndir um fyrri líf mikilla andlegra einstaklinga. Þeir ímynda sér að þessir þróuðu andar hafi verið umkringdir hagstæðustu aðstæðum í öllum fyrri jarðvistum sínum, eins og þeir hafi aldrei þjáðst, aldrei verið í neyð og aldrei þolað þær ofsóknir sem þeir í rauninni urðu fyrir svo oft.

Fólk trúir því ekki að miklir hugsuðir, eins og Plató, Pýþagóras eða Anaxagóras, hafi lifað lífi venjulegra manna. Nauðsynlegt er að skilja að jafnvel háleitustu persónur geta ekki forðast fullnustu jarðneskra tilfinninga sinna, sem kvikna í réttu hlutfalli við umfang hlutverks þeirra.

Reyndar ættir þú ekki að gera ráð fyrir að Plató, þegar hann var seldur í þrældóm, hafi ekki brugðist við öllu umróti þess. Auðvitað gekk hann hugrakkur í gegnum allar raunir, en í hjarta sínu fann hann fyrir mikilli biturð vegna óréttlætisins og það var vegna þess, sem hann gat talað svo frábærlega um besta stjórnarfarið. Pýþagóras var líka ofsóttur, þoldi mikla fátækt og varð fyrir alls kyns líkamlegri niðurlægingu, en þessar prófraunir drógu ekki úr eldmóði hans. Sömuleiðis var Anaxagóras sviptur öllu, en jafnvel á erfiðri braut vissi hann hvernig á að búa sér til tignarlega þyrnikórónu.

Það þarf að bera saman mörg líf til að skilja hvernig ljósið sem skín svo skært, kviknar af höggum örlaganna. Líta má á óreiðu sem hamarshöggin sem mynda neistana. Aðeins óvitrir halda að fræðarinn svífi yfir öllu og finni ekki til neins. Þvert á móti finnur fræðarinn ekki aðeins fyrir sínum eigin byrðum heldur einnig byrðum þeirra sem tengjast honum. Svo nánir og kærir geta verið annað hvort í efnislíkama eða fíngerðum líkama sínum. Þeir geta verið nánir á jörðu, eða líkamlega aðskildir, en samt nánir í anda.

Ekki ímynda þér að fræðarinn sé áfram einangraður. Hvert og eitt ykkar getur skynjað hugræn skilaboð, en hann finnur þau sterkari. Við köllum þessar skynjunar hærra heims, engu að síður innihalda þær þó allar jarðneskar tilfinningar. Við aðskiljum ekki Tilveruna með hinum hefðbundnu skiptingum.

Megi allir læra að elska hugsanir hærri heims. Með tímanum mun maðurinn átta sig á því að í óendanleikanum er hvorki eitthvað hversdagslegt né yfirskillegt, heldur einungis tilvera.

269. Urusvati veit hversu sendingar sálarorku eru margvíslegar. Auk þess að skynja sálræna strauma getur maður líka fundið fyrir einhverjum líkamlegum áhrifum, svo sem sviðatilfinningu í mismunandi orkustöðvum eða spennu sem leiðir til ógleði.

Óvenjulegustu einkennin eru skyndileg bólga í ýmsum líkamshlutum, sérstaklega útlimum. Enginn getur útskýrt orsök þessara bólgu og venjulegur læknir mun líklega ekki trúa tilvist slíks kvilla, án þess að sjá það sjálfur. Hins vegar er það ekki auðvelt, því þó að bólgurnar geti verið mjög miklar koma þær og fara hratt. Urusvati upplifði þetta, en áður en læknar gátu staðfest það, hvarf bólgan án þess að skilja eftir minnstu merki.

Við köllum þessar birtingarmyndir „bánk sálarorku“ og þó að taugastöðvarnar séu rásir þess, er ekki hægt að kalla það veikindi. Það má sjá að slíkar bólgur geta komið fram við hugsanaflutning yfir miklar vegalengdir.

Það getur líka verið blæðing frá hinum ýmsu opum líkamans. Þetta ætti ekki að líta á sem venjulegt æðarof. Orsökin er þrýstingur sálarorkunnar innan lífverunnar; þetta getur haft áhrif á hvaða líffæri sem er. Þess vegna mælum við eindregið með því að fylgst sé með öllum óútskýranlegum einkennum.

Það ætti ekki að gera ráð fyrir því að slík taugaafbrigði hljóti alltaf að fylgja með vakningu sálarorku. Ef plánetan væri í eðlilegu ástandi mætti líka búast við því að birtingarmyndir sálarorkunnar væru eðlilegar, en svo lengi sem fólk er að eitra fyrir lífinu á allan mögulegan hátt mun sálarorkan birtast með óvæntum hætti. Fólk ætti að rannsaka innbyrðis tengsl sálrænna og líkamlegra fyrirbæra, því slíkar birtingarmyndir orku eru oft ranglega teknar fyrir líkamlega kvilla. Hugsuðurinn spáði fyrir löngu að mannkynið myndi upplifa hinar ýmsu aðstæður sem hann kallaði hærra heims.

270. Urusvati veit hversu mikið frjáls vilji manns berst við dýpri frumorkuna. Stundum kann að virðast sem frjálsi viljinn virki án æðri stjórnunar, en meiri en öflugasti vilji, er ákveðinn kraftur sem getur gjörbreytt sendingunum sem viljastyrkurinn skapar. Þrátt fyrir löngun hugans bendir pendúll lífsins á aðra, óumbreytanlega lausn. Sérhver heiðarlegur áhorfandi getur borið vitni um að oft er það ekki hans eigin ástæða sem ræður gjörðum hans. Til viðbótar við rökhugsunarviljann sem byggir á reynslu hversdagslífsins er önnur djúp speki sem dvelur í djúpum vitundarinnar.

Snerting við hærri heima næst ekki með auknum viljastyrk, heldur í gegnum dýpri vitund, geymslu hreinnar frumorku. Því miður gerir fólk ekki greinarmun á frjálsum vilja og aðgerðum frumorku. Það gerir ráð fyrir að líkamleg athöfn viljans sé áþreifanlegust og þar með áhrifaríkust.

Trú fólks á frjálsum vilja sínum styrkist af ástríðu þess fyrir tækni og við höfum þegar talað um hættuna á þessu aðdráttarafli. Frjálsi viljinn má ekki berjast við frumorkuna, því það hefur í för með sér mikinn sársauka og jafnvel eyðileggingu. Og svo komum við enn og aftur að hugmyndinni um hinn gullna meðalveg.

Hversu fagurt getur hlutverk sveigjanlegs frjáls vilja verið, sem með sundurgreiningu getur viðurkennt hærri visku og lotið henni. Með því að þekkja þessa visku mun maðurinn líka þekkja dýpt eigin sálar og læra að virða þann kraft innra með sér sem leiðir til bestu afreka. Gæfa mannsins er aðgangur hans að frumorku og ógæfa hans að hann þiggur ekki þennan blessaða kraft, heldur fordæmir hann venjulega. Það er hræðilegt að maðurinn neiti að þiggja sinn besta fjársjóð!

Ef svarthærður maður heldur því fram að hárið á honum sé ljóst er hann talinn brjálaður. Sömuleiðis er sá sem brenglar meðfædda eiginleika sína í vissum skilningi líka vitlaus. Fólk er varkárt um líkamlegt hjarta sitt, því það hefur lært að hjartað er miðpunktur líkamlegs lífs. En þeir hafa ekki enn fullnægjandi upplýsingar um fylgni hins frjálsa vilja við frumorkuna, og því er grátlegt ósamræmi afleiðingin. Í stað samfelldrar sambúðar þessara tveggja afla eru átök og samkeppni á milli þeirra. Ein af orsökum veikinda plánetunnar liggur í ósamstilltum krafti mannsins. Menn ættu að hugsa um þetta.

Hugsuðurinn talaði um tvö nauðsynleg öfl innra með manninum, greind hans og visku.

271. Urusvati þekkir einstök einkenni þessa Harmagedóns. Svipaðar orrustur hafa átt sér stað í fortíðinni, en hvað er einstakt við nútímann? Eins og alltaf eru mestu öflin þátttakendur, en mannkynið kemur líka við sögu sem aldrei fyrr! Öll plánetan tekur þátt í þessum bardaga, hver á sinn hátt, og alls staðar er spennan fordæmalaus.

Nú skulum við reyna að ímynda okkur hvernig allir sem taka þátt í þessari orrustu tengjast fíngerða heiminum. Hin ósýnilega hjörð í þeim heimi er miklu fjölmennari en hinir jarðnesku og tengjast enn hærri sviðum. Þess vegna verður að líta á Harmagedón sem birtingarmynd átaka hærri heima. Maður verður að hafa skýra hugmynd um eðli og stærð núverandi baráttu til að átta sig á fullri þýðingu hennar. Aðeins þá getur maður byrjað að skilja átökin hér á jörðinni.

Jafnvel án þess að upplifa umfang orrustunnar miklu, má greinilega sjá að heimurinn er orðinn ansi brjálaður. Jafnvel rökfræði getur ekki útskýrt átök þjóða, sem getur ekki leitt til góðs. Fyrir meðalmanneskju eru ástæðurnar algjörlega óljósar. Sannleikurinn er sá að þjóðir eru háðar ósýnilegum hvötum um að eyðileggja plánetuna. Eins og hið efra, svo hið neðan. Á dvalarstað Okkar er hræðilegt að sjá hvernig öll svið fíngerða heimsins taka þátt í þessum baráttu og að þau þrýsta á jarðnesku sviðin eins og stór dökk ský.

Við skulum ekki gera ráð fyrir að þegar baráttan hærri heima eykst hafi hún ekki áhrif á okkur hér á jörðinni. Þvert á móti, það endurspeglast á öllu jarðneska rýminu, og tekur ekki aðeins til stríðsmannanna, heldur einnig til allra venjulegra hlutlausra vera. Það veldur ekki bara veikindum heldur eitrar líka hugann og þetta er auðvitað hið hættulegasta. Það er engin furða að viðkvæmar lífverur vilji helst fara! En það er betra að vera í orrustunni, en að taka á móti aðgerðalaus flísaregni og eitruðum örvum. Ég fullyrði eindregið að atburðirnir eru að nálgast hámark.

Fyrir löngu síðan gaf hugsuðurinn til kynna að sá tími muni koma að allar lífverur muni lenda í mikilli ringulreið.

272. Urusvati veit að það eru hetjurnar og píslarvottarnir sem byggja upp þjóðir. Pýþagóras og jafnvel fyrri hugsuðir vissu þennan sannleika, en forn sannleikur ætti að endurskoða í ljósi vísinda. Svo segja vísindamennirnir og þeir hafa rétt fyrir sér.

Hverjir eru þá hetjurnar og píslarvottarnir og hvernig er hægt að lýsa þeim? Frá vísindalegu sjónarhorni, eins og lifandi eldfjöll, kasta þau frá sér þeirri miklu orku sem þarf til þróunar. Í þessu getum við séð dæmi um hversu fínlega siðfræði og líffræði eru samtvinnuð. Kenningar hins nýja lífs sýna að upphafning er blessunarrík mögnun og fólk getur ekki verið án þessara sprenginga sem opna leiðina. Ef geimsprengingar geta verið skapandi hvatir, þá er líka þörf fyrir mannlegar sprengingar fyrir þróun.

Margir kalla hetjurnar og píslarvotta ofstækismenn, en við samþykkjum ekki þá fullyrðingu, því það gerir lítið úr betri hliðinni hetjuskapar. Þvert á móti, alvöru hetja veit sannleikann um sjálfsafneitun. Hann reynir ekki að eyða neinu, heldur reynir að beita kröftum sínum á besta mögulega hátt.

Þeir eru heimskir sem halda því fram að píslarvottar tilheyri aðeins fjarlægri fortíð og séu ekki til í dag! Hetjuskapur og píslarvætti eru í auknum mæli áberandi og einkenna heilar þjóðir um þessar mundir. Þessi dæmi eru ekki eins skýr, en segja má að ákveðnar þjóðir séu að búa til alveg nýjan lífstakt.

Hugsuðurinn vissi að hinar mörgu myndu mynda þjóðir og fórnfúst starf þjóða væri mikils virði og skilið sem hetjudáð.

273. Urusvati veit að sjálfshyggja er eins og blettur á gleri og að það eru mismunandi tegundir af sjálfshyggju. Auk persónulegrar sjálfselsku getum við séð dæmi um fjölskyldu og jafnvel kynþátta sjálfshverfu. Það er auðvelt að ímynda sér hversu mikil brenglun sannleikans stafar af slíkri uppsöfnun eitraðra tilfinninga! Þar að auki er jafnvel sjálfhverfa á plánetuvísu. Þú heyrir oft vísindamenn lýsa því yfir að líf sé aðeins til á jörðinni. Þeir halda því fram að jörðin búi við einstök og einstaklega hagstæð skilyrði og hafa ekki hugmynd um tilvist fíngerða heimsins.

Það eru til vísindamenn sem halda því djarflega fram að í öllum óendanleikanum sé ekkert líf nema á jörðinni! Það er ekki nóg að kalla slíka fullyrðingu frekju: aðeins grófasta sjálfhverfa getur dregið fram svona fáfróða hugmynd. Þessir vísindamenn gera enga tilraun til að kanna aðstæðurnar sem eru fyrir hendi í alheiminum og byggja dóma sína á eigin mjög takmörkuðum athugunum!

Sönn vísindi mæla ekki fyrir um takmarkanir. Það er sérstaklega átakanlegt að á tímum þenslu hugsunar getur verið svo staðnað og heimskuleg stolt. Hvaða önnur orð getum við notað til að lýsa afstöðu þeirra sem halda því fram að jafnvel óendaleikinn sé háður dómi þeirra? Slíkt fólk veldur miklum skaða vegna þess að það hindrar möguleika á víðtækri hugsun.

Mörg svokölluð fyrirbæri sjást á jörðinni. Óvenjulegir mannlegir hæfileikar gera vart við sig og byrjað er að rannsaka. Hins vegar, um leið og afneitun og bönn birtast, skapast hindranir fyrir þróun. Sannarlega getur frjáls vilji valdið hörmungum.

Hugsuður kenndi um skaðsemi takmörkunar.

274. Urusvati veit um skaðann sem skapast af stéttarskiptingu. Við ættum ekki að hafa aðeins þær í Indlands í huga, því miður eru stéttir til undir mismunandi nöfnum í öllum löndum. Hún eru alls staðar jafn skaðleg og ætti að útrýma.

Til er saga um lækni til forna sem sýndi fólki af ólíkum stéttum jafna athygli og vegna þessa göfuga viðhorfs vildi fólkið grýta hann. Þegar hann var spurður hvort hann myndi einnig beita sömu umhyggju fyrir fólki af öðrum þjóðum svaraði hann að allir ættu að vera eins meðhöndlaðir og þá var honum algjörlega bannað að stunda lækningar.

Slík dæmi tilheyra fyrri öldum, en enn í dag má sjá svipaða fáfræði. Við slíkri hjátrú og villimennsku ætti að leita réttra úrræða. Slík skipting hafði einu sinni hagnýtan tilgang, en hún er úr sér gengin fyrir löngu og getur í dag ekki talist skynsamleg.

Aðeins vísindi geta hjálpað, með því að sanna að stéttakerfi eru óvísindaleg. En vísindin geta aðeins hjálpað ef þau eru sameinuð réttum skilningi á fíngerða heiminum. Það er hægt að sanna að svið fíngerða heimsins stjórnast af meginreglum sem jarðnesk kerfi geta ekki ófullnægt. Snerting við fíngerða heiminn er meiri en virðist. Vitund hærri heima hvetur manninn til að fylgjast með fíngerða heiminum, þó hann geti kallað hann ýmsum nöfnum. Starf allra vísindasviða ætti að beinast að honum, en í stað þess að leita þekkingar reynir fólk að hindra alla nýja möguleika.

Ekki vera hissa á því að jafnvel efnislegustu vísindin muni óhjákvæmilega leiða til hliða ótakmarkaðrar þekkingar. Mörg jarðnesk kerfi verða að breytast.

Hugsandanum var umhugað um andlega velferð lærisveina sinna og gætti þess að þeir hrösuðu ekki um tálsýnir hindrana.

275. Urusvati þekkir margar birtingarmyndir sálarorkunnar. En margur misskilningurinn hefur myndast um þetta hugtak. Sumir afneita tilvist hennar alfarið; aðrir hugsa um það sem einhvers konar kraftaverk; enn aðrir samþykkja það, en halda því fram að sálarorka sé forréttindi, aðeins ætluð fáum. Sannleikurinn er sá að sálarorka gegnsýrir allt sem til er og vegna þess að hún er orka, ber hún öll einkenni orku. Til dæmis getur það örvað og eflt orkustöðvarnar, en á sama tíma getur hún aukið hvaða sjúkdóm sem er í lífverunni.

Að vissu marki er hægt að beina drifkrafti sálarorkunnar. Við lækningu getur upplífgandi eða mjög einbeitt hugsun beinst að veiku líffæri. Hvers konar last eða eyðileggjandi hugsun mun hins vegar auka orkuflæðið í átt að sýktu líffæri og auka sjúkdóminn. Vitur er læknirinn sem segir sjúklingi sínum að lasta ekki eða hata. Við höfum oft bent á að hrein hugsun er gagnsemi og hefur lækningamátt; hugsun opnar hliðið að lækningamætti frumorkunnar.

Nú á dögum rekur fólk marga sjúkdóma til taugakvilla og kemst því nær hugmyndinni um frumorku. Það má með vissu segja að gangur hvers sjúkdóms sé háður ástandi sálarorkunnar, en fólk neitar að skilja að frjáls vilji sé sterkur þáttur í samskiptum þeirra við hana. Því betur sem maður skilur þetta, því betur getur maður hjálpað sjálfum sér.

Í fornöld var kraftur orkunnar kenndur við kraft móðurinnar. Fólk bað meira að segja ákaft til hennar um hjálp og gat þannig aukið orkuna. Það skiptir ekki máli hvort bæn er stormandi eða óhagganleg róleg; einn ómissandi eiginleiki er að það sé meðvitað ákall.

Hugsuðurinn sagði: „Ég get ímyndað mér hvernig kallið mun ná til hinnar tignarlegu móður! Með einu handbragði mun hún beina sorg okkar í farveg gleðinnar. Hláturhof er í Spörtu og þar læknast margir sjúkdómar. Sem betur fer eru engin háðshof. Forðastu lastmælgi!“

276. Urusvati veit um ráð mitt að skrifa niður óvenjulegar og sjaldgæfar birtingarmyndir. Það eru margar ástæður fyrir því. Þú hefur lesið um tíðnisnæmni, en það eru nokkrar tegundir sem eru mjög mismunandi. Tíðnisnæmni getur verið af hljóði, lykt eða bragði. Fólki getur stundum liðið eins og það sé gegnsýrt af ákveðnu hljóði. Ef slíkt fyrirbæri gerist ítrekað hefur það ákveðinn tilgang, annaðhvort að gefa til kynna eitthvað eða sem áminningu. Sama gerist með bragð- og lyktarskyni, eða þegar einstaklingur af einhverjum ástæðum getur farið að finna fyrir aðlöðun eða andúð á ákveðinni skynjun. Þannig fær fólk með skynfærum sínum merki um viðvörun og vernd frá djúpum eigin vitundar.

Sjaldan gefur fólk gaum að slíkum ábendingum, sem aðeins er hægt að rannsaka með langri athugun. En hverjum er ekki sama um svona langdregin ferli? Fólk les um tafarlausa uppljómun og ímyndar sér að það geti náð árangri án andlegrar ástundunar og langvinnra tilrauna. Fólk vill ekki heyra að tilteknar tilraunir krefjist tíma sem jafngildir nokkrum kynslóðum; það þráir tafarlausa uppljómun, jafnvel þó svo hraðað ferli gæti eytt nágrönnum sínum.

Gæta skal sérstakrar varúðar á tímum truflaða kosmíska strauma. Þú hefur lesið um kosmískar hættur, en þær eru miklu fleiri en vísindamenn geta greint, og mikilvægur punkturinn er að vita hvaða straumar geta unnið gegn þeim. Maður ætti ekki aðeins að huga að hættunum heldur einnig að vera tilbúinn að standast þær með öllum mögulegum ráðum.

Langt síðan Hugsuðurinn tók eftir því að reykur frá varðeldum er skaðlegur og hvatti fólk til að nota við sem reykurinn svæfir ekki meðvitundina. Hann vissi þá að einhvern tíma myndi mannkynið eitra fyrir sjálfu sér og öllu sem til er.

277. Urusvati veit hversu vandlega maður ætti að meðhöndla sálarorku sína. Margir skilja ekki að jafnvel hin ótæmandi frumorka þarfnast umönnunar. Allir sem leggja sig fram geta borið vitni um að stundum magnast orkan svo að hún virðist vera uppurin. Við ráðleggjum sérstaka varúð á slíkum tímum. Það eru margar orsakir fyrir slíkri augljósri þreytu, allt frá heilsufarsástandi manns til kosmískra aðstæðna.

Við höfum nefnt hvernig vinur Minn veiktist þegar það var nauðsynlegt fyrir hann að sinna nokkrum verkefnum í einu. Orsök veikinda hans var of mikil spenna í sálarorku. Gleymum því ekki að vinur Minn sótti fram með aukinni orku, en þjáðist samt af langvarandi veikindum. Við erum á móti óhóflegri notkun sálarorku. Maður getur ímyndað sér hversu erfitt það er að endurheimta jafnvægið eftir slíka þreytu og mikinn tíma þarf til að endurheimta alla krafta manns. Ef geimstraumarnir eru hagstæðir er auðveldara að koma á jafnvægi, en það gerist ekki alltaf. Vinur Minn þjáðist á tiltölulega rólegum tímum, en nú á dögum myndu slík veikindi vara miklu lengur.

Við fylgjumst með nytsömum samstarfsmönnum og vörum þá við ef við sjáum að strengirnir eru of spenntir. Sérstaklega núna, plánetan er að upplifa tímabil áður óþekktrar spennu. Þreyta, syfja, bólgur og óhófleg virkni hjartans, allt þetta á undan minnkun á sálarorku.

Við vitum að við núverandi jarðneskar aðstæður er ekki hægt að ná fullkomnu jafnvægi. Þetta er hætta sem ber að hafa í huga. Þegar aðstæður á jörðinni verða enn flóknari munu margir muna eftir ráðleggingum Okkar um að meðhöndla sálarorku af varkárni. Á órólegum tímum getur jafnvel einfaldur hugsunarflutningur verið þreytandi. Þetta ætti að taka með í reikninginn.

Hugsuðurinn sagði: „Af hverju er stundum auðveldara fyrir mig að lyfta trjábol en að einbeita mér að hugsuninni? Ég skammast mín ekki fyrir að viðurkenna það, því ég veit að þetta gerist ekki vegna leti minnar, heldur vegna einhvers sem ég hef ekki stjórn á.“

278. Urusvati veit um þreytu sem við höfum lýst sem vinur Minn reyndi. Þrjár aðferðir eru til að berjast gegn því. Maður getur vísvitandi aukið spennuna að svo miklu leyti að upphaflega þreytan glatist í hringiðu nýju örvunarinnar, eða slakað á algjörlega án hugsana eða spennu, eða breytt staðsetningu þannig að rýmis- og jarðstraumar verði gjörólíkir.

Við vörum alltaf við svona mikilli þreytu. En þó að margir jarðneskir sjúkdómar séu afleiðing slíkrar óhóflegrar spennu sálarorku, er ómögulegt að losa hugsandi veru frá spennunni sem fylgir baráttunni við myrkraöflin.

Þú gætir verið viss um að Við erum meðvituð um þessa baráttu, því eins og hestur á stökki veldur rykskýi, vekur segull sálarorkunnar hringiðu óreiðu. Nefna má mörg dæmi úr daglegu lífi sem myndu sýna framsæknar árásir glundroða öld eftir öld. Þær munu halda áfram að aukast og allan jafnvægiskraft þarf til að standast þær. Þannig eru þessi tímar og sérhver viðkvæm manneskja ætti að vera viðbúin að verjast glundroða.

Varðveisla sálarorkunnar er nauðsynleg fyrir mikillar þjónustu. Fólk gleymir því að mikil þjónusta hefur marga eiginleika, fyrst þeirra er samanburðarhæfni. Kynntu þér jarðneska líf hinna miklu kennara og taktu eftir sérstökum tegundum sambærileika þeirra. Ég hef sérstaklega í huga jarðneska líf þeirra, þegar þeir vissu ekki af fyrra lífi sínu.

Einnig strituðu þeir í mörgum lífum. Hver átti sitt einkalíf innan um siði hvers tíma og stað. Innri viska þeirra gerði oft uppreisn gegn fáránlegum leifum fortíðar, en til að geta sinnt verkefni sínu þurftu þeir að beita ýtrasta sambærileika. Það þurfti líka að vera á móti lasti og svívirðingum. Kennarinn veit að þessir lestir menga rýmið.

Fólk er alls ekki að viðurkenna að hugsanir þeirra og tal geti valdið óbætanlegum skaða. Það er ómögulegt að sannfæra fólk um að það sé að eyða andlegri orku. Það nærir þessar skaðlegu þætti sem gleypa sálarorkuna. Burtséð frá reiðiköstum og pirringi kemur ósvífni af fáfræði, en skaðinn sem af því hlýst er sá sami.

Aðeins sambærileiki getur bjargað manninum frá slíkri sjálfseitrun. Ímyndaðu þér hvernig kennaranum líður innan um svo eitrað andrúmsloft, ekki aðeins í jarðneska lífi, heldur líka í hærri heimum. Ósvífni stríðir gegn hugmyndinni um almenna hagsmuni og ber að mótmæla harðlega.

Það má telja upp hætturnar sem maðurinn sjálfur hefur skapað, sem koma sérstaklega fram þegar kosmískir straumar magnast. Það sem við segjum núna ætti einnig að beita á næstu árum, því sólblettir og stormar geimsins eru grimmir.

Hugsuðurinn var vanur að segja: "Fegurðin mun bjarga okkur frá ósvífni."

279. Urusvati veit hversu erfitt það er fyrir fólk að sætta sig við margbreytileika þróunarinnar. Hver og einn telur að það sé aðeins eitt lögmál og hefur aðra hugmynd um alheiminn. Þegar fólki finnst mótsagnir í hinum ýmsu ritningum segja þau að í þeim sé ónákvæmni. Þessar deilur og misskilningur koma upp vegna vanhæfni hinnar venjulegu vitsmuna til að ímynda sér kerfi með óendanlegum möguleikum og alhliða lögmál með mörgum hliðum.

Engu að síður ættu menn að venjast margbreytileika alheimsins. Plánetan okkar, með sínum fíngerðu sviðum, getur orðið fyrir áhrifum á óvæntustu vegu frá fjarlægum heimum. Það er rangt að halda að sólkerfið okkar sé algjörlega einangrað. Þvert á móti, allir heimar eru tengdir innbyrðis á fíngerðan hátt. Grundvallarlögmálið er óumbreytanlegt, en hver pláneta skapar og varpar fram einstökum eiginleikum sínum.

Einstaklingar af miklu eldri þróunarstigum lifa saman á jörðinni með fólkinu af sjötta kynstofninum. Það má sjá að viðhorf fólks er mismunandi, allt frá þeim frumstæðustu til þeirra upplýstu. Við mætum andstæðum, ekki aðeins á jarðneska sviðinu heldur líka í fíngerða heiminum. Það er mikilvægt að vita um þessi aðþrengjandi áhrif fjarlægra kerfa. Þau virka eins og sprengingar og stormar og geta valdið byltingu. Þess vegna skaltu ekki gera ráð fyrir að fíngerði heimurinn sé stranglega mótaður og að eilífu skipaður. Maður verður að venjast þeirri hugmynd að jafnvel á hærri sviðum geti orðið árekstrar sálrænna afla.

Aðeins meðvitund um hina miklu fjölbreytni getur bjargað manni frá hættum takmörkunar. Maður verður að finna sjálfan sig lifa í hinu óendanlega og öðlast síðan styrk með því að beina vitund sinni til fjarlægra heima. Þannig verður hugmyndin um margbreytileika þróunarinnar skýrari.

Hugsandinn gat umfaðmað allan alheiminn í huga sínum. Fólk var vant að segja: "Það er betra að skjátlast um Plató en að ganga til liðs við vitsmunalegu afneitarana." Þannig voru bestu hugtökin að veruleika í fornöld.

280. Urusvati hefur heyrt mörg hljóð náttúrunnar. Sannarlega er náttúran aldrei þögul. Bústaður Okkar hefur orð á sér fyrir kyrrð, en þetta ætti að skilja afstætt. Það er rólegt í samanburði við jarðneskan, mannlegan hávaða, en náttúran heldur áfram að senda frá sér hljóðin sín. Hvísl fjallanna og hávaðinn frá fossum og lækjunum nálægt bústaðnum renna saman í einn magnaðan kór. En allar þessar raddir náttúrunnar geta ekki komið í veg fyrir að maður heyri köll veruleika hærri heims.

Fólk gerir ranglega ráð fyrir því að hægt sé að kalla fram tónlist sviðanna með valdi. Maður getur heyrt þessi hljóð, en upptök þeirra eru of fjarlæg og ekki hægt að kalla fram í titringi jarðar. Maður verður að ímynda sér allan stormasama, ofbeldisfulla kosmíska óróann til að skilja auðmjúka stöðu jarðar okkar.

Sumir trúa því enn að jörðin sé kyrrstæð, að hún sé miðja alheimsins og að mannlíf sé aðeins til hér. En ef fólk heldur áfram að trúa því að jörðin sé miðja alheimsins, og að hún séu eina kóróna sköpunarverksins, verður til ný krampabylgja fáfræði. Slíkar ranghugmyndir eru fáránlegar og skaðlegar fyrir þróunina og jafnvel án þeirra er fólk vonlaust og ómeðvitað um óendanleikann.

Vísindamenn ættu að skilja ábyrgð sína og benda á hættuna af slíkum ályktunum. Þeir verða að hafa nægileg heilindi til að halda fram ósönnuðum kenningar, hversu stórbrotnar sem þær kunna að vera.

Það eru ákveðin viðhorf sem ber að taka með fyllstu varúð. Til dæmis er sjálfstraust frábært hugtak, en yfirlæti er gröf þróunarinnar. Ekki ætti að gera lítið úr plánetunni Jörð, en skilja þarf raunverulega stöðu hennar innan mikilfengleika hins óendanlega.

Hugsuðurinn beindi oft athygli fólks að fjarlægum heimum. Þó að hann gerði sér fulla grein fyrir hinum litla stað sem jörðin er, myndi hann aldrei gera lítið úr fegurð fæðingarstaðar síns.

281. Urusvati veit hversu lífsgleði er nauðsynleg. Það er ekki aðeins gagnleg lækning, heldur einnig besta hjálpin fyrir samfélag við Okkur. Hvaðan kemur þessi örvandi tilfinning, sem kallast gleði? Hún verður ekki af til af auði eða sjálfsánægju, heldur er upplifuð oft í mestu erfiðleikum og ofsóknum. Á tímum streitu er gleði sérstaklega dýrmæt og líknandi. Við köllum það, gleðina að vera til, því það er ekki háð persónulegum aðstæðum, velgengni eða hagnaði. Þessi gleði hefur engar jarðneskar ástæður; hún kemur sem forveri hæstu strauma og upplyftir öllu umhverfis sig.

Getur gleðitilfinning orðið þegar maður þjáist af sjúkdómum eða þegar maður er fórnarlamb óréttlætis og niðurlægingar? Jafnvel við slíkar aðstæður geta augun stundum fyllst eldi, hneigt höfuð lyftist og nýr styrkur verið reyndur. Þá gleðst maður yfir lífinu, kannski ekki yfir jarðnesku lífi sínu, heldur yfir raunverulegri tilveru.

Hvaða sterku hugsanir munu koma til þeirra sem skynja gleðina yfir því að vera til! Andrúmsloftið í kringum þá hreinsast, þeir sem eru nærri þeim munu finna létti og Við munum brosa úr fjarska og samþykkja betri strauma. Við munum jafnvel vera þakklát, því að hver varðveisla orku er góð.

Allir sem vilja ná árangri ættu að muna gleðina við að vera til. Hver einstaklingur sem vill hafa samband við betri strauma ætti að þekkja leiðina sem mun leiða hann til Okkar. Maður þarf ekki að búa til sérstakar vísindalegar ástæður fyrir slíkri gleði; hún kemur í gegnum hjartað og er algjörlega raunverulegt. Þessi gleði mun gera manni kleift að heyra betur kall Okkar.

Stundum safnaði Hugsandinn lærisveinum sínum saman til umræðna, sem hann kallaði gleðihátíð. Aðeins var boðið upp á lindarvatn og brauð. Við slík tækifæri sagði Hugsuðurinn: „Við skulum ekki svæfa gleðina með víni og ríkum mat. Gleðin er ofar öllu."

282. Urusvati veit hversu skaðlegt er að menga rýmið. Við höfum þegar gefið margar vísbendingar um hvernig eigi að forðast að valda skaða, en nú ráðleggjum Við þér að dvelja ekki við mistök eða vera á stöðum þar sem lastmælgi eða pirringur er. Slúður um mistök mengar andrúmsloftið í kringum þig og dregur að sér strauminn sem mun auka á upprunalegu ástæðurnar. Á sama hátt er skaðlegt að dvelja á stað sem er mengaður af lastmælgi eða pirringi. Ég tala sem læknir.

Bæði lastmælgi og pirringur eru sérstaklega skaðlegar þegar geimstraumarnir eru spenntir. Þeir valda bólgu í slímhúð sem ekki er hægt að rekja til veikinda í maga, þörmum, nefi eða hálsi. Það getur verið sársauki á einu tilteknu svæði, samt eru allar slímhúðir bólgnar og sjúkdómsgreiningar mistakast vegna þess að þær taka ekki á öllum einkennum. Þessi sjúkdómur getur talist tengjast Harmageddon. Í augum, þörmum, maga, tönnum, hálsi og hjarta koma fram óvæntar samsetningar einkenna. Þetta ástand krefst alvarlegrar athygli þar sem það eyðileggur slímhúðina og getur borist yfir í taugakerfið.

Skildu að þetta er almenn bólga og ætti að meðhöndla í samræmi við það. Það á að borða mjög léttan mat, ekkert hrátt eða ertandi. Forðastu að verða kalt, þreyta augun og láta ertingu líða. Lyf munu lítið hjálpa og áfengi ætti ekki að taka. Ekkert ætti að taka of heitt eða of kalt og hægðalyf ætti aðeins að nota í litlum skömmtum og helst ekki á hverjum degi.

Ég varaði fyrir löngu við eldlegum sjúkdómum sem hreinar lífverur eru viðkvæmastar fyrir. En fólk hunsar þessa nýju ágengu sjúkdóma. Þeir geta verið ansi þreytandi; oft er ófullnægjandi meðferð beitt og skaðinn eykst. Að vísu er hver sjúkdómur byggður á bólgu og bólgur tengjast eldsýki, en sumir sjúkdómar stafa af ytri eldspennu.

Margir farast úr þessum óþekktu kvillum og jafnvel þroskuðustu lífverur munu þjást af of miklu álagi eða pirringi. Veikindi vinar Míns eru dæmi um það. Hann hafði mikla sálarorku, en fáfræði fólksins í kringum hann og pirringur þess og þrjóska skapaði eitrað andrúmsloft. Þegar Við erum í turni Okkar, getum við notað sérstakt óson, en Ég get ekki neitað því að jafnvel þar þjáumst við af eitraða andrúmsloftinu.

Hugsuðurinn varaði við því að maður ætti að óttast eitrið í bolla minna en eitrið í umhverfinu, því eitrað rými hefur enn banvænni strauma.

283. Urusvati veit hversu mikils Við metum viðbúnað til aðgerða. Virkni getur verið tvenns konar, ytri og innri. Einstaklingur hefur kannski ekki enn tækifæri til að hefja ytri virkni, þó að innri einbeitni hans sé þegar bundin við að leita sannleika og þrá eftir sjálfsfullkomnun. En viðleitni hans skapar innra með honum eins konar segul, sem laðar að ytri möguleika.

Við erum stöðugt á hreyfingu. Jafnvel þegar Við dveljum áfram í bústað Okkar, erum við á sama tíma að færast inn í fjarlæg svið með krafti viðleitni Okkar.

Maður ætti að vita að virkni er gagnleg; hins vegar geta ímyndanir manns hindrað virkni alvarlega. Það er persónugerðir sem standa gegn hugmyndinni um að vera virkur. Þessi persónur eru sérstaklega skaðlegar og þær eru margar.

Vilji til hreyfinga hreinsar hugsun manns og Við fögnum því að sjá þessa umbreytingu á viðhorfum. Eignir missa dáleiðslumátt sinn og hætta að íþyngja meðvitundinni. Fólk getur þá skilið jafnvægið milli þess að eiga hluti og afsala sér þeim. Eftir stendur virðing fyrir mannlegri vinnu og eigingjarn græðgi leysist upp í hringiðu hreyfingarinnar.

Hversu fagrar eru hugsanir um hreyfingu! Þær eru Okkur innblástur. Við sigrum hugmyndina um tíma þegar við erum á hreyfingu. Við getum leyst vandamál þegar við höldum okkur við hugmyndina um hreyfingu. Vertu ekki hissa á því að hjá mörgum sé innsæi löngun til að fljúga, því þetta er merki um tímabil Okkar. En fólk ætti að hreyfa sig enn meira í hugsun og komast þannig á undan jafnvel hraðskreiðasta fluginu. Ég þekki hugrakt land sem er tilbúið fyrir svo hátt flug.

Hugsuðurinn benti á ákveðna þjóð sem mun sigra Norðrið og sagði: „Líttu eftir táknunum sjö á himninum; þau benda á land sigurvegaranna."

284. Urusvati veit að stundum tjáir mannleg vitund sig óeðlilega með tvíþættum hætti, sem eins konar klofin vitund. Þetta getur verið merki um þráhyggju, en það eru tilfelli þar sem tvískiptingin er afleiðing af hvatningu fyrri jarðvista. Það eru líka tímar þar sem framtíðin sést og eins og dáleiddur sé, er einstaklingurinn dreginn frá núverandi veruleika.

Klofin vitund á sér stað oftar en fólk grunar og er ekki hægt að rekja hana einfaldlega til slæms eðlis eða slæmra ávana. Það gerist oft þegar meðvitundin slokknar tímabundið, þegar, eins og sumir vísindamenn telja, kemst vitundin í snertingu við glundroðabylgjur og leiða af sér afbrigði. Þessi athugun er án efa rétt.

Fólk rannsakar venjulega ekki eðlilegt vitundarástand og lærir því ekki um frávik þess. Við ráðleggjum að rannsaka vitund mannsins, svo að auðveldara sé að þekkja margs konar afbrigðileika. Það er heldur ekki rétt að gera ráð fyrir að sjúkdómur í lífverunni hafi alltaf slæm áhrif á vitundina. Reyndar, stundum er það veikindi sem hækkar vitundina. Við munum nú ekki telja upp hinar margvíslegu aðstæður sem hafa áhrif á mannlega vitund, heldur viljum við einfaldlega benda á að tvískipting vitundar er algengt, en þó óæskilegt ástand.

Það er mjög erfitt að hjálpa fólki sem er þjáð, þar sem hvert hugarástand krefst sérstakrar sefjunartækni. Stundum er tvískiptingin svo mótsagnakennd og sveiflurnar koma svo oft fram að ómögulegt er að beita sefjun og getur verið alveg gagnslaus eða jafnvel skaðleg.

Sannarlega þarf maðurinn að læra um andlega orku sína. Margar tilraunir eru í gangi, en enn sem komið er eru niðurstöðurnar ekki viðunandi þar sem rannsakendur vinna án nokkurs kerfis og horfa framhjá mörgum staðreyndum.

Hugsuðurinn benti á að slíkar rannsóknir ættu að vera samfelldar og gerðar á hlutlægan hátt, án persónulegrar hlutdrægni.

285. Urusvati veit að hættan á geðrænum faraldri fer vaxandi. Í Puranas var því spáð að undir lok Kali Yuga yrði mannkynið knúið til brjálæðisverka. Það er stórhættulegt að fólk viðurkenni ekki þetta ástand, því á meðan hægt er að lækna sjúkling sem berst ekki gegn meðferð, en ef hann berst gegn henni, minnka jákvæð áhrif lyfsins.

En hvernig útskýrir þú fyrir fólki að leiðtogar þess og kennarar séu geðveikir? Hvernig er hægt að sannfæra þjóð um að gera þurfi tafarlausar ráðstafanir til að endurheimta heilsu hennar? Reyndar, lyfseðlar Okkar væru talsvert frábrugðnar þeim ráðstöfunum sem læknayfirvöld bjóða upp á! Þetta verður sérstaklega augljóst á sálarsviðinu. Fólk viðurkennir ekki enn andsetu og þó að margar bækur séu til um efnið mun huglaus meðvitund afneita staðreyndum. Það er hægt að sýna fram á margar raunverulegar birtingar, en þeir sem vilja afneita munu einhvern veginn réttlæta vantrú sína.

Reyndar samsvarar slíkt andlegt rugl að fullu við endalok Kali Yuga, en sagt var að ef ruglið næði hámarki væri eina leiðin til að leiðrétta ástandið með brennandi hreinsun. Dæmin úr fortíðinni eru fjölmörg. Fólk er þegar byrjað að tala um Harmagedón. Fyrir nokkrum árum hefði það ekki hugsað um nálægð afgerandi atburða, en kenningarnar þjóna tilgangi sínum og jafnvel efasemdarmenn eru nú meðvitaðir um skelfingar Harmagedón. Þannig dreifast upplýsingarnar á sinn hátt.

Við krefjumst þess ekki að bera kennsl á upprunann. Hver og einn skilji í sínu hjarta hvaðan upplýsingarnar eru komnar. Flestir hata boðberann sem færir þekkingu. Þeir sætta sig kannski ekki við að það séum Við sem vörum við, en leyfðu þeim að minnsta kosti að muna viðvörunina um að mannkynið hegði sér brjálæðislega.

Hugsuðurinn varaði við: „Ekki falla í brjálæði.

286. Urusvati veit að ákveðnar aðstæður geta verið verri en stríðsástand. Þú veist vissulega að Við teljum stríð vera skömm mannkyns, en eitt ástand sem getur talist verra er hrörnun mannkynsins.

Harmageddon ætti ekki að skilja sem aðeins líkamlega orrustu. Það er fullt af óteljandi hættum, þar á meðal farsóttir, en skaðlegustu afleiðingarnar verða andleg úrkynjun. Fólk mun missa traust hvert á öðru og keppast við að gera illt. Það munu þróa með sér viðvarandi hatur á öllum nema sínum líkum og munu sökkva í ábyrgðarleysi og siðspillingu.

Við alla þessa geðveiki bætist sú skammarlegasta - harðnandi samkeppni karla og kvenna. Við krefjumst þess að konur fái jafnan og fullan rétt, en þjónar myrkursins mun reka þær frá mörgum starfssviðum, jafnvel þar sem þær hafa mestan ávinning. Við höfum talað um hinar fjölmörgu meinsemdir í heiminum, en endurnýjuð barátta milli karl- og kvenreglunnar verður hörmulegust. Það er erfitt að ímynda sér hversu hörmulegt þetta verður, því þetta er barátta gegn þróuninni sjálfri! Hversu hátt verð borgar mannkynið fyrir hverja slíka andstöðu við þróun! Í þessum átökum pillast ungu kynslóðirnar.

Plató talaði um fagra hugsun, en hvers konar fegurð er möguleg þegar fjandskapur er á milli karls og konu? Nú er kominn tími til að huga að jöfnum og fullum réttindum, en myrkrið ræðst inn á hið spennuþrungna ástand. Hins vegar munu allar árásir myrkursins þjóna ákveðnum tilgangi, til góðs, því þeir sem hafa verið niðurlægðir í Kali Yuga verða vegsamaðir í Satya Yuga.

Við skulum muna að þessi ár Harmagedóns eru þau áköfustu og heilsu manns ætti að vera sérstaklega gætt vegna þess að kosmískir straumar munu auka marga sjúkdóma. Þú verður að skilja að þessi tími er einstakur.

Það er skammsýni að halda, að ef komið er í veg fyrir stríð verði öll vandamál leyst! Það eru þeir sem halda það og ímynda sér að þeir geti svindlað á þróuninni, án þess að gera sér grein fyrir því, að versta stríðið er á þeirra eigin heimilum. Hins vegar eru staðir á jörðinni þar sem þróunin er eðlileg og Við erum alltaf til staðar.

Hugsuðurinn varaði við því að gjafir allra gyðjanna yrðu að vera dýrmætar. Aðeins slík uppsöfnun mun hjálpa til við að sigra myrkrið

287. Urusvati veit að grundvallar eldorkan getur gert hluti ekki aðeins lýsandi heldur gegnsæja. Við kröftug fyrirbæri er gegnsæið næstum nóg til að stangast á við venjulega hugmynd um fastan líkama. En slíkar birtingarmyndir sjást sjaldan með berum augum. Ekki er hægt að búast við því að eldsþátturinn birtist á venjubundinn hátt, þar sem slík eldspenna getur orðið jafn eyðileggjandi og sterk rafsprenging.

Hvernig er þá hægt að útskýra gegnsæi fastra líkama? Hver líkami ber eldorkuna innra með sér og við óvenjulega styrkingu kviknar þessi orka og þéttleikinn virðist hverfa. Það eru tvær ástæður fyrir því að slíkt fyrirbæri gerist svo sjaldan - eiginleikar eflingarinnar og hæfileiki þess sem skoðar. Erfitt er að fylgjast með slíkum fyrirbærum á meðan maður er í líkamanum, vegna þess að hjartað ofþreytist og aðeins ein eða tvær athuganir með löngu millibili má leyfða. Þess vegna verður að halda sambandi við ákveðin svið með varúð.

Flestir missa af þessu atriði og gera sér ekki grein fyrir þörfinni fyrir slíkar varúðarráðstafanir. Jafnvel frótt fólk getur ekki skilið óbreytanleika lögmálanna, og brot á þeim felur í sér bakslag, refsingu, í samræmi við það og án undantekninga.

Engu að síður er hægt að fylgjast með fyrirbærinu eldorku og Urusvati getur staðfest gegnsæi líkamana sem loga með henni. Slíkar birtingarmyndir má einnig sjá á rannsóknarstofum Okkar, en sérstaklega á þessum tímum, jafnvel þar verðum við að bregðast við með varúð.

Hugsuðurinn varaði samborgara sína við: „Þú getur líka kviknað af hatri. Eldur flæðir í æðum þínum."

288. Urusvati veit að margar litlar stungur geta verið hættulegri en eitt sterkur bit. Miðað við núverandi ástand heimsins ætti að viðurkenna þennan sannleika. Fólk býst við stórviðburðum, að minnsta kosti árekstri við halastjörnu, en tekur samt ekki eftir hinum mörgu litlu daglegu hættum. Það verður að minna fólk á að það veldur þessum hættum sjálft með sífelldum deilum. Þessi viðvörun er ekki gefin í nafni hærri heimspeki, heldur einfaldlega vegna líkamlegs öryggis!

Það voru engin tímabil í fornöld sem líkjast núverandi tímum heimsátaka.Til forna áttu þúsundir hlut að máli, í dag eru það hundruð milljóna! Reyndu að ímynda þér muninn á krafti útgeisluninni og mýgrút ósýnilegu þátttakenda sem allir eru umkringdir. Við skulum ekki reyna að reikna út fjöldann sem veldur röskun á jarðneska sviðinu, heldur íhuga hina óteljandi ósýnilegu stungur.

Sérstaklega ógeðfelldar eru tilfinningar sem smáu stungurnar kalla fram. Við miklar hörmungar geta tilfinningar um fórnfýsi eða hetjuskap vaknað, en á tímum hrörnunar er fer aðeins orka til spillis. Ég fullyrði að það versta við Harmageddon er hnignun lífvera. Við miklar truflanir er hægt að auka leiðbeiningarnar, en hvað er hægt að gera við slíkri hnignun?

Maður ætti að átta sig á því að stríðsmenn þess góða eru ekki alltaf færir um að sigra myrku hersveitirnar fljótt. Gæta verður að mörgum aðstæðum, bæði hversdagslegum og yfirheimslegum. Mundu að mannleg samvinna hefur kosmíska þýðingu og ímynd mannsins er sköpuð af honum sjálfum. En ef allt mannkyn ætti bara að gera ráð fyrir sömu grimmdinni, hvers konar mynd af manninum yrði þá sköpuð?

Þannig eyðileggur fólk sjálft jörðina. Það kýs hálfkák, eða jafnvel minna, og vill aðeins vera ótruflað. En við skulum vera viss um að niðurstaðan er ekkert nema niðurbrot.

Ekki ætti kenna myrkraöflunum um allt. Til hvers að búa til risa úr þeim? Er ekki betra að greina smekk mannkyns? Hvað hefur fólk gaman af og hverju hafnar það? Við skulum greina vísindin, heimspekina, listina og líkamlega menningu á þessum nótum og við munum sjá nákvæmlega hvar veikindi mannkyns liggja. Ef við skoðum hverja afneitun og komumst að því nákvæmlega hvað hefur valdið henni, verður augljóst að ógeðfelldar orsakir hafa ógeðslegar afleiðingar. Hvernig getur maður barist fyrir ljósinu á meðan hann er enn að gefast upp fyrir myrkrinu?

Hugsuðurinn skildi fyrir öldum síðan að fegurð er líka gæska.

289. Urusvati veit að skilningur á grundvallarreglunum og samkomulag um þær meðal samstarfsmanna er helsta tryggingin fyrir árangri. Hvað getur verið verra en múgur fólks sem skilur hrynjandi kraft orða og talna, en getur ekki verið sammála um grundvallarreglur lífsins? Við leggjum sérstaka áherslu á skilning á þessum undirstöðum, því án hans er þekkingin sjálf ekki aðeins gagnslaus, heldur jafnvel skaðleg.

Okkur er brugðið þegar Við heyrum einhvern tóna helgiorð sem er vel munað, því ef maður endurtekur orðin stöðugt, gæti framkallast óvænt kraftmikill taktur sem gæti í raun eytt manninum! Við fordæmum slíkt ábyrgðarleysi. Ímyndaðu þér hvað myndi gerast ef hópur varðmanna færi að skjóta af vopnum sínum óspart í allar áttir. Þeir gætu drepið hvorn annan! Það sama gæti gerst ef hópur fólks myndi endurtaka á minnið helgisiði án þess að hafa samræmdan skilning á þeim grundvallarsannleik sem liggur að baki honum.

Við höfum áður talað um sameiningu, sem þýðir fyrst og fremst samræmdan, gagnkvæman skilning á grundvallarsannleikanum. Menn geta rétt saman hendur í hátíðlegum eið, en það þýðir ekki að þeir séu allir sammála. Aðgerðir sem gerðar eru samtímis tákna ekki endilega einingu og án innri sáttar munu slíkar aðgerðir aðeins valda truflunum á andrúmsloftinu.

Hugsuður minnti aðra stöðugt á samhljóm í tónlist. Hann vonaði að þessi vitund gæti hjálpað til við að koma á samræmi í lífinu.

290. Urusvati veit hversu mikils Við metum hina mörgu hliðar visku. Viskan meðtekur gæsku, óháð uppruna hennar. Viskan fordæmir hið illa, óháð uppruna þess. Ekki taka visku sem sjálfsögðum hlut; því hún er fremur sjaldgæf. Margir farast vegna þess að þeir dæma gott og illt í samræmi við persónulegar hugmyndir sínar. Þeir búast aðeins við hinu góðu frá einum tilteknum uppruna og óttast illsku sem er oft aðeins draugur þeirra eigin ímynda.

Þú veist hversu vog góðs og ills sveiflast. Í jarðneskum skilningi getur enginn sagt fyrir um hvar gott eða illt hefur upptök sín. Við höfum séð þjófa sem urðu dýrlingar og stólpa kirkjunnar sem drýgðu ill verk. Það er heimska að vera takmarkaður af skoðunum sínum.

Víðsýni byggir á umburðarlyndi. Spekin mun segja: „Látið réttlætið ganga fram,“ en hún mun þó ekki kveða upp dóminn, því að spekin skilur hversu flókin skilyrðin eru fyrir réttlætinu. Viskan mun skynja réttan tíma og mun ekki þvinga fram atburði. Viskan gerir sér grein fyrir því að sérhver atburður tekur til allra þjóða.

Aðstæður geta birst á einn veg á yfirborðinu, en hin sanna dýpri merking getur verið allt önnur. Stundum birtist hið ætlaða í óvæntum búningi. Þannig venst maður þeirri hugmynd að réttlætið hafi mörg andlit.

Menn dæma í samræmi við vana sína, en réttlætislögmálið mótast í heimunum þremur og má teljast hærra heims. Hröðun og seinkun atburða er háð mörgum kosmískum orsökum. Oft er ómerkilegur jarðneskur atburður spegilmynd af miklum atburðum í fjarlægum heimum. Það ætti að vera samræmdur gagnkvæmur skilningur ef maður vill visku til að umbreyta veruleika hversdagslífsins.

Hugsandinn vildi gjarnan leggja áherslu á að þótt jarðneski pílagrímurinn fari sínar eigin leiðir, þá eru ótal leiðir fyrir ofan.

291. Urusvati veit að fólk vanmetur áhrif geimstrauma og gerir ráð fyrir að fágaðri lífvera sé minna næm fyrir þeim. En orðatiltækið „Byrði þessa heims,“ var þekkt í fjarlægri fornöld. Einfaldlega segir það, að þessa byrði sé borin af þeim næmu og þroskuðu, sem óma ákaflega við straumum geimsins. Þeir þjást mjög sem skynja fjarlæga jarðskjálfta og álag geimstrauma sem fara yfir ljóshraða. Rannsóknir á slíkum straumum hafa ekki enn verið þróaðar og fólk rekst á óljósar sannanir fyrir tilviljun. En læknar ættu að muna að geimstraumar hafa áhrif á marga sjúkdóma.

Fólk framleiðir sterkt eitur innra með sér og andar því frá sér í hatursköstum sínum. Goðsögnin um eitraðan andardrátt á sér sannan grundvöll. Öskur mannfjöldans splundrar rýminu og andblær illsku mengar andrúmsloftið í langan tíma. Það er sérstaklega tímabært að minna ykkur á þetta á dögum Harmagedóns.

Fólk ver sig gegn eitruðum lofttegundum með gasgrímum. En það ætti að útvega sér eina grímu í viðbót - verndargrímu hreinnar hugsunar - því aðeins hugsun getur verndað mann fyrir eitruðum andardrætti. Fólk ætti að viðurkenna að það er til slíkt eitur og muna að hugsun hefur mátt til að standast skaðlegasta titringinn.

Aðeins hugsun getur framleitt móteitur. Þessi orð ættu ekki að vera táknræn. Hugsun framleiðir efni sem dregur til sín hjálparöflin úr geimnum. Við höfum talað um mótstöðu gegn hinu illa. Nákvæm, skýr og öguð hugsun er öflugt hjálpartæki og einnig öflugt móteitur. Svokölluð friðhelgi er afleiðing hugsunar. Ef þú manst eftir Okkur muntu efla hugsanir þínar og þær munu öðlast nýjan kraft. Hugsaðu um Okkur. Hugsaðu um raunveruleikann og horfðu á skelfingar Harmagedón.

Hugsuður hughreysti lærisveina sína og sagði: „Ósýnilegur boðberi er tilbúinn að hafa samband við þig. Leyfðu honum að ná til þín."

292. Urusvati veit hvernig upplýsingar um bræðralagið hafa verið afbakaðar. Miðlar finna upp undarlegar sagnir og það eru enn skaðlegri uppspuni. Það er hægt er að kalla suma hálf-miðla, sem fá aðeins brotakenndar birtingar af fíngerða heiminum, og kenna þær síðan við líf Hvíta bræðralagsins.

Þú hefur heyrt um hinn falska Ólympus, sem var byggður af hugsunarformum í neðri astral heimunum. Brotakenndar upplýsingar um þennan Ólympus eru skynjaðar af miðlunum, en þeir vita lítið um hugsanaform fíngerða heimsins og eru alltaf tilbúnir til að heimfæra þessi hverfulu musteri, hátíðargöngur og prýðisklæðnað til turnanna Okkar. Þeir sem hafa litla þekkingu á aðstæðum fíngerða heimsins geta því orðið afvegaleiddir.

Venjulega getur jarðneskt fólk ekki ímyndað sér hin fíngerðu svið. Það gerir sér ekki grein fyrir því að fjöldi fíngerðra vera getur hreyft sig á milli þeirra, farið í gegnum þéttan líkama þeirra og jafnvel skapað sínar eigin heilu borgir. Fólk heldur að hugsanaform séu aðeins ævintýri og gerir sér ekki grein fyrir því að jarðvist þeirra setur mark sitt með þessum hætti á kosmískt líf.

Hversu skaðlegar eru öfgar! Annars vegar afneita sumir „eftirlífinu“ alfarið, á meðan aðrir setja trú sína á fáránlegar myndir, þvingaðar upp á þá af trúarbrögðum til að hræða þá! Það er rangt að vera í haldi þessara takmarkana. Fólk gleymir því að aðeins fordómalaus þekking mun hjálpa þeim að nálgast sannleikann.

Við skulum ræða tvær hugmyndir sem venjulega eru misskildar. Í fyrsta lagi gera menn ráð fyrir því að ef dulheyrn náist við venjulegar aðstæður, þá verði hún enn sterkari þegar straumarnir herðast. Hins vegar geta mjög styrktir straumar truflað dulheyrn, því þegar farið er yfir straumana mynda þeir eins konar skel sem er hugsunarflutningi getur ekki rofið.

Í öðru lagi, þegar Við mælum með árvekni, er átt við að henni sé beitt á öllum sviðum lífsins. Fólk heldur að árvekni sé aðeins nauðsynleg á mikilvægum stundum, en í raun er þess krafist í jafnvel ómerkilegustu daglegu athöfnum. Það er ómögulegt að aðgreina ytri smáatriði frá þeim nauðsynlegu, þess vegna ætti ekki að meta atburði út frá útliti þeirra. Allar aðstæður ber að íhuga í rólegheitum og menn verða að læra af fjölbreytileika þeirra. Reyndu að beita árvekni Okkar, þeirri árvekni sem ríkir í turninum Okkar.

Hugsuðurinn þreyttist aldrei á að minna lærisveina sína á mikilvægi þess að gefa gaum að hverju skrefi og hverri hugarsendingu. Hann sagði: „Það er ekki okkar að dæma hvað er mikilvægt og hvað er ekki mikilvægt. Því skulum við vera vakandi!“

293. Urusvati veit að fólk skilur auðveldar ráðgjöf þegar þau eru útskýrð með hliðstæðum úr læknisfræði. Sem dæmi má nefna að sjúklingur er beðinn að anda vel að sér ákveðinni lyfjagufu, en vegna þess að hann vantreystir lækninum andar hann aðeins að sér hálfum skammti og tilætlaður árangur fæst ekki. Á sama hátt, þegar fólk leitast ekki að fullu að Uppsprettu hins góða, verður árangurinn ekki góður. Vantrú, leti eða fáfræði mun leiða til sömu dapurlegu niðurstöðu.

Fólk ætti að muna að óöguð viðleitni þeirra veldur þjáningum hjá leiðbeinendum þeirra, sem fá eitraða stunga, ef svo má að orði komast. Við verðum að benda á að hluti byrðarinnar, stafar meira af óagaðri viðleitni, en af beinum fjandskap. Við leggjum sérstaklega áherslu á samræmi í hugsunarflutningi og að hver og einn að einbeita allri sinni vitund.

Á sama hátt hvatti Hugsuðurinn lærisveina sína: „Kannski er hægt að finna enn meiri einbeitingu. Leitið í hjörtum ykkar! Enginn getur sagt að hann hafi beitt viðleitni sinni af öllum sínum mætti. Við skulum tjá viðleitni okkar til hins ýtrasta og þá munum við lýsa því yfir fyrir öllum heiminum."

294. Urusvati veit hversu mikil uppsöfnun mannlegrar hugsunar er í efnislegum hlutum og að maðurinn sjálfur skapar góða og slæma hluti og staði. Margir leiðtogar völdu nýjar staðsetningar til að forðast slæma uppsöfnun fyrri íbúa. Sumir gerðu þetta meðvitað vegna þess að þeir vissu sannleikann, en aðrir höfðu einfaldlega óútskýranlega tilfinningu sem fékk þá til að búa í nýju, óflekkuðu umhverfi.

Sá tími kemur að fólk lærir að þekkja efnasambönd sem finnast í ýmsum jarðlögum. Menn munu þá ekki eigna því birtingarmyndir töfra eða galdra, heldur gera sér grein fyrir því að maðurinn sjálfur er eins konar töframaður á hverju augnabliki lífs síns. Mikill kraftur er veittur manni sem veit hvernig á að búa til formúlur góðs og ills. Við megum ekki líta á slíkt fólk sem galdramenn, heldur skilja að vefnaður góðs eða ills heldur áfram á hverri stundu. Við skulum hvetja vefara hins góða og vorkenna vefurum hins illa, sem munu einn daginn harma dökku líkklæðin sem þeir hafa ofið.

Flestir hafa ekki minnstu hugmynd um þetta og þeir sem gera það gleyma því fljótt. Það er ekki auðvelt verk að leysa upp þessar dökku lagskiptingar. Eins og þú veist andar hvert efni frá sér og geymir jafnvel sína sýkla. Fólk sættir sig auðveldlega við þá hugmynd að ákveðnir hlutir geti verið smitandi og jafnvel eitraðir, en neita að skilja að það séu þeirra eigin hugsanir sem gegnsýra hlutina. Reyndar hefur fólk lítið álit á virkni eigin hugsana! Sömuleiðis gera fáir sér grein fyrir því að með því að umkringja sig eitruðum hlutum setja þeir hindranir á milli sín og hærri sviðanna. Við köfnum í menguðu andrúmslofti. Það væri dásamlegt ef læknayfirvöld myndu beita hugarsviðinu sömu úrbótum og þau gera á hreinlætisaðstæðum!

Stundum ráðlagði Hugsuðurinn nýliða að þvo sér um hendurnar, því ill hugsun gæti hafa sest að þeim.

295. Urusvati veit að djúpstæð líkindi liggja að baki öllum siðferðiskenningum aldanna. Hvernig gæti það annars verið? Lögmálið er eitt. Það geta verið smáatriði sem eru breytileg eftir staðbundnu lífi, eða mismunandi tungumál, en undirstöðurnar eru óbreytanlegar. Auðvitað ber að skilja að Við vísum til raunverulegra grunna en ekki ímyndaðra.

Til dæmis, Við segjum að blekkingin um svokallaðan frið sé verri en raunverulegt stríð. Fólk sem er fullt af hatri gæti fullvissað þig um að það lifi í friði, en það er lygi. Slíka lygi er ekki auðvelt að skola burt; hún heldur áfram að vera til í fíngerða heiminum. Fólk ætti að íhuga hvort það hafi rétt á að menga fíngerðu heimana, en það hugsar sjaldan um ábyrgð sína við alheiminn. Samfella lífsins er ekki kennd í skólunum. Það eru fá ef nokkur námskeið kennd sem sýna mikilfengleika mannlífsins og kennarinn er sjaldgæfur sem er fær um að innprenta nemendum hættuna af fölskum hugtökum. Samt vitna allar kenningar um hinn mikla veruleika sanns friðar.

Það er erfitt að sætta sig við hvernig maðurinn svíkur raunveruleikann. Fólk er hrifið af ósannindum sem hylja sár spillingarinnar og það neitar að skilja að lygin sem þau hafa búið til situr eftir.

Röng hugtök ætti ekki aðeins að tengja við nokkra mikilvæga atburði. Það ætti að hafa í huga að allt líf mannsins er fullt af smávægilegri en einkennandi lygi. Svo mikið falskt hugrekki, svo fölsk ætlun, svo falskur dugnaður birtist um allan heim!

Það er grátlegt að sjá hvernig svona tilbúin hugtök geta leitt til siðleysis og lyga. Fólk setur þessar lygar inn í grunn lífsins og það getur engin þróun verið byggð á lygum. Slíkar lygar mótaðar af fölsku hugarfari eru hrein afbökun og ætti ekki að misskiljast fyrir Maya, blekkingu, sem tjáir afstæði hugtaka.

Hugrekki og óttaleysi geta sannarlega verndað mann fyrir öllum illum árásum, en hugrekkið verður að vera raunverulegt og satt. Mörkin á milli hins raunverulega og falska eru lúmsk og aðeins úr fjarlægð er hægt að meta nákvæmlega hvar spillingarferlið byrjar. Það verður að skilja að aðeins hið raunverulega mun skila háleitum árangri.

Hugsuðurinn benti á að lærisveinarnir yrðu að prófa óttaleysi sitt. Þegar fræðarinn sá að lærisveinn var hræddur við eitthvað, setti hann hann strax augliti til auglitis við það sem hafði hrætt hann. Sama aðferð var einnig notuð í skólum Spörtu. Þar var fylgst með augnsvipnum til að staðfesta hugrekki lærisveinsins. Þannig fylgjumst Við líka með hreyfingu andans og gleðjumst þegar við skynjum sannarlegt hugrekki.

Ótti við fuglahræðu í þessu jarðneska lífi sýnir aðeins óundirbúning fyrir lífið í fíngerða heiminum, þar sem maður stendur líka frammi fyrir ógnvekjandi myndum. En hinir hugrökku taka ekki einu sinni eftir þeim! Aðeins ótti elur af sér drauga.

Þannig var kennsla Pýþagórasar.

296. Urusvati veit að himnarnir breytast stöðugt. Í einu jarðlífi getur maður séð margar birtingarmyndir sem ekki er hægt að útskýra með vísindum nútímans og jafnvel ófullkomnir sjónaukar geta sýnt okkur að hið óendanlega líf er óendanlega flókið.

Fólk bætir sjónauka sína, en niðurstöðurnar eru óverulegar miðað við stjarnfræðilegan mælikvarða. Aðeins með því að sameina sjónaukamælingar og skyggnigáfu verður hægt að einbeita sér að plánetuhreyfingum sem eru umfram getu sjónaukans.

Það má spyrja sig hvernig hægt sé að samræma stjörnuspeki við þessar óútskýrðu hreyfingar himintungla. Staðreyndin er sú að þegar litið verður á að stjörnuspeki byggist á efnafræði stjarnanna, þá kemur í ljós að hver himneskur líkami hefur áhrif á jörðina og reyndur stjörnufræðingur mun taka tillit til sérstakra áhrifa af völdum mismunandi staða himinhnattanna. Á sama hátt ætti stjörnuspeki að nýta sér sjónauka og sætta sig við skyggni. Í raun ætti að sameina öll þekkingarsvið og beita þeim.

Vísindamenn koma oft með innsæisþáttinn inn í rannsóknir sínar. Þetta innsæi getur þegar verið fyrir hendi eða verið nýfætt í djúpi vitundarinnar. Hvort heldur sem er, ætti að taka eftir því, því það er erfitt að greina mörkin á milli innsæis og skyggni, og menn ættu ekki að takmarka hugsunarferlið við líkamlega hæfileika. Jafnvel við venjulega sjónaukaskoðun verður að hafa í huga að mannsaugað virkar á margvíslegan hátt og við getum fullvissað þig um að maðurinn sér hlutina öðruvísi á hverjum degi.

Við getum aðeins fylgst rétt með himintunglunum með því að nota þessar aðferðir. Frá unga aldri ætti að kenna ungu fólki að hið flókna námsferli er víðtæk samsetning allrar þekkingar. Þeir kennarar sem byrja með aðferðum sem takmarka hugsun eru í villu.

Fyrir löngu var Hugsuðunum umhugað um að víkka hugsun, því þvingun hugsunar er óviðunandi í heimspeki.

297. Urusvati þekkir þýðingu vinnunnar. Það er efling sálarorku sem hægt er að skilja á marga vegu. Sumir hugsa um hana sem bæn, aðrir gleði og enn aðrir upphafningu. Vinna getur skapað eðlilegan aga. Taktur vinnu er eins konar pranayama, sem hægt er að aga á eðlilegan hátt. Það er rangt að ætla, eins og margir gera, að venjubundin vinna sé fráhrindandi. Reyndi starfsmaðurinn er meistari í verki sínu og fullkomnar hvert smáatriði.

Það er merkilegt að fólk syngur eða talar oft á meðan það sinnir verkum sínum, eins og til að hvetja sjálft sig. Menn kunna líka að tuldra á einhvern hátt á milli hugsunar og orðs, ómeðvitaðir um þá staðreynd að þeir eru að gefa frá sér hljóð. Það ætti að rannsaka taktfast hvísl þeirra. Það lýsir ekki aðeins persónu manns, heldur einnig að hve miklu leyti andleg orka birtist í allri vinnu.

Hvíslararnir hafa kannski ekkert með verkið sjálft að gera. Aukin orka vinnunnar gæti verið að kalla fram gleymdar minningar frá kaleiknum og tuldrið gæti verið að opinbera nýjar sögur. Slíka reynslu ætti að rannsaka, því hún gæti bent til uppsöfnunar frá fyrri lífum.

Í vinnunni getur einstaklingur líka hvíslað tölum, bókstöfum eða ókunnu nafni. Sérhver slík birtingarmynd hefur mikla þýðingu og verkið sjálft fær tignarlega merkingu. Við getum vitnað um þetta með eigin reynslu.

Hugsuðurinn hlustaði oft vandlega á slíkar undirtektir við vinnu fólks.

298. Urusvati veit að Við hvetjum til leikni í allri vinnu. Allir ættu að kappkosta að fullkomna list sína og verk. Jafnvel þótt þessar tilraunir beri ekki alltaf árangur, munu þær engu að síður hjálpa manni að ná nýju stigi einbeitingar.

Á Okkar vegi okkar stuðluðum Við alltaf að betrumbótum í listum og handverki; Við kenndum nýjar efnasamsetningar; Við hvöttum til gerð keramiks og útskurðar. Við kenndum jafnvel fólki hvernig á að varðveita matinn sinn. Ég tala um þetta allt svo að þú skiljir margvíslegar aðferðir við þróun.

Láttu hvern og einn hjálpa þar sem hann getur; engin tækifæri eru óveruleg. Þar sem raunveruleg viðleitni er til staðar, er auðveldara að veita hjálp. Við reynum allar leiðir.

Það eru meðfæddir hæfileikar í hverju barni. Börn geta rifjað upp reynslu í fíngerða heiminum. Fullorðnir skilja oft ekki börnin sín og þvinga upp á þau leiki eftir eigin smekk, í stað þess að fylgjast með náttúrulegum tilhneigingum barnanna. Börn eru hrifin af leikföngum, ekki svo mikið vegna leikfanganna sjálfra, heldur þeim möguleikum til sköpunar sem í þeim eru fólgin. Barn elskar að taka leikfang í sundur svo það geti sett það saman og notað það á sinn hátt. Í þessu verkefni verða börn ekki fyrir áhrifum frá utanaðkomandi áhrifum og móta oft hluti sem þau hefðu alls ekki getað séð í núverandi lífi. Þessar skapandi hvatir koma frá fíngerða heiminum og hafa mikla þýðingu.

Við hvetjum til þess að afhjúpa slíka uppsöfnun, en þú getur ímyndað þér hvernig Við verðum að berjast gegn fjölskyldufordómum! Aðeins ein fjölskylda af hverjum þúsund veitir hinu sanna eðli barns athygli.

Við eyðum mikilli orku í að reyna að leiðbeina fjölskyldum. Við staðfestum fullan rétt kvenna, en um leið og þessi réttindi eru lýst yfir, verður til villimannsleg andstaða. Sérhvert land sem nálgast hugmyndina um jafnrétti mun leiða í gæðum vinnunnar. Mundu að ég sagði að úr litlum geislum verður til sól. Það tekur tíma að sýna gæði og samstarfsfélagar koma úr hópi þeirra unga.

Hugsuðurinn spurði oft börn hvað þau myndu vilja gera í lífinu. Margir svöruðu að þeir vissu það ekki, en aðrir töluðu um langanir sínar. Við þá sagði Hugsuðurinn: „Það sem virðist ómögulegt í dag getur orðið mögulegt á morgun.“

299. Urusvati hefur tekið eftir því að sum byggðarlög geta heitið mismunandi nöfn á mismunandi tímum. Það hefur verið orðrómur um að Við breyttum vísvitandi nafni bústaðar Okkar, en það er ekki satt. Í raun leyfðum við einfaldlega þær breytingar á nafninu sem venjulega myndu eiga sér stað vegna mismunandi tungumála.

Almennt treystum Við ekki á nöfn eða helgisiði, heldur höfum áhyggjur af grundvallaratriðum. Urusvati veit að kjarni verks Okkar, markmið Okkar, er umbreyting vitundar. Eins og myndhöggvarar vinnum við með grófa þætti mannlegrar vitundar og reynum að móta hana í eitthvað fallegt.

Okkur er sama um að vera sökuð um tilgangslausar endurtekningar. Í fyrsta lagi er það ekki satt. Við endurtökum ekki, heldur betrumbætum og göfgum hugtök sem enn hafa ekki verið tileinkuð. Læknar meðhöndla sár þar til heilbrigður nýr vefur myndast. Þeir neita ekki að hjálpa, þeir sýna mikla þolinmæði og eru alltaf tilbúnir til að taka á sig móðganir frá óþolinmóðum þjáðum sjúklingum! Þeir vita að ákveðnar meðferðir þurfa langan tíma og að sjúklingar skilja ekki ferlið við lækningu.

Við vitum að umbreyting á vitund getur aðeins átt sér stað smá saman. Við neitum ekki að veita úrræði, en þegar það er gefið verður að samþykkja það að fullu. Ekki vera hissa þegar þú mætir misskilningi og vanþakklæti, sem gefur til kynna að vitund þess sem þú hjálpar hafi enn ekki verið vakin. Hversu oft skilur einstaklingur verkefni sín í fíngerða heiminum, en þegar hann er í holdinu er hann enn og aftur eins og hann sé orðinn að steini!

Hugsuðurinn talaði oft um steinhjörtu.

300. Urusvati veit að það eru mörg steinhjörtun. Við skulum sjá hvað Hugsuðurinn hafði í huga þegar hann gaf þessa alvarlegu yfirlýsingu. Hann átti ekki svo mikið við grimmd heldur innri stöðnun, þegar hjartað finnur hvorki fyrir hita né kulda. Slík hjörtu geta ekki verið kölluð ill, því þau þekkja hvorki gott né illt.

Því miður eru þessi hjörtu mörg, en eru ekki auðþekkjanleg. Þau sýna engin augljós einkenni, þó að þau séu í næstum því eins ástandi og þekkta ástandi sem kallast dá, þar sem lífveran er hvorki lifandi né dauð, ekkert er munað og fíngerði líkaminn er hreyfingarlaus og jafn dofinn og restin af lífverunni. Í þessu ástandi hættir maðurinn að vera raunverulega mannlegur. Steinlík hjörtu eru svipuð og svo mörg að þau eru heiminum mikil byrði og hindra þróun.

Að standa gegn þróun er að standa gegn hinu óumflýjanlega og fremja hræðilegan glæp. Það er ótrúlegt að eftir milljón ára tilveru skilji mannkynið ekki að þróunarferlið eigi sér stað í öllum ríkjum náttúrunnar. Það má glögglega sýna fram á að útlifuð form eru að deyja út og nýjar útlínur lífsins verða til.

Vinsamlega skilið að aðeins er hægt að hraða þróunarhringjum ef tilgangslaus andstaða manna hættir. Fólk veit ekki alltaf hvernig á að skapa, en það kann svo sannarlega að vera á móti, og ljótleiki, ósætti og hörmungar verða til.

Við erum núna að verða vitni að því að heilu löndin hverfa, en gerist þetta alltaf í nafni þróunarinnar? Reyndar ekki. Fólk verður oft annað hvort eins og steinn eða reynir að sökkva í gömlu hjólförin, en náttúran leyfir ekki töf.

Hugsuðurinn var vanur að segja: „Ó, sjómaður, ekki sigla með farm af grýttum hjörtum. Með slíkum farmi kemstu aldrei á áfangastað.“

301. Urusvati veit hvernig hægt er jafnvel að misskilja hina mestu. Eru margir sem geta horft á gjörðir annarra án fordóma? Sjáðu fyrir þér ókunnugan mann ganga leið sína með miklum erfiðleikum í rigningu, hagli og í leðju upp að hnjám. Fólk horfir á hann úr gluggunum og hlær og veltir því fyrir sér hvers vegna hann hafi ekki verið heima í storminum.

Berðu saman þá sem hlægja og þá fáu sem hafa samúð og velta fyrir sér hvert markmið ferðalangsins gæti verið. Kannski er hann á leiðinni til að bjarga náunga sínum, eða er læknir að flýta sér að veita hjálp, eða jafnvel sendiboði sem kemur heilli þjóð til bjargar. Þeir sem þjóna góðu munu leita hins góða í öðrum, en maður rekst sjaldan á slíkt fólk! Flestir leita yfirleitt að hinu slæma í öðrum og gruna þar með hvern ókunnugan mann um að vera flækingur eða þjófur, en gera sér ekki grein fyrir því að það er óafmáanleg glæpur að ásaka saklausa.

Fólk óttast bölvun, en dæmir hana í raun á sjálft sig þegar það fremur óréttlæti. Gerðu tilraun; sendu hreinan mann til að gegna mikilvægu starfi eða hetjudáð, sjáðu síðan hvernig hann verður rægður. Meirihlutinn mun gagnrýna án þess að hugleiða verkefni hans og aðeins fáir, sem sjálfir eru ofsóttir, munu hugsa um markmið sjálfsfórnarinnar. Þessi skortur á góðum vilja er mikil hindrun á þróunarveginum.

Almennt veltir fólk ekki fyrir sér hver gæti hafa sent sendiboðann eða hverjir verða fyrir skaða af illri tungu sinni. Sumir munu halda því fram að rógburður þeirra sé skaðlaus, gera sér ekki grein fyrir því að allt óhreint dregur úr hreinleika.

Okkur hefur oftar en einu sinni verið gert að gera sérstakar ráðstafanir til að hreinsa rými. En slík orkulosun veldur svo sterkum áföllum, að það hefur afleiðingar í fíngerða heiminum. Ekki er hægt að senda slíkar örvar oft. Við höfum miklar áhyggjur af gjörðum fólks sem veldur slíku endurkasti.

Hugsuðurinn fylgdist vandlega með pílagrímunum og spurði hvort hann gæti hjálpað þeim. Þegar hann var varaður við því að þeir gætu verið flækingar, hvíslaði hann: „Hver veit, nema þeir séu að handan. Þegar honum var bent á lélegan klæðnað þeirra brosti hann og sagði: „Pílagrímar eru ekki vanir lúxus. Og þegar honum var sagt að sannar hetjur kæmu ekki úr lægri stéttum, varð hann reiður og benti á að sá tími kæmi að almúginn myndi skapa mikla hluti.

Hugsuðurinn beindi athyglinni að fólkinu.

302. Urusvati veit að á tímum þegar straumar geimsins eru í slíkri andstöðu að lífspúlsinn dvínar, og jafnvel margir þeirra sem greinilega eru á lífi er ógnað dauða. Þessi hætta er enn meiri þegar fólk er veikt eða þjáist af taugaálagi.

Aðstæður eru flóknar og Við sýnum aðgát, en ráðleggingum Okkar er sjaldan tekið. Fólk hugsar um varkárni sem tregðu, gerir sér ekki grein fyrir því að jafnvel á dögum mikils álags myndum Við aldrei ráðleggja aðgerðarleysi. Við bætum upp fyrir árekstur strauma með mesta virkni. Þetta er kannski ekki alltaf augljóst, en Við höfum ekki áhyggjur af ytri birtingum. Kennarinn verður að beina innri orku sinni og hjálpa þannig til við að standast spennuna.

Er hægt að gæta varúðar án árvekni? Jafnvel árvekni getur verið tvenns konar. Einstaklingur hefur venjulega aðeins áhuga á sínu nánasta umhverfi og það er aðeins þegar Við hrópum upp: „Gættu þín! að hann fari að líta í kringum sig. Sönn árvekni verður að ná yfir allt.

Getur einhver verið viss um að það sé eitthvað sem hefur ekki áhrif á hann? Getur einhver fullyrt að náttúran birtist á sama hátt á öllum öldum? Getur einhver haldið því fram að mannleg hugsun hafi ekki breyst í þúsundir ára? Jafnvel á þessari öld hefur hugsun og tungumál breyst.

Það er augljóst að á tímum óvenjulegrar spennu er atburðum lífsins hraðað og sérstaklega þarf að fylgjast vel með á þessum tímum. Hvernig getur fólk öðlast slíka árvekni? Það eru ekki hinir djörfu og áræðnu heldur hinir hægu hugsuðir sem ekki gera sér grein fyrir þörfinni á varkárni byggða á árvekni. Þeir munu ávíta Okkur, án þess að hafa í huga þá staðreynd að það er á valdi allra að vera vakandi.

Hugsuðurinn var vanur að spyrja: „Hefur mér mistekist að fylgjast með einhverju mikilvægu? Hefur eitthvað óbætanlegt gerst? Megi augu mín öðlast kraft til að fylgjast með!"

303. Urusvati veit að undirstöður lífsins ættu að koma fram í sérhverri mannlegri athöfn. Það er ekki nóg að lesa og ræða grundvallarsannindi; þau verða að gegnsýra líf manns svo að það þurfi alls ekki að nefna þau. Til þess verður maður að læra að greina mismunandi hugsunarstig.

Rétt eins og það eru þrír heimar, þá eru líka þrjú hugarsvið. Maðurinn getur hugsað samtímis á öllum þremur sviðunum. Til dæmis getur hann verið niðursokkinn í hversdagslega hugsun, sem felur í sér reynslurök. Á bak við þetta starfar fíngerð hugsun hans og í vitundardjúpi hans getur geislað eldsneisti. Stundum geta þessi þrjú lög runnið saman í eitt og það leiðir af sér öfluga hugsunarmyndun. En að jafnaði sýnir fólk aðeins árekstra í meðvitund sinni. Stundum framkallar jarðnesk rökhugsun, því er virðist aðlaðandi hugmyndir, en fíngerð hugsunin mun hafna þessum hugmyndum, vitandi um raunverulegan uppruna þeirra. Í þeim kvikna kannski alls ekki eldneistar.

Maður getur séð hversu mögulegt er að ósamræmd vitundin verði fyrir áhrifum frá þessum þremur hvötum. Hvers konar krafti er hægt að ná með slíku ósamræmi? Til er fornt ævintýri um mann sem engill og púki bjuggu í. Báðir hvísluðu fyrirmælum sínum, en aðeins þegar eldsneistinn kviknaði af kærleik yfirgaf púkinn hann.

Það er lærdómsríkt að fylgjast með hvernig hugsunarþrepin þrjú koma í stað hvers annars. Jarðnesk hugsun er ekki endilega síðri en fíngerð. Það eru tilfelli þegar jarðnesk hugsun leiddi fólk til háleitra athafna, en fíngerða hugsunin læddist áfram í kjölfarið. Vissulega er hinn guðlegi neisti alltaf gallalaus, en hann verður að kveikja.

Við fylgjumst með ferli mannlegrar hugsunar og gleðjumst þegar sviðin þrjú sameinast í samræmi. Þú verður að gera þér grein fyrir því að þessi þrjú vitundarsvið eru aðeins gróf skilgreining og að í raun og veru eru miklu fleiri undirsvið. En við skulum nú aðeins líta á grundvallaratriðin þrjú, svo að athugunin verði ekki of flókin.

Hugsandinn sagði lærisveinum sínum að hafa strangt eftirlit með hugsunum sínum og samræma þær. Hann kallaði slíkt hugsunarsamræmi tónlist.

304. Urusvati veit hvernig karma hefur áhrif á hverja þjóð. Sum lönd virðast vera undir eins konar bölvun. Saga þessara landa getur gefið nokkra skýringu, en það geta verið aðrar orsakir sem ekki voru skráðar á síðum sögunnar.

Það eru margar samsetningar af persónulegu, fjölskyldu- og þjóðlegu karma. Spyrja má hvort hugsanlegt sé að óréttlæti sem framið er gegn einum einstaklingi geti haft áhrif á heilt land. Reyndar getur það verið, sérstaklega þar sem margir sem tengjast hver öðrum endurfæðast í sama landi. Slíkar aðstæður auka ábyrgð mannkyns. Fólk viðurkennir að líkamlegir eiginleikar berast í gegnum kynslóðirnar; það er grátlegt að þeir séu ekki meðvitaðir um að karmískir eiginleikar geti líka borist þannig.

Það er rétt hjá Urusvati að telja æskilegt að endurfæðast í mismunandi þjóðarhópum. Þessa hugmynd verður að tileinka sér þannig að fólk reyni ekki að halda sig við sína eigin hóp á meðan það er í fíngerða heiminum og svipta sig nýjum prófunum og reynslu.

Samskipti í fíngerða heiminum eru andleg og engin þörf á mismunandi tungumálum. Það er dásamlegt að geta hugsað á sínu eigin tungumáli og á sama tíma verið skilin af þeim sem koma frá öðrum löndum. Það er engin þörf á að innprenta hugsanir annarra; þvert á móti, því eðlilegra sem hugsanaflæðið er, því auðveldara er að skilja þær. Slík samskipti eru hærra heims, en þau þurfa að verða að veruleika hér á jörðinni svo aðlögun að fíngerða heiminum verði ekki eins erfið.

Í venjulegum svefni styrkist sálarorka manns af jarðneskum straumum, en þegar farið er inn í fíngerða heiminn getur meðvitundin rofnað. Þess vegna er ráðlegt að tileinka sér ákveðnar hugmyndir á meðan þær eru enn í líkamanum. Við umskipti falla flestir í djúpan svefn og missa minnið um margt í þessu ástandi. Uppsöfnunin er enn innsigluð í kaleiknum og oft þarf aðstoð annarra utanaðkomandi til að fjarlægja þessi innsigli. Ég er ekki að tala um þá sem fara inn í fíngerða heiminn í fullri meðvitund. Til þess að missa ekki meðvitund er mikilvægast að muna og styrkja alla ævi ákvörðunina um að viðhalda meðvitundinni meðan á umskiptum stendur. Þessi meðvitund er fjársjóðurinn sem við berum með okkur.

Í fíngerða heiminum getum Við ekki séð þá sem hafa misst meðvitund, því að þeir eru huldir órjúfanlegu efni. Þeir sjást á því augnabliki sem þeir vakna, en svefn þeirra ætti ekki að trufla of snemma.

Hugsuðurinn hafði áhyggjur af varðveislu meðvitundarinnar. Hvattur af innri vitund sinni endurtók hann oft: „Ég mun ekki missa meðvitundina.“ Vissulega er meðvitundarþörf í hærri heimum. Meðvitundin missir jarðneska þáttinn og getur breyst í andlega þekkingu. Því skýrari sem jarðneska vitundin er, því hraðar vaknar andinn. Meðan við erum á jörðinni getum við aðeins skynjað lögmál karma, en í ástandi andlegrar meðvitundar getum við sannarlega skilið sameinaða krafta karma.

Þú gætir spurt hvers vegna fólki er ekki kennt að skilja æðri lögmálið á meðan það er í fíngerða heiminum, en leitast margir við að læra á meðan þeir eru í jarðneskum skólum?

Hugsandinn elskaði hermetíska orðatiltækið: "Eins hið efra, svo hið neðra."

305. Urusvati veit hvað við meinum með „lífi“. Við segjum að lífið sé þjónusta fyrir þróunina. Manni gæti fundist einfaldara að segja að lífið sé þróun, en Við leggjum áherslu á hugmyndina um þjónustu. Reyndar er allt í þróunarferli, en full tjáning lífsins getur aðeins komið fram við sjálfviljuga þjónustu. Það eru sjálfviljugir eiginleikar þjónustunnar sem gefur til kynna réttmæti leiðarinnar.

Almennt séð mislíkar fólki hugtakið þjónusta. Það dreymir um tíma þegar það verður engin þörf á því og myndi verða skelfingu lostin að læra að allt lífið er endalaus þjónusta. Fólk kýs að að heyra um Okkur, um erfiði Okkar og gleði Okkar, og spyr undrandi: „Hvers konar stöðug þjónusta er það þegar maður getur heyrt söng í bræðralaginu?

Fólk getur ekki skilið að Við notum söng, ekki sem dægradvöl, heldur sem aðferð til að ná samræmi. Það er erfitt fyrir það að skilja að list er fágað hjálpartæki fyrir þróun og að við mælum með því að ná tökum á hvers kyns list eða handverki sem skjótri nálgun til þjónustu. Meistari mun fúslega samþykkja ævarandi þjónustu við fullkomnun listar sinnar og telur enga þörf á að telja vinnustundirnar.

Líf okkar er sjálfviljugt meistaranám og snýst ekki um takmörk. Jafnvel á jörðinni er hægt að gleyma næstum tímanum og þjónusta verður gleði. Ég fullyrði að maður getur undirbúið sig undir slíka þjónustu undir öllum kringumstæðum. Maður þarf ekki að vera spekingur til að sætta sig við lífið sem eitthvað mikilvægt og ábyrgt. Dæmi eru um jafnvel einfalda bændur sem voru tilbúnir að helga sig þjónustuhugmyndinni. Það var tapið á þessari þjónustuhugmynd sem breytti jarðnesku lífi í þrældóm og geðveiki. En sá tími nálgast þegar fólk leitar, jafnvel óafvitandi, að tilgangi lífsins. Menn munu fyrst vísa til þróunar í vísindalegu tilliti, en næsta skref verður að samþykkja þjónustu sem rétta nálgun til lífsins.

Hugsuðurinn kenndi að þjónustuhugtakið gæti leyst gátur lífsins.

306. Urusvati veit að Við mælum ekki með helgisiðum. Það er rétt að sameinaður hópur fólks getur framkallað öfluga útgeislun, en það er aðeins mögulegt þegar það er sanna tilbeiðslu. En hversu margir hafa þá viðleitni? Hversu oft finnum við þá? Í fornöld mátti finna kannski þrjú hundruð hetjur eins og þær í orrustunni við Maraþon, en nú er allt talið í milljónum og ekki er hægt að búast við sameinuðum aðgerðum. Þess vegna ættum við að beina athygli okkar að innri aðstæðum.

Fólk getur, með eigin viðleitni, orðið sjálfsagað og siðferðilegt og framkallað heilbrigða útgeislun. Það ætti ekki að íþyngja sjálfu sér með helgisiðum og ætti að gera sér grein fyrir því, að aðeins innri viðleitni mun leiða til fullkomnunar. Leyfðu mönnum að læra að varpa hugsun inn í fjarlægðina. Leyfðu þeim að sjá fyrir sér myndina sem þeir virða. Fyrir slíkan innblástur eru helgisiðir óþarfir. Allir geta, í hreinleika eigin hjarta, átt samskipti við fræðarann. Þannig getur jörðin verið full af góðri tilbeiðslu. Slíkt fólk verður ekki skilið eftir í einsemd, því endanlegt markmið góðvildarinnar mun sameina öll leitandi hjörtu.

Það er óþarfi að hverfa aftur til gömlu helgisiðanna, sem margir hverjir hafa misst merkingu sína. Upplifunin af æðri upphafningu kemur samstundis og engin orð geta lýst henni. Það er tilfinning sem aðeins hjartað þekkir. Leitaðu ekki til helgisiða ef logi hjarta þíns logar skært.

Hugsuðurinn vissi að allir hafa, sem innri eiginleika, getu til að hafa samband við Hið hæsta.

307. Urusvati veit hvað það þýðir að sjá með augum hjartans. Sérhver hlutur er skynjaður af fólki í samræmi við innra ástand þess. Fólk getur ekki sætt sig við þann einfalda sannleika að blekkingin, maya, eigi uppruna sinn í eigin vitund og að það sé nauðsynlegt að flýja úr snöru sjálfsdáleiðslu.

Þrátt fyrir villandi ytri hughrif getur maðurinn séð neista af veruleikanum. Hann getur andæft sjálfsdáleiðslu blekkingarinnar með þeirri þekkingu sem býr í hjarta hans. Fólk gæti velt því fyrir sér hvort þetta sé ekki bara önnur tegund blekkingar, með jafn villandi sýn. En mundu að í fíngerða heiminum er skynjun talsvert skýrari og að í hinum eldheita heimi kemur veruleikinn algjörlega í ljós. Jafnvel í gegnum hindranir hins jarðneska heims getur maðurinn fengið smá innsýn í sannleikann.

Það er satt að Maya er enn órjúfanleg fyrir mikinn meirihluta fólks, því það reynir ekki einu sinni að sigrast á „blekkingunni“. En það eru nokkrir sannleiksleitendur sem jafnvel í jarðnesku ástandi sínu geta komist inn í raunverulegan kjarna hlutanna. Í fyrsta lagi verður umsækjandinn að læra að skilja sitt eigið hverfula skap. Hann mun þá átta sig á því að sólin er sólin, hvorki kát né drungaleg, en að persónulegar, innri tilfinningar hans geta litað jafnvel þessa miklu birtu.

Sá sem vill bæta sjálfan sig verður að vita hvernig á að sigrast á skapi sínu. Ef fólk væri alltaf meðvitað um þetta verkefni myndi það forðast margar villur. Það myndi forðast að bera fram óréttlátar skoðanir og myndu gera sér grein fyrir að innri tilfinningar þeirra hljóta líka að vera réttlátar. Ekki halda að þetta sé ofurmannlegt verkefni. Þvert á móti er það verkefni hversdagsleikans. Fyrir samvinnu við Okkur verður maður að læra að sjá með augum hjartans.

Hugsuðurinn var vanur að segja: „Þakkaðu guði fyrir að ég mun aldrei verða blindur, því svo lengi sem hjarta mitt slær mun það líka sjá.

308. Urusvati þekkir aðferðir Okkar til að lækna með titringi, sem að sumu leyti líkjast útvarpsbylgjum. Þessar aðferðir krefjast samvinnu, trausts og móttækileika hjá sjúklingnum. Einnig þarf að taka tillit til lofthjúpsaðstæðna, sem stundum geta truflað strauma Okkar. Margar aðgerðir eru háðar samstillingu við kosmíska strauma til að ná árangri. Þetta verður að vera vel skilið, annars mun fólk halda að við drögum stundum hjálp Okkar til baka og við gætum verið sökuð um hlutdrægni.

Vantraust truflar strauma og jafnvel þótt þessi röskun sé sigruð með sérstakri orkuaukningu, verða afleiðingar slíkrar spennu eyðileggjandi. Til að straumsending náist vel verður viðtakandinn að vera stilltur á Okkur. Það er ekki nauðsynlegt fyrir viðtakandann að senda fyrst; hann verður einfaldlega að vera móttækilegur og vera ekki hissa á fjölbreytileika strauma, sem getur verið notalegir eða sársaukafullir, allt eftir ástandi hinna ýmsu taugastöðva.

Nauðsynlegt er að vita að titringurinn beinist að taugastöðvunum og að maður verði að vera rólegur til að hindra ekki meðferðina. Mundu að slíkur titringur getur hjálpað til við alls kyns sjúkdóma.

Fólk er nægilega upplýst um svefnlyf en getur samt ekki samþykkt þá hugmynd að titringur geti borist yfir miklar vegalengdir. Það er mikill harmleikur að fólk fagnar vafasömustu hugtökum en neitar samt oft að sætta sig við það sem er þeim fyrir bestu.

Hugsuðurinn lýsti því eindregið yfir að hægt væri að taka á móti lækningu úr geimnum.

309. Urusvati veit hversu erfið list hins góða er, eins og Við lýsum stöðugum, skapandi góðum vilja. Maður verður að læra hvernig á að greina á milli einangraðra, tilviljunarkenndra góðra hugsana og gjörða og meðvitaðs góðs vilja.

Fólk sjálft flækir þessa hugmynd með því að búa til fjölda slagorða sem rugla aðeins veika huga. Þeir endurtaka, til dæmis, "Hann er svo góður að hann myndi ekki meiða flugu." En Við segjum: "Hann gæti ekki skaðað flugu, en vissulega mun hann drepa eitraða snákinn sem ógnar lífi bróður hans." Til að segja þetta verður maður fyrst að vita hvaða fluga er skaðlaus og hvaða snákur er banvænn! Bækur geta gefið þessar upplýsingar, en maður verður að vita hvernig á að leita að þeim.

Mikil vinna er nauðsynleg áður en hægt er að greina góðvild. Það er enn erfiðara að greina allar innri hvatir mannshugans. Maður á ekki að dæma eingöngu eftir ytri verkum, heldur verður að skoða hvatirnar. Þessa list má læra af fornu spekingunum. Aðstæður í þá daga voru allt aðrar, en umfang mannlegrar hugsunar var það sama. Goðsagnir ýkja kannski staðreyndir, en kjarni sanns afreks er óbreyttur.

Á meðan við lærum listir skulum við því ekki gleyma list hins góða, sem krefst þess að axla fulla ábyrgð og skilning á tilgangi lífsins. Það er erfiðasta listin, en það flýtir leiðinni. Ófaglærður myndhöggvari getur eyðilagt marmarablokk og óreyndur gerandi góðs getur brotið mörg hjörtu! Aðeins með mikilli vinnu getur myndhöggvari orðið hæfur. Sömuleiðis getur aðeins djúp íhugun fullkomnað list hins góða.

Hugsandinn þreyttist aldrei á að kalla lærisveina sína til að fullkomna list hins góða. Hann sagði: "Akur ætti að frjóvga til að gefa góða uppskeru, og það er eins með mannssálina."

310. Urusvati veit að hið hversdagslega og hið æðra eru í raun eins, vegna þess að sérhver jarðnesk athöfn er tengd allri tilverunni. En þegar við tölum um undirstöður lífsins köllum við þær hærri heima. Það ætti að kenna fólki með öllum mögulegum ráðum að hærri heimar eru raunverulegir, en maðurinn óttast þá og reynir að flýja glæsileika óendanleikans með því að grúfa höfuðið niður hér á jörðinni.

Í rigningarstormi munu flestir leita skjóls, jafnvel óöruggum, á meðan nokkrir munu standa fastir og horfast í augu við rigninguna á opnu sviði. Á sama hátt, á meðan aðeins minnihluti skilur hið hærra eðli lífsins, hafnar meirihlutinn slíkri hugmynd, fullur efasemda vegna ótta síns. Jafnvel hugsunin um líf í fjarlægum heimum virðist þeim ómöguleg. Í þessu eru bæði trúleysingjar og trúarhópar sammála og það eru jafnvel vísindamenn sem trúa því enn að jörðin sé miðja alheimsins!

Fólk felur sig frá raunveruleikanum með margvíslegum skoðunum og því er nauðsynlegt að hvetja mannkynið til þátttöku á öllum sviðum lífsins. Margir fornir hugsuðir lögðu áherslu á þetta, en því miður komu ráðleggingar þeirra niður í formi tilvitnana sem í dag eru lesnar, en aldrei beitt í lífinu. Hugsanir Konfúsíusar, Pýþagórasar og Markúsar Árelíusar eru skráðar á blöð sögunnar, en hins vegar forðast venjulegur maður að samþykkja þær. Fólk skammast sín fyrir að opinbera orsök fáfræði sinnar, þess vegna er mikilvægt að halda áfram að minna það á að taka þátt í öllu lífinu.

Margir vilja vera kallaðir samstarfsmenn Okkar, en til þess verða þeir að læra að hugsa í takt við Okkur. Þeir geta unnið misjafnlega mikið, en það ætti ekki að vera pláss fyrir vantraust. Fyrst af öllu verður fræðarinn að komast að því hversu mikið hugsun lærisveinsins er hreinsuð og laus við ranghugmyndir. Aðeins þannig er hægt að leiðbeina honum að sannleikanum, og aðeins þá verður hversdagslega og hærra lífið skilið sem hliðar á einni heild.

Kennarinn ætti að tala þannig að hvert orð hljómi eins og kunnuglegur sannleikur, en afleiðingarnar verða ný og dýpri meðvitund. Við gætum notað orðið „hærra“ í stað „dýpra“ vegna þess að í sannleika sagt þekkir geimurinn hvorki hæð né dýpt.

Og hvar verður hærri heimur okkar eftir nokkrar klukkustundir? Hvaða ný efnafræði mun hafa áhrif á okkur? Það mun ekki aðeins snerta okkur, heldur mun það einnig stinga í gegnum þéttleika plánetunnar. Það mun eyðileggja ákveðna málma og gefa nýjum samsetningum líf. Fólk getur ekki flúið þessa rannsóknarstofu; þess vegna er skynsamlegt og gagnlegt að taka þátt í starfinu með fullri meðvitund.

Hugsuður sagði: „Taktu þátt í allri tilverunni. Hún er ætluð þér og þér er hún ætluð."

311. Urusvati þekkir vel orðræður Okkar sem snerta líf bræðralagsins. Hugsanir Okkar, áhyggjur og erfiði koma fram í þessum skilaboðum til að bæta lífið. Það eru sumir sem telja að Við gefum aðeins siðferðilegar kenningar; þeir gera sér ekki grein fyrir því að sérhver kennsla er byggð á athugun og lífsreynslu.

Við staðfestum að lífsskilyrði verði stöðugt að bæta og þannig leggjum við Okkar af mörkum til þróunar þjóða. En hafðu í huga að erfiðar aðstæður í lok Kali Yuga krefjast sérstakra aðgerða og að skilja hversu erfitt það er að standast árásir glundroðans. Fólk vanmetur þetta og vill einfaldlega fullnægja persónulegum óskum sínum. Örfáir reyna að átta sig á hversu flókin andsvörin eru sem fólk framkallar því miður sjálft.

Ekki vanmeta kraft mannlegra mótstöðu; þú getur fundið ofstækisfullar yfirlýsingar alls staðar. Brotakennd skilaboð og mannlegar upphrópanir ætti ekki að hunsa, því þau menga allt í kring. Óreynt fólk myndi vilja öfgafullar aðgerðir til hreinsunar, en geturðu ímyndað þér að slíkum öfgaráðstöfunum sé beitt daglega? Þær myndu hætta að vera óvenjulegir og andrúmsloftið í kring myndi verða þvingað að sprengingu. Slíkum aðferðum er ekki hægt að beita án þess að taka tillit til lokamarkmiðsins. Hugsaðu því um hversu flókið starf Okkar er og reyndu að beita kröftum þínum í sömu átt. Allir geta gert eitthvað gagnlegt. Hver meðvitund getur skynjað nauðsynlega leið.

Þannig sagði hugsuðurinn: "Samstarf er fyrirhugað öllum."

312. Urusvati skilur ástæðurnar fyrir hugsanatruflunum. Þetta gerist stöðugt en vekur litla athygli. Venjulega er talið að maðurinn sjálfur rjúfi þráð hugsunar sinnar, en hvers vegna er þá rofinni hugsun ekki skipt út fyrir aðra? Þess í stað stöðvast hugsunarferlið strax. Stundum kemur hin rofna hugsun ekki aftur, sem leiðir til þess að maður ályktar að utanaðkomandi áhrif hafi hrakið hana í burtu. Þetta er einmitt það sem gerist.

Straumar rýmisins eru margskonar og hafa miklu meiri áhrif á mannlega hugsun en maður ímyndar sér. Utanaðkomandi skilaboð gætu verið móttekin í upprunalegri mynd, en vegna þess að þau þrýstast oft kröftuglega inn í vitundina, eins og á einhverju óþekktu tungumáli, er ekki hægt að skilja þau. Slíkar truflanir þýða ekki endilega að hugsanir einstaklingsins séu lélegar eða veikar, því að rýmisstraumar geta rofið jafnvel sterkustu hugsunina. Maður á að skilja þetta og ekki berjast gegn því. Þvert á móti getur maðurinn þjálfað sig í að stjórna þræði hugsana sinna með því að vera meðvitaður um truflandi strauma. Ef hann er meðvitaður getur hann þegar í stað nýtt sér hæfileika sína til að muna og leggja hina ófullkomnu hugsun í fjárhirslu minnisins. Jafnvel þótt hann geti ekki staðist kraft utanaðkomandi hugsana, getur hann engu að síður verndað straum sinnar eigin hugsana. Hann getur verið eins og pílagrímur sem nýtir sér tímabundið skjól í rigningarstormi og heldur síðan áfram ferð sinni.

Maður getur jafnvel haft ávinning af slíkum truflunum, því hver þeirra ber ákveðna orku sem maður ætti að þekkja. Ekki er alltaf hægt að umbreyta utanaðkomandi hugsunum í meðvituð form, en jafnvel í formleysi sínu koma þær með orku. Reyndar gæti þessi orka verið að koma frá turnunum Okkar! Mundu að Við sendum mikla og fjölbreytta aðstoð.

Hugsuðurinn sagði oft: „Hver er sá sem hjálpar? Hver er viðstaddur? Ég skynja snertingar þínar."

313. Urusvati veit að svokallað minnistap er blekking. Minning sem slíkt getur ekki glatast en það eru þrír þættir sem hafa áhrif á það. Í fyrsta lagi, ef maður er niðursokkinn í fyrri atburði, er ekki hægt að skynja atburði líðandi stundar. Í öðru lagi geta sterk ytri áhrif hindrað náttúrulegan aðgang að minninu. Í þriðja lagi geta skemmdir á heilanum valdið truflun á minni. En í öllum þessum dæmum er minnið sem slíkt, og miðja kaleiksins, óskert.

Í tilfellum minnisleysis getur einstaklingur virst missa allt minni um sjálfan sig, en ef hann er spurður um hvað hann muni eftir, gæti svar hans verið mjög óvænt. Hann gæti jafnvel rifjað upp fyrri líf sín eða leifar tilfinninga hærri heima. En læknar spyrja aldrei um slíkt og það er litið framhjá sumum mikilvægustu þáttum lífsins.

Jafnvel í æsku verður minnið að þróast með því að sigrast á þessum þremur óæskilegu aðstæðum. Hugann er hægt að vernda með vinnu, sem verndar gegn sjálfshyggju. Það ætti að skilja að þó að við séum umkringd hættum og ytri áföllum, þá geta þau ekki haft áhrif á minnið og með því að vera meðvituð um þetta getum við viðhaldið skýrri hugsun. Án spennu áskorana verður maðurinn latur, en fyrir árvekni verður hugur hans agaður og hann lærir að leyfa ekki óreiðukenndum hugsunum að hylja minningu sína.

Fólk fær stundum endurlifun á gömlum minningum á óvæntustu augnablikum. Vitund þeirra hefur varðveitt minningar sem eiga ekki auðvelt með að komast upp úr fjársjóði þeirra. Það gæti þurft sérstakt áreiti til að minningarnar komist upp á yfirborðið, en þær eru til!

Hugsuðurinn brosti þegar hann sagði: „Ef maðurinn gæti undið ofan af endurminningum sínum myndi hann sjá endalausan þráð.“

314. Urusvati veit hversu oft hugmynd mannsins um fíngerða heiminn breytist. Það voru mörg tímabil þegar hann var miklu nær réttum skilningi á fíngerða heiminum. Á löngu tímabili efldist vitundin, en af engum augljósum ástæðum féllu menn niður í tímabil fáfræði.

Það mætti skrifa mikilvæga bók um sveiflur í skilningi mannsins. Sálræna hliðin er ekki frekar skilin núna en var í fornöld og þessi staðreynd verðskuldar sérstaka athygli. Það er rökrétt að gera ráð fyrir að þróun mannsins myndi hafa í för með sér víkkun vitundarinnar á öllum sviðum; hvers vegna hefur svo mikilvægt svið sem þekking á fíngerða heiminum verið svo misskilin? Ástæðan er sú að maðurinn óttast allt sem liggur handan marka efnisheimsins. Vitundin leitast við þekkingu, en jarðbundni hugurinn hvísla að það sé ekki nauðsynlegt að vita um lífið að handan. Stundum fer jafnvel vel upplýst fólk að efast og halda að fíngerði heimurinn sé ekki til, sem grefur undan fyrri uppsöfnun sinni.

Þegar þekking er bæld niður um tíma mun vantrú fjöldans fylgja í kjölfarið, en maður ætti alltaf að muna að vitundin mun enn og aftur leita að sannleikanum. Maður ætti ekki að eyða tíma í efa, því að æðsti skilningur var gefinn og tileinkaður fyrir löngu. Hugrakkur skilningur á framtíðarlífinu er skynsamlegur.

Hugsuðurinn sagði vanalega: „Hugrekki er hæfileikinn til að horfa fram á veginn. Vitrir vita að rykský er endanlegt og að ekkert getur hulið óendanleikann.“

315. Urusvati veit að atburðarrás er hægt að skynja á mismunandi vegu. Ímyndaðu þér herbergi með stórum hópi fólks sem á eftir að verða fyrir eitrun. Spurningin er hvort úrslitastundin á sér stað þegar eitrið er komið inn, hvenær það byrjar að hafa áhrif, eða þegar fólk er farið að deyja?

Fyrir flesta er aðeins þriðja augnablikið mikilvægt. Nokkrir gætu hafa tekið eftir fyrsta merki um eitrun, en aðeins þeir óvenjulegu hefðu skynjað hið hættulega fyrsta augnablik, sem er það mikilvægasta. Þannig má líta á hvern atburð sem röð mikilvægra augnablika. Fyrir suma er augnablikið kannski ekki komið og fyrir aðra er það þegar liðið. Og þannig er það í öllum málum, stórum sem smáum.

Maður ætti að veita einkennum hverrar stundar athygli. Ekki láta hina fáfróðu trufla, sem hæðast að og lítillækka, því þeir geta aðeins skynjað þriðja augnablikið og eru aðeins meðvitaðir um áhrifin, á meðan skaparar lífsins þekkja fyrstu orsakastundirnar.

Maður ætti líka að gera sér grein fyrir því að atburði er annað hvort hægt að hægja á eða hraða. Í meginatriðum eru þeir óbreyttir, en í einhverjum ófyrirsjáanlegum aðstæðum verður til ný þýðing. Allt er á hreyfingu og lífið getur ekki haldið áfram án hreyfingar. Í þessum mikilfengleika breytinga og tilbeiðslu felast orsakir lykilatburða.

Hugsandinn vildi að lærisveinar hans skildu hina raunverulegu merkingu atburðarrásarinnar. Hann var vanur að segja: „Við skulum ekki hafa áhyggjur af því hvernig við deyjum; það er betra að skilja undirstöður lífsins."

316. Urusvati veit hvernig sumir reyna að leika á Karmalögmálið. Það er til fólk sem gerir þetta af vanþekkingu á lögmálinu, en Ég er nú að tala um þá sem vita af þessu og ögra því.

Ímyndaðu þér glæpamann, sem, eftir að hafa framið glæp, skelfur af ótta við refsingu. En þegar dagarnir líða og ekkert gerist verður hann djarfari og ákveður að glæpur hans hafi ekki verið svo slæmur eftir allt saman og að það hafi kannski verið réttmætt að einhverjum hærri lögmálum. Að lokum verður glæpamaðurinn frekur og hæðist að karmalögmálinu og kallar það uppfinning heimskingja. Loksins, á mjög óvæntu augnabliki, kemur endurkastið og hann sakar karma um að refsa honum svo óvænt á blóma lífs síns, þegar refsingin er sérstaklega sár, og gleymir því að það eru margir þættir sem taka þátt í tímasetningu karmaviðbragðanna .

Sjálfhverfur trúir maðurinn því oft, að hann sjálfur geti ákveðið á hvaða augnabliki karmísk lögmál eigi að virka. Einn spyr hvers vegna karma sé svo seint, annar kvartar yfir því að það sé of fljótfært, en enginn veltir fyrir sér hversu flóknar aðstæður hver atburður skapar. Sumir líta á alheimslögmálin svo einföld, að að fáránlegt er, á meðan aðrir halda að þau séu svo flókin og íþyngjandi að engin athöfn sé möguleg. Hvernig er samvinna möguleg í slíkum öfgum?

Við höfum alltaf lagt áherslu á hinn gullna meðalveg, meðalveginn sem felur í sér að vera reiðubúinn að skilja og samþykkja orkuflæðið sem á mannamáli má kalla réttlæti. Hrein viðleitni gerir manni kleift að finna kraft þessarar orku, en hvers kyns óhreinindi eru eins og ógnandi ský.

Áhyggjur hugsuðarins voru að ljós sólarinnar yrði ekki byrgt af mannlegum glæpum.

317. Urusvati veit að sérhver líkamleg athöfn er afleiðing af sálrænni athöfn. Þetta er ekki ný hugmynd, en fólk gerir sér ekki grein fyrir því að hugsun er á undan athöfn, og þegar þú talar um sálræna athöfn munu fólk halda að þú sért að grínast.

Maður ætti að skilja að það eru margar fíngerðar athafnir tengdar hverri líkamlegri athöfn og að hver athöfn er framkvæmd, ekki aðeins með vilja, heldur einnig fyrir áhrif ytri orku. Þannig er hægt að auka skilning á jarðneskum birtingarmyndum endalaust. Þegar fólk samþykkir hugmyndina um slíkt óendanlega samstarf mun það öðlast víðtækari sýn á alla tilveruna.

Það ætti að reyna að víkka út mörk mannlegra hugtaka. Núverandi skólar eru algerlega ófullnægjandi til að hlúa að aukinni vitund. Í dag myndi meðalmanneskjan telja orðræður Okkar vera geðveikar eða heimskulegar! Þú veist um fólk sem hæðast að Okkur vegna þess að við reynum að kenna mannkyninu tilgang lífsins.

Illu öflin halda vöku sinni af kostgæfni, tilbúin að skaða hvert hagsmunaverkefni. Það eru mistök að halda að þessar tilraunir hins illa séu tilviljanakenndar; þvert á móti, hið illa hefur sína vel skipulögðu fylgjendur. Hinir óreyndu halda að það sé einfaldlega hægt að hunsa hið illa, en við ráðleggjum að gæta varúðar og auka varnir manns.

Hugsuðurinn sagði: „Ég er hér til að uppfylla jarðneskt verkefni, en hver er sá ósýnilegi sem hefur þegar skapað frummynd af auðmjúku starfi mínu?

318. Urusvati veit að það er sérstaklega erfitt fyrir fólk að skilja að sálrænar athafnir eru tafarlausar. Það trúir því að jarðnesk hugsun krefjist tíma og gerir sér ekki grein fyrir því að hugsun er tafarlaus og að hún framkallar eldingu,- eins og eldleg ákvörðun.

Þegar einstaklingur segir að hann muni hugsa um eitthvað hefur hann þegar hugsað um það. Hin eldheita ákvörðun er þegar til staðar innra með honum og þegar hann segir að hann muni hugsa, vísar hann til vitsmunalegrar umhugsunar. Það er lærdómsríkt að fylgjast með einvíginu sem fram fer á milli andlegra og eldlegra ákvarðana. Vitsmunirnir geta oft afbakað eldlega ákvörðun, en eldfræið sjálft helst ósnortið. Það hvílir í djúpum vitundarinnar og birtist oft aftur. Það er grátlegt að maðurinn neiti harðlega að samþykkja það vitundarástand sem er innra með honum. Sú vitund myndi hjálpa honum að meðhöndla hugsunarferlið af varkárni.

Þótt Við segjum fólki oft, að hugsun sé eins og elding, skilur það sjaldan hvað átt er við með slíkri fullyrðingu, og trúir að það þýði að það verði að hugsa hratt. Við erum hins vegar ekki að vísa til hraðrar rökhugsunar, heldur leifturhraða sálarorkunnar, sem hjálpar í samskiptum við Okkur. Ekki ætti að samþykkja sálarorku sem óljósa, dulræna hugmynd: hún er kjarni tilverunnar. Við reynum að innprenta mannlegri vitund mikilvægi þessa náttúrulega lífskjarna; Því miður líkar fólki ekki að leita náttúrulegra orsaka, jafnvel af stærstu atburðum.

Hugsuðurinn sagði: "Hvernig getur eitthvað óeðlilegt verið í náttúrunni?"

319. Urusvati veit hvernig Við vinnum að friði. Hvers vegna gleðjumst við þá ekki yfir hinum fjölmörgu samtökum sem leggja sig fram um að stuðla að friði? Einfaldlega vegna þess að mjög fáar þeirra eru óeigingjarnar í starfi og meirihlutinn hefur huldar hvatir sem eru jafnvel verri en stríðshvöt.

Friður er viðmið sem maður verður að prófa sig eftir. Að prófa sjálfan sig er að vita hvernig á að sækja nýja krafta og öðlast nýja meðvitund. Það er sjálfsskoðun sem verður að framkvæma í samhengi algerrar helgunar við mannlega þróun. Aðeins þá verður friður rétt skilinn; sannur friður mun fela í sér vörn á fjársjóðum mannkyns.

Öfund er naðra sem grípur mannshjartað og smitar það af illu og friðarhugsanir verða þá ómögulegar. Öfund kemur fram á margvíslegan hátt. Margt óvart mun bíða þín þegar þú lærir að lesa mannshugann. Maður getur átt marga fjársjóði, en samt mun hann öfunda lítilfjörlega velgengni náunga síns. Þar til löstunum sem hindra friðinn er útrýmt verður sannur friður ekki mögulegur.

Sérhver góðviljuð hugsun um frið er gagnleg í geimnum. Orðið friður ætti að endurtaka sem ákall og það mun styrkja alla viðleitni til að koma á samræmi. En vei þeim sem stuðla að gervifriði, sem mun aðeins leiða til spillingar. Fræðsla okkar er kenning friðar, sanns friðar.

Hugsuðurinn var vanur að segja: "Ég mun standa vörð til að koma í veg fyrir að nöðrurnar skríði yfir þröskuldinn."

320. Urusvati veit að hvert og eitt Okkar hefur stuðlað að friði í heiminum á ýmsan hátt. Þú manst eftir Orfeusi, sem gaf fólkinu róandi friðarsöng og hvernig ákveðinn fræðari reyndi að hreinsa kenningarnar svo fólk vissi meira og skildi lífið betur. Annar andlegur leitandi boðaði að fólk ætti fyrst og fremst að nota friðsamlegustu aðferðir. Og Sameinandi þjóðanna kenndi að friður getur aðeins þrifist í sátt og samlyndi.

Þeir, sem vinna að góðvild og friði, þola marga erfiðleika; hvaðan koma svona óbærilegar byrðar? Sérhvert þróunarskref vekur reiði og glundroða, og slík reiði er svar við hverri góðviljaðri þrá. En friðarsinnar geta borið vitni um að viðleitni þeirra til friðar sé þeim bestu minningar þeirra. Þessar tilraunir eru ekki aðeins skráðar í sögu þjóða, þær endurspeglast einnig í lífi fólksins.

Er ekki æðruleysið sem kemur af samhljómi öllum innan handar? En fyrst varð einhver að finna leiðir til að öðlast frið með tónlist. Þótt mörg lög hafi verið sungin til forna þótti nauðsynlegt að benda á hæfileika þeirra til að vekja hugarró. Þannig var nýr samhljómur kynntur heiminum.

Á sama hátt stendur fyrirskipunin um að nýta allar mögulegar leiðir til að halda friði um ókomna tíð. Þó mannkynið virðist hafa gleymt honum sem gaf þessa skipun, þá er það engu að síður komið inn í mannlega vitund. Menn ættu alltaf að efast um hvort öllum friðsamlegum aðgerðum hafi verið beitt, en án þess að skaða mannlega reisn. Maður ætti að skilja bæði hversdagslegar og hærri heims ráðstafanir; aðeins í samhljómi og reisn getur fegurð friðar orðið að veruleika. Óvirðing fyrir mannlegri reisn getur aðeins leitt til ljótleika. Sá sem veit ekkert um fegurð getur ekki hugsað um frið, né getur hugmyndin um einingu orðið að veruleika hjá fáfróðum. Samt ber allt fólk lotningu fyrir einingu. Þannig vinnum Við að friði.

Hugsuðurinn lagði mikið af mörkum, þorði að ímynda sér friðarstjórn. Hvað ef fólk ákallar svona áræðinn draum? Við vitum að draumar ryðja veginn til eilífðarinnar!

321. Urusvati veit að í sérhverri mikilvægri viðleitni er þáttur sem hægt er að ná. Einn óraunhæfasti draumurinn er heimsfriðurinn, samt heldur mannkynið áfram að biðja fyrir honum. Þó það sé erfitt að uppfylla þennan draum, þá er í honum brot af sannleika sem getur rætast í jarðlífinu.

Maðurinn hefur þá gjöf að hafa samskipti við bræður sína. Hann kemst að því að fjandskapur verður loksins óbærilegur og að fjölskyldan eyðileggst í ósætti. Hann ætti að skilja að þetta á líka við um stórþjóðir, sem verða spilltar án stöðugrar og árvekjandi viðleitni til umbóta.

Á þessum tímum er ekki hægt að búast við friði, en við ættum að skilja að komandi tímabil mun henta betur með skynsamlegu friðarsamþykki. Þess vegna ættu allir að tala um heimsfrið þó ekki væri nema í óhlutbundnu máli. Látum þetta orð, sem tilheyrir framtíðinni, heyrast innan um hatursský nútímans. Ekki búast við að heyra slík orð á líflausum fundum. Láttu unga fólkið tjá bestu draumana. Látum þá, í herklæðum varnarinnar, leggja grunn að lífinu. Maður ætti ekki að trufla háleitustu drauma.

Það eru margir draumar sem gætu breyst í veruleika, jafnvel þótt þeir virðist nú óraunhæfir. Til dæmis dreymir fólk um menntun fyrir alla, en samt er mikið ólæsi um allan heim. Og svo lengi sem þrælahald og villimennska er áfram á mörgum sviðum, hvernig getur maður látið sig dreyma um almenna menntun? En Við segjum, ekki aðeins getur manni dreymt, maður verður. Fylla verður heiminn fyrirmælum að hefja herferðir fyrir menntun.

Menn ættu ekki að líta á ólæsi sem hindrun heldur sem áminningu um brýna þörf fyrir menntun. Hvernig getum við verið stolt af því að margir skólar séu nú þegar til, þegar mannkynið hefur ekki enn lifað af skömm þrælahalds og ekki hefur verið nægilega hlúð að menntun?

Hinir veraldlegu vitringar ráðleggja okkur að hunsa grimmdina sem umlykur okkur, en þessir „vitru“ eru líflausir. Þér verður sagðar margar sögur af frábærum afrekum menningar, en samt er staðreyndin sú að þrælahald er enn til. Að auki lifir það undir snjallri grímu heilagrar hræsni; slíkur dulbúningur er sérlega skammarlegur. Samt heyrir maður afsakanir fyrir þessari skömm í stað almennrar reiði.

Hugsuðurinn kenndi: „Varist fólk sem reynir að réttlæta smánarverk, því slíkt fólk er óvinir mannkyns.“

322. Urusvati veit að hugtökin sem Við tölum um verða að vera fullkomlega skilin. Þegar við tölum um þrælahald, meinum við allar tegundir þessarar svívirðingar. Það eru ekki aðeins grófleg kaup og sala fólks sem, eins og við höfum oft séð, eru fordæmd af jafnvel ofstækisfullum sigurvegurum, það eru líka hinar lúmsku niðurlægingar sem beittar eru sem ber sérstaklega að taka eftir.

Sannarlega blómstrar þrælahald enn meira í upplýstum borgum en á villimannslegum markaðstorgum. Fólk hefur ekki losað sig við hugmyndina um þrælahald og til að fullnægja nútímalegum hegðunarstöðlum finna þeir upp nýjar yfirborðslegar, en hræsnarlegar réttlætingar. Á bak við þessi dulklæði leynist hatursfullt rán og einstaklingum er sýnd minni samúð en hundum. Reyndar eru hundar oft meðhöndlaðir betur en menn.

Söngvar eru sungnir í kirkjum um mannlega gæsku, en rétt fyrir utan er betlandi höndin hunsuð og enginn sýnir áhuga eða spyr um orsök eymdar betlarans eða býðst til að lina þjáningar hans.

Skilningur á ógæfum annars víkkar út meðvitundina. Aðeins ein stutt umhyggjusöm hugsun getur skapað hollustutengsl, en því miður, jafnvel slíkar stuttar hugsanir eru ekki oft sendar og fólk hunsar þessar karmísku niðurstöður af köldu afskiptaleysi. Menn geta ekki ímyndað sér hversu mikið þeir aðskilja sig frá Okkur og fíngerða heiminum, þaðan sem bestu hjálpina var hægt að fá. Þess vegna verður þú að skilja til fulls undirstöður lífsins.

Við höfum sýnt fram á hvernig útbreiðsla þrælahald er ekki viðurkennd og höfum nefnt dæmi frá öllum hliðum lífsins - í venjum fjölskyldulífs, núverandi menntunarástandi og almennu ástandi velferðar mannkynsins. Þessar ýmsu hliðar munu vekja hörð átök vegna þess að hugmyndin um samræmi er ekki skilin.

Hugsuðurinn benti á að velferð þjóðarinnar byrjar í hjarta hvers manns.

323. Urusvati veit að aðeins er hægt að hjálpa manni innan marka vitundar hans. Maður getur gefið apa dýrmætan gimsteinn, en hann mun bara leika sér með hann og henda honum síðan. Kannski mun vegfarandi þá finna gimsteininn og skipta honum út fyrir hníf sem hann mun nota til að drepa bróður sinn. Á sama hátt getur maður aðeins þegið ráð í samræmi við takmörk meðvitundar hans. Aðeins skynsamleg viðleitni mun leiða að markmiðinu. Fólk neitar að læra þennan sannleika og heldur að það geti nýtt sér alla dýrmæta hluti, en í reynd sjáum Við að gagnlegustu ráðin eru ekki viðurkennd.

Maður ætti að hugsa um meðvitund sem ílát sem getur innihaldið alla mannlega möguleika. Þegar venjulegur bolli er fylltur að barmi, er ekki pláss fyrir meira, en sem betur fer er hægt að teygja ílát meðvitundarinnar endalaust til að rúma lífgefandi vökvann. Þannig verður jafnvel ömurlegasti einstaklingurinn ekki sviptur visku, ef hann getur áttað sig á vitundargeta hans er takmarkalaus.

Fólk er ekki meðvitað um að örlög þeirra eru háð umfangi vitundar þess. Því finnst ekki gaman að ræða hugtakið vitund, vegna þess að slík orðræða minnir það á skyldur þeirra. Slík áminning er alltaf óþægileg, því á bak við hana rísa löngu gleymdir draugar. En hugrakkur maður óttast ekki drauga og getur notið góðs af hvetjandi ráðum sem hafa verið skráð niður í gegnum aldirnar.

Menn muna að við frönsku hirðina hafi verið skrifuð bréf sem innihéldu gagnleg ráð, en aðstæður voru þá erfiðar, og ber því að virða þá staðreynd að jafnvel í eyðslusemi hirðarinnar heyrðist rödd um gagnlegt líf. Mörgum hörmungum var þannig afstýrt. Þannig ættu menn að skoða hin ýmsu tímabil.

Hugsuðurinn áttaði sig á því að mælikvarði mannsins ræðst af umfangi vitundar hans.

324. Urusvati veit hvernig fólk opinberar sig í daglegu lífi. Ævisöguritarar gera þau mistök að halda að verðmæti manneskju sé aðeins hægt að mæla með óvenjulegum verkum og vegna þess missa þeir af hinu sanna. Frægt fólk einkennist oft af dýrð athafna sinna, glitrandi augum þeirra og kraftmikilli mælsku, en allt annar persónuleiki opinberast af þessu fólki í daglegu lífi þeirra. Fylgjast skal með þeim í venjubundnum störfum sínum og í félagsskap þeirra nánustu. Raunverulegt hugarfar þeirra, eins og það birtist í hugsunum og draumum, ætti að vera rétt skilið.

Umfram allt metum við að ná samræmi í daglegu lífi. Stærstur hluti mannlífsins gengur þannig fyrir sig og fólk ætti að vera metið út frá því hvernig það stenst þessa prófraun daglegs lífs – hvort það geti varðveitt samræmi í heimilislífi sínu, staðist smávægilegan pirring og lyft sér upp úr leiðindum.

Margar óséðar aðstæður leynast í daglegu lífi og maður verður að finna í þeim gleðina sem lyftir mann upp í hið hærra. Megið þið öll muna eftir að þið byggið upp mannlega reisn ykkar í daglegu umróti. Þessi meðvitund mun gera afrek þitt varanlegt. Við gleðjumst yfir þeim sem byggja samræmi í lífinu og hver dagur ætti að verða steinn í grunninn að þessu fallega mannvirki. Ef þú elskar vinnu skaltu skilja hana sem staðgengill fyrir tíma.

Er hægt að ímynda sér líf okkar án algjörs samræmi í daglegu lífi? Ekki dagar, ekki ár, heldur röð gleðilegra verka getur veitt upphafningu og styrk til að lifa án þess að hafa áhyggjur af tímanum. Við höfum líka aðra gleði, sem stritið getur tekið þátt í. Ákefð erfiðis Okkar færir Okkur nær tónlist sviðanna; venjulegt fólk tekur yfirleitt ekki eftir því þegar slík samræmi verður í vinnu þeirra.

Hugsuðurinn kenndi að meðvitund um ómandi umhverfið kemur þegar síst skyldi. „Enginn mannlegur mælikvarði getur ákvarðað hvenær samræmi hærri heims verður aðgengileg.“

325. Urusvati veit að drekar búa við þröskuldinn. Venjulega er talið að þeir leynist neðst í ógnvekjandi hyldýpi, eða einhvers staðar í myrkrinu þar sem fólk fer sjaldan inn, en reyndar búa þessir drekar á þröskuldi heimilisins og maður mætir þeim oft í daglegu lífi.

Allt sem hefur verið sagt um slíka dreka er alveg rétt. Útlit þeirra er skelfilegt, þeir eru gráðugir og þeir sleppa ekki fórnarlömbum sínum. Þeir fylgjast vel með þeim sem koma inn og reyna að ná tökum á þeim sem búa í húsinu. Þeir geta breytt útliti sínu og opinberað sjaldan hræðilegt eðli sitt.

Dreki þröskuldsins táknar vörð mannlegrar meðvitundar. Þessir drekar eru ekki aðeins óhlutbundin tákn, því að þeir snerta daglegt líf hvers manns. Óskum mannsins er aldrei hægt að fullnægja og óánægja hans er næring fyrir drekana. Ég tala svo sannarlega ekki um fróðleiksþorsta mannsins, sem er verðug leit, heldur um venjulega óánægju hans. Þessar eiga rætur að rekja í ástríðu mannsins, þar sem uppsöfnuð óánægja verður fóður fyrir drekann, sem vinnur bardagann og gleðst yfir veislunni.

Í umræðum um hærri heima viljum Við að þú viðurkennir þær hindranir sem standa í vegi þínum. Fólk getur hrasað, fallið eða jafnvel látist þegar það fer yfir venjulegasta þröskuldinn. Við höfum oft talað um illar venjur sem maðurinn býr sjálfum sér. Hvað getur maður þá sagt um þröskuld viðurstyggilegra venja? Reyndar er hættulegt að stíga yfir slíkan þröskuld!

Mikið illt tal á sér stað á þröskuldi hins illa, og þar eiga upptök sín skelfileg bölvun við mikinn fögnuð drekanna. Við vörum þig við óhreinindum á þröskuldi þínum. Þau nærir drekann og hann gæti orðið svo feitur að þú munt kemst ekki framhjá honum um dyrnar! Maður verður að gera sér grein fyrir því að illt umhverfi er hindrun í vegi fyrir þróun. Ég heyri einhvern þegar hrópa: „Gamall sannleikur! Við höfum vitað það lengi!“ Vinur, ef þú vissir þetta í alvörunni væri þröskuldurinn þinn hreinni.

Nóg um hinn illa þröskuld. Gerum ráð fyrir að vinir okkar hafi þegar áttað sig á hættunni á að fóðra dreka. Nú skulum við tala um góða þröskuldinn, sem leiðir til góðs daglegs lífs. Það getur verið venjulegt líf, en ef það er hreint mun drekinn minnka og breytast í litla eðlu. Þannig er maðurinn gæddur krafti til að koma á miklum umbreytingum.

Hugsuðurinn sagði: "Er það ekki kraftaverk að fólk hafi getu til að umbreyta illu í gott?"

326. Urusvati veit að grófleika verður aðeins útrýmt með menntun. En maður getur verið lærður vísindamaður og samt verið grófur. Ljóst er að formleg menntun ein sér upprætir ekki endilega grófleika, en við ættum að gera okkur ljóst hvað við meinum með þessu orði. Gróft eðli getur ekki tekist á við fíngerða skynjun og vísindi framtíðarinnar munu krefjast raunverulegrar fágunar, án hennar er samræmi ómögulegt. Kennari verður að bera lotningu fyrir öllum greinum vísinda, en vitund um samræmi er afrakstur langrar fyrri þjálfunar.

Ef þú spyrð hinn venjulega mann hvað hann telji gróft, mun hann líklega stinga upp á ósvífni, guðlasti og svívirðingum. En þetta eru aðeins nokkrar hliðar á grófleika. Uppruni grófleika er ekki viðurkennur af flestum. Aðeins sá sem fæst við fíngerða orku getur skilið að grófleiki er brot á öllu sem er fíngert. Fólk ætti að skilja að kurteisi er ekki lækning við dónaskap. Maður getur hitt fólk sem er kurteist en samt gróft og það verður örugglega síðast til að viðurkenna það.

Sumir kunna að yppa öxlum og spyrja hvort þörf sé á bók um góða hegðun sem hluta af kennslu lífsins. Það er svo sannarlega, því þú verður að öðlast næman skilning ef þú vilt betrumbæta vitund þína. Við erum núna að tala um hugtök sem er nánast ómögulegt að tjá með orðum. Margar grundvallarreglur eru svo sannarlega ólýsanlegar og einungis innsæi skynjar þær. Slíkur þögull skilningur og móttækileiki eru brú til framtíðarárangurs. Engin orð, heldur innri tilfinning er munuð og mun hjálpa til við að leggja grunn að þróun. Þannig verður sá sem er fágaður í tilfinningum sínum aldrei grófur.

Hugsuðurinn sagði: „Vitið hvernig á að finna dýptina, annars mun fólk halda að þú sért undir feldi.“

327. Urusvati veit að það er til fólk sem getur ekki greint á milli hljóms kirkjuklukkna og viðvörunarbjalla. Hvað er að þeim? Eru eyrun þeirra gerð öðruvísi? Reyndar ekki, fólk misnotar einfaldlega frjálsan vilja sinn og þegar það fær viðvörun, sannfærir það sjálft sig um að það sé að heyra hið gagnstæða, þrátt fyrir allar sannanir. Margir gera sig seka um þessa blekkingu og það er ómögulegt að sannfæra þá um mistök sín þegar þeir hafa ákveðið að heyra aðeins það sem þeim þóknast.

Slíkur vilji tefur framfarir. Biddu nokkra aðila um að útskýra merkingu einfaldrar fullyrðingu og þú munt fá mjög misvísandi og jafnvel illgjarna túlkun. Fullyrðingin kann að vera nokkuð skýr, en frjálsi viljinn getur fundið leið til að hylja merkingu hennar og skipta þeirri merkingu út fyrir eigin hugmyndir!

Hugsuðurinn brosti og sagði: „Fólk er alltaf tilbúið að svara áður en það heyrir alla spurninguna!“ Það sem meira er, svar þeirra er litað af tilfinningum þeirra af spyrjandanum - útliti hans, klæðnaði hans og stundum jafnvel rithönd hans. Rithönd hefur vissulega þýðingu, en svo sannarlega ekki þegar um er að ræða þá sem dæma án skilnings. Yfirborðslegur dómur byggir á yfirborðslegum merkjum og er lítils virði.

Mundu alltaf hugsanlegt brjálæði frjáls vilja. Í þessari meinsemd ímyndar maðurinn sér að vilji hans sé óheftur og byrjar þá að brjóta grundvallarlögmálin. Slíkt brjálæði hefur verið þekkt frá fornu fari og getur leitt til mikillar eyðileggingar. En viljinn hefur aðeins eitthvert gildi þegar hann er í ströngu samræmi við lögmál lífsins. Flestir skilja þetta ekki, því fyrir þeim jafngildir viljinn óskhyggju, en vitur maður veit að vilji og frelsi eru sameinuð í lögmáli tilverunnar. Ef við skiljum ekki þetta samræmi vilja og frelsis munum við afbaka staðreyndir og heyra gleðihljóm í slökkviliðinu!

Hugsuðurinn kenndi skilning á hljómi bjalla.

328. Urusvati veit að sálir endurfæðast með góðum ásetningi; þannig er hið mikla lögmál. Jafnvel andarnir í neðri sviðum, rétt fyrir endurfæðingu, fá geisla uppljómunar um gæsku sem undirstöðu lífsins. En rétt eins og fínasti ilmurinn getur ekki gegnsýrt rýmið lengi, hverfur góðviljaður ásetningur með áhrifum hinna fjölbreyttu lífsskilyrða. Barn er ekki illt, en getur fljótt fallið fyrir arfgengum siðum. Einnig eru slæmar venjur, sem myndast af minnstu smáatriðum lífsins, hlið hins illa. Þannig endist uppljómunin stutt, sem hafði verið upplifuð í fíngerða heiminum.

Sameiningarferlið niður í þétta líkamann sker á öll áhrif frá fíngerða heiminum. Engu að síður er hægt að fá margar staðreyndir um lífið í fíngerða heiminum. Besta leiðin til að safna þessum staðreyndum er frá einstökum vitnisburði þeirra sem hafa fengið óvænta innsýn. Þannig vitnisburðir eru yfirleitt heiðarlegir, því þetta fólk bjóst ekki við neinu og er undrandi yfir því að hafa fengið upplýsingar yfirleitt. Þannig vitna þeir um hughrif sín í einlægni.

Það er mjög fróðlegt að taka viðtöl við sveitafólk sem er nær náttúrunni og fylgist með mörgum áhugaverðum hlutum, en talar kannski ekki um það af ótta við að hæðst sé að því. Það er ljóst að allir komast í snertingu við ótrúlega hluti, en munurinn á fólki er í viðhorfi þeirra. Sumir gefa gaum að óvenjulegum skynjunum, á meðan aðrir kæra sig ekki um eða geta ekki opnað hjörtu sín fyrir hlutum sem eru utan vitsmunasviðs þeirra.

Hugsuðurinn kenndi fólki að einbeita sér af einlægni að óvenjulegum birtingarmyndum.

329. Urusvati veit að í vissum tilfellum fylgja því tilfinningar, annaðhvort um mikla sársauka eða mikla sælu, að fara inn í fíngerða heiminn. En þetta eru öfgar, en ekki þær aðstæður sem meirihlutinn verður fyrir.

Tökum dæmi um þann sem gerir sér grein fyrir ávinningi góðs og sem skilur kraft hugsunar. Hann mun ekki harma að yfirgefa jörðina, því hann veit að hann mun koma aftur í líkamlega tilveru. Slík manneskja mun sofna friðsamlega og finna sjálfan sig með meðvitund í fíngerða heiminum. Hún mun ekki þola neinn sársauka, því að fíngerði líkami hans er ekki hokinn af sektarkennd - hann framdi enga glæpi, jafnvel í hugsun. Þannig mun hann ekki þjást af þunglyndi og mun geta tengst nýju umhverfi sínu. Hann mun reka burt óttann, vegna þess að hann skilur að hugsanir eru sterkasti skjöldur hans.

Það er sérstaklega dýrmætt að vita að jafnvel að einstaklingur með meðal vitundarstig getur sleppt langvarandi svefni í fíngerða heiminum. Hann getur reyndar byrjað að læra og vinna strax. Hann getur búið til sinn sérstaka klæðnað og flýtt sér að ganga til liðs við gagnlega vinnufélaga. Hann er tilbúinn til að taka þátt í öllum kostum fíngerða heimsins og mun jafnvel vera tilbúinn til að hafa samband við hærri svið. Hann getur svo sannarlega nálgast hið hæsta með fullu áræðni.

Þessi manneskja mun hugsa um fíngerða heiminn sem gleðilegt vitundarástand og mun í slíkri hugsun skapa framtíðargleði sína. Hann mun staðfesta fyrri reynslu sína, en ef hann vill ekki gera það, munu þær ekki komast inn í vitund hans. Fólk verður að muna þetta vel og skilja orðatiltækið: „Sá sem vill móttaka, mun þiggja.“

Hugsuðurinn minnti fólk á þetta, því að hann vissi að það sviptir sig eigin afrekum.

330. Urusvati veit að fíngerði heimurinn getur veitt mikla hjálp og miskunn. Jafnvel þar sem hefnd og hatur logar, beitir meistarinn mestu hjálp og sannfæringarkrafti. Því miður veitir frjálsi viljinn of oft mótstöðu og kýs að gangast undir hræðilegar raunir enn og aftur.

Það er engin mótsögn þegar Við segjum að sérhver jarðvist fái geisla uppljómunar, því enginn er sviptur miskunn. Hins vegar verður maður að vita hvernig á að nýta þessa blessun. Þú veist að í jarðnesku lífi eru gagnlegustu ráðunum oft hafnað, og á sama hátt í fíngerða heiminum. Við sjáum oft að uppljómun getur brenglast.

Ill áhrif eru sterk í fíngerða heiminum eins og á jörðinni. Andar koma með ástríðurnar frá jarðlífinu sem þeir hafa enn ekki útlifað. Hins vegar eru slíkar ástríður ekki eins hættulegar og fordómar, því ástríða getur leitt til hreyfingar, en fordómar eru stöðnun og valda óhjákvæmilega spillingu. Ekki draga þá ályktun af þessu, að Við samþykkjum ástríður. Við bendum aðeins á, að hreyfing getur verið fræ velgengni, en fáfræði er alveg vonlaus. Þegar Við segjum „fordóma“ er átt við andstöðu við sanna þekkingu; þetta viðhorf er algengt, ekki aðeins á jörðinni, heldur einnig í fíngerða heiminum. Það eru til þeir sem hafa ákveðið hugarfar, sem eru sannfærðir um að þekking sé orsök allrar mannlegrar eymdar.

Ég myndi vilja að samstarfsmenn Okkar ímynduðu sér hin ýmsu svið fíngerða heimsins, en það ættu ekki að vera rangar hugmyndir um þau. Margir ímynda sér fíngerða heiminn vera ríkulega skreytta paradís sem er aðeins full sælu. Samt stynur jörðin undir þrýstingi morða, árásargirni og lyga og afleiðingar jarðneskrar blekkingar fylla líka fíngerða heiminn.

Það kemur Okkur ekki á óvart þegar fólk þiggur ekki góð ráð; það þýðir einfaldlega að jarðvegurinn er ekki enn tilbúinn.

Vinsamlegast segðu vinum þínum að þeir ættu ekki að fullyrða í jarðnesku lífi sínu hvað þeir vilja verða í næstu holdgun. Staðreyndin er sú að fíngerði heimurinn býður upp á svo mikla möguleika að jarðneskar takmarkanir og ráðstafanir geta aðeins dregið úr þeim. Líf á jörðinni ætti að vera tjáning bestu reynsluuppsöfnunar manns. Oft byrjar fólk að hugleiða næstu jarðvist sína, en það er skynsamlegra fyrir þá að fresta slíkum hugsunum þar til þeir finna sig í fíngerða heiminum. Þeir gætu þá uppgötvað að það sé ekki nauðsynlegt fyrir þá að snúa aftur til jarðar, eða að þeir verða að dvelja í langan tíma í fíngerða heiminum til að framkvæma verkefni sem þeim eru falið. Slík vinna færir mann nær Bræðralaginu.

Þú manst eftir lækninum U., sem dvaldi í fíngerða heiminum í langan tíma til að veita mannkyninu mikla þjónustu, en honum hafi aðeins orðið ljóst hlutverk hans meðan hann var í fíngerða heiminum. Slíkur fyrirmyndarmaður er í algjörri mótsögn við þá iðjulausu sem vilja vera eins lengi og leyfilegt er í fíngerða heiminum, til að tefja fyrir því að takast á við nýju prófin sem bíða þeirra við komuna aftur til jarðar.

Það ætti að skiljast, að skilgreindir tímar eru til fyrir alla í fíngerða heiminum, en sumir fagna þeim á meðan aðrir bölva þeim. Það eru margir sem vilja snúa aftur í jarðneska ástandið fyrir sinn tíma, á meðan aðrir reyna að forðast að snúa aftur, að minnsta kosti í stuttan tíma, og munu jafnvel finna upp eitthvert nýtt verkefni sem afsökun til að lengja dvöl sína í fíngerða heiminum. Við gætum nefnt mörg mismunandi dæmi, en í augnablikinu vísum við aðeins til þeirra verkefna sem færa sálir nær Bræðralaginu. Þegar samband er eins og það er mögulegt fyrir einn að þroskast á meðan hann er í fíngerða heiminum, án þess að holdgast.

Hugsuðurinn kenndi: „Við getum verið gagnleg á öllum tilverustigum. Slíkur vilji er í sjálfu sér sigur.“

331. Urusvati er meðvituð um fyrirsagða tíma. Það gæti komið fólki á óvart að heyra að spáð hafi verið fyrir atburði í Kína og á Spáni tíu árum áður en þeir gerðust. Einnig var bent á þróun og hnignun annarra þjóða. Stundum voru þessar vísbendingar gefnar með táknum; til dæmis var bent á árásargirni Þýskalands í sýnum um þrjátíu ára stríðið.

Spurningin gæti vaknað hvers vegna sumir spádómar eru mótteknir í ákveðnu formi, á meðan aðrir eru aðeins skynjaðir í óljósum táknum. Það eru margar ástæður fyrir þessu. Stundum getur það verið karmískt ástand, á öðrum tímum getur það stafað af vísvitandi rangtúlkunum frjáls vilja. Það er hægt að hafa áhrif á þjóðir á velviljaðan hátt, en ef frjáls vilji er misnotaður mun það aðeins auka á vitundarblinduna.

Og aftur má spyrja hvernig hægt sé að sjá jarðneska atburði fyrir, og hvort það sé vegna þess að þeir hafa þegar komið fram í fíngerða heiminum. Slík hugmynd á sér hljómgrunn. Reyndar eiga margir atburðir uppruna sinn í óendanleikanum, en þetta þýðir ekki að atburðir á jörðinni séu einfaldlega skuggar af atburðum sem þegar hafa átt sér stað í fíngerða heiminum.

Það eru engin orð á mannamáli til að lýsa fylgni atburða á hinum ýmsu sviðum. Það eru margir straumar í geimnum sem sameina kosmíska atburði.

Læknir getur spáð fyrir um þróun sjúkdóms með því að fylgjast með fyrstu einkennum og hægt er að grípa til ýmissa ráðstafana til að forðast banvænan endi. Þetta á einnig við um þróun atburða, þar sem endanleg þýðing þeirra mun ráðast af mörgum áhrifum. Áhrif Okkar eru alltaf gagnleg, en maður ætti að vita hvernig á að viðurkenna afleiðingar þeirra. Ef maður er nægilega athugull sér maður að margir atburðir þróast á óvæntan hátt. Ætti maður ekki að álykta að á bak við þá sé leiðandi hönd?

Hugsuðurinn reyndi oft að þjálfa lærisveina sína í að vera opnir fyrir óvæntri þróun, jafnvel þeirra sem eru handan mannlegrar raka.

332. Urusvati veit að lögmál spírals er grundvöllur Alheimsins. Þetta er ekki aðeins staðfest í eðlisfræði, heldur einnig í þróuninni. Einfalt dæmi um skrúfu mun hjálpa manni að skilja þróunarganginn. Því fleiri skrúfugangar á skrúfunni, því betur þjónar hún tilgangi sínum. Á sama hátt er ganglegt fyrir þróunina að spíralinn að hafa marga snúninga.

Fólk er venjulega undrandi á því að mannleg vitund virðist upplifa aftur og aftur sömu afrekin og sömu mistökin. Spurningin vaknar, hvers vegna þarf maður að snúa aftur ef hægt er að komast áfram? En þessi „endurkoma“ er aðeins blekking. Þróunin snýr aldrei aftur til fyrri þrepa, heldur gengur yfir þau. Fólk kvartar yfir því að falla aftur niður í grófleika, en gerir sér ekki grein fyrir því að það ástand er ekki eins og áður, því margir nýir þættir hafa komið inn í líf þeirra. Það væri rangt að líta aðeins á lífið frá einu sjónarhorni. Lífið er algjört samræmi og aðeins í margbreytileika sínum kemur í ljós að spírallinn hefur lokið snúningi sínum.

Það er mjög líklegt að við förum ítrekað framhjá fyrri stöðu okkar, en við tengjumst þeim í hvert sinn á hærra plani, eins og í turni þar sem hringstiginn leiðir í átt að Óendanleikanum. Þú verður alltaf að minna þig á tákn spíralsins, annars verður mörgum spurningum ósvarað.

Það kann að virðast sem mannkynið hafi ekki sýnt neinar verulegar framfarir á þessum milljónum ára. Málið er að þróunin heldur áfram, en hringsnúningurinn er gríðarlegur.

Það er alveg rétt að segja að fólk lendi í grófleika og lygi, en öðlast um leið nýja þekkingu á mörgum sviðum. Það er ekki auðvelt að koma slíkum öfgum fyrir í samræmi. Þrátt fyrir þetta skulum við elska mannkynið.

Hugsuðurinn kenndi: „Elskaðu ekki manninn, heldur mannkynið.

333. Urusvati veit hvað veldur því að Við veljum óvenjulegt kerfi til að gefa orðræðu Okkar. Hinir fáfróðu munu segja að það sé alls ekkert kerfi, heldur einfaldlega óteljandi orðatiltæki sem sum hver fjalla um atburði líðandi stundar og önnur óeðlilega endurtekin. Slíkt er álit hins yfirborðskennda lesanda, sem getur ekki skilið hugmyndina um þörfina á takti, sem hjálpar til við að víkka út vitundina. Menn geta ekki skipt orðræðunum í formleg viðfangsefni.

Maður gæti skrifað bók um gleði, en Við viljum helst gefa innsýn í gleði, og tengja hana við hugsanir um alvarlegar hættur. Hvert erindi er flutt í ákveðnum takti. Þú veist það, að klæðast mörgum lögum af fínasta silki heldur manni hlýrri en loðkápa. Endurtekning myndar uppsöfnun sem gefur aukna sálarorku, en slík uppsöfnun ætti að vera háð ákveðnum takti.

Það væri óskynsamlegt að setja streitu á aðeins einn hóp taugastöðva. Undirstöður lífsins eru margvíslegar og fágun þess ætti ekki að hafa neinar takmarkanir. Ímyndaðu þér margvíslega birtinguna sem slær niður í meðvitund þína á aðeins einum degi! Uppsöfnunin og takturinn er misjafn og hinn venjulegi maður verður meðskapari margra atburða. Jafnvel þótt hann taki ekki eftir þessum miklu straumum, þá eru þeir til. Þess vegna ættum við að nálgast undirstöður lífsins í allri sinni fjölbreytni.

Gleði getur ekki verið bara ein gleði. Það eru óteljandi gleðiefni og hver þeirra snertir ákveðna samsetningu taugastöðva. Fólk ætti að hugsa meira um takt og margbreytileika.

Hugsuðurinn fullyrti að sérhvert góðverk væri taktfast.

334. Urusvati veit að hægt er að segulmagna hluti. Þú gast fylgst með því hvernig andleg orka getur segulmagnað vatn og að vatn sem inniheldur járn eða litíum er mjög auðveldlega segulmagnað. Einnig má sjá hvernig vatn er smám saman afsegulmagnað við minnkun sálarorku. Þetta er hægt að gera með alla hlutum og það er ekki galdur, heldur vísindalegt ferli. Mikilvægasti þátturinn er að áhrif segulmögnunarinnar sjálfar varðveitist.

Segulmagn hlutar getur í raun varðveist í aldir, ef sá sem segulmagnaði hann dregur ekki áhrif sín til baka. Þannig liggur segulmagnið ekki í hlutnum sjálfum heldur í einstaklingnum. Það verður einnig að hafa í huga að afsegulvæðingu er hægt að framkvæma með sérstöku ferli.

Það voru tilfelli þegar segulmagnaðir hlutir féllu í hendur ills fólks sem gat síðan notað hina góðgjörnu orku í illum tilgangi. Í slíkum tilfellum verður nauðsynlegt að eyða segulstraumum sem gegnsýra hlutina. Orkuna ætti aðeins að viðhalda í góðum tilgangi. Þetta lögmál eru afar mikilvægt. Marga fyrrum helga hluti má finna í sölu, en þeir eru nú notaðir í eigingjörnum tilgangi.

Menn ættu að muna að einkum steinefni er auðveldast að gegnsýra sálarorku, vegna þess að þau eru nánast laus við örverur og orka þeirra er minna háð breytingum. Þetta er ekki svo með vefnaðarvöru og leðurhluti, þar sem örverur tileinka sér strax sálarorkuna og óæskilegt flókið efni myndast. Þess vegna ráðleggjum Við að eyða slíkum hlutum með eldi.

Það er þekkt staðreynd að á meðan bölvun getur verið virk í gegnum aldirnar, verður öflugasti verndargripur vanmáttugur í vondum höndum. Ákveðið ákall getur valdið mikilli aukningu á krafti hluta, ef þeir hlutir eru nógu lengi þar sem ákallið var framkvæmt.

En nú vil ég að þú takir eftir öðru smáatriði. Það er ekki hluturinn sjálfur sem skiptir máli heldur orkan, sem annað hvort er hægt að endurnýja eða afmá. Ef þjófar halda að þeir geti stolið lifandi orku, munu þeir finna sig fyrir í tómri gryfju. Þannig má líta á galdra sem vísindalega athöfn. Sá sem hefur eyru, hann heyri.

Við höfum oft talað um áhrif hugsunar á hluti. Sannarlega er auðveldara að segulmagna en að eyða segulmagni, en segulmagnarinn sjálfur getur fjarlægt segulmögnunina þegar nauðsyn krefur með viljastyrk sínum. Slíkir afmagnaðir hlutir öðlast hlutlausa eiginleika, það er að lifandi orka yfirgefur þá og þeir haldast líflausir og háðir óreiðu og geta orðið andstæða þess sem þeir voru.

Í grundvallaratriðum eru allar þjóðsögur byggðar á vísindalegum sannindum. Það var alltaf talið að hugsun væri klæði hluta. Þessi hugmynd vísar til uppsöfnunar hugsunar og útgeislunar orku.

Hugsandinn ráðlagði eindregið að geyma hluti sem voru gefnir með góðum hugsunum og góðum óskum. Hann sagði: „Við erum ekki hjátrúarmenn heldur vísindamenn og við gerum okkur grein fyrir því að sá sem heldur gjöf nálægt hjarta sínu gefur hluta af sál sinni.“

335. Urusvati veit að kynni við þjóna myrkursins eru tíð og að maður ætti að vera meðvitaður um fjölhæfni þeirra. Það eru birtingarmyndir sem eru greinilega ljótar, en það eru aðrar sem eru lýsandi, og aðeins aukin vitund getur ákvarðað raunverulegt eðli þessara aðila.

Spurningin gæti vaknað hvort Við hittum einhvern tímann þessa óvini. Vissulega, og við verðum ekki bara stöðugt að berjast við þá, heldur stundum jafnvel ræða við þá. Þeir missa ekki af neinu tækifæri til að nálgast Okkur á ferðum Okkar og reyna að drekka í sig orku Okkar til eigin nota. Það er rétt að segja að myrkraöflin hlífi sér ekki. Þeir þola af hugrekki sársaukann sem stafar af snertingu við orku Okkar og eru alveg tilbúnir til að fórna sér. Það er grátlegt að hinir svokölluðu þjónar hins góða séu ekki nærri því eins hollir málstað sínum.

Reyndar eru það ekki þeir sem hafna sannleikanum harðlega sem eru hættulegir, né þeir sem afbaka hann, heldur hinir áhugalausu, lifandi líkin sem hreyfast ekki af orði sannleikans. Við getum aðeins brosað til guðlastaranna og afneitaranna, sem gruna ekki, að með því að vekja athygli á sannleikanum sem þeir afneita, þjóna þeir ákveðnum tilgangi. Sumt afl neyðir þá til að beina orku sinni í að afneita sannleikanum hátt, á meðan svo margir þjónar hins góða hvísla. Dæmdu sjálfur hver er gagnlegri, sá sem hvíslar sannleikann feimnislega og óheyranlega, eða þann sem djarflegan hátt ræðst á hann.

Lítum til fortíðar og við munum sjá að björtustu afrekin voru afleiðing harðrar andstöðu. Ef sannleikurinn er ekki til, í hvaða tilgangi þreytir þessi óvinur sig? En ef sannleikurinn er á lífi getur ekkert skaðað hann og rógburður verður auglýsing hans. Við höfum oft sagt andstæðingum Okkar að það sé lögmál sem breytir illri viðleitni þeirra í vegsemd sannleikans.

Á sama hátt þjóna falsspámenn þeim tilgangi að reyna að koma boðskap sínum til fjöldans. Þess vegna skulu þeir halda áfram að boða, í fáfræði um niðurstöðuna. Leyfum tómri skel ósannindanna að opnast; vatn sannleikans mun halda áfram að renna.

Hugsandinn sagði, eftir að hafa hitt ókunnugan mann: „Hann er ekki góður maður, en hann talaði mikið við mig um sannleikann. Blessaður sé sannleikurinn."

336. Urusvati veit hvað Við syrgjum hverja afbökun sannleikans. Við segjum að falsspámenn séu hættuminni en „tilfinningalaus, lifandi lík; Hins vegar er þessi samanburður afstæður og þú getur verið viss um að Við réttlætum ekki falsspámenn. Allir vita að þeir vinna aðeins að eigin ávinningi og að starfsemi þeirra hefur ekkert með fræðsluna um hið nýja líf að gera. Ef maður ætti að spyrja þessa lúðrablásara lyganna hversu miklu silfri þeir hafi safnað, myndu þeir þegja, vitandi að fræðslan er mjólkurkú fyrir hvern og einn þeirra.

Fólk gæti sakað Okkur um skort á rökfræði, þar sem við segjum einn daginn að falsspámennirnir séu ekki hættulegir, samt fordæmum við þá harðlega á öðrum degi; en afstæði og andstæða eru lítt skilin. Reyndar eru veraldleg samskipti flókin og óhreinn einstaklingur virðist hreinn ef hann er borinn saman við sótið. Við munum ekki þreytast á að minna ykkur á að eitt af einkennum Harmagedón er gífurleg fjölgun falspredikara. Þeir koma fram í öllum löndum og bjóða upp á allt sem mannfjöldinn vill. Við munum ekki ræða afbökun þeirra á lífinu, en við getum harmað þær.

Afbökun sannleikans getur verið meðvituð eða ómeðvituð. Margir munu fullvissa þig um að brenglun þeirra sé ómeðvituð, en í raun bregðast þau við meðvitað. Munurinn er á vitundarstigi. Oft má sjá að ótrúlegustu lygar eru sagðar í von um lítinn persónulegan ávinning, eða til að lyfta egóinu, eða til að græða peninga. Þessi aumkunarverði ávinningur er algjörlega úr hlutfalli við misnotkun hins mikilfenglega sannleika.

Hversu ótrúlega rangsnúið er hugarfar mannsins! Fólk kastar ómælanlegum hugtökum á vogarskálarnar og afsakar sig síðan með því að segja að þar sem þeir viti ekki sannleikann, þá séu þeir ekki ábyrgir fyrir afbökun hans!

Það ætti að segja þeim: „Ef þú veist ekki hvað sannleikur er, geturðu að minnsta kosti reynt að öðlast honum. Í slíkri viðleitni muntu læra að elska fyrstu merki þess. Nauðsynlegt er að læra að elska; þetta í sjálfu sér mun koma í veg fyrir að þú verðir svikari."

Einu sinni, þegar hugsuðurinn sá rykský á veginum, hrópaði hann: „Hver er að nálgast, góður sendiboði eða morðingi? En ég veit, því að hjarta mitt segir mér að það sé ekki morðingi sem nálgast.“

337. Urusvati elskar samfélag við Okkur. Það er ekki hægt að skipuleggja það, það er ekki hægt að kalla það fram vitsmunalega, aðeins kraftur kærleikans getur leitt það inn í lífið.

Merktu við það sem ég segi þér. Oft kemur fólk saman í þeim tilgangi að sameina hugsun. Slík æfing er lofsverð. Á sama hátt safnast fólk saman og sendir frá sér sameiginlegar hugsanir til hjálpræði heimsins og lækna sjúkdóma. Þetta er líka lofsvert. Á þessum tímum eru margar samkomur tileinkaðar miðlun slíkra góðviljaða hugsana. Hins vegar gleymist samneyti við Okkur, jafnvel þó það myndi hjálpa þeim í góðum ásetningi.

Við gagnrýnum ekki þá sem reyna að sameina og efla hugsun sína, því á sinn hátt er það verðugt. En hversu miklu ákafari væri sending þeirra ef hver þeirra lærði að elska samfélag við Okkur! Allir ættu að verja að minnsta kosti smá tíma í andlegri sameiningu með Okkur, en aðeins kærleikurinn getur verið brúin.

Það er engin þörf á að örva tilbúna spennu, eða að telja, eða að endurtaka hundruð nafna. Það sem þarf er einfaldlega sterk tilfinning. Maður verður að elska augnabliks snertingarnar og finna fallegu vængina sem þeir veita! Við metum hverja slíka brú kærleikans, sem er byggð af ást á vinnu. Sambandið við Okkur byggist því á ást og vinnu. Hins vegar getur hvers kyns samræmi raskast og erfitt er að endurheimta það.

Hugsuðurinn horfði á brot af ómetanlegum vasa og sagði: „Mikið er kraftur mannsins. Hann getur brotið jafnvel dýrmætasta ílát.“

338. Urusvati veit að lífveran mannsins er ríkulega gædd öflugum efnum. Efnarannsóknarstofa mannsins er sannarlega mögnuð og óhætt er að fullyrða að hvergi nema í mannslíkamanum séu slíkir kraftar geymdir. Af góðri ástæðu hafa verið til kenningar frá fornu fari um að hægt sé að lækna hvaða sjúkdóm sem er með seyti sjúklingsins sjálfs. Við skulum líka íhuga þá staðreynd að efnafræði mannlegrar lífveru fær fínleika sinn af því að vera undir beinum áhrifum sálarorku, sem endurnýjast stöðugt með tengingu við strauma geimsins.

Öflug eru mannlegt eitur en sálræn orka heilnæm. Þegar Ég tala um nauðsyn sálrænna tenginga, ráðlegg Ég þér ekki aðeins sem kennara og mannvin, heldur einnig sem lækni. Ég ráðlegg til dæmis að hugsa um miltað og halda því hreinu. En á sama tíma legg Ég áherslu á nauðsyn þess að varðveita ró og andrúmsloft einingar. Þetta kann að hljóma undarlega, því hvað getur miltið og andi einingar átt sameiginlegt? Í raun er miltað líffæri samræmis og verður því að vera hreinsað með samræmdri lund. Fólk gerir ráð fyrir að aðeins taugakerfið krefjist sálrænna áhrifa, en slík áhrif eru líka nauðsynleg fyrir ýmis líffæri. Dæmið um miltað er leiðbeinandi. Ég tala um þetta tiltekna líffæri vegna þess að það er sjaldan nefnt og þarfnast sérstakrar athygli.

Við erum sorgmædd þegar Við sjáum samræmi eyðilagt. Ímyndaðu þér hvað myndi gerast ef nokkrir meðlimir myndu skyndilega detta út úr hópi sem er undir áhrifum Okkar. Miklar truflanir myndu eiga sér stað í straumnum og hópurinn yrði fyrir mörgum hættum. Sömuleiðis, ef sjúklingur gleypir lyf í skömmtum sem eru ætlaðir fyrir marga, geta skelfilegar afleiðingar fylgt því. Og svo má nefna mörg læknisfræðileg dæmi, því þau minna okkur á að sálræn og efnafræðileg áhrif eru háð innbyrðis.

Hugsuðurinn sagði vanalega: „Ég get ekki borið íþyngjandi áru mikils mannfjölda.“

339. Urusvati veit að hið sanna eðli mannsins opinberast á hörmungatímum - þannig er það á jörðinni. Við köllum þetta ekki lögmál, því aðstæður fyrir hverri ógæfu eru mismunandi. Upphafning og hamingja ætti að hafa meiri áhrif en eymd, en jafnvel tálsýn um vellíðan deyfir fólk. Hversu grátlegt er að flestir geti einungis fágað tilfinningar sínar með þjáningu!

Í margar kynslóðir hefur fólk skapað lotningu fyrir ógæfu og haldið því fram að það séu guðirnir sem sendi hörmungar. Maðurinn gleymir aldrei að biðja um hjálp, en hann man sjaldan eftir að þakka fyrir hamingju sína. Það kann að virðast varla þess virði að tala um slíkt, en það ætti að skoða það út frá vísindalegu sjónarhorni. Mæling á vanlíðan sýnir óróleika. Við getum fylgst með flökti þeirra á skjánum, en hrifning og upphafning sýna fullkomnar bylgjur. Það má sanna að truflun framleiðir ekki aðeins eitur, heldur drepur líka líffærin, þar sem öll rannsóknarstofa lífverunnar fellur í ógöngur. Þessu ástandi má líkja við dauða sálarorku.

Áfall veldur oft meðvitundarleysi, en yfirliði má ekki rugla saman við dá. Yfirlið er meðvitundarlaust ástand, en dái fylgir ekki endilega meðvitundarleysi. Ytri áföll valda sjaldan dái, orsök þess er miklu fíngerðara. Meðan maður er í dái er oft hægt að lækna hann af fyrstu stigum hættulegs sjúkdóms. Almennt er rangt að líta á dá sem sjúkdóm; hann er einstakt ástand líkama og huga.

Það er leitt að sjaldan séu rannsakaðar hinar fjölmörgu hliðar á slíkum sljóum aðstæðum. Það sem skiptir máli í slíkum tilfellum er ekki hvernig á að fæða sjúklinginn, það er að fylgjast með takti púlsins og virkni heilans. Það væri rangt að vekja hann, því hann er niðursokkinn í aðra heima, og ef hægt væri að spyrja hann vandlega, myndi hann opinbera margt áhugavert.

Þjóðsögur varðveita sögur um sofandi fegurðardísir og riddara sem voru fastir í dýralíki. Alþýðuspekin lítur á þetta sem sérstakt ástand sem fylgir endurnýjun krafta og hetjuskapar. Sannarlega mun sá tími koma að læknavísindin munu geta skapað þessi tímabil algjörrar hvíldar til endurnýjunar lífskraftanna. Tilraunir fyrir þetta áttu sér stað í fornöld.

Við upplifum svipaðar aðstæður í fjarflugi. Það sem skiptir máli er að maður má ekki yfirsjást fyrstu áhrif þegar hann vaknar. Undir venjulegum kringumstæðum er erfitt að vera stöðugt á varðbergi og merkilegum táknum er hægt að misst af. Seinna getur maður gleymt öllu og ef hann er inntur eftir með klaufalegum spurningum mun hann fullyrða að hann muni ekkert. Við höfum nefnt þetta áður, en slík reynsla er sjaldgæf í Okkar bústað. Aðeins á tímum þegar þörf er á almennri einbeitingu getum við leyft slíkar aðferðir; Við viljum ekki missa af neinni birtingarmynd og vilji allra er einbeittur.

Sá tími mun koma að fólk verður undrandi yfir því að það þurfti þjáningar til að vaxa, á meðan það saknar margra annarra mögulegra leiða til að hækka vitund sína. Þannig ættu menn að gera sér grein fyrir hversu margvíslegir möguleikar eru sem Við bjóðum fólki.

Hugsuðurinn sagði: „Getur verið að maðurinn hafi þróast úr steini, þar sem við sjáum að það þarf högg til að kveikja neista í honum?

340. Urusvati veit að við eðlilegar aðstæður getur mannslífveran sigrast á sjúkdómum með góðum árangri, en það er nauðsynlegt að skilja hvers konar lífveru við erum að tala um og hvaða aðstæður eru bestar. Hættuleg áhrif erfðaþátta ætti að takmarka eins og hægt er. Ríkisstjórnir ættu að grípa til aðgerða til að ná þessu og eru fyrst núna að byrja að gefa þessu vandamáli nokkra athygli. Samt hugsar fólk ekki nógu mikið um náttúruna. Það er nokkuð sátt við grunn hreinlætisráðstafana og litið er framhjá nauðsynlegum undirstöðum lífsins.

Það er ekki hægt að efla heilsuna án þess að hafa almennilegan skilning á sálarlífinu. Fólk fer á heilsuhæli til að bæta heilsuna og hunsar þá staðreynd að það verður í nánum tengslum við margskonar sjúkt fólk. Slíkt umhverfi getur varla haft jákvæð áhrif. Þvert á móti getur tengslin við þá sem einbeita sér að veikindum aðeins aukið óttann við sjúkdóma og aukið á sjúkdóma þeirra.

Það væri gott að minnast lækninga til forna þegar sjúkt fólk fór í einangrun og hélt sig nálægt náttúrunni. Þetta var ekki aðeins gert í tilfellum smitsjúkdóma, heldur þegar lífveran þurfti endurnýjunar. Jafnvel núna eru þeir sem kjósa að búa í húsbílum eða í tjöldum. Auðvitað endurtekur safn margra tjalda á einum stað aðeins borgaraðstæður, en sú staðreynd að fólk dreymir um og leitar að einangrun sýnir heilbrigða eðlishvöt til varðveislu og endurreisnar heilsu. Við sendum hugsanir um heilsu, en um heilsu sem er rétt skilin. Það er sérstaklega mikilvægt að hugsa um heilsuna núna. Margir eru meðvitaðir um að eyðilegging taugakerfisins er komin að öfgamarki. Þeir skilja að framfarir eru ómögulegar á þessari braut hrörnunar, en aðeins fáir vita um mikilvægi heilsu í fullri merkingu.

Það er ekki sálfræði með afskiptalausri greiningu sem þarf, heldur upplýsta viðleitni til endurreisnar heilsu. Mörg dæmi eru um að borgarbúar fái störf sem verkamenn á bóndabæjum til að komast undan hinu sjúklega umhverfi stórborganna. Þetta er lofsverð ákvörðun ef menn vita hvernig á að forðast mannfjölda í nýja umhverfinu.

Við skulum rifja upp ýmsar langanir, þar sem fólk skynjaði þörfina á að breyta óheilbrigðum aðstæðum sínum. Þrá eftir náttúrunni ætti að sameinast með sálargleði, annars fer leitandinn að gráta við fyrstu úrkomu eða önnur óþægindi. Sá tími mun koma að læknar skilja að mannleg lífvera getur barist við sjúkdóma án utanaðkomandi aðstoðar.

Hugsuðurinn sagði: „Jafnvel hundur þolir ekki að vera truflaður í veikindum sínum. Er maðurinn síðri en hundur?

341. Urusvati veit að samhljómur í lífinu hreinsar mannlegar tilfinningar. Reyndar er samhljómur það eina sem þarf; með þessu verður allt fíngerðara og háleitara. Samhljómur er frábært hugtak! Samt leita menn þess í ytri aðstæðum og líta framhjá því í kjarna hlutanna. Til dæmis getur frumstæður maður lifað í náttúrufegurð en samt verið fjarri samhljómi. Borgarbúi getur verið kúgaður af amstri umhverfisins og getur ekki hugsað um samstillt líf. Jafnvel fágaður heimspekingur getur orðið fyrir áhyggjum af því að framfleyta sér. Þannig gleymist lögmál samhljóms.

Fólk skilur ekki að leiðin til samhljóms er í listinni að hugsa. Djúp íhugun er nauðsynleg til að ná samræmi. Sannarlega, aðeins listin að hugsa getur betrumbætt tilfinningar manns. En hvernig á maður að tileinka sér þessa list, sem ólæs manneskja getur stundum átt, en sleppur framhjá þeim lærðasta? Hvernig getum við kennt manninum listina að hugsa? Margir munu líta á þetta sem klaufalega orðræðu. Hvernig getum við útskýrt fyrir fólki að heimspeki Okkar byggist á hugsun um óendanleikann? Með slíkum hugsjónum verða jarðneskar þrengingar þolanlegar og viðráðanlegar. Ekki óttast hið háleita hugtak um samhljóm. Það er hægt að beita því á öllum sviðum lífsins og sérhver manneskja getur þróað tilfinningu fyrir því innra með sér. Þetta ástand er hægt að kalla mismunandi nöfnum, samt er það eign allra. Allir munu fyrr eða síðar ná samhljómi ef listin að hugsa er ræktuð.

Hugsuðurinn lagði áherslu á rétta hugsun. Hann vildi að lærisveinar hans upplifðu sig sem listamenn sem gætu skapað nýja tegund af samhljómi.

342. Urusvati veit hversu óreiðuöflin eru viðvarandi. Þeim ber að veita meðvitað mótspyrnu, því aðeins með meðvitaðri andstöðu er hægt að sigrast á þeim. Hægt er að greina tvo strauma —óreiðu umhverfisins og óreiðuna sem hefur áhrif á veikan mannlegan vilja. Jafnvel gott fólk getur orðið fórnarlömb óreiðuárásanna.

Einungis er hægt að skýra ákveðna atburði með þessum óreiðuárásum. Þú hefur heyrt um stúlkuna sem, jafnvel á meðan illu öflin ráðast á hana, getur læknað með krafti sálarorku sinnar. Jafnvel hófsamir góðir læknar eru á móti henni og reyna að trufla sjálfsfórn hennar. Mörg sambærileg dæmi eru til á ýmsum sviðum og það merkilega er að einstaklingar sem koma ekki einu sinni við sögu munu líka trufla.

Það er furðulegt að upplýst fólk, virðist ekki skammast sín fyrir að óhreinka sig af því að vera á móti velviljuðu starfi. Af hverju verður það slíkir villimenn að segja svo skammarlega hluti? Það kemur oft fyrir að fólk sé heltekið, en það getur líka verið um eitrun af völdum glundroða að ræða. Slíkar aðstæður ætti að rannsaka vísindalega. Þegar tilfinningar þeirra eru umsnúnar tímabundið getur fólk hegðað sér á skammarlegasta hátt án þess þó að gera sér grein fyrir því. Síðar gæti það fundið fyrir eftirsjá, en verkið hefur þegar verið unnið og karma ákveðið.

Það mætti mótmæla því að menn séu gerðir ósanngjarnlega ábyrgir fyrir að hafa fallið fyrir árásum glundroða. Hins vegar, með árvökulum frjálsum vilja, hefðu þeir getað stjórnað sjálfum sér. Hvernig er hægt að afsaka fólk sem blindast af kæruleysi og reynir síðan að réttlæta eigið kæruleysi? Þannig ættum við að geta greint á milli meðvitaðra þjóna myrkursins og þeirra ómeðvituðu fórnarlamba hins illa sem þjóna líka illu og geta verið jafnvel skaðlegri en myrkrið sjálft. Það ætti að útskýra óreiðustrauma frá vísindalegu sjónarhorni. Leyfðu sem flestum að fræðast um það, því þessi ánauð við myrkrið á sér stað bæði á þéttum og fíngerðum sviðum.

Hugsuðurinn varaði alltaf við árásum glundroðans.

343. Urusvati veit að Við fylgjumst vandlega með lífi dýra. Við höldum hunda, geitur, naut, hesta og nokkrar smærri tegundir dýra og fugla. Helstu rannsóknir Okkar eru á sálarorku þeirra, þó að Við tökum einnig þátt í læknisfræðilegum tilraunum. Það segir sig sjálft að Við leyfum ekki lífsýni eða pyntingar. Við þjálfum þau ekki með valdi heldur með því að komast inn í hugsunarheim þeirra. Aðeins slík nálgun getur fært traust og rétt viðbrögð.

Við verðum að viðurkenna að athugun á hugsun og tungumáli dýra leiðir af sér óvæntustu niðurstöður. Tungumál þeirra birtist ekki svo mikið í hljóðum heldur í látbragði og augnaráði og minnir okkur nokkuð á tungumálið í fíngerða heiminum.

Fólk heldur að það eigi að tala við dýr en slík samskipti skila ekki alltaf besta árangri. Dýr skilja hugsanir og þurfa ekki orð til að átta sig með vissu á skapi húsbónda síns. Hesturinn og hundurinn vita vel hvenær eigandi þeirra er glaður eða leiður eða truflaður. Þeir endurspegla líka ótta og kvíða eiganda síns og verða sjálfir hræddir og kvíðnir. Þeir skilja slíkar aðstæður miklu betur en fólk heldur að þeir geri. Það sem skiptir máli er að öðlast traust þeirra, sem er ekki gefið auðveldlega.

Geðlæknar gætu haft gott af því að fylgjast með dýrum; margar þrautir yrðu leystar. Frá fornu fari hafa verið gefnar vísbendingar um mikilvægi dýra í lífi mannsins. Það var vel þekkt að dýr efldi strauma sálarorkunnar, en það var líka vitað að þau laða að lægri verur frá fíngerða heiminum. Sálræn orka dýra getur verið gagnleg, en hún getur líka verið hættuleg og maður ætti að bregðast við með varúð. Dýr ættu ekki að fá of mikla nánd við fólk. Sammæling er nauðsynleg í öllu.

Hugsuðurinn benti oft á áhugaverðar staðreyndir um meðvitund dýra. Ummæli hans voru aðhlátursefni á þeim forsendum að dýr hafi enga greind og séu því óæðri verur, en Hugsuðurinn ætlaði að sýna fólki að sálarorka vinnur í gegnum allar verur og um allan alheiminn.

344. Urusvati veit hversu þung byrði heimsins er. Við getum minnt þig á þjáningar systur Okkar þegar hún lifði í Siena. Þess má geta að sársaukinn sem hún þoldi tengdust atburðum í Frakklandi og á Spáni. Hún fann fyrir miklum sársauka í svæði sólarplexusins og gat með þeim spáð fyrir um ákveðna fjarlæga atburði. Oft fundust þessir atburðir ákafari en staðbundnir. Á sama hátt má rekja ákveðin tengsl við fyrri líf.

Ekki var hægt að stöðva þessa sterku verki og oft var lítill tími til að gera læknum viðvart, sem skildu ekki hina raunverulegu orsök og reyndu að stöðva verkina með því að ávísa öflugum lyfjum. Enn í dag skilur fólk ekki fíngerð áhrif og slíkt skilningsleysi hindrar framfarir í vísindum.

Á ævi systur Okkar í Siena var hugmyndin um fjarhrif bæld niður. Í dag er mikið talað um fjarhrif, en merki þess eru enn meðhöndluð af tortryggni. Það vekur furðu að jafnvel í framsæknum vísindasamfélögum sé efi um það; þetta viðhorf hamlar bara rannsóknum.

Þú hefur heyrt um lækninn sem var sendur til að rannsaka fíngerðar birtingarmyndir, en gat engu áorkað vegna þess að ríkjandi aðstæður voru ekki hagstæðar fyrir árangur rannsóknarinnar. Við viljum hvetja til slíkra rannsókna en erfitt er að finna einhvern sameiginlegan grundvöll fyrir samskipti.

Urusvati getur veitt rannsakendum margar sannfærandi upplýsingar, en það er nauðsynlegt að hlustað sé á vitnisburð hennar og fylgni við vitnisburð Okkar systra og bræðra sem hafa búið í heiminum. Í slíkum fylgnirannsóknum verður hægt að rekja þróun þekkingar um fíngerðu orkuna.

Hugsandinn sjálfur upplifði oft undarlega sársauka, sem hann rakti til geisla hinna ýmsu pláneta.

345. Urusvati veit hversu margar fíngerðar tilfinningar og áhrif fylla líf manns. Ójafnvægi, þessi hræðilega plága, er hindrunin í því að meta og skilja dýrmætar gjafir lífsins. Eftir milljóna ára þróun er mannkynið enn fáfróð um listina að ná samhljómi.

Hvað sjáum við þá á þessari öld, svo stolt af uppgötvunum sínum? Fólk hafnar algjörlega öllu sem er handan jarðneska sviðsins og verður fórnarlömb eyðileggjandi ójafnvægis. Það gleymir strax ábyrgð sinni gagnvart jörðinni og byrja að reika í þoku þess óhlutbundna, og ef það hittir þá sem hafa náð samhljómi, fyrirlíta þau þá!

Við ættum ekki að heimfæra slíkt hatur eingöngu á myrkraöflin. Margir mikilsmetnir borgarar eru einmitt þeir sem hata allt sem er í samhljóma, vegna þess að þeir hata hugmyndina um sameiningu hversdagsleikans og þess yfirskilvitlega. Myrkrið á sér trygga vinnufélaga meðal fólks í ójafnvægi. Ef þú sérð árásir á gagnlega þætti, fylgstu vel með þeim og þú munt sjá að ofsækjendurnir hafa ekki einu sinni hin minnsta samhljóm í sjálfum sér. Kynntu þér þá og þú munt sjá ófullnægjandi rökhugsunar þeirra og læra hvernig á að standast brögð þeirra. Þú munt læra hvenær hægt er að andmæla þeim, vegna þess að ef ekkert er hægt að áorka í þessu lífi, verður að skipta um slíður. Já, já, já, samhljómurinn sjálfur er oft skilin sem óraunverulegur!

Á sama hátt er Nirvana misskilið, þar sem mesta efling hæfileika manns er stundum túlkuð sem óvirkt, tilfinningalaust aðgerðarleysi. Jafnvægi krefst gagnkvæmrar spennu, því báðar skálar kvarðans verða að bera jafnt álag. Þess vegna standa báðar skálarnar, hversdagsleg og annars heims, aldrei tómar. Í fáfræði sinni kýs maðurinn að takmarka sig við þessa eða hina hliðina. Þess vegna haltrar mannkynið; en getur maður hoppað lengi á öðrum fæti? Getur maður dregið hækju sína inn í fíngerða heiminn? Ég tala í gríni, því stundum er gaman að muna betur!

Hugsuðurinn spurði nokkra þröngsýna menntamenn: „Af hverju örkumlar þú sjálfan þig með því að skera annan fótinn af þér? Sannarlega munt þú eiga í miklum erfiðleikum með að snúa aftur heim."

346. Urusvati veit að ef sérhver einstaklingur skrifaði niður lýsingu á einhverju stórkostlegu sem hefur átt sér stað í lífi hans, gæti mannkynið sett saman ótrúlega bók á aðeins einum degi. Allir hafa fengið ósvikna innsýn í hærri heima og margir gætu gefið afhjúpandi frásagnir. Jafnvel afneitarar þora ekki að halda því fram að þeir geti gefið hversdagslegar skýringar á öllu sem hefur gerst í lífi þeirra.

Helsta hindrunin við að setja saman slíka annála er vandræðin sem hver og einn finnur fyrir því að opinbera persónulega reynslu sína. Urusvati man of vel hvernig hún var gerð að athlægi sem barn, þegar hún reyndi að opinbera tilfinningar sínar. En það er óumflýjanleg reynsla fyrir alla.

Ég vona að einhverjir muni lesa þessi orð Mín fyrir nánustu vini sína og safna dæmum úr lífinu í kringum sig. Það er óþarfi að vera undrandi á litlu stelpunni sem skyndilega fór að tala tólf tungumál! Og maður getur uppgötvað mörg önnur fyrirbæri sem hægt væri að útskýra vísindalega.

Þegar vinir þínir byrja að skrá óvenjulega reynslu sína skaltu vinsamlegast hvetja þá til að gera það eins einfaldlega og mögulegt er og forðast vandaðar lýsingar. Þeir ættu ekki að bæta við eigin túlkun heldur skrá staðreyndir á einfaldan og nákvæman hátt, af fyllstu sannindum. Það er ekki nauðsynlegt að leggja mikla þýðingu í hverfulu ljósin sem maður sér, því þau eru smáatriði hversdagslífsins. Einnig ætti að safna upplýsingum úr prentuðum heimildum, þó þær séu ekki sambærilegar við eigin sannanlegar athuganir.

Það eru margar bækur fáanlegar sem fjalla um geðræn fyrirbæri og við munum ekki eyða tíma Okkar í að reyna að sannfæra vísvitandi fáfróða. Sem stendur viljum við aðeins benda á að sálræn fyrirbæri eru að aukast. Einnig má sjá að það er óheppileg aukning í harðri andstöðu. Myrkraöflin eru uggandi yfir því að fíngerða orkan sé að nálgast jarðneska sviðið. Þú verður að skilja að baráttan hefur náð hámarki og glundroði er að reyna að koma í veg fyrir framfarir í þróun. En nýi heimurinn nálgast og ekkert getur stöðvað vöxt vitundarinnar.

Hugsuðurinn talaði um óslökkvandi eld hjartans. Hann skildi veg mannkynsins.

347. Urusvati veit hversu átakanlegt það er að þurfa að halda fólki frá öllu því sem búið er að undirbúa fyrir það. Reyndar eru margar nýjar uppgötvanir sem ekki er hægt að opinbera fólki, einfaldlega vegna öryggis þeirra.

Til dæmis hafa komið í ljós öflug eitur sem eru gagnleg þegar þau eru notuð á ákveðinn hátt. En er fólki sama um þessar heilsusamlegu hluti? Venjulega er fyrsti hvatinn þeirra að gera tilraunir með eyðileggjandi eiginleika. Eitur hefur oft lækningamátt, en að fela þau óábyrgum höndum væri hin mesta heimska. Sama má segja um alla þætti lífsins. Uppgötvanir eru aðeins öruggar þegar notkun þeirra er markhæf.

Sú spurning vaknar hvort atburðir af völdum haturs geti verið markhæfir. Þú verður að gera þér grein fyrir því að illt getur verið gott, á afstæðan hátt. Það er erfitt að ímynda sér að setja takmörk á eymdina! Stundum er eini valkosturinn að velja það minna skaðlegra, eða, eins og Rómverjar sögðu, „að taka með léttri hendi.

Þegar saga sálrænna fyrirbæra er rannsökuð getur maður fylgst með aukningu og minnkun á tíðni þeirra. Það mætti búast við stöðugri aukningu, en það eru ákveðnar aðstæður sem hafa áhrif á birtingarmyndirnar. Til dæmis fjölgar geðrænum fyrirbærum á stríðstímum, en þau eru af minna eftirsóknarverðu tagi.

Það sama á við um flestar fjöldabirtingar. Vissulega eflir fjöldinn sálræn öfl, en aðeins sjaldan getur uppljómun mannfjöldans talist af háum gæðum. Á rólegum, uppbyggilegum tímabilum geta birtingarmyndirnar verið mjög ákafar, því það er ekkert sem kemur í veg fyrir að fíngerða orkan nálgist líkamlega heiminn. Þar að auki skapar rólegt og yfirvegað eðli heppilegra andrúmsloft og magnar upp fyrirbærin. Þannig getur maður fylgst með tímabilum þróunar og hnignunar.

Fólk er enn ekki nægilega þjálfað til að greina á milli þessara breytinga, vegna þess að vísindin um sálræn fyrirbæri eru ekki samþykkt af meirihlutanum. Menn verða líka að hafa í huga að Við getum hjálpað þessum fyrirbærum á margvíslegan hátt. Innan um atburði heimsins er orku Okkar beint til þeirra svæða þar sem líkur eru á kosmískri hættu.

Hugsuðurinn benti á ljóma sólarinnar og bætti við: „Hvaða hættur leynast stundum í þessari geislun!

348. Urusvati þekkir hvernig fólk bregst við á mismunandi hátt við birtingarmyndum fíngerða heimsins. Þessar birtingarmyndir vekja oft áfall og jafnvel skelfingu. Ef fólk er stöðugt umkringt íbúum fíngerða heimsins, af hverju veldur það svo öfgafullum viðbrögð að sjá þá? Menn ættu að muna að þó svo fíngerð birtingarmynd valdi stundum áföllum getur fólk aðeins brugðist við því sem það sér í raun og veru, og án vitneskju um að það sé umkringt íbúum fíngerða heimsins, sýnir það áberandi ótta við snertingu við þessa svokölluðu drauga. En slík samskipti eru óumflýjanleg og við höfum leiðir til að vernda fólk gegn raunverulegri óbærilegri reynslu.

Fólk óttast hina dánu vegna þess að það trúir ekki á eilíft líf. Þegar þessi sannleikur er almennt samþykktur mun heimurinn umbreytast. Það er gagnslaust að tala um hreinsun eða upplyftingu áður en hægt er að skilja samfellu lífsins. Ég fullyrði að nú er fólk langt frá því að skilja uppbyggingu heimanna þriggja. Það mun heldur ekki hjálpa til við að einfalda kerfið með skiptingu í tvo heima; fólk verður bara ruglað. Mundu að til forna tóku mjög fáir með æðruleysi tilvist ósýnilegra heima. Meirihlutinn óttaðist þessi ríki eins og í dag.

Hugsuðurinn reyndi að opna þessa náttúrulegu samskiptaleið fyrir lærisveinum sínum, en aðeins fáir þorðu að horfast í augu við sannleikann.

349. Urusvati veit hversu eindregið við leggjum áherslu á þörfina fyrir samhljóm og einingu. Við tölum oft um einingu, en nú viljum við benda á sérstakan þátt þessa hugtaks - samhljóm. Aðeins eining mun skila réttum árangri. Það er rétt að hvers kyns eining eflir orku. Jafnvel eining í illu getur verið áhrifarík, en hún getur aldrei verið samhljóma, því illt er í eðli sínu ósamræmi. Einnig getur eining í illu ekki varað og niðurstöður hennar verða óljósar. En gæska er alltaf samræmd og hún ein og sér getur skilað þýðingarmiklum árangri. Þannig, með því að tala um samhljóma, staðfestum við góðvild.

Hver eiginleiki hefur margar hliðar, en ekki er hægt að opinbera þær allar í einu því þær yrðu ekki skildar. Við bentum fyrst á einingu í almennum skilningi og nú er kominn tími til að benda á þau sérstöku skilyrði sem þarf til að ná fullkominni einingu.

Eru kannski ákveðin áköll eða líkamsæfingar sem geta eflt þennan samhljóma? Vissulega eru til mörg slík hjálpartæki, en á endanum virka þau eins og fíkniefni og mynda aðeins ímyndaðan samhljóm. Slíkar athafnir eru ekki gagnlegar og henta ekki fíngerða heiminum. Þar sem markmið sjálfseflingu er að verða fullkomið fyrir framtíðartilveru okkar, ráðleggjum við notkun á eðlilegri aðferðum við að öðlast andlegan þroska. Þetta eru nýju skilaboðin.

Fólk er annaðhvort efins eða það lætur undan gerviaðferðum og hunsar allar náttúrulegar leiðir til að víkka vitundina. Samt eru slíkar leiðir hinir sönnu fjársjóðir við uppgöngu í fíngerða heiminum, fyrir þá sem búa þar eru engar tilbúnar aðferðir og þeir starfa aðeins í samræmi við grundvallarlögmál náttúrunnar.

Við mælum eindregið með bæði vinnu og hugsun fyrir sjálfsfullkomnun. Það mun færa háleita uppsöfnun sem gufar ekki upp í fíngerða heiminum, heldur þvert á móti, mun leiða til frekari þekkingar. Þannig leggjum við grunn að samhljómi.

Hugsuðurinn benti á: „Ekki ytra útlit, heldur kraftur hugsunarinnar mun opna hin heilögu hlið.“

350. Urusvati veit að öll ráð sem við gefum eru byggð á vísindalegum sannindum. Þegar við leggjum áherslu á ávinninginn af siðferðilegu lífi er aðaláhugamál Okkar að varðveita grundvallarlögmál alheimsins. Þegar við segjum: „Hreinsaðu hugsanir þínar,“ höfum við samhljóm í huga.

Ímyndaðu þér bara kraftinn í hreinni hugsun! Þú veist að slík hugsun hreinsar áruna og gefur frá sér geislandi ljós. Og það sem meira er, hreinleiki hugsunar er besta vörnin gegn myrku aðilunum sem loða við hverja myrka hugsun. Ég get nú þegar séð fyrir reiði þessara smámunasömu vísindamanna, í þeirra orðabókum eru illar verur ekki til! Jæja, við munum tala í samræmi við vitund þeirra og segja þeim að sérhver hugsun sé á vissan hátt segull sem dregur að sér allt sem líkist henni. Rýmið er mettað af hugsunum og hver þeirra laðar að sér hugsanir af svipuðum eiginleikum. Hugsunarhvirflar eru til í geimnum og vaxa innan um kosmíska snúninga.

Maðurinn hefur engan rétt á því að skapa glundroða og valda heiminum skaða. Þú verður að muna og skilja að hver góð hugsun gefur af sér gæsku og hver myrk hugsun er vagga hins illa.

Spyrja má hvernig maðurinn geti gert greinarmun á góðum og vondum hugsunum sínum. Orð geta verið blekkjandi, en á dýpsta stigi hugsunar blekkir fólk ekki sjálft sig. Það skilur nokkuð vel muninn á göfugum verkum og glæpum. Ytri ásýnd verks er ekki kjarni þess: þessi kjarni er greinilega skynjaður í hjarta höfundar verksins. Þannig ætti maðurinn ekki að verða sáðmaður eyðingarafla. Leyfðu öllum að hugsa um að skapa gott. Þegar fólk hugsar vísindalega mun það skilja lögmál siðfræðinnar.

Hugsuðurinn varaði við: „Ef þú aflar þér ekki þekkingar, verður þú áfram siðlaus.“

351. Urusvati þekkir margar ástæður fyrir truflunum á hugsunarflutningi. Helstu orsakir eru óvenju miklir straumar og óvæntar truflanir sem þarf að bregðast strax við. En einnig geta óæskilegir aðilar nálgast og reynt að afla upplýsinga sem myndu valda skaða ef þær væru ótímabærar og sem ættu ekki að birtast þeim.

Við getum gefið dæmi um upplýsingar sem voru truflaðar. Einu sinni sendum Við hugarfarsskilaboð um sorglegt ástand ákveðins vestræns lands, en um leið og fyrsta orðið, „geimur“, var sent, fundust óæskilegir hlustendur og rjúfa þurfti samskiptin. Til að uppfylla ætlun okkar notuðum við kóðaorð sem var sent á nóttunni. Við héldum áfram með samskipti okkar kvöldið eftir, nefndum þá ekki landið, því Urusvati gat þá skilið merkingu boðskapar okkar.

Ég nefni þetta til að minna á þá varkárni sem þarf að gæta við að fylla rýmið. Jafnvel í jarðlífinu leitar fólk álits sérfræðinga til að læra merkingu atburða. Það er eins þegar tilteknir aðilar reyna að hlera samskipti okkar til að nota upplýsingarnar í eigin tilgangi.

Þeir sem hafa mikla reynslu sætta sig við nauðsyn þess að fylgja náttúrulögmálum. Aðeins fáfróðir halda að við þurfum ekki að lúta kosmískum lögmálum. Það væri sannarlega sorglegt ef við myndum troðast inn í karma landa, þjóða eða einstaklinga að óþörfu.

Hvílíkur skaði hlýst af kærulausri afstöðu til lífsins! Þú veist hversu óviturlega sumir nota úrdrætti úr bókunum okkar. Þetta er mjög skaðlegt, því maður getur aldrei vitað hvernig eða af hverjum slíkar ófullkomnar tilvitnanir gætu verið túlkaðar. Við höfum fyrst og fremst áhyggjur af nákvæmni þess sem er flutt.

Hugsandinn hafði áhyggjur af lærisveinum sínum og vildi að þeir bæru ábyrgð á hverju orði sem þeir sögðu.

352. Urusvati veit að maður getur ekki skynjað nákvæmlega það augnablik að sofna og að draumar eða þátttaka í lífi fíngerða heimsins hefst ekki strax. Það virðist vera óútskýranlegur flutningur yfir í nýtt ástand sem maður verður að aðlagast. Sama á sér stað í öllum samskiptum við fíngerða heiminn, sem eru fleiri en maður gæti haldið.

Fólk gæti kvartað yfir því að snerting við fíngerða heiminn sé ekki nógu tíð, en jafnvel á venjulegum vöku getur maður fundið fyrir óvenjulegum tilfinningum - kannski undarlegri tilfinningu um að vera fjarverandi, eða meðvitund um einhverja ósýnilega nærveru. Ef fólk myndi læra eftirtekt, myndi það sjá og finna fyrir mörgum óútskýranlegum fyrirbærum. Engin sérstök einbeiting er nauðsynleg til þess, vegna þess að fíngerð viðbrögð koma óvænt og ekki er hægt að sjá þau fyrir. Þú veist að dásamlegustu fyrirbærin hafa átt sér stað í venjulegustu umhverfi.

Það er ómögulegt að spá fyrir um hvers konar jarðneskar aðstæður verða hagstæðastar fyrir fíngerðar birtingarmyndir. Eina nauðsynlega skilyrðið fyrir alla er að vera meðvitaðir um að hvert augnablik getur leitt til birtingar hins yfirjarðneska. En á meðan maður þróar með sér slíka vitund ætti maður ekki að draga sig út úr jarðneskri vinnu. Við krefjumst vinnu á meðan við erum á jörðinni.

Hugsuðurinn sagði: "Vinur, ertu tilbúinn fyrir óvænt samfélag við ljómandi svið?"

353. Urusvati veit að við að vakna verður maður að fara í gegnum ástand þar sem maður tilheyrir tveimur sviðum. Sumt fólk man ekki eftir þessu ástandi, en aðrir hafa tilfinningu af fíngerðri reynslu.

Þegar fornmenn hvöttu til: „Þekktu sjálfan þig,“ var þeim fyrst og fremst umhugað um þróun athyglisgáfunnar. Þetta ferli er engin ráðgáta. Fólk ætti einfaldlega að huga betur að eigin náttúru og umhverfi sínu og gera sér grein fyrir því að það ber ábyrgð á gæðum framgöngu sinnar. Það er undarlegt að ekki sé tekið eftir ástandinu á milli svefns og vöku. Fólk les um sérstaka eiginleika syfju. Hinir fornu vitringar vissu hversu næm skynjunin er í þessu ástandi, en þessi þekking var aðeins hjá þeim innvígðu, sem einir gætu munað reynslu sína. Venjulegur maður, niðursokkinn í vinnu sína, hafði engan tíma fyrir slíka athugun.

En nú hvetjum Við enn og aftur fólk til að þroska gaumgæfni og fylgjast með sérkennum þess, jafnvel við vinnu sína. Maður ætti að læra að sameina hæfileika sína til að vinna með krafti fíngerðrar skynjunar. Slík samhæfing mun umbreyta lífinu.

Þú mátt ekki halda að innvígðir hafi dregið sig frá daglega lífinu. Af ævisögum hinna miklu má ljóst vera að þeir komust ekki hjá hinum fjölbreyttustu birtingarmyndum lífsins. Og enn í dag ætti vinna ekki að halda manni frá sjálfsskoðun. Nýja lífið krefst samvinnu beggja sviðanna.

Hugsuðurinn var vanur að segja: „Vinur, áður en þú sofnar og áður en þú vaknar til vinnu, segðu blessunarorð. Sannlega mun það opna hlið heimanna tveggja."

354. Urusvati veit að mjög fáir hafa rétt viðhorf til þeirra sem hafa farið inn í fíngerða heiminn. Sumir syrgja hinn látna og trufla þannig uppgönguna og aðrir gagnrýna þá, sem er ekki síður skaðlegt. Í sumum tilfellum er hinn látni algjörlega gleymdur og það er líka rangt. Það er nauðsynlegt að hafa rétt samræmt viðhorf.

Við skulum ímynda okkur kæran mann sem er í aðliggjandi herbergi niðursokkinn í mikilvæg verk. Fyrsta hvatning okkar er að vernda kyrrð hans og gera allar varúðarráðstafanir gegn því að trufla hann. Við veitum bestu skilyrði fyrir skjótum lokum verka hans. Við höfum áhyggjur af starfi hans og sendum honum góðar hugsanir. Við vitum að ástvinur okkar er nálægt okkur og þó við myndum vilja sjá hann, gerum við okkur grein fyrir því að við höfum engan rétt til að trufla hann. Við erum þolinmóð, vitandi að við munum verða saman á réttum tíma.

Á sama hátt er margt að segja vini okkar sem er farinn inn í fíngerða heiminn, en af ást til hans verðum við að stjórna löngun okkar og vera varkár. Við munum ekki leyfa eitt illt orð, að vilja ekki að ósamræmdir straumar trufli starf hans. Í stuttu máli munum við hafa rétt viðhorf til aðstæðna og ekki syrgja ímyndaðan missi. Hvernig getum við vitað nema að okkar kæri lifir og sé nálægur? Við ættum heldur ekki að krefjast líkamlegra samskipta. Ef því er ætlað, mun hann flýta sér að mæta á réttum tíma.

Maður ætti að hafa áhyggjur af samhljómi, sem er nauðsynlegur fyrir báða heima. Ef mikilvægt verkefni er unnið nærri okkur ættum við ekki að rífast eða skapa hávaða. Jafnvel í daglegu lífi fagnar fólk nafni hins fjarverandi manns og reynir meðal annars að gæta eigna hins ástkæra. Við hegðum okkur skynsamlega ef við hegðum okkur gagnvart hinum látna, eins og við gerum við fjarverandi vin.

Þú ættir að hafa sömu afstöðu til Okkar. Þetta viðhorf mun víkka meðvitund þína og er gagnlegt fyrir innra líf þitt. Það er grátlegt að eftir milljónir ára verðum við enn að leggja áherslu á skynsamlegt viðhorf til lífsins í fíngerða heiminum. Við skulum vera sanngjörn og viðurkenna að fólk skilur ekki fíngerða heiminn; þar að auki, vegna yfirgnæfandi áhrifa tækninnar, eru menn að færast enn lengra frá hinum sönnu hugtökum. Læsi þýðir ekki menningu. Miklar hörmungar eiga sér stað vegna fáfræði. Við búumst ekki við óvenjulegri fágun, heldur aðeins að fólk sýni sína bestu andlegu eiginleika.

Hugsuðurinn kenndi: „Við skulum senda kærleiksbros til hins látna. Sendum hvatningu til allra pílagríma. Megi þau hvíla í friði á krossgötum. Pílagrímur, segðu okkur frá dásamlegu löndunum!“

355. Urusvati veit að stundum upplifir fólk óvænt óvenjuleg geðræn fyrirbæri. Það geta tekið á móti radíosendingum, séð í gegnum fasta hluti eða greint nærveru neðanjarðarmálma.

Við skulum fara nánar út í þessa skyndilegu reynslu, því ekkert gerist án orsaka. Jafnvel þegar við tölum um „skyndilega uppljómun,“ ætti að skilja hana frá afstæðu, jarðnesku sjónarhorni. Þó að uppljómunin komi skyndilega, er hún afleiðing af löngu ferli til að betrumbæta vitundina. Slík fágun hefst venjulega á unga aldri, eða réttara sagt, sálin ber hana frá fíngerða heiminum.

Fólk heldur að sálrænir kraftar séu gjafir að ofan, það gera sér ekki grein fyrir því að þessar gjafir hafa áunnist af hverjum og einum með íþyngjandi reynslu. Venjulega kannast maður ekki við tilvist þessara fræja, sem eru tilbúin til að blómstra við fyrsta hagstæða tækifæri. Ennfremur bendir enginn honum á þá möguleika sem hann hefur áunnið sér. Auðvelt er að hella niður keri sem er fyllt að barmi. Á sama hátt getur uppsafnaður sálarkraftur birst skyndilega með minnsta tilefni.

Fólk þolir margar niðurlægjandi aðstæður og miklar efasemdir áður en það þorir að tala um krafta sína. En erfiðasti og óskiljanlegasti möguleikinn fyrir venjulegt fólk er að átta sig á þátttöku þeirra í kosmískum atburðum. Hjartað verður fyrir miklum áhrifum í slíkum ferlum, en hvaða jarðneskur læknir getur skilið hættuna af spennu í heiminum? Að jafnaði taka læknar ekki einu sinni eftir merkjum um kosmíska þjáningu. Þeir myndu frekar saka sjúklinginn um að vera illgjarnan, en að viðurkenna að kosmísk truflun gæti verið orsökin.

Hugsuðurinn skildi fyrir löngu þessa tegund af sársauka í heiminum.

356. Urusvati veit hversu sárt það er að taka þátt í kosmískum ferlum. Spyrja má hvað veldur svo sársaukafullri spennu. Svarið er einfalt - þegar jafnvel ögn af útfrymi verður fyrir áhrifum mun miðillinn þjást mjög, en útfrymi myndar aðeins fíngerða líkamann. Kosmísk upplifun hefur áhrif á eldlíkamann og veldur miklu meiri þjáningu.

Enn má spyrja, ef kosmískir straumar hafa áhrif á allar lifandi verur, hvers vegna þarf aðeins óvenjulegt fólk að þjást mikið? Aftur er svarið einfalt. Þessir straumar hafa vissulega áhrif á alla plánetuna, en viðbrögðin við þeim eru mismunandi og þegar einhver fyllir kaleikinn sinn og fínpússar vitundina setur hann sig í þann flokk sem verður fyrir áhrifum. Það er ómögulegt að forðast slíka þjáningu með því að breyta vitund sinni, því hún hefur þegar náð eðlilegum þroska.

Hver getur stöðvað vöxt vitundar þegar hún hefur náð ákveðnu þroskastigi? Maður ætti ekki að hafa afskipti af gjörðum hetju sem hefur helgað líf sitt sjálfsfórn, því eyðilegging myrkurs er draumur sérhvers andlegs stríðsmanns. Baráttan er sú sama á bæði hversdagslegum og hærri sviðum. Með því að nota titring gætum við dregið úr spennunni, en alheimsbaráttan krefst alhliða varnar.

Vörn og Nirvana eru tvö hugtök sem eru miskunnarlaust brengluð . Fólk reynir að gera þau að einhverju formlausu, óljósu og óvirku, en slík brenglun er skaðleg þróuninni.

Fólk verður meðvitað að búa sig undir ástand eins og Nirvana og það tekur langan tíma. Það verða að læra að elska hugarástandið sem kalla má algjör innilokun. Á sama hátt verður fólk að læra að elska hugtakið vörn og hugsa um það sem hert og vakandi ástand. Menn verða að fullkomna sig meðvitað, annars verður þátttaka í kosmísku orrustunni óbærileg.

En hvernig getur maðurinn þjálfað sig í hertri vörn án þess að hugleiða alheiminn? Með því að æfa vörn sýnir maðurinn hæstu sjálfsafneitun. Hann starfar ekki fyrir sjálfan sig, heldur fyrir fjarlæg ríki. Allir geta skilið að það er ekki auðvelt að gleyma sér vegna fjarlægra heima. Aukin meðvitund verður að haldast í hendur við umhyggjusöm viðhorf til heilsu manns. Mannlegir kraftar eru veikburða miðað við strauma geimsins.

Maður ætti að þróa með sér skýrleika meðvitundar. Maður ætti að skilja að í verndun samhljóma liggur fegurðin. Maður má ekki leyfa efasemdir sem brjóta í bága við samræmisregluna. Fögur er árveknin sem þekkir og elskar fjársjóðina sem hún verndar.

Hugsuðurinn þekkti fegurð slíkrar árvekni. Hann sagði: „Við lærum, ekki fyrir okkur sjálf, ekki fyrir jörðina, ekki fyrir sólina, heldur fyrir hin ósýnilegu ríki.“

357. Urusvati veit að fíngerð vera getur raunverulega birst. Fólk heldur að slík fyrirbæri geti aðeins átt sér stað í gegnum útfrymi miðils, en aðra birtingarferla verður að hafa í huga. Þessar verur geta líka verið skynjaðar með krafti skyggnigáfunnar, sem virkar ekki í gegnum útfrymi, heldur með beinni fjórvíddarsýn.

Það er einkennandi fyrir ákveðnar verur að laðast að ákveðnum stöðum. Í þessum tilfellum hefur orkan sem vekur efnisbirtinguna safnast fyrir á ýmsum stöðum, oftast sem útfelling á veggi gamalla bygginga. Fíngerðir verur styrkja birtingarmyndir sínar með því að nota ákveðin lögmál þessara efna. Slíkar byggingar mætti á gamansaman hátt líkja við gamlar, slitnar flíkur sem eru hertar af örverum sem geta svo að segja „lifnað til lífsins“.

Fólk kvartar oft yfir því að það fái enga sýn. Þessar sýnir koma svo sannarlega fram, en fólk gefur þeim ekki gaum. Sem dæmi má nefna birtingu manna um hábjartan dag, sem hverfa strax. Því miður vill mannshugurinn frekar búa til alls kyns gerviskýringar en að finna hina raunverulegu orsök fyrir slíkum birtingarmyndum.

Sá tími er kominn að nauðsynlegt er að færa fíngerða heiminn nær jörðinni, en það er ómögulegt að gera það án samvinnu mannkynsins. Jafnvel þeir sem eru tilbúnir að sætta sig við tilvist fíngerða heimsins búast við miklu sjokki, sem mun strax umbreyta öllu lífi þeirra. Hjálp okkar er í réttu hlutfalli við samvinnu manna.

Fólk verður að sætta sig við tilvist fíngerða heimsins og losa sig við hjátrú og ofstæki. Þessar tvær nöðrur svipta fólk möguleikanum á að eiga meðvituð samskipti við fíngerða heiminn. Ekki halda að Við ýkjum hættuna af hjátrú og ofstæki. Líf flestra er byggt á þessum fordómum, sem svipta þá hugsunarfrelsinu og fylla þá svo fáfróðri sannfæringu að þeir loka vísvitandi augum og eyrum fyrir augljósustu birtingum. Ef maður vill sjá verður maður að hafa opinn huga. Afneitun lokar auganu. Á hinn bóginn verða menn að varast falskar, ímyndaðir sýnir. Þannig er aðeins ein leið eftir — gullni meðalvegurinn, sem við höfum þegar lagt áherslu á. Sá sem fetar meðalveginn þekkir allt umhverfis sem útilokar eða breytir engu. Þetta er ekki auðveld leið, því það krefst hreinsunar í meðvitundinni.

Hugsuðurinn kenndi að óttast ekki meðalveginn.

358. Urusvati veit hversu fjölbreyttir taktar eru í samskiptum okkar. Stundum flæða þeir hægt og greinilega, en stundum svo hratt að það er nánast ómögulegt að heyra þá. Þeir geta verið átakanlega háværir, eða geta orðið næstum óheyrilegir, eins og minnsta hvísl. Stundum þenja þeir orkustöðvarnar, en venjulega eru þeir uppbyggjandi. Ekki ætla að þessi afbrigði séu afleiðing af ójafnvægi huga Okkar! Þú ættir að leita orsakanna í staðbundnum straumum. Dæmið um samskipti okkar er gagnlegt fyrir alla sem rannsaka orku hugsunar.

Fólk er óþolinmótt í öllu. Til að útskýra hvert fyrirbæri flýtir fólk sér að búa til sínar eigin reglur og með slíkum handahófskenndum, viljandi afskiptum trufla þeir dýrmætustu birtingarmyndirnar. Þess vegna er svo mikilvægt að þú verðir minntur á fjölbreytileika samskipta okkar. Maður ætti að hafa í huga að ef kraftur Okkar getur orðið fyrir áhrifum af geimstraumum, þá er það enn erfiðara fyrir viðleitni byrjenda.

Þegar við tölum um hreinsun hugsunar höfum við fyrst og fremst í huga frelsun frá fyrirfram ákveðnum hugmyndum. Ímyndaðu þér að einhver sé að gera tilraunir með bein samskipti, en reynir síðan að kynna sínar eigin hugsanir. Slíkur nemandi mun aðeins blanda saman skilaboðunum. Slík tilvik hafa verið mörg.

Þegar tekið er á móti fjarskiptum úr mikilli fjarlægð ber að gæta þess sérstaklega að leyfa ekki truflanir. Með kæruleysi við móttöku geta mörg orð tapast. Mikil reynsla er nauðsynleg til þess að geta skynjað hinar ýmsu breytingar á takti.

Þegar við tölum um innra líf Okkar viljum við fyrst og fremst leggja áherslu fjölbreytileika aðstæðna sem umlykja þig og Okkur. Það er pirrandi staðreynd að fólk skilur ekki að við erum öll umkringd sömu orkustraumunum. Aðeins þegar þú gerir þér grein fyrir þessu muntu nálgast Okkur. Þessi nálægð mun kalla fram lotningu, eða með öðrum orðum, viðurkenningu kennarans. Því miður er það sjaldan sem kennarinn er samþykktur. Stundum getur fólk fundið fyrir neista trúmennsku, en slíkt flökt mun aðeins menga andrúmsloftið. Við tölum ekki um vald Okkar, heldur um meginregluna sem hægt er að byggja samfellt samfélag á.

Hugsandinn krafðist þess að borin sé virðingu fyrir kennaranum. Hann sagði: „Í myrkri nætur ætti maður að leita að leiðarljósinu. Rödd leiðsögumannsins er gleði. En þessi trúrækni ætti ekki aðeins að halda áfram í myrkrinu heldur einnig í sólarljósinu.“

359. Urusvati veit að skýr fíngerð sjón þróast í mörgum jarðvistum. Þessi eiginleiki er réttilega kallaður skyggni. Glampar af skyggni eru ekki óvenjulegir, en stöðug skyggni öðlast maður aðeins með mikilli fyrirhöfn. Urusvati hefur vitnað réttilega um að jafnvel í bernsku sinni bjó hún yfir skyggni með fullri óbrotinni sýn.

Það er áhugavert að fylgjast með því hversu hægt fólk öðlast þennan hæfileika. Oft titra myndirnar sem skynjaðar eru, einkennin skekkjast, hlutar hverfa eða myndirnar geta teygst úr hlutföllum eða tjáning þeirra breyst. Jafnvel vingjarnlegasta andlitið getur fengið yfirbragð illsku. Vegna þessara brenglunar ímyndar fólk sér að illur andi hafi leitað til þeirra, en orsökin liggur í eigin getuleysi til að þróa með sér fíngerða sýn.

Vissulega er ekki auðvelt að einbeita athygli sinni að sýn í amstri dagsins, sérstaklega þegar útlínur árunnar hennar titra. Það eru mistök að heimfæra þessar sveiflur árunnar til ímyndunaraflsins, því þær eru oft af völdum hvikandi áru áhorfandans sjálfs. Þú verður að muna að meirihluti ára er ekki stöðugur og það getur jafnvel haft áhrif á líkamlega sjón.

Í fornöld þurftu nemendur að þróa með sér fíngerða sjón. Í þessu skyni var nemandinn beðinn um að fylgjast með hlut, svo skyndilega beðinn um að loka augunum og lýsa honum. Þetta er ekki auðveld ögun. Í þessum prófum, þótt nemandinn haldi að hann hafi lagt allt á minnið, hefur hann í raun aðeins tekið til sín almennar útlínur, en sérkenni hlutarins hafa farið fram hjá honum. En það er einmitt í sérkennum hluta sem maður getur fundið kjarna hans og gerð.

Fornmenn veittu rannsóknum á sálareðli mannsins mikla athygli, og fóru slíkar rannsóknir ekki aðeins fram í musterunum, heldur einnig í sérskólum, sem síðar voru stofnaðir í Grikklandi og voru kallaðir Akademíur. Mörg viðfangsefni voru rannsökuð í þeim, þar á meðal goðsagnir, sem voru helsta uppspretta upplýsinga um lífið í fjarlægri fornöld. Jafnvel núna geta vísindamenn sem rannsaka þjóðsögur og fundið þar merki djúpstæðrar visku.

Við ættum að rannsaka hetjuleg afrek fornmanna; við munum finna í þeim líkindi með afrekum nútímavísinda. Reyndar dreymdi fornmenn ekki aðeins um vísindaafrek í framtíðinni, þeir voru meðvitaðir um mörg þeirra. Ef vísindamenn myndu líta á fjársjóði þjóðsagna frá vísindalegu sjónarhorni, myndu þeir finna margar staðfestingar á þekkingu fornmanna.

Hugsuðurinn sá einu sinni smala sem var fylgt eftir af sauðahjörð sinni. Hugsuðurinn spurði brosandi: „Með hvaða töfrum færð þú dýrin til að fylgja þér svo hlýðin? Hirðirinn svaraði: "Ég bý hjá þeim og elska þau, og þau finna að þau eru örugg ef þau fylgja mér."

360. Urusvati veit hversu oft fólk reynir að rekja fíngerð fyrirbæri til grófar líkamlegra orsaka. Til dæmis eru hljóð í eyra sem margir upplifa líkamlega birtingarmyndir sem kallar fram mismunandi túlkanir. Læknar rekja þau oft til óeðlilegs blóðþrýstings, en þetta er einfaldlega annað ytra einkenni. Hin sanna orsök slíks þrýstings er snerting fíngerðra áhrifa. Reyndar eru til þrjár tegundir hljóða - ein er sérkennilegur daufur, samfelldur hljómur, annað er eins og taktur púlsins og sú þriðja sem þú hefur lýst sem hátíðnihljóði Síkar flugunnar. Þessi þriðja tegund, forvitnileg, með mjög hröðum takti, er sérstaklega einkennandi og er merki um sérstaklega fíngerða orku.

Þessi hljóð er ekki hægt að útskýra með skertri starfsemi hjartans, eða með pirringi, sérstaklega þar sem þau koma óvænt og óháð, án tengingar við fyrri líkamlega reynslu. Þau geta verið vegna þrýstings frá geimstraumum, en það er líklegra að þeir séu snerting fíngerða heimsins. Þannig komum við aftur að efninu um snertingu við fíngerða heiminn. Fólk ætti að líta meira í eigin barm og ætti að uppfylla hið forna kvæði „Maður, þekktu sjálfan þig“.

Þess vegna eru það ekki aðeins læknar sem búa yfir nauðsynlegri þekkingu um slík mál; Venjulegt fólk getur líka gefið skynsamleg ráð ef það er nægilega reynslumikið innra með sér. Fyrir löngu var vitað að jafnvel í venjulegu daglegu amstri var hægt að vera í sambandi við endurspeglun fíngerðustu orku. Reyndar, úr djúpi náttúru mannsins, gjósa sprengingar, eins og innsigli hafi opnast við einhverja sérstaka snertingu.

Það er forvitnilegt hugarástand sem kallast idée fixe, hugmyndafestu. Þar á ég ekki við þráhyggju, sem getur haft svipuð einkenni, heldur þrálátrar, síendurtekinna fullyrðingar, sem geta haft sérstaka þýðingu. Læknavísindin telja hugmyndafestuna hættulega, en það er tilhæfulaus dómur. Ef við samþykkjum þessa skoðun, verðum við þá að telja marga glæsilega vísindamenn geðveika! Það er kominn tími til að endurskoða hugmyndina um geðveiki snilligáfunnar, annars verðum við að álykta að fífl og kjána hafi stöðugan og heilbrigðan huga!

Við höfum ítrekað fordæmt myrku þráhyggjuna sem leiðir til illsku og glæpa. Það ætti að skilja að það eru áhrif fíngerðrar orku eingöngu sem leiða til heilbrigðasta hugarástandsins. Vingjarnleg áhrif fíngerðrar orku eru hin mikla blessun sem hvetur manninn til að stíga upp þróunarstigann.

Aðeins með því að fylgjast með mannlegum gjörðum er hægt að greina á milli og skynja fíngerðan mun á góðu og slæmu fólki. Þú munt sjá að sá sem vinnur fyrir þróun er uppfullur af hugmyndum. En hver myndi kalla þessar hugmyndir fastar? Rétt væri að kalla þær leiðandi hugmyndir. Gefðu þá gaum að öllum birtingarmyndum náttúrunnar.

Hugsuðurinn sagði: „Hvort ég þjóna náttúrunni, eða náttúran þjónar mér, skiptir ekki máli. Það sem skiptir máli er að öll þekking mín og reynsla sé boðin fram í þjónustu til almannaheilla.“

361. Urusvati veit að með hverri kynslóð verða breytingar á heimssýn, siðum og jafnvel tungumáli. Það er ekki auðvelt að bera kennsl á nýja tíma í miðju þeirra, en úr fjarlægð getur hvert glöggt auga séð hversu ólgandi efni lífsins er.

Það var ævaforn venja að senda áheyrnarfulltrúa á ákveðna staði, dvelja um tíma og snúa svo aftur. Með tilkomu nýrrar kynslóðar voru sömu eftirlitsmennirnir sendir aftur á þessa staði. Við notum sömu aðferð, svo að boðberar okkar geti orðið vitni að myndun nýrrar kynslóðar. Aðeins þannig getum við öðlast ferska og rétta mynd af þróun ákveðinnar þjóðar.

Margir munu efast um möguleikann á slíkri þróun, því þeir eru sjálfir staðnaðir. En þróun er náttúrulögmál. Vandamálið er að fólk sér aðeins eigið sjónarhorn og kemst því ekki áfram. Það ímyndar sér að allt endi með fráfalli þeirra og geta ekki skilið að lífið hefur sínar síbreytilegu, lifandi öldur.

Slíkt hreyfingarlaust fólk mun lenda í hörmulegri stöðu þegar það kemur inn í fíngerða heiminn. Þeir munu sjá eftir því að í jarðvist sinni hafi það ekki blandað sér í mismunandi kynslóðir eða fundið snertifleti með margvíslegum hugarfari. Fornmenn gerðu skynsamlegar tilraunir með ýmsar kynslóðir. Og þú munt líka læra hvernig á að líða vel með fjölbreyttu hugarfari. Mundu að Við þurftum líka að gangast undir slíka reynslu.

Hugsuðurinn líkti slíkum prófum saman við smiði hnífsblaðs. Hann vissi að aðeins með því að beita hita og kulda til skiptis væri hægt að móta óeyðanlegan styrk.

362. Urusvati veit að ásetningur jafngildir athöfnum. Við getum sagt að ásetningur sé mikilvægari en athöfn. Athöfn losar orku, en ásetningur safnar orku sem mun koma fram sem athöfn. Þess vegna, þegar Ég ráðlegg að fara varlega með fyrirætlanir, hef ég í huga hámarksávinninginn.

Fólk yfirgefur oft jarðneska tilveru sína með mörgum fyrirætlunum sem enn eru óframkvæmdar. Hinir fáfróðu halda að þessar fyrirætlanir verði þannig áfram, án þess að skilja að lífið hættir ekki og tækifærið er til að fyrirætlanir verði uppfylltar annars staðar eða á öðrum tíma.

Sælir eru þeir sem búa yfir góðum ásetningi, því að hann munu rætast fagurlega. Sannarlega munu sérhver áform bera ávöxt, hvert loforð verður haldið og sérhver gæska vegsömuð.

Fólk kvartar yfir því að verðleikar þeirra séu ekki metnir, fávís um þá staðreynd að lífið heldur áfram eftir dauða líkamans. Sá sem trúir því að allt endi með brottför hans frá jörðinni er fátækur maður, því hann hefur rænt sjálfan sig fjársjóðum uppfyllingarinnar og fer óundirbúinn inn í fíngerða heiminn. Hvar verður hann þá á meðan meðvitund hans er svo þokukennd? Því miður mun hann vera bundinn við stað í myrkum svæðum neðri sviðanna sem hann hefði auðveldlega getað forðast, þar verður hann fyrir neikvæðum áhrifum sem munu hindra framgang hans enn frekar.

Ýmis trúarbrögð fjalla um hugmyndina um samfellu lífsins, en þessar vísbendingar eru ekki nægilega sannfærandi, svo fólk reyndi að búa sig undir betri framfarir. Sumir reyna að kaupa betri framtíð með peningagjöfum, en gull hefur ekkert gildi í fíngerða heiminum. Góð verk ásamt góðri meðvitund munu færa gleði á jörðinni og í hinum hærri sviðum. Ef hljóðfærið er stillt mun það hljóma í samræmi við þau svið.

Stundum vonast fólk til þess að leiðsögumaður muni birtast sem bjargar þeim úr hvaða hyldýpi sem er. Þetta eigingjarna fólk skilur ekki að Leiðsögumaðurinn þjáist þegar hann fer niður í neðri sviðin. Aðrir halda að það sé nægur tími í óendanleikanum og að á jörðinni geti þeir notið sín án takmarkana! Því miður, þegar þeir eru komnir út fyrir jarðnesk landamæri, munu þeir læra að meta tap sitt.

Tilfinningar þínar segja þér satt. Það getur ekki verið gleði meðan jörðin hrópar undan byrðum hörmunga. Á meðan hungur er til staðar getur ekki verið velsæld. Og hvaða dans er hægt að dansa í skugga ofbeldis? Sannarlega segi ég að gleði er ósæmilegt á þessum hörmungardögum.

Það er líka rétt hjá þér að gera ráð fyrir að öldur fjarsendinga séu ansi fjölbreyttar. Sumar lenda í réttum viðtækjum, en aðrar geta náð til óæskilegra hlustenda og í þeim efnum þarf alltaf að gæta varúðar.

Hugsandinn vissi af þessu þegar hann sagði: „Megi hugsanir mínar ná til þeirra sem kunna að meta þær.“

363. Urusvati veit að vinnan skapar eina háleitustu gleði. Maður myndi búast við að þessi sannindi væru samþykkt af öllum, en því miður, vinna er venjulega álitin byrði og fólk dreymir aðeins um frí. Hins vegar munum við deila með þér hugmyndinni Okkar um vinnu. Við vinnum alltaf við erfiðustu aðstæður og höfum líka frí, en frídagar okkar eru tímabil samfélags við hæstu sviðin.

Það eru nokkrir sem myndu líta svo á að slíkt samfélag sé líka vinna, og það væri rétt, því að könnun á hærri sviðum krefst mikillar orku. Alger einbeiting er nauðsynleg og verkfærinu verður að stjórna af kunnáttu. Nýlega varð Urusvati fyrir kröftugu áfalli þegar ein af vogarstöngunum brotnaði í höndum Mér. Slík ófyrirsjáanleg atvik koma oft fyrir, en það er mikill munur á því að lyftistöng rofnar við venjulega vinnu og flækju í verkfærinu sem notað eru til samskipta. Samt, þrátt fyrir óumflýjanlegar flækjur, er vinnan við að stefna að hærri sviðum sannkölluð hátíð.

Innan um jarðnesk húsverk getur þú líka skapað hátíð úr vinnu. Hins vegar þarf sjálfsskoðun til að ákveða hvaða verk maður gæti hugsað sér að gera að hátíð og til að læra hvers konar verk eykur styrk manns.

Hvíld næst best með breytingum á vinnu. Já, já, já, það verður langur tími þangað til fólk skilur þessa þversögn! Það er heldur ekki auðvelt fyrir þá að viðurkenna að jafnvel hugsunarferlið er vinnu, því hver getur skilið að maðurinn skapar eitthvað raunverulegt þegar hann hugsar?

Fólk er tregt til að samþykkja þá hugmynd að venjubundnu verkefni ætti að fylgja tímabil einbeittrar hugsunar. Hvernig geta þeir þá ímyndað sér hvers konar hugsun kveikir elda geimsins og byggir upp mannvirki í fíngerða heiminum? Jafnvel þeir sem skrifa um þýðingu hugsunar beita ekki sjálfan sig reglunni um óumflýjanlegar og óbætanlegar afleiðingar hugsunar. Maðurinn er undarleg vera, alveg tilbúin til að samþykkja hugmyndina um áhrif hugsana einhvers annars, en óvitandi um niðurstöður eigin hugsunar. Þannig vanrækir maðurinn eigin möguleika. Ég tel að það sé kominn tími til að fólk hætti að halda fyrirlestra og beiti sér að strangri sjálfsbetrun.

Hvers vegna er það sem sálarrannsóknafélög staðna svo oft? Félagarnir sjálfir hindra eigin framgang. Það er óheilnæmt ástand þegar rannsakendur sjálfir geta ekki, fyrst og fremst, prófað hreinleika eigin fyrirætlana.

Hugsandinn hafði miklar áhyggjur af hreinleika fyrirætlana lærisveina sinna og var vanur að spyrja: „Dýrmæt efni eru fáanleg jafnvel fyrir venjulega þvott, en hvaða efni er hægt að nota til að hreinsa fyrirætlanir okkar?“

364. Urusvati veit að heimsviðburðir hafa venjulega áhrif á þá sem tóku þátt í upphafi þeirra á fyrri öldum. Atburðir í hvaða landi sem er hafa áhrif á þá sem nú taka þátt í þeim. En þeir hafa líka áhrif á þá sem í fyrri lífum hjálpuðu til við að byggja landið. Ofbeldisfullar hörmunga sem steðja að þjóðinni ná einnig til þeirra sem sköpuðu þjóðina.

Þú getur ímyndað þér kvíða systur O., sem var tengd tveimur löndum og er nú vitni að þjáningum þeirra. Sömuleiðis er sá sem beindi þjóð í átt að réttlæti meðan á byltingu hennar stóð sorgmæddur að sjá hana þjóta í átt að glötun. Reyndar, hvernig getur maður verið áhugalaus þegar besti ásetningur er bregst?

Þú fyllist líka kvíða vegna þess að þú tókst einu sinni þátt í starfi sem tengist þjáðum þjóðum. Nú þegar má verða vitni að niðurlægjandi örlögum einnar tiltekins þjóðar sem hefði getað verið í hagstæðari stöðu. Smám saman eru atburðir að taka á sig mynd á Vesturlöndum, með ofsafenginni herferð gegn hugmyndum um samfélag. En fölsku samfélagssinnarnir eru jafnvel verri en þessir draumóramenn sem líta á sig sem stofnendur nýja tímans.

Kvíði umlykur nærliggjandi svið og gæta skal sérstakrar varúðar við að varðveita samhljóm. Þetta eru fordæmalausir tímar og mannleg vitund er ófær um að skynja þá almennilega.

Hugsuðurinn varaði samborgara sína við: „Ekki ofmeta þekkingu þína, því atburðir geta átt sér stað sem leiða í ljós takmörk hennar.“

365. Urusvati veit að það er afar erfitt fyrir efnisbirtar verur fíngerða heimsins að endurskapa raddhljóð. Þetta er skiljanlegt, því að veran er vanari hugarsendingum og það er erfitt að endurskapa röddina. Auðvitað er hægt að yfirstíga þessa erfiðleika í sérstökum samhljóma, en slíkur samhljómur er sjaldgæfur. Fólk veit ekki hvernig á að nálgast fíngerða gesti til að ákvarða þarfir þeirra.

Það er hægt að fylgjast með algjörri efnisbirtingu eða flutningi hluta; Hins vegar er sjaldan hægt að verða vitni að birtingu jarðneskrar raddar, því það er miklu erfiðara. Vissulega eru andleg samskipti möguleg, en því miður veit fólk ekki enn hvernig það á að nota þau. Miklu væri áorkað ef fólk gæti skynjað fíngerðar aðstæður.

Þessi hæfileiki ætti einnig að þróast í samskiptum fólks. Það er synd að svona mörg góð afrek séu hindruð einfaldlega vegna skorts á umhyggju og skilningi. Reyndar er þörf á mikilli umhyggju hvert fyrir öðru, sérstaklega innan um þrúgandi strauma.

Þú hefur upplifað áhlaup angistarinnar. Slíkan kvíða ber að greina og má rekja hann til afleiðinga heimshamfara. Þú ættir að skrá þær sem sprengingar í Harmagedón, en undraverðar öldur hrista allan heiminn.

Hugsandinn gæti þekkt slíka daga af sérstökum hjartslætti hans.

366. Urusvati veit að ytra útlit gefur ekki vísbendingu um innra líf. Til að fá skýra hugmynd um hið innra líf verður maður að hafa þekkingu á vonum og fyrirætlunum mannsins. Að vita að einhver sé heimspekingur, læknir, konungur eða stríðsmaður mun ekki sýna þér innri manninn; það er miklu mikilvægara að vita um undirliggjandi hvatir sem leiddu til athafna þessara einstaklinga.

Og því gefum Við ykkur nú útlínur Okkar innra lífs, og bendum á þær meginreglur sem liggja í grunni bræðralagsins. Því miður, fólk hefur of oft ímyndað Okkur sem himneskar verur, en ekkert gott fæst með slíkri hugmynd, því hún virðist einangra Okkur frá jörðinni. Reyndar, þegar við ræðum hærri heima, þá gefum Við svo sannarlega ekki til kynna einangrun frá jörðinni. Þegar öllu er á botninn hvolft er allt lífið yfirjarðneskt, því það er gegnsýrt af fíngerðum orkum.

Sá tími mun koma að fólk neyðist til að snúa sér að fíngerðari hugsunarhætti. Þróunin er sköpuð af manninum sjálfum og ekkert getur hindrað hana. Jafnvel núverandi þróunarástand mun þegar til lengri tíma er litið, þjóna góðum tilgangi sem einstök andstæð leið, tactica adversa, því í tengingu sinni við tæknina mun maðurinn keyra sjálfan sig inn í slíka blindgötu að engin leið verður honum opin nema að snúa sér að gleði fíngerða heimsins.

Því hefur verið spáð að ef maðurinn sleppur við hörmungarnar muni hann snúa sér að fágun lífsins og tíminn mun renna upp fyrir sameiningu heimanna tveggja. Jafnvel nú er tíminn kominn! Til dæmis er þétting fíngerða líkamans ekki lengur talin yfirnáttúruleg, og það er til fólk sem, á meðan það er í líkamlega líkamanum, veit hvernig á að losa fíngerðan líkama sinn meðvitað. Frá báðum hliðum eru hlutar brúarinnar að renna saman. Elding getur sameinað þessa tvo hluta og Við bíðum með mikilli árvekni eftir þeim tíma þegar brúin verður sameinuð. Þá mun verk okkar breyta um stefnu og við munum halda áfram til fjarlægra heima.

Þess vegna er fyrsta verkefni mannkyns að byggja brú musterisins. Annað verkefnið að gera samband við fjarlæga heima auðveldara. Það sem sumir skynja nú óljóst mun verða eðlilegt ástand plánetulífs. Telur þú ekki að það sé þess virði að varðveita jörðina fyrir slík verkefni? En enn sem komið er hugsar aðeins lítill minnihluti á þennan hátt.

Hugsuðurinn sá fyrir hversu fáir þeir myndu vera sem kæra sig um að bjarga plánetunni.

367. Urusvati veit hversu nátengd líkamleg og sálræn fyrirbæri eru. Til dæmis, vegna mikillar líkamlegrar áreynslu getur einstaklingur séð ljósneista sem líkjast geðrænum fyrirbærum. Þess vegna ráðleggjum við ró og einbeitingu hugans til að koma í veg fyrir skyndileg líkamleg áföll. Hugsunin ætti að beinast að Okkur, en í andlegu jafnvægi. Við ráðleggjum jafnvel að hugleiða óendanleikanum að einhverju leyti, því ekkert stuðlar jafn mikið að jafnvægi manns og tilfinningin fyrir óendanleikanum. Það eru margar mismunandi aðferðir til að öðlast ró, en meðvitund um hið óendanlega er áhrifaríkust.

Að bera fram nafn fræðarans skapar einnig sterk tengsl, en þetta verður líka að gerast af æðruleysi, því hvers kyns óhófleg áreynsla mun undantekningalaust skapa truflað andrúmsloft. Gerðu þér samt grein fyrir því að ró er ekki tregða; þvert á móti, rétt eins og í Nirvana ástandi, er það fullt af innri titringi. Margir munu ekki skilja þetta og sjá aðeins mótsögn. Þeir munu segja: „Hvernig er hægt að öðlast ró með titringi og hvernig getur hljótt ákall með nafni fræðarans verið svo áhrifaríkt? Hvernig getur hljóð bæn verið áhrifaríkari en örvæntingaróp?“

Það er erfitt að tjá ákveðnar hugmyndir í orðum. Það er erfitt að útskýra muninn á krafti æðruleysis og kúgandi árásarkrafti. Aðeins þeir sem hafa fetað margar jarðneskar slóðir munu skilja gildi æðruleysis, sérstaklega á dögum Harmagedóns. Ró ríkir í bústaði Okkar, þar sem jafnvel minnsta ójafnvægi getur valdið miklum hörmungum. Ró ætti að rækta alls staðar í heiminum.

Urusvati leggur alveg réttilega áherslu á persónuuppbyggingu ungmenna. Reyndar er það mikilvægara en ströng vitsmunaleg menntun, því aðeins uppbygging góðs eðlis getur lagt grunn að ró og gefandi vinnu í lífinu.

Hugsuðurinn varaði lærisveina sína við og sagði: „Varðveitið ró, annars fallið þér í hita heljar.“

368. Urusvati veit að heimshorfur breytast með hverri kynslóð. En fáir einstaklingar átta sig á þessu, því heil kynslóð er sjaldan rannsökuð. Í óróa lífsins er fólk ekki vant því að gefa hugsunum æskunnar nægjanlegan gaum og trúir því að með því að nota gömlu kennslubækurnar muni þær styrkja hefðbundnar hugmyndir. En þessar bækur eru úreltar og ung hugsun finnur sína leið.

Tuttugu ár eru mælikvarði á kynslóð. Þessa skiptingu ber að hafa í huga, annars munt þú viðhalda sama gamla óréttlætinu.

Hugsið ykkur til dæmis fjandskapinn sem myndast í ákveðnu landi þar sem íbúarnir hafa búið við hatur í aldarfjórðung og miðlað andúð sinni til næstu kynslóðar. Er það réttlætanlegt? Jafnvel þegar upprunalegu óvinirnir eru ekki lengur til og unga kynslóðin er farin að hugsa á nýjan hátt, þá eru þeir til sem vilja þröngva upp á unga hugann eldri úreld hugtök. Menn ættu alltaf að muna eftir kynslóðabilinu svo að óréttlæti verði ekki beitt.

Raunverulegt mikilvægi samfélags á ekki að dæma út frá ytri aðstæðum og lífsvenjum sem geta haldist óbreyttar frá einni kynslóð til annarrar, heldur af innri vexti þess og viðleitni. Þú ættir að skilja að Ég ræði ekki um þetta á afstæðan hátt. Ég er að fylgjast með ákveðinni þjóð þar sem fólk er að skapa nýja heimssýn, en samt er mikil andstaða sem reynir að þvinga þjóðina til að hverfa til fornra hugmynda fyrri kynslóða. Venjulegir skammsýnir áhorfendur segja misvísandi sögur. Rétt væri að spyrja þá af hvaða kynslóð þeir hafa dregið dóma sína.

Maður verður að krefjast skýrrar dómgreindar, annars verða rangir dómar felldir og nýja kynslóðin sökuð um glæpi fyrri kynslóðar sem hún ber ekki ábyrgð á. Það er erfitt að mynda sér réttan dóm og þess vegna verður maður að læra að skilja orsakir og afleiðingar lífsins almennt.

Hugsuðurinn spurði oft áheyrendur sína: „Um hvern ertu eiginlega að tala, soninn, faðirinn eða afann?“

369. Urusvati veit að það eru ákveðnir einstaklingar sem geta séð fyrir stefnu þróunarinnar. Slíka samstarfsmenn Okkar er að finna í mismunandi löndum og aldri. Við nýtum þá sem rásir þar sem Við sendum mismikla viðleitni sem samsvarar þörfum þróunarinnar. En það ætti að skilja að slíkir kappsamir einstaklingar eru sjaldgæfir og þeir munu finnast þeir utanveltu í hvaða kynslóð sem er. Rétt væri að líta ekki á þá sem íbúa jarðarinnar, heldur sem gesti, fulla af minningum um betri heima. Sannarlega er jarðneskt líf ekki auðvelt fyrir þá. Þeir eru fullir þjónustuanda við mannkynið, en þetta hugtak er lítt skilið á jörðinni. Þessir verkamenn geta ekki fundið sameiginlegt tungumál með grófara jarðnesku fólki. Það ber að harma að tíminn afbakar hugmyndir þeirra að lokum, þó að orð þeirra njóti einhverrar viðurkenningar. Allt sem Ég hef sagt hér er líka satt um Okkar eigin verk, en í gegnum aldirnar höfum við orðið nægilega meðvituð um hvernig hjól lífsins snýst. Við skiljum að á hreyfingu eyðist mikið; jafnvel risastórir loftsteinar brenna upp, samt tekst sumum þeirra að flytja demanta sínum til jarðar. Aðeins hljóður skilningur á jarðneskum ferlum getur leitt í ljós allt svið uppsafnaðrar þekkingar. Slíkar athuganir köllum við uppljómun vitundar.

Hugsuðurinn skildi fullkomlega að kennsla hans yrði háð mörgum afbökun. Hann var vanur að segja: „Aðeins í skýjunum verða merki um fyrirætlanir okkar að fullu skráð.“

370. Urusvati veit að sjálfsbetrun verður að byrja með því að útrýma smáu en skaðlegum venjunum. Við leggjum sérstaklega áherslu á mikilvægi daglegra venja. Fólk trúir því að það verði að yfirstíga helstu hindranirnar í einu, aðeins til að komast að því að slíkar róttækar aðgerðir eru ofar getu þeirra. Maður getur líka oft fylgst með tilvikum þegar fólk ímyndar sér að það hafi losað sig við helstu syndir sínar, en er samt hlaðið litlum ljótum venjum. Tré bogið af þyngd ljótra ávaxta, þróað í gegnum aldirnar, er vissulega sorgleg sjón.

Hafðu í huga að það er ekki auðvelt að losa sig við smávægilegar venjur. Þar á meðal eru alltaf einhverjar sem maður er ekki einu sinni meðvitaður um og aðeins glöggur áhorfandi getur greint. Samt leiðir það oft til algjörrar umbreytingar að afhjúpa slíkar huldar venjur. Mundu hið forna orðtak: „Ef þú grípur í skottið á litlum púka, mun hann leiða þig til herra síns.“

Visku þjóðsagnanna ber alltaf að hafa í huga; það mun leiða til hagnýtrar beitingar fræðslunnar, frekar en yfirborðslegs lestrar. Margir lesa allar bækurnar, en eru enn án þekkingar. Stundum dregur það þá lesendur jafnvel í afturför og þeir reynast verr staddir, en ef þeir hefðu verið ólæsir. Fólk ætti að reyna að skilja nákvæmlega hvað það hefur tileinkað sér í lestri sínum og hvað kann að vera gagnlegt fyrir það í lífi þeirra. Leyfðu þeim að spyrja sjálfa sig hvaða neikvæðu venjur þeim hefur tekist að sigrast á og skrifa niður þær greinar úr bókunum sem hafa haft áhrif á huga þeirra á jákvæðan hátt. Hvernig er hægt að búast við samræmi innan um uppnám ósamræmis ef minnstu venjur haldast ósnortnar og óbreyttar? Svo, ekki gleyma að vara vini við hættunni af smávægilegum venjum.

Hugsandinn var varkár um venjur sínar og vissi hvernig ætti að hætta við hverja þeirra. Einkunnarorð hans voru: "Ekki vera með óþarfa steina í vösum þínum."

371. Urusvati veit að til undirbúnings fyrir óendanleikann er jarðneska leiðin full, bæði af hættu og gleði. Hins vegar eru þrenns konar efasemdarmenn. Sá fyrsti spyr: „Og hvar er fyrirheitna gleðin? Mikið er talað um gleði, en nú heyrum við bara um endalausar hættur! Þegar öllu er á botninn hvolft er það aðeins vegna fyrirheit gleðinnar sem við gefum gaum að þessu.“

Við munum segja við hann: „Þú fávísi! Er það ekki gleðiefni að sigrast á óreiðu? Er það ekki gleðiefni að koma ljósinu inn í myrkrið? Er skilningur á þjónustu ekki gleðiefni? Ef hugmynd þitt um gleði sé gleði basarsins, eru leiðir okkar ekki samrýmanlegar.“

Annar kvartar reiðilega: „Þú ert í öryggu umhverfi, en allt sem þú býður okkur er stöðug hætta. Við skulum svara: „Þú fávísi, hvað fær þig til að halda að við séum örugg? Allt er afstætt. Hætturnar okkar gætu verið þér ósýnilegar, en það er ekkert sem heitir líf án hættu. Þú verður að gera þér grein fyrir því að ein mesta gleðin kemur með meðvitund og skilningi á hættu. Með árvekni og meðvitund sigrar maðurinn, og þessi sigur er gleði!“

Sá þriðji efast um hugmyndina um óendanleika. Við hann munum við segja: „Þú fávísi, hjarta þitt er orðið harðara en steinn ef þú hefur glatað gleði óendanleikans. Maðurinn ætti að átta sig á því að hann er kallaður til að metta óendanlegt rýmið með hugsun. Að átta sig á óendanlega krafti hugsunarinnar er í sjálfu sér æðsta gleðin. Ímyndaðu þér hvað þér hefur verið gefinn fagur hugsanagarður og gleðst yfir þessari þekkingu.“ Þannig er hægt að gera alla efasemdamenn að engu.

Hafðu í huga að ákveðin hugtök ætti að skilja afstætt. Til dæmis má tala um „andlegan þurrk,“ en fáir skilja merkingu þessa ástands. En það kemur til vegna mikillar en ójafnrar einbeitingar, þegar meðvitundin leitar hátt en orkustöðvarnar fylgja ekki. Þannig getur maðurinn ekki tjáð vitund sína tímabundið. Slíkar sveigjur vitundarspíralsins eru óumflýjanlegar.

Hugsuður sagði einu sinni: „Í dag leið mér eins og ég vissi ekkert. Þetta er gott merki, því það þýðir að á morgun mun ég líklega læra eitthvað fallegt."

372. Urusvati veit hversu miklar hætturnar eru sem Við verðum að sigrast á. Þú veist um hræðilegar afleiðingar sprengingarinnar sem bróðir okkar V varð fyrir. Rýmið gleypir mörg högg! Engu að síður eiga sér stað margir hræðilegir atburðir vegna þess að vísbendingar Okkar hafa ekki verið virtar. Sumt fólk mun rífast og taka á móti þeim gagnlegu ráðum, á meðan aðrir þykjast fylgja þeim út á við, en gera uppreisn innra með sér. Gefðu þeim síðari sérstaka athygli. Ef fólk gæti aðeins skilið hversu einskis virði fölsku yfirborðslegu bros þeirra eru! Gagnlegustu ráðin missa marks ef þeim er hafnað innra með sér; þá er ekkert eftir nema hýðið.

Mundu líka að mikill fjöldi gagnlegra leiðbeininga bjagast. Tökum sem dæmi spurninguna um mataræði. Við erum algjörlega á móti kjötmataræði. Eðlileg framvinda þróunar hefur að hluta seinkuð vegna kjötáts. Þó neyta megi þurrkaðs eða reykt kjöt í neyðartilvikum þegar matarskortur er. Við erum algjörlega á móti víndrykkju. Sem vímuefni er það óheimilt, en það er hægt að nota við meðhöndlun á ákveðnum sjúkdómum. Við erum algerlega á móti öllum fíkniefnum, en það geta komið upp tilfelli af svo óbærilegum þjáningum að læknir hefur ekkert annað val en að nota þau. Það eru þeir sem kunna að mótmæla þessu og spyrja hvort ekki sé hægt að beita sefjun gegn sársauka. Auðvitað má og á að nota það, en það er ekki auðvelt að finna manneskju með nægilegt sefjunarvald.

Leiðbeiningar okkar eru alveg skýrar en samt mun vera fólk sem reynir að rugla aðra og valda skaða. Þessir vandræðagemlingar munu fullvissa alla um að við leyfum notkun á víni, fíkniefnum og kjöti og þeir eru í algjörri afneitun. En, ef þeir eru svangir eða veikir, verða þeir fyrstir til að saka fræðarann um að leyfa þeim engar undantekningar.

Fyrir utan hræsni má líka búast við mikilli slægð. Fólk mun blekkja sjálft sig til að réttlæta eigin veikleika. Samt munu þeir ekki hætta að hugsa um hætturnar sem þeir skapa sjálfum sér. Á yfirborðinu virðast þeir vera samstarfsmenn Okkar, en hvar er virðingin sem ætti að vera undirstaða alls samstarfs?

Hugsuðurinn var vanur að segja: „Trúið ekki öllum fullyrðingum um ást! Hinn mikli grundvöllur heimsins þarf ekki tryggingu, heldur aðgerðir.“

373. Urusvati veit að menning er sameiginleg arfleifð alls mannkyns. Þrátt fyrir mismun í siðum, trúarbrögðum og tungumálum er sérhver menningarathöfn eign alls mannkyns. Sameining heimsins í gegnum menningu er fyrsta skrefið í átt að umbreytingu alls lífs.

Það má vera að fólk mótmæli því og telji að hver þjóð hafi sína menningu. Þú getur svarað því að ekki megi rugla saman menningu og siðum. Mótmælendur munu einnig halda því fram að mikill munur sé á ritmáli hinna ýmsu landa. En þegar við tölum um menningu höfum við ekki stafrófið eða tjáningarstílinn í huga heldur fyrirhugaða merkingu og hugmyndir. Berðu saman bestu sköpunarverk hinna ýmsu þjóða og þú munt sjá að grunnhugmyndirnar eru sameiginlegar öllum. Þannig getum við fullyrt að jafnvel í fjölbreytileika er hið sameinaða alþjóðleg von.

Það er gleðileg staðreynd að kjarni mannlegs eðlis leitast við fullkomnun. Maðurinn hunsar þessa hvatningu sem alltaf er til staðar og mun jafnvel gera uppreisn gegn þessari hvatningu æðri eðlis síns, en djúpt í hyljum kaleiks hans geislar fræ menningar! Fyrr eða síðar mun þetta fræ spíra; þetta er ástæðan fyrir því að hver og einn ber með sér tilfinningu fyrir hinu mannlega.

Þá má velta því fyrir sér hvort þeir fjölmörgu sem fyllast heift og hatri beri líka innra með sér fræ menningar. Já, en það er djúpt grafið undir uppsöfnun glæpa þeirra. Þeir munu finna leiðbeinanda í fíngerða heiminum sem mun benda á að slíkt niðurlægjandi ástand sé óheimilt. Sannarlega, fólk verður að skilja að hver dagur getur verið geislandi af mannúð.

Hugsuðunum var annt um að lærisveinar hans skyldu að alheimsmennska geislar jafnvel í fjarlægum heimum og að allir séu þegnar allra heimanna.

374. Urusvati veit að sérhver hugsandi manneskja leitar að frumorsökinni. Sumir leitendur nota fíngerðar aðferðir, aðrir grófar, en allir leita. Algeng mistök eru að reyna að rannsaka æðstu orsökina án þess að rannsaka fyrst þær aðgengilegri. Með því hunsar fólk nauðsyn þess að nota skynsemina í daglegum atburðum. Sá sem hefur nægilega visku til að skynja orsakir einföldustu daglegra atburða ávinnur sér rétt til að kafa dýpra og svífa hærra. Að skynja orsakir daglegra atburða fínpússar hugsunarferlið. Það er lærdómsríkt að fylgjast með því hvernig stundum er hægt að rjúfa heila atburðarás einfaldlega með upphrópun eða augnaráði, en samt taka þeir sem eru viðstaddir ekki eftir því og munu síðan algjörlega gleyma upprunalegu orsökinni.

Í hugrænum skilaboðum Okkar notum við stundum bara eitt orð. Slík vísbending er full af merkingu en samt gefa ekki allir sem fá slíkar vísbendingar gaum að þeim. Maður verður að öðlast reynslu í einbeitingu til að vera vakandi, sérstaklega þar sem orsök og afleiðing eru oft skilin að í langan tíma.

Að sama skapi gefur fólk lítinn gaum að „samtengdu rýminu“ og spyr hvers vegna ætti að senda hugsanir aftur og aftur sem eru í meginatriðum þær sömu og þær sem hafa verið sendar áður. Menn skilja lítt, að endurtekningum Okkar er ætlað að fylla rýmið. Það er ekki nóg að taka ákvarðanir; Einnig þarf að skapa hæfilegt andrými fyrir hugsanir Okkar, og slíkur vefnaður krefst langvinnrar viðleitni. Fólk ætti líka að skilja að fyrirætlanir þeirra verða að vera varðar hlífðarskyldi og margt er hægt að auðvelda með stöðugri rólegri og jákvæðri hugsun, stýrt af ásetningi.

Hugsuður sagði: „Áform eru eins og sverð án slíðurs. Allt getur skemmt blaðið og aðeins ef það er klætt mun það halda skerpu sinni.“

375. Urusvati veit hversu óvitrir þeir eru sem misnota dvalarstað sinn. Fólk á erfitt með að átta sig á því að pirringur er sérstaklega óæskilegur við máltíðir og áður en gengið er til hvílu og finnst óskiljanlegt að dimmar hugsanir og bölvun geti loðað fast við bústað þeirra. Fegursti bústaður getur orðið hellir myrkra aðila þegar fólk neitar að viðurkenna orku hugsunarinnar.

Rétt eins og það eru hlutir sem eru gegnsýrðir af góðum titringi, þá eru líka til bölvaðir hlutir. Fólk gleymir því að útstreymi þeirra hefur getu til að laða að óæskilegar verur. Fólk veit ekki að hægt að breyta hverjum stað í góðan og gagnlegan stað. Og hvernig er hægt að bölva stað sem er orðinn óþægilegur einungis vegna mannlegrar heimsku? Fólk ætti að muna að pirringur þeirra og lastmæli mun koma aftur til þeirra sem byrði. Það leiðir hugann að hræðilegri mynd af manni sem hefur ósjálfrátt stungið höfðinu í snöru og áttar sig fyrst á því þegar hann hálsbrotnar.

Ennfremur heldur fólk að það hindri ekki starf Okkar með lastmælum sínum. Við verðum að eyða mikilli orku í að hreinsa þá staði sem það hefur mengað. Hvernig getur maður leyft svona agaleysi? Flest ósvífni er borin fram vegna fáfræði. Og sumir gætu sagt að þeim finnist þeir vera í fangelsi vegna þess að þeir mega ekki tala frjálslega. En þeir ættu að skilja að margir glæpir og eymd stafa af hugsunarlausum orðum. Sumir staðir eru svo gegnsýrðir af blóði og bölvun, að það er betra að yfirgefa þessa eitruðu staði og hefja nýtt líf annars staðar. Leyfðu tímanum sjálfum að hreinsa burt dimmu geislunina.

Hugsuðurinn varaði við því að hugsanir og orð tjáðu fyrirætlanir sem síðar verður ekki afneitað.

376. Urusvati veit að það er óheimilt að byggja með annarri hendi og eyðileggja með hinni. En oft má sjá nákvæmlega það þegar annar helmingur persónuleika manns er helgaður uppbyggilegu starfi, á meðan hinn helmingurinn fremur guðlast og eyðileggur fyrri afrek og jafnvel gildi sín. Við mælum með því að beita sér alfarið fyrir uppbyggjandi verkum, eða reyna það alls ekki.

Þessi fræðsla á einnig við um skilning á fíngerða heiminum. Annars vegar virðist maðurinn vilja færa fíngerða heiminn nær, og hins vegar reynir hann að ýta honum til hliðar. Fólki er bent á að trúa á þau fyrirbæri sem lýst er í Biblíunni og öðrum helgum bókum og á sama tíma er bannað að snerta þessi svið. Það má nefna ótal dæmi um vísindalegar rannsóknir á fíngerða heiminum sem voru bannaðar og mörg fögur afrek sem voru skyndilega stöðvuð. Það er hræðilegt að hugsa til þess að sumir séu neyddir til að trúa í blindni og að þeim sé bannað að læra!

Maður getur ímyndað sér hin mörgu neikvæðu öfl sem hindra margt sem er tilbúið til birtingar. Mörkin milli jarðneska og fíngerða heimsins eru ívafin í margt ljótt sem má rekja til slíks ófullkomleika. Baráttan á mörkum heimanna tveggja er mikil, því ráðleggjum Við þér annað hvort að nálgast af fullri alúð eða að hafa alls ekki samband við fíngerða heiminn.

Mikið er um guðlast. Fólk endurtekur orð fræðslunnar af hræsni og hugsar um leið skammarlaust um óhæfar gjörðir. Þeir sem Ég tala um, ættu að taka eftir. Fræðslan sem er send, er aðeins hægt að beita á lífið í fullum mæli. Hvern munu þá hræsnararnir blekkja?

Hugsuðurinn sagði: „Það er ekki hægt að blekkja hina ósýnilegu öfl.“

377. Urusvati veit um eðli átaka í fíngerða heiminum, þar sem allir hlutir eru skapaðir af huganum og eytt með huganum einum. Maður getur ímyndað sér átökin sem eiga sér stað þegar heiftin berst við hugrekki réttlætisins. Átökin fara fram á hinum ýmsu sviðum og eðli þeirra samsvara eiginleikum þeirra sviða. Þau er sérstaklega áköfust á því sviði sem er næst jörðinni, þar sem ríkjandi ástríður hafa ekki enn verið upplifaðar. Allar jarðneskar villur lifa hér áfram, því að þeir sem bera þær með sér hafa ekki verið frelsaðar frá ástríðum sínum.

Meðal íbúa þessara sviða má finna marga stjórnmálaleiðtoga sem á jörðinni töldu að vald væri kóróna jarðneskra afreka og eru enn ómeðvitaðir um að óheftar langanir þeirra eru byrði á jarðnesku andrúmsloftinu. Reyndar eru þessar sálir án sáttar alltaf tilbúnar til að storma ekki aðeins á jörðina, heldur líka himininn. Þær þekkja engan frið og draga eyðileggingarmátt sinn af heift sinni. Það er ekkert furðulegt við að þetta leiði af sér átök, og margir af þessum brjálæðingum farast á meðan aðrir halda áfram að lifa af. Jafnvel erfiðasta karma krefst birtingar ef Karmalögmálið á að uppfyllast.

Þeir sem hafa tilhneigingu til að eyðileggja samræmi auka á karmabyrðar sínar. Maður ætti að spyrja hvað verður um þá sem ekki lifa af, sem eru „drepnir“ af eigin hugsunarsprengingum. Þeir falla í djúpan svefn, meðvitundarlaust ástand sem heldur aftur af framförum þeirra. Þannig eru margar lýsingar á himneskum bardögum ekki langt frá raunveruleikanum.

Því miður sér fólk þetta oft í grófum jarðneskum samanburði, sem eykur aðeins ranghugmyndir þeirra um fíngerða heiminn. Skoðaðu mannkynssöguna og þú munt sjá hvernig leitin að sannleikanum er hindruð af hugmyndum manna. Grófar lýsingarnar á fíngerða heiminum eru ekki í samræmi við raunverulegt ástand hans. Til dæmis er reiði á fíngerðari sviðum talsvert frábrugðin jarðneskri reiði.

Hugsuðurinn trúði því að jarðnesk hugsun gæti ekki náð þeirri fágun sem hún nær í æðri heimum.

378. Urusvati veit að Karmalögmálið gerir ráð fyrir samfelldri tilveru, eða endurfæðingum. Margir kjósa fremur hugmyndina um algjöran endi, en hugmyndina um framgang karmískra viðbragða. Fornt spakmæli segir: "Karma er böðull sem gætir fórnarlambs síns." Með öðrum orðum, karma leyfir ekki að glæpamönnum sé eytt og þeir sleppi þannig við refsingu sína.

Reyndar halda stundum hræðilegir og augljósir illvirkjar áfram að vera til, þó frá mannlegu sjónarmið ætti að vera búið að eyða þeim. En er hægt að beita mannlegum ráðstöfunum þar sem lögmál algers réttlætis vinnur? Stundum er illvirkjum refsað með langvarandi veikindum eða, þótt þeir séu við góða líkamlega heilsu, verða þeir fyrir skelfilegum sálrænum óróleika.

Maður ætti ekki að halda að glæpir gæti verið afsakaðir með andlegu ójafnvægi. Við ættum að leita dýpra og leita að orsökum sem eiga rætur í fortíðinni. Slík rannsókn mun skýra hugtakið karma. Vitrir óttast ekki þetta lögmál. Almennt má skipta mannkyninu í tvo hópa, þá sem óttast afleiðingar karma og þá sem taka þeim af æðruleysi. Forðastu þá sem óttast, því þeir skynja næstum örugglega nálgun karmískra hefnda. Þeir vita kannski ekkert um áhrif hans enn, en í djúpi kaleiksins er hin löngu gleymda naðra að rísa upp á yfirborðið.

Merktu vel hvernig fólk er mismunandi eftir afstöðu þeirra til kenningarinnar um endurfæðingu. Sumir eru færir um að sætta sig við fullkomið réttlæti þessa lögmáls, en öðrum virðist það voðalegt. Kannski eiga þeir sem eru hræddir óljósar minningar um fyrri verk sín og hafa góða ástæðu fyrir núverandi ótta. Þannig má benda á skiptingu mannkyns.

Hugsuðurinn kenndi lærisveinum sínum að óttast ekki Karmalögmálið. Hann sagði: „Veiðimaðurinn gengur inn í skóginn með mikla von. Hvernig getur hann annars lagt af stað? Án vonar verður veiðinn árangurslaus."

379. Urusvati veit að svokallaður heilagur sársauki er ekki frábrugðinn venjulegum líkamlegum sársauka. Læknar munu finna hinar venjubundnu skýringar á þeim. Þú manst að tveir af merkustu spekingum Indlands voru slegnir og dóu, annar úr hálskrabbameini og hinn úr sykursýki. Hvað geta slíkir kvillar átt sameiginlegt með heilögum sársauka? Bæði tilvikin benda til þess að óeigingjarnt úthelli sálarorku geti valdið óvæntum þjáningum.

Þú veist líka um helgan sársauka Upâsikâ, en læknar hennar hefðu aldrei samþykkt hina sönnu skýringu á þeim - að þær væru afleiðing of mikillar fórnfýsi. Til eru þeir sem munu mótmæla slíkri eyðslu á sálarorku, en eru slík andmæli rétt? Það mætti alveg eins efast um gildi fórnfúss lífs Okkar systra á Spáni og Ítalíu, sem báðar eru háleitar fyrirmyndir um verkamenn í þágu almannaheilla. Þær börðust gegn óréttlæti og fáfræði, máttu þola hræðilega misnotkun og sýndu þolinmæði ofar öllum skilningi. Báðar þjáðust af heilögum sársauka. Enginn gat greint hina ýmsu sjúkdóma þeirra sem komu óvænt upp og enduðu jafn skyndilega. Enginn gat rakið orsök sársauka þeirra, allra síst þeir sem orkunni hafði verið eytt á. En háleit sjálfsfórn þeirra leiddi til dýrðlegrar uppstigningar.

Einn hellenskur spekingur, sem naut mjög góðrar heilsu, var mjög hryggur og sagði: „Ég myndi frekar gefa orku mína þar sem hún gæti komið að gagni! Það eru mörg dæmi sem sýna að mikil þjónusta við mannkynið er ekki endilega tengd góðri heilsu. Það er líka vel þekkt að sumir sjúkir lifa lengur en þeir sem talið er að séu heilbrigðir. Mundu, að gefa sína orku er mesta örlætið og miskunin.

Hugsuðurinn sagði: „Það er dásamlegt að hver og einn eigi ósýnilegar auðlindir í sjálfum sér.“

380. Urusvati veit að þeir sem velta ekki fyrir sér markmiði tilverunnar á jarðnesku lífi sínu, búa sér dökka framtíð eftir dauðann. Urusvati sá konu, sem, þótt hún væri góð frá jarðnesku sjónarhorni, hugsaði aldrei um tilgang lífsins. Þegar hún fór inn í fíngerða heiminn var hún gjörsamlega hjálparlaus og vissi ekki einu sinni hvernig hún ætti að þiggja hjálp leiðsögumannsins. Urusvati vann gott verk með því að heimsækja þessa sál og sýna henni að hjálp og leiðsögn væri mjög nálæg.

Flestir geta ekki skilið að jafnvel að hafa svona fínan eiginleika eins og góðvild á meðan þeir eru í jarðnesku ástandi er ekki nóg, því það er líka nauðsynlegt að hugsa um framtíðarveginn á meðan hann er enn á jörðinni. Jafnvel þótt slík hugsun sé grundvallaratriði, mun hún engu að síður þróa ímyndunaraflið. Án nokkurrar hugmyndar um næsta heim ruglast sálin í nýju og óskiljanlegu umhverfi sínu. Ef maðurinn, á meðan hann er enn á jörðinni, ræktar hugsanir um þá gleðiupplifun sem bíður hans í næsta heimi, þróar hann ímyndunarafl sitt og undirbýr sig fyrir inngöngu á samsvarandi svið.

Það er innan mannlegrar getu að auðvelda mjög inngöngu sína í fíngerða heiminn. Sannarlega er gleðin mikil þegar maður getur gengið inn í þessar nýju aðstæður eins og inn í velkomið heimili, að finna þar alla þá sem maður hefur þráð og andvarpa af létti að enn ein jarðneska ferðin sé uppfyllt. En slíkt hugarástand getur aðeins verið afleiðing meðvitaðs ímyndunarafls. Þess vegna, vinsamlegast skildu hvers vegna Við beinum þér að öllu sem þróar ímyndunaraflið. Við vitum hversu smám saman við verður að öðlast þennan dýrmæta eiginleika. Við myndum ekki geta hjálpað mannkyninu án þess að nýta ímyndunaraflið, sem helst í hendur við framsýni!

Hugsuðurinn kenndi þróun ímyndunaraflsins, án þess, væri ekki hægt að opna þriðja augað.

381. Urusvati veit að umburðarlyndi er grundvallarnauðsyn fyrir þróun. Sérhvert merki um umburðarlyndi verður að meta. Við sjálf, gætum ekki hjálpað fólki án þess að vera með mikið umburðarlyndi. Allan innri eldmóð hvers manns verður að nota til almannaheilla, því dauft afskiptaleysi er skaðlegast. Sannarlega er hörð andstaða oft réttmætari en tilfinningalaust afskiptaleysi.

Við brosum oft til heitra andstæðinga okkar, því í hverjum þeirra er ákveðin ögn af staðfestingu. En á ís afskiptaleysis geta engin blóm vaxið. Þetta útskýrir hvers vegna Drottinn valdi hina köldu og heitu og spýtti þeim volgu út úr munni sínum, eins og sagði í testamentinu. Sumir munu ekki vera sammála þessu. Staðreyndin er hins vegar sú að hann hjálpar þeim sem hann hafnar. Hvernig er hægt að sannfæra hinn volga um að hann sé mögulega fullur elds og að sýnileg velgja hans geti orðið að miklum loga? Andstaða verður að staðfestingu; þetta er mynstur tilverunnar. En þeir sem í testamentinu eru kallaðir volgir kvikna ekki auðveldlega.

Því miður eru of margir þessara volgu, skaparar kosmísks úrgangs sem hindra þróunina með tregðu sinni. Þeir njóta ekki góðs af dvöl sinni í fíngerða heiminum og við getum ekki hjálpað þeim, því þeir gefa enga brennandi útgeislun sem gæti þjónað sem leiðari fyrir áhrif Okkar. Svo margar góðviljaðar örvar eru svæfðar í þykkum skráp afskiptaleysis. Það er auðveldara að slá neista í afneitara en að brjótast í gegnum skjöld afskiptaleysis. Aðeins er hægt að kveikja eld þar sem innri núningur er.

Maður ætti að læra að greina hverja litla orkuögn og fylgjast vel með henni. Fólk hrópar af reiði: "Hann er ekki einn af okkur, krossfestum hann!" Fífl! Hann er sannarlega ekki einn af ykkur, hann er eldur! Aðeins fáfróðir slökkva ljósið og sitja síðan eftir í myrkrinu og kvarta yfir grimmum örlögum sínum.

Hugsuðurinn kenndi að jafnvel minnstu orkuögn ætti að verja. "Vertu sparsamur smiður!"

382. Urusvati sá mörg mismunandi tæki á rannsóknarstofunni Okkar, sem hvert um sig starfar með hjálp sálarorku. Sá tími mun koma að fólk mun viðurkenna að virkni véla er háð sálarorku þess sem stýrir þeim. Þetta ætti ekki að líta á sem galdur eða eitthvað óvenjulegt. Fólk ætti að vita að það sendir hluta af sálarorku sinni í hvern hlut sem það snertir. Stjórnlaus orka hefur mjög lítil áhrif, en þegar hún er skilin og skipulögð kemur hún sterkari fram.

Stundum tekur fólk eftir sérlega sterkri birtingarmynd sálarorku. Það má kalla slíkt ástand innblástur, eða eignað sérstöku andrúmslofti, nægri hvíld eða endurnýjuðum styrk. Hins vegar skynja þeir einfaldlega styrk þeirra eigin orku. Þeir gætu náð betri árangri ef þeir myndu gera sér grein fyrir að uppspretta slíkrar orku er alltaf í þeim sjálfum. Engin sérstök áköll eru nauðsynleg; maður þarf aðeins að muna fjársjóðinn sem liggur í dvala innra með öllum.

Annan þátt ætti að hafa í huga, að sálræn orka þróast sérstaklega í meðvituðu samfélagi við stigveldið. Þessi samskipti ættu að vera æfð alla ævi og munu þá festast í sessi. Ímynd kennarans mun ávallt verða til staðar og flæði hinna nýju, lífsnauðsynlegu strauma mun koma fram í allri viðleitni. Þetta verður undirstaða þeirrar tilfinninga sem fólk kallar bjartsýni. Slík bein þekking hjálpar jafnvel vélum að gera sitt besta! Öll tæki Okkar eru hönnuð til að bregðast við sálarorku. Það eru ekki allir sem geta nýtt sér aðferðir Okkar, en sérhver hugsandi manneskja getur komist áfram á sömu braut. Munurinn á Okkur og öðrum er sá að vegna langrar reynslu vitum við hvernig á að einbeita sálarorku Okkar.

Hugsuðurinn sagði: „Ég veit að kraftur minn margfaldast þegar ég höfða til himna. Megi himinninn veita mér ögn af krafti sínum."

383. Urusvati veit að sannur leitandi er alltaf tilbúinn að verja sannleikann. Það er rangt að halda að sannleikurinn þurfi enga vörn. Það gæti verið svo í kosmískum skilningi, en frá jarðnesku sjónarhorni verður að staðfesta sannleikann svo hann verði ekki afbakaður.

Þrátt fyrir allt komast sannleiksneistar inn í mannlega vitund. Í dag myndi venjulegur maður ekki hæðast að sumum hugmyndum sem var hafnað fyrir hálfri öld, en þessi viðurkenning hefur komið með slíkri fórn, en með svo litlum framförum! Hið sorglega staðreynd er að tapið er stundum meira en afrekin. Hvernig ætti þá umsækjandinn að verja sannleikann? Ef hann er rægður, varpað í fangelsi eða drepinn, hver mun heyra síðustu orð hans? Þess vegna verður að beita sérstakri visku til að boða og verja sannleikann. Beita þarf fullkomnum samanburði.

Við viljum örugglega ekki missa gagnlegt fólk. Við ráðleggjum oft að gæta varúðar og forðast óþarfa hættur. Reyndur og dyggur leitandi skilur hvernig best er að beita uppsafnaðri orku. Ímyndaðu þér vísindamann sem, á meðan hann er niðursokkinn í sérstaklega mikilvæga tilraun, yfirgefur vinnu sína skyndilega til að flýta sér og veita fórnarlömbum slyss á götunni aðstoð. Sumt fólk mun gagnrýna það að hafa horfið frá mikilvægu starfi sem hefði getað gagnast mannkyninu, en fáguð meðvitund getur skynjað mörk hetjulegra athafna. Við vitum hversu ómerkjanleg þessi mörk geta verið. Svo margir þættir eru lagðir á vogarskálarnar að jafnvægi næst með erfiðleikum.

Hugsuðurinn sagði: „Byrðin er svo mikil að við vitum ekki hvaða hlutum þarf að sleppa á leiðinni.“

384. Urusvati veit hversu mögulega skaðlegt það er að beita jarðneskum ráðstöfunum við aðstæður fínni sviða. Ég er að vísa til þess fólks sem les um undirstöður lífsins, en nálgast sannleikann á jarðneskan hátt. Það hefur tilfinningu fyrir hlutum þegar það fæst við minniháttar atburði, en þegar fólk stendur frammi fyrir meiriháttar prófraunum getur það ekki fundið rétta nálgun og treystir á takmarkaða, jarðneska dómgreind sína. Hins vegar er það einmitt við óvenjulegar aðstæður sem maður ætti að beita fíngerðari skilningi.

Fólk veit ekki hvernig það á að kalla fram krafta ljóssins þegar hætta steðjar að. Þvert á móti varpa menn fram efasemdum sínum, eftirsjá og jafnvel ásökunum út í geiminn, þó að þeir geri sér fulla grein fyrir því að slíkt dugleysi hjálpar þeim ekki. Þeir vita að ásakanir eru ekki ákall og að aðeins hið síðarnefnda getur aukið styrk þeirra.

Til forna hegðaði fólk sér mun skynsamlegra. Á hættutímum sneri það sér samstundis til himnaríkis og í þögn og án hugsana opnuðu þau hjörtu sín í móttækileika fyrir æðri öflum. Það skildi að jarðnesk orð eru gagnslaus við slíkar aðstæður og gátu ekki tjáð þörf þeirra og leyfðu æðri krafti að streyma óhindrað inn í vitund sína. Menn voru vissir um að þegar á þurfti að halda myndi góð hjálp koma. Þeir vissu að geimurinn er fullbyggður og að þeir góðu eru alltaf tilbúnir til að veita aðstoð.

Maður getur fylgst með því hvernig nálgun ýmissa fíngerðra aðila, jafnvel þó hún sé ekki með öllu neikvæð, getur sjokkerað alla lífveruna. Ef áhrif manna hver á aðra eru mikil eru áhrif hinna ósýnilegu heima mun meiri, sérstaklega þegar fíngerðu verur beina athygli sinni að tilteknum einstaklingi sem fórnarlambi. Ósamræmið af völdum ósýnilegra aðila er ekki óalgengt og getur valdið líkamlegri vanlíðan. Urusvati veit hvað Við tölum um.

Hugsuðurinn gat skynjað nærveru ósýnilegra vera. Hann ávarpaði þessa óvæntu gesti í rólegheitum og bað þá að íþyngja sér ekki, heldur hjálpa eftir getu þeirra.

385. Urusvati veit hversu mikla áherslu Við leggjum á einingu. Fólk heldur oft að þessi regla hafi aðeins siðferðilega þýðingu og skilur ekki að eining eykur orku og veitir styrk. Þú getur ímyndað þér hversu miklu auðveldara það er fyrir Okkur að senda hjálp til þeirra sem eru samrýmd. Reyndar sparast mikil orka, því sameinuð orka beinist að einni hugmynd, og slík einbeiting leiðir til eflingar valds.

Fólk ætti að læra að skilja að hver siðferðileg fræðsla er einnig vísindaleg ráðgjöf. Ég legg áherslu á þessa staðreynd vegna þess að Ég sé að svo margir sem lesa fræðsluna nota hana ekki í daglegu lífi sínu.

Auk þeirrar staðreyndar að eining eflir hjálp Okkar, virkar hún eins og „dæla“ í staðbundnu orkustreymi. Fólk gerir sér ekki grein fyrir því að þegar það er sameinað eykst orka þeirra margfalt. Aðeins með vísindalegum aðferðum er hægt að sannfæra efasemdamenn. Leyfðu vísindamönnum þínum að sýna þér hvernig sameinuð afl eykst, og þegar þessi framvinda er reiknuð út, munu mennirnir átta sig enn á ný hvað þeim hefur verið trúað fyrir í jarðlífi þeirra. Af hverju ættirðu ekki að læra að samvinna er besti galdurinn? Jafnvel þeir sem ekki þekkja Okkur ættu að spyrja sig hvort ekki sé einhvers staðar dýrmæt uppspretta orku sem hægt væri að nýta í lífinu. Sérhver slíkt samþykki þjónar sem nálgun til Okkar.

Hugsuðurinn skildi að orka mannsins verður óþrjótandi þegar maður eflir hugsun sína til Hæstu uppsprettu.

386. Urusvati veit um heilsuhrynjanda eða svokallað „náttúrulegt“ jóga. Í miðjuleið Buddha-fræðslunnar, í ritum Plató um siðfræði og í skólum Auga Hórusar í Egyptalandi, getum við fundið fræðslu um jóga sem er tengt jarðlífi. Sérstaklega um þessar mundir ætti að gefa sérstakan gaum að náttúrulegri þróun sálarorku, sem ætti að rannsaka og einnig beita í lífinu. Það er satt að sálarorka vinnur sjálfstætt, en nú er Ég að tala um meðvitaða beitingu hennar.

Þú ættir að fullvissa fólk um að hvert og eitt þeirra eigi þennan fjársjóð og geti nýtt hann í hugsun, mitt í daglegu lífi. En til þess þarf fyrst og fremst að skilja hugsunarferlið, sem heldur áfram óslitið hvort sem maður er sofandi eða vakandi. Hins vegar eru tveir hugsunarstraumar, einn í heilanum og annar sem skráist í djúpi vitundarinnar. Venjulega er fólk ekki meðvitað um djúpu vitundina og gerir sér ekki grein fyrir því að dýrmætasta þekkingin er ekki móttekin í gegnum heilann.

Fólk ætti að læra á hið stanslausa hugsunarferli, sem virkar eins og púls og myndar gagnlegan takt. Þessi lýsing er lærdómsrík. Það gefur til kynna að góð hugsun er líka heilbrigð hugsun og framkallar uppbyggilegan innri eld.

Urusvati veit að lækningarloginn getur auðveldlega borist inn í myrkur geðheimsins. Fíngerði líkaminn er eins og kaleikur fylltur fosfór. Það getur verið ótæmandi ljósgjafi og gagnlegur taktur.

Við elskum að fara í gegnum dimmu svæðin til að dreifa neistaflugi ljóssins. Sérhver maður, sama í hvaða ástandi, getur verið uppspretta ljóss.

Hugsuðurinn sagði: "Góðvild er ljós."

387. Urusvati veit hversu fjölbreyttar tilfinningarnar eru í og eftir flug inn í fíngerða heiminn. Venjulega leiða þessar tilfinningar mann til hins hæsta, en stundum geta þær verið óþægilegar og jafnvel sársaukafullar.

Staðfastir efasemdarmenn munu halda því fram að allar slíkar tilfinningar séu blekkingar, ekkert annað en truflandi draumar sem stafa af slæmri meltingu! En þeir sem hafa upplifað fíngerða ríkið vita vissulega af eigin veruleika.

Hvers vegna eru þessar tilfinningar þá svo ólíkar í samskiptum við fíngerða heiminn? Ekki ætti að rekja þær til sveiflukennds skaplyndis, heldur stafa af efnafræði hinna ýmsu sviða. Læknar ættu að kynna sér og bera saman staðhæfingar þeirra sem hafa upplifað þessi ferðalög og þeir munu sjá að skynjunin í líkamanum samsvarar hughrifum frá hinum ýmsu lögum fíngerða heimsins. Það getur verið ruglingslegt eða jafnvel misvísandi tilfinning, svo sem einkenni sem svipar til þeirra sem stafa af eitrun. Sönnunargögn sem þannig er safnað benda til þess að fíngerði líkaminn sé ekki með öllu laus við líkamlega eiginleika.

Efnafræði mismunandi sviða er fjölbreytt og eftir því sem maður nálgast byggða staði má finna sterkara útstreymi þeirra. Jafnvel staðir sem eru ekki algjörlega neikvæðir geta gefið frá sér óreglulega útgeislun sem veldur sársauka í jarðlíkamann þegar geðlíkaminn kemur aftur. Þannig valda tilraunir með geimflug mörgum mismunandi líkamlegum viðbrögðum. Sá tími mun koma að slíku flugi verður vísindalega fylgt, en hver rannsóknarleið er full af þyrnum.

Hugsandinn skynjaði oft aðskilnað geðlíkama síns og á slíkum stundum beindi hann honum andlega að þeim sviðum þar sem hann gæti lært eitthvað nýtt.

388. Urusvati veit að það er stanslaus barátta milli hinna ýmsu efnissviða. Fullyrðingin: „Ljósið sigrar myrkrið,“ hefur orðið að sannindum. Ljós sigrar án efa myrkrið, þó að algjör dreifing glundroða og myrkurs sé mjög hægt ferli. Það eru margar stigbreytingar á milli ljóss og myrkurs. Þetta ætti að skilja bæði í efnislegum sem andlegum ferlum.

Það má með réttu spyrja hvers vegna ákveðnar skynsamlegar hugmyndir aðlagast svo hægt í mannlegri vitund. Það er til dæmis ótrúlegt að þrátt fyrir miklar sannanir er hugtakið endurfæðing svo erfið kenning fyrir flesta. Þegar öllu er á botninn hvolft ætti maður að skilja, að ef allir samþykktu þetta lögmál myndi það gefa til kynna endalok glundroða og umbreyta öllu jarðneska lífi. Berðu saman þá sem hafa samþykkt þessa kenningu við þá sem eru á móti henni, og þú munt skilja hver er ljóssins megin og hver er í myrkrinu!

Víxlun viðurkenningar og andstöðu er ótrúleg, en hin raunverulega barátta á sér stað á hinu yfirjarðneska ríki og hin miklu öfl taka þátt í henni. Það er erfitt að greina mörkin milli skilyrðislauss samþykkis og algjörrar afneitunar. Stundum eru andstæðingar nær sannleikanum, en þeir sem vélrænt samþykkja lögmálið án þess að skilja merkingu þess.

Það er athyglisvert að sumir hafa upplifað fíngerða heiminn en munu samt ekki viðurkenna það. Þetta á sérstaklega við um „bókaorma“ sem lesa alls kyns bækur, en vitund þeirra getur ekki tileinkað sér neitt. Hvílíkt byrði fáfræði hindrar skilning hvers lögmáls! Maður getur oft séð reiði ákveðinna manna sem hata hvers kyns birtingarmynd hins ósýnilega, jafnvel þó það geti ekki skaðað þá. Þetta er einfaldlega spegilmynd af baráttunni milli ýmissa efnissviða.

Hugsuðurinn vissi að fætur mannkyns eru fastir í glundroðanum.

389. Urusvati veit að lögmálið um aðdráttarafl og fráhrindingu starfar í öllum heimum. Þetta lögmál er mikilvægt, sérstaklega í hugsun, því þar er miðlunarorkan virkust. Það er lærdómsríkt að fylgjast með því hvernig þetta lögmál starfar í fíngerða heiminum, þar sem birtingarmynd þess er augljósari en í efnisheiminum.

Fólk gerir ráð fyrir að í fíngerða heiminum geti maður alltaf verið á því sviði sem er í samræmi við andlegan skyldleika manns, en þessi möguleiki er skilyrtur. Í sannleika sagt laðast allir að ákveðnu sviði, en það kemur ekki í veg fyrir að hugsanir séu sendar inn á önnur svið. Þessar andlegu brýr geta þjónað sem miðill fyrir nýja tengiliði svo framarlega sem fráhrinding er ekki í gangi. Og ef bein hugsun er skýr og góð er jafnvel hægt að yfirstíga þessa hindrun.

Í fíngerða heiminum munu neikvæðar tilfinningar eins og illgirni, hefnd og almenn skaðsemi þreyta, vegna þess að þær eru gagnslausar. Andinn vaknar að lokum við þá staðreynd að engin hlið eru opnuð með slíkum lyklum. Sömuleiðis á jörðinni hefur fólk sem er ákaft upptekið af starfi sínu engan tíma til að dvelja við smábrot eða óréttlæti. Vinnan krefst algjörrar athygli þeirra. Á æðri sviðum eru vondar hugsanir ekki til, því illskan er ringulreið, og á samræmdum sviðum eru engin skilyrði fyrir ósætti. Þannig myndast aðdráttarafl og segullinn tekinn í notkun.

Jafnvel í hinum líkamlega heimi munu skýrar hugsanir vaxa og leiða til hæða. Slíkar hugsanir ættu ekki að molna í sundur af smávægilegum óförum. Þegar öllu er á botninn hvolft eru flest umkvörtunarefni sprottin af vantrausti og þegar fólk lærir að lokum að treysta hærri öflunum, sjáum við eftir orkunni sem varið er í kvartanir. Bestu hugsun er hægt að búa til hvar sem er í heiminum.

Hugsuðurinn mikli kenndi fólki sjálfur að finna skjól þar sem engin örvænting er.

390. Urusvati veit að flestir fara inn í fíngerða heiminn með vitund sína íþyngda jarðneskum venjum. Á flugi sínu inn í fíngerða heiminn sá Urusvati oft hvernig jafnvel sumt gott fólk byggir upp tilveru sína í samræmi við jarðnesk mynstur. Það er ótrúlegt að nýju aðstæðurnar hvetji það ekki til nýrra verkefna og meðal þessara íbúa geðsviðsins eru nokkur lærdómsrík dæmi. Til dæmis, fólk sem var óeðlilega upptekið af líkamlegum kvillum sínum heldur áfram með svipaðar áhyggjur í fíngerða heiminum. Það er vant fjölmörgum lyfjum sínum og geta ekki ímyndað sér að þessi þáttur jarðlífs þeirra sé ekki lengur nauðsynlegur fyrir ástand þeirra sem nú er ekki líkamlegt. Með því að nýta sér efnafræði andrúmsloftsins finnur fólk upp ný lyf; því miður gleymast þessar tilraunir í nýjum jarðvistum þeirra!

Það er ótrúlegt að læknayfirvöld kanni ekki efnafræði andrúmsloftsins. Þeir mæla fyrir um sjávar- eða fjallaloft, en rannsaka ekki óvenjulega efnafræðilega eiginleika sem gegnsýra neðri jarðlögin. Ég á ekki við eitraðar gufur, sem eru augljósar og auðvelt að rekja, heldur hærri efnasamböndin, sem hægt er að rannsaka með stjörnufræði og stjörnuspeki. Það verður að sannreyna kraft efnislega útgeislun stjarna. Við rannsökum þetta svið og vitum að fíngerðu svæðin innihalda einstaka möguleika. Fólk á jörðinni getur líka tekið þátt í þessum rannsóknum og ef þessar athuganir eru hafnar núna munu nýjar meðferðir koma fram. Allt sem þarf er opinn hugur, en jarðneskar venjur eru aðalóvinir allra nýrra rannsókna.

Hugsuðurinn ráðlagði lærisveinum sínum að spyrja sig af og til: „Hefur ég svipt mig einhverju?“

391. Urusvati veit að fræðsla lífsins er laus við mótsagnir, samt er yfirborðskenndur lesandi alltaf tilbúinn að sjá mótsagnir í henni. Til dæmis, þó að Við tölum um orrusturnar við Harmagedón í fíngerða heiminum, tölum við líka um friðsamlegar aðstæður sem eru þar. Það er engin mótsögn í þessu, því jafnvel á jörðinni, á tímum skelfilegustu stríðanna, eru lönd sem halda áfram að vera hlutlaus og í friði. Svo er það í fíngerða heiminum. Mundu — eins og á jörðu, svo á himnum.

Hins vegar er hið gagnstæða ekki svo. Jarðbundnir atburðir takmarkast við þessa litlu plánetu, á meðan ríki fíngerða heimsins eru óviðjafnanlega víðfeðmari og öllum ráðstöfunum er beitt með tilliti til hins óendanlega. Fólk er ekki enn fært um að skilja að fíngerði heimurinn felur í sér þætti sem eru ekki í samræmi við jarðnesk hugtök.

Hægt er að greina sviðin skilvirkt sem aðskilin, en þegar þau eru rannsökuð í smáatriðum sést að þau samtengd. Þrátt fyrir að á jörðinni virðist allt vera sérstakt og flokkað, er í raun öll tilvera tengd á fíngerðan margvíslegan hátt. Þetta á enn frekar við í fíngerða heiminum.

Ég tala mikið um þennan víðfeðma fíngerða heim, ekki aðeins vegna þess að maður ætti að vita eins mikið og mögulegt er um hann, heldur einnig vegna nálægðar hans við jarðneska lífið. Það eru margir sem munu segja að ekki sé enn nóg komið um fíngerða heiminn, en það sama mætti segja um jarðlífið, sem er fullt af undrum sem eru langt umfram allt ímyndunarafl. Af hverju ekki að lengja þessi undur út í óendanleikann? Þá munum við skilja möguleika fíngerða heimsins.

Það er aðeins vegna athyglisskorts í jarðnesku lífi sínu sem fólk nær ekki að ímynda sér tilvist Okkar. Jafnvel þeir sem staðfesta að þeir þekki Okkur munu efast eftir fyrstu vonbrigði sín og munu missa trúna á Okkur og fíngerða heiminn.

Hvað gerist ef Við segjum að fíngerði heimurinn er líka fullur af alls kyns erfiðleikum? Þeir sem hafa haft áhuga munu tvístrast, en gleyma því að hlaup þeirra í burtu mun ekki frelsa þá frá því að þurfa að fara inn í fíngerða heiminn. En er ekki miklu betra að hver útvegi sér sjálfur þær upplýsingar sem þarf fyrir framtíðarferðina?

Að fara inn í fíngerða heiminn er eins og hverfult augnablik draums; sá sem hefur lagt sig til svefns mun, þegar hann vaknar, finna sig í algjörlega nýju umhverfi og hugsanir hans geta orðið svo ruglaðar að hann, sem hefur ekki enn aðlagast fíngerða heiminum, mun ekki hugsa um að kalla eftir hjálp leiðsögumannsins. Gerist ekki það sama í jarðlífinu? Enginn talar um leiðsögumenn meðan hann er í jarðnesku ástandi og í fíngerða heiminum eru þessi nánu tengsl oft ónotuð.

Í fíngerða heiminum geta jafnvel ástvinir ekki hjálpað ef þeim er hafnað, því höfnun ógildir alla boðna hjálp og þvinguð hjálp getur brotið höndina! En sá sem fer inn í fíngerða heiminn sem þegar er meðvitaður um það er mjög blessaður. Ekki þarf að eyða orku í aðlögun og maður getur tjáð sig í því að svífa upp á við. Fyrir löngu var sagt að sigra ætti hin æðri svið og þau tilheyri þeim sem geti umfaðmað þau í vitund sinni.

Hugsuðurinn sagði þeim sem fóru: „Safnaðu öllum kröftum yðar til þess að beina sjálfum þér að hinu hæsta.“

392. Urusvati veit að til að sjá atburði fyrir þarf að vera samræmd samsetning margra aðstæðna. Mannleg hugsun er nauðsynleg, stjörnumerki eru mikilvæg og samvinna æðri afla er nauðsynleg. Hvernig er annars hægt að sjá fyrir atburð sem mun eiga sér stað á næstu áratugum? Ef við getum sett saman allar viðeigandi aðstæður, verður það að vera ljóst að ímynd atburðarins hefur þegar verið skráð í hina helgu skrá fíngerða heimsins.

Margir velta því fyrir sér hvernig mannleg hugsun getur haft áhrif á slíka forspá; Athugun sýnir svo sannarlega að mannleg hugsun á einnig þátt í fyrirspáðum atburðum. Hins vegar getur hugsunin ein ekki skráð myndina í fíngerða heiminum. Þegar straumar mætast bæði að ofan og neðan kemur fram óvenjuleg og einkennandi áhrif á framtíðina. Varðandi þetta ættum við að nefna þá áhugaverðu staðreynd að atburðirnir eru sýndir í örstuttum myndum, eins og símtöl. Aðeins skörp augu og eyru geta skilið þessar myndir framtíðarinnar.

Það er sérstaklega mikilvægt að skilja hvernig mannleg hugsun getur unnið með hæstu sviðunum. Ekki má gleyma því gamla orðatiltæki, að eðli mannsins sé skapað af hugsun hans. Við varðveitum mörg spjöld þar sem hægt er að sjá hvernig fólk hefur skapað sína eigin þróun. Urusvati sá oft hvernig framtíðarsaga ýmissa þjóða var skráð. Við mælum ekki með tilbúinni sameiningu landa, heldur horfum inn í framtíð þeirra, þar sem við getum séð afleiðingar fyrri mistaka. Þegar fólk byrjar að varpa hugmyndinni um frið í hugsun sinni, er mögulegt að allt önnur formúla verði skráð á þessar fíngerðu töflur.

Fyrir hugsuðinum var dagleg hugsun tengd ferli frjórrar íhugunar.

393. Urusvati þekkir andstæður og margbreytileika lífsreglna, sem jafnvel í einföldustu tilfellum er auðvelt að mistúlka. Til dæmis, Við gefum til kynna að veita ætti öllum smáatriðum í atburðum lífsins athygli, en vara á sama tíma við sjálfseftirlátssemi af blekkingum.

Sumir munu halda því fram að það sé ómögulegt að draga skýr mörk á milli veruleika og blekkinga og það er rétt að aðeins með beinni þekkingu eða hæsta innsæi er hægt að gera greinarmun á þeim. Með því að betrumbæta skynjun sína má sjá raunveruleikann í réttum ljósi, en frá réttu sjónarhorni. Til dæmis gæti fólk glaðst í upphafi og með hryggð í lok verkefnis, en séð frá öðru sjónarhorni gæti það kallað fram allt önnur viðbrögð og menn gleddust í lokin á sama tíma og þeir bera góðan vilja til upphafs sem er fullt af hættum.

Flestir móta sannfæringu sína og trú í fáfræði um framtíðarlífið. Slík takmörkun bindur frjálsan vilja og skapar þrönga sýn á alheiminn. Hugarfar nútímans hefur ekki breyst mikið frá fortíðinni og endurtekur villur forfeðranna. Í flestum tilfellum hafa aðeins hugtökin breyst og skilningur á mikilvægi er ekki dýpri. Starf Okkar er talsvert flókið vegna grófar venjur sem mannshugurinn hefur fundið upp.

Fyrir löngu síðan hafði Hugsuðurinn áhyggjur af því að hugur manns og höfuð ætti ekki að vera aðþrengd, jafnvel af kórónu. Hann var vanur að segja: "Kóróna er ekki góð ef hún passar ekki."

394. Urusvati þekkir bæði sorg og gleði, og hver þekkir það ekki? Af þeim sökum kenndi spekingurinn miðleiðina. Þannig kemur gullni meðalvegurinn þeim í jafnvægi. En fólk skilur ekki hvar æðri gleði er og hver dýpt sorgarinnar er. Oft, þó að ör sorgarinnar sé þegar flogin hjá, mun fólk halda áfram í ótta sín og þjáningu, og sömuleiðis, þótt gleðin sé þegar farin að dofna, reyna menn að framlengja hana og halda álögum hennar.

Við mælum svo sannarlega ekki með bælingu tilfinninga, þar sem bæling sorgar eyðir líka gleðinni. Við munum aldrei tala fyrir afskiptaleysi, því það væri dauði. Þvert á móti, í öllu leggjum Við áherslu á lífið, en vörum við draugum. Þannig ráðleggjum við fulla meðvitund um sársaukafullan sting sorgarinnar og ferskan andblæ hinnar mestu gleði. Á jörðinni sem og í fíngerða heiminum verður maður að geta sætt sig við gleði og sigrast á sorginni.

Það er sagt um stríðsmann að hann sé óbreyttur í gleði og sorg, í sigri og í ósigri. Það snýst ekki um afskiptaleysi sem Við tölum, heldur um styrkleika sem, með hraða sínum, kemur í veg fyrir öfga. Ég tala oft um slæma reynslu og vísa á sama tíma til gleði. Í hraða hreyfingar sinnar fer pílagrímurinn hratt yfir bæði fjall og hyldýpi. Hann er svo niðursokkinn af trúboði sínu að viðleitni hans ber hann yfir allar hindranir á vængjum farsældar. Sömuleiðis erum við í slíkri spennu að viðleitni okkar ber okkur í gegnum allt, með nýjum mælikvarða á tíma og atburði.

Hugsandinn, á meðan hann var niðursokkinn af jarðneskri vinnu sinni, bað hann: „Látið sorgina ekki vera ásteytingarsteinn, né gleðina blindandi geisla.

395. Urusvati hefur fullyrt réttilega að sjúkdómar hennar aukast við heimshamfarir og veikindi sinna nánustu. Geimurinn stynur og hjartað verkjar.

Svokallaðir helgur sársauki stafar aðeins af of miklu útstreymi sálarorku. En hvernig getum við afþakkað gjafmildi þess sem þjónar almannaheill með öllum sínum vilja og tilveru? Maður getur ekki sett takmörk á fórnfýsi þegar maður veitir mannkyninu hjálp.

Útstreymi sálarorku getur verið tvenns konar, viljandi eða sjálfkrafa. Hið fyrra er auðvelt að skilja, því það er talið senda út öldurnar. Hins vegar er önnur tegundin ekki alltaf skilin: hún er afleiðing af sameiningu krafts stýrðrar sálarorku við meginsegulstrauminn. Fræðarinn hvetur lærisveinana til að snúa sér til hans og vegna þessa á sér stað tenging við öflugan orkustraum. Fræðarinn gefur mikla orku. Þú getur ímyndað þér hvaða átak þarf til að hafa áhrif á mörg lönd og sameina svo margan frjálsan viljann.

Oftar en einu sinni hef Ég sagt ykkur frá dásamlegu, kraftmiklu fólki sem gaf allan sinn kraft í óeigingjarnri þjónustu. Það þjáðust mikið, en eldingarlík orkulosun þeirra var að lækna allt umhverfið. Það gat ekki vitað hvar hollusta afleiðinganna ætti sér stað, og aðeins síðar, þegar þeir voru í fíngerða heiminum, gátu þeir orðið vitni að sigrum sínum.

Við vitum öll hvernig hjartað vinnur fyrir mannkynið og við sækjum styrk aðeins í þágu framtíðarinnar. Það er oft erfitt að standa fast á leiðinni til sigursælar framtíðar.

Hugsuðurinn lagði áherslu á að hver slóð væri fetuð í þágu framtíðarinnar.

396. Urusvati tekur réttilega fram að geimurinn þagnar stundum og virðist vera algjörlega hljóðlaus. Maður gæti ranglega haldið að hún hafi glatað heyrn sinni, en sanna ástæðan er sú að þetta eru tilvikin þegar Við höfum sent sérstaka hindrun til að verja viðkvæmt eyrað fyrir vælinu og stununum sem fyllir rýmið. Hvers vegna ætti hjartanu að vera íþyngt með svo óbærilegum þjáningarhljóðum þegar þörf er á orkusöfnun? Við vitum hversu erfitt það er að þola þessi andvörp í geimnum.

Það er hægt að halda því fram að slík óhljóð séu ekki til. Íbúar lægri sviða fíngerða heimsins eru svo tengdir slíkum kunnuglegum aðstæðum, að þeir geta ekki skynjað hærri birtingarmyndir. Leyfðu þeim að vera áfram í sinni ímynduðu líðan. Á jörðinni dansa sumir líka innan um bræðravígsstríð og ónæmi þeirra nær inn á svið fíngerða heimsins, sem gerir sjálfsfullkomnun ómögulega.

Við vitum hversu nauðsynlegt það er að verja viðkvæm eyrun fyrir of miklum þrýstingi öskrana í geimnum. Sérstakrar varkárni er þörf þegar hugrökk hjarta er tilbúið fyrir endalausa sjálfsfórn. Slík kappsöm hjörtu verður að vernda.

Geimurinn ómar stöðugt. Allt frá grunntóni Náttúrunnar og tónlist sviðanna, til stuna og öskra geimsins, getur þjálfað eyra skynjað öll hljóð. Við köllum þau lúðraköll og getum skilgreint eiginleika geimspennunnar í samræmi við það. Það skal tekið fram að í fornöld vissu menn hvernig á að veita merkjum geimsins eftirtekt. Þeir skildu ekki nákvæma merkingu þeirra, en skildu svo sannarlega að tónlist sviðanna ómaði aðeins þegar straumarnir voru góðir og að stunurnar táknuðu illgjarna strauma. Þannig getur maður stundum heyrt lúðurinn kalla án þess að vita um orsök þess.

Við hlustum stöðugt á óm geimsins og reynsla og þolinmæði hafa kennt Okkur að greina hinar fjölmörgu hljóðbreytingar. Við höfum nokkur tæki sem gera Okkur kleift að skrá jafnvel veikustu takta andrúmsloftsins, en nauðsynleg þekking kemur í gegnum dulheyrn.

Hugsuðurinn spurði: „Hvers vegna hefur himnaríki þagnað? Er mögulegt að þrumandi ör sé að nálgast?“

397. Urusvati veit að auk þeirra farsótta sem þekktar eru, eru margar aðrar sem ekki eru viðurkenndar. Til dæmis er tegund syfju sem skyndilega hrjáir hópa fólks. Vissulega er þetta hvorki svefnhöfgi né svefnveiki, heldur er þetta afleiðing minnkaðrar sálarorku. Það er mikilvægt að hafa í huga að þetta ástand getur samtímis hrjáð margt fólk.

Reyndar er ekki hægt að útskýra slíka aukna birtingarmynd eða einfaldlega rekja til skynjunar einstaklinga. Kannski mætti rekja það til almennrar aukningar á loftþrýstingi, en jafnvel sú skýring er ófullnægjandi. Það gæti líka verið útskýrt sem þörf fyrir orku í einhverjum ofurverulegum tilgangi. Það er ómögulegt að fylgjast með umfangi þessara farsótta vegna þess að fólk er ekki vant að ræða tilfinningar sínar. Það mun jafnvel skammast sín fyrir syfjuna og munu reyna að sigrast á henni, án þess að átta sig á því að það gæti tengst þátttöku þeirra í einhverjum mikilvægum aðgerðum.

Sömuleiðis er lítill gaumur gefinn að ertingu í slímhúð. Þessar farsóttir koma oft fram, sérstaklega á tímum heimshamfara. Fólk lítur ekki á þessar bólgur sem alvarlegar, það hefur engar skýringar á þeim og rekur þær oft til einfalds kvefs. Við viljum ráðleggja þér að fylgjast alvarlega með öllum tilfinningum, en á sama tíma að verða ekki sjálfumglaður eða láta undan þunglyndi! Áhrif skynjunar þarf að skiljast í djúpi vitundar manns.

Hugsuðurinn var vanur að segja: "Ó, þú óþekkti, þiggðu styrk minn ef hann getur þjónað öðrum."

398. Urusvati veit að auk munnlegra samtala og fræðslu eru hugræn samskipti sem hafa jafn djúpa merkingu. Slíkar hugsanasendingar krefjast að minnsta kosti eins mikillar einbeitingar og þörf er á fyrir orðaskipti við Okkur.

Mikið hefur verið rætt um íhugun og einbeitingu í flutningi munnlegra skilaboða. En nú tölum við um andlega sendingu sem er eins og elding, svo ákafa að það er ekki hægt að lýsa því með orðum, þegar aðeins skarpskyggnasta þekking er að verki. Slík bein þekking fær kraft sinn frá uppsöfnun vitundarinnar. Engan tíma þarf til slíkra samskipta. Þeir eru á þröskuldi uppljómunar og virkur kærleikur birtist í þeim. Maður getur skilið að orð eru óviðeigandi þegar kjarni hugsunar logar. En maður verður að vera þjálfaður til að ná tökum á þessum eldingarglömpum hugsunar.

Ekki köld rökhugsun vitsmuna, né þvinguð tilgerð, heldur hreinsuð, ósegjanleg hugsun mun kalla á hollustu. Ég hef þegar sagt að maður ætti ekki að biðja um persónulega aðstoð. Ósögð samskipti munu senda það. Hversu fögur er nálægðin sem birtist í eldingarhugsuninni, þegar þögnin er mælskari en orð.

Hugsuðurinn sagði: „Ó sérfræðingur, þú ósýnilegi, þegar ég segi þér bestu orð mín, þá veit ég að hugsanir mínar um ást til þín hafa ekki enn verið tjáðar.

399. Urusvati veit að málmar geta flýtt fyrir flutningi hugsunar í fjarlægð. Þetta fyrirbæri var þekkt jafnvel í fjarlægri fortíð og úr þessari þekkingu uxu vísindi um málmblöndur. Myndir var hægt að steypa með réttum samruna málma. Enn í dag er hægt að finna slíka hluti, en ekki er hægt að greina eiginleika málmblöndunar án þess að skemma myndirnar sjálfar.

Eitt annað skilyrði kemur í veg fyrir rétta rannsókn á þessari þekkingu sem skilin var eftir úr fornöld. Upphaflega voru myndirnar settar á einangraðar málmplötur, en þar sem plöturnar voru aldrei varanlega festar við myndirnar var leyndarmálið að sameina málma tryggt. Við höfum þegar talað um þessa einangrunarplötu sem hendurnar voru settar á.

Síðar voru upprunalegu vísindalegu markmiðin hulin, myndirnar urðu eign musteranna og fólk fór að tilbiðja þær, eftir að hafa gleymt upprunalegum tilgangi þeirra. Í fornöld var sköpun málmblöndu rannsökuð vandlega. Fólk sem vildi eiga samskipti sín á milli höfðu afritaðar myndir og það vissi að hagstæðum skilyrðum yrði að halda.

Ég tala um þessi fornu afrek til að minna marga samtímamenn okkar, sem eru stoltir af fjölmörgum uppgötvunum sínum en geta oft ekki haldið uppi einföldustu skilyrðum sem nauðsynleg eru fyrir tilraunir sínar. Ennfremur vill fólk ekki læra þolinmæði. Það ætti að hugsa um hversu mikla þolinmæði fornmenn þurftu til að rannsaka málmblöndur. Þegar aldirnar liðu voru nokkrir málmar gleymdir og síðar enduruppgötvaðir. Það er lærdómsríkt að athuga hversu margt gleymdist af mannkyninu! Þar á meðal var radíum, sem til forna hét öðru nafni; það var kallað „hjarta festingarinnar“.

Hugsuðurinn geymdi mynd sem var send til hans frá Indlandi. Hann sagði: „Fólk gæti haldið að þetta sé gert úr venjulegum málmi, en nei! Ég finn fyrir hjartanu í því. Það geislar frá sér hlýju og getur læknað.“

400. Urusvati veit hversu áhugalaust og gleymt fólk er um liðna tíma. Það gerir sér ekki grein fyrir því að menning nútímans tengist fortíðinni, fólk niðurlægir hana og takmarkar þannig þekkingu sína á nútíðinni. Síðastliðin fortíð er óljóst minnst og hin fornu tímabil eru algjörlega gleymd. Þannig takmarkar fólk umfang lífsvitundar sinnar.

Það er merkilegt að á meðan fólk er í fíngerða heiminum fær það upplýsingar um elstu tímabil, en aðeins fáir geta varðveitt minningu um þessa þekkingu í í næstu jarðvist. Ef menn finna síðar minjar frá þessum fornu tímabilum þekkja þeir þær almennt ekki. En áþreifanleg sönnun, eins og líkamleg snerting við hluti frá þessum tímum, er í raun ekki nauðsynleg. Aðalatriðið er að varðveita djúpt í vitund manns fullvissu um tilvist þeirra.

Það er staðreynd að það er ákveðin samfella á milli tímabila. Þannig var forn menning Egyptalands og Maya tengd Atlantis, sem aftur var tengd Lemúríu. Hið sönnu hughrif af þessu verður að koma frá fíngerða heiminum og muna, rétt eins og líf í fjarlægum heimum ætti að muna. Þó sumar minningar haldist í formi ævintýra, þá sannfæra þau fólk ekki. Slík fáfræði um fortíðina og framtíðina takmarkar vitund mannsins og gerir hann að þræl nútímans.

Við erum alltaf sorgmædd þegar við sjáum að jafnvel vísindi, sem ættu að þjóna til að víkka út vitundina, takmarka hana í staðinn.

Hugsuðurinn var vanur að sýna gamlan stein og sagði: „Leyfðu þessu vitni að minna okkur á hið liðna líf."

401. Urusvati veit að það þarf að upplifa fjóra hluti fyrir umbreytingu jarðlífs: skynjun fortíðar, skynjun fjarlægra heima, skynjun fíngerða heimsins og skynjun stigveldis. En getur maðurinn skilið þessar fjórar undirstöður? Sérhver hugsandi manneskja mun vera sammála um að þessi grundvallaratriði sé ekki erfitt að skilja. Þau eru eðlislægur grunnur lífshugmynda manns, og um leið og þau eru meðtekin mun venjulegt líf umbreytast í fagran veruleika. En til þess að öðlast þennan skilning verður maður að rækta vilja sinn, því aðeins frjáls vilji getur gert þau hugtök að veruleika sem eru dauð fyrir mörgum.

Hinn venjulegi maður mun segja: „Hvað hef ég að gera með stigveldi sem ég sé ekki? Af hverju þarf ég fíngerðan heim sem ekki er hægt að nota í mínu eigin lífi? Hvaða hagnað eða gagn hef ég af fjarlægum heimum? Leyfðu fortíðinni að deyja með öllum sínum kistum og beinum.“ Hann skilur ekki að fortíðin liggur ekki aðeins í beinum hennar. Hann skilur ekki að hinir fjarlægu heimar eru jafnvægi alheimsins. Hann getur ekki þekkt fíngerða heiminn vegna þess að hann heyrir ekki rödd þagnarinnar. Hvað er stigveldi fyrir þann sem ímyndar sig konung alheimsins?

Ekki halda að það sem Ég segi sé óréttlátt. Því miður eru svona sljóar vitundir í meirihluta. Menn leita ekki neins og viðurkenna ekki tilvist neins utan heimilis síns. Meðvitund þeirra er óvirk og virðist dauð, en án þess að vitundin gjósi getur viljinn ekki logað. Vitundin hvíslar ekki að þeim að umbreyting lífsins sé á valdi þeirra. Við finnum fyrir byrði þessarar dauðu á jörðinni.

Hugsuður sagði: „Sá sem hafnar hugsun þarf ekki að lifa áfram.“

402. Urusvati veit að hugsjónahyggja og efnishyggja eru blekkingarhugtök. Það kunna að vera þeir sem vilja meina að þær fjórar undirstöður sem ég hef nefnt séu hugsjónalegar og falli ekki að efnishyggju. En þessir lærðu afneitarar hafa ekki lagt sig í líma við að skoða hvert hugtak frá raunverulegum sjónarhóli efnishyggjunnar.

Hvernig geta þeir sagt að vísindaleg rannsókn fortíðar, líf fjarlægra heima eða enn ófundinna orku, sé ekki efnisleg? Og hvað stigveldið varðar, þá hefur hver afneitari sitt eigið „stigveldi“ og virðir það jafnvel meira en við myndum mæla með fyrir hið sanna stigveldi! Ef við skoðum hvert hugtak út frá efnislegu sjónarhorni, munum við komast að þeirri niðurstöðu að allt sem er til er efni. En hvað með hugsjónalega sannfæringu? Það getur ekki verið utan efnis, þó hún snerti hæstu svið þess. Þannig sjáum við að bæði efnishyggja og hugsjón eru illa skilgreind hugtök.

Maðurinn leitast við að gera sér grein fyrir hinum mikla veruleika og til þess býr hann yfir hæfileikanum til að rökræða. Hann hefur komist að þeirri niðurstöðu að hugsun sé orka og það sýnir að gildar rannsóknir munu skila áþreifanlegum niðurstöðum. Maðurinn fetar ákaflega vísindalegan farveg og að því gefnu að vísindin séu hrein og fordómalaus eru engar hugmyndir, hversu háleitar sem þær eru, sem samrýmast ekki vísindalegum aðferðum.

Mannkynið heldur áfram í samræmi við vísindakenningar, en framfarir eru of hægar og fáfræði hindrar alla framfarir. Það er kominn tími til að úrelt hugtök falli í burtu, annars munu frumkvöðlar sem eru mikilvægir, reynast á endanum mestu hindranirnar.

Hugsuðurinn varaði lærisveina sína við að verða ekki fórnarlömb takmarkaðra, afturhaldssamra skilgreininga.

403. Urusvati veit að meirihluti fólks, í stað þess að velja ábyrga samvinnu, kýs að vera áfram í óvirku námi. Það kýs að vera hlustendur og lesendur, og þegar stundin kemur að þeim að sýna kraft andans tvístrast þeir.

Menn verða að muna eftir svikum sögunnar þegar svikararnir sýndu einstakan hæfileika til að hverfa. Það er alltaf hægt að finna svikara meðal lærðustu fylgjenda, en það kemur ekki á óvart, þar sem þeir hefðu ekkert að svíkja án þekkingar. Það er lærdómsríkt að rannsaka örlög þessara svikara. Stundum enduðu þeir í myrkri örvæntingu, en oftar hrakaði líf þeirra í dapurlega stöðnun.

Manstu örlög svikara Upâsikâ? Það sást að þeir misstu „gjafir“ sínar og í gremju flýttu sér út í myrkrið. Sumir þeirra reyndu að endurbæta, en karmabyrðin vó þungt og dró úr vitinu.

Ákveðnar dagsetningar eru gefnar mannkyninu til að minna á þessi svik sem höfðu áhrif á karma heilu þjóðanna, en jafnvel slík sláandi dæmi snerta varla vitund mannsins. Rétt eins og lítill steinn gefur af sér smá skvettu, getur tilfinningalaust hjarta ekki verið áhrifaríkt gegn myrkri. En stundum, á minningardegi, mun jafnvel slíkt hjarta vita hversu myrkur svikarinn er.

Hugsuður benti á að guðirnir fyrirgefa ekki svik.

404. Urusvati veit hversu mikils Við metum hugsun um list. List betrumbætir smekk manns, en hún hjálpar manni líka að skilja hugsanamyndir. Það er nauðsynlegt að venja sig við hvers kyns skynjun. Við lesum kannski mikið um ýmis fyrirbæri, en það er ekki auðvelt að breyta því sem lesið er, í raunverulega skynjun.

Til dæmis gæti maður hafa lesið mikið um hugsanamyndir, en þegar maður fer inn í fíngerða heiminn verður maður ruglaður vegna ofgnóttar mynda í geimnum. Aðeins reyndir áhorfendur sem raunverulega skilja list og geta nýtt sér háleitustu myndirnar í hugsun sinni geta túlkað þessa skuggamyndir. Náttúran er vissulega besta uppspretta slíkra mynda, en maður verður að vita hvernig á að fylgjast með henni. Í þessu munu verk hinna miklu meistara koma að gagni. Eins og seglar laða þeir að sér augu og tilfinningar og í gegnum þá getur fólk lært hvernig á að nálgast náttúruna.

Hægt er að fylla rýmið með fallegum myndum sem hjálpa til við að undirbúa leiðina að samræmi. Samt fremur fólk alvarlegan glæp með því að fylla rýmið með ljótleika. Það mun taka langan tíma og mikla þjáningu fyrir mannkynið að átta sig á því hversu glæpsamlegt það er að búa til ljótleika og illsku. Skiljið þetta frá öllum hliðum þess. Birtingarmynd fegurðar mun lækna og mun leiða mann örugglega yfir hvert hyldýpi.

Hugsuður spurði ítrekað: „Hvenær eigum við loksins að rísa upp frá dauðum?“

405. Urusvati veit að við að kalla fram nýja orku þarf að gæta mikillar varúðar. Orkan sem kölluð er til þyrlast í geimnum og maður getur ekki vitað hversu mikið dreifing þeirra er eða hvort það gæti verið ofmettun á rýminu. Þvinguð framköllun slíkrar orku getur valdið hættulegum hamförum. Þekkt eru dæmi um hamfarir sem hafa orðið af taumlausri græðgi mannkyns. Ómögulegt er að segja til um hvenær ofhleðsla í rými getur átt sér stað, en þó má sjá vaxandi hættu.

Straumar milli pláneta geta verið mjög íþyngjandi, en hættan er ekki í þeim, því að slíkir straumar eru í eðli sínu jafnvægi. Það er kæruleysisleg notkun frjáls vilja mannsins sem getur sleppt lausum eyðandi skrímslum sem raska jafnvæginu. Fólk veit kannski ekki að það getur raskað jafnvægi plánetunnar, en það er í þeirra valdi að kalla fram eyðandi orku af slíkum styrkleika að tómarúm í geimnum mun aukast.

Fólk er að þenja orkuna og hunsa þá staðreynd að hvert upphaf hefur sinn endi. Eldur fallbyssu getur valdið rigningu, en þetta er bara frumstætt dæmi. Útvarpsbylgjur þykkja andrúmsloftið en samt fjölgar útvarpstækjum án takmarkana. Verksmiðjueigendum er alveg sama hvaða sjúkdómum þeir valda og hægt er að fylgjast með mörgum tilfellum af ertingu í slímhúð og illkynja æxlum. Fólk lítur ekki á eigin vilja sem líklegt tilefni, né gerir það sér grein fyrir því að ný fórnarlömb munu birtast sem munu gjalda með lífi sínu.

Við getum sagt með vissu að öllum viðvörunum Okkar er mætt með háði. Það eru tvenns konar fáfróðir menn: Sumir eru fáfróðir vegna skorts á námi og aðrir einmitt vegna náms. Þeir síðarnefndu eru þeim mun hættulegri því þeir leyfa enga mótsögn. Það er ekki hægt að tala við þá um hærri heima, en þeir ættu að vita að einn dropi gæti yfirfyllt kerið.

Hugsuðurinn sá um að lærisveinar hans töluðu við fólk um fyrri hamfarir.

406. Urusvati veit að pralaya er kerfisbundið og óumflýjanlegt fyrirbæri. Nótt fylgir jafnvel bjartasta degi og erfiði og árvekni fylgir svefn. Uppsafnaðir fjársjóðir eru faldir í leynilegum geymslum þeirra, aðeins til að birtast aftur umbreyttir. Þessar breytingar má sjá, ekki aðeins í stórum kosmískum fyrirbærum, heldur einnig í daglegu lífi.

Við skulum nefna dæmi um menningarbreytingar. Útlit nýrrar menningar virðist vera háð eyðileggingu fyrri afreka. En eftir vandlega athugun er hægt að sannreyna að endurtekin viðleitni mannlegrar vinnu hafi ekki verið til einskis og með tímanum fari þeir að birtast aftur á breyttan hátt.

Við getum gefið mörg dæmi úr lífinu, þegar augljós eyðilegging einhvers hjálpaði í raun við endurnýjun þess. Tökum sem dæmi þekkinguna um Turninn okkar. Mannkynið virðist viðurkenna það á einni stundu og á þeirri næstu gleymir næstum tilveru Okkar. Þessar bylgjur eru ekki tilviljun, og hver þróunarbylgja hefur sitt pralaya. Aðeins slíkar breytingar valda vaxandi spíral þekkingar.

Sama ferli á sér stað með tímabil skapandi athafna, en vitrir vita að sérhver vinna verður að hafa sinn hvíldartíma. Við ætlum ekki að hvetja til eða réttlæta iðjuleysingja, heldur erum við að tala um upplýsta starfsmenn. Þeir munu þekkja í hjörtum sínum flóðið sem boðar flóð sköpunargáfunnar.

Hugsuðurinn kenndi fólki að skilja flóð og fjöru sköpunarkraftsins. Hann var vanur að segja: „Haf mannkynsins hefur sína röð af orku. Tökum þannig á móti gjöfum gyðjanna."

407. Urusvati þekkir tilfinninguna fyrir hrifningu og lotningu, sem stundum er kölluð forn eða frumleg lotning. Þessi tilfinning getur stafað af margskonar upplifunum, allt frá tónlist sviðanna til þrumandi storms, sem vakti ekki ótta, heldur lotningu í hjörtum fornmanna, sem skynjuðu máttleysi sitt andspænis frumöflunum.

Við munum öll eftir því að hafa vaknað í greipum óútskýranlegrar skelfingar. Þessi tilfinning getur stafað af atburðum í heiminum eða af áhrifum frá neðri sviðum, en hún er oft afleiðing af áhrifum frumaflanna.

Fólk gerir ekki skýran greinarmun á tilfinningu ótta og lotningar. Augnablik í myrkri geta vakið lotningu sem er mjög lík angistartilfinningu. Þetta er stundum kallað heimskvöl, því að það er eitthvað kosmískt við slíka beina þekkingu. Sérhver fágaður hugsuður upplifir þessar þungu tilfinningar, því án þeirra er tilveran ekki fullkomin.

Sumir kunna að spyrja hvort Við upplifum líka slíkar tilfinningar. Svo sannarlega, þekkjum þær og upplifum þær mjög sterkt. Til eru þeir sem vilja halda að Við sé laus við slíkar tilfinningar, en án þeirra myndi tónlist sviðanna ekki heyrast. Að fága slíkar tilfinningar mun hafa áhrif á alla lífshætti manns.

Allir sem vilja koma nærri Okkur verða að vera reiðubúnir til að gleðjast og þjást. Lífið er fullt af sólarupprásum og sólarlagi.

Hugsuðurinn benti stöðugt á, að fólk veit ekki hvar upphafið er né endirinn.

408. Urusvati veit hvers vegna, jafnvel eftir skýran draum, að ekki er hægt að muna öll smáatriði hans. Jafnvel sterkustu fíngerðu upplifanir geta ekki staðist jarðneskan veruleika. Það er ekki vegna þess að minning getur ekki haldið óvenjulegum áhrifum, heldur vegna þess að eðli jarðar og fíngerða heimsins er gjörólíkt.

Það kemur ekki á óvart að maðurinn sé svo takmarkaður í jarðneskum líkama sínum, því hann gæti ómögulega staðist spennuna sem oft er ríkjandi í fíngerða heiminum. Vegna fínleika íbúa fíngerða heimsins komast þeir auðveldlega inn í rými fíngerðu orkunnar og kraftur sem getur eyðilagt jarðneskan líkama styrkir þá fíngerðu. Það þarf að muna, því maður getur varla ímyndað sér hversu ólíkt eðli þessara tveggja heima er.

Misheppnaðar tilraunir í efnisgerð hafa einnig sýnt að jarðnesk viðmið eiga ekki við í fíngerða heiminum. Við slíkar tilraunir er alltaf möguleiki á truflandi ósamræmi meðal viðstaddra. Einnig ætti að íhuga og prófa strauma andrúmsloftsins og skrá hvað hefur gerst á sama stað fyrir tilraun.

Reykelsið sem notað er til að samræma andrúm er aðeins líknandi og getur ekki eyðilagt mörg efni. Samt verður að undirbúa bestu aðstæður fyrir hverja tilraun. Stundum heppnast tilraun þó að aðstæður séu ekki fullkomnar, en þá þarf að eyða mikilli viðbótarorku sem hefur slæm áhrif á heilsuna.

Hugsuðurinn kenndi að ekki ætti að sóa einum dropa af guðdómlegri orku.

409. Urusvati veit hversu oft fólk biður um hið ómögulega. Ef það gæti litið inn í fjarlæga fortíð myndu það skilja hvers vegna ákveðnar aðstæður eru ekki mögulegar fyrir þá, en aðeins í sjaldgæfustu tilfellum er fólk fær um að lyfta hulunni af fortíðinni.

Aukin vitund getur gefið merki sem gerir fólki kleift að skynja hvað er mögulegt og hvað ekki. Með því að hlusta á rödd vitundarinnar getur maður greint þessi mörk, en það er ekki auðvelt að finna lykilinn að gáttum vitundarinnar. Fólk skyggir á vitund sína með ástríðum sínum; í stað viturlegrar viðvörunar heyrir það rödd eigin sjálfselsku og geta ekki séð hvar virk hjálp liggur og hvar þeirra eigin ranghugmyndir eru. Það er einnig erfiðara fyrir fólk að rata í þessu völundarhúsi, þegar það skilur ekki hver af ástríðum þeirra er ríkjandi.

Oft nær brennandi löngun ekki markmiði sínu, en orð sem varla er borið fram reynist áhrifaríkt. Hér er aftur sönnun um fíngerða heiminn. Kraftur jarðneskra tár getur haft sín áhrif, en hugsun sem er í samræmi við fíngerða heiminn er miklu öflugri. Fólk hugsar svo lítið um fíngerða heiminn að það er kannski ekki meðvitað um þessi áhrif. Það er vonlaust að búast við því að skilaboðin Okkar berist fullkomlega ef hjartað er ekki opið. Margoft höfum við ráðlagt að halda hliðum vitundarinnar opnum, en því miður koma rimlar og boltar í veg fyrir hjálp.

Hugsandinn bað lærisveina sína: „Lokið ekki sálum yðar.“

410. Urusvati veit að fólk er sjaldan fært um að eiga andleg samskipti þegar það höfðar til hærri sviða. Í gegnum allar aldir hefur verið boðið upp á hjálp með ýmissi bænaframsetningu, en margar þeirra hafa glatað upprunalegri merkingu sinni með tímanum og eru endurteknar af skilningslausu fólki.

Spyrja má á hvaða tungumáli og með hvaða hætti best sé að höfða til hærri sviða. Við munum svara því, að það sé hægt á hvaða tungumáli sem er, en best er að nota móðurmálið þitt, sem tjáir hugsunina auðveldast. Láttu tjáningu þína og hugsun vera þína eigin; af hverju að leggja orð annars manns á minnið þegar þú getur tjáð frjálslega eigin tilfinningar? Þegar fólk talar hvert við annað notar það sjaldan orð annarra, og þegar hinn hæsti er ávarpaður, ættu fólk að tala á sinn eigin hátt. Fólk ætti að skilja að ekki þarf að tala til hæstu vitundar með tilbúnum formúlum eða lærðum versum, þegar bein skírskotun frá hjartanu er persónulegri. Í öllu ætti að nota innilegt orðbragð án vandræða, því einföldustu orðin eru alltaf sterkust.

Við gætum þess að tala einfaldlega og þegar það verður ómögulegt að koma flóknari tilfinningum á framfæri í orðum, þá munu þögul, andleg skilaboð hjálpa.

Hugsuðurinn sagði: „Þegar ég get ekki tjáð tilfinningar mínar með orðum, þakka ég bara, því ég er viss um að hjálp hefur verið veitt.“

411. Urusvati veit að óþolinmæði er óæskilegur eiginleiki sem oft er ruglað saman við aðra eiginleika. Til dæmis er hægt að líkja því við viðleitni, en er öðruvísi í eðli sínu. Stöðug viðleitni er samhljóma og myndar fagra takta, á meðan óþolinmæði er ósamræmi , óregluleg og með truflandi takti. Óþolinmæði sýnir vanþekkingu á því grundvallarlögmáli að kjarni tilverunnar er stöðug hreyfing. Aðeins þolinmóð, vakandi og stöðug athygli getur leitt í ljós kraft orkunnar.

Finndu því jafnvægið milli athafna og þolinmæði; án þessa jafnvægis finnurðu engan takt og enga sanna samvinnu. Einstaklingur í ójafnvægi mun segja: "Ég get ekki beðið lengur!" og í þessum orðum kemur í ljós getuleysi hans. Skortur á krafti er skortur á vilja, því viljinn er þróaður með mannlegum krafti. Ef við skoðum alla þessa eiginleika munum við komast að þeirri niðurstöðu að þeir séu háðir mannlegu valdi.

Einn mun hrópa: "Ég er óþolinmóður að eðlisfari." Látum hann frekar segja að venjur hans hafi valdið honum missi viljans. Þá skulum við taka aðra öfga, þá sem líta á þolinmæði sem aðgerðaleysi, og í þeirri villu framkalla nýjar þjáningar. Sannarlega er hægt að sameina erfiðustu þolinmæðina og ákafa hreyfingu.

Ef fólk getur ekki greint stöðuga hreyfingu efnistilverunnar, getur það samt unnið gott verk innan getu þeirra. Fornmenn sögðu: „Við skulum vinna á meðan við bíðum.“ Að öðlast hæfni er besta ögunin fyrir þolinmæði og er innan seilingar fyrir allt mannkyn.

Látum erfiði Okkar þjóna sem áminningu um virka þolinmæði. Þolinmæði gefur vinnu Okkar nákvæmni og í hærri eiginleikum vinnunnar munum við skilja merkingu samhljóma.

Hugsuðurinn sagði: „Ég vildi gjarnan hafa í allri vinnu strengjahljóma geimsins. Tónlistin mikla er verk gyðjanna, verndara okkar.“

412. Urusvati veit að hnignun vitundar er verri en nokkurt stríð, drepsótt eða jarðskjálfti. Hún læðist óséð og fremur athafnir sem munu hrylla sagnfræðinga framtíðarinnar. Það veldur því að fólk missir sjálfsvirðingu sína, verður illgjarnt og hunsar eigið nauðsynlegt framlag til komandi kynslóða. Vitundarrýrnun veldur því að rithöfundar skapar viðbjóðslegar myndir og að veikleikinn sitja í dómarasæti.

Mundu það sem er skrifað í Vishnu Puranas, þar sem í þeim fornu spádómum við getum séð nútímann. Það kann að virðast sem hinn ógurlegi tími sem þar er lýst sé ýktur, en fylgstu með því sem nú er að gerast og þú munt vera sammála því að fornu spárnar voru jafnvel vanmat. En fólk sem veldur slíkri óreiðu hefur engan áhuga á fornum viðvörunum.

Það er sérstaklega hræðilegt að meirihlutinn vill ekki skilja atburði líðandi stundar. Þeir dansa, versla og halda að nútíminn tákni hámark afreksins. Berðu saman það sem er að gerast núna við atburðina á öðrum hnignunartímabilum og þú munt komast að því að þeir eiga sameiginleg einkenni. Fólk dreymdi einu sinni um landvinninga og töldu sig vera löglega herra heimsins, en hversu skyndilega hrundu þessir Babelsturnar! Mörg tákn hafa verið skilin eftir fyrir mannkynið, en þau eru rotnandi minjar.

Hugsuðurinn sá fyrir þessar hörmungar. Hann sagði: „Teldu ekki dagana þar til þú ert beðinn um að gera grein fyrir allri hræsni þinni. Þú ættir að þvo þig hreinan í dag!“

413. Urusvati veit að kosmískir straumar, sem eru gagnlegir í eðli sínu, geta orðið eyðileggjandi þegar þeir komast í snertingu við fúlt andrúmsloft jarðar. Oft er hægt að gera hagkvæmustu efnasamböndin að illvígum eiturefnum með því að bæta við einu innihaldsefni. Sama á sér stað þegar geimstraumar verða fyrir áhrifum af brúnum lofttegundum jarðar. Jörðin sjálf á ekki sök á þessum skaðlegu gufum. Það er konungur plánetunnar, maðurinn, sem framleiðir eiturefnin.

Sumir vísindamenn munu vera sammála, þó með fyrirvara, að útstreymi manna umbreytir andrúmsloftinu. Engin útgeislun er eins öflug og manneskjan, sem er bæði fær um að lækna og eitra allt í kringum sig. Það eru ekki smitsjúkdómar fólks sem eitra andrúmsloftið, heldur erting þess, reiði og illgirni. Við skulum kanna hversu fáar góðar útgeislanir birtast á jarðskorpunni í einu samanborið við fjölda illgjarnra hugsana.

Ég er ekki að ræða um óhlutbundin hugtök, heldur að gefa læknisráð. Mannkynið þjáist af ertingu í slímhúð og illkynja æxlum, sem koma fram með slíkri tíðni að þau taka á sig umfang farsótta. Margar orsakir hafa verið lagðar fram en litið er fram hjá þeirri staðreynd að slíkar farsóttir eru afleiðing staðbundinna áhrifa.

Græðandi og hreinsunaraðgerðir eru nauðsynlegar fyrir jörðina. Sýktu lögin verða að hreinsa og aðeins maðurinn getur gert það. Ef íbúar jarðar íhuga ástand sálarorku sinnar og gæta þess að hún versni ekki, mun umbótaferlið hefjast. Hættulegustu farsóttirnar geta verið stöðvaðar með ósýnilegum öflum og maður getur hafið slíka vörn í daglegu lífi sínu.

Hugsuðurinn varaði við: „Ekki viðurkenna illsku, uppsprettu allra sjúkdóma.“

414. Urusvati veit að eitraðir straumar virka ekki aðeins á þá sem skapa þá með illgirni, heldur einnig á aðra sem eru saklausir af slíkum athöfnum. Hreinsaðar lífverur geta orðið þær fyrstu sem þjást og ábyrgðin er þung á þeim sem stuðla að eitrun straumanna.

Maður getur rannsakað að hve miklu leyti eitrið sem mannkynið hefur búið til hefur breiðst út. Manninum má líkja við heimskan bogamann sem skýtur örvum sínum stefnulaust í þéttbýli borgar og vera sama hvern þær hitta. Þannig var það í fjarlægri fornöld og er enn nú í enn ríkari mæli. Vísindin verða að útskýra fyrir mannkyninu að slík framleiðsla eiturefna er augljóslega óheimil. Berðu saman mörg tæknileg afrek mannsins við vanrækslu hans á sálarorku og þú munt skammast þín fyrir að þetta mikilvægasta svið hafi verið gleymt og jafnvel fordæmt.

Margar af sálfræðilegum hugmyndum nútímans eiga ekki við um lífið og í núverandi ástandi plánetunnar getur maðurinn ekki sóað tíma í slíkar kenningar. Við hljótum að vera sammála um að allt sem ekki leiðir til umbreytingar lífsins eigi að teljast ónýtt og í því má ekki vera ágreiningur. Maður getur fært sig fram eða aftur, en að fara til baka til gleymdra steingervinga væri óþolandi.

Það ætti ekki að vera neinn ágreiningur milli þín og leiðsögumanna. Það er hægt að hugsa á mismunandi tungumálum eða klæðast öðrum flíkum, en það má ekki víkja frá grunninum. Hugsaðu um turnana okkar. Það væri óskynsamlegt að taka ekki þátt í hreinsun sálarorkunnar.

Hugsuðurinn varð skelfingu lostinn þegar hann tók eftir því að fólk íþyngdi sjálfu sér með afneitun. Hann sagði: "Betra er að hlaða sig stórum bjargi en að afneita tilverunni."

415. Urusvati veit að sérhver kennari getur lent í svipaðri stöðu og Við. Svo lengi sem hann leiðbeinir einfaldlega um grundvallaratriði lífsins, verður hlustað á hann og hann samþykktur, en um leið og hann höfðar til fólks um að beita fyrirmælum hans í raunveruleikanum, þá tvístrast áheyrendur. Slík eru örlög margra ráðlegginga Okkar.

Fólk er sammála um að ráðin séu góð og ætluð til hins besta, en vill ekki beita þeim í eigin lífi. Ef eitthvað er viðurkennt sem gott og verðugt, hvers vegna er því þá ekki beitt? Gefum slíku ósamræmi athygli. Það má nefna mörg dæmi þar sem gagnlegustu og auðveldustu aðgerðunum var hafnað. Eftir það sáu sumir eftir að hafa hafnað góðu ráðinu, en lífið var þegar hafið á nýjan leik.

Kennarinn mun segja að það sé gagnslaust að sjá eftir fortíðinni, og hann mun hafa rétt fyrir sér, því eftirsjá er fjötur. En menn ættu að kanna hvers vegna ráðleggingunum var ekki beitt og meðal ástæðna munum við finna ótta og eigingirni. Þessir nöðrur geta breytt áhugasamasta hlustandanum í taumlausan andstæðing! Í afneitun sinni mun hann þróa með sér sérkennilegt brjálæði og mun blekkja til að réttlæta sjálfan sig og frávik sín. Kennarinn þekkir þessa mannlegu eiginleika og hann mun ekki sjá eftir fræjunum sem hellt hafa verið út, því að jörðin gæti gefið af sér óvænta uppskeru. Við höfum fylgst með aftur og aftur hversu ólík hlustun er fjarri raunverulegri notkun. Við horfum inn í framtíðina og í þessari þrá finnum við staðfestu og hugrekki.

Hugsuðurinn óskaði þess að allir vinir gætu hugleitt framtíðina.

416. Urusvati veit að orkubylgjur geta raskast, ekki aðeins með grófum efnisaðferðum heldur einnig með fíngerðum gastegundum. Alhliða rannsókn á truflunum á hljóði og öðrum bylgjum ætti að fara fram. Jörðin er umvafin gasskýi og á síðasta aldarfjórðungi hefur þessi óheillavænlega hula þétts ótrúlega.

Það er ótrúlegt að margar tilraunir ná árangri þrátt fyrir þessa hindrun. Ég hef fyrst og fremst í huga miðlun hugsunar í fjarlægð. Að vísu er hugsunarorkan gegnumgangandi og ekki bundin af fjarlægð, en jafnvel hún er háð röskun af gasi. Fólk veit ekki hvaða skaði verður fyrir þróunina með því að búa til eyðileggjandi lofttegundir og enginn getur metið hversu langt þessar lofttegundir dreifast og hvaða efnasambönd þau mynda.

Við höfum heldur ekki minnst á banvænar vörur sem búnar eru til, til vísvitandi eyðingar. Allir þekkja áhrif þeirra á andrúmsloftið og jarðveginn; slík eitur eru mannkyninu til skammar. Ennfremur, auk þessara, eru margar nýjar lofttegundir framleiddar sem stuðla að þessari óheillavænlegu hulu jarðar.

Við gætum gefið efnafræðingum tækifæri til að finna upp hlutleysandi gas, en það væri mjög erfitt að nota það. Jafnvel þótt hægt væri að vernda takmarkað svæði, væri ekki hægt að ákvarða hversu mikil innilokun og hlutleysun eyðingargassins væri. Mannkynið skapar nýjar hættur og borgar fyrir þær með nýjum sjúkdómum. Mannkynið ber ábyrgð á eigin heilsu á jörðinni, en það er ófyrirgefanlegt þegar fíngerðu sviðin verða fyrir skaða.

Hugsuður sá fyrir löngu hversu eitraður reykur frá ofnum og bálum gæti verið. Þegar hann sá kveikt blys, sagði hann: „Hver mun þurfa að anda að sér slíku eitri?

417. Urusvati veit að plánetustraumurinn á hverju augnabliki hefur einstaka þýðingu, en þessi einfaldi sannleikur er ekki skilinn. Fólk mótmælir harðlega þeirri staðreynd að öll tilvera er á stöðugri hreyfingu. Jafnvel fegurð slíks straums í takmarkalausu rými nær ekki að örva ímyndunarafl mannkyns.

Samt, hvernig getum við skilið þróun ef vitund okkar hefur ekki samþykkt meginregluna um hreyfingu? Fólk veit um hreyfingu plánetnanna en beitir þessu lögmáli ekki á sjálft sig og á meðan jörðin snýst, heldur mannkynið fast í hugmyndina um hreyfingarleysi. Þannig er hvert orð um fegurð hreyfingar grafið undan tregðu mannlegrar meðvitundar. Í slíkri andstöðu við tilveruna, hvernig getur maður búist við skjótum þroska?

Í daglegu lífi má oft sjá frumstæðan persónuleika hjá annars lærðu fólki. Vegna þessa höfum við orðið fyrir andstöðu manna í öllum tilraunum okkar. Það er sérstaklega sláandi að svo margir sem líta á sig sem nútímamenn, eru í raun og veru vonlausar fornleifar. Ég fullyrði, að þar til kosmíski straumurinn er viðurkenndur geta engar sannar framfarir orðið.

Fólk reynir stundum að komast áfram í stökkum, knúið fram af ótta eða fordómum eða af ástríðum sínum, en það er ómögulegt að komast áfram í stökkum. Stöðug, kerfisbundin hreyfing er nauðsynleg í öllu, og aðeins í gegnum gullna meðalveginn er hægt að komast áfram.

Sömuleiðis, munið að við fögnum samstarfi sem byggir á frjálsum vilja, því örlögin byggja einmitt á frjálsum vilja. Hvernig getum við sannfært fólk um þennan sannleika? Augljós meðvitund um fíngerða heiminn er þröskuldur framfara.

Hugsuðurinn sagði: „Happ okkar er að framfarir okkar geta ekki stöðvast.“

418. Urusvati veit hversu erfitt það er að viðurkenna manneskju sem hefur náð þeirri sálarorku sem krafist er fyrir sanna skynjun á raunveruleikanum. Engir ytri eiginleikar munu sýna þann sem er fær um svo víðtæka skynjun. Ekki er krafist náms eða þekkingar, engin sérstök líkamleg einkenni, heldur einfaldlega skilningsríkt hjarta sem er opið fyrir leyndardómum vitundarinnar.

En þessi lótus opnast ekki auðveldlega og villur eru á veginum. Fólk verður of auðveldlega fyrir áhrifum frá yfirborðslegum áhrifum. Það hefur tilhneigingu til að gleyma fyrstu beinu áhrifunum sínum og verður of auðveldlega undir áhrifum frá þeim síðari, sem í yfirborðsmennsku sinni er hefðbundnari. Einnig myndast dómar of oft undir áhrifum orða annarra og því verður ómögulegt að snúa aftur til fyrstu skynjunar. Fólk gleymir hversu margar hindranir það sjálft skapar.

Sérhver samstarfsmaður þarf að þekkja alla möguleika. Auðvitað eru til margir samstarfsfélagar, en þeir eru dreifðir um allan heim, tala mörg tungumál og tilheyra ólíkum hefðum. Þessar yfirborðslegu hindranir verður að yfirstíga ef menn vilja nálgast fólk og geta viðurkennt raunverulegt gildi þess. Þannig er mikilli orku varið í erfiði okkar til að skilja mannlegt hjarta. Það er ekki nóg að dæma eingöngu eftir fyrstu kynnum. Maður verður að horfa inn í vitund annarra við margvíslegar aðstæður.

Hugsuðurinn ráðlagði lærisveinum sínum að kanna vitund annarra dag og nótt.

419. Urusvati þekkir margar gerðir gleymsku. Það er gott fyrir mann að geta gleymt þeim skaðlegu gömlu tuskum, illsku og hefnd, sem standa í vegi fyrir framförum, en þessi hæfileiki er sjaldgæfur. Oftar hunsar maðurinn gagnlegar leiðbeiningar, vegna þess að þær raska venjum hans og ergja hann auðveldlega.

Hvernig getum við minnt fólk á ábyrgð sína og skyldu? Ég segi, með endurtekningu, og þó að fólk þoli það ekki, þá þarf stöðugar slíkar áminningar. Það er erfitt að minna á, án endurtekningar. En Við höfum verið verið vel þjálfuð í þessu og getum endurtekið, á meðan við bætum alltaf einhverju nýju við. Stundum getur ein vísbending bætt nýjung við heila setningu. Við verðum að læra að knýja spíralinn stöðugt áfram til að hlúa að gagnlegum meginreglum.

Hinir lötu munu spyrja hvort það sé þess virði að hafa svona fyrir hlutum sem gleymast hvort eð er, en þeir vita ekki um mettun geimsins, sem getur fyllst svo af hugsunum, að fólk verður fyrir áhrifum án mæltra orða. Persónulegt starf verður þannig kosmískt og þreyta verður ómöguleg.

Kennarar verða að sannfæra nemendur sína um þá miklu gleði að vinna að mettun rýmisins. Það skiptir ekki máli þótt áheyrendur sýni gleymskumerki, því þeir eru líka hluti af vistrými, þar sem sérhver gagnleg hugsun birtist sem fallegt blóm.

Hugsuður sagði: „Verum garðyrkjumenn og hjálpum blómum eilífðarinnar að vaxa.“

420. Urusvati veit, að þegar hjúpur fellur og er í samræmi við karmísk lögmál, verður að mæta því með gleði. Maður ætti að leggja af stað í nýtt ferðalag fullur vonar eða að minnsta kosti fullur forvitni - það er gott að elska að ferðast og þróa innra með sér hreyfanleika. Þessi tilfinning mun nýtast best í fíngerða heiminum, því jafnvel þar getur maður sokkið í óhreyfanleika andans.

Við vitum að viðleitni má ekki yfirgefa íbúa fíngerða heimsins, því þess er þörf í þágu fullkomnunar. Hvernig ætti þá að stefna að bjartari sviðum? Hver og einn ætti að taka það erfiða verkefni að sér að nálgast jarðvist í þeim tilgangi að gera gott gagn. En fólk á jörðinni getur ekki ímyndað sér hversu sárt það er að nálgast jarðsviðið. Það heldur að slík nálgun séu sjaldgæf, vegna þess að þeir taka ekki eftir öllum þeim fjölda sannanna sem umlykur það. Til dæmis trúir fólk því auðveldlega að hvert hljóð eða litur geti framkallað ákveðnar tilfinningar. Þetta er rétt, en mörg hljóð og litir fíngerða heimsins hafa enn öflugri áhrif, þó að jarðnesku skynfærin geti venjulega ekki skynjað þau. Þess vegna verður mannkynið að þjálfa sig í að fylgjast með þessum fíngerðu tilfinningum, sú þjálfun mun reynast gagnleg í fíngerða heiminum.

Við megum ekki gleyma því að hver íbúi fíngerða heimsins verður að hjálpa jarðneskum bræðrum sínum. Slíkur kærleikur er besta tryggingin fyrir hreyfanleika andans. Við skulum hugsa um að hjálpa bræðrum okkar og systrum við allar aðstæður. Við megum ekki halda að við séum aðskilin að eilífu frá hvaða sviðum sem er. Hvar sem ógæfa er, getum við veitt hjálp og enginn ætti að halda að það sé eitthvað undir virðingu hans.

Við þjónum mannkyninu, Við elskum mannkynið. Margir verkamenn eru áfram á jarðneskum sviðum svo þeir geti haldið áfram að vinna innan um allar hörmungar.

Hugsuðurinn endurtók oft: „Óséðir vinir, hvernig getum við tjáð ykkur þakklæti okkar?“

421. Urusvati veit um hina svokölluðu loftsugur, og einnig svipaða sugur sálarorku og rýmisstrauma. Þeir þjást allir af ójafnvægi sem skapast af mörgum orsökum - andrúmslofti, forneskja eða karma, og fólk getur orðið fyrir óhóflegum áhrifum af þessum orsökum vegna persónulegra venja sinna.

Fólk hefur fyrir löngu fundið leiðir til að endurheimta jafnvægið. Ein af fornu aðferðunum var pranayama, með taktföstum öndunaræfingum var hægt að finna jafnvægi sem vörn gegn of mikilli orkuinntöku. Ekkert getur verið meira eyðileggjandi en að neyta of mikillar orku.

Fólk er yfirleitt ekki meðvitað um hvenær það sýgur orku í óhófi. Að sumu leyti líkist slíkt fólk vampírum. Það er ekki auðvelt að lækna það, fólk þekkir ekki veikindi sín, sem geta líka verið smitandi. Þau byrjar svo ómerkjanlega að hvorki fórnarlambið sjálft né nákomnir taka eftir því að hann sé að verða orkusuga. Hann getur fundið fyrir einhverjum sársauka, en hann getur líka fundið flæði sálarorku sem gerir honum kleift að hafa áhrif á þá sem eru í kringum hann. Það er ekki hægt að segja að þetta ástand sé alltaf skaðlegt, en mörkin milli rétts krafts og óhóflegrar spennu eru fín.

Hugsuðurinn rannsakaði vandlega jafnvægi allra krafta mannsins. Hann var vanur að segja: „Láttu hinn gullna meðalveg gefa til kynna réttan mælikvarða á nauðsynlegan styrk.“

422. Urusvati veit um vandamálin sem fylgja blóðgjöf. Nú þegar er verið að taka tillit til eðliseiginleika blóðsins, en þetta eru frumstæð sjónarmið og ber að nefna tvo þætti til viðbótar. Það mun fljótlega koma í ljós að sálræn gæði blóðs eru sérstaklega mikilvæg og sá tími mun koma að karmískt ástand þess verður einnig tekið með í reikninginn. Aðeins með því að huga að öllum þremur þáttunum næst réttur árangur.

Þjóðerniseiginleikar blóðs verða minna áberandi eftir því sem þjóðirnar blandast saman. En lestur á árunni mun leiða í ljós annan, sálrænan mun. Karmísk sátt milli gjafa og blóðþega er nauðsynleg, því er blóðgjöf náinna ættingja kannski ekki sú besta. Fólk mun þurfa að greina karmísku tengslin og í þessu verkefni verða stjörnuspeki og skyggni góð hjálpartæki.

Segja má að þessar aðferðir taki of langan tíma þegar þörf er á tafarlausri blóðgjöf. En, fyrir utan neyðartilvik, skipta einn eða tveir dagar skipta engu máli. Jafnvel þegar um aðgerð er að ræða sem ekki er hægt að fresta er tími til greiningar og mikilvægast er að fara varlega við ákvörðun á gæðum blóðs.

Að blanda saman birgðum af blóðtegundum er sönnun um fáfræði. Frá bæði líkamlegu og andlegu sjónarhorni ætti að íhuga hvaða ósamrýmanlegir þættir hafa verið sameinaðir til að framleiða falska lækningu í stað raunverulegrar. Fólk skilur ekki hvað það er að undirbúa fyrir komandi kynslóðir. Annars vegar virðist þeim vera sama um hreinleika komandi kynslóða, en hins vegar gefur það hugsunarlaust blandað blóð.

Okkur þykir leitt að sjá hversu óspart fólk meðhöndlar öflugustu efnin. Sálfræðingar verða að auka þekkingu sína, því það eru þeir sem geta gefið mannkyninu nauðsynleg ráð. Þeir verða að kenna fólki að hugsa fágaðra, svo að þeir geti greint þau mörk sem ekki má fara yfir.

Hugsuður sagði oft: „Blóð er dýrmæt tengsl milli lífa.“

423. Urusvati þekkir þá fjölþættu þróun í læknisfræði sem fyrirséð er. Sálræn orka verður skilin og sjúklingar verða skoðaðir til að ákvarða eiginleika sálarorku þeirra. Meðferðin verður efld með því að beita viðeigandi orku. Það verður hægt að umvefja sjúkling með sérstakri tegund af hreinu lofti sem mun auka orku hans og jafnvel orku sem ástríkur fjölskyldumeðlimur sendir frá sér getur verið nýtt.

Hægt verður að rannsaka upptök margra kvilla sem eru duldir hjá sumum. Enn sem komið er, er sérstaklega hugað að slíkum sjúkdómsberum, en fjöldi þeirra er mun meiri en raun ber vitni. Hægt væri að rannsaka smitbera tiltekinna dulinna sjúkdóma sem yrðu gerðar án skaða. Mörgum gagnlegum nýjum ráðstöfunum verður beitt þegar fólk veitir orkunni innra með sér nægilega athygli.

Við getum rifjað upp dæmi frá fornu fari sem gefa til kynna skilning á þessari innri orku. Það var til dæmis venja þegar gefin var gjöf að leggja hönd á gjöfina og jafnvel halda henni inni um stund. Þannig var segulmagn gjafans yfirfært á hlutinn. Stundum var gjöfinni vafið inn í hár eða dýft í segulmagnað vatn. Ef jafnvel í fornöld höfðu menn hugmynd um frumorku, þá ættum við örugglega í dag að geta beitt henni vísindalega!

Hugsandinn ráðlagði að til að sannfæra hlustanda ætti maður að leggja hönd sína á öxl hans.

424. Urusvati veit að sjálfstjórn er nauðsynleg fyrir allar tilraunir með sálarorku. Það er mikilvægt að viðhalda æðruleysi, því bæði heimskuleg léttúð og ótímabær æsingur leiðir til ónákvæmra niðurstaðna.

Spyrðu þann sem situr á vatni eða gengur á kolum og hann mun segja að engin æsandi hugsun trufli hann. Öll slík fyrirbæri krefjast jafnvægis. Hæfni til að stjórna tilfinningum sínum er afleiðing langrar þjálfunar. Því er hægt að ná í miðju hversdagslífsins, þegar maður upplifir mörg tilvik sem gætu truflað jafnvægið.

Minnsti efi mun líka minnka taugaþol manns. Þeir sem efast geta ekki setið á vatni eða gengið í gegnum eld. Það er lærdómsríkt að fylgjast með því hvernig minnsti vafi getur truflað. Þetta getur verið svo hverfult að maður tekur ekki eftir því, en samt truflar það blóðrásina. Maður getur ekki gert sér vonir um að stöðva púlsinum þegar athyglin er tvískipt, en það er ekki auðvelt að losa sig við klofna hugsun. Oft bera hugsanir með sér „spegilmyndir“ sem veikja virkni grunnhugsunarinnar. Þessir óvelkomnu félagar eru afleiðing af ófullnægjandi andlegum skýrleika.

Við gerum oft æfingar fyrir skýrleika hugsunar, því að hugsa krefst æfingu. Jafnvel háleitasti hugsuður mun ekki neita því að hann verður líka að nota þessa hæfileika, rétt eins og tónlistarmaður verður að æfa sig stöðugt til að fá skýran hljóm. Leyfðu fíflum að halda því fram að þeir þurfi engar slíkar æfingar. Jafnvægi fæst líka með því að æfa hugsun.

Hugsuðurinn kenndi: „Nýttu hugsun þína, annars mun hún ekki flæða frjálslega.“

425. Urusvati veit mikilvægi menntunar. Það er næring alls háleits og fágaðs. Fólk getur skilið að vandað uppeldi gefur mörg tækifæri til almennrar menntunar, en menntun ein mun ekki ljúka uppeldinu. Sérhvert barn kemur inn í jarðneskt líf með þegar mótaðan persónuleika. Það er hægt að göfga og upphefja þessa ómissandi persónu, en grundvallareðli hennar er ekki hægt að breyta. Kennarar verða að viðurkenna þennan sannleika. Þeir verða fyrst að greina óumbreytanlegan kjarna barns og mennta í samræmi við það.

Við værum ekki að afbaka sannleikann ef Við segðum að mannlegur kjarni myndast í fíngerða heiminum. Öll fjölskyldu- og jarðnesk áhrif eru aðeins ytri og viðbót, þar sem fræ eðlis manns hefur þegar verið aflað á hinni fíngerðu dvöl. Sem betur fer getur móðir skynjað þennan kjarna, stundum jafnvel fyrir fæðingu, og byrjað að vinna af kostgæfni og næmni við að undirbúa barnið fyrir jarðlíf þess.

En hversu sjaldan mætum við svo meðvituðu vandasömu uppeldi! Jafnvel bestu kennararnir lenda stundum í svo erfiðum aðstæðum að þeir hafa ekki möguleika á að gefa gaum að eiginleikum nemenda sinna. Í sumum fjölskyldum er spurningin um uppeldi ekki tekin fyrir og börnin eru skilin eftir sjálfum sér með enga strjúkandi hönd og enga foreldrarödd til að segja þeim frá undraverðum heimi.

Við krefjumst þess að kennurum séu tryggð betri lífskjör, svo að þeir geti helgað sig fullkomnustu uppeldisaðferðum. En slíkar aðstæður eru ekki enn fyrir hendi, þó að flókið líf og vísindalegar uppgötvanir í dag krefjist vandlegrar hugsunar við að koma börnum á legg.

Systur Okkar leggja mikið á sig að aðstoða við menntun barna. Litlu börnin geta sagt margar sögur um heimsókn fagurra kvenna og jafnvel leikfélaga. Það eru mörg slík fyrirbæri, en fullorðnum finnst ekki gaman að hlusta á barnasögur. Þessar heimsóknir eru nauðsynlegar og stundum, með einni slíkri snertingu, er hægt að minna barn á verkefnið sem var samþykkt í fíngerða heiminum. Tár margra barna eru þurrkuð af kinn í þessum björtu heimsóknum. Mikið er starf þessara systra, ljósberanna. Yfirjarðneskt starf krefst fórnfýsi, því það er unnið við hinar fjölbreyttustu og oft afar óþægilegar aðstæður. Til að ala börn almennilega upp verður maður að læra að miðla gleði og breyta þannig daglegri rútínu í hátíð.

Hugsuðurinn höfðaði til mæðra að gefa börnum sínum bestu myndirnar af hinum undursamlega heimi.

426. Urusvati veit að flestir geta ekki skynjað fegurð fíngerða heimsins. Jafnvel í jarðneskum heimi eiga menn erfitt með að átta sig á birtingarmynd fegurðar og skynja hana þá aðeins á grófan hátt. Innan um fíngerða samhljóminn munu þeir líða eins og í þoku. Hversu margir geta glaðst yfir dásamlegri fegurð ljóssins, og mun tónlist sviðanna ekki virðast eintóna í eyra sem er skemmt af jarðneskum óhljóðum? Fólk mun kunna betur að meta samhljóm hinna hærri sviða ef það, að vissu marki að minnsta kosti, getur sætt sig við bestu jarðnesku samhljómana.

Frá fornu fari hefur fólk trúað því að fíngerði heimurinn sé myrkur, þokufullur og kaldur. En slíka mynd er aðeins hægt að yfirfæra á neðri lögin - eða kannski voru þeir sem hafa farið yfir bæði blindir og heyrnarlausir! Þetta er ástæðan fyrir því að Við leggjum svo mikið á Okkur til að betrumbæta mannlegt eðli. Aðeins eftir að hafa sigrað glundroða meðan hann er í jarðneska líkamanum getur maður verið næmur á fegurð fíngerða heimsins.

Fólk hlustar kannski á upphafin orð, en notar þau ekki í lífinu. Þegar við tölum um uppeldi er fræðsla í fegurðarskynjun mikilvægasti þátturinn. Maðurinn verður að tilheyra fegurð! Hann getur skynjað hana í hverjum sólargeisla. Hann getur samþykkt hana í samhljómi hljóða. Fátækt er engin hindrun, því kosmosinn er opinn jafnt fátækum sem ríkum. Leyfðu jarðneskum kennurum að læra að þjálfa fólk í að skynja fegurð.

Hugsuðurinn sagði: "Sá sem þekkir ekki veg fegurðar mun ekki þora að snúa sér til guðdómlegra hæða."

427. Urusvati veit um fyllingu geimsins af hugsanabylgjum. Þú getur ímyndað þér hversu þröngt rýmið er í kringum Okkur, þar sem öldur af mismunandi styrkleika og innihaldi stöðva hver aðra. En oft eru þessar bylgjur svipaðar að styrkleika og geta blandað sér í gegn. Það er ómögulegt að segja til um hvaða stund eru þögul, því öldurnar streyma inn á bæði heilahvel.

Í venjulegu starfi Okkar verðum við að taka tíma fyrir móttöku fjarskipta. En þetta er ekki auðvelt, því lífvera sem er spennt og fáguð getur ekki annað en móttekið áköll alls staðar að. Mundu að, auk allra beinna ákalla til Okkar, þrumar geimurinn með heimsviðburðum. Og nú eru þessi óhljóð komin á það stig að hún getur stofnað lífveru mannsins í hættu. Hugsunarbylgjur, eins og örvar, stinga í gegnum slímhúðina; hálsinn, eyrun, augun og allir aðrir slímvefur geta orðið fyrir áhrifum. Það eru tímar þegar hugsanabylgjur eru jafnvel styrktar af gagnkvæmri andstöðu. Maður getur ekki alltaf séð sprengingar myrku flauganna. Ójarðnesk öfl eru virk í þeim, en jarðneskar hugsanir þrefalda áhrif þeirra.

Við verðum að fresta mörgum tilraunum þegar heimurinn er í slíkri spennu. Við verðum að róa vælin, lina sársaukann og veita ráð. Aðeins deilanleiki andans gerir okkur kleift að bregðast samtímis við svo mörgum fjölbreyttum og brýnum atburðum. Fólk gerir sér ekki grein fyrir mettunarstigi andrúmsloftsins. Það heldur að Við ættum að geta gert allt, samt halda þeir sjálfir áfram í andstöðu sinni. Þessir þættir lífs Okkar eru lítt skildir.

Menn tala um vígslugeisla. Það væri betra ef þeir hugsuðu um geisla bráðrar aðstoðar. Í miðjum eldi þarf sérstakt samstarf. Við höfum þegar talað um þann tíma sem er verri en stríð, og nú má sjá slíkan tíma. Áhorfendur halda kannski að takmörkum þess sé náð, en það er takmarkaleysi í öllu.

Hugsuðurinn staldraði við og leit upp klettavegginn: „Það virðist sem hyldýpið sé botnlaust.“

428. Urusvati veit að rithöfundurinn sem safnar sögulegum upplýsingum um Bræðralag Okkar er að sinna mikilvægu verkefni. Láttu hann ekki flýta sér að klára það, því mikið af gögnum koma óvænt.

Leyfðu honum einnig að safna þessum ljóðræna skáldskap um turnana Okkar, sem nóg er af. Þetta goðsagnakennda efni verður að vera skráð og safnað í aðskilda kafla. Fólk mun hafa áhuga á að læra hvernig þessar hugmyndir voru túlkaðar af mismunandi menningarheimum. Söngvar ólíkra þjóða munu einnig minna okkur á óþekkta staðinn sem pílagrímar af öllum toga sækjast að.

Sérhver meginregla sem hefur nært margar aldir verður að rannsaka vísindalega. Auk prentaðra heimilda þarf að safna munnlegum sögnum. Rannsókn á því hvernig þessar hugmyndir hafa verið túlkaðar í hugum mismunandi þjóða mun reynast sérlega lærdómsrík.

Oft vildu menn sjá hina miklu fræðara í búningi síns eigin lands, sem kenndi Ímyndinni sérstakan karakter.

Og því biðjum við fræðimenn að lýsa bræðralaginu, hver og einn á sinn hátt. Það verða nokkrar mjög neikvæðar lýsingar, en mundu að í einhverri afneitun er að finna ákveðna staðfestingu. Þú hefur þegar séð hvernig sannleikurinn, þegar hann er ofsóttur, dafnar fagurlega og ekki er hægt að eyða honum með innantómum, móðgandi orðum. Sérhver sannindi eru staðfestur af fólki í frábærum afrekum sínum. Þess vegna köllum við til rannsakendur.

Hugsuðurinn kallaði einnig eftir rannsókn á þjóðsögum.

429. Urusvati veit að útgeislun manna er hægt að sjá með berum augum. Við getum nefnt mörg tilvik þar sem fólk sendi frá sér útgeislun þegar það var í upphafningu. Að vísu veittu áhorfendur þessari birtingarmynd enga athygli eða reyndu að útskýra hana sem endurkast ljóss að utan.

Oft geislar höndin sem er að skrifa um háleitt efni ljós sem sést á hvítu blaðinu. Geislunin safnast síðan fyrir í handritinu og gefur því sérstaka þýðingu. Þessi lýsandi ljósgeislun helst í margar aldir.

Fólk getur stundum tekið eftir óvenjulegu ljósi í augum þess sem er innblásinn. Augun skína ekki frá neinum utanaðkomandi upptökum heldur frá innri eldi. Þegar fólk tekur eftir svona náttúrulegum birtingarmyndum er það ekki ljóðræn uppfinning! Maður verður að vera þjálfaður fyrir þessa skynjunarhæfileika, því þá þróast máttur athugunar og mörg fyrirbæri sjást oftar.

Kennarinn ætti að halda áfram að minna nemandann á þann mikla fjölda náttúrufyrirbæra sem hafa verið óþekkt vegna fáfræði. Í athugunum Okkar erum Við sérstaklega sorgmædd yfir þeirri staðreynd að fólk fer oft framhjá sérstökum, dýrmætum sönnunum fyrir fíngerðu eðli mannsins án þess að taka eftir þeim.

Hugsuðurinn kenndi að allir fái þá gjöf að geta skynjað hið fíngerða eðli.

430. Urusvati veit að það er ekki aðeins hægt að sjá áru mannsins, heldur líka útfrymi, sem er ómissandi hluti af fíngerðu eðli okkar. Það er vel þekkt að fíngerðar verur nýti útfrymi miðilsins og vefa úr því sýnileg klæði sín, en Ég vil nú minna ykkur á að allir búa yfir þessu óbreytanlega fyrirbæri. Fíngerðar verur hringsóla um okkur öll og nota hluta af því, með þeim afleiðingum að andrúmsloftið í kringum manninn fyllist af rifum af þessu efni. Margir taka oft eftir þokublettum sem svífa framhjá í geimnum og taka á sig fjölbreytta mynd. Læknar útskýra þessar birtingarmyndir er stafi af ófullkomleika mannlegrar sjón, en þær sýna í raun skilvirkni sjónar okkar!

Þú gætir líka spurt hvernig eigi að bregðast við óvelkomnum gestum - aðeins með hugrekki andans, ekki leyfa þeim að hafa samband við kjarna þinn. Urusvati veit hvernig þessir óvelkomnu gestir hafa hopað; það þurfti ekki einu sinni að reka þá í burtu, því þeir komust ekki í gegnum hlífðarnetið. Slík náttúruvernd er alltaf best, en til þess þarf þjálfun andans. Þunglyndi er drungalegasti segullinn og pirringur tælir líka þessa ljótu gesti.

Spyrja má hvort útstreymi útfrymis hafi áhrif á heilsuna. Reyndar gerir það, en fer sérstaklega eftir eðli þjófsins, gráðugir íbúar neðstu sviðanna er sama um skaðann sem þeir valda. En hugsandi verur geta líka nálgast en þær flýta sér að endurnýja stolið útfrymi.

Mundu að útfrymi streymir ekki aðeins út við sérstakar uppákomur, heldur stöðugt, og aðeins sterk og hugrökk vitund kemur í veg fyrir of mikið útflæði. En þétt andrúmsloft myndast af þessum tæjum og fólk verður að anda að sér þessu rusli! Samt eru líka til dásamleg seyti, þekkt sem matur guðanna. Við ræðum um það síðar.

Hugsuðurinn kenndi að rýmið í kring væri fyllt af fíngerðu efni.

431. Urusvati veit að það getur verið gagnleg skipting á jarðneskum útfrymi manns fyrir hærri orku. Verur hærri sviðanna geta notað þessar agnir útfrymisins og á móti senda þær virkan innblástur og styrkja lífsnauðsynlega efnið. Á þennan hátt getum við verið viss um að á meðan á náttúrulegum samskiptum við samfélag á hærri stigum stendur, þegar mettun með háu efni á sér stað, verður enginn skaði. Hins vegar, til að eiga slík samskipti við slíkt samfélag verður maður að keppast í viðleitni sinni til hins hæsta. En allar óheilbrigðar uppákomur munu aðeins leiða til missi styrks og vekja upp verstu fylgjendur.

Maðurinn sjálfur er fullkomlega meðvitaður þegar hann gerir eitthvað óverðugt. Hann verður að læra af minnstu daglegu dæmum og þróa með sjálfum sér stöðuga viðleitni til þess hæsta.

Sömuleiðis munu allir sem þekkja til hinnar miklu þjónustu vita að hvers kyns óverðug athöfn mun valda einhverjum sársauka. Gamlar ráðskonur voru vanar að segja við börn sem höfðu gert eitthvað rangt: „Engill þinn mun gráta,“ og þessi viðvörun náði inn í hjarta barnanna. Sannarlega, hver óvinsamleg athöfn veldur því að einhver þjáist. Hvaða hærra samfélag getur staðist þegar náttúrulögmál eru brotin? Fólk heldur kannski að allt sé leyfilegt, jafnvel rán og morð! En hverjir eru þeir sem munu nálgast stað glæpsins?

Hugsuðurinn kallaði á fólk til að reyna að finna ósýnilega hjálpara.

432. Urusvati veit að hjálp hærri vera er venjulega unnin með andlegum hætti, en hjálpin getur líka verið efnisleg. Sagnir segja oft af útliti látinna ástvina sem komu til að gefa gagnleg ráð, en sögðu að þeim væri aðeins leyft að hjálpa einu sinni. Svipaðar vísbendingar má finna meðal mismunandi þjóða í gegnum aldirnar og slíkur vitnisburður er alveg sannur.

Aðeins í óvenjulegum tilfellum er Okkur heimilt að brjótast inn í karma og bregðast við með jarðneskum hætti. Leyfðu vinum að muna að jafnvel á hærri sviðum eru takmarkanir sem stjórnast af karmalögmálinu. Íbúar jarðar geta ekki ímyndað sér hversu erfitt það er að nálgast þá með efnislegri aðstoð. Venjulega er andleg hjálp á undan, en hún er talin vera tilviljun og er sjaldan samþykkt.

Við erum mjög sorgmædd þegar ráðgjöf Okkar hefur verið hafnað eða umsókn hennar seinkað. Hins vegar er jafnvel efnishjálp Okkar ekki alltaf samþykkt. Venjuleg afsökun er sú að aðferðir okkar séu of framandi. En fólk getur ekki séð að skilyrði hjálpar Okkar eru töluvert ofar jarðneskum skilningi þeirra og dómgreind, og óvilji þeirra til að þiggja hana er vegna skorts á hugmyndaflugi. Það heldur fast við einu leiðina sem þau sjá út úr erfiðleikum og ókunnugar tillögur eru óásættanlegar fyrir þeim. Þess vegna er svo hjálplegt að hlusta á hefðir ólíkra þjóða. Aðeins með því að bera saman hinar ólíkustu skoðanir er hægt að ímynda sér margbreytileika núverandi aðstæðna. Maður ætti að læra að hlusta á minnsta ákall. Hjartað mun segja hvenær þau eru sönn.

Það er Okkur mikil gleði þegar við sjáum kraft athugunar sem hefur þróast á náttúrulegan hátt. Lífsvísindin krefjast fyrst og fremst skilnings á grundvallarlögmálum.

Hugsuðurinn var vanur að segja: „Ég get ekki lýst því með orðum hversu langt við göngum í samræmi við hin miklu lögmál, en hjartað þekkir hinn óútskýranlega kjarna.“

433. Urusvati veit að jafnvel hinir miklu hafa sýnt mismunandi eiginleika í hverri jarðvist. Með því að fylgjast með heilli röð jarðvista getur maður séð greinilega keðju uppsöfnunar. Í þessu sambandi er sérstaklega lærdómsríkt að taka eftir hinum miklu afbrigðum, sem heppnast hvert af öðru. Það ætti ekki að gera ráð fyrir að eiginleikar safnist saman á nokkurn jarðneskan hátt eða að hver jarðvist sé framhald af þeirrar fyrri - þróunarlögmálið er miklu víðfeðmara í útlínum sínum. Af sjónarhóli hærri heims er auðveldara að sjá hvernig andinn verður að fullkomna sjálfan sig. Það er engin mótsögn í því að andinn þróast í samræmi við ferla hærri heima.

Það er ekki aðeins í röð jarðvista sem ýmis uppsöfnun á sér stað. Maður getur fylgst með breytingum á löngunum og væntingum jafnvel innan eins mannslífs. Þetta getur líka gerst í þróuninni, að maður fellur í villimennsku og sljóleika, en við skulum nú ekki tala um slíkar drungalegar birtingar. Þvert á móti, við skulum leggja áherslu á hversu miklu góðu maður getur safnað á einu jarðnesku lífi - maður getur lært án takmarkana! Hvati vaxandi meðvitundar mun leiða í ljós hversu fjölbreyttar leiðir eru til að leita.

Og í þessari leit hjálpum Við. Við beinum athygli fólks að nýjum bókum. Við hvetjum til gagnlegra tímamóta í umræðum. Við sendum hugsanir um nýjar uppgötvanir. Við sendum viðvaranir um skaðlegar villur. Það er ánægjulegt að veita slíka hjálp óséður. Við metum þá bardagamenn sem hrinda árásum myrkursins af kappi. Fólk ætti að muna hvernig það fékk fræðslu um fíngerða heiminn, hvernig lýsandi verur nálguðust þau og hvernig vöxtur vitundar þeirra gerði þessum leiðbeinendum kleift að koma nærri. Það sama á sér stað í jarðlífinu.

Hugsandinn trúði lærisveinum sínum stundum fyrir því að hann fyndi tvö líf innra með sér, ljóst og myrkvað, en að ljósið væri leiðarvísir hærri heimanna. Hann sagði: "Líf ljóssins er alltaf vakandi - kallaðu á það, og það mun svara."

434. Urusvati er meðvitaður um þann algenga misskilning að öfl hins illa komi fram kröftugri á jarðneska sviðinu en öfl hins góða, og að illar myndir séu skýrari en þokukennd form ljósvera. Hins vegar er þetta einungis satt frá jarðnesku sjónarhorni, og þótt jarðneskar athuganir séu ekki tilhæfulausar, liggur styrkur fíngerðra aðila ekki í sýnileika þeirra, heldur í krafti orku þeirra.

Það er rétt að verur neðri sviðanna nærast af jarðneskri útgeislun og dragast að jarðneska sviðinu til að reyna að nærast á útfrymi mannsins og halda áfram að fremja illt. Hins vegar eru gjörðir þeirra ekki í samræmi við lögmál alheimsins. Það þarf ekki að kenna þeim hið illa, þær lærðu það í jarðnesku ástandi og halda áfram að iðka það af innsæi, því góðvild fyrir þeim er tilgangslaus. Það þarf ekki að gera ráð fyrir að einhver sérstakur höfðingi hins illa sé nauðsynlegur til að illvirki geti átt sér stað. Á jörðinni getur ómerkilegasti, drungalegasti einstaklingurinn framið nægilega illsku og umhverfis hann eru verur sem þekkja alla ánægjuna af því að fremja illvirki.

En snúum okkur að Ljósaflinu. Við höfum þegar lýst því hversu varkár þau eru í notkun frumorkunnar og hvernig þau virða lögmál alheimsins. Þau vita að löglaus sóun á orku hefur áhrif á allan alheiminn og þeir leggja sig fram við að varðveita jafnvægið. Er hægt að líkja þessu mikla starfsafli við smávægilegar árásir hins illa? Hver getur sagt að pláneta geti verið til án ljóss? Hver mun voga sér að líkja daufum ljóma illra vera við ljóma hinna æðri sviða? Gleymum því ekki að fólk þarfnast þessara áminninga.

Hugsuðurinn hrópaði stundum: „Borgarar, þið notið augu ykkar og eyru undarlega. Þið snúið ykkur aðeins til að horfa á ill verk, og reynið að hlusta eftir því illa."

435. Urusvati veit að þar sem sífellt eitraðar andrúmsloft ræðst á vefina, hefur slímhúðarbólga orðið mannkynsbólga. Það er ómögulegt að ímynda sér hversu margbreytileg einkenni þessarar veikinda okkar tíma eru. Fólk reynir að tengja þessi einkenni við áður þekktar tegundir sjúkdóma; þeir skilja ekki sérkenni þessa faraldurs. Oft virðast einkennin skaðlaus og læknar geta ekki ákvarðað orsök eða gang sjúkdómsins. Það er því mikilvægt fyrir lækna að rannsaka lífveru mannsins með öllum tiltækum vísindalegum aðferðum.

Enginn getur sagt til um hvenær bólginn vefur skemmist frekar, með öllum tilheyrandi afleiðingum. Á hinn bóginn getur bólgan hjaðnað og það verður að fylgjast með því af gætni. Næring er nauðsynleg til að lífveran endurheimti orku sína og ætti að mæla með einföldu, sýrulausu fæði.

Einkenni slíkra sjúkdóma geta verið mjög mismunandi. Sum líffæri munu finna fyrir sársauka beint, en þar sem bólga í himnum hefur áhrif á allt taugakerfið getur sársauki einnig komið fram á öðru svæði líkamans. Þess vegna er ítarleg skoðun á allri lífverunni nauðsynleg. Almennt séð taka slímhúðir þátt í fjölbreyttustu starfsemi lífverunnar og þær eru fyrstar sem bregðast við mettun andrúmsloftsins í kring. Á þennan hátt, jafnvel þótt ekkert skaðlegt ferli eigi sér stað, er nauðsynlegt að vera mjög varkár.

Munið að þessi faraldur var fyrirséður fyrir löngu. Þegar Við töluðum um Harmagedón höfðum við ekki aðeins stríð í huga, heldur allar hrikalegar afleiðingar óreiðu mannkynsins. En maður ætti ekki að falla í örvæntingu, því þunglynt ástand opnar dyrnar að öllu sem er eitrað. Það er skynsamlegt að vita að Harmagedón fylgja farsóttir. Við getum ekki takmarkað vitund okkar við þekktar tegundir sjúkdóma, heldur verðum við að vera tilbúin að takast á við flóknustu og óvenjulegustu einkennin. Læknar verða að vera færir um að þekkja þessa nýju sjúkdóma sem birtast nú alls staðar.

Hugsuðurinn sagði: „Getur einhver fyllst svo miklu stærilæti að hann haldi að hann hafi rannsakað allar birtingarmyndir náttúrunnar?“

436. Urusvati veit að meðferð með titringi eru mjög mismunandi fyrir hvern einstakling. Vegna þess að tíðni titrings er svo mikil, er ekki hægt að ákvarða hann án tilrauna og til þess má nota þrjú hjálpartæki. Eitt er skyggni græðarans, annað, pendúll lífsins og þriðja, vísbendingar sem sjúklingurinn gefur á meðan hann er í dáleiðslu. Aðeins ein þessara leiða getur gefið nauðsynlegan titring. Meðferðin sjálf getur farið fram með rafmagnstæki, en einnig má nota handayfirlagningu.

Ég nota sérstakt tæki, sem Urusvati hefur séð, sem krefst ákveðinna skilyrða sem venjulegir læknar hafa ekki. Þetta þýðir ekki að meðferð með titringi sé ekki möguleg fyrir þá, þó við allar aðstæður þurfi sérstaklega skarpa skynjun og sveigjanleika hugans. Læknirinn getur ákveðið að nota tiltekin straum og ákveðið þá fljótt að hann verði að skipta honum út fyrir annan. Hann verður líka að vita hvort nota eigi kælistraum eða heitan. Það ættu engin mistök að vera í þessu, annars verða óæskilegar niðurstöður.

Hafðu í huga að á meðan faraldurinn sem við tölum um stendur, getur átt sér stað hröðun einkenna og maður ætti að geta þekkt þau. Sterkan titring ætti ekki að nota af óþjálfuðu fólki. Prófa skal hverja nýja aðferð á væga sjúkdóma frekar en hættulega og sannreyna hvaða af þremur hjálpartækjunum er nauðsynlegt, þar sem notkun þeirra og viðbrögð við þeim eru mismunandi eftir einstaklingum.

Urusvati hefur skynjað titringinn Okkar margoft. Hún veit hversu fjölbreyttur hann er og að beitingartími þeirra er líka breytilegur. Titringurinn getur verið notalegur, en getur stundum verið erfiður. Og þegar fullt traust er til staðar er hægt að auka styrk þeirra.

Hugsuður sagði: „Traust er áreiðanlegasta vopnið. En hvar liggja mörk traustsins? Maðurinn veit að traust er takmarkalaust.“

437. Urusvati veit að sumar spár okkar á vísinda- og félagssviði hafa þegar ræst. Hugsun okkar nær hugum margra vísindamanna. Þó að þeir geri sér kannski ekki grein fyrir hvers vegna þeir hafa hafið rannsóknir í ákveðna átt, megum við ekki styggja þá með því að segja að hugsun þeirra hafi verið innblásin, þar sem þeir trúa ekki á miðlaða samfellu hugmynda. Við megum ekki leggja þetta hugtak á þá sem trúa því að þeir séu eina uppspretta hugmynda sinna! Því ef þú tekur eftir því að einhver hefur augljóslega notað hugmyndir þínar skaltu ekki mótmæla. Látið allt nytsamlegt vaxa á öllum sviðum.

En það er grátlegt þegar dreifðar hugmyndir gefa aðeins brot af fyrirhugaðri heild. En jafnvel í slíkum tilfellum munum við segja: „Látið hvert fræ vaxa sem er mannkyninu til góðs. Leyfðu öllum vinum að venjast því að sá hugmyndum án samkeppni og án þess að brjóta á rétti hvers annars. Maður á að gleðjast yfir hverri uppskeru.“

Við vitum nógu vel að hugmyndir tilheyra Okkur ekki og að við erum aðeins sendendur þessara gjafa úr geimnum. Ekki er hægt að greina hver hefur komið hverri hugsun af stað; jafnvel á jarðneskum slóðum eru slíkar rannsóknir ómögulegar. Hvað getur maður þá sagt um hærri heima, um hina ótæmandi uppsprettu hugsunarinnar!

Við munum líka læra að gleðjast þegar við viðurkennum að við erum hlekkir í keðju samvinnunnar. Það verður engin niðurlæging þar sem hið órjúfanlegu tengsl við Hið hæsta er viðurkennt. Það er mannkynið sem getur viðhaldið þessum böndum og hlotið þannig flæði hins góða.

Leyfðu vinum að gleðjast með Okkur þegar einhvers staðar hefur þekkingargrein þegar blómstrað. Jafnvel þótt garðyrkjumaðurinn sé Okkur ekki náinn í anda skulum við leita hins besta sem í honum býr. Við skulum ekki hafna neinu sem gæti verið fræ þróunar.

Það sama sagði Hugsuðurinn: „Ef mesti afneitarinn segir aðeins eitt sannleiksorð, munum við jafnvel hlusta á hann.“

438. Urusvati veit að hver vísbending Okkar hjálpar til við að opna hliðið. Hins vegar er engin vísbending sem krefst ekki vinnu til að uppfylla hana. Það eru margar sögur til um fáheyrða prýði Okkar, en lítið hefur verið sagt um vinnu Okkar. Ef við hugleiðum bestu mannlegu afrekin og teygjum það út í óendanleikann, þá er hægt að skilja gæði alls starfs hærri heimanna.

Ráðið til mannkynsins er að stórefla vinnuna. Sérstaklega á þessum dögum Harmagedón er þetta ráð nauðsynlegt. Allir geta haldið vinnu sinni áfram, en verða að efla hana. Aðeins slík umhyggja um fyrirhöfn og gæði vinnunnar getur hjálpað til við að draga úr óreiðu mannkynsins. Sá sem getur fundið innra með sér styrk til vinnu, jafnvel innan um óreiðuna, skapar jafnvægi í umhverfi sínu. Þess er sérstaklega þörf þegar heilu þjóðirnar lenda í brjálæði.

Maður má ekki leyfa fólki að hæðast að friðsamlegu starfi á stríðstímum. Við erfiðum ekki fyrir daginn í dag, og ekki fyrir jörðina, heldur fyrir alvarlegustu bardaga. En ekki halda að allir hafi skilið þessi orð. Við getum séð hversu ranglega nákvæmustu vísbendingar eru túlkaðar.

Þegar þú ert spurður hvað ætti að gera skaltu svara: „Vinna sem aldrei fyrr. Leyfðu öllum að gera sitt besta, jafnvel þótt vinnan hans sé einfaldasta, hversdagslega verkefnið.“

Þú gætir verið spurður hvort það væri ekki betra að einbeita þér andlega. En það fallega ástand getur eyðilagst af staðbundnum straumum og hvirfilvindum. Að auki veit venjulegt fólk ekki hvernig á að hugsa og sveiflast eins og reyr í vindi. En í slíkum vindum verður maður að halda fast í eitthvað öruggt. En í vinnunni mun meðvitund fólks finna þennan stuðning. Kennarinn verður að venja nemendur sína við vinnu og verður að hrósa bestu eiginleikum vinnunnar. Þessi fullkomnun mun leiða til aukinnar hugsunar.

Hugsuðinum fannst gaman að benda á konurnar sem báru vatn. Hann sagði: "Þær vita ekki hvers þorsta þær munu svala."

439. Urusvati veit hversu oft það er nauðsynlegt að útskýra jafnvel skýrustu vísbendingar okkar. Til dæmis hefur verið spurt hvort nemandinn eigi rétt á að taka til sín orku kennarans. Sumir munu finna í þessu mótsögn við ábendinguna um umræður við kennarann. En það er ljóst að samtal hefur ekkert með upptöku orku að gera. Það felur ekki í sér neinar bænir heldur víkkar vitundina einfaldlega og sérhver útþensla er aukning á orku. Slík umræða eyðir ekki orku kennarans; þvert á móti hjálpar það til við að styrkja áru, sem er gagnlegt fyrir nemandann. Samt geta sumir ekki skilið að sannur nemandi mun ekki íþyngja kennaranum með beiðnum. Lærisveinninn veit nógu vel að allt sem hægt er verður gert. Hann skilur spennuástandið þar sem kennarinn sendir frá sér orku sína óþreytandi.

Sumir tjá samneyti aðeins með því að biðja um hjálp. Kannski hafa hefðbundnar bænir vanið fólk á að krefjast jarðneskrar blessunar frá guðdómnum. Þessi villa er algeng í öllum kenningum - fólk hættir að leita og takmarkar samfélag sitt við þann Hæsta, við beiðnir um aukningu á jarðneskum ávinningi. Því er nauðsynlegt að útskýra að fræðsla um lífið getur ekki innihaldið mótsagnir. Leyfðu þeim sem skilja ekki, að spyrja, og þeir munu læra að fræðslan þekkir lífið á öllum sviðum þess. Leyfðu þeim að muna að dyggur nemandi spjallar við kennarann í einum sameinuðum orkustraumi.

Hugsuðurinn gaf til kynna hversu mikið fólk getur margfaldað styrk sinn með því að sökkva sér niður í þennan eina orkustraum.

440. Urusvati veit hvernig fólk reynir að afsaka sig og heldur því fram að jarðneskrar skyldur sínar gefi ekki tíma fyrir hærra samfélag. En við skulum bera mikilvægustu jarðnesku skyldur þeirra saman við neista jafnvel minnstu uppljómunar. Við skulum skoða hana úr nokkurra áratuga fjarlægð og við munum komast að því að á meðan jarðnesku málefnin dofnuðu hefur uppljómunin haldist skýr og jafnvel orðið ljóslifandi í fallegri staðfestingu. Slíkur samanburður á jarðneskum málum og uppljómunar getur leitt í ljós hin sönnu gildi.

Við skulum ekki blekkja okkur að halda að fólk eigi auðvelt með að skilja slík gildi, þó að allir varðveiti í hjarta sínu fegurð æðra samfélags. Og hversu miklu sterkara verður þetta, þegar maður á vini sem hægt er að trúa fyrir hæstu tilfinningar manns! Þessi samhljómur verður eins konar magnari og með sameinuðu átaki verður andrúmsloftið í kring hreinsað. Þannig mun fólk skilja hvaða verk eru best. Leyfðu þeim líka að finna jafnvægið milli jarðneskrar vinnu og birtu uppljómunar.

Það er engin mótsögn á milli mikillar vinnu og leitarinnar að uppljómun. Allir sem hafa upplifað augnablik uppljómunar gera sér grein fyrir að þau eru tímalaus og nást ekki með rökhugsun, heldur tilfinningunni sem blómstrar í kraftmikilli reisn vinnunnar. Hinn einfaldi sannleikur að vinna sé bæn, er fólki ekki alltaf ljós og góð verk er framkvæmt þegar maður endurtekur þennan sannleika.

Kennarinn ætti að hafa nokkra færni til að hvetja nemendur sína ekki einungis til vitsmunalegar æfingar, heldur til meiri gæða handverks.

Hugsuðurinn krafðist þess að nemendur hans myndu velja sér iðn og læra að finna fullkomnun í henni.

441. Urusvati veit hversu nauðsynlegt það er að leiðrétta allar ranghugmyndir. Við höfum nefnt öndunaræfingar, pranayama og á sama tíma bent á náttúrulegar leiðir til uppgöngu. Er einhver mótsögn í þessu? Nei, vegna þess að Við höfnum ekki pranayama, og bendum jafnvel á notagildi þess, því í vissum tilfellum getur pranayama verið eins konar lækning fyrir lífveruna.

Hins vegar ráðleggjum við alltaf einföldum pranayama. Öndun er mikilvægt ferli, en eins og í öllu er náttúrulegt pranayama best og er í samræmi við aðstæður í samtímanum. Fólk ætti ekki að verja aðeins ákveðnum tíma dags til að hreinsa andann, heldur ætti að æfa það oft yfir daginn. Til dæmis er það græðandi að anda að sér ferskri prönu nokkrum sinnum áður en þú gefur frá þér mikilvæga staðhæfingu. Opinberir ræðumenn nota oft þessa aðferð, en þeir gera það sjaldan meðvitað, og það er einmitt meðvituð innöndun prana sem mun umbreyta öndun þeirra. Þess vegna ætti mótmælandinn að skilja að við samþykkjum pranayama af ákveðnum gæðum, en hinar fornu sársaukafullu venjur verða að endurskoða.

Ákveðnar skoðanir á stéttaskiptingu verða sömuleiðis að endurbæta. Í fornöld var takmörkunum þess beitt skynsamlega, en þróunin hefur síðan tekið margar beygjur. Nú er skynsamlegt að endurmeta lífsskilyrði og við megum ekki láta fordómafulla hugsun vera hindrun.

Hugsuðurinn kenndi að það ætti ekki að vera þrælahald á jörðinni, því eðli mannkyns er guðlegt.

442. Urusvati veit að sérhver atburður er hlekkur í langri keðju orsaka og afleiðinga. Frá jarðnesku sjónarhorni getur maður litið á atburð sem mikilvægan, en í raun lúta allir atburðir sama lögmálinu og hver getur sagt til um hvar fæðing stórviðburða á sér stað?

Efld vitund gerir manni kleift að líta til baka og greina uppruna atburða. Það er mikilvægt að tileinka sér þessa hæfileika til að skilja framvindu atburða, ekki af skynsemi, heldur með beinni þekkingu. Maður ætti ekki að velta lengi fyrir sér uppruna atburða hversdagsins, heldur verður að skilja veg lífsins. Aðeins í þessum skilningi á orsökum mun náttúruleg framsýni þróast.

Við verðum að læra að sjá fyrir atburði sem eru hlekkir í þegar mótaðri keðju. Ég er ekki að tala um skyggnigáfu, sem aðeins fáir hafa enn náð, heldur um náttúrulega framsýni sem byggir á skilningi á orsökum, bæði nýlegum og fjarlægum. Hins vegar má ekki halda að þessi hæfileiki sé auðveldur. Hin breikkaða vitund skín skært og ljós hennar gerir manni kleift að horfa til baka jafnt sem fram á við. Leiðin sem þegar hefur verið troðin er kunnugleg vegna margra merkja, en framtíðarleiðin sýnir aðeins ókunnugar útlínur. Hvernig getur þá vegfarandinn greint þær?

Við höfum oft talað um beina-þekkingu; leyfðu samfélagi við Okkur að hjálpa þessari náttúrulegu þróun. Í þessum vexti eru sumir algengir hversdagsviðburðir mun mikilvægari en svokallaðir heimsviðburðir.

Hugsuðurinn benti á að allir, á einhverjum tíma, séu drifafl merkilegra atburða, en slík augnablik eru sjaldan þekkt.

443. Urusvati þekkir ekki aðeins kosmíska gleði, heldur líka kosmíska sorg og kosmískan kvíða. Kosmosinn er lifandi og birtingarmynd lífs hans endurspeglast í jarðneskum tilfinningum. Maður gæti verið í vandræðum með jarðneska ólgu eða haft persónulegar sorgir, en kosmískar tilfinningar bætast óhjákvæmilega við þær. Þær hafa kannski ekkert með persónulegt líf að gera, þær spá ekki fyrir um jarðskjálfta eða aðrar hörmungar á jörðinni, en þær hafa áhrif á viðkvæmt hjarta.

Að jafnaði skilur fólk ekki að frumorkan þeirra er takmarkalaus. Yfirjarðneskar upplifanir er ekki hægt að tjá með jarðneskum orðum, en, vegna þess að þær búa yfir öllum eiginleikum hins mannlega smáheims, má segja að kosmosinn gleðjist og syrgi. Það er rétt að hugsa um kosmíska hugsun sem skynjaða, og hið næma mannshjarta mun titra í samræmi við mikla lág- og háflæði kosmískrar orku.

Án efa er þessi orka ein og sú sama, en birtingarmyndir hennar eru mjög mismunandi og mannshugurinn reynir að gefa sérhverju afbrigði þess ákveðið nafn. Maður getur ímyndað sér hversu margar rangar skynjanir koma upp vegna slíkra handahófskenndra flokkunar á hinu eina afli. Það er satt að sérstakir eiginleikar þessarar orku virðast koma fram af tilviljun, en þessi skynjun er afstæð, því í alheiminum gerist ekkert fyrir tilviljun.

Maður getur stundum fundið andardrátt kosmosins. Frá fornu fari hafa menn leitað að takti öndunarinnar og í þessari leit reyna þeir að nálgast andardráttinn mikla.

Kennarinn verður að útskýra að það getur verið þrenns konar upplifun – persónuleg, plánetuleg og kosmísk.

Hugsuður sá einingu og þrenningu í öllu.

444. Urusvati veit að því sterkari sem skynjun frumorkunnar er, því öflugri verður hún. Af þessum sökum hefur hún verið kölluð hin lifandi, eða guðlega orka. Fólk nýtir þessa frumorku best þegar það samþykkir hana sem óbreytanleg lögmál, finnur fyrir krafti hennar og elskar hana.

Næmur læknir mun mæla með uppáhaldsmat sjúklingsins; það sama er gert þegar efni er valið sem gefur árangur tilrauna. Jafnvel hinn einfaldi maður hefur innri tilfinningu fyrir því sem er sérlega nærri honum og hægt væri að gera merkilegar tilraunir þar sem borin eru saman hin ólíku efni sem henta hverri lífveru sérstaklega. Það má sýna fram á að maðurinn skynjar sjálfur hvað honum er fyrir bestu. En öllu yfirborðslegu verður að útrýma, annars munu hinir drykkfelldu halda því fram að aðeins áfengi sé gott fyrir þá!

Til þess að greina tilhneigingu einstaklings er stundum nauðsynlegt að nota dáleiðslu, þar sem hann nefnir ekki aðeins matvæli sem eru gagnleg, heldur einnig steinefni, málma og plöntur sem eru nauðsynlegust fyrir hann. Þannig mun sláandi, einstakt einstaklingseinkenni koma í ljós. Nokkuð ólíkir hlutir geta verið nefndir, sem við fyrstu sýn virðast útiloka hvorn annan, en samt geta mjög fágaðar efnatilraunir leitt í ljós að það reynist gagnlegt að sameina þau.

Í öllum hlutum verður að viðurkenna grundvallaratriði einstaklingshyggju, sérstaklega um þessar mundir. Menn reyna að jafna og alhæfa um allt, en náttúran sýnir einstaklingseinkenni í hverju fyrirbæri. Þegar maður skilur gjafmildi þessarar meginreglu kemur auðveldlega upp í hugann þróunarferlið í náttúrunni, þar sem gildi einstaklingseinkenna má sjá í öllu.

Jafnvel þeir sem gera uppreisn gegn hinum venjulegu mannaflokkun verða að sætta sig við lögmál einstaklingsins. Það er ekkert fyrirbæri á jörðinni þar sem skær einstaklingseinkenni koma ekki í ljós. Til dæmis, Við höfum áður talað um útfrymi, sem er öllum eðlislægt, en sérhvert útfrymi er einstaklingsbundið. Segja má að sömu meginreglur eigi við um frelsun hins fíngerða líkama. Venjulegar þvingunaraðferðir skapa aðeins hindranir, því slíkar aðferðir taka ekki tillit til sérstöðunnar. Þannig metum við einstaka nálgun hvers og eins á hlutina.

Hugsuðurinn var vanur að segja: „Hver maður hefur sinn eigin óviðjafnanlega hátt.“

445. Urusvati veit um takmarkaleysi allra hugarferla, þar af er frjálsi viljinn einn. Með frjálsum vilja geta menn andmælt jafnvel kosmískum öflum. Vertu ekki hissa ef ég segi þér að jafnvel kosmísk lögmál geta hrist við viðleitni frjáls vilja, þess vegna eru svo margar karmískar ógæfur. Í stað þess að fylgja kosmísku leiðinni, kallar fólk fram miklar sviptingar og hefur með kröfu frjáls vilja síns áhrif á samhljóm kosmosins. Það hefur ekki aðeins áhrif á kosmosinn, heldur endurómar það í auknum mæli og öðlast styrk á öllum sviðum.

Vitringar fornaldar reyndu að höfða til samvisku fólks með því að segja frá sögum um epískar hetjur sem gætu spjallað við fjarlæga heima, en sagnirnar voru bara ævintýri. Jafnvel á þessari öld, orkuöldinni, gefa menn engan gaum að orku hugsunarinnar. Það má gleðjast yfir því að yfirfærsla hugsunar sé rannsökuð í sumum háskólum, en því miður hafa þessar rannsóknir takmarkast við nokkrar vélrænar aðferðir sem munu aldrei upplýsa mannkynið um mikilvægi hugsunar sem fíngerðustu orku.

Að átta sig á orku hugsunarinnar hjálpar til við að aga hinn frjálsa vilja. Það verður að skilja að skelfilegir pláneturatburðir stafa af hvatvísi taumlauss frjáls vilja. Jörðin er nú að upplifa Harmagedón og í þessari hörmung er frjáls vilji mjög mikilvægur. Yfirjarðnesk öfl gætu ekki framkallað slíka ógæfu án langvarandi þátttöku mannkyns.

Ég bið þig um að veita þessum faraldri sálarbrjálæðis athygli. Við getum ekki heimfært það sem á sér stað til einhvers ákveðins hóps einstaklinga og verðum að viðurkenna að allar þjóðir stuðlar að hræringum heimsins. Maður á ekki að halda að atburðir fæðist og deyja af sjálfu sér. Kannski eru fræin sem sáð var fyrir tvö þúsund árum að spíra núna. Svo vandlega verndar geimurinn fyrirbærið hugsun.

Hugsuðurinn benti á að fólk gæti greint núverandi tilveru sína, með því skoða fornan forða sinn.

446. Urusvati veit að frjáls vilji verkar líka í fíngerða heiminum. Á hærri sviðunum er hann samhæfur hæstu sálarorku, sem leiðir til sannrar samvinnu, en á mið- og neðri sviðum er oft skynjuð barátta. Sumir einstaklingar þar vilja ekki viðurkenna markmiðshæfni tilverulögmálsins. Það er sérstaklega grátlegt að fylgjast með því hvernig þeir reyna að forðast endurfæðingu. Þessir einstaklingar vita að vegna karmísks álags þeirra geta þeir ekki komist lengra í fíngerða heiminum, en kjósa jafnvel ruglingsástand sitt fram yfir nauðsyn þess að fara nýja jarðneska leið. Við köllum ástand þeirra ruglingsástand, en það mætti líka kalla það kvalarástand. Enginn fer illa með þá, en þeir skynja ómöguleika framfara í neðri lögum. Slík mótspyrna af frjálsum vilja gefur til kynna að vegna þess að vitund þeirra víkkaði ekki í jarðnesku lífi þeirra, þá var engin tilhneiging til að skilja alheiminn, og það var sannarlega engin ást til stigveldis. Þetta ástand verður að vera rækilega skilið.

Margir tala mikið um ást og tryggð, en sýna það ekki í lífinu. Þeir tala oft um kennarann, en gera samt enga tilraun til að mynda sterk tengsl. Við ætlum ekki fólki að treysta algjörlega á kennarann. Þvert á móti, Við ráðleggjum sjálfstæðar athafnir, en innra með hjartanu verður að ljóma kærleikslampi. Aðeins þá kviknar loginn sem svarar. Útskýrðu það eins og þú vilt, jafnvel sem rafstraum, en straumur sannrar ástar er sterk tengsl og raunverulegt sjálfstraust vex aðeins af kærleik.

Hugsuðurinn trúði því staðfastlega að kærleikur væri guðleg gjöf.

447. Urusvati veit að rósemi er krafist fyrir hærra samband. Það getur verið nauðsynlegt að hræra í vatni fyrir sumar tilraunir, en ef þú vilt rannsaka dýpt brunns verður þú að hafa kyrrt yfirborð og tært vatn.

Fólk er oft ruglað í því hvort rósemi sé möguleg þegar heimurinn er í slíku uppnámi. En við höfum í huga vitundarró sem, ef því er náð, verður friðhelgi. Þá, þó að maður geti tjáð reiði í gegnum ytri orkustöðvar, eða í orðum, mun vitundin haldast kyrrlát. Slíku ástandi er ekki auðvelt að ná og mun ekki koma með vélrænum aðferðum. Hægt er að slökkva ytri loga með takti, en staðföst meðvitund verður við tengingu við hið Hæsta.

Það verður að standa vörð um hvern meðvitundarneista, því í kringum hann geisa ofsafengnir hvirfilvindar. Freistingar munu koma sem mannshugurinn getur ekki einu sinni ímyndað sér. Þær geta ekki þolað kyrrláta vitundina, því sérhver aukin vitund er fyrir þær hindrun á myrkri leið þeirra. En við ættum ekki að syrgja það að víkkun vitundar er skotmark myrkra vera; við ættum frekar að gleðjast yfir því að þessar myrkraverur munu hrasa gegn skýrri vitundinni.

Sá sem hefur upplifað æðruleysi vitundareflingar getur ímyndað sér kosmíska storma, en veit að þeir geta ekki raskað jafnvægi alheimsins. Þessi orð ættu að vera áminning um æðruleysi Okkar sem byggir á langri reynslu og þar er samvinna mikilvægur þáttur. Hún styrkir við hvert framtak.

Heyrirðu? Ég er að tala um samvinnu! Sérhvert brot gegn samvinnu þjónar myrkrinu. Hlustaðu á mig! Öll samvinna við myrkrið þjónar eyðileggingu. Mundu turnana okkar, þar sem samvinnuaflið skín.

Hugsuðurinn sagði: „Hvert ykkar er umkringt alhliða samvinnu.“

448. Urusvati veit að Chun-turninn er miðpunktur heimanna þriggja. Þessi eining er möguleg vegna þess að sumir meistaranna, þó þeir séu enn í efnislíkama sínum, geta komið fram í fíngerðum líkama sínum, á meðan aðrir, í fíngerðum líkama sínum, hafa vald til að nálgast hinn efnislega heim. Maður ætti að vera meðvitaður um mikilvægi þess að viðhalda samræmdum titringi til að gera þessi samskipti möguleg milli fíngerða heimsins og efnisheimsins. Mikilvægast er að standa vörð um andrúmsloftið í kring þannig að ekkert skaðlegt geti aukið truflun strauma. Fólk leitast við að ná sambandi við turnana, án þess að skilja að slíkt afskipti geti verið hörmuleg.

Það er nauðsynlegt að varðveita einingu við venjulegar, jarðneskar aðstæður, til að ná að minnsta kosti nálgun á einingu Okkar. Megi fólk gleðjast yfir því að vita að einhvers staðar er stigi til hærri heima! Þessi hugmynd mun þjóna sem brú fyrir þróun. Það er hinn fáfróði predikari sem kennir afskiptaleysi gagnvart hæstu sameiningu, en slík takmarkandi ráð munu sannarlega ekki hjálpa neinum á jarðneska sviðinu, því sérhver takmörkun lokar dyrum og sviptir mann fersku lofti.

Jafnvel í fátækasta umhverfi dreymir fólk um að betri möguleika, samt lifir maðurinn oft án þess að reka augun í stjörnurnar eða hugsa einu sinni um óendanleikann. Hvernig getur það verið mögulegt? Látið afvegaleiddan predikarann aðeins svipta sjálfan sig hærri afrekum, því að sá dagur mun koma að hann verður spurður hvaða rétt hann hafi til að svipta bræður sína hærri ríkjunum. Ef fólk veit nú þegar af fíngerðu heiminum mun það óhjákvæmilega hugsa um hæsta markmiðið og enginn hefur rétt til að svipta aðra því sem þeir skynja nú þegar innra með sér. Reyndar er tilgangslaust að læsa hurð þegar lykillinn er þegar í hendi gestsins!

Hugsuður gaf til kynna að maðurinn ætti að leitast til hið guðlega ríki.

449. Urusvati þekkir tækin sem Við notum fyrir styrk strauma sem á að senda. Þessi tæki eru notuð þegar mögulegt er að varðveita andlega orku. Auðvitað er hægt að framkvæma sendingu án tækja, en alltaf ætti að beita hagkvæmisreglunni. Reyndar geta verið augnablik slíkrar spennu að nauðsynlegt er að senda orkustraum með hraði. Fólk getur stundum skynjað slíka spennu en getur oft ekki fundið upptök hennar.

Við ráðleggjum alltaf einingu sem grunnkröfu fyrir samvinnu, en ef þú tekur stundum eftir því að Við leggjum sérstaka áherslu á það, geta verið margar ástæður fyrir því. Líklegast er sérstök þörf fyrir meðvitaða sameinaða orku – við árás eitraðrar könguló, þarf alla athygli. Slægur óvinur krefst einbeitts, sameinaðs átaks.

Fólk missir oft jafnvægið þegar það heyrir um hættu og af ótta við eina hættu kallar það fram tíu aðrar. En með reynslu mun fólk læra að við hættu verður fyrst og fremst að horfast í augu við að halda jafnvægi. Þegar ferðamenn eru varaðir við hættu taka aðeins fáir viðvörunina skynsamlega. Huglítill ferðalangur mun telja upp allar mögulegar hættur og töfra fram óyfirstíganlega erfiðleika, á meðan hinn sanni stríðsmaður mun safna styrk sínum til að yfirstíga hindranirnar. Hann veit að hætta getur birst að neðan, að ofan og frá öllum hliðum, en það hræðir hann ekki. Þvert á móti, efling herafla hans fyllir hann gleði.

Frábær er tilfinningin um gleðilegan viðbúnað! Slík geislandi tilfinning er takmarkalaus; það lýsir upp áru allra og margfaldar líkamlegan styrk. Móðirin sem bjargar barninu sínu er gagntekin styrk. Jafn sterkur er sá sem er reiðubúinn að hrinda öllum árásum og í slíkum fullum viðbúnaði birtist sameining ýmissa krafta hans. Við erum að tala sérstaklega um óvenjulegar orkusamsetningar, en fólk hunsar merki um mikla hættu. Ef tilfinningin um stöðugan undirbúning er ræktuð í æsku, mun það veita sigur á sjálfhverfunni.

Hugsuðurinn deildi löngum ferðalögum með lærisveinum sínum. Hann var vanur að spyrja þá hvort þeir hefðu tekið sitt besta vopn. Þeir urðu undrandi og spurðu: „Hvaða? Og hann svaraði: „Þau sem henta best til að ferðast — algjöran viðbúnað.“

450. Urusvati veit að forn spakmæli voru oft vísindalegar staðhæfingar sem með tímanum misstu innri merkingu sína og voru síðar endurteknar sem yfirborðskenndar formúlur. Til dæmis er sagt: "Svefn er eins og dauði," en enginn trúir því að þetta orðatiltæki innihaldi neinn stóran sannleika. Reyndar leiðir svokallaður dauði mann inn í fíngerða heiminn og svefn er líka tengiliður við fíngerða heiminn.

Læknar fullyrða rétt að svefn sé hvíld, en leitandinn ætti að vita að sérhver snerting við fíngerðu sviðin er hvíld fyrir þétta líkamann. Það mætti nefna mörg svipuð dæmi þar sem fólk hefur samband við fíngerða heiminn. Sumir senda fíngerða líkama sinn á fjarlæg svið, en aðrir snerta létt svið fíngerða heimsins. Það er því rétt hjá læknum að leggja áherslu á ytra mikilvægi svefns, en hið ytra lýsir ekki upp hina innri mikilvægustu merkingu. Fólk ætti að gera sér grein fyrir því að svefn gefur snertingu við fíngerða heiminn, einmitt þann heim sem það neitar að trúa á.

Við erum ekki að vísa til efnislegra miðlabragða, heldur ástands sem er öllum eðlilegt. Þegar fólk fer að viðurkenna raunverulega merkingu svefns mun það geta tekið eftir mörgum smáatriðum.

Sumir misskilja Okkur algjörlega þegar Við ræðum mikilvægi svefns og halda jafnvel að hann sé alls ekki nauðsynlegur. Það er rétt að í vissum veikindum getur maður ekki sofið, en slíkt ástand er kvöl og eyðileggjandi. Á hæstu fjöllum minnkar svefnþörf manns, en jafnvel þar glatast hún aldrei alveg.

Það verður að skilja að þegar maður heimsækir fíngerða heiminn getur maður rekist á fíngerða líkama annarra sem enn eru á lífi á jörðinni. Þegar fólk heldur að það hafi dreymt aðra, getur það í raun og veru haft samband við fíngerða líkama þeirra. Hér væri rétt að nefna að hægt er að skilja slíka fundi almennilega ef menn hafa gert sér fulla grein fyrir aðstæðum fíngerða heimsins.

Óhóflegasta fólkið getur verið nokkuð sanngjarnt og notalegt í skoðanaskiptum sínum í fíngerða heiminum, en í jarðlífi sínu myndi það aldrei vera svona opið! Það man eftir brotum af reynslu sinni í fíngerða heiminum, sem, þó að það sé mjög lítið, miðlar einhverjum nýjum skilningi í grundvallarveru þeirra. Slíkur lærdómur frá fíngerða heiminum er mjög gagnlegur fyrir fólk í hinum ýmsu aðstæðum lífs síns.

Þessi ávinningur gæti aukist ef fólk myndi áttaði sig á því áður en það sofnar, að það er að fara að komast í samband við hinn mikla fíngerða heim. Ef fólk skynjar jafnvel að litlu leyti, mikilvægi þessara tengiliða, mun það byrja að nálgast þetta svið. Maður undrast oft að hafa dreymt á sama tíma um fólk bæði lifandi og látið; en það er ekkert óeðlilegt við það, því fyrir fíngerða líkamann er hvorki tími né rúm.

Þannig ráðleggjum við að svefni verði umbreytt í stórkostleg samskipti við hærri ríkin, en án þess að þenja fíngerða orku manns. Stundum getur minningin ekki haldið upplyftingu fíngerða heimsins og ætti að viðurkennast sem eðlilegan hlut. Jafnvel án þessa minnis ættum við að skilja að snerting við fíngerða heiminn verður í svefni.

Hugsuðurinn sagði vanalega: „Okkur gefst tækifæri á hverju kvöldi til að feta fallegar slóðir.“

451. Urusvati veit að menn notar ýmsar aðferðir til að þróa minnið og sumir hafa jafnvel fundið upp ákveðna tækni sem kallast minnismerki. Þeir flokka minnið í mismunandi gerðir og trúa því að sé hægt að styrkja og þróa líkamlega heilann með svokölluðu „flýtiminni“. En þeir hunsa mikilvægasta möguleikann, þann sem umbreytir mannlegri vitund. Þeir gleyma því að stöðug, einbeitt hugsun um það sem maður dáir mest er öruggasta leiðin til að þróa minnið. Það er engin þörf á að íþyngja meðvitundinni með smáatriðum. Maður verður fyrst og fremst að einbeita sér að því sem hefur verið valið sem meginhugtak. Slík einbeiting mun auka næmni taugastöðvanna. Þegar fólk lærir að hafa lokamarkmið sitt stöðugt í huga mun það öðlast betri tegund af minni, sem má kalla samsett.

Þetta gæti virst vera mjög einfalt ráð - maður þarf aðeins að einbeita sér! En það er mikilvægast að velja að hverju maður einbeitir sér. Þar má nefna systur Okkar, sem einatt ber í minni sér það helgasta og elskaða; slíkt afrek er mögulegt jafnvel í jarðneskum þrengingum. Menn ættu að hafa í huga að traust akkeri getur bjargað skipi jafnvel í stormi. Enginn er neyddur til slíkrar einbeitingar, en mannlegt eðli beinir manni í átt að öruggustu leiðunum.

Hugsuðurinn hugsaði stöðugt um þá gyðju sem hann valdi. Hann leyndi því ekki að á tímum umróts, að hann var staðfastur aðeins hennar vegna; Hún var uppspretta styrks hans og að lokum hjálpræði hans.

452. Urusvati veit að sérhver aðkomumaður hefur með sér marga íbúa fíngerða heimsins. Þetta er ekki andseta, heldur einfaldlega skyldleiki ára. Við erum öll umkringd íbúum fíngerða heimsins og hver koma kemur með sitt eigið fylgdarlið. Þessir nýju gestir ættu ekki að fá að valda átökum. Það er hagkvæmt að skapa andrúmsloft þar sem allt er sameinað í samstilltan kór. Slík aukning á samhljóma mun strax laða að fleiri gesti.

Við skulum ekki líta á þetta sem nýtt ævintýri, heldur beita vísindalegum skilningi okkar á þessar staðreyndir. Jafnvel þótt reglunni um andstæður sé beitt getur enginn sannað að upplýsingarnar um fíngerða heiminn séu ógildar. Leyfðu efasemdum að finna sannanir áður en þú reynir að ógilda þekkinguna sem safnast hefur upp í þúsundir ára.

Við búumst ekki við blindri trú og erum því tilbúin að taka hvaða áskorun sem er frá afneiturum, en biðjum þá um að nota vísindalegar aðferðir. Þeir ættu ekki að neita afdráttarlaust án vísindalegra sannana. Leyfðu þeim að leggja fram gögnin til að sanna að upplýsingar Okkar um fíngerða heiminn séu ósannar.

Slíkar samræður þurfa ekki að dragast niður í deilur um hvort fjarlægir heimar séu byggðir. Enginn mun vera sáttur við fullyrðingu að jörðin ein sé byggð. En talsmenn hugmyndarinnar um íbúa, eða öllu heldur fyllingu rýmisins, geta vitnað í eðlisfræðileg lögmál. Þeir geta sýnt fram á að smáheimur sé þar til og út frá því er hægt að teygja sönnunarþráðinn jafnvel til stórheims.

Ekki halda að þetta sé frumstæður samanburður. Mundu að flestir hafa aldrei litið í smásjá eða sjónauka. Við erum ekki að vísa til ómenntaðra, heldur menntastétta. Það er ótrúlegt að finna svona mikla fáfræði, ekki í fátækum þorpum, heldur á torgum og í turnum borgana. Í því umhverfi eru sannir ræktendur fáfræðinnar. Reyndar gæti maður kosið að spjalla við bændur, en að lenda í vonlausum fáfróðum dómum sumra borgarbúa! Leyfðu því afneiturum að þróa vísindalega nálgun.

Hugsuðurinn lagði oft til að samborgarar hans fyndu vísindalegan grundvöll fyrir hverri ákvörðun.

453. Urusvati veit að fólk mun alltaf reyna að afbaka hugtök sem eru heill og óaðskiljanleg. Þessi tegund ofbeldis sýnir fáfræði þeirra. Fólk reynir að skipta þróunarhugtakinu, í efnishyggju og hugsjónahyggju, en hið tignarlega þróunarhugtak er ekki hægt að afbaka svo auðveldlega og skilja frá beitingu þess í lífinu.

Heyrir þú sorg Okkar þegar eining er rofin? Getur læknir ímyndað sér manneskju sem samanstendur eingöngu af vöðvum eða eingöngu úr taugum? Slík lífvera getur ekki verið til. Og getur maður aðeins ímyndað sér efnislega eða hugsjónalega þróun? Hvorugt er hægt. Aðeins fullkomin þróun hefur í sér öll hugtök sem geta umbreytt lífinu. Við köllum þetta ekki samhæfingu, því samhæfing gerir ráð fyrir sameiningu hluta og í þróun er engin slík tenging. Vöðvarnir og taugarnar eru aðeins hluti einnar lífveru og lífvera mun ekki virka fullnægjandi þegar hún er svipt einhverjum af hreyfikröftum sínum. Hægt er að rekja í gegnum sögu þjóða, hversu stutt tímabil mikilla afreka þeirra var, og þar til grundvallaröfl þróunarinnar eru í samhljóma, mun mannkynið halda áfram að haltra.

Ef við spyrjum okkur hvort hugtökin efnishyggja og hugsjón séu rétt skilin munum við uppgötva að svo er ekki. Fólk ætti að vita að efni er líka andi. Hvert þessara ríkja er aðeins birtingarmynd hinnar einu frumorku og sérhver tilraun til að aðskilja þau mun mistakast. Efnishyggjan ein, er venjulegur mælikvarði fyrir fáfróða, og hugsjónahyggjan ein er jafn tilgangslaus merkingarmiði í höndum heimskingja.

Það má ekki gera lítið úr hinni miklu þróun. Öll vísindi ættu að vera kölluð til rökstuðnings sem byggir á traustum grunni. Aðeins með því að beita vísindalegum aðferðum verður hægt að skilja mikilvægi þróunar.

Hugsuðurinn var vanur að segja: „Borgari, hvers vegna batt þú annan fótinn? Einfættur ertu óhæfur í langa ferð!“

454. Urusvati veit að allar mannlegar athafnir geta breyst í illsku. Læknar til forna, bættu við, eftir að hafa framkvæmt lækningu, „Látið þetta góða ekki breytast í illt.“ Það má nefna mörg dæmi um hörmungar sem hafa stafað af besta ásetningi. Til dæmis mun vinnumaður á bóndabænum, sem hefur verið ráðlagt að vopna sig gegn yfirvofandi hættu, aðeins hugsa um eigið öryggi og vanrækja land sitt og uppskeru.

Kennarinn ætti að útskýra að það eru mörg stig þess góða. Maður ætti ekki að framkvæma góða athöfn, ef hann veit að það mun leiða til ills, en hvað getur hann gert til að forðast lúmsk stig illskunnar? Aftur verðum við að snúa okkur að beinni þekkingu.

Við vitum að hinir myrku geta að vissu leyti afskræmt besta ásetninginn, en við grátum ekki þegar góður ásetningur Okkar hefur stundum verið brenglaður. Við vegum það góða sem gefur besta afraksturinn, því aðeins í samanburði er hægt að finna réttlætingu aðgerða.

Ekki má gleyma því að þótt myrkrið geti dregið úr jafnvel björtustu birtunni, mun sólin alltaf rísa aftur. Þannig lýsir hver kosmískur atburður upp mannlega vinnu. Það er ekki hægt að hugsa sér að endir verði, því það er enginn endir. Gleðin er fædd úr óendanleikanum.

Hugsuðurinn hughreysti lærisveina sína og sagði að gleðin væri óendanleg.

455. Urusvati veit hversu mikill misskilningur er um hugtakið um skyndilega uppljómun. Í yfirlæti sínu heldur fólk oft að það hafi hlotnast uppljómun þegar það hefur aðeins upplifað hverfula upphafningu. Sönn uppljómun verður aðeins til vegna langrar, innri vinnu. Slík innri vinna byggir á fyrri uppsöfnun og er stundum ómeðvituð, samt er hún til og gerir uppljómun mögulega.

Uppljómun á ekki að skilja sem tilviljunarkennt leiftur, heldur sem nýtt vitundarstig. Oft gerir fólk sér ekki grein fyrir því að þessi framganga getur komið óvænt, eins og hún hafi orðið af tilviljun. Vissulega getur ytri atburður skapað hvatann að opnun „lótussins“, en þetta blóm, var þegar farið að blómstra í djúpum vitundarinnar. Hinn dásamlegi „lótus“ opnast aðeins eftir mikið erfiði, en fólk gerir sér sjaldan grein fyrir því, að það hefur sjálft ræktað þennan fallega garð! Aðeins eftir langvinna og helgaða sáningu kemur maður að glampa uppljómunar. Án orsaka verða engin áhrif.

Sömuleiðis er merking helgunar sjaldan skilin. Maður gæti haldið að slíkt upphafið ástand komi fyrir tilviljun, en í raun er því náð vegna djúpstæðrar og skarpskyggnar íhugunar, og þegar það eflist finnur maður sig vel í nýju vitundarástandi. Við metum ekki skammlífa blikur, en metum hins vegar óslökkvandi logann.

Hugsuðurinn kenndi að öllum væri gefið ljósker.

456. Urusvati veit að sálarorka sameinar og stýrir jafnvel fuglunum í farflugi þeirra, rétt eins og hún hjálpar til við mannlega einingu. En menn ættu að muna að ræktun viljans er besta hjálpin til að ná fram uppljómun sem blossar upp, skín eins og kyndill og sýnir veginn. En hvernig þróar maður viljann? Kannski með hjálp einbeitingar, eða pranayama? Hvert hjálpartæki er gagnlegt, en sterkasti viljinn mótast af lærdómi lífsins.

Maður þarf ekki að bíða eftir einhverjum óvenjulegum atburði til að beita viljanum. Staðfastur vilji vex í atburðum daglegs lífs. Það er ekki nóg að tala um eiginleika viljans; hann verður til innra með sér, eins og sálrænn hvati. Viljinn styrkist með vinnu. Fólk sýnir hversu mikinn viljastyrk það hefur í hverri athöfn.

Mannshugurinn flæðir eftir fyrirskipunum viljans og vitund um þetta ætti að vera eins og opnun hliðanna, ekki þrældómur. Hin sanna menntun viljans verður við fyrstu vitundarvakningu. Þó að maðurinn geti fundið fyrir kostum hins agaða vilja á fyrstu dögum lífs síns, geta ekki allir auðveldlega sigrast á stjórnlausum vilja. Óreiða er aðeins sigruð með því að skilja að þessu grófa efni verður að umbreyta. En maður þarf að fara í gegnum margar jarðvistir áður en hann gerir sér grein fyrir þörfinni á að sigra glundroða og svo lengi sem mann skortir andlega reynslu ætti hann að hlusta á ráð varðandi viljann. Hann mun þá skilja að viljann verður bæði að styrkja og aga. Hann mun skilja að viljinn getur hindrað hann í að móðga náunga sinn. Viljinn gefur til kynna hvenær þarf að bjóða fram aðstoð. Samkvæmt vilja lærisveinsins er leiðsögn Okkar flýtt. Viljinn er hreinsaður þegar honum er beint að góðu.

Hugsuðurinn benti oft á farfuglana og hrópaði: „Hvílíkt fagurt afl leiðir þessa ferðalanga!“

457. Urusvati veit að rödd vitundarinnar er stundum kölluð „kyrr lítil rödd,“ en þetta er ekki nákvæmt. Hún er einnig kölluð rödd djúpsins, sem er nokkru nær sannleikanum. En hvers vegna að forðast það einfaldasta, nefnilega Rödd vitundarinnar? Aðeins þannig getum við skilið að vitundin hefur sína eigin innsýn og endurspeglar tengslin við ofurveruleikaheiminn.

Maður ætti að vita að ekki er hægt að bæla vitundina utan frá. Þvert á móti, er hún nærð utan frá af allri orku geimsins. Leiðsögn Okkar er aldrei þvinguð og getur nært bestu hliðar vitundarinnar. Sá sem þekkir mikilvægi samvinnu getur skilið að hægt er að hjálpa án þess að þvinga.

Hvað gerir fólk þegar rödd vitundarinnar fer að heyrast? Venjulega reynir það að bæla hana niður með öllum ráðum; finnst það truflandi, það hafnar því. Samt, ef maðurinn kannast ekki við sína eigin gjöf, hvernig getur honum farið fram?

Fólk óttast oft hina svokölluðu samvisku og trúir því að hún tali aðeins eftir slæm verk. Þvílík villa! Samviska, eða meðvitund, hvetur mann til góðs. En eftir að hafa framið rangt verk verður maðurinn spenntur og kvíðin og getur orðið svo vakandi að samviskurödd hans heyrist.

Maður skyldi aldrei halda að samvinna felist í gagnkvæmri fordæmingu! Ef fólk bara hlustar á viðvaranir getur það forðast margar hættur. Rödd vitundarinnar er hvorki lítil né kæfð og hreykir sér ekki af sjálfstæði sínu. Hinn sanni samstarfsmaður metur hvaðan uppspretta velgengninnar kemur og þiggur þakklátur gjöfina góðu.

Hugsuðurinn tók við þessum gjöfum sem fæðu fyrir andann.

458. Urusvati veit hvernig fólk misnotar og brenglar flestar nýjar uppfinningar. Til dæmis eru nýjar filmur sem hægt er að nota til að mynda fíngerða tilveru, en samt eru fáar tilraunir gerðar til að nýta þessi tækifæri. Stundum voru gamaldags skyndimyndir betri í að ná árangri. Vafalaust sýndu rannsakendur á þeim tímum meiri aðgát og þolinmæði en nú er og voru ekki svo auðveldlega lattir.

Það er ómögulegt að sjá fyrir allar kosmískar aðstæður í kringum fíngerðar tilraunir. Til dæmis er efnafræði beinna sólargeisla ekki hagstæð fyrir þær, og fellibylir eða jarðskjálftar eru einnig truflandi. Hljótt og mjúkt ljós er sérstaklega hjálplegt sem og samstilltar árur viðstaddra og hljómur tónlistar. Hins vegar eru þessar aðstæður einfaldlega grundvallarnauðsyn fyrir skráningu fyrirbæra; það geta verið fíngerðar verur til staðar sem geta verið gagnlegar eða fjandsamlegar. Þær geta verið ósammála um gagnsemi ákveðinna birtingarmynda og munu reyna að stöðva þær. Það geta líka verið fjandsamlegar tilraunir til að slíta samskiptin, en þolinmæði og viðleitni getur yfirstígið allar hindranir.

Að auki, hafið í huga að þátttaka kvenna er sérstaklega gagnleg í fíngerðum tilraunum. Það hefur komið fram við myndatökutilraunir að þegar kona tók þátt, annaðhvort líkamlega eða frá fíngerðu sviðinu, voru niðurstöðurnar farsælli. Við höfum þegar talað um æskilega þátttöku kvenna í vísindatilraunum. Fornir gullgerðarmenn skildu fullt gildi hins kvenlega framlags, en í dag hafna margir vísindamenn því. Vegna þessa er þátttaka kvenna oft óbein frekar en bein.

Engu að síður mun grundvallareðli hlutanna laða að konur og þær munu skilja eftir sig nýjar uppgötvanir. Þess vegna er nauðsynlegt að breyta stöðu kvenna. Það verður að skilja fínleika og fágun kvenna svo þær nái jafnrétti og æskilegu jafnvægi. Það væru sorgleg mistök fyrir konur að skipta við hermenn á vígvellinum eða vinna erfið störf. Þegar við erum meðvituð um tilvist dýrmætrar fíngerðar orku ættum við að geta beitt henni í samræmi við það. Þannig komumst við enn og aftur að hugmyndinni um sanna samvinnu.

Við verðum að finna rétta notkun fyrir hvern hæfileika. Tímabil heimsmóður er ekki endurkoma á tímum Amazons. Mun stærra, háleitara og fágaðra verkefni liggur fyrir. Það má sjá að vélar virka oft betur og plöntur geta lifað lengur, í höndum kvenna. Auðvitað tala ég ekki um allar konur, heldur þær óvenjulegu sem sýna fíngerðustu orkuna. Hæfileikar þeirra vegsama aldur heimsmóðurinnar og tengjast náið sviði lækninga.

Og annar eiginleiki tilheyrir konunni - hún sýnir mesta tryggðina. Hin mestu sannindi eru opinberuð af henni. Raunveruleikinn staðfestir þetta. Kona getur tryggt að nýrri þekkingu sé rétt beitt.

Hugsuðurinn var vanur að ávarpa gyðju sína og tjáði þannig lotningu sína fyrir fíngerðasta aflinu.

459. Urusvati veit hversu mikið fólk kýs fjarlægari heima frekar en að sinna jarðneskum vandamálum sínum. Ástæðan er skýr — Jarðbúar bera enga ábyrgð á fjarlægum heimum, en skyldur hversdagslífsins leggja á það margar byrðar. Fáir vilja skilja að veruleiki hinna fjarlægu heima mun aðeins opinberast þeim sem takast á við jarðneskar aðstæður með góðum árangri.

Án þess að gera sér grein fyrir tilgangi manns á jörðinni, er ekki hægt að hætta sér inn í hin yfirjarðnesku svið. Aðeins með jarðneskri sjálfsbetrun getum við orðið verðugir ferðamenn til fjarlægra heima. Þannig að þegar við tölum um hið yfirjarðneska verðum við fyrst og fremst að skilja jarðneska ástand okkar. Ég endurtek enn og aftur, að þeir sem ekki geta tekist á við hið jarðneska geta ekki keppt með réttu að hærri veruleikanum.

Ekki einu sinni þeir sem leitast við að fylgja leiðbeiningunum sem þeim eru sendar, geta ekki alltaf vitað hvernig eigi að beita þeim í lífinu. En þetta ætti ekki að styggja Okkur. Þeir sem hafa farið í gegnum margar jarðvistir vita hvernig reynsla þeirra safnaðist og sá sem hefur upplifað og lært mikið mun sýna þeim sem hrasa samúð.

Það má ekki gleyma því að í hverri jarðvist bætum við ákveðna eiginleika í okkur sjálfum, á meðan margir aðrir eiginleikar liggja í dvala. Fólk veltir oft fyrir sér þegar það sér einhvern sem er farsæll á vissan hátt og veikan á öðrum hvers vegna það sé. Aðeins í fíngerða heiminum eru fyrri uppsöfnunin vöknuð og auðvitað villurnar líka.

Þannig varði Hugsuðurinn oft mann með því að segja: „Vitum við hvað býr í hjarta hans?“

460. Urusvati veit að ofmettun geimsins getur haft hættulegar afleiðingar. Við verðum að taka þessari áminningu vísindalega. Truflun útvarpsbylgna skapar staðbundin rugling og enn meiri röskun stafar af mannlegu ópi.

Geðlæknar verða að gefa gaum að faraldri andlegrar vanlíðan. Rannsaka ætti áhrif sálrænna birtingarmynda fjöldans. Það væri rangt að rekja geðsjúkdóma eingöngu til þráhyggju, þó að lífvera sem verður fyrir staðbundinni eitrun sé líka næmari fyrir þráhyggju.

Gefðu sérstaka athygli á hugtakinu „eitrað“. Það lýsir hinu sanna eðli farsótta. Læknar verða að skilja hvernig efnafræðin sem hefur áhrif á lífveru verður til. Það er mjög mikilvægt að rannsaka fjöldahreyfingar og læra hvernig sumar þeirra auka geðsjúkdóma.

Oft er mikil sprenging hættuminni en mannlegur órói. Gleymum því ekki að aðstæður geta verið jafnvel verri en stríð. Þegar Við minnum ykkur á þetta höfum við í huga eitrun í geimnum. Öll gerjun framleiðir lofttegundir, en óróleiki manna getur skapað mjög sterkt eitur. Samt trúir því enginn að eyðileggingin sem af því hlýst sé af völdum fólksins sjálfs.

Sá tími er liðinn þegar litið var á sálfræði sem óhlutgerða. Nú er ljóst að sálarlífið er raunveruleg rannsóknarstofa þar sem hægt er að framleiða eitur. Þar er auðvitað líka hægt að búa til góð úrræði, en til þess verður hugsunin aðeins að beinast að hinu góða.

Hugsuðurinn hvatti samborgara sína til að snúa sér að hinu góða. Þannig yrðu athafnir lífsins töfralausn.

461. Urusvati veit að gæði athafna eru undir eldmóði manns kominn. Nú hljótum við að spyrja hvort skýr skilningur sé á því hvað átt er við með eldmóði. Við erum ekki að tala um þrá, eða viðleitni eða innblástur.

Við vitum að ákefð hefur áhrif á og kveikir í árunni, en vísindamenn vita samt ekki hvaða taugastöðvar verða virkastar við slíkar sprengingar. Þetta ástand upplýstrar spennu getur komið upp við hvaða athafnir sem er. Fornmenn kölluðu það guðdómlega kveðju, því að það eitt gæti gefið sérhverju verki ljóma fullkomnunar.

Segja má að leit að fullkomnun sé háris sköpunar. En viðleitni ein og sér er ófullnægjandi og við leggjum áherslu á að hvert verkefni verði unnið af eldmóði. Besti iðnaðarmaðurinn veit að stöðugt er hægt að bæta gæði allra verkþátta. Við getum sagt það sama um vinnu Okkar. En án eldmóðs raskast taktur verks okkar.

Urusvati veit hvernig slík taktröskun á sér stað. Maður þarf ekki að búast við afskiptum myrkra afla. Það er til dæmis nóg að þátttakendur í orðræðu séu ósamhljóma til að takturinn raskist. Það er ekki auðvelt að endurheimta taktinn og krefst vandlegrar virkjunar á tilteknum orkustöðvum, sem, ef þær eru of fljótt virkjaðar, geta kallað fram neikvæð viðbrögð. Þannig komum Við aftur að þeirri staðreynd, að það er kominn tími til að rannsaka þessa virkni taugakerfisins. Rannsókn á viðbrögðum gefur hvata til frekari rannsókna, en án þess að huga að sálarorku verða engar nákvæmar niðurstöður.

Ráð hugsuðarins var að fylgjast með hinum ýmsu truflunum á takti og skrá líkamleg einkenni sem þær valda.

462. Urusvati veit hversu sársaukafull áhrif ósamræmdra strauma geta verið. Og viðleitnin til að koma sjálfur á jafnvægi, getur framkallað margar sársaukafullar tilfinningar. Við getum rifjað upp þjáningar bróðurs Okkar K., þegar hann varð fyrir árás fáfróðra og illgjarnra sendinga. Hann hefði ekki fundið fyrir þeim áhrifum svo sterkt ef straumar geimsins hefðu ekki verið svona þungir á þeim tíma.

Við höfum þegar talað um faraldursbólgu í slímhúð, atburði sem mætti rekja til áhrifa staðbundinna strauma sem versna af jarðneskri óreiðu; Við segjum jarðneska til að benda á aðalorsökina.

Það er ekki auðvelt að koma á jafnvægi þegar maður verður fyrir árás úr öllum áttum af illskubyljum. Í fyrsta lagi krefst lækningin ró, sem er ekki auðvelt að ná. Bróðir okkar þjáðist í langan tíma, vegna þess að jafnvel við hagstæðustu aðstæður var ekki hægt að koma á ró nægilega fljótt.

Þessar jarðnesku óreiðuárásir eru vel þekktar í híbýlum Okkar. Hvert Okkar hefur einhvern tíma upplifað slíka spennu. Reyndar eru jafnvel venjulegir straumar óhóflegir við slíkar aðstæður og við reynum að halda skaðlegum titringi niðri eins mikið og hægt er. Það kemur ekki á óvart að á slíkum tímum geta ekki verið samræmdar birtingarmyndir. Það þarf að vernda lífveruna. Við ráðleggjum þér að þreyta þig ekki og ef þú finnur fyrir syfju skaltu ekki neyða þig til að halda þér vakandi.

Harður árekstur straumanna mun hafa áhrif á viðkvæma lífveruna. Fyrr á tímum var hægt að hörfa inn í eyðimörkina til að forðast jarðneskt umrót, en nú hafa menn sigrað jafnvel loftið og straumarnir eru þvingaðir. Þannig að þegar við tölum um ofmettun rýmis ræðum við ekki um eitthvað afstætt, heldur jarðneskan veruleika.

Hugsuður talaði um „ósýnilega bardagann“.

463. Urusvati veit hversu leiðinlegt lífið getur verið án kennara. Fólk hefur einkennilegan skilning á þessu. Jafnvel þeir sem afneita mikilvægi kennarans eru, með afneitun sinni að staðfesta það. Sérhver afneitari er kennari eigin fylgjenda; þannig er hugmyndin um kennara staðfest og jafnvel andstæðingar þessarar meginreglu styrkja það. Við skulum ekki krefjast þess að allir hugsi eins, heldur að hver skilji sömu grundvallaratriði lífsins á sinn hátt.

Þú veist líka að líf án hetja er ekkert líf. Spyrðu alla sem búa á jörðinni, hvort þeir hafi einhvern tíma haft enga hetjumynd fyrir sér. Sérhvert skólabarn mun viðurkenna að hafa alltaf þótt vænt um fyrirmynd í hjarta sínu. Mikil afrek skapa bestu hvatirnar. Börn munu líka viðurkenna að þótt enginn hafi kennt þeim að virða hetju, þá þróaðist þessi tilfinning innan frá. Þannig fæðast undirstöður tilverunnar sjálfstætt, sem koma upp úr geymslu kaleiksins. Þær eru varðveittar hið innra sem lærdómur frá fíngerða heiminum. Oft getur fólk ekki tjáð þær með orðum, samt eru þau á lífi og munu á hinni réttu stundu umbreyta lífi manns.

Ekki þreytast á að tala um kennarann og hetjuna. Bæði hugtökin eru í meginatriðum þau sömu. Þau leiða til árangurs. Þau hjálpa manni að þola byrðar lífsins og verða uppspretta hugrekkis.

Hugsuðurinn var vanur að segja: „Kennarinn er besta hetjan. Vopn hans hvorki ryðga né slitna. Her getur snúið við og flúið, en kennari mun ekki hörfa. Við gefum honum hetjukransinn."

464. Urusvati veit að straumar ná til jarðar í ýmsum takti. Af þeim sökum skapar titringur geimsins einstaka hönnun. Maður ætti ekki að halda að yfirjarðleg áhrif falli eins og risastórt ský og umljúki plánetuna. Frekar mætti líkja hrynjanda straumanna við áhrif hljóðstitrings í sandi. Þetta útskýrir hvers vegna sumir finna ekki stöðugt fyrir áhrifum, heldur tímabundið, og aðrir alls ekki. Vegna þessa er rannsókn á rýmisáhrifum erfiðari.

Bylgjur jarðneskra lofttegunda eru gott dæmi um þetta. Sumir þjást vegna þessara lofttegunda, en aðrir sem eru nærri þeim, upplifa engin slæm áhrif. Að auki finnst hver staðbundin bylgja öðruvísi, allt eftir ástandi taugastöðvanna. Til dæmis geta spenntar miðstöðvar dregist að þessum bylgjum vegna þess að spennan sjálf virkar sem eins konar segull.

Þegar við tölum um þörfina fyrir ró, þá erum við líka að krefjast markhæfni. Til dæmis mun sá sem hefur brotið gegn jafnvægisreglunni laða að sér mörg sérkennileg áhrif og verða þungamiðja ósýnilegra, andstæðra strauma. Auðvitað getum við hjálpað með titringi Okkar að einhverju leyti, en við skulum ekki gleyma því að eyðileggjandi árásin getur verið mjög sterk og krefst öflugrar varna. Það er ekki auðvelt þegar maður verður miðpunktur ofsafenginnar átaka! Af þessum sökum ráðleggjum við þér oft að verða ekki of niðurdreginn. Fólk gæti haldið að eitthvað óafturkræft hafi átt sér stað, þegar í raun og veru var það aðeins ský sem líður hjá. Þannig er hver ábending Okkar á sama tíma læknisráðgjöf.

Hugsuður spurði: „Hvernig getum við þakkað ósýnilegum læknum okkar?“

465. Urusvati veit að sönn hollustu við hið góða er fædd í hjartanu, ekki í huganum. Viðleitni hjartans má ekki að skilja sem eittvað afstætt, heldur sem veruleika. En hvernig er hægt að innræta vitundinni þá meginreglu að hollustu við hið góða sé undirstaða lífsins? Maðurinn verður að gera sér grein fyrir því að hið góða er ekki aðeins gagnlegt fyrir heiminn, heldur einnig fyrir hann sjálfan.

Menn ættu að rifja upp ýmis frávik frá því góða og leita að orsökum þeirra. Fyrst af öllu munu þeir komast að því, að þeir sem villast, trúa ekki á samfellu lífsins og búast við því að misgjörðir þeirra muni deyja með þeim. Þeir óttast dauðann og leita í ótta sínum leiða til að lengja jarðneskt líf sitt. En ef þeir gætu skyggnst inn í fíngerða heiminn myndu þeir læra að meta ávinninginn af hinu góðu. Hins vegar myndu þeir frekar borga vísindamönnum fyrir að lengja líf sitt á jörðinni, þar sem þeir geta sökkt sér í skemmtanir, en að hafa áhyggjur af draugum fíngerða heimsins!

Við skulum sjá hvað maður kemur með frá fíngerða heiminum. Maður fær þrefaldan arf – fyrst karmískan, sem er einstaklingsarfleifð manns; þá áhrif forfeðra sinna; og að lokum, það sem maður eignaðist meðan hann var í fíngerða heiminum. Þessi arfleifð getur verið góð eða ill og ákvarðað hvernig tilvera manns mótast. Þeir sem leitast við hið góða eru í vandræðum og hafa áhyggjur af því hvernig eigi að hjálpa þeim sem hafa snúið sér frá því góða, en þó, ef allir þrír þættirnir eru óhagstæðir, verða breytingar til hins betra erfiðar. Við verðum líka að kanna orsakirnar og munum sjá að liðhlauparnir frá hinu góða eiga á hættu að verða kosmískur úrgangur!

Hugsuðurinn sagði: „Leyfðu Seif að safna öllum eldingum sínum og losa jörðina við úrganginn!“

466. Urusvati veit hversu oft jafnvel einföldustu vísbendingar Okkar eru afbakaðar. Til dæmis, Við töluðum um nauðsyn þess að sinna vandlegri vernd vina okkar og veita hjálp þegar þörf krefur. Svo virðist sem slík ráð séu nokkuð skýr, en fólk sér oft í þessu tækifæri til að gagnrýna vini sína. Hvar sem fordæmingarormurinn verpir getur maður ekki búist við uppskeru.

Nú skulum við skilja muninn á fordæmingu og sanngjörnum dómi. Allir vita að það eru glæpir sem verðskulda harðan dóm, en venjuleg, hversdagsleg gagnrýni er yfirborðskennd og skaðleg. Þegar fólk gagnrýnir aðra reynir fólk oft að neyða þá til að haga sér eins og þeir vilja. Þeir vilja ekki skilja að hver fugl hefur sinn söng og að það sé rangt að neyða hann til að syngja annan söng. Maður getur jafnvel drepið söngvarann, en ekkert fæst með því.

Það er grátlegt að sjá hvernig fólk þröngvar vilja sínum upp á aðra og það er enn verra þegar þessi brot eru framin í nafni þess góða. Þegar við tölum um umhyggju fyrir vernd vina okkar, höfum við í huga mestu umhyggju, en ekki óháttvísa gagnrýni. Það er kominn tími til að skilja að það er rangt að eitra andrúmsloftið með hugsunarlausri gagnrýni, sem er í ætt við róg. Öll þvingun viljans er hindrun í samfélagi við Okkur.

Við höfum talað um yfirjarðneskar tilfinningar, sem í næmni sinni geta borist yfir miklar fjarlægðir. Getur maður leyft grófleikann inn í fíngerða bústaðinn? Gagnkvæm hjálp verður að byggja á grunni hins kærleiksríka hjarta. Þegar fólk skilur kraft hins velkomna hjarta, mun það læra enn eina leiðina til Okkar.

Hugsuðurinn greindi alltaf hið sanna ástríka hjarta frá hræsni.

467. Urusvati veit hvernig frjálsi viljinn breytist á hærri sviðunum í samvinnu við Kosmíska hugann. Það er erfitt fyrir fólk að skilja þetta ferli. Sumir halda að frjálsi viljinn sé bældur, meðan aðrir halda að hann hverfi einfaldlega. Það eru ýmsar skýringar, en það er frekar sjaldgæft að finna skilning á þeim samhljóm sem á sér stað þar sem krafti hugsunarinnar er treyst. Það getur ekki verið þrælahald eða afli beitt í þessu ferli - aðeins aðlögun með óendanleikanum.

Á sama hátt er erfitt fyrir fólk að skilja að frjálsi viljinn er líka til í fíngerða heiminum. Það vill ekki viðurkenna að fíngerði heimurinn sé eins og hinn líkamlegi, heldur í annarri vídd. Þeir sem hafa þegar náð aga í jarðnesku lífi og skilja merkingu samhljóms, geta beitt honum í fíngerða heiminum strax eftir andlát sitt. Slík meðvitund er kölluð blessaðir vængir, því hún flýtir fyrir þróun manns.

En fólk fær ekki oft slíka vængi þegar það er enn á jörðinni; það fer venjulega inn í fíngerða heiminn með óagaðan vilja, og með gremju sína og ófullnægðar langanir. Í jarðlífi sínu hugar það ekki að leiðinni framundan. Fólk er sátt við að lifa eftir reglum annarra, sem hafa með tímanum breyst í trúarkenningar. Maður heyrir ekki um framtíðarlífið hvorki í fjölskyldunni né í skólum. Þvert á móti þykja slík samtöl óviðeigandi. Fjölskyldur telja ekki æskilegt að tala um brottför inn í fíngerða heiminn og í skólum getur slíkt viðfangsefni jafnvel leitt til uppsagnar kennarans. Þannig að vegna fáfræði og ofstækis vill fólk helst vera í myrkri.

Hversu fáir eru þeir sem geta talað um háleit örlög mannsins! Frá fyrstu dögum jarðarlífsins, vegna veraldlegs þrýstings, er maðurinn látinn gleyma innsýn sinni úr fíngerða heiminum.

Maður getur auðveldlega ímyndað sér hvernig lífið myndi breytast ef tilgangur tilverunnar væri rétt skilinn. Mörg vandamál sem virðast óleysanleg væru auðveldlega leyst, ef fólk skildi raunverulegt markmið lífsins.

Hugsuðurinn benti á að mannkynið muni reika lengi í myrkri, fáfróður um merkingu tilverunnar.

468. Urusvati veit að við nám í fræðslunni ætti maður ekki aðeins að huga að innihaldi hennar heldur einnig á því tungumáli sem hún er gefin á. Fræðslan fer fram á tilteknu tungumáli af góðri ástæðu. Allar kenningar, allra tíma, gefa næmum nemanda til kynna hvaða þjóð var ætlað að sýna næsta skref þróunar.

Stundum er talið að fræðslan sé gefin á tungumáli þess sem móttekur hana, en sú skýring er ófullnægjandi. Maður verður að rannsaka orsakirnar í heild sinni. Ekkert er tilviljun. Sá sem fyrstur fær fræðsluna er útvalinn og tungumálið er ákveðið af nauðsyn. Hægt er að sjá að fræðslan var gefin á mismunandi tungumálum, sem hver um sig tengdist aðstæðum sem mikilvægar voru í heiminum. Þannig er tungumálið sem er valið til fræðslu, í vissum skilningi, gjöf til ákveðinnar þjóðar. Ekki halda að fræðslan missi mikilvægi sínu fyrir heiminn í heild vegna þessa. Sérhver sannleikur á við um allt mannkynið, en samt hefur hvert tímabil sitt eigið verkefni og hver þjóð hefur sína skyldu.

Mikinn tíma þarf fyrir þjóð til að þróa kristal þessa nauðsynlega eðlis. Í fjöldanum er erfitt að greina hið sanna eðli þjóðar. Óreyndur áhorfandi mun aðeins sjá yfirborðskennda eiginleika, fremur en kjarnann. Þess vegna ráðleggjum við þolinmóða og skynsamlega athugun, til að sjá ekki eftir léttvægum dómum síðar.

Menn dæma venjulega af léttúð, því þeir trúa því að það verði aldrei of seint að breyta skoðunum sínum. En léttúð er nærri svikum, sem er eiginleiki sem fyrir Okkur er sérstaklega andstyggilegur. Það getur ekki verið nein léttúð þar sem sálarfræði heillar þjóðar eða mikilvægi heils tímabils er til skoðunar.

Það má mótmæla því, að ekki sé auðvelt að skynja dýpt árinnar þegar öldurnar eru háar. En þetta er ástæðan fyrir því að fræðslan er gefin! Hún varðar hina fjölbreyttustu þætti lífsins og er ekki bara tilviljunarkennd orðasöfn heldur mósaík lífsins. Leyfðu pílagrímnum að velja steina til að fara yfir ána á.

Hugsuðurinn sagði: „Áin hefur mörg vöð. Hjálpaðu okkur, ó gyðja, að finna þá."

469. Urusvati veit að ímyndunaraflið nærist af tilfinningum veruleikans. Þegar sveigjanleiki og hæfileiki mannsins til að fylgjast með er orðinn nægilega þróaður, mun hann safna í kaleik sinn fjársjóðum lífsins, sem mun umbreyta framtíðartilveru hans.

En við skulum ekki gleyma því að aðrar birtingarmyndir má líka kalla ímyndun. Sumt fólk gæti til dæmis lýst þáttum úr fíngerða heiminum sem birtist þeim, en er tregt til að gera það og telur að þeir séu ímyndun sín. Þannig gleymist hin endalausa fjölbreytni fíngerða heimsins. Samt hefur það stöðugt áhrif á manninn. Næmt fólk geta skynjað, í samræmi við þroskastig þeirra, mikið af því sem á sér stað á yfirjarðneskum sviðum. En fólk ætti ekki að eigna sjálfu sér alla skynjun sína, því það getur orðið fyrir áhrifum frá ósýnilegum hjálparmönnum. Ímyndunaraflið er því örvað af flókinni samsetningu aðstæðna.

Þú veist nú þegar hversu mikilvægt það er að þroska ímyndunaraflið á meðan þú ert í jarðnesku ástandi, en margir skilja alls ekki eðli ímyndunaraflsins. Fólk heldur því fram að það upplifi ekki sköpun mynda í huga sínum og munu segja að aðeins listamenn geti haft fantasíur. Varist svona einfeldningslegar skýringar. Þetta fólk skilur ekki að ímyndunaraflið er opinn gluggi að hinu fagra sem bætir lífið.

Þegar vísindin hjálpa mannkyninu loksins að þróa með sér heilbrigða dómgreind verður þekking lögð að nýjum grunni. Sérhver birtingarmynd verður að vera háð vísindalegri rannsókn, en ef vísindamennirnir sjálfir skortir hugmyndaflug, hvernig geta þeir notað vísindaleg tæki til hins ýtrasta?

Daglegt líf er samsett úr röð merkilegra birtinga sem ætti að viðurkenna vísindalega. Það er gott að áhrif örvera séu nú skilin, en samt hafa sálrænu þættirnir, hvort sem þeir eru gagnlegir eða eyðileggjandi, verið hunsaðir. Þessa hlið lífsins verður líka að skilja vísindalega. Turnarnir okkar standa staðfastir í þekkingu á náttúrunni.

Hugsuðurinn vissi að þróun mun hraðast þegar þekking er útbreidd, og máttur ímyndunaraflsins er talinn byggjast á vísindalegum staðreyndum.

470. Urusvati veit um vísindalega þýðingu svokallaðra líkneskja. Við höfum þegar talað um þessa segulmögnuðu hluti sem við hagstæðar aðstæður geta haldið krafti sínu í langan tíma. En sumir kunna að spyrja um örlög þeirra sem falla í óverðugar hendur. Rétt eins og segull missir kraft við neikvæðar aðstæður, missir verndargripur í óverðugum höndum kraft sinn.

Áður fyrr voru margir brenndir og pyntaðir vegna þess að notkun þeirra á líkneskjum var rangtúlkuð, en í dag skilja vísindin segulvæðingu hluta. Fólk spyr oft hvaða segulmögnunaraðferð sé best. Það eru ýmsar aðferðir - einn einstaklingur getur látið hendurnar yfir hlut, annar getur sett hann nálægt höfðinu á sér á kvöldin og annar getur borið hann nálægt hjarta sínu, eða bara snert eða horft á hann. Það getur líka verið segulmögnun úr fjarlægð, en maður verður að þekkja hlutinn vel til að sjá hann skýrt.

Slíkar aðferðir við segulmögnun krefjast þess að hluturinn sé ekki hreyfður eða hann snertur með beinni hendi; einangrunarefni mun nýtast vel í þessu. Þetta eru ekki galdrar, heldur einföldustu vísindalegu forvarnir. Fólk hefur oft ekki næga þolinmæði fyrir segulmögnunartilraunir, en árangursrík sending orku til hlutar er eigin sönnun þess. Slíkar tilraunir hjálpa manni að skilja þá dýrmætu gjöf að ná tökum á sálarorku.

Þessi gjöf er undir áhrifum umhverfisaðstæðna, en því miður veit fólk ekki hvernig það á að stjórna umhverfi sínu. Ekki eru fleiri en fimm af hverjum hundrað fjölskyldum sem búa í sátt og samlyndi. Mikil orka fer til spillis í innanhúsdeilur. Umbætur á heimilislífinu munu kenna markmiðshæfni.

Það ætti að meðhöndla alla þá sem búa yfir forða af andlegri orku af gætni, en mannkynið hugsar ekki einu sinni um þetta. Eins og vatnleitarmaður sem er vel metinn, þá ættu þeir sem varðveita mikla sálarorku að vera metinir enn meira! Sérhver planta hefur sinn græðandi eiginleika, en það verður að finna rétta notkun hennar. Sama má segja um orku hvers og eins.

Áhrif jurtablanda geta verið afar flókin. Hvað getur maður þá sagt um blöndun mannlegrar orku? Hafa samsetningar þeirra verið rannsakaðar? Stundum er krafist læknisvottorðs fyrir hjónaband og sá tími mun koma að vottorðs verður einnig krafist fyrir eiginleika sálarorku manns. Þannig verður leyst vandamálið á ósamræmi milli fólks.

Hugsuðurinn sagði: „Hvers vegna hengir fólk myllusteina á háls sér og á háls annarra? Það er miklu betra að rækta vængina.“

471. Urusvati veit um mismunandi stig samvinnu. Venjulega vill fólk frekar lægri stigin, vegna þess að þau fela í sér minni ábyrgð, minni áreynslu og minni kostgæfni.

Hærri gráðurnar eru erfiðar vegna þess að þær krefjast þess að maður bregðist við að eigin frumkvæði og geti greint orð leiðsögumannsins. Hver og einn verður að finna hugrekki til að samþykkja margar örvar í skjöld sinn. Þannig, því hærra, því erfiðara. Þar að auki eru flestir ekki meðvitaðir um hvernig og hvar andleg orka þeirra virkar. Það kann oft að virðast sem ekkert hafi áunnist, en í raun er margt nú þegar að gerast vegna virkni sálarorkunnar.

Maðurinn er yfirleitt ekki fær um að meta allan hugarheim sinn. Maður getur ekki rakið alla strauma sálarorku manns, sem, þegar hún er tengd orku kennarans, virkar gagnleg. Leyfðu dygga samstarfsmanninum að leggja sálarorku sína til ráðstöfunar leiðsögumanni sínum. Maður verður að treysta leiðum vegvísisins, sem getur verið flókið. Í bardaga er ekki hægt að efast um fyrirætlanir foringjans. Maður ætti að efla viðleitni sína til að þjóna á besta hátt. Þannig krefjast hærri stig samvinnu skilnings á því að hægt sé að beita sálarorku víðar en maður gæti haldið.

Við höfum dæmi um frægan herforingja sem vann sigur en vissi ekki af honum. Hann hélt að hersveitir hans hefðu verið sigraðar þegar í raun og veru hin mikla fjarlægð hindraði hann í að sjá að það var óvininum sem var eytt.

Hugsuðurinn sagði: „Heyrðu, hlustaðu gaumgæfilega. Veistu hvar raunverulegur máttur þinn liggur? Örlagasigurinn gæti þegar verið þinn, en augað þitt getur ekki skynjað hann.“

472. Urusvati veit af þeim augnablikum þegar maður er ófær um að greina mörkin milli persónulegra hagsmuna og almannaheilla. Hugurinn hvíslar að persónulegur ávinningur sé í andstöðu við almenna velferð, en hjartað segir annað. Ósamræmi mun valda mótsögn á milli persónulegra hagsmuna og almannaheilla, en það er hægt að ímynda sér punt þar sem almannaheill verða persónuleg. Það er samfellt ástand sem krefst jafns samhljóms allra umhverfisaðstæðna.

Sumir kunna að mótmæla því að slíku ástand sé ekki hægt að ná í jarðnesku lífi. En hver getur sagt hvað er hægt og hvað ekki? Slík handahófskennd aðgreining tengist kannski aðeins hverfulu augnabliki í nútíðinni en hefur ekkert gildi fyrir framtíðina. Ef maður getur séð hversu mikið lífsskilyrði breytast í einu mannslífi, hvað getur maður þá sagt um aldir?

Auðvitað munu þeir sem hafa gaman af mótsögnum benda á að að mörgu leyti breytist eðli mannsins alls ekki, en ólíkir áhorfendur gera sér grein fyrir því að sálfræði mannsins breytist og að í þessum sveigjanleika er falin trygging fyrir afrekum í framtíðinni. Sá tími mun koma að fólk mun skilja að hið góða er eitt, og ekki hægt að skipta því í hið persónulega og hið sameiginlega.

Það er miklar vangaveltur varðandi hugsun og hugmyndina um samtengingu við geiminn. Fólk telur ranglega að allar persónulegar hugsanir séu sjálfselskar og veltir því fyrir sér hvernig góðar hugsanir geta sprottið upp úr myrkri eigingirni. Auðvitað, ef einhver biður um eitthvað sem er skaðlegt mannkyninu, munu þær bænir menga geiminn. En sérhver góðviljuð hugsun er góð, bæði fyrir þann sem sendir hana og alla aðra. Þetta eru hugsanirnar sem ættu að „samtengja“ rýmið.

Hugsuðurinn sagði: "Leyfðu öllum að finna hugsanir sem eru góðar bæði fyrir hann sjálfan og mannkynið, því þá mun sjálf hans vera jafnt hjarta mannkyns."

473. Urusvati veit að tíminn sem maður eyðir í fíngerða heiminum veltur á mörgum hlutum. Af karmískum aðstæðum ber að nefna tvö dæmi. Yfirleitt er talað um að karmastundir breytist ekki, en í raun er allt á hreyfingu og hjól lífsins verða fyrir áhrifum af mismunandi aðstæðum.

Í fyrsta lagi verður að vera áköf nálgun við nám. Það eru nokkrar tilraunir í fíngerða heiminum sem ætti ekki að trufla og lögmálum sem stjórna endurkomu manns verður breytt eftir þörfum til að ljúka þeim. En líka, það getur verið svo sterk löngun í fíngerða heiminum til að senda hjálp til þeirra á jörðinni að þessi viðleitni mun lengja tíma manns þar.

Eins og þú sérð er það í báðum tilfellum sjálfsfórnin sem skiptir máli - það er ekki auðvelt að hjálpa þeim sem eru á jörðinni, því þeir óttast slíka hjálp og eru alltaf tilbúnir að falla í yfirlið við fyrstu merki frá fíngerða heiminum! Að sama skapi krefjast tilraunir í fíngerða heiminum mikils aga, því aðstæður eru ekki auðveldar.

Það eru sumir sem dvelja mun lengur í fíngerða heiminum, því þeir vinna á þann hátt sem ekki er mögulegt á jörðinni. Vegna þess hversu óeigingjarnt starf þeirra er, er ekki hægt að gruna þá um að forðast þjónustu. Lögmálin eru lifandi og meta réttmætar ástæður manns. Þannig að þrátt fyrir að sumir leitist við að endurfæðast eins fljótt og auðið er - og fórnfýsi þeirra er dýrmætt - hefur víðtæk vinna í fíngerða heiminum líka sínar ástæður.

Maður getur ímyndað sér hversu mikil þörf er á ákveðnum starfsmönnum í fíngerða heiminum. Fyrir suma væri ótímabært að koma með þekkingu sína til jarðar og þeir geta nýtt þekkingu sína á gagnlegan hátt í fíngerða heiminum með því að hjálpa til við að koma í veg fyrir ljótleikamengun fíngerðu sviðanna. Hæfileikar mannsins eru sannarlega sjaldan metnir nákvæmlega á jörðinni, en í fíngerða heiminum er dómurinn alltaf markhæfur.

Hugsuðurinn vissi að sannur hæfileiki verður alltaf metinn, ef ekki á jörðinni, þá í veruleika hærri sviðanna.

474. Urusvati veit að jarðneskt langlífi sjálft hefur enga sérstaka þýðingu. Fyrir utan arfgengar orsakir eru þrjár ástæður fyrir langlífi á jörðinni. Í fyrsta lagi þegar einstaklingur verður að ljúka einhverju gagnlegu starfi; í öðru lagi, þegar hann verður að hjálpa einhverjum eða einhverju; í þriðja lagi, og ekki síst mikilvægt, þegar hann getur gefið sannan vitnisburð um atburði sem voru ranglega tilkynntir. Hins vegar verður í öllum þremur dæmunum að vera meðvituð staðföst viðleitni, sem er laus við niðurdrepandi áhrif, fyrst og fremst af ótta. Það getur ekki verið áköf viðleitni sem veikist af ótta. Það er hægt að sýna fram á efnafræðilega að hve miklu leyti óttinn drepur líf. Auðvitað eyðileggur illgirni, öfund og allar aðrar dökkar tilfinningar líka lífsorkuna. Þess vegna getur maður ekki talist fórnfús, ef sú fórnfýsi er ekki þegar í djúpi kaleiksins.

Fólk gæti fullvissað þig um að það óttist ekkert, en mun skjálfa við fyrstu prófraun. Hugrekki ætti að reyna í skólum. Heilt námskeið gæti verið tileinkað rannsókn á því hvernig á að bregðast við í ýmsum hættum. Ekki ætti að ætlast til þess að börn sýni strax útsjónarsemi, en hægt er að kenna þeim að skilja lífið og þroska hæfni til að taka hugrakkar ákvarðanir. Keppni í útsjónarsemi væri góð æfing. Með tímanum myndu nemendur skilja hvernig besta fólkið gat sýnt mesta viðleitni.

Hugsuðurinn krafðist þess af lærisveinum sínum að þeir helguðu að minnst einum dag í viku fyrir útsjónarsemi. Hann vissi að þessi kunnátta myndi oft veita dýrmæta vernd í lífinu.

475. Urusvati veit hvernig jafnvel sterkustu hugir geta veikst. Um þetta eru fjölmörg dæmi í sögunni. Margir geta ekki skilið að jafnvel mikill andi getur einhvern veginn einfaldlega yfirkeyrt sjálfan sig. Læknar kunna að telja að rekja megi slíkt til veikinda eða þreytu vegna óhóflegrar vinnu, en eins og oft er raunin, er grunnorsökin ekki skilin.

Sérhver verðmæt manneskja verður fyrir hörðum árásum sem valda sálrænum sárum og komast í gegnum áru hennar og skapa óbærilegan titring. Varnarviðbrögð kalla fram hræðilega bardaga, en orkustöðin er enn róleg, eins og auga fellibyls. Ef mögulegt er, ráðleggjum við manni að breyta staðsetningu sinni meðan á slíkum árásum stendur. Það kann að virðast undarlegt, en að flytja vinnustað sinn mun seinka endurnýjun fjandsamlegra árása. Það eru atburðir í sögunni sem hefðu breyst ef leiðtogarnir hefðu flutt staðsetningu sína. Samt er ekki auðvelt að hreyfa sig og yfirgefa baráttu sem háð er fyrir almenna velferð. Enginn vill líta á sig sigraðan eða leyfa óvininum að sigra. Og þeir sem verða vitni að atburðinum myndu ekki skilja skynsemi slíkrar ákvörðunar og gætu rekið hana til hugleysis. Til dæmis, þegar Apollonius frá Tyana þurfti að ferðast til útlanda til að endurheimta styrk sinn, var hann oft sakaður um svik og brögð.

Hugsuðurinn sagði: „Hinn mikli faðir fólksins, Perikles, varð fyrir árás með eitruðum örvum. Hann varði sig ekki með skildi, þó að skjöldurinn sé ómissandi hluti af herklæðum manns.“

476. Urusvati veit að jarðneskri tilveru er aðeins hægt að umbreyta með krafti skýrrar sýnar á framtíðarlífið. Sumir óttast framtíðina og missa þannig styrk; aðrir ímynda sér fíngerða heiminn aðeins andlega og varpa þannig upp röngum myndum; enn aðrir haga sér eins og þeir séu þegar dauðir og hugsa ekki um annað en markaðstorgið. Fáir gera sér grein fyrir því að jafnvel hundrað ára líf er aðeins augnablik í óendanleikanum.

Maður ætti að hugleiða framtíðina í þremur stigum. Í fyrsta lagi eins og það kemur fram í orðum; í öðru lagi í sýnum sem eru handan orðtjáningu – borin sem sagt á öldur djúpra sjávarfallastrauma. Að lokum, í hugsun svo djúpstæðri að hún er óútskýranleg með orði eða sýn, og aðeins sálarorka og sólarplexus geta minnt okkur á hana!

Og svo verður maður að sjá framtíðina fyrir sér með hjálp þessara þriggja stiga íhugunar. Slík sýn er eins og að kasta akkeri – sem heldur skipinu síðan kyrru fyrir. Þannig mun skynsamur hugsuður tryggja sjálfan sig og geta dregið sig í átt að tilætluðu markmiði. Hinn vitri veit hvar hann getur tjáð sig best. Aðeins heimskingi dreymir um tímabundið glingur í lífinu. Þeir sem þegar hafa áorkað miklu munu ekki lengur láta tælast af ytra útliti og hugsa um glæsileika verkefnisins sem framundan er.

Maður ætti að læra að hugsa um framtíðina eins og að búa sig undir að fara í fjarlægt ferðalag, en halda áfram að stjórna öllum jarðneskum verkefnum. Þetta er markmið, þetta er jafnvægi. Við höfum oft talað um markmiðhæfni. Maður verður að gera sér grein fyrir því að þess er krafist í öllum athöfnum lífsins. Við endurtökum þetta, því Við vitum hvernig fólk afbakar þetta hugtak og telur að markmiðshæfni þurfi aðeins að beita í sérstökum tilfellum.

Það verður að endurtaka, að allar aðstæður í lífinu hafa sínar orsakir. Að hugsa um verk sem stór eða smá er blekking. Mælikvarði verksins kemur ekki í ljós strax og hinn vitri mun muna eftir leiðarljósum sínum og beita þeim markvisst í framtíðarlífi sínu. Hann veit að hið góða er óþrjótandi og að hið illa er endanlegt. Þú hefur réttilega tekið eftir því, að stundum mætum Við ekki illri birtingu. Ástæðan er tvíþætt - stundum ætti að beita tactica adversa, andstæðum aðferðum, og einnig ætti að muna að hið illa er tímabundið. Illverkamenn geta ekki nærst að eilífu af illu; hvílík andstyggð er það sjónarspil þegar þeir fara að gleypa sjálfan sig með jarðneskum gjörðum sínum!

Hugsandi hvatti lærisveina sína til að byggja líf sitt á góðu. Hann sagði: „Hið góða er óþrjótandi, en hið illa er takmarkað.“

477. Urusvati veit að hæfni til að kenna ætti að þróast hjá fólki frá fyrstu árum þess. Allir geta kennt einhverjum eitthvað og ættu að vita hvernig á að gera það. Við samþykkjum að skólabörn leiði yngri bræður sína og systur.

Það er ekki auðvelt að velja bestu kennsluaðferðina. Það verður einstaklingsbundið og kennarinn verður að skynja hvernig er best að nálgast vitund nemandans. Það er ómögulegt án mikillar æfingu að vera sannfærandi kennari, og aðeins fáfróðir myndu halda að einfaldur upplestur upplýsinga gefi nemandanum sannfæringu.

Það er miður að kennslulistin veki ekki meiri athygli. Samt muna allir hversu mismunandi námsgreinar voru teknar saman á skólaárunum. Árangur í námi veltur ekki eingöngu á getu nemandans; það veltur fyrst og fremst á áhrifum kennarans.

Leyfðu því kennslu á öllum sviðum lífsins. Leyfðu kennaranum sjálfum að huga að virðingu köllunar sinnar. Hugsanir um frábæra kennara munu þróast auðveldara þegar hugmyndin um kennslu hefur orðið að veruleika.

Kennsla verður að losna við sjálfhverfa. Góði kennarinn miðlar þekkingu sem hann hefur safnað, en hann mun ekki halda því fram sem sinni eigin. Hann ætti að geta þegið þekkinguna til að miðla henni með gleði til næstu kynslóðar. Vinnu kennarans þarf að greiða, ekki aðeins efnislega heldur einnig með almennri virðingu. Kennsla er ein æðsta köllun þjóðar. Það er ekki svo mikið kennarinn sjálfur, heldur gjöf hans að miðla þekkingu sem mun opna æðri menningu fyrir fólki. Þannig ætti ekki persónulegur metnaður heldur þjónusta við almenna velferð að vera ástæða kennslunnar.

Slíkt þjónustuhugtak kemur ekki af neinu, það verður að rækta hana. Látum því hvern nemanda líta á sig sem kennara fyrir þá yngri. Það ættu að vera kennslustundir undir stjórn eldri nemenda sem gætu gefið þeim tækifæri til að miðla þekkingu sinni.

Slík þjónusta ætti ekki að teljast íþyngjandi. Þvert á móti, láttu alla læra að gefa af gleði, því aðeins í slíkri gjöf fæðist sönn gleði.

Hugsuðurinn kenndi: „Hver maður getur þjónað náunga sínum og allir geta gefið, jafnvel þegar ekkert virðist vera að gefa. Hversu dýrðleg er þessi óþrjótandi gjöf!“

478. Urusvati veit að maður má ekki aðeins horfa upp í hæðirnar, heldur líka að líta inn í djúp eigin eðlis. Hið síðara er jafn erfitt og hið fyrra. Aldagamli höggormurinn liggur tilbúinn í kaleikdjúpinu og mun vakna og hrærast við hvaða mistök sem er. Hann fyllir mann illsku, hann dregur úr kröftum manns og hylur góðan ásetning. Aðeins með mikilli viðleitni getur maður losað sig við þennan forna félaga.

Samt getur ákveðinn einstaklingur þróað innra með sér einn eiginleika sem getur staðist kúnstir þessa skrímslis. Með hreinleika hjartans getur maður skynjað mörkin sem skilgreina áhrif skepnunnar og, með því að skynja þessi mörk, leiðrétt ætluð mistök. Síðar munu önnur hættumerki birtast. Mikilvægast er að halda sig frá athöfnum með vafasamt réttmæti. Maður ætti að þróa innra með sér þessa tilfinningu fyrir réttum athöfnum og vekja þannig ekki skrímslið. Það er miklu betra að mismuna í gjörðum sínum en að sjá eftir verkunum síðar.

Við höfum talað um vafasamar athafnir. Menn ættu að íhuga þær með gætni. Latur maður mun gjarnan flokka flestar gjörðir sínar sem vafasamar. Hann hunsar rödd hjartans og klæðir sjálfan sig hræsni fremur en að taka til hendinni. Allir þekkja þá hræsnara sem fela leti sína og sjálfselsku á bak við háleit orð. Maður getur ekki ímyndað sér dýpt svikseminnar sem býr undir vafningum þessa snáks! Samt eru þessir hræsnarar ekki hæfir til raunverulegrar vinnu. Það var sagt fyrir löngu að framburður háleitra orða væri einskis virði ef sannleikurinn býr ekki í hjartanu.

Forn saga segir frá höggorminum sem saug blóð mannkyns –tákn fyrir vakinn höggorminn sem svo sannarlega nærist af mannsblóði. Gleymum því ekki að svo forn tákn eiga sér sannarlega stoð; því á þann hátt étur hin ógurlega blóðsuga fórnarlamb sitt.

Önnur saga segir frá sofandi dreka sem var vakinn af litlum steini sem heimskingi kastaði. Sannarlega getur minnsti steinninn valdið því að skrímslið hrærist.

Hugsuðurinn sagði: „Gakktu varlega. Þú gætir verið að ganga innan um sofandi höggorma.“

479. Urusvati veit að minnsta athöfn er samofin mörgum kringumstæðum; sama má segja um stórvirki. Sálræn virkni er líka háð mörgum aðstæðum, en þessi staðreynd er ekki viðurkennd á sviði læknisfræði.

Fólk vanrækir veikindi sín. Þar að auki umlykja óþægilegar aðstæður þá sjúku sem búast síðan við tafarlausri lækningu. En lækning verður að eiga sér stað við hagfelldar aðstæður.

Fólk er alltaf tilbúið að kalla til lækni með kröfum og illum vilja. Það veit ekki að öflugasta lækningaorkan getur verið eitruð og þeim töpuð. Oft hringir fólk í lækni og hvíslar á sama tíma vantraustsorðum á bak við hann. Vísindamenn ættu að rannsaka þá lækningu sem á sér stað þegar traust er til læknisins og þá sjúkdóma sem versna vegna vantrausts.

Við höfum margoft sagt að hverri athöfn verður að fylgja góður vilji. Jafnvel venjuleg heimilisstörf skila góðum árangri ef þau eru unnin með góðri hugsun. Mörg góðverk eru eyðilögð vegna pirrings og óvinsamlegra hugsana.

Hugsandinn lagði sérstaklega áherslu á við lærisveinana að þeir leyfðu ekki góðum ásetningi þeirra að súrna.

480. Urusvati veit hvernig Við syrgjum hverja nýja illa sáningu. Maður gæti spurt: „Hvers vegna kveina? Er ekki betra að stöðva útbreiðslu illsku? Svona tala þeir heimsku sem vita ekki hversu varlega menn verða að horfast í augu við hið illa. Aðeins læknir sem hefur rannsakað marga sjúkdóma veit hvernig á að greina hina ýmsu sjúkdóma, ekki bara í sjúkri lífverunni sjálfri heldur líka í umhverfinu.

Illsku má líkja við sumar tegundir krabbameins. Læknirinn veit að í ákveðnum líffærum er krabbamein ólæknandi. Hann veit líka að maður verður að velja besta augnablikið fyrir aðgerð og undirbúa lífveruna almennilega fyrir slíkt áfall. Sama ástand, en í meira mæli, má sjá í sálarbaráttu. Fólkið sem á í hlut vill ekki viðurkenna að illt skrímsli hafi fæðst innra með sér, og mun þess í stað reyna að leyna sjúkdómnum sínum.

En hvernig er hægt að troða sér inn í innri kjarna þess sem á allan mögulegan hátt stendur gegn slíkri hjálp? Það er rétt sagt: "Rannsakið allt!" En hversu margir eru tilbúnir í slíka rannsókn? Fólki líkar ekki við að hugsa um innri ferla sína og mun reiðilega andmæla öllum tilraunum til að beina hugsun sinni að betri skilningi á eðli sínu. Allar kenningar segja að velvilji sé nauðsynlegur til framfara. Það er jafn satt að til að uppræta hið illa þarf samþykki þolandans sjálfs.

Þetta er ástæðan fyrir því að Okkur finnst leiðinlegt að sjá að slík ill skrímsli verða getin, því við sjáum fyrir umfang og flókin komandi áttök. Það er ekki hægt að fjarlægja alla hausa marghöfða drekans með einu sverðshöggi. Það er sagt að hver dropi af blóði þess ali ný afkvæmi! Þess vegna verður maður að finna leiðina til að láta skrímslið deyja úr hungri. Fjarlægðu næringu þess og það mun hverfa, molna í handfylli af ösku.

En slík alger eyðilegging krefst tíma og hagstæðra aðstæðna; fólk getur auðveldlega hjálpað til við að stuðla að slíkum aðstæðum.

Hugsuðurinn sagði: „Við erum öll læknar og hvert og eitt okkar getur framkvæmt einhvers konar lækningu.“

481. Urusvati veit að alheimurinn er sameinuð uppbygging, haldið saman af frumorku. Forn heimspekingur lýsti því yfir að himneska festingin væri meira mettuð en jarðneska festingin. Maður er kannski ekki alveg sammála slíkri fullyrðingu en hún er ekki fjarri sanni.

Almennt séð gerir fólk ekki skýran greinarmun á heimunum. Þegar það talar um fíngerða heiminn notar fólk myndmál jarðneska heimsins. Og þegar reynt er að upphefja líkamlega heiminn, ber fólk hann saman við þætti fíngerða heimsins. Sannarlega er ómögulegt að setja mörk á milli heimanna þriggja. Þessi grundvallarhugmynd ætti að vera innbyggð í vitund fólksins. Enginn getur takmarkað sig aðeins við hinn líkamlega heim. Jafnvel þeir sem afneita veruleika hærri heims geta ekki losað sig við tilfinningu fyrir einhverju handan jarðneska heimsins.

Mörg orðasambönd eru ranglega notuð. Fólk talar um, „að handan“, og rífur þannig í sundur hugmyndina um óaðfinnanlega einingu. En, hvernig getur maður ímyndað sér hvað fólk kallar tilveru „að handan“? Slík hugsun myndi skila okkur aftur til sögunnar um Karon sem flutti sálir hinna látnu að strönd árinnar Styx. Frumstætt fólk fann upp tákn um að fara yfir í annan heim, en tákn geta verið skaðleg, vegna þess að slíkar myndir sem settar eru inn í vitundina eru ekki auðveldlega fjarlægðar með skýringu sem er nær sannleikanum.

Eins og þú hefur þegar tekið eftir, forðumst við ofnotkun tákna. Það eru hins vegar margir skólar í hugsun sem byggja eingöngu á táknum og maður getur auðveldlega séð hvernig gömlu táknin hafa hindrað skilning á alheiminum. Allt er lifandi, allt er á hreyfingu og frumorkan opinberar sig á nýjan og óvæntan hátt. Fólk má ekki takmarka vitund sína með gamaldags táknum.

Hugsuðurinn spurði: „Verðum við að tala á sama hátt og afar okkar?

482. Urusvati veit að táknmál, ranglega skilið, hefur valdið miklum skaða í því hvernig fólk hugsar til Okkar. Til dæmis hefur táknmál geisla á vissan hátt verið brenglað og með því að takmarkað skilninginn á starfsemi Okkar, það hefur grafið undan hugmyndinni um samræmi og einingu. Hvert og eitt Okkar getur haft sitt ástkæra umráð, en það er ekki hægt að segja að hann starfi aðallega í samræmi við einn geisla.

Ennfremur eru nöfnin sem þessum geislum er gefin handahófskennd. Þú veist hvaðan þessi tákn eru. Þú veist líka hvernig þeir komust inn í bókmenntirnar og rugluðu svo marga. Það er ómögulegt að stöðva þessar brenglun, en með tímanum munu þær víkja fyrir réttari skilningi.

Geislar eru auðvitað til, en hver geisli er ekkert nema sálarorka og því ekki hægt að takmarka möguleika sína. Annars væri hægt að taka þetta mjög öfgafullt og segja að manni væri aðeins heimilt að bjarga manni með því að grípa í vinstri handlegg hans, en ekki hægri! Þessi hugsunarháttur gæti náð því stigi, að í stað þess að fjölga möguleikum fækkaði þeim.

Stundum, í þeim tilgangi sem sýnist góður, tekst fólki að keyra meðvitund sína inn í völundarhús. Leyfðu þeim sem vilja flokka allt, að velta því fyrir sér hvort þeir valdi skaða eða ávinningi. Að takmarka hugtök er ekki gagnlegt. Nákvæmustu kenningar hafa þjáðst af alls kyns rangtúlkunum sem drógu úr sannindum þeirra. Við viljum að starf okkar sé skilið í heild sinni og einingu þess. Aðeins þannig er hægt að sjá fyrir sér samstarfið sem liggur til grundvallar bræðralaginu.

Hugsuðurinn benti á að aldrei ætti að skipta sannleikanum með léttúð. Hann sagði: "Að skera upp hugmynd er eins og að kryfja lifandi lífveru."

483. Urusvati veit að hver sannleiksyfirlýsing dregur fram óvini sína. Óreiðan ræðst á alla upplýsingu sanninda. Maður má ekki harma þessa baráttu, því hún er ekki bara eðlileg heldur einnig gagnleg. Ímyndaðu þér kenningu sem er boðuð en laðar enga óvini til sín. Þetta gæti aðeins verið vegna þess að það skortir mikilvægi og er ósannfærandi. Óvinir eru prófraunir og reiði þeirra er til marks um mikilvægi fræðslunnar.

Mikil orka myndast í Okkur einmitt við aðgerðum óvina Okkar. Frægur stjórnandi sagði: „Í dag verð ég talsvert sterkari, því að ég stend frammi fyrir nýjum og öflugum óvini.“ Maður ætti að líta á óvini sem stig í uppgöngu. Hvert og eitt Okkar hefur haft það í huga á löngum lífsgöngum Okkar.

Hver er þá lýsingin á Bræðralaginu? Fyrst af öllu, í lýsingunum á reynslu Okkar. Við segjum frá erfiði Okkar, þar sem við söfnum styrk til framtíðarbyggingar. Kjarninn er ekki í siðaathöfnum, heldur í verkum. Það væri niðrandi fyrir aðra að láta þá ekki taka þátt í því starfi sem fyllir alla tilveru Okkar. Líf Bræðralagsins er líf hærri heima, því það er byggt á hugsun. Hvað getur verið æðra en hugsun?

Fólk gæti lyft jarðnesku lífi sínu upp í hið yfirjarðneska, einfaldlega með því að byggja tilveru sína á hugsun. Fræðsla Okkar mætti með réttu kallast Yfirlýsing um hugsun. Mikil er hátíð þess sem ríkir í hugsun! Og við getum miðlað auðveldara til þeirra sem í hugsun ríkja. En viðbrögð munu ekki alltaf koma með venjulegum hætti. Viðbrögð geta oft komið í sjálfri þróun hugsunarinnar og bókin opnast af sjálfu sér og strengirnir munu hljóma. Því fjölbreyttari sem táknin eru, því breiðara er hugsunarsviðið.

Hugsuðurinn sagði: „Sýndu mér dýflissuna sem ljós hugsunarinnar kemst ekki inn í. Blóm hugsunarinnar eru fegurri en öll jarðnesk blóm.“

484. Urusvati veit að sum lönd eru uggandi vegna lækkunar á fæðingartíðni þeirra. Um þetta má almennt sjá að lífskjör í þessum löndum eru betri en í þeim þar sem fæðingartíðni er að aukast. Það eru margar jarðneskar ástæður fyrir þessu, en það er litið framhjá aðalorsökinni - að það eru íbúar í fíngerða heiminum sem vilja ekki taka jarðvist í vissum löndum. Að vísu geta verið karmískar aðstæður sem neyða þá til að fæðast í tiltekinni þjóð, en fyrir utan þessar aðstæður er vilji þeirra frjáls til að athafna sig.

Íbúar fíngerða heimsins vita lítið meira en þeir sem eru á jörðinni, en þeir geta að vissu leyti lært um framtíðina og geta þannig valið sér betri aðstæður. Það eru ekki margir sem myndu vilja koma aftur í öskuhauginn! Hvers vegna ætti maður að þola karma sem er ekki hans eigin, þegar hann getur undirbúið sig fyrir uppbyggilegri starfsemi með því að umgangast sterka þjóð og taka þátt í stórum ákvörðunum hennar? Hann mun skynja hvar er vöxtur og hvar hnignun er.

Ekkert verkefni er aðeins hægt að leysa með jarðneskum forsendum. Ef fólk myndi hugleiða hærri heima, myndi það geta fundið lausnir á erfiðustu vandamálunum. Engu að síður, jafnvel með miklum vísindalegum árangri, er fólk langt á eftir í þekkingu sinni á æðri verkefnum. Það er ómögulegt að hugsa um vandamál mannkyns á meðan það er enn bundið jarðneskum takmörkunum. Maður þarf ekki að láta undan stórkostlegum draumum. Það er kominn tími til að hugsa um raunveruleika bæði fortíðar og framtíðar. Enginn hugsar alvarlega um þá mikilvægu staðreynd að margir íbúar fíngerða heimsins vilja ekki koma á útslitna staði og enginn mun neyða þá til að velja óæskileg örlög ef karma þeirra krefst þess ekki. Fólk verður að fara að skoða tilveruna í heild sinni og miðla mikilvægum athugunum sínum til komandi kynslóða.

Hugsuðurinn sagði: „Við hugsum ekki fyrir okkur sjálf, heldur fyrir óþekkta arftaka okkar.“

485. Urusvati veit að það er sérstaklega erfitt fyrir fólk að samræma, að því er virðist, misvísandi hugtök um frjálsan vilja og leiðsögn. Sumir hafna hugmyndinni um leiðtoga og aðrir mótmæla frelsi viljans, en lífið sjálft sýnir að aðeins jafnvægi leyfir framfarir og ýtir undir þróun.

Í daglegu lífi má sjá hvernig bæði hugtökin geta lifað saman í samhljómi. Kennarinn setur fram ákveðið verkefni og bætir við: "Beittu öllum hæfileikum þínum til að taka betri ákvarðanir." Þetta einfalda dæmi sýnir hversu friðsamlega bæði hugtökin geta farið saman. Leiðsögn þróar einfaldlega hinn frjálsa vilja og aftur á móti tekur hinn frjálsi vilji, í þróun sinni, við hlutverki leiðsagnar. En allir verða að snúa aftur að þessari spurningu mörgum sinnum.

Fólk, að því er virðist, skiptist í tvær ósættanlegar fylkingar. Þeir sem elska frjálsan vilja kalla þá sem fylgja kennurum afturhaldssama og þeir sem fylgja reglunni um leiðbeiningar, kalla unnendur hins frjálsa vilja tortímingu! Slíkur er misskilningurinn sem sviptir fólk bestu möguleikunum. Menn ættu að leita að sameinandi hugtakinu sem getur samræmt þessar öfgar, og hugleiða lífið í óendanleika, undir hvelfingu hans eru öll hugtök sameinuð. Þannig munu koma í ljós aðgerðir sem geta upprætt handahófskennda sundrungu.

Nauðsynlegt er að alvöru kennari hvetji til frjáls vilja og skynsamur nemandi lærir að meta mikilvægi kennarans á meðan hann beitir frjálsum vilja sínum. Þú gætir tekið eftir hversu oft við snúum aftur til að ræða andstöðu við leiðsögn og frjálsan vilja. Fólk verður að læra að samræma þessi óaðskiljanlegu hugtök. Betri framtíð er háð samhljómi andstæðna. Þeir sem vilja ekki skilja þessa góðu kenningu verða fyrir miklum þjáningum. Kennarinn getur ekki breytt þrjósku nemandans ef ekki er pláss fyrir góðan vilja. Góður vilji er frjáls vilji.

Hugsuðurinn benti á að gæska, frelsi og fegurð búi undir einu þaki.

486. Urusvati veit að handahófskennd beiting merkinga og nafna hindrar og brenglar stefnu hugsunar. Til dæmis uppgötvaði vísindamaður þátt mannsins sem hann kallaði „raf-arkitekt“. Hugtakið maður sem arkitekt, hefur verið notað í ákveðnum heimspekiskólum og hefur raunverulega merkingu, en það er rangt í þessu samhengi að tala um rafmagn. Fólk hefur náð tökum á einum þætti frumorku og notar hugtakið „rafmagn“ af léttúð sem alltumlykjandi myndlíkingu.

Ef vísindamenn skilja ekki hið sanna eðli frumorkunnar, geta þeir nefnt hana sem einhvers konar sérstaka orku, en ættu ekki að takmarka þessa miklu grundvallarbirtingu með því að kalla hana rafmagn. Það er erfitt að trúa því að vísindamenn myndu ekki gefa meiri gaum að einstökum eiginleikum þessarar orku í stað þess að takmarka áhuga sinn eingöngu við rafvirkni hennar. Athyglin sem henni er veitt er lofsverð, en óviðeigandi merkingar munu leiða til annarra villna.

Það er skiljanlegt þegar feimnir rannsakendur reyna að verjast árásum fáfróðra með því að nota hefðbundna nafnafræði, en með því koma þeir yfir sig gagnrýni komandi kynslóða. Þeir verða að vega það, því hvað er heiðarlegra, að þola háðung hinna fáfróðu, eða verða gagnrýndir af komandi kynslóðum.

Maður getur séð að þetta á við á öllum sviðum lífsins. Menn gera lítið úr sameinandi hugtökum og skipta þeim út fyrir handahófskenndar og tilgangslausar merkingar. Maður ætti að gefa gaum að þessari tilhneigingu, undirstaða hennar er hugleysi.

Hversu lengi mun mannkyn halda áfram að kryfja einn líkama alheimsins? Maður getur rannsakað einangruð grasstrá, en má aldrei gleyma þeirri miklu lífveru sem þau tilheyra. Maður ætti að skoða einangraðar birtingarmyndir án þess að gleyma því að þær eru aðeins hlekkir í einni stórri keðju. Sá sem hugsar án samræmis getur ekki nálgast líf alheimsins.

Hugsuðurinn kenndi fegurð einingar, úr henni streymi orkustraumar.

487. Urusvati veit að menntun hugsunar verður að ganga fram skref fyrir skref, í réttri röð. Maður getur auðveldlega ímyndað sér hversu hræðilegt það er þegar vondir menn ná tökum á krafti hugsunarinnar. Þess vegna verður rannsókn á krafti hugsunar að koma á undan siðferðilegri menntun, annars tekst okkur aðeins að framleiða illa galdramenn.

Fyrir mörgum öldum var varað við kenningum að leyfa illu fólki að hafa aðgang að jógaögun. Og reyndar, með tímanum, með hnignun siðferðislegrar hegðunar, komu fram nokkrir sem höfðu náð tökum á ákveðnum líkamlegum aðferðum án undangenginnar hreinsunar á vitundinni. Auðvitað þarf einbeitingu hugsunar til að hreinsa vitundina, en slík einbeiting er innri og þarfnast engrar ytri líkamlegrar áreynslu.

Fólk gerir sér ekki grein fyrir því að maður getur ekki tekið að sér hreina vinnu með skítugum höndum. Öllum ætti að skiljast þetta boðorð, en það er sjaldan virt í lífinu. Mörgum er sama hvort hendur þeirra eru hreinar eða ekki og geta valdið skaðlegustu efnahvörfum. Fólk gefur sjálfu sér háfleyg nöfn og titla á meðan þeir fela lægstu fyrirætlanir. Hversu mörg spillt vinnubrögð eiga sér stað! Það þarf skynsamlegustu ráðstafanir til að tryggja að valdatækin fari ekki í hendur slíkra hræsnara.

Hugsaðu þér hversu mikið jafnvel erfiði Okkar er hindrað af afskiptum ills fólks sem er hæft í ákveðnum jógískum iðkunum.

Hugsuðurinn sagði: „Fyrst skulum við skilja hið góða og senda það síðan í hugsun út í heiminn.“

488. Urusvati veit að hugtakið um hið góða verður að kenna á sérstakan hátt. Skólar kenna námskeið í mörgum greinum, en ef þeir myndu auglýsa námskeið um hið góða, myndu nemendur reyna að forðast það! Hið góða verður að kenna áberandi með því að dreifa því inn í allar námsgreinar.

Sumir kunna að halda því fram að hugtakið, almannahagur, sé ekki til, því það sem er gott fyrir einn er slæmt fyrir einhvern annan. Þeir sem dæma yfirborðslega munu tala svona, því þeir klóra aðeins yfirborð atburða og geta ekki skoðað dýpt hlutanna. Hugmyndin um hið góða er óbreytanleg í kjarna sínum. Hjartað mun benda á kjarna hins góða.

Maður getur séð hvernig jafnvel glæpamanninum er hægt að breyta með því að skynja skyndilega kjarna hins góða. Líta má á slíka umbreytingu sem kraftaverk, en það er ekkert kraftaverk þegar maður getur snert strengi hörpunnar og heillast af hljóði hennar. Allir geta orðið fyrir mismunandi áhrifum, sum eru minni, en önnur uppljómandi. Þess vegna er rangt að halda því fram að eitthvað sé utan seilingar manns. Réttara er að segja að á tilteknu augnabliki hafi maður ekki getað áttað sig á ákveðinni þekkingu; en strax á næsta augnabliki gæti kviknað skilningur.

Viðkvæmt fólk er meðvitað um hversu hratt straumarnir breytast, því þeir geta ekki verið óbreyttir í einn dag. Jafnvel á stuttu millibili getur maður skynjað bráðar breytingar, ekki aðeins sálrænar heldur líka líffræðilegar. Til dæmis finnur maður auðveldlega snöggar breytingar í hita og kulda, finnur fyrir liðnum sársauka eða hvers kyns breytingu á ilmi í kring. Maður gæti skynjað hægagang eða hröðun hugsunar, eða fylgst með sveiflum í næmi. Margar tilfinningar um gleði eða angist geta stafað af þessum öldum. Kennarinn verður að vita hvernig á að undirbúa nemandann fyrir meðvitaða viðurkenningu á mörgum birtingarmyndum úr rannsóknarstofu heimsins.

Hugsuðurinn kenndi: „Við ættum að læra að skynja stöðugt nærliggjandi strauma hins guðdómlega afls. Þeir geta stundum haldið aftur af okkur, en gefa okkur oft vængi. Glæsileiki heimsins umvefur okkur með fegurðarslæðum.“

489. Urusvati veit af hinu sjálfstæða og skarpskyggna verki sem heldur alltaf áfram í vitund mannsins. Ég mun útskýra þetta með fornri dæmisögu. Þar bjó eitt sinn virðulegur kennari sem ekki aðeins veitti kennslu í verklegum greinum heldur hjálpaði nemendum sínum á margan annan hátt. Kennarinn bjó meðal annars yfir mikilli og djúpri innsýn. Nemendurnir voru fullvissir um að kennarinn þeirra myndi alltaf koma til hjálpar, jafnvel án þess að vera spurður.

Einu sinni sagði kennarinn við næsta lærisveininn: „Hlustaðu á það sem þitt innsta kallar,“ og brosandi bætti hann við: „Það segir, hjálp! Lærisveinninn varð vandræðalegur og reyndi að fullvissa kennarann um að hann ætlaði ekki að íþyngja honum með beiðni. Kennarinn róaði hann og útskýrði: „Vinur minn, ég er þess fullviss að hvorki hjarta þitt né hugur bað um hjálp. Þau vita að hjálp mín mun koma á réttum tíma, en dýpt vitundarinnar beinir röddinni að kennaranum í einu ákalli – Hjálp!

„Vertu ekki órór af þessu ákalli þinnar innri veru, því að í því er einstök tengsl við Helgiveldið. Þú baðst ekki um auðlegð eða heiður. Tilvera þín, sem tjáði sig í þessu eina orði, sagði: „Leiðbeinið mér!“ Þú settir engin skilyrði, heldur vildir einfaldlega segja: „Gerðu það sem best er.“ Þú ert viss um að allt verði gert til góðs og ef þú gerir þér ekki grein fyrir því strax hver er rétta leiðin, ertu engu að síður viss um að bestu ráðstafanir verði gerðar.

„Þú hefur heyrt um þrenns konar hugsun — frá heilanum, hjartanu og vitundinni. Heilinn er skynsamur, hjartað er viðkvæmt og vitundin er vitur. Vitund þín kallar til leiðsögumannsins, „Hjálp!“ og meðvitund mín segir það sama, og vitund leiðsögumanns míns mun segja það einnig. Það er engin byrði vegna þessa ákalls. Handleggurinn er teygður upp á við, vitandi að Hjálparhöndin lengir hana á þessari hættulegu uppgöngu. Og það er ekki Okkar að dæma hvar hættan liggur.“

Svona er líkingin og Hugsandinn vissi það. Hann bætti við: „Sérstök fegurð liggur í þeirri staðreynd að vitund okkar er musteri viskunnar.“

490. Urusvati kannast við villuna sem margir heimspekingar nútímans er haldnir, þegar þeir skilja manninn frá alheiminum. Fyrir þeim er maður hugsandi vera án fortíðar eða framtíðar og án tengsla við alheiminn. Þetta útskýrir hvers vegna slík hugsun nær ekki inn í framtíðina og er svo fjarlæg raunveruleikanum.

Maðurinn ætti ekki að líta á sjálfan sig sem einn, eins og hann væri týndur í eyðimörk, vitandi aðeins, að það eru til aðrar verur eins og hann, sem koma frá hinu óþekkta og hverfa inn í hið óþekkta. Hvers vegna ætti hugsun mannsins að vera svona takmörkuð? Þetta leiðir til mjög niðurdrepandi tilveru!

Slík óhlutbundin hugsun er jafnvel skaðlegri en takmörkuð efnishyggjuheimspeki og henni verður að breyta. Efnishyggja getur leitt til framfara, en þessi óhlutbundna heimspeki geta ekki hjálpað manninum í þróun hans. Það er engin furða að margir nútímaheimspekingar séu utan lífsins! Hugsuðir verða fyrst og fremst að leitast við að skilja vandamál tilverunnar og því rétta hlutverki sem maðurinn gegnir í henni. Það er ekki gagnlegt að sundra heilbrigðri lífveru. Maður ætti að gleðjast yfir hverri hugsun sem beinist að einingu alheimsins. Það er miður að hagnýtir vísindamenn geti sjaldan fundið einingu með heimspekingunum. Hér sjáum við aftur sundrung og villur af völdum andstæðna.

Það verður sagt að maðurinn geti ekki verið alvitur af vísindum nútímans. En það er ekki markmiðið. Virðing fyrir þekkingu er mögulega það sem mun frelsa fólk frá tortryggni og afneitun. Í hverju efni er eitthvað sem verðskuldar athygli. Sannur hugsuður getur þekkt þennan sannleikaneista.

Hinn sanni hugsuður mun einnig viðurkenna nokkurn veginn allar birtingarmyndir framfara. En að jafnaði huga menn aðeins að lokaniðurstöðum vísindavinnu og hunsa fyrri grunnvinnu. Þetta er mikið óréttlæti vegna þess að það er á undirbúningsstiginu sem margar óþekktar uppgötvanir liggja og hægt er að afhjúpa mikla fjársjóði með frekari rannsóknum. En menn hafna undirbúningsvinnunni og mörg æskileg afrek tapast.

Það er nauðsynlegt að umgangast allt af virðingu. Ekki halda að orð Mín eigi aðeins við um raunvísindin - þau eiga einnig við um mannúðarvísindin. Mikilvægast er að losa hugsunina við alls kyns fordóma.

Hugsuðurinn sagði: „Líttu á þennan sjálfbyrging, sem er talin frjálslyndur! Sjáðu hvernig hann flýtir sér að fara yfir götuna til að forðast að blanda geði við verkamenn, þótt hann hafi nýlega haldið ræðu þar sem hann lýsir yfir ást sinni á almúganum!“

491. Urusvati veit að án skynjunar hærri heims er ekki hægt að umbreyta lífi manns. Engri vinnu er hægt að lyfta upp án hugmyndaflugs. Gefðu gaum að þessu góða orði — ímyndunaraflinu. Þetta er ekki fantasía, eða slæg uppfinning, heldur uppgötvun hærri mynda og framkvæmd háleitra hugtaka. Ímyndunaraflið verður alltaf að vera raunverulegt og satt. Við getum ekki alltaf vitað hvar þessi sannleikur er, en hann er til.

Slíkt ímyndunarafl er ógerlegt meðal illviljaðra þar sem góðvilja er krafist, en illskan getur aðeins skapað brenglaðar myndir. Rétt eins og falleg kviksjámynd krefst samræmdrar samsetningar lita, þarf íhugun háleitra mynda fyrir opið hjarta. Sérhver óskýrleiki mun skekkja ímyndunarafl manns. Þannig er enn og aftur sýnt fram á að líkamleg lögmál tengjast sálrænum undirstöðum.

Engu að síður hljóta hin hæstu afrek að hefjast hér á jörðinni, oft innan um knýjandi þörf. Auðmenn geta velt því fyrir sér hvers vegna framlag þeirra er svo auðvelt að leggja fram. En þeir trúa því oft að framlag þurfi aðeins í peningum og gleyma því að þeim er falið það frábæra verkefni að sameina fjármuni sína miklum tilgangi! Þetta krefst hins vegar ímyndunarafls og hversu margir leggja sig fram um að rækta þennan eiginleika innra með sér?

Hugsuðurinn kenndi: „Það er öllum gefið að sjá hið guðdómlega höfðingjasetur, en augað verður fyrst að venjast því að horfa á himneska geislann og skynja líf geimsins í allri sinni fyllingu. Þeir sem telja himnanna tóma, hafa tómt hjarta."

492. Urusvati veit að hollusta er mikils virði þegar hún birtist í sem mestri fullnustu. Aðeins þá skapast kröftug, góð áhrif, gagnlegt sem jafnvel ná yfir langar vegalengdir. Sú tegund af trúmennsku sem nær aðeins hálfa leið tilheyrir ríki hræsninnar. Maðurinn blekkir sjálfan sig og aðra á þennan hátt og býr til öflugt eitur. Maðurinn ætti að geta sagt að hann sé hollur, jafnvel þó það geri honum ekkert gagn. En hvílík ljót trúrækni er það þegar fólk velur að vera hollt aðeins þegar það er hagkvæmt fyrir það! Allir munu vera sammála um að slík ágirnd verðskuldar allt annað nafn.

Bræðralag Okkar er byggt á gagnkvæmri tryggð sem engar aðstæður geta truflað. Maður getur haldið að svo mikil trúmennska sé afleiðing af langri samvinnu. Það er satt, en fólk vinnur oft saman á þann hátt að það hvetur ekki endilega tryggð þess til vaxtar. Þannig ætti hollustu manns að prófa í minnstu smáatriðum. Sönn trúrækni mun benda á rétta hegðun og kenna varkárt, kærleiksríkt og einfalt viðhorf.

Hollusta er ekki þrælahald, það er bros skilnings og samúðar. Hugleiddu þetta fallega orð, samúð, því það lýsir samræmi sem byggir á samhljómi tilfinninga. Allir þrá samúð, en svo oft er þess krafist fyrir sjálfan sig, án tillits til gagnkvæmra tilfinninga. Margar ófarir eiga rót sína að rekja til þessa misskilnings.

Hugsuðurinn var vanur að segja: „Maðurinn krefst samúðar, en hvar er gagnkvæm tilfinning hans? Hann telur sig vera mjög óhamingjusaman, en tekur hann tillit til ófara annarra?

493. Urusvati veit hversu mikið fólk óttast einmanaleika. Þetta er ekki hræðsla heldur eins konar kúgandi tilfinning, sem er alveg eðlilegt fyrir alla sem eru ómeðvitaðir um fíngerða heiminn og samfellu lífsins. En stundum upplifa þeir sömu tilfinningu sem þekkja undirstöður tilverunnar. Við ættum að kanna orsakir slíkra yfirþyrmandi tilfinninga.

Það er vel mögulegt að óþægilegir fyrirboðar eða neikvæðar verur valdi þessum þunglyndi, en það geta líka verið kosmísk áhrif. Áhrif mikilla strauma geta umvafið mann og framkallað einangrað ástand og tilfinningu fyrir mikilli einsemd. Hins vegar er töfralyf í boði fyrir alla. Slíkum tilfinningum er hægt að dreifa með því að leita til vina í hugsun. Maður á vini á jörðinni en á líka marga trúa vinnufélaga í fíngerða heiminum. Því skaltu vita um Okkur; áfrýjunum sem beint er til Okkar verður ekki ósvarað. Viðbrögðin geta komið í óvæntri mynd, en kúgandi áhrifin munu vissulega dreifast.

Margar vísindalegar uppgötvanir eru framundan, en vitundin um undirstöður tilverunnar mun alltaf vera hornsteinninn. Hægt mun hugmyndin um miðlun hugsunar í fjarlægð verða viðurkennd meðal vísindamanna, vegna skorts þeirra á tilfinningum fyrir hærri sviðum og höfnunar þeirra á grundvallaratriðum tilverunnar.

Hugsandinn vorkenndi þeim sem takmörkuðu, ekki aðeins líf sitt, heldur líka hugsun sína.

494. Urusvati veit að þegar hætta steðjar að fólk gleymast gagnlegu ráðin. Jafnvel ímynduð hætta sviptir fólk skynsemi. Margar þjóðir eiga fróðlegar sögur svipaðar þeirri um höfuð fjölskyldunnar, sem kenndi sínum nánustu hvernig á að haga sér ef eldur kviknaði. Engu að síður, þegar eldur kom upp, gerði enginn þeirra eins og þeim hafði verið sagt.

Í skólum Spörtu voru börn þjálfuð í að takast á við alls kyns hættur til að þróa útsjónarsemi. Þetta ætti líka að gera núna, þegar hætturnar hafa margfaldast. Það er fólk sem heldur áfram að finna upp hættur sem ekki eru til, hugsar meira um eigin tilveru og hugsar lítið um hættur fyrir plánetuna. Það er ómögulegt að útskýra fyrir þeim að jörðin standi frammi fyrir miklu meiri hættum en þeim sem þeir ímynda sér fyrir heimili sín, sem myndu sviptast burt í slíkum plánetuhamförum.

Flestir eru tregir til að ræða hættur á plánetuvísu og telja að einhvers konar embættismann eða prest þurfi til slíkrar umhugsunar. En þegar tímabil skilnings á alhliða markmiðshæfni rennur upp, munu allir vita hvernig á að safna þeim upplýsingum sem þarf til að takast á við jafnvel mestu erfiðleikana.

Börn í skólum ættu líka að læra að horfast í augu við alls kyns hættur, samt ætti þessi þekking ekki að svipta mannkynið getu til að gleðjast yfir lífinu. Síðan, eftir að hafa lokið langri reynslu, munu allir geta sagt að í sjálfri hættunni sé uppspretta gleðinnar.

Hugsuðurinn vissi að sérhver hætta ber fræ gleðinnar.

495. Urusvati veit að þó einkennin séu svipuð, er munur á losun sálarorku og óvæntri truflun hennar. Í fyrsta lagi er erting í slímhúð tengd aukinni losun sálarorku, sem á sér stað við aukna andlega starfsemi. Sömuleiðis veldur langtímasending orku spennu í kirtlum og vefjum, sem verða sérstaklega fyrir áhrifum þegar geimstraumar eru óhagstæðir.

Hins vegar er truflun á sálarorku ekki alltaf af völdum andlegrar ofvirkni; það getur líka verið afleiðing af tilfinningalegum áföllum eða sorg, eða jafnvel óvæntum heppilegum eða óheppilegum atburðum. Ógnandi atburðir í heiminum geta þannig valdið farsóttum, þar sem margvísleg einkenni koma fram í hjartasjúkdómum, kvefi og magasjúkdóma, en litið er framhjá raunverulegri orsök þeirra - truflun á sálarorku. Aukning á taugakvillum gæti líka orðið vart í slíkum farsóttum, en fólk gerir sér ekki grein fyrir því að á endanum tengjast allir sjúkdómar taugakerfinu. Og meðferðin verður í öllum tilfellum ekki aðeins að vera líkamleg, heldur einnig andleg. Það er þörf á rólegri viðleitni að háleitum hugsjónum og hljóðláta endurtekningu á orði Salómons: „Og þetta mun líka líða hjá“. Ef innri sefjun af þessu tagi dugar ekki, er einnig hægt að beita utanaðkomandi sefjun.

Að auki þekkir þú nú þegar nokkur gagnleg úrræði, eins og fræ, nux vomica, arsen, ferrum, og auðvitað gamla vin okkar, valerían, og, ef þú ert þreyttur, musk. Hlý böð eru alltaf gagnleg. Það eru önnur úrræði sem eru háð tilteknu líkamskerfi sem verða fyrir áhrifum. Hægt er að létta einkenni sálrænnar truflana á öllum stigum þess.

Slík aukning á sjúkdómum verðskuldar tafarlausa athygli, þar sem allir sjúkdómar sem tengjast taugastöðvum geta breiðst út hratt og ætti að athuga. Vanþekking á orsökum leiðir alltaf til slæmrar niðurstöðu. Og ef við þetta allt bætist ýmis konar sjálfseitrun kemur upp dapurleg mynd.

Maður getur nöldrað: "Aftur viltu hræða okkur!" En ef þetta væri svo, myndu öll læknisráð virðast jafn ógnvekjandi. Ef við sjáum nýja hættu verðum við að vara þig við henni.

Sumir munu hæðast að hugmyndinni um að stefna að háleitum hugsjónum. Fyrir þeim er tónlist og allar listir aðeins iðjuleysi. Þeir skilja ekki orðið „alsæla“ og sjá það aðeins sem skaðlega beygju.

Hugsuðurinn þekkti slíka háðbera. Hann var vanur að segja: „Þjóðin ætti að reka svona heimskingja úr landi. Leyfðu þeim að finna einhverja eyju fyrir sig. En þá myndi sjórinn mótmæla og gleypa slíka eyju fáfræðinnar! Það eru takmörk fyrir því hversu lengi er hægt að brjóta náttúrulögmálin.“

496. Urusvati veit að allir sem hafa hegða sér ranglega og fundið er að við, halda því fram að hann hafi verið misskilinn. Því meira sem maður lærir á mannlegt eðli og bendir á, því meira verður maður sakaður um slíkan misskilning og kennt um brot annarra. En við skulum ekki reyna að benda á alls kyns slægð manna – það myndi fylla ekki bara bók, heldur heilt bókasafn!

Það er ótrúlegt að fólk bíði yfirleitt þangað til það er of seint að kalla á hjálp Okkar. Það kann að virðast sem það hagi sér svona vegna feimni eða taugaóstyrks, en oftar er hin sanna ástæða allt önnur. Slíkt fólk hefur ekki trú, eða ímyndar sér jafnvel, að það sé ekki uppspretta sem hjálp geti komið frá. Aðeins þegar ógæfan hefur gripið það í hálsinn og er tilbúið muna eftir gleymdu turnunum. Það eru ekki aðeins ómenntaðir heldur jafnvel þeir lærðustu sem munu hunsa hæstu hugtökin.

Það er erfitt að skilja sálarlíf mannsins sem getur ekki greint á milli hins gagnlega og skaðlega. Mundu að fólk er stundum svo gagntekið af alls kyns óöguðum löngunum, að það sjálft getur ekki einu sinni greint hvar löngunin endar og athafnir hefjast.

Hugsuðurinn kenndi lærisveinunum stöðugt að halda í röð og reglu.

497. Urusvati veit að innri leiðarröddin tjáir sig ekki alltaf í orðum og birtist oft bara sem hvatning. Innri röddin virkar sem tónkvísl, sem kallar fram samhljóma viðbrögð. Þess ber að geta að hægt er að kalla fram slíka móttækilegan samhljóm á mismunandi vegu. Tónkvíslin kallar fram og hvetur, en athöfnin sem af því leiðir mótast af núverandi aðstæðum einstaklingsins og fyrri hugsun.

Fólk er óvant að hlusta á innri röddina. Menn kjósa að bæla niður þessa rödd þagnarinnar, fela hana í djúpi vitundarinnar og missa þannig tækifærið til að nýta hvatann sem boðið er upp á.

Drengur kvartaði einu sinni yfir því að hann sæi ekki spegilmynd sína í brunni vegna þess að bróðir hans var að kasta grjóti í hann. Margir geta notað sömu rök og kennt sínum nánustu um að hylja vitund sína. Sannarlega, fyrir allar athuganir og ályktanir þarf rólega meðvitund, annars verður skynjunin brengluð. En slíkt æðruleysi kemur ekki frá því að afneita athöfnum. Þvert á móti getur maður tekið þátt í öllum bestu hliðum lífsins á meðan vitundin er róleg. Þetta er mögulegt þegar maðurinn þekkir framtíðarleið sína.

Hugsuðurinn var vanur að segja: „Ímyndaðu þér að þú værir mylluhjól. Það fær vatnsafl að ofan og vinnur að því að búa til mat fyrir manninn. Hjólið veit ekki hver mun nærast af þessari fæðu, né heldur hver mun koma með kornið til mölunar. Það þekkir ekki samsetningu vatnsins, sem margir kraftar sameinast í. Fræðslan ætti ekki að einangra þig frá eilífu ferli erfiðis, því að blessaður straumurinn rennur án afláts.“

498. Urusvati veit að fólk laðast sérstaklega að hinu forboðna. Sagt er að ákveðinn valdhafi hafi viljað innleiða upplýsandi, gagnlega ráðstöfun inn í lífið, en hvarvetna mætt andstöðu. Hann leitaði eftir hjálp til vit